29.11.15

Fimm dögum síðar

Ekkert varð úr bakstri fyrr en tveimur kvöldum eftir síðustu færslu, á fimmtudagskvöldið var. Ég skutlaði Oddi Smára upp á Malarhöfða rétt fyrir sex það síðdegi. Fékk hinn unga manninn til að pakka inn jólagjöfunum til fjölskyldunnar sem býr á Akureyri og bakaði svo um það bil níutíu lakkrístoppa. Sótti Odd aftur um tíu.

Á föstudagsmorguninn sópaði ég af bílnum og var mætt í Laugardalinn rétt áður en laugin opnaði um hálfsjö. Byrjaði á því að synda og var búin að fara nokkrar ferðir þegar ég sá að Lena var mætt. Við náðum þremur ferðum saman í kalda pottinn en ég fór beint upp úr eftir þriðju ferðina og það var svolítið sérstakt að koma ísköld inn og fara í sturtu. Var annars á lánsbílnum þennan morgun þar sem ég átti tíma hjá tannlækni um þrjú. Sá tími féll reyndar niður og var færður til mánudags en ég vissi ekki af því fyrr en fór að líða á morguninn.

Helga systir og fjölskylda mínus tíkin Cara komu til mín um tíu þetta kvöld. Þá var ég búin að baka uppáhalds smákökusortina hans Davíðs Steins, eggjahvítukökur með kornfleks, suðusúkkulaði og kókosmjöli. Það urðu ekki nema 48 kökur, næstum því helmingi færri en lakkrístopparnir. Smá skandall það en ég verð þá bara að hræra í aðra lotu af þessari tegund þegar hún klárast.

Það hafði kyngt niður miklum snjó aðfaranótt laugardagsins, 32 cm jafnfallin og hefur ekki snjóað svona mikið síðan árið 1979. Mágur minn skutlaði systur minni í Skautahöll Reykjavíkur fyrir klukkan átta. Ég fór út rétt á eftir og sópaði af lánsbílnum og dreif mig í sund. Fékk ekkert stæði rétt við innganginn að laugardalslauginni en það voru næg stæði þeim megin sem líkamsræktarstöðin er. Fékk þá bara smá göngutúr og skrefamælingu út úr því. Synti í uþb þrjú korter og fór þrisvar í kalda pottinn og þrisvar í pottinn sem er 42 gráður. Sjópotturinn er búinn að vera lokaður vegna viðgerða í nokkra daga svo sundrútínan hefur aðeins breyst.

Eftir sundið fór ég aftur heim. Fljótlega eftir hádegi skrapp ég á bókasafnið Kringlunni til að skila tveimur bókum og notaði tækifærið og verslaði aðeins inn í Bónus, aldrei þessu vant. Systir mín og fjölskylda voru að erindast og snattast í bænum fram á kvöld. Ég steikti slátur og bjó til sæta kartöflumús með handa okkur mæðginum. Um hálfníu sótti Brynja vinkona mín mig og við fórum saman í hið árlega tilhleypingateiti til séra Péturs þar sem kirkjuáramótin voru skotin upp um miðnætti.

24.11.15

Á eftir að ákveða mig

Ég er að bræða það með mér að vinda mér loksins í smákökubakstur. Á meðan ég reyni að ákveða mig nota ég tækifærið og punkta aðeins niður gærdaginn.

Var vöknuð aðeins á undan vekjaraklukkunni sem átti að vekja mig rétt fyrir sjö. Morgunrútínan gekk vel og ég náði að kveikja aðeins á tölvunni áður en ég þurfti að mæta á stoppistöðina ca 17 mínútum fyrir átta. Í vinnunni var nóg að gera enda leið dagurinn afar hratt eftir því. Kom heim aftur um hálffimm. Hafði kvöldmatinn tilbúinn rétt fyrir sex og fór svo í sund 17. daginn í röð. Veit ekkert hversu mikið ég synti nema ég synti stanslaust í tæpar fjörutíu mínútur áður en ég skellti mér í kalda pottinn. Fór aðeins tvær ferðir í hann og tvær í 42 gráðu pottinn. Sjópotturinn var lokaður og ég sleppti gufubaðinu í þetta sinn. Kom heim alveg endurnærð og ánægð eftir því. Ætla ekkert að vera að láta vigtina stjórna mér og hef ekki stigið á hana síðan ég endurnýjaði árskortið en ég finn það á fötunum mínum að það eru að fara af mér sentimetrar. Vona að þetta gerist ekki of hratt svo "nýju" flíkurnar verði ekki strax of stórar á mig. Sennilega engin hætta á því þó.

Meira ætla ég ekki að skrifa í þetta sinn nema ég er ekki enn búin að ákveða hvað ég geri úr kvöldinu.

23.11.15

"Þannig týnist tíminn"

Ég var komin í Laugardalinn og byrjuð að synda korter yfir átta í gærmorgun. Synti stanslaust í hér um bil þrjú korter. Ég var svo á leiðinni yfir í sjópottinn þegar ég uppgötvaði að það var einhver að nota kalda pottinn. Að sjálfsögðu dreif ég mig ofan í og fór ég allt í allt fjórar ferðir í minnst tvær mínútur í senn. Eftir fjórðu ferðina fór ég í sjópottinn, svo smá gufu og að lokum örstutt "sólbað" áður en ég fór aftur heim.

Heima hafði ég uþb tvo og hálfan tíma áður en ég skipti um föt, tók með mér sálmabókina og mætti kirkjuna um eitt í upphitun fyrir messu. Kórsystir mín, Guðlaug Pétursdóttir, söng einsöng fyrir og eftir predikun og gerði það mjög vel eins og hennar er von og vísa. Kórinn söng þrjá sálma og svo eitt lag úr brúnu bókinni undir altarisgöngunni. Á eftir messu var boðið upp á bráðabrauð með svartbaunaseyðinu.

Áður en ég fór heim úr kirkjunni kom ég við á bókasafninu í Kringlunni og skilaði níu af þeim ellefu bókum sem ég var með frá þeim í fórum mínum. Tók fimm bækur með mér heim og eina af þeim er með tveggja vikna skilafrest. Ég þarf líka að klára þessar tvær sem skildi eftir heima fyrir 29. nóvember. Reyndar gæti ég framlengt skilafrestinum um mánuð en ég er byrjuð á báðum þessum bókum og ætla amk að sjá til hvort ég næ ekki að klára að lesa þær í vikunni.

22.11.15

Alltaf nóg um að vera

Ég sló skrefamet, mælirinn í símanum taldi uþb 11.000 skref, á föstudaginn var og það þrátt fyrir að ekki væri hægt að telja skrefin þann tíma sem ég var í sundi. Var á ferðinni frá því um fimm um morguninn. Fór beint í sund eftir vinnu klukkan eitt. Synti stanslaust í næstum því þrjú korter, kannski til að bæta mér upp að kaldi potturinn var tómur vegna ísinga og kulda. Var búin að mæla mér mót við Odd Smára í Kringlunni, þ.e. hann hafði stungið upp á því sjálfur að hittast þar. Vorum nokkuð fljót að afgreiða málin á verkefnalistanum en þó tók það smá tíma að finna óskorið og ósteikt laufabrauð. Ungi maðurinn fór svo til pabba síns seinna um daginn. Ég vissi ekki af því fyrr en um miðjan dag og hafði tekið út kjúkling úr frysti. Ég ákvað að elda úr hráefninu og skar niður fullt af grænmeti til að setja með í ofninn. Það kom líka á daginn að hinn ungi maðurinn var ekki að fara til pabba síns og kom hann heim akkúrat þegar maturinn var tilbúinn. Ég var komin í rúmið fyrir miðnætti.

Gærdaginn byrjaði ég á því að fara í sund fljótlega eftir að laugin opnaði um átta. Kaldi potturinn var enn tómur svo ég synti bara og synti og gaf mér svo góðan tíma í sjópottinum og gufunni á eftir. Fljótlega eftir að ég kom heim slökkti ég alveg á tölvunni, tók hana úr sambandi og lokaði hana inni í tölvuskáp. Ræsti Odd upp stuttu fyrir hádegi til að fara eina ferð með pappír, plast og fleira í gáma svo ég hefði sjálf betri tíma til að undirbúa komu frændfólks í laufabrauðagerð. Bræðurnir voru á leið á "spilakvöld" um tvö og fengu þeir leyfi hjá mér til að fara á lánsbílnum. Þeir voru nýfarnir þegar frændi minn og konan hans komu. Þau voru tæpum hálftíma á undan systurunum sem villtust fyrst yfir í mávahlíðina. Allir komu með eitthvað með kaffinu með sér en fyrst var byrjað að skera út í laufabrauðin. Það var reyndar boðið upp á kaffisopa fyrir þá sem vildu. Maður annarrar frænku minnar kom eftir að leikur liðsins hans í enska var búinn. Hann skar út nokkrar kökur en svo fóru svilarnir í að steikja kökurnar á meðan við stelpurnar héldum áfram að skera út. Upp úr klukkan fjögur var tekin smá kaffipása. Þá var búið að steikja tuttugu kökur af áttatíu, en það var heldur ekki búið að skera út alveg allar. Klukkan var samt ekki nema sex þegar allt var yfirstaðið og frændfólkið kvaddi fljótlega eftir það.

19.11.15

Tíu dagar frá því ég endurnýjaði árskortið í sund

Ég er búin að fara í sund á hverjum degi í tæpar tvær vikur og þessa vikuna hef ég synt mun lengur en ég gerði áður. Það hjálpar mikið að ég tek þátt í nýjustu vinnustaðaáskoruninni og nota til þess nýtt app sem heitir "Sidekick". Þetta er appið og áskorunin sem varð þess valdandi að ég uppfærði símann minn á kostnað vinnunnar minnar í síðustu viku. Kaldi potturinn var annars tómur og lokaður í gær og í dag og saknaði ég þess sárlega að geta ekki dýft mér í kalt í smástund.

Kom heim úr sundi upp úr klukkan þrjú í gærdag og hafði þá ágætan tíma í smá skylduverk hér heima áður en ég mætti á kóræfingu. Fékk Odd til þess að búa til kaffi og ég hafði, merkilegt nokk (eða ekki), smá tíma til að lesa. Á kóræfingunni söng ég aðallega sem og með sópran en brá mér stundum yfir í altinn þegar sópran átti ekki að syngja.

17.11.15

Synt og synt og synt og synt...

Vekjarinn í gamla nokia samlokusímanum mínum vakti mig klukkan fimm mínútur yfir fimm í gærmorgun. Morgunverkin gengu greiðlega fyrir sig og þar sem ég var ekki alveg viss hvort ég þyrfti að skafa af lánsbílnum lagði ég tímanlega í hann. Var með nesti og sunddótið með mér. Þurfti ekkert að skafa og var þess vegna mætt í vinnu um tíu mínútum fyrir sex. Sú sem er með mér á sex-vaktinni þessa vikuna mætti á slaginu. Verkefnin gengu áægtlega fyrir sig og fyrr en varði varð klukkan átta og þá vorum við leystar af. Þær tvær sem voru á síðdegisvaktinni voru mættar klukkan níu.

Ég fór næstum beint í sund eftir vinnu, reyndar með viðkomu á einum stað. Naut þess að synda og synda og skellti mér svo í kalda pottinn á eftir. Kom heim um kaffileytið. Annar sonurinn var heima og ég ákvað að hella upp á smá kaffi. Dútlaði mér við ýmislegt það sem eftir lifði dags, safnaði m.a. fullt af skrefum. Svo var ég það skynsöm að koma mér í háttinn rétt fyrir hálfellefu. Las í smá stund en ég er handviss um að ég var steinsofnuð áður en klukkan varð ellefu.

16.11.15

Eftir helgina

Níunda morguninn í röð byrjaði ég daginn á því að fara í sund. Reyndar opnar ekki fyrr en klukkan átta um helgar en ég var mætt á svipuðum tíma og á laugardagsmorguninn, eða fyrir klukkan hálfníu, í gærmorgun. Tók sundrútínuna föstum tökum og var svo glöð að það væri búið að opna sjópottinn atftur að ég var extra langan tíma í honum eftir sundið og pottadýfingarnar. Endaði svo á gufu og "sólbaði".

Um ellefu var ég mætt til norsku esperanto vinkonu minnar og á þeim tíma sem ég stoppaði lásum við smá landnáms-sögu frá því fyrir árið 900, úr gamalli kennslubók á esperanto. Það var gaman og þarna fléttast saga Norðmanna og Íslendinga mjög mikið saman.

Kom heim um hálfeitt og þá var einkabílstjórinn vaknaður og næstum tilbúinn í að keyra austur fyrir fjall í heimsókn á Hellu. Við vorum komin þangað um tvö og stoppuðum til klukkan að verða níu. Mundi eftir að taka með mér nokkra poka af krækiberjum og lét einkabílstjórann alveg um að keyra heim líka. Skiluðum okkur heim um tíu í gærkvöldi og urðum að leggja bílnum aftan við heilsugæsluna.

15.11.15

Sunnudagur

Var mætt í Laugardalslaugina og byrjuð að synda rétt fyrir klukkan hálfníu í gærmorgun. Sjópotturinn var lokaður þannig að þegar ég var búin að synda og fara þrjár ferðir í kalda pottinn og tvær í 42 gráðu heita pottinn fór ég i gufu beint eftir síðustu ferðina í þann kalda. Það var mjög sérstakt. Eftir sundið kom ég við í Krónunni við Nóatún og var ég að koma heim með vörurnar rétt fyrir hádegi. Synirnir voru enn sofandi og fljótlega eftir að þeir fóru loks á stjá báðu þeir um að fá að fara á lánsbílnum á "spilakvöld" (byrjaði upp úr klukkan þrjú). Ég leyfði þeim það þar sem ég var búin að sinna mínum útréttingum. Dundaði við ýmislegt hérna heima en skrapp líka í hálftíma göngutúr. "Sidekick"-appið og keppnisskapið heldur manni við efnið. Þrátt fyrir að vera ein heima ákvað ég að útbúa mér ofnbakaðan bleikjurétt í kvöldmatinn. Missti kannski heldur mikið af karrý út á bleikjuna en mér fannst þetta samt gott.

14.11.15

Bleikjuflök og grænmeti í ofninum

Hugurinn er í París, alls konar tilfinningar á kreiki en mér finnst einhvern veginn erfitt að orða hugsanir mínar um þessar hræðilegu árásir. Veröldin verður sífellt firrtari að mínu mati en þó held ég að það sé aðeins lítið brot af mannkyninu sem er að valda þessum usla og ala á hræðlsu þannig að það fyrsta sem ráðamönnum dettur í hug er að auka viðvörunarstigið, vígbúast og vera við öllu búnir. Jafnvel fara að elta uppi þá sem lýsa sig ábyrga. Ég veit að það væri farsælast að launa illt með góðu og reyna að taka á hlutunum eins og Norðmenn gerðu eftir Úteyjar-hryllinginn. Æ, hvað veit maður svo sem? Ég er amk ekki tilbúin í stríð af neins konar tagi og ætla frekar að kveikja á kertum, biðja fyrir betri heimi og senda frá mér hlýjar, jákvæðar og góðar hugsanir.

Vinnuvikan leið hratt og helgin er að verða hálfnuð, sem og mánuðurinn. Er búin að fara daglega í sund átta daga í röð og hitti ég Lenu þrjá fjóra virka morgna af fimm svo við gátum pottormast saman. Það var mikið spjallað og ég gat leyft mér að vera amk fimm korter í sundi þar sem vinnudagurinn alla vikuna var frá klukkan níu til fimm. Fór heim með bílinn fjóra af þessum dögum og náði strætó sem skilaði mér fyrir utan vinnustaðinn rétt fyrir klukkan níu.

Nýji síminn er farinn að virka, líka sem sími, en ég kann ósköp lítið á þetta tæki ennþá. En ég kann þó að færa inn í keppnis-appið sem meiri hlutinn af vinnufélögunum er að taka þátt í. Fyrirtækinu var skipt upp í amk 13 lið og þetta app varð semsagt til þess að ég uppfærði símann loksins. Er samt ekki búin að skila samlokusímanum á "Þjóðmynjasafnið" en hann virkar ekki lengur sem sími því ég lét færa númerið á nýja símann.

12.11.15

Lífið er skemmtilegt

Ég fór á lánsbílnum beint í sund rétt fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun þannig að ég var að mæta rétt eftir að opnaði. Synti í uþb tuttugu mínútur og byrjaði svo á því að fara með Lenu í heitan pott þar sem hún var að ljúka fyrstu ferðinni í kalda pottinn. Fór svo tvær ferðir með henni í kalda, eina ferð í sjópottinn og eina ferð í þann heitasta. Svo kvaddi hún en ég fór í gufubað og svo smá sólbað. Annar sonurinn var með strætókortið og mér fannst ekki taka því að fara heim með sunddótið. Hafði verið það útsjónarsöm að taka til fyrir vinnuna sem og nótur fyrir kóræfingu. Fékk mér kaffibolla og banana áður en ég fór í vinnuna. Var mjög tímanlega og hugsaði alla leiðina hvort ég fengi stæði á neðra planinu. Og viti menn ég fékk enda stæðið.

Nýji síminn var notaður eins og spjaldtölva en ég ákvað að ég hefði tíma til að koma við í vodafone í Kringlunni til að virkja nýja símann og afvirkja hinn. Þurfti að bíða um stund eftir afgreiðslu en þetta hafðist allt saman og ég varð heldur ekkert svo sein á kóræfingu, það munaði sennilega bara eitthvað um þremur mínútum. Æfði aðeins með sópran en færði mig svo yfir í altinn því þær voru bara tvær en hinar voru þrjár (án mín). Það var miklu jafnara dæmi eftir að ég ákvað að syngja með altinum.

11.11.15

Samsung galaxy S5 neo

Það þurfti heila vinnustaðakeppni á nýju appformi til, til að ég uppfærði gsm-inn minn, nokia samloku-síma yfir í flatan síma með snertiskjá. Um fimm leytið í gær fór ég heim með útprentaða síðu af síma sem ég lét einn vinnufélaga minn sannfæra mig um að væri eitthvað sem gæti gengið upp fyrir mig. Báðum sonum mínum leist vel á að ég væri að spá í þetta og samþykktu þessa tegund en vildu samt ekki koma með mér. Ég dreif mig þá ein í ELKO í Skeifunni og keypti eitt stk. síma. Davíð Steinn var svo að "fikta" í honum á annan klukkutíma og gat sett flest upp nema símkortið úr gamlanum var of stórt. Hann ráðlagði mér að fara til VODAFONE við tækifæri og fá þá til að klippa gamla kortið í þá stærð sem hentaði nýja símanum. Það var ekki tími til þess í gær.

Annars fór ég í morgunsund fjórða daginn í röð í gærmorgun. Var byrjuð að synda aðeins fyrr heldur en morguninn áður. Þótt ég slakaði afar vel á og tæki lífinu í laugunum með nokkurri ró passaði ég vel upp á tímann. Fór beint heim með sunddótið mitt upp úr klukkan átta og hafði smá stund aflögu áður en ég náði strætó í vinnunna, leið 13 ca fimmtán mínútum fyrir níu fyrir utan Sunnubúðina.

10.11.15

Nokkrir dagar

Það hefur annað hvort ekki gefist tími í skrif eða þá að ég var ekki alveg upplögð þegar stundirnar gáfust þessa rúmu hálfu viku síðan ég skrifaði nokkuð síðast.  Það er svo sem alveg búið að vera í nógu að snúast, sérstaklega í félagslífinu. Endurnýjaði árskortið mitt í sund í gærmorgun. Hitti tvær vinkonur á Gló um sex í gær og höfðum við um margt að spjalla þannig að við sátum þó nokkra stund eftir að við vorum búnar að borða.

r í sund upp úr klukkan átta á sunnudagsmorguninn. Átti svo tæpa tvo tíma heima áður en ég fór aftur af stað. Kom við í blómaversluninni Hlíðarblóm, valdi og keypti tvo fallega smávendi áður en ég mætti í kirkjuna nokkuð í fyrra fallinu þar sem ég var bæði að aðstoða við kaffiundirbúninginn og hita upp með kórnum. Met var slegið í mætingu og við sem sáum um kaffið á eftir vorum að ljúka fráganginum um hálffimm. Þetta voru góðir fjórir klukkutímar sem ég var í krikjunni.

Laugardagurinn leið líka svona hratt og byrjaði einnig á sundferð. Á föstudaginn mætti ég í vinnu klukkan átta, hitti vinkonu á kaffihúsinu Babalú fljótlega eftir vinnu og bauð henni svo með mér á Edduna í Austubæ upp úr klukkan átta um kvöldið. Semsagt alltaf nóg að gera hjá mér. Hef þó alveg fundið mér tíma til að lesa en nálin hefur verið í óvanalega langri pásu.

5.11.15

Jóla-nótulaus á kóræfingu

Ég var mætt í Laugardalinn um það bil sem opnaði í sundlaugarafgreiðslunni í gærmorgun. Synti í rúmt korter, fór aðeins tvisvar sinnum í kalda pottinn en það var til að geta bleytt betur og aðeins lengur í mér í sjópottinum. Var mætt í vinnuna rétt fyrir átta. Vinnudagurinn leið hratt og örugglega en það teygðist aðeins úr honum í hinn endann.

Kom heim rétt fyrir fimm, hringdi og talaði stuttlega við pabba sem verður grasekkjumaður næstu vikuna eða svo. Svo taldi ég mig sortera rétt í kórnótupokann minn og var mætt í kirkjuna rétt fyrir hálfsex. Það kom í ljós fljótlega eftir að æfingin byrjaði að mig vantaði allar nótur sem við höfum verið að æfa í haust sem og jólanóturnar. Var með páskanóturnar og eiginlega allar aðrar nótur, brúnu bókina og sálma bókina. Þetta bjargaðist fyrir horn í þetta sinnið en um leið og ég kom heim fór ég yfir það sem ég hafði tekið úr pokanum og skilið eftir heima. "Týndu" nóturnar reyndust ekki vera í þeim bunka ..."svo hvað skyldi ég nú hafa gert af þeim?", hugsaði ég með mér.

Annar sonurinn var tilbúinn með kvöldmatinn og hinn sá um uppvaskið á eftir. Það var ekki fyrr en ég var sest inn í stofu eftir mat að ég mundi skyndilega að ég hafði tekið þessar umræddu nótur með mér austur í rauða bakpokanum mínum og þar voru þær enn ásamt hluta af esperanto dótinum mínu, þ.e. í bakpokanum (ekki fyrir austan).  :-)

4.11.15

Skemmtilega langur dagur

Tók leið 13, vagninn klukkan korter fyrir átta í gærmorgun. Þekkti vagnstjórann en hún er frá Selfossi. Vinnudagurinn til fjögur leið ótrúlega hratt en ég fékk að "hlaupa" út rétt fyrir fjögur til að hafa smá stund heima sem ég notaði til að hringja í pabba og skipta um föt. Var mætt á mánaðarlegan safnaðarstjórnarfund klukkan hálfsex. Eftir fundinn voru teknar af okkur einstaklingsmyndir og svo var hópnum stillt upp við altarið og teknar myndir af stjórninni með og án prests og organista. Það verður fróðlegt að vita hvernig til tókst en eitthvað af þessum myndum eiga að fara inn á heimahöfn safnaðarins.

Þegar ég kom heim aftur fékk ég að vita að bræðurnir væru á leið á spilakvöld til spilafélagans sem býr í Kópavogi. Ég lánaði þeim bílinn og hafði það kósí fyrir framan imbann alveg til klukkan tíu. Var farin að sofa áður en ungu mennirnir komu heim aftur en ég veit þó að þeir komu heim fyrir miðnætti.

3.11.15

Eitt og annað

Í gær leysti ég einn vinnufélaga minn af þannig að hún mætti á mínum tíma milli átta og fjögur en ég á hennar tíma milli 13 og 19. Þar af leiðandi gat ég notað morguninn til að skottast í sund, reka smá erindi og lesa svolítið. Var mætt í sundið rétt upp úr opnun eða rúmlega hálfsjö. Hitti Lenu í heita pottinum eftir að ég var búin að synda og fór með henni þrjár ferðir í kalda pottinn, eina í sjópottinn og eina ferð í heitasta pottinn. Gaf mér góðan tíma og kom ekki heim aftur fyrr en tveimur tímum eftir að ég fór. Skrapp svo fljótlega aftur til að sækja jólagjöfina til hennar systur minnar úr innrömmun.

Eina af níu bókunum sem ég náði í af safninu um daginn hef ég lesið áður, 90 sýni úr minni mínu eftir Halldóru Kristínu Thoroddsen. Þessi bók er alveg þess virði að vera lesin oft. Ég las hana upp til agna í gær. Hún er að vísu ekki nema rúmlega 100 blaðsíður en minningarbrotin eru mörg og sum hver alveg óborganleg. Mæli hiklaust með þessari bók.

Rétt missti af leið 13 upp úr hádeginu svo ég trítlaði á stoppistöðina við Klambratún og tók Ásinn þaðan. Hafði þó það góðan tíma að ég fór úr við MR einni stoppistöð fyrr en vagninn stoppar líka við Hörpuna. Vinnudagurinn leið þokkalega hratt. Við sem vorum á kvöldvaktinni gátum leyft okkur að fara heim nokkrum mínútum fyrir sjö þannig að ég var komin heim fyrir hálfátta.

2.11.15

Nýkomin úr morgunsundi

Enn ein helgin liðin og skiptu helgidagarnir sér niður á hvorn sinn mánuðinn. Það voru semsagt mánaðmót um helgina og næstsíðasti mánuður ársins er hafinn. Afmælisbarn dagsins í dag er systir mín sem er rétt rúmlega einu og hálfu ári yngri en ég. En ég ætlaði aðeins að gera upp helgina á þessum vettvangi.

Mikið sem veðrið var fallegt og gott á laugardaginn. En ég varð að skafa smá af lánsbílnum og vanda mig og keyra varlega í morgunsundið. Klukkan var að nálgast hálfníu þegar ég lagði af stað í sundið. Gaf mér góðan tíma í Laugardalnum og endaði á því að bera rakakrem á kroppinn þegar ég kom upp úr en það geri ég bara sirka vikulega. Þar sem norska esperanto vinkona mín var ekki búin að hringja um hálftíu reiknaði ég með að hún hefði farið í sína rækt og ég ætti að koma til hennar um tólf. Ég fór því heim, gekk frá sunddótinu, náði í þvottinn á snúruna og settist svo í stofusófann með mjög áhugaverða bók úr svo kallaðri tunglseríu: "Líf mitt til dæmis", (dagbækur 1998-2002) eftir Margréti Bjarnadóttur f.1981. Bókin er ekki nema 72 bls. en hún er mjög góð að mínu mati. Ég var búin að lesa uþb einn þriðja af bókinni þegar Inger hringdi. Hún hafði ekki farið eitt né neitt og var tilbúin að taka esperantostund með mér. Ég dreif mig því yfir til hennar. Stoppaði í rúma klukkustund, verslaði í bakaleiðinni og um hálftvö athugaði ég hvort tilvonandi rafeindavirki væri nokkuð búinn að hætta við að skreppa austur með mér. Svo reyndist ekki vera og hálftíma síðar vorum við lögð af stað. Hinn sonurinn var búinn að ákveða að vinna að erfiðu skólaverkefni og halda sig heima við.

Við Davíð Steinn komu austur um kaffi leytið. Eftir kaffið fékk pabbi dóttursoninn til að fara í vinnugalla og fara með sér út í skúr og skipta um dekk á báðum bílunum. Það tók drjúga stund en þeir voru þó búnir fyrir kvöldfréttir í sjónvarpinu. Ég sá um að elda kvöldmatinn fyrir okkur fjögur en við vorum ekki að borða fyrr en upp úr klukkan átta. Bauð upp á hvítvín með matnum úr "belju" sem ég hafði keypt helgina áður og var ekki búin að opna. Sonurinn fékk hálft vínglas en rétt smakkaði á því og gaf mér svo restina. Hann fór fyrstur í háttinn milli tíu og ellefu. Mamma fór inn í rúm að hlusta á sögu en við pabbi biðum eftir að uppþvottavélin kláraði til að geta gengið frá. Ég var svo síðust í bælið því ég settist aðeins við tölvuna.

Fór á fætur rétt um níu í gærmorgun. Náði því að borða morgunmat með pabba mínum. Á ellefta tímanum fékk ég lánaða regnkápuna hennar mömmu og arkaði upp að Helluvaði í heimsókn til föðursystur minnar. Stoppaði hjá henni í dágóða stund enda höfðum við um margt að spjalla. Ég var samt komin til baka um tólf. Dagurinn leið nokkuð hratt. Við mæðginin vorum ákveðin í að drífa okkur í bæinn strax eftir kaffi. Það gekk ekki alveg eftir en við vorum þó að skila okkur í bæinn upp úr klukkan sex.