26.9.21

Sunnudagur

Korter yfir átta var ég komin í mína fyrstu ferð af þremur í kalda pottinn í Laugardalslauginni. Fór eina ferð í þann heitasta og eina í sjópottinn áður en ég synti 300 metra á brautum 7 og 8. Synti helminginn á bakinu því ég þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr og var því alveg sama þótt "læki" meira inn fyrir sundhettuna en gerist þegar ég syndi bara á bringunni eða skriðsund. Rétt fyrir hálftíu lagði ég bílnum fyrir framan heima, tók með mér vegabréfið og geymdi sunddót og annað dót í skottinu á meðan ég rölti á kjörstað og nýtti kosningaréttinn. Það var engin röð svo þessi gjörningur tók enga stund. Lengsta tímann tók sennilega að labba báðar leiðir til og frá Hlíðarskóla en það er samt ekki langur spotti. Setti handklæði í þvottavél og pakkaði niður fyrir skrepp út úr bænum. Davíð Steinn var kominn á fætur áður en ég lagði af stað austur og hann tók að sér að hengja upp úr þvottavélinni. Vakti Odd um tólf til þess að kveðja hann líka og fór svo beinustu leið austur á Hellu. 

25.9.21

Kjördagur

Slökkti á vekjaraklukkunni korteri áður en hún átti að hringja. Fór á fætur og gaf mér tíma í netvafr áður en ég labbaði í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Var á vélinni fram að hádegi, að hlaða inn og troða í fram að kaffi og taka á móti, telja og skoða eftir kaffi. Eftir hádegi leysti ég þá sem var í bókhaldinu af þar til hún kom frá því að fara með mömmu sína í læknisheimsókn. Hættum vinnu um þrjú og þrjár af okkur fjórum fórum yfir í K2 þar sem verið var að kveðja starfsfólk sem hefur hætt sl. tæp tvö ár. Fimm aðilar alls en fjögur af þeim mættu og tóku á móti blómvendi og bókargjöf. Ég fékk svo far alla leiðina heim eftir uþb þriggja kortera stopp í kveðjuveislunni. Ég gat ómögulega ákveðið mig hvort ég ætti að skreppa í sund eða sjóinn. Það hefði reyndar átt að vera sjóferð því ég var búin að ákveða að sjá til þess að það verði opið á föstudögum á veturnar í Nauthólsvík. Til þess að það virki verð ég auðvitað að fara í Nauthólsvík á föstudögum. Nú hef ég hins vegar ekki mætt þangað tvo föstudaga í röð. 

24.9.21

Síðasti föstudagurinn í mánuðinum

Vekjaraklukkan vakti mig rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun. Hafði samt tíma til að vafra aðeins um á netinu áður en ég labbaði í vinnuna þvert yfir Klambratún, Flókagötu, Gunnarsbraut, Snorrabraut, Laugaveg, Hverfisgötu og Ingólfsstræti að Kalkofnsvegi. Var mætt í vinnu rúmlega hálfátta. Tók strax til við að sinna smá bókhaldsstörfum áður en við kveiktum á framleiðsluvélinni og sóttum alla vagna inn á lager. Þá var kominn tími til að fara fram með nestið og vatnsflöskuna. Skipta um bol, fá sér smá kaffi og prjóna til klukkan átta. Vinnudagurinn leið ágætlega hratt. Vorum að til klukkan að verða hálffjögur. Þá labbaði ég heim yfir Skólavörðuholtið og nennti hvorki í sund né sjóinn heldur hélt mig heima það sem eftir lifði dags. 

23.9.21

Fimmtudagur

Það var fríkeypis í strætó í gær og ég nýtt mér það og tók vagninn korter yfir sjö. Var mætt í vinnu eftir sex vikna frí um hálfátta, ekki fyrst á mitt vinnusvæði en númer tvö af fjórum. Ein samstarfskona mín er í fríi þessa vikuna. Mitt hlutverk var að fara á móttökuendann á framleiðsluvélinni en fyrst tók ég til þær tegundir sem átti að framleiða í fyrstu tveimur verkefnunum. Eftir kaffi var ég frammi í pökkun og eftir hádegi var ég á ítroðsluendanum á vélinni og þá vorum við að vinna í endurnýjun, allt daglegt var búið. Hættum vinnu upp úr tvö og ég fékk far heim. Kalda potts vinkona mín var búin að setja sig í samband og spyrja hvort ég kæmi í sund og við hittumst í Laugardalslauginni um fjögur. Syntum ekkert en fórum sex sinnum í kalda og enduðum í gufunni.

22.9.21

Fyrsti vinnudagur eftir sumarfrí

Ég var klædd og komin á ról um hálfátta í gærmorgun. Var heimavið mest allan daginn. Lánaði Oddi bílinn um ellefu leytið svo hann kæmist í starfsviðtal. Dagurinn hjá mér notaður í svipaða hluti og marga aðra innidaga. Klukkan átta bankaði ég upp á hjá nágrannanum á neðri hæð og var fyrst til að mæta á boðaðan húsfund. Á fundinn mættu fulltrúar úr sex íbúðum af átta. Eftir rúmlega klukkutíma fund var niðurstaðan sú að bíða með allsherjar framkvæmdir, hafna báðum tilboðunum og fá frekar múrara í að fylla í sprungur þar sem lekur. Ef múrarinn mun segja okkur að betra væri að fara í almennt viðhald munum við hlýða því en fáum líklega ekki eins gott tilboð í verkið og við vorum með. Ef múrarinn gerir hins vegar engar athugasemdir, lokar bara þessum sprungum, þá tökum við stöðuna eftir 3-4 ár. Í millitíðinni myndi ég láta taka gluggana í gegn hjá mér. Ég lét það alveg í ljós að ég hefði helst viljað fara í þessar framkvæmdir og benti á að með því að fresta þeim yrði þetta bara dýrara dæmi fyrir alla. Eins var samþykkt að segja sig úr húseigendafélaginu.

21.9.21

Síðasti "sunnudagurinn" í bili

Ég hrökk upp um eitt leytið í fyrrinótt við umgang, annar sonur minn að hleypa systurdóttur minn og kærasta hennar inn. Ég sneri mér á hina hliðina til að byrja með en kærustuparið lokaði sig af inni í stofu og tala saman á lágu nótunum. Gallinn er hins vegar sá að á nóttunni verður allt hljóðbærara. Hálftíma síðar sendi ég frænku minni sms um að það ætti að sofa á nóttunni. Kærastinn fór fljótlega en sms-svarið frá Bríeti fékk mig til að fara yfir til hennar og athuga hvort allt væri í lagi. Hún hafði sem sagt lent í því að keyrt var aftan á hana á ljósum. Var nýbúin að skila kærastanum heim og ætlaði sér eiginlega að keyra beint austur. Í staðinn gerist þetta. Lögregla og sjúkraflutningafólk kom á staðinn og einnig kærasti hennar. Hún var í 100% rétti en fékk létt áfall og kvíðakast. Hún þurfti ekki að fara á bráðamóttöku, var illt í höfði og í maganum og var sagt að ef hún kastaði upp þá þyrfti hún að fá frekari skoðun. Bíllinn var ökufær og kærastinn lagði honum í nágrenninu og skutlaði svo Bríeti hingað. Bríet fullvissaði mig um að það væri í lagi með sig. Hún hefði átt að mæta í vinnu um ellefu í gær en hringdi sig inn lasna um níu leytið. Hún lét einnig afa sinn vita að hún kæmi ekki austur fyrr en um kvöldið. Kærastinn ætlaði að koma með bílinn hennar eftir skóla. Hún fann fyrir eymslum í hálsi og herðum og tók því rólega fram eftir degi. Lögreglan hafði sagt henni að hafa samband við tryggingafélagið sitt og hún gerði það. Þar fékk hún þau svör að nóg væri að lögreglan skilaði inn skýrslu til þeirra. Mundi kom um fjögur leytið og þau kvöddu. Hún fór þó ekki austur fyrr en í gærkvöldi. Kærastinn er á leiðinni út í mánaða skíðaæfingabúðir og þau vildu nýta tímann eins vel og mögulegt var.

20.9.21

Næst síðasti sumarfrísdagurinn

Skutlaði N1 syninum á vakt um hálftíu og fór svo beint í Laugardalinn í sund. 3x fimm mínútur í kalda, einu sinni í heitasta, 300 metra bringusund, 10 mínútur í sjópottinn, 10 mínútur í gufunni og fimm mínútur í "sólbaði" áður en ég fór upp úr. Kom við í Krónunni við Fiskslóð áður en ég fór heim. Fékk stæði í Blönduhlíð og Oddur Smári var svo almennilegur að koma út, hjálpa mér með vörurnar inn og ganga frá þeim. Horfði á einn og hálfan leik í enska, hellti mér tvisvar upp á kaffi og hafði vefjur með kjúklingafílle, medium salsasósu og niðurskornu grænmeti í kvöldmatinn. Er uþb hálfnuð með HHhH og byrjuð á að lesa nýjustu bók Yrsu Sigurðardóttur; Bráðin.

19.9.21

Sunnudagur

Ég þurfti að ýta við N1 syninum upp úr klukkan sjö í gærmorgun til þess að ég gæti skutlað honum á vinnustað og að hann yrði mættur þar um hálfátta. Eftir skutlið fór ég beint heim aftur. Bríet svaf í stofunni svo ég lagði mig aftur upp í mitt rúm. Var reyndar að lesa hluta af tímanum. En um hálfellefu fékk ég mér eitthvað að borða og var mætt í Nauthólsvíkina um það leyti sem opnaði um ellefu. Hitti þrjár úr sjósundshópnum en ekki þær tvær úr sundi sem höfðu beðið mig um að hitta sig kannski. Busluðum í rétt rúmlega 10 gráðu sjónum í korter. Mér fannst of margt um manninn í bæði gufunni og pottinum svo ég fór beint inn í klefa. Var líka búin að lofa norsku esperanto vinkonu minni að kíka aðeins á hana um tólf, byrja svona aðlögunarhitting eftir langt hlé. Drakk tvo bolla af kaffi hjá Inger og Hinna. Við Inger færðum okkur fljótlega fram í forstofuherbergið. Stoppaði samt ekki nema um þrjú korter í þetta sinn. Heima var það svo, lestur, fótbolti, körfubolti og prjón sem reyndar var rakið upp. 

18.9.21

Laugardagur

Mætti í Laugardalslaugina rétt upp úr klukkan átta í gærmorgun. Byrjaði á því að skella mér í kalda pottinn í fimm mínútur áður en ég synti í uþb tuttugu mínútur, þar af tvær ferðir á bakinu. Fór aftur í kalda, smá stund í sjópottinn, gufubað, kalda sturtu og tvær mínútur í kalda áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Næst lá leiðin í Kristu Quest við Laugaveg þar sem hárið fór í smá "viðhald". Það tók lengri tíma að þurrka og greiða hárið heldur en að snyrta endana. Pantaði næsta viðhaldstíma í byrjun mars og óskaði klipparanum mínum gleðilegra jóla áður en ég kvaddi og fór heim.

Seinni partinn í gær hringdi fyrrum kórsystir mín úr KÓSÍ kórnum. Sú er jafnaldra pabba og býr í þjónustuíbúð við Lindargötu. Það er orðið nokkuð langt síðan ég heimsótti hana síðast en ég hugsa oft til hennar og hringi stöku sinnum. Í gær varð henni hugsað til mín eftir að hafa séð tilsýndar fyrrum samstarfsmann minn í matsalnum að fá sér kaffi með háöldruðum föður sínum sem býr þarna. Vinnufélaginn fyrrveradi er sjálfur rúmlega sextugur og býr í íbúð stutt frá Hlemmi.

Bríet var ekki komin um ellefu í gærkvöldi og hún svaraði ekki símanum (enda var hún í bíó). Sendi henni skilaboð um að hringja í Odd til að opna fyrir henni þegar/ef hún kæmi. Sjálf væri ég á leið í háttinn þar sem ég hefði lofað Davíð Steini að skutla honum í vinnu þar sem hann átti að vera mættur um hálfátta í morgun. 

17.9.21

Föstudagur

Það leit lengi vel út að ég færi ekkert út úr húsi í gær. Var ekkert svo seint á fótum miðað við að vera í sumarfríi en það var eins og ég gæti ekki ákveðið mig hvort ég ætti að skella mér í sund eða sjóinn. Um tvö sá ég að ég hafði fengið tvær fyrirspurnir á facebook-spjallinu. Önnur var frá yngri systurdóttur minni um hvort hún mætti gista hjá mér um helgina og hin frá kalda potts vinkonu minni um hvenær ég væri á leiðinni í sund næst. Svaraði þeim báðum, frænku minni á þá leið að hún væri velkomin og hinni að ég væri ekki viss. Spurði í leiðinni hvenær hún færi í sund. Það varð úr að ég dreif mig í Laugardalinn klukkan að ganga fjögur og var búin að fara einu sinni fimm mínútur í kalda og synda 300 metra þegar vinkona mín mætti á svæðið. Fórum 6x3 mínútur í kalda og enduðum á góðri gufuferð. Davíð Steinn tók að sér að elda kvöldmatinn, hafði kjötbollur og var að búa til svoleiðis í annað sinn. Mjög gott hjá honum. 

16.9.21

Ennþá í sumarfríi

Klukkan var rétt að verða sjö þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Dagurinn fór þannig að ég fór ekki út úr húsi fyrr en langt gengin í fimm. Skutlaði þá Davíð Steini í myndatöku í Ármúlanum vegna einhvers hópleiks í netheimum. Ég notaði tækifærið og skrapp á bókasafnið. Skilaði af mér fimm bókum. Hugmyndin var svo sú að taka færri bækur í staðinn en mér rétt tókst að koma í veg fyrir að þær yrðu fleiri. Þannig að jafnmargar bækur fóru með mér heim og ég skilaði á safnið. Í viðbót við þessar fimm er ég með þrjár af safninu og er að lesa tvær af þeim. Söngur Súlu eftir Hrafnhildi Valgarðsdóttur og Hundalíf: ...með Theobald eftir Þráinn Bertelsson. Þriðja bókin er HHhH eftir Laurent Binet. Þessar bækur eru með skilafrest til 10. október með rétt til að framlengja um 30 daga. Hinar bækurnar eru með skilafrest til 15. október og einnig með rétt til að framlengja um þrjátíu daga.

15.9.21

Hugsað í hringi

Ég fór í sund um átta í gærmorgun en var annars heimavið allan daginn að sýsla við ýmislegt misgáfulegt. Sendi póst á þann sem hefur með "kannski tilvonandi framkvæmdir" að gera og lét vita að ég hefði ekki haft umboð til að samþykkja tilboðið. Hann hringdi til baka og kvatti mig til að boða til húsfundar til að kjósa um málið og hafa það skriflegt hvernig sem fer. Seinni partinn bankaði nágranninn niðri upp á til að athuga með mig eftir smá skammarfærslu á sameiginlega svæði beggja húsfélaga frá einum í 19. Nágranni minn sagðist hafa hringt í viðkomandi, hellt sér yfir hann og bent honum á nokkrar staðreyndavillur í skrifunum. Nágranninn niðri sagðist vera tilbúinn að hýsa húsfund hjá sér. Hann sagðist líka alveg vera tilbúinn að fresta framkvæmdum ef gert yrði við leka. Staðan er erfið hvernig sem á málið er litið. Hversu lengi er fólk að safna fyrir svona stórum framkvæmdum? Auðvitað mislengi og fjölskylda með ung börn og gæludýr örugglega lengur. Hefur maður samvisku til að senda svoleiðis fjölskyldu í erfiða stöðu þótt það þýði að greiðsluhlutur manns í verkefninu verði ekki jafn hagstæður þegar og ef farið verður einhvern tímann í þessar aðgerðir?

14.9.21

Mistök

Það varð uppi fótur og fit hjá tveimur af átta íbúðareigendum sameiginlegs húsfélgas þegar ég tilkynnti að búið væri að samþykkja verktilboð. Sem betur fer er ekki búið að skrifa undir neinn verksamning. En annar eigandinn benti á að það þyrfti samþykki á húsfundi og hinn vildi meina að það lægi ekkert á þessu næstu misserin. Ég væri alveg til í að losna undan stjórnarsetu sameiginlegs húsfélags en mundi samt greiða atkvæði mitt með húsinu hvort sem það atkvæði væri í meiri eða minnihluta. Það er kannski kominn tími til að líta í kringum sig eftir öðru húsnæði?

Fór í sjóinn um ellefu í gær. Hann var úfinn, það var flóð og hitastigið tæpar tólf gráður. Hafði það af að synda út að kaðli í gegnum öldurnar en þurfti að passa mig á að opna ekki munninn og anda þegar ég mætti þeim (öldunum). Skrapp í búð á leiðinni heim.

13.9.21

Tilboð samþykkt

Í dag rennur út frestur á verktakatilboði í framkvæmdir utanhúss. Sem formaður og vitandi að það er meirihluti í sameiginlegu húsfélagi Drápuhlíð 19-21 þá ákvað ég að samþykkja þetta tilboð án þess að boða til húsfundar. Rökin mín eru þau að Húsfélagið var stofnað í kringum þetta verkefni fyrir nokkrum misserum síðan, búið er að halda tvo aðalfundi og allir eru búnir að sjá þennan frest á sameiginlega svæðinu. Við vorum með tvö tilboð sem munaði rúmlega tíu millijónum á. Lægra tilboðið byggist á tilboði sem var lægst þegar verkið var sett í útboð á sínum tíma, að vísu ekki sami verktaki og þá. Að mínu viti get ég ekki séð að það þurfi að funda enn einu sinni til að taka ákvörðun. Það væri bara til þess að fara enn einn hringinn og jafnvel tapa af þessu tilboði. Er ekki líka kosið í stjórn til að fá þá aðila til að halda utan um þetta verkefni? Meðstjórnendur mínir eru sammála um að taka þessi tilboði og ýta þessu verkefni í gang. Þar að auki veit ég að nágrannar úr amk tveimur af hinum fimm íbúðunum (fyrir utan íbúðir stjórnar) eru samþykkir. Svo ég hef meirihlutann á bak við mig.

Mætti í sund um níu í gærmorgun. Synti aðeins 300 metra en fór nokkrum sinnum í kalda pottin, einu sinni í sjópottinn og endaði í góðu gufubaði. Eftir sundferðina fór ég beint heim aftur og hélt mig þar yfir bókum, prjónum, fartölvu, útsendingum frá íþróttaleikjum og þáttagláp.

12.9.21

Færsla 3000

Það var 19. janúar 2003 sem fyrsta bloggfærslan mín var. Þetta er færsla númer þrjúþúsund. Ekki hefur verið bloggað alla daga en á einhverju tímabilinu setti ég inn tvær færslur á hverjum degi og kallaði aðra þeirra millispil eða eitthvað þess háttar. Ef ég hefði bloggað einu sinni á dag allan tímann væru færslurnar orðnar í kringum sexþúsund.  Sjö af þessum tæpu átján blogg árum voru færslurnar færri en hundrað. Fæstar voru þær 2012 eða 12. Tveimur árum síðar, 2014, voru þær 368. Færsla dagsins er númer 252 og hef ég bloggað alla daga nema þrjá. Ef ég blogga alla þá daga sem eftir eru af þessu ári verður þetta blogg ár í öðru sæti yfir fjölda færslna, þ.e. ef ég sendi aðeins eina færslu á dag sem er líklegast.

Annars var ég vöknuð mjög snemma í gærmorgun og komin á fætur um sex. Sundlaugin opnar klukkan átta um helgar svo að sjálfsögðu notaði ég tímann til að vafra um á netinu. En ég var mætt í Laugardalinn um leið og opnaði. Fór fjórum sinnum í kalda pottinn, synti í tuttugu mínútur, var uþb korter í sjópottinum og tíu mínútur í gufunni. Þvoði svo á mér hárið áður en ég fór heim aftur. Heimadundið var svipað og venjulega, lestur, prjón, þáttaáhorf og eitthvað netvafr.

11.9.21

Vaknað mjög snemma

Á þessum tíma í gærmorgun, þ.e. um sjö, var ég ekki vöknuð. Rumskaði reyndar í fyrrinótt og átti smá erfitt með að sofna aftur en það hafðist á endanum. Klukkan var svo langt gengin í níu þegar ég fór á fætur. Sem fyrr byrjaði ég á því að setjast niður með fartölvuna eftir morgunverkin á baðherberginu. Um tíu fékk ég mér eitthvað að borða og ég var komin í Nauthólsvík um leið og opnaði. Kortið gilti enn en það var síðasti dagurinn af voraðganginum. Synti út að kaðli, kom við í víkinni og gufunni áður en ég skrapp aðeins í heita pottinn. Áður en ég fór af svæðinu keypti ég aðgan fram að áramótum og fékk smá afslátt af haustpassanum, borgaði tæpar sex þúsund í stað rúm sjöþúsund enda byrjaði tímabilið 23. ágúst sl. Áður en ég fór heim aftur kom ég við í Fiskbúð Fúsa og keypti ýsuflök og fiskibollur. Bræðurnir skruppu saman í Sorpu-ferð fljótlega eftir að ég kom heim. Annars er frekar lítið að frétta.

10.9.21

Komin heim

Tók því rólega framan af degi í gær. Var tillölulega snemma á fótum. Hellti upp á könnuna um níu. Var að prjóna, lesa, vafra um á netinu og leggja kapla. Pabbi bauð mér með sér á Kanslarann í hádeginu og samkvæmt venju á fimmtudögum var stórsteik í matinn. Fljótlega eftir að við komum til baka fór pabbi út að slá. Ég fór að huga að því að taka mig saman. Klukkan var samt orðin hálfþrjú þegar ég var búin að ferma bílinn og kvaddi pabba. Þá sat hann út í garðskúr að gera við sláttuvélina en hann hafði slegið í sundur snúruna. Ég sagði honum að ég ætlaði lengri leiðina heim en myndi smessa á hann þegar ég væri komin í bæinn. Já, ég ákvað að keyra Suðurstrandaveginn og kom við hjá vinafólki í Grindavík. Var þar um hálffimm og stoppaði í rúman klukkutíma. Klukkan var að verða sjö þegar ég kom heim. Davíð Steinn var að vinna og ég fékk þá flugu í höfuðið að biðja Odd um að sækja hann eftir vaktina og mæla með því að þeir kæmu við og sæktu fjölskyldupakka af KFC á heimleiðinni. Það féll vél í kramið. Við vorum að borða um hálfníu og þá hefði N1 strákurinn verið rétt ókominn heim ef hann hefði þurft að taka strætó. Þær bræður komu bæði við á KFC og í pósthólfi við Krinluna á leiðinni af Gagnvegi. Vaktin hjá Davíð Steini stendur alltaf til kl.19:30. Ég fylgdist svo aðeins með útsendingu af bikarkeppni handbolta karla, 16 liða úrslitum á RÚV2.

9.9.21

Lífið er gott

Þrátt fyrir að vera með sunddótið með mér hef ég ekki farið í sund á meðan ég hef verið í heimsókn hjá pabba. Fór á fætur rétt fyrir hálfníu í gærmorgun. Pabbi var komin úr sundi og að klæða sig í skárri leppana því tæpum klukkutíma seinna lagði hann af stað í bæinn. Hann átti eftirlitstíma vegna blöðrumála um ellefu á Landsspítalanum við Hringbraut. Tæpum einum og hálfum tíma eftir að pabbi fór, kvaddi systurdóttir mín mig og lagði af stað í sína vinnu. Hún er að vinna hjá SS á Hvolsvelli og þessa vikuna frá klukkan ellefu til sjö. Ég tók því rólega. Hellti upp á kaffi, las, prjónaði og vafraði aðeins um á netinu. Pabbi kom heim um hálftvö. Stuttu seinna fékk ég mér göngutúr upp á Helluvaði og heimsótti föðursystur mína. Sonur hennar og tengdadóttir sem búa í hinum enda hússins eru í Hveragerði þennan mánuðinn og frá og með næsta mánudegi fær frænka mín hálfs mánaðar hvíldarinnlögn á elliheimilinu Lundi. Hún, 93 ára og átta mánaða finnur fyrir að hún er að þreytast. Hins vegar er hún ekki einu sinni orðin hvíthærð eins og dóttir hennar sem er rúmum þrjátíu árum yngri.

8.9.21

Allt í rétta átt?

Svaf næstum því til klukkan átta. Var þó komin á fætur áður en pabbi kom heim úr sundi. Vafraði aðeins smástund á netinu. Þar sem var komið annað tilboð í framkvæmdir utanhúss sem var amk 10 millijónum dýrara en tilboðið sem við fengum í júli var ég beðin um að athuga hvort fyrra tilboðið stæði óbreytt. Hafði samband við milliliðinn, þann sem mundi skrifa upp á framvindureikninga og taka út verkið. Bað hann um að senda svarið í meili þegar hann væri búinn að tala við verktakann og taka fram hversu stuttan tíma við hefðum til að ákveða okkur. Svarið kom um miðjan dag. Tilboðið stendur til 13. september og framkvæmdir myndu byrja eftir miðjan október. Setti þessa tilkynningu inn á sameiginlega svæðið og bað fólk um að taka afstöðu. Allir eru búnir að sjá þetta en aðeins sá sem var í sambandi við þann sem gerði okkur seinna tilboðið búinn að svara. Hann tók það fram að hann vildi bara fylgja meiri hlutanum. Veit að ég hef formanninn í mínum stigagangi og mjög líklega þá sem eru með mér í stjórninni svo það eru fimm af átta. Spurning hvort stjórnin muni bara ekki taka aftöðu ýta málunum almennilega af stað? Þau sem aðallega hafa verið á "bremsunni" eru líklega í klemmu en þau eru búin að fá rúm þrjú ár og nú þarf að fara að kjósa með húsinu.

Pabbi bauð mér með sér á Kanslarann í hádeginu og var rukkaður það sama fyrir minn skammt. Ekkert löngu eftir að við komum til baka kom maður einnar frænku minnar í móðurætt í heimsókn. Sá vinnur hjá Brimborg og hjálpar okkur oft við bílamálin. Hann var í veiði í Ytri Rangá, veiðifélagarnir farnir, og ákvað að kíkja aðeins á gamla manninn. Kona þessa manns og ég erum skyldar í annan og þriðja lið. Seinna skrapp pabbi í búðina, hafði gleymt miðanum heima þegar við fórum í hádeginu. Eftir kaffi ákvað ég að safna skrefum. Fæturnir báru mig þó fyrst í hús við Nestúnið og þar stoppaði ég í hátt í klukkustund áður en ég hélt gönguferðinni aðeins áfram. Eftir kvöldfréttir í sjónvarpinu skiptum við yfir á RÚV2 og horfðum á bikar leik í körfbolta karla, Stjarnar-KR þar sem fyrrnefnda liði hafði sigur og fór í átta liða úrslit.

Eldhúshandklæði (eða tuska í stærra lagi) "datt" af prjónunum og ég er langt komin með enn eitt teppaprjónið. Svo er ég byrjuð á skammtímalánsbókinni; Vítisfnykur eftir Mons Kallentoft.

7.9.21

Í heimsókn hjá pabba

Fótaferðatíminn í gær var á áttunda tímanum. Tók því rólega til að byrja með og notaði fyrsta klukkutímann í vafr á netinu, blogg og þ.h. Um hálftíu hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér tvær brauðsneiðar með osti með. Pakkaði svo niður að mestu. Var mætt í Nauthólsvík um klukkan ellefu. Hitastig sjávar var 1,3°C lægra en á föstudaginn var eða 11,6°C. Það var fjara, hægt að labba út að kaðli, rigning og nánast engin ferð á logninu. Synti út að kaðli og aðeins lengra og svo alla leið til baka aftur. Var um tuttugu mínútur í sjónum og svo tæpt korter í heita pottinum. Davíð Steinn var vaknaður og búinn að fara í sturtu þegar ég kom heim til að ganga frá sjósundsdótinu og ná í dótið sem ég ætlaði að taka með mér austur. Kvaddi strákana og varð að vekja Odd til að segja bless við hann. Kom við í Fossheiðinni og stoppaði þar í rúma klukkustund. Hafði ekki komið þangað í margar vikur. Frétti m.a. að útskirftarbróðir minn úr FSu hafði komið þar við um morguninn og stoppað mun lengur en ég. En hann, sem býr á Ísafirði, var ekki búinn að koma í heimsókn í uþb sex ár. Var komin á Hellu um hálffjögur. Pabbi var að klára kaffitímann sinn. Hingað hef ég ekki komið síðan um miðjan júli og löngu kominn tími til. Tók upp prjónana mína og eina af þremur bókum sem ég var með með mér af safninu og settist inn í stofu. Yngri systurdóttir mín var að vinna og kom ekki heim fyrr en um átta. Ég var með steikt marineruð laxaflök og gufusoðið blómkál í kvöldmatinn. Pabbi vildi bara fá sér sitt snarl því hann borðar á Kanslaranum öll virk hádegi. Bríet fékk sér aðeins af afgangnum þegar hún kom heim en gat ekki klárað, hvort sem þetta var of mikið, ekki nógu gott eða hún ekki svo svöng. Pabbi átti heila, óopnaða hvítvínsbelju og ég fékk mér í tvö og hálft glas milli átta og tíu. Fór í háttinn um ellefu og las til miðnættis.

6.9.21

Held að það sé mánudagur ;-)

Ég rumskaði alltof snemma í gærmorgun, eiginlega var bara hálfgerð nótt ennþá um fjögur. Upp úr klukkan fimm fór ég fram á baðherbergi og í bakaleiðinni kom ég við í stofunni og kveikti á fartölvunni í uþb hálftíma. Um sex gerði ég aðra tilraun til að leggja mig og það virkaði, svaf til klukkan að ganga níu. Þá fór ég á fætur og var að lesa þar til kominn var tími til að skutla N1-syninum í vinnuna. Fór beinustu leið í sund eftir skutlið og hitti strax á kalda potts vinkonu mína sem hafði verið í sambandi við mig kvöldið áður. Sundferðin fór eiginlega öll í potta ferðir, aðallega í þann kalda og heitasta. Fórum eina ferð í sjópottinn þar sem við hittum systur vinkonu minnar. Ég hitti líka einn frænda minn. Fór í gufu eftir síðustu ferðina í kalda pottinn. Næst lá leiðin í Krónuna. Eftir verslunarferðina fór ég beint á bókasafnið. Skilaði sjö bókum af tíu og tók fimm bækur í staðinn. Ein af þeim er með 14 daga skilafresti. Skilafrestur bókanna þriggja sem voru heima var 9. og 13. september en ég framlengdi þeim um 30 daga þannig að það er aðeins ein bók af átta sem þarf að skila í þessum mánuði, skammtímalánsbókinni á að skila 19. sept. n.k. Komst með allt úr bílnum í einni ferð. Oddur Smári gekk frá vörunum. Rétt fyrir tvö lánaði ég honum bílinn en hann var einn af þeim sem sáu um gæsluna á landsleiknum í gær. Ég fór ekkert út aftur í gær var að lesa, prjóna, horfa á SEAL-þætti og fylgdist einnig með landsleiknum.

5.9.21

Meira skutl

Ég hafði smá tíma til að vafra um á netinu um sjö í gærmorgun áður en ég þurfti að skutlast með N1-soninn á vinnuvakt. Hann þurfti að mæta hálftíma fyrir opnun til að baka og undirbúa. Ég var einmitt að hleypa honum út við N1 á Gagnvegi um hálfátta og hann var svo elskulegur að færa mér kaffibolla út í bíl. Það var hans fyrsta verk á vinnustað meira að segja áður en hann stimplaði sig inn. Ég tók smá rúnt vestur á Granda á meðan ég drakk kaffið en ég var mætt í Laugardalinn strax eftir að opnaði um átta. Byrjaði á kalda pottinum. Eftir aðra ferðina í kalda synti ég í tuttugu mínútur á brautum 6, 7 og 8. Synti nokkrar ferðir á bakinu enda ætlaði ég mér að þvo hárið eftir sundferðina sem ég og gerði. Annars gerðist ekki mikið meira í gær. Komst reyndar að því að ég var búina að lesa bókina Manneskjusaga. Sú bók kom út 2018. Ég kveikti ekki þegar ég las aftan á bókina en um leið og ég byrjaði að lesa mundi ég eftir sögunni og ákvað að lesa hana ekki ekki aftur amk ekki í þetta sinnið. 

4.9.21

Skutl

Var komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Dundaði mér við ýmislegt framan af morgni. Um tíu bjó ég mér til hafragraut úr mjöli frá Vallarnesi og hellti upp á kaffi. Var komin í Nauthólsvík rétt rúmlega ellefu. Sjórinn 12,9°C, byrjað að fjara út og ég synti út að kaðli á baki, bringu og skriðsundi. Kom aðeins við í lóninu og var svo rúmar tíu mínútur í heita pottinum áður en ég fór aftur heim. Gærdagurinn var tíðindalítill að öðru leyti. Horfði á nokkra SEAL-þætti, prjónaði og fylgdist með klassíkinni okkar og ólympíukvöldi. Kláraði að lesa  Gæðakonur áður en ég fór að sofa og var klukkan orðin meira en miðnætti að lestri loknum.

3.9.21

Viðgerð á framrúðu

Rétt fyrir klukkan átta í gærmorgun sendi ég póst úr eigin netfangi á eina sem er í innheimtudeildinni og bað hana um að framsenda erindi mitt um ofgreidd gjaldheimtugjöld á viðeigandi aðila. Ég veit að hún varð við beiðni minni því hún hafði netfangið mitt með þegar hún framsendi póstinn. Málið er því komið í farveg en ekkert að frétta af því ennþá. Klukkan tíu lagði ég af stað í sund. Byrjaði á að fara í kalda pottinn í fimm mínútur. Synti næst í tuttugu mínútur á braut sex. Fór aftur í kalda, eina ferð í heitasta pottinn, þriðju ferðina í kalda og endaði í gufubaði og svo kaldri sturtu. Eftir sundið fór ég í Orku við Stórhöfða og bað um að fá skemmdina í framrúðunni skoðaða. Ég var svo heppin að sá sem skoðið sagðist geta gert við skemmdina og væri með tíma strax klukkan eitt. Ég skrapp heim með sunddótið, fékk mér að borða og hlustaði á hádegisfréttir. Var komin aftur upp í Orku rétt fyrir eitt. Afhenti bíllyklana og þurfti svo aðeins að bíða í tuttugu mínútur. Fékk mér kaffi á meðan. Þurfti ekkert að borga fyrir viðgerðina. Skemmdin sést en miklu minna en fyrir viðgerð. Þar sem staðurinn er ekki á rúðunni bílstjóra meginn er líklegt að ekki verði gerð nein athugasemd í næstu skoðun (eftir ár) svo fremi sem ekkert annað gerist í millitíðinni. 

2.9.21

Letidagur

Þrátt fyrir að vera komin á fætur einhvern tímann á áttunda tímanum í gær langaði mig aldrei þessu vant hvorki í sund, sjóinn, né að fara neitt. Maður skildi ætla að þá hefði ég ekkert að segja frá gærdeginum sem fór í smá prjónaskap, smá tölvustúss en að mestu leyti í hámhorf á þætti úr þáttaröðinni seal team sem finna má í sarpi sjónvarps símann. Opnaði ekki bók fyrr en ég fór upp í rúm um ellefu og las þá í tæpa klukkustund. En það var eitt sem ég tók eftir þegar ég skoðaði nýjasta launaseðilinn. Það voru teknar af mér 6.100 kr. í gjaldheimtugjöld til skattsins. Samkvæmt álagningaseðli 2021 átti ég inneign að upphæð 125 kr. eftir skattauppgjör síðasta árs. Í stað þess að endurgreiða nákvæmlega þessa krónuupphæð inn á reikning minn þann 1. júní sl. þá var dæmið sett þannig upp að ég fékk endurgreiddar 12.325 kr. 1. júní en 1. júli og 1. ágúst átti ég að greiða 6.100 kr. eða samtals 12.200. Þetta er tekið af í gegnum launauppgjörið og útnefnist gjaldheimtugjöld. Nú er hins vegar kominn september. Samt var dregið frá 6.100 og heildarfrádráttur í þessum lið orðinn 18.300 kr. Af þessu tilefni sendi ég póst í morgun úr heimanetfangi mínu á eina sem vinnur í innheimtudeildinni og bað hana um að framsenda erindið til viðeigandi aðila ef hún væri ekki að sjá um launamálin. Er ekki búin að athuga hvort ég hafi fengið svar en er að vinna í því að koma mér af stað í sund. 

1.9.21

Vinnufélagi kvaddur

Þrátt fyrir að vera komin á fætur um sjö í gærmorgun var klukkan byrjuð að ganga ellefu áður en ég dreif mig loks úr húsi og í sund. Það fór rúmlega klukkutími í að pottormast, gufast og synda. Sama og engin þrýsingur var á heita vatninu í klefanum en mér fannst ekkert mál að baða mig í kaldri sturtu. Þær sem ég hitti í kalda pottinum kvörtuðu yfir því að hann væri of kaldur. Ég taldi hann vera innan marka, einhvers staðar milli 6 og 8 gráður, og fannst gott að sitja í honum í nokkrar mínútur í einu. Var komin heim aftur stuttu fyrir hádegisfréttir. Hlustaði á þær og prjónaði á meðan. Hellti mér svo upp á kaffi um eitt leytið. Dagurinn leið frekar hratt þrátt fyrir að ég væri ekki að gera neitt sérstakt. Rétt fyrir sex klæddi ég mig í sparileppana og fékk einkabílstjórann til að skutla mér að Barion við Grandagarð. Þar fór fram kveðjuathöfn eins sem varð 67 í júní sl. og er búinn að vinna hjá reiknistofunni síðan 25. febrúar 1980. Í gær var síðasti vinnudagurinn hans. Kveðjuveislan var ekki fjölmenn en við mættum allar úr kortadeildinni og svo voru þarna líklega 10 aðrir, þar á meðal næstráðandi yfirmaður hans. Einn fyrrum starfsfélaga hafði verið boðið en hann kom ekki og hvorki framkvæmdastjórinn yfir sviðinu né forstjóri en ég veit ekki hvort tveimur síðastnefndu var boðið. Boðið var upp á Baríonborgara eða vegan og svo mátti drekka það sem maður vildi. Ég drakk tvö hvítvínsglös. Þar sem við úr kortadeildinni mættum ekki allar á sama tíma fengum við ekki sæti saman. Vorum tvær rétt hjá þeim sem verið var að kveðja en hinar þrjár urðu að setjast á næsta borð. Hefðum reyndar getið setið allar þar en hálftíma áður en við hættum að vera þarna myndaðist pláss hjá okkur tveimur og hinar þrjár komu til okkar. Um hálfníu fékk ég far með einni samstarfskonu minni heim. Áður en við fórum föðmuðum við fráfarandi vinnufélaga, sem ég er búin að vinna með í 21 og hálft ár, og tókum af honum loforð um að heimsækja okkur á vinnustað stöku sinnum. Hann lofaði að koma ef hann fengi stundum vöfflur.

31.8.21

Síðasti ágúst-dagurinn

Klukkan var langt gengin í níu þegar ég fór loksins á fætur í gærmorgun. Sem fyrr var ég byrjuð að vafra um á netinu fljótlega eftir morgunverkin á baðherberginu. Um hálfellefu fékk ég mér loks að borða og ég var komin í Nauthólsvík rúmlega ellefu. Synti út að kaðli og kom við í lóninu á leiðinni í heita pottinn. Rúmlega tólf var ég komin upp úr. Kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim. Hefði auðvitað átt að skreppa upp í Orku hf og fá þá til að meta framrúðuskemmdina. Ég er samt nokkuð viss um að það þurfi að skipta aftur um rúðu og þá er bara spruningin hvort ég freistist til að fresta því máli alveg þar til þarf að skoða bílinn næst. Er ekki viss um að það sé skynsamlegt og líklega verður það ofan á að fara og láta meta skemmirnar. Ég get þá spurt í leiðinni hvort það liggi á að skipta um rúðu ef dómurinn verður á þá leið að ekki sé hægt að gera við. N1 sonurinn var á vinnuvakt á Gagnveginum og hinn sonurinn skrapp í sorpuferð eftir hádegið.

Er að lesa tvær af safninu; Sólar saga eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur og Gæðakonur eftir Barböru Pym. Þá eru þrjár aðrar af tíu bókum af safninu ólesnar; Papa eftir Jesper Stein, Heimför eftir Yaa Gyasi og Manneskjusaga eftir Steinunni Ásmundsdóttur. Fjórar af bókunum eru með skilafrest til 8. september (er búin að lesa þær) og hinar sex til 13. september. 

30.8.21

Kúrt til níu

Ég var komin á fætur upp úr klukkan átta í gærmorgun og búin að setja á mig hárteygju á annan úlnliðinn og skápalásinn á hinn. Um hálftíu var ég ekki farin af stað í sund. Setti í þvottavél og settist svo niður með bók í stofunni. Var að lesa Skuggarnir eftir Stefán Mána í annað sinn og kláraði bókina. Hengdi upp þvottinn um tólf. Hlustaði á hádegisfréttir og greip í prjónana mína á meðan. Í fyrrakvöld "datt" enn eitt eldhúshandklæðið (eða tuska í stærra lagi) af prjónunum. Eftir fréttir hellti ég mér upp á kaffi og svo horfði ég á fyrrihálfleik í enska boltanum. Í hálfleik dreif ég mig loksins í sund. Fór beinustu leið í kalda pottinn og sat þar í uþb sex mínútur. Fór svo á braut 7. Eftir hundrað metra færði ég mig á braut 6. Synti í tuttugu mínútur og flestar ferðirnar á bakinu. Svo fór ég í kalda pottinn í fimm mínútur, settist um stund á bekk eftir þá ferð áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. 

29.8.21

Sunnudagur

Ég rumskaði mjög snemma, fyrir klukkan sex, en tókst að sofna aftur. Klukkan var byrjuð að ganga níu þegar ég fór á fætur, þá alveg glaðvöknuð. Eftir morgunverkin á baðinu snéri ég mér beint að fartölvunni næsta klukkutímann. Kveikti líka á RÚV2 og fylgdist með sundinu á ólympíumóti fatlaðra. Þegar fór að líða á morguninn fékk ég mér lýsi og staðgóðan morgunmat og var svo mætt í Nauthólsvík upp úr klukkan ellefu. Núna er kominn vetrartími. Aðstaðan opnar klukkan ellefu alla virka daga og laugardaga en lokað á sunnudögum. Opið til fjögur á laugardögum en virku dagana til klukkan sjö. Í fyrra var líka lokað á föstudögum en þeir ætla að prófa að hafa opið þá daga núna og ætla ég mér endilega að nýta mér það í framtíðinni. Sundkortið mitt virkaði sem aðgangskort og þarf ég ekki að fylla á fyrr en eftir 10. september. Það var flóð, rétt að byrja að fjara aftur út, smá öldugangur og hitastig sjávar 12,7°C. Ég er enn að nota strandskóna mína og mun líklega nota þá þar til hitastigið fer niður fyrir níu stig. Synti í rólegheitum út að kaðli og kom svo aðeins við í lóninu. Mér fannst full troðið í heita pottinum svo ég fór aðeins í gufuna áður en ég fór upp úr. Næst lá leiðin á löður-þvottastöðina við Granda. Þar var engin röð svo ég var komin í gegn innan við fimmtán mínútum síðar. Þá fór ég beinustu leið í Krónuna. Þegar ég kom heim fékk ég hornstæðið og komst inn með allt í einni ferð, sjósundsdótið og handtöskuna líka. Var svo heppin að Oddur Smári kom fram úr herberginu sínu í þann mund sem ég kom inn í íbúð. Hann tók við vörunum og gekk frá þeim. Fór ekkert út aftur en það datt nýtt eldhúshandklæði (eða tuska í stærra lagi) af prjónunum og svo horfði ég á enska boltann og fleira í imbanum. Fór í háttinn um hálfellefu en ekki að sofa fyrr en um eitt því ég þrjóskaðist við að klára síðustu 150 bls. í bókinni Rósablaðaströndin eftir Dorothy Koomzon.

28.8.21

Komin heim í bili

Dreif mig á fætur rétt fyrir sjö til þess að geta kvatt systur mína og mág. Systir mín þurfti að skreppa í vinnuna vegna vörutalningar. Annars á hún ekki að vinna á föstudögum því hún vinnur frá klukkan sex til tólf á sunnudögum og frá sex til fjögur mánudaga til og með fimmtudaga. Þetta var annar föstudagurinn í röð sem hún þurfti að skreppa aðeins í vinnuna en þá þarf hún ekki að mæta fyrr en klukkan átta og það hentar mági mínum mun betur en þau eru yfirleitt samferða og sambíla inn á Akureyri hvort sem Helga er að mæta klukkan sex eða átta. Hundunum var leyft að vera lausir eftir hjá mér þegar hjónin kvöddu og fóru um sjö tuttugu. Vargur fór auðvitað strax að kvarta en róaðist þó fljótlega í stutta stund. Ég byrjaði á því að kveika á tölvunni, vafra um á netinu og blogga. Rúmlega átta hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér AB-mjólk og svo sviðasultusneið á eftir. Drakk tvo bolla af kaffi. Hleypti hundunum út í smá stund en rétt fyrir níu lokaði ég þá inni í hundaherbergi í kjallaranum. Komst með allt mitt dót út í bíl í einni ferð en það er örugglega bara vegna þess að ég geymdi hluta af dótinu í bílskottinu. Var lögð af stað áður en klukkan varð níu. Keyrði Vaðlaheiðagöng inn á Akureyri, bætti á tankinn hjá AO við Baldursnes. Keyrði svo í gegnum Dalvík, Ólafsfjörð og Siglufjörð. Fékk mér sundssprett á Hofsósi. Stoppaði samt ekki lengi við í sundinu, líklega aðeins um hálftíma. Nægur tími fyrir 300 m og smá stund í heita pottinum. Keyrði í gegnum Sauðárkrók og Blöndós. Næsta stopp var á Hvammstanga á veitinga staðnum þar. Fékk mér fiskrétt dagsins sem var Langa og rabbabarapæ og kaffi á eftir. Kom heim um sex líklega fimm mínútum of fljótt því ég fékk stæði fyrir framan nr 13 en stuttu seinna losnaði stæði aðeins nær. Fékk Davíð Stein til að koma og hjálpa mér með dótið inn svo ég þyrfti ekki að fara tvær ferðir. Hann benti mér á að ég hefði getað lagði í heimkeyrslunni til að losa bílinn og fært hann svo á eftir. Þeir bræður voru nýbúnir að borða og rétt heilsuðu upp á mig áður en þeir lokuðu sig af í herbergju sínum. Ég settist með fartölvuna inn í stofu og kveikti á sjónvarpinu í leiðinni.

27.8.21

Hugað að heimferð

Aftur var ég komin á fætur fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Helga systir farin í vinnuna og mágur minn gat lúrt aðeins lengur og hundarnir fengu að vera frjálsir á meðan. Korter yfir sjö voru þeir settir inn í bæli og kvaddir. Mágur minn var kominn í vinnuna rétt fyrir átta og ég fór beint í Sundlaug Akureyrar. Byrjaði á tveimur ferðum í kalda pottinn og gufuferð. Fór í kalda sturtu og synti svo í tuttugu mínútur, örugglega 500 metra því ég held að laugin sé 25 metrar og ég synti 20 ferðir. Fór svo aftur í kalda. Hitastigið var 19°C ekki alveg eins mikil molla og daginn áður. Stuttu áður en ég fór upp úr eftir tvo tíma á laugarsvæðinu taldi ég mig sjá fyrrum kórfélaga minn. Var ekki 100% viss og þar sem ég sá ekki konuna hans sem líka var í KÓSÍ lagði ég ekki í að vinda mér að manninum, sem var reyndar sá sem ég taldi hann vera. Eftir sundið fór ég í Bakaríið við Brúna og fékk mér gúllassúpu, kaffibolla og ástarpung. Ábót var á kaffinu sem var gott því þetta voru fyrstu bollar dagsins, drukknir á tólfta tímanum. Síðan fór ég í Fiskás og Bónus og keypti þorskhnakka og meðlæti. Sendi systur minni smáskilaboð um að ég tæki að mér eldamennsku kvöldsins og væri búin að kaupa hráefnið. Var komin að Árlandi um eitt og hleypti hundunum út, gekk frá vörunum og gerði svo tilraun til að setjast í sólstól út undir vegg. Ferðin á lognin var svo mikil að ég gafst upp eftir hálftíma og við hundarnir fórum öll inn. Hellti mér upp á kaffi og kveikti í staðinn á fartölvunni við eldhúsborðið. Um þrjú fór ég aftur út með prjónana og þá var mun lygnara. Skrapp aðeins inn um fjögur til að hella uppá en sat úti þegar hjónin komu heim rétt fyrir fimm. Þau fengu sér af kaffinu. Ég var tilbúin með kvöldmatinn rétt fyrir hálfsjö og tókst mér jafnvel upp og oftast áður. 

26.8.21

Sundlaug Akureyrar

Ég var komin á fætur rétt fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Helga systir var þá þegar búin að vinna tæplega klukkustund en ég bauðst til að skutla mági mínu í sína vinnu og hann á ekki að  mæta fyrr en klukkan átta. Fékk mér lýsi, vatnsglas og brauðsneið með spægipylsu. Tuttugu mínútum yfir sjö var Ingvi búinn að loka hundana inni í hundaherbergi og við lögðum af stað yfir á Akureyri. Hleypti honum út við Advania ca sjö mínútum fyrir átta. Tók smá rúnt um bæinn en var komin í sund um hálfníu. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn og svo var ég ýmist að pottormast eða að sitja eða liggja í sólbaði næstu þrjá tímana. Synti ekki neitt en fór eina ferð í gufuna. Úti var kominn yfir 23°C hiti. Mér datt í hug að keyra lengri leiðina, Víkurskarðið yfir í Árland aftur og kannski koma við á Svalbarðseyri eða Grenivík. Var rétt komin í gegnum hringtorgið og að keyra framhjá 90 km merkinu að auka hraðann þegar ég fékk smá stein í framrúðuna. Ofarlega í rúðuna fyrir framan farþegasætið myndaðist stjarna. Ég varð svo svekkt og fúl að ég keyrði sem leið lá áfram alla leið í sveitina án þess að stoppa. Hengdi sundbolinn á útisnúru, fór inn með bakpoka og handtösku og hleypti hundunum alla leið út í smá stund. Komum svo inn í tæpa klukkustund á meðan ég hitaði mér kaffi, bloggaði og fleira. Svo fórum við öll út aftur. Skrapp ínn aftur rétt fyrir fjögur og Cara notaði tækifærið og lagðist í bælið við hjónarúmið. Þaðan hreyfði hún sig ekki fyrr en Ingvi og Helga komu heim rétt fyrir fimm. En við Vargur fórum út aftur og vorum úti þar til systir mín og mágur komu og mun lengur en það, allavega til svona hálfsjö. Þá var ég búin að fá nóg af útiveru. 

25.8.21

Full mikill hiti úti

Hundarnir voru greinilega í "geymslu-herberginu" sínu þegar ég kom fram rúmlega átta í gærmorgun. Þar sem ég ætlaði mér að skreppa í burtu fljótlega var ég ekkert að hleypa þeim út. Vafraði um á netinu í uþb klukkutíma. Hellti mér svo upp á smá kaffi og fékk mér hressingu. Rétt upp úr tíu tók ég með mér bakpokann, handtösku og sundbol út í bíl. Bolinn setti ég í sundtöskuna sem ég geymi í skottinu,  Beygði til hægri frá afleggjaranum og ók inn á Húsavík. Það lá einhvers konar þokumystur yfir bænum. Ég var samt ákveðin að fara aftur í sund þarna og prófa kalda pottinn betur. Fór allra fyrst í þann kalda um hálfellefu leytið. Synti í ca fimmtán mínútur og skiptist svo á að fara í kalda pottinn og sólbað næstu rúmu klukkustundina. Ákvað að taka annan bíltúr til baka og hefði alveg getað heimsótt Mývatn aftur sem og skoðað fuglasafn en ég var ekki stemmd í það. Kom til baka að Árlandi um þrjú. Rétt á eftir mér kom fólk í hlaðið. Bílstjórinn sagðist hafa verið með Ingva í Vogaskóla og að konan sín hefði verið í sveit rétt hjá. Þau vildu ekkert stoppa en ég sagði að til að hitta á Ingva yrðu þau að koma um fimm. Því miður láðist mér að spyrja um nöfnin á viðkomandi og þau kynntu sig ekkert frekar. Hleypti hundunum úr herberginu og alla leið út. Setti nýtt vatn í hundaskálina á tröppunum og settist svo út undir vegg með prjónana og bók. Þar sat ég til hálffimm. Þá gat ég séð á Snap-kortinu að systir mín og mágur væru lögð af stað frá Akureyri. Ég kallaði á hundana inn og hellti upp á kaffi. Mágur minn var frekar forvitinn að vita hver það hefði verið sem ætlaði að heilsa upp á hann en því miður vissi ég bara að þeir hefðu verið samtíða og sama árgangi í Vogaskóla og væru vinir á Facebook. Eftir að hafa fengið sér einn kaffibolla fór Ingvi með hundana í rúmlega tveggja tíma göngu upp á fjall, ætlaði að athuga með gæsir. Við Helga tókum því rólega á meðan.

24.8.21

Vika

Fór á fætur rétt fyrir átta í gærmorgun. Báðir hundarnir voru uppi við og flatmöguðu í bæli og á gólfinu í hjónaherberginu. Ég byrjaði morguninn á því að vafra um á netinu eftir morgunverkin á baðinu. Rétt fyrir níu fór eldra A-ið af stað í vinnuna sína en hann vinnur á sveitabæ rétt við vegamótin. Yngra A-ið hafði farið inn á Akureyri kvöldið áður en hann er í VMA og skólinn byrjaður. Um tíu tók ég með mér prjóna og bók og settist út undir húsvegg fyrir neðan stofugluggann. Leyfði hundunum að koma með mér. Hulda var enn sofandi, svaf næstu til hádegis. Þegar hún var komin á stjá og búin að fá sér eitthvað settum við hundana inn í hundaherbergið í kjallaranum og ég skutlaði henni heim til sín inn á Akureyri. Hún leigir íbúð með kærasta sínum og þremur öðrum unglingum stutt frá sundlaug Akureyrar og ég fór beinustu leið í sund eftir að hafa kvatt frænku mína. Þá var klukkan að verða hálfeitt. Var í sundi í tæpa tvo tíma, synti m.a. í tuttugu mínútur og fór amk fjórar ferðir í kalda pottinn. Hitti eina frá Hellu þegar ég var á leiðinni upp úr. Eftir sundið fór ég beint yfir í Árland aftur og hleypti hundunum út úr herberginu. Við fórum þó ekki út. Ég kveikti aftur á fartölvunni eftir að hafa búið til kaffi og sett á brúsa. Systir mín og mágur komu heim rétt um fimm og rúmri klukkustund komu systir mágs míns, systurdóttir og mágkona hans í heimsókn. Tvær eldri konurnar eiga íbúð á Siglufirði og sú yngri var í heimsókn hjá þeim. Allar eru þær þó búsettar í Reykjavík. 

23.8.21

Enn á Árlandi

Klukkan var langt gengin í níu þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Þá var systir mín löngu farin í vinnuna, systurdóttir mín sofandi og mágur minn og hundarnir í húsbóndaherberginu í kjallaranum. Þeir komu fljótlega upp eftir að ég var komin á stjá. Ég byrjaði á því að vafra um á netinu í tæpan klukkutíma. Um tíu leytið fékk ég mér eitthvað að borða og hellti uppá könnuna. Mágur minn drakk með mér einn bolla en svo fóru hann og hundarnir í langan göngutúr upp á fjallið fyrir ofan bæinn. Ég settist með bók og prjónana mína út undir húsvegg. Var aðallega að prjóna. Systir mín kom heim úr vinnunni einhvern tímann upp úr hádeginu og var komin heim amk hálftíma áður en Ingvi og hundarnir skiluðu sér heim úr göngutúrnum. Seinni partinn spurði Hulda hvort hægt væri að búa til vöfflur. Það var hægt en við Helga urðum að skjótast inn í Dalabúð eftir rjóma og smjöri. Hulda bjó til vöfflur handa okkur frænkum en Helga bjó til ketóvöfflur handa þeim Ingva. 

22.8.21

Jarðböðin við Mývatn, tékk!

Veðrið í gær var mjög gott. Við systur sátum úti við húsvegg lon og don aðeins fram yfir hádegi. Hulda kom út við og við en hún var annars inni að mála. Mágur minn skrapp með annan hundinn yfir á næsta fell að gera tilraun til að spotta gæsaflug. Það er verið að slá tún hér og þar í grenndinni og það truflar örugglega. Systir mín hringdi eitt símtal um tólf og pantaði tíma í jarðböðin. Um hálftvö söfnuðumst við saman í rafmagnsbílinni, hjónin fram í og við frænkurnar aftur í. Meðferðis voru sundföt og handklæði. Vorum komin inn að jarðböðunum við Mývatn um hálfþrjú. Þar gat mágur minn stungið bílnum í hleðslu. Notuðum tvær ferðagjafir til að borga inn fyrir okkur fjögur og systir mín keypti armbönd fyrir okkur stelpurnar til að geta tekið út drykki. Á mínu armbandi stóð 2xvínglös. Notalegt var í böðunum og vorum við ofan í í rúman klukkutíma. Ég notaði svo tækifærið og þvoði mér um hárið á eftir. Það er sjampó, hárnæring og sápa í boði á staðnum. Komum til baka á Árland á sjöunda tímanum. Mæðgurnar fleygðu sér aðeins en ég greip í prjónana í smá stund. Svo eldaði ég afganginn af þorskhnakkaflökunum sem við keyptum í fyrradag.

21.8.21

Ennþá í heimsókn hjá systur og mági

Hjónin voru aðeins seinna á fótum í gærmorgun en dagana á undan en þó farin upp úr klukkan sjö. Ég fór á fætur eitthvað uþb klukkutíma síðar. Systir mín á ekki að vera í vinnu á föstudögum því hún vinnur á sunnudögum og hún ætlaði bara aðeins að skutla manninum í hans vinnu og kíkja í klukkutíma eða tvö í sína vinnu. Ég var alveg róleg og ekki búin að plana neitt frekar en fyrri daginn. Byrjaði morguninn á því að vafra um á netinu eftir morgunverkin á baðherberginu. Fékk mér morgunmat og hellti upp á kaffi á tíunda tímanum. Las og prjónaði fram að hádegi. Um það leyti hringdi systir mín og sagðist vera á leiðinni yfir. Hún hellti uppá þegar hún var komin og við fengum okkur hressingu um eitt. Um þrjú leytið lögðum við af stað inn á Akureyri. Keyptum þorskhnakka í Fiskás og komum aðeins við í Bónus. Planið hafði svo verið að sækja Huldu og kærastan hennar og svo mág minn í vinnuna. Hulda hafði hins vegar fengið tíma hjá lækni sem hún hafði verið búin að bíða eftir og átti að mæta þar hálffimm. Við systur sóttum því mág minn fyrst og þau skruppu aðeins í Húsasmiðjuna og svo Bykó á meðan beðið var eftir að Hulda yrði búin hjá lækninum. Hún var ekki búin þar fyrr en um sex og þá vorum við búin að bíða fyrir utan í hálftíma. Keyrðum á eftir kærasta hennar heim til þeirra, hann lagði bílnum þar fyrir utan, skrapp inn og gaf hundinum sínum og varð svo samferða okkur í sveitina. Þegar þangað kom tók ég til við eldamennskuna. Reif niður blómkál og setti upp í sigtipott til að gufusjóða. Braut nokkur egg og kryddaði og setti möndlumjöl á einn disk og byggmjöl með smá hveiti á annan (Hulda er með ofnæmi fyrir möndlumjölinu). Skar niður þorskhnakkana dýfði þeim í eggjablönduna og velti sumum upp úr byggmjölinu og öðrum upp úr möndlumjölinu. Smjörsteikti þetta á pönnu, blandaði rest af eggi og byggmjöli saman og hellti yfir og setti smá rjómaslettu út á. Þetta þótti mjög gott. Ingvi skutlaði kærastanum inn á Akureyri seinna um kvöldið en Hulda ætlar að vera til sunnudags og mála en þær græjur hennar eru í sér herbergi í kjallaranum.

20.8.21

Smá þokuúði í morgunsárið

Ef maður er farinn að sofa um klukkan ellefu þá sefur maður yfirleitt ekki lengur en til rúmlega sjö. Ég var amk útsofin um hálfátta í gærmorgun. Hafði þetta eins og á miðvikudagsmorguninn þ.e. eftir morgunverkin á baðinu kveikti ég á fartölvunni og sat við hana við eldhúsborðið í rúmlega klukkustund. Svo kláraði ég síðustu umferðirnar af eldhúshandklæðatuskunni sem er búin að vera á prjónunum síðustu daga og felldi af. Fékk mér matskeið af þorskalýsi (keypti litla flösku í Nettó í fyrradag) og AB-mjólk með bláberjum. Las svo um stund í; Ég mun sakna þín á morgun eftir Heine Bakkeid. Um ellefu tók ég með mér bakpokann og handtöskuna, sunddótið var í bílnum, og keyrði inn á Akureyri. Byrjaði á því að fara í sund og beint í kalda pottinn þar, sem tekur allavega þrjá með góðu móti. Synti í um tuttugu mínútur, sennilega 500 metra, fór tvisvar enn í kalda og gufubað og sturu á milli þeirra ferða áður en ég fór upp úr. Þá skrapp ég aðeins í jólahúsið aðallega til að taka mynd af niðurtalningaskiltinu. Staldraði þar við í innan við hálftíma. Næsta stopp gerði ég á kaffihúsinu Kaffi Kú. Þar fékk ég mér bananavöfflu og kaffi og fékk sæti þar sem ég gat séð niður í fjósið, m.a. þar sem kýrnar fóru í einn mjólkurróbotinn. Eftir þetta stopp kláraði ég hringinn og keyrði aftur inn á Akureyri til að kaupa mér rafhlöður í þráðlausu tölvumúsina. Ákvað líka að fylla á tankinn í Baldursnesi þótt ég þyrfti þess eiginlega ekki, þurfti aðeins 13 lítra til að fylla á tankinn og get þá keyrt 800 km áður en hann verður tómur. Klukkan var orðin fjögur þegar ég kom til baka, aðeins korteri á undan systur minni og mági. Var búin að hleypa hundunum út og var með þeim úti að tala við pabba í gemsann þegar þau runnu í hlaðið.

19.8.21

Kyrrðin

Klukkan var næstum orðin níu þegar ég vaknaði í gærmorgun. Hafði aðeins rumskað og heyrt í systur minni og mági eldsnemma en þau fara sambíla inn á Akureyri þrátt fyrir að mágur minn eigi ekki að byrja að vinna fyrr en tveimur tímum seinna heldur en Helga systir. Eftir að ég var komin á fætur og búin með morgunverkin á baðherberginu setti ég upp fartölvuna í eldhúsinu. Ég var búin að blogga og var að leika mér smá í Fb-leik þegar stóra A-ið kom niður  um hálftíu leytið. Við heilsuðumst en skömmu síðar var hann rokinn en hann vinnur á næsta bæ. Upp úr klukkan tíu fékk ég mér AB-mjólk og setti bláber út í sem Helga hafði látið mig vita af að væru nýlega tínd og í öðrum ísskáp. Um hálf ellefu bjó ég til tvo bolla af kaffi í pressukönnu. Var svo að lesa til klukkan að verða tólf. Fljótlega eftir það keyrði ég til Húsavíkur. Þar á ég eina frænku en ég vissi að hún væri á ferðalagi. Tilgangur minn var að prófa sundlaug og kalda pottinn á staðnum. Fann hann ekki fyrr en ég var búin að synda í korter og svo sitja í nudd potti um stund. Samt er svæðið ekki svo stórt. En kaldi potturinn er einhverskonar svart rör eða hringur sem tekur bara einn í einu. Eftir að ég fann hann prófaði ég hann 2x5 mínútur. Sat einnig góða stund í sólbaði. Eftir sundið kom ég við í Nettó áður en ég keyrði til baka. Í eldhúsinu á Árlandi 0 sat litla A-ið þegar ég kom um þrjú leytið. Hann er jafn gamall Bríeti. Við heilsuðumst og spjölluðum meira heldur ég og bróðir hans um morguninn. Hleypti hundunum út úr herberginu sem þeir eru geymdi í á nóttunni og þegar eigendur eru í vinnunni. Hjónin skiluðu sér heim um fimm og þá var hellt á könnuna og fengið sér kolvetnasnautt brauð með smjöri og heimareyktum silungi.

18.8.21

Sofið út í sveitinni

Já, ég tók fartölvuna með mér og mágur minn stillti mig inn á netið þeirra hér í Árlandi 0 í gærkvöldi. Var búin að pakka, sækja þvott á snúruna og vafra aðeins um á netinu um tíu í gærmorgun. Þá vakti ég Odd til þess að kveðja hann áður en ég hlóð bílinn. Fyrsta stopp var hjá Atlatsolíustöðinni við Sprengisand. Þar er líterinn ódýrari heldur en með ferðaafslætti á öðrum AO-stöðvum. Næsta stopp var hjá N1 við Gagnveg. Þar kvaddi ég Davíð Stein og fékk kaffi með mér af stað í ferðina. Það dugði mér alveg að Kjalarnesi. Var svo sem ekkert að flýta mér en næsta stopp var samt ekki fyrr en á Blöndósi um hálftvö. Hringdi í pabba sem var kominn heim úr sinni ferð. Fékk mér að borða á Teni og kaffibolla á eftir og kom svo við í vínbúðinni sem er hinum meginn við götuna. Þar keypti ég heila hvítvínsbelju. Upp úr klukkan hálffimm var ég komin til Akureyrar. Byrjaði á því að koma við á AO-stöðinni í Baldursnesi en þar er sama verð og hjá Sprengisandi og í Kaplakrika. Það dældust rétt rúmir 29 lítrar á tankinn. Þegar ég var á leiðinni í gegnum bæinn áttaði ég mig of seint á því, nýlega komin framhjá Hofi að ég var á beygjuakrein. Það varð til þess að ég tók smá rúnt um Akureyri og keyrði m.a. annars framhjá hverfinu þar sem systir mín og mágur bjuggu áður en þau seldu og fluttu í sveitina. Kom niður við Skautahöllina. Svo prófaði ég göngin. Þau eru jafnlöng og göngin undir Hvalfjörð, 7 km. Þegar ég kom í gegn gerði ég þá vitleysu að beygja strax til vinstri og keyrði þar af leiðandi upp í Víkurskarð. Þegar ég snéri loksins við og leitaði á ja.is kortinu var rúmlega hálftíma keyrsla eftir á áfangastað. En ég var komin þangað um sex. Allir voru heima nema "ættleiddu" synirnir og hundarnir tóku mér fagnandi sem og fólkið mitt. Ég fékk að koma mér fyrir í herberginu sem Bríet á. Hún er líklega ekki að fara að nota það mikið amk á næstunni. Pabbi hafði verið í þessu herbergi dagana áður. Eftir að mágur minn var búinn að fara með hundana í langa göngu voru grillaðir hamborgarar. Hjónin fengu sér vatnsglas með en ég hvítvínsglas og svo annað eftir matinn. Þar sem þau eru bæði að vinna og sambíla inn á Akureyri og fara á fætur fyrir hálfsex bauð ég góða nótt um tíu, samt fyrst til að fara inn í rúm. Las í uþb hálftíma áður en ég slökkti ljósið.

17.8.21

Ágætis ferðaveður

Heyrði þegar N1 sonurinn lagði af stað í vinnu stuttu fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Innan við hálftíma seinna var ég komin á fætur. Tók því nokkuð rólega framan af morgni, vafraði um á netinu og prjónaði nokkrar umferðir. Klukkan tíu var ég komin í Laugardalinn. Á rétt rúmum klukkutíma fór ég fjórar ferðir í kalda pottinn, flestar fimm mínútur. Tvisvar sinnum í þann heitasta, synti aðeins 200 metra, fór einu sinni í sjópottinn og settist nokkrum sinnum á bekk á milli pottaferða. Sleppti alveg gufunni í þetta sinn og endaði þetta allt á kaldri sturtu áður en ég fór upp úr. Skrapp næst upp í Mjódd í verslun sem heitir Frú Sigurlaug. Þar mátaði ég nokkra brjóstahaldara og keypti mér fjóra nýja svoleiðis. Þeir gömlu eru farnir að láta vel á sjá. Þetta er með því leiðinlegra sem ég geri og ég hef verið að fresta þessu alltof lengi. Kom svo við í Fiskbúð Fúsa og keypti ýsu í soðið áður en ég fór aftur heim. Klukkan var farin að ganga tvö þegar ég hellti mér upp á kaffi. Prjónaði meira og lauk við að lesa bókina Auga fyrir auga. Mágur minn hafði samband og bað mig um að segja sér bílnúmerið mitt. Hann er nú búinn að skrá það þannig að ég get keyrt göngin ódýrara en sennilega samt á hans kostnað. Horfði á megnið af  landsleiknum í körfubolta og svo síðasta hlutann. Úrslitin voru svo svekkjandi.

16.8.21

Ágústmánuður hálfnaður

Sem fyrr var ég komin á fætur upp úr klukkan sjö. Vafraði um á netinu fyrsta klukkutímann en svo tók ég bók í hönd í smá stund. Auga fyrir auga er bók upp á hátt í fimmhundruð blaðsíður og ég er rétt tæplega hálfnuð með að lesa hana. Aldrei þessu vant er ég ekki að lesa fleiri en eina bók í einu. Eftir hálftíma lestur greip ég í prjónana mína. Kláraði fyrri dokkuna í eldhúshandklæðið tilvonandi og prjónaði síðari dokkuna saman við. Um níu fékk ég mér eitthvað staðgott og hressandi að borða. Var mætt með sjósundsdótið á stæðin við Nauthólsvík rétt fyrir tíu. Hlustaði á fréttir áður en ég yfirgaf bílinn og læsti honum. Það var flóð, smá öldugangur og sjórinn 14,1°C. Synti út að kaðli og svamlaði um í sjónum í tæpan hálftíma. Kom aðeins við í lóninu áður en ég fór í heita pottinn. Kom við í afgreiðslunni þegar ég var búin að fara í sturtu og klædd aftur. Sumaropnunin stendur til 22. ágúst n.k. og svo gildir sund/sjósundskortið til 9. september. Gildistíminn var framlengdur vegna lokunar á vortímabilinu. Mun svo fá afslátt af haustgjaldinu eftir 10. sept. Var komin heim aftur um hálftólf og þá fyrst hellti ég mér upp á kaffi. Það urðu þrír bollar og svo ekkert meira kaffi eftir það. Er ekki að gera þetta viljandi en ef klukkan er orðin mikið meira en fjögur þegar ég fer að hugsa aftur um kaffi þá sleppi ég því að hella upp á. Samt á ég ekkert í vandræðum með svefn hvort sem ég drekk mikið eða lítið kaffi, seint eða snemma. 

15.8.21

Sunnudagur

Var komin á fætur um sjö í gærmorgun. Vafraði um á netinu í rúman hálftíma en var svo mætt í sund rétt eftir að laugin opnaði um átta. Byrjaði á kalda pottinum eins og venjulega og var búin að fara þrisvar í hann, tvisvar í þann heitasta og lá í sjópottinum þegar ég sá að enginn var á braut sjö. Í stað þess að dýfa mér aðeins í þann kalda áður skildi ég skóna mína eftir við þann pott og dembdi mér í laugina. Synti 400 á bakinu og 100 síðustu á bringunni. Þá loksins fór ég í fjórðu ferðina í kalda pottinn. Settist svo við hliðina á einni sem ég þekki og spjallaði við hana þar til hún kvaddi og fór. Þá fór ég smá stund í gufuna, kalda sturtu á eftir og þrjár mínútur í kalda pottinn áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Klukkan var langt gengin í ellefu þegar ég kom heim og ég hellti mér upp á kaffi og fékk mér hressingu. Horfði á hádegisleikinn í enska boltanum en skipti þó yfir á hádegisfréttir í hálfleik og fram í seinni hálfleikinn. Leeds var nýbúið að jafna og Man. Utd. að komast yfir aftur þegar ég skipti aftur yfir á leikinn sem endaði 1:5. Oddur Smári var kominn á fætur aldrei þessu vant og horfði á leikinn með mér. Man. Utd. er það lið sem hann heldur með. Fljótlega eftir leikinn skrapp ég aðeins í Kringluna. Skilaði fjórum bókum á safnið, báðum skammtímaláns bókunum og tveimur öðrum með skilafrest til 25. ágúst. Þrátt fyrir að það væru fjóra bækur heima ólesnar tók ég sex í viðbót. Allar með 30 daga skilafresti og möguleika á því að framlengja í aðra 30 daga. Og allar bækur sem ég er með í láni eru með skiladaga í september. Fót með bókapokann út og setti í skottið á bílnum. Síðan skrapp ég aðeins inn í Tiger og Söstrene Grene. Í Tiger keypti ég mér tvenn ný lesgleraugu. Í hinni búðinni keypti ég helling af garni sem má þvo á 60°C, efni í tuskur eða eldhúshandklæði. Keypti nokkra liti og tvær dokkur af hverjum lit. Skrapp síðan í smá bíltúr út á Gróttu áður en ég fór heim aftur. Er heim kom fékk ég synina í lið með mér að gera smá helgarþrif. Annar ryksugaði íbúðina, hinn skúraði og ég ryksugaði sameignina frammi. Horfði á síðdegisleikinn í ensku, mína menn heimsækja og vinna Norwich City með þremur gegn engu. Er byrjuð að lesa bókina Auga fyrir auga eftir Roslund & Hellström.

14.8.21

Ljúft að vera í fríi

Enn og aftur var ég snemma á fótum í gærmorgun. Klukkan var samt orðin sjö. Mottóið er auðvitað að ef ég er glaðvöknuð er best að fara á fætur. Vafraði um á netinu. Um níu hellti ég mér upp á könnuna og fékk mér eitthvað að borða í leiðinni. Var komin í Nauthólsvíkina rétt eftir að opnaði. Sjórinn var 15°C og það var flóð. Ég synti og svamlaði út að kaðli. Fór aðeins lengra heldur en kaðallinn reyndar og ætlaði svo aldrei að tíma að fara upp úr. Kom við í lóninu og þegar ég kom í pottinn sá ég að ég hafði verið rúman hálftíma í sjónum. Áður en ég fór heim skrapp ég í Krónuna við Granda og gerði vikuinnkaup. Davíð Steinn tók við vörupokunum þegar ég kom heim og gekk frá þeim. Meiningin var svo sú að skella sér líka í sund en það varð ekkert úr því. Hefði samt örugglega þurft að kæla mig meira. 

13.8.21

Sandalar í sjálfheldu

Í gærmorgun var ég komin á fætur rúmlega sjö. Eftir morgunverkin á baðinu settist ég beint inn í stofusófa og kveikti á fartölvunni. Einni og hálfri stundu síðar slökkti ég á tölvunni og tók til við að lesa seinni skammtímalánsbókina. Var eitthvað að velta því fyrir mér að skreppa í sjóinn um tíu og svo í sund seinni partinn. Sleppti sjóferðinni en kláraði bókina í  staðinn og fór svo að prjóna. Það var ekki fyrr en rétt fyrir tvö sem ég dreif mig af stað í stund. Oddur var vaknaður og ég lét hann vita að ég ætlaði að vera lengi í sundi. Hitti kalda potts vinkonu mína í minni fyrstu ferð í kalda pottinn. Hún reis upp af bekk rétt hjá. Var ekki búin að vera lengi á svæðinu. Hún var mun styttra í pottinum heldur en ég. Eftir örfáar ferðir í þann kalda og heitasta losnaði bekkur við hliðina á hennar bekk og ég nýtti mér það og fór að safna D-vítamíni. Skrapp eina ferð í kalda inn á milli.  Um hálffjögur kvaddi vinkona mín. Ég fór þá eina ferð í kalda pottinn og svo beint í sjópottinn. Þar flatmagaði ég í uþb tuttugu mínútur og var að spá í að fara að kæla mig aftur þegar kom maður á hjólastól. Lagði stólnum yfir skóna mína og sat svo næsta hálftímann í pottinum rétt hjá mér. Mér lá svo sem ekkert á, settist stöku sinnum upp á bakkann til að kæla mig niður. Það var ekki fyrr en tveimur mínútum eftir að maðurinn fór burt á stólnum sínum að ég fór síðustu ferðina í kalda pottinn og í gufubað í tíu mínútur á eftir. Klukkan var að verða sex þegar ég kom heim.

Annars er ég byrjuð að lesa síðustu bókina úr safnferðinni sem ég fór í ferðina á undan mánudagsferðinni; Vetrarlokun eftir Jörn Lier Horst. Ö-ið á reyndar að vera skrifað með skástriki í gegn en ekki tveimur punktum.

12.8.21

Sólin komin aftur

Ef maður er glaðvaknaður þá fer maður á fætur sama hvort klukkan er sex, sjö eða átta. Ég var semsagt komin á fætur um sex í gærmorgun. Tók því samt alveg rólega. Vafraði um á netinu fyrsta eina og hálfa klukkutímann. Svo fór ég að lesa. Kláraði aðra skammtímalánsbókina. Prjónaði nokkrar umferðir af eldhúshandklæðatuskunni. Rúmlega tíu tók ég loksins til sunddótið og lagði af stað í sund. Kom við í Landsbankaútibúi 0111 við Borgartún og fékk eina í fyrirtækjaþjónustunni að hjálpa mér að endurstilla inn verkfæri vegna hússjóðs Drápuhlíðar 21. Settum þetta upp í símanum mínum og þá gat ég skilað inn lyklinum sem hangið hefur á lyklakippunni undanfarin misseri. Þetta tók smá stund en ég var komin í sund rétt fyrir ellefu. Tók eftir því að af öllum þeim handklæðum sem ég hafði sótt niður á snúrur tók ég minnsta handklæðið, handlaugarhandklæðið með mér. Fór þrisvar í kalda, synti 200, eina ferð í heitasta og í gufu. Fór í kalda sturtu eftir gufubaðið og sat svo smá stund úti til að þurrka mig aðeins. Fór ekki aftur í sturtu en skolaði vel úr sundbolnum. Kom heim um hálfeitt. Byrjaði fljótlega að lesa hina skammtímalánsbókina; Skollaleikur eftir Ármann Jakobsson. Hef lesið hinar þrjár skáldsögur hans um sama lögreglugengi og líkað vel. Klukkan var orðin tvö þegar ég hellti mér loksins upp á fyrstu kaffibolla dagsins. Drakk tvo. Það var örugglega eftir í könnunni fyrir einn bolla enn en ég drakk hann ekki og hellti ekki aftur upp á könnuna.

11.8.21

Glaðvöknuð klukkan sex

Ég var komin á fætur um klukkan sjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu settist ég niður með fartölvuna í rúma klukkustund. Á níunda tímanum hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér einhverja hressingu. Byrjaði á annarri skammtíma lánsbókinni; Farangur  eftir Ragnheiði Gestsdóttur. Klukkan tíu var ég komin í Nauthólsvík með sjósundsdótið mitt. Synti út að kapli og svamlaði þar um í rúman hálftíma. Sjórinn var 14,1°C og ég ætlaði ekki að tíma að fara upp úr. Kom aðeins við í lóninu áður en ég fór í heita pottinn. Klukkan var orðin langt gengin í tólf þegar ég kom heim aftur. Setti nokkur handklæði í þvottavél á forþvott og 60° prógram. Tók upp prjónana um það leyti sem hádegisfréttirnar á samtengdum rásum eitt og tvö hófust. Rétt fyrir eitt hringdi ég í tvíburahálfsystur mína. Hún er líka í sumarfríi og við ákváðum að ég skyldi skreppa yfir til hennar og ég fór næstum strax af stað. Samdi við Odd um að hengja upp úr vélinni seinni partinn. Tók handavinnuna með mér. Byrjuðum á því að fá okkur kaffi og hressingu. Svo settumst við með prjónana út á svalir. Hún sýndi mér hannyrðabækur sem mamma hennar hafði látið hana hafa og ein af þeim bókum var eins prjónatuskubók og ég er búin að vera með í láni frá vinkonu minni. Við ákváðum að þar sem sú bók væri ekki merkt mætti ég eiga hana, hún þyrfti ekki tvær. Kom heim um hálfsjö og þá var Oddur búinn að afgreiða þvottahúsmálin og Davíð Steinn tilbúinn með kvöldmatinn. Fékk snapp frá Helgu systur um svipað leyti. Pabbi er kominn norður til þeirra.

10.8.21

Fyrsti sumarfrísdagurinn framundan

Vaknaði um sex í gærmorgun, tæpum hálftíma áður en klukkan átti að vekja mig. Fór strax á fætur, slökkti á vekjaranum, sinnti morgunverkunum á baðinu og settist svo inn í stofu með fartölvuna á lærunum. Vafraði um á netinu til klukkan að verða sjö. Þá fékk ég mér lýsi og vatnsglas áður en ég labbaði af stað í vinnuna. Að þessu sinni lá leiðin yfir Skólavörðuholtið. Þessi síðasti vinnudagur fyrir sumarfrí var ekki lengi að líða og samt stóð hann yfir frá því um hálfátta til klukkan að verða þrjú. Ég var að hlaða inn verkefnum á framleiðsluvélina og ýta þeim af stað. Aðeins var um daglega framleiðslu að ræða og framleidd voru um sexhundruð kort í það heila. Vorum búnar með þá framleiðslu um hálftólf. Eftir hádegi taldi ég úr seinni tveimur vögnunum þær tegundir sem framleitt var á og sú sem var í bókhaldinu og tók til tölurnar merkti við. Flokkaði svo heimilislaus kort úr dk-endurnýjun og gekk frá þeim. Um tvö kom kerfisfræðingur í heimsókn og hjálpaði okkur að "klippa" út óframleidd kort úr endurnýjuninni og keyra framleidd kort tilbúin þannig að það mætti senda þau af stað í útibú og póst.

Fékk far heim úr vinnunni rétt fyrir þrjú. Um klukkustund síðar tók ég með mér sunddótið, dall undir fisk og bókasafnspoka með fimm lesnum bókum í. Byrjaði á því að fara á safnið og skila bókunum. Eftir heima voru tvær bækur, er langt komin með að lesa aðra þeirra; Að eilífu ástin eftir Fríðu Bonnie Andersen. Valdi mér því sex bækur í stað þeirra sem ég skilaði. Tvær af þeim bókum eru nýjar og með 14 daga skilafresti. Frá bókasafninu lá leiðin upp í Skipholt í Fiskbúð Fúsa sem var að opna aftur í gær eftir tveggja vikna sumarfrí. Þar keypti ég um 600gr af nætursaltaðri ýsu, kartöflu poka og einn poka af harðfisk, óbarinni ýsu. Hefði keypt tvo poka nema það var bara til þessi eini. Var mætt í Laugardalslaug upp úr klukkan hálffimm og fór að sjálfsögðu beint í kalda pottinn. Á heimliðinni um sex leytið ákvað ég að koma við í Nettó við Nóatún. Veit að þar fæst líka óbarin ýsa. Keypti brauð og ost í leiðinni.

Framundan eru sex vikur af sumarfríi. Það er viðbúið að bloggskrif muni verða stopulli sérstaklega ef ég fer í lengri ferðir út úr bænum. Látum það bara koma í ljós. Nú ætla ég að fara að hella mér upp á kaffi, venjast því að vera í fríi og íhuga eitthvað hvað ég mun gera af mér og hvenær.

9.8.21

Stutt vinnuvika

Fór á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Vafraði um á netinu, hellti upp á kaffi, fékk mér hressingu og tók því rólega til klukkan að verða níu. Skutlaði Davíð Steini upp á Gagnveg stuttu fyrir tíu og var mætt í Nauthólsvík rétt rúmlega tíu, stuttu eftir að búið var að opna aðstöðuna. Synti út að kaðli og svamlaði um í sjónum og smá stund í víkinni, alls um hálftíma. Var svo rúmlega korter í heita pottinum. Kom heim aftur um hálftólf. Var að spá í að skreppa á bókasafnið þar sem ég hafði fengið áminningu í pósti á föstudaginn að skiladagur á einni bók væri að nálgast. Kringlusafnið var hins vegar lokað og fresturinn rennur ekki út fyrr en í dag, 9. ágúst. Fór því ekkert út aftur en dundaði mér við alls konar heimavið. Fitjaði m.a. upp á nýju eldhúshandklæði svo ég er aftur með tvö verkefni á prjónum. 

8.8.21

Sunnudagsmorgun

Var komin á fætur  fyrir klukkan sjö í gærmorgun. Hafði lofað N1-syninum að skutla honum á vakt upp á Gagnveg. Hafði góða stund til að vafra um á netinu áður en við þurftum að fara. Svo tók ég sunddótið með mér og fór beinustu leið í sund eftir að hafa skilað af mér syninum. Var mætt rétt eftir að opnaði. Byrjaði auðvitað á því að fara beinustu leið í kalda pottinn, svo þann heitasta, aftur kalda og aftur heitasta. Eftir þriðju ferðina í kalda fór ég á braut 2 og synti 500 metra, flesta á bakinu, aðeins 50 metra á bringunni. Og fór svo beint í kalda á eftir. Síðan flatmagaði ég í sjópottinum í dágóða stund áður en ég fór fimmtu og síðustu ferðina í kalda. Eftir þá ferð fór ég í gufuna í rúmar 15 mínútur og sat svo aðrar 15 mínútur úti í sólbaði áður en ég fór inn í sturtu og þvoði mér um hárið. Klukkan var um hálfellefu þegar ég kom heim. Fljótlega hellti ég mér upp á kaffi og afgangurinn af deginum var notaður í alls konar dútl. Eldhúshandklæði "datt" af prjónunum. Fitjaði upp á enn einu teppinu og tók einnig til dokkur í nýtt eldhúshandklæði eða borðtuskur. Las, fylgdist með olympíuleikunum, vafraði um á netinu og eitt og annað fleira. Einhverra hluta vegna hellti ég aðeins einu sinni á könnuna og drakk því aðeins tvo bolla af kaffi í gær. Held ég helli mér snöggvast upp á kaffi eftir þessi skrif. Þarf ekki að skutla Davíð Steini fyrr en upp úr klukkan hálftíu. 

7.8.21

Fimm sinnum fimm mínútur í kalda í morgun

Fjórða og síðasta virka daginn í vinnuvikunni labbaði ég lengri leiðina í vinnuna líkt og hina þrjá vinnudagana. Ég var í bókhaldinu og pökkuninni. Allt gekk vel og dagleg verk voru búin rétt eftir hádegishlé. Ákváðum að hafa þetta stuttan föstudag en vorum þó í vinnunni þar til klukkan var orðin tvö. Fékk far heim úr vinnunni og stoppaði þar í ca einn og hálfan tíma áður en ég dreif mig loksins í sund. Byrjaði á kalda pottinum og sat þar í fimm mínútur. Sá svo að braut tvö var alveg auð svo ég ákvað að synda amk tvær ferðir, 200 metra áður en ég fór aftur í þann kalda í aðrar fimm mínútur.  Kom heim úr sundi á sjöunda tímanum. Fékk mér snarl í kvöldmatinn og leyfði Oddi að nýta sér afgang frá því fyrr í vikunni. Held hann hafi ekki klárað þann afgang þó. 

6.8.21

Það er komin helgi

Hef oftast verið að vakna hálftíma til þremur korterum áður en vekjaraklukkan á að vekja mig. Á því var engin breyting í gær. Vaknaði rétt fyrir sex og fór á fætur. Dundaði mér við að vafra um á netinu eftir morgunverkin á baðinu og eina matskeið af þorskalýsi. Lagði af stað í vinnuna tíu mínútum fyrir sjö og labbaði enn og aftur lengri leiðina. Þetta eru uþb 3,4km og það labba ég á 40 mínútum. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Framleiðslu lauk um hálftólf en eftir hádegi vorum við að flokka kennispjöld til klukkan að verða hálfþrjú. Fljótlega eftir það "læddumst" við úr vinnu. Tvær af okkur fengum far með þeirri þriðju, ég heim í Hlíðar og hin á verkstæðið til mannsins síns sem er staðsett stutt frá Ártúnsbrekkunni. Sú sem var á bílnum býr í Árbænum. Eftir að ég kom heim kveikti ég um stund á fartölvunni. Sendi póst á þann sem hefur verið milligöngumaður um útboð vegna tilvonandi framkvæmda. Var með nokkrar spurningar til hans frá nágrönnum frá því á aðalfundinum. Var komin í sund um hálffimm. Synti reyndar ekkert en fór 3x5 mínútur í kalda pottinn, 2x í heitasta pottinn og endaði á að fara í gufubað. Áður en ég fór heim eftir sundið skrapp í Krónuna vestur á Granda og verslaði inn. Var búin að semja við Davíð Stein um að elda kvöldmatinn. Kom heim rétt upp úr sjö og fékk Odd til að koma út til að bera vörurnar inn og ganga frá. Davíð Steinn var tilbúinn með kvöldmatinn og aldrei þessu vant settumst við öll niður við borðið í holinu og borðuðum saman. 

5.8.21

Ennþá formaður sameiginlegs húsfélags

Fór lengri leiðina labbandi í vinnuna í gærmorgun. Er farin að labba undirgöngin á Bústaðaveginum rétt við Valsheimilið og leiðina inn að Nauthólsvík í stað þess að labba Eskihlíðina. Þetta er samt svipað löng leið. Ég var á ítroðsluendanum á vélinni. Það var nokkuð stór dagur í gær, debetið 544, visa á þriðja hundrað og afgangurinn rétt rúmlega hundrað. Klárðuðum samt alla daglega framleiðslu rétt upp úr klukkan hálftólf. Fljótlega upp úr hádeginu þurfti sú sem var í bókhaldinu að fara. Við hinar tvær stemmdum af hádegisframleiðsluna og svo fór hin að vinna í reikningagerðinni og ég að flokka kennispjöld til klukkan að verða hálfþrjú. Fékk far heim úr vinnunni. Um fjögur fór ég í sund. Synti reyndar ekkert en gaf mér góðan tíma að pottormast í kalda, heitasta og sjópottinum og endaði á góðu gufubaði. Kom heim upp úr klukkan sex og stoppaði við í tæpa tvo tíma áður en ég fór upp í óháðu kirkjuna en ég var búin að leigja annan salinn undir aðalfund sameiginlegs húsfélags Drápuhlíð 19-21 milli klukkan átta og tíu. Ég var komin fyrir utan korteri fyrr ca 3 mínútum á undan þeirri sem sér um útleigu. Hún hleypti mér inn og samdi svo við mig um að safna leirtaui í kassa, þurrka af borðum og læsa á eftir okkur að fundi loknum. Það mætti einn úr hverri íbúð og nágranni minn í risinu tók son sinn með svo við vorum 9. Ritari stjórnar  tók að sér að skrá fundinn og ég var fundarstjóri. Málin virðast vera að þokast í rétta átt en það bauð sig enginn fram sem formaður á móti mér sennilega af því að ég gaf kost á mér áfram. Öllu erfiðara var að finna nýja gjaldkera en sú sem bauð sig fram á stofnfundinum fyrir tæpu ári síðan er líklega að fara að selja og svo er brjálað að gera. Það þótti samt sanngjarnt að ef formaður og ritari kæmu úr 21 ætti gjaldkeri að koma úr 19 svo við í 21 myndum ekki yfirtaka félagið. Einn íbúi hinum megin er búsettur í Berlín stóran hluta ársins og risíbúinn sagðist vera listamaður ekki læs á tölur. Í húsfélaginu þeirra meginn er sami formaður og gjaldkeri og hann tók að sér með semingi að vera prókúruhafi ef við sem erum með honum í stjórn yrðum dugleg að hjálpa til þegar allt fer á fullt í framkvæmdum, hvenær sem það skyldi nú verða. Ritarinn tók að sér að undirbúa stofnun reiknings á sameiginlegu kennitöluna og mun í leiðinni hafa það að hann fái skoðunarrétt. Við erum aðeins með eitt tilboð í framkvæmdirnar en sumir vildu fá svör við nokkrum spurningum áður en samþykkt verður að taka því eða hafna. Nú þarf ég bara að senda skoðunarmanni þessar spurningar og taka stöðuna hvort tilboðið standi enn. Fundi var slitið rétt rúmlega hálftíu.

4.8.21

Morgunstund

Var vöknuð hálftíma áður en vekjarinn átti að vekja mig. Slökkti á vekjaranum og fór á fætur. Eftir morgunverkin á baðinu hafði ég alveg hálftíma til að vafra um á netinu áður en ég labbaði af stað í vinnuna lengri leiðina. Var því komin með yfir fimmþúsund skref fyrir klukkan átta. Ég var í bókhaldinu og þar sem þetta var fyrsti virki dagur nýs mánaðar þýddi það aðeins öðru vísi nálgun þar sem loka þurfti júlí mánuði og opna ágúst. En þetta gekk allt saman vel þótt það sé langt síðan ég var í þessu síðast. Framleiðslu lauk um hálftólf. Þegar búið var að telja eftir hádegi fór önnur af hinum að sinna reikningagerð en við hinar tvær opnuðum kortasendingu, töldum, skráðum og létum plasteigendur vita. Fékk far heim úr vinnunni stuttu fyrir þrjú. Var mætt í Laugardalslaugina um hálffimm. Það urðu fjórar sinnum fimm mínútur í kalda pottinn, 300 metra bringusund, 2 ferðir í heitasta pottinn og ein löng gufuferð. Kom heim aftur um hálfsjö. Enn eitt teppið "datt" af prjónunum í gærkvöldi.

3.8.21

Vinnuvika hafin

Ég var vöknuð og komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu byrjaði ég á því að vafra um á netinu í fartölvunni. Rétt fyrir níu hellti ég mér upp á einn kaffibolla og fékk mér hressingu með. N1 sonurinn var búinn í fríinu sínu og ég hafði samþykkt að skutla honum upp á Gagnveg þannig að hann gæti opnað eitthvað fyrir tíu. Hann var í sturtu þegar ég var að næra mig. Lögðum af stað fyrir klukkan hálftíu og tók ég sjósundsdótið með mér. Missti af beygjunni upp í Grafarvog og snéri við við Korputorg eftir að ég komst að því að engin leið var þaðan og inn í Grafarvog. Hleypti syninum út við N1 við Gagnveg korter fyrir tíu og tók svo smá bíltúr á leiðinni í Nauthólsvík. Úti var logn, sjórinn mældist 14,4°C og var spegilsléttur. Ég synti út að kaðli og svamlaði þar um í smá stund áður en ég fór upp úr sjónum. Sem fyrr kom ég við í lóninu áður en ég fór í heita pottinn. Var komin heim aftur um hálftólf. Fékk hornstæðið aftur. Fékk mér hádegishressingu og eftir að hafa hlustað á hádegisfréttir í útvarpinu hellti ég mér aftur upp á kaffi. Svo fór dagurinn í lestur, prjón, netvafr og sitthvað fleira. 

2.8.21

Frídagur verslunarmanna

Já, það er bara kominn ágúst og tíminn heldur áfram að þjóta hjá. Ég var komin í sund um átta í gærmorgun, rétt eftir að opnaði. Það var fámennt en góðmennt og nóg pláss alls staðar. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn. Synti svo 600 metra, þar af helminginn á bakinu. Fór svo aftur í kalda pottinn úr honum í þann heitasta í smá stund og svo aftur í kalda. Eftir þriðju kalda potts ferðina fór ég í sjópottin í uþb korter áður en ég fór fjórðu og síðustu ferðina í kalda pottinn. Að þeirri ferð lokinni fór ég í gufubað og var þar í fimmtán til tuttugu mínútur. Settist svo á stól úti í smá stund áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Var komin heim í kringum hálfellefu. Byrjaði á því að setjast inn í stofu en ekki leið á löngu áður en ég fór inn í eldhús til að hella upp á kaffi. Það urðu 3 bollar sem ég lét duga fyrir daginn. Var ekkert endilega að ákveða það þegar ég var að drekka þá en svo leið dagurinn allur án þess að ég hellti aftur upp á. Er langt komin með bleika barnateppið með kaðlamundstrinu. Þetta verður líklega minnsta teppið af þeim sem ég er búin að prjóna en fallegt er það. 

1.8.21

Glænýr mánuður

Fór sennilega alltof snemma að sofa í fyrrakvöld því ég var glaðvökuð upp úr klukkan sex í gærmorgun. Fór fljótlega á fætur og eftir morgunverkin á baðinu, lýsi og morgunsnarl settist ég með fartölvuna inn í stofu og vafraði um á netinu til klukkan að verða tíu. Þá tók ég til sjósundsdótið mitt og brunaði í Nauthólsvíkina. Synti út að kaðli og kom við í lóninu á leiðinni í heita pottinn. Var sennilega tæpan hálftíma í sjónum og lóninu samtals og svo uþb tuttugu mínútur í pottinum áður en ég fór upp út og aftur heim. Var ekkert að fara neitt út aftur en dundaði mér við ýmislegt frameftir degi og fram á kvöld. M.a. var ég að fylgjast með útsendingum frá ólympíuleikunum. 

31.7.21

Síðasti júlídagurinn

Í gærmorgun labbaði ég Klambratúnið, Flókagötu, Gunnarsbraut, Grettisgötu, Snorrabraut og Skúlagötu til vinnu. Þetta er ca 6-7 hundruð metra styttri leið en "lengri" leiðin. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Fyrir lá einungis dagleg framleiðsla og mánaðamótatalningar. Við vorum búnar að því öllu fyrir klukkan hálftvö og laumuðum við okkur út af vinnustað rétt fyrir tvö. Ég fékk far heim. Um fjögur leytið var ég komin í sund. Þar gaf ég góðan tíma til að pottormast en ég synti líka 200 metra. Tók smá bíltúr á leiðinni heim og kom við á Atlantsolíustöðinni við Öskjuhlíð. Valdar ferðavikur eru byrjaðar hjá mér svo líterinn var 25 kr. ódýrari. En verðið án afsláttar er komið yfir 255 kr. líterinn. Var að hugsa um að renna við á stöðinni við Sprengisand til að kanna hvað líterinn er ódýrari þar en lét ekki verða af því. Gæti flett upp í tölvupósti sem ég fæ við hverja dælingu og safna saman en verðið gæti hafa hækkað síðan síðast. 

30.7.21

Löng helgi framundan

Enn og aftur var ég vöknuð fyrir klukkan sex og kom mér á fætur um sex í gærmorgun. Vafraði aðeins um á netinu en labbaði svo lengri leiðina í vinnuna og var komin með yfir 5000 skref fyrir klukkan átta. Kláruðum af alla framleiðslu, daglega og endurnýjun fyrir klukkan tólf. Pósturinn var sóttum fyrir klukkan hálftvö svo við ákváðum að "loka vegna veðurs" fljótlega eftir það. Fékk far heim úr vinnunni. Fór í sund um fjögur, nokkrum sinnum í kalda pottinn, synti 200 metra, fór einu sinni í sjópottinn og einu sinni í gufuna. Var komin heim aftur um hálfsjö en það er líka vegna þess að ég tók bíltúr vestur að Gróttu eftir sundið. 

29.7.21

Hætt snemma vegna veðurs

Var komin á fætur um sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu, eina matskeið af þorskalýsi og vatnsglas settist ég með fartölvuna inni í stofu og vafraði aðeins um á netinu. Líkt og í fyrradag var ég lögð af stað til vinnu nokkru fyrir klukkan sjö og labbaði ég lengri leiðina, 3,4km. Ég var í bókhaldinu og þegar þau verkefni voru frá flokkaði ég slatta af kennispjöldum. Fékk far heim úr vinnunni rétt fyrir þrjú. Oddur Smári var nýkominn heim úr Sorpuferð. Ég var komin í sund upp úr klukkan fjögur nema ég nennti ekki að synda, fór bara nokkrum sinnum í kalda og heitasta pottana og sat líka á stól og "sleikti" sólina í dágðóða stund.

Ég er ekki enn farin að taka upp bækurnar úr bókasafnspokanum frá því á mánudaginn. Er enn að lesa bókina sem ég skilaði ekki inn í þeirri ferð; Málavextir eftir Kate Atkonson. Veit að ég hef lesið þá bók áður en ætla mér að lesa hana alla aftur og er uþb hálfnuð með hana. Þarf ekki að skila henni fyrr en 8. ágúst og gæti reyndar framlengt þeim skilafresti um 30 daga. Verð nú samt örugglega búin með hana fyrir skiladag og byrjuð að lesa einhverja af þeim sex bókum sem ég tók með af safninu sl. mánudag. Það er bara spurning hvort ég á að þora að fara að skila einni einustu bók, verandi með sex heima, og sjá svo kannski nokkrar vildu koma með mér heim?

28.7.21

Morgunhani

Ég var vöknuð fyrir klukkan sex í gærmorgun og var ekkert að hanga lengi í rúminu eftir það. Labbaði lengri leiðina í vinnuna og var komin með um 5000 skref fyrir klukkan átta. Ég vann á móttökuendanum á vélinni. Debetdagurinn var ekki alveg eins stór og í fyrradag en þó yfir 500 kort. Daglegri framleiðslu lauk rétt áður en klukkan varð tólf. Þá vorum við búnar að frétta að samstarfskona okkar hafði greinst jákvæð í seinni sýnatöku. Rakningateymið taldi að hún hefði ekki verið smitandi þegar hún var síðast að vinna með okkur enda held ég að við værum farnar að finna fyrir einkennum, komin vika síðan við vorum í samskiptum við hana. En þetta þýðir að ég verð að fresta fríinu mínu til 10. ágúst n.k. Það er í góðu lagi mín vegna, var ekki búin að teikna neitt sérstakt upp og veit að fríið mun þá endast langt fram í september í staðinn því ég mun taka mínar sex vikur þegar þar að kemur. Fékk far heim úr vinnunni um þrjú. Var mætt í Laugardalslaugina um fjögur. 4x5 mínútur í kalda, synti 300, 2x í heitasta pottinn og endaði á gufubaði.

27.7.21

Ekkifrídagur

Fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Þótt ég eigi regnkápu langaði mig ekki að labba í rigningunni sem var og var smá smeik um að verða vot í fæturnar þar sem styttist í að ég verði búin að ganga niður úr strigaskónum mínum. Vinnudagurinn gekk ágætlega fyrir sig. Debetdagurinn var í stærra lagi og ein tegundin á við venjulegan dag, á fjórða hundrað kort. Í heildina næstum sexhundruð. Eftir hádegi framleiddum við það sem hægt var af debetendurnýjun. Hægt var að framleiða allt nema eina tegund. Hættum vinnu um þrjú. Ég skrapp heim í smá stund og hringdi m.a. í pabba. Um fjögur fór ég út aftur með bókasafnspokann og sjósundsdótið. Skilaði sjö bókum af átta á safnið og fékk mér sex bækur í staðinn. Synti út að kaðli í 12°C heitum sjónum og kom við í víkinni áður en ég fór í pottinn. Kom heim aftur rétt fyrir sex. 

26.7.21

Þriðji ekkifrídagurinn framundan

Ég var glaðvöknuð eitthvað áður en klukkan varð sjö í gærmorgun og dreif mig bara á fætur. Notaði megnið af tímanum til klukkan að verða átta til að vafra um á netinu. Var mætt í sund rétt eftir að opnaði og gaf mér góðan tíma þar. Byrjaði að sjálfsögðu á því að fara í kalda pottinn. Fann að hann var eitthvað kaldari en undanfarið en var samt 5 mínútur. Rétt áður en ég fór upp úr honum var hann mældur og reyndist 6,7°C. Synti 600 metra, þar af 300 á bakinu. Fór aftur í kalda í fimm mínútur. Svo í sjópottinn í tæpan hálftíma. Kalda pottinn, gufuna, í kalda sturtu og endaði í kalda pottinum áður en ég fór upp úr. Þvoði mér um hárið og hitti á kalda potts vinkonu mína og systur hennar þegar ég var komin inn í klefa að klæða mig. Klukkan var um hálfellefu þegar ég kom heim. Hellti upp á kaffi. Afgangurinn af deginum fór í lestur, prjón, netvafr og sjónvarpsgláp. Lánaði strákunum bílinn seinni partinn og fram á kvöld. 

25.7.21

Sunnudagur

Var ekkert að drolla of lengi í rúminu í gærmorgun en leyfði þó klukkunni að verða hálfátta áður en ég fór á fætur. Fljótlega hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér einhverja morgunhressingu með. Um tíu var ég komin í Nauthólsvík rétt eftir að opnaði þar. Engin úr sjósundshópnum mínum mætti í gær. Ég synti/svamlaði rólega út að kaðli. Kom svo aðeins við í víkinni áður en ég skellti mér í heita pottinn. Veggklukkan var ekki á sínum stað en þegar ég kom aftur í bílinn var liðinn akkúrat klukkutími frá því ég yfirgaf hann fyrir sjósundið. Næst lagði ég leið mína í Krónuna við Granda. Ég var svo rétt nýbúin að ganga frá vörunum þegar annar sonurinn kom fram. Restin af deginum fór í lestur, prjón, netvafr og sjónvarpsgláp. 

24.7.21

Helgarfrí

Á öðrum degi í "ekkifríinu" mínu fór ég á bílnum í vinnuna í annað skiptið í vikunni. Það var búið að síga helling úr hægra afturdekkinu en ég komst á Skúlagötuna og dældi í þar, svo mikið að það hætti að kvarta í mælaborðinu. Daglegri framleiðslu lauk að mestu um hádegisbilið. Það þurfti að kalla út kerfis/tækni mann til að hægt væri að framleiða eitt kort úr debetdeginum. Það þurfti að laga eitthvað og senda það sérstaklega yfir aftur. Þessi sami tæknimaður hálpaði mér líka í gegnum símann og teams til að ná aftur í rétta font svo hægt væri að prenta út ákveðin skjöl þar sem ákveðið númer á að vera falið undir flipa en ekki sjást í gegn. Hættum vinnu rétt fyrir hálfþrjú. Ég kom við til að dæla meira lofti í dekkið og fór svo beinustu leið á dekkjaverkstæði N1 í Fellsmúla. Þar komst ég strax að og viðgerð tók innan við hálftíma. Aftur var það nagli sem var að valda þessu, líkt og með framdekkið hægra meginn stuttu eftir að búið var að setja sumardekkin undir. Sem betur fer hafði felgan sloppið við hnjask þótt keyrt hafi verið á mjög loftlitlu dekkinu.

Afmælissynirnir voru báðir heima en að mestu inn í sínum herbergjum. Ég fór ekkert út aftur en var að dunda mér við ýmislegt. Hafði til kvöldmat um sjö en var sú eina sem gerði honum einhver skil. Horfði á Tónaflóð um landið, útsendingu frá Höfn.

23.7.21

Tvisvar sinnum tuttuguogfimm

Ég var komin á fætur um sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu fékk ég mér matskeið af lýsi, járntöflu, vatnsglas og harðsoðið egg. Vafraði svo um stund á netinu. Labbaði lengri leiðina í vinnuna og var samt fyrst. Samstarfskonur mínar komu á svipuðum tíma skömmu síðar og spurðu hvort ég hefði ekki haft það gott í fríinu. Ég gekk inn í verk þeirrar sem ég var að leysa af og var að gera það sama og daginn áður, á móttökuendanum á vélinni. Eftir hádegi byrjuðum við aðeins að endurnýja debetkort sem renna út um leið og ágúst klárast. Framleiddum fyrir heilan banka. Hættum vinnu um hálfþrjú og önnur samstarfskona mín skutlaði mér í Blóðbankann við Snorrabraut. Ég var búin að fá tvær beiðnir frá þeim með stuttu millibili, rétt liðnir fimm mánuðir frá síðustu gjöf svo ég hafði bókað tíma áður en samstarfskona mín lenti í sóttkví. Hún fékk neikvætt út úr testinu svo ég taldi óhætt að fara og gefa. Hjúkrunarfræðingurinn leitaði að æðum í báðum olnbogabótum og ákvað að velja vinstri hendina. Sagðist samt ekki vera of bjartsýn. En viti menn hún hitti í fyrsta og stungan var þannig að ég fann ekkert fyrir henni. Rennslið fór vel af stað en þegar ég var hálfnuð með að fylla blóðpokann hægðist á svo ég var beðin um að pumpa svo ég félli ekki á tíma. Það gekk allt saman upp. Á eftir fékk ég mér tvö djúsglös og innihald úr einum litlum rúsínupakka áður en ég labbaði heim. Þegar heim var komið hringdi ég í FÍB aðstoðina. Þeir sendu mér bíl frá Vöku. Ekkert varadekk er í bílnum mínum og Vökumenn komu eftir klukkan fimm. Þeir pumpuðu í hægra afturdekkið sem var nánast orðið flatt og settu vel í það. Ég var ekkert að hreyfa bílinn neitt en hefði líklega átt að skreppa til að dæla betur í dekkið í gærkvöldi. 

22.7.21

Fyrsti dagur í ekkisumarfríistrax

Var komin á fætur upp úr klukkan sex. Ákvað að fara á bílnum í vinnuna og tók sunddótið með mér. Byrjaði á því að fara upp í Öskjuhlíð og athuga þrýstinginn á dekkjunum þar sem var farið að kvarta. Það vantaði ekki mikið upp á þrjú af dekkjunum en það fjórða var nokkuð lint. Ekki gekk þó að dæla í dekkið svo ég færði mig yfir á pumpuna á Skúlagötunni þar sem var olísstöð. Þar gekk vel að dæla í dekkið, dældi samt ekki nóg því enn var kvartað. Fór í vinnuna og var á móttökuendanum á vélinni. Kláruðum allt daglegt fyrir klukkan tólf og kreditendurnýjun um tvö. Vorum fjórar í vinnu en sú sem var að koma úr fríi fékk að "leika lausum hala" í skrifstofurýminu í gær. Um tvö tókum við upp sendingu af kortum og töldum. Það gekk mjög vel þótt við þyrftum að "klæða" kortakassana úr og í plast til að hægt væri að telja. Rétt fyrir þrjú var ég búin að stilla vinnupóstinn á "out of office", senda tímana í þessari viku til samþykktar, kveðja vinnufélagana með virktum þar á meðal einn sem mun hætta vegna aldurs í byrjun september. Kom við á fyrrum olísstöðinni og dældi betur í dekkið. Fór svo upp í Öskjuhlíð og þá var hægt að jafna þrýstinginn svo það hætti að kvarta. Ég hefði samt átt að drífa mig á dekkjaverkstæði að því loknu. En í staðinn dreif ég mig í sund. Kalda potts vinkona mín mætti á svæðið þegar ég var í annarri ferðinni og saman fórum við fjórar ferðir í kalda. Bauð strákunum út að borða á Pítuna og þá var farið að kvarta aftur undan þrýstingi í dekkjum. Dældum í dekkið á N1 í Borgartúni áður en við fórum heim. Fljótlega eftir að ég kom heim hringdi fyrirliði kortadeildar í mig. Dóttir hennar sem var búin að fá Jansen sprautu var greind með delta afbrigðið af Covid-19 svo fyrirliðinn var komin í amk fimm daga sóttkví. Þar sem það verða að vera þrír starfsmenn á deildinni og ein er í sumarfríi úti á landi spurði hún mig hvort ég gæti hlaupið í skarðið, amk framyfir seinni sýnatöku. Ég sagðist geta það. Var ekki búin að plana neitt fyrstu dagana og veit að þá bætast bara við dagana í hinn enda frísins í staðinn. Þarna gat ég líka launað fyrir að hún frestaði sínu frí um nokkra daga þegar mamma lá banaleguna fyrir tæpum þremur árum. 

21.7.21

Smá frestun á sumarfríi

Í gærmorgun svaf ég alveg þar til vekjaraklukkan mín hringdi stuttu fyrir klukkan hálfsjö. Gaf mér samt tíma til að vafra aðeins á netinu áður en ég labbaði stuttu leiðina í vinnuna. Var mætt rétt á eftir fyrirliðanum og við náðum að fara með bankapósttöskurnar fram rétt áður en fyrsti sendill kom að sækja. Eiginlega svo rétt áður að það var ekki búið að loka skápnum þegar afhenda þurfti fyrstu tösku úr honum. Ég var í framleiðslu að hlaða inn verkefnum og senda af stað. Daglegri framleiðslu lauk um hálftólf en við fórum langt með eina endurnýjun sem byrjað var á í fyrra dag, milli eitt og rúmlega hálfþrjú í gær. Fékk far heim úr vinnunni. Var komin í sund um fjögur og heim aftur um sex. Um það leyti hittust við nágrannarnir úti í garði, fjórir úr fjórum íbúðum og tveir í viðbót úr einni. Vantaði fulltrúa úr þremur íbúðum af átta. Ég vissi samt að úr tveimur af þeim íbúðum myndi verða kosið með húsinu ef af kosningu yrði. En það varð ekki. Skil ekki alveg þessar bremsur sem sumir eru í. Gjaldkeri stjórnar var í fríi út á landi en maður hennar mætti í staðinn. Það er víst ekki búið að stofna framkvæmdareikning þótt öll gögn liggi fyrir en skilaboðin frá henni voru þau að það væri svo mikið að gera að hún vildi segja sig frá þessu verkefni. Aðrir segjast alveg skilja og vera nokkurn veginn tilbúnir í að demba sér í framkvæmdir vildu samt fá að kanna hvort betri tilboð fengjust og halda nýja aðalfund eftir Verslunarmannahelgi.

20.7.21

Einn vinnudagur eftir enn fram að sumarfríi

Var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun. Labbaði af stað um sjö, styttri leiðina í vinnuna. Mætti þangað fyrst af minni deild um hálfátta. Ég var í bókhaldsvinnu og að henni lokinni flokkaði ég kennispjöld eftir hádegi til klukkan að ganga þrjú. Labbaði við á torginu á leiðinni heim. Engin Lilja svo ég stoppaði ekkert við neinn af sölubásunum heldur labbaði heim beint yfir Skólavörðuholtið. Fór í Nauthólsvík um hálffimm og hitti tvær af sjósundshópnum mínum. Við syntum út að kaðli og svömluðum aðeins meira um bæði í sjónum og svo í víkinni áður en við fórum í pottinn. Frekar margt var um manninn enda mjög gott veður. Það var samt ekkert troðið í pottinum. Skilaði sjósundsvinkonunni yfirtökuflíkinni áður en leiðir skildi eftir sjósundið. Hafði plokkfisk í matinn úr afgangi af soðnum fiski. Bætti osti með svörtum pipar, smá rjómaslettu, kasjúhnetur og gular baunir út í.

19.7.21

Styttist í sumarfrí

Ég fór á fætur á níunda tímanum í gærmorgun. Fékk mér eitt epli til að byrja með og svo harðsoðið egg. Um hálfellefu hellti ég mér loksins upp á kaffi. Annars fór dagurinn fram að kaffi í prjón, kapallagnir, lestur og vafr á netinu. Fljótlega eftir kaffi kvaddi ég pabba og dreif mig í bæinn. Var komin heim fyrir klukkan sex og fékk stæði fyrir frama húsið. Horfði á fréttir og Sumarlandann og svo tvo þætti af "The Americans". Var komin í rúmið um tíu og byrjaði á bók eftir Lilju Sigurðardóttur; Blóðrauður sjór. Það var kannski ekki mjög sniðugt að byrja á spennusögu svona rétt fyrir svefninn.