28.1.08

- Einföld messuhelgi -

Já, helgin er komin og farin. Ég náði bæði að sinna heimili og áhugamálum. Er ég kom heim sl. föstudag voru karatestrákurinn og "þríburinn" í PC og lappanum, söngfuglinn var að lesa og út úr eldhúsinu kom ein bekkjarsystir karatestráksins og heilsaði mér kurteislega. Ég spjallaði smástund við hana. Hún hafði komið heim með karatestráknum til að læra með honum. Ég benti drengnum á að hann yrði svo að sinna gestinum. Söngfuglinn tók að sér að spila við stúlkuna en ég fleygði mér upp í stofusófa til að ljúka við lestur einnar mjög svo spennandi bókar. Stúlkan fór um sex. Þegar ég fór að huga að kvöldmatnum fannst mér óvenju snyrtilegt í eldhúsinu og hugsaði glöð til Davíðs. En hann á það til að laga til og ganga frá í eldhúsinu. Fannst samt frágangurinn alls ekki líkur hans verklagi. En það var ekki fyrr en seinni partinn á laugardaginn þegar ég þakkaði honum fyrir að taka til í eldhúsinu að það kom á daginn að hann hafði alls ekki verið að verki og ekki heldur strákarnir...

Skrapp í esperanto-heimsókn rétt fyrir hádegi á laugardaginn og verslaði á heimleiðinni. Davíð
var að vinna, en þó heimavið, og strákarnir að leika sér við þríburann svo ég sá því ein um helgarverkin. Þríburarnir fengu svo þá hugmynd að gista á öðrum hvorum staðnum. Þeir fengu leyfi fyrir því og ákváðu að gista heima hjá þríburanum. Þeir voru svo komnir yfir um hálfellefu í gærmorgun.

Ég var mætt í óháðu kirkjuna á slaginu eitt með þær fréttir að sennilega yrði ég eini altinn. Mikið stóð til því það átti að skíra og skírnarsálmurinn er alltaf sunginn í röddum og þar að auki átti að syngja eitt verk til í röddum (sálm nr. 750). Ég hefði alveg treyst mér í einsönginn en það kom ekki til þess því "tvíburahálfsystir" mín bauðst til að syngja með mér í rödduðu lögunum og er ég mjög fegin því eftir á að fá stuðninginn. Spurning hvort maður á ekki að "stela" stúlkunni frá sópraninum??? Kirkjan var full og óvenju mikið af börnum sem sum hver voru ekkert að spá í messuna eða skírnarathöfnina heldur þrömmuðu um altarið og klifruðu upp í predikunarstólinn (kannski framtíðarprestar á ferð, hver veit). Allt tókst vel þó presturinn gleymdi hinni postulegu kveðju eftir predikun og þar að auki gleymdist Sanktus, fyrsti undirbúningurinn undir altarisgöngu.

26.1.08

- Vika -

Noh, það má ekki blikka augunum eða líta undan augnablik, eða þannig. Sl. mánudag skrapp ég á bókasafnið og í fyrsta skipti í marga, marga mánuði náði ég mér í nokkrar bækur til að glugga í. Var þó mjög hófleg í leigunni, tók bara 8 stykki. Eina af þeim; Leyndu kvöldmáltíðina fæ ég bara að hafa í hálfan mánuð. Ég var rétt að enda við að lesa The last testament eftir Jason Bourne sem ég var með í láni frá vinnufélaga sem og bókina Aska eftir Yrsu Sigurðardóttur sem ég var einnig með í láni en frá öðrum vinnufélaga. Þar að auki er ég enn að lesa eina bókina sem var í jólapökkunum. Svo hef ég mundað nálina nokkrum sinnum og haldið áfram með engilinn í bláa kjólnum. Tvíburahálfsystir mín kom til mín á mánudagskvöldið var og þrír tímar, með nálarnar á lofti og gott spjall með, liðu alltof hratt. En skrifandinn er greinilega ekki yfir mér núna svo ég læt staðar numið að sinni.

19.1.08

- Fimm ár í bloggheimum -

Í dag eru liðin nákvæmlega 5 ár síðan ég stofnaði þessa bloggsíðu, ótrúlegt alveg hreint. Skrifin hafa breyst í gegnum árin, jafnvel orðið stopulli, en ég er enn að nota sama útlitið og kannski er kominn tími á einhverjar breytingar, jafnvel viðamiklar og róttækar sem myndu ná yfir bæði útlit síðu og innihald texta. Hef reyndar lítið spáð í málin og veit ekki hvort ég mun grípa þessa hugmynd á lofti að einhverju eða öllu leyti. Það verður bara að koma í ljós, smátt og smátt eða allt í einu einhvern daginn.

17.1.08

- EM 2008 -

Jei, Ísland - Svíðþjóð eftir einn og hálfan tíma. Það verður rosalegur leikur og framhaldið ræðst mikið til af því hvernig hann fer. Ég þori engu að spá en ég ætla pottþétt að fylgjast með og vona að þetta verði hörku-spenna sem endar okkur í vil.

Annars gleymdi ég að minnast á það síðast að Oddur Smári gleypti einn barnajaxlinn sinn sl. laugardag. Hann beit í súkkulaðihúðaða karamellukúlu og fannst kúlan undarlega hörð, tók hana út úr sér en sá ekkert athugavert við hana (hefur sennilega ekki grandskoðað kúluna) svo hann gleypti hana í heilu lagi. Þegar hann varð svo var við blæðandi skarð í efrigóm spurði hann okkur, áhyggjufullur, hvort það væri hættulegt að gleypa tönn?
-"Já, sagði pabbi hans, þú verður að passa að tönninn bíti þig ekki í rassinn þegar hún skilar sér...!"

15.1.08

- Af nógu er að taka -

Dagarnir æða áfram og hafa allir haft eitthvað fram að færa. Strákarnir gistu eina nótt hjá Helgu systur um daginn. Nánar tiltekið aðfaranótt laugardagsins var. Við Davíð fórum austur yfir fjall með rútu ásamt hljómsveitinni: Spaðar og fleirum, til að fagna með einum útskriftarbróður Davíðs úr FSu. Sá var að halda upp á vera búin að fylla tugina fjóra. Veislan var í heimahúsi ca 7 km vestan við Selfoss og var margt um manninn og glatt á hjalla. Hjá rútufólkinu endaði gamanið um miðnætti en þá var brugðið á það ráð að skella sér aðeins í miðbæ höfuðborgarinnar. Ég var reyndar alveg tilbúin að fara heim og þegar maðurinn minn var búinn að fá sér einn öl á barnum ákvað hann að fylgja mér heim.

Oddur Smári kom labbandi heim af karateæfingu rétt fyrir tvö á laugardaginn en Helga skutlaði Davíð Steini nokkru seinna. Þríburinn mætti eftir að strákarnir voru komnir heim. Við hjónin skruppum saman í verslunarleiðangur og gripum m.a. með okkur eina fötu af súru þar sem "föðursystir" mín var búin að bjóða okkur fjórum og "tvíburahálfsystur" minni og hennar fjölskyldu í þorrablót (svolítið í fyrra fallinu en allt í lagi fyrst hægt er að nálgast þorramat í verslunum) og myndasýningu. Einnig var þriðja Selfyssingnum hennar maka og 1/4 af börnunum boðið yfir að skoða myndir með okkur. Klukkan var orðin hálftólf áður en við kvöddum, södd og sæl, og ánægð með kvöldið.

Fyrsta messa ársins í Óháðu kirkjunni, var sl. sunnudag, um tvö. Við mættum tíu úr kórnum til að hita upp um eitt leytið. Allt gekk að óskum og var sálartetrið endurnært og til friðs er ég kom heim. Um kvöldið kíktu tengdó í óvænta heimsókn. Sem betur fer tóku þau upp símann og hringdu því báðar bjöllurnar eru alveg óvirkar. Þríburinn notar bréfalúguna til að láta vita af sér þegar hann er að koma til strákanna.

Í gær var ég á þeytingi frá því eftir vinnu og til hálfátta. Var að skutla og sækja tvíburana. Oddur Smári fær að æfa áfram á "gamla" tímanum á mánudögum svo hann þurfi ekki að velja á milli eða að skiptast á að mæta í frjálsar og karate. Davíð Steinn skiptir þessu hins vega og mætir annan hvern mánudag í frjálsar og mánudaginn á móti á kóræfingu. Það var semsagt kóræfing í gær. Mamma þríburans sá um að skutla og sækja hann þar sem hann var einn að mæta á réttum tíma (17:30-19:30). Í dag eru þeir hins vegar allir á réttum tíma og það verður fróðlegt að vita hvort Davíð Steinn hefur orku til að halda þessa þriðjudaga út næstu vikurnar en hann er akkúrat í skólasundi á þriðjudögum.

10.1.08

- Fyrstu kóræfingar ársins -

Söngfuglarnir mættu á fyrstu kóræfinguna á nýju ári í gær. Heimtur voru þokkalega góðar og var einn fugl að bætast í hópinn. Það hefur verið ákveðið að skella sér í leikhús um næstu helgi og sjá Skilaboðaskjóðuna en einn fuglinn leikur í því leikriti.

Fyrsta æfing ársins hjá kór óháðu kirkjunnar var í gærkvöldi. Framundan er messa n.k. sunnudag. Það var ákveðin ró yfir mannskapnum en það er samt ýmislegt í farveginum sem kannski verður greint frá síðar.

9.1.08

- Fyrsti göngusaumaklúbbur ársins -

Skrapp til tvíburahálfsystur minnar á mánudagskvöldið var. Prófaði nýja bílinn hans Davíðs í leiðinni. Sennilega er hægt að venjast bílnum en ég var hálf nervus við að prófa þennan mjög svo tölvuvædda bíl, Ford Edge, sé hálfpartinn eftir Ford Escape. En ég hef þó enn "frúarbílinn"/Fíatinn. Við "hálfsysturnar" ætluðum að byrja rólega en gönguferðin spannaði hátt í klukkutíma og svo settumst við niður með saumana í annan eins tíma. Það var mjög slakandi eftir góðan göngusprett.

6.1.08

- Gullni áttavitinn -

Við skruppum öll fjögur í bíó,seinni partinn í gær, á jólamyndina í ár. Ég gleymdi tímanum gjörsamlega. Hefði reyndar helst viljað að ekki væri neitt hlé og miðað við hvernig endirinn er þá bíð ég spennt eftir framhaldinu. Og um kvöldið festumst við Davíð við skjáinn yfir "Radio" fín mynd það líka.

5.1.08

- Að koma sér í gang -

Hugurinn er á fleygiferð, ýmist að skipuleggja alls konar uppátæki eða brjóta til mergjar sumt af því sem þegar hefur átt sér stað. Feðgarnir eru enn að hvíla sig enda að vinna í því að snúa sólarhringnum við aftur að nokkru. Strákarnir ætluðu aldrei að sofna í fyrrakvöld og annar þeirra kallaði á pabba sinn um tvö aðfaranótt föstudags. Skólinn byrjaði aftur í gær og fljótlega eftir að ég kom heim úr vinnu fór aðeins að draga af drengjunum. Annar sofnaði í stofusófanum á meðan ég las fyrir þá tvo kafla í Oliver Twist og þegar ég hætti að lesa fleygði hinn sér upp í sitt rúm og var sofnaður eftir stutta stund. Þeir fengu þó ekki að sofa mjög lengi.

Ég bauð Davíð með mér á vínartónleika í gærkvöldi. Hann lét sig hafa það en sagðist ekki myndu vilja gera svona of oft, var þó ekki frá því að það væri í lagi að fara svona einu sinni á ári. Ég skemmti mér mjög vel á tónleikunum og sit nú og hlusta á hluta tónleikana aftur í gegnum vefútvarpið en rás eitt tók upp tónleikana og sendi beint út sl. fimmtudagskvöld. Þetta er aðgengilegt á netinu næsta hálfa mánuðinn.

Á fimmtudaginn fékk ég bæði SMS og e-mail frá blóðbankanum. Ég dreif mig eftir vinnu. Það var smá bið og ég fékk mér rúsínur og djús á meðan. Blóðþrýstingurinn var í góðu lagi en þegar kom að því að stinga mig var víst erfitt að finna æð. Tilraunin misheppnaðist, æðin var bara ekki á því að gefa í þetta sinn, og það má bara stinga einu sinni. Þannig að ég verð að fresta 19. gjöfinni um amk mánuð.

2.1.08

- Gleðilegt nýtt ár! -

Það er einhver smá bloggleti í gangi hjá mér. Búin að hafa það mjög gott yfir hátíðarnar. Farið í 4 messur (söng reyndar í þremur þeirra), nokkur boð en líka legið yfir bókum heima. Ég hef nokkurn veginn sloppið við að borða yfir mig og einnig náð að passa mig að mestu á sætindunum.

Við fengum Næturvaktina í jólagjöf og eigum aðeins eftir að horfa á 3 síðustu þættina. Þetta eru mjög skemmtilegir þætti og hæfilega langir hver um sig.

Á annan í jólum skruppum við austur á Eyrarbakka. Þann 29. vorum við boðin til móðursystur minnar og dóttur hennar. Þangað mættu líka nokkrir frændur okkar og fjölskyldur og suma af þeim hefur maður ekki séð í áraraðir. Þetta var mjög góður hittingur. Um áramótin vorum við hjá Helgu systir og skemmtum okkur þar alveg til klukkan að ganga þrjú (þá var ég búin). Og í gær bauð esperantovinkona mín okkur öllum yfir en leigarinn maður hennar og Davíð hafa þekkst mjög lengi.

Segi kannski næst frá bókunum sem við fengum í jólagjöf. En ég mæli amk með Ógn eftir Þórarinn Gunnarsson og Harðskafi eftir Arnald Indriðason. Einnig fékk ég að láni Flugdrekahlauparann og gat ekki lagt hana frá mér fyrr en ég hafði lesið hana upp til agna (eða næstum því, las hana í tveimur rykkjum um síðustu helgi).