31.7.20

Anna Sigríður Hjaltadóttir: Helgin verður nokkuð löng

Um leið og ég var laus úr vinnu í gær sótti mig vinafólkið sem kom með mér á Snæfellsnesið um daginn. Þetta var rétt upp úr klukkan hálftvö. Þau voru að fara með mig í smá óvissuferð út úr bænum. Keyrðum Þrengslin og stoppuðum ekki fyrr en við komum að Strandakirkju. Eftir að hafa skoðað kirkjuna, nánasta umhverfi hennar og skrifað í gestabók ókum við smáspöl áleiðis að vitanum. Vegurinn var frekar grófur og við treystum ekki að bíllinn væri nægilega hár til að dóla eftir veginum alla leið að vitanum svo við fengum okkur göngutúr. Veðrið var mjög gott og það var hressandi að rölta þessa leið. Eftir þessa göngu og skoðunarferð snérum við við og rúntuðum aðeins um Þorlákshöfn, keyrðum í gegnum Eyrarbakka og stoppuðum örstutt við Selfosskirkju áður en við tókum stefnuna á Hveragerði. Þar ætlaði vinafólkið að bjóða mér að borða með mér á NFLÍ. Þær fyrirætlanir breyttust snarlega þar sem að það voru skýr skilaboð við innganginn að v/Covid-19 væri ekki hægt að taka á móti öðrum en þeim sem væru gesti á heilsuhælinu. Í staðinn buðu þau mér á Hver, veitingastaðnum á Hótel Örk þar sem við fengum okkur öll veiði dagsins, gómsæta Löngu. Þau skiluðu mér svo heim fyrir klukkan níu.

Fór á bílnum í vinnuna í morgun. Hafði þrjár bækur af safninu og sunddótið með mér. Gat skilað bókunum um hálftvö en sundkortið hafði gleymst heima svo ég fór heim, fékk mér að borða, horfði á beina útsendingu kl. 14 og núna að skrá niður það helsta frá sl. dögum.

Vegna hertra reglna til að ná utan um Covid-19 hópsýkingar í samfélaginu fékk deildin mín fyrirmæli um að skipta okkur upp í tvo hópa. Eins og tímabilið frá 16. mars fram að 25. maí mun annar hópuinn halda sig frá vinnustað í næstu viku en hinn sjá um að mæta og ganga í dagleg störf. Ég er í fyrrnefnda hópnum og á því ekki að mæta til vinnu fyrr en vikuna 10.-14. ágúst n.k.

29.7.20

Nýr sími

Þessa þrjá vinnudaga sem liðnir eru af vinnuvikunni hef ég labbað báðar leiðir. Fór í sund seinni partinn á mánudaginn. Margt var um manninn í Laugardalnum vegna blíðviðris en það var ágætispláss til að synda sem og í kalda pottinum og gufunni. Strákarnir voru báðir að vinna, annar frá tíu til tíu og hinn frá fjögur til átta. Ég hafði samt tekið út tvö bleikjuflök úr frysti um morguninn og setti þau bæði í ofninn ásamt rauðlauk, blómkáli og rauðrófubita. Borðaði 1/4 af þessum gómsæta rétti, fór með 2x1/4 part með mér í vinnuna í gær og í dag og á enn eftir 1/4 sem ég annað hvort borða á eftir eða tek með mér í vinnuna á morgun.

Áður en ég fór í sund eftir vinnu í gær kom ég við í Elkó og fjárfesti í nýjum síma; Samsung Galaxy XCover Pro á rétt tæpar nítíuþúsund krónur. Er ekki enn búinn að opna pakkann og færa símkortið úr tæplega fimm ára gömlum gemsanum mínum. Ég er að spá í að fá annan hvorn soninn til að hjálpa mér við það að senda sem flest gögnin úr eldri símanum yfir í þann nýja.

Annars er ég nýkomin heim eftir skrepp í sjóinn við Nauthólsvík. Uppgötvaði, þegar ég var mætt í klefann, að ég var ekki með strandskóna og handskana. Lét það samt ekki stoppa mig. Dásamlegt að svamla um í sjónum. Eftir tæpan einn og hálfan tíma verð ég svo mætt á Valsvöllinn á heimaleik í Pepsídeild kvenna.

27.7.20

Ný vetrarúlpa

Ég var sótt rétt rúmlega eitt í gær og lá leiðin í heimahús á höfuðborgarsvæðinu þar sem sú fjórða var mætt úr annarri átt. "Aðkomubílarnir" voru skildir eftir en safnast saman í bílinn hjá þeirri sem við mættum hjá því hún var búin að panta það að vera bílstjórinn í ferðalaginu framundan. Fyrsta stopp, eftir að við vorum farnar úr borginni, var í Hveragerði. Þar var kíkt í tvær búðir og ég fjárfesti óvænt í nýrri vetrarúlpu sem var á mjög góðum afslætti. Næsta stopp var í Friðheimum við Reykholt. Þar vorum við heldur seint á ferðinni eða um það leyti sem átti að fara að loka. Margt var um manninn og við fengum tækifæri til að skoða okkur aðeins um. Ég hitti aðeins á annan eigandann, Knút Ármann, en hann er uppeldisbróðir mágs míns. Örstutt frá Friðheimum var staður þar sem hægt var að kaupa fersk ber. Ég keypti eina öskju af jarðaberjum og aðra af brómberjum. Næsta stopp var á hótelbarnum á hótel Geysi. Ég splæsti á mig einu hvítvínsglasi þar. Á slaginu klukkan sex komum við á eþíópíska veitingastaðinn Minilik á Flúðum þar sem við áttum pantað borð sem betur fer. Það urðu margir frá að hverfa sem "droppuðu" inn á þeim rúma klukkutíma sem við vorum á staðnum. Við pöntuðum hver sinn réttinn og fengum hann afgreiddan á stórum hringlaga snúningsdiski. Smökkuðum allar af öllum réttum og líkaði vel. Eftirréttinn fengum við okkur í ísbúð Huppu á Selfossi á leiðinni heim. Ævintýralega skemmtilegur dagur í góðum félagsskap.

26.7.20

Anna Sigríður Hjaltadóttir: Morgunstund

Þar sem örtilraun gærdagsins heppnaðist ákvað ég að gefa mér frekar tíma í að blogga og fresta eða sleppa sundferð í dag. Ég á frekar von á því að ekkert verði úr sundferð fyrst ég er ekki farin því ég er búin að ráðstafa deginum frá hádegi og fram á kvöld. Meira um það síðar.

Síðastliðinn miðvikudagsmorgun mætti ég til vinnu aftur eftir sex vikna sumarfrí. Vinnudagurinn leið frekar hratt. Við vorum búnar í fyrra fallinu. Ég var komin heim aftur um þrjú. Uþb klukkustund síðar fór ég í sund. Á fimmtudaginn var yfirferð á vélinni milli tólf og fjögur. Ég tók að mér að sitja yfir en hafði afþakkað að mæta eitthvað seinna í vinnuna. Þessi vinnudagur leið engu að síður frekar hratt. Ég gat líka notað hluta af yfirsetutímanum í prjónaskap og lestur. Einkabílstjórinn sótti mig í vinnuna um fjögur. Um hálfsex bauð ég bræðrunum á Pítuna í tilefni 24 ára afmælis þeirra. Og klukkan sjö var ég komin á Valsvöllinn þar sem "strákarnir mínir" unnu loksins sinn fyrsta heimasigur 3:0 á móti Fylki.

Vinnudagur föstudagsins byrjaði eiginlega á því að hafa þurfti samband við viðgerðarmann. Hann gat reyndar hjálpað fyrirliðanum að koma vélinni af stað í gegnum símann og við náðum að ljúka öllum verkefnum dagsins um tólf og fengum að fara heim fljótlega eftir það. Veðrið var megagott. Ég ákvað samt að skreppa í Nauthólsvíkina um fjögur til að skreppa í sjóinn áður en auglýst gong-stund milli 16:30-17 byrjaði. Það var nóg pláss í sjónum en engu að síður fullt af bílum á stæðunum og eiginlega fullt í skiptiklefanum. Var eitthvað að spá í að skipta um skoðun og fara frekar í sund en ég var ekki búin að fara í sjóinn í nokkra daga og hann kallaði meira á mig. Ég lagði bílnum við HR og gat svo notað ikea-pokann sem ég var með sjósundsdótið í undir fötin mín. Sjórinn var yndislegur en ég held ég hugsi mig mörgum sinnum um áður en ég fer aftur í Nauthólsvík á góðviðrisdegi þegar allir eru á svæðinu.

Morgunstund

25.7.20

Anna Sigríður Hjaltadóttir: Ekki enn búin að gefa mér tíma til að tileinkamér ...

Smá tilraun í gangi. Í gær skrapp ég í sjóinn upp úr klukkan fjögur. Sjórinn var góður en það var mjög margt um manninn enda mikil blíða. Í morgun fór ég í Laugardalslaugina milli kl. 8:50 og 11:10. Mestur tíminn fór í sólbað og spjall en ég synti í tæpar tuttugu mínútur og fór þrisvar sinnum í þann kalda líka.

Ekki enn búin að gefa mér tíma til að tileinkamér nýja bloggsniðmátið.

21.7.20

Dagsferð á Snæfellsnes

Rétt fyrir helgi var ég í sambandi við norsku esperanto vinkonu mína. Við höfum reyndar lítið sinnt þessu tilbúna tungumáli síðan um miðjan mars en hist af og til síðan í maílok og brallað ýmislegt annað saman. Vinátta okkar er ekki eingöngu háð sameiginlegum áhuga á espernato. Ég spurði hana hvort hún vildi koma með mér í smá ferðalag um Snæfellsnesið strax eftir helgi. Hún var strax til í það. Nokkru síðar sama dag hringdi hún í mig og sagði að maðurinn hennar væri til í að koma með ef það væri í lagi mín vegna sem það var.

Í gærmorgun var ég fyrir utan hjá þeim um níu. Hinni kvað sér hljóðst þegar þau hjónin komu út og var með þá tillögu að hann sæi um aksturinn og þá gætum við stöllur skrafaða saman í aftursætinu. Hann er vanur leigubílstjórin. Ég tók strax vel í þessa hugmynd. Vegna skjálftans upp á 5,1 rétt fyrir miðnætti kvöldið áður hafði Inger ekki sofið mjög vel og hún hafði orð á því þegar við vorum að nálgast Kjalarnes að henni væri ekkert um það að keyra Hvalfjarðargöngin. Okkur lá ekkert á og fannst bara fínasta hugmynd að keyra frekar fyrir Hvalfjörðinn. Þannig sluppum við líka við mikla umferð, amk þar til við beygðum aftur inn á þjóðveg 1. Þegar við vorum að nálgast afleggjarann að Stykkilshólmi þurftum við að ákveða hvort við myndum beygja eða halda áfram. Ákveðið var að halda áfram. Vorum búin að gera þrjú stutt stopp, eitt í Hvalfirði, annað í Borgarnesi og það þriðja við útsýnis og nestisstað þar sem einnig voru tveir kamrar. Fjórða stoppið var við kirkjuna við Búðir. Kirkjan er aðeins opin dagspart einu sinni í viku. Sá dagur var ekki í gær. En við löbbuðum niður að hótelinu og fengum að nota salernið. Svo héldum við áfram för að Arnarstapa. Þar lögðum við bílnum rétt við höfnina og gáfum okkur góðan tíma til að labba um svæðið og alveg yfir að Hellnum sem er aðeins í 2,5 km fjarlægð. Gáfum okkur góðan tíma í þetta. Man ekki hvað klukkan var þegar við héldum áfram för. Ég tók við stýrinu fljótlega. Við stoppuðum ekki aftur fyrr en við komum í Ólafsvík en keyrðum aðeins um þorpið Rif. Í Ólafsvík fórum við á veitingastaðinn Sker. Auglýst var 15% afsláttur af matseðli ef ferðagjöfin var notuð. Ég pantaði mér þriggja rétta máltíð kennd við skipstjóra og fékk mér kaffi með eftirréttinum. Þegar ég var að gera upp eftir matinn hugsaði ég ekki út í það að afgreiðslustúlkan gleymdi að reikna 15% afsláttinn af verðinu áður en ég borgaði með ferðagjöfinni. Borgaði 1250 kr. með korti og fór svo út og beið með Inger á meðan Hinni var að gera upp fyrir þau. Þegar hann kom lét hann mig hafa 650kr. til baka frá veitingastaðnum. Ég náði að skila ferðafélögunum af mér rétt eftir miðnætti. Þau voru alsæl með ferðina. Ég fékk að vita í ferðinni að þau tvö höfðu hist fyrst á þessum slóðum fyrir þrjátíu árum. Við hefðum ekki geta verið heppnari með veður og við vorum öll að velta því fyrir okkur að heimsækja þessar slóðir mun reglulegar.

Annars er þetta síðasti sumarfrísdagurinn minn í bili. Er búin að hafa það mjög gott í fríinu og gera alls konar. Ég á ennþá eftir að nota ferðagjöfina frá pabba sem og ferðagjöfina frá RB en það er enn tími til að nota þær.

18.7.20

Tími í alls konar og ekkert sérstakt

Í gær gat ég engan veginn ákveðið hvort ég ætti að fara í sund eða sjóinn og það endaði með því að ég gerði hvorugt. Oddur Smári fór á aukavakt í Kvikk í Öskjuhlíð rétt fyrir ellefu en hinn sonurinn er á frívakt fram á mánudag. Eftir alls konar dundur hér heimavið, bæði skylduverk og önnur mun skemmtilegri ákvað ég að skreppa á safnið og skila fimm bókum af sex. Eina af þessum fimm nennti ég ekki að lesa í þetta sinn og þótt ég gæti haft hana alveg fram að mánaðamótum og einn mánuð í viðbót ákvað ég að skila henni. Var komin með fimm bækur í hendurnar en ein af þeim var víst frátekin svo ég gat ekki fengið hana lánaða í þetta sinn; Hnífurinn eftir Jo Nesbö. Í staðinn freistaðist ég til þess að kom einnig við í Eymundsson og fjárfesta í nýjustu bókinni eftir Angelu Marsons, Blóðhefnd. Næst lagði ég leið mína í Löður vestur á Granda til að láta skrúbba burtu allan skít og dauðar flugur utan á bílnum. Áður en ég fór heim aftur kom ég við í Kvikk hjá Oddi.

Í morgun var ég ákveðin í að drífa mig í sund. Ég var samt ekki lögð af stað þegar gemsinn hringdi korter fyrir níu í morgun. Það var frænka mín og nafna, Anna Önfjörð, stödd í Berlín. Hún var að spyrja hvort ég gæti fóðrað inni kisuna þeirra Micaels 1.-4. ágúst n.k. í stað 26.-29. júlí. Ég taldi svo vera jafnvel þótt ég myndi hugsanlega skreppa út úr bænum yfir eina nótt.

Var mætt í Laugardalinn um hálftíu. Tveimur tímum seinna kom ég við hjá Oddi og sníkti af honum kaffibolla í þetta sinn. Fljótlega eftir að ég kom heim spurði Davíð Steinn mig hvort ég gæti skutlast með sig í Vesturröst. Hann og einn vinur hans eru að fara í veiðiferð seinni partinn og svo aftur á morgun.

17.7.20

Heima

Í gærmorgun fór ég á fætur um hálfátta. Þegar pabbi kom heim úr sundi um níu var ég að ljúka við að fella svarta sjalið handa Huldu af prjónunum. Gekk frá öllum endum, skolaði úr því, setti í þeytivinduna og breiddi og slétti úr því á stóra rúmið í stærsta herberginu. Síðan hellti ég mér upp á kaffi og lagði nokkra kapla í keppni við pabba. Um ellefu sagðist ég vera að hugsa mér til hreyfings. Pabbi spurði hvort hann mætti ekki bjóða mér upp á steik í Kanslaranum áður en ég legði í hann og ég þáði það boð. Strax eftir steikarferðina skruppum við feðgin í búðina að útrétta. Ég hlustaði svo róleg á hádegisfréttir áður en ég tók ferðadótið mitt saman og kvaddi pabba. Sagði honum að ég ætlaði alls ekki beinustu leið heim en myndi láta hann vita þegar ég væri komin þangað.

Beygði til vinstri af þjóðveginum eftir að ég kom yfir brúna yfir Þjórsá og tók smá hring. Kom inn á þjóðveginn aftur af Villingaholtsafleggjaranum nokkrum km. frá Selfossi. Ákvað að fylla á tankinn hjá Atlansolíu en stoppaði svo aðeins í Fossheiðinni, þáði kaffibolla, spjall og fékk að nota salernið áður en ég hélt bíltúrnum áfram. Keyrði Suðurstrandaveginn og gerði annað stopp í heimahúsi í Grindavík þar sem ég þáði tvo kaffibolla og meira spjall. Keyrði um Sandgerði, Garð og Hafnir. Stoppaði samt ekki aftur og var komin heim rétt fyrir sjö.

15.7.20

Ein frænka mín sjötug í dag

Í dag hefði mamma heitin orðið 76 ára. Ár er síðan við settum duftkerið niður í leiðið hjá "litlu"-Önnu. Frænkan sem fagnar sjö tugum í dag og mamma voru systkynadætur og mamma hélt því alltaf fram að hún hefði fengið þessa frænku sína í sex ára afmælisgjöf.

Annars lagði ég af stað úr bænum rétt upp úr klukkan tvö í gær, beygði inn afleggjarann við Ingólfsfjall og var komin í heimsókn til Ellu vinkonu um fjögur þar sem hún og Aðalsteinn voru og eru í sumarhúsi kennarasambandsins í landi Syðra-Langholts rétt hjá Flúðum. Tveir aðrir gestir voru á svæðinu. Ég stoppaði í næstum tvo tíma og var síðust af gestunum til að fara. Kláraði hring og beygði til vinstri á Skeiðavegamótum. Var komin á Hellu upp úr klukkan hálfsjö. Enginn var heima og allt læst en ég er með húslykil í fórum mínum sem ég notaði. Pabbi var að sækja Bríeti sem var að vinna í gær frá 7-19. Frænka mín bjargaði sér sjálf með kvöldhressingu á meðan við pabbi horfðum á fréttir á RÚV á tímaflakkinu. Ég fór síðust að sofa af okkur þremur, skreið upp í um hálfellefu og las í ca klukkustund í bók af safninu sem ég hef reyndar lesið áður; Þriðji engillinn eftir Alice Hoffman. Var sofnuð fyrir miðnætti en rumskaði aftur fyrir klukkan tvö. Svefninn varð eftir það svolítið slitróttur en ég steinsofnaði loksins rétt fyrir sjö í morgun. Fór á fætur um níu rétt áður en pabbi kom heim úr sundi. Hann fer aðeins á öðrum tímum í sund þegar hann er að skutla Bríeti á Hvolsvöll og hún á að mæta klukkan sjö í vinnu. Hann segir að það sé betra að skutla henni á sjö vakt og fara í sund beint á eftir en ef hún á að mæta í vinnu klukkan átta mætir hann klukkan hálfsjö og styttir rútínuna um einhverjar mínútur.

14.7.20

Valur - Stjarnan 0:0

Um hádegisbilið í gær sá ég skilaboð frá sjósundsvinkonu minni um hvort ég kæmi með í sjóinn seinni partinn. Ég var nýkomin úr sundi og sagðist sjá til, hafði það opið. Klukkan fjögur ákvað ég að drífa mig af stað í Nauthólsvíkina. Var komin þangað á undan Helgu Rún en hitti Betu, æskuvinkonu hennar, sem var með okkur í "Guðlaugar-ævintýrinu" um daginn. Við spjölluðum saman á meðan við biðum. Um hálffimm urðum við allar samferða í klefann. Veðrið var þannig að það voru margir sem fengu sömu hugmynd og við vorum eiginlega heppnar að fá körfur undir fötin okkar. Plássið í sjónum var feikinóg og við svömluðum, flutum, spjölluðum mikið og syntum rólega yfir að kaðli. Vorum í 13,5°C sjónum í tæpan hálftíma og nokkrar mínútur í lóninu, sem var heitara, áður en við enduðum um stund í heita pottinum. Um sex kom ég við hjá Oddi sem var á vaktinn hjá Kvikk. Splæsti á mig einni nauta-búrrítos og borðaði á staðnum áður en ég fór heim. Heima staldraði ég við í ca hálftíma áðut en ég rölti á völlinn. Var mætt vel tímanlega fyrir leik svo ég fengi örugglega sæti þar sem mig langaði. Markverðir liðanna héldu mörkunum hreinum svo það endaði með markalausu jafntefli.

Vaknaði um klukkan hálfsjö í morgun. kom mér fyrr á fætur en sl. daga og var mætt í Laugardalinn rétt upp úr klukkan átta. Náði aðeins að hitta á eina af Sigrúnunum á planinu fyrir utan en hún var að fara þegar ég var að mæta. Þrjár ferðir í kalda, 500m sund þar af 50 bakskrið, ein ferð í 42° og endaði á gufubaði og kaldri sturtu áður en ég fór inn og þvoði á mér hárið. Kom heim rétt fyrir tíu. Hellti upp á 2 bolla af kaffi og fékk mér smá hressingu. Korter fyrir ellefu labbaði ég svo út á Klamratún þar sem ég hitti norsku esperanto vinkonu mína, hennar mann og svo þær tvær sem ég hitti í sjónum í gær. Milli 11 og 11:40 var blönduð vel útfærð æfing af tæ chi og qi gong. Sú sem var að leiðbeina útskýrði bæði æfingar og öndunina mjög, mjög vel. Þegar ég kom til baka vakti ég einkabílstjórann til að senda hann í eina sorpuferð. Hann er svo að fara á vakt hjá Kvikk í Öskjuhlíð milli klukkan fjögur og átta en ég fer svo í heimsóknarskreppu til æskuvinkonu minnar sem er stödd í bústað á Flúðum þessa vikuna.

13.7.20

Leti

Fram eftir degi í gær var ég á leiðinni í sund. Var að sinna prjónaskap, lestri, sudokuþrautum og spjallaði auk þess við anna soninn eftir að hann kom fram úr "helli sínum". Um fimm leytið ákvað ég að úr því að svo langt var liðið á daginn gæti ég alveg eins frestað sundferð um einn dag. Davíð Steinn skrapp til pabba síns um miðjan dag en Oddur Smári ákvað að vera heima. Nennti líklega ekki út úr húsi frekar en ég. Í gærkvöldi horfði ég á heimildamyndina um fyrstu íslensku konuna sem synti yfir Ermasund ein. Hún var búin að fara tvær boðssundsferðir áður. Þetta var mikið afrek hjá henni og frábært að það skyldi vera gerð mynd um þetta ævintýri og aðdragandann að því.

Ég var vöknuð um hálfsjö í morgun en líkt og í gær ekki alveg tilbúin að fara strax á fætur. Upp úr klukkan níu bjó ég mér til hafragraut en ákvað að bíða með að hella upp á. Klukkutíma síðar var ég komin í Laugardalslaugina. Fór tvær ferðir í þann kalda (sem var í heitara lagi eða rúmar 13°) og eina í heitasta pottinn á milli áður en ég synti 500. Tvisvar í viðbót fór ég í þann kalda, í sjópottinn á milli, góða stund í gufuna og sat svo í sólbaði á eftir.

Kom við í Krónunni við Nóatún á leiðinni heim. Nú er ég búin að hella upp á og drekka tvo bolla af kaffi með hádegishressingunni. Ef ég verð ennþá í bænum um sjö leytið í kvöld skrepp ég líklega á völlinn að fylgjast með "strákunum mínum" í VAL taka á móti strákunum í Stjörnunni.

12.7.20

Heima í augnablikinu

Þegar ég lagði í hann á ellefta tímanum á miðvikudagsmorguninn var ákvað ég að fara upp Mosfellsdalinn í átt að Þingvöllum og af hálsinum niður í Hvalfjörð og keyra fyrir fjörðinn. Skemmtileg og falleg leið. Mér lá ekkert á og eina markmiðið var að koma ekkert of seint á áfangastað, Akureyri. Stoppaði við Baulu um eitt, fékk að nota salernisaðstöðuna og svo splæsti ég á mig fiskrétti. Ég stoppaði hvergi annars staðar á leiðinni þannig að ég var komin á áfangastað um fimm leytið. Systurdóttir mín tók á móti mér meikuð eins og ljón í framan, systir mín og mágur sátu úti að njóta blíðunnar sem og hundarnir þeirra sem voru tjóðraðir svo þeir gætu nú ekki stungið af. Ég settist með þeim með hvítt í glasi, hafði með mér tvær litlar flöskur norður. Mágur minn gafst fljótlega upp á sólinni og hundarnir voru að rápa út og inn en við systur sátum báðar útivið þegar nokkuð stór skjálfti reið yfir.

Systir mín var farin til vinnu þegar ég kom fram um hálfátta á fimmtudagsmorguninn. Mágur minn fór í sína vinnu um átta og stuttu seinna kom Hulda fram en hún átti að mæta í sína vinnu um níu. Við frænkur fengum okkur kaffi saman og höfðum góðan tíma í að spjalla. Rétt fyrir tíu lokaði ég hundana af, læsti á eftir mér útihurðinni með lykli sem Ingvi lét mig hafa kvöldið áður og fór í sundlaug Akureyrar. Þar gaf ég mér góðan tíma í köld "böð" en ég synti líka í tæpan hálftíma og sat í gufunni í góða stund eftir síðustu ferðina í kalda pottinn. Fékk skyndinugdettu þegar ég var að fara með sunddótið í bílinn. Náði í kreditkortið mitt og pantaði mér Svalbarðseyring og sódavatn með sítrónubragði í pulsuvagninum fyrir utan. Svalbarðseyringur er pulsa með kartöflusallati. Einn máfur kom mjög nálægt, spenntur ef ég skyldi nú missa eitthvað niður og áður en ég var búin kom formaður óháða safnaðarins úr sundi ásamt maka sínum. Ég hefði ekki hitt þau ef ég hefði ekki ákveðið að freistast í eina pulsu. Svo fór ég í bíltúr í áttina að jólahúsinu, framhjá því og alveg þangað sem malbikið endaði. Ákvað þá að snúa við og stoppa á Smámunasafninu. Þar stoppaði ég í góða tvo tíma. Var ráðlagt að horfa fyrst á heimildamyndina sem ég og gerði og svo labbaði ég í rólegheitum og skoðaði muni og myndir misvel. Splæsti á mig kaffi og vöfflu og fékk svo lykil að Saurbæjarkirkju. Eftir að hafa skoðað hana að utan og innan skilaði ég lyklinum og hélt áfram för til baka. Stoppaði næst við jólahúsið en þar var ég einungis í ca. hálftíma. Ingvi, Helga og Hulda voru öll komin heim þegar ég "skilaði" mér. Við systur fórum skömmu síðar í Fiskás þar sem ég keypti tvö væn þorskhnakkaflök. Steikti þau upp úr möndlumjöli og gufusauð blómkál og brokkolí með. Ég vissi ekki að möndlumjöl fer ekki vel í magann á Huldu en það var sem betur fer til kjötsúpa sem hún gat borðað í staðinn.

Á föstudagsmorguninn kom ég fram um svipað leyti og morguninn áður. Þegar Hulda kom fram sá hún um að hella upp á kaffi handa okkur frænkum. Ég fór svo aftur í sund. Var komin til baka fyrir klukkan eitt. Hleypti hundunum fram og út á verönd. Þeir nenntu ekki að vera lengi úti. Helga kom heim úr vinnu skömmu síðar. Við skruppum í búð og þegar mágur minn kom úr sinni vinnu fórum við með hundana á hundasvæðið við Blómsturvelli þar sem þeir gátu m.a. "hoppað" í sjóinn og sótt prik sem fannst á staðnum. Eftir að hafa hreyft hundana keyrðu þau með mig m.a. að Hlíðarfjalli. Ég kláraði seinni litlu hvítvínsflöskuna mína þegar við komum til baka.

Kvaddi klukkan hálftólf í gær og keyrði í gegnum Dalvík og Ólafsfjörð. Stoppaði örstutt á Siglufirði þar sem ég hitti á fyrsta grunnskólakennarann minn. Hélt svo áfram för. Var eitthvað að spá í að kom við í sundlauginni á Hofsósi en þegar til kom keyrði ég framhjá. Keyrði inn afleggjarann að Óslandi en þar voru ábúendur víst í dagsferð. Ég hafði ekki boðað komu mína og lét ekki vita af ferðum mínum. Tók aðeins mynd af tveimur heimalingum sem jörmuðu mikið og vildu að ég gerði eitthvað fyrir þá. Þrátt fyrir að hlandblaðran væri aðeins farin að kvarta keyrði ég áfram á Sauðárkrók (sem er lengra heldur en að snúa við og stoppa á Hofsósi) og það sem meira er ég stoppaði ekki fyrr en ég var komin á Blöndós. Fór þar á salernið á kaffihúsinu Teni sem er rétt hjá sundlauginni og keypti mér svo kaffi og sneið af ostaköku. Svo stoppaði ég ekki meir nema ég fyllti á tankinn á Atlantsolíustöðinni við Borgarnes.


8.7.20

Norður

Seinni partinn í gær heimsótti ég fyrrum samstarfskonu og staldraði við hjá henni til klukkan að verða níu eða hátt í fimm tíma. Við höfðum um margt að spjalla og tíminn flaug hratt. Ég hafði einhvern veginn búist við þessu því ég var með prjónana mína meðferðist og tók þá fram amk tvisvar sinnum. Lítill kjölturakki á heimilinu krafðist reyndar að fá athygli, klór og kjass. Varð auðvitað við þessum kröfum og fyrir vikið öll í hundahárum sem auðvelt var að rúlla af.

Á leiðinni heim hringdi ég í systur mína og spurði hvernig það legist í hana að fá næturgest í nokkra daga. Ég er að sjálfsögðu velkomin og mun fá afnot af herbergi yngri systurdóttur minnar. Ég hafði ætlað mér að skreppa í sund í morgun og var vöknuð um hálfsjö. Ákvað svo fljótlega að ég gæti alveg farið í sund einhvers staðar á leiðinni eða þá á Akureyri í fyrramálið. Hlustaði á morgunútvarp Rás2 milli sjö og átta.

Nú er ég nýbúin að borða staðgóðan hafragraut og drekka fyrsta kaffibolla dagsins. Stefni að því að leggja í hann einhvern tímann milli tíu og tólf. Báðir strákarnir eru heima, sofandi. Annar þeirra í vaktafríi (sá sem ég bjargaði í gær) en hinn á ekki vakt fyrr en milli fjögur og átta. Mun vekja þá til að kveðja svo þeir viti að ég sé á leiðinni út úr bænum í nokkra daga.

Eins og ég gat um í færslu gærdagsins mun bloggið líklega liggja niðri á meðan ég er á ferðinni. Kannski póstast eitthvað á Facebook í staðinn.

7.7.20

Sjöundisjöundi tuttugututtugu

Ég var komin í bæinn um rétt fyrir sex í gær. Báðir synir mínir voru að vinna. Á baðherberginu varð ég vör við það að allt hafi farið á flot og mörg handklæði notuð til að þurrka upp gólfið. Handklæðin voru rennblaut á ofninum og eitt í þvottakörfunni sem væntanlega hefur blotnað þegar "lak" úr sturtunni. Ég setti öll þessi blaut handklæði í þvottavélina og lét hana sjá um að þvo þau og vinda á meðan ég fór á Valsvöllinn og horfði á "stelpurnar mínar" vinna stelpurnar í Stjörnunni 3:0 í blíðviðrinu. Gat hengt upp þvottinn þegar ég kom heim af leiknum upp úr klukkan níu. Báðir strákarnir voru komnir heim og annar þeirra fór beint að sofa.

Í morgun var ég vöknuð um sex en var svolítið lengi að koma mér á fætur eða rúmlega klukkustund. Það kom Davíð Steini til góða því hann hafði sofið yfir sig og í stað þess að verða seinn á vaktina 7:30-19:30 sá ég til þess að hann var mættur á slaginu hálfátta áður en ég fór í sund. Kom heim úr sundi um hálftíu. Bjó mér til hafragraut og hellti mér upp á tvo bolla af kaffi. Var svo mætt á Klambratún um ellefu og tók þátt í Qi gong æfingu.

Hugurinn er annars farinn að leita norður á bóginn og það gæti farið svo að ég elti hann þangað mjög fljótlega og það gæti leitt til þess að ég verði ekki nálægt tölvu í nokkra daga.

6.7.20

Bongóblíða

Pabbi skutlaði dótturdóttur sinni í vinnuna, SS á Hvolsvöll, rétt fyrir átta í morgun. Þá var hann búinn að fara í sund, kalda karið, rennibrautina, gufu og fá sér smá kaffi í sundlauginni á Hellu. Bríet tók með sér hluti sem gott er að hafa ef gista á annars staðar yfir nótt en það ætlar hún einmitt að gera. Labbar til vinafólks foreldra sinna eftir vinnu. Pabbi á að mæta með bílinn í ársskoðun til Brimborgar í fyrramálið og mun leggja af stað í bæinn um það leyti sem hann væri að mæta í sund. Hann mun svo sækja Bríeti á Hvolsvöll rétt fyrir fimm á morgun. Ég er fyrir austan í augnablikinu en stefni að því að mæta á Valsvöllinn upp úr klukkan sjö á leik Vals og Stjörnunnar í Pepsí-Max deild kvenna.

Settist út á pall um tíu í morgun í rúma klukkustund með prjónana og kaffi í bolla. Var alveg að bráðna þegar pabbi bauð mér að koma með sér í Kanslarann um hálftólf. Komum við í búðinni á leiðinni til baka. Settist aftur út á pall rétt fyrir eitt og það var bara búið að hitna ef eitthvað var. Pabbi sat með mér í góða stund. Vorum semsagt bæði að safna D vítamíni.

5.7.20

Komin á Hellu

Um fimm leytið seinni partinn í gær skutlaði einkabílstjórinn mér vestur í bæ í matarboð til nöfnu minnar og frænku. Hann notaði ferðina í að fara með rusl og ónýtan/brotinn stól í sorpu. Ég færði Önnu flösku af hvítvíni og gaf henni einnig tækifæri til að velja á milli tveggja sjala. Annað sjalið var í fjólubláum litum og hitt í grænum litum með smá svörtu í báða enda. Nafna mín og breskur kærasti hennar hjálpuðust að við að undirbúa kvöldmatinn og fylgdist með og spjallaði við þau á meðan. Þau eru með eina tólf ára innikisu sem vildi alveg tala og leika við mig. Heimsóknin varði í rúma fjóra tíma og áður en ég kvaddi lét frænka mín mig hafa húslyklana sína svo ég geti heimsótt og gefið kisunni fjóra daga í lok mánaðarins þegar þau verða hvorugt heima við.

Í morgun var ég mætt í Laugardalslaugina strax klukkan átta. Fór þrisvar í þann kalda, synti og sólaði mig. Náði að fara heim og hengja upp sunddótið áður en ég fór á flugvöllinn að sækja systur dóttur mína um hálftólf. Var með dótið mitt tilbúið í skottinu en við stoppuðum við í Kvikk þar sem Oddur Smári gaf mér kaffibolla.

Við frænkur vorum komnar á Hellu um hálfeitt og við erum búnar að ná að steikja nokkrar pönnsur til að hafa með kaffinu núna rétt á eftir.

4.7.20

Kæling og sundsprettur

Ætla rétt að geta þess að rétt eftir að ég steig á land í Viðey á fimmtudaginn var hringdi gemsinn. Á línunni var eigandi iPad-sins sem var í mínum fórum frá því að kvöldi dags þann 20. júní sl. og þar til ég setti hann í póst á mánudagsmorguninn var. Eigandinn var að láta mig vita að gripurinn hafði skilað sér heim óskaddaður. Eigandinn var að vonum glaður og vildi helst fá að borga mér kostnaðinn vegna sendingarinnar til baka. Ég sagðist frekar vilja fá að kíkja í heimsókn þegar ég verð næst á ferðinni vestur.

Var vöknuð fyrir sjö í morgun. Gaf mér góðan tíma til að koma mér á fætur en var engu að síður lögð af stað í sund um átta. Í Laugardalnum dembdi ég mér beint í kalda pottinn í 2 mínútur, synti 500m og fór svo aftur í þann kalda í 3 mínútur. Allt í allt fór ég fjórum sinnum í þann kalda og endaði svo á því að sitja í gufunni í næstum því korter.

Báðir bræðurnir eru að vinna. Oddur var farinn úr húsi upp úr klukkan hálfátta og ég mætti Davíð Steini þegar ég var að koma heim úr sundi um hálfellefu.

3.7.20

Nauthólsvík

Ég var vöknuð fyrir klukkan sjö í morgun og komin á fætur nokkru áður en klukkan varð átta. Bjó mér til hafragraut fljótlega. Borðaði helminginn af skammtinum og gekk frá hinum helmingnum í dall inn í ísskáp. Setti fljótlega í þvottavél og hellti mér upp á tvo bolla af kaffi. Svo hafði ég ágæta stund sem ég notaði til að lesa. Sjósundsvinkona mín sótti mig tuttugu mínútur fyrir tíu. Ég fór með poka af sjölum með mér til að leyfa henni að skoða og velja og hún þáði eitt sjal. Hefði helst viljað fá að borga fyrir það en hún gaf mér ennisband til að nota í sjósundinu um daginn og svo mátti ég ekki borga hlut í bensínkostnaðinum þegar við fórum í ferðina á sunnudaginn var.

Sjórinn var 14,1°C í morgun 0,9 gráðum kaldari en í gær en samt næstum því of heitur eða þannig. Það var mikil fjara og það endaði með því að við stöllur svömluðum alla leið að þar sem fólk er að synda til og frá. Mikill þari var aðeins að þvælast fyrir okkur en það var allt í góðu lagi. Klifruðum upp smá klappir og skelltum okkur aðeins í lónið sem var örugglega einhverjum gráðum heitara en sjálfur sjórinn. Höfðum um margt að spjalla en pössuðum samt upp á að gleyma ekki tímanum því þrátt fyrir að hún væri í smá fríi hafði hún verið boðuð á vinnufund um hálftólf.

2.7.20

Dagsferð í Viðey

Það endaði með því að ég lauk við að lesa síðustu bókina af safninu áður en ég fór að gera nokkuð annað í gærmorgun. Rétt fyrir tólf fór á safnið og skilaði öllum bókunum sjö og fékk að láni 6 aðrar í staðinn, allt bækur sem þarf ekki að skila fyrr en 31. júlí n.k. Er þegar byrjuð að lesa bókina Refurinn eftir Sólveigu Pálsdóttur. Annars keypti ég mér kilju eftir Vivecu Sten Ísköld augnablik: tíu sögur úr skerjagarðinu áður en ég fór í ferðalagið um daginn. Byrjaði loksins á þeirri bók í gær.

En eftir ferðina á safnið lagði ég leiðina í vöruhús Gorillas í Vatnagörðum að sækja pakka fyrir systur mína og mág. Þau komu við í gærkvöldi á leiðinni norður til að taka með sér pakkann. Frá Vatnagörðum fór ég í Laugardalslaugina til að synda, pottormast og slaka vel á í gufunni. Verslaði svo inn á leiðinni heim.

Ákvað að taka því rólega til að byrja með í morgun. Var þó komin á fætur fyrir klukkan níu. Gerði mér ferð í vínbúðina í Skeifunni um tíu og keypti mér fjórar litlar hvítvínsflöskur. Útbjó mér nesti og pakkaði ýmsu niður í rauða bakpokann. Rétt fyrir ellefu labbaði ég af stað í Hörpuna. Þar ætlaði ég að kaupa miða í Viðeyjarferjuna kl. 12 en það opnar ekki í Hörpunni fyrr en klukkan tólf. Þær tvær sem ég ætlaði að vera samferða út í eyju voru á leiðinni að Gömlu höfninni. Þar átti ferjan að fara kl. 11:50. Ég náði að komast þangað í tíma og við vorum komnar í Viðey um hálfeitt. Löbbuðum, strandleiðina áleiðis að skólanum. Settumst niður rétt við vatnstankinn, fengum okkur af nestinu og drukkum rautt og hvítt með. Fórum á snyrtinguna í skólanum og skoðuðum okkur um þar inni. Löbbuðum slóðann til baka og skoðuðum m.a. friðarsúluna áður en við keyptum okkur smá hressingu og settumst fyrir utan Viðeyjarstofu. Hinar tvær tóku einn göngutúr enn, en ég ákvað að taka frekar fram bók og lesa. Síðasta ferðin sem fór á Gömlu höfnina var klukkan hálfsex. Það fara þrjár ferðir þangað á dag en 6 eða 7 ferðir á klukkutíma fresti milli Skarfabakka og Viðey. Ég fékk að hoppa af bátnum á Norðurbakka við Hörpu. Ákvað fljótlega að hringja í einkabílstjórann og hann var til í að sækja mig. Er búin að ganga vel yfir 18000 skref í dag.

1.7.20

Árið uþb hálfnað

Í dag er hundraðáttugastiogþriðji dagur ársins og að honum liðnum eru eftir 183 dagar af þessu mjög svo öðruvísi ári (það sem af er) 2020. Það fór nú svo að ég fór ekkert aftur út í góða veðrið í fyrradag en ákvað samt að hafa ekkert samviskubit yfir því. Ég sökkti mér niður í næstsíðustu bókina af safninu, Ósk, sem ég hef reyndar lesið áður. Mæli 100% með þessari bók. Ég er að sjálsögðu búin að ljúka við hana og strax rúmlega hálfnuð með þá síðustu af safninu, spennubók eftir Kristinu Ohlsson.

Ég fór hvorki í sund né sjóinn í gær en ég skrapp á Qi gong æfingu á Miklatún um ellefu í gærmorgun. Björn Bjarnason leiddi æfinguna byggða á tækninni sem Gunnar heitinn Eyjólfsson setti saman í bók. Það voru tugir manns sem komu og tóku þátt og orkan var mjög mikil og góð. Hitti eina úr morgunhópnum í sundi sem og norsku esperanto vinkonu mína og manninn hennar.

Helga systir hringdi rétt áður en æfingin hófst. Ég hringdi til baka um tólf. Hún og pabbi voru á ferðinni í bænum á mánudaginn. Fyrsti í læknisheimsókn og svo tókst Helgu að draga pabba í heimsókn til eins frænda okkar systra sem er skyldur okkur í gegnum mömmu. Í læknisheimsókninni fékk pabbi þær fréttir að blöðruhálsinn er hreinn. Hann þarf að vera áfram á sýklalyfjum og fékk svo tíma í blöðruspeglun einhvern tímann í ágúst.