30.9.22

Teboð í Apótekinu

Fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun þar sem það var grenjandi rigning. Fram að kaffi var ég frammi í skrifstofurýminu m.a. að undirbúa pökkun. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann á vélinni. Allri daglegri framleiðslu var lokið rétt rúmlega tólf. Eftir hádegi fóru þær tvær sem byrjuðu á vélinni um morguninn aftur á vélina að vinna að endurnýjun. Voru að til klukkan langt gengin í fjögur. Þær eru báðar með TEAMS í símanum og gátu fylgst með sviðsfundi frá klukkan þrjú þrátt fyrir að vera að vinna að framleiðslu. Við hinar sátum við skjáina okkar. Um fjögur löbbuðum við yfir á Apótekið þar sem við hittum næstráðandi yfirmann okkar. Vorum að halda upp á að búið er að flokka öll kennispjöld og þau verða brátt öll farin frá okkur. Kom heim upp úr klukkan sex. Strákarnir komu mun seinna en þeir höfðu boðið einum frænda sínum og hans fjölskyldu með sér út að borða á einhverjum stað í Kringlunni.

29.9.22

Fimmtudagur

Labbaði í vinnuna upp Eiríksgötu og yfir Skólavörðuholtið í gærmorgun. Var á ítroðsluendanum fram að kaffi og þurfti að byrja á því að skipta um aðgangsorð á vélinni. Það gekk upp í fyrsta. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann. Framleiðslan gekk vél og vélin með sama og ekkert vesen. Kerfisfræðingarnir þurftu stundum að yfirtaka vélina en það var oftast bara tölvuparturinn og þá máttum við halda áfram með okkar verkefni á meðan. Eftir hádegi pakkaði ég því síðasta sem ópakkað var en svo var ég annað hvort að lesa eða prjóna þar til tími var kominn til að hætta vinnu. Fékk far heim úr vinnunni. Strákarnir voru í Sorpuferð og ég ákvað bara að halda mig heimavið.

28.9.22

Sundferð

Það sem himininn var fallegur í gærmorgun þegar ég var á leiðinni akandi í vinnuna. Velflestir vinnufélagarnir höfðu orð á þessu. Ég var í skrifstofurýminu ásamt tveimur öðrum fram að kaffi. Lítið var fyrir mig að gera svo sem betur fer var ég með bók og prjóna með mér. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Vélin var þokkaleg til að byrja með en vildi fljótlega fara að láta sinna sér. Í flestu tilfellum þýddi það að taka varð kortin úr henni framan við svæðið þar sem þau koma venjulega. Þetta reynir svolítið á þolinmæðina en þeir sem koma að gera við eða fara yfir vélina eru búnir að sjá þetta og segjast vera búnir að gera allt sem þeim dettur í hug svo þeir koma ekki að kíkja aftur fyrr en allt stoppar alveg. En þetta tefur okkur í framleiðslunni og það er ekki gott þegar maður er með endurnýjanir sem þarf að klára og koma frá okkur. Eftir hádegi var ég í sömu stöðu og um morguninn. Öllum verkefnum lokið nema framleiðslu sem aðrar tvær sáu um. Þær hættu um þrjú vegna leiðinda í vélinni. Ég fór beinustu leið í Laugardalslaugina eftir vinnu. Synti 400 metra, 350 á bakinu og 50 skriðsund. Var nýbúin með mína fyrstu ferð í kalda pottinum og sat í þeim heitasta þegar kalda potts vinkonan mætti. Saman fórum við fimm ferðir í kalda pottinn og enduðum svo í gufunni. Að þessu sinni fór ég upp úr á undan og þvoði mér um hárið í leiðinni. 

27.9.22

Sjóbað

Vaknaði við hamaganginn í vekjaraklukkunni stuttu fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun. Davíð Steinn var að sinna sínum morgunverkum á baðherberginu þannig að ég fór beint á netið þegar ég kom á fætur og fram. Tuttugu mínútum síðar sinni ég mínum morgun verkum og labbaði svo fljótlega af stað í vinnuna. Ég var í bókhaldinu í gær. Það starf gekk vel en mín verkefni voru búin rétt upp úr hádeginu. Sem betur fer var ég bæði með bók og prjóna. Felldi enn eina tuskuna af prjónunum og fitjaði að sjálfsögðu upp á nýrri. Rúmlega tvö varð ég samferða einni af hinum upp í K2 þar sem við kortagerðarteymið áttum markmiðsfund með yfirmanni. Fundurinn var skráður frá 14:30-16 en stóð aðeins yfir í klukkutíma því okkur gekk svona ljómandi vel á fundinum. Ég fékk far með annarri heim. Staldraði stutt við þar, var komin í Nauthólsvík upp úr klukkan fjögur. Sjórinn 8,8°C og að flæða að, engin fleiri úr sjósundshópnum mínum en ég svamlaði um í sjónum í tæpar tuttugu mínútur og sat svo í heita pottinum í rúman hálftíma. Kom við í Fiskbúð Fúsa og Krambúðinni áður en ég fór heim. 

26.9.22

Líður á mánuðinn

Var komin á fætur um níu í gærmorgun, lokað inn til strákanna svo þeir höfðu skilað sér heim. Gærdagurinn var mjög svipaður laugardeginum, fór ekkert en las, prjónaði, vafraði um á netinu og horfði á hina og þessa þættina. Hafði ofnsteiktar kjúklingabringur í matinn og gátu báðir bræðurnir nýtt sér það. Var búin að slökkva á sjónvarpinu um níu og komin upp í rúm ca 40 mínútum seinna. Las til klukkan hálfellefu og var svo fljót að sofna. 

25.9.22

Hraðferð á logninu í nótt

Ég var ekkert að drífa mig á fætur í gærmorgun. Rumskaði nokkrum sinnum en snéri mér svo jafnharðan á hina hliðina. Var þó komin á fætur áður en klukkan varð tíu. Þá var ég búin að ákveða að halda mig heimavið. Er með smá kvef, alls ekkert slöpp en löt. Nennti þó að lesa og prjóna. Kláraði seinni bókina af þeim tveimur sem ég á að skila næst; Uppgjör eftir Lee Child. Er svo byrjuð á fyrri bókinni af þeim tveim sem ég tók í síðustu ferð á safnið; Mávurinn eftir Ann Cleeves. Lánaði bræðrunum bílinn um miðjan dag og þeir voru ekki komnir þegar ég fór að sofa á ellefta tímanum. Ég sofnaði alveg róleg fyrir því. 

24.9.22

Sofið út

Föstudagar eru að verða fastir "fara á bílnum í vinnuna" dagar og það var engin undantekning á því í gærmorgun. Ég var á móttökuendanum fram að kaffi. Í skrifstofurýminu og pökkun fram að hádegi og á ítroðsluendanum eftir hádegi. Unnum til klukkan rúmlega hálfþrjú en hættum áður en vélin hætti að vera of samvinnuþýð. Reyndar var slökkt á henni í rúman hálftíma í hádeginu og vel gekk fyrsta klukkutímann eftir hádegi. Endurnýjun gengur hvort eð er alveg ágætlega, ein farin frá okkur og hátt í þriðjungur búinn af þeirri sem er í vinnslu núna. Var með sjósundsdótið með mér í skottinu en þar sem ég var búin að lofa að hitta sjósundsvinkonu mína um hálffimm byrjaði ég á því að skreppa aðeins heim og fá mér eitthvað smávegis. Bræðurnir voru farnir í gæslu á Víkingsvellinum þar sem landsleikur U-21 karla í knattspyrnu hófst um fjögur. Ég var mætt í Nauthólsvík aðeins á undan vinkonu minni en beið eftir henni. Var kannski komin tveimur mínútum á undan út í 8,8°C sjóinn. Það var að falla að og stutt að vaða út í. Svömluðum um í ca tíu mínútur, ég þá í tólf og vorum svo annað eins í heita pottinum. Létum okkur hverfa áður en húlumhæið "strandsúmba" hófst.

23.9.22

99 dagar eftir af árinu

Í gærmorgun labbaði ég yfir Klambratún, Gunnarsbraut, Laugaveg og nokkrar aðrar götur í vinnuna. Ég var í skrifstofurýminu fram að kaffi. Undribjó pökkun og aðstoðaði svo þá sem var í bókhaldinu að telja þegar fyrstu framleiðslu var lokið og tölur tilbúnar. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann. Kláruðum næstu framleiðslu og byrjuðum svo á debetendurnýjun á meðan við biðum eftir hádegistölunum. Eftir hádegi var ég aftur í skrifstofurýminu en tilbúin til að leysa af inni á vél ef þurftu. Það þurfti samt ekki nema einu sinni í kannski tíu mínútur. Fékk far heim úr vinnunni um hálffjögur. Oddur Smári var þá búinn að taka saman í Sorpuferð. Ég var hvort sem er ekki í stuði til að fara aftur út og var búin að upplýsa kaldapotts vinkonu mína um að líklega kæmi ég ekkert í sund þennan daginn. 

22.9.22

"Lengsta leiðin löbbuð í gær"

Tíu mínútum fyrir sjö var ég tilbúin að leggja af stað í vinnuna í gærmorgun svo ég ákvað að labba út Eskihlíð, meðfram flugvellinum, Hljómskálagarðinn og Lækjargötuna að Kalkofnsvegi. Þetta tók mig þrjú korter og voru 3,8km og yfir 5000 skref. Við vorum allar mættar til vinnu og gátum því loksins opnað og gætt okkur á innihaldi ostakörfu sem okkur var gefin rétt fyrir síðustu helgi. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Milli tveggja daglegra verkefna kláruðum við smá hluta af annarri endurnýjuninni sem er í gangi. Eftir hádegi var ég í skrifstofurýminu tilbúin að leysa af á vélinni. Var einu sinni beðin um afleysingu rétt á meðan sú samstarfskona mín skrapp á prívatið. Á þeim tímapunkti var vélin með svolítið vesen þannig að ég tók eiginlega ekki á móti mörgum kortum en þurfti að handsetja nokkur í umslög og loka. Fékk far heim úr vinnunni en fór ekkert aftur út svo bíllinn er enn þar sem ég lagði honum í Blönduhlíð hinum megin við Lönguhlíð þegar ég kom heim úr vinnu og sundi á þriðjudaginn var. 

21.9.22

Á bílnum

Notaði bílinn til að flytja mig til vinnu í gærmorgun. Var í bókhaldinu. Vorum fjórar í vinnu. Bókhalds og talningastörfunum lauk fljótlega eftir hádegi en unnið var á vélinni til klukkan hálffjögur. Ég var bæði með bók og prjóna með mér og las alveg slatta. Eftir vinnu fór ég beinustu leið í sund. Mér fannst of margir í kalda pottinum þannig að aldrei þessu vant fór ég beint í heitasta pottinn og þar hitti ég kalda potts vinkonu mína. Hún var búin að fara eina ferð í kalda og saman fórum við fimm ferðir í hann. Kom aðeins við í Hagkaup í Skeifunni áður en ég fór heim eftir sundið. 

20.9.22

Bókasafnsferð

Vaknaði upp úr klukkan sex. Um sjö labbaði ég af stað í vinnuna. Vorum fjórar, ein í fríi. Ég var því á ítroðsluendanum fram að kaffi og á móttökuendanum eftir kaffi. Eftir hádegi höfðum við vélina aðeins til klukkan tvö því kerfisfræðingurinn og viðgerðarmaðurinn voru búnir að panta hana í afritunarmál. Ég fékk far heim úr vinnunni og var komin þangað milli hálfþrjú og þrjú. Klukkutíma seinna skrapp ég á bókasafnið í Kringlunni, skilaði þremur bókum og tók tvær aðrar í staðinn. Síðan lá leiðin í Nauthólsvík. Var komin út í sjó korter yfir fjögur korteri á undan tveimur af sjósundsvinkonum mínum. Ég svamlaði um í rétt rúman hálftíma í 9,9°C sjónum. Varð ekki vör við neina mengun. Kom heim aftur um hálfsex og setti strax nokkur handklæði í þvottavélina sem ég svo hengdi upp rúmum tveimur tímum seinna. 

19.9.22

Aðeins eitt skutl í gær

Ég var komin á fætur stuttu fyrir klukkan átta. Rúmum klukkutíma síðar skutlaði ég Davíð Steini upp á Gagnveg og fór svo beinustu leið í Laugardalslaugina. Var akkúrat að koma upp úr fyrstu ferðinni í kalda pottinn þegar vinkona mín mætti á svæðið. Fórum í heitasta pottinn og svo sex ferðir í kalda. Alltaf þann heitasta á milli en eftir síðustu ferðina í kalda fórum við í gufu. Sátum þar góða stund og ég aðeins lengur. Ég fór svo í kalda sturtu og aðeins í sjópottinn áður en ég fór áttundu ferðina í þann kalda. Sat smá stund úti á stól áður en ég dembdi mér í laugina og synti 300 metra þar af 1x50 skriðsund, allt hitt á bringunni. En já, ég náði alla leið yfir að þessu sinni. Var komin heim rétt rúmlega tólf. Afganginn af deginum notaði ég í lestur, prjón, fótbolta- og körfuboltaáhorf og einnig smá vafr á netinu. 

18.9.22

Tvö skutl í gær

Vaknaði um hálfsjö í gærmorgun. Þremur korterum seinna skutlaði ég Davíð Steini upp á Gagnveg. Það var þónokkur þoka í efri byggðum og við mæðgin grínuðumst með það hvort við myndum nú finna stöðina hans og ég svo rata til baka. Við fundum þetta nú auðveldlega og fékk ég kaffi í máli með loki út í bíl. Kom við hjá AO við Sprengisand og fyllti á tankinn. Þar er 95 oktana bensínið komið undir 300 kr. líterinn. Síðan lá leiðin í Sundhöllina. Það voru 4 ferðir í kalda pottinn, 200 metra bringusund, ein ferð í heitasta pottinn, ein í langpottinn á útisvæðinu og ein ferð í gufuna. Þessi rútína tók mig næstum einn og hálfan tíma.

Um hálfeitt skutlaði ég Oddi Smára upp á Víkinsgvöll. Hann var búinn að taka að sér gæslustörf á leik Víkinga og KR í einum leik síðasta umferðar bestu deildar karla í knattspyrnu. Skildi hann eftir ca tuttugu mínútum fyrir eitt og fór sjálf vestur í bæ í heimsókn til norsku esperanto vinkonu minnar. Við sátum út á svölum hjá henni í blíðviðrinu í á annan tíma. Var komin heim aftur upp úr klukkan þrjú.

17.9.22

Á skutlvaktinni

Var komin á fætur um hálfsjö í gærmorgun. Fór aftur á bíl í vinnuna. Vann á móttökuendanum fram að kaffi. Eftir kaffi var ég í pökkun. Ég tók styttingu vinnuvikunnar og fór heim á hádegi. Um þrjú var ég komin í sund í Laugardalslauginni. Synti 300 metra á bakinu og í seinni ferðinni í kalda pottinn hitti ég á kaldapotts vinkonu mína. Ég fór svo beint upp úr að þvo á mér hárið og var komin á stofuna til klippara míns rétt fyrir fjögur. Hann klippti sentemeter neðan af hárinu, þurrkaði og dedúaði við það. Keypti af honum sjampó og festi næsta tíma eftir hálft ár áður en ég fór heim aftur að horfa á undanúrslit EM karla í körfu.

16.9.22

Á bakaraíisbókaravaktinni í gær

það var vekjarinn sem ýtti við mér í gærmorgun. Hafði samt góðan tíma til að vafra aðeins um á netinu því ég fór svo á bílnum í vinnuna. Kom við í Bernhöfstbakaríi við Skúlagötu til að útvega brauð og fínerí með "föstudagskaffinu" síðar um morguninn. Framleiðsla var ekki mikil og bara þessi daglega.  Henni lauk upp úr hálftólf og það var búið að telja alla vagna og loka inni í lagerhvelfingu um tólf. Fjórar af okkur fimm vorum í vinnu til klukkan eitthvað gengin í tvö en sú fimmta fór fyrr heim í "styttinig" (stytting vinnuvikunnar, hálfur dagur einu sinni í mánuði). Ég var með sunddótið með mér í bílnum en þar sem ég var búin að mæla mér mót við kaldapotts vinkonu mína um fjögur skrapp ég heim fyrst í rúman einn og hálfan tíma. Var komin í Laugardalinn rétt fyrir fjögur og búin í minni fyrstu ferð í kalda þegar vinkona mín mætti. Saman fórum við sex sinnum í þann kalda og okkar annarri ferð bættist dóttir hennar í hópinn. Eftir sjöundu ferðina mína í kalda fórum við allar í gufu í rúmt korter. Mægðurnar fóru svo aðeins í saltpottinn en ég settist á bekk um stund eftir kalda sturtu. Settist svo aðeins í 42°C pottinn áður en ég fór upp úr. Kom við í KFC á leiðinni heim og einnig í vínbúðinni í Skeifunni. Á seinni staðnum keypti ég tvær 500 ml hvítvínsflöskur. Notaði þær þó ekki í gær því meiningin er að nota þær næstu skipti sem ég hef fisk í matinn.

15.9.22

Körfuboltaáhorf

Var komin á fætur upp úr sex og labbaði af stað í vinnuna um sjö, yfir Klambratúnið og þá leiðina. Ég var í skrifstofurýminu fram að kaffi og þar sem sú sem var í bókhaldinu var að fara á fund tók ég að mér að "kalla" eftir því að endurnýjunin í gluggaumslögunum yrði sótt til okkar í póst. Það gekk vel. Eftir kaffi fór ég á móttökuenda vélarinnar. Korter yfir ellefu var sú sem var með mér á ítroðsluendanum leyst af svo hún kæmist í skólann. Smá vesen var á vélinni á þessum tíma en daglegri framleiðslu lauk samt rúmlega tólf. Öll endurnýjun er búin í bili svo hægt var að slökkva á vélinni og ganga frá. Eftir hádegi héldum við smá fund um fundinn sem bókarinn og fyrirliðinn var á um morguninn. Fundurinn var um tilvonandi flutninga. Fékk far heim úr vinnunni um hálfþrjú. Bræðurnir voru í sorpu og verslunarferð en komu fljótlega heim. Þá var ég hins vegar dottin í að fylgjast með þriðja leik af fjórum í átta liða úrslitum EM í körfubolta og beið svo spennt eftir síðasta leiknum. Ég veit eiginlega ekki hvað er komið yfir mig varðandi þetta körfuboltagláp því sú var tíðin að mér fannst þetta sport leiðinlegt að horfa á. Hringdi bæði í pabba og Ellu vinkonu. Eftir seinni körfuboltaleikinn fór ég smá stund í tölvuna en horfði svo á einn þátt úr sarpi sjónvarps símans. Klukkan var orðin tíu þegar ég fór upp í en ég gaf mér samt tíma til að lesa í rúmlega hálftíma. 

14.9.22

Vikan hálfnuð

Rumskaði stuttu fyrir sex og fór fljótlega á fætur. Hafði því góðan tíma til að vafra aðeins um á netinu eftir morgunverkin á baðherberginu. Labbaði af stað í vinnuna um sjö, upp Eiríksgötu og niður Skólavörðustíg. Vorum fjórar mættar. Ein tók styttingu vinnuvikunnar fyrir hádegi og önnur tók styttingu eftir hádegi. Ég var á ítroðsluendanum fram að kaffi og á móttökuendanum til hádegis. Þær tvær sem voru á vélinni eftir hádegi ákváðu að klára að framleiða þessi 900 kort sem eftir voru í endurnýjuninni. Vélin var eitthvað með stæla og þegar ég fékk að fara heim rétt fyrir fjögur voru amk 100 kort eftir í framleiðslu. Ég var ekki í stuði til að labba heim og hringdi í einkabílstjórann sem sótti mig við Sólfarið. Klukkan var orðin hálffimm þegar við komum heim. Ég kveikti á sjónvarpinu og horfði á restina á fyrsta leikinn í átta liða úrslitum í EM í körfu karla. Um hálfsjö hófst svo seinni leikur dagsins. Hinir tveir leikirnir eru á sömu tímum í dag. 

13.9.22

Þriðjudagur

Vaknaði upp úr klukkan sex. Labbaði af stað í vinnuna rétt fyrir sjö. Við vorum allar fimm mættar. Ég var ein af þeim sem var frammi fram að kaffi en fór á móttökuendann eftir kaffi fram að hádegi. Ein tók styttingu vinnuvikunnar frá klukkan tólf. Ég fór því aftur á vélina eftir hádegi. Þá vorum við að vinna að endurnýjun. Það gekk vel til að byrja með en milli tvö og þrjú var bras að vinna við þetta. Ákváðum að hætta um þrjú og ganga frá vélinni og deildinni. Ég fékk far heim úr vinnu. Í stað þess að taka til sjósundsdótið og skreppa í Nauthólsvík skruppum við Oddur í Krónuna við Fiskislóða að versla. Hann sá um akstur og frágang. 

12.9.22

Mánudagur

Ég var vöknuð upp úr klukkan átta í gærmorgun og komin á fætur skömmu síðar. Pabbi kom fram á svipuðum tíma. Dagurinn fór í körfuboltaáhorf, prjónaskap, lestur, kapallagnir, netvafr og fleira. Veðrið yndislegt en tíminn leið helst til hratt. Hellti mér upp á kaffi um tíu en við pabbi slepptum svo síðdegiskaffinu og vorum með grill í matinn um fimm. Klukkutíma eftir það kvaddi ég og brunaði í bæinn. Fékk stæði fyrir framan hús.

11.9.22

Sunnudagur

Fór á fætur rétt fyrir klukkan níu í gærmorgun. Tók utan af sæng og kodda og setti hreint á í staðinn og að sjálfsögðu hreint lak líka. Var mætt í Sundhöllina um tíu. Eftir fyrri ferðina í kalda pottinn hefði ég getað valið um þrjár brautir af fjórum í útilauginni en ég ákvað að fara í innilaugina og fékk að synda óáreitt á braut eitt í tuttuguogfimm mínútur, flestar ferðirnar á bakinu en þó 3x25 m skriðsund. Kom aðeins við í heitasta pottinum áður en ég fór í seinni ferðina í kalda pottinn. Settist svo í smástund á bekk áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Var komin heim aftur um hálftólf. Gekk frá sunddótinu, fékk mér smá hressingu áður en ég kláraði að pakka niður fyrir helgina. Vakti Odd til þess að kveðja hann og lagði svo af stað austur rétt áður en hádegisfréttirnar byrjuðu í útvarpinu. Að þessu sinni ákvað ég að athuga hvort ég rataði örugglega ekki ennþá upp í Guttormshaga. Þangað var ég komin um hálftvö og hitti fleira fólk en heimilisfólkið. Sem betur fer var ég ekki fyrr á ferðinni því þá hefði ég hitt um fimmtíu ættingja Óla og fjölskyldu. En ég hitti á alla syni hans, tengdadætur og börn. Yngsti sonurinn býr reyndar á staðnum í eigin húsi og hann og mamma hans reka búið í félagi. Stoppaði í um tvær klukkustundi áður en ég hélt för áfram á Hellu. Pabbi var heima en Bríet hjá og með kæró. 

10.9.22

Húsfélagsbankamál

Aftur fór ég á bíl í vinnuna. Byrjaði á ítroðsluendanum og færði mig svo yfir á móttökuendann eftir morgunkaffi. Eftir hádegi var ég í talningum með þeirri sem var í bókhaldinu og svo vorum við að merkja nýjustu kortasendingarnar og raða þeim upp í hillur inn á lager. Hættum vinnu um hálfþrjú. Ég fór beinustu leið í bankann og það kom í ljós að það var það réttasta í stöðunni. Það sem er líklegast er að síðan það var skipt um kerfi hef ég einfaldlega ekki þurft að borga út af hússjóðsreikningnum og það er samt svo langt síðan að leyfið var útrunnið og þurfti endurnýjunnar við. RSA virkaði í skýinu í símanum mínum en í fyrirtækjabankanum var lykillinn ótengdur. Það tók enga stund að tengja þetta og sú sem hjálpaði mér benti mér á að það væri í lagi að pinnið væri það sama og leyninúmerið út af reikningnum. Síðan lá leiðin í Nauthólsvík í rigningu en samt fínu veðri og ekki var verra að það var að flæða að. Tuttugu mínútum yfir þrjú voru fjögur skref frá enda "brúarinnar" og út í sjó. Þegar ég fór upp úr tuttugu mínútum síðar voru engin skref því sjórinn náði að brúnni. Kannski er þetta ekki beint brú en þetta liggur frá brún yfir stórurðina og niður í sandinn neðst við grjótið. Kom heim upp úr klukkan hálffimm. Klukkutíma síðar eða svo endurgreiddi mér það sem ég lánaði húsfélaginu mínu um daginn, helminginn af slætti sumarsins. Það gekk í fyrsta og var lítið mál. Ég varð svo glöð yfir þessu að ég ákvað að bjóða einkabílstjóranum með mér á Pítuna. N1 sonurinn var skroppinn út úr bænum svo hann missti af þessu boði. Á pítunni fékk ég mér svo hvítvínsglas með matnum þar sem ég var með bílstjóra.

9.9.22

Vinnuvikulok í dag

Ég fór á bílnum í vinnuna í gær. Vorum allar fimm á svæðinu og fram að kaffi vann ég í skrifstofurýminu. Eftir kaffi fór á á ítroðsluendann á vélinni. Um hádegið þurfti ein af okkur að fara heim vegna magaverkja. Sú átti að vera á vélinni en ég leysti hana af í staðinn. Var í vinnu til fjögur en fór þá beinustu leið í Laugardalslaugina og hitti kaldapotts vinkonu mína í sinni annarri ferð í kalda pottinum. Fórum fjórar aðrar ferðir og svo endaði ég á góðu gufubaði áður en ég fór upp úr og heim. Ekkert stæði var í götunni minni en ég fann svo stæði á horninu á Blönduhlíð hinum megin við Lönguhlíð.

8.9.22

Viðeyjarferð með vinnufélögum

Labbaði sömu leið í vinnu í gærmorgun og í fyrradag. Ég var í bókhaldinu. Tvær voru að koma úr fríi og önnur tók sér frí fram að hádegi. Þannig að eftir hádegi vorum við allar fimm mættar í vinnu. Framleiðsla gekk ágætlega og það náðist að klára allt auka líka sem og að telja kortasendinguna. Um hálffjögur fékk ég far með einni upp í K2. Þaðan löbbuðum við yfir í Arion banka þar sem við hlýddum á þrjár kynningar og eitt uppistand frá Sögu Garðars. Um fimm fékk ég far með annarri úr kortadeildinni niður á Skarfabakka. Þrjár af okkur fimm tókum fyrri ferðina yfir í Viðey ásamt slatta af vinnufélögum úr K2. Hinar tvær úr okkar deild voru búnar að lofa sér annað. Þegar allir voru komnir út í eyju tók sagnfræðingurinn Stefán Pálson okkur í smá leiðsögn um staðinn. Byrjuðum fyrir framan kirkjuna en við löbbuðum einnig yfir þar sem gamla þorpið stóð. Stoppuðum 3 á leiðinni og svo einu sinni í bakaleiðinni áður en við fórum niður í Samkomusalinn þar sem við fengum að borða. Það sem veðrið var gott. Stefán sagðist aldrei hafa komið í eyjuna í svona góðu veðri. Fyrri ferðin til baka var klukkan níu og við vinnufélagarnir úr kortadeildinni tókum hana. Önnur þeirra skutlaði mér svo heim. Allt í allt labbaði ég rúmlega 15.000 skref í gær.

7.9.22

Svo grátlega nálægt

Í gærmorgun labbaði ég í vinnuna upp Eiríksgötu og niður Skólavörðustíg. Var á móttökuendanum á vélinni fram að kaffi. Leysti svo þann enda aftur af skömmu fyrir klukkan hálftólf. Eftir hádegi fór ég á ítroðslulendann. Hinar tvær sem ekki voru á vélinni komu fljótlega inn með tvo fulla vagna af innsigluðum pokum með kortasendingum í og opnuðu og töldu þar til klukkan var orðin rúmlega hálffjögur. Ákváðum að hætta vinnu þá. Ca 200 kort eftir af því sem verið var að vinna að á vélinni og eftir að opna einn eða tvo poka af sendingunni. Ég fékk far heim úr vinnunni og fór svo beinustu leið í Laugardalinn. Hitti kaldapotts vinkonu mína eftir fyrstu ferðina í þann kalda. Hún var mætt og búin að fara eina ferð í kalda en hafði svo verið í sólbaði á meðan hún beið eftir mér. Saman fórum við fimm ferðir í kalda og annað eins í heita. Ég endaði svo á því að sitja í gufunni í tæpt korter áður en ég fór upp úr og heim að horfa á landsleikinn. Sá var spennandi en sennilega voru úrslitin sanngjörn þrátt fyrir að sigurmark Hollendinga kæmi ekki fyrr en í uppbótartíma í blálokin. Sandra varði mjög vel í markinu og stelpurnar börðust eins og ljón um allan völl en áttu þó ekki nema 2 færi á meðan þær hollensku áttu yfir 20 færi. 

6.9.22

Vinnudagur í lengri kantinum

Vaknaði upp úr klukkan sex. Tæpum klukkutíma síðar labbaði ég í vinnuna þvert yfir Klambratúnið og þá leiðina. Vorum þrjár í vinnu, tvær í fríi. Það hafði greinilega tekist að taka tappann úr framleiðslunni því það voru yfir 2440 debetrkort til framleiðslu og þar af um 2200 bara fyrir einn banka. Kredit framleiðslan var hátt í 200 í öðru tilvikinu og rúmlega hundrað í hinu svo í gær voru framleidd í kringum 2800 kort. Framan af gekk ágætlega en eftir hádegi var mikið hjakk stundum þegar kortin stoppuðu á formunum rétt áður en þau áttu að koma út og þurfti að handsækja þau. Ég er viss um að ef ekki um neitt svoleiðis stopp hefði verið að ræða hefðum við klárað klukkutíma fyrr. Þar að auki var loksins komið að því að farga ónýtu plasti frá apríl til og með júlí. Tvær komu á staðinn og hinar tvær sem voru að vinna með mér þurftu líka að sjá um það. Ég fékk leyfi til að tjónka ein við vélina á meðan en það var haft opið á milli herbergja á meðan. Klukkan var að verða hálfsex þegar allt var loksins búið, förgunin stóð yfir í hálftíma, framleiðslu lauk rétt fyrir fimm. Þá átti eftir að ljúka við að pakka og telja síðasta vagninn. Ég fékk far heim úr vinnunni og skrópaði svo í sjóinn þriðja mánudaginn í röð. 

5.9.22

Veðurblíða dag eftir dag

Var vöknuð og komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Um níu kom Davíð Steinn fram og skömmu síðar skutlaði ég honum upp á Gagnveg. Hann hafði á orði að honum sýndist vanta smá loft í hægra framdekkið. Það var ekki byrjað að kvarta í mælaborðinu en þegar ég athugaði þrýstinginn á dekkjunum sem eru stillt á 32" vantað ca 1" á hin þrjú en 4" á hægra framdekkið. Eftir að hafa jafnað þrýstinginn fór ég í Grafarvogslaug. Þar fór ég fjórum sinnum í kalda, synti 350m, fór einu sinni í gufu, einu sinni í heitasta pottinn og tvisvar settist ég á bekk. Var komin heim aftur um hálftólf. Dagurinn fór í prjónaskap, fótboltaáhorf og netvafr. Engir strengir voru eftir berjatínsluna en ég var löt að nýta mér góða veðrið ekki betur. 

4.9.22

Ævintýri laugardagsins

Vaknaði um sex leytið. Fór fljótlega á fætur og eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég í stofusófann með fartölvuna í fanginu þar til N1 sonurinn var tilbúinn sem var ca klukkutíma síðast. Skutlaði honum upp á Gagnveg rétt fyrir hálfátta og þáði kaffi til að taka með mér í staðinn. Kom við í AO við Sprengisand og ákvað svo að fara í Laugardalslaugina. Þótt ekki væru mjög margir fannst mér samt lítið pláss á brautunum til að byrja með. Fór tvisvar í kalda og tvisvar í heitasta áður en ég settist um stund á einn bekkinn. Svo losnaði braut númer tvö og ég var búin að synda 100 metra á bakinu þegar ég fékk félagsskap. Synti 200 í viðbót áður en ég fór aftur í kalda, þaðan í gufu, svo kalda sturtu, smá stund fjórðu ferðina í kalda og settist svo á stól í nokkrar mínútur áður en ég fór inn í klefa og þvoði mér um hárið. Rétt hafði tíma til að fara heim með sunddótið, ganga frá því og skipta um skó. Fór í strigaskóna mína. Var komin á Sólvallagötuna um hálfellefu. Þar beið mín hafragrautur og kaffi. Klukkan var ekki orðin ellefu þegar við vinkonurnar fórum með nesti og tómar fötur út í bíl og lögðum af stað út úr bænum. Keyrðum í gegnum Mosfellsbæ og beygðum og keyrðum í átt að Þingvöllum alveg þar til kom að skiltinu sem vísaði inn í Hvalfjörð. Stoppuðum út í kanti rúmlega kílómeter frá afleggjaranum og fundum strax ber. Aðallega væn krækiber en eitt og eitt bláber líka. Vorum ekki með berjatínur en mér var sama um það. Tíndum líklega í þrjú korter áður en við fengum okkur af nestinu, smurðar flatkökur og ég fékk kaffi með því. Svo ákváðum við að halda ferð áfram. Fórum inn í Hvalfjörð, alla leið inn í Brynjudal. Þar var eitthvað af fólki í berjamó en nóg af krækiberjum fyrir alla sem vildu. Það endaði með því að ég fleygði mér flatri við eina lyngbreiðuna og þar fannst mér sem væri endalaust af berjum. Þarna vorum við líklega hátt í tvo tíma áður en við kölluðum þetta gott þrátt fyrir að fylla ekki föturnar alveg. Keyrðum áfram fyrir Hvalfjörðinn og alla leið á Akranes. Rúntuðum aðeins um bæinn en stoppuðum svo stutt frá fótboltavellinum, Guðlaugu og ströndinni og afganginn af nestinu. Drukkum vatn með. Síðan löbbuðum við aðeins um. Næst gerðum við stopp á N1 þar sem við fengum að fara á salerni. Ég keypti mér svo bolla af kaffi og Inger bauð upp á ís í brauðformi. Þessu gerðum við skil á bekk fyrir utan. Það sem veðrið lék við okkur. Komum í bæinn um hálfsex og Inger bauð mér upp á að borða með sér af grænmetissúpu sem hún átti. Klukkan var því langt gengin í sjö þegar ég kom heima aftur eftir þessi ævintýri dagsins. 

3.9.22

Á skutlvaktinni

Þrátt fyrir ágætis veður (reyndar svolítið hraðferð á logninu) og aðeins einn vinnugöngutúr í vinnuna fór ég enn og aftur á bílnum. Að þessu sinni var ég með sjósundsdótið meðferðis í skottinu. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni og þar sem við vorum aðeins þrjár stóð ég vaktina þar, þar til framleiðslu var lokið. Viðgerðarmaðurinn komst ekki á svæðið í fyrradag en þær gátu klárað framleiðslu og í gær hagaði vélin sér einstaklega vel. Aðeins tvisvar þurfti að dextra örlítið við hana. Sú sem var á móttökuendanum tók til og taldi í framleiðslutegundirnar. Ég taldi aftur áður en ég setti af stað en láðist að skoða kortin. Yfirleitt kemur það ekki að sök en í gær varð það til þess að það eyðilögðust 107, ein tegund framleiddist fyrst á rangt plast. Sem betur fer uppgötvaðist málið við talningu og það var endurframleitt á rétt plast þannig að þetta fór ekki frá okkur vitlaust. Daglegri framleiðslu var lokið um tólf. Eftir hádegi hjálpaði annar kerfisfræðingurinn mér að taka tappann úr tveimur síðustu tegundunum sem eru búnar að vera í haldi frá því í fyrstu viku síðasta mánaðar. Það er komið plast. Á vélinni bíður líka endurnýjun plasta sem runnu úr gildi um síðustu mánaðamót. Og svo á eftir að keyra til okkar þau kort sem hefðu átt að koma til endurnýjunar um miðjan síðasta mánuð og renna úr gildi um næstu mánaðamót. Tappinn kom í veg fyrir að skrárnar kæmu í gegn sem er alveg eins og það á að vera því við viljum helst ekki geyma svona lengi á vélinni og þurfa að "klippa" frá þeim kortum sem mega endurnýjast. Hætti vinnu um hálfþrjú og fór beinustu leið í Nauthólsvík. Þar var að fjara út, sjórinn 10,4°C og dásamlegt að svamla um. Var út í í uþb hálftíma. Kom heim upp úr klukkan fjögur og beið spennt eftir landsleiknum sem var hin mesta skemmtun. Oddur sótti bróður sinn í vinnuna um hálfátta og þeir komu við hjá KFC á heimleiðinni.

2.9.22

Örstutt skýrsla yfir gærdaginn

Fór enn og aftur á bílnum í vinnuna því ég ætlaði að fá að hætta snemma og skreppa í bankann. Ég var í bókhaldinu og mánaðamótafrystingum. Debetdagsframleiðslan var í stærra lagi vegna þess að tekist hafði að taka tappann úr þremur tegundum af fimm fyrir einn bankann. Tappinn var búinn að vera í síðan fyrri partinn í ágúst og safnast höfðu upp um 700 kort. Vélin fór að vera með mikil leiðindi í framleiðslunni rétt fyrir hádegi. Þegar ég fékk að fara um hálfþrjú var verið að bíða eftir viðgerðarmanni og það átti eftir að framleiða fyrir einn bankann. Bankamálin gengu fljótt og vel fyrir stig. Kom því snemma heim og bræðurnir gátu skroppið saman í Sorpu og verslunarferð. 

1.9.22

Glænýr mánuður

Var vöknuð og komin á fætur korter-tuttugu mínútum yfir sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég niður í stofu með fartölvuna í fanginu og vafraði um á netinu þar til kominn var tími til að bruna í vinnuna. Mætti fyrst á svæðið og komst að því að ekki hefði tekist að taka tappa úr þremur tegundum. Ég var frammi í skrifstofurými að undirbúa pökkun og fleira fram að kaffi. Sá sem fjarstýrði mér í fyrradag hafði samband og hjálpaði mér við að laga tappamálið. Höfðum uppfært ranga skrá í fyrradag. Ég fór inn á vél eftir kaffi og fram að hádegi klárðuðum við allt daglegt og einnig endurnýjun. Eftir hádegi fórum við í að raða flokkuðum kennispjöldum fyrir einn aðila á bretti. Tæplega hundraðogsextíu kassar á fimm bretti og plasti vafið utan um þá til að halda þeim saman. Þegar við fórum yfir geymsluna til að kanna hvort við værum með alla kassa fundum við einn óflokkaðan kassa á gólfi inn í horni undir nokkrum af kössum sem eru frá því að við byrjuðum að flokka kennispjöldin eftir stimplum 2016. Þessi tiltekni kassi var frá 2007. Við drifum í að flokka úr þessum kassa svo við gætum komið þeim spjöldum sem tilheyrðu kössunum á brettunum með. Hætti vinnu upp úr klukkan hálffjögur. Byrjaði á því að fara í bókasafnið og skila þremur bókum. Fékk mér tvær í staðinn, hvorug þeirra alveg ný. Næst lá leiðin í fiskbúðina áður en ég skellti mér í Laugardalslaugina. Synti reyndar ekkert en fór 3 í kalda, 2 í heitasta og rúmar 10 mínútur í gufu áður en ég fór upp úr og heim.