30.9.05


Flottir feðgar. Þetta er rúmlega sjö ára gömul mynd. Vá hvað tíminn flýgur...
Sumarið 1999 fórum við fjölskyldan hringveginn. Við gistum tvær nætur hjá vinafólki okkar sem þá bjó á Höfn. F.v. Guðmar (9 ára), Davíð Steinn og Oddur Smári
- Gamlar og góðar -

Þarna eru þeir á Skuggabarnum í sínu fínasta pússi. Helga systir og Ingvi mágur höfðu gift sig fyrr um daginn. Myndin er tekin 20. júní 1998. F.v. Davíð, Oddur Smári og Davíð Steinn.
-

Þessi mynd af feðgunum er líklega sex ára gömul. Strákarnir fengu hjól og hjálma í afmælisgjöf en þarna eru þeir greinlega að horfa á eitthvað spennandi og Davíð Steinn fær greinilega að stjórna fjarstýringunni.

29.9.05

- Fundir og æfingar -

Það leit út fyrir það að við Davíð þyrftum að skipta okkur niður í amk þrennt í gær, en það slapp nú samt til.

Strákarnir voru næstum búnir að læra þegar ég kom heim þrátt fyrir að hafa gest hjá sér (skyldi það nokkuð vera vegna þess að ég hafði hringt og áminnt þá um þrjú?). Þeir fengust til að lesa heimalesturinn fljótlega eftir að ég kom heim. Um hálffimm kvaddi vinurinn. Oddur Smári labbaði svo rétt seinna á ekki æfingu (þ.e. knattspyrnuþjálfarinn mætti ekki) um svipað leiti og ég skutlaði Davíð Steini á kóræfingu. Fyrir utan kirkjuna hitti ég eina sem á heilt tvíburapar í kórnum og hún bauðst til að skutla mínum strák heim eftir æfingu (þá var hún með fjóra kórdrengi, eitt tvíburapar og tvo tvíburahelminga...).

Oddur Smári kom fyrstur heim enda féll æfingin niður. Davíð kom stuttu fyrir sjö. Það féll niður fundur í foreldraráði 6. flokks í fótbolta svo hann samþykkti að fara á foreldrakaffi fund í Perlunni. Það voru foreldrar úr bekknum hans Odds sem ætluðu að hittast um átta.

Ég sjálf mætti á kóræfingu um hálfníu og í fyrsta skipti (svo mig minnir) voru strákarnir skildir eftir einir heima að kvöldi til. Það var samt ekki nema tæpur klukkutími og voru þeir búnir að hátta sig og að spila ólsen-ólsen þegar pabbi þeirra kom heim af fámennum fundi (það mættu ca. 20% foreldra).

27.9.05

- Á frænkuvaktinni -

Þegar ég hringdi heim í strákana rétt fyrir þrjú í dag svaraði Davíð í símann. Ég hélt fyrst að ég hefði hringt í skakkt númer en svo var víst ekki heldur hafði maðurinn ákveðið að prófa að vinna heima. Allt var í góðu gengi og strákarnir komnir heim svo ég sagðist líklega mundu koma við í verslun á heimleiðinni. Kom því þremur korterum seinna heim en ella. Fór ekki inn með innkaupapokana fyrr en ég hafði skutlað Oddi Smára á karateæfingu. Davíð tók að sér að ganga frá vörunum á meðan ég fór niður í þvottahús. Helga systir var í símanum þegar ég kom upp aftur og spurði hvort annað okkar gæti passað fyrir sig. Ég var til í tuskið og þurfti að fara nær strax af stað.

Helga setti mig inn í málin og var svo þotin. Hulda mátti horfa á barnaefnið en Bríet fékk strax að borða. Á eftir skruddaðist hún í kringum okkur Huldu í sófanum fyrir framan sjónvarpið. Hulda borðaði strax eftir barnaefnið. Það tók hana smá tíma að næra sig svo það var kominn tími til að hátta og tanna strax á eftir. Ég las fyrir báðar systurnar og svo lagðist Bríet þæg til svefns, hef ekki heyrt í henni síðan. Hulda fékk að koma niður með mér þar sem ég las aðra bók fyrir hana. Hún var samt komin í rúmið sitt rúmlega átta. Ætlaði aðeins að læra stafi og nú á ég eftir að fara upp og slökkva ljósið hjá henni...

24.9.05

- Aftur komin helgi -

Þetta er með ólíkindum. Dagarnir streyma áfram eins og ólgandi fljót. Mér finnst samt fokið í flest skjól ef það er aldrei tími til að skrifa eitthvað. Vonandi er þetta bara tímabundið ástand því mér finnst eitthvað vanta ef ég get ekki sett eitthvað á skjáinn, marga daga í röð. Svo þegar er loksins smá tími til að skrásetja þá er úr vöndu að ráða.

  • Ætti ég að segja frá hvað strákarnir standa sig vel frá því þeir koma úr skólanum og þar til ég kem heim (bara smá ágreiningur stöku sinnum sem er eðlilegt).
  • Eða ætti ég að segja frá nýju gleraugunum mínum. Loksins, lét ég verða að því að fara aftur til augnlæknis eftir að þykkildið á augnlokinu var fjarlægt (eru ekki að verða tvö ár síðan). Sjónin hefur ekki breyst, nema sjónskekkjan, sem augnlæknirinn taldi að gæti verið vegna þykkildisins, er enn til staðar. Gömlu gleraugun voru orðin mött og rispuð enda amk 15 ára. Ég fann svo þessar fínu umgjarðir í Gleraugnabúðinni í Hagkaup í Skeifunni (þ.e. maðurinn sem rekur búðina rétti mér strax umgjarðir sem smellpössuðu. Ég prófaði nokkrar aðrar til öryggis en þær voru ekki eins akkúrat og þær sem ég fékk fyrst.) Ég gat náð í gleraugun seinna um daginn og um leið og ég fékk þau á nefið á mér þá..... : -"VÁ! Vááááá!" Mikið sá ég allt skýrt og vel.
  • Kannski ætti ég samt að segja frá því að eitt kvöldið í vikunni spiluðum við Davíð Pictonary (teiknispilið sem líka má nota sem "actonary") við strákana. Þeir höfðu aldrei spilað þetta áður en þetta var hin besta skemmtun. Ég var með Davíð Steini í liði og við byrjuðum betur en Oddur Smári og Davíð fóru fljótlega framúr okkur, þeir fóru hreinlega á kostum. Það vantaði ekki að liðsfélagi minn var (og er) mjög flinkur að teikna ég var bara ekki alltaf að grípa orðið. En þetta var samt gaman og verður endurtekið sem fyrst!
  • Líklega ætti ég þó að segja frá vinkonukvöldinu í gærkvöldi. Við hittumst fjórar (þrjár úr bænum og ein að austan) á miðri leið og fengum okkur að borða á veitingastaðnum Rauða húsið. Þetta var hið besta kvöld, góður matur, mikið spjallað og hlegið og góð þjónusta.
  • Svo ætti ég auðvitað líka að segja frá því að Davíð Steinn er í æfingabúðum með kórfélögum sínum. Það þarf að æfa vel fyrir afmælishátíðina sem verður haldin í
    Hallgrímskirkju n.k. sunnudag. Kórinn fagnar þá 15 ára afmæli sínu og mikið verður um að vera.
  • Nú, og ætti ég ekki líka að taka það fram að úrslitin í VISA-bikarnum í knattspyrnu karla, ráðast í dag. Fram og Valur, þetta verður örugglega hörkuleikur og megi betra liðið vinna...

En þetta er svo mikið og bara smá brot af öllu saman að ég sleppi því líklega að skrifa um allt og allt. Þangað til næst: Farið vel með ykkur!

20.9.05

- Úbs, ég var klukkuð! -

  1. Þegar ég var sex ára ætlaði ég mér að verða skúringakona og ganga á milli húsa og þrífa fyrir fólk. Það var fljótt að breytast. Níu ára var ég ákveðin í að verða kennari og ég útskrifaðist úr Kennó vorið 1991 og kenndi einn vetur (93-94).
  2. Ég spila á blokkflautu, orgel og píanó. Tók meira að segja 5. stigið á síðast nefnda hljóðfærið en hef ekki sama og ekkert spilað á það í 17 ár svo líklega er ég farin að ryðga all verulega.
  3. Ég hef sungið með fimm kórum og syng enn með kirkjukór Óháða safnaðarins. Syng alt-rödd, nema þegar sungið er einraddað.
  4. Ég er mikill lestrarhestur og hérumbil alæta á bækur.
  5. Ef sagt er við mig: -"Þú átt að gera hlutina svona...", er ég vís með að hlýða því ekki og jafnvel fara Krýsuvíkurleiðina að hlutunum. (Semsagt get verið þver)!



Ég ætla að klukka: Önnu frænku, Lorýu, Tomma, Sigurrós og Ingu

18.9.05

- Í bláendann á helginni -

Föstudagur - seinni partur; Skutlaðist með Odd Smára á karateæfingu. Davíð Steinn kom með og fór með mér í fiskleiðangur á eftir. Er við komum heim áttum við saman góða spjallstund áður en við fórum í eldhúsverkin. Hann hjálpaði mér að skera niður í sallat og fékk svo að búa til kaffi. Gott að fá svona aðstoð, það gengur allt betur þannig.

Laugardagur - dagurinn tekinn fremur snemma; Lögðum af stað, mæðginin, út úr bænum um tíu og lá leiðin austur á Hellu. Við mamma notuðum bróðurpart dagsins í að hnoða í og steikja kleinufjall. Strákarnir skruppu með afa sínum upp að Heiði í gróðursetningu og fleira. Eftir kvöldmat gafst mér tími til að hitta æskuvinkonu og einnig smá stund til að knúsa föðurbróður minn. Við mæðginin komum heim um ellefu og fundum Davíð hálfslappan fyrir.

Dagurinn í dag var nokkuð drjúgur. Tvíburarnir fóru í vinaheimsókn milli ellefu og eitt og í millitíðinni var hringt og spurt eftir Oddi. Hann hringdi til baka er hann kom heim og það varð úr að ég skutlaði honum í aðra vinaheimsókn. Ég skaust í smá heimsókn stutt þar frá en stoppaði ekki lengi því Davíð hringdi fljótlega og sagði að von væri á gestum og spurði hvort ég gæti ekki reddað einhverju með kaffinu. Ég fór að versla og ákvað að gestunum yrði bara boðið í kvöldmat. Tengdó komu svo á slaginu sjö og þá var næstum allt klárt, læri, með öllu tilheyrandi, ís og ávextir í eftirrétt og svo bauð Davíð upp á koníak með kaffinu á eftir. Gestirnir voru svo ánægðir með veisluna að þeir töluðu um að koma á hverjum sunnudegi framvegis.... ;)

15.9.05

- Eitt og annað -

Einn bekkjarbróðir Odds bauð í afmælið sitt milli fimm og sjö í dag. Davíð Steinn hringdi "agút" í mig um hálfþrjú. Annar bekkjarbróðir Odds hafði komið með þeim heim og nú var spurt hvort þeir mættu bjóða honum upp á hressingu og leika svo í playstation tölvunni. Ég veitti leyfið. Á heimleiðinni rúmum klukkutíma síðar, tafðist ég smávegis svo ég var ekki komin heim fyrr en upp úr hálffimm. Þá voru Oddur Smári og bekkjarbróðir hans farnir, minn sonur í afmælið og hinn sennilega heim að skipta um föt eða eitthvað. Amk. var Oddur mættur mjög tímanlega, aðeins einn annar mættur og klukkan ekki orðin....

Davíð Steinn hafði fengið annan vin sinn í heimsókn. Sá er í þriðja bekknum. Þeir voru í tölvuleik, nema hvað. Sonur minn fékkst til að taka smá pásu og klára að læra. Um sexleytið fannst mér komið meira en nóg af tölvuleik og sagði STOPP LEIKUR. Ég var að undirbúa kvöldmatinn þegar Davíð Steinn kom og spurði hvort þeir mættu hringja í mömmu vinarins og spyrja hana að svolitlu.
-"Hvað þurfið þið að spyrja hana um"?
-"Hvort "sonur hennar" (mín orð innan gæsalappa) megi borða með okkur!
-"Hmm, er ekki betra að byrja að spyrja mig hvort við getir boðið vini þínum í mat"?
Það varð úr að vinurinn borðaði með okkur. Oddur kom úr afmælisboðinu stuttu seinna. Rétt fyrir átta kom enn einn bekkjarbróðir hans og spurði eftir honum. Sá fékk að koma inn í smá stund þar sem ég gaf ekki leyfi fyrir útivist.
- Í uppnámi -

Ég er þreytt, en get ekki sofnað alveg strax. Hugurinn er búinn að vera í uppnámi í allan dag, eða allt frá því á ég sá dánartilkynningu eins kórfélaga míns í Mogganum í morgun. Á kóræfingu í kvöld þurfti mikið að tala. Allir voru búnir að frétta þetta en engu að síður fannst mér gott að kórstjórinn byrjaði æfinguna á því að segja nokkur falleg orð um Óla heitinn og segja okkur frá aðdragandanum. Við vissum að Óli var veikur, í allt sumar beið hann eftir að komast í aðgerð og var duglegur að æfa sig og bjartsýnn á framhaldið. Nú verður maður bara að ylja sér við minningarnar, brosið hans, léttu lundina og faðmlögin sem hann var óspar á og biðja fyrir fjölskyldu hans.

13.9.05

Dagaskriður
Æða áfram á fullri ferð
dagarnir
breytast í vikur
mánuði...
og bráðum koma jólin


Fljótlega eftir að ég kom heim í dag dreif ég mig út með tvíburunum. Það var ekki löng útivera, aðeins um fimmtán mínútur, en á þeim tíma unnum við hluta af heimaverkefni strákanna. Samkvæmt vinnubókinni með lestrarbókinni áttu þeir að fara út og tína rusl í umhverfinu. Meira aðhöfðumst við ekki í bili því Oddur Smári var að fara í karatetíma. Ég leyfði Davíð Steini að fara á msn-ið í PC (og þar "hitti" hann fyrrum bekkjarbróður sinn úr Ísaksskóla) á meðan ég dundaði mér í eldhúsinu.

Maturinn (Lasagna og sallat) var akkúrat til þegar feðgarnir komu heim úr vinnu og af æfingu. Gott að setjast niður svona saman. Það var spjallað og svo fuku nokkrir brandarar. En um leið og búið var að ganga frá eftir matinn átti að klára heimaverkefnið, vigta og flokka ruslið. Við vorum að koma okkur fyrir þegar spurt var eftir strákunum. Þar sem klukkan var aðeins hálfátta leyfði ég bræðrunum að skreppa út. Nú er spennandi að vita hvort tímasetningin hjá þeim stenst, hálftími er oft svo fljótur að líða...

11.9.05

- "Sunnudagur til sælu..." ...og svita -

Klukkan var farin að ganga tíu þegar ég fór loks framúr í morgun. Strákarnir voru sestir fyrir framan morgunsjónvarpið en þeir sögðust samt vera nývaknaðir. Framundan var allur dagurinn. Við hefðum getað valið um tvo Valsleiki; í Landsbankadeildinni, KR-Valur eða í handboltanum Valur gegn Tiblisi frá Georgíu. Það var samt aldrei spurning hvað ég myndi gera því það var messa á sama tíma (klukkan tvö). Strákarnir nenntu ekki að koma með mér (kannski afþví ég fór fótgangandi tæpum klukkutíma fyrir messu) en þegar ég kom heim aftur um hálffjögur komst ég að því að þeir höfðu hvorki reynt að draga pabba sinn á annan hvorn leikinn einu sinni farið út. Mér féllust næstum hendur, (til hvers samt, var þetta nokkuð mitt mál?). Við höfðum talað um að fara í sund seinni partinn en ég var ekki stemmd til þess, sendi bara feðgana saman, og fór sjálf í langan göngutúr um Fossvogsdalinn og Öskjuhlíðina. Heimsótti leiði ömmu, afa, móðurbróður míns og ömmubróður í leiðinni. Það er yfirleitt mjög friðsælt í kirkjugarðinum en þó flýgur einstaka flugvél svo lágt yfir að manni finnst hún rétt fyrir ofan kollinn á sér. Ég kom heim eftir tveggja tíma göngu, mínus stopp við leiðin og stutt stopp fyrir ofan hermannagöngin.

Annars langar mig að nota tækifærið og mæla með einni bók sem ég hef verið að lesa: Litlar sögur eftir Sverri Pál Erlendsson, útgefin 1992. Bókin hefur að geyma 16 smásögur sem margar hverjar fá mann til að staldra við og hugsa aðeins. Sagan Gunnar er um unglingsstrák, sögð í fyrstu persónu. Ég vil ekki segja meira nema að ég hreyfst mjög með alveg frá byrjun og táraðist er leið á frásögnina. Sögurnar eru vel skrifaðar og ég var að vona að það væru til fleiri bækur eftir hann. Setti í gang leit um höfundinn. Þar kom fram að hann hefur mest verið að skrifa greinar svo líklega er þetta eina bókin hans...

10.9.05

- Af hverju er ég ekki enn í bælinu? -

Góð spurning, klukkan rúmlega sjö á laugardagsmorgni! Ég ætla nú samt ekki að svara henni.

Mig langar miklu frekar að segja frá því sem ég gerði í gærkvöldi. Mér var boðið á tvöfalda opnunarsýningu í litlu galleríi við Skólavörðustíg 5. Um var að ræða útgáfu á ljóðabók og málverkasýningu.

Í BLÓMA, heitir sýningin og það er Elín G. Jóhannsdóttir sem sýnir 12 skemmtileg verk. Hún útskrifaðist úr málaradeild MHÍ 1996 en hafði áður stundar nám við myndmenntadeild KHÍ. Hún hefur áður tekið þátt í fjölda samsýningum og einnig haldið sjö einkasýningar. Mér skilst að það hafi verið erfitt hjá henni að velja verkin sem hún ætlaði að sýna því plássið er takmarkað. En mér leist vel á þessi 12 sem hún valdi. Þau eru misstór en þemað er líklega blóm því það eru blóm í einhverri mynd á þeim öllum, ef ekki sem rammi þá hluti af myndefninu. Ég á í vandræðum með að tjá upplifun mína neitt frekar svo ég bara ráðlegg þeim sem hafa áhuga að kíkja í galleríið, sýningin er opin til 29. þessa mánaðar.

Á blágrænum fleti, nefnist nýútkomin ljóðabók eftir Önnu S. Björnsdóttur. Káputeikningin er eftir Elínu og tónar við sýninguna hennar. Anna hefur áður gefið út 9 ljóðabækur og ég á örugglega eftir að leita þær uppi og glugga í þær. Því miður láðist mér að biðja um leyfi til fá að senda sýnishorn úr nýjustu bókinni en mér finnst mörg ljóðin þar vera snilld!

6.9.05

- Fleiri tíma í sólarhringinn takk -

Bara ef það væri nú hægt. Það er kannski hægt að nýta suma tíma eitthvað betur en ég held þó ekki. Stundum þarf að setjast niður og gefa sér tíma fyrir börnin, makann, bækur, föndur eða til að ná áttum sjálfum.

Ég er til dæmis með margar bækur í takinu núna (hef reyndar mjög lítinn tíma til lesturs í augnablikinu). Það er stutt síðan ég las smásögur Svövu Jakobsdóttur, í bókinni; Undir eldfjalli. Góðar sögur þar!!! Á náttkassanum mínum liggja svo m.a. svo bók um Guðmund frá Miðdal skráð af Illuga Jökulssyni, Ljóðasafn Steins Steinarrs gefið út af VÖKU-HELGAFELLI 1991 og saga um spæjarann Warshawski, Eiturbrask eftir Sara Paretsky. Er byrjuð á þeim öllum og ætla mér að lesa þær til agna og fleiri til...

Hef varla snert saumadótið mitt lengi en er samt með nál og tvinna uppi við núna að gera við klofgat á strákabuxum.

Oddur Smári byrjaði aftur í karate í dag. Hann var búinn að hlakka mikið til síðustu daga, svo mikið að hann var búinn að finna til æfingagallann, gulabeltið og handklæði næstum tveimur tímum fyrir æfingu. Hann kom líka mjög glaður heim.

Það tekur örugglega nokkra daga að koma öllu í réttan farveg. Ég er svolítið tætt og þreytt en "kallarnir mínir" sýna mér skilning og eru duglegir að hjálpa til þannig að ég get ekki kvartað.

Annars varð mér títt hugsað til eins frænda míns sem fyllti fjóra tugina í dag. Mamma hans og ég erum bræðradætur. Í mörg sumur var þessi frændi minn í sveit hjá afa sínum, í sömu sveit og ég ólst upp fyrstu árin. Og þær eru ófáar minningarnar. Í seinni tíð hitti ég ekki þennan frænda minn oft við hittumst þó aðeins á ættarmótinu sl. sumar...

5.9.05

- Sundsunnudagur -

Eftir að hafa horft á startið í formúlunni drifum við okkur öll í sund. Ég sá að það var nóg pláss á sundbrautinni og spreytti mig þar. Synti 400 metra bringusund og kalla það bara ágætt. Feðgarnir voru að leika sér með bolta og slöngur í grunnu lauginni og ég slóst í hópinn í smá stund. Eftir sundið fengum við okkur smá næringu áður en við versluðum. Það á nefnilega aldrei að versla svangur.

Þegar við vorum að stilla okkur upp við einn kassann með körfuna, sá ég að það voru skór á útsölu og ákvað að ná í strákana í videohornið til að máta. Oddur Smári rétti mér eina barnaframtönn sem hann hafði misst. Ég missti hana svo í gólfið við skóborðið og það var ekki viðlit að finna hana. Það sem ég var svekkt. Ég bað Odd afsökunar og þar sem hann sá hvað mér varð mikið um þetta sagði hann að þetta væri allt í lagi.

Við komum heim um fjögur og ég mátti ekki heyra á það minnst að strákarnir fengju að leika sér inni í tölvunni í svona góðu veðri. Og viti menn þeir fengust til að fara út og sáust ekki fyrr en kvöldmaturinn var að komast á borðið upp úr hálfsjö.

4.9.05

- Síðasti frídagurinn -

Ég tími ekki að sofa lengur. Strákarnir eru líka hvort sem er vaknaðir og farnir að horfa á morgunsjónvarpið. Síðustu tveir dagar hafa verið nokkuð skrautlegir. Föstudagurinn hófst snemma og endaði seint. Morguninn fór nær allur í tiltekt, gólfþrif og þvotta. Tvíburarnir léku sér úti eftir skóla, rétt komu inn um fjögur með einum vini sínum og fengu sér hressingu, og voru svo áfram úti til sex enda veðrið til þess. Norska vinkona mín kom til mín eftir hádegi og þreif fyrir mig þá glugga sem hún komst að. Við gáfum okkur samt góðan tíma til að sitja á svölunum og ná okkur í smá D-vítamín. Ég skolaði úr stofugardínunni og byrjaði á tiltekt og þrifum í tölvuherberginu (eitthvað sem ég vonaði að Davíð myndi gera með mér. En ég er svo sem ekki búin svo það er enn von...)

Davíð skutlaðist heim með bílinn rúmlega sex. Það var bjórkvöld í vinnunni hjá honum og svo skoruðu þeir á einhverja í pílukeppni. Tvíburarnir voru fastir fyrir framan sjónvarpsskjáinn svo ég skutlaðist vestur á stúdentagarða að huga að frænku minni og nöfnu. Hún var að losa herbergið sem hún hefur haft sl. ár. Hún átti hún flug út/heim til Osló snemma í gærmorgun og ég var búin að bjóða henni að gista síðustu nóttina hjá okkur og skutlast svo með hana. Við settum ferðatöskurnar hennar og handfarangurinn í jeppann. Meðleigjandi hennar og ein vinkona voru búin að aðstoða hana helling og svo átti hún bara eftir að þrífa. Klukkan var byrjuð að ganga níu þegar við sóttum tvíburana. Þeir tveir höfðu það bara fínt (höfðu farið að horfa á mynd í tölvunni) en voru orðnir nokkuð svangir. Ég bauð þeim öllum á Nings. Frænka mín átti nokkrum erindum ólokið og skildi ég við hana hjá móðurbróður okkar sem svo skutlaði henni vestur í bæ...

Davíð kom heim um tvö. Þeir vinnufélagarnir höfðu unnið pílukastkeppnina (spilaðar voru 10 mismunandi umferðir) og samt var einn Íslandsmeistari í hinum hópnum. Ég fór á fætur rúmlega fimm. Nafna mín var þá á leiðinni hingað, það hafði tekið lengri tíma að kveðja Ísland og vinina heldur en hún reiknaði með. Ég brunaði með hana til Keflavíkur, hjálpaði henni með dótið sitt inn að innritunarborði og kvaddi hana þar.

Í gær voru strákarnir boðnir í tvö afmæli. Annað afmælið var einnig kveðjupartý því þessi fyrrum bekkjarbróðir þeirra er fluttur til Stykkishólms. Við foreldrarnir notuðum tímann m.a. til að skila bókum fyrir nöfnu mína, fara með dót í Sorpu, keyra um og að fara tvö út að borða...

2.9.05

- Ágúst hefur kvatt -

September er rokinn af stað. Reyndar er bara annar í dag en samt. Ég hef það á tilfinningunni að þessi mánuður muni líða áfram á ógnarhraða. Um að gera að fara ekki framúr sjálfum sér og stíga stöku sinnum á bremsuna, hvernig svo sem maður fer nú að því?