26.12.17

Jólaræðan

Jóladagur 25. Desember 2017 í óháða söfnuðinum.


Gleðilega hátíð kæra samferðafólk!

Það er margt búið að ganga á í kollinum á mér frá því Pétur bað mig um að taka þetta verkefni að mér á jóladag fyrir ári. Ég ákvað þó strax að taka þessari áskorun alveg óviss um hvernig ég ætti og ætlaði að tækla þetta verkefni. Ég veit vel að ég get alveg skrifað, hef frá því ég man eftir mér dregist að línustrikuðum blöðum og haldið dagbók með hléum síðan ég var krakki. Frá því 2003 færðust þau skrif yfir í bloggheima og þar á ég enn mína spretti.

Ég er annars ein af þeim sem er alin upp í sveit. Tel mig Rangæing í húð og hár þótt mömmu greinar skiptist í vestur, og norður. Hún fæddist á Akureyri 1944 þegar Lýðveldið Ísland var tæplega mánaða gamalt. Til tólf ára aldurs átti ég lögheimili á Heiði á Rangárvöllum, um 16 km frá Hellu. Föðurafi minn var fæddur þar og pabbi og öll hans 4 systkyni, pabbi yngstur árið 1934.

Ég fæddist í Reykjavík í mars 1968 og var á heimleið í fyrsta skipti í sveitina mína daginn sem breytt var yfir í hægri umferð, þann 26. maí sama ár. Mér er sagt að bíllinn hans pabba hafi sést á myndbroti í fréttum af þessari umferðarbreytingu.  Fyrstu fjögur árin mín, eða á meðan, afi lifði, var Heiði þríbýli. Elsti bróðir pabba sá þó um að reka búið, bæði kúa og sauðfjárbú auk nokkurra hesta. Hann hafði byggt sitt eigið hús yfir sig og sína örstutt frá gamla bænum og nefnt Heiðarbrekku. Foreldrar mínir byggðu sitt hús, 1961, við gamla bæinn þannig að það var innangengt á milli. Pabbi var í mörg ár titlaður bóndi í símaskránni en hann var farinn að vinna utan heimilis fyrir mína tíð. Eftir að afi dó fluttist amma mín að Helluvaði til yngstu dóttur sinnar og bjó þar síðustu 15 árin sín.

Ég er ekki fyrsta barn foreldra minna þótt í sé sú eldri af tveimur systrum. Frumburður þeirra, "Litla-Anna", fæddist daginn eftir fimm ára brúðkaupsafmæli þeirra í september 1966 en hún dó eftir stutt veikindi aðeins fimm mánaða gömul. Önnu nafnið mitt er því bæði eftir henni og í höfuðið á móðurömmu minni. Yngri systir mín fæddist rúmum 19 mánuðum á eftir mér. Ég kallaði hana víst Óóið lengi vel er mér sagt en ég man ekkert eftir því. Þegar ég fer að muna eftir mér sváfum við í koju, hún í þeirri efri og ég í þeirri neðri af því að ég átti það til að ganga í svefni. Okkur voru snemma kenndar bænir, vers og heilræðavísur og það var föst venja að fara þær og signa sig fyrir svefninn. Þegar við fengum sér herbergi í kjallaranum varð mamma oftast vör við það þegar ég labbaði af stað því þótt ég væri steinsofnadi þá fór ég í klossana mína. Mamma náði þá oftast að snúa mér við áður en ég var komin alla leið upp og fylgja mér í rúmið aftur. Ég man þó eftir einu skipti þar sem ég vaknaði upp á gólfinu fyrir framan tröppuna inn í hjónaherbergi. Mig hafði verið að dreyma að ég væri á sundæfingu.

Systir mín átti stundum erfitt með að sofna. Ef ég var sofnuð gat hún teygt hendina niður úr efri kojunni og kveikt ljósið hjá mér. Síðan hallaði hún sér yfir rúmbríkina, þannig að ég sá andlitið hennar á hvolfi, og sagði við mig: "Anna Sigga ég get ekki sofnað. Viltu segja mér sögu?" Og sýndi mér jafnvel með höndunum hversu löng sagan átti að vera. Ég átti frekar auðvelt með þetta, varð snemma læs og las mikið m.a. Þjóðsögur Jóns Árnasonar. Ég var dugleg við að búa til alls konar ævintýri. Ég hafði afar gaman af því að spila eða leggja kapla og á tímabili gekk ég með spilastokk í rassvasanum og vísnabókina undir hendinni. Ég fékk líka stundum skrýtnar hugmyndir, t.d. eftir að Gideonfélagið hafði heimsótt bekkinn minn og gefið okkur nýja testamentið. Maðurinn sem afhenti okkur bækurnar sagði að hann myndi koma aftur þegar við yrðum í elsta bekk grunnskólans til að athuga hversu snjáðar bækurnar væru, þ.e. hvort við hefðum verið iðin við að glugga í testamentið. Ég gerði gott betur en það því ég fékk þá flugu í höfuðið að læra ættartölu Jésú Krists utan að og kunni hana lengi vel, alla 36 liðina, alveg frá Abraham að Jésú. Föðurbróðir minn vissi af þessu og átti það til að biðja mig um að þylja ættartöluna upp sérstaklega ef það voru gestir á staðnum.
En ég átti víst að segja frá jólaminningum mínum. ...og verð ég þá að viðurkenna og kannast við að undirbúningur undir jólin voru bara vesen í mínum huga, svo langt sem ég man? Mamma var og er mikið jólabarn og hún komst í mikið stuð þegar líða fór að aðventu.  Hún saumaði eitt sinn jólaklukkustreng, sem var númeraður frá 1 - 24 og rauður hringur við hvert númer. Áður en 1. desember rann upp var hún búin að pakka alls konar nammi-molum inn í álpappír, binda utan um og festa tvo pakka í hvern hring. Svona töldum við systur niður dagana til jóla. Mamma saumaði líka á okkur jólafötin í mörg ár. Allt var þrifið hátt og lágt og mamma var að langt fram á nótt vikurnar fyrir jól. Pabbi hjálpaði henni eftir að hann kom heim úr vinnu á kvöldin. Settar voru upp jólagardýnur í eldhúsinu og jóladúkar á eldhús- og stofuborð. Mamma bjó til aðventukrans og notaði svo hluta af greninu til að gera smáskreytingar og festa fyrir ofan innrammaðar myndir á veggjum í stofunni og víðar. Ákveðnar jólaskreytingar áttu sína föstu staði. Ég man sérstaklega eftir pínu litlu, skreyttu gervijólatré sem mamma hafði valið sem möndlugjöf sem unglingur og fékk svo sjálf möndluna. Þetta tré var alltaf sett upp á stofuklukkuna.

Bakaðar voru að mér fannst millijón smákökusortir og nokkrar lagtertur, jólakökur, og fleira og fleira og var mamma potturinn og pannan í þessu öllu. Nokkrar smákökusortir kölluðum við lengi vel fjölskyldukökur því þá hjálpuðumst við öll að, þetta voru t.d. loftkökur og vanilluhringir. Þetta fannst mér skemmtilegt. Foreldrar mínir hjálpuðust einnig að við að baka og setja saman piparkökuhús sem var látið standa alveg fram á þrettándann. Þá var það brotið niður og oft voru frændur okkar, bróðursynir pabba boðnir yfir til að hjálpa okkur að brjóta niður húsið og borða. Ef það voru fleiri ungmenni stödd á staðnum þá var þeim boðið líka. Leyfarnar af húsinu entust í einhverja daga.

Það var annars aldrei farið í kirkju á aðfangadag, jóla- eða gamlársdag, hvorki á meðan við bjuggum í sveitinni né eftir að við fluttum alfarið í þorpið 1981. En ég man að við fórum einu sinni á aðventustund, stuttu fyrir jól, í Þykkvabæjarkirkju og þótti mér sú stund afar hátíðleg.

Á Þorláksmessukvöld var gervitréð sett saman og pabbi athugaði hvort seríurnar væru í lagi áður en þær voru settar á og tréð skreytt. Mér fannst mest spennandi að sjá hversu mikið tréð hafði "minnkað" frá því árinu áður. Það var alltaf einhver munur en ég óx frekar hægt, 1-2 cm ár ári og eitt árið, tók systir mín mikinn vaxtakipp lengdist um heila tíu sentimetra og óx mér vel yfir höfuð. Ég, sem hafði alltaf verið aðeins stærri, var alveg nokkur ár að ná henni aftur.


Í hádeginu, á aðfangadag, var mamma með heitan grjónagraut með möndlu í og sá sem fékk möndluna fékk fyrsta pakkann. Klukkan fimm voru pakkarnir settir undir tréð en ljósin voru þó ekki kveikt fyrr en klukkan sex. Þá var líka sest að borðum og borðaður lambahryggur eða læri með öllu tilheyrandi. Ég var ekki mikið fyrir brúnuðu kartöflurnar og jólaölsblandan, hvítöl, malt, kók og appelsín fór alls ekki vel í magann minn. Þegar borðhaldinu lauk fengum við systur að opna fyrstu pakkana, sem voru yfirleitt merktir frá jólasveininum. Lengi vel voru líka geymdir nokkrir pakkar sem sem við systur opnuðum einn á dag alveg fram á gamlársdag. Ég sagði frá því hér að ofan að ég var og er mikill lestrarhestur. Ein bestu jólin voru líklega þegar ég var um ellefu ára. Ég fékk nýja skólatösku, einhverjar flíkur, kerti og spil frá heimilisfólkinu á Kaldbak en það var hefð í mörg ár og svo heilar ellefu bækur. Ég var því miður búin að lesa þær allar áður en nýtt ár rann upp.

Sem krakki var ég frekar alvarleg og tók lífinu kannski helst til of hátíðlega. En svo langt sem ég man átti ég það þó til að bresta í söng alveg að því er virtist af tilefnislausu og var ég ekki endilega að syngja neitt ákveðið þótt ég gerði það líka. Ég get alveg skotið því hér að, að ég er ekki vaxin upp úr þessu. Átta ára var ég send í Tónlistarskóla Rangæinga. Lærði fyrst á blokkflautu og svo orgel og píanó. Það var hefð að halda tvenna jólatónleika í sýslunni og eina í Hallgrímskirkju í Reykjavík. Ég var valin í hópinn nokkrum sinnum til að koma fram á þessum tónleikum og ég gleymi því aldrei þegar ég spilaði á stóra pípuorgelið í fyrsta skipti. Sem betur fer var alltaf mætt góðum tíma fyrir tónleika svo hægt væri að taka eitt rennsli áður. Þrátt fyrir að ég kviði alltaf að koma fram þá fannst mér líka þetta vera hluti af undirbúningnum fyrir komu jólanna.

Minningarnar eru margar og ég gæti rifjað endalaust upp og sagt frá. Kannski er líka skrýtið að ég segi lítið frá sveitalífinu sjálfu því ég var á tímabili alveg ákveðin í að eiga alltaf heima í sveit. Reyndar var eitt og annað sem mig langaði að tæpa á en þegar ég komst af stað í skrifunum virtist einhvern veginn ekki rétt að hafa það með.

Mig langar til að enda þetta á því að fara með smá bæn í ferskeytluformi sem ég samdi í endaðan mars fyrir bráðum þremur árum:

Legg ég saman lófa mína
leitar hugur víða.
Bið Hann heili alla sína
höftin leysi´ og kvíða.
(ASH 28.03.2015)

Takk fyrir mig!

11.12.17

Morgunstund

Áfram æðir tíminn og lætur alls ekki bíða eftir sér. Það er varla að maður geti hangið í kjölsoginu. Oftast er það nú ekki nauðsynlegt að vera að eltast neitt sérstaklega við tímann. Mér sýnist á öllu að ef ég punkta bara upp það sem verður að klárast fyrir jól og raða svo verkefnunum skynsamlega niður þá á þetta allt að hafast. Ég er amk búin að skrifa jólabréfin og annað þeirra er nú þegar á leiðinni til Englands og hitt leggur af stað til Danmerkur í dag.

Ég skrapp annars austur um helgina, hafði ekki farið tvær helgar í röð og það var alveg kominn tími til að kíkja. Ég fór klifjuð af dóti eins og vanalega en notaði svo ekkert af því þegar til kom. Mestallur tíminn fór í að prjóna með mömmu, þýða eitt jólabréf fyrir pabba og svo skrapp ég aðeins og kíkti á föðursystur mína upp úr hádeginu í gær.

Pabbi var mjög duglegur að setja upp hluta af jólunum. Fékk að hjálpa honum aðeins við að setja upp jólagardýnur á efri gardýnustangirnar í eldhúsinu og leist nú ekkert að blikuna að fylgjast með pabba príla af tröppunni og alla leið upp á innréttinguna. Hann lofaði nú að fara varlega, vildi gera þetta sjálfur og það var ekki að sjá að "prílarinn" væri orðinn 83 ára.

Hafði annars ætlað mér að vinna í jólahugvekjunni. Kollurinn er fullur af orðum og hugmyndum en ég hafði einhvern veginn enga eirð til að setjast niður yfir punktana sem þegar eru komnir í skjalið. Mér finnst samt að það sé ekki langt í að ég detti í skrifstuðið og þá vona ég svo sannarlega að ég sitji fyrir framan tölvuskjá og hafi góðan tíma.

3.12.17

Fyrsti sunnudagur í aðventu

Þetta er önnur helgin í röð sem ég fer ekki út úr bænum og austur. Í gærmorgun var ég mætt í sund rétt upp úr átta. Hafði smá stund aflögu heima eftir sundið áður en ég skrapp í esperanto hitting til norsku vinkonu minnar. Var komin heim aftur upp úr klukkan tólf. Tæpum tveimur tímum seinna skutlaði einkabílstjórinn minn mér út að Eiðistorgi og hann notaði ferðina til að skreppa með plast, pappír og fleira í Sorpu.  Á Eiðistorgi var verið að sýna ballett, milli klukkan tvö og þrjú, þó nokkuð margir hópar sem eru í ballettskólanum á Seltjarnarnesi en skólinn er víst til húsa þarna á Eiðistorgi. Tvíburar Brynju vinkonu voru í fyrsta hópnum. Þetta var mjög skemmtileg sýning, atriðin ekki of löng en maður fékk að sjá ýmsa ballettakta, allt frá byrjendum og upp í unglinga.

Rétt upp úr þrjú vorum við vinkonurnar sestar inn í Hannesarholt þar sem við sátum næstu tvo tímana. Áður en hún skilaði mér heim tókum við smá rúnt yfir í annan bæjarhluta.

Ég var komin ofan í kalda pottinn 12 mínútur yfir átta í morgun. Sat þar í rúmar þrjár mínútur en synti svo í næstu tuttugu mínútur áður en ég fór aftur í þann kalda. Eftir þá ferð fór ég í sjópottinn og svo enn og aftur í þann kalda. Endaði svo stutta stund í gufunni áður en ég fór upp úr. Hitti óvænt þá sem ég heimsótti í Skagafirðinum er ég var á leiðinni til Helgu systur í ágúst sl. Eftir tíu mínútna spjall dreif hún og hennar maður sig í sundið en ég kom við í Hagkaup í Skeifunni á leiðinni heim.

Ég er annars nýkomin heim úr árlegu laufabrauðshittingi með frændfólki mínu. Vorum alls sjö og skárum út 80 kökur. Var mætt fyrst rétt fyrir tvö og við vorum búin að skera og steikja tveim tímum seinna. Og næst liggur leiðin í kirkjuna mína en þar er aðventukvöld í kvöld og stjórnin ætlar að hittast á undan til að undirbúa smá góðgæti sem verður á boðstólum eftir dagskrána.