31.1.05

- Eftir helgina -

Mikið afskaplega eru þessar helgar fljótar að líða, hvort sem maður gerir eitthvað eða ekkert. Og svo er mánuðurinn alveg að verða búinn og þar af leiðandi einn tólfti af árinu liðinn.

Einhvern tímann á laugardaginn var skrapp ég inn á salerni og rak augun í undarlegar flygsur á gólfinu. Við nánari skoðun reyndust þetta vera hár. Ég sá strax að þetta var af höfðinu á Davíð Steini og spurði hvort hann hefði verið að klippa sig. Í fyrstu neitaði neitaði drengurinn en þegar ég spurði aftur setti hann upp skeifu og sagði snöktandi -"Þú sagðist ætla að fara með mig í snyrtingu í vikunni en gerðir það ekki!" Allt mér að kenna semsagt. Hann tók mest af toppinum en líka smá í hnakkanum og ég sagði honum að búa sig undir að tilvonandi hársnyrting yrði meiri en hann ætlaði.

Í gær var svo stráksi að dunda lengi inni á salerni. Þegar hann kom fram spurði pabbi hans hvaða lykt væri af honum. Ég finn enga lykt en datt strax eitt í hug. Stráksi setti froðu í hárið á sér. Snemma byrjar puntið. Mér láðist að segja honum að þar sem hann væri búinn að klippa mest allan toppinn þá þyrfti hann ekkert að nota froðu.

Skrapp aðeins í heimsókn til tvíburahálfsystur minnar í gær m.a. til að kíkja á litlu frænku. Sú hefur nú aldeilis stækkað og braggast enda liðinn mánuður síðan ég var síðast á ferðinni. Tvíburahálfsystir mín var að fá hluta af pöntun frá Þýskalandi sem hún sá um fyrir sig, mig, mömmu sína og eina enn og ég kom heim með tvær bækur fullar af efni í þrívíddarkort. Þannig að nú get ég byrjað að undirbúa jólakortin fyrir næstu jól, og það er líklegt að við stöllurnar förum að hittast einu sinni og einnu sinni í slíkum tilgangi. Alltaf gott að gefa sér góðan tíma í hlutina.

28.1.05

orðarugl

á ganginu gott er að hugsa
grufla í sínum málum
Ekki´ er samt verið að slugsa
í slabbi og vegi hálum

gott er að brosa barnanna til
bjóða góðan daginn
þetta er það sem ég alveg vil
þykist búa í haginn

stundum er ágætt að slappa af
sitja og gera' ekki neitt
nota svo orkuna er hvíldin gaf
og þeysast vítt og breitt

í kollinum fljúga feikimörg orð
finnst mér samt komið nóg
stend upp og sest við annað borð
staflanum komið í lóg

27.1.05

- Á tveimur jafnfljótum á ný -

Þá er ég búin að skila af mér bílnum sem ég hef haft aðgang að frá því á Gamlársdag. Sótti Lilju vinkonu út á völl á þriðjudagskvöldið. Vélin hennar lenti tíu mínútum fyrir ellefu og hún var komin í gegn rétt upp úr ellefu. Við vorum komnar í bæinn fyrir miðnætti.

Labbaði því heim í gær. Það var bara fínt! Tvíburarnir komu beint heim úr skólanum, eða rétt um hálfþrjú. Ég hafði náð að leggja mig í tæpan klukkutíma. Leyfði þeim að leika sér í tölvunni í tæpan klukkutíma (og hélt aðeins áfram að kúra). Svo gaf ég þeim hressingu og sá til þess að þeir kláruðu að lesa og læra heima. Davíð Steinn var svo sóttur rétt fyrir fimm af mömmu hinna tvíburanna í drengjakórnum.

Oddur Smári sýndi mér framtönnina sína sem loksins datt úr honum í fyrrinótt. Ég get svarið það að tönnin sú hékk bara á lyginni einni saman sl. daga. Tannálfurinn var svo á ferðinni í nótt og hirti tönnina.

Það var líka kóræfing hjá mér í gær. Fínasta æfing þótt það vantaði eitthvað af fólki. Við vorum allar mættar í altinum (4) og bassinn var líka fullskipaður þeir mættu allir tveir. Fórum yfir efni sem við fengum í haust og á dögunum og fengum einnig nýtt lag. Kórstjórinn lofaði okkur meira nýju efni eftir viku. Það er ekki messa næst fyrr en 13 febrúar (messur eru líka yfirleitt bara annan og fjórða sunnudag í mánuði).

Ég lenti í þvílíkum ógöngum á arkinu í morgun, komst í svellsjálfheldu en rétt slapp við að detta. Sem betur fer var svellið ekki nema á hluta af leiðinni. Hefði getað sloppið við svellið ef ég hefði valið aðeins lengri leið.

25.1.05

- Allt og ekki neitt -

Ég var komin heim upp úr hádeginu og þar sem ég vissi af því fyrirfram sagði ég strákunum að koma beint heim úr skólanum (sleppa því að mæta í heimanámið). Skólinn er búinn 14:10 og bræðurnir voru að skila sér í hús. Oddur er byrjaður að lesa og hinn er að gera skrifleg verkefni. SMS skilaboð bárust fyrir stundu að völlurinn í Safamýrinni er eitt svell þannig að æfing fellur niður. Þarf því bara að keyra Odd í karatetíma seinni partinn.

Lilja vinkona lendir seint í kvöld. Ég ætla til Keflavíkur að taka á móti henni þótt ég þurfi á fætur upp úr fimm í fyrramálið. Bílnum sem ég hef haft aðgang að síðan á Gamlársdag verður því skilað í kvöld. Það er nú mikið í lagi því það er aftur að verða ágætlega göngufært.

Föðursystir mín, Svala vinkona var að kveðja fimm mínútum áður en bræðurnir komu heim. Við tvær voru búnar að sitja, spjalla, drekka kaffi og hafa það notalegt í rúman klukkutíma.

HM-hornið. Handboltastrákarnir okkar spila sinn annan leik í Túnis í kvöld. Þeir eru að keppa við Slóvena. Ég er á því að sá leikur vinnist en það má samt alls ekki vanmeta Slóvenana. Ég hlakka til að fylgjast með í kvöld. Áfram Ísland!

24.1.05

- í stuði með Guði -

Helgin er horfin. Ég gerði ýmislegt á laugardaginn þótt ég hafi ekki komist yfir allt það sem ég ætlaði mér (eins gott að ég var ekki að tala/skrifa mikið um hvað ég ætlaði að gera). Ég fékk tvíburana til að taka af öllum sængum. Ekki viðraði nógu vel til að henda sængunum út á svalir en ég fann ráð við því; Setti allar sængur og kodda í hjónarúmið, opnaði gluggann á herberginu og svaladyrnar upp á gátt og lokaði svo herberginu. Þannig viðraði ég herbergið í leiðinni.

Kom loksins jóladótinu fyrir niður í geymslu (það gleymdist reyndar smá dós hérna uppi en hún fer niður á eftir). Horfði á Liverpool tapa fyrir Southamton (frekar leiðinlegt), bætti mér það upp með því að horfa líka á Man. Utd. spila. Rétt fyrir hálfátta um kvöldið var ég mætt í kirkjuna mína. Í síðustu viku var alþjóðleg bænavika sem endaði sem sameiginlegri bænastund flestra trúfélaga í kirkju Óháða safnaðarins. Allir höfðu eitthvað fram að færa og okkar kór leiddi sönginn. Hundrað manns voru í kirkju og var þetta mjög notaleg stund.

Í gær var svo venjuleg messa og í hana mættu um tuttu manns (smá munur). Á meðan ég var að versla og í messu tóku feðgarnir sig til og ryksuguðu yfir gólfin í íbúðinni. Mikið var ég ánægð með karlana þegar ég kom heim.

HM-hornið Jæja, nú er heimsmeistarakeppnin í handbolta byrjuð. Þvílíkur leikur sem strákarnir áttu í gær og þá er ég að tala um síðustu tuttugu mínúturnar. Nokkru áður var mér eiginlega hætt að lítast á blikuna, strákarnir komnir níu mörkum undir og það stefndi allt í stórt tap. Mér fannst það rétt hjá Viggó að leyfa þá "kjúklingunum" að spreyta sig aðeins. Og eitthvað virtist það hafa að segja. Varnarleikurinn breyttist, Birkir fór að verja og verja og smám saman drógu strákarnir á Tékkana. Jafntefli fannst mér bara sanngjarnt! Ég hlakka til að sjá þá spila við Slóvenana á morgun.

22.1.05

- Morgunstund -

Ég finn það á mér að þetta verður góður dagur. Ætla samt ekki að tala fyrirfram um í hvað hann skal verða notaður. Kaffið verður bráðum til (helli alltaf upp á sjálf, kaffikannan okkar er brúkuð allt annarsstaðar). Davíð er vaknaður og ég ætla að sjá til þess að hann brölti brátt á fætur. Öxlin hans er að lagast og það er komið út mar á henni, nokkuð stórt svæði sem lítur út eins og þar hafi hellst niður joð.

Tvíburarnir voru vaknaðir upp úr átta en voru ekkert að raska ró foreldranna. Þeir áttu litla flöskur af coke light inni í ísskáp síðan í gærkvöldi og voru búnir að næla sér í þær og sestir fyrir framan morgunsjónvarpið þegar ég kom fram áðan. Þeir voru þó ekki búnir að fá sér brauð svo ég tók að mér að rista fyrir þá.

Eitt er samt sem ég ætla að láta eftir mér en það er að horfa á Southamton taka á móti Liverpool rétt upp úr hádeginu. Og svo byrjar HM í handbolta á morgun. Vonandi gengur "okkar" strákum vel. Það verður amk spennandi að fylgjast með þeim næstu daga.

21.1.05

- Lestrargleði -

Ég er mikill bókaormur það verður seint mælt á móti því. Þessa dagana er ég að lesa Mávahlátur eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur. Ég sökk á kaf í þessa bók, enda er ég langt komin með hana. Reyndar var ég búin að sjá myndina, sem mér fannst góð, en bókin er betri. Ég er líka að lesa Setrið eftir Isaac Bashevis. Við rúmstokkinn eru svo nokkrar bækur sem bíða mín. Held samt að mér takist ekki að ljúka við að lesa þær allar áður en fresturinn frá bókasafninum rennur út. En það gerir lítið til því það er alltaf hægt að framlengja. Það lítur nú samt út fyrir að næst geti ég loksins skilað Harrý Potter og fönixreglunni sem er búin að vera hjá okkur síðan sl. sumar. Oddur Smári er alveg að verða búin með bókina þökk sé lestrarkeppninni í skólanum.
- Bóndadagur -
Til hamingju með daginn karlmenn!!!

Þegar Davíð Steinn vaknaði í morgun voru fyrstu orð hans: -"Það er bara kominn föstudagur! En hvað tíminn líður hratt!!!" Þetta er svo satt hjá barninu. Það eru bara tíu dagar eftir af þessum nýbyrjaða mánuði.

Eftir að hafa skutlað tvíburunum á fótboltaæfingu í gær skrapp ég í heimsókn til Helgu systur. Hún byrjaði á því að nota tækifærið og ná í Huldu frænku á leikskólann en við höfðum samt rúman hálftíma í spjall. Bríet var ekki par hrifin af því að vera skilin eftir hjá mér. Allt gekk þó ágætlega þar til ég tók hana upp. Þá fór sú stutta að háorga, var hreinlega óhuggandi. Mér tókst samt að fá hana til að hætta að gráta áður en Helga kom til baka. Hvort sem það hefur verið af því að barnið var orðið þreytt á þessum öskrum eða eitthvað annað veit ég ekki en eftir að mamman var komin heim mátti ég alveg vera með litlu frænku mína í fanginu.

20.1.05

- Af sumum skondnum hlutum -

Ég er búin að vera með aðgang að bíl síðan um áramótin og hef því ekki farið fótgangandi á milli heimilis og vinnu. En í staðinn sé ég um að koma strákunum á fótbolta og karateæfinga (mamma sér um að keyra á kóræfingar). Það var kóræfing hjá Davíð Steini í gær svo ég sótti Odd í Skaftahlíðina. Það lá vel á drengnum og þegar ég spurði hann hvort hann hefði lesið eitthvað var svarið: -"Níutíu mínútur, hvorki meira né minni!"

Skrapp í Fiskbúð Einars og keypti fiskibollur, lúðubita, kartöflur, lauk, kleinur og einnig tvö tóró-sveppasósu bréf. Á sósubréfinu stendum m.a.: Með Londonlambi og öðru reyktu kjöti. Hmm!?!? Hvað er verið að selja sósur út á kjöt í fiskbúðum? Ég notaði samt sósuna út á bollurnar í gærkvöldi.

Davíð Steinn skrapp í sturtu rétt fyrir háttinn í fyrrakvöld og fór því að sofa með rakt hárið. Hárið stóð líka út í allar áttir þegar hann kom framúr í gærmorgun. Stráksi var tíu mínútur að bleyta upp hárið og greiða sér og leit mjög vel út að því loknu. Enda sagði Oddur:
-"Hvar er Davíð Steinn, þetta getur ekki verið hann." Davíð Steinn sagði eitthvað og þá gall aftur við í Oddi: -"Hann hefur stolið röddinni hans Davíðs Steins þessi strákur!"

Það var líka kóræfing hjá mér í gærkvöldi. Notaleg æfing í lengra lagi (fann samt ekkert mikið fyrir því þótt hún væri næstum tveir og hálfur tími). Við vorum að æfa fyrir laugardagskvöldið og svo messuna n.k. sunnudag. Einnig æfðum við nokkur lög sem verða á tónleikaprógamminu í vor. Gaman að því!!!

19.1.05

- Tímamót -

Í dag eru tvö ár síðan ég "bloggaði" fyrst. Fljótlega eftir að ég byrjaði að skrifa á þessum vettvangi fann ég að ég gæti alveg vanist þessu. Sem krakki var ég alltaf heilluð af óútfylltum línustrikuðum blöðum og velti oft fyrir mér hvað ég gæti nú skrifað þarna, sögur, ljóð, sendibréf eða eitthvað bara.

Annars er allt þokkalegt að frétta af okkur drápurunum. Davíð slasaði sig reyndar á karateæfingu á laugardaginn og ég vil meina að hluti af því sé að hann var búinn að stunda karate og skvass alla dagana alveg frá mánudeginum og stór hluti er líka kappið í manninum. Á karataæfingunni var hópurinn settur í kollnís-keppni yfir salinn (7 rúllur). Davíð gekk mjög vel en á fimmtu rúllu lenti hann frekar illa á vinstri öxlinni og hann hefur varla getað lyft hendinni síðan (reyndar er hann aðeins að skána núna) en þessi þrjóskupúki vill alls ekki fara og láta líta á sig.

Á mánudaginn fór ég með Odd Smára til tengdapabba systur minnar. Hann á Hárhornið við Hlemm og klippti strákinn fyrir mig. Á afgreiðsluborðinu var skál með molum í. Þeir voru í boði fyrir viðskiptavini sem vildu eða máttu fá þá. Ég sagði við strákinn að það væri ekki nammidagur svo hann skyldi ekki vera að fá sér. Þegar Davíð Steinn kom heim af kóræfingu spurði ég hann hvernig honum litist á nýklipptan bróður sinn. -"Mamma, ég þyrfti að fara í smá snyrtingu líka!" Þá gall við í Oddi: -"Ekki á laugardaginn því þá má hann fá nammi en ekki ég!"

17.1.05

- Dimmir dagar -

Fyrir fimm dögum hringdi síminn. Á línunni var besti vinur minn og færði hann mér sorgarfréttir. Ég tel mig ekki hafa leyfi til að tjá mig frekar um það mál en ég hef verið mjög slegin yfir þessum fréttum og hugurinn verið allt, allt annars staðar.

12.1.05

- Aðeins af lestrarhestunum -

Davíð Steinn náði markmiðinu sínu í gærkvöldi og las samtals í 220 (þar af 45 mín í Skaftahlíðinni) Samt var hann ekki sá sem las mest í bekknum í gær. Þegar markmiðinu var náð var klukkan orðin hálfníu. Hann spurði samt hvort hann mætti ekki skrifa smá í skriftarbókin. Ég veitti leifið og klukkan var alveg að verða níu þegar stráksi fór að sofa. Oddur Smári var hins vegar alveg búinn á því. Hann las 50 mín hjá mömmu og það tók hann tíu mínútur að lesa heimalesturinn þrisvar sinnum. Drengurinn kvartaði um í bakinu og það var ljóst að hann var verulega þreyttur enda fór hann beint að hátipos (hátta, tanna, pissa og sofa) eftir að hann var búinn að borða. Hann var semsagt sofnaður fyrir hálfátta. Reyndar rumskaði hann upp úr miðnættinu. Þá var hann nokkuð heitur og sveittur og kvartaði sáran undan bakverk. Ég gaf honum eina barnamagnyl og vatnsglas. Pilturinn vaknaði svo stálsleginn í morgunn. Sennilega voru þetta bara vaxtaverkir. Þessa stundina er Davíð Steinn á kóræfingu en Oddur Smári er búinn að lesa í einn og hálfan tíma hér og aðrar 50 mínútur í Skafthlíðinni.
hugdettur

í kollinum þeytast þægileg orð
þankarnir eru margir og stórir
sum á ekki að bera á borð
betra ef þar sitja fjórir

með hægri hönd undir vinsti kinn
hún liggur svo kyrrlát og hljóð
þar mun hún sofa enn um sinn
ég syng henni fallegt ljóð

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

skýin eru í feluleik
sum sjást þó í öðrum leikjum
snú-snú, parís og eltingaleik
eitt er skilið útundan
eða kannski er það bara að hugsa
hmm, hugsa skýin



11.1.05

- Út og suður -

Stundum getur það komið sér vel að hafa aðgang að bíl. Ég sagði strákunum að ég myndi sækja þá í Skaftahlíðina og skutla þeim á fótboltaæfu og svoleiðis. Mamma misskildi mig eitthvað og eftir að ég hafði hringt og sagst vera á leiðinni sendi hún strákana áleiðis heim. Ég náði þeim þó áður en þeir fóru yfir Miklubrautina. Oddur Smári var eitthvað að kvarta í bakinu en ákvað samt að drífa sig á æfingar. Útiæfingarnar eru nú frá hálffimm til hálfsex. Við vorum mætt rétt fyrir hálffimm en hvorugur þjálfaranna var mættur og þegar klukkan var orðin rúmlega ákváðum við að það væri bara messufall. Þónokkrir drengir úr flokknum voru á æfingu og einn pabbi. Hann bauð þeim að spila og vera með þeim. Við mæðginin ákváðum að yfirgefa svæðið. Lét setja bensín á bílinn sem ég hef haft aðgang að síðan á gamlársdag, tók smá rúnt og hleypti svo Oddi út við Þórshamar korteri fyrir tímann sinn. Við Davíð Steinn fórum heim og ætlum að treysta fjölskylduföðurnum fyrir að sækja Odd úr tíma. Stráksi er byrjaður að lesa, mér skylst reyndar að þeir hafi verið búnir að lesa í þrjú korter hjá mömmu, allt telur! Oddur Smári og einn bekkjarbróðir þeirra lásu mest af krökkunum í gær, 210 mínútur. Og markmiðið hjá Davíð Steini er að lesa 220 mín. Kappið í þessum krökkum!

10.1.05

- Helgin flogin -

Og heill dagur að auki. Strákarnir áttu tíma með 6. flokknum í boltanum í Egilshöll á laugardagsmorguninn. Æfingin stóð yfir í einn og hálfan tíma þannig að við létum loks verða af því að heimsækja "föðursystur" mína á nýja heimilið hennar. Okkur leist bara vel á staðinn (fundum hann samt ekki í fyrstu atrennu þótt Davíð hafi komið þar áður er hann hjálpaði til við flutningana).

Í gær var fyrsta messa ársins í Óháðu kirkjunni. Ég lét það ekki fram hjá mér fara og dreif mig með í kórsönginn. Eftir messu kom ég heim og náði í innkaupalistann. Strákarnir voru með vini í heimsókn þannig að ég skyldi feðgana eftir heima.

Lestrarkeppnin í Ísaksskóla hófst í dag. Oddur Smári las í rúmlega þrjá og hálfan tíma. Davíð Steinn náði að lesa í rúman klukkutíma þrátt fyrir að hafa ekki byrjað fyrr en eftir sjö en hann var á kóræfingu milli 17:00 og 18:45 og kom ekkert heim í millitíðinni (það tekur því ekki. Ég er að koma heim um hálffimm og þá er hálftími þar til hann byrjar á æfingu).

7.1.05

- Ýmislegt og smá mont með -

Feðgarnir fóru á þrettándabrennu í Grafarvoginum í gær. Ég var heima, þorði ekki með, því ég var tæp í maganum. Hafði tilbúið heitt kakó fyrir strákana er þeir komu heim sælir og glaðir.

Ég gleymdi að segja frá því að á milli jóla og nýjárs var okkur boðið yfir til norsku vinkonu minnar í smá teiti. Þetta var seinnipartinn á þriðjudegi. Ég hafði farið á bílnum í vinnuna en þegar ég kom heim fann ég hvorki tangur né tetur af feðgunum. Ég hringdi í gemsann hans Davíðs en hann hringdi innan úr herbergi, hafði ekki verið tekinn með. Ég skellti mér yfir á Guðrúnargötuna. Mágur og dönsk svilkona vinkonu minnar voru stödd á staðnum. Á meðan verið var að dekka borð og bera fram alls konar góðgæti spjallaði ég við svilkonuna. Ég var varla búin að segja neitt að ráði þegar hún spurði mig hvort ég hefði búið í Danmörku. Svarið var neikvætt en ég var úti í heilt sumar fyrir tæpum 22 árum og hef komið tvisvar þangað síðan. Tenna, sú danska hrósaði mér fyrir hve vel ég talaði dönskuna. (mont, mont í mér...)

Oddur Smári byrjaði aftur í karate. Hann er í framhaldi II, skil það ekki alveg því það er líka til hópur sem heitir framhald I. Davíð tók svo þá ákvörðun að fara að æfa karate aftur og á að mæta á morgun, gott hjá honum! Á meðan þeir feðgar voru í þessu stússi fórum við Davíð Steinn í Fiskbúð Einars og á bókasafnið. Á síðar nefnda staðnum skilaði ég af mér fullum poka af bókum (og öðrum með minna í) og framlengdi fjórum bókum áfram. Síðan létum við greipar sópa og fylltum eina körfu af alls konar bókum. Tók m.a. fullt af bókum fyrir strákana þar sem lestrarkeppnin hefst eftir helgina. Bækurnar fylltu einn poka. Ég fyllti annan poka fyrir mig og setti líka í einn minni. Það er gaman framundan hjá mér. Má nú samt ekki gleyma mér alveg í bókunum því það er nóg annað að stússa á heimilinu.

Svo er ég búin að fá nýjan bækling frá Margarethe. Er ekki enn búin að flétta honum, svo skrýtið sem það nú er. Vonandi finn ég eitthvað í honum sem freistar mín og ég get látið mig dreyma um að panta þegar ég er búin með fjórðu og síðustu árstíðamyndina.

5.1.05

Streymandi orð

að hugsa um ekkert er lítið mál
orðin streyma hratt úr stað
sum hafa merkingu önnur bara tál
en engin á leiðinni í bað

stundum er gott að bulla í bolla
ballið er rétt að byrja
líka má kannski dóla og drolla
drífa sig út og kyrja

hreyfi ég höfuðið upp og niður
hlýtur að þýða já
þá er það afar góður siður
að fara strax á stjá

_____________


Þetta er nú meira bullið í mér en mikið rosalega getur verið gaman að bulla út í eitt stundum. Ég lofa hér með að bulla alltaf öðru hvoru. He, he.

Strákarnir voru duglegir að læra í gær og lásu líka heilmikið aukalega, fín upphitun fyrir lestrarkeppni sjö og átta ára bekkja sem hefst eftir helgina og stendur í tvær vikur. Þeirra bekkur varð í öðru sæti í báðum keppnunum í fyrra svo það er spennandi að sjá hvernig fer núna.

Við gáfum Davíð Steini bókina Kafteinn ofurbrók og brjálaða brókarskassið í jólagjöf. Hann byrjaði á henni í gær og skemmti sér konunglega. Oddur Smári er enn að lesa Harrý Potter og Fönixregluna en hann er rúmlega hálfnaður með hana og fer örugglega langt með hana í lestrarkeppninni. Hann fékk annars nýjustu bókina um Benedikt búálf frá okkur í jólagjöf og var mjög glaður með það.

Tommi, Hugborg og Teddi komu seinni partinn í gær og sóttu hamsturinn. Ég er mest hissa á að strákarnir skuli ekkert hafa suðað um að eignast sjálfir svona dýr. Ég spurði Tedda hvort við mættum ekki bara eiga Hnoðra. Svarið var skýrt: "Neihei!!!"

4.1.05

- Hitt og þetta -

Gærdagurinn var fremur rólegur. Maginn var eitthvað að stríða mér svo ég gerði ekki eins mikið og ég ætlaði mér. Aðstoðaði stákana við að ljúka ákveðnum skólaverkefnum og horfðum á fótboltaleikina á Skjá einum saman. Oddur Smári vændi mig um það í morgun að ég hefði ekkert verið að gera neitt með þeim bræðrum í gær og því ekki verið í neinu fríi.

Ákvað að gangasetja bílinn, sem Lilja vinkona notar og geymir í nágrenninu, í morgun. Það tók a.m.k. 15 mínútur að skafa hann svo það varð úr að ég ók mér milli staða í stað þess að ganga. (Ehemm, kannski var alltaf ætlunin að keyra í vinnuna í morgun. En Lilja sagði líka að ég mætti nota bílinn að vild á meðan hún væri úti).

Tommi mágur er veðurtepptur fyrir norðan svo Hnoðra fær auka daga hjá okkur á meðan. Vöktum hana um sex í gærdag til að láta hana teygja úr sér í kúlunni sinni. Þegar hún var búin að átta sig á hlutunum fór hún á fleygiferð og komst meðal annars yfir þröskulda heimilisins á ferðinni. Hvað þessi dýr geta sprett úr spori.

3.1.05

- Bara um 362 dagar eftir af árinu -
Yfirlit undanfarinna daga

Á annan í jólum skruppum við á Bakkann til tengdó. Báðir bræður Davíðs mættu líka. Þetta var notaleg dags- og kvöldstund. Það hafði tekið Davíð næstum alla vikuna á undan að koma sér í frí. Hann sagði þann 22. des: "Ég er þó í hálfu fríi, ég er heima!" Hann sá samt um strákana þessa daga.

Þann 27. des. bauð kórstjóri drengjakórsins strákunum til sín (hann hafði orðið að fresta því). Davíð Steinn kom glaður heim eftir boðið. Dagarnir milli jóla og nýjárs voru annars rólegir en fljótir að líða. Davíð og strákarnir voru í fríi og þegar ég var ekki heima notuðu þeir tímann óspart í tölvuleiki og bíómyndagláp.

Kvöldið fyrir gamlársdag kom Lilja vinkona til mín. Ég hafði boðist til að skutla henni til Keflavíkur eldsnemma morguninn eftir og okkur kom saman um að best væri að hún myndi gista hérna. Kannski eins gott. Eftir skemmtilega kvöldstund sagðist ég ætla að vakna rétt fyrir fimm morguninn eftir. Stillti svo símann á 5:55. Hann var stilltur á hljótt þannig að þegar Lilja vaknaði morguninn eftir og reyndi að hringja og senda mér sms þá varð ég ekki vör við neitt. Það var ekki fyrr en hún fór að hamast á herbergisdyrunum að ég rumskaði. Í fyrstu skyldi ég ekkert í því hvers vegna ég hefði ekki vaknað við vekjarann í klukkunni en það kom svo auðvitað á daginn að hún átti amk 20 mínútur eftir áður en hún átti að hringja. Allt gekk þó vel og höfðum við alveg nægan tíma. Ég var komin í bæinn aftur klukkan sjö og gat gefið mér tíma til að fá mér morgunmat hér heima áður en ég skrapp í vinnu.

Það var messað í Óháðu kirkjunni þrátt fyrir að í fjögur fréttum kæmi fram að messufall væri í öllum kirkjum í höfuðborginni. Flestir kórfélagar mættu og sungu og það var slangur af fólki í kirkjunni. Þegar ég kom heim um sjö var Davíð langt kominn með matargerðina. Við vorum með hreindýr í matinn og smakkaðist það mjög vel.

Áramótaskaupið fannst mér mjög gott og hitta beint í mark. Strákarnir voru búnir að bíða eftir áramótunum allan daginn og spurðu stundum á fimm mínútna fresti hvað það væri langt eftir. Þeir feðgar skruppu yfir á 11 eftir skaupið og skutu árinu upp þaðan. Ég hélt mig heimavið, langaði ekkert út.

Upp úr hádegi á nýjársdag fékk ég þá hugmynd að gaman væri að skreppa austur á Hellu. Ég hringdi en enginn svaraði. Samt gafst ég ekki upp og hringdi aftur rétt fyrir þrjú. Þá var svarað og vel tekið í hugmyndina að við kæmum. Áður en við komumst af stað var hringt og spurt hvort við værum heima. Tókum á móti mæðgum (það kom sér reyndar vel því ég var í mikilli þörf fyrir smá kaffi) þær vissu að við værum að fara rétt strax enda ætluðu þær bara rétt að kíka. Við vorum komin austur rúmlega fimm. Hulda fagnaði frændum sínum vel.

Þennan fyrsta virka dag ársins 2005 byrja ég í fríi. Skólinn byrjar ekki fyrr en á morgun og Davíð var búinn að vera í fríi. Enda finnst mér fínt að slaka aðeins á. Strákarnir eru að hamast við að klára það sem þeir áttu að klára í jólafríinu og Kertasníkir gaf þeim sitthvort krossgátublaðið (Þrautakóng) og eru þeir líka að líta í það.