31.7.22

Síðasti júlídagur ársins

Vaknaði einhvern tímann á áttunda tímanum í gærmorgun. Fór fljótlega á fætur. Gaf mér góðan tíma í netvafr svo það var ekki fyrr en á ellefta tímanum sem ég fór í sund. Synti í rúmar tíu mínútur á braut 1 í innilauginni. Þrjár ferðir í kalda, tvo heita potta og gufu. Á leiðinni upp úr hitti ég aðeins á eina sem var með mér í foreldrafélagi drengjakórsins á sínum tíma. Hún og hennar maður voru í sundi með fyrsta ömmubarninu sínu. Þegar ég kom heim hellti ég upp á kaffi og bjó mér til hafragraut. Pakkaði niður um hálftvö, kvaddi strákana og brunaði austur með viðkomu á AO vi ð Sprengisand.

30.7.22

Verslunarmannahelgi

Sem fyrr vaknaði ég á undan vejaraklukkunni og var komin á fætur upp úr klukkan sex. Fór á bílnum í vinnuna. Vorum aðeins tvær því tvær af hinum eru í fríi og sú þriðja er ekki í 100% stöðu og vinnur bara til hádegis á fimmtudögum. Fram í miðjan ágúst eru tveir föstudagar, einn mánudagur og tveir fimmtudagar frá hádegi þar sem aðeins verða tvær í vinnunni. Önnur þeirra er ég en tvær skipta hinum dögunum á milli sín. Eftir 15. ágúst er aðeins ein í fríi og þá verðum við oftast fjórar í vinnu og þrjár frá hádegi á fimmtudögum og fram að helgi. Ég var annars í bókhaldinu og á móttökuendanum á framleiðsluvélinni. Daglegri framleiðslu lauk rúmlega tólf. Þá gátum við slökkt á vélinni. Fórum fram í smá matarpásu en aðeins í uþb tuttugu mínútur. Kláruðum að pakka, telja og ganga frá deildinni upp úr klukkan hálftvö. Um tvö kom eitt smá verkefni sem kemur stundum en þar sem pósturinn var búinn að koma að sækja póstinn gerði ég bara helminginn af verefninu. Hættum vinnu um hálfþrjú og hin fór þar með í tveggja vikna frí. Ég fór beinustu leið í Sundhöllina. Innilaugin var opin en það var stökkbrettið líka svo ég sleppti því alveg að synda. Fór 3 ferðir í kalda pottinn, í tvo heita potta og gufu áður en ég fór upp úr og heim. Hellti mér upp á kaffi þegar ég kom heim og drakk fyrstu tvo og einu kaffibolla dagsins um fjögur leytið.

29.7.22

Síðasti virki dagurinn í júlí

Vaknaði á undan vekjaraklukkunni eins og oftast áður. Slökkti á henni og fór á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu hafði ég tíma til að setjast niður í stofu með fartölvuna í fanginu og vafra aðeins um á netinu. Um sjö labbaði ég af stað í vinnuna. Síminn skráði 3,13 km göngu sjálfkrafa. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Kláruðum fyrsta skammtinn og stóran hluta af næsta skammti fyrir kaffi. Kaffivélin var biluð þegar við komum fram og engin varavél á svæðinu. Sem betur fer hafði ég fengið mér tvöfaldan espressó rétt fyrir átta. Kláruðum allt daglegt og fyrirliggjandi endurnýjun rétt rúmlega tólf. Þá fór sú sem var með mér á vélinni heim en ég upp að borða með þeirri sem var í bókhaldinu. Eftir hádegi töldum við og gengum frá. Ryksuguðum vélina og töldum lagerinn. Vorum að ganga frá deildinni þegar stór kortasending á tveimur vögnum kom. Komum þessu fyrir inn á lager og hættum vinnu um þrjú. Fékk far heim úr vinnunni og fór ekkert út eftir það. Vafraði um á netinu, las, prjónaði og horfði á tvo þætti, hvorn úr sinni þáttaseríunni. 

28.7.22

Fimmtudagur

Þegar ég vaknaði um sex í gærmorgun sá ég skilaboð frá Davíð Steini sem voru send á fb-spjallinu um hálftólf kvöldið áður. Hann var semsagt nýlentur þá. Átti far með flugrútu og þegar hann kom á BSÍ hafði hann samband við bróður sinn til að sækja sig. Mikil rigning og svo átti hann að mæta í vinnu strax í gær. Ég hitti þennan N1 son minn í nokkrar mínútur áður en hann fór af stað í sína vinnu. Hann hafði átt góða daga úti í Frakklandi en sagðist þó vera sama þótt hann sæi aldrei lest aftur. Ég fór á bílnum í mína vinnu og hafði sunddótið með mér í skottinu. Ég var komin nokkru á undan samstarfskonum mínum. Vissi að ég ætti að vera á ítroðsluendanum á vélinni og þyrfti að byrja á því að skipta um aðgangsorð. Ákvað því að gera það og byrja aðeins að hlaða inn verkefnum dagsins í rólegheitunum. Framleiðsludagurinn í gær var mun minni heldur en á þriðjudaginn og það var einnig miklu minna vesen á vélinni. Daglegum verkefnum lauk fyrir klukkan tólf og eftir hádegi kláruðum við það sem hægt var af einni endurnýjun og byrjuðum á einni sem kom til okkar um hádegisbil. Hættum vinnu og gengum frá aðeins í fyrra fallinu. Klukkan var ekki alveg orðin þrjú þegar ég yfirgaf vinnustaðinn. Fór beinustu leið í Sundhöllina. Innilaugin var reyndar lokuð og nokkuð margir að nota útilaugina, m.a. strákahópur sem var mest megnis að leika sér. Ég ákvað því að sleppa sundinu en fór tvisvar í kalda, einu sinni í heita pottinn og einu sinni í gufu. Var komin heim um hálffimm. 

27.7.22

Frakklandsfarinn kom heim í nótt

Vaknaði um sex í gærmorgun, næstum því hálftíma á undan vekjaraklukkunni. Slökkti á henni og fór strax á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu hafði ég þá ágætistíma í smá netvafr. Um sjö labbaði ég af stað í vinnuna í smá úða sem stóð reyndar ekki lengi yfir. Var mætt fyrst af okkur þremur sem vorum að vinna. Aðra þeirra vann ég með í útkallinu en hina hafði ég ekki séð frá því síðast í maí. Þrátt fyrir að ég hafi verið fjarverandi í þrjár vikur var bókhaldsbakkinn á mínu borði. Það var alveg í góðu lagi mín vegna því þá gat ég notað aukatímann í að flokka kennispjöld. Framleiðsludagurinn var í stærra lagi og vélin með einhverja stæla þannig að allt í allt náði ég að flokka úr næstum fjórum kössum af kennispjöldum. Þá eru einungis sjö óflokkaðir kassar eftir. Pósturinn var það snemma á ferðinni að hann fékk eingöngu það sem ekki náðist með á mánudeginum, sem var ekki svo mikið en eitthvað samt. Þetta var um hálftvö en fljótlega kom fyrsti skammturinn fram til að pakka. Klukkan var langt gengin í fjögur þegar við vorum búnar með öll daglegu verkin og ganga frá. Ekki var neinn aukatími fyrir endurnýjun en það er bara lítill hluti eftir af henni sem klárast bara seinna í vikunni. Labbaði aftur heim sömu leið til baka frá því um morguninn, yfir Skólavörðuholtið og niður Egilsgötu. Seinni partinn af gönguleiðinni fór að rigna smá, aðeins meira í úði en alls ekki hellirigning. Kom heim upp úr klukkan hálffimm og ákvað að fara ekkert út aftur. Fékk meira að segja Odd til að sækja fyrir mig þvott niður í þvottahús.

26.7.22

Hárþvottur og bókasafnsferð

Byrjaði gærdaginn á því að skipta um á rúminu mínu á áttunda tímanum. Setti óhreinu rúmfötin þó ekki í þvottavélina fyrr en um tíu rétt áður en ég dreif mig loksins í sund. Eftir fyrstu ferðina í klalda pottinn synti ég 500 metra á braut 4 í innilauginni. Allar ferðir á bakinu og fjórðu hverja ferð bakskrið. Fór tvær aðrar ferðir í kalda pottinn, eina ferð í heitasta pottinn og eina ferð í langpottinn á útisvæðinu. Sleppti gufunni að þessu sinni. Var búin að þvo á mér hárið um tólf. Ætlaði að drífa í því að láta skoða bílinn en Frumherji er með lokað í hádeginu til klukkan hálfeitt svo ég fer líklega ekki fyrr en í næsta mánuði. Bílnúmerið endar á átta svo ég hef alveg tíma, jafnvel fram í október. Ég fór því bara heim og kláraði að lesa síðustu bókina af safninu. Oddur fór í Sorpuferð um miðjan dag og þegar hann kom aftur skrapp ég á bókasafnið í Kringlunni. Skilaði þeim þremur bókum sem ég var með og tók sex aðrar í staðinn. Ein af þeim er ný með 14 daga skilafresti. Samt byrjaði ég ekki að lesa neina af bókunum í gær eða gærkvöldi.

25.7.22

Síðasti sumarfrísdagurinn í bili

Ég var ákveðin í að sofa út í gærmorgun og klukkan var rétt byrjuð að ganga ellefu þegar ég fór loksins á fætur. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég um stund inn í stofusófa með fartölvuna í fanginu. Um hádegisbilið færði ég mig yfir í stólinn og kveikti á sjónvarpinu til að hlusta á hádegisfréttir. Prjónaði á meðan. Klukkan var orðin eitt þegar ég hellti mér upp á kaffi og fékk mér eitthvað að borða. Dagurinn leið svo undur hratt eins og alltaf. Fannst hann í styttra lagi en það er örugglega vegna þess að ég svaf frameftir. Var komin upp í rúm, með bók, fyrir klukkuna tíu. Er að lesa síðustu bókasafnsbókina; Roðabein eftir Ann Cleeves

24.7.22

Sofið út á sunnudegi

Afmælisdagur tvíburanna var nokkuð rólegur. Ég var komin á fætur um átta og var svo bara eitthvað að dúlla mér fram eftir degi. Sá sonurinn sem er heimavið kom fram um hálfellefu en fór aftur inn til sín eftir að hafa farið á salernið. Klukkan var byrjuð að ganga fjögur áður en hann kom aftur fram. Ég sagðist ætla að bjóða honum út að borða í tilefni dagsins. Hann mætti velja staðinn. Eina skilyrðið var að við yrðum komin heim fyrir leik um sjö. Oddur valdi að fara á Nings og við vorum þar um hálfsex. Skammturinn er í stærra lagi og ég gat ekki klárað minn alveg. Þegar við komum heim aftur skrapp Oddur út í Krambúð. Hann kom til baka og færði mér einn poka af stjörnupoppi án þess að ég hafði beðið um það. Geymdi mér pokann langt fram á kvöld. Leikurinn var framlengdur en svo fór ég að horfa á sannsögulegan þátt um óhugnanleg morð á DR1. Var næstum farin að horfa á þátt með Banks strax á eftir en klukkan var byruð að ganga eitt og ég fór frekar inn í rúm að lesa smá. Og eitt að lokum ég fékk aftur póst frá gjaldkera getspár, var með tvo rétt og bónus í lottóútdrætti gærkvöldsins.

23.7.22

Tvíburarnir 26 ára í dag

Var komin á fætur um klukkan sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðherberginu hafði ég nægan tíma til að vafra aðeins um á netinu. Davíð Steinn kom fram um sjö og fór í sturtu. Hann var búinn að pakka niður. Hafði skroppið í Kringluna í fyrradag að kaupa sér tösku þar sem töskurnar sem hann pantaði í gegnum capacent og fjölmiðlamælinn voru ekki komnar. Þær töskur komu svo í fyrrakvöld. Um hálfátta skutlaði ég syninum til Keflavíkur. Hann átti flug til Parísar rétt fyrir ellefu. "Henti" stráknum út við flugstöðina og brunaði beint í bæinn aftur, beinustu leið í Sundhöllina. Fór þrjár ferðir í kalda pottinn, eina ferð í heitasta pottinn, smástund í gufu og synti tvo spretti, tuttugu mínútur í innilauginni og tíu mínútur í útilauginni. Kom heim um ellefu og hellti mér upp á kaffi. Davíð Steinn sendi skilaboð rúmlega tvö að hann væri lentur í París. Held að franskur spilafélagi hans hafi tekið á móti honum og sá bauð honum að gista heima hjá sér. Annars var þetta rólegheita dagur. Las, prjónaði (kláraði tusku og byrjaði á nýrri), horfði á þætti og svo 3. leikinn af 4 í undanúrslitum EM kvenna í fótbolta. Svíar rétt sluppu við að fara í framlengingu og náðu að pota in einu marki hjá Belgíu í uppbótartíma.

22.7.22

61. heimsóknin í besta bankann

Frá því að ég fór á fætur um átta í gærmorgun og alveg fram yfir hádegið var ég mjög meðvituð um að drekka oft og vel. Á alltaf orðið flösku í frysti með smá klaka í og þá flösku fyllti ég þrisvar. Flaskan er reyndar ekki stór en þar að auki drakk ég eina flösku af jarðaberja kombuchadrykk, tvær litlar af blönduðum ávaxtasafa og tvo bolla af kaffi. Þetta virkaði amk þannig að um eitt var ég búin að fara þrjár ferðir á klósettið að pissa. Stuttu fyrir klukkan tvö fór ég á bílnum og lagði honum á Berþórugötuna við hliðina á Sundhöllinni. Þaðan labbaði ég spölinn yfir í Blóðbankann. Þurfti að bíða smá, var kölluð þriðja inn og var það ungur maður að þessu sinni. Ég sagði honum allt um erfiðu æðarnar og þegar hann var búinn að þreyfa vel á báðum handleggjum ákvað hann að kalla til aðstoð. Sú sem hann sótti hefur hitt mig áður. "Já, ert þetta þú!", sagði hún brosandi og tók við verkefninu. Hún valdi þann handlegginn sem oftast er stunginn, þann vinstri, og var nokkuð fljót að stinga. Hitti vel á æðina en varð þó aðeins að halda við nálina. Allt gekk ljómandi vel og streymið var þokkalega gott. Á eftir fékk ég mér kaffi, rúsínur og hafraköku áður en ég fór aftur heim. Tók því rólega það sem eftir var dags, bæði í vatnsdrykkju og dútli. Hafði klárað tusku um morguninn og var búin að fitja upp á nýrri og prjónaði ég næstum því helminginn af þeirri tusku. Horfði svo á annan leikinn af fjórum í átta liða úrslitum EM kvenna sem fór 2:0 fyrir Þýsku stelpunum sem enn hafa ekki fengið á sig mark. 

21.7.22

Dagsferð í Viðey

Var komin á fætur um sjö leytið í gærmorgun. Um klukkustund síðar var ég mætt í Sundhöllina. Þrjár ferðir í kalda pottinn, 300 metrar syntir á braut 4 í útilauginni, ein ferð í heita pottinn og svo setið um stund á bekk útivið. Áður en ég fór heim kom ég við í Hagkaup í Skeifunni. Til að verða mér úti um nasl og nesti. Kom heim rúmlega tíu. Fékk mér að borða og útbjó nesti. Setti vatn í flösku en tók líka með litla flösku af kristal. Setti nestið, vökvann, peysu, húfu og vettlinga í bakpoka. Stuttu fyrir klukkan tólf tók ég þetta með mér og fór á bílnum og lagði rétt hjá Skarfabakka. Ferjan út í Viðey fer þaðan á klukkutíma fresti milli 10:15 og 17:15. Það eiga líka að vera tvær ferðir á dag frá Gömlu höfninni. Í gær þótt hins vegar of hvasst til að sigla þaðan svo þeir sem keyptu sér farmiða þar voru keyrðir í smárútu að Skarfabakka. Inger og Helga voru því mættar á Skarfa bakka rétt fyrir tólf í gær. Sigurrós kom með strætó úr Breiðholtinu og var líka mætt á undan mér. Siglingin út í eyju tekur ekki nema uþb 7 mínútur. Við fjórar löbbuðum fyrst aðeins upp að Viðeyjarstofu en héldum fljótlega áfram upp á næsta hól og svo eftir stíg nokkurn veginn með fram strandlengjunni sem snýr að borginni. Ein kona af öðrum farþegum fylgdi í humátt á eftir okkur alla leið að vatnstankinum nyrst í eyjunni. Þar settumst við fjórar niður í rúman klukkutíma, borðuðum nesti og lásum ljóð úr bók sem Helga hafði gefið Inger. En konan hélt sinni för áfram. Eftir pásuna löbbuðum við eftir vegarslóðanum til baka og svo alla leið að friðarsúlunni. Ég fór svo upp að Viðeyjarstofu og fékk mér kaffi og vöfflu á meðan hinar héldu för sinni aðeins áfram. Þær komu þó fljótlega til baka, hættu við að fara mikið lengra þar sem hluti af stígnum sem þær löbbuðu eftir var erfiður yfirferðar. Tókum næst síðastu ferðina og kvöddum eyjuna um hálfsex. Smárútan beið eftir Helgu og Inger en ég skutlaði Sigurrós heim. Lánaði bræðrunum bílinn um átta. Þeir voru að fara út að borða og í bíó með pabba sínum. Ég horfði á fyrsta leikinn í átta liða úrslitum EM kvenna í fótbolta. Þar kom að því að Englendingar fengu á sig mark. Lentu 0:1 undir gegn Spáni en náðu að jafna stuttu fyrir lok venjulegs leiktíma. Það þurfti því að framlengja og skoruðum þær ensku sigurmarkið í framlengingunni.

20.7.22

Heima

Stofuklukkan var búin að slá níu högg áður en ég fór á fætur í gærmorgun. Systurdóttir mín var löngu farin í vinnuna og pabbi var kominn heim úr sundi. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég aðeins inn í stofu og prjónaði í smástund enn eina tuskuna sem ég fitjaði upp á kvöldið áður. Rétt fyrir tíu fékk ég mér lýsi og harðsoðið egg. Settist aðeins við tölvuna í ganginu en eftir stutt netvafr og færslu á þessum vettvangi fór ég aftur inn í stofu að lesa. Pabbi bauð mér á Kanslarann í hádeginu og fengum við kjötfarsbollur, kartöflur og soðið hvítkál. Hægt var að fá sér bráðið smjör út á. Einnig fengum við okkur dýrindis aspassúpu. Eftir að við komum í Hólavanginn aftur skipti ég tímanum fram að kaffi á milli lesturs, kapallagna, prjóns og netvafrs. Pabbi fór út í garð eftir kaffi að raka saman. Hann er að vinna í því að slá brekkuna með sláttuorfi. Bríet kom heim um sex. Hafði skroppið til vinkonu eftir vinnu. Ég var búin að taka mig saman og kvaddi frænku mína og pabba. Seinna um kvöldið var von á Helgu systur og tveimur vinkonum hennar. Þær voru að koma austan frá Höfn. Ég var komin í bæinn klukkan að verða hálfátta.

19.7.22

Á Hellu

Dreif mig á fætur um klukkan hálfátta í gærmorgun. Var þó ekki komin í Sundhöllina fyrr en um tíu. Þrjár ferðir í kalda pottinn, 400 m á bakinu á braut 4 í innilauginni, annar gamli heiti potturinn, stóri heiti potturinn og smá bekkjarsetja úti. Þvoði mér um hárið á leiðinni upp úr. Kom heim um hálftólf. Hitti annan soninn sem var að koma á fætur. Tók mig saman, kvaddi og hélt af stað austur. Kom við í AO við Sprengisand. Hefði alveg komist fram og til baka og gott betur en það er eitthvað við það að keyra út úr bænum á fullum tanki. Kom við í Fossheiðinni og þáði kaffi og veitingar hjá afmælisbarni gærdagsins. Var komin á Hellu um tvö. Pabbi var úti í garði að slá. Systurdóttir mín kom fljótlega heim úr vinnu en hún hafði mætt mjög snemma og fór beinustu leið inn í herbergi að leggja sig. Pabbi fór aftur út í garð eftir kaffi. Ég var með bleikju og gróf hrísgrjón í kvöldmatinn. Um kvöldið kynnti Bríet unga manninn sem hún er nýbyrjuð í sambandi við. Hann er tveimur mánuðum eldri en hún og úr Landeyjunum. Annars vil ég taka það fram að ég er svo stolt af "stelpunum okkar". Þær börðust eins og ljón allan leikinn og uppskáru enn eitt 1:1 jafnteflið. Þær voru klárlega litla liðið því Frakkland er mun ofar á styrkleikalistanum og var búið að vinna báða hina leiki sína 5:1 á móti Ítalíu og 2:1 á móti Belgíu. Lengi vel var jafntefli í hinum leiknum. Ítalir gerðu árangurslausar orrahríð að marki Belgíu en Belgía aftur á móti skoraði úr sínu eina færi í þeim leik og komst þar með áfram. Það verður fróðlegt að sjá þær mæta Svíu í átta liða úrslitum.

18.7.22

Síðasta heila frívikan framundan

Lottóvinningur helgarinnar var greiddur út strax í gær og heldur því kreditkortið mitt áfram að vera í plús um sinn. Þegar ég geri upp visareikninginn mánaðarlega legg ég alltaf eitthvað aukalega inn þannig að ég byrja hvern mánuð með vísa í plús. Var að nálgast núllið þegar við bættust rúmlega fjörutíuogsjöþúsund krónur. Annars svaf ég út í gærmorgun og fór ekki á fætur fyrr en um tíu. Um hádegið hellti ég mér upp á kaffi. Var að vafra á netinu, prjóna og dúlla mér. Á þriðja tímanum skrapp ég út í klukkustundar göngutúr um nágrennið. Labbaði Hamrahlíðina að Kringlumýrarbraut, beygði til hægri og var að spá í hvort ég ætti að fara heilan Öskjuhlíðarhring. Beygði þó útaf á stíg mun fyrr. Þetta urðu samt rúmlega þrír kílómetrar sem ég labbaði í tveimur hollum. Fann nefnilega bekk á leiðinni og ákvað að setjast og njóta augnabliksins um stund. Það kom köttur og heilsaði upp á mig á meðan ég sat þarna. Gærdagurinn var jafn fljótur að líða og allir aðrir dagar. 

17.7.22

Álitlegur lottóvinningur

Fékk það staðfest með tölvupósti frá gjaldkera íslenskrar getspár að ég fékk fjóra rétta á eina af áskriftarröðunum mínum í útdrætti gærkvöldsins. Tæplega fjörutíuogáttaþúsund krónur sem lagðar verða beint inn á kreditkortið á næstu dögum. Þá eru heildarvinningar ársins komnir í 51.460 kr. á árinu því ég er nokkrum sinnum búin að fá tvo rétta og bónus eða þrjá rétta, nokkra hundrað kalla og einn vinning rétt yfir 1000 kr. Kannski er að styttast í þann stóra? Hann kemur örugglega einhvern tímann. Ætla að halda áskriftinni og ekki breyta neinu þótt bæst hafi í tölurnar á dögunum. Annars var gærdagurinn mjög góður. Skrapp í sundhöllina upp úr hádeginu og synti á braut fjögur í útilauginni í rúmt korter, 400 metra og fjórðu hverju ferð skriðsund. Fór þrisvar í kalda pottinn, smá stund í gufu og heita pottinn úti en annars sat ég góða stund á stól og slakaði vel á. Oddur Smári fékk eitthvað í magann í gær. Ég vona að hann haldi ekki að hann hafi fengið matareitrun eftir eldamennsku sína kvöldið áður því þá er hætt við að langur tími líði áður en hann eldar sér aftur í matinn. 

16.7.22

Loksins

Ég var eitthvað svekkt og pirruð um daginn. Hafði útbúið plokkfisk úr afgangi af soðinni ýsu. Hvorugur sonanna fékk sér af matnum. Davíð Steinn er að mestu farinn að elda ofan í sig sjálfan. Er á sér mataræði og launin þau að hann hefur losað sig við hátt í þrjátíu kíló. Þannig að ég var ekkert að svekkja mig á að hann skyldi ekki fá sér af plokkfisknum. En hinn sonurinn, ég las aðeins yfir honum. Sagði að nú væri ég búin að fá nóg og færi meira og minna að elda bara þegar mér sýndist og þá hugsa eingöngu um mig þannig. Það væri líka kominn tími til að hann færi að gera meira í eldhúsinu heldur en að vaska upp og ganga frá stöku sinnum. Og í gær eldaði þessi sonur minn sinn eigin mat í fyrsta sinn í nokkur ár. Held að hann hafi meira segja verslað hráefnið sjálfur. Stundum verður maður bara að taka af skarið og segja sínar meiningar. 

15.7.22

Annað jafntefli

Já, stelpurnar okkar gerðu 1:1 jafntefli við Ítali í öðrum leik af þremur í sínum D-riðli í gær. Þær stóðu sig heilt yfir mjög vel, skoruðu snemma og fengu nokkur færi til að gera út um leikinn bæði áður en ítölsku stelpurnar jöfnuðu og líka eftir jöfnunarmarkið. Svo fannst mér belgísku stelpurnar standa sig súper vel á móti þeim frönsku. Leikurinn við Frakka verður örugglega erfiður en ég er viss um að allt verður gefið í þann leik. Ég var semsagt mest að fylgjast með EM í knattspyrnu kvenna í gær en líka að prjóna, lesa og ýmislegt fleira. 

14.7.22

Júlí næstum hálfnaður

Vaknaði rétt upp úr klukkan sjö í gærmorgun og dreif mig á fætur fljótlega. Um tíu var ég komin í Sundhöllina. Fór þrisvar sinnum í kalda pottinn og synti í tuttugu mínútur á braut eitt í innilauginni. Fjórðu hverju ferð synti ég skriðsund en annars bringusund. Syndi aldrei baksund nema þá daga sem ég þvæ á mér hárið. Eftir sundferðina skrapp ég í bakaríið í Suðurveri og keypti mér kaffi með ábót, smurt rúnstykki og sérbakað vínarbrauð. Gerði þessu skil á staðnum. Kom heim um tólf. Kláraði afgangatuskuna í gær en alls ekki alla afganga. Fitjaði upp á nýrri tusku, snúningar. Bæti við umferðum og lykkjum til að hafa kant í kring. Davíð Steinn var að vinna í gær. Lánaði svo bræðrunum bílinn til að fara í bíó í gærkvöldi. Nú er N1 sonurinn kominn í tveggja vikna sumarfrí. 

13.7.22

Sólin skín

Þar sem gærdagurinn var nokkuð svipaður og undanfarnir dagar er mest lítið um hann að segja. Fór reyndar hvorki í sund né sjóinn og svo leið allur dagurinn án þess að ég hellti mér upp á kaffi. Var að spá í að láta loksins verða af því um átta leytið í gærkvöldi þar sem þrýstingur í höfði hálf krafðist þess að fá eitthvað koffín. En það fór nú samt svo að ekkert kaffi var drukkið í gær og bara einn sterkur bolli í fyrradag. Ég er alls ekki að hætta í kaffinu þó. Svo var hringt í mig frá blóðbankanum og ég spurð hvort ég væri ekki til í að koma þangað fljótlega. Ég er nýbyrjuð á járnkúr en samþykkti að bóka tíma á fimmtudaginn í næstu viku. 

12.7.22

Færsla no 3303

Klukkan var farin að ganga tvö þegar ég dreif mig loksins í sund í gær. Samt var ég komin á fætur um sjö leytið. Fór í Sundhöllina. Byrjaði að venju á að fara í kalda pottinn. Fór svo á braut 4 í innilauginni og synti í um fimmtán mínútur, allar ferðir á bakinu. Fór tvær aðrar ferðir í kalda pottinn, einu sinni í gufu og einu sinni í heita pottinn. Sat líka á bekk í góða stund. Svo kom ég við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni heim og keypti ýsu í soðið, kartöflur og harðfisk. Annars er svo sem lítið að frétta. Nýt þess að vera í fríi og leyfi mér að vera löt. 

11.7.22

Jafntefli

Var vöknuð upp úr klukkan sjö í gærmorgun. Skutlaði Davíð Steini upp á Gagnveg á tíunda tímanum og þáði kaffibolla út í bíl í staðinn. Hann drakk ég á stæði við Nauthólsvík á meðan ég beið eftir því að aðstaðan opnaði. Það var fjara og sjórinn 12°C. Synti út að kaðli í rólegheitum. Hefði getað vaðið alla leið. Var í sjónum í uþb tuttugu mínútur og annað eins í heita pottinum á eftir. Skrapp í Krónuna við Fiskislóð eftir sjósundsferðina. Kom heim um hádegisbilið. Gekk frá vörunum en það liðu svo næstum þrír tímar áður en ég hellti mér upp á kaffi, munaði líklega um þennan bolla sem ég þáði hjá syninum. Þegar leikurinn; Ísland - Belgía á EM kvenna hófst ákvað ég að prjóna á meðan ég fylgdist með leiknum. Stelpurnar okkar stóðu sig mjög vel að mínu mati þrátt fyrir að misnota vítaspyrnu og ná aðeins einu stigi úr leiknum. Það var meira skorað í seinni leik dagsins; Frakkland - Ítalía en í hálfleik var staðan 5:0 fyrir Frakka. Ítalir unnu þó seinni hálfleikinn en þeir skoruðu eina markið og töpuðu því leiknum með fjögurra marka mun.  

10.7.22

Leikdagur

Var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun. Hafði því um klukkustund til að vafra um á netinu áður en ég skutlaði Davíð Steini upp á Gagnveg. Hleypti honum út þar á slaginu hálfátta og þáði kaffibolla út í bíl fyrir vikið. Lagði á stæði við Austurbæjarskóla rétt rúmu korteri síðar. Sat úti í bíl framyfir morgunfréttir og drakk mestan hluta af kaffinu. Þegar ég kom í sundhöllina var tilkynning um að innilaugin væri lokuð. Ákvað samt að fara inn, sleppa bara baksundi og hárþvotti. Það fór reyndar svo að ég fór þrisvar sinnum í kalda pottinn, tvisvar sinnum í stærsta heita pottinn úti, einu sinni í gufu og svo nokkrar mínútur sitjandi á bekk. Sleppti sundinu algerlega en yfirferðin tók samt um klukkustund. Fátt annað gerðist svo sem annars í gær. Horfði á báða leikina í C-riðli EM kvenna, prjónaði, las, vafraði á netinu og horfði á leikna þætti úr sarpinum. 

9.7.22

Hundraðognítugasti dagur ársins

Svaf til klukkan átta í gærmorgun. Dagurinn var annars ósköp svipaður undanförnum dögum. Ein tuska "datt" af prjónunum og að þessu sinni notaði ég afganginn af dokkunni til að fitja upp á afgangatusku. Er líklega komin með nóg af afgöngum í amk tvær tuskur. Hugsanlega hefði ég átt að fitja upp á afgangahandklæði en þar sem ég prjóna eftir mynstrinu "blíðar bárur" þá held ég að ég hefði ekki nennt að hafa stykkið of stórt. Ég bætti reyndar við níu lykkjum við það sem er gefið upp. Í fimmtu hverju umferð bætast við 18 aukalykkjur og í sjöundu hverju umferð þarf að prjóna 36 lykkjur tvær og tvær saman. Nú er EM kvenna í knattspyrnu hafið. Fyrsti leikur okkar stelpna er ekki fyrr en á morgun en það er ein umferð búin í A og B riðli og fyrsta umferðin í C riðli fer fram í dag. 

8.7.22

Veðurviðvaranir

Vaknaði um sjö í gærmorgun. Snéri mér ekki á hina hliðina og fór fljótlega á fætur. Morguninn var tekinn nokkuð rólega. Upp úr hádeginu lét ég tvíburahálfsystur mína vita að ég væri á leiðinni, þyrfti bara að koma við á einum stað. Skilaði þremur bókum á safnið. Þurfti að fara með tvær að afgreiðsluborðinu vegna þess að skilaferlið mistókst. Eina af þessum bókum hafði ég ekki tengt við og ákveðið að skila ólesinni. Hafði lesið hinar tvær og önnur af þeim var skammtímalánsbókin sem komst óvart með mér heim í síðustu safnferð. Ákvað að líta ekkert í kringum mig og fór með tóman poka út. Er jú með þrjár nokkuð þykkar ólesnar hér heima og þar að auki tvær þrjár ólesnar úr eigin eigu. Var komin til Sonju rúmlega eitt. Hún bauð mér upp á kaffi og snarl en svo hjálpaði hún mér að prenta út skjal til útfyllingar vegna sölu á íbúð. Þegar ég var búin að fylla það út skannaði hún það inn og ég gat sent útfyllt skjalið til baka til núverandi eiganda risíbúðarinnar. Fljótlega eftir að þetta var afgreitt færðum við okkur yfir í sófann og tókum upp prjónana. Klukkan var um fimm þegar ég kvaddi en þessir fjórir tímar virkuðu eins og nokkrar mínútur. 

7.7.22

Fimmtudagur

Var komin á fætur um níu í gærmorgun. Hélt mig að mestu heimavið. Skrapp þó í stuttan göngutúr um miðjan dag og kom við í Krambúðinni í bakaleiðinni og keypti m.a. hrásallat og kartöflusallat í bernese. Bjó til kjötbollur í kvöldmatinn. Langt síðan ég hef gert svoleiðis. Annars ósköp lítið að gerast nema nú er líklega loksins að komast einhver hreyfing á framkvæmdir við húsið og það heildarframkvæmdir en ekki plástrar. Ég ætti því að geta "troðið" glugga og svalahurðardæmi inn í dæmið. Það eina sem við þurfum að gera er að halda smá fund og klára að stofna framkvæmdarreikning. Sá sem tók saman skýrsluna um húskassann á sínum tíma er svo til í að liðsinna okkur. Eigandi risíbúðarinnar fyrir ofan mig er að fara setja hana á sölu. Hann er með vinnu og annað heimili norður í landi og íbúðin hér í bænum hefur verið mikið notuð sem skammtímaleigupláss. Ég þarf að taka saman upplýsingar um hússjóð, sameiginlegt húsfélag og framkvæmdirnar framundan.

6.7.22

Hittingur

Í gærmorgun var ég komin á fætur upp úr klukkan sjö. Var eitthvað að spá í að skreppa í sjóinn um tíu en ekkert varð þó úr því. Um tvö hafði norska esperanto vinkona mín samband og bauð mér að koma yfir til sín um fimm. Oddur Smári skutlaði mér þangað þegar tíminn var kominn. Einni annarri konu var boðið. Sú er líka í Lífsspekifélaginu. Við Þrjár höfum stundum brallað eitthvað saman. Seinni parturinn og kvöldið var fljótt að líða. Sonur hinnar vinkonunnar sótti mömmu sína um hálftíu leytið. Við Inger skruppum í smá göngutúr og löbbuðum meðfram sjónum alla leið út að bílastæðinu við Gróttu. Þangað sótti Oddur okkur. Klukkan var farin að ganga tólf þegar ég kom heim. Í stað þess að fara beinustu leið í rúmið settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Þegar ég fór loksins í rúmið einhvern tímann eftir miðnætti las ég um stund í einni bók af safninu. 

5.7.22

Annar af sextán virkum

Klukkan var að verða hálftíu þegar ég vaknaði og fór á fætur í gærmorgun. Hafði reyndar rumskað um hálfsjö um það leyti sem N1 sonurinn var að hafa sig til og leggja af stað í vinnu en snéri mér á hina hliðina og grjótsofnaði aftur. Það stefndi í enn einn letidaginn en um hádegisbilið sá ég skilaboð frá norsku esperanto vinkonu minni. Dóttir hennar varð þrítug í gær og þau höfðu veislu fyrir hana um nýliðna helgi. Nú vildi hún bjóða mér yfir til sín í súpu og hvítvín. Þegar ég svaraði skilaboðum hennar um hvenær ég ætti að mæta sagðist hún aðeins þurfa að hugsa málið. Ég dreif mig hins vegar í Sundhöllina. Fór tvisvar í kalda pottinn, synti í tuttugu mínútur, langmest á bakinu en 1x25 m skriðsund. Fór í gufu eftir seinni kalda potts ferðina og sat svo stund úti á bekk áður en ég fór inn í sturtu og að þvo á mér hárið. Um það leyti sem ég kom heim fékk ég skilaboð frá vinkonunni um að það þyrfti að fresta hittingnum aðeins. Það sem eftir lifði dags og kvölds notaði ég í ýmislegt mis gagnlegt dútl. Slapp við eldamennsku því ég átti afgang af steiktum þorskhnakka. Oddur vildi reyndar ekki fá sér með mér svo ég benti honum á að afgangurinn væri amk fyrir tvo og ef hann ekki vildi borða þýddi það að ég ætti auka afgang fyrir sjálfa mig og væri því ekkert að fara að elda alveg á næstunni. 

4.7.22

Sofið út

Fór á fætur upp úr klukkan níu í gærmorgun. Að öðru leyti var dagurinn mjög svipaður og laugardeginum. Um miðjan dag lánaði ég bræðrunum bílinn. Þeir komu heim aftur um níu í gærkvöld. Ég var komin upp í rúm fyrir klukkan tíu en þrátt fyrir að lesa í einn og hálfan tíma kláraði ég ekki skammtímalánsbókina. Hún er upp á 529 bls. og það eru rúmar 30 blaðsíður eftir. Þarf svo sem ekki að skila henni fyrr en eftir viku en svo á ég fimm aðrar bækur ólesnar. Hef 23 plús 30 daga til að lesa þær. 

3.7.22

Letikast

Þrátt fyrir að vera komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun þá fór það nú svo að dagurinn var eingöngu notaður hér heima. Drjúgur tími fór í netvafr og netleiki, lestur, sjónvarpsgláp og prjónaskap. Strákarnir tóku að sér að fara saman í eina sorpuferð og ég steikti þorskhnakka í matinn og sauð smælki til að hafa með. Rólegheitadagur og alveg jafn fljótur að líða og allir aðrir dagar. 

2.7.22

Árið hálfnað

Það var vekjaraklukkan sem ýtti við mér rétt fyrir klukkan hálfsjö í gærmorgun. Fór á fætur, bjó um, sinnti morgunverkunum á baðherberginu og settist svo smá stund inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Fór á bílnum í vinnuna. Ég var í bókhaldinu og mánaðamótafrystingum. Var búin að klára af frystingarnar þegar samstarfskona mín mætti. Við sóttum alla vagna og töskur og rétt skruppum fram til að fylla á vatnsbrúsana okkar áður en við byrjuðum á fyrstu framleiðslu dagsins. Vorum langt komnar með þá framleiðslu þegar við tókum stutta pásu til að fara á zoom-fund. Þar var verið að tilkynna að ákveðið hafi verið að Reiknistofan myndi flytja úr Katrínartúni og yfir í Kópavog að ári. Einnig var sagt að búið væri að festa kaup á amk hluta af húsnæðinu sem Seðlaverið er í við Sundaborg, þangað sem kortadeildin flytur eftir nokkra mánuði. Kláruðum mest allt daglegt um tólf. Áttum bara eftir að framleiða dagleg debetkort fyrir einn banka þegar við fórum upp í mat. Vorum búnar að framleiða þann banka og ganga frá því sem fara átti í póst þegar hann var sóttur fyrir klukkan hálftvö. Pökkuðum og töldum og kláruðum svo það sem eftir var af dk-endurnýjun af þriðja banka af fjórum. Ætluðum svo að klára næstminnstu skrána úr síðasta bankanum, 37 kort, þegar vélin fór að vera leiðinleg. 8 kort í lagi en 29 ónýt og við hættum og gengum frá án þess að endurgera þessi ónýtu. Var með sjósundsdótið í skottinu en þegar ég kom að planinu við Nauthólsvík fannst mér of margir bílar á stæðinu. Veðrið var líka það gott að það væru allar líkur á að það væri fjöldi fólks að spóka sig í sjónum, lóninu og heita pottinum. Snéri því við og fór bara heim.

1.7.22

Föstudagur

Klukkan var rétt um sex í gærmorgun þegar ég vaknaði og fór á fætur. Um klukkustund síðar labbaði ég í vinnuna. Komst inn á framleiðsluvélina án þess að þurfa að skipta um lykilorð og í stað þess að logga mig út þegar við fórum í matar, kaffi og talningapásur þá slökkti ég á skjánum. Urðum að afhenda vélina eftir hádegi vegna tilraunaframleiðslu á nýjum kortum fyrir nýjan banka svo við komumst ekkert í endurnýjun í gær. Nóg annað var samt að sýsla og við höfðum t.d. engan tíma til að flokka kennispjöld. Fékk far heim úr vinnunni og var í engu stuði til að fara eitthvað út aftur. Bíllinn var líka í svo góðu stæði fyrir framan húsið. Er annars búin að lesa tæplega helminginn af skammtímalánsbókinni af safninu.