31.8.14

"Raðgos"?

Það eru rólegheit hjá mér þótt mikið gangi á gosstöðvunum og veðrið hafi aðeins rokið upp.  Þar sem ég var að lesa langt fram á nótt aðfaranótt gærdagsins svaf ég aðeins lengur fram á morguninn.  Ég var þó komin á fætur fyrir hádegi.  Gærdagurinn var tíðindalítill hjá mér, var bara heimavið í tölvu, eða að lesa og horfði einnig á þrjár myndir í gærkvöldi, tvær á RÚV og eina á DR1.  Hafði afgang af kjötsúpu í kvöldmatinn og samt er meira til.  Norska esperanto vinkona mín hafði samband, nýlega komin frá Noregi, og spurði hvenær skólinn byrjaði hjá okkur.  Við vorum sammála um að byrja núna í september, jafnvel strax næstu helgi.

30.8.14

September handan við helgina

Tíminn heldur áfram að þjóta sinn veg út í buskann, hratt og örugglega.  Ég hjólaði í vinnuna í gærmorgun og var mætt í fyrra fallinu.  Þar sem ég átti að hlaða inn skrám og troða í framleiðsluvélina fyrstu tvo tímana og ég vissi að það yrði óvanalega mikil framleiðsla ákvað ég að hefja störf áður en klukkan sló átta.  Dagurinn leið hratt og án teljandi vandræða og okkur fjórum tókst að ljúka öllu sem þurfti að klára um fjögur.  Ég var aðeins lengur að ganga frá nokkrum pappírum og svara pósti.  Það rigndi á mig á heimleiðinni en ég hafði troðið þunnri plastslá með mér ofan í pakpokann og passaði hún alveg yfir mig og pokann.  Kveikti á tölvunni er heim kom og sat góða stund við hana.  Um hálfsex fór ég að undirbúa kjötsúpugerð.  Eins  og fram kom í pistli gærdagsins þurfti ég að skreppa í Grafarvoginn eftir bedda eftir að hafa sett allt grænmeti í súpuna og lækka undir eftir að suðan kom upp aftur.  Davíð Steinn tók svo að sér að fylgjast með þessu.  Í bakaleiðinni úr beddaleiðangrinum dældi ég á lánsbílinn þar sem það var 12 kr. afsláttu hjá Atlantsolíu.  Súpan var góð og sem betur fer nóg eftir því hún er betri upphituð.  Horfði á fyrri hlutann af sænsku myndinni Arne Dahl og svo las ég langt fram á nótt.

29.8.14

Síðasti vinnudagurinn í þessum mánuði liðinn

Strákarnir báðu mig endilega um að fara á lánsbílnum í vinnuna í gær svo þeir gætu fengið far með mér í skólann.  Ég varð við þeirri beiðni.  Vinnudagurinn var annasamur alveg frá klukkan átta til fjögur og nóg að gera.  Inn á milli þarf ég þar að auki að taka símann og svara fyrir kort eða kennispjöld. Strax eftir vinnu skrapp í ég Krónuna við Granda og verslaði inn.  Þá er það frá og ég þarf ekki að fara í svoleiðisleiðangur aftur fyrr en í næsta mánuði.  ;-)  M.a. keypti ég allt í kjötsúpugerð sem ég er reyndar að græja núna á meðan ég er að skrifa pistil dagsins.  Búin að skera niður allt grænmetið en ætla að leyfa kjötinu og bygggrjónunum að vera aðeins lengur áður en ég bæti út í súpuna.

Er búin að lesa "Ólæsingjann" og var afar ánægð með þann lestur.  Bókin sem ég er byrjuð á núna heitir Drekinn og er eftir Sverri Berg.  Hún kom út á síðasta ári og er fyrsta bók höfundar.  Spennan er mikil og ég get ekki beðið eftir því að klára bókina en ég er rúmlega hálfnuð.  En fyrst er að kíkja á súpuna og skreppa svo og sækja bedda í Veghúsin þar sem Helga systir bjó síðustu átta árin eða þar um bil.  Systir mín og mágur eru búin að selja og hafa fest sér kaup á íbúð á Akureyri.

28.8.14

Útstáelsi

Hjólaði í vinnuna í m.a. gegnum Klambratúnið, Gunnarsbraut og Hverfisgötu í gærmorgun.  Vinnudagurinn byrjaði eins og sá á undan endaði, með því að ég þurfti að kalla til viðgerðarmann út af ónýtri myndaáprentun.  Viðgerðarmaðurinn kom reyndar ekki fyrr en upp úr tíu og í millitíðinni hafði okkur tekist að "fiffa" vélina einhvern veginn þannig að hún eyðilagði ekki eins mikið.  Um svipað leyti og sá tilkallaði kom var ónýtu myndunum hins vegar aðeins farið að fjölga aftur.  Viðgerðarmaðurinn var hjá okkur þar til hann fór í mat um tólf.  Hann kom reyndar aftur eftir matinn en þurfti ekki að gera meira þá.  Þetta leiddi til þess að þrátt fyrir að dagleg framleiðsla væri ekkert svo mikið vorum við alveg til tvö að klára og því aðeins minni tími til að grynnka á endurnýjuninni.

Þegar ég kom heim rétt fyrir hálffimm hringdi ég í asea-manninn.  Hann svaraði gemsanum en sagðist ekki vera heima.  Hann sagði samt að ég gæti skroppið við eftir sendingunni minni því sonur hans væri heima. Sem betur fer sagði hann mér líka að ég mætti labba inn ef dyrabjöllunni yrði ekki svarað.  Ekkert löngu seinna hringdi ég bjöllunni tvisvar sinnum áður en ég opnaði útidyrnar og labbaði inn kallandi halló tvisvar eða þrisvar.  Ég fékk engin viðbrögð en ég fann kassann minn, tók hann traustataki og skildi eftir seðil fyrir sendingarkostnaði á eldhúsborðinu.  Sendi svo asea-manninum sms um ævintýri mín.  Ég var nýkomin heim þegar hann hringdi og hélt að ég stæði enn fyrir utan hjá honum.  Hann gat nefnilega ekki lesið "skeytið" frá mér vegna gleraugnaleysis.  Þegar ég sagði honum frá ævintýrinu varð hann bara ánægður með að ég skyldi bjarga mér.

Spilakvöldið var haft í gærkvöldi, heima hjá okkur að venju.  Ég ákvað því að hringja í tvíburahálfsystur mína og kanna hvort hún væri heimavið og tæki á móti mér.  Var svo mætt til hennar um hálfníu.  Hún hafði reyndar aðeins skroppið frá en maðurinn hennar tók á móti mér og sagði mér að setjast fyrir framan skjáinn og horfa á beina útsendingu í landliðsleik karla við Bosníu.  Fljótlega eftir að vinkona mín kom heim settumst við niður í stofu með saumana.  Ég tók fram stóru myndina og fyllti smá upp í gatið sem á eftir að klára. Klukkan var byrjuð að ganga tólf þegar ég kvaddi eftir gott spjall og hlátur inn á milli.  Alltaf gott og gaman að hitta tvíburahálfsystur sína.

27.8.14

Jafntefli á heimaleik

Þrátt fyrir úðaregn og strengja í lærum ákvað ég að hjóla í vinnuna í gær, ekki í neinum sérstökum regnfatnaði.  Blotnaði ekki svo mikið að ég þyrfti að skipta um föt (enda var ég heldur ekki með neitt til skiptanna) og það kom á óvart að ég fann ekki fyrir strengjunum á hjólinu.  Það er bara þegar ég er að setjast sem tekur svolítið í.  Vorum þrjár í vinnu og kortavélin var með smá vesen.  Kortin framleiddust en endurgera þurfti slatta aftur vegna ónýtra mynda.  Ég ákvað að þetta gengi ekki lengur og kallaði til viðgerðarmann.  Hann ætlaði að renna við "fljótlega" en ég varð að bíða eftir honum til klukkan að ganga fimm svo ég gæti sýnt honum ónýtu kortin áður en ég gengi frá þeim inn á læstan lager.  Stuttu fyrir klukkan hálffimm skildi  ég viðgerðarmanninn eftir.  Hjólaði heim eftir Sæbrautinni og eftir að hafa skilað hjálminum og bakpokanum inn skrapp ég út í Sunnubúð, m.a. eftir brauði.  Oddur Smári var kominn heim er ég kom til baka.  Hann sagði mér að ekkert yrði úr spilakvöldinu.  Ég hafði ekkert verið að hugsa fyrir kvöldmat vegna spilakvöldsins og var þar að auki á leið á völlinn um klukkustund síðar.  Ég ákvað því að strákarnir gætu alveg fundið sér eitthvað snarl í þetta skiptið.  Þegar ég trítlaði af stað á völlinn rétt fyrir sex sá ég slökkviliðs- og sjúkrabíl í götunni minni rétt við Reykjahlíðina.  Þeir voru samt á förum.  Leikurinn fór 0-0 en Valsstelpurnar voru að taka á móti Sjörnunni og fyrri leikur þessara liða í sumar gjörtapaðist.  Horfði svo á Wallander á DR1 áður en ég skreið upp í rúm upp úr ellefu og las til miðnættis.

26.8.14

Lítið eftir af ágúst

Ég bauð tvíburunum far í skólann á lánsbílnum í gærmorgun.  Þeir höfðu verið svo duglegir að þramma um bæinn á menningarnótt að þeir fengu báðir blöðrur, ég var með mína berjastrengi aftan í lærunum og svo var rigning.  Um leið og strákarnir yfirgáfu bílinn við Tækniskólann hringdi gemsinn minn.  Ein úr kortadeildinni var að tilkynna sig veika.  Önnur úr deildinni átti tíma í sjúkraþjálfun um níu svo við vorum bara tvær fyrstu næstum tvö tímana.  Báðar áttum við að vera á vélinni og þar sem ég var að hlaða inn skrám og "troða" í var hin að dekka mun fleiri hlutverk.  Rétt fyrir tíu vorum við orðnar þrjár.  Kláruðum allt daglegt um tólf og tókum okkur þá matarpásu.  Eftir hádegi fengum við senda endurnýjun og hlóðum henni inn.  Áttum aðeins þrjár skrár, alls um 700 kort, eftir af endurnýjuninni sem kom rétt fyrir helgi.  Minnsti fællinn tók það langan tíma að við framleiddum bara tvær af þessum þremur.  Settum af stað fæl úr nýjustu endurnýjuninni um þrjú og létum vélina malla á honum á meðan við fórum í afmæliskaffi en ein af okkur átti afmæli á laugardaginn var.

Fór beint heim eftir vinnu og kveikti auðvitað strax á tölvunni.  Setti upp kartöflur rétt fyrir sex og skar niður lifur og setti í poka ásamt byggflögum krydduðum með salti og pipar.  Rétt áður en ég ætlaði að fara að steikja lifrina hringdi Davíð Steinn í mig og bað mig um að sækja sig í skólann.  Um kvöldið horfðum við Oddur Smári á Lewis á DR1.

25.8.14

Smá berjastrengir

Ég vaknaði fyrst fyrir allar aldir eða fyrir klukka sjö í gærmorgun.  Var alveg í spreng svo ég skrapp á salernið, fékk mér svo aseadrykk og smurði gelinu á mig áður en ég skreið upp í aftur.  Þegar gelið hafði þornað vafði ég sænginni um mig og svaf alveg til klukkan hálftíu.  Kom mér á fætur fljótlega, fékk mér morgunmat og kveikti að tölvunni og kaffikönnunni.  Mamma svaf og pabbi var frammi hjá sér svo ég settist bara við tölvuna með fyrsta kaffibolla dagsins.  Það kom mér á óvart hversu lítið aum ég var eftir berjamóinn daginn áður.  Strengirnir eru aðallega aftan í lærunum en ég finn fyrir smástrengjum aðeins ofar.

Gleymdi alveg að segja frá hvað við mamma gerðum á laugardagskvöldið svo ég bæti úr því hér með. Mamma bauð mér upp á hvítvín og við kláruðum saman úr einni flösku, tvö glös á mann.  En hún bað mig líka um að lesa fyrir sig eins og ég gerði þegar hún var sem veikust um árið.  Hún er að lesa bókina "Amma biður að heilsa" eftir sama höfund og bókin "Maður sem heitir Ove" Frederik Bakcman.  Mamma var langt komin með þrettánda kafla og ég byrjaði þar og las hann og næstum tvo kafla í viðbót.  Mömmu finnst víst miklu skemmtilegra að láta lesa fyrir sig.  Við skelltum nokkrum sinnum upp úr og ég las örugglega í rúmlega klukkustund.  Hætti þegar tíufréttir í útvarpinu byrjaði.

Stoppaði á Hellu aðeins framyfir kvöldmat í gær.  Mamma fékk að nota bílinn sinn aðeins meira fyrr um daginn.  Kom í bæinn um tíu og við Oddur Smári horfðum á Law and Order SVU og Reservation á Skjá einum á plúsnum.  Ég las svo um stund áður en ég fór að sofa þrátt fyrir að klukka væri alveg að verða tólf þegar ég skreið upp í.

24.8.14

Krækiber og sólber

Við pabbi drifum okkur af stað um ellefu í gærmorgun eftir að hafa tekið til vatn í tvær flöskur, fötur, tínur og stóran poka. Fyrst stoppuðum við hjá "loftdæminu" við bensínstöðina þar sem pabbi athugaði hvort það vantaði loft í dekkin á jeppanum. Hann kom líka við í búðinni og keypti banana og kexpakka.  Síðan keyrðum við austur í Landeyjar.  Nóg var af berjum, sumar þúfurnar alveg kolsvartar.  Á tæpum einum og hálfum tíma tíndum við hátt í 18 kíló saman.  Komum til baka um tvö.  Mamma hafði greinilega nýtt sér það að bíllinn hennar var heima.  Hafði verið að tala um það kvöldið áður að skreppa á Selfoss.  Þegar til kom skrapp hún í Brekkugerði og að Helluvaði, sagðist ekki hafa nennt lengra.  En var afar ánægð með að hafa bílinn tiltækan.  Eftir síðdegiskaffi skruppum við mamma út í garð með fötur og skæri og klipptum alls tæp tvö kíló af sólberjum.  Við kláruðum ekki alveg en vorum að í um klukkustund.

23.8.14

Á leið í berjamó

Strákarnir fengu far með mér fyrsta skóladaginn í gær.  Framan af nýhafinni önn byrja allir skóladagar hjá þeim klukka 08:10.  Þetta breytist eitthvað aðeins hjá Oddi seinna á önninni.  Vinnudagurinn leið afar hratt enda nóg að gera eins og oftast áður.  Framleiðsluvélin var í gangi alveg frá átta til þrjú.  Þar sem við vorum aðeins þrjár eftir klukka tvö tókum við okkur síðdegiskaffipásu saman upp úr þrjú og svo þurfti ég smá tíma til að gera gjafakortatest á vélinni.  Erum langt komnar með endurnýjun sem við hlóðum inn á vélina fyrr í vikunni, einungis þrjár óframleiddar skrár eftir af 18.  Það klárast pottþétt fyrir mánaðamót.  Svo eigum við von á tveimur endurnýjum í viðbót í næstu viku.

Áður en ég fór inn heima, er ég kom úr vinnu, skrapp ég í Sunnubúðina eftir smá nauðsynjum strákanna vegna.  Hvorugur strákanna var kominn heim svo ég gekk frá vörunum og dreif svo í að setja í þvottavél. Síðan setti ég mig í samband við pabba og tilkynnti komu mína austur einhvern tímann um kvöldið.  Davíð Steinn skilaði sér heim fljótlega með vin með sér en það var búið að ákveða spilakvöld.  Oddur Smári kom heim rétt seinna nýklipptur og fínn.  Ég hengdi upp úr vélinni, horfði á fréttir á RÚV, tók mig til, kvaddi og lagði í hann stuttu fyrir klukkan átta.

Er byrjuð að lesa "Ólæsinginn sem kunni að reikna" eftir sama höfund og "Gamlinginn..." Jonas Jonasson.  Það stefnir allt í mikinn skemmtilestur og ég er afar ánægð með hversu þykk bókin er.  Er með 10 bækur af safninu.  Þarf að skila sex þeirra 7. sept og hinum fjórum 17. sept.  Er reyndar búin með tvær af þessum sex og er önnur þeirra Makalaus eftir Tobbu Marinós.  Sú bók kom mér ánægjulega á óvart og skellti ég nokkrum sinnum upp úr við lesturinn.

22.8.14

Föstudagur enn á ný

Ákvað að fara á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun.  Nóg var að gera í vinnunni því fyrir utan verkefnin í kortadeildinni var ég að leysa af og fylgjast með mannaferðum nokkrum sinnum í lengri og skemmri tíma. Það var bara einn að vinna frammi og hann þurfti nokkrum sinnum að fara með mönnum inn í hýsingarsalinn og þá kom til minna kasta.  Ein af okkur í kortadeildinni þurfti að fara um hálfþrjú svo ég ákvað að við hinar þrjár færum saman í síðdegiskaffi og framleiðsluvélin sett í pásu á meðan.  Annars gekk allt vel og áður en varði var klukkan orðin fjögur.  Kom við á Atlantsolíustöðinni við Flugvallarveg á heimleiðinni.  Það var 12 kr. afsláttur í gær og þótt ekki kæmust meir en 11 lítrar á tankinn þá fannst mér alveg taka því.

Hafði lax í matinn upp úr klukkan sex.  Horfði á fréttir á RÚV og megnið af landsleiknum.  Slökkti á sjónvarpinu tíu mínútum áður en leik var lokið.  Þá fórum við Oddur í Griffil og A4 þar sem við fundum næstum því allar bækurnar sem hann vantar á þessari önn.  Keyptum þær allar í Griffli á um 26 þúsund. Ein bókin var uppseld í bili og við kíktum í A4 til að athuga hvort hún væri til þar. Bókin reyndist uppseld þar líka.  Þegar við komum heim horfði ég á kvöldfréttirnar og lögregluþáttinn sem kom á eftir.  Oddur Smári fór hins vegar að sofa.  Davíð Steinn hafði skroppið út um átta til að hitta vini og kom heim rétt fyrir ellefu.  Hann þarf ekki að kaupa neinar bækur, getur hlaðið lesefninu, sem hann þarf það sem eftir er af náminu, niður frítt.

21.8.14

Hvaða hraðferð er eiginlega á tímanum?

Hjólaði leiðina sem ég fer oftast í vinnuna í gærmorgun, framhjá sjúkrahúsinu, Bergstaðastrætið, niður rétt við Hótel Holt og allt Ingólfsstrætið.  Vinnudagurinn var erilsamur og um tvö vorum við bara eftir tvær, ég sá um vélina og hin var að ljúka við alls kyns daglegan frágang.  Það teygðist þó ekki úr vinnudeginum og ég stimplaði mig út á slaginu klukkan fjögur.  Hjólaði beint heim, næstum því sömu leið og ég kom nema ég fór Lækjargötu og Sóleyjargötu og svo alla leið að ljósunum við Lönguhlíðina.  Davíð Steinn sá um að elda kvöldmatinn, lasanja.  Eftir kvöldmat og fréttir fylgdist ég aðeins með körfuboltaleiknum og varð ekkert smá stolt af íslensku strákunum að tryggja sig inn á EM í fyrsta skipti í sögunni með sigri á Bretum á útivelli.

20.8.14

"Óvænt uppákoma í gær"

Mikið er það annars ágætt að ég hafði ekki hugmynd um hvað vinnudagurinn í gær yrði langur þegar ég hjólaði Klambratúnið upp úr klukkan hálfátta í gærmorgun.  Framleiðsludagurinn í heildina voru yfir ellefuhundruð kort.  Lukum við kreditkortin fyrst um tíu og svo upp úr klukkan tólf.  Dk-dagurinn var langstærstur en við áttum eftir að framleiða innan við 50 kort þegar allt varð stopp.  Ég varð að kalla til viðgerðarmann og sem betur fer kom hann fljótlega.  En viðgerð lauk ekki fyrr en rétt fyrir fimm og þá átti eftir að ljúka framleiðslunni og ganga frá.  Klukkan var orðin hálfsex þegar ég stimplaði mig út og hjólaði Sæbrautina, Skúlagötu, Rauðarárstíg, Klambratún og Lönguhlíð heim.  Kveikti á tölvu, sendi Odd í Sunnubúð.  Hafði steikt slátur í matinn.  Horfði á báða fréttatímana (Stöð2 og Rúv), slökkti á tölvunni aftur um níu og horfði á Wallander á DR1.  Skreið upp í fyrir klukkan ellefu og las til klukkan að verða tólf. Hlustaði svo á fréttir á miðnætti áður en ég bað bænirnar mínar og fór að sofa.

19.8.14

Ætli sá "stóri" sé á leiðinni?

Á mánudaginn í síðustu viku fékk ég e-mail með hamingjuóskum frá íslenskri getspá.  Ég hafði unnið heilar 580 krónur fyrir 2 rétta og bónustölu á eina áskriftarröðina mína í laugardagslottóinu.  Í gær fékk ég svo annan póst þar sem ég hafði unnir 1220 krónur fyrir þrjár rétta á eina röðina.  Hvernig póst skyldi ég fá í næstu viku.  Fyrsti vinningur hefur ekki gengið út í nokkrar vikur...

Hjólaði í vinnuna í gær og fór m.a. í gegnum Hljómskálagarðinn.  Ekkert auka var komið til okkar og allt daglegt kláraðist fyrir tvö.  Aftur á móti lentum við í afar dularfullri kennispjaldaleit sem verður ekkert tíunduð neitt frekar hér.

Strákarnir áttu von á vinum á spilakvöld svo ég þurfti ekki að hafa fyrir því að elda.  Skrapp á bókasafnið og í búð fljótlega eftir að ég kom heim.  Skilaði fimm bókum (alls ekki öllum enda var ég með ellefu heima). Fór samt ekki tómhent heim því ég fann fjórar bækur sem mér fannst ég endilega verða að grípa með mér núna og lesa á næstunni.  Upp úr sex fór strákunum að fjölga og með tvíburunum urðu þeir alls níu þegar mest var.  Það voru reyndar ekki alveg allir að spila í "sessioninni", tveir eða þrír spiluðu play-stationleiki.

Upp úr átta skrapp ég til nöfnu minnar og frænku í Garðabænum og stoppaði hjá henni i tvo tíma.  Þegar ég kom heim voru allir strákarnir ennþá og það var enn verið að spila.  En þeir voru hættir fyrir ellefu og fóru þá að tínast heim.

18.8.14

Ný vinnuvika

Eftir að ég kom heim úr afmælinu um hálfeitt aðfaranótt gærdagsins gleymdi ég mér aðeins í tölvunni.  Veit ekki hvenær ég skreið nákvæmlega upp í rúm en þá las ég í smá stund.  Ég var því heldur löt að fara framúr í gærmorgun.  Var nú samt komin á stjá eitthvað fyrir hádegi.  Dagurinn leið við ýmis konar dundur.  M.a. fylgdist ég reglulega með skálftakortinu á vedur.is.  Hrinan sem hófst aðfaranótt laugardagsins stendur enn yfir og enn getur enginn sagt fyrir um hvað er að fara að gerast og hvort og þá hvenær fari að gjósa.  Það er eiginlega óhugnanlega spennandi að fylgjast með framvindunni.  Bjó til eggjaköku úr afgangnum af fiskinum sem ég var með í síðustu viku og hafði í kvöldmatinn.  Bætti út í þetta gulrótum sem ég var búin léttsteikja áður.  Strákarnir urðu ekkert fúlir að fá fiskrétt í kvöldmatinn.

17.8.14

Í "hundrað" ára afmælisveislu

Kom mér á fætur, hvorki seint né snemma, upp úr klukkan níu í gærmorgun.  Sinnti ýmsum nauðsynlegum málum.  Rétt fyrir ellefu kom einn vinur strákanna og það gaf mér ástæðu til að vekja þá.  Klukkan eitt vorum við mæðgin mætt í Veghús 21 til systur minnar og mágs.  Rétt seinna minnti Oddur mig á að ég hafði ekki tekið aukalyklana að Drápuhlíðinni með handa þeim.  Eldri stelpan var um það bil að klára síðustu skautaæfinguna í Birninum og ég bauðst til þess að sækja hana.  Hún var ekki með símann á sér og þegar hún skilaði sér ekki út hálftíma eftir æfingu hringdi ég í Helgu.  Hún hvatti mig þá til þess að skreppa heim eftir lyklunum.  Ég var í þann veginn að leggja af stað til baka þegar Helga hringdi aftur í mig.  Hún sagði að Hulda hefði komið labbandi heim en nú væri Bríet búin á sinni æfingu.  Ég sótti stelpuna og þegar ég skilaði henni heim til sín fékk ég það verkefni að búa til nýtt kaffi.  Verið var að flytja megnið af búslóðinni í skúrinn og voru tvíburarnir að hjálpa til við það. Svo var Ingvi að leggja af stað norður á bíl pabba síns með pabba sinn með sér.  Mæðgurnar leggja í hann í dag.  Íbúðin í Grafarvoginum er seld og verður afhent í næsta mánuði og systir mín og fjölskylda eru búin að fá leigða íbúð á Akureyri þar til þau finna sér sína eigin þar.

Við strákarnir komum heim rétt fyrir fimm.  Ég byrjaði reyndar á því að hleypa þeim út handan við hornið og skrapp til að fylla á bílinn.  Fljótlega eftir að ég kom heim fór ég að undirbúa mig undir að mæta í 2x50 ára afmælisveislu í Grindavík.  Þangað var ég svo mætt í sal Verkalýðsfélagsins á staðnum um sjö.  Náði að vera fyrsti gesturinn en ekki lengi því rétt seinna streymdu afmælisgestir að.  Boðið var upp á dýrindis súpu og brauð og kaffi og tertu á eftir.  Kona besta vinar míns til margra ára átti afmæli í gær og hann mun svo ná henni í byrjun nóvember.  Eftirfarandi ferskeytla var hluti af afmælisgjöf minni til þeirra:

Bæði tvö í tugi fimm
til samans gera hundrað.
Aldrei verður ævin dimm
ekkert fær þeim sundrað.

16.8.14

Laugardagur 228. dagur ársins

Svo ég ljúki nú frásögninni um "vísbendingaleikinn" við strákanna þá tapaði ég.  Það eina sem hafði hreyfst úr stað þegar ég kom heim um fimm á fimmtudaginn var klósettburstinn sem hafði verið færður aðeins til hliðar en ekki notaður.  Þúsund kallinn og ryksugan voru þar sem ég hafði skilið þau eftir og uppþvottavélin var full af hreinu leirtaui.  O, jæja, ég verð þá sennilega að setja fram skýrar óskir, munnlega og skriflega næst.

Annars fór ég á lánsbílnum í vinnuna í gær.  Við vorum bara þrjár en það lá ekki mikil framleiðsla fyrir og engin endurnýjun komin í gang.  Það var helst að kennispjöldin væru mörg þar sem hafði ekki náðst að skanna allt deginum áður.  En það kom babb í bátinn og aðeins hluti af debetkorta framleiðslunni skilaði sér yfir á framleiðslu vél.  Við nánari athugun kunnugra var ein vél ónýt.  Eftir hádegi kom kerfisfræðingur með sérfræðing út af öðru máli með sér.  Hann kann samt að komast framhjá kerfinu í sameiningu tókst okkur að senda restina af dk-deginum yfir svo við gátum klárað að framleiða. Kennispjöldin voru yfir hundrað en það tókst að ljúka öllu fyrir klukkan fjögur.  Svo er bara spurning hvernig aðkoman verður eftir helgi.

Strax eftir vinnu skrapp ég í Krónuna og verslaði inn.  Oddur Smári gekk frá vörunum.  Davíð Steinn var ekki heima en ég var með kvöldmatinn um sex og var komin á Valsvöllinn um hálfsjö þar sem "mínir menn" töpuðu 1-2 fyrir Sjörnunni.

15.8.14

Ágústmánuður hálfnaður

Áður en ég ók til vinnu í gærmorgun skildi ég eftir afar sterkar vísbendingar til tvíburanna.  M.a. dró ég ryksuguna fram í hol, spreyjaði salernisskálina að innan, hafði setuna uppi og plantaði burstanum fyrir framan.  Uppþvottavélin var merkt hreint í vélinni og strákarnir eiga alveg að vita hvað það merkir og svo skyldi ég eftir þúsundkrónuseðil á borðinu og miða hjá sem á stóð stórum stöfum OSTUR.  Í gær var síðasti vinnudagur sumarafleysingastúlkunnar Hrafnkötlu hjá okkur.  Af því tilefni hafði hún bakað köku eftir uppskrift frá Nigellu.  Annars var í nógu að snúast allan daginn.  Framleiðslu lauk reyndar um hádegisbil en þá var allt myndnámið eftir, talningar og pökkun. Ég var líka búin að boða til förgunnar á ónýtu plasti frá því í síðasta mánuði.  Tvö mættu úr Katrínartúni klukkan eitt og við vorum svo alls fjögur að ljúka þessu verki á innan við hálftíma.  Ég tilkynnti um fjölda ónýtra korta í hverri tegund fyrir sig, einn merkti við að það stemmdi við tölurnar á skjölunum og tvær mötuðu pappírstætarana.  Á meðan þessu fór fram sprakk fremri peran í myndskannanum og það eftir árangurslausar tilraunir við að losa peruna úr varð ég að hafa samband við viðgerðarmann.  Hann kom fljótlega og var klukkutíma að laga þetta.  Skönnun hófst svo rétt fyrir hálffjögur og það náðist að skanna rúmlega helminginn af spjöldunum eða um fjörutíu.  Strax eftir vinnu skrapp ég í Kringluna.  Lét útbúa tvö lykla af útidyrahurðinni hér heima.  Lyklana ætla ég systur minni og mági.  Einnig keypti ég gjafakort Kringlunnar segi meira um það á sunnudaginn kemur.  Slapp við að hugsa um kvöldmat því það var "session" hjá strákunum og þeir sáu um sig sjálfir strákarnir fimm.  Horfði á imbann, RÚV, milli klukkan níu og hálftólf.  Þá skreið ég upp í rúm og las um stund.

14.8.14

Tíminn æðir áfram

Fór sömu leið í vinnuna á hjóli í gærmorgun og ég fór á þriðjudagsmorguninn.  Í vinnunni var í nógu að snúast enda var klukkan auðvitað allt í einu orðin fjögur.  Skyldi tíminn annars líða eitthvað hægar ef maður sleppir því að gera nokkuð svona fyrsta kastið af deginum?  Hjólaði beint heim eftir vinnu og fór m.a. í gegnum Hljómskálagarðinn og svo undir tvær brýr þannig að ég kom upp stutt frá Eskihlíðinni. Læsti hjólinu við grindverkið milli 21 og 23 en í stað þess að fara strax inn settist ég upp í lánsbílinn og renndi við í fiskbúðinni við Sundlaugarveg.  Þar keypti ég m.a. ýsu í soðið sem ég hafði svo í kvöldmatinn.  Horfði á tvo kvöldfréttatíma en slökkti svo á sjónvarpinu.  Slökkti á tölvunni um hálftíu og byrjaði á "nýrri" bókasafnsbók.  Var svo sofnuð um ellefu og svaf í einum dúr til klukkan sex.

13.8.14

Nágranni í neyð

Leið gærdagsins á hjólinu til vinnu lá m.a. í gegnum Klambratúnið og á fínum hjólastíg meðfram Hverfisgötunni.  Mikið var að gera í vinnunni og ekki alveg allt að ganga upp í fyrstu en við náðum þó að ljúka öllum daglegum verkum og komumst í síðdegiskaffipásu upp úr klukkan hálffjögur.  Um fjögur hitti ég Lilju vinkonu fyrir utan.  Ég reiddi hjólið mitt og við löbbuðum heim eftir Lækjargötu, Sóleyjargötu, Gömlu Hringbraut, Miklubraut og Reykjahlíð.  Á leiðinni var hringt tvisvar sinnum í mig.  Annað símtalið var frá öðrum syninum og mér skildist að lánsbíllinn væri fyrir í hornstæðinu, fyrsta stæðinu þegar maður beygir inn í götuna.  Hann hafði vit á að segja að ég yrði komin heim fyrir fimm og það stóðst.  Fór þá inn með bakpokann og sótti bíllykilinn.  Lilja kom með mér í Hagkaup í Skeifunni þar sem ég verslaði inn örfáar nauðsynjar.  Fórum svo beint heim aftur og lagði ég þá í stæði fyrir framan garðinn við húsið "mitt".  Undirbjó kaffiuppáhellingu og tók Oddur Smári við þegar  vatnið í katlinum var soðið.  Lilja kvaddi á sjöunda tímanum og þá fór ég að huga að kvöldmatargerð, hafði hakk og spakk í matinn.  Eftir mat og kvöldfréttir settist ég aðeins fyrir framan tölvuna.  Um átta leytið hringdi heimasíminn   Ég þekkti ekki gemsanúmerið en á línunni reyndist vera nágranninn í risinu.  Dyrnar inn í íbúðina þeirra höfðu skellst í lás á eftir þeim, lykilinn var enn í skránni og þau voru læst inni.  Ég trítlaði upp brattan stigann og bjargaði þeim úr prísundinni.  Slökkti á tölvunni um hálftíu og skreið næstum strax upp í rúm, óvenjulega snemma.  Las í um klukkustund og var klukkan ekki orðin ellefu þegar ég slökkti ljósið og fór að sofa.  Hrökk aftur upp nokkru fyrir miðnætti alveg í spreng (hafði samt farið á klósettið áður en ég fór í rúmið en kannski var kaffidrykkjan að skila sér). Annar strákurinn var á prívatinu en ég komst að stuttu seinna og var svo fljót að sofna aftur.

12.8.14

Veðurblíða

Hjólaði í vinnuna í gærmorgun með flíspeysuna órennda og flaksandi en með hlýtt um hálsinn og eyrnaband undir hjálminum.  Eins og venjulega þegar mikið er að gera leið vinnudagurinn hratt.  Ég var að vinna á vélinni fyrir hádegi og það fór fljótlega að bera á því að það væri sambandsleysi við einn módúlinn.  Það varð úr að ég hringdi í viðgerðarmann sem kom til okkar strax upp úr hádeginu.  Í millitíðinni náðum við þó að klára alla daglega framleiðslu.  Þegar kominn var heimferðartími tróð ég flíspeysunni í bakpokann og hjólaði heim á stutermabolnum.  Hafði lifur í matinn og sendi svo annan strákinn í Sunnubúðina eftir því fáa sem vantaði. Hinn tvíburinn og ég horfðum svo saman á Lewis á DR1.

11.8.14

Græddi gallabuxur um helgina

Þegar mamma var að ljúka við að hafa sig til fyrir frænkuhittinginn á laugardaginn var rétti hún að mér nýjar gallabuxur og spurði hvort ég passaði í þær.  Mér sýndist það vera en til að vera viss mátaði ég buxurnar sem smellpössuðu svona líka vel að ég fór ekki úr þeim aftur fyrr en ég háttaði mig um kvöldið.  Ég fékk semsagt að eiga þessar buxur fyrst þær pössuðu mér.  Annars var gærdagurinn frekar rólegur nema veðrið og hraðferðin á "logninu".  Dreif mig á fætur upp úr níu og þar sem hvorki mamma né pabbi voru á vappi um húsið kveikti ég á pabbatölvu eftir að hafa fengið mér morgunhressingu.  Las líka næstum tvær bækur á meðan ég var fyrir austan en þrátt fyrir að hafa haft saumana með mér að venju mundaði ég ekki neinar nálar og hef ekki gert síðan ég skrapp yfir til tvíburahálfsystur minnar eitt kvöldið um daginn.  Það mætti halda að ég væri í útsaumssumarfríi. Kvaddi foreldra mína upp úr níu í gærkvöldi og var komin heim um hálfellefu.  Hitta bara annan tvíburann heima en hinn hringdi í mig stuttu seinna, á leiðinni heim, þegar ég var að búa mig undir svefninn.

10.8.14

Frænkuhittingur

Ég var komin á fætur stuttu fyrir klukkan níu í gærmorgun, án þess að hafa nokkuð stillt á mig vekjaraklukku. Kveikti á tölvunni, aðallega til að setja inn nokkrar línur en fór þó smá "netrúnt" aðallega og í uppáhaldsleikina mína.  Sótti þvottinn af snúrunni klukkutíma seinna og fór að huga að því að taka mig saman fyrir einnar nætur stopp á Hellu.  Náði sambandi við annan tvíburann þar sem það var opið inn til hans en þeir bræður voru að brölta eitthvað fram á nótt í netheimum og ætluðu ekki að koma með mér.  Það var í lagi mín vegna, þeir máttu koma með ef þeir vildu og þeir máttu líka alveg verða eftir heima eins og þeir ákváðu.  Lagði í hann rétt fyrir ellefu.  Var að bruna eftir Miklubrautinni þegar mér datt í hug að gott væri nú að fylla á tankinn.  Var ekki komin svo langt svo ég snéri við og fór að Atlantsolíustöðinni við Flugvallarveg til að taka bensín.

Kom á Hellu rétt upp úr tólf og fékk mér hádegissnarl með foreldrum mínum og fyrsta kaffibolla dagsins. Pabbi fór svo að hjálpa mömmu við að þvo og snyrta fætur hennar og einnig að þvo á henni hárið.  Um þrjú fórum við öll upp í Brekkugerði til Jónu Mæju og Reynis en "danska" fjölskyldan (Gerður frænka, Frank maðurinn hennar og börnin tvö Elías Frey og Agnes María) eru á landinu og í gær var opið hús og tækifæri til að hitta þau og fleiri úr fjölskyldunni sem einnig gátu komið til að hitta Gerði.  Báðar systur Reynis komu, fyrrum mágkona hans, tvær eldri dætur hennar og börnin þeirra, næstyngsti systursonur Reynis með konu og tveggja mánaða dóttur og ein önnur tengda dóttir (Birnu) kom með sína yngstu dóttur.  Mikið sem var gaman að hitta allt þetta fólk og tíminn leið alltof hratt.  Í bakaleiðinni á Hellu keyrði pabbi aðeins út á "sand" til að athuga með krækiberjasprettu.  Hann var ánægður með stærðina en sagði að það vantaði aðeins upp á bragðið.  Þetta er örugglega allt að koma og ef ég dríf mig aftur austur um næstu helgi kemst ég örugglega í berjamó með honum.

9.8.14

Fullur poki af bókum

Ég fór á lánsbílnum í vinnuna í gær þar sem ég átti nokkur erindi vítt og breytt um bæinn eftir vinnu. Vinnudagurinn fór í bókhaldsvinnu, símsvörun, afleysingar á vél, myndnám og pökkun.  Klukkan tvö vorum við tvær eftir en héldum vélinni gangandi til klukkan langt gengin í fjögur.  Þá vorum við búnar að framleiða helminginn af dk-endurnýjunin en aðeins tvær tegundir af hátt í 30 eftir, hvor fæll yfir 500 stk.  Strax eftir vinnu keyrði ég lánsbílinn í gegnum snertilausu þvottastöðina við benstínstöðina við Skúlagötu.  Síðan lá leiðin í bókasafnið í Kringlunni.  Skilaði sex bókum af átta og fann miklu fleiri í staðinn.  Reyndar eru nokkrar af þeim bókum handhægar og fljótlesnar "vasabækur" en alls ekki allar. Rétt fyrir fimm var ég mætt í Kristu Quest við Laugaveg.  Var boðið að fá mér smá kaffi á þar til kæmi að mér og ég þáði það.  Biðin varð nú ekkert löng, sennilega bara um fimm mínútur.  Lét klippa mig jafnstutt og síðustu tvö skifti og þynna hárið helling eins og alltaf og er mjög ánægð með árangurinn. Skildi eftir mig helling af hárum.  Það er merkilegt hversu mikið safnast á aðeins sex vikum. Strákarnir voru með spilakvöld svo ég þurfti ekki að hugsa fyrir kvöldmat.  Fékk mér bara snarl sjálfri á meðan spilafélagarnir útveguðu sér eitthvað gott í gogginn sjálfir.

8.8.14

Aftur á völlinn

Mig rámar í það að ég hafi slökkt á fyrri vekjaranum  nokkru áður en hann átti að hringja í gærmorgun. Næst vissi ég af mér tuttugu mínútum fyrir sjö og átti þá m.a. eftir að smyrja mig og þorna. Samgöngusamningurinn leyfir notkun á einkabíl allt að tvisvar í viku og þar sem ég var búin að fara á hjóli báða virku dagana á undan ákvað ég að fara í vinnuna á lánsbílnum.  Vinnudagurinn leið jafn hratt og vanalega og í nógu að snúast.  Er núna búin að skila af mér mánaðamótauppgjöri og á þá bara eftir að boða til kortaförgunar.  Dreif mig beint heim eftir vinnu og setti strax í þvottavél.  Var búin að hengja upp þvottinn fyrir klukkan sex.  Hafði ofnsteikta bleikju í matinn og notað afganginn af hýðisgrjónum frá því á miðvikudagskvöldið.  Svo var ég mætt aftur á völlinn um sjö, korter fyrir leik Vals og ÍA í Pepsídeild kvenna. Leikurinn endaði 3:1 fyrir Val en þær voru nokkur sprækar Skagastúlkurnar og frekar skrýtið að þær skuli ekki vera með nema 1 stig eftir jafntefli við FH í síðustu umferð.  Oddur kom úr Sunnubúðinni rétt á eftir mér upp úr níu í gærkvöldi, með tvö stjörnupopppoka.  Hann gaf mér annan pokann fyrir knús.  Horfði á Scott&Baily og lögregluvaktina, skrapp aðeins í tölvuna og las svo aðeins framyfir miðnætti.

7.8.14

Á völlinn

Notaði hjólið milli heimilis og vinnu í gær.  Vinnudagurinn var annasamur og leið afar hratt við ýmis verkefni. Náðum að klára alla daglega framleiðslu áður en við fórum í mat um tólf en eftir hádegi sinnti ég reikningagerð og skannaði inn kennispjöld á meðan hinar tvær töldu alla framleidda kassa og þegar sú sem var að koma úr fríi fór um tvö fór hin í að hreinsa upp pósttöskur.  Hjólaði beint heim eftir vinnu.  Kveikti á tölvunni en fór svo fljótlega að sinna matarmálum eða um fimm.  Setti upp hýðisgrjón og bakaði þrjár kjúklingabringur í ofni. Með þessu bauð ég upp á gular baunir.  Við mæðgin vorum að borða um sex og klukka sjö var ég mætt á Valsvöllinn.  Þar hófst leikur í Pepsídeild karla korter yfir sjö þar sem Valur tók á móti Fjölni.  "Mínir menn" skoruðu þrjú gegn engu í fyrr hálfleik og svo 1 gegn þremur í þeim síðari.  Þannig að lokatölur urðu 4:1. Horfí svo á Ironside á Skjá einum um tíu.

6.8.14

"Æðsti strumpur í nokkrar vikur"

Þegar ég kom fyrst fram rétt fyrir hálfsjö í gærmorgun "fann" ég Odd Smára í stofunni.  Hann sagðist hafa farið að sofa um miðnættið og vaknað upp úr klukkan fimm.  Ég dreif mig í sturtu og skreið svo upp í rúm á meðan hinn daglegi áburður var að þorna.  Upp úr klukkan hálfátta hjólaði ég af stað í vinnuna.  Ég sá um bókhald og keyrslur og það hentaði alveg ágætlega því ég var líka á kafi í mánaðarlegri reikningagerð. Yfirmaður minn er að fara í frí og hún lét mig einni sjá um að panta varahluti í framleiðsluvél og ljósritunarvélina.  Við vorum bara þrjár og í nógu að snúast enda varð klukkan allt í einu fjögur.  Þá hjólaði ég heim.  Þar voru nokkrir félagar tvíburanna mætti og til stóð að hafa spilakvöld.  Ég sá það því í hendi mér að ég þyrfti ekkert að vera að elda neitt.  Ég dreif mig samt af stað í vikulegan verslunarleiðangur þar sem ég hafði ekki verið heima um helgina.  Úti var byrjað að rigna en það hafði alveg hangið þurrt á meðan ég var að hjóla heim.

5.8.14

Síðasta "stutta" vikan í nokkra mánuði

Ég var komin á fætur upp úr hálfníu í gærmorgun.  Þar sem ég varð ekkert vör við foreldra mína á fótum kveikti ég á tölvunni hans pabba þegar ég var búin að fá mér eitthvað í gogginn.  Ég hafði heyrt í pabba stuttu áður en ég fór á fætur en hann lagði sig líklega aftur.  Mamma var þreytt eftir gær daginn og lítinn svefn nóttina áður svo hún svaf eitthvað framyfir hádegi.  Um leið og pabbi fór á stjá settist ég hjá honum inn í stofu.  Rétt seinna settist hann við tölvuna.  Eftir hádegi settumst við út á pall því það var hlýtt og gott veður úti. Um hálftvö rölti ég upp að Helluvaði og var svo heppin að hitta frænda minn og konuna hans útivið áður en ég leit svo inn til föðursystur minnar og stoppaði við um stund.  Þetta kallar maður að slá nokkrar flugur í einu höggi.  Kom "heim" aftur í miðjum kaffitíma hjá foreldrum mínum.  Ég fékk mér smá kaffi með þeim og sneið af tertunni sem mamma bakaði á sunnudaginn.  Var róleg framyfir kvöldmat en um níu tók ég mig saman, kvaddi og fór í bæinn.  Pabbi hafði sett einn bedda aftur í hjá mér og fór ég með hann til Helgu systur áður en ég fór heim.  Við Oddur Smári horfðum saman á Leverage.  Davíð Steinn skilaði sér heim frá Akureyri rétt fyrir miðnætti en þangað hafði hann "skroppið" á sunnudaginn.  Fékk far norður í gegnum samferða.is en komst svo til baka með vini sínum og hans fjölskyldu.

4.8.14

Frídagur verslunarmanna

Seinni partinn í fyrradag var tjaldað í garðinum og systurdætur mínar voru ákveðnar að sofa þar.  Það er að segja sú yngri átti hugmyndina og sú eldri var ekkert mótfallin henni.  Pabbi þeirra fór með þeim út í tjald um miðnætti og tók það fram að útidyrahurðinni yrði ekki læst yfir nóttina ef þær þyrftu að komast á klósett eða eitthvað.  Ég held að það hafi verið um fjögur í gærmorgun að dyrabjöllunni var hringt.  Þar var víst Bríet á ferð, svo vön því að dyrnar væru læstar að hún hafði ekki meðtekið upplýsingar pabba síns.  Þeirri stuttu var kalt og fékk hún að skríða upp í til foreldra sinna.  Eldri systirin svaf alveg til níu en hún kvartaði líka um kulda þegar hún kom inn í gærmorgun.

Ekkert löngu eftir hádegi í gær ákvað ég að drífa mig í heimsókn í bústaðinn Sælukot við Heiði.  Enginn hafði tíma til að koma með því enn var verið að taka til í skúrnum og sortera dót og mamma ætlaði að baka. Fjölskylda, Böggu heitnnar systir pabba, á þennan bústað og er alltaf þar um verslunarmannahelgar.  Þar að auki er systurdóttir pabba, búsett er í USA, stödd hér á landi ásamt manni sínum.  Ég hafði áhuga á því að hitta "fólkið mitt" og vissi að þar fengi ég helling af knúsum.  Þegar ég mætti þá voru flestir af elstu kynslóðinni í gólfi við Strönd en ég hitti marga af yngri kynslóðunum.  Hluti af þeim hópi fór svo í sund en ekki allir og ég var alveg róleg.  Enda kom fólkið úr gólfi á endanum.  Það hafði reyndar skroppið í kirkjugarðinn á Keldum í bakaleiðinni.  Það var afar gott og gaman að hitta frændfólkið.  Ég hef aldrei áður "droppað" svona við í bústaðinn á þessum tíma en veit þó að það hefði alveg verið tekið á móti manni.

Kvöldmatur (á Hellu) var borðaður um níu og rúmum klukkutíma síðar fóru systir mín og hennar fjölskylda í bæinn.  Hingað koma þau svo líklega ekki aftur fyrr en upp úr miðjum næsta mánuði.

3.8.14

Á Hellu

Fór að sofa upp úr klukkan eitt í fyrrinótt eftir að hafa lesið um stund.  Var ekki með neinar áætlanir um hvenær ég ætlaði mér svo að vakna eða fara á fætur.  Um níuleitið í gærmorgun fór ég í sturtu og skreið svo aftur upp í á meðan hinn hefðbundi áburður var að þorna.  Greip aftur í bók, Svik, og ætlaði bara ekki að geta lagt hana frá mér aftur.  Dreif mig þó á fætur áður en klukkan varð ellefu og kveikti á tölvunni.  Þegar Oddur Smári vaknaði nokkru seinna var alveg ljóst að hann ætlaði sér ekki að koma með mér.  Lagði samt ekki í hann fyrr en klukkan var byrjuð að ganga þrjú.  Davíð Steinn var ekki enn vaknaður.  Systir mín og fjölskylda voru komin austur þegar ég mætti um hálffjögur.  Helga og mamma voru að steikja pönnsur og þegar "fjallið" var tilbúið var ég beðin um að hella upp á.  Eftir kaffi bað Helga mig um að taka af rúmunum í stóra herberginu og hennar gamla herbergi og setja í þvottavélar.  Mamma bætti smá við þvottinn og þetta passaði akkúrat í báðar þvottavélarnar.  Það var líka verið að taka til í skúrnum hjá foreldrum mínum, skoða í gamla kassa merkta okkur systur.  Mest af mínu "dóti" dæmdi ég á haugana, eiginlega allt nema stytturnar. En þetta "allt" var helst gamalt skóladót.  Í kvöldmatnum hringdi Davíð Steinn í mig og sagðist vera búin að fá far norður í dag en hann vissi ekki hversu lengi hann yrði þar.  Ég bað hann bara um að hringja í mig þegar hann væri kominn og einnig að vera í sambandi.

2.8.14

Löng helgi :-)

Í gærmorgun fór ég á lánsbílnum í vinnuna.  Hafði samt engin sérstök erindi að reka eftir vinnu því ég var m.a. búin að ákveða að bíða með að skila bókum á safnið fram í næstu viku.  Þá er nefnilega öruggt að ég get skilað fleirum af mér.  Ég hef áður sagt frá þeirri ákvörðun minni að neita að eyða tíma í bækur sem ekki ná til mín.  Það kemur fyrir að ég kem með bækur heim af safninu sem ég næ svo ekki að festa mig við þegar ég byrja að lesa þær.  Hvað um það þótt einhverjar umsagnir segi að bókin sé snildar vel skrifuð.  Ef hún höfðar ekki til mín þá hætti ég við að lesa hana.  Önnur af bókunum sem safnið framlengdi fyrir mig um mánuð á föstudaginn í síðustu viku komst næstum því í þennan flokk.  En það var eitthvað við söguna sem þó hélt forvitni minni.  Stærsti gallinn voru alltof langir kaflar.  Ég vil helst taka pásur á kaflaskilum og ef ég er að skríða upp í rúm um hálftólf  á virkum degi og kaflinn í bókinni sem ég ætla að lesa er yfir 40 blaðsíður þá er vitað mál að klukkan verður örugglega orðin meira en miðnætti þegar ég lokið lesturinn á kaflanum.  Í gærkvöldi kláraði ég þessa bók loksins, Hörkutól stíga ekki dans eftir Norman Mailer þýdd af Árna Ibsen.  Rithöfundur nokkur segir söguna.  Konan hans fór frá honum fyrir tæpum mánuði.  Hann telur dagana og drekkur daglega frá sér ráð og rænu.  Einn morgun uppgötvar hann að hann hefur látið tattóvera sig og framsætið í bílnum hans er alblóðugt.  Á staðnum þar sem hann felur kannabisræktun sína finnur hann konuhöfuð...  Sagan leiðir mann vítt og breytt og það komu kaflar þar sem ég gafst næstum því upp en samt varð ég að fá að vita meira.  Í millitíðinni las ég líka bókina Gaddavír eftir Sigurjón Magnússon.  Þá bók hef ég örugglega lesið áður en það kom ekki að sök, hún var jafn ágæt og mig minnti og sumt hafði farið framhjá mér og öðru var ég búin að gleyma frá því ég las hana fyrir nokkrum árum.  Núna er ég byrjuð að lesa bókina Svik eftir Karin Alvtegen.  Hörkubók og mjög spennandi.  Annars langar mig rétt að minnast á í lokin að ég er búin að borga lánið, sem ég tók í nóvember sl. til að borga Davíð út úr íbúðinni í einu lagi, niður um 2,1 millijón.  Eftirstöðvar eru níuhundruðþúsund og það stefnir allt í að ég greiði þær upp á næstu 2-3 mánuðum.  Duglega ég!  :-)

1.8.14

Nýr mánuður

Þar sem ég er ein í kaffipásu nota ég tækifærið til að setja inn nokkrar línur.  Þriðja daginn í röð fór ég á hjóli í vinnuna í gærmorgun.  Nú brá svo við að ég fór alveg "nýja" leið.  Hjólaði Lönguhlíðina, þvert yfir Klambratún, Flókagötu að Gunnarsbraut, Njálsgötu, Snorrabraut, Laugaveg, Barónsstíg og Hverfisgötu. Hefði getað hjólað alla Hverfisgötuna að Ingólfsstræti en þess í stað beygði ég af leið áður en ég kom að Þjóðleikhúsinu og sikksakkaði næstu götur.  Tók ekki tímann en var örugglega bara svipað lengi eins og ef ég hefði valið leiðina sem ég fer oftast.  Vinnudagurinn leið afar hratt.  Ég sá um bókhaldið og aðeins um afleysingar á vél.  Nóg var að gera í því fyrrnefna því nú standa yfir mánaðamótauppgjör.  Fór beint heim eftir vinnu.  Helga systir leit við upp úr hálfsex til að skila námsbókum til Davíðs Steins.  Ég hafði kjúklingabringur í ofni í matinn, með soðnum hýðisgrjónum og gulum baunum.  Upp úr sjö skutlaði ég strákunum í Egilshöllina. Kom aðeins við í Hagkaup í Skeifunni og renndi einnig við hjá Atlantsolíustöðinni við Flugvallarveg og dældi á lánsbílinn þar sem það var 12 kr. afsláttur af lítranum.