Nú þarf ég ekki og stilli ekki á mig neina vekjaraklukku. Samt er ég vöknuð fyrir klukkan sex á morgnana, jafnvel fyrr. Viðurkenni að svefninn í fyrrinótt var ekki alveg sá besti, svolítið slitróttur enda stundum erfitt að róa hugann og ýmsar hugsanir. En hvað um það ég var komin á fætur um sex í gærmorgun og sinnti minni hefðbundu rútínu. Var komin í sund fyrir klukkan hálfátta. Fór beint á braut 8 og synti 500m. Tvær 4mínútna ferðir í þann kalda og eina stutta dýfu ca 30 sek, 20 mínútur í gufu, 3 mínútur í heitasta pottinn og 7 mínútur í 42°C en settist ekkert á stól. Var komin heim aftur um hálftíu. Fékk mér hressingu og kveikti á imbanum. Um tólf leytið skipti ég um föt og lagði fljótlega af stað til að fylgja nöfnu minni og fyrrum kórfélaga í óháða kórnum. Einhverra hluta vegna fór ég fyrst alla leið að Seltjarnarneskirkju þegar útförin var í Neskirkju. Þá var nú gott að vera tímanlega á ferðinni. Var komin í Neskirkju tuttugu mínútum fyrir eitt þrátt fyrir að hafa þurft að leggja spölkorn frá. Kirkjan var troðfull en það beið eftir mér eitt sæti á aftasta bekk. Eftir athöfnina hitti ég þrjá fyrrum kórfélaga, þar á meðal var eftirlifandi makinn. Um hálfþrjú var ég komin í bílinn aftur og hringdi þá í einn fyrrum samstarfsfélaga úr kortadeild. Hún er 12 árum eldri en ég og í hópnum "Sex svanir" sem er sá hópur sem vann lengst saman í kortadeildinni á árunum 2005-2014. Hún var heima svo ég ákvað að skreppa í heimsókn til hennar. Í og með til að segja henni breytta stöðu augliti til auglitis. Nú höfum við allar sex í hópnum verið reknar frá fyrirtækinu, ein meira að segja tvivar. Stoppaði í góðan einn og hálfan tíma áður en ég fór heim. Rétt fyrir fimm ákvað ég að hringja í þá manneskju í hópnum sem var yfirmaður kortadeildar til 2014 og segja henni frá. Hún er ellefu árum eldri en ég og var því á sama aldri og ég er núna þegar henni var sagt upp. Fór ekki í neinn göngutúr í gær þannig að skráð heildarskref náðu ekki einu sinni 3000. Greip í sauma og prjóna, vafraði stuttlega á netinu og glápti á einhverja þætti í sjónvarpinu en greip ekki í bók fyrr en ég fór í rúmið um hálftíu.
30.4.25
29.4.25
Viðbrigði
Vil byrja á því að vara hugsanlega lesendur við þessari færslu því hún verður að hluta til klárlega mjög sjokkerandi. Gærmorguninn byrjaði eins og venjulegur virkur mánudagsmorgun. Var komin á fætur um sex. Sinnti allri morgunrútínu samviskusamlega áður en ég settist niður með fartölvuna í fanginu, vafraði um á netinu og setti inn daglega færslu. Var komin sunnan við Seðlaverið rétt fyrir átta og var frekar hissa hversu margir bílar voru fyrir utan. Þegar ég var komin inn um fyrstu dyr tók framkvæmdastjórinn á móti mér og bað mig um að koma með sér í fundaherbergið. Þar inni voru mannauðsstjóri og einn trúnaðarmaður. Sá að framkvæmdastjrórinn var alveg í rusli og grunaði strax hvað væri í gangi. Spurði þó hvort þetta væri alvarlegt. Og þetta var grafalvarlegt. Fyrirtækið sem ég hef unnið hjá í 25 var að gera breytingar vegna samdráttar. Ekkert út á mín störf að setja og ég gerði ekkert af mér, það er bara verið að draga saman. Ég var ekki sú eina sem skrifaði undir starfslokasamning en var sú fyrsta þar sem ég var mætt fyrst í vinnu. Ég ákvað að þetta væri bara eins og það væri, ekkert sem ég gæti gert annað en að bera höfuðið hátt og skrifa undir plaggið. Afþakkaði að fara innfyrir að sækja það litla sem ég átti í vinnurýminu og fór bara beinustu leið í sund og beint í kalda pottinn. Var komin heim um tíu. Klukkutíma seinna hringdi sessunautur minn og samstarfskona sl. 19 árin í mig til að athuga með mig. Hún gat líka sagt mér hverjir lentu í niðurskurðinum og var hún sjálf þar á meðal. Klukkan var að verða tvö þegar ég hringdi í pabba til að segja honum frá þessari nýju stöðu. Bað hann fyrir alla muni að hafa engar áhyggjur af mér, þetta verður mjög líklega til þess að hjálpa mér með ýmis konar breytingar á næstu misserum. Á meðan ég var að spjalla við pabba heyrði ég að einhver var að reyna að ná í mig í gemsann. Þekkti ekki númerið svo ég spáði ekkert frekar í það. Skömmu síðar var hringt aftur og ég svaraði. Á línunni var trúnaðarmaðurinn sem var á fundinum um morguninn. Hann var með nokkra punkta fyrir mig og spurði hvort hann mætti fara yfir þá með mér strax eða senda mér póst. Ég sagðist vilja bæði svo við ræddum málin næstu mínúturnar. Milli þrjú og hálffjögur ákvað ég að labba í osteostrontíma í Hátún 12. Fór ekki alveg stystu leiðina en var ca 25 mínútur að labba rétt rúma 2km og var mætt hálftíma fyrir fasta tímann. Þurfti samt ekki að bíða lengi eftir að komast að. Sló met á einu tækinu og var við mitt besta á tveimur öðrum. Fyrrum fyrirliði kortadeildar hafði reynt að ná í mig á meðan á tímanum stóð. Hringdi til baka eftir að ég var komin heim og hún kom um sex með nokkra hluti úr vinnunni sem tilheyra mér. Leiðbeinandinn úr klinkinu hringdi á sama tíma. Hún knúsaði mig og sagði mér að svara honum. Hann var bara að tékka á mér.
28.4.25
Kostir og gallar
Mér tókst að sofa alveg til klukkan hálfsjö í gærmorgun. Þá var ég alveg útsofin og dreif mig á fætur. Var komin í Laugardalslaug milli klukkan átta og hálfníu. Þegar ég var á leið í sturtu sá ég tilsýndar konu sem var svo lík einni konu frá Hellu sem fallin er frá fyrir nokkrum árum. Þessi kona kom til mín og heilsaði en var þetta stóra systir þessarar sem mér fannst þetta vera. Hún býr í Skagafirði en var á leið austur fyrir fjall í fermingu elsta barnabarns. Þau hjónin ætluðu rétt að mýkja sig í nuddpottinum fyrst. Ég byrjaði á því að fara í kalda pottinn en fór svo beint í nuddpottinn til þeirra til að spjalla. Skömmu síðar komu sjósunds vinkona mín og hennar maður í pottinn. Þau höfðu verið að synda. Ég var einnig búin að heilsa nokkrum öðrum og sú sem ég hitti fyrst hafði á orði að ég þekkti bara alla. Eftir rúmt korter í pottinum kvaddi ég og fór aftur í þann kalda áður en ég fór á braut 7 og synti 400m. Eftir þriðju ferðina í þann kalda fór ég í gufu og eftir fjórðu og síðustu ferðina í kalda pottinn sat ég smá stund á stól og sólaði mig. Var komin heim um ellefu. Um tvö leytið skrapp ég út í göngutúr, hringinn í hringum Öskjuhlíð, sem síminn skráði sjálfvirkt sem tvo göngutúra. Það var vegna þess að ég þurfti að stoppa í smá stund og bíða eftir að manneskja á hjóli hjólaði framhjá þar sem göngustígur þveraði hjólastíginn. Leikur Liverpool og Tottenham var akkúrat að byrja þegar ég kom heim úr "labbigöngunni".
27.4.25
Á blómavaktinni
Vaknaði um klukkan sex í gærmorgun og var ekkert að drolla neitt upp í rúmi. Var komin í sund upp úr klukkan átta. Byrjaði á því að fara í þann kalda í uþb þrjár mínútur og svo beint í sjópottinn, sem note bene er ekki með sjó í akkúrat þessa dagana. Eftir næstu ferð í kalda pottinn fór ég á braut 6 og synti 500m, flesta á bakinu. Og eftir þriðju og síðustu ferðina í kalda pottinn fór ég í gufu í tuttugu mínútur. Eftir það fór ég upp úr, þvoði mér um hárið og var komin heim um hálfellefu. Upp úr klukkan eitt ýtti ég við Oddi því hann hafði hug á því að koma með mér að versla. Leyfði honum að keyra og við byrjuðum á að koma við á Sólvallagötunni. Ég lenti í smá brasi með húslykilinn og Oddur varð að koma og hjálpa mér að ná honum úr skránni. Ég var alltaf að reyna að toga lykilinn út lóðrétt en hann átti að vera lárétt. Annars beið Oddur út í bíl á meðan ég vökvaði og talaði við hátt í þrjátíu blóm sem esperanto vinkona mín hafði safnað flestum saman á eldhúsborðið og þar í kring. Svo lá leiðin í Krónuna við Fiskislóð. Oddur var á undan að versla fyrir sig, fór með sinn poka út í bíl og kom svo aftur og hjálpaði mér að setja mínar vörur í poka. Fljótlega eftir að við komum heim hringdi ég í eina frænku mína og nöfnu sem ég hef ekki hitt síðan seint í október. Spjöllum stöku sinnum á facebook-spjallinu. Úr varð amk hálftíma samtal. Rétt fyrir fjögur skrapp ég út í stuttan göngutúr. Annars fór dagurinn í prjón, lestur, útsaum, netvafr og gláp.
26.4.25
Jæja þá
Held að það sé mjög gott að það sé góð rútína á svefn venjum. Stend mig að því að fara í rúmið á sama tíma, sama hvað dagurinn/kvöldið heitir. Ég vakna líka oftast á svipuðum tíma hvort sem ég er með vekjarann stilltan á mig eða ekki. En aðeins að gærdeginum. Ég vann í innleggjunum alveg frá korter í átta til rúmlega tvö og var svo að fara yfr skjöl síðusta klukkutímann eða svo. Inn á milli var ég samt að forvitnast um hvernig gengi í klinkinu. Fór ekki þó ekki niður. Það var rólegt þar fram eftir morgni en svo færðist fjör í leikinn því það skiluðu sér inn níu kassar af þrettán sem voru forskráðir á skjalið. Stimplaði mig út úr vinnu tíu mínútum yfir þrjú. Hringdi í pabba og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni yfir í Laugardalslaug. Hann var að hreinsa stéttina fyrir utan hús og það lá bara vel á honum. Ég var ekki svo lengi í sundi og synti aðeins 200m og fór einu sinni fimm mínútur í þann kalda, ekkert í gufuna en sat í sjópottinum í um fimmtán mínútur. Kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim og keypti m.a. ýsu í soðið og uþb 500g af bleikju.
Ein af bókunum af safninu er eftir Colleen Hoover og heitir Verity. Það er akkúrat bókin sem ég var næstum búin að koma með heim í tveimur eintökum. Hún fjallar um rithöfund sem fær það verkefni að klára bókaflokk eftir mjög vinsælan rithöfund. Spennandi bók sem er með svona sögu inn í sögunni.
25.4.25
Góðar gæðastundir
Var glaðvöknuð um sex. Það virðist vera minn tími sem er ekkert óeðlilegt ef maður er sofnaður fyrir klukkan ellefu. Drollaði ekkert í rúminu heldur dreif mig á fætur, sinnti morgunverkum og settist svo inn í stofu með fartölvu í fanginu. Vafraði um á netinu og setti inn færslu. Slökkti á tölvunni um átta og færði mig yfir í sjónvarpsstólinn. Horfði á nýjasta og síðasta þáttinn í seríunni íslensk sakamál. Sá þáttur fjallaði um unga konu af íslenskum ættum, uppalda í bandaríkjunum, sem fékk 37ára dóm fyrir tvö bankarán. Mamma konunnar og ég erum skildar í þriðja og fjórða lið (langamma hennar var hálfsystir föðurafa míns). Stuttu fyrir hálftíu bjó ég mér til matarmikinn hafragraut. Um ellefu var ég mætt, eins og margir aðrir, á planið hjá Laugardalslauginni. Hitti kalda potts vinkonu mína og einn frænda minn í röðinni inn. Ég varð þó að fara í aðra röð þegar inn var komið því það var komið að því að endurnýja árskortið. Synti aðeins 100m en fór þrisvar í þann kalda og góða gufu í lokin. Sjópotturinn var lokaður. Kom heim um hálfeitt leytið. Það stóð alltaf til að skreppa aftur út í smá göngu en það varð ekkert að því. Tíminn fór í útsaum, prjón, lestur, smá netvafr og gláp. Um hálffjögur tók ég að mér að skelhreinsa humar sem ég hafði keypt af dætrum besta vinar míns skömmu fyrir jól til styrktar körfuboltafélagi ÍR. Davíð Steinn sá svo um að matreiða humarinn. Í fyrsta skipti í langan, langan tíma borðuðum við mæðginin öll saman dýrindis humarrétt í einskonar sósu/súpu.
24.4.25
Öflug
Gærdagurinn var í lengri kantinum vinnulega séð. Var mætt um hálfátta og byrjuð í innleggjum amk tíu mínútum fyrir átta. Held að í heildina hafi verið rúmlega sextánhundruð innlegg sem þurfti að vinna í gær. Stelpurnar í hraðbönkunum og ein úr sjóðadeildinni komu sterkar inn með okkur fimm sem erum munstraðar í innleggin. Svo var sú sem er yfir okkur líka að taka innlegg og hún er mjög öflug, sérstaklega ef vel gengur hjá öllum og ekki þarf að finna út úr of mörgum vandamálum sem geta og koma upp reglulega. Samt vorum við ekki búin með þessi innlegg fyrr en upp úr þrjú og þá átti eftir að renna slatta í gegnum vélar og fara yfir skjöl. Klukkan var að verða hálffimm þegar ég stimplaði mig út og fór beinustu leið í Nauthólsvík. Hringdi í pabba og spjallaði smá en ég var komin út í 6,6°C sjóinn rétt rúmlega fimm. Svamlaði um í tæpt korter, fór beint í gufu og var uþb korter og svo aftur í sjóinn í ca 3mínútur. Svo sat ég í pottinum í næstum hálftíma áður en ég fór upp úr og heim.
23.4.25
Jákvæðni er lang best
Vaknaði eiginlega á slagin klukkan sex, korteri áður en vekjarinn átti að ýta við mér. Sinnti allri morgunrútínu samviskusamlega og var svo mætt í vinnu um hálfátta. Rétt fyrir ellefu fékk ég að skreppa en sá skreppitúr varði í næstum tvo tíma. Átti tíma hjá skurðlækninum sem gerði aðgerðina á úlnliðnum í fyrra. Ekkert mörgum mínútum eftir að ég mætti fyrir framan G3 og var búin að stimpla mig inn var kallað á mig og ég send á grænu biðstofuna fyrir þá sem fara í röntgen. Þar þurfti ég að stimpla mig aftur inn og bíða í amk tíu mínútur áður en ég og tvær aðrar voru kallaðar og okkur fylgt lengra inn ganginn á annan biðstað. Þar tók við enn ein biðin en ég var kölluð í myndatöku á eftir annarri og undan hinni. Svo fór ég til baka og settist fyrir framan stofu merkta 15. Þar tók við lengsta biðin. Þegar ég var loksins kölluð til viðtals var það ekki sá sem ég hafði pantað tíma hjá því hann var forfallaður. Sá sem ræddi við mig sagði að allt liti ljómandi vel út. Hann vildi meina að það væri ekki endilega rétt að láta fjarlægja aðskotahlutinn því það væri ekkert víst að ég yrði neitt miklu betri við það. Nefndi þó þrjár leiðir sem ég gæti farið. Ég ákvað amk að bíða lengur og sjá til. Var mætt í vinnu aftur upp úr hálfeitt. En í eitt skipti af þessum biðtímum hjá Landsspítalanum sá ég skilaboð frá blóðbankanum, beiðni um hvort ég gæti mætt samdægurs. Ég bókaði strax tíma, kl. 17:30. Þeir voru með lengri opnunartíma í gær vegna fárra virkra daga í vinkunni. Stimplaði mig út úr vinnu upp úr klukkan hálffjögur og fór beint á bókasafnið. Skilaði öllum sex bókunum og var næstum búin að taka sjö aðrar. Tók eiginlega sjö en skilaði einni strax aftur þar sem ég var með tvö eintök af sömu bókinni. Þá var ég sennilega bara að horfa á höfundarnafnið, ætlaði að taka þrjár bækur eftir saman höfund. Segi kannski betur frá því síðar. Kom heim rétt fyrir hálffimm. Nágranninn á neðri fékk að koma með stiga upp á mínar svalir til að kíkja í þakrennuna. Fékk mér smá hressingu og rétt fyrir fimm rölti ég í blóðbankann. Var korter á leiðinni svo ég var komin vel fyrir klukkan hálfsex og komst samt strax að. Kona frá Íran, flutti hingað til lands fyrir fjórum mánuðum, sá um að taka blóðið og ég verð að segja það að hún er sannkallaður æðakvíslari því allt gekk eins og í sögu. Var komin heim aftur rétt rúmlega sex. Skrefafjöldi gærdagsins náði næstum 7600.
22.4.25
Magnað gott veður undanfarið þrátt fyrir smá kul
Rumskaði fyrst um sex en tókst svo að sofa í tvo tíma í viðbót. Fór á fætur upp úr klukkan átta. Um tíu settist ég aðeins niður með útsauminn, þá var ég búin að vafra á netinu og fara í kaplakeppni við pabba. Um ellefu skrapp ég í stuttan tuttugu mínútna göngutúr. Þegar ég kom til baka hitaði ég upp afganginn frá því á páskadag. Eftir mat prjónaði ég nokkrar umferðir en upp úr klukkan eitt tók ég mig saman, hlóð farangrinum inn í bíl og kvaddi pabba um hálftvö. Kom heim með dótið rétt fyrir þrjú. Gekk frá dótinu en var komin vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar hálftíma síðar. Við vorum ekki að lesa í þetta sinn. Fengum okkur smá te áður en hún sýndi mér öll blómin sín, afhenti mér húslykla og kenndi mér á þá og lyftulykilinn. Þau hjónin og ein úr Viðeyjargenginu eru að fara til Spánar seinna í dag og verða í tvær vikur. Hitta m.a. þá fjórðu úr genginu sem er flutt út. Þegar ég kom heim aftur voru þrír sjúkrabílar og þrír lögreglubílar við götuhornið. Eitthvað var að gerast í einni íbúðinni í hornhúsinu. Lagði bílnum mínum við Blönduhlíð. Hitti svo á nokkra forvitna nágranna áður en ég fór inn. Veit ekkert hvað var í gangi en ég held að ekki hafi þurft að fara með neinn, hvorki í sjúkra- né lögreglubíl.
21.4.25
Tíminn á fleygiferð
Pabbi setti læri (sem við höfðum versla á laugardaginn og ég kryddað og vafið inn í álpappír og sett í ísskápinn) inn í ofn á 120° í eldföstu móti ofan í ofnpotti um sjö leytið í gærmorgun. Ég kom á fætur stuttu fyrir átta og var ekkert að hafa neinar áhyggjur af eldamennskunni því þetta var bara að malla inn í ofni vel fram yfir hádegi. Pabbi setti upp kartöflur, sæta og venjulega um tvö leytið og svo útbjó ég sósu úr soðinu. Borðuðum semsagt um miðjan dag og þótt þetta væri bara partur af læri var nógur afgangur sem við klárum sennilega áður en ég bruna í bæinn í dag. Annars fór dagurinn í netvafr, útsaum, prjón og fótbolta og þátta áhorf. Horfði svo á myndina Ljósvíkíngar sem ég var samt búin að sjá í bíó. Þessi mynd, myndatakan, efnið og leikurinn dásamlegt að mínu mati og ég er viss um að ég eigi eftir að horfa á hana oftar.
20.4.25
Lífið er alls konar
Það er ekki sofið langt fram á dag þessa dagana þrátt fyrir að vera í páskafríi. Kannski vegna þess að ég er yfirleitt komin í rúmið um eða jafnvel fyrir tíu og les ekki lengur en í hálftíma áður en ég fer að sofa. Ég er þó aldrei komin fram á undan pabba en hann er yfirleitt komin í bælið sitt aftur um sjö/hálfátta leytið þegar ég fer á stjá. Kemur svo klæddur fram á ellefta tímanum. Í gær var hann reyndar að klæða sig stuttu fyrir tíu þegar ég leit inn til hans til að láta hann vita að ég ætlaði að fara labbandi í sund. Laugin opnar klukkan tíu á helgidögum. Ég var samt komin örfáum mínútum fyrr. Það var samt búið að opna því í sama húsnæði er líkamsræktarstöð sem opnar alltaf fyrr. Það voru nokkrir komnir í sund strax við opnun. Ég fór beint í kalda pottinn áður en ég fór út í laug og synti 400m, afar fáað á bakinu því plássinn við bakkana og kaðalinn voru upptekin og mér finnst ekki gott að synda á bakinu ef ég hef ekki neitt til að passa upp á að ég syndi beint. Eftir sundi fór ég aðra ferð í þann kalda og svo í sána í 15 mínútur. Skrapp aðeins inn í sturtu áður en ég fór þriðju og síðustu ferðina í þann kalda. Sat svo nokkrar mínútur í 39°C pottinum. Ég var ekki alveg hætt eftir það heldur prófaði ég infra rauða klefann í ca korter. Fyrsta skipti sem ég prófa svoleiðis. Eftir þá prufu fór ég loksins í sturtu og þvoði mér um hárið. Var komin heim rétt fyrir tólf. Fljótlega eftir hádegisfréttir skruppum við pabbi í búðina. Hittum aðeins Val, pabba Ellu vinkonu. Hann og sambýliskona hans búa til skiptis á Hellu og á Blöndósi og eru semsagt þessa stundina á Hellu. Annars leið dagurinn frekar hratt. Ég steikti keilu upp úr chiafræum og eggi og hafði gufusoðnar kartöflur,sætar og rófu og niðurskorinn lauk sem ég sauð í smá stund áður en ég setti yfir fiskinn á pönnunni. Þetta borðuðum við pabbi með bestu lyst um hálfsjöleytið um kvöldið.
19.4.25
Laugardagur
Átta tímarnir í svefn voru liðnir rétt fyrir sjö í gærmorgun og það var ekki séns að ég gæti sofið lengur svo ég dreif mig bara á fætur. Er með 2 stk 1,5kg lóð með mér og sleppti að sjálfsögðu ekki að gera nokkrar styrktaræfingar. Var svo sest fyrir framan tölvuskjáinn hans pabba um hálfátta. Einn og hálfur tími liðu frekar hratt. Um níu leytið fékk ég mér klementínu og harðsoðið egg. Lagði nokkra kapla og settist svo aftur við tölvuna í örugglega klukkutíma í viðbót. Við pabbi fengum okkur skyr í hádeginu og upp úr klukkan eitt fengum við okkur bíltúr upp að Keldum. Það var samverustund í kirkjunni þar klukkan tvö. Vorum komin tuttugu mínútum fyrir og byrjuðum á því að skreppa norður fyrir kirkju og blessa yfir nokkur leiði. Frændi minn, Halldór Óskarsson, spilaði forspil á kirkjuorgelið á slaginu tvö. Presturinn, sr. Elína Hrund Kristjánsdóttir leiddi svo stundina. Signdum okkur svo skiptust þær Drífa Hjartardóttir á að lesa. Hún píslasöguna og sú síðarnefnda passíusálma. Inn á milli sungu flestir með erindi úr sálminum; Ég kveiki á kertum mínum við undirleik organistans. Við vorum sennilega allt í allt um tuttugu á þessari stund. Vorum komin á Hellu aftur klukkan að ganga fjögur. Fékk mér te og tók út siginn fisk sem ég hafði svo í kvöldmatinn ásamt kartöflum og rófu.
18.4.25
Alveg einstaklega frábært íþróttaafrek
Var ekki með stillt á mig neinn vekjara en vaknaði engu að síður um hálfsjö leytið í gærmorgun. Opnunartími sundlauga á höfuðborgarsvæðinu á skírdegi var ekki að henta fyrir mig því ég ætlaði mér að vera komin austur um og upp úr hádeginu. Fór samt á fætur og sinnti allri morgunrútínu og byrjaði aðeins að tína saman það sem ég þurfti að hafa með mér fyrir nokkra daga. Vafraði um á netinu til klukkan að verða níu. Kveikti þá á sjónvarpinu. Um tíu bjó ég til einn skammt af hafragraut. Kláraði að pakka niður upp úr klukkan hálfellefu og rétt fyrir ellefu athugaði ég hvort Oddur væri ekki til í að hjálpa mér með töskuna út í bíl. Auðvitað var hann til í það. N1 sonurinn hafði farið í vinnu rúmum klukkutíma áður. Ég var komin á Hellu um hálfeitt. Fljótlega settumst við pabbi niður fyrir framan sjónvarpið og fylgdumst með keppni í ólympískum lyftingum í -71kg kvenna og urðum vitni að því þegar Eygló Fanndal Sturludóttir kom sá og sigraði. Var í öðru sæti í annarri greininni en vann hina og var með bestan samanlagða árangur. Þessi stúlka verður 24 ára á þessu ári og er fyrsti íslenski keppandi sem vinnur þessa grein í fullorðinsflokki. Um hálfþrjú leytið var ég búin að skipta um föt og skrifa á eitt stykki fermingarkort fyrir systursonarson pabba. Vorum mætt í Hvolinn um þrjú þar sem tvö fermingarbörn héldu saman upp á ferminguna sína. Höfðu verið fermd um eitt ásamt þremur öðrum í kirkjunni á Breiðabólstað, í og með til að jafna út og spara tíma því klukkan ellefu höfðu ellefu börn verið fermd í Stórólfshvolskirkju. Við pabbi stoppuðum í veislunni í næstum tvo og hálfan tíma. Þekktum auðvitað bara part af fólkinu en það var gott að hitta á ættingjana sína. Eldri bróðir æsku vinkonu minnar og konan hans voru einnig veislugestir. Spjallaði aðeins við hann. Var frekar dugleg að knúsa ættingjana mína en það voru líka skemmtiatriði í veislunni, m.a. bingó og píanóleikur. Frændi minn er nýbúinn að taka grunnprófið. Hafði tekið sér þrjú ár í pásu en er byrjaður aftur og stefnir á að halda áfram. Sameiginlegur frændi okkar, Halldór Óskarsson, kennir honum. Við pabbi vorum komin aftur á Hellu stuttu fyrir sex.
17.4.25
Ruglast á dögum
Einn vinnufélagi minn var aðeins sein í vinnu í gærmorgun. Hún svaf ekki beint yfir sig. Sambýlismaðurinn hennar ýtti við henni um sjö leytið og spurði hvort hún ætlaði ekki að fara á fætur og í vinnu. Hún svaraði af bragði; "Nei, það er laugardagur!" Annars vorum við aðeins 14 í vinnu í heildina í gær. Ég var alfarið í innleggjunum og skjalayfirferð og þar sem það voru færri hendur á dekki vorum við sem mættum um hálfátta rétt rúma átta tíma í vinnu. Það er annars mjög gott að það sé mættur einn af sumarstarfmönnunum. Þrátt fyrir að viðkomandi sé að setja sig inn í innleggin munar um hennar framlag. Ég var svo komin í 5,1°C sjóinn tuttugu mínútur yfir fjögur. Svamlaði um í tæpt korter, var korter í gufu, tæpar þrjár, hanskalaus í sjónum og korter í pottinum. Kom heim rétt fyrir sex.
16.4.25
Ef til vill og kannski
Það birtir alltaf fyrr og fyrr og ég vakna útsofin fyrir klukkan sex á morgnana. Hef þá mjög góðan tíma í alla morgunrútínu og það var engin undantekning á því í gærmorgun. Mæti líka alltaf til vinnu á mjög svipuðum tíma, um hálfátta. Var í innleggjunum að mestu í gær en skrapp niður í klinkið þegar átti bara eftir að fara yfir skjöl og renna síðusta bankanum í gegnum aðra stóru seðlavélina. Jói var langt kominn en ég gat þó aðeins flýtt fyrir honum með því að bóka inn tvo kassa úr bankaútibúi og einn frá fyrirtæki, allt fyrir sama bankann. Færði það svo alla leið inn í sjóðinn því Jói var að klára að stauka upp klinkið. Prentaði út stöðuna á öllum klinksjóðum og svo urðum við samferða upp. Hann var samt ekki að fara heim því hann hafði tekið að sér að bíða eftir innflutningi ásamt einni samstarfskonu okkar og innflutningur kemur ekki í hús fyrr en milli fimm og sex. Ég var komin í sund stuttu fyrir fjögur. Fór beint á braut 8 og synti 400m. Fór tvisvar sinnum 5 mínútur í kalda, 15 mínútur í sjópottinn og 20 mínútur í gufu. Var komin heim rétt fyrir klukkan sex.
Annars var mér sögð mjög skemmtileg sönn saga af samstarfskonu á mánudaginn var. Hún hafði farið til yngstu dóttur sinnar að passa síðustu helgi á meðan ungu foreldrarnir skruppu út að fanga eins árs brúðkaupsafmæli. Áður en dóttirin fór nefndi hún við móður sína að hún héldi að hún væri að verða eitthvað vitlaus, farin að heyra kettlingamjálm. Fljótlega eftir að ungu hjónin voru farin heyrði samstarfskona mín kettlingamjálm. Eftir smá leit fann hún læðuna á heimilinu, sem nota bene átti að vera geld, með þrjá kettlinga á hundabælinu sem var undir stofusófanum.
15.4.25
Ákveðni
Það voru amk tuttugu mínútur í að vekjarinn ætti að ýta við mér þegar ég vaknaði í gærmorgun. Sinnti allri morgunrútnínu samviskusamlega og var mætt í vinnu um hálfátta. Það var meira að gera í innleggjum heldur en klinki svo ég dembdi mér í innleggin áður en klukkan varð átta. Fyrsti sumarstarfsmaðurinn mætti til vinnu rétt upp úr klukkan átta. Hún var hjá okkur í kortadeildinni í hittifyrra en gaf ekki kost á sér sem sumarstarfsmaður í fyrra. Það tekur alltaf smá tíma að opna aðganga en í millitíðinni hjálpaði hún til við að vera í afgreiðslunni þar sem fasti starfsmaðurinn þar er í fríi. Innlegg og yfirferð á þeim kláruðust rétt fyrir hálfþrjú. Þá ákvað ég að skreppa niður í klinkið og athuga hvort ég gæti létt undir þar. Þar var allt á fullu og byrjaði ég á að bóka inn einn klinkkassa úr landsbankaútibúi og skrá stauka og box inn í sjóðinn. Svo hjálpaði ég til á stauka- og plastvél. Þar var ýmist verið að stauka og plasta krónur eða tíkalla. Sorteringavélin var á fullu að sortera klink úr arion-útibúi. Þeir kassar eru stærri heldur en kassar úr hinum bönkunum, geta tekið allt að 800.000kr. Hættum um hálffjögur en þá átti eftir að stauka 5kr og 100kr. Jói hafði séð um að stauka og pakka 50kr í lausu. Ég var mætt í osteostrong um fjögur og í sund rúmlega hálffimm. Synti reyndar ekkert en hitti akkúrat á kaldapotts vinkonu mína og við fórum 4 ferðir í þann kalda, góða gufuferð og vorum einni rúmt korter í sjópottinum. Kom heim um hálfsjö leytið.
14.4.25
Þetta verður eitthvað
Vaknaði um sjö leytið í gærmorgun. Sinnti allri morgunrútínu en tók fljótlega þá ákvörðun að skrópa í sundið. Hitti því aðeins á N1 soninn áður en hann fór í sína vinnu upp úr klukkan níu. Stuttu fyrir klukkan ellefu dreif ég mig út í göngu. Stefndi beint upp að Perlu og fór niður hinum megin. Nú er skógarhöggið búið og búið að fjarlægja lokunar pósta svo hægt er að fara um svæðið og skoða. Tók engar myndir og stoppaði næstum ekkert. Fór hálfan Öskjuhlíðarhring á tæpum 40 mínútum og náði skrefafjöldanum yfir 5000. Restin af deginum fór að mestu í þátta- og fótboltagláp, prjón, útsaum og lestur. Er búin að taka þá ákvörðun að lesa ekki tvær af bókunum af safninu. Aðra bókina hef ég lesið áður en hin bara náði mér engan veginn. Er búin að lesa hinar bækurnar en ætla ekki að skila þeim alveg strax. Þannig að ég er loksins byrjuð á; Ég læt sem ég sofi eftir Yrsu Sigurðardóttur og er líka að halda áfram með Gólem eftir Steinar Braga. Hringdi í pabba og þáði boð um að koma með honum í fermingarveislu sem honum var boðið í. Veislan sú verður á skírdag og í Hvolnum á Hvolsvelli.
13.4.25
Í hræðilegu letikasti
Vaknaði upp úr klukka sex í gærmorgun. Gleymdi alveg að sinna lóðaæfingum en önnur morgunrútína var söm við sig. Var komin í sund fyrir klukkan hálfníu og mjög heppin að fá stæði á bílaplani við Laugardalslaugina því það var um það bil að fyllast vegna unglinga- og Íslandsmóts í sundi. Það var líka slatti af fólki í lauginni sjálfri og sumar brautir fráteknar. Ég synti því ekki mikið, aðeins 300m en náði að synda uþb helminginn af þeirri lengd á bakinu. Fór þrisvar sinnum í þann kalda, rúmar tuttugu mínútur í gufu og korter í sjópottinn áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Var mætt vestur í bæ til norsku esperanto vinkonu minnar rétt fyrir hálfellefu. Við lásum 5bls í Kon-Tiki. Fyllti á bensíntankinn hjá AO við Öskjuhlíð þegar ég var á leiðinni heim stuttu fyrir tólf. Ætlaði ekki að ferðast neitt meira á bílnum þó en meiningin var að skreppa út í smá göngutúr seinna um daginn. Lánaði Oddi bílinn um tvö leytið. Hann var ekki að fara til pabba síns en þurfti að skreppa í Krónuna. Ekkert varð úr göngutúrnum hjá mér, fann mér alltaf eitthvað smálegt annað að gera. Samt ekki akkúrat það sem ekki má skrifa um.
12.4.25
Vann í innleggjum í gær
Það er langbest ef ég vakna á undan vekjaranum. Ég geri það líka í flestum tilfellum, mismörgum mínútum áður en hann á að vekja mig. Stundum alltof snemma auðvitað. Í gærmorgun vaknaði ég rétt fyrir sex. Sinnti allri morgunrútínu og var svo mætt í vinnu um hálfátta. Það eru nokkrir komnir í frí, eitthvað um veikindi og sumarstarfsmenn ekki farnir að "detta" inn. Ein byrjar þó í næstu viku. Á föstudögum er rólegra í klinkinu og lærifaðir minn er vanur að vera einn. Það vantaði frekar auka hendur í að bóka innlegg og það var búið að nefna það við mig fyrr í vikunni hvort ég gæti hjálpað til í þeirri vinnu næstu dagana. Ég byrjaði því að vinna innlegg tíu mínútum fyrir klukkan átta. Stimpla mig alltaf inn fljótlega eða um leið og ég mæti um hálfátta og sá tími telur svo það er alls ekkert óeðlilegt við það að byrja fyrir klukkan átta. Það þarf bara að vera viss um að það sé búið að loka frá deginum áður. Ég veit að það er í lagi að byrja þegar ég sé að byrjað er að undirbúa "gullbunkana" en þeir fara venjulega fyrstir í gegnum stóru seðlasorteringavélarnar. Bókunin gekk vel hjá mér, hafði engu gleymt. Gleymdi reyndar einu sinni að setja eitt skjal á svæðið sem það er í mynd og ég þurfti akkúrat að breyta upphæðinni á tilkynntu tölunni. En það stemmdi allt hjá mér sem ég skilaði inn um tíu leytið. Einnig það sem ég skilaði inn um tólf. Skilaði síðasta skammtinum stuttu fyrir tvö. Skrapp svo aðeins niður í heimsókn í klinkið en þar var allt búið. Staldraði þó við í örfáar mínútur og svo urðum við samferða upp og ég fór í að yfirfara skjöl. Það þurfti að laga aðeins eftir mig í síðasta skammtinum en ég var alls ekki sú eina sem þurfti að laga hjá. Vorum búin um hálfþrjú leytið og ég fór beint í sund. Hringdi í pabba áður en ég lagði af stað frá vinnunni og spjallaði við hann á meðan ég var á leiðinni yfir. Hann var nýkominn inn úr smá göngu og lét bara vel af sér. Kalda potts vinkonan var í kalda pottinum þegar ég mætti. Saman náðum við 4 ferðum í hann, sjópottsferð og góðri gufu áður en ég skellti mér á braut 8 og synti 400m. Var komin heim um fimm leytið. Gallinn við að vinna innleggin er að maður situr mikið við og safnar þar af leiðandi ekki mörgum skrefum. Að vísu getum við hækkað borðin og unnið standandi en ég geri það ekki oft. Ég ákvað því um sex leytið að skella mér út í stutta göngu þannig að ég næði skrefafjöldanum yfir 5000 skref. Gangan var um tuttugu mínútur og markmiðið með henni tókst.
11.4.25
Þá er kominn föstudagur enn á ný
Vaknaði stuttu fyrir klukkan sex í gærmorgun. Dreif mig strax á fætur og gerði æfingar með 2,5kg lóðum. Önnur morgunrútína var svipuð og svo var ég mætt í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta. Klukkutíma síðar var sett í gang viðbragðsæfing og voru m.a. 112 og lögregla í þeirri æfingu. 2 frá Dalveginum og 1 RB-ingur úr Seðlabankanum voru mættir á staðinn nokkru fyrr. Ýtt var á neyðarrofa "vegna grunsamlegra mannaferða" fyrir utan. Þeir sem voru uppi áttu að standa strax upp frá sínu og safnast saman inni á kaffistofu. Við sem vorum niðri vorum beðin um að halda okkur frá gluggum og dyrum og umfram allt halda ró okkar. Við Jói fórum að myndaeftirlitsskjánum í rýminu og fylgdumst með. Framkvæmdastjórinn hringdi í Jóa rétt eftir að æfingin hófst og var með hann á línunni þessar uþb tíu mínútur sem æfingin stóð yfir. Aðrir sáum um samskipti við viðbragðsaðila. Fyrirfram hafði verið ákveðið að vera ekki í forgangsakstri en ef um alvöru ógn hefði verið að ræða hefði efsta hættumat verið virkjað. Eftir æfinguna var viðbragðsaðilum frá lögreglu og sérsveit hleypt inn. Við Jói fórum upp og sameinuðumst fólkinu í kaffistofunni þar sem var haldinn smá fundur og farið yfir málin, t.d. hvort eitthvað mætti gera betur og það var jafnvel spurt um ólíkar sviðsmyndir af öryggi og ógn við það. Var komin aftur í kjallarann rétt fyrir tíu. Nóg var að gera alveg til klukkan að verða tvö. Var komin í sund um hálfþrjú leytið. Fór eina ferð í þann kalda og sat svo 15 mínútur í sjópottinum áður en ég komst á brautir 7-8 sem voru fráteknar til klukkan að verða þrjú. Synti svo 400m, fór aftur í kalda og sat í næsta potti við þegar kaldapotts vinkona mín mætti á svæðið. Saman náðum við einni ferð í kalda og 10 mínútum í gufu áður en hún fór á braut 1 að synda en ég að teygja úr mér við rimlana áður en ég fór upp úr og heim.
10.4.25
Innilega ánægð með lífið og mig
Mikið líður tíminn hratt. Eina heila vinnuvika mánaðarins ný hafin og klárast strax á morgun. Það var alveg nóg að gera fyrir tvo í klinkinu framan af degi í gær. Það komu einhverjar "dauðar" smástundir en sumar af þeim nýttum við í að stauka upp hluta af 100kr sem komu frá Seðlabankanum í vikunni eftir beiðni frá okkur. Lærifaðir minn sá um þessa beiðni og sendi aðra beiðni í gær um að fá sendingu af 10kr sem kemur væntanlega í dag. Hættum niðri stuttu fyrir tvö þar sem við vissum að allt var að verða búið uppi en vissum ekki hvenær, hvort og hversu margir svartir klink-kassar kæmu í hús. Ég var komin í 3,8°C sjóinn um þrjú. Það var að flæða að og því stutt út í meira dýpi. Svamlaði um í ca tíu mínútur. Fór beint í gufu í 20 mínútur og svo aftur út í sjó í uþb 4 mínútur. Sat, eftir þær mínútur, í pottinum í korter eða svo. Var því komin heim upp úr klukkan fjögur, hress og endurnærð og mjög ánægð með dagsverkið. Dagurinn var auðvitað langt því frá að vera búinn. Eyddi honum að mestu í gláp en ég hringdi líka í konu eins frænda míns og spjallaði þó nokkuð lengi við hana eða hátt í 40 mínútur.
9.4.25
Fyndin saga
Annan morguninn í röð vaknaði ég við vekjaraklukkuna, korter yfir sex. Þegar ég var búin að klæða mig gerði ég nokkrar æfingar með 2kg lóðum. Næst lá leiðin inn í eldhús að fá sér lýsi, engifer og kanil sjúss og vatnsglas á eftir. Þá fyrst var komið að morgunverkunum á baðherberginu. Og að sjálfsögðu var ágætis tími fyrir netvafr og bloggfærslu. Mætti í vinnu um hálfátta. Var komin niður í klinkrými tíu mínútum fyrir heila tímann en þó nokkrum mínútum síðar en lærifaðir minn. Það var ekkert brjálað að gera en verkefnin skiluðu sér jafnt og þétt, fengum pásur inn á milli en fundum okkur einnig önnur verkefni eins og að stauka upp 50kr úr stórum kassa sem kom frá Seðlabankanum eftir beiðni. Í fyrradag var send inn beiðni um sendingu af 100kr og hún kom í gær. Vorum búin með fyrirliggjandi verkefni skömmu fyrir þrjú í gær. Samkvæmt skjalinu eru væntanlegir nokkrir klinkkassar úr hinum ýmsu útibúum á næstu dögum.
Þrátt fyrir að vera með sunddótið meðferðis var ég eiginlega búin að ákveða að skrópa í sund. Eins gott og það er samt að skola af sér eftir vinnu þá fæ ég ekkert samviskubit yfir að taka sundpásur dag og dag. Ætlaði að heyra í og jafnvel hitta hálfdönsku nöfnu mína og frænku en hún er víst stödd á Ítalíu í námsferð þessa dagana. Ég gerði mér því ferð í Krónuna við Fiskislóð í staðinn og var svo komin heim um fjögur leytið.
Ein af bókunum sem ég er með af safninu og er að lesa þessa dagana heitir; Fyndin saga eftir Emily Henry þýdd af Hörpu Rún Kristjánsdóttur sem er bróðurdóttir Helgu í Gutt. Hef ekki lesið bók eftir þennan höfund áður en kannski mun ég svipast um eftir fleiri sögum eftir hann. Ákvað, rétt fyrir sl. helgi að framlengja skammtímalánsbókinni um hálfan mánuð þrátt fyrir að vera búin að lesa hana. Þar með mun ég mjög líklega skila öllum bókunum á sama tíma jafnvel þótt ég lesi ekki tvær af hinum bókunum. Aðra af þeim bókum hef ég lesið áður og hin var ekki alveg að ná mér og ég er ekki viss um að ég gefi henni annað tækifæri.
8.4.25
Reynsla
Mig rámar í að hafa rumskað um fimm leytið í gærmorgun en ég steinsofnaði greinilega aftur því næst vissi ég af mér þegar vekjarinn ýtti við mér. Hafði samt alveg nægan tíma í morgunrútínuna. Sleppti þó lóðaæfingunum. Var mætt í vinnu um hálfátta og við fórum niður ca korter fyrir heila tímann. Lærifaðir minn sá um að ýta réttum vögnum fram í skúr og taka til pantanir. Ég fór í að renna klinkinu sem safnast saman úr innleggjunum af efri hæðinni. Upp úr klukkan hálfníu varð allt rólegt í bili. Eftir kaffi voru komnar fleiri pantanir og klink frá strætó. Það komu svo 3 klinkkassar frá mismunandi útibúum og fleiri voru skráðir á skjalið sem skila sér í dag eða næstu daga. Lenti í tveimur atvikum í gær sem flokkast undir byrjenda mistök. Annars vegar dreyfðist klink út á gólf af því ég gleymdi að slökka á rennunni og hins vegar láðist mér að núllstilla vélina og bókaði of háa upphæð úr einum kassanum. Þessi tvö atvik kostuðu mis mikið vesen en ég læri víst af mistökunum. Mætti í osteóstrong tæpum klukkutíma fyrir fasta tímann og komst strax að. Var svo komin í sund upp úr klukkan fjögur. Synti 400m og var ekkert að stressa mig á tíma því kalda potts vinkona mín hafði sagst ætla að mæta korter yfir fimm. Hún var þó komin á svæðið löngu fyrr og hitti mig í kalda pottinum í hennar annarri ferð og minni fyrstu af þremur. Kom heim milli hálfsex og sex.
7.4.25
Aftur kominn mánudagur
Það sem ég varð hissa þegar ég fór á fætur í gærmorgun og sá að klukkan var hálftíu. Þá var ég örugglega búin að sofa í um níu tíma. Var sofnuð fyrir miðnætti og var svo búin að liggja í nokkra stund upp í rúmi haldandi að klukkan væri í mesta lagi rétt byrjuð að ganga níu. Kveikti á tölvunni hans pabba áður en ég sinnti morgunverkunum á baðherberginu. Fyrsti klukkutíminn fór svo í alls konar netvafr. Pabbi kom á fætur um hálfellefu og fljótlega settist ég inn í eldhús til hans og fór að leggja kapal. Ekkert löngu síðar færðum við okkur inn í stofu. Fékk mér skyr í hádeginu. Unga parið, hafði komið heim úr sveit foreldra hans einhvern tímann eftir miðnætti, lét á sér kræla um eitt leytið. Klukkutíma síðar fóru þau í bæinn í einhvern innkaupa leiðangur. Ég hitti þau ekki aftur því ég kvaddi pabba á fimmta tímanum og var komin heim stuttu fyrir sex. Þá var N1 sonurinn kominn heim úr bústað og báðir bræðurnir því heima.
6.4.25
Titill með téi
Vaknaði um sjö í gærmorgun. Var komin í sund rúmlega átta. Fór beint á braut 2 og synti 500m og svo fimm mínútur í kalda pottinn. Þaðan í sjópottinn í korter, aftur í þann kalda í rúmar 4 mínútur og gufuna í korter áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Var mætt til esperanto vinkonu minnar fyrir klukkan hálftíu. Lásum rúmar tvær bls. í Kon-Tiki á met hraða. Var komin heim um hálftólf. Sótti þvott af snúrum sem ég hafði næstum því gleymt að hengja upp kvöldið áður. Pakkaði niður og um tólf leytið kvaddi ég Odd og brunaði af stað austur. Kom við í Fossheiðinni og var boðið upp á dýrindis gúllassúpu og gott spjall. Var komin austur á Hellu um þrjú. Skömmu síðar sá ég, á snap-kortinu, að Davíð Steinn var að keyra framhjá Hellu. "Veifaði" í gegnum snappið og sonurinn sagði að hann myndi kannski koma við og heilsa upp á afa sinn í baka leiðinni. Hann og ferðafélaginn voru á leið að Seljalandsfossi en fóru reyndar í Nauthúsagil og blotnuðu í fæturnar í þeirri ferð. Komu við upp úr klukkan sex, annað þeirra ferfætt og hitt á sokkunum. Davíð Steinn hafði haft vit á að fara úr þeim áður en hann labbaði inn í gilið. Þau, vinirnir til sjö ára, stoppuðu í tæpa klukkustund en vildu ekki borða með okkur. Ætluðu að grilla. Við pabbi fengum okkur siginn fisk með kartöflum rófu og smjöri eftir að ferðalangarnir voru farnir. Horfðum svo á kvöldfréttir í sarpinum í sjónvarpinu.
5.4.25
Skrif
Það var sennilega rólegasti dagurinn í klinkinu í vikunni í gær og á svoleiðis dögum er ekki alveg nóg að gera fyrir tvo allan tímann. Engu að síður var ég niðri og sá um sorteringar og staukun en Jói var meira í pöntunum og bókunum. Þegar hann fór upp að ganga frá eftir hádegismatinn var eiginlega allt búið niðri. Ég ákvað þó að prófa að gera eins og hann hefur kennt mér og athuga hvort komnar væru inn pantanir sem eiga ekki að fara úr húsi fyrr en eftir helgina og það voru tvær. Tók þær til enda hefði hann ekki kennt mér þetta nema þetta væri leyfilegt. Vorum búin niðri á undan þeim sem voru að vinna uppi, upp úr klukkan hálftvö og ég mátti alveg stinga af inn í helgina. Var komin í sund um tvö leytið. Fór beint í þann kalda og eftir 5 mínútur í honum fann ég kalda potts vinkonu mína og dóttur hennar í gufunni. Elti þær svo í sjópottinn. Náði einni 3 mínútna ferð í þann kalda með vinkonu minni áður en hún fór. Synti svo aðeins 200m áður en ég fór upp úr og heim. N1 sonurinn er í vaktafríi um helgina og var hann búinn að pakka niður í ferðatösku og á leiðinni í sumarbústað á vegum Festis fljótlega eftir að ég kom heim. Hinn sonurinn ætlar að heimsækja pabba sinn og fjölskyldu hans í dag.
4.4.25
Gleðisprengjur
Vaknaði um sex. Morgunrútínan var hefðbundin með lóða æfingum og netvafri áður en ég lagði af stað í vinnu. Var búin að stimpla mig inn um hálfátta. Lagði það til við læriföður minn að við svissuðum um hlutverk. Hann færi í pantanir og tæki bókanir en ég sæi um að sortera úr klinkkössum og stauka upp klinkið. Þetta gekk svona glimrandi vel. Lenti stundum í smá veseni, aðallega með sorteringa- og stauk vélar en í flestum tilfellum fann ég út úr hlutunum sjálf. Í hádeginu gaf ég kost á mér að vera lengur í vinnu til að bíða eftir innflutningi sem kæmi í hús milli fimm og sex. Það þurfa alltaf að vera tveir á staðnum. Oftast eru það sá í afgreiðslunni og lærifaðir minn sem taka þetta að sér. Stöku sinnum einhver annar en í gær gat sá í afgreiðslunni ekki verið lengur. Ég ákvað að prófa þetta verkefni sem felst að mestu í að bíða eftir að bíllinn með innflutninginn komi frá Keflavík. Vorum annars búin í klinkinu rétt fyrir þrjú og komum upp stuttu áður en flestir voru að fara. Framkvæmdastjóri og næstráðandi voru í húsi til klukkan fjögur að ganga fimm. Ég var sem betur fer með prjónana mína og einhvern veginn leið tíminn. Yfirleitt hringja þeir sem eru á bílnum þegar þeir leggja af stað frá Keflavík en þeir gerðu það ekki í gær en þeir komu um hálfsex. Við tókum á móti 10 pokum úr lyftinni í skúr 2 og kvittuðum fyrir, settum á vagn og keyrðum renndum inn í hvelfinguna uppi. Þegar bíllinn var farinn og við búin að loka hvelfingunni gátum við farið. Ég fór aðeins á undan og lét læriföður minn um að setja kerfin á á eftir okkur. Fór beint í sund, 5 mínútur í þann kalda, synti 300m og dýfði mér svo í þann kalda aftur í eina mínútu áður en ég fór upp úr og heim. Skipti um föt og fékk mér smá snarl. Rétt fyrir átta var ég svo mætt á skyggnilýsingarfund á vegum kíwanisklúbbsins Sólborgar í Hafnarfirði. Fundurinn stóð í rétt rúma klukkustund og skemmti ég mér ágætlega. Ég kom heim um hálftíu og fór beint í háttinn en las þó í rúman hálftíma.
3.4.25
Og það er nú það
Ég fékk meiri ábyrgð í störfum mínum í klinkinu í gær. Sá sem hefur verið að kenna mér var "skugginn" minn fram að hádegi og lét mig um að taka ákvarðanir um hvernig verkefnin voru tækluð. Hann var þó stundum á pantana vaktinni en það þarf að fylgjast með og taka til allar pantanir sem koma til klukkan ellefu. Þær pantanir sem koma eftir klukkan ellefu má alveg taka til en þær eru yfirleitt ekki á leið út úr húsi fyrr en daginn eftir. Skugginn minn kvaddi um hádegið svo ég var ein niðri eftir hádegi. Þegar við fórum upp í mat um hálftólf áttum við svo sem ekki von á neinu meiriháttar verkefnum. Það voru þó komnir tveir klinkkassar og einnig klink sending frá félagasamtökum. Ákvað að geyma síðast nefndu pöntunina. Tók til eina klinkpöntun og vatt mér svo í að sortera klinkið úr klinkkössunum. Þeir koma frá bankaútibúum og þessir tveir voru úr hvor sínum bankanum svo ég þurfti að passa að halda þeim aðskildum og núllstilla sorteringa vélina á milli kassa. Þegar klinkið hafði verið sorterað á tvo mismunandi vagna var komið að því að stauka það upp. Kláraði annan bankann í einu. Lenti í smá veseni með staukvélina þegar ég var langt komin með annan bankann. Varð að hringja á vin. Skugginn minn var farinn úr húsi (um hádegið) en það er annar sem hefur stundum leyst hann af. Sá kom niður og hjálpaði mér að koma vélinni aftur af stað. Var ekki lengi að því og var aðeins niðri í um fimm mínútur. Þegar allt hafði verið staukað upp bókaði ég kassana inn í kerfið, færði inn í klinksjóðina og gekk frá á klinkinu á rétta staði. Prentaði svo út sjóðastöðuna úr öllum bönkum, slökkti á öllum vélum og á ljósum og fór upp. Þá var klukkan að verða hálfþrjú og ég var rauð í framan og kófsveitt. Var komin í sjóinn upp úr klukkan þrjú og heim um hálffimm leytið.
2.4.25
Kraftar
Hrökk upp örfáum mínútum áður en vekjarinn átti að ýta við mér. Dreif mig á fætur og ákvað, aldrei þessu vant, að hvíla mig á lóða-æfingum. Var mætt fyrir utan vinnustaðinn minn rétt fyrir klukkan hálfátta og hélt í fáeinar mínútur að ég hefði gleymt eða týnt aðgangskortinu mínu því ég fann það ekki í úlpuvasanum. Sá það svo í bílstjórasætinu, hafði einhvern veginn dottið úr vasanum en inni í bíl sem betur fer. Það var nokkuð rólegt framan af morgni en þeim mun meira að gera upp úr hádegi og fram til klukkan að byrja að ganga fjögur, nokkrir klinkkassar komu inn og svo hrúguðust inn klinkpantanir um tvö leytið. Kannski rétt að halda því til haga að við sáum gosið byrja í beinni klukkan tæplega tuttugu mínútur fyrir tíu þegar við vorum í kaffi, gosið sem amk liggur niðri í augnablikinu. Spennan virðist samt enn vera mikil á nokkuð stóru svæði.
Hringdi í pabba eftir vinnu og áður en ég fór í sundið. Ingvi mágur og Hulda frænka höfðu gist hjá honum nóttina áður. Þau feðgin voru í Reykjavíkurferð en ætluðu að gista aftur í nótt áður en þau færu aftur norður í dag. Pabbi sagðist m.a. hafa sett á siglfirskan geisladisk á fóninn og þau Hulda aðeins tekið sporið saman. Sleppti sundpartinum af sundlaugarferðinni því ég hafði bara rétt rúman klukkuktíma sem ég notaði í 2 kalda potts ferðir, gufu, sjópott og 42°C pott. Hitti aðeins á kalda potts vinkonu mína dóttur hennar og eina systur. Kvaddi upp úr klukkan hálffimm. Lagði bílnum næst á stæði við Austurbæjarskóla rétt fyrir fimm og labbaði þaðan til Lilju vinkonu. Kom rétt á undan tvíburahálfsystur minni en við vorum loksins að halda fyrsta saumaklúbbinn á árinu með öllum meðlimunum þremur. Stoppuðum í rúma tvo tíma sem virkuðu samt ekki mikið meira en rúmt korter. Ég saumaði þó alveg helling.
1.4.25
Iðin við ýmislegt
Vaknaði tveimur mínútum áður en vekjarinn átti að hringja. Það var alveg nægur tími í alla morgunrútínu og samt var ég mætt í vinnu tæpum fimm mínútum fyrir hálfátta. Það var rólegt fyrsta kastið, örfáar pantanir og ekkert að koma inn fyrr en um og eftir kaffi. Það rættist aðeins úr verkefnunum upp úr klukkan tíu, ekki þó þannig að það yrði of brjálað að gera. Kláruðum niðri um hálfþrjú leytið. Stimplaði mig út úr vinnu rétt fyrir þrjú. Fannst heldur snemmt að bruna beint í osteostrong enda veit ég núna að það er fundað þar á þessum tíma. Hringdi í Ellu vinkonu og spjallaði góða stund við hana. Mætti í Hátún 12 um hálffjögur og komst beint að. Bætti mig á einu tæki og var nálægt mínu besta á hinum þremur tækjunum. Eftir tímann fór ég beint í sund. Vissi að ég myndi ekki hitta kalda potts vinkonu mína. Synti 400m, fór eina 4mínútna ferð í þann kalda og var rúmt korter í gufunni. Gerði teygjuæfingar í rimlunum og fór svo bara upp úr og heim.