Ekkert varð úr bakstri fyrr en tveimur kvöldum eftir síðustu færslu, á fimmtudagskvöldið var. Ég skutlaði Oddi Smára upp á Malarhöfða rétt fyrir sex það síðdegi. Fékk hinn unga manninn til að pakka inn jólagjöfunum til fjölskyldunnar sem býr á Akureyri og bakaði svo um það bil níutíu lakkrístoppa. Sótti Odd aftur um tíu.
Á föstudagsmorguninn sópaði ég af bílnum og var mætt í Laugardalinn rétt áður en laugin opnaði um hálfsjö. Byrjaði á því að synda og var búin að fara nokkrar ferðir þegar ég sá að Lena var mætt. Við náðum þremur ferðum saman í kalda pottinn en ég fór beint upp úr eftir þriðju ferðina og það var svolítið sérstakt að koma ísköld inn og fara í sturtu. Var annars á lánsbílnum þennan morgun þar sem ég átti tíma hjá tannlækni um þrjú. Sá tími féll reyndar niður og var færður til mánudags en ég vissi ekki af því fyrr en fór að líða á morguninn.
Helga systir og fjölskylda mínus tíkin Cara komu til mín um tíu þetta kvöld. Þá var ég búin að baka uppáhalds smákökusortina hans Davíðs Steins, eggjahvítukökur með kornfleks, suðusúkkulaði og kókosmjöli. Það urðu ekki nema 48 kökur, næstum því helmingi færri en lakkrístopparnir. Smá skandall það en ég verð þá bara að hræra í aðra lotu af þessari tegund þegar hún klárast.
Það hafði kyngt niður miklum snjó aðfaranótt laugardagsins, 32 cm jafnfallin og hefur ekki snjóað svona mikið síðan árið 1979. Mágur minn skutlaði systur minni í Skautahöll Reykjavíkur fyrir klukkan átta. Ég fór út rétt á eftir og sópaði af lánsbílnum og dreif mig í sund. Fékk ekkert stæði rétt við innganginn að laugardalslauginni en það voru næg stæði þeim megin sem líkamsræktarstöðin er. Fékk þá bara smá göngutúr og skrefamælingu út úr því. Synti í uþb þrjú korter og fór þrisvar í kalda pottinn og þrisvar í pottinn sem er 42 gráður. Sjópotturinn er búinn að vera lokaður vegna viðgerða í nokkra daga svo sundrútínan hefur aðeins breyst.
Eftir sundið fór ég aftur heim. Fljótlega eftir hádegi skrapp ég á bókasafnið Kringlunni til að skila tveimur bókum og notaði tækifærið og verslaði aðeins inn í Bónus, aldrei þessu vant. Systir mín og fjölskylda voru að erindast og snattast í bænum fram á kvöld. Ég steikti slátur og bjó til sæta kartöflumús með handa okkur mæðginum. Um hálfníu sótti Brynja vinkona mín mig og við fórum saman í hið árlega tilhleypingateiti til séra Péturs þar sem kirkjuáramótin voru skotin upp um miðnætti.