30.9.14

Tekin á Saffran 23. júlí sl.


UPP23

Á mig réðust ringluð lauf
reyndu mig að fipa.
Einnig Kári loftið klauf
kannski eins og svipa.

Aftur vísar yfirskriftin í skemmtilegt bílnúmer sem ég keyrði á eftir í gær.  Lasarusinn ákvað að vera einn dag enn heima en Oddur Smári fékk far í skólann í gærmorgun.  Þessa vikuna er ég að leysa fyrirliðann af sem þarf að nota eitthvað af öllum frídögunum sem hún á inni.  Vinnudagurinn leið hratt og örugglega og strax eftir vinnu lagði ég leiðina í Kringlusafnið og skilaði nokkrum bókum.  Það var eiginlega ekki meiningin að taka neinar í staðinn en ég fór þó heim með færri bækur en ég skilaði á safnið.  Ein af bókunum sem ég var að skila heitir Prjónaklúbburinn og er eftir Kate Jacobs.  Rétt fyrst  náði ég ekki alveg að tengja mig söguna en það var bara rétt fyrst.  Áður en varði var ég búin að kynnast fullt af skemmtilegum persónum og lifði mig algerlega inn í söguna sem ég mæli eindregið með.
Hafði afgang af kjötsúpu í matinn og mettaði einn auka munn, einn vin bræðranna.  Strákarnir voru í tölvuleik inni í stofu, play-station, þar til klukkan var að verða sjö.  Þá fékk ég að horfa á fréttir.  Um átta var ég mætt í saumaklúbb til Lilju vinkonu og Sonja kom stuttu seinna.  Ég greip í nýjasta útsaumsverkefnið, "kaffiútsauminn" sem mamma gaf mér í sumar.  Sonja var með hina Toskanamyndina og Lilja prjónaði.  Það vannst vel hjá okkur en það var líka spjallað, hlegið, drukkið kaffi og með því.  Mér fannst aðeins liðin smá stund þegar mér varð litið á klukkuna og trúði því varla að hún væri hálfellefu.  Sonja hafði á orði að tíminn hlyti að hafa stökkbreyst.

29.9.14

Tíminn er með stóra vængi

Ég var nýkomin úr sturtu þegar gemsinn minn hringdi rétt fyrir tíu í gærmorgun.  Það var þá móðursystir mín sem var einnig búin að reyna á hringja í heimasímann.  Hún er á landinu um þessar mundir en er nokkuð viss um að hún verði ekki hér í desember eins og nokkur undanfarin ár og þá langar hana til að hóa fólkinu sínum saman í fyrra fallinu, sem er bara frábært.  Við töluðum saman í hálftíma áður en gemsinn minn "dó".  Ég hringdi í hana úr heimasímanum og við töluðum áfram í amk tíu mínútur.

Klukkan hálfeitt var ég mætt í kirkjuna að hita upp með sex öðrum kórfélögum, kórstjóranum (á píanóinu), bassa leikara og trommuleikara fyrir tónlistarmessuna.  Til að byrja með var Helga sú eina í sópran og þrátt fyrir að við værum ekki að syngja neitt í röddum þá er eitt lagið sungið í keðju svo ég söng í keðjunni með henni og tenórnum.  Áður en messan byrjaði bættust svo tvær við í sópraninn svo ég söng keðjuna í messunni með alt og bassa.  Á sama tíma og messan hófst, klukkan tvö, var flautað til leiks í síðasta heimaleik Valsara í Pepsídeild karla.  Þeir voru að taka á móti FH sem er í bullandi titilbaráttu.  Ég var með það í huga að fara á völlinn strax eftir messu og ná seinni hálfleiknum en í staðinn fékk ég mér vöfflu og kaffi í "neðra" eftir messuna.  Ég var nýkomin heim þegar "föðursystir" mín hringdi og bauð mér með sér á tónleika klukkan fimm.  Ég afþakkaði boðið, ekki í neinu svoleiðis stuði í þetta sinn.  Frétti það svo rétt fyrir kvöldmat að ég hefði misst af miklu. Það kom samt ekkert við mig.

28.9.14

Messudagur

Komst á fætur áður en klukkan varð mikið meira en níu í gærmorgun þrátt fyrir að hafa verið að lesa til klukkan verða þrjú.  Kveikti auðvitað fljótlega á tölvunni og vafraði aðeins um netheima.  Á slaginu ellefu var ég mætt til norsku esperanto vinkonu minnar.  Lukum við nokkrar íslenskar krossgátur og leituðum okkur svo upplýsinga um hvort og þá hvað væri að gerast í íslenska espernato-félaginu. Nýjustu fréttir voru frá því 2013 og þegar við reyndum að hringja í númerið sem gefið er upp á heimasíðunni var sagt að þetta númer væri ekki í notkun.  Kvaddi Inger um hálfeitt og fór þá beint í Krónuna við Granda.  Vörurnar komust í tvo poka og gekk Oddur Smári frá vörunum er ég kom með þær heim.  Stuttu seinna bað hann mig um að skutla sér niður í bæ til hann gæti náð í nokkuð sem hann hafði pantað á netinu.  Annars leið dagurinn í rólegheitunum.  Hafði kjötsúpu í kvöldmatinn og gaf Davíð Steini og vini leyfi til að spila aðeins í play-station um það leyti sem voru fréttir í sjónvarpinu.  Kom svo inn í miðja ævintýramynd sem heillaði mig svo að ég stillti á plúsinn.  Missti örugglega af byrjuninni og hefði átt að finna dagsráliðinni og smella bara á play-takkann.  Ætlaði hvort sem er ekki að horfa á "miðjumyndina".  Hins vegar lét ég mig hafa það að horfa á spennumynd sem byggð er á sögu Lee Child um fyrrverandi hermanninn Jack Reacher.  Í bókunum er honum lýst sem hávöxnum, (190cm) skolhærðum og stórskornum manni og af öllum leikurum var Tom Cruise valinn í aðalhlutverkið.  Ekki beint sá sem maður sér fyrir sér við lestur spennusagnanna um Jack Reacher...

27.9.14

Inn í helgina

Aftur fór ég með strætó í vinnuna í gærmorgun.  Hvorugur strákanna var kominn á fætur þegar ég fór. Ég vissi ekki hvort Berlínarfarinn hefði heilsu til að mæta og ég hélt að Oddur Smári hefði kannski fengið sms um að fyrsti tíminn hans félli niður.  Þegar ég var komin í strætó ákvað ég að prófa að hringja í þann síðarnefnda og fékk strax rödd sem sagði að slökkt væri á farsímanum. Vinnudagurinn var í rólegri kantinum.  Ég byrjaði á því að hlaða inn fyrstu framleiðslu dagsins og "troða" í.  Allt daglegt, fyrir utan myndnám  og smá bókhald og talningar, kláraðist upp úr tólf.  Aftur labbaði ég heim eftir vinnu í dýrðarinnar veðri og nú "skúraði" ekkert á mig.  Það kom í ljós að Oddur hafði sofið yfir sig og verið of seinn í skólann en hinn bróðirinn var heima vegna heilsuleysis.  Heilsan er nú vonandi að skána hjá honum en hann þarf að útvega sér læknisvottorð vegna fjarveru þegar hann mætir í skólann aftur.

Annars kom ný bókaklúbbsbók í hús um daginn og þá á ég þrjár bækur ólesnar sem ég á sjálf. Og þótt ég væri með nokkrar ólesnar af safninu og skiladagur að nálgast fyrir sumar þeirra þá freistaðist ég í að taka við bók að láni sem er smásögusafn eftir Alice Munro, Lífið að leysa.  Heillandi sögur þýddar af Silju Aðalsteinsdóttur og skrifar hún eftirmála í lokin.  Ég er búin að lesa átta sögur og á eftir sjö og eftirmálann.  Klára þetta örugglega núna um helgina.

26.9.14

Bara tveir vinnudagar eftir af september

Í gær tók ég mér far með strætó í vinnuna.  Fram að kaffi undirbjó ég pósttöskur fyrir ákveðnar tegundir af debetkortum og ýmislegt fleira.  Rétt fyrir tíu fór ég á móttökuendann á vélinni og var þar uns ég var leyst af í mat.  Ég fór svo aftur á vélina milli hálftvö og þrjú og þá til að moka í síðustu endurnýjunarskrárnar.  Var leyst af um þrjú en endurnýjuninni lauk um hálffjögur.  Labbaði heim eftir vinnu í ágætis veðri mest alla leiðina og var aðeins fljótari heldur en þegar ég labbaði heim í síðustu viku.  Lenti í smá skúr á Eiríksgötunni stuttu áður en ég komst í undirgang undir Snorrabraut þar sem ég hafði hugsað mér að bíða af mér skúrinn.  Það var hins vegar hætt að rigna þegar ég kom í skjólið. Þegar ég kom heim mætti ég Berlínarfaranum, sem enn er hálflasinn, í innkeyrslunni og bað hann mig um að skutla sér yfir í Grænuhlíð.  Ég varð við því þótt það væri lengra að keyra þangað heldur en að ganga.  Hann hafði lofað vini sínum að hjálpa honum með eitthvað smáræði en hefði eiginlega átt að halda sig heima.  Hann kom gangandi heim um hálftíma síðar, hafði ekki verið lengi að kippa hlutunum í lag hjá vininum.

25.9.14

Sópran

Berlínarfarinn er enn það lasinn að hann var heima í gær.  Ég bauð hins vegar bróður hans far í skólann því það var afar nauðsynlegt fyrir mig að vera á sér farartæki í gær eins og kemur fram hér rétt á eftir.  Hitt hefði reyndar alveg bjargast, alla vega að einhverju leyti.  Ég undirbjó pökkun fyrsta klukkutímann í vinnunni í gærmorgun.  Fékk tvær auka aðstoðarhendur sem annars hefðu ekki haft neitt sérstakt að gera.  Eftir morgun kaffi var svo komið að mér að fara á ítroðsluendann á framleiðsluvélinni.  Þær sem voru á vélinni til tíu voru byrjaðar á dk-framleiðslunni.  Dagurinn var ekki stór og ég hélt að það stefndi í að ég yrði búin áður en kreditskammturinn í hádeginu kæmi.  En þá tók vélin öll völd og stoppaði í næstum hálftíma.  Svona er þetta stundum.

Ég fór ekki aftur á framleiðsluvélina því um það leyti sem ég átti að vera þar aftur, á móttökuendanum, um hálftvö, var ég búin að fá mig lausa.  Rúmu korteri seinna kvaddi ég samstarfsfólk mitt og var mætt á fasteignasöluna Heimilið rétt fyrir heila tímann.  Ég rambaði á réttan fasteignasala og stuttu seinna mættu nágrannahjónin á neðri hæðinni.  Á næsta hálftímanum gengum við frá sölunni á bílskúrshlutanum mínum til þeirra.  Helmingurinn af sölulaunum fasteignasalans og helmingurinn af eignaskipasamingnum var dregið af seinni greiðslunni til mín en ég fékk þó rúmlega 820 þúsund (af 900) sem birtist reyndar ekki í einkabankanum fyrr en í morgun.  Þegar þessum gjörningi var lokið fór ég að leita uppi fyrirtækið XPrent sem selur sandblásnar filmur í glugga.  Það tók tímann sinn að finna út úr þessu.  Ég var á réttum stað en engar merkingar um fyrirtækið utan á húsinu og það var ekki fyrr en ég hringdi og fékk leiðbeiningar um hvernig ætti að komast til þeirra að ég "fann" staðinn.  Keypti 65x85 cm filmu í baðherbergisgluggann á 50% afslætti, 4000 kr.

Klukkan hálfsex var ég mætt upp í kirkju á þriðju kóræfingu haustsins.  Við vorum allar mættar í altinum, tveir í bassa, einn í tenór og ein í sópran.  Ég spurði kórstjórann hvort ég ætti ekki að létta undir og syngja með sópraninum og það var alveg sjálfsagt.  Sungum bara rödduð lög fram að kaffihléi en eftir hlé æfðum við fyrir tónlistarmessu komandi sunnudag.  Ég er búin að ákveða að mæta í messuna og það verður svo að koma í ljós hvort ég skelli mér á seinni hálfleikinn í síðasta heimaleik Valsstrákanna þegar þeir taka á móti FH sem er í bullandi titilbaráttu.

24.9.14

Gestirnir farnir en gleymdu ýmsu

Ég hjólaði í vinnuna í gærmorgun og var heit og rjóð í kinnum mest allan daginn.  Var eiginlega rétt að jafna mig þegar ég svo hjólaði aftur heim á fimmta tímanum.  Í millitíðinni var alveg í nógu að snúast.  Hlutverkið mitt var að sjá um að senda yfir á vél, bóka framleiðslu, telja og fleira. Dagurinn leið afar hratt.  Á einhverjum tímapunkti fékk ég sms frá Atlantsolíu þannig að fljótlega eftir að ég kom heim skrapp ég og fyllti á lánsbílinn.  Hafði "nýstárlegan" pottrétt með folaldagúllasi í, þ.e. ég fór ekki eftir neinni sérstakri uppskrift.  Þetta þótti nokkuð gott. Sauð hrísgrjón með smávegis af grænmetisteningi út í.  Skar niður gulrætur og mýkti upp og ég bitaði gúllasbitana betur niður og bætti út í.  Um daginn smakkaði ég einhverskonar rauða karrýsósu og keypti eitt bréf.  Bætti því, gulum baunum og soðnum hrísgrjónum út á pönnuna, og voíla!  :-)

23.9.14

YYY

Titillinn vísar í bílnúmer sem ég sá í gær, þrjú ypsýlon í röð en svo man ég ekki tveggja stafa númerið fyrir aftan.  En ég fór semsagt á lánsbílnum í vinnuna í gær og nýttu bræðurnir sér farið í skólann.  Berlínarfarinn var reyndar alveg sárlasinn en dreif sig samt.  Strax eftir vinnu skrapp ég í Krónuna á Granda og verslaði aðeins inn.  Oddur Smári tók á móti pokunum tveimur og gekk frá vörunum en ég trítlaði út á Valsvöll og sá mínar konur tapa 1-3 fyrir ÍBV.  Í kringum hálfleik hringdi Davíð Steinn til að athuga hvort ég gæti sótt sig.  Ég bað hann um að prófa að hringja í frænku sína eða manninn hennar.  Þegar til kom gat hann svo bjargað sér um far heim.  Ég kom af leiknum rétt upp úr sjö og þá var systir mín að verða tilbúin með kvöldmatinn.

22.9.14

Helgin liðin

Dreif mig á fætur upp úr níu í gærmorgun og fann pabba minn inni í eldhúsi að fá sér morgunmat. Mamma var frekar þreytt eftir laugardaginn svo hún svaf eitthvað lengur og kjaftaði mikið upp úr svefninum, margt af því merkilega skýrt.  Fljótlega kveikti ég á tölvunni og dagurinn minn fór í tölvumál, lestur og útsaum.  Þegar nær dró heimaleikstíma hjá Valsstrákunum var ég búin að ákveða að fara ekki í bæinn fyrr en eftir kvöldmat og Landann.

Ég kom heim um hálftíu.  Berlínarfarinn var hjá vini og systir mín hjá vinkonum en ég hitti hinn soninn, mág minn og systurdæturnar.  Sú yngri var orðin lasin.  Hún hafði sofið í herbergi Berlínarfarans fyrstu tvær næturnar en í gærkvöldi var beddinn frá pabba og mömmu tekin sundur fyrir hana inni í stóra herbergi.  Systir hennar og ég sváfum í stofunni.  Hulda sofnaði svolítið á undan mér og hún byrjaði allt í einu að tala afar skýrt og ákveðið upp úr svefni, var m.a. eitthvað að skamma pabba sinn.

21.9.14

Rólegheit

Ég fór á fætur um níu í gærmorgun en þá voru foreldrar mínir löngu farnir til Reykjavíkur og mætt í Eglishöllina að fylgjast með dóttur-dætrum sínum keppa á skautum fyrir Skautafélag Akureyrar við Reykjavíkurliðin tvö.  Bríet var með nýtt prógram og var á svellinu milli níu og hálftíu. Af tuttugu og eitthvað keppendum lenti hún í fjórða sæti og hefur farið heilmikið fram.  Hulda steig ekki á svellið fyrr en um fimm leytið svo í millitíðinni skruppu foreldrar mínir í búðir og svo söfnuðust allir saman í Drápuhlíðinni.  Eftir að Hulda var búin með sinn dans biðu allir eftir úrslitum.  Hún lenti í þriðja sæti af níu þrátt fyrir að skora ekkert sérstaklega hátt fyrir tækni.  Túlkunin dregur hana upp um heilan helling.

Upp úr hádeginu skrapp ég í stuttan göngutúr yfir í næsta hverfi til að athuga hvort kunningjakona mín til margra ára væri heima.  Og viti menn hún var nýkomin heim úr bústaðnum.  Stoppaði hjá henni í um tvo tíma og við sátum góðan part af þeim tíma úti í sólinni.  Annars var (gos)mistur yfir Hellu eins og víðast hvar á landinu í gær.  Annars fór gærdagurinn í mikil róleg heit hjá mér þar sem ég skipti megninu af tímanum milli lestur og netvafrs eða tölvuleikja.  Kláraði aðra bók Hvítfeld: fjölskyldusaga eftir sama höfund og skrifaði smásagnasafnið Doris deyr, Kristínu Eiríksdóttur sem ég var nýlega með í láni af safninu.

Pabbi og mamma skiluðu sér heim um níu og pabba langaði svo í kaffi að hann hellti upp á.  Ég slökkti á kaffivélinni og drakk tvo bolla af hinsegin kaffi með honum.

20.9.14

Stungin af yfir helgina

Oddur Smári var nokkuð ánægður með að fá óvænt far í Tækniskólann í gærmorgun.  Ég lagði svo lánsbílnum á gjaldstæði örstutt frá vinnunni þar sem ég kunni ekki við að hafa bílinn á neðra plani Seðlabankans svona fullan af áberandi drasli allan vinnudaginn.  Fyrir 300kr.  mátti ég hafa bílinn á stæðinu alveg til klukkan tíu í morgun.  Strax eftir vinnu lá leiðin svo í Sorpu við Ánanaust þar sem ég "hálffyllti" (að mér fannst) nær tóman blaðagáminn og henti öllum bylgjupappa í annan þar til gerðan gám.  Mikið var þetta góð tilfinning.  Það tók því ekki að fara heim en ég var aðeins of snemma í því að mæta í klippingu.  Ég lagði lánsbílnum rétt við Kristu Quest tuttugu mínútum fyrir fimm og las í bókinni Þessi týpa eftir Björgu Magnúsdóttur í rúmar tíu mínútur áður en ég fór inn á klippistofuna mína.  Þar var smá tími fyrir einn kaffibolla áður en kom að mér að setjast í stólinn klukkan fimm.  Var komin heim rétt fyrir hálfsex og hitti Odd fyrir í stutta stund en hann fór svo aftur til pabba síns.  Ég var mátulega búin að setja upp kartöflur um hálfsjö þegar systir mín hringdi og sagði að þau fjölskyldan ætluðu að borða með tengdapabba hennar áður en þau kæmu.  Kvöldmaturinn minn var því soðnar kartöflur með hýðinu og öllu saman, alveg ágætt bara.  Horfði á fréttir og tók mig svo til fyrir ferð úr borginni yfir helgina en beið samt eftir að systir mín og hennar fólk kæmi til að hitta aðeins á þau.  Þau komu upp úr átta en klukkan var farin að ganga tíu þegar ég lagði loks í hann.  Kom á áfangastað um hálfellefu og hitti aðeins á pabba og mömmu áður en þau fóru í háttinn.  Ég lék mér í pabbatölvu til miðnættist og las svo til hálftvö (kláraði fyrrnefnda bók) áður en ég fór að sofa í gamla herberginu hennar systur minnar.

19.9.14

Vinnuvikunni að ljúka

Ég valdi það að taka "stóra gula bílinn" (strætó) í vinnuna í gærmorgun.  Nú er annars komið nýtt vinnuplan sem gengur alveg ágætlega upp og passað er upp á að enginn sé t.d. of lengi á framleiðsluvélinni.  Framleitt var alveg frá átta til klukkan að verða fjögur.  Allt daglegt var klárað um hádegisbil og svo var endurnýjað og endurnýjað.  Þegar ég skrapp fram í eitt skiptið til að kíkja á e-mailinn var ég búin að fá tilboð vegna vinnu við nýtt baðherbergi í hendurnar.  Ég á svo bara eftir að finna út hve mikill efniskostnaðurinn er.  Að vinnudegi loknum labbaði ég heim stystu leið yfir Skólavörðuholtið.  Var ekkert að flýta mér og það tók mig þrjú korter að koma mér á milli.  Ég var rétt ókomin heim þegar Oddur Smári hringdi og sagðist vera að fara fljótlega til pabba síns.  Og ég sem ætlaði að fá hann til að hjálpa mér með að koma öllum óþarfa pappír út úr íbúðinni.  Eftir kvöldmat og fréttir bretti ég upp ermarnar og ég held að ég hafi farið einar sex ferðir með alls kyns pappír út í bíl.

18.9.14

Smá "árekstur"

Hjólaði til vinnu í gærmorgun og varð að fara smá krók þegar ég var komin framhjá tjörninni. Líklega hefði ég nú alveg getað reitt hjólið smá spöl á götunni en krókurinn var nú ekki stór. Stimplaði mig inn tvær mínútur í átta, nokkru seinna en ég er vön.  Nóg var að gera en um eitt tjáði fyrirliðinn mér að framkvæmdastýran hefði beðið um að við tvær sem vorum fram á kvöld einn dag í byrjun mánaðar myndum rétta aðeins stimpilkortið af og hætta klukkan tvö.  Svo ég var komin ónvenju snemma heim.  Klukkan fimm gerði ég þá vitleysu að kveikja á sjónvarpinu og horfa á upphafsmínútur í landsleik Íslands og Serbíu í kvennafótboltanum.  Ætlaði varla að tíma að slökka aftur og fara á kóræfingu.  Ég sá þó fyrstu tvö mörkin og beitti mig svo hörðu þegar tæpt korter var liðið af fyrri hálfleik.  Löngu seinna fann ég dagskráliðinni og smellti á "play" á fjarstýringunni, hraðspólaði í gegnum fyrri hálfleikinn og leikhléið og horfði svo á megnið af þeim síðari á réttum hraða.  9-1 var niðurstaðan.  Annars sá ég svo ekkert eftir því að mæta á kóræfinguna og tveir tímar þar voru virkilega fljótir að líða.  Svo ætla ég aðeins að minnast á að þrátt fyrir að vera búin að undirbúa útgjöld vegna nýs baðherbergis pantaði ég mér nokkrar vörur úr nýjasta Margaretha listanum.

17.9.14

Vikan hálfnuð

Lánsbíllinn var notaður annan daginn í röð milli skóla, vinnu og heimilis í gærmorgun.  Það var meðvituð ákvörðun hjá mér til að geta verið komin sem fyrst heim eftir vinnu og án þess að vera of sveitt eða rjóð.  Vinnudagurinn leið nokkuð hratt hjá mér og voru allir með verkefni nær allan tímann. Þótt fyrirliði deildarinnar sé með ábyrgðina í sínum höndum er ég enn ekki farin að fella mig inn í almenna vinnurútínu.  Samt hef ég alveg nóg að gera í augnablikinu.

Var komin heim korter yfir fjögur og kveikti fljótlega á tölvunni.  Um fimm kom maður á vegum aðallagna til að taka út baðherbergið.  Hann stoppaði ekki nema í ca korter og fullvissaði mig um að þeir myndu taka verkið að sér, gæti tekið 4-5 vikur en ég þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að þurfa að útvega mér verðaklósett.  Hann ætlar svo að rissa upp tillögu og senda mér tilboð fljótlega.

Ekki löngu eftir að maðurinn kvaddi skrapp ég á bókasafnið í Kringlunni og skilaði nokkrum bókum. Eiginlega hefði ég átt að hlaupa tómhent út aftur en það komu nokkrar bækur upp í hendurnar á mér og ein af þeim er með tveggja vikna skilafrest.  Allt í allt er ég nú með tíu bækur af safninu hér heima og tvær aðrar ólesnar í eigin eign.  Það er gott að hafa nóg að lesa.

Davíð Steinn sá um að útbúa lasanja í kvöldmatinn og Oddur Smári gekk frá og setti uppþvottavélina í gang á eftir.  Ég horfði á fréttir og kastljós en slökkti svo á sjónvarpinu.  Slökkti á tölvunni áður en klukkan sló tíu og undirbjó mig undir að fara bara snemma í háttinn.  Annar sonurinn var á salerninu svo ég lagðist "í smá stund" upp í rúm, án þess að hátta mig, og las í bók eftir Daniellu Steel.  Ég gleymdi mér alveg í lestrinum og vissi næst af mér rétt fyrir miðnætti.  Þar með var útséð með það að ég færi snemma að sofa þann daginn.

16.9.14

Gleðiðlegt sms frá Blóðbankanum

Mánudagar eru lánsbílsdagar milli heimilis og vinnu og tvíburarnir þáðu farið í skólann í gærmorgun með þökkum.  Davíð Steinn er að berjast við að losna við leiðindakvef, nefrennsli og hósta.  Við Oddur Smári erum hins vegar hress.  Þegar ég mætti til vinnu kom í ljós að ábyrgðinni á deildinni var létt af mér, fyrirliðinn kominn úr fríi og þegar eitt af H-unum mætti til vinnu rauk hún (fyrirliðinn) á fætur og knúsaði manneskjuna.  Rétt fyrir tólf fékk ég afar gleðiðlegt sms frá Blóðabankanum og örugglega mail líka.  Ég var spurð hvort ég gæti komið og gefið blóð og það eru bara fjórir mánuðir síðan síðast en ekki fimm eins og á milli 2-3 síðustu gjafa.  Auðvitað dreif ég mig til þeirra beint eftir vinnu og það náðist meira að segja úr hægri hendinni á mér, 38. gjöfin.  Áður en ég fór var ítrekað við mig að ég mætti koma aftur eftir fjóra mánuði.  Ég fæ því örugglega sms og mail um miðjan janúar.

Kom heim um fimm.  Um klukkustund síðar dreif ég mig í matargerð og notaði nýja gerð af sósu, sem ég fékk að smakka í Krónunni nýliðna helgi, út á kjúklingapottrétt.  Sauð hrísgrjón með. Bræðurnir borðuðu þetta með bestu lyst.  Eftir mat fór ég að undirbúa saumaklúbbskvöld.  Davíð Steinn hafði skroppið fyrir mig í Sunnubúðina fyrir mat og keypt fyrir mig vínber.  Malaði baunir og hellti upp á könnuna og tók til ritzkex, osta, vínber, pringles-snakk, hnetubland og saltstangir.  Lilja mætti með prjónana sína um átta og Sonja kom tæpri klukkustund síðar með útsaumsmynd.  Ég vann aðallega í "Lost no more" myndinni en saumaði líka smá útlínur í símamyndina (af gamaldags símanum).  Klukkan var ekki orðin tíu þegar stöllur mínar viðurkenndu að þær væru í meira kjaftastuði heldur en föndurstuði en það var líka bara allt í himnalagi.  Það var glatt á hjalla hjá mér til klukkan að verða ellefu en þá kvöddu vinkonurnar báðar í einu.

15.9.14

September hálfnaður

Fór á fætur um hálftíu.  Bræðurnir sváfu eitthvað framyfir hádegi og ég hafði mig ekki í að byrja á verki sem þarf að ljúka fyrir næstu helgi.  Rétt fyrir eitt kom annar bróðirnn fram svo ég gat látið hann vita að ég væri að fara í upphitun fyrir messu.  Við mættum átta kórfélagar, þar af sú nýja. Sungnir voru fjórir sálmar, allir einraddaðir, í messunni og í stað predikunar var leikrit.  Eftir messu var svo svartbaunaseyði og maul í "neðra".  Annars mættu ekki margir í kirkjuna.  Presturinn tók það fram að aðstandendum allra 2-4 barna í söfnuðinum hafði verið tilkynnt um leikritið en það voru bara fjögur börn og þar af eitt sem hefði komið hvort sem var.  Kom aftur heim um hálffjögur og hélt áfram að vera löt. Það var til svo mikið af afgöngum að ég skipti hakki og spaghetti frá því fyrr í vikunni niður á þrjá diska.  Strákarnir voru ekkert ósáttir við það.  Horfði aðeins á imbann, Landann á RÚV og SVU og Reservation á Skjáeinum um kvöldið.  Náði svo að koma mér í háttinn og svefninn rétt um miðnætti.

14.9.14

Í hlutlausum

Klukkan var eitthvað um níu er ég dreif mig á fætur í gærmorgun og þá þegar var ég búin að fara einu sinni fram úr rúmi, upp úr átta.  Um ellefu var ég mætt til norsku esperanto vinkonu minnar.  Hún bauð upp á graut og kaffi og svo skruppum við í smá göngutúr á stígnum meðfram sjónum alveg að þar sem Seltjarnarnes byrjar og til baka.  Fengum okkur meira kaffi og réðum eina íslenska krossgátu áður en ég kvaddi um hálfeitt leytið.  Frá Inger fór í ég Krónuna og þaðan beint heim.  Hvorugur bræðranna svaraði gemsanum sínum þegar ég hringdi í þá eftir að ég lagði bílnum fyrir utan.  En þegar ég ætlaði að hringja í heimasímann komu þeir báðir þjótandi út og sóttu pokana með vörunum í.  Að venju gekk Oddur Smári frá öllu í frysti ísskáp og skápa.  Nokkru síðar fór ég að vinna í því að undirbúa komur bæði iðnaðarmanns sem og systir minni og fjölskyldu en þau síðarnefndu koma n.k. föstudag.  Klukkan fimm horfði ég á landsleik kvenna, Ísland - Ísrael 3:0 og í hálfleiknum setti ég upp kartöflur og útbjór bjúgupottrétt með gulrætum og grænum baunum í jafningi sem ég er afar sjaldan með á boðstólum. Jafningurinn var ágætur en ég hef líklega notast við heilhveiti í hann alveg óvart.  Það kom ekkert að sök.

13.9.14

Strax komin helgi aftur :-)

Þegar ég kom heim úr heimsókninni á fimmtudagskvöldið ákvað ég að leggja fyrir aftan heilsugæsluna í stað þess að leggja í stæði í hinum enda götunnar.  Bauð strákunum far í skólann í gærmorgun og þáði Oddur Smári farið með þökkum en Davíð Steinn var lasinn og varð eftir heima.  Þrátt fyrir að ég væri að nýta lánsbílinn í þriðja sinn sömu vikunnar tel ég mig alveg hafa verið að virða samgöngusamninginn.  Í samningnum segir m.a. að ef þrír eða fleiri ferðast saman þá er það í lagi og þessa tvo daga sem ég vel yfirleitt að fara geta bræðurnir nýtt sér farið í skólann.  Vinnudagurinn leið alveg jafn hratt og venjulega og þegar fór að líða á daginn fór ég að spá í hvort þetta væri næstsíðasti eða síðasti dagurinn í utanumhaldi áður en "fyrirliðinn" kemur úr fríi.  Hún ætlaði að vera í fríi fram að þessari helgi en hún fór degi seinna í frí en hún hafði verið búin að setja niður og gæti/mætti alveg lengja í fríinu í hinn endann í staðinn.  Við sem höfum unnið lengst með henni höllumst frekar að því að hún mæti á mánudaginn.  Sama hvort heldur er, þetta er alveg að verða búið hjá mér að hafa deildina alveg á mínum herðum.  Sem betur fer er nóg af góðu fólki í kringum mig, bæði á deildinni og svo þeir sem ég leita til í K2, svo þetta hefur gengið upp þrátt fyrir ýmislegar uppákomur.  H-in þrjú sem byrjuðu í síðustu viku eru líka að koma vel inn í dæmið.  Eitt af H-unum var að koma aftur eftir nokkurra mánaða hlé og annað var hjá okkur í nokkrar vikur í sumar.

Eftir vinnu kom ég við hjá Atlantsolíu við Flugvallarveg því það var 12 kr. afsláttur og uþb einn fjórði eftir af tankinum.  Heima gerði ég engar sérstakar gloríur, kveikti á tölvu, las, útbjó hakk og spakk og horfði m.a. á fréttir og Wallander.  En svo er gaman að segja frá því að það kemur maður frá aðallögnum í næstu viku til að taka út "jólagjöfina" mína.  Þeir ætla að taka verkið að sér.

12.9.14

Farin að hugsa fyrir jólagjöfinni minni

Strákarnir þáðu farið í skólann í gærmorgunn og ég var mætt í vinnu stuttu fyrir átta.  Þessi vika hefur ekki verið alveg eins klikkuð og sú síðasta en það er samt í nógu að snúast og allt í einu er klukkan orðin fjögur.

Strax eftir vinnu lagði ég leið mína í Tengi við Smiðjuveg.  Þessa dagana eru þeir með 20-25% af öllum vörum hjá sér og ég ætla mér að gefa mér nýtt baðherbergi í jólagjöf í ár.  Það verður kannski erfitt að pakka því inn og ég sleppi því örugglega en mikið verð ég glöð þegar breytingarnar verða búnar.  Tengi eru reyndar ekki lengur með allt á sinni könnu en sölumaðurinn sendi mig heim með nafnspjald frá sér til að geta sent sér helstu mál og annað frá Aðallögnum sem taka einmitt að sér baðherbergi frá a-ö.  Ég fór auðvitað beint heim, mældi út baðherbergið og sendi tvo pósta. Aðallagnir ætla að taka að sér þetta verkefni og ætla að koma í næstu viku og taka út verkið áður en þeir gera mér tilboð.

Eftir kvöldmat og fréttir hringdi ég í konu frænda míns.  Þ.e. er ég hringdi heim til þeirra og hún svaraði, hann var á vinnuvakt.  Ég ákvað samt að skella mér í heimsókn til hennar og var hjá henni um átta.  Við spjölluðum margt og mikið og allt í einu var klukkan orðin tíu.  Þá kvaddi ég og fór heim til að horfa á lögregluvaktina eftir tíu fréttir á RÚV.

11.9.14

Fyrsta kóræfingin á breyttum æfingatíma

Það var engin rigning þegar ég hjólaði í vinnuna í gærmorgun og ekki heldur á leiðinni heim aftur seinni partinn.  Það var blés kannski aðeins á móti á heimleiðinni en annars voru þetta bara góðir hjólaspretti. Í millitíðinni leið vinnudagurinn jafn hratt og vanalega við ýmis störf.  Klukkan var eitthvað um hálffimm er ég skilaði mér heim og ég tjáði bræðrunum það að þeir gætu fengið sér afgang  af pastaréttinum í kvöldmatinn.  Sló á þráðinn til pabba, náði púlsinum aðeins niður eftir hjólreiðarnar og kveikti á tölvunni.  Klukkan hálfsex var ég mætt í kirkju óháða safnaðirns á fyrstu kóræfingu vetrarins.  Ein ný bættist í altröddina, nokkra "gamla" meðlimi vantaði en æfingin gekk alveg ágætlega fyrir sig.  Árni kórstjóri prófaði að nota spjaldtölvu eða Iphone til að gefa okkur tóninn og það gafst bara vel.  Kom heim upp úr hálfátta og stillti imbann fljótlega á plúsinn til að horfa á fyrri fréttatíma kvöldsins. Horfði líka á sportið á DR1 en þeir fjölluðu m.a. um sigur Íslands á Tyrkjum.  Skrýtið að hlusta á íslensk viðtöl og sjá danska texta undir.  Náði að koma mér í rúmið og slökkva á náttborðslampanum um miðnætti.

10.9.14

Magnaður landsleikur

Þrátt fyrir úðaregn um hálfátta í gærmorgun ákvað ég að hjóla í vinnuna.  Var búin að teyma hjólið framhjá bílunum í stæðunum fyrir framan innkeyrsluna og yfir á gangstéttina hinum meginn götunnar þegar ég tók þunna "regnslá" upp úr bakpokanum og steypti yfir mig pokann.  Setti hjálminn aftur á mig og hjólaði af stað.  Ég var varla komin út götuna þegar hætti að rigna og "sláin" var orðin þurr þegar ég lagði hjólinu í hjólastæði í bílakjallara Seðlabankans.  Vinnudagurinn leið jafnhratt við næstum jafnmikið annríki og undanfarið.  Hjólaði Sæbrautina, Skúlagötu, Rauðarárstíg, Klambratún og Lönguhlíð heim.  Fljótlega setti ég upp smá pasta í pott og hörpudisk og rækjur í annan (til að hita frostið úr því).  Skar niður sæta kartöflu, gulrætur og steikti.  Út í allt saman bætti ég við kjúklingabaunum, ananas, túnfiski og furuhnetum (soðnu pastanu og hituðum rækjum og hörpudiski). Þetta kryddaði ég með hvítlaukssalti og svörtum pipar.

Var alveg tilbúin fyrir framan skjáinn þegar landsleikurinn byrjaði og sat límd við allan tímann. Stóð reyndar aðeins upp í leikhléinu.  Strákarnir okkar stóðu sig virklega vel og mörkin þrjú voru hvert öðru glæsilegra.  Það verður spennandi að fylgjast með þessari riðlakeppni.  Hollendingar, sem taldir eru með sterkasta liðið, töpuðu óvænt í Tékklandi.  Þetta verður eitthvað.

9.9.14

Talið niður

Líklega verður lánsbíllinn oft notaður í vinnu og skóla á mánudagsmorgnum.  Í gærmorgun var rignigarsuddi og þar að auki lagði ég bílnum fyrir aftan heilsugæsluna þegar ég kom að austan á sunnudagskvöldið.  Strákarnir þáðu farið með þökkum.  Það þarf ekki að kvarta undan verkefnaskorti í vinnunni og dagurinn leið frekar hratt í öllu annríkinu.  Fór beint heim eftir vinnu.  Kveikti á tölvu en um fimmleytið settist ég með bók í hönd inn í stofu.  Las samt ekkert svo lengi því ég var á leiðinni á heimaleik í Pepsídeild kvenna um sex.  Rétt áður en ég trítlaði af stað bað ég Odd um að setja upp kartöflur um sjö leytið.  "Stelpurnar" mínar töpuðu 2-3 fyrir FH og eru frekar neðarlega á listanum en ekki í neinni fallhættu þó.  Um leið og ég kom heim skar ég sneiðar af soðnum lifrar- og blóðmörskeppum og steikti.  Við Oddur horfðum svo á Lewis á DR1 þrátt fyrir að hafa séð myndina áður.

8.9.14

Mánudagur

Í gærmorgun var ég komin á fætur upp úr hálfníu.  Pabbi sat inni í eldhúsi alklæddur en hvorki búinn að raka sig né fá sér neitt.  Var ekki viss hvort hann ætlaði að gera á undan, eða eitthvað, he, he.  Það var svo hann sem kveikti á tölvunni og við skiptumst á að sitja við hana.  Ég náði næstum tví að klára að lesa tvær bókasafnsbækur og ég tók líka fram saumana mína.  Saumaði útlínur á símamyndinni og "stalst" svo til að undirbúa nýtt saumaverkefni sem mamma gaf mér í sumar. Handsaumaði í kringum jafann og klippti niður garnið í hæfilegar stærðir og fersti á spjöldin eftir númerum.  Tók ekki eitt spor í "Lost nomore" myndinni en það stendur til bóta fljótlega.  Við mamma skoðuðum nýjasta Margaretha bæklinginn spjalda á milli og fundum ýmislegt og það er líklegt að ég panti mér eitthvað.  Mamma steikti svo pönnsur á tveimur pönnukökupönnum og pabbi labbaði út í búð eftir mjólk.  Stoppaði alveg fram á kvöld en var komin heim um tíu.

7.9.14

Batteríin hlaðin

Ég var komin á fætur um níuleytið í gærmorgun.  Kveikti á tölvunni og vafraði aðeins um á netinu og kíkti einnig á uppáhalds leikina.  Um klukkustund seinna settist ég með eina bók af safninu inn í stofu og las í svona þrjú korter.  Þá greip ég með mér aðra bók, eina af þeim sem ég náði í á safninu í gær, og setti ásamt völdum esperantobókum í poka.  Var komin til norsku esperanto vinkonu minnar um ellefu og stoppaði hjá henni í eina og hálfa klukkustund.  Við sinntum nú esperantoinu lítið sem ekki neitt.  Fengum okkur graut og kaffi á eftir.  Réðum tvær íslenskar krossgátur, glugguðum í bókasafnsbókina og spjölluðum.

Er ég kom heim fór ég að huga að því að tína mig til fyrir ferð go gistingu á gamlar heimaslóðir, þ.e. er til foreldra minna.  Lagði ekki alveg strax í hann en kvaddi synina rúmlega eitt og var komin austur fyrir hálfþrjú.  Ein vinkona mömmu var í heimsókn og þegar hún heyrði hvað væri á döfinni hjá mér gaf hún mér upp nafn og sagði mér að nota þau sambönd.  Meira um það seinna.  Dagurinn leið hratt við lestur, netvafr, kaffidrykkju og almenna afslöppun.  Fór meira að segja að sofa fyrir miðnætti.

6.9.14

Hjólið mitt komið heim

Aftur notaði ég strætó til að komast í vinnuna í gærmorgun.  Vinnudagurinn reyndist alveg jafn annasamur og dagarnir á undan og leið líklega enn hraðar fyrir vikið.  Öll daglegu verkin voru kláruð og hluti af "auka" verkunum sett í gang.  Vélin gekk alveg frá átta til klukkan að verða fjögur.  Ég stimplaði mig út tíu mínútur yfir fjögur eða þar um bil og hjólaði heim.  Þar tók ég af mér hjálminn skipti um yfirhöfn, stakk seðlaveskinu í vasann og fann til lánsbíllyklana.  Náði í Odd upp í Tækniskóla.  Hann kom með mér í Krónuna.  Oddur tók svo vörurnar með sér inn og gekk frá þeim en ég fór á bókasafnið í kringlunni að skila sex bókum sem ég var búin að lesa og voru að renna út á tíma nú um helgina.  Ég var/er með fjórar bækur sem þarf ekki að skila fyrr en 17. þessa mánaðar og hefði í sjálfu sér geta framlengt lánið á hinum sex.  En nei, ég skilaði þeim og kom með sex bækur í viðbót heim.  Ein af þeim er reyndar samansafn af málsháttum og orðatiltækjum tekin saman af Nönnu Rögnvaldsdóttur sem er betur kunn sem matreiðslufræðingur og hefur gefið út nokkrar bækur um svoleiðis efni.  Hafði kjúklingalærakjöt í ofni með grænmetiskrydduðum grjónum og gulum baunum í kvöldmatinn.  Horfði svo á Taken 2 á DR1.  Slökkti á sjónvarpinu fyrir níu, vafraði aðeins um á netinu en var komin upp í nokkru fyrir miðnætti með bók í hönd.

5.9.14

Víííí, helgi framundan

Í gærmorgun fór ég með strætó í vinnuna í fyrsta skipti síðan í vor.  Hjólið er enn í bílakjallara Seðlabankans og bifreiðakvótinn þessa vikuna var uppfylltur.  Vinnuklikkelsið hélt áfram og daglegri framleiðslu og frágangi lauk ekki alveg fyrr en klukkan var farin að halla í fimm.  Tíminn milli átta og fimm leið samt undrahratt.  Strax eftir vinnu fór ég á Café Rósenberg á Klapparstíg og hitti nokkra fyrrum og núverandi vinnufélaga.  Ég var eina stelpan í hópnum en vonandi verðum við fleiri næst.  Fékk mér hvítvín og spjallaði við flesta kappana og áður en ég vissi af var klukkan að verða átta.  Þá var farið að fækka í hópnum, við vorum líklega fimm eftir af tólf eða þrettán sem höfðu látið sjá sig.  Ég var svo heppin að fá far heim fljótlega.  Strákarnir höfðu bjargað sér með kvöldmat og ég var ekkert svöng.  Kveikti á tölvunni og sat við hana í stutta stund.  Þá fleygði ég mér upp í rúm og las til klukkan að ganga tíu og svo kveikti ég á sjónvarpinu og horfði á e-n nýjan sakamálaþátt, tíu fréttir og lögregluvaktina í Cicaco-borg.  Fór svo aðeins aftur í tölvuna áður en ég slökkti á henni og kláraði svo bókina um Varg Veum áður en ég fór að sofa.

4.9.14

Óróleiki á mörgum stöðum

Þrátt fyrir að hafa unnið í fjórtán tíma á þriðjudaginn og ekki farið að sofa fyrr en upp úr hálfeitt eftir miðnætti þá vaknaði ég rétt fyrir sex nokkru á undan fyrri vekjaranum.  Var komin á fætur um sjö.  Hjólið mitt var og er enn á hjólastæði í bílakjallara seðlabankans.  Bauð strákunum far í skólann og var mætt í vinnuna áður en klukkan varð átta.  Dagurinn var fljótur að líða enda í nógu að snúast hjá mér.  Stimplaði mig út tíu mínútum áður en klukkan varð fjögur og náði í bankann áður en lokaði.  Fór svo beint heim.  Um níu um kvöldið ákváðum við mæðginin að hafa bíókvöld og leigðum okkur RED2 með Bruce Willis og fleiri þekktum leikurum þótt strákarnir væru búnir að sjá hana áður.  Það voru samt þeir sem réðu og ég var ekkert ósátt við valið.  Fór aðeins að vafra um á netinu eftir að myndin var búin.  Skreið upp í rétt eftir miðnætti og þá las ég um stund nema hvað.

3.9.14

Meiri klikkun sem ekki er sagt nánar frá

Hafi föstudagurinn og mánudagurinn verið klikkaðir þá voru þeir þó ekkert í samanburði við gærdaginn.  Án þess að fara mikið nánar í hvernig gærdagurin gekk fyrir sig þá var vinnudaguinn hjá mér í gær fjórtán tímar. Hjólaði til vinnu um sjö og skildi hjólið eftir á hjólastæðinu í bílakjallara Seðlabankans því það var orðið of dimmt um níu til að hjóla heim.  Þar að auki ákváðum við tvær sem vorum þar til allt var búið að skreppa og fá okkur eitthvað að borða áður en við fórum heim.  Hin var á bíl og við fórum á Saffran og fengum okkur kjúklingaklemmu.  Ég var komin heim rétt rúmlega tíu.  Horfði á sakamálaþáttinn sem var að byrja á RÚV eftir tíufréttir.  Kveikti aðeins á tölvunni um hálftólf.  Skreið upp í um miðnættið og las í smá stund.  Samt var ég vöknuð fyrir sex í morgun, á undan fyrri vekjaraklukkunni.

2.9.14

Hvert stungu þessir átta mánuðir af?

Það er afar gott að byrja vinnuvikuna á að mæta á bíl.  Strákunum finnst heldur ekkert verra að fá far svona á mánudagsmorguni.  Vinnudagurinn í gær var einn af þeim klikkaðri en ég ætla mér ekkert að rekja það neitt nánar.  Var mætt stuttu fyrir átta og klukkan var orðin hálffimm þegar ég komst aftur heim.  Það byrjaði ég á að kveikja á tölvunni eins og oftast áður og vafraði aðeins um á netinu áður en ég fór að sinna öðrum hversdagslegri málum.  Til stóð að strákarnir færu á spilakvöld í Hafnarfjörðinn en þeir voru of margir í einn bíl og Oddur lét ekki segja sér að taka strætó heldur sagði strákunum þá bara að spila án sín.  Við hituðum okkur afganginn af kjötsúpunni og horfðum svo á Lewis á DR1 milli hálfníu og tíu.

Hrikalega er tíminn annars eitthvað fljótur að líða, sem er bæði gott og slæmt.  Ég á fullt í fangi með að reyna að njóta daganna sem best og áður en ég veit af hafa þeir breysti í vikur og mánuði.  Ég veit svo sem að það þýðir ekki að reyna að elta þessa daga neitt uppi því þá er hættara við að maður missi af núinu og augnablikinu.  Passa mig bara á að lenda ekki í stresshringiðunni og halda áfram að njóta þess að vera til hér og nú.

1.9.14

Nýr mánuður og ný vinnuvika

Það er svo stutt síðan þetta ár byrjaði og mér finnst frekar fáránlegt að það séu bara fjórir mánuðir eftir af því.  Annars var ég komin á fætur rétt fyrir tíu í gærmorgun.  Dreif mig í að skipta um sængurföt og kveikti svo á tölvunni.  Dagurinn flaug hratt og rétt fyrir fimm trítlaði ég á Valsvöllinn þar sé ég sá "mína menn" vinna ÍBV með þremur mörkum gegn engu.  Kom heim um sjö og bauð strákunum bara með mér á Saffran í tilefni sigursins.  Horfði svo á kvöldfréttir á plúsnum er við komum heim.  Upp úr níu skipti ég yfir á Skjá enn og horfði á Law and Order SVU og svo Reservation.  Skreið upp í rúm áður en klukkan varð hálftólf og las næstum því til miðnættis.  Hlustaði svo á byrjunina af miðnæturfréttunum áður en ég fór að sofa.