31.8.19

Út úr bænum yfir helgina

Klukkan var alveg að verða tvö þegar ég ók út úr bænum í dag. Var mætt í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan átta og þurfti að byrja á því að skila inn sundkortinu mínu til að fá afhent nýtt því það er verið að breyta um kerfi. Sundrútínan tók rúmlega einn og hálfan tíma. Kom við í hraðbanka áður en ég fór heim með sunddótið mitt. Var tilbúin að öðru leyti með "yfirnóttgistidótið" mitt að ég hélt. Var mætt til esperanto vinkonu minnar áður en klukkan varð hálfellefu og stoppaði hjá henni til tólf. Við fórum ekki í göngutúr að þessu sinni en lásum ma 1 blaðsíðu í Kon-Tiki. Eigum aðeins örfáar blaðsíður eftir enda búnar að vera að lesa og lesa eina-fjórar blaðsíður síðustu tvö árin. Það gæti farið svo að við byrjuðum á henni strax aftur þegar við verðum búnar með fyrstu yfirferð.

Fyllti á bílinn hjá AO í Öskjuhlíð og mér sýnist sem einhverra hluta vegna sé ég enn að fá 20 kr. afslátt, en ég valdi mér tvær ferðavikur frá 31. júlí sl. svo ég veit ekki hvaða lán er yfir mér. Kom líka við hjá Oddi í vinnunna til hans aðeins til að kasta á hann kveðju áður en ég færi austur. Kom stuttlega við heima til að skila esperanto dótinu heim og ná mér í frystipoka. Var mætt til Petru og Jóns upp úr klukkan hálfeitt og var ég drifin inn í smá kaffi og bláberjasaftsmakk áður en viðskiptin með þorskhnakkana voru gerð.

Gerði einnig pissu og kaffistopp í Fossheiðinni á leiðinni á Hellu. Þegar ég kom út fyrir Selfoss ákvað ég að telja alla bíla sem ég mætti að Hellu. Mætti 100. bílnum á Þjórsárbrú og mætti 81 í viðbót áður en ég beygði inn í Helluþorp.

30.8.19

Helgi og mánaðamót

Fyrstu heilu vinnuvikunni lokið eftir gott sumarfrí. Seinni partinn á miðvikudaginn var ég komin í Nauthólsvík rétt upp úr hálffimm. Svamlaði í sjónum í um 15 mínútur, hitti nokkrar samstarfskonur mínar úr K2 í RB í heita pottinum á eftir. Þær fóru fljótlega í sjóinn og syntu mun lengra en ég geri, flestar af þeim. Þegar ég kom heim aftur dreif ég í að búa til kjötbollur.

Oddur Smári skutlaði bróður sínum í orkuhúsið við Suðurlandsbraut upp úr hálftvö á miðvikudaginn þar sem Davíð Steinn fór í smá aðgerð á annarri stóru tánni. Hann kom heim með eitt spor og svaka umbúðir um tánna og vinsamlegast beðinn um að taka því rólega um kvöldið og næstu daga. Saumurinn verður tekinn eftir hálfan mánuð en líklega þarf að skipta um umbúðir á næstu dögum.

Í gær var ég búin að taka að mér að sitja yfir, vegna yfirferðar á framleiðsluvélinni. Ég átti því ekki að mæta fyrr en klukkan hálfellefu. Vekjarinn vakti mig rétt fyrir sex en ég ákvað að hvíla mig aðeins lengur. Hafði hugsað mér að mæta í sund við opnun klukkan hálfsjö en mætti hálftíma síðar. Gleymdi sundgleraugunum heima (í sjósundsdótinu) en lét mig hafa það og náði að synda í ca tuttugu mínútur, fyrstu 100 metrarnir voru erfiðastir. Kom heim um hálfníu, hellti mér upp á kaffi, bjó til hafragraut og slakaði svo á til klukkan að verða tíu. Þá labbaði ég af stað í vinnuna, lengri leiðina var eiginlega fimm mínútum of sein þrátt fyrir að hafa labbað extra hratt. Yfirsetan gekk vel og reyndar var henni lokið aðeins fyrr. Reiknaði með að vinna til klukkan fimm en var lögð af stað heim tíu mínútum fyrr. Horfði á landsleikinn í opinni dagskrá í stofunni heima og var svo heppin að Davíð Steinn tók að sér að sjá um kvöldmatinn.

Vinnudagurinn í dag var nýttur alveg frá klukkan 8 til klukkan að verða fjögur. Við vorum fjórar og bæði mánaðamót og endurnýjun í gangi. Heilsaði aðeins upp á Lílju mína á torginu áður en ég labbaði heim.

27.8.19

Plokkfiskur með gulum og grænum baunum

Sem betur fer fór ég í regnkápunni í vinnuna í morgun. Fyrri helminginn af leiðinni var reyndar aðeins úði en sá úði breyttist nánast í hellidembu um hálfátta. Þar sem var yfirferð á vélinni eftir hádegi og ég ekki að sitja yfir var ég laus úr vinnu um hálfþrjú í dag. Þá var hætt að rigna og ég valdi að ganga í gegnum Hljómskálagarðinn, leið sem er rétt rúmlega 3km.

Hellti upp á tvo bolla af kaffi, fékk mér hressingu með og hringdi í pabba áður en ég dreif mig í sund. Gaf mér góðan tíma í sundrútínuna mína. Fór m.a. 3x3 mínútur í þann kalda, synti 500m og slakaði aðeins á í saltpottinum.

Kom heim upp úr klukkan sex og þá blandaði ég saman tveimur afgöngum og bjó til eins konar plokkfisk í matinn.

Bókin á náttborðinu þessa dagana er af safninu og heitir radíó Selfoss eftir Sölva Björn Sigurðsson. Skemmtileg aflestrar en mér finnst ég vera búin að vera svolítið lengi með hana.

26.8.19

14.698 skref

S-health forritið er búið að skrá á mig 5 göngutúra í dag, alls 7,42km. Byrjaði að telja skrefin fyrir klukkan sjö í morgun en fyrsti göngutúrinn var skráður sjálkrafa frá kl. 07:11, 2,72 km gengnir í vinnuna á 33 mínútum svo ég var mætt korter fyrir átta. Náðum að klára dagleg verk sem og mánaðarlega endurnýjun áður en klukkan varð þrjú. Fyrir vikið fengum við að fara aðeins fyrr heim. Á heimleiðinni skráði forritið á mig tvo göngutúra, fyrst 1,32km í 16 mínútur og svo 1,68 í 21 mínútur. Kom heim korter fyrir fjögur og byrjaði strax á því að hella upp á könnuna, ca 3 bolla. Tilvonandi rafeindavirkinn var kominn heim úr skólanum en fór fljótlega á vinnuvakt hjá N1 í Mosfellsbæ. Hinn sonurinn var ekki að vinna í dag.

Ég var mætt í Nauthólsvík aðeins fyrir fimm. Skyldi símann eftir í skottinu svo hann taldi ekki skrefin næsta rúma hálftímann. Buslaði um í sjónum í uþb tíu mínútur og fór svo í gufu. Nennti ekki að troða mér í heita pottinn en það var óvenju margt samankomið þar enda byrjaði víst "gong-athöfn" um klukkan fimm. Á heimleiðinni kom ég við í fiskbúð Fúsa og fékk mér ýsu í soðið. Strax eftir matinn dreif ég mig á Valsvöllinn til að fylgjast með leik Vals og Stjörnunnar í Pepsídeild karla. Oddur Smári sá um að ganga frá eftir matinn. Skrautlegur leikurinn endaði með jafntefli 2:2.

25.8.19

Um ævintýri gærdagsins og jafnvel meira til

Var mætt fyrir utan aðalinnganginn í Laugardalslaugina rétt áður en opnaði. Byrjaði á að skella mér í þann kalda eins og oftast áður og var ofan í þegar hitastig pottsins var mælt, 5,9°C. Synti 500m áður en ég  fór aftur í kalda pottinn. Eyddi restinni af tímanum sem ég gaf mér í saltpottinum á spjalli við eina sem er 25 árum eldri en ég en hefur orðið ágætis vinkona mín með tímanum. Eftir sundið skrapp ég heim til að ganga frá sunddótinu en var komin upp í Breiðholt að sækja bekkjarsystur mína úr kennó rétt fyrir klukkan tíu. Þáði hjá henni kaffibolla og skonsu áður en við brunuðum austur á Hellu. Fengum okkur hádegishressingu og smá meira kaffi áður en við lögðum af stað í berjaleiðangur í bílnum hans pabba með hann sem bíl- og fararstjóra. Keyrðum ekki langt fyrsta spölinn, á sandana rétt austan við Hellu, hvar við fundum ágætis krækiber. Tíndum þar öll þrjú í góðan hálftíma áður en pabbi ákvað að fara í "aðal berjalandið sitt". Þar voru enn fleiri og heldur stærri ber en fljótlega fór að rigna svo við þoldum ekki við nema svona tæpa klukkustund. Á þessum tíma náði bekkjarsystir mín þó að fylla öll ílátin sem hún var með og við pabbi tíndum líklega rúmlega 10 kíló samanlagt. Komum aftur á Hellu rétt upp úr fjögur og fengum okkur kaffihressingu. Klukkan að byrja að ganga sjö vatt ég mér í að útbúa kvöldmat handa okkur öllum þremur: gufusoðið blómkál, lauk og epli, soðið perlubygg og steikti með þessu flak (í þremur bitum) af marineraðiri bleikju úr fiskbúðinni á Hellu. Borðuðum þetta með bestu lyst á milli fréttatímanna. Horfðum á sjónvarpfréttir á RÚV áður en við þökkuðum fyrir okkur og kvöddum pabba.

Þegar við vorum að nálgast Selfoss spurði hún mig hvort ég væri nokkuð að flýta mér, hvort ég væri til í að renna með hana í heimsókn til þýskrar konum um áttrætt sem hafði kennt með henni í Tungunum. Sú reyndist vera heima, en tiltölulega nýlega komin heim úr sínum ævintýrum. Hún bauð okkur inn og við stoppuðum hjá henni í góðan klukkutíma. Skilaði Valbjörgu heim að dyrum upp úr hálfellefu í gærkvöldi.

Fór ekki að sofa fyrr en um eitt í nótt en var engu að síður byrjuð að rumska um átta leytið í morgun. Mætti samt ekki í laugina fyrr en um tíu. Kom við í Krónunni á leið heim úr sundi, fékk annan soninn til að ganga frá vörunum á meðan ég hellti mér upp á gott kaffi.

23.8.19

Loksins komin helgi

Mikið er ég ánægð með mig að hafa skipulegt fyrstu vinnudaga eftir sumarfrí þannig að það yrðu aðeins tveir virkir dagar fram að helgi. Gærdagurinn og vinnudagurinn í dag voru svo sem ekkert erfiðir í sjálfu sér. Í dag vann ég í bókhaldinu, ekkert á vélinni og þrátt fyrir að það sé endurnýjuin í gangi fékk tillaga mín um að hætta aðeins fyrr mjög góðan hljómgrunn. Það er nú einu sinni föstudagur. Tókum enga síðdegispásu frekar en í gær en hættum og gengum frá deildinni um þrjú.

Skrapp aftur á torgið til Lilju og stoppaði hjá henni mun lengur heldur en í gær, klukkan var farin að nálgast fjögur þegar ég kvaddi og labbaði heim í gegnum Hljómskálagarðinn, tæplega 3km á ca 38 mínútum. Báðir synirnir eru að vinna, annar til klukkan átta og hinn til klukkan tíu svo það er alveg óþarfi að elda nokkuð í kvöld. Prjónar og bók/bækur á kantinum en stefnan er þó að fara frekar snemma í háttinn, morgundagurinn gæti orðið í lengra lagi.

22.8.19

Byrjuð aftur í sjósundinu

Skrýtið að fjögurra og hálfsvikna sumarfrí sé liðið. Vaknaði á undan vekjaraklukkunni í morgun. Það tók mig næstum hálftíma að sinna morgunrútínunni og taka mig til fyrir daginn en klukkan var ekki orðin korter yfir sjö þegar ég labbaði af stað í vinnuna. Vinnuplanið mitt yfir daginn var sett hárrétt upp, þ.e. ég þurfti ekki að fara á framleiðsluvélina fyrr en eftir morgunkaffi og gat því róleg notað tímann til að setja mig inn í ýmislegt sem og dútlað við hluta af því sem fram fer í skrifstofurýminu. Vorum öll mætt en sumarstúlkan hætt þannig fyrir hádegi voru þrír frammi og tveir inni á vél. Einn af þessum þremur sinnti bókhaldinu í dag en hinir tveir sem byrjuðu frammi fóru inn á vél eftir morgunkaffi. Ég var semsagt önnur af þessum tveimur og upp úr klukkan tíu fór ég á móttökuendann á vélinni,

Slepptum seinni parts kaffipásunni og hættum örlítið fyrr í staðinn. Kom aðeins við í Lækjargötunni og hitti á Lilju en ég stoppaði ekki lengi, ætla frekar að kíkja aftur á morgun. Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég kom heim. Hellti upp á 3 bolla af kaffi (fyrstu og einu bollar dagsins) og fékk mér smá hressingu. Rúmlega klukkustund seinna dreif ég mig loksins í Nauthólsvíkina og keypti mér armband sem gildir í sjóinn til og með 31.12 n.k. á kr. 6700. Þá aura mun ég fá endurgreidda sem hluta af íþróttastyrk RB. Fór aðeins einu sinni í sjóinn en svamlaði um í uþb tíu mínútur. Á heimleiðinni kom ég aðeins við í Kvikk í Öskjuhlíðinni þar sem Oddur Smári var á vakt. Sníkti þó ekki hjá honum kaffi í þetta sinn.

21.8.19

Síðasti frídagurinn í bili

Þegar pabbi var búinn að ganga frá hreinsuðum krækiberjunum rétt upp úr hádegisfréttum skipti hann um föt og ég skrapp með honum í fiskbúðina og Kjarval. Keyptum tvö silungsflök á fyrrnefnda staðnum og nokkra hluti í búðinni. Ég var ákveðin að fara ekki í bæinn fyrr en eftir kvöldmat og var pabbi alveg sáttur við það en sagði jafnframt að sér væri sama þótt kvöldmaturinn yrði í fyrra fallinu miðað við hans rútínu. Annars fór dagurinn fram að kaffi og kvöldmat í lestur, kaplalagnir og tölvu. Maturinn var tilbúinn akkúrat þegar fréttir á Stöð 2 voru búnar og strax á eftir borðhaldinu tíndi ég saman dótið, þakkaði fyrir mig og kvaddi.

Var vöknuð á svipuðum tíma og í gærmorgun en fór ekki út úr húsi fyrr en klukkan var orðin sjö. Synti sundrútínunni í laugardalnum milli klukkan hálfátta og níu. Kom við á tveimur stöðum áður en ég skrapp heim. Var mætt til norsku esperanto vinkonu minnar um hálfellefu. Þegar við vorum búnar að lesa eina blaðsíðu af Kon-Tiki skemmtum við okkur við að reyna að ná góðum myndum að hársíddinni okkar. Á leiðinni heim kom ég við á bókasafninu og skilaði 5 bókum. Þá voru 5 bækur eftir ólesnar heima. Auðvitað voru bók 1 og 2 af 4 í Napólí-sögum á lausu svo ég stóðst ekki mátið að taka þær með mér heim, en bara þær svo ég er nú með 7 bækur að láni.

20.8.19

Í morgunsund með pabba

Næstsíðasti sumarfrísdagurinn er runninn upp. Þegar við komum heim úr berjamónum í gær sagðist pabbi ekki ætla gera neitt meira þann daginn. Upp úr klukkan níu í gærkvöldi kom einn "Hellingur" til að spyrja hvort pabbi væri búinn að setja upp berjahreinsivélina, sem hann og var. Sá sem spurði hafði líka verið í berjamó í gær, líklega eins og margir aðrir, en hann var þó ekki með berin með sér. Pabbi bauðst til að hjálpa honum að hreinsa strax í gærkvöldi og það varð úr að Hellingurinn fór og sótti berin. Ég fór ekkert út til að fylgjast með en pabbi kom inn klukkan langt gengin í ellefu og sagði að þetta hefðu verið 37 kíló af krækiberjum. Við tíndum ekki alveg svo mikið en erum að veðja um hvursu nálægt 20 kílóum við náðum að tína.

Ég var ákveðin í að skella mér í sund með pabba í morgun og vissi að ég þyrfti að vera komin fram rétt upp úr klukkan sex. Hafði stillt vekjaraklukkuna á 5:55 er var vöknuð amk korteri fyrr. Þegar ég kom fram fimm mínútum yfir heila tímann var pabbi sestur við eldhúsborðið og var að leggja kapal. Ég náði líka að leggja tvo kapla áður en við renndum af stað. Vorum mætt fyrir framan laug um 6:20 og þurftum að bíða í um fimm mínútur áður en einhver kom að opna enda er opnunartíminn auglýstur frá kl. 6:30. Ekki var búið að láta renna í kalda karið svo við feðginin byrjuðum á því að synda. Ég synti 550 metra á 22 mínútum, þar af 150m á bakinu og 100m skriðsund. Rétt fyrir klukkan sjö fór ég svo fyrstu ferðina af þremur í kalda karið sem var 7,5°C.

19.8.19

Krökkt af krækiberjum

Eftir að hafa gert tilraun til þess að stoppa tímann með því að gera mest lítið á föstudaginn og laugardaginn (reyndar "datt" ég inn í bóklestur svo...já hm) skrapp í sund upp úr klukkan hálftíu í gærmorgun. Kom við í Öskjuhliðinni eftir sundið, eftir að hafa fyllt á bílinn hjá Atlantsolíu og athugað svo með loftþrýstinginn í dekkjunum. Fékk mér kaffi hjá þeim syninum sem vinnur hjá Kvikk. Fór heim og fékk mér smá snarl áður en ég tók mig saman, vakti N1 soninn til að kveðja og lagði af stað austur. Aldrei þessu vant kom ég við í Löngumýrinni. Jóna Mæja var úti að sýsla í garðinu en við fórum inn rétt strax og Reynir frændi kom í miðjum kaffitímanum. Var komin á Hellu rétt fyrir klukkan fimm og tók strax út blokk af þorski til að hafa í kvöldmatinn.

Tók af rúminu í morgun, setti í þvottavél og hengdi út á snúru tveimur tímum seinna. Smurði nesti, (í hádeginu) flatkökusamlokur með sultu og osti og einnig nokkrar með smjöri og hangiketi og setti vatn í brúsa. Pabbi fann til berjatínur og fötur og svo lögðum við í hann um klukkan eitt. Keyrðum í ca tuttugu mínútur áður en við stoppuðum fyrst til að athuga með ber. Og það voru ber. Tíndum til klukkan langt gengin í þrjú. Þá fengum við okkur af nestinu og svo færði pabbi bílinn aðeins innar, kannski svona 3 km. Þar voru líka ber og fullt af þeim, mörg hver alveg ágætlega stór. Tíndum þar til klukkan var alveg að verða fimm og  vorum þá búin að fylla föturnar aftur. Pabbi ætlar að hreinsa og vigta afraksturinn á morgun. Við höldum að þetta sé hátt í tuttugu kíló, eða ársskammturinn eða svo.


16.8.19

Ferð á bókasafnið

Á miðvikudagskvöldið hafði ég boðið N1 syninum að skutla honum á vinnuvakt við Stórahjalla í gærmorgun. Opna átti stöðina klukkan hálfátta en hann stefndi að því að vera mættur upp úr klukkan sjö til að undirbúa sig. Þetta hentaði mér mjög vel því ég fór auðvitað beint í sund eftir skutlið og var komin ofan í kalda pottinn í Laugardalslauginni rétt upp úr klukkan hálfátta. Gaf mér góðan tíma í alla sundrútínu og var klukkan að verða tíu þegar ég kom heim. Þá hitaði ég mér kaffi. Tæpri klukkustund síðar var ég mætt á Klambratúnið á Qi gong æfingu.

Upp úr klukkan tvö ákvað ég að fara í innkaupaleiðangur og þrátt fyrir að hafa enn viku og tvær ólesnar bækur af átta af safninu tók ég þessar lesnu með mér og kom fyrst við í Kringlusafninu til að skila þeim. Þær tvær ólesnu eru 3. og 4. bókin í samnefndum Napólísögum. Er búin að sjá þáttaröðina eftir fyrstu bókinni í RÚV-frelsi en ekki búin að lesa neina af bókunum svo ég var ómeðvitað að athuga hvort nr 1 og 2 væru lausar á viðkomandi safni. Þær voru það ekki og ég ákvað að ég skyldi frekar athuga með þær seinna heldur en að fletta því upp hvort og þá hvar eintök væru á lausu. En auðvitað fór ég ekki tómhent af safninu, átta bækur "eltu mig", takk fyrir. Svo núna er ég með tæplega níu ólesnar bækur af safninu fyrir utan fullt að bókum sem ég þarf ekki að fara eftir neinum skilafresti svo þær lenda því miður aðeins aftar í lesröðina. Ég er semsagt langt komin með að lesa; Þeir sem fara og þeir sem fara hvergi eftir Elenu Ferrante (dulnefni). Sú bók heldur mér svo föstum tökum að ég er ekki búin að fara út í dag.

Eftir bókasafnsferðina fór ég í Krónuna við Granda og á leiðinni heim kíktí ég stuttlega á Brynju vinkonu. Höfðum aðeins hálftíma áður en hún þurfti að fara að sækja tvíburadætur sínar á reiðnámskeið. En hálftími er nóg fyrir einn kaffibolla og smá spjall, sérstaklega þegar verið er að leggja drög að öðrum hittingi fljótlega.

15.8.19

Komin heim úr hringferðalaginu

Ég pakkaði niður um verslunarmannahelgina og lagði af stað á sunnudeginum. Ákvað að taka stuttan, en kunnuglegan túr. Kom við í Fossheiðinni en stoppaði svo tvær nætur á Hellu hjá pabba. Kvaddi hann rétt upp úr klukkan hálfníu á þriðjudagsmorguninn og lagði af stað austur á bóginn. Hugurinn bar mig sterkt og frekar hratt í áttina til æskuvinkonu minnar. Stoppaði ca fjórum sinnum á leiðinni, mislengi. Keypti mér kaffibolla á N1 við Kirkjubæjarklaustur og fékk að nota salernið. Stoppaði næst á mjög góðum nestis-stopp-stað rétt vestan við Hala. Gat pissað í hvarfi örstutt frá, inn á milli hóla. Svo stoppaði ég reyndar aftur á Hala, hefði líklega ekki stoppað nema vegna þess að það setti mig smávegis út af laginu á rétt austan við afleggjarann voru tveir lögreglubílar, sjúkrabíll og tveir tjónaðir bílar. Ákvað á núll einni að fá mér kaffi og eplatertu á Þórbergssetrinu og tæma blaðrið betur. Sjúkrabíllinni var farinn, þegar ég hélt áfram för, en lögreglan stjórnaði umferðinni þar sem ekki var hægt að mætast við tjónuðu bílana. Stoppaði einu sinni enn nokkru áður en beygt er að leiðinni um Öxi. Vel gekk að keyra yfir Öxi og var ég komin á Egilsstaði rétt upp úr klukkan hálfsex. Byrjaði á því að finna Atlantsolíu og fylla á bílinn áður en ég lagði fyrir utan hjá vinkonu minni. Stoppaði á Egilsstöðum fram á hádegi á föstudag. Við vinkonurnar fórum m.a. tvisvar sinnum í sund en vorum hvorugar spenntar yfir að keyra mikið um austfirðina. Höfðum um margt að spjalla enda leið tíminn alltof hratt.

Var komin til systur minnar seinni partinn á föstudeginum. Hún var með matarboð um kvöldið en einn frændi okkar, bróðursonur mömmu konan hans og tveir synir voru í bústað í Hlíðarfjalli. Áður en kvöldinu lauk vorum við búin að sammælast um að fara saman á smakkið á Fiskideginum mikla á Dalvík fyrir hádegi á laugardeginum. Það var mjög skemmtilega upplifun og um kvöldið fórum við systur aftur á staðinn til að upplifa tónleikana á eigin skinni. Ég fór tvisvar sinnum í sundlaugina á Akureyri og fannst hún frábær í alla staði. Við hittum frændur okkar einu sinni enn í kaffi og vöfflum hjá Helgu systur eftir að við tvær vorum búnar að kíkja aðeins á handverkshátíðina. Stoppaði á Akureyri alveg til hádegis á þriðjudaginn. Hafði þá samband við eina frá Hellu sem býr á sveitabænum Óslandi skammt frá Hofsósi. Hún sagðist geta tekið á móti mér seinni partinn, var að erindast inn á Króknum. Ég keyrði í gegnum Dalvík, Ólafsfjörð, Siglufjörð og nokkur göng og fékk mér smá sundsprett í sundlauginni á Hofsósi. Og keyrði í hlaðið á Óslandi rétt á undan hinum Rangæingnum. Mér var boðið í kaffi, kvöldmat og loks gistingu sem ég þáði. Eftir morgunkaffið í gær skrapp ég með henni aðeins í búð á Hofsós og rúntaði hún með mig um svæðið og sagði mér frá því helsta. Klukkan var orðin eitt þegar ég þakkaði fyrir mig og kvaddi. Var leyst út með gjöfum, handverki og heimagerðri reyktri og saltaðri rúllupyslu. Keyrði um Sauðárkrók suður, stoppaði aðeins í Staðaskála og var komin heim rétt fyrir klukkan sex.

2.8.19

Ferðaundirbúningur hafinn í huganum

Skutlaði N1 syninum á vakt í Skógarselið um hálfátta í gærmorgun og fór beinustu leið í sund. Áður en ég fór að heiman hafði ég fyllt skúringafötuna af köldu vatni og hraðsuðukönnuna einnig. Ástæðan var sú að kvöldið áður fékk ég tilkynningu frá veitum að lokað yrði fyrir kalda vatnið í götunni frá klukkan níu til klukkan fimm. Kom heim úr sundi upp úr klukkan níu. Ákvað að bíða með að búa til kaffi þar til ég kæmi heim af Qi-gong æfingu um hádegið. Fór á Klambratúnið í stuttbuxum og hlýrabol með peysu bundna um mittið. Dagurinn leið fremur hratt þótt ég væri ekki að gera neitt sérstakt.

Í morgun skutlaði ég N1 syninum á vakt í Mosfellsbæinn stuttu fyrir sjö og fór að sjálfsögðu beint í sund á eftir. Dagurinn hefur annars farið í alls konar. Er búin að lesa 4 bækur af 8 af safninu, ganga frá endum á tveimur tuskum og fitja upp á enn einni tuskunni.


1.8.19

Dagsferð með vinkonu

Var komin í sund rétt upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Hitaði mér kaffi og fékk mér hressingu þegar ég kom heim aftur stuttu fyrir níu. Náði að lesa smávegis en stoppaði ekki mjög lengi heimavið. Tók mig til fyrir dagsferð um Suðurlandið. Skutlaði N1 syninum á aukvakt í Kópavoginn rétt fyrir tíu og sótti eina vinkonu mína og jafnöldru sem býr þar stutt frá. Leyfði henni að ráða hvaða leið við færum út úr bænum en markmiðið var m.a. að heilsa upp á pabba um miðjan dag.

Það var ákveðið að fara um Mosfellssveit og taka svo leiðina á Þingvöll, framhjá Laxnesi. Stoppuðum samt ekkert á Þingvöllum. Fyrsta stopp var á Laugavatni þar sem við kíktum á staðinn sem nefndur er Fontana. Fengum okkur smá hádegishressingu og ég einn kaffibolla að auki. Löbbuðum aðeins um svæðið og ákváðum báðar með sjálfum okkur að koma seinna og prófa þetta laugardæmi við vatnið.

Næst gerðum við örstutt stopp á Friðheimum, eingöngu til að skoða og rölta um. Svo lá leiðin á Sólheima í Grímsnesi. Lagði bílnum mjög ofarlega svo við gætum rölt meira um, enda skráði síminn á mig sjálfvirkan göngutúr. Fengum okkur íspinna í hressingu og sátum um stund úti í sólinni í 21°C hita. Eftir þetta stopp lá leiðin yfir í næstu sýslu. Vorum komin á Hellu um þrjú. Pabbi tók vel á móti okkur, var að hitta þessa vinkonu mína í fyrsta sinn. Ég hitaði kaffi og gerði eina soppu af pönnukökudeigi og steikti á tveimur pönnum. Eftir kaffið tók ég út þorskblokkir að beiðni pabba en hann bauð okkur svo í tveggja tíma bíltúr um Rangárvelli. Fórum eystri leiðina að Keldum þar sem við gerðum smá stopp. Síðan fórum við upp hjá Gunnarsholti og komum niður hjá Heiði. Klukkan var að verða sjö þegar við komum aftur á Hellu. Pabbi horfði á fréttirnar á meðan ég útbjókvöldmatinn, steiktan fisk og gufusoðið grænmeti (blómkál, sæt kartafla, 1 laukur og hálft grænt epli að auki). Fljótlega eftir kvöldmatinn kvöddum við pabba og ég skilaði vinkonu minni heim að dyrum nákvæmlega 12 tímum eftir að ég sótti hana.