27.6.19

Bókaormur

Fór síðast á bókasafnið rétt fyrir miðjan júní og skilaði af mér 5 bókum þar af tveimur sem átti að skila í síðasta lagi þann 18. Var með tvær bækur eftir heima sem skila á 4. júlí n.k, Sonurinn eftir Jo Nesbö og Eftirbátur eftir Rúnar Helga Vignisson. Tók aðeins 3 bækur, þar af eina stutta ljóðabók, allar með 30 daga skilafresti. Mæli mjög með bókinni Líkblómið eftir Anne Mette Hancock. Aðeins ein bók af safninu er ólesin en ég er byrjuð á henni og líst vel á þá sögu; Svartalogn eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur. Stefni að því að vera búin með þá bók fyrir fjórða júlí og skila þá af mér öllum bókasafnsbókunum.

26.6.19

Þyrfti helst að setja upp e-s konar blogg-rútínu

Það getur verið gott að taka sér pásur og það er sérstaklega gott að vinna markvisst að því að halda sig meira frá tölvunni. En það er líka frekar erfitt að skrá niður það sem gerist hjá mér og í kringum mig ef það eru margar vikur á milli færslna. Ætti að geta komið með einhver stikkorð/setningar um það helsta en akkúrat núna er ég með takmarkaðan tíma til að festa þetta niður. Ég get þó sagt að ég hafi ekki slegið slöku við lesturinn eða tuskuprjónaskapinn, er "útskrifuð" frá sálfræðingun eftir 4 góða samtalstíma (má þó alltaf hafa samband ef ég tel mig þurfa þess). Pabbi er búinn að sækja duftkerið sem ákveðið hefur verið að setja niður hjá "litlu Önnu" daginn sem mamma hefði orðið 75 ára og þá verður akkúrat vika þar til aðal sumarfríið mitt byrjar. Pabbi er kominn á nýjan bíl og búinn að selja þann gamla. Systir mín, mágur, hundarnir og yngri systurdóttir mín komu suður helgina fyrir 17. júní. Áttum góða helgi saman á Hellu þar sem við skruppum m.a. upp að Heiði. Þetta var svona það allra helsta. Vona að það verði ekki margar vikur þar til næst, en kannski einhverjir dagar. Sjáum til með það, ætla ekkert að lofa neinu.

4.6.19

Og þá er kominn júní

Í gær fékk ég bæði sms og mail frá Blóðbankanum. Ég kom því við þar á leið heim úr vinnunni í mína 52. heimsókn. Vel gekk að gefa en ég varð að sleppa því að skreppa í sund og potta svo ég fór ekkert aftur út eftir að ég kom heim um hálffimm. Bjó til kjötbollur í kvöldmatinn, prjónaði, las og horfði á danska þáttinn á RÚV.

Ég fékk líka skilaboð frá bókasafninu í gær um að skiladagur væri að nálgast á einni bók, bókinni sem var með 14 daga skilafresti. Þótt sá frestur hafi verið til 5. júní ákvað ég að skreppa á safnið eftir vinnu í dag þegar ég væri hvort sem er á leiðinni í sund. Skilaði fimm bókum af sex. Er byrjuð að lesa þá sjöttu. En það "eltu" mig sex bækur heim og þar af eru tvær með 14 daga skilafresti. Hvar endar þetta eignlega?

Annars er ég komin með 9. tuskuna á prjónana. Er ekki enn búin að prófa að hekla eitt stk tusku, en það er nóg eftir af garni, sér varla högg á vatni í pokanum.