11.12.08

- Þrettán dagar til jóla -

Ég var "tekin úr umferð" í seinni partinn í síðustu viku. Kvefið náði slíkum heljartökum á mér að ég svaf í næstum tvo daga. Þótt maður hafi farið á ról upp úr helginni hefur orkan ekki verið nema rétt til að fara í og úr vinnu og sinna hinum allra nauðsynlegustu heimilisstörfum. Ég komst þó á kóræfingu í gærkvöldi og var bara nokkuð sátt við sönghljóðin sem ég gaf frá mér - talröddin er ekki alveg komin ennþá. Ég er semsagt ekki byrjuð að skrifa jólakortin og það endar líklega líka með því að það verði bara skrifað á kort en ekki sendar neinar myndir með að þessu sinni. En það verður þá bara að vera svo. Ég bara nenni ekki að vera að stressa mig of mikið útaf þessu, það er nóg samt.

N.k. sunnudagskvöld verður haldið aðventukvöld í kirkjunni minni. Við fáum kirkjukór Fríkirkjunnar í Reykjavík í heimsókn sem syngur bæði fyrir okkur og með okkur og ræðumaður kvöldsins verður "Siggi Stormur"! Á eftir verður boðið upp á svartbaunaseiði og smákökusmakk skilst mér. Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir og aðgangur er fríkeypis.

1.12.08

- Það er kominn desember -

Helgin leið með ógnarhraða. Skrapp til esperanto vinkonu minnar um ellefu á laugardagsmorguninn. Frá henni trítlaði ég yfir í Þórshamar og fylgdist með karatestráknum á karateæfingu. Hinn helmingurinn af fjölskyldunni var í kirkjunni, maðurinn að afhenda miða á tónleika og söngfuglinn á lokaæfingunni fyrir tónleikatörnina. Þeir biðu fyrir utan þegar við mæðginin komum út úr karateheimilinu. Söngfuglinn var á leið í bekkjarafmæli eins bekkjarbróður síns. Það byrjaði í fimleikaheimilinu Björk í Hafnarfirði en svo voru afmælisgestir ferjaðir heim til afmælisbarnsins þar sem veislan hélt áfram.

Í gærmorgun dreif ég mig í sunnudagaskólann í Grafarvogskirkju. Hulda frænka og Kristín Una bróðurdóttir mágs míns, sýndu helgileik um fæðingu Jesú og sungu með kórunum sínum. Þetta var svo flott hjá stelpunum að ég táraðist. Kom við í búð á heimleiðinni. Ég ákvað svo að vera heima um kvöldið og reyna að fara vel með mig í von um að ég slyppi að mestu við þessa óþverra hálsbólgu og kvefpest sem er að ganga. Aftur á móti fóru allir feðgarnir á tónleikana, einn til að syngja, annar til að afhenda miða og einn til að hjálpa til við að útbýtta efnisskrám. Kirkjan var næstum full og mér skilst að drengjakórinn hafi staðið sig með sóma, eins og þeirra er von og vísa. Næstu tónleikar eru klukkan átta á miðvikudagskvöldið. Ég kemst ekki heldur þá, því ég verð á kóræfingu að æfa fyrir aðventukvöldið í óháðu kirkjunni. En ég fer pottþétt á síðustu tónleikana, klukkan fimm þann 7. des. n.k.

Klæddi mig últra vel áður en ég arkaði í vinnuna á áttunda tímanum í morgun. Um hádegi skrapp ég í bankann og lagði inn tónleika- og kerta- og diskasölu peninga á reikninga kórsins. Klukkan var að verða fimm þegar ég var laus úr vinnu. Það var ekki eins kalt á göngunni og í morgun. Þegar ég svo skráði göngu dagsins á vef Lífshlaupsins poppaði upp rammi með hamingjuóskum og tilkynningu um að ég væri búin að vinna til gullverðlauna.

29.11.08

- Úr fortíð til framtíðar -
skólaleikrit 7HLE

En fyrst smá formáli. Sl. fimmtudag var ég á sprettinum eftir að ég kom heim úr vinnu. Þar sem Davíð var lasinn var bíllinn heima og þegar ég var búin að kanna hvað var til í bakstur og gera lista dreif ég mig í smá verslunarleiðangur. Á heimleiðinni kom ég við í Borgarbókasafninu í Grófinni, skilaði inn þremur af fjórum bókum og kom með heldur fleiri heim í staðinn. Er heim kom fór ég strax að undirbúa kvöldmatinn, steiktar kjúklingabringur og kartöflubáta. Hræði í eina kókosköku með eplum og notaði sama hráefni og tveimur kvöldum áður nema ég notaði gróft spelt í staðinn fyrir fínt speltmjöl. Kakan bakaðist á meðan fjölskyldan borðaði. Eftir kvöldmat og uppvask útbjó ég deig í konfektkúlur og fékk tvíburana til að kúla það upp og velta upp úr kókosmjöli á meðan ég bakaði tvær smákökusortir. Þeir voru reyndar búnir með sitt verk nokkuð á undan mér en ég þurfti líka að bíða eftir ofninum og vaska upp inn á milli.

Í gærkvöldi buðu krakkarnir í sjöunda HLE foreldrum sínum, systkynum og öðrum náskyldum ættingjum á leikritið "Úr fortíð til framtíðar" sem er samið, staðfært og leikstýrt af Sigríði tónmenntakennara í Hlíðaskóla. Davíð Steinn lék m.a. Indriða, smaladreng frá 1850 og las kafla úr framhaldssögunni Bör Börsson í "útvarpið". Einnig var hann forsöngvari í einu laginu sem sungið var í leikritinu en leikritið bauð upp á sögumann, marga stutta leikna kafla, söng og dans. Söngfuglinn minn og hans bekkjarfélagar stóðu sig alveg jafnvel og karatestrákurinn og hans bekkjarfélagar og eins og þrjú undanfarin ár var virkilega skemmtilegt að fá tækifæri til að fara á og bera saman tvær samskonar sýningar.

26.11.08

- Úr fortíð til framtíðar -
Skólaleikrit í 7BH

En fyrst smá um gærdaginn sem var bæði langur og annasamur. Aldrei þessu vant fór ég á bíl í vinnuna. Davíð hefur verið lasinn síðann á sunnudaginn og hann bað mig um að skila inn pappír um riffil sem hann keypti af bróður sínum til að fá hann skráðann á sig. Notaði tækifærið rétt upp úr hádeginu í gær og skrapp fyrst í bankann að leggja inn í kaffisjóð óháða kórsins og eitthvað af kertapeningum áður en ég renndi við í Borgartúni 7B og skilaði inn plagginu fyrir manninn minn. Hann verður svo að sækja það sjálfur þegar hann getur. Kom heim um hálffimm og byrjaði á því að setjast í "húsbóndastólinn" með bók sem ég var að lesa (Jane Austin leshringurinn, mæli með henni...) og láta líða aðeins úr mér. Um hálfsex fór ég að huga að matargerð, var með steiktan karfa með hrísgrjónum og lauk í olíu. Maturinn var tilbúinn um hálfsjö en þá varð ég að setja á "hold" og drífa mig að sækja tvo úr frjálsum. Þeir voru ekkert að flýta sér út og ég var farin að halda að þeir hefðu ekkert farið í tíma. Þeir komu loksins út rúmum tuttugu mínútum eftir að tíminn var búinn. Skutlaði þeim heim og fór svo og sótti karatestrákinn. Ég þurfti líka að bíða góða stund eftir honum því bæði dróst æfingin aðeins á langinn og svo þurfti hann að rökræða aðeins við einn félaga sinn. En við settumst öll að borðum upp úr hálfátta og þótti maturinn góður. Söngfuglinn fékk sér tvisvar á diskinn en það gerist ekki oft, hvað þá þegar er fiskur. Strax eftir matinn hrærði ég í kókosköku með eplum (notaði izio4 í stað smjörlíkis, hrásykur í stað hvíts sykurs og fínt speltmjöl í stað hveitis) og á meðan hún var að bakast vaskaði ég upp með aðstoð mannsins míns. Fljótlega eftir að kakan var bökuð fór ég á keiluæfingu.

Á heimleið í dag keypti ég drykki til að taka með í skólann. Söngfuglinn fór hjólandi á kóræfingu í Hallgrímskirkju en við hin fórum að sjá skólaleikritið hjá bekknum hans Odds Smára. Tengdó og Teddi voru mætt þegar ég kom. Davið kom aðeins á eftir mér því hann var að ganga frá miðum á jólatónleika Módettu kórsins og DKR. Hann var þó kominn áður en leikritið hófst. Krakkarnir í 7BH stóðu sig með miklum sóma. Tvisvar eða þrisvar lentu þau í vandræðum því þau fóru aðeins út af sporinu eða gleymdu næstu línum en þau björguðu sér vel út þessu. Oddur Smári var í mörgum hlutverkum. Hann lék á blokkflautu í hljómsveitinni í upphafsatriðinu, áður en leikritið var kynnt. Hann lék sveitastrák/mann, í lopapeysu, síðan fyrir aldamótin 1900, hann var maður sem ekki vildi kaupa símann þegar sölumaður bankaði upp á, hann lék XXX náunga úr framtíðinni og hann lék nútíma pabba. Öll stóðu krakkarnir sig vel og var þetta skemmtilegt kvöld. Á eftir var "ráðist" á hlaðborðið. Ég rétt kom við heima að sækja nóturnar mínar og fór eiginlega beint á kóræfingu.

24.11.08

- Jólahlaðborð með gistingu -
og kannski smá meira

Svaf aðeins fram á morguninn á laugardaginn var, svo langt að ég varð að hætta við að skreppa til Esperantovinkonu minnar því við fjölskyldan þurftum að taka okkur til og búa okkur undir nótt að heiman. Kvöldið áður fóru feðgarnir og nafnarnir saman á kvöldvöku hjá DKR. Við karatestrákurinn vorum heima og ég var hvorki að taka til neitt flókið í kvöldmatinn né að nenna vaska upp eftir matinn. Höfðum ommilettu með túnfisk, lauk og sætum kartöflum. Þannig að ég átti líka eftir að vaska upp á laugardagsmorguninn. Karatestrákurinn fékkst alveg til að hjálpa mér við það verk.

Lokuðum húsdyrunum á eftir okkur um eitt og brunuðum fyrst á Bakkann. Þar voru bræður skildir eftir, hjá föðurforeldrum sínum. Við hjónin þáðum einn kaffibolla eða tvo áður en við héldum áfram austur á Hvolsvöll. Klukkan var aðeins byrjuð að ganga fjögur er við skráðum okkur inn á hótelið þar, langfyrst af öllum hópnum, vinnufélögum Davíðs og þeirra mökum. Við prófuðum herbergið og létum fara vel um okkur næstu tímana. Á áttunda tímanum fórum við á hótelbarinn og fengum okkur einn fordrykk á meðan við biðum eftir að fleiri úr hópnum mættu á staðinn. Með mökum vorum við tólf og allir mættu. Áður en klukkan sló átta vorum við byrjuð að raða í okkur alls kyns forréttum af hlaðborði. Fleiri hópar voru á staðnum, m.a. stór hópur sem merktur var Latibær. Ekki sáum við samt íþróttaálfinn eða Glanna glæp þar á meðal, né heldur Sollu stirðu, Sigga sæta og hinar persónurnar úr þeim heimsfræga bæ. Ég fór tvær ferðir í forréttina og köldu réttina, eina ferð í heitu réttina og eina ferð í eftir réttina. Maturinn var þokkalegur, margt alveg ágætt en sumt virtist hreinlega ekki vera rétt meðhöndlað. Kannski vorum við svolítið lituð af því hversu hlaðborðið á Hótel Rangá var rosalega gott í fyrra. Enginn virtist vera í mjög miklu ballstuði eftir að hafa kýlt vömbina en við Davíð vorum síðust til að fara inn á herbergi, rétt fyrir miðnætti.

Í gærmorgun kúrðum við langt fram á morgun, svo langt að við slepptum því að mæta í morgunmatinn. Áður en við fórum að sækja strákana skiluðum við af okkur kertum í næstu sveit og stoppuðum þar allgóða stund enda langt síðan við komum þangað síðast.

En aðeins að öðru máli. Um mánaðamótin febrúar/mars sl. skráði ég mig í vinnustaðakeppni í Lífshlaupinu. Keppnin stóð yfir í tíu daga en ég hélt áfram að skrá niður hvers kyns hreyfingu samviskusamlega. Lágmark verður að hreyfa sig í 30 mínútur til að mega skrá hreyfinguna. Nokkrum dögum eftir að ég var búin að skrá hreyfingu í 42 daga, fékk ég sent bronsmerki og viðurkenningarskjal í pósti, mér óskað til hamingju með árangurinn og ég hvött til að halda áfram. Eftir 84 daga skráða hreyfingu fékk ég sent silfurmerki og annað viðurkenningarskjal. Gull
Til að ná gullmerki þarf að skrá a.m.k. 30 mínútna hreyfingu í 252 daga sem er hægt að ná á 9 mánuðum. En ég er einmitt byrjuð að telja niður í gullið sbr. stöðuna eins og hún er eftir skráða hreyfingu dagsins í dag (60 mín. göngu í og úr vinnu eða 2x30 mín):
Anna Sigríður Hjaltadóttir 246 dagar 12.800 mínútur. Þetta eru svona 52 mínútur að meðaltali. Og nú þarf aðeins að skrá sex daga enn og það takmark næst á sunnudaginn, ef ég hreyfi mig á hverjum degi þangað til og líka sunnudaginn sjálfan. Þetta er semsagt alveg að hafast. Oftast hef ég skráð gönguna í og úr vinnu en það hefur komið fyrir að ég hef farið í sund og synt í 30 mín. og þá frekar skráð sundið heldur en gönguna. Einnig skrái ég stundum hreyfingu sem annað en það er blönduð hreyfing innan hús og utan.

21.11.08

- Helgin alveg að skella á -

Á mánudagskvöldið var fór ég með kerti til Lilju vinkonu. Hún keypti 5 pakka af söngfuglinum. Ég tók líka handavinnuna með mér. Ég saumaði út jóladúkinn sem ég er langt komin með en hún prjónaði jólagjafir. Einnig tók ég með mér þau jólakort sem ég var búin að búa til og sýndi henni. Hún sýndi mér þau sem hún hefur verið að búa til og gaf mér alveg nýja hugmynd sem ég nýtti svo á jólakortagerðarkvöldi með tvíburahálfsystur minni í gærkvöldi. Límdi litla límmiða á þykkan pappír. Klippti límmiðann út og setti "þrívíddarpúða" undir og festi á aðeins stærra blað sem ég var búin að líma á jólakortið. Bæði þessi kvöld voru virkilega notaleg og skemmtileg og varð mér ágætlega úr verki, bjó til átta jólakort í gærkvöldi sem flest voru unnin út frá hugmyndinni frá Lilju.
Á þriðjudagskvöldið skutlaðist ég með strákana í Norðurmýrina þar sem þeir seldu nokkra kertapakka á rúmum klukkutíma. Skutlaði þeim heim rétt fyrir tíu og fór sjálf á keiluæfingu.
Kóræfingin á miðvikudaginn var helguð léttmessunni sem verður á sunnudaginn kemur og fyrsta klukkutímann æfðu með okkur strákar sem spiluðu á kontrabassa og trommur. Messan verður án efa mjög létt og skemmtileg en því miður missi ég af henni. Hugsanlega mun ég fara út í þá sálma síðar.
Góða helgi og farið alltaf vel með ykkur!

17.11.08

- Lagt inn í bankann -

Ég fékk bæði SMS og tölvupóst frá blóðbankanum í morgun. Þar að auki var ég einmitt að hugsa um þann banka á leiðinni í vinnuna í morgun og fann það út að það væru að verða fimm mánuðir síðan ég lagði inn síðast. Ég lagði því leið mína í blóðbankann seinni partinn. Við síðustu gjöf kom í ljós að ég var svolítið lág í járni þannig að ég fékk með mér járntöflur heim. Að öðru leyti var allt í fína lagi og ég fór heim ca. hálfu kílói léttari...

16.11.08

- Sunnudagskvöld framundan -

Enn ein helgin er næstum liðin og mér finnst sem hún sé nýbyrjuð. Þegar vinnu lauk sl. föstudag safnaðist stór hluti vinnufélaga minna saman og eftir léttar veitingar var okkur skipt niður í tíu hópa sem voru sendir af stað í ratleik um allan miðbæinn til að finna tíu staði og svara nokkrum spurningum í leiðinni. Fórum af stað með vísbendingu um hvar eina stöðina væri að finna (hver hópur fékk vísbendingu um einhvern af stöðunum tíu, enginn hópur var sendur á sama staðinn í fyrstu). Á hverjum stað var vísbending um hvar næstu stöð væri að finna og einnig þurfti að spreyta sig á og svara nokkrum spurningum. Þetta var bara skemmtilegt og fín hreyfing í leiðinni. Eftir ratleikinn lá leiðin á veitingastaðinn Skólabrú. Þar var hlaðborð, verðlaunaafhending og Bjarni Arason tók nokkur lög. Kvöldið leið mjög fljótt en um miðnætti voru ekki margir eftir. Fór með þeim síðustu yfir á Vínbarinn en staldraði ekki lengi við þar. Var svo heppin að Davíð var enn á fótum þegar ég ákvað að kominn væri tími til að drífa sig heim og hann sótti mig.

Í gær hitti ég esperanto vinkonu mína klukkutíma seinna heldur en venjulega eða um hálftólf. Var komin heim áður en karatestrákurinn var búinn á æfingu. Fljótlega eftir að hann var búinn skelltum við okkur austur á Hellu. Þar voru fyrir Helga systir og hennar fjölskylda. Eftir kaffihressingu trítlaði ég yfir á elliheimilið og hitti bæði föðursystkyni mín sem þar búa, tvær eldri konur sem ég er búin að þekkja síðan um fermingu en þær tengdust sveitinni sem ég var í sumarið 1982 og einnig hitti ég mann sem keyrði mig í skólann frá Heiði, í nokkur skipti árin sem við vorum ekki flutt á Hellu. Heilsaði líka gamalli konu með kossi svo hún yrði ekki útundan en hún var þarna í hópnum. Sú var svo hrifin af kveðju minni að hún þurfti heilmikið að spjalla og spyrja, en það var líka í góðu lagi. Við fjölskyldan horfðum á Spaugstofuna áður en við kvöddum og drifum okkur í bæinn.

Vakti söngfuglinn um hálfníu í morgun og sendi hann í sturtu. Skutlaði honum í kirkjuna klukkutíma síðar og notaði tækifærið og tók fleiri kerti til að selja. Við Davíð þurftum svo að skipta okkur niður hann skutlaði mér í messu en fór svo með karatestráknum á Grand Prixmót í kumite og kata í Seljaskóla. Þeir komu ekki heim fyrr en um fimm. Strákurinn tapaði naumlega í kötunni, það fór 3:2 fyrir hinum sem keppti við hann. Hann tapaði líka kumite keppninni naumlega en þeir voru bara fjórir að keppa og þeir sem töpuðu féllust á að deila frekar þriðja sætinu heldur en keppa um hvor ætti meiri rétt á því. Leiðinlegt annars að geta ekki verið á tveimur stöðum í einu en eftir að ég kom heim eftir messuna ákvað ég frekar að taka aðeins til hendinni hér heima...

Davíð Steinn annar söngfélagi hans fóru saman í söluherferð á fimmtudagskvöldið var og aftur seinni partinn í dag. Minn strákur seldi 16 kertapakka á fimmtudagskvöldið og átta pakka í dag. Hann er ekki hættur en nú eru eiginlega bara vínrauð og antikhvít kerti eftir. Hann er búinn að setja sér það markmið að selja 100 kertapakka, sem er nokkuð minna heldur en venjulega (ekki mikið minna þó) en hann vantar bara að selja um 20 pakka til að ná markmiðinu. Það ætti alveg að nást því hann hefur frest fram til 5. des. n.k.

12.11.08

- Spilakvöld með 7BH -
-og sitthvað fleira -

Síðast liðið mánudagskvöld var haldið spilakvöld með bekknum hans Odds Smára, eitthvað af foreldrum sem og systkynum. Kennarinn hans lánaði okkur, sem erum í foreldraráði bekkjarins, lykla af skólanum um hálfsjö. Reyndar var skólinn opinn og mjög ásetinn en við fengum matsalinn til umráða. Helltum upp á á kaffistofu kennara og tókum einnig með okkur heitt og kalt vatn. Tvíburarnir voru báðir á æfingum en Davíð sá um að sækja þá og þeir feðgar mættu upp í skóla rétt fyrir hálfátta. Mæting meðal bekkjarins var þokkalega góð en það voru heldur færri foreldrar sem mættu. Engu að síður tókst kvöldið alveg ágætlega. Alls kyns spil voru í gangi; venjuleg spil, parýspil, yatsý. Oddur Smári valdi að taka með og spila krossgátuspilið "scrabble". Davíð Steinn spilaði "mastermind" við einn bekkjabróður Odds en pabbi hins stráksins spilaði "scrabble" við okkur hin í staðinn. Pabbarnir spiluðu seinna saman "mastermind". Samkoman leystist upp laust fyrir klukkan níu.

Í gærkvöldi mætti ég á keiluæfingu með átta vinnufélögum mínum, en það var liðinn næstum því mánuður síðan ég spilaði keilu síðast. Ein æfing féll niður, kvöldið sem RB fór á "Fló á skinni" og svo komst ég ekki síðustu tvo þriðjudaga.

Er á leið á kóræfingu á eftir en í lokin verð ég að minnast á tvær góðar bækur eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. í júní sl. las ég Karítas án titils og nú hef ég nýlokið við sjáfstætt framhald; Óreiða á striga. Þetta eru stórar og miklar bækur en ég varð alveg heilluð af þeim. Stíllinn er mjög skemmtilegur og það var erfitt að leggja bækurnar frá sér. Samt las ég þær í smá skömmtum og það var eiginlega bara fínt því þótt ég hafi oft á tímum verið spennt að "vita meira og meira" og lifði mig gersamlega inn í söguna, þá var gott að stoppa inn á milli og velta sögunni, persónum og atburðum fyrir sér. Mæli 100% með þessum bókum.

9.11.08

- Tæpar tvær vikur síðan síðast -

Mér finnst tíminn líða skuggalega hratt. Ætla rétt að stikla á stóru um atburði undanfarinna daga. Um síðustu helgi var Hulda, systurdóttir mín hjá okkur í tvær nætur. Ég sótti hana rétt fyrir sjö á föstudagskvöldinu. Hún fékk að sofa í rúminu hans Odds fyrri nóttina en hann, sem ætlaði að sofa á dýnu á gólfinu, færði sig í stofusófann. Á laugardagsmorguninn fór Davíð Steinn í æfingabúðir á Laugarvatn með frjálsíþróttafélagi Ármanns. "Þríburinn" fór líka í þá ferð. Rétt fyrir hádegi fór ég svo með Huldu á skautaæfingu upp í Egilshöll. Sú er að verða flink. Æft var á ísnum í um 40 mín. Þá var smá hlé til að næra sig og fara úr skautunum áður en hópurinn fór í þrekæfingasal. Karatestrákurinn var löngu búinn á sinni æfingu þegar við komum til baka. . Seinni nóttina svar snótin í rúminu hans Davíðs Steins. Á sunnudeginum biðum við eftir að Davíð Steinn kæmi heim úr sinni ferð áður en við fórum öll fimm að sjá Mamma mia. Krakkarnir og ég skemmtum okkur hið besta á myndinni, Davíð fannst hún svo sem ágæt en kvartaði yfir því í vikunni að hann væri með tvö lög úr henni á heilanum og væri raulandi í tíma og ótíma.

Gerði tilraun til að steikja kjötbollur í bakaraofni seinni partinn á mánudaginn. Bjó til kjötdeigið úr tæpu kílói af blönduðu kjöti (nauta og grísa), 2 vænum laukum, 3 eggjum, grænmetisteningi leystum upp í könnu af sjóðandi vatni, 12 msk. hveiti, 6 msk. haframjöl, 6 msk byggmjöl, smávegis af grófu speltmjöli og kryddaði með svörtum pipar og cayannepipar. Úr þessu urðu 47 bollur sem allar komust fyrir í einni ofnskúffu. Ég er ákveðin í að nota ofninn aftur næst þegar ég bý til kjötbollur.

Á þriðjudagskvöldið bauð mágur minn mér að nýta boðsmiðann sinn í starfsmannaútsölu Hagkaupa í Smáralindinni. Ég þáði gott boð en það tók verulega á. Þvílíkur fjöldi af fólki og margir voru þarna til þessa að nýta afsláttinn í botn og tóku tvær til þrjár körfur. Mér dugði ein, en ég gaf mér góðan tíma, var með lista yfir það sem ég ætlaði ekki að gleyma og hringsólaði um svæðið í næstum tvo tíma áður en ég fór í langa, langa, langa..... kassabiðröðina. Ég rétt náði heim áður en klukkan sló tólf á miðnætti.

Strax eftir vinnu á miðvikudaginn dreif ég mig heim. Davíð var kominn og ég skutlaði söngfuglinum á kóræfingu og mætti sjálf á stjórnarfund. Þar var m.a. ákveðið að blása æfingabúðirnar af en halda þess í stað kvöldvöku með strákunum kvöldið sem þeir hefðu átt að vera mættir í búðirnar, strákarnir tóku þessum fréttum mjög vel. Hafði smá tíma til að fá mér hressingu, eftir að ég skutlaði söngfuglinum heim, áður en ég fór á kóræfingu.

Það er messa á eftir og framundan er mjög annasöm vika. Með þessu áframhaldi verða komin jól áður en maður veit af....

28.10.08

- Davíð Oddsson fertugur -

Maðurinn minn er 40 ára í dag og þar með búinn að ná mér. Við mæðginin erum í fríi en Davíð þarf að skreppa í vinnuna. Þar sem hann dreymir um að uppfæra tölvuna verður það aðal-afmælisgjöfin hans frá okkur en þegar hann kemur heim í dag mun bíða hans afmælispakki. Innihald þess pakka verður ekki gefið upp að svo stöddu.

27.10.08

- Vetrarfrí -

Sl. föstudag hófst vetrarfrí í Hlíðaskóla. Fríið var í dag líka og á morgun er skipulagsdagur kennara. Ég var löngu búin að skipuleggja það að taka mér frí þessa þrjá virku daga og bjóða fjölskyldunni með mér í bústað. Davíð var að vinna til klukkan að ganga fjögur á föstudaginn. ég nýtti tímann og tók sameignina í gegn, alveg frá stigapallinum okkar og niður í þvottahús, las, tók til flest sem varð að taka með og bað strákana um að taka til fyrir sig. Fór svo yfir það með þeim svo það myndi ekki gleymast neitt mikilvægt. Davíð tók sig til þegar hann kom og hlóð bílinn. Slökktum og læstum öllu á eftir okkur og brunuðum svo austur, með viðkomu í Bónus í Hveragerði. Þegar í bústaðinn kom var að sjálfsögðu byrjað á því að láta renna í heita pottinn.

Sváfum út á laugardagsmorguninn. Um tvöleytið fórum við mæðginin í göngutúr. Upphaflega ætluðum við bara að vera um klukkutíma en við vorum tæpa tvo. Úti var kalt en stillt, gott gönguveður og mjög fallegt að ganga meðfram Brúará. Fórum hluta af fossaleiðinni. Fórum beint í heita pottinn eftir gönguferðina. Eftir kvöldmat og Spaugstofu spiluðum við "Scrabble".

Seinni partinn í gær komu foreldrar Davíðs í heimsókn á húsbílnum sínum. Þau áttu stórt rúbíns-brúðkaupsafmæli í gær. Við buðum þeim að borða með okkur um kvöldið og buðum upp á grillaðar, léttreyktar og hunangsgljáðar grísakótelettur, með grilluðum kartöflum, kaldri piparsósu og hrásallati. Það hitti í mark hjá okkur öllum og ekki var verra að frétta það að tengdó höfðu ekki smakkað svona lengi, lengi.

Vorum komin á stjá fyrir níu í morgun. Davíð grillaði brauð með skinku, osti og ananas. Einhverjar sneiðar voru reyndar bara með osti og ananas því skinkan kláraðist. Hjálpuðumst svo öll fjögur að við að taka saman og ganga vel frá bústaðnum. Eiginlega gildir helgarúthlutun orlofshúsa til klukkan fimm síðdegis á mánudögum en Davíð Steinn átti að vera mættur í Borgarleikhúsið klukkan eitt til að taka þátt í söng- og leikprufum svo við urðum að leggja af stað í bæinn á tólfta tímanum. Strákurinn var mættur fimm mínútum fyrir eitt og var búinn korter fyrir tvö.

Um miðjan dag bjó ég til smá lummufjall sem kláraðist á innan við hálftíma í kaffitímanum. Þær eru góðar og vinsælar þessar lummur.

23.10.08

- Spilakvöld hjá 7.-HLE -

Við vorum að koma heim úr skólanum, öll fjögur. Hittum flesta bekkjarfélaga Davíðs Steins, einhver systkyni og marga foreldra á spilakvöldi sem bekkjarfulltrúar skipulögðu. Afar vel heppnuð og skemmtileg stund, verð ég að segja. Við fórum með teiknispilið og þar sem við komum í seinna lagi, og allir aðrir voru byrjaði að spila alls konar önnur spil, skiptum við okkur í tvö tveggja manna lið og hófum spennandi leik. Liðin skiptust á um að hafa forystu til að byrja með en svo seig annað liðið framúr. Þegar fór að líða á leikinn bættust fleiri keppendur í liðin og loka mínúturnar voru æsilegar. Liðið sem virtist vera að tapa, dró á, jafnaði og náði að sigra (...og þetta sem leit svo vel út fyrir mitt lið lengi vel). Þar sem ég er ein af bekkjarfulltrúum 7. BH bað ég um leyfi til að fá að nota þessa skemmtilegu hugmynd og hlakka til að bera hana undir hina bekkjarfulltrúana...

22.10.08

-"Fló á skinni" -

Ég fór í leikhús í gærkvöldi ásamt eitthvað af vinnufélögum og þeirra fylgifiskum. Ég bauð Davíð, Helgu, Ingva og Önnu frænku með mér og við skemmtum okkur konunglega. Tvíbbarnir pössuðu frænkur sínar á meðan og gistu uppi í Grafarvogi í nótt. Það var mikið hlegið í leikhúsinu í gær og mesta furða að maður skuli ekki vera með hláturverki í maganum. Mæli með þessari skemmtun. Veit um eina sem er búin að fara tvisvar, sá verkið fyrir norðan fyrr á árinu og er nýlega búin að fara aftur.

20.10.08

- Kertapökkun, kumitekeppni og keiluferð -

Helgin er liðin og var ekki lengi að því. Samt vorum við að fara tiltölulega snemma á fætur og stundum frekar seint að sofa, til að nýta klukkutímana sem best. Vorum mætt í kórkjallara Hallgrímskirku um tíu á laugardagsmorguninn, öll fjögur. Þar var sett upp verksmiðja og einu bretti af heimaeyjarkertum pakkað á klukkutíma. Þeir sem mættu upp úr ellefu fengu ekkert að gera nema að taka til sín kerti til að selja. Skutlaði karatestráknum á æfingu rétt fyrir tólf en nafnarnir hjálpuðu til við að ganga frá eftir pökkunina.

Á sunnudagsmorguninn vorum við öll fjögur mætt upp í Fylkisheimili að fylgjast með karatestráknum í sinni fyrstu kumite-keppni. Það var bara gaman. Um eitt leytið mættum við svo upp í keiluhöllina og ákváðum að taka þátt í keilu með hinum "óperu"-strákunum og foreldrum eins af þeim. Karatestrákurinn fékk að vera með í liði strákanna en við fullorðna fólkið fengum okkur sér braut. Spiluðum í tæpan klukkutíma og náðum einni og hálfri umferð. Það var að sjálfsögðu mikið fjör og mikið gaman.

Um kvöldið var aukasýning og sú allra síðasta af óperunum: CAVALLERIA RUSTICANA OG PAGLIACCI. Allir fjórir óperudrengirnir tóku þátt og á eftir þurfti og vildi minn söngfugl kveðja alla sem tóku þátt í þessu ævintýri. Þeir feðgar komu ekki heim fyrr en rétt fyrir miðnætti.

15.10.08

- Vikan hálfnuð -

Það hefur verið og er í nógu að snúast hjá mér þessa dagana. Strax eftir vinnu á mánudaginn dreif ég mig yfir á skrifstofuna til Davíðs og fékk hjá honum bíllyklana. Sótti söngfuglinn og skutlaði honum á æfingu. Karatestrákurinn kom með í sömu ferð og við vorum mætt mjög tímanlega í Þórshamar þar sem ég byrjaði á að versla handa honum góm sem hann mun nota í kumite-keppnum framtíðarinnar, en hans fyrsta keppni er næstkomandi sunnudag. Skrapp svo heim að sinna smá verkefnum þar til kominn var tími til að sækja strákana. Davíð fór í pílu strax eftir vinnu. Við strákarnir fengum okkur kvöldsnarl en svo sendi ég þá snemma í háttinn eða um hálfníu. Þeir höfðu sofnað svo seint kvöldinu áður og voru frekar þreyttir svo þeir höfðu ekkert á móti því að fara snemma að sofa. Svo fór ég á "þrefaldan fund" með "tvíburahálfsystur minni". Aðal tilgangurinn var jólakortagerð og bjó ég til 10 jólakort á tveimur tímum. En við vorum líka að funda í ferðanefndinni sem og velta þjóðmálunum fyrir okkur án þess þó að komast að neinni sérstakri niðurstöðu.

Í gærmorgun skutlaði ég Davíð í vinnuna til að fá að hafa bílinn. Stuttu fyrir tíu sótti ég tvíburana í skólann og fór með þá í árlegt tanneftirlit. Þeir voru hátt í einn og hálfan tíma hjá tannlækninum. Ekki vegna þessa að tennurnar þeirra væru neitt skemmdar en eftir skoðun og flúormeðferð voru þeir báðir að skemmta tannlækni sínum og klínídömu hans með bröndurum í amk tuttugu mínútur. Á meðan þeir voru í eftirlitinu skrapp ég í smá kaffi til gömlu nágrannanna minna í norðurmýrinni. Eftir vinnu dreif ég mig heim og setti mig næstum strax í kjötbollugýr. Bjó til og steikti 40 kjötbollur úr 800 grömmum af hakki. Frysti helminginn og hafði hinn helminginn í kvöldmatinn, hélt að það yrði afgangu handa mér til að taka með í vinnuna, en það kláraðist allt. Seinna um kvöldið fór ég upp í keiluhöll að æfa keilu með örfáum af vinnufélögum mínum.

Davíð kom heim rétt fyrir fimm í dag. Ég skutlaði söngfuglinum á kóræfingu og mætti sjálf á stjórnarfund FFDKR. Þar þurfti að fara yfir nokkur mál og taka ákvarðanir. Stoppaði stutt heima eftir fundinn því það var kóræfing hjá mér í kvöld.

10.10.08

- Aftur komin helgi -

Þrátt fyrir erfiðleika í efnahagslífinu og óvissu um hvort eitthvað af sparnaði manns sé glatað, þá hafa síðustu dagar liðið ótrúlega hratt. Kannski ekki furða þar sem það er alltaf eitthvað að gerast í kringum mig. Á mánudagskvöldið settumst við hjónin saman fyrir framan tölvuna og uppfærðum smá á heimasíðu drengjakórsins. Kvöldið eftir fór ég í keiluhöllina með nokkrum vinnufélögum. Á miðvikudagskvöldið var kóræfing. Ég var heima í gærkvöldi. Hafði nýtt slátur í matinn, og mikið rosalega var það gott, við vorum öll sammála um það. Í kvöld er næstsíðasta óperusýningin sem söngfuglinn tekur þátt í. Hann á frí á sunnudagskvöldið en á aukasýningunni þann 19. okt. n.k. verða allir fjórir strákarnir með. Framundan er m.a. bakstur og messa hjá mér.

Góða helgi og stórt knús á alla sem rekast hingað inn á bloggið mitt!

5.10.08

-Helgin komin og farin -

Seinni partinn á miðvikudaginn var dreif ég mig beint heim úr vinnu. Mætti Oddi Smára á Lönguhlíðinni en hann var á leið í Háteigskirkju. Tók til, bæði kórmöppur, sálmabók sem og reikninga DKR. Davíð sótti okkur nafna sinn rétt fyrir fimm, strákurinn fór á kóræfingu en við foreldrarnir á aðalfund Foreldrafélags Drengjakórs Reykjavíkur. Mér fannst frekar fámennt á fundinum, miðað við að það eru 37 strákar í kórnum og að helst átti að mæta einn forráðamaður fyrir hvern þeirra. Að vísu eru einir tvíburar og þrennir bræður en það voru færri en 20 foreldrar mættir. Formaður foreldrafélagsins setti fundinn og bað svo ritarann um að lesa upp skýrslu stjórnar um sl. starfsár. Henni fórst það vel úr hendi. Næst var komið að gjaldkeranum að gera grein fyrir ársreikningum félagsins. Búið var að dreifa árs- og efnahagsskýrslu, ég stóð upp og hálffraus, sagði bara ..."endilega spyrjið þið mig bara. Ég ætla ekkert að tala". Þá tók til máls fyrrverandi formaður og talaði m.a. aðeins út frá ársreikningunum. Frá því í vor og alveg þar til í síðustu viku var ég að hugsa um að draga mig út úr gjaldkerastöðunni. Aðeins einn var að hætta í stjórn og var ákveðið að reyna að fá einhvern inn sem treysti sér til að taka við af mér smátt og smátt. Það var greinilega mikil bjartsýni svo ég ákvað að demba mér 100% út í þetta fjórða árið í röð. Það er mjög líklegt að söngfuglinn eigi eftir að vera í kórnum til vorsins 2010 og það var hugsun mín að draga mig í hlé áður en hann hættir svo maður sé viðloðandi félagið og til taks fyrir þann sem mun taka við. Davíð mun sjá um heimasíðumálin áfram og mun ég aðstoða hann eftir föngum. Einnig gaf hann kost á sér í tónleika- og æfingabúðanefnd (sitthvor nefndin).
Eftir aðalfundinn skutluðu feðgarnir mér næstum beint á kóræfingu.

Í gærmorgun skutlaði Davíð mér til tvíburahálfsystur minnar, um tíu. Hún var búin að kaup allt efni í 11 slátur. Við tókum svo reyndar hvor sína lifrina frá og bjuggum til úr 9 lifrum sem urðu 23 keppir og úr 6 lítrum af blóði sem urðu 33 keppir. Settum rúsínur í um 20 keppi. Við unnum vel saman vinkonurnar og hún var svo væn að geyma fyrir mig megnið af mínu slátri. Ég fór heim, með eins og í eina soðningu, og setti beint í frystinn.

Í morgun var líka farið snemma á fætur. Ég var fyrst upp, um hálfátta, en Davíð reis úr rekkju mjög fljótlega því hann var búinn að taka að sér að smyrja flatkökufjall. Ég settist niður með heiðursmerkin og fór yfir hvort nælurnar væru í lagi. Það kom í ljós að nokkrar voru gallaðar.
Davíð skutlaði nafna sínum í kirkjuna um hálftíu, en við mættum svo klukkutíma seinna (við hjónin og Oddur Smári) í kórkjallarann. Fékk lánaðan silfurbakka í kirkjunni, Davíð fékk kórbol af einum söngfuglanna sem voru komnir niður eftir upphitun og margir þeirra söfnuðust í kringum mig þar sem ég var að raða merkjunum í kringum einn bikar. Eftir messu sátu drengirnir áfram uppi í "kórnum" við altarið, ég sótti bakkann niður í kjallara, formaðurinn sagði nokkur orð áður en hún las upp þá stráka sem var verið heiðra. Fjórir fengu brons fyrir að vera að byrja sitt 3. starfsár með kórnum, sjö strákar fengu silfur, sex fengu gull og einn drengur fékk afhentan áletraðan bikar fyrir að vera að hefja sitt sjötta starfsár með kórnum. Strákarnir voru myndaðir í bak og fyrir með merkin og kórstjóranum og svo var tekin mynd af öllum kórnum áður en farið var niður í kórkjallara þar sem boðið var upp á kaffi, djús og hlaðborð sem svignaði undan allskyns kræsingum. Myndir frá þessari stund verða settar á heimasíðuna fljótlega.

Skruppum heim og skiptum um föt áður en við fórum í skóleiðangur með strákana, en þá var farið að vanta íþróttaskó í leikfimina og frjálsar. Þetta tók smá tíma. Þeir bræður fóru svo yfir til þríburans en við Davíð að versla inn. Söngfuglinn var svo mættur í óperuna um hálfátta í kvöld.

30.9.08

- September á síðasta degi -

Enn og aftur hafa dagarnir hlaupið frá mér án þess að ég fái nokkuð að gert. Hér verður gerð tilraun til að rekja helstu atburði afturábak...

Í gær fékk ég að fara aðeins fyrr heim úr vinnu til að ná í bankann fyrir lokun og sækja nýja debetkortið mitt. Það gamla hefði hætt að virka um leið og þessi mánuður er liðinn. Að þessu erindi loknu labbaði ég á skrifstofun til Davíðs og sótti hjá honum bílinn til að geta skutlað söngfuglinum á æfingu og sótt bikar og barmmerki fyrir DKR. Sótti manninn upp úr fimm en á heimleiðinni mundi ég eftir að skilafrestur bókasafnsbókanna þrettán væri um það bil að renna út. Hafði ekki getað framlengt skilafrestinum í Gegni því skírteinið mitt rann út fyrr í mánuðinum. Eftir stutt stopp heima ákvað ég því að fara og ganga frá þessum málum. Skilaði níu bókum, endurnýjaði skírteinið og labbaði út úr safninu með fjórar nýjar bækur (hinar fjórar af þrettán voru eftir heima og gat ég framlengt þeim um mánuð í gærkvöldi).

Af bókasafninu fór ég og sótti söngfuglinn og skutlaði honum heim. Lagði svo fyrir utan Þórshamar og hringdi og spjallaði við mömmu á meðan ég beið eftir að karatestrákurinn kæmi af æfingu. Eftir mat vöskuðum við karatestrákurinn upp saman, hann þvoði og ég þurrkaði. Svo lá leið mín til "tvíburahálfsystur minnar" en hittingurinn hjá okkur var þríþættur. Gengum alveg frá ársskýrslu og efnahags reikningi fyrir DKR með því að skrifa undir. Föndruðum svo nokkur kort á meðan við létum hugann reika sem fulltrúar í ferðanefnd óháða kórsins.

Á sunnudaginn var tónlistamessa í Óháðu kirkjunni. Af því tilefni var heldur minna að gera hjá okkur kórfélögunum en oft áður. Seinni partinn voru tvíburarnir boðnir í afmæli til fyrrum bekkjarfélaga síns úr Ísaksskóla. Fór með er þeim var skutlað og bað svo Davíð um að keyra út að Gróttu. Þar stoppuðum við í fjörunni góða stund.

Laugardagurinn fór í þramm milli heimilis, Kringlu, esperantovinkonu og Þórshamars. Fór að heiman um hálftíu og lokaði hringnum um hálftvö. Síðan var verslað. Um kvöldið skrapp Davíð við fjórða mann að hitta þann fimmtan rétt vestan við Selfoss til að spila smá póker. Við Oddur Smári skutluðum Davíð Steini í óperuna og skruppum svo í heimsókn til einnar vinkonu minnar sem var að passa dótturdætur sínar. Oddur lék við og las fyrir eldri stelpuna.

Föstudagurinn var þokkalega rólegur. Á fimmtudagskvöldið skutlaði ég söngfuglinum í óperuna og skrapp í heimsókn upp í Grafarholt. Stoppaði í næstum tvo tíma enda var langt síðan ég leit við síðast...

22.9.08

- Smá annríki -

Í gær lánaði ég systur minni manninn minn í nokkra klukkutíma. Hann var að hjálpa henni við að setja upp heimasíðu. Í þakklætisskyni fyrir lánið bauð hún okkur öllum í mat. Í millitíðinni skrapp ég yfir á Vífilsstaði og heimsótti Jónas ömmubróður minn. Til hans hef ég ekki komið síðan í janúar og er það heldur langur tími sem hefur liðið á milli. Ónýtur "frúrarbíll" er alls engin afsökun fyrir öllum þessum mánuðum. Fann frænda minn í kaffistofunni og drakk með honum einn kaffibolla. Síðan settumst við inn í herbergið hans fyrir framan Stöð tvö sport og horfðum á fyrri hálfleikinn í leik Bolton og Arsenal. Þótt ég sé yfirlýstur Púllari þá hafði ég gaman að því að fylgjast með þessum leik.

Skundaði af stað í vinnuna tuttugu mínútum yfir átta í morgun, með fullt af brons-, silfur- og gull- heiðursmerkjum í bakpokanum. Eftir vinnu var ég svo heppin að ein samstarfsstúlka mín var á leið á Suðurlandsbrautina að sækja mömmu sína úr vinnu. Ég fékk að sitja í og þar sem ég hoppaði úr var stutt labb yfir á skrifstofuna til Davíðs. Hann afhenti mér bíllyklana og ég byrjaði á því að leysa út tvo pakka á pósthúsinu. Því næst sótti ég söngfuglinn minn og skutlaði honum á kóræfingu. Þá loks fór ég með fyrrnefnd merki í Ísspor og valdi í leiðinni bikar fyrir þann pilt sem er að byrja sinn sjötta vetur í DKR. Þeir í Ísspor ætla að grafa fyrir mig í bikarinn, festa merkin og nælurnar saman og athuga í leiðinni hvort festingar og nælur séu í lagi.

Föndurstofan er rétt hjá Ísspor og ég kom aðeins við þar. Sl. fimmtudagskvöld fór ég með ársreikninga DKR til tvíburahálfsystur minnar til endurskoðunar og við tókum smá jólakortakvöld þá. Ég átti til niðurklippt kort og myndir og það eina sem ég þurfti að gera var að setja þetta saman. Náði að gera 10 stk. mjög einföld kort þetta kvöld. Ég á annars örugglega alveg til nóg í kortagerð þessa árs en það er alltaf hægt að bæta við og ég fór ekki tómhent út úr föndurbúðinni í dag.

Um sex var ég mætt á æfingu hjá DKR, alveg tilbúin til að tala við foreldra drengjanna og taka á móti kórgjöldum þessarar annar. Ekki kom nú til þess. Þegar æfingu var lokið fórum við söngfuglinn í Þórshamar og sáum síðustu mínúturnar af æfingu karatedrengsins. Keypti nýjan og stærri búning á strákinn eftir æfingu. Stráksi hefur stækkað heilmikið sl. mánuði. Þegar hann var búinn í sturtu sóttum við Davíð. Þá var klukkan orðin hálfátta og enginn búinn að taka til matinn handa okkur heima (hmm, enda enginn heima til þess að sjá um það...) svo við ákváðum að borða á Pítunni.

21.9.08

- Skotist út á land -

Söngfuglinn kom heim langt gengin í tólf eftir frumsýninguna á föstudaginn var. Hann var glaður og ánægður og þurfti aðeins að fá að segja frá áður en hann fór að sofa. Þótt hann færi svona seint að sofa var hann vaknaður fyrstur í gærmorgun. Fann hann fyrir framan sjónvarspskjáinn um níu en hann sagðist hafa vaknað um átta. Rétt fyrir ellefu skrapp ég yfir til esperanto vinkonu minnar og þegar ég kom heim rúmum klukkutíma síðar var karatestrákurinn farinn á æfingu. Davíð þurfti að skreppa og vinna á skrifstofunni í einhverja tíma í gær en hugur minn vildi ólmur komast austur til pabba og mömmu. Karaterstrákurinn var alveg til í að koma með en söngfuglinn var ekki alveg jafn tilbúinn til að fara. Það er líklega að renna upp sá tími sem strákarnir vilja frekar vera heima með vinum eða í sínu stússi heldur en að koma með okkur foreldrunum.

Við mæðginin fórum samt öll þrjú, að vísu var annar tvíburanna ósáttur lengi vel. Það rjátlaðist þó af honum þegar leið á heimsóknina. Hann slakaði það vel á að það helltist yfir hann mikil þreyta og hann svaf hátt í tvo tíma (spennufall!). Ég skrapp út á elliheimili og heimsótti nokkra þar. Föðurbróðir minn var nýkominn heim úr réttunum svo ég bankaði síðast uppá hjá honum. Þetta voru þriðju réttirnar sem hann fer í og hann á eftir að fara í minnsta kosti einar til.

Það að hitta þessar persónur, sem og pabba og mömmu, og sjá að mömmu er að batna og öxlin sem brotnaði að lagast, róaði huga minn mikið. E
n ef ég þekki mig rétt veit ég samt að ekki líður á löngu þar til ég bara verð að drífa mig aftur og helst að heilsa upp á alla...

19.9.08

- Ég var víst klukkuð -

Sigurrós frænka
og Guðbjörg frænka klukkuðu mig og ég ætla að drífa í að svara "könnuninni":

Fjögur störf sem ég hef unnið:
Skattrannsakari, Heilsdagskólinn (móttaka 6-9 ára barna fyrir og eftir skóla), Grunnskólakennari og Leikskólakennari

Fjórar bíómyndir
:
Naked Gun, Leathal Weapon, Pretty Woman og Harry Potter (ekkert endilega í þessari röð)

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
Heiði á Rangárvöllum, Hella, Grafarvogur og Norðurmýrin

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líka:
Robin Hood, Law and Order, CSI og Charmed

Fjórar síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg:

Mbl.is, Vedur.is, Textavarp.is og Capacent.is

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
Borgarfjörður, Landmannalaugar, Egilsstaðir og Reykir (rétt við Laugarvatn)

Fjórir uppáhalds réttir (úr eldhúsinu):
Steiktur fiskur, soðinn fiskur, ofnbakaður fiskur og ofnbakaðar kjúklingabringur

Fjórar bækur:
Kapitola, allar bækurnar hans Arnalds, hennar Yrsu og Mary-Higgins Clark

Fjórir óskastaðir akkúrat núna:
Rúmið mitt, Reykir, æskuslóðir og Skorradalur

Fjórir bloggarar sem ég ætla að klukka:
Ellu vinkonu, Árný Láru frænku, Guðrúnu Völu og Esther

17.9.08

- Spenningur -

Ég hlakka mikið til kvöldsins. Það er forsýning í óperunni, allir strákarnir fjórir fá að sýna með en á sýningunum eru bara þrír. Búið er að raða piltunum niður á sýningarnar og þeir sýna allir á sex sýningum. Söngfuglinn minn verður á frumsýningunni, þann 19. n.k. en líka 21. 25. og 27. september sem og 5. og 10. október. Hann fær frí 4. og 12. október nema ef einhver hinna þriggja forfallast. Sýningin í kvöld byrjar klukkan sjö en hann á að vera mættur klukkan sex. Ég þarf því að vera búin að gefa honum að borða um hálfsex og pabbi hans að vera kominn tímanlega til að skutla drengnum. Að skutlinu loknu þarf Davíð að sækja hinn tvíburann og bekkjarsystur hans í Háteigskirkju og skutla þeim heim.

Margt var um að vera um síðustu helgi. Mágur minn sótti stóra bróður sinn á föstudagskvöldið og tók hann með sér á spilakvöld. Á laugardaginn var æfing hjá Davíð Steini í óperunni þar sem m.a. var verið að æfa í búningum og með sminki. Um leið og stráksi var búinn skruppum við öll fjögur í heimsókn til Helgu systur og fjölskyldu. Stoppuðum þar í góðan klukkutíma og fórum svo beint þaðan í Kringlubíó að sjá myndina með Anítu Briem og Brendan Fraser. Allan tímann var strákurinn með farðann framan í sér. Eftir kvöldmat skruppum við hjónin yfir í Norðurmýrina til esperanto vinkonu minnar og mannsins hennar, en hann og maðurinn minn hafa þekkst lengi, lengi. Ég dreif mig heim upp úr miðnætti en Davíð staldraði aðeins lengur við.

Á sunnudaginn var ég mætt í kirkjuna rétt fyrir klukkan eitt. Smá stress var í gangi með forsöngslagið en allt var klappað og klárt eftir upphitunina og messan sjálf og kórsöngur tókst bara mjög vel. Einn strákur var vatni ausinn og Stopp leikhúsið sýndi leikritið um ósýnilega vininn (í stað predikunar). Strax eftir messu sótti ég feðgana og við skruppum í heimsókn í Garðabæinn.

En nú er best að fara að huga að öðru.

10.9.08

- Nýjir skór -

Skórnir sem ég keypti í Minneapolis í mars fyrir tveimur árum voru orðnir slitnir, lekir og lélegir. Kom við í Ecco á Laugavegi seinni partinn í gær. Náði ekki þangað á þurrum fótum svo þegar ég fann hentuga skó, keypti ég þá, bað um að gömlu skónum yrði hent fyrir mig og skokkaði heim á nýju skónum sem eru léttir og liprir, reimaðir, smart gönguskór.

Þríburarnir voru farnir á frjálsíþróttaæfingu þegar ég kom heim. Gaf mér góða stund áður en ég fór að huga að matnum en hann var samt tilbúinn þegar Davíð kom heim með strákana. Var meira að segja búin að hella upp á, en hefði eiginlega átt að hella upp á helmingi minna magn (4-5 bolla í stað 8-10) en það er allt önnur saga. Milli átta og hálftíu skrapp ég heim til einnar kórsysturminnar og skoðaði hjá henni nýjasta Friendtex fatalistann og mátaði nokkrar flíkur. Seinna um kvöldið settumst við hjónin fyrir framan skjáinn og héldum áfram að vinna í ársreikningum DKR. Erum alls ekki búinn en á góðu róli með það.

8.9.08

- Annasamur tími framundan -

Nú er komið að æfingatörn í óperunni. Davíð Steinn gaf sér samt tíma til að mæta á sína fyrstu kóræfingu, en hann var á Reykjum þegar æfingar hófust í síðustu viku. Davíð skutlaði syni sínum og hinkraði eftir honum. Skrapp reyndar aðeins í Bónus til að kaupa kex fyrir söngfuglana svo þeir gætu fengið sér eitthvað í hléinu. Karatestrákurinn labbaði á sína æfingu og lagði mjög tímanlega af stað, eða tæpum klukkutíma fyrir æfingu. Nafnarnir komu við um hálfsjö og þá var ég tilbúin með mat handa þeim áður en haldið var á næstu æfingu. Það þurfti að mæta aðeins fyrir sjö í óperuna til að máta búningana. Svo verður æft til klukkan tíu. Á morgun þarf Davíð Steinn ekki að mæta í óperuna en svo þarf hann að mæta þrjú kvöld í röð og einnig nokkra klukkutíma á laugardaginn. Það styttist í frumsýningu.

Geri ráð fyrir að "þríburarnir" fari allir í frjálsar á morgun en svo verður söngfuglinn að segja pass í bili. Það er ekki hægt að gera alveg allt í einu, sérstaklega þegar það er æft er kvöld eftir kvöld til tíu.

Kórinn minn byrjaði að æfa á miðvikudagskvöldið var. Það var mjög gaman og notalegt að vera komin í gang aftur. Við vorum reyndar bara níu, tíu með kórstjóranum. Tvær þær elstu eru sagðar hættar sem mér finnst mjög leiðinlegt. Sú eldri söng í sópran og það var ekki að heyra á röddinni að hún væri komin yfir sjötugt, aldeilis ekki.

Á föstudagskvöldið var bauð ég nöfnu minni og frænku með mér á píanótónleika Víkings Heiðars Ólafssonar í salnum í Kópavogi. Bauð henni fyrst heim í steiktan fisk með miklum lauk og nýlegum kartöflum og svo smá kaffisopa á eftir. Ég skemmti mér svo mjög vel á tónleikunum, efnisskráin var bæði fjölbreytt og áhugaverð og snillingurinn sýndi allan skalann, var bæði með tæknilega erfið verk sem og mjög tilfinningaþrunginn.

Skruppum á Bakkann seinni partinn í gær og stoppuðum fram á kvöld. Á milli staða las ég Aðgerð Pólstjarna sem er skrifuð af Ragnhildi Sverrisdóttur blaðamanni. Frásögnin af þessu máli hélt mér alveg við efnið.
.

7.9.08

- Sunnudagsmorgunn -

Ég vaknaði klukkan sjö en tókst að kúra í uþb klst. Feðgarnir sofa og vakna líklega ekki alveg strax. Þá er lag fyrir mig að blogga smá.

Tvíburarnir komu heim seinni partinn á föstudaginn. Davíð hafði ætlað að sækja þá en var ekki alveg viss á komu tímanum svo þeir bræður komu sér sjálfir heim, Oddur Smári heldur fyrr en Davíð Steinn ekkert svo löngu seinna. Þeir voru með eina tösku hvort og svefnpoka. Það eru ekki hjól á þessum töskum svo þær sigu verulega í. Sem betur fer er mjög stutt á milli heimilisins og skólans.

Söngfuglinn fór hjólandi á æfingu í gærmorgunn. Við karatestrákurinn komumst að því að æfingar voru byrjaðar í Þórshamri og hefur ein æfingin af þremur færst til í töflunni frá því síðast. Æfingin hefur færst frá miðvikudögum yfir á föstudaga svo við hefðum skoðað heimasíðu Þórshamars á föstudaginn hefði stráksi líklega farið þá. Samt held ég ekki því hann var nær alveg raddlaus og þreyttur eftir undangenga viku. Ég skrapp í esperanto tíma um ellefu og ákvað svo að kíkja á karateæfinguna á eftir. Þegar ég kom að var æfingin hálfnuð og allir krakkarnir vel sveittir. Það var samt ekkert slakað á. Við komum heim upp úr hálftvö, rétt á eftir söngfuglinum, og þá var mál að fá sér smá hressingu.

Hef lesið þrjár af þeim þrettán bókum sem ég náði mér í af safninu um síðustu helgi: Breiðavíkurdrengur - brotasaga Páls Rúnars Elíssonar skrifuð af honum sjálfum og Bárði Ragnari Jónssyni, Gátt hrafnsins eftir Anthony Horowitz og Hula þagnarinnar - myndbrot úr Íslandsferð eftir Frank Schroeder. Hver annarri ólíkari en allar héldu þær mér við efnið.

2.9.08

- Ferð á bókasafnið og fleira -

Á sunnudaginn dreif ég mig á aðalbókasafnið í Grófinni og var mætt rétt eftir opnun, um eitt. Skilaði sjö bókum og áður en ég vissi af var ég komin með fjórtán bækur í körfuna. Ein af þeim var reyndar ekki til útláns, mátti ekki fara út af safninu, en hafði verið merkt eins og hver önnur lánsbók fyrir misskilning. Tölvukerfið hafði þó vit á að stoppa útlánið af svo ég snéri aftur heim með þrettán bækur. Sú var tíðin, að ég fór létt með að lesa yfir þrjátíu bækur á mánuði. Nú grunar mig að ég verði sennilega að framlengja e-ð af þessum bókum þegar þar að kemur. Las samt eina upp til agna á milli Reykjavíkur og Hellu, báðar leiðir, á sunnudaginn.

Í gær veifaði ég á eftir tvíburunum mínum og eiginlega öllum árganginum þeirra úr Hlíðaskóla. Þau eru nú á Reykjum í Hrútafirði og verða þar, ásamt 7.b Glerárskóla, fram að hádegi á föstudag. Mér skilst að allt gangi vel. Ekki mátti fara með farsíma, sem mér finnst bara hið besta mál, en þau máttu hafa með sér tí-kalla í svoleiðis síma. Fréttir herma þó að tí-kalla símarnir séu eitthvað bilaðir. Hópurinn virðist ætla að verða sérlega heppinn með veður og ég á ekki von á öðru en að vikan verði þeim hið mesta ævintýri.

Þar sem ég vissi að ég myndi koma heim að tómum kofanum seinni partinn í dag, lagði ég leið mína í Norðurmýrina og heimsótti fyrrum nágranna mína. Þó tóku vel á móti mér og ég stoppaði við í góðan klukkutíma. Var samt komin heim á undan Davíð. Reyndar er hann ekki kominn heim ennþá því einn skólabróðir hans úr grunnskóla hafði samband við hann síðdegis og bauð honum með sér á kaffihús eftir vinnu. Þeir hafa væntanlega um margt að spjalla saman svo ég á ekki von á manninum fyrr en seint í kvöld. Nú þarf ég bara að ákveða hvort ég ætla að lesa eða taka upp saumana mína. Reyndar gæti ég líka haldið áfram að taka saman ársreikninga DKR...

31.8.08

- Ágúst er næstum liðinn -

Í fyrramálið leggja 7. bekkir Hlíðaskóla af stað í viku skólaferðalag. Krakkarnir verða á Reykjum við Hrútafjörð til föstudags. Stjórnendur cav. og pac. sýndu söngfuglinum skilning og verður hann afsakaður frá æfingum í óperunni í vikunni. Fjórði söngfuglinn er kominn inn í dæmið enda örugglega brýnt að hafa einhvern til að leysa af ef einhver af hinum þremur skyldi forfallast. Davíð Steinn hlakkar til ferðalagsins en honum finnst samt leiðinlegt að missa af því sem er að gerast í óperunni. En svona er þetta bara, það er ekki hægt að vera á tveimur stöðum í einu (hvað þá fleirum, þótt maður hafi stundum gert heiðarlegar tilraunir til að reyna það...).

Vegna æfinga hjá söngfuglinum og námskeiðs hjá manninum í nýliðinni viku hélt ég að ég þyrfti að fresta 1. saumaklúbbshitting haustsins. Hringdi í "tvíburahálfsystur mína" á miðvikudag og ætlaði að tilkynna henni forföll. En sem ég var að spjalla við hana mundi ég eftir því að miðvikudagskvöldið var laust svo við ákváðum auðvitað "hitting". Á leiðinni til hennar um kvöldið hlustaði ég á athöfnina á Bessastöðum. En fljótlega eftir að ég mætti til vinkonu minnar vorum við komnar á kaf í spjall og saumaskap og það var greinilegt að langt var síðan síðasti saumaklúbbur var. Tíminn flaug frá okkur. Áður en við vissum af var klukkan orðin hálfellefu og fór að huga að heimferð. Spjölluðum að mér fannst bara í nokkrar mínútur í viðbót á meðan við saumuðum aðeins meira, en þessar nokkrar mínútur voru amk. sextíu. Kom heim um miðnætti, létt og kát, eftir stórskemmtilegt kvöld.

Á fimmtudaginn fékk ég Davíð til að sækja mig í vinnuna svo ég gæti haft bílinn og skutlað söngfuglinum á æfingu. Námskeiðið hjá Davíð byrjaði um sex og átti að standa til tíu en æfingin hjá Davíð Steini var frá sjö til tíu og það er orðið svo dimmt um tíu leytið að ég vildi ekki leggja það á strákinn að fara á hjólinu.
Oddur Smári hjálpaði mér við uppvaskið um kvöldið. Hann er ótrúlega bóngóður pilturinn og segir oftast strax já. Hef samið við hann um að vera duglegur að hjálpa til á heimilinu næstu vikurnar og í staðinn ætlum við foreldrarnir að auka aðeins við hann vasapeninginn. Þríburinn kom yfir og ég ákvað að skreppa í smástund yfir á Háskólasvæðið. Taldi mig hafa góðan klukkutíma og var komin til hennar stuttu fyrir níu. Hálftíma seinna hringdi Davíð og sagði námskeiðið búið svo ég varð að rjúka í burtu en eins og Esther sagði; "Stutt stopp er betra en engin heimsókn!"

Davíð fór að heiman um níuleytið í gærmorgun. Að þessu sinni lá leiðin upp á skotsvæði þar sem fram fór síðasti hluti námskeiðsins v/byssuleyfisins og veiðikortsins. Ekki var hópurinn mjög heppinn með veður. Við mæðgin lögðum í hann hálftíma síðar. Söngfuglinn hjólaði á æfingu og við Oddur Smári fórum á Hárhornið við Hlemm, hann hjólandi en ég tók smá kraftgöngu. Eftir smá bið komst stráksi að í stólinn og fékk þessa fínu klippingu. Skottið sem hann er með var líka snyrt. Hann hjólaði svo beint heim en ég kom við hjá norsku esperanto vinkonu minni. Var samt komin heim á undan nöfnunum. Fljótlega eftir að allir voru komnir heim fórum við og nýttum okkur tilboðið í Hagkaup. Keypti þrennar buxur á Odd Smára, slatta af brókum og sokkum á bræðurna og svo keyptum við tvær afmælisgjafir og hluta af innflutningsgjöf. Ein gjöfin var til þríburans, hann verður 12 ára á morgun en hélt upp á afmælið sitt í gær.

Strákarnir komu heim úr afmælinu um kvöldmatarleytið. Á tíunda tímanum kvöddum við þá og fórum í innflutningspartý til æskuvinar og bekkjabróður Davíðs. Það er reyndar örugglega meira en ár síðan vinurinn og fjölskylda hans fluttu en betra er seint en aldrei að halda smá teiti.

26.8.08

- Enn og aftur líða dagarnir hraðar en ég get skilið -

Klukkan er rétt orðin níu á þriðjudagskvöldi. Ég er ein heima í augnablikinu. Davíð er að á námskeiði að verða sér út um byssuleyfi og kemur ekki heim fyrr en á tólfta tímanum. Nafni hans, Davíð Steinn, hjólaði á æfingu í óperuna eftir kvöldmat rúmlega sex. Hann átti að vera mættur klukkan hálfsjö og verður á æfingu til klukkan tíu. Þetta verður með svipuðu sniði hjá söngfuglinum annað kvöld. Oddur Smári fór út og spurði eftir þríburanum eftir að hafa hjálpað mér við uppvaskið og lesið smávegis.

Í gær skruppu "þríburarnir" enn eina ferðina í Nauthólsvík og létu þeir kaldan sjóinn ekkert aftra sér. Það voru ekki margir á svæðinu en svo gaman var hjá vinunum að þeir gleymdu alveg tímanum og komu ekki heim fyrr en klukkan var farin að ganga níu.

Það var kvöldmessa í óháðu kirkjunni sl. sunnudag. Var mætt í upphitun um sjö en messan byrjaði klukkutíma síðar. Sönghópurinn Veirurnar sungu í stað forspils og sungu einnig bæði fyrir og eftir predikun. Við kórfélagarnir fengum að sitja á meðal kirkjugesta eins og síðast og var kvöldið mjög notalegt. Séra Pétur var með fyrirbænir og innti kirkjugesti eftir bænarefnum. Þegar hann byrjaði að flytja bænirnar spilaði Kári, kórstjóri og organisti, undir ljúfa hljóma á píanóið. Ég laut höfði, lokaði augunum og hreyfst með þessu samspili. Áður en bænastundin var liðin hvíslaði ein úr kórnum að mér og bað mig um að horfa á birtuna á altarinu. Um þá birtu á ég bara eitt orð, mögnuð!

Á laugardagsmorguninn var ég komin til esperantovinkonum minnar um hálfellefu. Drakk hjá henni bolla af kaffi en svo skunduðum við niður að Höfða og fengum (ásamt fleirum) leiðsögn um húsið. Eftir skoðunina datt okkur stöllum í hug að labba Laugaveginn og létum við það eftir okkur. Komum svo upp Skólavörðustíg til baka og stöldruðum stuttlega við í Hallgrímskirkju þar sem verið var að æfa á fullu fyrir ýmsa atburði sem átti að flytja eftir hádegi.

16.8.08

- Alger dekurdagur -

Ég lét dekra við mig í allan dag. Rétt fyrir tíu trítlaði ég í Kringluna og hitti hármeistarann minn sem þynnti og stytti á mér hárið og var snöggur að því þrátt fyrir að ég væri komin með smá lubba.
Þegar ég kom heim gaf ég mér tíma til að ryksuga yfir gólfin, taka af rúminu og setja í þvottavél (á tíma). Þetta hafðist allt á þremur korterum.

Rétt fyrir tólf skutlaði Davíð mér í Kópavoginn þar sem ég átti tíma í GULLMEÐFERÐ í Mecca Spa (afmælisgjöf frá feðgunum). Mér var afhentur sloppur, handklæði og inniskór og vísað í kvennabúningsaðstöðuna. Valdi skáp númer 17 þar sem ég geymdi föt mín og dót. Fyrst
voru fæturnir teknir fyrir. Fékk fótabað, snyrtingu, fótanudd og það voru meira að segja lakkaðar á mér táneglurnar en það hef ég aldrei gert áður. Næst var það andlitssnyrtingin. Hún fór fram í öðru herbergi og þar var ég fyrst beðin um að leggjast á magann á bekk undir lak í engu nema brók. Sú sama og snyrti á mér fæturnar byrjaði á því að nudda mig og ég hélt á tímabili að ég hefði misheyrt það að andlitssnyrtingin væri á undan heilnuddinu. En svo var ekki. Ég hef aldrei áður farið í svona andlitssnyrtingu en mikið rosalega var þetta gott og slakandi, fyrir utan það þegar voru vaxaðar á mér augabrýrnar. Að snyrtingu lokinni fékk ég lánaðann sundbol og fékk að skreppa ofan í heitan bott í nokkrar mínútur eða þar til var kallað á mig í heilnuddið. Ég hef heldur ekki prufað svoleiðis nokkurn tímann áður. Mér var boðið upp á slökunar- eða djúpnudd og valdi það fyrrnefnda. Tókst alveg að gleyma því að það var ungur myndarlegur maður að nudda mig. Slakaði bara vel á og naut nuddsins í botn. Var nudduð í tæpan klukkutíma (held ég) og fékk svo að slaka á, ein inni, í nokkrar mínútur. Davíð sótti mig svo um fimm og hann fékk stórt knús fyrir þessa afmælisgjöf.

En aðeins að öðrum fréttum. Davíð Steinn var spurður hvort hann vildi taka þátt í fyrstu sýningu íslensku óperunnar í haust og ákvað að slá til. Þeir eru þrír, allir úr DKR sem taka þátt og hann fór á fyrstu söngæfingarnar á fimmtudag og föstudag og var svo á leikæfingu undir stjórn Sveins Einarssonar milli 10 og 13 í morgun. Það lítur því út að haustið hefjist með látum og annríki því í mínum kór stendur til að taka upp mörg af lögunum sem við æfðum sl. vetur og gefa út á disk.


Farið vel með ykkur!

12.8.08

- Sumarfríið búið -

Já, allt tekur enda um síðir. Búin með 22 daga af 27 af fríinu þetta orlofsárið og er búin að festa þrjá af þessum fimm dögum. Fæstir af þessum nýliðnu frídögum voru mjög skipulagðir en ég komst í gegnum ótrúlega breiða flóru af ýmsu sem ég hef gaman af að gera í bland við ákveðna hluti sem ég komst ekki hjá að gera. Ég gekk í nýja bókaklúbb, Hrafninn, sem er spennukiljuklúbbur hjá eddu, og las þrjár bækur úr honum og nokkrar af bókasafninu. Ég hef verið iðin að grípa í saumana mína og er með nokkur verkefni í takinu. Ætla loksins að láta verða af því að láta ramma inn þær myndir sem ég hef lokið við sl. fimm ár, þ.e. þær sem ég átti ekki ramma fyrir, fyrir. Fór á tvö ættarmót (reyndar búin að segja frá öðru), einhverja bíltúra, passaði upp á að missa ekki hreyfinguna niður. Ég labbaði t.d. í Fiskisögu við Háaleitisbraut um daginn og frétti þar að Fiskbúðin í Skipholti verður ekki opnuð aftur. Einnig skruppum við fjölskyldan í heimsókn í bústaðinn til tvíburahálfsystur minnar og hennar fjölskyldu. Áttum mjög notalegar og skemmtilegar stundir þar. Ég datt aðeins í kaffiþamb þessa vikur og missteig mig aðeins í mataræðinu. Og þetta er bara brot af heildinni. Maður týnir alveg helling niður ef maður skrásetur ekki reglulega svo líklega verð ég að setja mér þau markmið að setjast niður fyrir framan skjáinn lágmark annan hvern dag. Sjáum til hvernig það gengur...

31.7.08

- Bland í poka -

Yndislegt veðrið þessa dagana og frábært að vera í fríi. Bauð "þríburunum" með mér niður í bæ í gær. Þeir voru alveg til í það. Aðal markmiðið var að ná í myndir úr framköllun, myndirnar sem Davíð Steinn tók í Barcelona. En ég bauð strákunum upp á ís, svo stoppuðum við góða stund við tjörnina. Sáum einfættan máf og mann að leika sér með heimasmíðaðan bát. Komum við í Hljómskálagarðinum í bakaleiðinni þar sem strákarnir klifruðu upp í topp á e-s konar kaðlaklifurgrind. Komum heim rétt fyrir þrjú. Strákarnir útbjuggu sér nesti og fóru niður í Nauthólsvík, annan daginn í röð.

Síðustu helgi tjölduðum við við Hótel Eldborg. Þar var ættarmót Eyrarættar haldið (langamma Davíðs í móðurætt, hennar systkyni og niðjar), vel heppnað, skemmtilegt og gott veður. Auðvitað kom ekki úr öllum greinum en mér skilst að mætingin fari batnandi með hverju móti og næst verður þetta haldið á Austfjörðunum, þar sem þetta hófst allt saman.

Davíð tók sér frí á mánudaginn. Ella vinkona kíkti í kaffi um tíu og Aðalsteinn, maðurinn hennar kom upp úr ellefu en þau eru nýkomin frá Danmörku þar sem þau voru í sumarhúsi í tvær vikur á Jótlandi ásamt fjórum af börnunum. Kaffistundin var notaleg en alltof fljót að líða. Mér datt svo í hug að "draga" manninn með mér í heimsókn til Grindavíkur en við eigum vinafólk þar sem við heimsækjum mjög stopult. Höfum kíkt eftir heimaleiki Grindavík við Val en sá leikur var á sunnudagskvöldið var og við vorum ekki að nenna á leikinn svona beint í kjölfar útilegunnar. En við drifum okkur semsagt seinni partinn á mánudaginn og áttum aðra notalega kaffistund þar.

Æ, hvað maður mætti annars vera duglegri við að rækta vini og ættingja. Mér hefur farið stórlega aftur í þeim efnum og þarf að fara að taka mig á hvað það varðar.

25.7.08

- Enn einn föstudagurinn -

Fyrsta sumarfrísvikan er að klárast. Davíð er ekki kominn í frí en hann tók sér frí sl. miðvikudag, á afmælisdag strákanna. Dagurinn heppnaðist vel. Helga systir kom um fjögur með þrjár stelpur, sínar tvær og eina til sem er alveg jafngömul Huldu. Þríburinn var kominn yfir nokkru fyrir hádegi en hann var næstum stunginn af þegar allt kvenfólkið kom. Sem betur fer gat ég freistað hans með vöfflum, kókosköku með eplum (borin fram volg og með smá ís), flatkökum með hangiketi og ekta heitum súkkilaðidrykk. Davíð sá um tvennt það síðarnefnda. Um kvöldið fórum við fjögur og sáum nýjustu Batmanmyndina. Ég var fyrst í rúmið um kvöldið, klukkan hálftólf. Held að strákarnir hafi ekki sofnað fyrr en vel eftir miðnætti, ánægðir með daginn.

Bræðurnir sváfu svo til ellefu í gærmorgun. Þríburinn kom ekki yfir því hann var hjá pabba sínum svo ég fékk strákana með mér yfir á Eggertsgötuna eftir hádegi. Lögðum í hann rétt upp úr tvö, einn og hjóli og tvö gangandi. Ganga tók uþb 40 mínútur. Ein vinkona mín hefur verið að passa dótturdætur sínar í þessum mánuði á meðan dagmamma yngri stelpunnar er í sumarfríi. Systir vinkonu minnar var stödd í heimsókn með sína stelpu. Annar tvíburinn var mjög duglegur að leika við eldri stelpurnar og atast í þeim. Mamman kom heim úr vinnu rúmlega þrjú svo segja má að ég hafi náð að hitta nokkuð marga í þessari heimsókn. Vindurinn blés sterklega á móti mest alla leiðina heim og fékk ég smá verk í annað eyrað, en það jafnaði sig.

23.7.08

- Tveir tólf ára í dag -

Tíminn lætur ekki hæða að sér. Það eru liðin tólf ár síðan erfðaprinsarnir komu í heiminn. Þ.e.a.s. klukkan 14:20 og 14:25 í dag verða liðin nákvæmlega 12 ár. Þeir voru vaknaðir tiltölulega snemma í morgun, þokkalega spenntir. "Þríburinn" er kominn og verður með þeim í dag. Davíð tók sér frí úr vinnu og framundan er allur dagurinn. Best að snúa sér að því að njóta hans með strákunum.

21.7.08

- Mánuður -

Tíminn
hefur liðið og verið notaður í flest annað heldur en skrif. Að sumu leiti er það sind því um leið þá gleymist sumt af því sem gaman væri að muna. En ég hef bara ekki verið í neinu skrifstuði og er varla komin í það enn. Það er samt ekki meiningin að hætta en mjög líklegt að það verði stopul skrif næstu vikurnar. Ætla ekki að lofa neinu í bili öðru en því að ég er ekki hætt.

21.6.08

- Stiklað á stóru -

Nú ætla ég aðeins að punkta niður það helsta sem hefur gerst sl. rúma viku. Kvöldið eftir að við Oddur Smári komum á Hellu sóttu föðurforeldrar hans hann. Ég varð eftir og kvaddi ekki fyrr en um ellefu á föstudagskvöldið. Á þessum dögum náði ég m.a að skreppa einu sinni í heimsókn til ættingja og fleiri á elliheimilið, setjast stund út í garðhýsi hjá konu sem ég hef þekkt síðan ég var unglingur, kíkja eina góða kvöldstund til mömmu einnar frænku minnar (þar sem fjórir tímar liðu sem fjórar mínútur væru), ganga upp að Helluvaði og hitta eina föðursystur mína, lesa heila bók upphátt fyrir mömmu, sauma helling (langt komin með fermingardrenginn) og fleira og fleira.

Á laugardagsmorguninn var trítlaði ég í Kristu í Kringlunni og fékk hárþvott og eitt stykki "herraklippingu". Hárið á mér er svo stutt að það er styttra heldur en á Davíð. Úr Kringlunni skundaði ég í Norðurmýrina á esperantofund.

Um hálftvö um nóttina var ég komin til Keflavíkur til að sækja söngfuglinn og manninn minn. Vélin lenti um tvö og það tók hópinn smá tíma að koma sér í gegn. Tókum annan söngfugl með okkur í bæinn og skutluðum honum heim. Davíð Steinn var sjóðheitur og við héldum fyrst að þetta væri bara ferðaþreyta. Hann sofnaði upp úr klukkan fjögur en bankaði hjá okkur tveimur tímum seinna og kvartaði undan hausverk. Gaf honum verkjastillandi og þegar hann sofnaði svaf hann langt fram á dag en vaknaði jafn heitur og þegar hann fór að sofa.

Átti líka frí á mánudaginn var og Davíð ákvað að vera heima líka. Hann fór svo seinni partinn þann dag með svila sínum austur á Rangárvelli að undirbúa smávegis fyrir kvöldið í kvöld. Í bakaleiðinni tók sótti hann Odd Smára sem var að koma úr smá útilegu með afa sínum og ömmu.

Fór á smá esperantofund rétt fyrir hádegi þann 17. júní en fljótlega eftir að ég skilaði mér heim fórum við fjögur gangandi niður í miðbæ og vorum þar til klukkan að ganga sex. Fríið okkar var svo búið í bili þ.e.a.s okkar Davíðs strákarnir eru auðvitað komnir í sumarfrí langt fram í ágúst.

Eitt að lokum. Sl. fimmtudagskvöld fórum við hjónin í göngu, nokkurn veginn hringinn í kringum Öskjuhlíðina. Veðrið var yndislegt miklu lygnara heldur en fyrr um daginn þegar ég var að arka úr vinnu (það var líka hvass um morguninn). Það tók okkur klukkutíma að ganga þetta en við vorum hvorki að labba neitt sérstaklega hægt né hratt.

Góða helgi!

11.6.08

- Tolli ekki heima -

Dagarnir, tæpu tveir, hjá Ellu voru ekki lengi að líða. Hún bauð mér afnot af bílnum á meðan hún lauk af síðustu kennaraverkunum fyrir sumarfrí. Reyndar nýtti ég mér ekki boðið. Mánudagsmorguninn var mjög fljótur að líða. Það eina sem ég var að hugsa um að gera var að athuga hvort föðursystir Davíðs væri heima og tæki á móti gestum. En við eftirgrennslan kom í ljós að hún var stödd í Reykjavík, í fyrsta skipti í tvö ár. Þegar kennarafundum var lokið bauð Ella okkur Oddi í bíltúr. Markmiðið var að skoða fugla og sýna okkur hreindýr. Keyrðum meðfram lagarfljótinu, sem breiðir aldeilis vel úr sér þessa dagana og upp hlíðina sem maður fer inn að Kárahnjúkum. Ekki var eitt einasta hreindýr að sjá svo við snérum við og ákváðum að fara hina leiðina til baka á Egilsstaði. Þegar við áttum síst von á sáum við "rollu" tilsýndar á veginum en þegar Ella flautaði og dýrið stökk niður fyrir veg sáum við að um veturgamalt hreindýr var að ræða. Það skokkaði meðfram veginum og stoppaði öðru hvoru. Eftir að við höfðum svo náð góðri mynd af því snéri það við og hljóp til baka. En þetta var ekki það eina sem við sáum á leiðinni. Við sáum álftarstegg reka tvær heiðargæsir burt frá hreiðrinu og smala hóp af kindum í burtu líka. Enginn og ekkert mátti vera nálægt.
Í gærmorgun rúntaði vinkona mín með okkur um Egilsstaði, og sýndi mér uppbygginguna á staðnum. Það eru heilu hverfin risin og fleiri að rísa. Rétt fyrir hálfeitt kvaddi hún okkur svo á flugstöðinni, rétt áður en við stigum upp í flugvélina. Er til Reykjavíkur kom, löbbuðum við mæðgin heim, ég týndi saman meira dót, svo fermdum við bílinn og komum við í banka áður en við brunuðum út úr bænum. Oddur tæmdi baukinn sinn og fékk sér nýjan. Komum við í Fossheiðinni á Selfossi og stoppuðum góða stund þar áður en við héldum áfram austur í Rangárþing.

9.6.08

-Flug og fleira -

Ég var ákveðin í að taka daginn snemma í gær og stillti klukkuna á 07:15. Þegar klukkan svo hringdi slökkti ég á henni og snéri mér á hina hliðina. Vaknaði aftur um hálfníu og var að peppa mig upp í að fara að gera eitthvað þegar Oddur Smári skreið upp í til að kúra. Það varð til þess að ég fór ekki fram úr, heldur greip eina bókina sem ég er að lesa og las til klukkan níu. Um hálfellefu trítlaði ég yfir í Norðurmýrina til esperanto-vinkonu minnar og var ég hjá henni í góðan klukkutíma.
Rétt fyrir klukkan þrjú röltum við Oddur af stað, með bakpoka og léttar töskur, yfir á Reykjavíkurflugvöll þar sem við áttum bókað far til Egilsstaða klukkan fjögur. Langar leiðir mátti heyra í stuðurum úr Valsstúkunni þar sem "mínir menn" voru að keppa við Breiðablik.
En nú er Oddur Smári loksins búinn að fara í sína fyrstu flugferð. Honum var ekki alveg sama á smá kafla af leiðinni þegar vélin lenti í ókyrrð en annars fannst honum þetta bara gaman. Á Egilsstöðum sótti æskuvinkona mín okkur en við fáum að vera hjá henni til morguns. Reyndar var okkur velkomið að vera eins lengi og við vildum en stráksi er búinn að boða komu sína annað seinni partinn á morgun.
lokum vil ég endilega hvetja ykkur, sem rekist hingað inn, til að smella á linkinn á heimasíðu DKR og þar á hnappinn Barcelona, 2008. Ævintýrið er byrjað og gaman að fylgjast með.

7.6.08

- Göngumessa og óvissuferð -

Klukkan var aðeins sex þegar ég rumskaði í morgun. Gat alveg verið róleg til sjö því feðgarnir og nafnarnir voru búnir að pakka flestu niður fyrir Barcelona-ferðalagið og ég þurfti ekki að mæta í upphitun fyrir messuna fyrr en um átta. Davíð fór á fætur um leið og ég og fór strax í að sinna heimasíðu drengjakórsins og undirbúa skrif um ferðalagið og ævintýrin framundan. Ef smellt er á linkinn Heimasíða DKR hér til síðar birtist síðan og efst í valröndinni er kominn nýr hnappur: Barcelona, 2008. Þar verða vonandi daglegir fréttapistlar eða sögur af söngfuglunum úti, jafnvel myndir og það verður hægt að senda þeim skilaboð og kveðjur og spurningar ef vill.

Messan tókst ágætlega. Hún var stutt, hnitmiðuð og góð. Í upphituninni bað séra Pétur okkur að dreifa okkur um kirkjuna þegar kæmi að predikuninni. Tilgangurinn með þessari bón var að hann var að undirbúa ákveðna sögu í predikunni. Það tókst vel hjá honum.

Var komin heim vel fyrir tíu og rétt seinna vöknuðu tvíburarnir eftir ellefu tíma svefn. Bíllinn var fermdur um hálftólf og við fórum öll saman, fyrst í smá leiðangur en við voru mætt upp í kirkju um tólf. Söngfuglar og fararstjórar tíndust á svæðið og rúmlega hálfeitt veifuðum við á eftir rútunni sem var á leið út á Keflavíkurflugvöll með viðkomu á Bessastöðum.

Næst ætlaði ég að bókasafn að skila sex bókum sem voru komnar á tíma. Kringlusafn var lokað. Ætlaði helst ekki að fara á aðalsafnið þar sem ég hafði grun um að það væri erill niðri í bæ. Þess í stað bauð ég stráknum upp á óvissuferð. Tók hann með mér í heimsókn til eins vinnufélaga sem tók vel á móti okkur. Mesta sportið fyrir strákninn voru hundarnir hennar en hann ætlaði aldrei að geta slitið sig frá þeim. Stoppuðum í næstum tvo tíma. Eftir heimsóknina renndi ég við uppi í Gerðubergi en safnið þar var líka lokað þannig að ég neyddist til að fara á Grófarsafnið. Verið er að uppfæra tölvukerfið þannig að öllum bókum var skilað í pappakassa svo þegar kerfið kemst á aftur á starfsfólkið aldeilis verk fyrir höndum.

Eftir safnferðina skruppum við í Hafnarfjörð og heimsóttum eina vinkonu mína og fyrrum samstarfsstúlku. Þar voru þriggja vikna gamlir kettlingar sem Oddur var mjög ánægður að komast í tæri við. Eftir þessa heimsókn var kominn tími til að drífa sig heim. Náði seinni EM-leiknum næstum því öllum. Skemmtilegur leikur það og fór hann eins og ég spáði fyrir um.

Dagarnir framundan verða viðburðarríkir og spennandi. Meira um það seinna. Góða helgi og farið vel með ykkur!