31.12.05

- Síðasti dagur ársins 2005 -

Skrýtið, mér finnst svo stutt síðan árið byrjaði. En þegar ég hugsa til alls þess sem er búið að gerast þá þarf maður ekkert að vera svo hissa. Í heildina hefur árið verið alveg ágætt. Held að ég geti ekki annað en verið sátt við flest af því sem ég hef tekið mér fyrir hendur eða hefur verið að gerast í kringum mig. Mér tókst að snúa við og breyta mataræðinu eina ferðina enn. Var orðin mjög nálægt þriggja stafa þyngdartölu þegar ég snarsteig á bremsuna og tók í handbremsuna að auki. Fyrir utan að taka út allan sykur, gerbrauð og mikið unna matvöru ákvað ég að taka út alla mjólkurvöru líka, líka lífrænu AB-mjólkina. Ekki nóg með það heldur fannst mér tími til kominn að hætta á hormónunum, hormónum sem ég hef verið að taka síðan um tvítugt. Skipti reyndar um tegund fyrir ca þremur árum síðan og sl. tvö ár hefur bjúgmyndun aukist (sem var nokkur fyrir) það mikið að ég var farin að fá svimaköst í tíma og ótíma. Ég tengdi reyndar bjúgmyndunina líka við mataræðið (þetta hjálpast allt saman að) en í sumar fékk ég alveg nóg og hætti þessu öllu. Þetta var bæði gott og slæmt. Slæmt vegna þess að ég ákvað þetta ein og sjálf án þess að ræða við kvensann minn, slæmt vegna svitakastanna og einnig grátkastanna sem stundum byrjuðu upp úr þurru og af engu sérstöku tilefni. En þrátt fyrir þetta leið mér betur en áður svo ég er viss um að ég tók rétta ákvörðun og stend með henni (þarf bara að ræða þetta aðeins við lækninn minn). Núna um jólin hef ég alveg passað mig á flestum sætindum, látið konfekt og kökur eiga sig en ég leyfði mér að fá mér möndlugraut og pínu ís. Þyngdin er komin niður fyrir 80 þrátt fyrir að ég hafi ekki verið neitt dugleg við að hreyfa mig sl. mánuði þannig að þetta er allt á réttri leið. Að lokum vona ég bara að skrif mín og hugleiðingar á árinu hafi engan meitt. Sjálfri finnst mér mjög gott að geta gluggað í skrifin stöku sinnum og skoðað aðeins hvað ég hef verið að bralla og hugsa. Vona að áramótin verði ykkur ánægjuleg og að komandi ár færi öllum gleði og góðæri á öllum sviðum!

23.12.05

Lesendum mínum nær og fjær sendi ég bestu óskir um:

Gleðilega jólahátíð og farsælt komandi ár. Ég þakka fyrir lesninguna á síðunni minni og allar góðar kveðjur undanfarin 3 ár. Farið vel með ykkur!
- Ein fyrir tvo -

Helga systir bað mig um að passa Bríeti og bauð strákunum með sér og Huldu á jólaball í Smáranum milli 5 og 7 í gær. Strákarnir voru að koma úr leiðangri með pabba sínum rétt fyrir hálffimm þegar Helga sótti þá og skildi litlu skrudduna eftir hjá okkur Davið. Bríet var pínu ósátt fyrst en bara rétt fyrst og hún veifaði alveg mömmu sinn bless. Tveir næstu tímar voru mjög fljótir að líða. Telpukornið er mikill dundari, svolítið stríðin en hún hlýddi alveg. Pabbi hennar var kominn heim úr vinnu um hálfsjö og þá skutlaðist ég með stelpuna yfir. Tvíburarnir voru með frænkum sínum til átta, held að það hafi gengið jafn vel fyrir sig og passið á Bríet.

22.12.05

- Brosandi allan hringinn -

Um það bil sem sumarfríinu mínu lauk í haust var ég komin vel á veg með að taka allt í gegn og koma hlutunum fyrir. Ég var þó ekki alveg búin en mjög bjartsýn á að það væri bara smá verk eftir. Alveg fram í miðjan nóvember hélt ég hlutunum bara í horfinu en þá fór aðeins að síga á verri hliðina aftur, bara pínu þó.

Fyrir nokkrum dögum bauð Esperanto-vinkona mín mér það að fyrra bragði að koma og hjálpa mér að þrífa fyrir jólin. Ég þurfti ekki einu sinni að hugsa mig um og í gær var komið að því. Ég sótti hana um fjögur og saman vorum við tæpa tvo tíma að "svífa eins og stormsveipir um íbúðina". Það á aðeins eftir að taka smá til í stráka-, tölvu- og hjónaherbergjunum. Ég knúsaði vinkonuna fyrir hjálpina.

Strákarnir voru heima hjá einum vini sínum. Davíð kom heim af fundi um fimm og tók að sér að sjá um kvöldmatinn. Upp úr klukkan átta dreif ég mig af stað á kóræfingu. Við vorum að æfa fyrir jólamessurnar og gekk okkur bara þokkalega. Það var góður andi yfir mannskapnum. Á eftir skrapp ég með jólakort til eldri konu. Ég var búin að hafa samband við hana áður en ég fór á æfinguna og hún sagði að það væri alveg í lagi þótt klukkan væri orðin meira en hálfellefu þegar ég kæmi.

Náði heim fyrir miðnætti. Við Davíð litum þá yfir jólagjafalistann og athuguðum hvort við værum búin með innkaupin og hver væri þá eftir. Það eru ekki margir, bara tveir svo þetta er allt að sleppa. Ég sofnaði heldur seint en skælbrosandi.

20.12.05

- Margt í gangi -

Það vantar eitthvað mikið þegar ég gef mér ekki tíma í skriftirnar. Hugurinn er allur á fleygiferð og því fleiri dagar sem líða á milli skrifta þeim mun vandasamara er að koma orðum að hlutunum án þess að skrifa of mikið.

Síðasta helgi fór öll í tónleika og smá laufabrauðsútskurð. Karlakór Reykjavíkur var með þrenna tónleika í Hallgrímskirkju og bauð strákunum að syngja með sér. Við fórum á seinni tónleikana á laugardagskvöldið, klukkan tíu, og skemmtum okkur mjög vel. Sumir strákarnir voru orðnir frekar þreyttir en það bitnaði samt ekki á sönggæðunum.

Mörg, mörg undanfarin ár höfum við mæðgur og frænkur hist á aðventunni og gert konfekt saman. Núna vorum við sammála um að þar sem fáar okkar mega í raun borða þetta góðgæti væri ekkert vit í að halda þessu áfram. En eitthvað urðum við að finna upp á til að hittast og ákváðum við að prófa að skera út tilbúin laufabrauð og steikja. Við mæðginin sóttum laufabrauðssérfræðinginn um eittleytið á sunnudag og hittum Helgu og stelpurnar hjá frænku okkar í Garðabæ. Flestir skáru alla vega eitt laufabrauð. Við vorum nú ekki með mikið magn en ég held að þetta hafi slegið í gegn. Það er nauðsynlegt að hittast og gera eitthvað saman á þessum tíma!!!

Annars gengur allt þokkalega. Nema ég er heldur sein að skrifa á jólakortin, það hlýtur samt að bjargast enda er á ég ekki mörg kort eftir. Rétt á eftir skutlast ég með Davíð Stein á æfingu vegna aðfangadagskvölds. Annað kvöld er síðasta kóræfingin á árinu hjá mér, þá verður æft fyrir 3 jólamessur. Er árið virkilega alveg að verða búið?

15.12.05

- Smá kæruleysi -

Ég bara verð að segja ykkur frá bók sem ég var að enda við að lesa: Annað líf eftir Auði Jónsdóttur. Hún fjallar um rúmlega fimmtugan austfirðing sem er fluttur til Reykjavíkur, mann sem alin var upp af ömmu sinni, hefur aldrei verið við kvenmann kenndur og er sjálfum sér nógur. Vinnufélagi hans er kvæntur thaílenskri konu sem hann hafði kynnst á ferðalagi í Bankok. Konan á vinkonu þar úti sem er illa stödd og hættir ekki fyrr en hún fær manninn sinn til að sannfæra austfirðinginn um að "taka við" vinkonu sinni. Meira vil ég ekki segja nema að sagan er leiftrandi af kímni og tilfinningaþrungin á köflum. Hún heldur manni við efnið og kemur sífellt á óvart frá fyrstu blaðsíðu. Ég mæli með þessari!

14.12.05

Sjá
stjarnan
á toppi trésins
vísar okkur veginn
ljós og kúlur tindra skært
og í hjörtum okkar finnum við friðinn
sem er
bestur

13.12.05
Smá sýnishorn af myndatöku gærdagsins. Sem betur fer tók ég nokkuð margar myndir því þótt þessar séu skemmtilegar finnst okkur ekki hægt að fjöldaframleiða þær og senda með jólakortunum í ár! He, he...

12.12.05

-Stolin stund -

Þegar ég kom heim um fjögur í dag tók ég strax eftir því hversu snyrtilegt var frammi á gangi. Davíð Steinn hafði tekið sig til og raða upp öllu skótauinu. Þessa dagana er hjálpsemi hluti af heimanáminu og strákarnir hafa báðir verið hjálpsamir af fyrra bragði. Reyndar hafa þeir líka verið að prakkarast óvenju mikið undanfarið en þó ekki sl 2-3 daga... (segi hugsanlega frá prakkarastrikum þeirra seinna, en bara kannski....)

Oddur Smári náði gráðunni með sóma og getur nú borið beltið þótt hann sé bara hálfnaður með áfangann. Eftir að við Davíð Steinn komum heim af kóræfingu og fundi í kvöld, og við vorum búin að fá okkur að borða, bað ég strákana um að klæða sig upp fyrir mig (í kór- og karatebúning). Síðan myndaði ég þá í bak og fyrir, saman og sér og er að vona að ég geti notað eitthvað af þeim myndum í jólakortin í ár.

Síðast liðin helgi var hálf furðuleg á köflum. Davíð skutlaði nafna sínum á klukkutíma æfingu í Salnum upp úr hádegi á laugardag og beið eftir honum á meðan. Seinni partinn fórum við svo öll saman á sjá Harrý Potter.

Oddur Smári bauð bróður sínum með sér í Þórshamar milli eitt og þrjú í gær. Þar var boðið upp á videógláp, pizzu og gos. Klukkan fjögur var Davíð Steinn aftur mættur í Salinn til að syngja með Drengjakórnum og félögum úr Karlakór Reykjavíkur.

Sjálf mætti ég svo í "kirkjuna mína" klukkan hálfátta í gærkvöld til að hita upp fyrir aðventukvöld. Mjög svo notaleg stund og kirkjan næstum full.

Framundan er smá annríki en frekar skemmtilegt stúss.

9.12.05

- Sex dögum síðar -
...næstum því vika...

Jólatónleikarnir tókust bara nokkuð vel. Hálsinn minn var eitthvað að kvarta rétt fyrir síðustu helgi en ég meðhöndlaði hann sérstaklega vel dagana fyrir tónleika og tókst að hafa stjórn á raddböndunum. Tvíburarnir og tvö önnur börn voru fengin til að færa einsöngvurum, undirleikara og kórstjóra blómvendi eftir að dagskráin var tæmd og svo var gestum boðið upp á kaffi og smákökur í safnaðarheimilinu.

Á mánudagskvöldið var ég að vinna í því sem ég er dugleg að biðja aðra um að gera fyrir sig: Að fara vel með mig! Slakaði vel á.

Það var bingó á vegum foreldrafélags Odds bekkjar milli sex og átta á þriðjudagskvöldið. Systkyni voru boðin velkomin með. Tekist hafði að útvega hinu glæsilegustu vinninga, bækur, spil, kerti og fleira. Davíð var bingóstjóri og voru spilaðar nokkrar umferðir. Um sjö var gert smá hlé til að næra sig og svo haldið áfram. Ég varð að fara með Davíð Stein nauðuguna rétt fyrir lokaumferðina en hann átti að vera mættur á aukaæfingu í Ýmishúsinu á slaginu átta. Á leiðinni þangað yfir tókst mér að finna góða skapið hans.

"Minn kór" æfði fyrir fjórar messur á miðvikudagskvöldið og tókst bara vel upp. Við í altinum fengum liðsstyrk, eina þaulvana konu en stúlkurnar tvær sem sungu með okkur á jólatónleikunum eru hættar amk í bili.

En ég er hrædd um að nú verði ég að fara að bretta upp ermar og skrifa á öll jólakortin sem ég er búin að búa til. Sum þeirra eiga að skila sér með smá bréfkornum til Englands, Danmerkur og Noregs og það er stuttur tími eftir.

Oddur Smári er svo að fara í gráðun í dag og verður kominn með 1/2 appelsínugult belti í kvöld.

Farið vel með ykkur!

3.12.05

- Smá bakstur -

Það háttaði þannig til að ég var komin heim fyrir tvö í gær. Strákarnir voru nýkomnir og hafði Davíð Steinn boðið með sér tveimur bekkjarfélögum, beint úr skólanum þrátt fyrir að heimilsreglurnar séu þær að þeir bræður eigi að læra og fá sér hressingu áður en þeir bjóði vinum með sér inn (og þá bara einn vinur á hvorn). Það er líklega "erfiðast" að fara eftir þessu á föstudögum þar sem ekkert er að læra og "langt" í hressingartímann.

Davíð Steinn vissi að við ætluðum að baka og spurði hvort bekkjarfélagar hans mættu vera með í því. Það varð úr að ég blandaði í uppskriftirnar og strákarnir fjórir skiptu þeim niður á plötur og diska. Þeir voru svo duglegir að ég hafði ekki undan (og fékk ég þó smá forskot). Hrærði í tvær smákökusortir, engiferkökur og súkkulaðismákökur og eina konfektuppskrift sem ég setti reyndar beint inn í ísskáp í bili og kom ekki meira við sögu fyrr en miklu seinna. Þetta tók rúma tvo tíma og svo bauð ég öllum strákunum upp á mjólk, hrökkbrauðssneið með osti og nýbakaðar smákökur í hressingu.

Um hálfsex sendi ég vinina heim. Eftir kvöldhressingu (um sjö) tók ég konfektdegið út úr ísskápnum og við strákarnir skiptum því niður og hnoðuðum í smákúlur upp úr kókósmjöli. Ég var ánægð með sjálfa mig eftir þessa törn, kom þessu af stað og lauk við það án þess að freistast í að smakka sjálf. Nú á ég bara eftir að baka eggjahvítukökur og svo set ég punktinn yfir baksturinn að þessu sinni.

Um átta kvaddi ég strákana þar sem annar þeirra var að ryksuga holið og eldhúsið en hinn að fara út með ruslið. Davíð var á leiðinni heim en ég varð að koma við á einum stað áður en ég mætti á kóræfingu svo ég hitti manninn minn ekki fyrr en um tíu.

2.12.05

- Hátíðleg kvöldstund -

Þrátt fyrir að kórstjórinn kæmist ekki og nokkra vantaði í kórinn sungum við á jólafundi Félags nýrnasúkra í Áskirkju í gærkvöldi. Við fengum Signý Sæmundsdóttur til að stjórna okkur og Þóra Fríða Sæmundsdóttir lék undir í tveimur af lögunum. Á undan okkur var séra Bragi Skúlason með smá hugvekju og rithöfundurinn Pétur Gunnarsson las fyrir okkur stutta en smellna jólasögu. Eftir að kórinn var búinn að troða upp sungu þrjár af nemendum Signýjar nokkur jólalög án undirleiks. Signý söng svo "Helga nótt" við undirleik Þóru Fríðu og svo sungu allir Heims um ból saman. Á eftir var gestum boðið upp á alls kyns kræsingar með kaffinu. Ég fékk mér 3 mandarínur og nokkur vínber en lét mér svo nægja að dást að hlaðborðinu. (Ein svaka stabíl, enda hefur það skilað sér, held að ég sé búin að léttast um rúmlega 15 kíló síðan í haust...)

1.12.05

- Nýr mánuður -

Ég er að æfast í að anda djúpt, slaka á og njóta augnabliksins. Til hvers líka að vera að stressa sig yfir hlutunum? Góð spurning! Önnur betri er samt sú: Hvers vegna leiðist maður oft ósjálfrátt út í hringiðuna?

Ég ætlaði mér líklega of mikið í gær. Komst yfir alveg helling en varð að fresta smákökubakstri með strákunum. Ég var miklu leiðari yfir því heldur en þeir. -"Við bökum bara á morgun eða hinn, mamma!" sögðu þeir. Við hjálpuðumst öll að við að hengja upp jóladagatalið. Að venju settum við "álpappírsslaufur" í alla 48 hringina en eftir að strákarnir voru sofnaðir "uppfærðum" við Davíð efstu röðina.

Guðrún Vala náði loksins sambandi við mig í gær og kom við og sótti kertin sín. Það er gaman að hitta bloggvini svona augliti til auglitis. Þótt um örstutt andartak væri að ræða þá var það nóg til að sannfæra mig um að hugmyndir mínar um hana voru réttar. Hún virkaði amk mjög vel á mig, kraftmikil og dugleg.

Esperanto-vinkona mín hringdi í gærkvöldi og sagði að okkur væri boðið að taka þátt í einhvers konar jólafundi hjá Esperantofélaginu n.k. föstudag. Því miður kemst ég ekki í þetta sinn. Það féll niður kóræfing í gærkvöldi og það verður æfing á föstudagskvöldið í staðinn. Enda stutt í tónleikana. Kannski kemst ég að ári og þá verð ég örugglega farin að babla eitthvað á þessu tilbúna tungumáli...

29.11.05

- Vika liðin -
eða hér um bil

Sl. föstudag leysti ég Davíð af um hádegi. Oddur Smári var með magapest og ég var svona með það á bak við eyrað að koma heimilinu í þokkalegt horf svo það væri ekki allt eftir um helgina. Reyndin varð sú að ég lagðist með tærnar upp í loft og las góða bók: "Nóttin hefur þúsund augu" eftir Árna Þórarinsson. Þetta var hin besta skemmtun og mæli ég eindregið með þessari bók!

Sama kvöld hringdi æskuvinkona mín í mig til að kanna hvort ég yrði vant við látin á laugardeginum. Ég hélt nú ekki. Ég hagræddi bara dagskránni hjá mér og var svo að "skottast" með henni fram eftir degi, eða til fjögur. Eftir það dreif ég mig í Esperanto-stund.

Á sunnudaginn urðum við Davíð að skipta okkur. Oddur Smári tók þátt í karatekeppni í Smáranum en Davíð Steinn söng með Drengjakórnum, undirbúningsdeildinni, unglingakórnum, skólakór Austurbæjarskóla og Módettukórnum í aðventumessu í Hallgrímskirkju. Davíð sá um karatemálin en ég var "að kirkjast" allan daginn því ég söng með kirkjukórnum mínum eftir hádegi. Þetta var mjög notalegur dagur og helgin alveg frábær!!!

23.11.05

- Hálfnuð -

Var með lifur í kvöldmatinn í gær og notaði aðra uppskrift heldur en síðast. Davíð er ekkert sérlega hrifin af svona mat en hann fékk sér samt tvisvar á diskinn svo þetta hlýtur að hafa heppnast vel.

Um kvöldið skrapp ég til þeirrar vinkonu minnar sem á allt af öllu til kortagerðar. Var þar fyrir viku líka. Að þessu sinni gerði ég einungis þrjú kort en ég var líka að prófa mig áfram með nýtt útlit. Kvöldið leið alltof fljótt en mér tókst að líta upp úr kortagerðinni um ellefu.

Fljótlega eftir að ég kom heim hlustaði ég á heimalestur tvíburanna. Þeir áttu svo að ganga frá skóladótinu en einhverra hluta vegna varð lestrarbók Odds Smára eftir á borðinu. Þegar ég bað hann um að ganga frá henni sagði hann orðrétt: -"Hvað er þetta kona, afhverju gleymdir þú að rétta mér þetta áðan?" Rétt fyrir fimm þurftum við svo að rjúka af stað. Annar var á leið á kóræfingu en hinn á knattspyrnuæfingu. Í bakaleiðinni kom ég við í fiskbúð.

Ég settist aðeins niður til að líta yfir bókhaldstölur og reikninga. Þetta er ákveðið verkefni sem ég tók að mér fyrir stuttu og það er best að vinna þetta jafnóðum og fylgjast vel með svo ekki safnist upp. Er eiginlega alger græningi í þessum málum en þetta lærist fljótt (hef svo sem ágætis reynslu þar sem heimilisbókhaldið er yfirleitt á mínum snærum). En nú er mér ekki lengur til setunnar boðið, það er margt sem bíður afgreiðslu hér heima (bókhaldsmálin eru þó frá í bili!)

22.11.05

-Smá stund hér -
...og smá stund þar...

Ef maður skrásetur ekki reglulega tínist sumt niður. Ég er samt ekki að "tala" um að það þurfi að skrá allt niður, en stundum er svo mikið að gera og margt af því langar mann til að segja frá eða bara eiga til að ylja sér við minningarnar seinna.

Á laugardagsmorguninn skruppum við strákarnir á Kjarvalsstaði til að hitta foreldra og bekkjarsystkyni annars tvíburans. Við mættum fjórar, allar með tvö börn, svo allt í allt vorum við 12. Eldri börnin byrjuðu á því að fara í skemmtilegan ratleik um safnið og svo var sest niður á kaffiteríuna. Þar gátu krakkarnir teiknað eða lesið ef þau vildu. Morguninn leið hratt og komið var fram yfir hádegi þegar hópurinn leystist upp. Áður var samt ákveðið að hittast þarna reglulega því staðurinn býður upp á svo margt.

Tvíburunum var boðið í afmæli til fyrrum bekkjarbróður síns úr Ísaksskóla eftir hádegi á sunnudag. Afmælið byrjaði um tvö og átti að vera til c.a. sex eða svo. Hluta af tímanum notuðum við Davíð til að versla inn og "rákumst í leiðinni á" nokkrar jólagjafir. Davíð hefur aldrei keypt jólagjafir svona snemma enda komst hann í jólaskap, rúmum mánuði fyrir jól, he, he.

Annars er allt í þokkalega góðum gír.

21.11.05


Fræðatröll

Þú ert vanafastur, tilfinningaríkur innipúki.
Fræðatröllið er forvitið að eðlisfari og er köllun þess í lífinu að komast að sannleikanum. Fræðatröll má gjarnan finna í dimmum skúmaskotum bókasafna þar sem þau rykfalla og sussa á aðra gesti safnsins. Fræðatröllið klæðist gjarnan flaueli - nema þegar það er í tísku. Hringitónninn í síma þess er stefið úr þættinum Nýjasta tækni og vísindi, sem það grætur stöðugt að sé ekki lengur á dagskrá.

Hvaða tröll ert þú?

20.11.05

Ljúfur morgunn líst mér á
langar til að kúra.
Samt ég ætla kaffi' að fá
og drífa mig að skúra.

Margar bækur bíða eftir
betri athygli að fá.
Stuttur tíminn heftir, heftir
honum ekki má lá.

Í mér einhver blundar þrá
ég verð að kryfja málið.
Öðruvísi mér áður brá
úúú, stórt er orðið bálið.

19.11.05

- Í vikulokin -

Þið eruð örugglega að gefast upp á mér þið sem hafið verið svo dugleg að heimsækja síðuna mína. Ég þori ekki að lofa neinu nema því að ég er svo sannarlega ekki hætt á þessum vettvangi.

Það var frábært á óperunni og skemmtum við mæðginin okkur vel. Við sátum efst uppi á svölum en sáum samt þokkalega. Óperan var flutt á ensku og fannst strákunum sniðugt að sjá að efst í loftinu var tjald þar sem lesa mátti íslenska þýðingu á því sem fram fór. Annar strákurinn sat grafkyrr á meðan verkið var flutt, hinn þurfti aðeins að spyrja og spá. Báðir fylgdust þeir samt vel með því sem fram fór á sviðinu. Eftir á voru þeir spurðir af einum óperugesta hvernig þeim hafði fundist óperan. Oddur Smári velti strax fram þeirri spurningu hversvegna drengurinn hefði dáið þegar hann hafði sagt til aðaldraugsins? Davíð Steini gafst kostur á því að hitta Ísak og hina óperusöngvarana eftir sýningu en hann var of feiminn til að þekkjast boðið.

Á sunnudagDavíð um að fara með strákunum í keilu sem var á vegum foreldrafélgas Þórshamars. Ég var að syngja með kórnum mínum við messu þar sem látinna var minnst og þar að auki einn drengur skírður. Kirkjan var alveg full og stundin mjög notaleg þrátt fyrir mistök í einu laginu (Tears in heaven sem var flutt í styttri íslenskri útgáfu).

Skutlaði Davíð Steini á kóræfingu seinni partinn á mánudag og fór sjálf á fund í foreldrafélaginu á meðan. Er við komum heim aftur hjálpuðumst við strákarnir að við að gera brauðtertu (sem við tókum með okkur á bekkjarskemmtun seinna í vikunni). Um kvöldið kom norska vinkona mín yfir til mín í Esperanto-stund. Davíð var að keppa í pílu með strákunum úr vinnunni sinni en við Inger héldum okkar striki hérna meginn. Bráðum getum við farið að tjá okkur betur á þessu skemmtilega tungumáli. (Esperanto estas lingvo).

Þriðjudagskvöldin eru yfirleitt föndurkvöld og að þessu sinni skrapp ég til annarar föndurvinkonu minnar sem er nýbúin að fá mest af sínu föndurdóti sent frá London þar sem hún bjó í nokkur ár. Hún á ýmislegt til og svo mikið. Spennandi! Hún bauð mér að nota það sem ég vildi og áður en ég vissi af var ég komin á kaf í jólakortagerð. Bjó til amk 8 jólakort og er ég sérstaklega ánægð með tvö þeirra; upphleypt tvö kerti og greinar á hvítu korti. Ég litaði kertin og greinarnar með einhvers konar krít.

Ég sótti Huldu frænku á leikskólann strax klukkan fjögur á miðvikudag og tók hana með mér, fyrst heim og svo á skólaleikrit 4HP. Davíð Steinn og bekkjarfélagar hans voru að sýna söngleikinn Mjallhvít og dvergarnir 12. Hann lék skógarálf og veiðimann vondu drottningarinnar. Þetta var hinn besta skemmtun og stóðu krakkarnir sig alveg frábærlega vel. Leiksýningin tók um klukkustund og svo var boðið upp á kaffi og alls konar góðgæti. Ég stoppaði stutt við heima eftir bekkjarkvöldið því það var kóræfing og við erum komin á fullt með jólatónleikaprógrammið sem verður að mestu leyti nokkrar Ave Maríur (bæði kór og einsöngur) og jólalög.

Á fimmtudagskvöldið bjuggum við strákarnir til aðra brauðtertu sem við tókum með okkur á bekkjarskemmtun 4BH í gærkvöldi. Odds bekkur sýndi líka söngleikinn Mjallhvít og dvergarnir 12. Hann lék dverginn Kát og prinsinn. Þetta var líka alveg frábær skemmtun og gaman að fá tækifæri til að sjá svona tvær útgáfur af sama leikritinu.

Þetta var það helsta og framundan er alveg nóg. Ætla samt að reyna að skrásetja reglulega það er mun betra heldur en að vera með langa, langa romsu!

12.11.05

- Aftur komin helgi -

Jæja, á ég nokkuð að vera að tjá mig um æðubunuganginn í tímanum, heldur bara reyna að njóta augnabliksins út í æsar. Og segja svona frá því helsta!?!?!

Á miðvikudaginn tók ég að mér smá frænkuvakt eftir að hafa skutlað Davíð Steini á kóræfingu. Strax eftir passið skutlaðist ég með Odd Smára á fótboltaæfingu og fór svo beint upp í kirkju til að aðstoða við auka kertapökkun (það selst greinilega vel). Davíð sótti Odd af æfingu og sá um matinn. Þeir feðgar þurftu að koma við í verslun á heimleiðinni þannig að við Davíð Steinn urðum aðeins á undan heim. Rúmum klukkutíma eftir að ég kom heim var ég farin aftur á kóræfingu. Það gekk vel. Verið var að æfa fyrir jólatónleika og næstu messu sem er víst á morgun.

Það sem er framundan er m.a. ferð í Óperuna í kvöld. Er búin að bjóða strákunum með mér á síðustu sýningu á: "Tökin hert".

Oddur Smári er svo búinn að bjóða bróður sínum með sér í keilu (sem er á vegum karatefélagsins) á morgun og hver veit nema við getum svo skroppið á handboltaleik seinni partinn sama dag...?!?!

9.11.05

- Jólakortagerð -
-yndislegt kvöld-

Ég var mætt til "tvíburahálfsystur" minnar upp úr klukkan hálfníu í gærkvöldi. Hafði sagt við Davíð, er ég fór að heiman, að ég ætlaði mér að vera komin heim um ellefuleytið. Í upphafi kortakvöldsins var ég ekki viss um að hugmyndaflugið væri með í för en ég hrökk fljótlega í gang. Við "tvíburahálfsysturnar" spjölluðum mikið allt kvöldið og tvisvar var ég búin að búa til hin glæsilegustu kort sem reyndust svo snúa öfugt. Það var auðvelt að bjarga því og við hlóum bara að þessu. Ég leit á klukkuna upp úr tíu og sá að ég hefði alveg nógan tíma í að halda smá stund áfram. Næst þegar ég leit á klukkuna var hún að verða hálftólf en þá var ég líka búin að búa til 12 kort og nú vantar mig bara rétt rúmlega 20 kort.

8.11.05

- Skottið farið -

Oddur Smári fór í klippingu í gær og lét m.a. klippa af sér skottið. Hann bað samt um að fá að eiga það til minningar.

Eftir kvöldmat skruppum við mæðginin í stutta kertasöluherferð og gekk bara þokkalega miðað við að við vorum aðeins tæpan klukkutíma og að Rauði Krossinn var nýbúinn að vera á ferðinni.

Þegar strákarnir voru farnir í rúmið og Davíð var sestur við tölvuna skrapp ég yfir til norsku vinkonu minnar í esperantotíma. Tók jólakortin sem ég er búin að gera með mér til að sýna henni. Mér telst til að ég sé búin að búa til 30 kort, rétt tæplega hálfnuð...

7.11.05

- Skemmtileg helgi að baki -

Örfréttir. Notaði laugardagsmorguninn nokkuð vel í ýmsan undirbúning. Komst samt ekki yfir allt. Ingvi skutlaði Huldu til okkar um leið og hún var búinn í ballettíma og þá brunuðum við af stað. Stoppuðum á einum stað á Selfossi til að skila af okkur kertapakka og "hvíla okkur".

Komum á Hellu seinni partinn og vorum ekki búin að vera lengi þegar við Davíð Steinn, ég og Hulda fórum í kertasöluleiðangur. Rak inn nefið til föðurbróður míns örstutta stund í leiðinni, ætlaði að gefa mér betri tíma daginn eftir. Það fór þó á allt annan veg. Komst samt í óvenju margar heimsóknir þessa helgi miðað við þann stutta tíma sem ég hafði.

Krakkarnir voru mjög góð saman og bar varla skugga á leikina allan tímann. Ég skrapp með þau í sund eftir hádegi á sunnudag. Helmingurinn af þeim tíma sem við vorum "í sundi" fór í hárgreiðslu og flókalosun hjá Huldu. Hún stóð sig mjög vel miðað við hvað hún er hársár og náði að greiða heilmikið sjálf. Slökuðum vel á hjá pabba og mömmu (afa og ömmu) eftir sundið.

Klukkan var fimm þegar ég skilaði Huldu heim til sín eftir skemmtilega og viðburðarríka helgi. Rétt eftir kvöldmat fórum við mæðginin í kertasöluherferð í götunni okkar. Höfðum c.a. einn og hálfan tíma og seldum nokkuð vel, bæði af kaffi og kertum.

4.11.05

- Föstudagskvöld -

Við Davíð Steinn erum nýkomin inn úr smá kertasölu-leiðangri. Salan gekk bara nokkuð vel en það er ljóst að vinsælusti liturinn er hvítur í ár. Við seldum samt nokkra pakka af jólarauðum, vínrauðum og fílabeinshvítum líka, og við erum bara rétt að byrja.

Fyrr í kvöld fór ég með Oddi Smára á karateæfingu, horfði á allan tímann og skemmti mér vel. Þetta þyrfti ég að gera reglulega en ég sé samt ekki að ég komist aftur alveg á næstunni. Ég mun þó örugglega fylgjast með þegar hann tekur næstu gráðu (1/2 appelsínugult belti) eftir c.a. mánuð eða svo.

Í gærkvöldi fórum við Davíð bæði á foreldrafund. Það var nokkuð vel mætt á fundinn og greinilega mikill kraftur og samstaða í hópnum. Eftir að ég kom heim settist ég niður með saumana mína (er langt komin með að sauma þriðja jólakortið, mynd af jólasveini með brúnan poka á bakinu og grenigrein í fanginu). Þetta var mjög afslappandi og notalegt en ég fór heldur seinna að sofa en ég ætlaði mér.

Á miðvikudaginn aðstoðaði ég við að pakka kaffi sem sumir strákarnir ætla að bjóða til sölu með eða í staðinn fyrir kerti. Við vorum að pakka alveg þangað til kóræfingin var búin. Það var svo kóræfing hjá mér seinna um kvöldið. Við æfðum m.a. jólalög fyrir tónleikana og eitt mjög fallegt lag sem syngja á í næstu messu (annan sunnudag).

Framundan er annasamur en mjög skemmtilegur tími sem ég hlakka til að takast á við. Góða helgi og farið vel með ykkur!

2.11.05

- Það er kominn nóvember -

Helga systir er árinu eldri í dag. Til hamingju með daginn! Dagarnir láta ekki bíða eftir sér frekar en fyrri daginn og ég er með hálfgerð fráhvarfseinkenni, ég kemst svo sjaldan í að skrásetja og kíkja á bloggvini mína og ættingja. En það koma dagar, ég er viss um það.

Alltaf nóg að gera á öllum vígstöðvum og ég gæti alveg þegið fleiri klukkustundir í sólarhringinn eða jafnvel fleiri daga í vikuna, mánuðinn, árið.... En kannski er rétt að kvarta ekki of mikið yfir annríkinu því ég veit um fleiri sem hafa enn meira að gera heldur en ég og kvarta ekki.

Á laugardagskvöldið var kíkti bróðursonur hans pabba í heimsókn. Konan hans var í konuteiti (hann notaði reyndar annað orð, he he) og mér fannst það vel til fundið hjá honum að kíkja til okkar á meðan.

30.10.05

- Á ættarmóti -

Langafi og langamma, Friðrik Guðmundsson (f. 01.11.1875- d. 29.03.1960) og Guðbjörg Guðmundsdóttir (f. 15.04.1880 - d. 03.07.1960) bjuggu á Flateyri við Önundarfjörð. Þau eignuðust 13 börn og var móðurafi minn, Friðgeir Marías Magnús (f. 28.04.1919 - d. 26.04.1974) næstyngstur af þeim. Seinni partinn í júlí sl. lést sú eina sem eftir var af systkynunum Salóme Una (f. 04.08.1910). Hún var jarðsungin á fæðingardegi sínum og við það tækifæri ákváðu nokkrir úr næstu kynslóð að reyna að hóa saman eins mörgum af niðjum Friðriks og Guðbjargar og hægt væri. Dagsetning var fundin og haft samband við alla ættingjana.

Í gær rann stóri dagurinn upp. Það komust ekki allir og sumir gátu bara staðið stutt við en þetta er byrjunin. Ættartengslin skipta máli (sumar greinar eru stórar og aðrar mjög smáar en það skipta allar jafn miklu máli) og það á svo sannarlega ekki að láta staðar numið við þetta mót heldur reyna að gera enn betur næst, sem verður sennilega einhvern tímann á næsta ári.

29.10.05

- Af afmælisdeginum mikla -

Fyrsta verk okkar hjóna var að rölta yfir í skólann og hitta báða kennara tvíburanna, einn í einu þó. Það var sama sagan báðum megin, þær voru báðar mjög ánægðar með strákana. Ég er ánægð með það. Vissi svo sem alveg að Oddur Smári er að "fíla" þennan skóla vel, hef haft meiri áhyggjur af Davíð Steini, hann var svolítið vængbrotinn fyrst í stað. En það að vera settir í hvorn sinn bekkinn er sennilega það besta sem hægt var að gera fyrir þá.

Áður en Davíð fór í vinnuna fengum við okkur kaffi saman. Davíð Steinn var búinn að föndra handa honum afmælisgjafir (var að dunda við það í síðustu viku) og fela þær þannig að pabbinn varð að fylgja vísbendingum. Frá stráknum fékk hann fugl til að hengja í loftið og myndir. Afmælisgjöfina frá Oddi fékk hann svo seinni partinn, því stráksi bauð honum að koma og fylgjast með sér í karatetíma, lofaði að standa sig extra vel.

Eftir að Davíð var farinn dreif ég í að sinna ýmsum málum hér heima. Strákarnir hjálpuðu mér með sumt. Um tvöleytið fórum við í verslunarleiðangur og keyptum í afmælismatinn.

Við vorum búin að bjóða Tomma og og hinu afmælisbarni dagsins í mat. Þau komu rétt fyrir sjö. Ég hafði fengið leyfi hjá tvíbururnum að nota afganginn af aflanum (síðan í ágústlok) í forrétt og bauð upp á steikta bleikju með steiktum sætum kartöflum og rauðlauk. Í aðalrétt var nautasteik með kartöflum, kúlukáli, sallati og pipasósu og í eftirrétt var ég með e-s konar cappucino ís og vatnsmelónu.

Tvíburarnir fóru í háttinn um tíu en við hin spiluðum teiknispilið til miðnættis, náðum tveimur umferðum og hlóum oft mikið að teiknitilburðum og ágiskunum. Takk fyrir frábært kvöld Tommi og Hugborg.
bjart ljósið
allt í kring
gefur mér kraft
til að brosa
og knúsa allan heiminn

27.10.05

- Annríki framundan -
en það er nú ekkert nýtt

Ég hef bara ekki haft tíma til að setjast niður og láta hugann og fingurnar reika um lyklaborðið. Þessa stundina er ég á frænkuvaktinni. Stelpurnar eru sofnaðar og þá er um að gera að nýta sér það...

...eða ekki. Mágur minn kom heim rétt seinna svo ég fór fljótlega heim.

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan síðast:

- Á sunnudagsmorguninn var, söng drengjakórinn við fjölskyldumessu og tókst vel til. Davíð Steinn varð mjög glaður þegar Oddur Smári ákvað að fara frekar í messu heldur en á fótboltaæfingu.

- Á mánudaginn var ég mætt upp á Skólavörðuholt um hálfþrjú til að "feta" niður Skólavörðustíginn. Það var mikil stemming að vera þarna og mjög gaman að taka þátt í þessu. Ég komst samt ekki alla leið niður á Ingólfstorg, treysti mér ekki alveg í þá súpu, enda heyrði ég dagskrána mjög vel á Rás tvö. Ég var það uppgefin um kvöldið að ég afboðaði mig í Esperantotíma.

- Hitti tvær vinkonur mínar á þriðjudagskvöldið og tíminn leið þrisvar sinnum hraðar en venjulega, nógu hratt líður hann samt dags daglega!

- Á kóræfingu í gærkvöldi bættist liðstyrkur í sópran og alt raddirnar og undirbúningur undir jólatónleikana er kominn á fullt.

Þetta er svona það helsta. Það er foreldradagur í skólanum á morgun og hann Davíð minn Oddsson nær mér í aldri (loksins 37)(sáuð þið hann hjá Audda, Sveppa og Pétri í kvöld?). Hluti af afmælisgjöfinni frá mér til hans felst í frídegi sem ég tek mér. Hann veit ekki af því enn og tilkynnti mér í gær að það er smá vinnutörn hjá honum fram að mánaðamótum. Hmmm, það er búin að vera törn hjá honum sl. alveg frá síðustu mánaðamótum... sjáum bara til hvernig þetta púslast! :)

Farið vel með ykkur um helgina, sem og alla aðra daga!

22.10.05

- Kerti, kerti, (kerti), kerti, kerti, kerti -

Það er að bresta á hin árlega kertasala Drengjakórs Reykjavíkur. Um tíu í morgun vorum við (ég og tvíburarnir) mætt í kjallarann í Hallgrímskirkju ásamt fullt af fleirum drengjum og fullorðnum til að pakka kertum. Stemmingin var frábært og allir fengu verkefni við sitt hæfi. Allt var komið ofan í poka um hálfeitt en þá átti eftir að loka fyrir amk helminginn. Hver drengur er skyldugur að selja 50 pakka af kertum. Fimm söluhæstu drengirnir fara í óvissuferð og sá söluhæsti fær eignabikar. Kertin, Heimaeyjarkerti, eru búin til á vernduðum vinnustað í Eyjum og fást í sex litum, jólarauð, vínrauð, hvít, fílabeinshvít, blá og græn. Hver pakkning inniheldur 10 stykki kerti og selst á 600 kr. (sama verð og í fyrra). Við erum ekki alveg byrjuð á söluherferðinni en samt búin að selja 5 pakka, þannig að þetta fer vel af stað. Endilega látið mig vita ef ykkur vantar kerti!

19.10.05

- Að gleyma tímanum -

Ég sagði við manninn minn, rétt áður en ég skrapp út upp úr átta í gærkvöldi, að ég yrði komin heim í síðasta lagi hálftólf. Það fór á annan veg. Byrjaði á því að skreppa með smávegis til einnar vinkonu minnar og skoða hjá henni bók í leiðinni. Það var draugalegt út í þokunni. Ég stoppaði stutt á fyrri staðnum og var komin á næsta stað á slaginu níu. Næst þegar ég leit á klukkuna vantaði hana fimmtán mínútur í tólf... Davíð var ósköp rólegur heima og ég sé ekki eftir þessum tíma, síður en svo!

18.10.05

- Eitt og annað -

Í nokkurn tíma var eldhúsvaskurinn smám saman á stíflast. Við vorum búin að reyna ýmislegt til að laga málin en öll ráðin dugðu bara í smá tíma. Um síðustu helgi varð okkur ljóst að við yrðum að gefast upp og panta sérfræðing á staðinn. Það var ekki einu sinni orðið hægt að vaska upp. Hvorki í uppþvottavélinni né beint úr vaskinum og það sem verra var, vatnið úr vaskinum braut sér leið í gegnum uppþvottavélina og þaðan út á gólf, svo við lentum í óvæntum skúringum líka. En það kom maður í gær og kippti þessu í liðinn.

Þegar ég kom heim á fimmta tímanum í gær hitti ég Odd Smára fyrir utan og nafana báða inni. Bræðurnir fengust til að ljúka heimalestrinum af og svo var kominn tími til að skutlast með Davíð Stein á kóræfingu. Hann var ekki mjög viljugur af stað enda var sameiginlegur vinur þeirra Odds kominn í heimsókn. En það þurfti samt ekki að tala drenginn lengi til. Ég sagði honum líka að ég ætlaði að koma og hlusta á hann og hina drengina síðusta hálftímann.

En fyrst rak ég nokkur erindi. Skilaði bókum á safnið og fékk mér hálfa körfu í viðbót við eina sem ég framlengdi. Einnig fékk ég aðgangsorð á netið til að geta framlengt sjálf eða pantað bækur sem liggja kannski ekki oft á lausu. Nauðsynlegt! Eftir að hafa lokið nokkrum erindum í viðbót dreif ég mig á drengjakórsæfinguna og náði að hlusta á alveg síðasta hálftímann af æfingunni. Það var bara frábært.

Í gærkvöldi dreif ég mig svo aftur yfir til vinkonu minnar í Norðurmýrinni. Kio estas Esperanto? Okkur gekk þokkalega, þannig séð. Mér skilst svo að hún hafi ætlað að hitta einhvern hjá Esperanto-félaginu í dag.... Spennandi!

Annars ætti ég líklega líka að dusta rykið af frönsku-kunnáttu minni. Je parle un peu France.... eða eitthvað í þá áttina.

17.10.05

- Aðeins af bókum -
og svo var ég klukkuð aftur

Það hefur ekki verið mikill tími til að lesa undanfarið, en þó... Mig langar til að mæla með einni sem ég hef nýlokið við: "Vængjuð spor." söguleg skáldsaga skráð af Oddný Sen um eina formóður hennar. Mér finnst hún setja efnið mjög skemmtilega fram. Lætur nútímakonu,sem er að glíma við eigin drauga í lífi sínu, grafa upp söguna af Sigríði Jóhannesdóttur Hansen sem var uppi snemma á 18. öldinni. Ég varð amk hugfangin af sögunum og átti oft bágt með að leggja frá mér bókina.

Davíð Steinn klukkaði mig:
 1. Ég er uppalin í sveit til 12 ára.
 2. Ég gekk allan minn grunnskóla í sama skóla: Grunnskólann á Hellu.
 3. Ég byrjaði með manninum mínum eftir Þjóðhátíð í Eyjum 1989.
 4. Við hófum búskap ári seinna.
 5. Davíð bað mín svo í janúarlok 1996 eftir að við vorum orðin ófrísk...

...er þetta ekki bara ágætt?

14.10.05

- Hratt flýgur stund -

Hvað skyldi ég oft vera búin að tala um æðibunuganginn á tímanum? Tíminn lætur það samt ekkert stöðva sig! Klukkan núna er rúmur tveir og hálfur tími í helgi og bráðum er mánuðurinn hálfnaður. Dagarnir líða svo hratt að stundum stend ég mig að því að skrifa dagsetningar aftur í tímann. Er september örugglega búinn?

Í fyrrakvöld byrjuðum við að æfa jólalög á kóræfingunni. Við erum nú líka að æfa bara einu sinni í viku og stefnum að því að hafa jólatónleika 4. desember n.k. Þemað á þeim tónleikum eru "Ave Maríur", enda til meira en 100 útsetningar af þeim. Spennandi!

Á þriðjudagskvöldið var skrapp í á enn eina Friendtex fatakynninguna. Þar var margt freistandi á boðstólum og ég hefði vel getað verslað mér fullt af fötum. Ég lét það eftir mér að kaupa tvo langerma boli og pantaði svo nokkrar flíkur til mátunar (m.a. kjól, belti og jakkapeysu)
Næst á dagskrá er svo að finna fleiri buxur á drengina (ekki þó í Friendtex). Eftir að ég hafði gert upp huga minn lá leiðin til einnar vinkonu minnar og þar gleymdi ég mér alveg í tvo tíma, en það voru líka skemmtilegir tímar!

Ég hafði lifur í matinn í gærkvöldi. Sumir voru ekkert spenntir en þegar til kom fengu allir sér tvisvar á diskinn. Davíð sá um að gera sallatið og ég notaðist við uppskrift úr bók sem móðuramma mín heitin gaf mér. Svo bauð ég einnig upp á hýðisgrjón í stað kartafla... Ég fæ bara vatn í munninn við að hugsa um þetta!

Góða helgi!

13.10.05

geislandi gleði

það sást
langar leiðir
hvað hún var
ánægð með lífið

brosið
náði út að
eyrum

hárlokkarnir
dönsuðu glaðlega
kringum langleitt
andlit hennar

hreyfingarnar
voru kvikar

það geislaði
svo sannarlega
af henni

10.10.05


Þessi mynd er betri!


Það eru tæpir átta mánuðir síðan þessar myndir voru teknar af tvíburunum. Oddur Smári fyrir ofan og Davíð Steinn fyrir neðan, (báðir mjög hárprúðir) haldandi á Elísu Ásdísi dóttur "tvíburahálfsystur minnar". Elísa er bara tveggja vikna þarna.
- Annasöm helgi að baki -

Það hefði verið ágætt að geta skipt sér aðeins meira niður núna um helgina en ég komst nú samt yfir þónokkuð þótt ég kæmist ekki á neina Valsleiki, hvorki í hand- né fótboltanum. Var mætt í klippingu klukkan tíu á laugardagsmorguninn og verslaði smávegis á heimleiðinni. Fór samt ekki í IKEA eins og ég ætlaði mér, því er nú verr... Dagurinn fór svo að mestu í tiltekt, þvott og þrif. Strákarnir sáu um sitt herbergi og Davíð tók að sér stofuna áður en hann settist við tölvuna til að vinna (það er alltof mikið álag á manninum þessa dagana, er að vinna nótt eftir nótt...)

Tengdó kom í heimsókn seinni partinn, Oddur var búinn að lofast til að setja upp fyrir okkur innstungu frammi á gangi svo hægt væri að festa skóhitaratækið þar frammi og einnig stinga ryksugu í samband. Þetta varð eitthvað flóknara mál heldur en að tengja í rofann. Útkoman var bráðfyndin, ef skóhitaranum er stungið í samband kveiknar á ljósinu...

Í gærmorgun samdi ég við Davíð um að ég drifi mig á uppskeruhátíð Vals svo hann gæti sofið aðeins lengur eftir að hafa unnið fram á morgun. Eftir athöfnina á Hlíðarenda dreif ég mig heim en strákarnir voru lengur enda gos og kræsingar í boði, og andlitsmálun fyrir þá sem vildu. Ég var samt ekki lengi heima því stuttu fyrir eitt labbaði ég upp í kirkju til að hita upp fyrir Bjargarmessu.

Það var full kirkja af fólki að þessu sinni enda ekki nema einu sinni á ári sem kvenfélagið selur kræsingar. Messan tókst með ágætum og fór sr. Pétur á kostum. Í stað prédikunar söng hann nokkur sunnudagaskólalög með krökkunum og sýndi töfrabrögð með aðstoð tveggja þeirra. Við kórinn sungum tvo af sálmunum raddað og svo söng Níels Bjarnason tvo negrasálma. En ég gaf mér ekki tíma í kaffið (enda má ég hvort eð er ekki borða sætar kökur og þannig).

Davíð og strákarnir sóttu mig og leið okkar lá fyrst í Hafnarfjörðinn, þangað sem ég sótti slátrið mitt, og síðan héldum við rakleitt áfram á Hellu til pabba sem ætlar að geyma fyrir okkur matinn. Maður kemst/fer þá kannski oftar austur...?!?! Ég náði bæði að hitta æskuvinkonu mína og föðurbróður minn í þessari ferð en það var bara í mýflugumynd.

Haldið þið svo ekki að ég hafi unnið Kjarvalsbók í síðasta útdrætti í happdrætti SÍBS!!! Bara frábært!.

7.10.05

- Sláturgerð -

Ég sá til þess að tvíburarnir væru mættir á knattspyrnuæfingu í Safamýrina á slaginu fjögur í gær. Þaðan fór ég svo beint til tvíburahálfsystur minnar. Var með inniskó og svuntu í farteskinu. Við snérum okkur beint að sláturgerðinni; byrjuðum á því að brytja mörin, svo var lifrin hökkuð (12 stk. takk fyrir, fengum fullt af auka lifrum því það gleymdist að setja lifrar með í annan kassann (tókum 5 slátur hvor og fengum samtals 15 auka lifrar v/mistakanna, en lifur er líka góð ein og sér...) og svo var blandað í stóran bala. Kössunum fylgdu saumaðar gervivambir og við lentum í mesta basli þegar kom að því að fylla á þær, opið var alltof þröngt. Við reyndum ýmislegt og hlógum mikið að sumum hugmyndunum sem við prófuðum. Endirinn var samt sá að við klipptum aðeins stærra gat. Svo var verið að segja mér það seinni partinn í dag að við klikkuðum á því að leggja "vambirnar" í bleyti. Ég spáði ekkert í það þar sem þetta voru gervivambir... Þetta hafðist nú allt saman. Notuðum alla 7 lítrana af blóði sem fylgdi með kössunum og settum rúsínur út í hluta af því. Og nú er einmitt kominn tími til að smakka...

Góða helgi!
- Strákarnir einir í bankann -

Frá hádegi á föstudag, og fyrstu þrjá virku dagana í þessari viku, var skólafrí hjá tvíburunum. Strákarnir notuðu hluta af föstudeginum til að heimsækja "gamla skólann" sinn en hina þrjá dagana fengu þeir að vera hjá Helgu. Systir mín var bara fegin að fá þá því þeir voru duglegir að leika við Bríet. Á þriðjudaginn tóku þeir baukana og bankabækurnar með sér yfir á Grettisgötuna og drifu sig svo í bankann eftir að hann opnaði. Þeir fengu sér báðir afgreiðslunúmer og voru afgreiddir hvor í sínu lagi. Ég hafði beðið þá um að velja sér seðlaveski og það gerðu þeir báðir. Síðan héldu þeir áfram að spjalla við bankafólkið og það endaði með því að þeim voru gefnar vekjaraklukkur líka.

4.10.05

- Patro kaj infanoj - (Faðir og börn)

Jamm, mig langar aðeins að geta þess að ég ætla loksins á láta verða af því að læra Esperanto. Ég var aðeins byrjuð að dunda mér við þetta fyrir nokkrum árum en nú er ég búin að finna "sálufélaga" með mér í þessu og það ýtir betur við manni. Ég tölti yfir í Norðurmýrina í gærkvöldi og notaði ferðina einnig til að fara með fernur og pappír í gáma. Mér finnst þetta ótrúlega spennandi...
- Afmælishátíðin -

Síðast liðinn sunnudag fagnaði Drengjakór Reykjavíkur 15 ára afmæli sínu, en hann var stofnaður 6. október 1990. Hátíðin var haldin milli fjögur og sex í Hallgrímskirkju þar sem kórinn hefur haft æfingaaðstöðu síðan í fyrrahaust. Við Davíð Steinn vorum mætt um tvö því ég hafði tekið að mér að vera í kaffinu ásamt nokkrum öðrum, hann átti að vísu ekki að mæta fyrr en um þrjú en byrjaði bara á því að hjálpa til við að dúka borð og fleira.

Um þrjú mátuðu strákarnir nýju kórbúningana og hituðu svo upp fyrir skemmtunina. Þeir sungu 3 lög, og svo voru veitta orður. Fjórir drengir fengu bronsmerki þar sem þeir voru að hefja sitt þriðja ár, aðeins einn drengur fékk silfurmerki, var að hefja sitt fjórða ár með kórnum, og fjórir drengir fengu gullorðu. Þar að auki fengu Ísak Ríkharðsson, Friðrik kórstjóri og Lenka undirleikari gullorður. Ísak er hættur með drengjakórnum en hann söng eitt lag á sunnudaginn. Auk þess söng einn ungur maður, fyrrum kórfélagi, "Nobody knows the trouble..." og annar félagi hans söng tvísöng, "Hallelúja", með stúlku sem ég held að sé dóttir kórstjórans.

Eftir rúmlega hálftíma athöfn í kirkjunni var boðið upp á kaffi og ýmsar kræsingar. Það var nóg að gera í eldhúsinum og sumar af okkur fóru inn í sal til að fylgjast með og bæta á ef eitthvað kláraðist. Tveir kórdrengir komu fljótlega inn í eldhúsið og spurðu hvort þeir gætu ekki hjálpað og þeir voru virkjaðir við að taka úr og þurrka úr uppþvottavélinni. Ein "kórdrengssystirin" var líka ótrúlega hjálpsöm. Og ég varð vör við að fleiri vildu leggja lið og fengu það, en hin þrjú fyrstnefndu voru að allan tímann.

Við vorum að ganga frá til klukkan sjö. Ég hafði aðeins sest niður í stutta stund (fyrir utan athöfnina í kirkjunni) en ég fann samt ekki fyrir þreytu, gleðin var svo mikil yfir hve vel tókst til. Það er hugsanlegt að ég smelli inn mynd eða myndum frá sunnudeginum fljótlega.

2.10.05

- Góður "langur"laugardagur -

Davíð Steinn vaknaði fyrstur af okkur öllum, hann var sestur fyrir framan morgunsjónvarpið þegar ég kom fram á níunda tímanum. Oddur Smári vaknaði ekkert löngu seinna. Davíð ætlaði sér að vinna við ákveðið tölvuverkefni hér heima, nafna hans hafði verið boðið (eftir hádegi) í kveðjupartí til eins úr bekknum, sem var að skipta um skóla og ég var á leið í föndur heim til einnar vinkonu minnar. Það varð úr að Oddur Smári kom með mér en nafnarnir urðu eftir heima.

Hjá vinkonunni undirbjó ég jólakortagerð og var Oddur Smári mjög hjálpsamur. Hún á svona tæki til að skera niður pappír og setja brot í til að léttara sé að brjóta saman. Ég skar niður slatta af nokkrum litum og á nú örugglega nóg í kortagerð fyrir næstu tvenn jól. Einnig klippti ég niður arkir og gerði tilraunir með verkfæri sem ég keypti mér um síðustu helgi. Eftir rúmlega þriggja tíma törn var kominn tími til að sækja Davíð Stein úr kveðjupartýinu.

Vinkonan kom svo til mín um kvöldið til að vera hjá tvíburunum á meðan við hjónin fórum í partý til mágs míns og kærustu hans. Við mættum fyrst og fórum síðust og varð þetta hið skemmtilegasta kvöld.

1.10.05

Hópmynd af elstu deild úr Barónsborg tekin fyrir ca. fjórum árum eða svo...
- Nýr mánuður -

Þrír hlutar af fjórum eru liðnir af árinu 2005. Tíminn er ekkert að láta bíða eftir sér, æðir bara áfram og gefur manni langt nef. Nú er það stundum orðið svo slæmt að ég kemst ekki einu sinni til þessa að pikka "nokkur orð" hérna og oftar en ekki þá verð ég að velja vandlega úr það sem mig langar til að geta lesið síðar.

Í gær var skertur dagur í skólanum hjá strákunum. Þeir voru komnir heim um hádegi og hringdu fljótlega í mig eins og þeir höfðu lofað. Þá voru þeir á leiðinni í heimsókn í "gamla skólann" sinn. Ég bað þá um að hringja aftur er þeir kæmu til baka en eitthvað skolaðist sú beiðni til því ég heyrði ekkert meir frá þeim. Engar fréttir eru góðar fréttir..., það átti amk. við í gær því þeir voru heima og í góðu jafnvægi er ég kom heim um fjögur. Þá áttu þeir von á fyrrum bekkjarfélaga í heimsókn. Sá var rétt ókominn þegar ég skutlaði Oddi Smára á karateæfingu. Eftir æfinguna trítlaði Oddur í afmælisboð á Flókagötunni og skilaði sér svo sjálfur heim um hálfátta.

Davíð Steinn tók á móti besta vininum úr Ísaksskóla og voru það fagnaðarfundir. Vinurinn spurði um Odd og það var svolítið skrýtið að eftir að Oddur kom heim dró Davíð Steinn sig aðeins í hlé, kannski var hann orðinn þreyttur. Seinna horfðu þeir á Latabæ allir saman og fóru svo að spila. Þegar fjörið fór að verða heldur mikið rétt fyrir tíu var kominn tími til að skutla vininum heim og fá tvíburana til að há-ta-pos (hátta tanna pissa og sofa - stundum sagt hátípos...).

30.9.05


Flottir feðgar. Þetta er rúmlega sjö ára gömul mynd. Vá hvað tíminn flýgur...
Sumarið 1999 fórum við fjölskyldan hringveginn. Við gistum tvær nætur hjá vinafólki okkar sem þá bjó á Höfn. F.v. Guðmar (9 ára), Davíð Steinn og Oddur Smári
- Gamlar og góðar -

Þarna eru þeir á Skuggabarnum í sínu fínasta pússi. Helga systir og Ingvi mágur höfðu gift sig fyrr um daginn. Myndin er tekin 20. júní 1998. F.v. Davíð, Oddur Smári og Davíð Steinn.
-

Þessi mynd af feðgunum er líklega sex ára gömul. Strákarnir fengu hjól og hjálma í afmælisgjöf en þarna eru þeir greinlega að horfa á eitthvað spennandi og Davíð Steinn fær greinilega að stjórna fjarstýringunni.

29.9.05

- Fundir og æfingar -

Það leit út fyrir það að við Davíð þyrftum að skipta okkur niður í amk þrennt í gær, en það slapp nú samt til.

Strákarnir voru næstum búnir að læra þegar ég kom heim þrátt fyrir að hafa gest hjá sér (skyldi það nokkuð vera vegna þess að ég hafði hringt og áminnt þá um þrjú?). Þeir fengust til að lesa heimalesturinn fljótlega eftir að ég kom heim. Um hálffimm kvaddi vinurinn. Oddur Smári labbaði svo rétt seinna á ekki æfingu (þ.e. knattspyrnuþjálfarinn mætti ekki) um svipað leiti og ég skutlaði Davíð Steini á kóræfingu. Fyrir utan kirkjuna hitti ég eina sem á heilt tvíburapar í kórnum og hún bauðst til að skutla mínum strák heim eftir æfingu (þá var hún með fjóra kórdrengi, eitt tvíburapar og tvo tvíburahelminga...).

Oddur Smári kom fyrstur heim enda féll æfingin niður. Davíð kom stuttu fyrir sjö. Það féll niður fundur í foreldraráði 6. flokks í fótbolta svo hann samþykkti að fara á foreldrakaffi fund í Perlunni. Það voru foreldrar úr bekknum hans Odds sem ætluðu að hittast um átta.

Ég sjálf mætti á kóræfingu um hálfníu og í fyrsta skipti (svo mig minnir) voru strákarnir skildir eftir einir heima að kvöldi til. Það var samt ekki nema tæpur klukkutími og voru þeir búnir að hátta sig og að spila ólsen-ólsen þegar pabbi þeirra kom heim af fámennum fundi (það mættu ca. 20% foreldra).

27.9.05

- Á frænkuvaktinni -

Þegar ég hringdi heim í strákana rétt fyrir þrjú í dag svaraði Davíð í símann. Ég hélt fyrst að ég hefði hringt í skakkt númer en svo var víst ekki heldur hafði maðurinn ákveðið að prófa að vinna heima. Allt var í góðu gengi og strákarnir komnir heim svo ég sagðist líklega mundu koma við í verslun á heimleiðinni. Kom því þremur korterum seinna heim en ella. Fór ekki inn með innkaupapokana fyrr en ég hafði skutlað Oddi Smára á karateæfingu. Davíð tók að sér að ganga frá vörunum á meðan ég fór niður í þvottahús. Helga systir var í símanum þegar ég kom upp aftur og spurði hvort annað okkar gæti passað fyrir sig. Ég var til í tuskið og þurfti að fara nær strax af stað.

Helga setti mig inn í málin og var svo þotin. Hulda mátti horfa á barnaefnið en Bríet fékk strax að borða. Á eftir skruddaðist hún í kringum okkur Huldu í sófanum fyrir framan sjónvarpið. Hulda borðaði strax eftir barnaefnið. Það tók hana smá tíma að næra sig svo það var kominn tími til að hátta og tanna strax á eftir. Ég las fyrir báðar systurnar og svo lagðist Bríet þæg til svefns, hef ekki heyrt í henni síðan. Hulda fékk að koma niður með mér þar sem ég las aðra bók fyrir hana. Hún var samt komin í rúmið sitt rúmlega átta. Ætlaði aðeins að læra stafi og nú á ég eftir að fara upp og slökkva ljósið hjá henni...

24.9.05

- Aftur komin helgi -

Þetta er með ólíkindum. Dagarnir streyma áfram eins og ólgandi fljót. Mér finnst samt fokið í flest skjól ef það er aldrei tími til að skrifa eitthvað. Vonandi er þetta bara tímabundið ástand því mér finnst eitthvað vanta ef ég get ekki sett eitthvað á skjáinn, marga daga í röð. Svo þegar er loksins smá tími til að skrásetja þá er úr vöndu að ráða.

 • Ætti ég að segja frá hvað strákarnir standa sig vel frá því þeir koma úr skólanum og þar til ég kem heim (bara smá ágreiningur stöku sinnum sem er eðlilegt).
 • Eða ætti ég að segja frá nýju gleraugunum mínum. Loksins, lét ég verða að því að fara aftur til augnlæknis eftir að þykkildið á augnlokinu var fjarlægt (eru ekki að verða tvö ár síðan). Sjónin hefur ekki breyst, nema sjónskekkjan, sem augnlæknirinn taldi að gæti verið vegna þykkildisins, er enn til staðar. Gömlu gleraugun voru orðin mött og rispuð enda amk 15 ára. Ég fann svo þessar fínu umgjarðir í Gleraugnabúðinni í Hagkaup í Skeifunni (þ.e. maðurinn sem rekur búðina rétti mér strax umgjarðir sem smellpössuðu. Ég prófaði nokkrar aðrar til öryggis en þær voru ekki eins akkúrat og þær sem ég fékk fyrst.) Ég gat náð í gleraugun seinna um daginn og um leið og ég fékk þau á nefið á mér þá..... : -"VÁ! Vááááá!" Mikið sá ég allt skýrt og vel.
 • Kannski ætti ég samt að segja frá því að eitt kvöldið í vikunni spiluðum við Davíð Pictonary (teiknispilið sem líka má nota sem "actonary") við strákana. Þeir höfðu aldrei spilað þetta áður en þetta var hin besta skemmtun. Ég var með Davíð Steini í liði og við byrjuðum betur en Oddur Smári og Davíð fóru fljótlega framúr okkur, þeir fóru hreinlega á kostum. Það vantaði ekki að liðsfélagi minn var (og er) mjög flinkur að teikna ég var bara ekki alltaf að grípa orðið. En þetta var samt gaman og verður endurtekið sem fyrst!
 • Líklega ætti ég þó að segja frá vinkonukvöldinu í gærkvöldi. Við hittumst fjórar (þrjár úr bænum og ein að austan) á miðri leið og fengum okkur að borða á veitingastaðnum Rauða húsið. Þetta var hið besta kvöld, góður matur, mikið spjallað og hlegið og góð þjónusta.
 • Svo ætti ég auðvitað líka að segja frá því að Davíð Steinn er í æfingabúðum með kórfélögum sínum. Það þarf að æfa vel fyrir afmælishátíðina sem verður haldin í
  Hallgrímskirkju n.k. sunnudag. Kórinn fagnar þá 15 ára afmæli sínu og mikið verður um að vera.
 • Nú, og ætti ég ekki líka að taka það fram að úrslitin í VISA-bikarnum í knattspyrnu karla, ráðast í dag. Fram og Valur, þetta verður örugglega hörkuleikur og megi betra liðið vinna...

En þetta er svo mikið og bara smá brot af öllu saman að ég sleppi því líklega að skrifa um allt og allt. Þangað til næst: Farið vel með ykkur!

20.9.05

- Úbs, ég var klukkuð! -

 1. Þegar ég var sex ára ætlaði ég mér að verða skúringakona og ganga á milli húsa og þrífa fyrir fólk. Það var fljótt að breytast. Níu ára var ég ákveðin í að verða kennari og ég útskrifaðist úr Kennó vorið 1991 og kenndi einn vetur (93-94).
 2. Ég spila á blokkflautu, orgel og píanó. Tók meira að segja 5. stigið á síðast nefnda hljóðfærið en hef ekki sama og ekkert spilað á það í 17 ár svo líklega er ég farin að ryðga all verulega.
 3. Ég hef sungið með fimm kórum og syng enn með kirkjukór Óháða safnaðarins. Syng alt-rödd, nema þegar sungið er einraddað.
 4. Ég er mikill lestrarhestur og hérumbil alæta á bækur.
 5. Ef sagt er við mig: -"Þú átt að gera hlutina svona...", er ég vís með að hlýða því ekki og jafnvel fara Krýsuvíkurleiðina að hlutunum. (Semsagt get verið þver)!Ég ætla að klukka: Önnu frænku, Lorýu, Tomma, Sigurrós og Ingu

18.9.05

- Í bláendann á helginni -

Föstudagur - seinni partur; Skutlaðist með Odd Smára á karateæfingu. Davíð Steinn kom með og fór með mér í fiskleiðangur á eftir. Er við komum heim áttum við saman góða spjallstund áður en við fórum í eldhúsverkin. Hann hjálpaði mér að skera niður í sallat og fékk svo að búa til kaffi. Gott að fá svona aðstoð, það gengur allt betur þannig.

Laugardagur - dagurinn tekinn fremur snemma; Lögðum af stað, mæðginin, út úr bænum um tíu og lá leiðin austur á Hellu. Við mamma notuðum bróðurpart dagsins í að hnoða í og steikja kleinufjall. Strákarnir skruppu með afa sínum upp að Heiði í gróðursetningu og fleira. Eftir kvöldmat gafst mér tími til að hitta æskuvinkonu og einnig smá stund til að knúsa föðurbróður minn. Við mæðginin komum heim um ellefu og fundum Davíð hálfslappan fyrir.

Dagurinn í dag var nokkuð drjúgur. Tvíburarnir fóru í vinaheimsókn milli ellefu og eitt og í millitíðinni var hringt og spurt eftir Oddi. Hann hringdi til baka er hann kom heim og það varð úr að ég skutlaði honum í aðra vinaheimsókn. Ég skaust í smá heimsókn stutt þar frá en stoppaði ekki lengi því Davíð hringdi fljótlega og sagði að von væri á gestum og spurði hvort ég gæti ekki reddað einhverju með kaffinu. Ég fór að versla og ákvað að gestunum yrði bara boðið í kvöldmat. Tengdó komu svo á slaginu sjö og þá var næstum allt klárt, læri, með öllu tilheyrandi, ís og ávextir í eftirrétt og svo bauð Davíð upp á koníak með kaffinu á eftir. Gestirnir voru svo ánægðir með veisluna að þeir töluðu um að koma á hverjum sunnudegi framvegis.... ;)

15.9.05

- Eitt og annað -

Einn bekkjarbróðir Odds bauð í afmælið sitt milli fimm og sjö í dag. Davíð Steinn hringdi "agút" í mig um hálfþrjú. Annar bekkjarbróðir Odds hafði komið með þeim heim og nú var spurt hvort þeir mættu bjóða honum upp á hressingu og leika svo í playstation tölvunni. Ég veitti leyfið. Á heimleiðinni rúmum klukkutíma síðar, tafðist ég smávegis svo ég var ekki komin heim fyrr en upp úr hálffimm. Þá voru Oddur Smári og bekkjarbróðir hans farnir, minn sonur í afmælið og hinn sennilega heim að skipta um föt eða eitthvað. Amk. var Oddur mættur mjög tímanlega, aðeins einn annar mættur og klukkan ekki orðin....

Davíð Steinn hafði fengið annan vin sinn í heimsókn. Sá er í þriðja bekknum. Þeir voru í tölvuleik, nema hvað. Sonur minn fékkst til að taka smá pásu og klára að læra. Um sexleytið fannst mér komið meira en nóg af tölvuleik og sagði STOPP LEIKUR. Ég var að undirbúa kvöldmatinn þegar Davíð Steinn kom og spurði hvort þeir mættu hringja í mömmu vinarins og spyrja hana að svolitlu.
-"Hvað þurfið þið að spyrja hana um"?
-"Hvort "sonur hennar" (mín orð innan gæsalappa) megi borða með okkur!
-"Hmm, er ekki betra að byrja að spyrja mig hvort við getir boðið vini þínum í mat"?
Það varð úr að vinurinn borðaði með okkur. Oddur kom úr afmælisboðinu stuttu seinna. Rétt fyrir átta kom enn einn bekkjarbróðir hans og spurði eftir honum. Sá fékk að koma inn í smá stund þar sem ég gaf ekki leyfi fyrir útivist.
- Í uppnámi -

Ég er þreytt, en get ekki sofnað alveg strax. Hugurinn er búinn að vera í uppnámi í allan dag, eða allt frá því á ég sá dánartilkynningu eins kórfélaga míns í Mogganum í morgun. Á kóræfingu í kvöld þurfti mikið að tala. Allir voru búnir að frétta þetta en engu að síður fannst mér gott að kórstjórinn byrjaði æfinguna á því að segja nokkur falleg orð um Óla heitinn og segja okkur frá aðdragandanum. Við vissum að Óli var veikur, í allt sumar beið hann eftir að komast í aðgerð og var duglegur að æfa sig og bjartsýnn á framhaldið. Nú verður maður bara að ylja sér við minningarnar, brosið hans, léttu lundina og faðmlögin sem hann var óspar á og biðja fyrir fjölskyldu hans.

13.9.05

Dagaskriður
Æða áfram á fullri ferð
dagarnir
breytast í vikur
mánuði...
og bráðum koma jólin


Fljótlega eftir að ég kom heim í dag dreif ég mig út með tvíburunum. Það var ekki löng útivera, aðeins um fimmtán mínútur, en á þeim tíma unnum við hluta af heimaverkefni strákanna. Samkvæmt vinnubókinni með lestrarbókinni áttu þeir að fara út og tína rusl í umhverfinu. Meira aðhöfðumst við ekki í bili því Oddur Smári var að fara í karatetíma. Ég leyfði Davíð Steini að fara á msn-ið í PC (og þar "hitti" hann fyrrum bekkjarbróður sinn úr Ísaksskóla) á meðan ég dundaði mér í eldhúsinu.

Maturinn (Lasagna og sallat) var akkúrat til þegar feðgarnir komu heim úr vinnu og af æfingu. Gott að setjast niður svona saman. Það var spjallað og svo fuku nokkrir brandarar. En um leið og búið var að ganga frá eftir matinn átti að klára heimaverkefnið, vigta og flokka ruslið. Við vorum að koma okkur fyrir þegar spurt var eftir strákunum. Þar sem klukkan var aðeins hálfátta leyfði ég bræðrunum að skreppa út. Nú er spennandi að vita hvort tímasetningin hjá þeim stenst, hálftími er oft svo fljótur að líða...

11.9.05

- "Sunnudagur til sælu..." ...og svita -

Klukkan var farin að ganga tíu þegar ég fór loks framúr í morgun. Strákarnir voru sestir fyrir framan morgunsjónvarpið en þeir sögðust samt vera nývaknaðir. Framundan var allur dagurinn. Við hefðum getað valið um tvo Valsleiki; í Landsbankadeildinni, KR-Valur eða í handboltanum Valur gegn Tiblisi frá Georgíu. Það var samt aldrei spurning hvað ég myndi gera því það var messa á sama tíma (klukkan tvö). Strákarnir nenntu ekki að koma með mér (kannski afþví ég fór fótgangandi tæpum klukkutíma fyrir messu) en þegar ég kom heim aftur um hálffjögur komst ég að því að þeir höfðu hvorki reynt að draga pabba sinn á annan hvorn leikinn einu sinni farið út. Mér féllust næstum hendur, (til hvers samt, var þetta nokkuð mitt mál?). Við höfðum talað um að fara í sund seinni partinn en ég var ekki stemmd til þess, sendi bara feðgana saman, og fór sjálf í langan göngutúr um Fossvogsdalinn og Öskjuhlíðina. Heimsótti leiði ömmu, afa, móðurbróður míns og ömmubróður í leiðinni. Það er yfirleitt mjög friðsælt í kirkjugarðinum en þó flýgur einstaka flugvél svo lágt yfir að manni finnst hún rétt fyrir ofan kollinn á sér. Ég kom heim eftir tveggja tíma göngu, mínus stopp við leiðin og stutt stopp fyrir ofan hermannagöngin.

Annars langar mig að nota tækifærið og mæla með einni bók sem ég hef verið að lesa: Litlar sögur eftir Sverri Pál Erlendsson, útgefin 1992. Bókin hefur að geyma 16 smásögur sem margar hverjar fá mann til að staldra við og hugsa aðeins. Sagan Gunnar er um unglingsstrák, sögð í fyrstu persónu. Ég vil ekki segja meira nema að ég hreyfst mjög með alveg frá byrjun og táraðist er leið á frásögnina. Sögurnar eru vel skrifaðar og ég var að vona að það væru til fleiri bækur eftir hann. Setti í gang leit um höfundinn. Þar kom fram að hann hefur mest verið að skrifa greinar svo líklega er þetta eina bókin hans...

10.9.05

- Af hverju er ég ekki enn í bælinu? -

Góð spurning, klukkan rúmlega sjö á laugardagsmorgni! Ég ætla nú samt ekki að svara henni.

Mig langar miklu frekar að segja frá því sem ég gerði í gærkvöldi. Mér var boðið á tvöfalda opnunarsýningu í litlu galleríi við Skólavörðustíg 5. Um var að ræða útgáfu á ljóðabók og málverkasýningu.

Í BLÓMA, heitir sýningin og það er Elín G. Jóhannsdóttir sem sýnir 12 skemmtileg verk. Hún útskrifaðist úr málaradeild MHÍ 1996 en hafði áður stundar nám við myndmenntadeild KHÍ. Hún hefur áður tekið þátt í fjölda samsýningum og einnig haldið sjö einkasýningar. Mér skilst að það hafi verið erfitt hjá henni að velja verkin sem hún ætlaði að sýna því plássið er takmarkað. En mér leist vel á þessi 12 sem hún valdi. Þau eru misstór en þemað er líklega blóm því það eru blóm í einhverri mynd á þeim öllum, ef ekki sem rammi þá hluti af myndefninu. Ég á í vandræðum með að tjá upplifun mína neitt frekar svo ég bara ráðlegg þeim sem hafa áhuga að kíkja í galleríið, sýningin er opin til 29. þessa mánaðar.

Á blágrænum fleti, nefnist nýútkomin ljóðabók eftir Önnu S. Björnsdóttur. Káputeikningin er eftir Elínu og tónar við sýninguna hennar. Anna hefur áður gefið út 9 ljóðabækur og ég á örugglega eftir að leita þær uppi og glugga í þær. Því miður láðist mér að biðja um leyfi til fá að senda sýnishorn úr nýjustu bókinni en mér finnst mörg ljóðin þar vera snilld!

6.9.05

- Fleiri tíma í sólarhringinn takk -

Bara ef það væri nú hægt. Það er kannski hægt að nýta suma tíma eitthvað betur en ég held þó ekki. Stundum þarf að setjast niður og gefa sér tíma fyrir börnin, makann, bækur, föndur eða til að ná áttum sjálfum.

Ég er til dæmis með margar bækur í takinu núna (hef reyndar mjög lítinn tíma til lesturs í augnablikinu). Það er stutt síðan ég las smásögur Svövu Jakobsdóttur, í bókinni; Undir eldfjalli. Góðar sögur þar!!! Á náttkassanum mínum liggja svo m.a. svo bók um Guðmund frá Miðdal skráð af Illuga Jökulssyni, Ljóðasafn Steins Steinarrs gefið út af VÖKU-HELGAFELLI 1991 og saga um spæjarann Warshawski, Eiturbrask eftir Sara Paretsky. Er byrjuð á þeim öllum og ætla mér að lesa þær til agna og fleiri til...

Hef varla snert saumadótið mitt lengi en er samt með nál og tvinna uppi við núna að gera við klofgat á strákabuxum.

Oddur Smári byrjaði aftur í karate í dag. Hann var búinn að hlakka mikið til síðustu daga, svo mikið að hann var búinn að finna til æfingagallann, gulabeltið og handklæði næstum tveimur tímum fyrir æfingu. Hann kom líka mjög glaður heim.

Það tekur örugglega nokkra daga að koma öllu í réttan farveg. Ég er svolítið tætt og þreytt en "kallarnir mínir" sýna mér skilning og eru duglegir að hjálpa til þannig að ég get ekki kvartað.

Annars varð mér títt hugsað til eins frænda míns sem fyllti fjóra tugina í dag. Mamma hans og ég erum bræðradætur. Í mörg sumur var þessi frændi minn í sveit hjá afa sínum, í sömu sveit og ég ólst upp fyrstu árin. Og þær eru ófáar minningarnar. Í seinni tíð hitti ég ekki þennan frænda minn oft við hittumst þó aðeins á ættarmótinu sl. sumar...

5.9.05

- Sundsunnudagur -

Eftir að hafa horft á startið í formúlunni drifum við okkur öll í sund. Ég sá að það var nóg pláss á sundbrautinni og spreytti mig þar. Synti 400 metra bringusund og kalla það bara ágætt. Feðgarnir voru að leika sér með bolta og slöngur í grunnu lauginni og ég slóst í hópinn í smá stund. Eftir sundið fengum við okkur smá næringu áður en við versluðum. Það á nefnilega aldrei að versla svangur.

Þegar við vorum að stilla okkur upp við einn kassann með körfuna, sá ég að það voru skór á útsölu og ákvað að ná í strákana í videohornið til að máta. Oddur Smári rétti mér eina barnaframtönn sem hann hafði misst. Ég missti hana svo í gólfið við skóborðið og það var ekki viðlit að finna hana. Það sem ég var svekkt. Ég bað Odd afsökunar og þar sem hann sá hvað mér varð mikið um þetta sagði hann að þetta væri allt í lagi.

Við komum heim um fjögur og ég mátti ekki heyra á það minnst að strákarnir fengju að leika sér inni í tölvunni í svona góðu veðri. Og viti menn þeir fengust til að fara út og sáust ekki fyrr en kvöldmaturinn var að komast á borðið upp úr hálfsjö.

4.9.05

- Síðasti frídagurinn -

Ég tími ekki að sofa lengur. Strákarnir eru líka hvort sem er vaknaðir og farnir að horfa á morgunsjónvarpið. Síðustu tveir dagar hafa verið nokkuð skrautlegir. Föstudagurinn hófst snemma og endaði seint. Morguninn fór nær allur í tiltekt, gólfþrif og þvotta. Tvíburarnir léku sér úti eftir skóla, rétt komu inn um fjögur með einum vini sínum og fengu sér hressingu, og voru svo áfram úti til sex enda veðrið til þess. Norska vinkona mín kom til mín eftir hádegi og þreif fyrir mig þá glugga sem hún komst að. Við gáfum okkur samt góðan tíma til að sitja á svölunum og ná okkur í smá D-vítamín. Ég skolaði úr stofugardínunni og byrjaði á tiltekt og þrifum í tölvuherberginu (eitthvað sem ég vonaði að Davíð myndi gera með mér. En ég er svo sem ekki búin svo það er enn von...)

Davíð skutlaðist heim með bílinn rúmlega sex. Það var bjórkvöld í vinnunni hjá honum og svo skoruðu þeir á einhverja í pílukeppni. Tvíburarnir voru fastir fyrir framan sjónvarpsskjáinn svo ég skutlaðist vestur á stúdentagarða að huga að frænku minni og nöfnu. Hún var að losa herbergið sem hún hefur haft sl. ár. Hún átti hún flug út/heim til Osló snemma í gærmorgun og ég var búin að bjóða henni að gista síðustu nóttina hjá okkur og skutlast svo með hana. Við settum ferðatöskurnar hennar og handfarangurinn í jeppann. Meðleigjandi hennar og ein vinkona voru búin að aðstoða hana helling og svo átti hún bara eftir að þrífa. Klukkan var byrjuð að ganga níu þegar við sóttum tvíburana. Þeir tveir höfðu það bara fínt (höfðu farið að horfa á mynd í tölvunni) en voru orðnir nokkuð svangir. Ég bauð þeim öllum á Nings. Frænka mín átti nokkrum erindum ólokið og skildi ég við hana hjá móðurbróður okkar sem svo skutlaði henni vestur í bæ...

Davíð kom heim um tvö. Þeir vinnufélagarnir höfðu unnið pílukastkeppnina (spilaðar voru 10 mismunandi umferðir) og samt var einn Íslandsmeistari í hinum hópnum. Ég fór á fætur rúmlega fimm. Nafna mín var þá á leiðinni hingað, það hafði tekið lengri tíma að kveðja Ísland og vinina heldur en hún reiknaði með. Ég brunaði með hana til Keflavíkur, hjálpaði henni með dótið sitt inn að innritunarborði og kvaddi hana þar.

Í gær voru strákarnir boðnir í tvö afmæli. Annað afmælið var einnig kveðjupartý því þessi fyrrum bekkjarbróðir þeirra er fluttur til Stykkishólms. Við foreldrarnir notuðum tímann m.a. til að skila bókum fyrir nöfnu mína, fara með dót í Sorpu, keyra um og að fara tvö út að borða...

2.9.05

- Ágúst hefur kvatt -

September er rokinn af stað. Reyndar er bara annar í dag en samt. Ég hef það á tilfinningunni að þessi mánuður muni líða áfram á ógnarhraða. Um að gera að fara ekki framúr sjálfum sér og stíga stöku sinnum á bremsuna, hvernig svo sem maður fer nú að því?

31.8.05

Brot minninganna
ég tíni þau upp
eitt af öðru
öll brotin
sum glitrandi fögur
önnur kámug
eða
nær gleymd
og
ég spyr sjálfa mig:
á ég að geyma þau lengur?

30.8.05

- Lítið eftir af mánuðinum -

...bara þessi dagur og morgundagurinn og þá er kominn september.

Í gærmorgun leyfði ég strákunum að sofa eins lengi og tíminn leyfði. Það var vitað mál að þetta yrði erfiður dagur. Oddur Smári var fljótur að drífa sig og það endaði með því að hann ákvað að vera ekkert að bíða eftir bróður sínum. Davíð Steinn varð samt ekkert of seinn í skólann. Morguninn leið hratt, alltof hratt. Davíð fór til vinnu um hálfníu. Ég gaf mér rúman tölvutíma en kom samt einhverju í verk (það virðist sem hægst hafi á verkgleðinni).

Helga og Bríet litu inn rétt áður en strákarnir komu heim úr skólanum. Sú stutta var nokkuð kammó við mig en passaði þó vel upp á mömmu sína. Bríet hitti Emmu, kött nágrannanas, og varð þetta líka hrifin. -"Voff, voff", sagði hún skýrt og greinilega. Þær mæðgur náðu að hitta tvíburana er þeir komu, en varla meira en svo því það var greinilega kominn tími fyrir litlu skrudduna til að leggja sig.

Skólinn byrjar rólega hjá strákunum, sem betur fer, en í gær kom þó heimanámsmiði með. Þeir eiga að lesa 2-3 bls. í bekkjarlestrarbókinni daglega nema á föstudaginn. Davíð Steinn byrjaði (á meðan Oddur Smári "bloggaði") og var greinilega, mjög, mjög þreyttur. Hann lét alveg eins og kjáni. Hann náði þó að klára verkefnið. Oddur Smári kláraði skylduverkefnið fljótt og vel og las því næst í Harrý Potter og eldbikarinn fyrir okkur. Svo fór allt í háaloft í smá stund. Það lagaðist eftir að við fengum okkur hressingu.

Strákarnir féllust svo á að reyna að klára smá-sorteringar í herberginu sínu. Þótt ég væri með þeim við verkið þá náðum við ekki að klára en það er svo lítið eftir. Síðan settum við öll á okkur svuntur og undirbjuggum matinn, höfðum alla fiskana, gufusoðna og með nýjum kartöflum og sallati, (12 stykki) sem Oddur Smári veiddi um helgina (eigum svo Davíð Steins fiska og nokkra fleiri til góða seinna). Borðuðum í fyrra fallinu vegna leiksins Valur - ÍBV 1:1

Við mæðgin komum heim af leiknum um átta og þá var löngu búið að ákveða að drífa sig í háttinn. Þeir voru nokkuð fljótir að sinna öllum kvöldverkunum svo í las fyrir þá í 15 mín (úr bók í bókaflokknum Gæsahúð). Samt voru þeir sofnaði um níu.

29.8.05

- Öðruvísi helgi -

Tvíburarnir voru sóttir fljótlega eftir skóla á föstudaginn var. Það var afi þeirra á Bakkanum sem var búinn að bjóða þeim með þeim hjónum og öðrum sonarsyni í bústað yfir helgina.

Laugardagurinn var svolítið skrýtinn hjá mér. Það var margt sem þurfti að gera og margt sem mig langaði að gera og svo fór þetta bara einhvern veginn. Davíð fór stuttu fyrir hádegi að hjálpa bróður sínum og Hugborgu að flytja. Ég bað hann um að hringja þegar þau kæmi í bæinn. Hjá mér var dagurinn svona "úr einu í annað" dagur. Kom einhverju í verk en um miðjan dag stóð ég mig að því að vera að bíða. Og ég beið og beið...
Davíð kom heim klukkan sex, án þess að hafa hringt, það gleymdist í öllum hamaganginum. Ég hefði betur drifið mig á tónleika í Kerinu og Hallgrímskirkju.

Í gær dreif ég mig enn fyrr á fætur. Von var á systurdætrum mínum sem ég hafði tekið að mér að passa í nokkra tíma. Ágætt að prufa hvernig væri að eiga stelpur! Foreldrarnir komu með þær um níu. Morguninn fór í söng og dans og fleira með stelpunum. Hélt mig passa upp á það að systurnar fengju báðar jafnmikla athygli. Samt sagði Hulda einu sinni:
-"Anna Sigga, ég vil líka fá athygli!" (ekki Anna frænka eins og hún er vön heldur Anna Sigga).

Bríet fór út í vagn rétt fyrir eitt. Davíð var að reyna að vinna hér heima svo við Hulda gátum skroppið í smá göngu. Hún hjálpaði mér með ruslið og svo fórum við með blöð og fernur í næsta gám. Löbbuðum smá hring en þegar við komum til baka fór ég með hana í Áfram fyrsti bekkur. Henni gekk mjög vel og hafði hún alveg þolinmæði í ca. hálftíma vinnu. Seinna perluðum við saman og ég var að ljúka við að strauja "perluhringinn" hennar þegar Bríet vaknaði eftir tveggja tíma lúr. Hulda var að hlusta á "Tryggur og Traustur" og fleiri diska og ég leyfði henni að loka sig af til að fá frið fyrir litlu skruddunni. Helga og Ingvi sóttu stelpurnar um fjögur og stoppuðu stutta stund. Ekki lengi samt því von var á vinkonu Huldu í heimsókn til þeirra og Helga var að fara að vinna.

Davíð vann í tölvunni til klukkan að ganga sex en svo dreif hann sig af stað til að sækja tvíburana. Ég varð eftir heima því það var messa í gærkvöldi. Þetta var önnur messa haustsins en fyrsta kóræfingin var sl. miðvikudagskvöld. Messan var svolítið öðruvísi en oftast áður. Séra Pétur var í leyfi (hann sendi okkur hlýjar kveðjur rétt fyrir messu) og tvær konur hjálpuðust að við að þjóna söfnuðinum. Sú sem stjórnaði, var að syngja sína fyrstu heilu messu eftir að hún tók vígslu. Stólræðan hennar var mjög góð, hún hélt amk. athygli minni allan tímann (ég hugsaði líka á meðan að þetta væri alveg í anda Péturs). Kórinn er vanur að syngja messu tvö en í gærkvöldi sungum við messu eitt og voru flest svörin án undirleiks. Þetta gekk alveg bærilega. Það hefur fækkað í öllum röddum nema altinum og tvær úr sópran voru í fríi svo við sungum allt einraddað. Fyrir og eftir prédikun söng Júlíus Vífill einsöng við undirleik kórstjórans. Semsagt góð messa í alla staði, og sérstaklega fyrir sálartetrið!

27.8.05

- Á bókasafninu -

Í vikunni fyrir sumarfrí fór ég á bókasafnið og fékk mér að láni 15 bækur til viðbótar við eina sem ég var hálfnuð með að lesa og ráðgátubók sem strákarnir höfðu verið að lesa. Skilafresturinn á öllum þessum bókum rann út í dag. Ég fór á safnið í gær og skilaði níu bókanna, framlengdi hinum átta, endurnýjaði skírteinið og merkilegt nokk þá sat á mér að taka mér fleiri bækur að sinni.

Af þessum níu bókum sem ég skilaði í gær langar mig sérstaklega til að mæla með bókum Rögnu Sigurðardóttur; "Borg", "Skot" og "Strengir". Þá fyrst nefndu hafði ég með mér í bústaðinn. Stíllinn, fannst mér sérkennilegur því sögusviðið, Reykjavík, var bæði kunnuglegt og ókunnuglegt. Þegar ég kom úr bústaðnum og sá að ég hafði tekið fleiri bækur eftir sama höfund gat ég varla beðið eftir að lesa þær bækur. Ég lét það samt ekki eftir mér fyrr en nú í vikunni. Það var of margt sem ég hreinlega varð að gera fyrst. Ekki er ég nú búin að öllu því sem ég ætlaði mér en taldi mér samt trú um að ég mætti nú alveg fara að gefa bókunum smá gaum og ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Ég er einnig búin að lesa "Vegurinn heim" eftir Olgu Guðrúnu Árnadóttur og fannst mér hún vel skrifuð og taka vel á efninu; Hver er réttur skilnaðarbarna?

Ég lifði mig inn í allar þessar bækur en það er kannski ekkert að marka mig því ég fer yfirleitt inn í bækurnar eða myndirnar sem ég les eða horfi á. Og ég á eftir að lesa 8 bækur af ýmsum toga næstu vikurnar. Ég ætla mér samt ekki að leggjast í lestu því það er auðvelt að framlengja skilafrestinn...