30.12.16

Síðasti vinnudagur þessa árs var í dag

Báðir synir mínir voru á tólf tíma vakt í gær. Ég var farin út úr húsi á undan þeim og byrjuð að synda áður en þeir tóku strætó um sjö upp í Breiðholt og Kópavog. Þegar ég kom heim úr sundi nýtti ég morguninn nokkuð vel og verðlaunaði mig svo með því að sökkva mér niður í bók af safninu á eftir. Hringdi líka í pabba og í þrjá aðra. Foreldrar mínir komu í bæinn í gær eingöngu til að láta kíkja á hvernig hægri úlnliðurinn á mömmu hefðist við. Þetta ku vera í áttina en pinnarnir voru ekki teknir og hún þarf að koma aftur eftir viku.

Um þrjúleitið hringdi ég í norsku esperanto vinkonu mína og okkur kom saman um að ég skyldi drífa mig yfir til hennar með esperantobækurnar. Við lásum þrjár blaðsíður í Kontiki. Áður en ég fór heim kom ég við í Krónunni við Granda. Náði að fara heim og ganga frá þeim vörum áður en ég náði í Skeljungsstrákinn í vinnuna. N1 strákurinn er með strætókortið svo hann var ekki sóttur en hann var ekkert að gera veður út af því.

Náði að ljúka við að lesa bókina; Aukaverkanir, um kvöldið og var það hin ágætasta afþreying. Hafði ætlað mér að klára að prjóna sjalið þar sem ég á bara eftir að prjóna tvær umferðir áður en ég felli af en það vannst ekki tími til þess.

29.12.16

Auka frídagur :-)

Það gleymdist að greina frá því í pistli gærdagsins að ég skrapp á bókasafnið næstum strax eftir vinnu í fyrradag. Hafði fengið áminningu um að skilafrestur á nokkrum bókum væri að renna út. Ég skilaði fimm bókum í Kringlusafnið, framlengdi skilafrestinn á sex bókum og auðvitað komu fjórar bækur að auki með mér heim þrátt fyrir að ég hafi fengið þrjár bækur í jólagjöf. Já, ég veit, ÉG er BÓKAORMUR mikill.

Bækurnar sem ég fékk í jólagjöf eru; Aflausn, Ljósin á  Dettifossi og Heiða. Bækurnar sem komu heim með mér af safninu eru, Klingevals, Júlíana Jensen og Ofan vatns eftir Jane Aamund og Mei mí beibísitt? æskuminningar úr bítlabænum Keflavík eftir Mörtu Eiríksdóttur. Þær sex sem ég framlengdi um annan mánuð eru af ýmsum toga, helmingurinn eftir íslenska höfunda, Iðunni Steinsdóttur (Hrólfssaga), Ólaf Hauk Símonarson (Aukaverkanir) og Einar Kárason (Skálmöld). Ein af hinum þremur er Ég læðist fram hjá öxi eftir Beate Grimsrud. Ó, já það er veisla framundan hjá mér.

Annars var ég mætt í sund rétt upp úr klukkan hálfsjö í gærmorgun og var afar glöð að sjá að það var komið vatn í kalda pottinn. Byrjaði þó á því að synda í góðan hálftíma áður en ég stakk mér á bólakaf í þann kalda. Úr kalda pottinum fór ég í sjópottinn og svo í gufuna í smá stund. Var komin heim aftur um hálfníu. Þá var einkabílstjórinn að rumska, N1 strákurinn var farinn í vinnu enda á tólf tíma vakt en virku dagana í þessari viku átti Skeljungsstrákurinn að vera á tíu til sex vakt. Hann skutlaði mér í vinnuna um hálftíu og hringdi svo klukkutíma seinna til að tilkynna mér að hann gæti ekki sótt mig aftur þar sem hann hafði verið beðinn um að vinna til hálfátta. Ég mætti annars þetta seint í mína vinnu til þess að sitja yfir þeim sem yfirfara vélina mánaðarlega. "Afhentum" þeim framleiðsluvélina um tvö og þeir voru búnir rétt fyrir sex. Ég ætlaði að nota tímann milli fjögur og sex til að fara að huga að áramótavarahlutalagertalningu en sá það fljótlega að það væri betra að gera það í enn meira næði. Er eiginlega búin að semja um að vinna svipaðan vinnudag og í gær í fyrstu vinnuvikunni á nýju ári.

28.12.16

Fæðingardagur föðurafa míns heitins (1894-1972) í dag

Þar sem N1 strákurinn átti frídag í gær fékk Skeljungsstrákurinn strætókortið og ég fór á bílnum í mína vinnu. Við vinnum engar vaktir þessa virku daga milli jóla og nýjárs en það er alltaf einhver einn sem er að taka út frídag sem við fáum aukalega í boði fyrirtækisins. Nóg er að gera og áður en ég vissi af var vinnudagurinn liðinn og ég á leiðinni heim aftur. Skeljungsstrákurinn kom heim um hálfsjö og fljótlega hafði ég kvöldmatinn til. Frétti það fyrst þá að þeir bræður væru boðnir í bíó af einum sem þeir eru búnir að þekkja síðan í 6 ára bekk í Ísaksskóla. Reyndar ákvað Skeljungsstrákurinn að sleppa bíóferðinni og halda sig heima, of seint var fyrir hinn bróðirinn (sem er ekki enn kominn með bílpróf) að taka strætó í bíó svo ég ákvað að skutlast með hann og var hann kominn tvær mínútur fyrir á staðinn. Hann gat þó nýtt sér strætókortið heim eftir bíó.

27.12.16

Virkur dagur

Í gær opnaði Laugardalslaugin klukkan tólf. Ég ákvað að drífa mig þangað um það leyti. Margt var um manninn en það urðu þó engir árekstrar í lauginni. Kaldi potturinn var ennþá tómur og sjópotturinn fullur svo ég skrapp aðeins í gufu áður eftir sundsprettinn. Þegar ég kom heim hellt ég upp á kaffi, þeytti rjóma, hræði í vöfflur og bjó til. Og ég sem hafði ætlað mér að gera helst lítið annað en að lesa og hafa það rólegt. En svona skyndiákvarðanir eru samt góðar. Strákarnir fengu lánaðan bílinn um sex leytið til að skreppa í fjölskyldujólaboð til pabba síns. Ég hélt til í stofunni með prjóna og bækur við hendina en festist svo alveg fyrir framan imbakassann. Kvöldið leið hratt eins og allur dagurinn og jólahelgin.

26.12.16

Annar í jólum

Líkt og oftast áður var ég vöknuð löngu á undan vekjaraklukkunni (um hálfníu) í gærmorgun en hafa ber í huga að klukkan var stillt á tíu svo ég hefði örugglega góðan tíma til að undirbúa mig fyrir messuna klukkan tólf. Undirbúningurinn var reyndar frekar léttur. Fá mér eitthvað að borða, dressa mig aftur upp í kjólinn góða sem ég keypti á Spáni í sumar, setja á mig  varalit og fara í peysu, kápu og skó. Var mætt í kirkjuna fimm mínútum áður en messan hófst og vorum við Inga Dóra (kórfélagi minn til nokkurra ára) beðnar um að "stjórna" upprisunum þar sem við sátum á næstfremsta bekk og enginn var fyrir framan okkur. Fengum til þess alt-útgáfuna af messu á jóladag, svokallað Bjarnatón, og auðvitað sungum við þá með altinum. Auk þess las Inga Dóra fyrri ritningalesturinn og frænka hennar þann síðari. Þetta var jafn hátíðleg messa og daginn áður og það setti punktinn yfir i-ið að hlusta á Helgu Hansdóttur (móður Ingu Dóru, formann KÓSÍ og varaformann safnaðarstjórnarinnar) segja frá uppvaxtarárum sínum, m.a. frá jólahaldi um og upp úr miðri síðustu öld. Henni sagðist vel frá.

Strax eftir messuna dreif ég mig heim til að sækja strákana. Það tók samt smá stund að taka sig til því þótt við ætluðum aðeins að stoppa fram á kvöldið þá þurfti ég að taka ýmislegt með. Að þessu sinni ákvað ég að keyra, einkabílstjórinn sat í framsætinu við hliðina og N1 strákurinn fyrir aftan hann. Ferðalagið gekk vel og strax og við komum var öllum safnað saman í stofuna því þar biðu nokkrir pakkar undir jólatrénu eftir að verða opnaðir, flestir þeirra til mín reyndar en strákarnir fengu hvor sinn pakkann frá afa sínum og ömmu. Ég fékk hvorki fleiri né færri en þrjá pakka frá foreldrum mínum, baðsnyrtivörur, sjal og töfrasprota. Eftir að hafa opnað alla pakka og þakkað fyrir okkur fórum við systur í að útbúa kaffiborð inni í eldhúsi. Borðið var stækkað, dúkað og sparidiskar teknir fram. Helt var upp á, og svo voru ýmsar kræsingar tíndar til. Eftir kaffið stóð til að fara í spilabingó en það færðist mikil ró yfir mannskapinn og bingóinu var frestað fram yfir kvöldmat. Ég var með prjónana mína með og á nú einungis örfáar umferðir eftir af sjali sem ég hef verið að prjóna með hléum frá því í október.

Pabbi setti upp kartöflur seinna um daginn, dúkaði borð í stofunni og lagði á það. Mágur minn bjó til uppstúf, kalt hangiket var skorið niður og rauðkál og grænar baunir boðnar með. Einnig var boðið upp á hefðbundið jólaglundur sem og vatn. Þegar búið var að ganga frá eftir matinn voru teknar þrjár umferðir í spilabingói. Pabbi var bingóstjóri og við vorum fimm sem tókum þátt, við mæðginin, systir mín, mágur og yngri dóttir þeirra sem var búin að bíða eftir þessu allan daginn. Mamma hafði lagt sig aftur, en hún þarf mikið að hvíla sig þessa dagana, enda kannski ekkert skrýtið miðað við hvað hún er búin að ganga í gegnum.

Klukkan var byrjuð að ganga ellefu þegar við mæðgin tókum okkur saman, þökkuðum fyrir okkur og héldum heim á leið. Ég vildi keyra sjálf, einkabílstjórinn sat fyrir aftan mig og N1 strákurinn við hliðina á mér. Það var leiðinlega blint megnið af leiðinni og þæfingur í Kömbunum og alveg niður undir Litlu kaffistofuna þannig að ég keyrði ekki mjög hratt en það var samt bara á einum stað sem ég hélt að bíllinn myndi ekki komast í gegn. Hann stoppaði þó aldrei alveg og skilaði okkur alla leið heim rétt fyrir miðnætti í gærkvöldi.

25.12.16

Jóladagur

Var mætt í Laugardalinn um það leyti sem verið var að opna klukkan átta í gærmorgun. Kaldi potturinn er ennþá tómur þannig að ég synti í hálftíma, lét líða úr mér í sjópottinum og gufunni á eftir og settist síðan stutta stund í "sólbað". Var komin heim um tíu. Upp úr hádeginu fór ég með síðustu jólakortin. Fór fyrst vestur í bæ, tók á móti öðru korti í staðinn, knúsaði mæðgurnar en stoppaði ekkert. Síðan lá leiðin til "tvíburahálfsystur" minnar. Þar ætlaði ég rétt að stoppa og þyggja smá knús, kaffi og spjall. Stoppið teygðist upp í næstum einn og hálfan tíma en það var alveg í góðu lagi því ég var ekkert í tímaþröng. Hafði nokkuð góða stund heima áður en ég klæddi mig upp á og fór í kirkju klukkan fjögur. Það var falleg og góð stund þrátt fyrir að tímasetningin væri allt annað en hefðbundin því eftir því sem ég best veit hefur aftansöngur á aðfangadag alltaf verið klukkan 18 í óháða söfnuðinum. Strákarnir voru að búa sig undir að fara til pabba síns og ég lánaði þeim bílinn þegar ég kom heim aftur, fyrir klukkan fimm. Afgangurinn af aðfangadeginum og kvöldinu leið ótrúlega hratt. Var ekki með neina sérstaka uppskrift en ég kveikti þó á kertum og gerði svo aðeins það sem mig langaði til að gera. Opnaði ekki bögglana mína fyrr en um átta og þar sem síðasti böggllinn var með jólakortunum tók ég þau með inn í stofu og beið ekki með að opna þau og lesa allar góðu, hlýju kveðjurnar. Og vá hvað ég fékk fallegar og góðar gjafir, hittu allar beint í mark. Pabbi hafði beðið mig um að hringja aftur um kvöldið þegar ég sló á þráðinn fyrr um daginn og ég hlýddi því og heyrði fyrst í systur minni og svo honum. Gat m.a. tilkynnt honum að ég hefði fengið jólakortið þeirra mömmu frá Inger og Per, danska vinafólkinu. Umslagið var stílað á mig og mitt heimilisfang, kveðjan í kortinu var til pabba og mömmu en inni í kortinu var einnig bréf til mín. Gaman að þessu. Verð að muna að taka þetta með mér austur á eftir.

24.12.16

Kaldi potturinn í Laugardalnum ennþá tómur

Fyrr í vikunni var ég ekki viss um að fá neina skötu á Þorláksmessu. Þar sem ég er ekki í mataráskrift í vinnunni hef ég engan rétt til þess að skreppa í mötuneytið dags daglega. Yfirleitt er mér alveg sama. Áður en reglunum var breytt þannig að maður yrði annað hvort að vera í fullri áskrift eða sleppa því alveg fór ég sjaldan oftar upp í matsal en tvisvar í viku. Fór eiginlega aðeins þá daga sem var fiskur á boðstólum. Í gær ákvað ég að lauma mér upp með þremur öðrum starfsfélögum mínum og vera fulltrúi þess fjórða sem er í mataráskrift en var í fríi í gær. Ég mætti engum hindrunum og fékk dásamlega vel kæsta skötu með kartöflum, rófum og hömsum.

Eftir vinnu ætlaði ég að koma bögglum og kortum til Brynju vinkonu. Hún var hins vegar ekki heima. Ég náði í hana í síma og við ákváðum að hún kæmi til mín þegar hennar erindum væri lokið. Annar ungi maðurinn var að vinna en hinn sonurinn var ennþá sofandi þegar ég kom heim. Fljótlega ákvað ég að taka fram ryksuguna og vonaði að það yrði til þess að strákurinn vaknaði og kæmi fram því ég hafði hug á því að fá hann til að aðstoða mig aðeins. Kannski vaknaði stráksi, en hann kom ekki fram svo ég ákvað að bjarga mér alveg sjálf. Lenti í smá kröppum dansi við þunga rúmdýnuna en að sjálfsögðu vann ég þann slag.

Brynja kom upp úr klukkan fjögur, kom inn í stutta stund en svo ákváðum við að skreppa aðeins út. Vorum ekkert búnar að ákveða hvert eða hvað við ætluðum að gera. Þar sem við fengum ágætis stæði stutt frá Pottinum og Pönnunni ákváðum við að kíkja þar inn og vorum með kaffi og kannski eitthvað létt í huga. Nú finn ég ekki lykt þannig að ég fann ekki skötuilminn sem tók á móti okkur. Þjónninn sem vísaði okkur til sætis að það væri hægt að fara á skötuhlaðborð og innifalið í því var einnig súpa,sallat og kaffi. Við skelltum okkur á þetta tilboð og vorum hæst ánægðar. Þetta kostaði 3690 kr. fyrir manninn og borgaði ég fyrir Brynju og hún fyrir mig.

Á eftir kíktum við aðeins við í Hagkaup í Skeifunni. Það vantaði m.a. handsápu á mitt heimili. Því miður var ég ekki með skrifaðan lista. Ekki það að ég var ekki að fylla körfuna af alls konar heldur gleymdi ég að kaupa það sem vantaði. Brynja skilaði mér heim fyrir klukkan níu. Skeljungs-strákurinn var kominn heim og hinn var búinn að elda eins og ég hafði reyndað beðið hann um að gera. Þann rétt get ég smakkað síðar nema drengirnir verði búnir að klára hann áður. Davíð Steinn ákvað að skreppa í Sunnubúðina fyrir lokun og keypti þar m.a. handsápu.

23.12.16

Síðasta vinnudegi fyrir jól lokið

Í gær var  hvorugur ungu mannanna að vinna svo ég notaði strætókortið milli heimilis og vinnu og var mikið fegin að sleppa við að sópa af lánsbílnum og skafa. Auðvitað komu svo skilaboð frá Atlantsolíu um 13 kr. afslátt. Kom heim fyrir hálfþrjú og fór fljótlega út að sópa og skafa af bílnum eingöngu til þess að skreppa og fylla á hann. Seinna um daginn lánaði ég svo bræðrunum bílinn svo þeir þyrftu ekki að burðast með marga böggla í strætó. Ég hafði það kósý heima og ákvað að vera ekkert að stressa mig á neinum húsverkum í bili. Miklu skemmtilegra að lesa og náði ég að klára bókina um Kiliansfólkið eftir Einar Kárason. Mikið sem mér finnst ég annars miklu lengur að lesa heldur en áður. Hugsanlega þarf ég að fara að láta mæla í mér sjónina.  Ég hef reyndar aldrei notað gleraugu við lestur, reif þau alltaf af mér ef ég leit í bók eða blöð. En nú eru margar vikur síðan ég setti gleraugu á nefið á mér, þarf þau ekki einu sinni við aksturinn. En það kemur fyrir að ég er smá stund að stilla fókusinn.

22.12.16

Sitt lítið af hverju

Þriðja daginn í röð fór ég á lánsbílnum í vinnuna. Lánaði Oddi nefnilega strætókortið en hann var að leysa af á tólf tíma vakt í Breiðholtinu. Davíð Steinn var kominn í nokkurra daga jólafrí og mátti sofa út. Vinnudagurinn minn þessa vikuna byrjar klukkan sjö eins og ég er líklega búin að skrifa um áður. Hætti og kvaddi á slaginu tvö og dreif mig beint í sund.

Varð pínu svekkt þegar ég sá að kaldi potturinn í Laugardalnum var tómur. Synti aðeins 300, skrapp í smá stund í sjópottinn og gufuna en dreif mig svo upp úr og heim. Fattaði ekki að ég lagði við hliðina á pabba sem hafði komið að stuttu áður en ekki náð sambandi við unga manninn sem var heima. Pabbi komst inn með mér og ég benti honum á að nú hefði verið gott fyrir hann að ef hann hefði verið áfram með lyklana að íbúðinni, sem hann skilaði daginn sem mamma fór í síðustu geisla fyrir um fjórum vikum. Mamma hafði annars farið í eftirskoðun vegna þeirrar meðferðar í gærmorgun og fengið ágætar fréttir. Hún var komin dagdeild bæklunardeildar í Fossvogi e-n tímann eftir hádegi í gær og þar var hún þar til hún komst að með úlnliðsbrotið sem þurfti að laga. Um hálfsex bættust mágur minn, eldri systurdóttir og vinkona hennar í hópinn. Það var ekki fyrr en um tíu sem pabbi mátti fara á vöknun til mömmu. Þar sem hann vissi ekki hvort hún gæti eða mætti koma austur eða hversu langan tíma þetta tæki þá biðu mágur minn og frænka áfram hjá okkur mæðginunum en vinkonan var sótt fljótlega. Mamma vildi fá að fara heim og fékk leyfið og þau lögðu öll fjögur í hann  austur á tólfta tímanum.

21.12.16

Vetrarsólstöður

Fór aftur á bíl í vinnuna í gærmorgun. Það teygðist örlítið á vinnutímanum en strax eftir vinnu sótti ég Odd Smára heim og við skruppum alla leið í Smáralindina. Fundum það sem hann vantaði og aðeins meira til. Skilaði syninum aftur heim en fór sjálf í heimsókn til vinkonu sem vann með mér á árunum 2000-2005. Færði henni jólakort og nokkur kerti. Stoppaði hjá henni í hátt í klukkustund áður en ég fór loksins heim. Var með bleikjurétt í matinn rétt fyrir sjö en eftir mat lánaði ég Oddi bílinn  svo hann kæmist í bíó með hluta af föðurfjölskyldunni í Egilshöll. Davíð Steinn kom heim á níunda tímanum. Hann hafði sent mér skilaboð um að hann yrði búinn að borða þegar hann kæmi heim. Merkilegt hvað hann sleppir oft að borða þegar er fiskur í matinn.  :-)  

20.12.16

Smá hraðferð á logninu seinni partinn í dag

Báðir synir mínir voru á 12 tíma vakt í gær. N1 ungi maðurinn var með strætókortið, hinn sonurinn var að leysa af á Skeljungsstöðinni á Sæbraut við Langholtsveg og fór einnig með strætó og ég fór á lánsbílnum í mína vinnu. Ég fór út á undan strákunum því mín vakt hófst klukkan sjö. Strax eftir vinnu, upp úr klukkan tvö, kom ég við á Hárhorninu með eitt jólakort til afmælisbarns gærdagsins áður en ég fór í sund.

Eftir að ég kom heim fór ég að vinna í að "smíða" tilkynningu í moggann, á vegginn og heimahöfnina vegna aðfanga- og jóladag. Hafði sent fyrirspurn um innihald til Péturs, Árna og Helgu og eftir að hafa fengið viðbrögð frá tveimur fyrrnefndu sendi ég uppkast til sömu aðilla til yfirlesturs. Fékk jákvæð viðbrögð frá prestinum og varaformanni safnaðarstjórnarinnar en ekkert "heyrðist" frá organistanum. Í millitíðinni sótti ég Skeljungsstrákinn og kom við í Krónunni við Nóatún á heimleiðinni þar sem virkjaði nýja debetkortið mitt.

19.12.16

Nokkrar línur um helgina

Á föstudagsmorguninn "skrópaði" ég í sundi en hafði þá verið búin að fara daglega í sund í meira en tvær vikur. Var með rauða kortið og tók strætó í vinnuna korter fyrir eitt með gjöf með mér. Klukkan eitt var hálfsmánaðarlegi fundurinn með framkvæmdastjóranum sem afhenti okkur m.a. jólagjafirnar. Fljótlega eftir að þeim fundi lauk söfnuðumst við saman frammi á kaffistofu. Búið var að dekka borð og þar kenndi ýmissa grasa. Eftir að hafa gert góðgerðunum skil var jólahúfa með númeruðum miðum upp í níu, jafnmörgum og við vorum sem og pakkarnir sem voru á öðru borði, látin ganga. Eftir þessa stund kvaddi morgunvaktin en við á síðdegisvaktinni fórum að huga að fyrirliggjandi verkefnum. Náðum að klára eitt þeirra áður en klukkan varð sjö.

Var mætt í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan átta morguninn eftir. Náði klukkutíma heima eftir sundið áður en ég fór í esperantohitting. Á þessum klukkutíma byrjaði ég að undirbúa austurför. Synirnir voru báðir komnir á stjá er ég kom til að sækja farangurinn fyrir ferðina austur. Lagði í hann rétt upp úr klukkan tvö og var komin austur um kaffileytið. Við pabbi fóru í að hjálpa mömmu að ganga frá dóti í stóra herberginu. Það tók nú ekki langan tíma og á eftir settist niður í stofunni með prjónana mína. Pabbi hafði dýrindis lax í matinn og þar sem ég hafði tekið með mér hvítvínskassann frá því í fríhöfninni í sumar fékk ég mér eitt glas með matnum. Kvöldið notaði ég svo til að ljúka við jólakortaskrifin þetta árið og ég fyllti tvisvar á vínglasið.

Í gærmorgun gerði ég heiðarlega tilraun til að sofa út en ég var vöknuð miklu, miklu fyrr en ég ætlaði mér. Um hálfellefu labbaði ég upp að Helluvaði og heimsótti föðursystur mína. Þegar ég kom þaðan heyrðist mér á pabba að þar sem veðrið ætti að versna þegar líða tæki á daginn vildi hann að ég færa að huga að heimferð. Það stóð aldrei til að ég yrði lengur en fram að kaffi en þar sem ég var ákveðin í að koma við á einum stað á Selfossi á leiðinni heim kvaddi ég foreldra mína rétt fyrir eitt. Það var vel tekið á móti mér í Fossheiðinni að vanda, ég var nokkuð viss um að þar yrði einhver heima og var því ekkert búin að hringja á undan mér.

Kom í bæinn um hálffjögur. Byrjaði á því að setja flest öll jólakortin í póstkassa við pósthúsið í Síðumúla. Horfði á úrslitaleik í EM kvenna og hélt að sjálfsögðu með Þóri Hergeirssyni. En ég er á morgunvakt framan af þessari viku, 7-14 og því betra að fara að koma sér í ró svo ég verði fersk um sex í fyrramálið.

16.12.16

Aftur kominn föstudagur

Vikan mín á 13-19 vakt er senn á enda. Aðeins þessi vinnudagur eftir. Í gær fékk mótvaktin mín aðra af morgunvaktinni til að skipta við sig um vakt svo hún kæmist í jarðaför. Ég og sú sem skipti um vakt höfum unnið saman í ellefu ár en skv. núverandi vaktaplani þá erum við aldrei saman á vakt svo gærdagurinn var skemmtilega spes fyrir vikið. Að vísu lentum við í smá hremmingum í framleiðslunni en við hefðum reyndar klárað það sem lá á og lá fyrir ef við hefðum ekki verið stoppaðar af, vegna e-s konar prófana, rétt fyrir klukkan sex.  Í staðinn náðum við að ganga frá  nokkru fyrir klukkan sjö og leyfðum okkur að stinga af korteri á undan áætlun. Það ætti að vera í góðu lagi því það er nefnilega ósjaldan sem þetta er frekar á hinn veginn að maður er búinn að skila vinnutímaskyldunni en kemst ekki strax vegna alls konar atvika og verkefna.

Mamma er heldur skárri og hún fann leið til að laga rúmdýninuna þannig að hún halli frekar inn á við og þar af leiðandi minni hætta á að "leka" niður á gólf þegar hún er að fara framúr.

15.12.16

Desember um það bil hálfnaður

Kveikti aðeins örstutt á tölvunni í gærmorgun og ekkert í gærkvöldi þar sem ég skrapp út fljótlega eftir að ég kom heim úr vinnu á áttunda tímanum og fór svo beint í háttinn þegar ég kom heim upp úr klukkan tíu. Rútínan er svipuð hjá mér þessa dagana, sund, heimilisstúss, lestur, vinna, slökun og passa upp á að fara ekki of seint í háttinn. Ég er byrjuð á jólakortaskrifunum, þrátt fyrir að eiga eftir að föndra líklega í kringum tíu kort. Fann listann sem ég notaði í fyrra og get notað hann aftur þetta árið með örlitlum breytingum. Var svo séð að setja ártalið í fyrra fyrir ofan merkidálkinn og svo er ónýttur annar dálkur þar við hliðina sem ég skráði 2016 fyrir ofan.

Mamma er léleg þessa dagana, orkuleysið vegna geilsameðferðarinnar er mikið. Sem betur fer getur hún sofið, legið og hvílst en svo á hún það til að lenda í vandræðum þegar hún þarf að fara framúr. Eins og staðan er búin að vera undan farnar vikur er mjög líklegt að það sé enn þónokkur tími sem aðeins er hægt að hugsa um einn dag í einu. Þau pabbi eru algerar hetjur að mínu mati og í pabba huga eru engin vandamál aðeins lausnir á verkefnum.

Prófaði að hafa mat í hádeginu í gær mér til gagns og gleði. Sauð bygggrjón, skar niður kúrbít, sæta kartöflu, sveppi, rauðrófu og gulrót og setti í eldfast fat. Setti tvö bleikjuflök ofan á grænmetið og kryddaði með sítrónupipar, svörtum pipar og hvítlauksdufti og setti inn í 150° ofn í ca 30 mínútur. Þessi réttur var bæði fallegur og góður en það er algerlega mitt mat þar sem synirnir eru ekki búnir að smakka ennþá.

Davíð Steinn fékk strætókortið í gær og þegar leið að því að ég ætti að mæta til vinnu ákvað ég að vekja einkabílstjórann og fá hann til að skutla mér. Oddur Smári fór eina ferð í Sorpu seinni partinn í gær. Hann þurfti ekki að sækja mig í vinnuna. Ég hefði líklega labbað heim ef mótvaktin mín hefði ekki boðið mér far. Þáði farið með þökkum svo ég hefði smá stund heima áður en skrapp í heimsókn til föðursystur minnar.

13.12.16

Castle-kvöld í kvöld

Í gærmorgun var ég mætt í Laugardalinn ca tíu mínútum eftir að var opnað í laugina. Synti 500, fór tvisvar í þann kalda, einu sinni í 42°C og aðeins í sjópottinn. Gufuklefinn er lokaður alveg fram á næsta föstudag. Kom heim rétt upp úr átta og þá var Oddur Smári að leggja af stað í skólann til að taka síðasta prófið á misserinu. Það ringdi svo ég sá aumur á syninum og skutlaði honum. Hann labbaði svo heim eftir prófið.

Ég skrapp í Kringluna til að fjárfesta í nýju þriggja mánaða strætókorti, eitthvað af frímerkjum og einu enn sem ég segi kannski frá síðar. Heima byrjaði ég á jólabréfi til Janis, enskrar vinkonu minnar til margra ára en við kynntumst í gegnum AFS þegar við vorum unglingar og byrjuðum okkar vinskap á að skrifast á. Þegar við vorum rúmlega tvítugar kom hún og ein vinkona hennar í heimsókn til Íslands. Þær gistu á farfuglaheimili og fóru amk einn svona "gullna-hring-ferðamanna túr" en mig minnir að við höfum hist nokkrum sinnum á þessum tíu dögum sem þær voru hérna. Skruppum m.a. austur á Hellu.

Davíð Steinn var á frívakt í gær svo ég notaði nýja kortið og var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan eitt. Átti að vera að vinna til sjö en klukkan var langt gengin í átta þegar við síðdegisvaktin gátum gengið frá og hætt. Fékk far heim hjá mótvaktinni minni. Ákvað að geyma frekari bréfa og jólakortaskrif aðeins lengur og horfði á "Svikamillu" frá því á sunnudagskvöldið áður en ég fór að sofa.

12.12.16

Tólfti, tólfti, sextán

Helgin var fljót að líða en ég gat engu að síður nýtt hana nokkuð vel.  Var mætt í Laugardalslaugina strax klukkan átta á laugardagsmorguninn. Eftir nokkuð hefðbundna rútínu hafði ég rúman klukkutíma áður en ég skrapp yfir til norsku esperanto vinkonu minnar. Okkur gekk vel í "tímanum", lásum tvær og hálfa blaðsíðu í Kontiki og þurftum ekki að fletta svo mörgum orðum upp.

Kvaddi Inger rétt fyrir eitt og skrapp í Krónuna áður en ég fór heim. N-1 strákurinn var á helgarvakt og tilvonandi tölvunarfræðingur var á sýningu upp í Tækniskóla.  Ég gekk því frá vörunum áður en ég hringdi í pabba og lét hann vita að ég ætlaði að koma austur um hádegisbil daginn eftir, á sunnudeginum. Síðan hrærði ég í hálfa uppskrift af heilhveitivöfflum og þrefalda af kornfleksmarenskökum. Bjó til kaffi og við Oddur fengum okkur af vöfflunum með því um kaffileytið. Öðrum bakstri lauk um fimm. Þá gerði ég klukkutíma pásu áður en ég fór að stússast aftur í eldhúsinu og huga að kvöldmatnum. Í kringum kvöldmatarleytið hringdi pabbi í mig og sagði að það hefði komið babb í bátinn. Mamma hafði dottið og únliðsbronað og var á leiðinni á Selfoss með sjúkrabíl. Þar átti að skoða hana og ákveða hvort hægt yrði að búa um brotið þar eða hvort þyrfti að senda hana alla leið í bæinn. Pabbi hringdi aftur á ellefta tímanum til að segja mér að hann mætti sækja mömmu á Selfoss.

Í gærmorgun skutlaði ég Davíð Steini á N1 við Stórahjalla upp úr hálfníu og fór svo í sund. Stoppaði ekki lengi heima eftir sundið, rétt til þess að ganga frá sunddótinu og taka smávegis af smákökunum og handavinnuna mína með. Var komin á Hellu rétt fyrir tólf og var þar þar til klukkan var langt gengin í níu. Mamma svaf mest allan daginn en rúllaði einu sinni fram úr rúminu. Gat látið vita áður en hún datt alveg niður á gólf en pabbi gat ekki reist hana upp og varð að láta hana setjast alveg á gólfið. Þar sem hún er svo aum í öllum líkamanum náði pabbi í eigin uppfinningu af talíu út í skúr og notaði dyrakarminn til að hífa hana það hátt upp að hún gat tillt í fætur og staðið upp. Alveg magnað að fylgjast með þessu en mikið sem mig langaði til að taka "snapp" af þessari björgun og senda systur minni og sonum mínum. Ég féll samt ekki í þá freistni heldur aðstoðaði við þessa björgun.

9.12.16

Föstudagur enn á ný

Hvernig fer tíminn eiginlega að því að æða svona áfram? Þar sem N-1 drengurinn minn hafði lofað að taka aukavakt seinni partinn í gær ákvað ég að skilja rauða kortið eftir heima og fara á lánsbílnum í vinnuna rétt fyrir hádegi í gær. Ekkert stæði var laust á neðra planinu svo ég lagði í gjaldstæði á Skúlagötunni og hefði ég mátt hafa bílinn þar alveg til klukkan að verða tíu núna í morgun. Við seinni vaktin leystum af á framleiðsluvélinni rúmlega tólf. Klukkutíma seinna gengum við öll vel frá og skruppum yfir í Hörpuna að fá okkur kaffi saman. Þær tvær sem voru á morgunvaktinni kvöddu að þessum kaffifundi loknum en við hin fórum aftur að vinna.

Þegar ég kom heim aftur upp úr klukkan sex freistaðist ég til að sleppa allri eldamennsku og fékk einkabílstjórann til að panta og sækja 3 bökur á Saffran. Horfði á Kiljuna frá því kvöldinu áður en gerði mest lítið annað. Dreif mig í háttinn um tíu svo ég var líklega búin að sofa í tæpa átta tíma þegar vekjaraklukkan vakti mig í miðjum draumi rétt fyrir sex í morgun.

8.12.16

KÓSÍ hittingur í gærkvöldi

Gærdagurinn byrjaði á sundferð strax um hálfsjö. Náði því að fara tvisvar í kalda pottinn og gaf mér líka góðan tíma í sjópottinum í spjall við pottavinkonu. Við urðum samferða í gufu og settumst meira að segja í "sólbað" um stund rétt áður en við fórum upp úr um átta.
Ég var með rauða kortið í gær og var mætt í vinnu á slaginu tólf. Við, seinni partsvaktin, hættum framleiðslu og gengum frá um sex.  Vann þó aðeins lengur því það komu varahlutir um daginn og þar sem það tók því ekki að fara heim en ekki var tímabært að mæta á jólaglögg KÓSÍ notaði ég tímann til að skrá inn hlutina og ganga frá þeim.

Rölti svo aðeins um í bænum. Skrapp inn í Eymundsson við Austurstræti og staldraði einnig góða stund við svellið við Ingólfstorg. Bankaði upp á hjá nöfnu minni og Arnlaugi manni hennar aðeins fyrir auglýstan tíma. Ég var auðvitað langfyrst en það var tekið á móti mér opnum örmum. Alls bættust fimm við og þá vorum við samankomin átta, rúmlega helmingurinn af hópnum. Áttum mjög góða stund saman enda leið tíminn afar hratt. Fékk einkabílsstjórann til að sækja mig upp úr ellefu og við komum við á Atlantsolíustöðinni við Öskjuhlíð á heimleiðinni.

Klukkan var víst orðin tólf áður en ég fór að sofa í hausinn á mér en engu að síður var ég vöknuð um sex í morgun og tilbúin að drífa mig í sund, sem ég og gerði.

7.12.16

17 dagar til jóla

Labbaði báðar leiðir milli heimilis og vinnu í gær. Fór að heiman rétt fyrir hálftólf og var mætt rétt fyrir tólf. Sex tímar og reyndar uþb hálftími betur voru ekki lengi að líða enda nóg að gera. Lagði af stað heim aftur um hálfsjö. Einkabílstjórinn var búinn að redda sér kvöldmat og N1 hinn ungi maðurinn var að vinna til hálfátta og búinn að ákveða að hitta vin strax á eftir þar sem það er frívakt í dag.  Ég átti sem betur fer afgang af bleikjurétti frá því kvöldið áður. Eftir að hafa nært mig og fengið Odd til að ganga frá tók ég fram mest allt jólakortaföndurdótið mitt og fór með inn í stofu. Ég náði aðeins að búa til eitt og hálft kort því þegar Castle byrjaði gerði ég verkfall og einbeitti mér að þættinum. Var aðeins lengur að koma mér í háttinn heldur en kvöldin tvö á undan en ég var nú samt sofnuð löngu fyrir klukkan ellefu.

Jólakortaföndurdótið er ennþá inni í stofu og var ætlunin að búa til amk eitt og hálft kort í viðbót. En einhvern veginn virðist tíminn vera að fara í allt annað mis-skynsamlegt. Ég ætla því að fela allt í hendurnar á "stillilögmálinu" og fara eftir mottóinu í desemberspá hinnar dásamlegu Siggu Kling: "Ekki gera það í dag sem þú getur gert eftir viku."

6.12.16

Einmitt það já!

Ég var vöknuð á undan vekjaraklukkunni í morgun. Hafi sem betur fer verið skynsöm og farið að sofa upp úr klukkan tíu svo ég fékk nánast átta tíma svefn. Gærdagurinn var annars svolítið köflóttur, en á góðan máta samt. Sá dagur byrjaði á sundferð, kom heim um hálfníu, nýtti tímann í alls konar bæði skynsamlega og líka í smá facebook-leiki. Fékk einkabílstjórann til að skutla mér í vinnuna rétt fyrir tólf. Vann til sex og labbaði beint heim yfir Skólavörðuholtið. Hafði til kvöldmat, sem þegar til kom, var eiginlega aðeins fyrir sjálfa mig því annar strákurinn fór til pabba síns og hinn var að vinna til hálfátta. Horfði á Svikamillu frá því á sunnudagskvöldið og las svo um stund í einni bók eftir Einar Kárason.

5.12.16

Nýkomin úr sundi

Þessa vikuna verður vinnutíminn minn frá klukkan tólf. Þar sem ég er yfirleitt vöknuð fyrir sex hef ég hugsað mér að byrja alla næstu morgna á því að fara í sund. Hitti N-einn strákinn minn er ég kom fram í morgun. Hann var að undirbúa sig undir að fara á 12 tíma vakt. Ég fór út á undan og var byrjuð að synda ca korter í sjö í morgun. Synti í um tuttugu mínútur eða 500 metra. Skellti mér beint í kalda pottinn í um þrjár mínútur og á leiðinni í sjópottinn hitti ég hana Sigrúnu og við röbbuðum heilmikið og heillengi í saltinu, færðum okkur svo yfir í gufubaðið og enduðum á því að sitja smá stund á bekk, í "sólbaði" eins og ég kalla það. Ég kom heim um hálfníu.

Í gærkvöldi var aðventukvöld í kirkjunni "minni". Mjög metnaðarfull dagskrá en ég verð að segja það að það fór aðeins of mikið fyrir söngnum, flottur og góður og allt það, en dagskráin í heild með öllu, líka hugvekju Einars Kárasonar, tók einn og hálfa tíma. Strax á eftir var fólk beðið um að stíga út fyrir og taka þátt í afhjúpun á þakklætis steini til hjóna úr söfnuðinum fyrir mikið og óeigingjarnt starf í þágu safnaðarins. Hún er fallin frá fyrir hátt í tveimur árum en hann var á staðnum, vissi ekki neitt um þetta. Eftir þessa stuttu stund var fólki boðið inn aftur og upp á smákökusmakk í efri salnum.

4.12.16

Ekki svo viss um að skriftarhléi sé alveg lokið

Jæja, um fjórir mánuðir síðan ég skrifaði eitthvað niður á þessum vettvangi. Hitti eina jafnöldru mína seinni partinn í ágúst sem spurði hvort ég væri hætt að blogga. Ég var frekar hissa á spurningunni því ég veit ekkert hversu margir voru/eru að kíkja á bloggið mitt reglulega, fyrir utan eina sem er afar tryggur aðdáandi. Hún passar sig á að vera ekkert að reka á eftir mér með skrifin en hún lætur mig líka vita hversu ánægð hún er þegar ég byrja að skrá niður þanka og daglegar athafnir reglulega. Hún veit að ég er ekki mikið fyrir að tuða eða vera með væl eða neikvæðni, hvað þá að skrá of mikið niður af venjlegum húsverkastörfum, en ég er búin að láta vita að þetta hlé er alls ekki útaf neinu svoleiðis.

Ég vil halda því fram að ég sé heppin og að ég sé sífellt að verða færari í að grípa daginn og njóta 
augnabliksins. Kannski er ég að blekkja sjálfa mig? Þetta með að reyna að nýta tímann sem best og njóta hefur einhvern veginn lítið verið nýttur í hannyrðir og lestur, þó ég sleppi því aldrei alveg, tók td upp á því að grípa í prjóna í haust til að prjóna sjal eftir ákveðnu mynstri. Gæti verið búin með það ef ég hefði ekki prjónað miðjumynstrið aðeins of oft svo ég  sá fram á að ég ætti ekki nóg garn. Er loksins búin að kaupa aukahnotu en nú er svo sannarlega að koma tími á að hespa af jólakortaframleiðslu og skrifum.

Hvað er ég eiginlega þá að gera við tímann? Ja, stórt er spurt og ef ég get ekki svarað því sjálf, getur það enginn. Sjáum til hvort ég næ að vekja skrifaandann aftur og vonandi þá vísuandann í leiðinni. 

3.8.16

Ágústmánuður byrjaður

Það nóg um að vera í kringum mig en einhvern veginn hef ég ekki fengið mig til að setjast niður og skrá niður það helsta. Þetta er að verða vandræðalegt hversu léleg ég er að sinna bloggi sem og útsaumi. Að vísu tók ég saumana með austur um síðustu helgi, eins og reyndar oftast þegar ég ætla að gista, og viti menn ég saumaði bæði á sunnudeginum og á mánudagsmorguninn.

Byrjaði  á því að skreppa í sund strax um átta á laugardaginn var. Kom við heima í um klukkustund eftir sundið áður en ég fór yfir til norsku esperanto vinkonu minnar. Þar stoppaði ég í hátt í tvo klukkutíma. Þegar ég kom heim lauk ég við að pakka, kvaddi strákana og brunaði út úr bænum um tvö. Var komin austur klukkan hálffjögur þrátt fyrir að það væri smá flöskuháls við Selfoss.

Við pabbi vorum sest út á pall fyrir klukkan tíu á sunnudagsmorguninn. Fljótlega ákváðum við að taka út sláttuvél og klippur og snyrta grasflatirnar, bæði aftan og framan við hús. Þurftum að tæma fjórum sinnum en vorum sennilega ekki nema einn og hálfan tíma að klára þetta. Pabbi fór fyrstu hringina en ég tók svo við og var komin upp á sæmilegt lag við að elta vélina sem fór nota bene nokkuð hratt yfir. Á mánudagsmorgun uppgötvaði ég að ég hafði sennilega nota einhverja axlarvöðva sem eru sjaldan í notkun þrátt fyrir sund og e-s konar armdýfingar reglulega. En ég kvaddi foreldra mína um hálfþrjú á mánudeginum og var komin í bæinn um fjögur. Tók til sunddótið og byrjaði á því að skreppa í Laugardalslaugina. Kom við í búð á heimleiðinni þrátt fyrir að það væri frídagur verslunarmanna.

Labbaði í vinnuna í gærmorgun og var mætt vel fyrir klukkan átta. Ég og ein önnur vorum áfram frá fjögur, að sinna reikningagerð og vakta þá sem yfirfara vélina ca einu sinni í mánuði. Hin skutlaði mér heim rétt fyrir sjö en um átta leitið skrapp ég aðeins í heimsókn til "föðursystur" minnar.

12.7.16

Smá lífsmark

Það stefnir allt í afar rýrt skrifsumar og ég er ekki viss um hverju ber að þakka það eða kenna um eftir því hvernig á það er litið. Ég er þokkaleg og rúmlega það. Hamast við að njóta augnablikanna og reyni líka að nýta sumt af tímanum skynsamlega í nokkuð sem ég skrifa lítið sem ekkert um enda um venjuleg heimilisverk að ræða. Viðurkenni það alveg að mér gengur betur að eyða tímanum í allt annað en heimilisverkin en þau verða samt aldrei alveg útúndan.

 eru rétt rúmlega fimm virkir dagar eftir af aðalsumarfríinu mínu. Ég er ekkert orðin þreytt á því að vera í fríi og sé fram á að ná ekki að komast yfir að gera alveg allt sem var á listanum. En ég er búin að gera alveg helling og ég er ekkert með samviskubit yfir einu eða neinu, til hvers væri það svo sem?

Einkabílstjórinn er búinn að taka fullnaðarprófið eftir að hafa haft ökuréttindi í rúmt ár eða frá því seinni partinn í apríl í fyrra. Hann var að skila inn akstursmatinu til sýslumannsins í Kópavogi og ætlar svo að sækja skírteinið þegar það er tilbúið. Annars hefði hann þurft að skila inn því skírteini sem hann hefur haft sl. ár og fá bráðabirgða skírteini í millitíðinni.

Snemma á þessu ári sagði ég upp áralangri áskrift af kiljuklúbbnum Hrafninum. Síðasta bókin sem kom áður en áskrift var hætt var Fyrirvari eftir Renée Knight. Ég tók þá bók loksins úr blastinu um síðustu helgi og kláraði hana daginn eftir að ég byrjaði á henni. Mjög spennandi og kemur stöðugt á óvart. Spennan hélst út bókina.

2.7.16

Sumarfríið hálfnað

Tíminn æðir áfram, dagar verða að vikum og vikur að mánuðum. Það er hálfur mánuður síðan ég skrifaði eitthvað inn hér síðast. Ég fékk óvænt "heimboð" í viku til Spánar sem ég þáði. Var búin að bóka flug til og frá Alecante og aðra leiðina með flugrútunni upp úr klukkan níu að kvöldi 17. júní sl. Hafði fyrst þurft að hugsa mig aðeins um og hringdi bæði í foreldra mína og systur. Þau og synir mínir hvöttu mig frekar en löttu og ég sem þarf yfirleitt að hafa nokkurn fyrirvara á hlutunum ákvað að fljúga út strax daginn eftir og vera með tvíburahálfsystur minni og hennar fjölskyldu í heila viku. Fékk pláss með sama heimflugi og þau áttu. Þetta kostaði mig ekki nema tæpar 31þúsund. Og til að kóróna heppnina yfir mér þá átti pabbi leið í bæinn þetta kvöld til að sækja tengdasoninn úr flugi frá Akureyri (og Cöru sem fékk far á samferða.is) og kom hann við hjá mér í leiðinni og gaf mér afgangs evrur síðan þau mamma voru á Tenerífe í okt-nóv 2014.

Oddur Smári samþykkti að fara gangandi til afleysingar á Birkimelnum á laugardagsmorgninum, með klink í strætó og aukalykil af lánsbílnum. Ég skrapp í sund og var enn að reyna átta mig á og trúa þessu láni yfir mér. Það varð svo úr að ég labbaði með eina litla flugfreyjutösku og mittistösku undir evrurnar og vegabréfið á BSÍ upp úr klukkan ellefu og tók flugrútuna klukkan hálftólf. Keypti mér smá hressingu og vínglas í fríhöfnini. Eini gallinn við að fljúga þennan dag var sá að ég missti af leik Íslands og Ungverja á EM. Lenti í Alicante um níu að staðartíma og um leið og ég kom útfyrir kölluðu Sonja og Elísa á mig. Ég var enn að reyna að trúa þessu ævintýri. Er við komum í íbúðina á hótelinu var mér boðin kvöldhressing og það var opnuð vínflaska.

Dagarnir úti liðu jafnhratt og hér heima. Á sunnudeginum skruppum við aðeins á ströndina og eftir að hafa buslað aðeins í sjónum og setið nánast í flæðamálinu fengum við okkur að borða. Þá fyrst keypti ég mér strandhandklæði og strandskó. Um kvöldið var farið út að borða í tilefni afmælis Óskars. Á mánudeginum vorum við í sólbaði við hótelið meira og minna allan daginn. Ég var dugleg að nota sundlaugina og fannst mjög gott að svamla um í henni. Næsta dag þar á eftir borgaði sig að taka sólbaðshlé. Skruppum til Murcia og röltum þar um á heitasta tímanum. Helstu söfnin voru auðvitað lokuð og við vorum með hugann við EM leikinn. Reyndar var sá leikur ekki sýndur í hótellobbýinu þegar til kom. Það var líka skroppið í verlsunarmoll. Ég var reyndar ekki mikið á þeim buxunum en fannst gaman að skreppa með. Þegar til kom keypti ég þó; sólgleraugu, handtösku, nokkur sokkapör og dásamlegan kjól ekki allt í sömu ferðinni þó. Kjólinn keypti ég síðasta daginn í C&A á Benidorm en ég hafði mátað hann nokkrum dögum áður.

17.6.16

Óvæntur ferðaspenningur

Í morgun ákvað ég að sleppa sundinu þótt það væri opið frá klukkan tíu í morgun í Laugardalnum. Ég var alveg komin á fætur og skutlaði unga vinnandi manninum á aukavakt á Shell-stöðina við Birkimel rétt fyrir tíu. Var mætt hjá norsku esperanto vinkonu minni um klukkustund síðar og hafði m.a. farið með slatta af glerflöskum og krukkum í þar til gerðan gám í millitíðinni. Við Inger vorum nokkuð duglegar í esperantolestrinum og erum nú að byrja að lesa Kontiki. Það á eftir að verða skemmtilegt ævintýri. Um hálfeitt hringdi sá sonurinn sem var heima. Hann vantaði að komast til eins vinar síns í Breiðholti og þar sem ég hafði óvart tekið með mér klinkbudduna ákváðum við Inger að við færum bara í göngutúr á því svæði. Náðum í Davíð Stein og skutluðum honum þangað sem hann vildi fara og lögðum svo bílnum rétt fyrir neðan Stekkjabakka og löbbuðum smá hring um Elliðaárdalinn. Svo skutlaði ég vinkonu minni aftur heim.

Ég var ekki búin að vera mjög lengi heima þegar dyrabjallan hringdi. Á tröppunum stóðu tveir spilafélagar bræðranna. Ég hleypti þeim inn með spiladótið en stuttu síðar fóru þeir og sóttu Davíð Stein svo hægt væri að byrja að spila. Ég sótti Odd um hálfátta og félagarnir fjórir eru enn að spila. Hljóta þó að verða að hætta bráðum þar sem Oddur á aukavakt aftur á Birkimelnum klukkan níu í fyrramálið. Annars var hringt í mig rétt fyrir klukkan átta og ég spurð að því hvort ég væri með gilt vegabréf. Svarið var já og þá fylgdi önnur spurning í kjölfarið sem ég þurfti að fá að melta aðeins áður en ég gaf svar við henni. Framundan er óvænt ferðalag... Meira um það, sennilega eftir rúma viku.

16.6.16

Ljúft að vera í sumarfríi

Alla fjóra virku morgnana í þessari viku hef ég mætt í sund strax klukkan hálfsjö. Oftast hef ég verið vöknuð á undan vekjaraklukkunni en í þetta eina skipti sem klukkan hringdi og vakti mig tíu mínútum fyrir sex var ég nokkuð brött og dugleg að koma mér af stað. Hluti af því sem togar mig í sundið á þessum tíma er "morgunfólkið mitt", t.d. Lene sú sem ég kynntist í kalda pottinum fyrir rúmu ári síðan. Í gær urðum við líka vinkonur á Facebook.

Ungi maðurinn sem er kominn með sumarvinnu átti vakt á mánudaginn, frí á þriðjudaginn og vakt í gær og í dag.  Allt eru þetta 12 tíma vaktir. Þegar hann kemur heim eftir vaktina í dag fær hann þriggja daga frí. Hinn ungi maðurinn hefur verið duglegur að hjálpa mér við ýmis viðvik hér heima, m.a. hefur hann séð um kvöldmatinn í tvö skipti og hann er búinn að taka að sér að sjá um matmálin í kvöld líka þar sem ég er að hugsa um að bregða mér á Valsvöllinn á heimaleik minna manna og FH. Sá leikur er reyndar ekki fyrr en klukkan átta en það vill til að sonurinn hefur gaman af að stússa í eldhúsinu svo ég fæ rýmri tíma til að sinna áhugamálunum mínum. Já, ég veit að ég er heppin og þakka fyrir það daglega.

14.6.16

Sumarfríið byrjað

Endemis skrifleti er þetta. Tilefnin eru til staðar, þ.e. það er nóg að gerast í kringum mig dags daglega en ég er ekki að gefa mér tíma til að skrásetja það helsta. Eins og ég hef áður skrifað þá hefur þetta bæði sína kosti og galla. Kostirnir eru að ég er ekki að skrifa of mikið um það sem er að gerast í kringum mig en gallarnir helst þeir að sumir "mikilvægir atburðir" gætu orðið útundan og aldrei komist á blað. Hvað gerir maður þá þegar maður rennir yfir þetta tímabil seinna meir?

Klukkan þrjú á föstudaginn var, var ég komin í sumarfrí. Ég hafði farið á bílnum í vinnunna og einnig tekið sunddótið mitt með þannig að fyrst lá leiðin í Laugardalslaugina. Náði að synda amk 300 metra og dýfa mér tvisvar sinnum í kalda pottinn en klukkan hálffimm var ég mætt í klippingu til hans Nonna í Kristu Quest. Í stólnum á undan mér var einn úr safnaðarstjórninni. Þar sem ég var á bílnum sleppti ég því að fá mér einn einfaldan wiský af barnum. Hef reyndar aðeins prófað það einu sinni en þessi hugsun hafði komið upp kvöldið áður, að ef ég færi labbandi milli heimilis og vinnu og vinnu og hárgreiðslustofu myndi ég geta fengið mér einn einfaldan. Í staðinn keypti ég mér nýjan sjampóbrúsa og endaði svo á því að versla áður en ég fór heim.

Aldrei þessu vant fór ég ekki í sund á laugardagsmorguninn. En ég var mætt í kirkjuna rétt fyrir níu til að taka þátt í göngumessu. Kórinn hafði ekki verið boðaður en engu að síður voru fimm sálmar ákveðnir. Í kirkjuna komu sjö eða átta aðrir fyrir utan prest og organista. Samt voru það eiginlega bara við þrjú sem sungum sálmana. Seinna um morguninn kíkti ég til norsku esperanto vinkonu minnar og við beindum athyglinni aðeins að tilbúna tungumálinu. Um eitt skruppum við á opin dag félags sem heitir Geysir og er í Skipholtinu. Klukkan var því byrjuð að ganga fimm áður en ég dreif mig af stað austur á Hellu. Fékk þá skyndihugdettu að kíkja aðeins við í Fossheiðinni og var vel tekið á móti mér þar að vanda, þrátt fyrir að ég hafi ekki hringt á undan mér. Rétt eftir að ég skilaði mér alla leið á Hellu hringdi æskuvinkona mín í mig. Hún, sem býr á Egilstöðum, hafði verið á ættarmóti á svæðinu fyrr um daginn og var stödd hjá pabba sínum. Ég fékk að borða kvöldmatinn á undan foreldrum mínum og systurdóttur og trítlaði upp í hæð rétt fyrir klukkan átta. Þar hitti ég bæði vinkonu mína og pabba hennar.

Á sunnudeginum hnoðaði ég í kleinur með mömmu og steikti. Eftir kaffi skrapp ég í heimsókn út á elliheimili, ekki alveg þá heimsókn sem ég lagði af stað í en sú sem var svo heppin að fá mig hafði á orði, þegar ég fór, að ég væri alltaf velkomin aftur. Klukkan var byrjuð að ganga ellefu um kvöldið þegar ég kvaddi og brunaði í bæinn. Lagði lánsbílnum fyrir aftan heilsugæslustöðina.

Í gærmorgun byrjaði ég svo á því að mæta í sund strax við opnun. Reyndar byrjaði ég allra fyrst á því að útbúa hafragraut handa ungu mönnunum og sá sem var að mæta á vaktina um hálfátta varð glaður með það. Um hádegisbil fékk ég mér göngutúr út í Kringlu til að skila þremur bókum á bókasafnið þar. Um tvöleytið bankaði ég upp á hjá hinum unga manninum og spurði hvort hann ætlaði nokkuð að sofa af sér allan daginn. Síðan bjó ég til smá kaffi og var fyrsti kaffibolli gærdagsins drukkinn um hálfþrjú.

6.6.16

Síðasta vinnuvikan fyrir sumarfrí hafin

Það eru liðir aðeins of margir dagar síðan síðasta færsla var sett inn. Mikið að gerast og í nógu að snúast. Vaktavinnuplanið tekur oft breytingum og það er ekki endilega víst að það sem búið var að ákveða í upphafi viku haldist í sömu skorðum út vikuna. En það er í góðu lagi mín vegna, sennilega vegna þess að það er stutt í að ég byrji í sumarfríinu mínu. Fyrstu þrjá virku dagana í þessum nýbyrjaða mánuði vann ég átta-fjögur vakt. Fór á bílnum á miðvikudeginum og byrjaði á því að fara í sund. Strax eftir vinnu skrapp ég í verslunarleiðangur og eftir að hafa fengið strákana til að sækja vörurnar út í bíl dreif ég mig á safnið, skilaði bókunum sem ég var búin að vera með í næstum tvo mánuði og fékk mér nokkrar aðrar álitlegar í staðin, þar á meðal eina sem er með styttri skilafrest, Týnd í Paradís eftir Mikael Torfason. Það er bók sem er mjög vel skrifuð en svolítið skrýtið að lesa um fólk sem maður hefur þekkt í rúm tuttugu ár. Mæli svo sannarlega með þessari bók.

Allt í einu var svo komin helgi. Ungi maðurinn sem er kominn með sumarvinnu átti "æfingarvakt" á föstudag, laugardag og sunnudag. Byrjaði á misjöfnum tímum en vann alla þessa daga til klukkan hálfátta. Hann varð að labba báðar leiðir á Birkimelinn á laugardeginum því ég vildi komast í sund klukkan átta svo ég gæti sótt yngri systurdóttur mína á flugvöllinn um tíu. Reyndar seinkaði fluginu hennar svo um klukkustund. Davíð Steinn kom með mér á flugvöllinn og svo fórum við þrjú næstum beint austur á Hellu. Við mæðgin stoppuðum aðeins framyfir kvöldmat en vorum komin í bæinn upp úr klukkan tíu um kvöldið.

Í gærmorgun gat ég skutlað Oddi í vinnuna eftir sundið því hann átti ekki að vera mættur fyrr en klukkan tíu. Sjálf var ég að fara að hitta norsku esperanto vinkonu mína um svipað leyti svo þetta var alveg í leiðinni. Við Inger létum þó esperantoið alveg eiga sig en fórum göngutúr með þriðju vinkonunni smá hring á Seltjarnarnesinu. Enduðum göngutúrinn á fótabaði í heitri laug sem er rétt við Gróttu. Davíð Steinn var sóttur um tvö af tveimur spilafélögum. Seinna um daginn fór ég á Valsvöllinn og sá "strákana mína" vinna strákana í Stjörnunni 2:0. Ég sótti Odd í vinnuna og lánaði honum svo bílinn eftir að hann var búinn að skipta um föt og fá sér eitthvað að borða. Þeir bræður komu saman heim af spilakvöldinum um ellefu.

1.6.16

Júnímánuður byrjaður

Á mánudagsmorguninn vorum við Oddur Smári snemma á fótum. Ég bauðst til að útbúa hafragraut handa honum sem hann þáði. Sjálf fékk ég mér AB-mjólk með krækiberjum og smá musli. Rétt fyrir sjö löbbuðum við saman út og uðrum samferða alveg yfir hringtorgið við HÍ. Þar skyldu leiðir. Oddur Smári átti að vera mættur í starfsþjálfun á Shellstöðinni við Birkimel um hálfátta en ég í vinnu um átta. Vinnudagurinn til fjögur var fljótur að líða en ég samþykkti að skipta um vakt við aðra á þriðjudeginum. Svo arkaði ég stystu leið heim yfir Skólavörðuholtið eftir vinnu. Heima slakaði ég á um stund en svo hjálpaði Davíð Steinn mér við eldamennskuna. Við borðuðum rétt fyrir sjö. Þá tók ég til sunddótið en byrjaði þó á því að sækja Odd úr 12 tíma vaktinni og skutla honum heim áður en ég fór í Laugardalinn.

Í gærmorgun bað Oddur mig um að búa aftur til graut en hann þurfti að labba einn í vinnuna að þessu sinni því ég var farin á undan honum á bílnum í sund strax eftir opnun laugar. Var svo heppin að hitta á Lenu svo við gátum pottormast og spjallað saman. Er ég kom heim aftur hellti ég fljótlega á könnuna en leyfði klukkunni að verða tíu áður en ég vakti Davíð Stein. Sagði honum að ég hefði tekið út hakk og bað hann um að notað það í kvöldmatargerðina. Um tólf fór ég með lánsbílinn til Odds og labbaði frá Birkimel í vinnuna. Hitti aðeins á hollensku kórsystur mína sem er í barneignarfríi þessa mánuðina en hún kom með í kórferðalagði um daginn. Vinnudagurinn til klukkan sjö leið afar hratt. Ég fór reyndar ekki úr vinnu fyrr en ca 19:15 en var engu að síður á undan Oddi heim. Heima beið dýrindis kvöldmatur, hakk og spakk. Eftir að bræður voru búnir að borða og Oddur að skipta um föt lánaði ég þeim lánsbílinn á spilakvöld í Kópavog. Kvöldið hjá mér leið alltof fljótt en ég uppfærði m.a.heimasíðu óháða safnadarins.

30.5.16

Síðasta helgi mánaðarins liðin

Áfram halda dagarnir að æða hratt með tímanum. Ég veit svei mér ekki hver er að elta hvern en tel mig þó stundum standa í miðjunni að rembast við að sogast ekki alveg með í hringiðuna. Föstudagurinn var svipaður og flestir aðrir virkir dagar í vikunni. Byrjaði á því að fara í sund um hálfsjö. Tók hefðbundna rútínu og gaf mér svo tíma til að fá mér kaffi sem er alltaf í boði á föstudagsmorgnum. Morguninn leið hratt og ég lagði einnig af stað gangandi í vinnu í fyrra fallinu til að geta lengt leiðina í vinnuna. Vinnudagurinn leið hratt og var nóg að gera. Við sem vorum á seinni parts vaktinni stoppuðum framleiðslun upp úr klukkan sex til að ryksuga vélina eftir vikuna.

Á laugardagsmorguninn var Davíð Steinn ljúka við að hella upp á könnuna þegar ég kom fram upp úr klukkan sjö. Ég settist niður með honum og spjallaði yfir einum kaffibolla eftir að ég hafði fengið mér morgunmat. Þegar ég var að skottast af stað í sundið rétt fyrir átta sagði sonurinn: "Við verðum að gera þetta oftar, mamma!" Ég dagaði næstum því uppi í sjópottinum eftir hálftímasund og þrjár ferðir í kalda pottinn. Var komin heim aftur um tíu, svona rétt til þess að ganga frá sunddótinu og sækja esperantotöskuna mína. Við Inger gerðum reyndar lítið sem ekkert í að æfa okkur í esperanto, heldur lukum við tvær krossgátur og skruppum svo í rúmlega hálftíma göngu. Kom heim aftur um klukkan eitt og tók mig til fyrir austurferð áður en ég labbaði yfir á Valsvöllinn og sá "stelpurnar mínar" vinna FH 1:0. Fór beinustu leið heim eftir leikinn og hjálpaði Oddur mér að "ferma" bílinn. Þeir bræður urðu eftir heima en ég var komin austur um hálfsex.

Í gær skrapp ég aðeins til föðursystur minnar stuttu fyrir hádegi, hnoðaði í kleinur með mömmu upp úr hálftvö og var búin að steikja þær allar eitthvað yfir 150 stk mátulega fyrir kaffi. Eftir kaffi skruppum við mamma á elliheimilið og kíktum að  nokkra þar, Mamma hafði folaldakjöt í matinn sem var ekki borðaður fyrr en eftir fréttir og þáttinn um eyðibýli en ég var komin heim um hálfellefu í gærkvöldi.

27.5.16

Aftur kominn föstudagur

"Einkabílstjórinn" er kominn með sumarvinnu og hefur undanfarið verið á námskeiðum og í starfsþjálfun. Í gær átti hann að æfa sig í heila tólf tíma vakt á skeljungsstöðinni við Birkimel. Ég skutlaði honum á staðinn rétt fyrir vakt, stuttu fyrir hálfátta. Á leiðinni sagðist sonurinn þurfa að skreppa e-n tímann seinna um morguninn. Hann hafði líka gleymt vettlingunum sem honum höfðu verið skaffaðir, var algallaður að öðru leyti og í nýjum skóm sem hann fær að eiga. Ég sagðist skyldu athuga hvort ég kæmist til hans upp úr klukkan níu eftir sundið og eina heimsókn í bankann og láta vita með smáskilaboðum.

Í fyrrakvöld komu systir mín og yngri dóttir hennar og gistu þær hjá okkur í eina nótt. Bríet var á leið í aðgerð og þar sem það þurfti að svæfa var sú aðgerð framkvæmd hér í bænum fljótlega eftir hádegi í gær. Ég naut þess að hafa þær mæðgur allt miðvikudagskvöldið og fram til klukkan langt gengin í eitt í gær. Ég gleymdi að senda Oddi sms og þegar ég náði sambandi við hann um tíu var hann mættur í Tækniskólann. Úr varð að Helga systir skutlaðist á eftir mér þangað á sínum bíl og ég lánaði Oddi lánsbílinn. Systir mín skutlaði mér líka í vinnuna og ég þáði svo far, hjá þeirri sem var með mér á síðdegisvaktinni, aftur heim eftir vinnu. Engin göngutúr tekinn í gær og skrefamælirinn rétt náði upp í 7000.

Mæðgurnar fóru beint norður eftir að Bríet var vöknuð eftir aðgerðina. Þann tíma sem við áttu hér saman notuðum við m.a. til að kenna mér á snappið í símanum. Ég á langt í land með það námskeið en æfingin skapar meistarann svo það er spurning um hvort ég verð "dugleg í að æfa mig að snappa?"

25.5.16

Síðasti miðvikudagurinn í maí

Í gær og í fyrradag var Laugardalslaug lokuð. Það hvarflaði aðeins að mér að nota tækifærið og prófa aðrar laugar í staðinn, t.d. Vesturbæjarlaug eða Grafarvogslaug. Endirinn varð hins vegar sá að ég "svaf" frekar út, þ.e. fór ekki á fætur fyrr en um átta í stað klukkan sex. Ég labbaði hins vegar í vinnuna báða daga upp úr hádeginu. Sú sem er með mér á seinni parts vaktinni vildi endilega fá að skutla mér heim á eftir vinnu á mánudaginn, sagði að ég væri búin að ganga nóg þann daginn, sem var örugglega rétt hjá henni. Heima var Davíð Steinn langt kominn með að finna til matinn.

Lánaði einkabílstjóranum lánsbílinn í gærmorgun til að fara á eldvarnarnámskeið tengt sumarvinnunni inn í Dugguvog. Hann var kominn heim áður en ég trítlaði af stað í vinnuna. Eftir vinnudaginn skrapp ég aðeins í heimsókn til einnar vinkonu sem leigir við Vesturgötuna. Sendi svo smáskilaboð til einkabílsstjórans og bað hann um að sækja um um níu. Engu að síður labbaði ég um 12000 skref í gær.

23.5.16

Vinnuvikan hefst klukkan eitt í dag

Nýliðin helgi var mjög skemmtileg en alltof fljót að líða. Ég fór ekki í sund á laugardagsmorguninn því ég þurfti að vera mætt við kirkju óháða safnaðarins rétt fyrir níu og sundlaugarnar opna klukkan átta um helgar. Kvöldið áður var ég búin að taka allt til fyrir ferðalagið og hafði ég fullan hug á því að labba þessa stuttu leið. Endirinn var þó sá að ég varð að vekja einkabílstjórann til að skutla mér því ég eyddi dýrmætum tíma í að leita að "KÓSÍ-kór debetkortinu" því ég hafði stungið því á svo góðan stað. Kortið fannst, í hulstrinu hjá myndavélinni ofan í bakpokanum með nótunum og fleiru sem ég hafði tekið til. Einkabílstjórinn hleypti mér út við kirkjuna ca. tíu mínútum fyrir níu og fékk fullt leyfi til að nýta lánsbílinn ef spilakvöldið væri haldið í Kópavoginum.

Fjórtán kórmeðlimir, kórstjói og bílstjóri lögðu af stað úr bænum um níu. Fyrsta stopp var í Vindáshlíð þar sem margir úr hópnum brugðu á leik með fótbolta á meðan beðið var eftir að komið væri með lykilinn að kirkjunni á staðnum, kirkjan sem var flutt frá Saurbæ. Skrúfuðum ekki frá ofnunum og æfðum í ískaldri kirkjunni. Næst lá leiðin að landi Hamra í Kjós hvar sem ein úr hópnum er alin upp og á sér bústað í því landi. Fengum að kíkja á bústaðinn áður en við fórum í fyrrum fjós og hlöðu staðarins sem einnig rekur Kaffi Kjós. Þarna áttum við semsagt pantaða hádegishressingu, dýrindis súpu, meðlæti og kaffi á eftir. Næst var stoppað við Staupastein þar sem við fengum staup af sérstakri varavætingu sem sr. Pétur hafði útvegað. Svo var haldið að safninu á Hlöðum sem "Gaui litli" setti upp. Mjög merkilegt og flott safn og vorum við hvött til að þreyfa á sumum hlutum og jafnvel máta herfrakka og húfur. Fengum góða leiðsögn um safnið. Næsta stopp var í kirkjunni á Saurbæ þar sem var líka haldin æfing. Svo var keyrt að Arnarholti í Borgarfirði þar sem var skellt í kaffi. Tvö úr hópnum eiga hlut í þessum stað. Meðferðis var stór kaffivél til að vera fljótari að hella upp á 16 bolla og nokkrir tóku að sér að smyrja flatkökur með hangiketi og silungi. Fleira gott var í boði. Við höfðum ekki svo langan tíma til að staldra mikið lengur við en í kaffi og ganga frá eftir okkur því við áttum eftir að fara í Reykholt og prófa nýju kirkjuna þar og það hafði fengist leyfi til að vera til korter fyrir sex. Þegar til kom máttum við alveg vera nokkrar mínútur lengur. Þvílíkur hljómburður í þessari kirkju. Mjög gott að syngja þarna. Frá Reykholti lá leiðin á Landnámssýninguna í Borgarnesi þar sem við áttum líka pantaðan þriggja rétta kvöldverð. Þar sem forrétturinn var tilbúinn þegar við mættum var byrjað á því að borða, forrétt, aðalrétt og eftirrétt (svolítið mismunandi útgáfur þar sem við fengum að kjósa um 1-2 útgáfur af öllu þrennu) áður en helmingurinn af hópnum skellti sér á Landnámssýninguna. Komum í bæinn aftur um hálfellefu og ég held að allir hafi verið afar sáttir við daginn, amk var ég mjög ánægð með allt, skipulag, ferðafélaga og þar fram eftir götunum.

Í gærmorgun var ég mætt í sund og byrjuð að synda ca 8:10. Synti í hálftíma, fór þrisvar í kalda pottinn og endaði í sjópottinum eftir síðustu ferðina. Var mætt í kirkjuna rétt fyrir eitt en í gær var jazzmessa og eitt ungmenni fermt í leiðinni. Allt gekk vel og svo gerðist ég nokkuð þaulsetin í maulinu eftir messu. Eftir að hafa skipt aftur um föt þegar ég kom heim dreif ég mig í smá verslunarleiðangur. Hitaði súpu í kvöldmatinn og var mætt á Valsvöllinn upp úr klukkan sjö. "Strákarnir mínir" unnu Þróttara 4:1. Veðrið var geggjað og eftir leikinn fór ég í hálftíma göngu um Öskjuhlíð áður en ég fór heim.

20.5.16

Vinnuvikunni lýkur klukkan sjö í kvöld

Þessi skrifleti hefur bæði sína kosti og galla. Gallarnir eru helst þeir að ég gleymi hreinlega að skrá niður eitthvað af eftirminnilegum atvikum og atburðum sem sífellt eru að gerast í kringum mig. Kostirnir eru kannski þeir helstir að þá er ég ekki eingöngu að skrifa til að fá útrás fyrir skrifþörfina. En hvað veit ég svo sem. Allt er breytingum háð og ég líka. Vil meina að ég sé sífellt að breytast til batnaðar en verð þó að passa mig á að taka mig alls ekki of hátíðlega eða lyfta nefinu of hátt upp í loftið.

Þessa vinnuvikuna er ég að síðdegisvakt í vinnunni. Fékk reyndar eina til að skipta við mig á miðvikudaginn var til að komast á síðustu kóræfingu vetrarins. Á þriðjudagsmorguninn fór ég í sund á fastandi maga en var afar dugleg að þamba vatn milli kl sex og tíu, ekki sundlaugarvatnið þó. Um tíu fór ég út í heilsugæslu til að láta taka blóð til að rannsaka kólestrólið, sem var það eina sem kom illa út í heilsufarsmælingunni um daginn. Um hádegi labbaði ég í vinnuna en einkabílstjórinn sótti mig svo þangað um sjöleytið um kvöldið. Þá byrjuðum við á því að skreppa í búð og kaupa nýja kaffibrúsa og smá nauðsynjar. Þegar við komum heim var hinn sonur minn langt kominn með að elda kvöldmatinn handa okkur. Á níunda tímanum var byrjaður saumaklúbbur hjá mér. Það var 100% mæting en það var liðinn svo langur tími frá síðasta klúbbi að það var meira talað heldur en saumað eða prjónað. Ég náði þó samt að sauma nokkur spor og tvíburahálfsystir mín fitjaði upp á nýrri peysu. Það er helst Lilja vinkona sem var duglegust í handavinnunni. En við vorum allar duglegar við að spjalla og taka stöðuna hver hjá annarri.

Fór á bílnum í vinnuna á miðvikudagsmorguninn þar sem ég var ekki viss um að vera alveg búin um fjögur. Enda kom það á daginn og ég hafði ekki langan tíma heima, seinni partinn, áður en ég fór á kóræfingu. Æfðum til klukkan að verða sjö en svo fékk ég að stinga af, fór heim með bílinn og trítlaði þaðan beinustu leið á Valsvöllinn þar sem var fyrsti heimaleikur í Vals í Pepsídeild kvenna. Þær tóku á móti KR og endaði leikurinn 1:1.

Í gærmorgun var ég mætt í sundið rétt upp úr klukkan hálfsjö. Gaf mér góðan tíma í alla rútínu og lét það svo eftir mér að fá mér banana, engiferdrykk og kaffi í Laugardalnum áður en ég fór í bankann um níu. Í bankanum ætlaði ég að taka út smá pening, hjá gjaldkera, úr KÓSÍ sjóðnum. Gjaldkerinn sagði mér að ég gæti vel notað hraðbanka í svoleiðis, tekið út allt að 2 millijónum (þ.e. ef þær eru til á reikningnum) og fór með mér að einum inni hraðbankanum og leiðbeindi mér. Hún gaf mér líka umslag undir upphæðina sem ég tók út. Í hraðbankanum sem hægt er að nota þegar bankinn sjálfur er lokaður er hægt að taka út 120þús. Um hádegi labbaði ég í vinnuna. Tíminn til sjö var fljótur að líða enda nóg að gera og gekk vel. Úr vinnunni fór ég beint á vortónleika í Aðventistakirkjunni, hjá kvennahelmingi óperukórs Mosfellsbæjar "Boudoir". Góðir tónleikar það! Var komin heim upp úr klukkan tíu.

16.5.16

Löt að blogga þessa dagana :-/

Tíu dagar liðnir síðan ég skrifaði síðast. Hef aðeins sett inn örfréttir (og myndir) stöku sinnum á FB-vegginn minn en einhvern veginn látið dagana þjóta hjá án þess að halda utan um mitt frábæra líf. Hef verið að sinna rútínunni og farið í sund næstum daglega, nema sl. tvo daga og svo á föstudaginn var. Vinnuvikan í síðustu viku var til að byrja með unnin frá 6 til eitt eh en það lengdist aðeins meir í seinustu tveimur, sérstaklega á föstudeginum, þá mætti ég fyrst rétt fyrir sex og fór síðust ca ellefu tímum síðar eftir að hafa fengið góða hjálp við að koma smá framleiðsluverkefni yfir á vélina.

Eftir sund á laugardaginn skrapp ég til Inger. Við röðuðum esperantobókunum í kringum okkur en réðum eina krossgátu úr Vísi áður og spurðum spilin (hennar Siggu Kling) áður en við ákváðum að fá okkur frekar 50 mínútna göngu meðfram sjónum í áttina að Gróttu og til baka. Ég spurði spilin hvort ég ætti að fara austur seinna um daginn og fékk Nei en  við hvort ég ætti að fara á sunnudeginum. Ég ákvað nú samt að "óhlýðnast" þar sem mér fannst á strákunum að þeir væru ekki alveg tilbúnir að koma með. Þar með fékk ég lengri tíma með foreldrum mínum.

Horfði með þeim á söngvakeppnina á laugardagskvöldið og við mamma skiptum einni hvítvínsflösku á milli okkar. Strax upp úr hádegi í gær réðumst við í kleinubakstur saman. Mamma sagði til um hráefnið og aðstoðaði mig við að setja súrmjólk og síróp eftir að ég var komin með hendurnar í hveitieggjarjóma fjallið og þurfti að passa upp á að ekki færi allt út um allt. Það lak reyndar smávegis niður á gólf en því var bjargað við áður en fór illa. Mamma snéri svo flestum kleinunum við þar sem ég flatti út og skar niður. Svo fékk ég að steikja. Kleinugerð lauk um þrjú og þá var mátulegt að hafa kaffitíma. Strax eftir kaffi labbaði ég rétt rúmlega 2 km hring í þorpinu á ca 25 mínútum.

6.5.16

Tíminn æðir áfram

Sleppti sundferð á þriðjudaginn var en var mætt rétt upp úr klukkan hálfsjö á miðvikudaginn og í gærmorgun var ég byrjuð að synda tuttugu mínútur yfir átta en þá var helgaropnunartími. Miðvikudagsmorguninn leið frekar hratt. Ákvað að lengja aðeins gönguleiðina í vinnuna og lagði af stað korter yfir tólf og var komin í á vinnustaðinn um 35 mínútum síðar. Við sem vorum á síðdegisvaktinni fórum inn á vél á slaginu eitt og náðum að framleiða um tólfhundruð kort áður en viðgerðarmenn komu í sitt mánaðarlega yfirferðartékk. Í staðinn notuðum við stöllur tækifærið og héldum áfram að yfirfara varahlutalagerinn (hálfsársuppgjör nokkuð tímanlega í því).

Fyrir utan sundferðina í gærmorgun brallaði ég ýmislegt hér heimavið. Stuttu fyrir fimm rölti ég svo upp í Háteigskirkju á vortónleika Valskórsins. Andrea Gylfadóttir söng einsöng með kórnum og dagskráin sett upp með svona EM-þema að leiðarljósi. Fínir tónleikar og klukkutíminn var alltof fljótur að líða. Þegar ég kom heim voru þrír vinir komnir og "spilakvöld" komið í gang í holinu. Strákarnir spiluðu til klukkan að ganga tólf en ég hafði afnot af stofunni og var örugglega ekki fyrir ungu mönnunum.

4.5.16

Skipti á vöktum í gær

Rétt fyrir hálfátta í gærmorgun stillti ég á mig gönguforritið og labbaði af stað í vinnuna. Hafði beðið eina úr deildinni að skipta við mig um vakt þar sem ég þurfti að mæta á fund milli fimm og sex. Vinnudagurinn, til klukkan fjögur, var mjög fljótur að líða. Ein hélt upp á tíu ára starfsafmæli og af því tilefni komu tvær í heimsókn í kaffitímanum úr K2.

Korter yfir fjögur stillti ég aftur á mig gönguforritið og labbaði úr vinnunni og að kirkju óháða safnaðarins áður en ég slökkti á því aftur. Hafði smá stund aflögu áður en fundur átti að hefjast og ég notaði þann tíma til að hringja aðeins í mömmu mína sem er stödd í heimsókn fyrir norðan hjá Helgu systur.

Fyrsti fundur eftir aðalfund safnaðarins var mjög góður. Að vísu vantaði tvo en það var fundarfært og nýr formaður hélt vel utanum taumana. Hann var búin að velja nýjan varaformann, þar sem hann var áður í því hlutverki, og skipa niður í helstu nefndir. Allt mjög sanngjarnt og ég hef það á tilfinningunni að næsti vetur verði ekkert síður skemmtilegur heldur en minn fyrsti í safnaðarstjórninni. Eftir fundinn var ég beðin um að taka með mér hluta af veitingum, sem í boði höfðu verið, til strákanna minna. Labbaði með þetta heim og í morgun sá ég að gönguforritið hafði ræst sig sjálft fyrir þessa tíu mínútna göngu.

3.5.16

Á seinni parts vakt

Þar sem ég átti ekki að mæta til vinnu fyrr en klukkan eitt í gær var ég mætt fyrir utan sundlaugina í Laugardalnum rétt um það bil sem var opnað eða um hálfsjö í gærmorgun. Sinnti sundpottarútínunni án þess að vera að flýta mér, sund, kaldur, heitur, kaldur, heitur, kaldur, sjópottur, gufa og sólbað.

Rétt fyrir níu lagði ég lánsbílnum á stæði við Lönguhlíðina rétt ofan við Skipholt og labbaði þaðan í K2. Fór beint upp á fimmtu hæð þar sem ég var skráð í tíma í heilsufarsmætingu korteri síðar. Notaði tímann til að spjalla við þá sem var í móttökunni en hún vann áður í kortadeild RB sl. tíu ár. Heilsufarsmælingin gekk líka svona glimrandi vel og fékk ég hrós fyrir góðan árangur sl. tvö ár. Eina sem sett var spurningamerki við var að kólestrólið mældist hærra en viðmiðunarmörk gefa upp og ég var beðin um að huga að því að fara í betri mælingu til að athuga hvort það væri góða kólestrólið sem væri svona yfirgnæfandi.

Eftir heilsufarsmælinguna labbaði ég að lánsbílnum og skrapp aðeins í VÍS til að athuga hvaða tryggingar væru enn "hangandi" á kennitölunni minni en ég var að skipta alveg yfir í Vörð um daginn eftir að hafa verið hjá VÍS í um tuttugu ár en með líf og sjúkdómatryggingar hjá Verði sennilega í um tíu ár. Ég fékk þau svör að um húseigenda- og bílskúrstryggingu væri að ræða og ég sem seldi skúrinn fyrir einu og hálfu ári síðan. Ég var svo hissa að ég þakkaði bara fyrir upplýsingarnar, kvaddi og fór heim. Setti mig svo í samband við þann sem sá um að tryggja mig fyrir hönd Varðar. Hann sagðist ekki geta sagt upp fyrir mig tryggingu nema ég væri að taka sambærilega tryggingu hjá þeim.

Þar sem ég fékk sms og e-mail frá blóðbankanum ákvað ég að rölta við hjá þeim áður en ég þyrfti að mæta í vinnuna um eitt. Það gekk allt saman vel fyrir sig. Að vísu var ég beðin um að "ota" hægri handleggnum oftar þegar ég kom síðast, sem ég þá gerði í gær en endirinn varð samt sá að það var tekið úr þeim vinstri. Mætti í vinnuna á slaginu eitt. Ekkert bólaði á verkefninu en í staðinn notuðum við tvær sem vorum frá eitt til sjö tækifærið og byrjuðum að telja varahlutalagerinn aftur. Svo kom upp smá mál sem tók smá tíma, fengum aðstoð við en var að setja á smá bið. Í millitíðinni skrifaði ég VÍS og sagði upp þessum tryggingum sem ég minntist á hér að ofan og fékk eiginlega afgreiðslu á núll einni. Það er meira að segja búið að fella út greiðsluseðilinn í einkabankanum mínum.

2.5.16

Hvað varð af apríl

Ja, hérna hér. Það er kominn maí og nokkrir dagar síðan ég setti síðast inn færslu. Eiginlega er ég ekki í skrifstuði en ætla samt að setja hér inn örfáar línur um sl. daga. Fjóra daga af fimm virkum dögum síðustu viku fór ég gangandi í og úr vinnu. Valdi fimmtudaginn til að fara á bílnum og strax eftir vinnu um þrjú (vann 7-15 alla síðustu viku) fór ég beint í Laugardalinn í sund. Eftir að ég kom gangandi heim úr vinnu á föstudaginn fékk ég synina í lið með mér og fórum við með þrjá stóra poka af flöskum á skilagjaldsstöð. Rétt rúmar þrettánhundruð krónur fór beint inn á reikninginn minn og svo bauð ég strákunum á Saffran.

Var mætt í laugina um átta á laugardaginn, til hárskerans míns klukkan tíu og norsku esperanto vinkonu minnar um hálfellefu. Frá henni fór ég í Krónuna við Granda um eitt og verslaði. Fyllti tankinn á lánsbílnum á heimleiðinni. Oddur Smári sá um að ganga frá vörunum en ég henti í tösku og bjó mig undir að skreppa austur á Hellu. Kvaddi strákana upp úr hálfþrjú og var komin austur fimm korterum síðar, næstum því beint í kaffitímann. Pabbi leyfði mér svo að ákveða/velja hvað yrði í kvöldmatinn og það var úr að við höfðum saltkjöt. Fengum okkur smá hvítvín eftir matinn og horfði ég á "Alla leið".

Klukkan var ekki orðin átta þegar ég var komin á fætur á sunnudagsmorguninn. Pabbi var líka kominn á stjá. Seinna um morguninn skrapp ég í heimsókn til föðursystur minnar. Pabbi hafði kaffitímann í fyrrafallinu því ég hafði lofað strákunum að koma heim milli fjögur og fimm og lána þeim bílinn í skreppu í Mosfellsbæinn. Þar að auki var fyrsti heimaleikur minna manna í fyrstu umferð í Pepsí-deild karla. Ekki fór nú sá leikur nógu vel, en vonandi er fall fararheill!

27.4.16

Kóræfing fellur niður í dag

Í gær var ég um 29 mínútur að ganga 2,57 km til vinnu og 32 mínútur að ganga 2,93 km heim eftir vinnu. Hringdi í pabba fljótlega eftir að ég kom heim, skipti aðeins um bol fyrst og fór líka eina ferð í þvottahúsið. Eftir að við pabbi höfðum spjallað í rúmt korter dreif ég af smá nauðsynleg heimilisverk. Davíð Steinn bauðst til að taka að sér kvöldmatargerðina óspurður og akkúrat þegar ég var búin að koma bygggrjónum í pott með vatni í og kjúklingakrafti og kveikja undir. Ég þáði samt þetta boð. Vorum búin að borða um sjö og þá dreif ég mig í sund í Laugardalslaugina. Það var betra að fá stæði og nóg pláss í lauginni og þeim tveim pottum sem ég nota hvað mest (kaldi og 42 gráðu). Mér sýndist vera nokkuð stappað í sjópottinum og lét það vera að fara í hann. Var komin heim aftur upp úr hálfníu, hress og endurnærð. En rétt fyrir tíu fór að síga á mig notaleg værð og var ég nógu skynsöm að fara að huga að háttatímanum, vitandi það að ég færi á fætur nokkru fyrir klukkan sex til að hafa góðan tíma til að sinna morgunverkum og ganga svo í vinnuna.

26.4.16

Morgunvakt (7-15) þessa vikuna

Var glaðvöknuð upp úr klukkan hálfsex í gærmorgun, ekkert svo löngu áður en vekjarinn átti að "hnippa" í mig. Dreif mig á fætur, sinnti hefðbundum morgunverkum, tók mig til fyrir vinnuna, stillti svo á mig gönguforritið og labbaði af stað ca. klukka tuttugu mínútur gengin í í sjö. Var hálftíma á leiðinni. Vinnudagurinn til klukkan þrjú leið afar hratt og klukkan þrjú stillti ég forritið aftur og labbaði heim með viðkomu í Valsheimilinu þar sem ég fjárfesti í árskorti á Valsvöllinn í sumar. Stuttu eftir að ég kom heim hringdi pabbi til að athuga hvar hann myndi finna mig. Hann var hér fyrir utan, alveg nýbúin að veifa á eftir mömmu í síðdegisvélina til Akureyrar. Pabbi kom inn í stutta stund og þáði kaffi, en vildi ekki stoppa fram að kvöldmat. Fljótlega eftir að hann kvaddi og lagði í hann austur dreif ég mig í sund. Erfitt var að fá bílastæði í Laugardalnum, þ.e. það voru reyndar stæði við Laugardalsvöllinn, nær Laugardalshöllinni. Ég safnaði því nokkrum skrefum í viðbót á leiðinni í og úr sundi. Eldaði bleikju þegar ég kom heim og horfði svo á handboltaleikinn á RÚV2 og fylgdist með á netmogganum hvernig gekk í leik í FH og Vals í keppninni meistarar meistaranna (deildar og bikarmeistara í knattspyrnu 2015 að etja kappi). Seinna náði ég í þáttinn "Svikamylla" frá því á sunnudagskvöldið.

25.4.16

Aðeins um nýliðna helgi

Mætti í Laugardalslaugina rétt eftir opnun um átta og sinnti hefðbundinni sund- og pottarútínu. Kom heim aftur rétt fyrir tíu, gekk frá sunddótinu og fór að huga að því að taka mig til fyrir smá austurskrepp þar sem ég gerði svona frekar ráð fyrir því að gista. Það tók mig smá tíma að koma mér af stað en klukkan var þó bara rétt að byrja að ganga tólf þegar ég kvaddi þann soninn sem var vaknaður og "brunaði af stað" austur. Var með bækur og saumana mína með mér. Las aðeins í einni bókinni en opnaði aldrei handavinnutöskuna. Hins vegar fékk ég að setja lánsbílinni inn í skúr hjá pabba þar sem ég gat ryksugað hann og þvegið að innan. Utandyrahreingerning bíður aðeins lengur.

Í gærmorgun var ég vöknuð fyrir allar aldir eða fyrir klukkan sjö. Fór á fætur um átta og upp úr ellefu fór ég að huga að heimferð. Það var til þess að geta komið við heima og gengið frá dótinu mínu áður en ég mætti í "dixílandmessu" í kirkjuna mína um tvö. Sé ekki eftir að hafa mætt því það var mikil og góð sveifla í gestakórnum og hljómsveitinni sem fylgdi þeim. Mæting almennra kirkjugesta hefði alveg mátt vera betri. Eftir smá maul eftir messuna var aðalfundur safnaðarins haldinn og hann var enn fámennari. En við erum komin með nýjan formann og tvo nýja meðstjórnendur.

Strax eftir fundinn sótti ég einkabílstjórann og hafði hann með mér í Krónuna við Granda. Hann keyrði heim, gekk frá vörunum og skutlaði mér svo á Kryddlegin Hjörtu um sex þar sem ég hitti eina góða vinkonu mína og átti með henni nokkrar góðar klukkustundir. Bræðurnir fengu lánaðan bílinn til að skreppa í heimsókn til pabba síns.

23.4.16

Í sveitinni

Labbaði í vinnuna í gærmorgun. Rétt fyrir hálfellefu fórum við fyrirliðinn í K2 á stuttan, fróðlegan fund með nokkrum öðrum vegna verkefnis sem er að fara í gang. Vorum komnar til baka þremur korterum síðar. Um þrjú hringdi ég í einkabílstjórann og bað hann um að fara með allan pappír sem hafði safnast upp heima í gám og sækja mig svo um fjögur. Bað hann einnig um að taka með sér bókasafnspokann sem ég hafði skilið eftir á rúminu mínu.

Einkabílstjórinn sótti mig á réttum tíma og byrjaði á því að skutla mér á safnið. Skilaði af mér 4 bókum og rétt náði að hemja mig áður en ég féll í freistni. Er enn með fjórar af safninu síðan ég fór síðast og það borgar sig að ljúka við að lesa þær og skila áður en ég tek aðrar bækur af safninu.

Hafði svo rúma tvo tíma heima áður en einkabílstjórinn skutlaði mér í súpukvöld KÓSÍ hjá formanni kórsins. Ég tók 4 litla Faust hvítvínsflöskur með mér. Nánast allur kórinn mætti og var okkur boðið upp á dýrindis kjötsúpu og svo kaffi og marenstertu í eftirrétt. Í þessum hittingi var farið yfir komandi "slútt" en kórinn ætlar að bregða sér í dagsferð um Hvalfjörð og Borgarfjörð einn laugaradaginn í næsta mánuði.

Fékk far heim með annarri nöfnu minni upp úr hálfellefu og kom heim með helminginn af hvítvínsflöskunum.

22.4.16

Framundan er helgi.

Klukkan var rétt að slá átta þegar ég renndi í stæði við Laugardalslaugina í gærmorgun. Synti í um tuttugu mínútur, fór þrisvar í kalda pottinn og eftir seinustu ferðina endaði ég í hálftíma sólbaði í steinapottinum ásamt tveimur spjallvinkonum. Í fyrstu kaldapottsferðinni kastaði á mig kveðju, með nafni, Magnús nokkur Kristinsson. Mæður okkar eru vinkonur, systir hans jafnaldra mín og það er til mynd af þeim og okkur systrum í lautarferð inn við Haukadal er við vorum krakkar. Þau höfðu komið í heimsókn með foreldrum sínum og það var ákveðið að fara í bíltúr að skoða nærumhverfi Heklu m.a. minnir mig.

Kom heim um tíu en var farin aftur út úr húsi rétt fyrir ellefu. Skrapp til norsku esperanto vinkonu minnar. Við gerðum atlögu að smá esperanto þýðingu og enduðum á rúmlega 4 km göngu meðfram sjónum. Eftir að ég kom heim aftur gerði ég nánast ekki neitt af viti og slapp meira að segja alveg við að elda kvöldmatinn, Davíð Steinn bauðst til að taka það verk að sér og gerði það með ágætum.

21.4.16

Sumardagurinn fyrsti

Var vöknuð nokkuð á undan vekjaraklukkunni um hálfsex í gærmorgun. Sinnti morgunrútínunni, tók mig til fyrir sund og vinnu og var mætt á lánsbílnum í Laugardalinn um það leyti sem opnaði klukkan hálfsjö. Synti í um tuttugumínútur og var í minni áætluðu seinni ferð í kalda pottinum þegar ég varð vör við að Lena var að koma upp úr lauginni. Það varð til þess að ég fór tvær aukaferðir í þann kalda og svo beint upp úr eftir fjórðu ferðina til að vera mætt í vinnuna klukkan átta.

Vinnudagurinn leið afar hratt eins og oftast áður. Fór beint heim þótt ég væri að hugsa um að koma við í snertilausuþvottastöðinni sem og í Valsheimilið. Það var einn bíll í röðinni við þvottastöðina svo ég frestaði þeim gjörningi. Stuttu fyrir hættutíma í vinnunni hafði ég farið inn á knattspyrnuvefinn og skráð hjá mér alla heimaleiki í Pepsídeild karla og kvenna komandi leiktíð. Nú á ég aðeins eftir að kaupa mér árskortið á völlinn. Fyrsta umferð hjá strákunum er 1. maí og það er heimaleikur hjá VAL svo ég hef rétt rúma viku til að verða mér út um aðgöngukortið.

20.4.16

Síðasti dagur vetrar á almanaki

Labbaði báðar leiðir í og úr vinnu í gær. Ekkert útstáelsi var á mér eftir að ég kom heim. Sinnti smá heimilisstörfum og kvöldmatargerð, horfði á Valur - Fram í sjónvarpinu (og var meira að segja með saumatöskuna til hliðar þótt ég opnaði hana nú ekki), vafraði aðeins um á netinu, las og passaði svo upp á að vera komin í ró um hálfellefu. Stutt og laggott að þessu sinni. :-)

19.4.16

Morguninn var gráhvítur

Hann var hálfnapur á göngunni í vinnuna á áttunda tímanum í gærmorgun. Enda fór ég stystu leiðina, 2,5 km og var rétt tæpar tuttuguogníu mínútur á leiðinni. Vinnudagurinn, til fjögur leið jafn hratt og vanalega. Kl. 16:09 ræsti ég gönguforritið aftur og labbaði aðeins aðra leið heim. Samt ekki nema 2,66 km og var ég þrjátíuogeinaoghálfa mínútu. Milli klukkan fimm og sjö gerði ég ýmislegt af mér heima við. Eldaði m.a. dýrindis bleikjurétt upp úr sjálfri mér, þ.e. ég notaði hluta af því grænmeti sem ég átti í ísskápnum í ofnréttinn, rauðkál, brokkolí, gulrætur og sveppi sem ég skar niður og setti í eldfast fat. Bleikjuflökin setti ég ofan á grænmetið með roðið niður og kryddaði svo með hvítlauksdufti, sítrónupipar og myntu. Þetta fór í ofninn á 170 gráður í ca tuttugu mínútur. Með þessu hafði ég hýðisgrjón soðin með smá kjötkrafti út í.

Rétt fyrir átta var ég mætt í Laugardalslaugina og ég var komin ofan í næstum því á slaginu, aðeins rúmlega þó. Fékk alveg eina braut fyrir mig. Synti ekki nema í um tuttugu mínútur, fór tvisvar sinnum 3 mínútur í kalda pottinn, nuddpottinn (40 gráður) á milli og í gufubaðið eftir seinni ferðina. Var komin heim aftur upp úr hálftíu, endurnærð. Náði í "svikamyllu" á frelsinu og horfði á þáttinn frá því á sunnudagskvöldið. Náði einnig að senda tilkynningu í moggann vegna næstu messu og uppfæra heimahöfnina og facebookvegg safnaðarins áður en ég fór í háttinn.

Las aðeins í nokkrar mínútur enda klukkan farin að ganga tólf. Annars er ég með nokkrar bækur í takinu, bæði af safninu og einnig eigin ólesnar bækur. Ég er reyndar ekki byrjuð á þeim öllum en er að lesa tvær og að spá í að byrja á þeirri þriðju. Lestrarhestuinn í mér alveg kominn á fullt. Mikið vildi ég að ég væri jafn dugleg að taka upp saumana mína. Reyndar hefur það komið upp í hugann að fara að grípa í hekl og prjón en það hefur enn ekkert orðið úr því, hvað sem síðar verður.

18.4.16

Enn ein helgin að baki

Hún var ekki lengi að líða blessuð helgin. Báða dagana var ég mætt í Laugardalinn rétt upp úr klukkan átta og kom heim aftur tveimur tímum seinna. Rétt fyrir hádegi á laugardeginum skutlaði einkabílsstjórinn mér yfir í Kópavoginn þar sem mér og fleiri vinnufélögum hafði verið boðið í "brunch". Og hlaðborðið var framúrskarandi fjölbreytilegt, fallegt og gott. Félagsskapurinn var líka alls ekki af verri endanum. Ein úr vinnunni kom með rúmlega ársgamla dóttur sína sem ég hafði frekar gaman af að kjá í og snúllunni virtist ekki leiðast athyglin.

Oddur Smári sótti mig um hálfþrjú og við byrjuðum á því að fara í verslunarleiðangur í Krónuna við Granda. Jamm, smá spölur, þetta er uppáhalds verslunarstaðurinn okkar. Á heimleiðinni hafði Davíð Steinn samband og bað um að verða sóttur upp í skóla. Spilakvöldið sem átti að fara fram í austurhluta Kópavogs var fært heim til okkar og stuttu eftir að búið var að ganga frá verslunarvörunum komu tveir af spilafélögunum. Strákarnir fjórir spiluðu næstum til miðnættis á meðan ég dundaði mér við annað, ýmist inni í stofu eða í fartölvunni inni í herberginu mínu.

Rétt fyrir hádegi í gær, lögðum við einkabílstjórinni af stað austur á Hellu. Davíð Steinn var vakinn en það var vitað að hann þyrfti heldur að nýta tímann í verkefnavinnu í skólanum. Um leið og við Oddur vorum komin austur skipti hann yfir í vinnubuxur sem eru til þar og fór aftur út til að skipta um dekk undir leiðsögn afa síns. Þeir fóru svo út að olísstöð á eftir til að mæla og jafna loftið í heilsársdekkjunum sem sett voru undir. Við mamma bjuggum til stafla af pönnsum, sem voru svo hafðar með kaffinu, á meðan þessu fór fram. Eftir kaffið skrapp ég aðeins á elliheimilið til að heimsækja fyrrum nágranna foreldra minna. Horft var á fréttir fyrir kvöldmat og var klukkan farin að ganga tíu er við Oddur héldum til baka í bæinn, enda þurfti ég að fá mér smá kaffi eftir matinn áður en ég var tilbúinn til að kveðja.

16.4.16

Amk 15533 skref í gær

Enn og aftur vaknaði ég á undan vekjaranum. Hugsaði aðeins um hvort ég ætti að skella mér aftur í morgunsund og þar af leiðandi fara aftur á lánsbílnum í vinnuna. Ákvað þó að fara frekar gangandi í fyrra fallinu og taka aðeins lengri leið en beinustu leið. Gekk þó ekki nema 3,19km á tæpum 35 mínútum og var þar af leiðandi komin í vinnuna heilum tíu mínútum fyrir klukkan átta. Rúmum átta tímum seinna labbaði ég aftur heim, 2,7km á ca hálftíma. Sendi pabba smáskilaboð og hann hringdi til baka og spjallaði við mig í nokkra stund, líklega um korter. Rétt eftir að við höfðu kvatt og lagt á hringdi heimasíminn. Það var norska esperanto vinkona mín. Við ákváðum að hittast á fyrirlestri á vegum Lífsspekifélagsins fljótlega eftir kvöldmat. Hafði mjög einfaldan pastarétt í matinn, pasta, túnfiskur, tómatsósa og krydd.

Í stað þess að labba niður að Ingólfsstræti 22, fór ég á lánsbílnum og lagði honum á bílastæðið sem er þar sem Grænn Kostur var en nú er hamborgarastaðurinn Block Burger. Ein vinkona Inger kom líka á fyrirlesturinn sem var um ævi og störf Jóns Sigurgeirssonar (1909-2003) sem var lengi kennari á Akureyri en einnig mjög virkur á andans málefnum og starfsemi. Eftir fyrirlesturinn fórum við upp á efri hæð og fengum okkur kaffi og meðlæti, þ.e. ég og Sigurrós. Inger fékk sér bara te. Seinna skutlaði ég þeirri síðarnefndu heim og héldum spjallinu áfram í nokkra stund út í bíl fyrir utan heimili hennar. Semsagt, gærdagurinn var langur og góður.

15.4.16

Apríl hálfnaður

Vekjaraklukkan var ekki búinn að hringja þegar ég vaknaði upp úr klukkan hálfsex í gærmorgun. Slökkti á vekjaranum sem var stilltur á 05:50. Sinnti morgunverkunum og tók mig til fyrir sund og vinnudaginn. Var mætt í Laugardalslaugina um það leyti sem opnaði og byrjuð að synda tuttuguog tveimur mínútum fyrir sjö. Eftir 500 metra "sprett" skellti ég mér í kalda pottinn. Fór þrisvar sinnum í þann pott, tvisvar í 42 gráðu pottinn og endaði svo nokkrar mínútur í sjópottinum áður en ég þurfti að koma mér upp úr og í vinnuna.

Strax eftir vinnu fór ég með bílinn í Frumherja í Skeifunni og "flaug" hann í gegnum skoðunina athugasemdalaust. Þannig að nú er komnir bláir miðar með tölunni 17 á á númeraplöturnar. Kom heim upp úr klukkan fimm en það var ekkert útstáelsi á mér eftir það. Hringdi í pabba og svo í tvíburahálfsystur mína. Hún þurfti reyndar að fá ljúka smá erindum og hringdi svo í mig til baka nokkrum mínútum seinna. Við töluðum saman í nákvæmlega klukkutíma, svo langt er síðan við hittumst og spjölluðum. Bræðurnir tóku að sér ryksugun og ég sá um kvöldmatinn (góð skipti það).

14.4.16

Lánsbíllinn skoðaður athugasemdalaust

Annan daginn í röð fór ég gangandi til vinnu upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Fór stystu leið, beint yfir Skólavörðuholtið og var innan við hálftíma á leiðinni. Vinnudagurinn var nokkuð erilsamur enda leið hann frekar hratt. Klukkan fjögur labbaði ég af stað heim og fór hægra meginn við Skólavörðuholtið (Lækjargötuna, meðfram tjörninni, gömlu Hringbraut). Ég var rennblaut á bakinu er ég kom heim um það bil hálftíma seinna en sem betur fer hafði ég haft vit á því að fara í sama bolnum og í var í á göngunni um morguninn og var með hinn í bakbokanum. Lét pabba vita að ég væri kominn heim en væri á leið á kóræfingu fljótlega. Hann hringdi til baka um hæl og við spjölluðum stuttlega. Á kóræfinguna mættu ellefu auk kórstjóra og þar sem það voru aðeins tvær í alt og við fjórar í sópran "villtist" ég stöku sinnum viljandi yfir í altinn eða alveg þangað til kórstjórinn benti mér á að væri sópran. Æfingin stóð fram að kaffi en afgangurinn af tímanum fór m.a. í að funda um og ákveða hvernig við myndum slútta vetrinum. Segi frá því seinna. Áður en ég fór heim fyllti ég á tankinn á lánsbílnum á atlantsolíustöðinni við Öskjuhlíð.

13.4.16

Gengið til og frá vinnu

Þar sem strætókortið er útrunnið og veðrið í gær var nokkuð gott ákvað ég að fara gangandi að heiman ca korter yfir sjö. Kveikti á gönguforritinu rétt eftir að ég var lögð af stað og labbaði svo eftir Eskihlíðinni undir brýrnar við gatnamótin, yfir göngubrúna við Landsspítalann og Bergstaðastræti og Ingólfsstræti. Þetta voru rúmir tveir kílómetrar og tæpur hálftími. Var sem betur fer með aukabol í bakpokanum. Vinnudagurinn var fljótur að líða en stuttur í annan enda þar sem við í deildinni fórum saman á kaffihús í Þjóðmenningarhúsinu upp úr hálfþrjú og héldum smá deildarfund. Að fundi loknum kveikti ég á gönguforritinu og labbaði beint yfir Skólavörðuholtið og Klambratúnið heim. Hringdi í pabba. Hafði bleikju í kvöldmatinn og skrapp í sund milli klukkan átta og hálftíu.

12.4.16

Sundferð að kvöldi

Í gær var síðasti gildi dagur rauða strætókortsins. Ég var að leysa fyrirliðann af í vinnunni og tók vagninn klukkan hálfátta og var mætt ca korter fyrir átta. Vinnudagurinn leið frekar hratt og teygðist aðeins í annan endann þar sem ég vildi klára ákveðið verkefni frá. Tók þristinn upp á Hlemm stuttu fyrir fimm. Þegar ég steig úr vagninum hitti ég konu (úr sama vagni) sem ég söng með í Landsbankakórnum fyrri part ársins 2003. Hún var að skipta yfir í 11 og það munaði minnstu að ég elti hana upp í þann vagn þegar hann kom því við vorum í miðjum samræðum. Ég ákvað hins vegar að fara heldur heim en þurfti að bíða aðeins lengur á Hlemmi eftir 13. Þegar ég kom heim sendi ég pabba spurningu með smáskilaboðum um hvort hann þyrfti ekki að eyða nokkrum "gemsaskrefum" og uppskar hringingu frá honum innan örfárra mínútna.

Eftir kvöldmat ákvað ég að drífa mig í sund í Laugardalinn. Synti í um tuttugu mínútur og fór tvisvar í þann kalda, eina ferð í 42 gráðu pottinn og endaði í gufubaði áður en ég fór aftur upp úr og heim. Kveikti ekkert á imbanum í gær, heldur vafraði um á netinu, las í einni af safnbókunum og passaði upp á að fara að sofa áður en klukkan sló tólf.

11.4.16

Alls konar um nýliðna helgi

Báða helgidagana var ég mætt í laugina rétt upp úr klukkan átta. Synti í um hálftíma á laugardagsmorguninn en aðeins tæpar tuttugu mínútur í gærmorgun. Sólin var aðeins að stríða mér í annarri hvorri ferð. Var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar upp úr klukkan ellefu og stoppaði heldur styttra en oft áður því við vorum búnar að mæla okkur mót aftur um miðjan dag. Kíktum þó aðeins yfir nokkur esperanto orð áður en ég dreif mig í Krónuna. Oddur Smári gekk frá vörunum er ég kom heim og sagði mér í leiðinni að það yrði haldið "spilakvöld" hjá okkur seinna um daginn og aðeins fram á kvöld.

Rétt fyrir þrjú tók ég leið 13 niður á Lækjartorg til að fara í sama hús og kvöldið áður. Þar mættu líka Inger og ein vinkona hennar. Þær stöllur hafa mætt á svona viðburði nokkrum sinnum áður. Hjá Lífspekifélaginu var kyrrðarstund um hálffjögur og fljótlega að henni lokinn farið yfir margar áhugaverðar bækur um lífsspeki, gefnar út alveg frá því um 1900 og til 2015.

Mér lá ekkert á heim og hugsaði sem svo að það væri gaman að láta verða að því að hoppa upp í næsta strætó og fara einn hring með honum. Næsti vagn var númer 11 og ég ákvað að fara úr á Hlemmi og prófa að fara lengra en að Laugardalslauginni með leið 14. Fór alla leið að Glæsibæ því klukkan var orðin sex og mig langaði allt í einu í böku á Saffran. Hringdi í annan soninn til að athuga hvort þeir væru enn að spila og búnir að hugsa fyrir mat. Þeir bræður voru meira en til í að fá sér líka eitthvað frá Saffran. Það varð úr að ég pantaði þrjár bökur til að taka með (hamingjubaka, baka vikunnar og djöflabaka) og Oddur Smári kom og sótti mig.

Eftir sundið í gærmorgun kom ég beint heim, hellti upp á kaffi og slakaði á til hádegis. Þá skipti ég um föt, tók til sálmabók og fleiri nótur og mætti upp í kirkju áður en klukkan varð eitt. Í messunni voru fermd átta ungmenni, þar af tvennir tvíburar og svo var skírður 3 ára ættleiddur drengur frá Ungverjalandi sem var tengdur öðru tvíburaparinu.

Strax eftir messusyngið fór ég á bókasafnið í Kringlunni og skilaði öllum bókunum fjórum sem ég fékk lánaðar fyrir um hálfum mánuði. Hafði reyndar aðeins lokið við að lesa þrjár bókanna en sú fjórða greip mig ekki svo ég ákvað að skila henni. Hins vegar komu átta bækur með mér heim af safninu og ein af þeim með 14 daga skilafresti. Kom við í Lyfju áður en ég fór heim til að leysa út testosteronskammt fyrir Odd.