30.5.03

- Njarðvíkingar heimsóttir -

Við tókum daginn snemma í gær og vorum mætt fyrir utan Valsheimilið á slaginu níu. Ekki löngu síðar fór bílalest af stað þaðan og beint til Njarðvíkur. Þegar þangað var komið var ákveðið að drengirnir skyldu spila úti í góða veðrinu. Svo var hópnum skipt í eldri og yngri og þeim hópum skipt upp í 2x2 lið og þetta gerði þjálfari Njarðvíkinga líka (í yngri hópnum þeirra eru tvær stúlkur). Það var spilað frá svona hálfellefu til tólf og frábært að fylgjast með strákunum. Maður sér alveg framfarir eftir veturinn en þetta er svolítið ennþá svoleiðis að þar sem boltinn er þar er hrúgan. Eftir allar leikblöndur, Valur-Njarðvík, Njarðvík-Njarðvík, Valur-Valur og svo kokteill þar sem öllum hópnum var skipt upp í lið óháð með hvaða félagi þú æfðir, þá voru borðaðar grillaðar pylsur og svo var farið í sund. Veðrið var yndislegt og sólin alltof sterk, það sýður enn á mér í framan...


FH - Valur 4-0

Já, Valsmenn voru hreinlega rassskelltir í Kaplakrikanum og þar að auki fékk einn Valsarinn rauða spjaldið. Við hefðum getað ná því að fara á seinni hálfleikinn en það biðu mín ótal verkefni heima sem ég vildi heldur byrja á. Fer bara á næsta heimaleik sem verður við Þrótt R. n.k. mánudagskvöld. Áfram Valur!!!

28.5.03

- Bíóferð -

Helga systir var með matinn hjá sér í gær og svo verður ekki sameiginlegur matur aftur fyrr en í næstu viku, og það er að öllum líkindum síðasta sameiginlega vikan fram á haust. Við vorum komin heim um sex. Strákarnir höfðu lesið fyrir mig hjá Helgu og fengu að horfa á barnaefnið heima áður en þeir luku við að læra. Á meðan þeir háttuðu sig svo sótti Davíð barnapíuna okkar, hann Guðjón Örn. Við hjónin vorum á leið í bíó. Völdum að fara á Matrix í Kringlubíói. Myndin er rúmlega tveggja tíma löng og full af flottum bardagaatriðum og tæknibrellum. Samt fannst mér hún full langdregin á köflum. Davíð náði ekki að kippa í mig þegar myndin kláraðist en það var víst sýnt úr næstu mynd eftir að textinn var búinn að renna í gegn. Á heimleiðinn skruppum við að versla smá. Guðjón sagði að strákarnir hefðu verið svolítið óþekkir að fara að sofa en að öðru leiti gekk vel hjá honum eins og venjulega. Svo er hann að fara norður á morgun og verður þar í allt sumar. En hann passar örugglega aftur fyrir okkur nokkrum sinnum næsta vetur.

27.5.03

- Af systurdóttur minni -

Þegar ég kom að sækja Huldu í gær var hún að koma niður í fataklefa til að fara út. Ein starfsstúlkan var í bleikri peysu og Hulda settist við hlið hennar og fór að dást að peysunni. Við fórum að spjalla um ást barnsins á bleiku og þá sagði önnur frá því að það hefði verið svona græn súpa (grænmetis eða bauna...) í hádeginu og Hulda hafði sagt: "- Get ég fengið bleika súpu?"

Helga systir skutlaði strákunum í boltann um fimm og við frænkurnar borðuðum rauðsprettu saman um hálfsex. Eftir matinn bauð ég systir minni upp á kaffi og suðusúkkulaði-bita með. Hulda vildi endilega fá að sjá upp í munninn á mömmu sinni og sagði svo: "- Ertu með skít á tungunni?"
Feðgarnir borðuðu svo saman um hálfsjö.

- Sitt af hverju tagi -

Upp úr klukkan átta í gærkvöldi var ég komin upp í Mosfellsbæ þar sem ég rændi Sonju vinkonu með mér á Friendtex fataúsölu. Við gerðum góð kaup, sérstaklega hún, og vorum svo komnar heim til hennar aftur um hálftíu. Stoppaði hjá henni til ellefu og héldum við tveggja manna óformlega saumaklúbb.

Í morgun bjó ég til graut úr byggmjöli og hirsi með kókoshnetumjólkurdufti og kanelstöng. Þetta var aðallega handa strákunum en ég fékk smá í skál líka. Þessi grautur stendur vel og lengi með manni. Ég fékk ekki svo stóran skammt en ég bý enn að honum núna þremur tímum seinna.

26.5.03

- Í minningu móðurömmu minnar -

Þennan dag fyrir 83 árum fæddist móðuramma mín, Anna Jónsdóttir. Fyrir nákvæmlega þremur árum var hún á Spáni að halda upp á 80 árin, hálfnuð með tveggja vikna ferð. Þegar hún kom heim var hún í skýjunum yfir því að alla seinni vikuna höfðu ferðafélagarnir verið að halda upp á afmælið hennar. Við sem tókum á mótin henni heima vissum að hún var orðin veik, veikari en hún gerði sér grein fyrir því hálfum mánuði eftir heimkomuna var hún öll. Hún var reyndar alveg sátt við öll sín áttatíu ár og kvaðst alveg vera tilbúin að svara kallinu. Mér verður oft hugsað til hennar og sé hana fyrir mér að skoða þá staði sem hún hafði ekki komist á þótt reisurnar væru margar síðustu þrjá áratugi hennar. Ég leit mjög upp til hennar og var hún að mörgu leyti mín helsta fyrirmynd. Blessuð sé minning hennar!

24.5.03

- Laugardagur -
(...fyrst aðeins aftur-á-bak (eins og venjulega)...

Davíð komst að því um þrjú í gær að hann ætti að mæta á Selfoss um fjögur í 15 ára útskriftarafmæli úr FSu. Okkur fannst alltaf að þetta myndi vera í dag. Hann lét mig vita og fór svo austur á bílnum. Ég fékk far í Ísaksskóla um fjögur og þaðan löbbuðum við strákarnir heim. Eitthvað var um að vera á Miklatúni, hoppu-kastali, grill og fleira. Hittum Billa frænda en stoppuðum ekki lengi. Gaf strákunum hressingu og svo voru þeir úti þar til kominn var tími til að rölta út á Hlíðarenda á fótboltaæfingu. Um kvöldið horfðum við mæðginin á Stikkilsberja-Finn og lifðu þeir sig inn í myndina, sérstaklega Oddur.

Davíð kom heim um þrjú í nótt án þess að ég yrði þess vör, allt í einu var plássið í rúminu orðið minna. Hann hafði ákveðið að vera ekkert að drekka svo hann þyrfti ekki að skilja bílinn eftir. Upp úr hádeginu fórum við í verslunina Smáskó. Oddur var nánast kominn í gegnum strigaskóna sína svo eitthvað varð að gera í málinu. Hann er ákveðinn ungur maður og var fljótur að finna út hvernig skó hann vildi fá. Einnig keyptum við spariskó á þá báða og gerðum góð kaup.

VALUR - ÍBV 4:1

Já, við fjölskyldan drifum okkur á leikinn og sjáum alls ekki eftir því. Þetta var mjög skemmtilegur leikur sem frábært var að fylgjast með. Eyjamenn virðast ekki vera komnir almennilega í gang en þeir áttu sína spretti. Valsmenn áttu leikinn. Þeir komust yfir á 33 mínútu er þeir fengu vítaspyrnu. Rétt seinna varði markvörður Vals, Ólafur, vítaspyrnu sem ÍBV fékk. Staðan í hálfleik var eitt-núll. Á sjöttu mínútu síðari hálfleiks komst Valur í 2:0 en aðeins mínútu seinna minnkuðu Eyjamenn muninn. Það er nokkuð ljóst að við eigum eftir að gera þetta aftur í sumar. Til að halda upp á sigurinn fórum við í Perluna, strákarnir og ég fengum ís og Davíð var eingöngu í kaffinu. Áfram Valur!!!

...og svo er það áfram Birgitta í kvöld, er það ekki (spá henni ekki neðar en í 10. sæti). Ég er á leið í Eurovision-partý og segi líklega meira frá því eftir helgi...

23.5.03

- Föstudagur -

Þegar við Hulda röltum af stað heim til hennar úr leikskólanum í gær heyrðum við ámátlegt mjálm fyrir aftan okkur. Við snérum okkur við og til okkar kom hvítur og svart flekkóttur, stálpaður kettlingur.
Eins og hann var fallegur var hann alveg grútskítugur, það var varla að maður gætir hugsað sér að gæla við hann. En hann virtist kelinn og elti okkur smá spöl og flæktist fyrir fótum okkar.

Helga systir var aftur með veislumat. Að þessu sinni grillaðar kjúklingabringur og leggi. Mamma var einnig snemma á ferðinni sem og Davíð svo við borðuðum öll á sama tíma. Við fjölskyldan vorum komin heim fyrir sjö. Strákarnir luku við að læra og háttuðu sig. Rétt fyrir átta sagðist Oddur vera að fara að sofa en vildi fyrst fá kvöldhressingu. Strákarnir voru sofnaðir vel fyrir hálfníu.

22.5.03

- Fimmtudagur -

Við frænkurnar, Hulda og ég, fórum saman í fiskbúðina á leiðinni heim til mín í gær. Þar keyptum við "dásamlega bleikan fisk (lax). Þegar ég kom heim setti ég upp bygggrjón og tók svo af sængunum og fór með þær út í viðrun. Að venju notaði ég örbylgjuofninn til að elda fiskinn. Hulda var með smá kúnstir áður en hún fékkst til að smakka matinn en um leið og hún var komin á bragðið hvarf allt af disknum ofan í hana. Strákarnir voru í boltanum en Davíð kom með þá heim rétt fyrir sex, stuttu áður en mæðgurnar kvöddu og fóru. Eftir að hafa borðað drifu strákarnir sig í að læra (lesa, skrifa og vinna í vinnubók). Það er svolítið kapp í þeim. Davíð Steinn var byrjaður á vinnubókinni á undan og Oddur hafði hug á því að reyna að ná honum.... ....ég ætlaði varla að fá þá til að hætta að vinna. Oddur vann einar þrjár til fjórar síður en Davíð Steinn örugglega fimm eða sex...

21.5.03

lizzie
You're Elizabeth Bennett of Pride and Prejudice by
Jane Austen!


Which Classic Female Literary Character Are you?
brought to you by Quizilla

- Ég er ekki svo viss um að ég finni mig í þessari persónu....
- Miðvikudagur -

Helga systir var með matinn í gær, grillaða helgarsteik. Strákarnir voru úti til fimm en komu svo inn lásu, reiknuðu og gerðu verkefni þar til maturinn var til. Mamma kom "heim" í fyrra fallinu og borðaði með okkur. Það er orðið frekar langt síðan maður hefur hitt á hana. Að vísu var hún fyrir austan þegar við Anna frænka skruppum þann 10. maí sl. og svo var hún í afmælinu hans Daða á sunnudaginn var. Hún var þá með Huldu með sér. (Sú stutta var að eigin sögn í dásamlega bleikum kjól)

Davíð kom ekki fyrr en á sjöunda tímanum og strákarnir horfðu á barnaefnið áður en við fórum heim. Þeir luku við að læra, háttuðu sig, fengu hressingu, tönnuðu sig og máttu svo leika sér nokkra stund áður en kominn var tími til að fara í rúmið. Leyfi þeim nú orðið að vaka til hálfníu á virkum dögum í stað átta (svo fá þeir að vaka lengur á föstudögum og laugardögum). Ég setti tvisvar sinnum í þvottavélina og sópaði eldhúsgólfið, meira varð ekki úr húsverkunum að þessu sinni.

Davíð fór á fætur fyrir allar aldir í morgun og þegar ég kom úr sturtu um sjö var hann búinn að hella upp á og var að steikja egg og beikon handa okkur báðum. Við þurftum að vekja strákana hálfátta og ég freistaðist til að þyggja það að fá skutl í stað þess að labba.

20.5.03

- Þriðjudagur -

Þegar ég sótti Huldu í gær tók ég eftir því að hún var á stígvélunum úti. Ég fór í hólfið hennar og athugaði hvort ég sæi skóna og jafnvel blaut föt í poka. Skórnir lágu á gólfinu en ég fann ekkert nema útiföt í hólfinu. Kallaði þá á frænku mína til að skipta um skófatnað. Hún neitaði hins vegar að fara í þá, sagði að þeir væru blautir svo ég dreif hana með mér að sækja kerruna hennar heim til hennar og rölti með hana heim til mín. Það fyrsta sem mamma hennar sagði er hún sá barnið: "Hulda, pissaðir þú í þig í leikskólanum?" Hvar voru þá blautu fötin hennar, í næsta hólfi eða hvað...???

"Strætó" Sonja sótti mig heim við aðra konu um hálfníu í gærkvöldi. Við þrjár hittum svo þá fjórðu á Kaffi París. Þar sátum við í góðu yfirlæti fram eftir kvöldi og áður en við vissum af var klukkan langt gengin í tólf. Notalegt, skemmtilegt og fjörugt kvöld.

Er ég kom svo heim freistaðist ég til að horfa á upptöku af loka þættinum af "Survivor Amazon" svo ég fór ekki í rúmið fyrr en klukkan var farin að halla í tvö. Það kemur á óvart að ég skuli ekki vera myglaðri en ég er....

19.5.03

- Mánudagur -

Helgin leið á met-hraða. Seinni partinn á föstudaginn fór ég með strákana á fótboltaæfingu. Skyldi þá bara eftir því ég varð að nota tímann til að sækja barnapíurnar mínar (tvo 12 ára stráka sem eiga heima í Hafnarfirði (ég fer sko yfir lækinn...)) og pizzu handa öllum strákunum að borða. Sótti strákana og sá síðustu mínúturnar af æfingunni. Er ég kom heim skipti ég um föt og svo vorum við Davíð "farin" á Old West þar sem kórfélagar mínir ætluðu að hittast. Í ljós kom að ég var sú eina sem bauð maka með og samt vorum við bara sjö með honum. Engin kom úr sópran eða tenór og það vantaði í hinar raddirnar. Kórstjórinn lét sig ekki vanta og þegar allir voru komnir ákváðum við að fara frekar á Ruby Tuesday og borða þar. Þar fengum við fljótlega borð og sátum við til hálftólf. Þá kvöddum við Davíð því ég var búin að lofa mér annað snemma morguninn eftir. Davíð keyrði barnapíurnar heim og fór svo að vinna fram eftir nóttu.

Ég fór á fætur á laugardeginum eins og það væri virkur dagur. Ég var búin að bjóða mig fram í sjálboðaliðaferð út á land og fór ég þetta með góðum hópi af frábæru fólki. En þetta rakst saman við vorhátíð Ísaksskóla. Ég var bara búin að skrá mig í þetta áður en ég vissi að slík hátíð stæði til. Þegar ég kom heim á laugardagskvöldið átti ég einn Harry Potter. Hinn sonur minn hafði verið málaður sem hvolpur en hann var búinn að þvo sér. Helga systir var hjá strákunum því Davíð var farin í grillpartý.

Upp úr klukkan tíu í gær-morgun fékk ég Helgu til að skjóta mér upp í Grafarvog og ná í bílinn. Horfði svo á spennandi formúlu áður en við fórum í afmæli til eins frænda míns sem varð 12 ára daginn sem forsetinn varð sextugur.

Semsagt mjög annasöm en skemmtileg helgi.

16.5.03

-Föstudagur -

Vikan flogin, mánuðurinn hálfnaður og fullt að gera í félagslífinu. Maður hefur a.m.k. engan tíma til að láta sér leiðast, veit varla hvað það er lengur. Ég varð samferða feðgunum í skólann í morgun og hjálpaði krökkunum í 6-d að klæða sig í búninga. Einn leikarinn mætti ekki á svæðið og önnur tók að sér að leika músina í kvæðinum um litlu Gunnu og litla Jón. Oddur Smári lék litla Jón og það er óhætt að segja að hann gæti átt leikara-framtíð fyrir sér. Davíð Steinn lék hænu og var þar að auki forsöngvari. Ég var að springa úr monti er kennarinn hrósaði drengjunum, sagði að hún vissi ekki hvernig þetta hefði farið ef Davíð Steinn væri ekki svona lagviss og leiddi sönginn svona vel og hvað Oddur væri frábær í gerfinu. Ég er a.m.k. mjög ánægð með að hafa fengið tækifæri til að sjá leikritið.

Í kvöld fer ég svo út að borða með Landsbanka-kórnum og býð Davíð með mér. Það kemur líklega ekki í ljós fyrr en með haustinu hvort kórinn er búinn að syngja sitt síðasta...

15.5.03

- Að tónleikum loknum -

Mikið skemmti ég mér vel í gærkvöldi, enda ekki hægt annað í svona góðum hópi. Systir mín var alveg hissa á mér að taka það að mér að hafa mat á svona degi í gær. Ég sagðist þurfa sjáf að fá mér eitthvað og biðja hana svo um að skutla mér út á Nes. Hafði líka frekar fljótlegan mat, fiskibollur, og þótt strákarnir væru að fara á bekkjarkvöld þar sem átti að koma með eitthvað með sér vildu þeir endilega fá sér eins og eina bollu. Eftir að gleypt í mig, pússaði ég skóna og skipti svo um föt. Feðgarnir kvöddu rétt fyrir hálfsex og við systur fórum rétt seinna.

Ég var komin lang fyrst í kirkjuna en það var bara ágætt. Fyrr en varði voru allir komnir og við hituðum upp og fórum í nokkur lög (sungum svona létt yfir lögin), byrjanir og annað. Svala mætti á svæðið upp úr hálfátta. Settist stund niður með henni en fljótlega voru kórfélagar beðnir um að fara niður í kjallara. Þar komum við okkur þægilega fyrir, mis-stressuð. Við gengum upp og inn í kirkju um átta, stilltum okkur upp og sungum fyrsta lagið áður en kórstjórinn tók til máls og bauð gesti velkomna. Það var slatti af fólki í kirkjunni. Tónleikarnir voru teknir upp og verða gefnir út á disk í örfáum eintökum. Í sumum lögunum var ég ekki alveg með á "nótunum" og ég veit að stundum horfðum við kórinn ekki nógu mikið á stjórnandann en tónleikagestir skemmtu sér mjög vel og hefðu helst viljað að við syngjum fleiri aukalög (sumir sögðu meira að segja að við hefðum sungið eins og englar). Við tókum ekkert hlé og með aukalaginu vorum við svona þrjú korter. Síðan buðum við gestum upp á kaffi og með því í hliðarsalnum. Þegar flestir voru farnir voru kórfélagar beðnir um að stilla sér upp og teknar voru nokkrar myndir. Svala var svo væn að bíða eftir mér og skutla mér heim á eftir. Var komin heim fyrir tíu!

14.5.03

- TÓNLEIKAR Í KVÖLD -

Þá er stóri dagurinn runninn upp. Klukkan átta í kvöld heldur Landsbankakórinn tónleika í Seltjarnarneskirkju og hefst dagskráin klukkan átta. Aðgangseyrir er enginn og boðið verður upp á kökur og kaffi eftir að söngskráin hefur verið tæmd.

En það er gott að eiga hjálpsama systur! Ég sótti Huldu í gær og fór með hana á Grettisgötuna. Helga kom með strákana stuttu seinna. Ég dreif í að hjálpa þeim við heimalesturinn og reikninginn en þegar klukkan var byrjuð að ganga sex lánaði systir mín mér bílinn sinn og ég fór á lokaæfingu fyrir tónleikana, sem var haldin úti á nesi. Helga sagði að ég mætti hafa bílinn til morguns.

Davíð var á fundi og sótti strákana í seinna lagi til Helgu en gaf sér samt tíma til að spila "hrað-lúdó" við þá áður en þeir fóru í háttinn.

Æfingin var búin á níunda tímanum. Ég kom við í búð á heimleiðinni og bakaði eina smáköku-sort til að hafa með mér, og bjóða upp á, með kaffinu eftir tónleikana í kvöld.

Í morgun skilaði ég svo bílnum (og bíllyklunum) vel fyrir átta. Það var enginn kominn á fætur hjá systur minni svo ég laumaði lyklunum inn fyrir og hvarf svo jafn hljóðlega út...

13.5.03

- Árekstrar -
(...en fyrst allt annað...)

Þegar við systurdóttir mín vorum búnar að sækja kerruna hennar í gær og vorum að leggja í hann í fiskbúðina á leiðinni heim, varð ég óljóst vör við að fugl var að drita alveg við okkur. Sá smá dellu á gangstéttinni og hugsaði að þarna hefðum við verið heppnar (seinna í blogginu kemur í ljós að svo var ekki...). Við frænkur fórum í fiskbúð Hafliða og keyptum bleikan fisk. Það fannst Huldu æði. Hún var með bleikt naglalakk og í bleikri úlpu, hún (eins og vel-flestar yngri stúlkur) elskar bleikt. Helga systir var búin að koma strákunum í að læra og ég snéri mér strax að eldamennskunni er ég kom heim. Setti upp kartöflur og grænmeti, kryddaði bleikjuna, steikti og stráði möndlum yfir í restina. Þetta smakkaðist allt mjög vel og höfðu krakkarnir góða lyst á þessu.

Fljótlega eftir að Davíð kom heim dreif ég mig á bókasafnið að skila bókum og ná mér í fleiri (er eitthvað svo "lesþyrst" þessa dagana) bæði handa mér og strákunum. Verslaði smávegis á heimleiðinni og endaði á því að skila videóspólu (mynd með Jean Claude Van-Damme) sem við Davíð tókum á sunnudagskvöldið. Þessi erindi tókum mig líklega um einn og hálfan tíma en ég náði því þó að fara inn með tvíburunum og lesa bænir með þeim og kyssa þá góða nótt. Náði svo að setja í tvær þvottavélar í gærkvöldi og var búin að hengja upp úr þeirri seinni áður en klukkan sló hálftólf.

Í morgun kom svo í ljós að fuglinn sem ég nefndi hér í upphafi hafði hitt á kápuermina mína, á henni var stærri della en ég sá á gangstéttinni.

Það er ýmislegt að rekast á hjá mér þessa dagana. Ég þyrfti helst að geta verið á tveimur stöðum annað kvöld og á laugardaginn. En svona er þetta. Líklega fæ ég systur mína í lið með mér með morgundaginn. Það er lokaæfing á "Litlu Gunnu og litla Jóni" hjá 6-d í Ísaksskóla. Það á að hafa þetta eins og þegar bekkjarskemmtunin var í janúar; mæta í skólann um hálfsex með eitthvað til að narta í og bjóða með sér, leikritið sýnt mjög fljótlega, borðað og svo spilað til hálfátta. Málið er að Landsbankakórinn er með tónleika í Seltjarnarneskirkju annað kvöld og ég er í kórnum (eins og áður hefur fram komið). Helga fæst kannski til að fara á bekkjarskemmtunina og taka hana upp fyrir mig. Þetta með áreksturinn á laugardaginn, ég segi kannski frá því seinna...

12.5.03

- Mánudagur -

Annasöm helgi er að baki og framundan er brjáluð vika. Þegar ég kom heim á föstudaginn byrjaði ég á því að skutla manninum á skrifstofuna. Um sex fór ég með strákana á fótboltaæfingu. Þar fengu þeir að vita hvenær þeir ættu að mæta á fótboltakeppnina um helgina. Það var næstum því orðinn misskilningur. Þjálfarinn hélt að allir leikir færu fram á sunnudeginum en það kom í ljós að yngri strákarnir áttu að mæta og keppa á laugardeginum.

Ég og strákarnir vorum semsagt mætt upp í Egilshöll í Grafarvogi klukkan níu á laugardagsmorguninn. Strákarnir spiluðu fimm leiki við fimm lið. Þeir töpuðu fjórum leikjum en gerðu jafntefli í einum. (Ég er eiginlega viss um að strákarnir í sumum liðunum eru fæddir 1995 en ekki 1996). Samt sá maður hvað "litlu guttunum (1996)" hefur farið mikið fram í vetur og þeir áttu flestir mjög góða takta í leikjunum. Þetta var bara gaman. Allir fengu að spila með og svo var þetta búið áður en maður vissi af, samt stóð þetta yfir til klukkan eitt (með mislöngum hléum). Eftir þetta drifum við okkur heim, fengum okkur hressingu og hringdum í Önnu frænku. Davíð var búinn að puða í garðinum allan morguninn við að bæta mold á beðin með íbúunum af efri hæðinni. Davíð Steinn ákvað að vera heima og "passa" pabba sinn en við nöfnurnar og Oddur brunuðum úr glaðasólskini í bæinn í krapa-úrhellis-rigningu á Hellu. Þannig að við stoppuðum aðeins hjá pabba og mömmu í tvo og hálfan tíma og vorum ekkert að eiga við það að skreppa aðeins út að ganga.

Þegar við komum í bæinn dreif ég mig í að kjósa. Davíð var á fullu að elda matinn er við komum heim og buðum við Önnu upp á pasta, sem er uppáhalds maturinn hennar, og hvítvín með. Davíð Steinn hafði farið að kjósa með pabba sínum fyrr um daginn. Báðir strákarnir þrýstu á okkur foreldrana um hvað við ættum að kjósa. Bekkurinn þeirrahafði haftkosningar í skólanum á föstudeginum og meirihlutinn kaus x-D.
Við Davíð áttum semsagt að gera eins:
x-D af því að strákarnir eru í 6-d
x-D af því að pabbi þeirra heitir Davíð Oddsson og
x-D af því að forsætisráðherrann er í Sjálfstæðisflokknum og heitir Davíð Oddsson.

Fúff, ég ætla nú ekki að segja hvert atkvæðið mitt fór, en strákarnir eru enn að spyrja mig...

Í gær fór feðgar saman í sund eftir hádegi. Ég var heima að þvo þvott og fylgjast með gull-leik Svía og Kanadamanna í íshokkí og svo Haukum og ÍR í handbolta. Eftir kvöldmat fór ég á auka kóræfingu en nú styttist í tónleika!!!

9.5.03

- Spekingurinn minn -

- "Mamma, ef þú værir ég vissir þú hvernig væri að vera ég!"
- "Já, það er alveg satt, Oddur minn."
- "Lífið er stundum leitt..."
- "Leiðist þér lífið?"
- "Já, stundum þegar enginn er að leika við mig."

Nokkru seinna yfir morgunverðarborðinu spurði Oddur mig hvaða dagur væri í dag.

- "Það er kominn föstudagur."
- "VÁ! Hvert fóru allir dagarnir?"

Strákarnir voru báðir vaknaðir fyrir sjö og Davíð Steinn var meira að segja búinn að klæða sig á undan mér. Við áttum því saman notalega stund yfir morgunmatnum. Pabbi þeirra kúrði áfram en ég setti upp egg rétt áður en ég þurfti að fara og varaði Davíð við því að þau yrðu tilbúinn fyrr en varði.

8.5.03

- Fimmtudagur -

Vikan á fullu skriði og kosningar ekki á morgun heldur hinn. Ég á alveg eftir að gera upp hug minn að þessu sinni en samkvæmt þessari könnun sem ég fann er ég var að "kíkja" á Loryu um daginn þá á ég að kjósa Frjálslynda flokkinn (yfir 60%) og ef mér líst ekkert á það þá komu Vinstri grænir í öðru sæti (rúmlega 42%). Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn áttu ekki upp á pallborðið hjá mér, fengu hvert um sig 23%. Kunningi okkar Davíðs leit inn í gærkvöldi. Hann er leigubílsstjóri og skrapp til okkar milli túra. Það gaf mér ástæðu til að hella upp á gott "after dinner" kaffi. Davíð þurfti að svara símanum svo við leigubílstjórinn fórum að spjalla saman um pólitíkina. Við vorum að minnsta kosti sammála um það að Samfylkingin og Ingibjörg Sólrún fengju ekki okkar atkvæði. Það er á hreinu að hún laug í borgarstjórakosningunum er hún sagðist ætla að sitja sem borgarstjóri út kjörtímabilið, kæmist hún aftur að. Hún vissi það að ef hún gæfi ekki þessa sterku yfirlýsingu myndi R-listinn tapa. Ég er samt viss um það að hún ætlaði sér út í þennan slag allan tímann og fyrir vikið missti ég allt álit á henni. Sá sem Davíð var að tala við í símann heyrði samræður okkar leigubílstjórans og leist mjög vel á hvað við töluðum illa um Samfylkinguna og Ingibjörgu. Af þessu ræð ég að Ingibjörg muni ekki verða það tromp sem Samfylkingin ætlaði sér... En um ellefu var pípað á kunningjann og hann fór á túr!

Einn bekkjarfélagi strákanna minna átti afmæli í gær og bauð öllum strákunum. Þeir voru sóttir á þremur bílum strax eftir skóla og Davíð sótti svo strákana um sex. Þeir voru mjög ánægðir með þetta afmæli og ég vona að afmælisbarnið hafi verið það líka. Sennilega hafa tvíburarnir verið alveg uppgefnir í gærkvöldi því þeir voru ekki vaknaðir er ég fór í morgun, reyndar varla pabbi þeirra heldur...

7.5.03

- Formúlan á Spáni -

Ég er heppin að mágur minn er mikið út á sjó þessa dagana. Systir mín tók upp bæði tímatökuna og keppnina um síðustu helgi og lánaði mér spóluna á mánudaginn og ég skilaði henni í gær. Kosturinn við að horfa á þetta eftir á er að maður getur hraðspólað yfir auglýsingar og langdregið efni. Tímatökurnar í ár eru ekkert sérstaklega spennandi. Maður er þó oft að bíða eftir hvort ökumaðurinn í brautinni geri betur en þeir sem á undan eru komnir eða hvort hann fer útaf, eins og kom fyrir Raikkionen. Hann þurfti því að ræsa aftastur og afþví að ræsibúnaðurinn klikkaði hjá Pizzonia klessti Kimi á hann og komst ekki nema nokkra metra... Það hefði verið meira spennandi að sjá hvert Finninn hefði komist í keppninni, hann missti eiginlega stiga-forskotið sitt. Það verður gaman að fylgjast með Alonso í framtíðinni. Og þótt Schumacher hafi verið að dásama 2003 bílinn er ljóst að hann er ekki svo "góður" að hin liðin eigi enga möguleika...

Ég var að spjalla við vinkonu mína á msn núna áðan og...
Sonja Freydís says:
en til hamingju með silfuverðlaunin fyrir stuttmyndina þína sem þú fékkst í nótt - verst að ég náði ekki að sjá myndina áður en ég vaknaði.....Hana var greinilega að dreyma mig í nótt. Verst að hún vissi ekki um hvað myndin átti að hafa verið en ég stóð mig vel, ekki satt!

6.5.03

- Vikan komin á skrið -

Oddur var vaknaður um hálfsjö í morgun. Ég bauð honum í miðjuna og sagði honum svo að kúra áfram þegar ég dreif mig framúr í sturtu skömmu síðar. Hann kom nú samt inn á bað er ég var að þurrka mér, settist á klósettið og fylgdist með mér. Allt í einu sagði hann:
- "Mamma, konur eru ekki fitubollur ef þær eru með barn í maganum!" -
- "Já, en Oddur mamma er ekki með barn í maganum, svo hún er bolla!" -
- "Ég var að segja að þú ert ekki fitubolla með barn í maganum." -
- "Ég er ekki með barn í maganum. Það er heldur ekkert pláss fyrir lítið barn hjá okkur." -
- "Við getum kannski beðið afa um að smíða rúm handa því...." -
Sennilega hefur sá stutti átt við föðurafa sinn þótt báðir afarnir séu mjög laghentir við smíðar. Ég hélt áfram að benda honum á að þótt við hefðum rúm fyrir barn væri hvergi pláss fyrir rúmið. Þá mátaði hann mig með því að segja að við gætum bara flutt. Þessi sonur minn virðist eiga svar við öllu...

5.5.03

- Kóræfingabúðir í Selvík 2.-4. maí -

Við lögðum af stað úr bænum rúmlega hálfátta á föstudagskvöldið. Fórum Þrengslin því heiðin var lokuð vegan skelfilegs slyss. "Lentum" í Selvík upp úr klukkan hálfníu. Tveir kórmeðlimir voru þegar mættir á eigin bílum og sá þriðji kom stuttu síðar. Komum okkur fyrir á herbergjunum, fengum smá hressingu og svo var æfing frá hálftíu til ellefu.

Eftir æfingu slakaði fólk á inni í setustofu, sumir með bjór eða hvítvín en sumir voru í kaffinu. Við í skemmtinefndinni lögðum fram fyrri-parta um alla í kórnum (sem Baldur Pálsson sá um að semja) og óskuðum eftir botnum. Einnig lögðum við fram átta vísna-gátur og óskuðum eftir lausnum á þeim. "Botna-lausna"kassinn var látinn standa í setustofunni.

Ég lét símann vekja mig um átta, dreif mig á fætur og komst svo í þvílíkt stuð að botna fyrripartana og ráða gáturnar. Skilaði öllu í kassann rétt fyrir níu. Klukkan níu var morgunmatur og svo hófst æfing klukkan tíu. Tókum stutt kaffihlé um hálftólf og svo klukkutíma matarhlé um hálfeitt. Við æfðum meira og minna allan daginn með stuttum kaffipásum og svo hálftíma kaffihléi og vorum að alveg til klukkan að verða hálfsjö. Ég held að við megum vera þokkalega sátt það eru þrjár æfingar eftir fram að tónleikum sem verða í Seltjarnarneskirkju miðvikudagskvöldið 14. maí næst komandi.

Eftir æfingatörnina lögðum við í skemmtinefnd á borð. Undir servíetturnar settum við (á hvolf) stjörnuspá fyrir hvern afmælisdag kórmeðlima. Svo var upprúllaður málháttur við hvert sæti og einnig upprúllaður "hring-söng-texti". Höfðum smá stund til að hvíla okkur og skvera okkur upp. Ég hafði ekki hugsað út í að taka með mér spariföt en ákvað að setja það ekki fyrir mig. "Strákarnir" komu í matinn í jakkafötum, bassarnir með bindi en ekki hinir. "Stelpurnar" voru sumar í stórglæsilegum kjólum og fyrir vikið var líkt og við værum í veislu. Þetta var veisla! Sest var að borðum klukkan átta. Þegar allir voru búnir að fá sér af dýrindis-pottréttinum (sem sendur var með okkur frá Kidda-kokki (e-r sem hefur hingað til komið með í þessar ferðir en sá sér ekki fært að koma núna)), sló ég í glasið og stóð upp. Bað fólk um að taka fram miðana og sagði að allir ættu að lesa upp, svo ætti að reyna að finna út hver gæti átt viðkomandi afmælis-spá. Samt varaði ég fólk við að það væri alls ekki víst að stjörnuspáin passaði, þetta væri bara til gamans gert. Eftir að lestur var hafinn breyttum við fljótlega um taktík. Textinn var lesinn, óskað eftir tillögum en ekki gefinn langur tími heldur kvað ég upp úr hvaða afmælisdagur þetta var og hver ætti hann. Svo var textinn lesinn aftur. Úr þessu varð hin mesta skemmtun. Aðeins ein lenti í því að lesa um sjálfa sig. Næst voru málshættirnir lesnir og um það leyti vorum við búin að borða svo hring-textinn var tekinn fram og sunginn hring eftir hring....og sögðum: TAKK FYRIR MATINN!

Allir hjálpuðust að við að taka af borðinu og svo færðum við okkur inn í setustofu. Allir þeir sem skiluðu inn botnum voru beðnir um að lesa sínar tillögur og ætla ég að láta mínar tillögur fylgja hér:

Björn er okkar besta vörn
gegn brennivíni og sukki.
Nú í búðum tökum törn
taktfst, hreint með bukki.


Hulda er mesta happafljóð
og heimsins mesta skvísa.
Hana vildum setja í sjóð
söfnun dúkku-lísa.


Alla hefur allt ég tel
altinn þó ei syngur,
Stundum hana líka vel
að telja mína fingur.


Anna Sigga eins og sól
í sumarblíðu ljómar.
Brosir blítt ef fær hún hól
betur þá hún hljómar.


Dísella er dásamleg
dísæt eins og sykur.
Dísella er yndisleg
og ekki vatna-nykur.


Baldur er í bassarödd
með bumbu í sínu fangi.
Værum öll í vanda stödd
vildi hann lifa á þangi.


Í bassanum hann Bjarni sat
en breyttist svo í gelding,
Finnbjörn reyndi allt hvað gat
en hvarf svo eins og elding.


Bryndís fór í berjamó
og baslaði við að tína.
Syngur hæ og segir hó
situr við hlið mína.


Hilmar á hinn hreina tón,
háan mjög og bjartan.
Ólöf og hann eru hjón
hanga þau á hjartan-
u


Hlíf er ung og Hlíf er rjóð
Hlíf er svoldið dreymin.
Hlíf er sæt og Hlíf er góð,
Hlíf er ekki gleymin!


Jóhanna er jákvæð mær
Jóhanna er kroppur.
Andlit sitt hún aðeins þvær
og undir rúmi koppur.


Kristinn marga kjóla á,
og klæðist þeim í leynum.
Líkjast honum líka má
líklega við reynum.


Ólöf er sko yndið mitt
einstök vændiskona.
Ágætt bara heldur en hitt
Hún er bara svona.


Sigurbjörg er sæt og fín
syngur eins og díva.
Vildi hún kæmi heim til mín
húsið mitt að þrífa.


Sveinn er bæði sýnist mér
svipfagur og ljúfur.
Er hann eitthvað skyldur þér,
einmitt líkt og stúfur?


Villa mín er vænsta sprund
vildi ég hana kyssa.
Röltum út um græna grund,
grasið bítur hryssa.


Þeir sprækustu voru að til klukkan fimm. Mig minnir að ég hafi farið í háttinn rétt fyrir þrjú. Lét símann vekja mig um tíu í gær, fór í sturtu, bjó um og tók ruslið og sængurfötin með mér fram. Hafði enga lyst á að fá mér eitthvað. Rútan fór frá Selvík um hálftólf og ég var komin heim til mín fyrir eitt. Gerði heiðarlega tilraun til að fylgjast með Formúlunni en gafst upp og svaf meira og minna í allan gærdag!!! Samt gekk mér vel að sofna í gærkvöldi...

2.5.03

- Og þá er kominn maí! -

Á miðvikudagskvöldið þurftum við hjónin bæði á fund á sama tíma. Kolfinna, ein af systkynunum sem mamma tekur á móti úr skóla, hafði verið í heimsókn hjá Helgu systur til að leika við Huldu og fá smá kjúkling. Við vorum að skutla henni heim þegar Davíð fékk þá hugmynd að "ræna" henni. Mamma gaf leyfi á það svo Kolfinna passaði fyrir okkur í tæpan klukkutíma eða þar til Davíð kom af sínum fundi. Þegar ég var búin á fundinum sem ég var á "rændi" Helga mér með sér í púl. Vorum frá tíu til miðnættis og skemmtum okkur mjög vel. Ég fékk mér hvítvínsglas og á meðan það virkaði gekk mér vel að skjóta niður kúlurnar...

Í gær fór ég á fætur með strákunum og notaði morguninn í að undirbúa mig undir helgina, segi frá því öllu síðar. Eftir hádegi fórum við fjölskyldan í heimsókn til annars bróður hans Davíðs og kærustunnar hans en þau búa frekar stutt frá okkur. Strákarnir komust í tölvu og skemmtilega tölvuleiki þar og það var ekki hægt að fá þá til að koma með sér er við ætluðum að fara. Fengum að skilja þá eftir á meðan við sóttum fisk (sem ég pantaði í gegnum vinnufélaga). Þar með fengu drengirnir klukkutíma lengur í tölvunni.

Annars var hugurinn hjá föðurbróður mínum í gær því 1. maí í fyrra dó yngsti sonur hans, Oddur (var fæddur 1960) úr krabbameini. Það er örugglega mjög sárt að missa barn úr veikindum eða af slysförum. Ég get rétt ímyndað mér það...