20.3.09

- Föstudagur enn á ný -

Enn ein vikan er að klárast. Í dag eru nóttin og dagurinn jafnlöng, vorjafndægur. Ég tek eftir því á morgunarkinu að það slökknar sífellt fyrr á ljósastaurunum. Áður en langt um líður verður búið að slökkva á þeim áður en ég arka af stað til vinnu.
Annars náði ég ekki að þvo saumamyndirnar af fermingardrengjunum í gærkvöldi. Fór að gera allt annað en það. Skruppum með "velkomin í heiminn" -gjöf handa einni sem fæddist fyrr í þessum mánuði. Sú stutta var nýsofnuð svo við gátum ekki fengið að sjá hana sjálfa en við hittum hana bara í næstu ferð.

19.3.09

- Ljúfir dagar -

Mars verður liðinn áður en maður veit af og þá verður liðin einn fjórði hluti af árinu. Það er því um að gera að hamast við að njóta augnablikanna. Á kóræfingu í gærkvöldi æfðum við fyrir ferminngamessuna sem er n.k. sunnudag. Feðgarnir skutluðu mér á æfingu en fóru allir þrír í keilu en hálftíminn sem Oddur Smári vann í félagsvistinni var alveg að renna út. Strákarnir sluppu fyrir vikið við uppvaskið en við hjónin sáum um það eftir að ég kom heim af æfingu.
Afmælisdagurinn á þriðjudaginn var var einkar ljúfur og ánægjulegur. Aldrei fengið eins mikið af afmæliskveðjum, svei mér þá, en það voru vel yfir hundrað sem skrifuðu kveðjurnar á fésbókarvegginn minn. Davíð Steinn gaf mér diskinn með íslensku eurovision-lögunum 2009 og Davíð gaf mér m.a. 2 fyrstu seríurnar af 24. Svo bauð hann mér út að borða. Fórum á Ask og buðum strákunum með okkur. Nýtti daginn út í æsar, fór ekki í rúmið fyrr en um miðnætti.
Í kvöld ætla ég að þvo "fermingadrengina" svo ég geti farið að fara með þá í innrömmun.

17.3.09

Ég er ekki alveg að meðtaka það að nú sé liðið heilt ár síðan ég varð fertug

13.3.09

- Ég keypti mér kjól -

Ég dreif mig á Friendtex fatakynningu í gærkvöldi og var svo heppin að finna mjög klæðilegan og þægilegan kjól sem ég get notað á árshátíðinni annað kvöld og sem ég veit að ég mun nota oftar en það. Ég var líka svo heppin að ég gat fengið kjólinn strax. En ég keypti ekki bara kjólinn heldur þrjár aðrar flíkur líka sem ég fékk líka að taka með mér heim. Það var annars fullt af flottum og góðum fötum og ég hefði vel geta hugsað mér að kaupa flest allt það sem ég mátaði.
Enn á ný er kominn föstudagur og eins og kom fram hér að ofan er ég að fara á árshátíð um helgina. Sú verður haldin á Hótel Selfossi og á ég von á því að það verði mikil stemming og mikið gaman. Strákarnir fá að vera hjá afa sínum og ömmu á Bakkanum og leiðist þeim það alls ekki. Á sunnudaginn þurfum við svo að vera komin aftur í bæinn um miðjan dag. Söngfuglinn á að vera mættur í Langholtskirkju um hálffjögur en eldri félagar KKR buðu drengjakórnum að syngja nokkur lög með sér á tónleikum sem hefjast í fyrrnefndri kirkju klukkan fjögur. Það kostar aðeins 1500 kr inn og hvet ég alla sem hafa áhuga til að mæta.

12.3.09

- Fjör framundan -

Á kóræfingu í gærkvöldi æfðum við m.a. fyrir fermingamessuna. Næstu tvær messur, 22. mars og 5. apríl verða fermingamessur. En fyrri messuna í maí verður haldin 50 ára víxluhátíð kirkjunnar og við erum líka byrjuð að æfa lög fyrir þann atburð.
Í kvöld er ég boðin á fatakynningu og ég er að hugsa um að kíkja. Það er aldrei að vita nema ég finni á mig árshátíðardressið...

11.3.09

- Hitt og þetta -

Á mánudagskvöldið var hittumst við þrjár vinkonur heima hjá "tvíburahálfsystur" minni í saumaklúbb. Þar náði ég að klára að sauma og merkja tvo fermingadrengi. En það var eins gott að vinkonur mínar lásu yfir merkingarnar. Fermingadagurinn er 5. apríl n.k. en ég hafði saumað 02.04.09 undir nafnið á öðrum piltinum. Svo þegar ég ætlaði að laga það var ég byrjuð að sauma 50.02.09. En þetta tókst að lokum og ég hafði einnig tíma til að sauma jóladúkinn áður en kvöldið var úti og leið þó tíminn afar hratt í góðum félagsskap. En nú á ég semsagt bara eftir að þvo og pressa fermingadrengina og fara með þá í innrömmun.
Fór tvisvar í óháðu kirkjuna um síðustu helgi. Fyrst á föstudagskvöldið en það kvöld voru konur í aðalhlutverki. Þótt karlmenn væru velkomnir í þessa bænastund mætti aðeins einn fyrir utan organistann. Við mættum allar úr altinum og þrjár af fimm úr sópran. Svo var Bjargarkaffi eftir messu á sunnudaginn. Ég kom með brauðtertu með mér á hlaðborðið. Kirkjan var nokkuð þéttsetin enda mæta öll tilvonandi fermingabörn og forráðamenn í þessa messu. Fyrsta fermingarmessan verður þann 22. mars.
Vel gengur að lesa allar bækurnar 17 af safninu. Er búin með allar sem eru með skiladaginn 18. mars en hef ekki skilað þeim í safnið enn þar sem ég veit að á vegi mínum mundu verða bækur sem "bæðu" mig um að taka sig heim.