31.7.03

- Síðasti dagur júlímánaðar -

"Mamma, ef það væri miðvikudagur værum við löngu vöknuð!" Þetta sagði Oddur Smári klukkan níu í morgun þegar ég var að skríða á fætur (var búin að heyra í honum nokkru fyrr. Ég fór alltof seint að sofa í gærkvöldi en þó ekki eins seint og Davíð sem var að koma heim úr vinnu e-n tímann með morgninum (smá álag en við erum líka loksins að taka okkur smá frí saman á næstunni...). Þá mun ég líklega taka mér nokkurra daga frí frá blogginu og sjá til þess að það verði tekið eitthvað smá frí frá tölvunni líka.

Davíð fór héðan rétt fyrir tíu í morgun og hálftíma seinna vorum við strákarnir komin út á Miklatún. Þar vorum við til hádegis.

Mæja, frænka gaf strákunum sinn hvorn Harry Potter spilastokkinn í gær og ég spilaði við strákana í gærkvöldi, áður en við fórum út í morgun og svo líka í hádeginu. Vinsælustu spilin eru þjófur og Ólsen-ólsen.

Við vorum heldur lengi inni og var klukkan alveg að verða þrjú þegar við drifum okkur út á Miklatún aftur. Ingvi mágur var búinn að setja sig í samband við mig og kom hjólandi með Huldu til okkar upp úr klukkan hálffjögur. "Litla" skottið byrjaði á því að reyna að hlaupa á eftir Oddi og setti hann alveg úr jafnvægi í smá stund. En það er vel hægt að tala hana til og fljótlega fann hún sér eitthvað annað til dundurs.

Strákarnir eru sammála um að ég verði að búa til nokkrar kjötbollur. Og talandi um það, þá verð ég að monta mig smá af fiskibollufjallinu í gær. Eftir kvöldmat (bauð Helgu og Huldu í fiskibollur í gær (Ingvi var vant við látinn en ég sendi Helgu með einn skammt til hans)) voru samt eftir 89 stykki sem ég skipti niður í fjóra stóra poka og einn lítinn...

30.7.03

- Mið vika -

Komum seint heim í gærkvöldi, því það var svo gaman í afmælinu. Við þurftu svo að rífa okkur upp um átta því Davíð Steinn átti pantaðan tíma vegna skómála hjá Össuri. Byrjuðum á því að skutla Davíð í vinnuna og vorum svo mætt upp á Höfða á slaginu korter yfir, enda þurftum við bara að bíða í smá stund.

Oddur Smári var ákveðinn í að hann þyrfti að fá ný innlegg og þegar Davíð Steinn var beðinn um að fara úr skóm og sokkum og bretta upp á skálmarnar gerði hann það líka. Ég er ákveðin í að kaupa ný innlegg fyrir Odd seinni partinn í ágúst og var mikið fegin þegar stúlkan sem tók á móti okkur sagði Oddi að hann gæti notað innleggin sín aðeins lengur! Ég má svo sækja skóna og innleggin hans Davíðs Steins eftir klukkan tvö á föstudaginn!

Eftir að skómálin höfðu verið afgreidd, lét ég setja bensín á bílinn og fór svo upp í bókasafnið í Gerðubergi. Strákarnir biðu út í bíl, enda ætlaði ég bara rétt að skreppa inn, skila bókum og fá svona tvær til þrjár í staðinn. Ég var líklega inni á safninu í hálftíma og kom út með tvo poka, annan fyrir strákana og hinn fyrir mig.

Á heimleiðinni kom ég við í fiskbúð og keypti hráefni í fiskibollur (er að fara að búa til fiskibollufjall á eftir eða í kvöld). Sá það á símanum að Mæja ömmu-systir hafði hringt. Hún er stödd í bænum og vildi fá að sjá framan í okkur strákana. Ég gaf strákunum að borða og svo drifum við okkur í stutta heimsókn til hennar þar sem hún var stödd hjá einni dóttur sinni. Stoppuðum í svona hálftíma en þá var líka akkúrat kominn tími til að skila Davíð bílnum svo hann kæmist á fund úti í bæ klukkan eitt!!!


Við strákarnir fengum okkur smá hressingu og drifum okkur svo út á Klambratún með tvíhjólin þeirra. Æfingarnar gengu bara mjög vel og nú er Oddur alveg að ná tökum á þessu. Hann þarf bara örlítið meira sjálfstraust til að sannfærast um að hann geti vel hjólað af stað aleinn og óstuddur...

29.7.03

- Afmælisbarn dagsins er... -

...Teddi, Theódór Agnar Tómasson. Hann er þriggja ára í dag og ætlum við að kíkja til þeirra feðga í kvöld.

Hjóla-æfingar
Við mæðginin vorum komin út nokkru fyrir hádegi í gær. Davíð Steinn hjólar alveg eins og herforingi út um allt en Oddur þarf aðeins að æfa sig betur og hafa meiri trú á sjálfum sér. Hann var kominn af stað strax á sunnudagskvöldið með pabba sínum og gekk þokkalega. Úthaldið hjá honum í gær var bara rétt tæpur hálftími. En það er stórsnjallt að nota Klambratúnið í svona æfingar!

Frænkuheimsókn
Upp úr hádeginu hringdi ég í Önnu Maríu frænku. Ég vissi að hún átti frívakt frá Súffistanum og þar sem hún var enn í bænum bauð ég henni í heimsókn til mín! Ég hélt reyndar að hún væri enn að leigja í nágrenninu en hún lét sig ekki muna um að skreppa til mín úr öðru bæjarfélagi. Rétt fyrir þrjú labbaði hún svo með okkur strákunum út að Hlíðarenda og horfði á fyrri helminginn af fótboltaæfingunni áður en hún dreif sig svo austur á Hellu.

Valur - FH 2:3
Sorgleg úrslit! Við fórum öll á leikinn og þótt Valsaranir hafi átt mjög góða spretti og góðan leik á miðjunni þá voru FH-ingar einfaldlega ákveðnari í að sigra. Svo mörg voru þau orð...

28.7.03

- Tívolíferð -

Eftir hádegi í gær drifum við okkur öll í tívolí! Strákarnir byrjuðu á að fara í rússíbanann. Svipurinn sem kom á Odd Smára, þegar þeir voru að fara niður fyrsta hringinn, var óborganlegur. Eftir fjóra eða fimm hringi var salíbunan búinn. Davíð Steinn kom niður alveg skælbrosandi: "Þetta var æði!" Oddur Smári var mjög hreinskilinn: "Pabbi, ég öskraði alveg af hræðslu!" Næst prufuðu þeir lestina og fundu sér báðir mótorhjól til að sitja á. Eftir rússíbanann var þetta alveg leikandi létt og þeir slepptu báðum höndum á stundum (mér leist reyndar ekkert á það...).

Feðgarnir fóru saman eina ferð í bollana og var Davíð hálf heyrnarlaus eftir þá ferð því hann sat á milli strákana og þeir voru nær stanslaust á öskrinu. Öll prufuðum við stóru "rólu-hringekjuna" og ég get svarið það að þegar hún var að komast á fulla ferð var ég viss um að hausinn á mér myndi svífa út í loftið eins og blaðra. Við Davíð Steinn sátum saman og skemmtum okkur hið besta. Oddur Smári hélt hann væri að detta en það lagaðist þegar Davíð tók utan um hann. Rétt seinna var drengurinn samt viss um að hann væri að fara að gubba...

Áður en við höfðum lagt af stað hafði matseðill kvöldsins verið ákveðinn. Strákarnir fengu að ráða og voru þeir sammála um að þeim langaði í lambalæri. Eftir tívolíferðina versluðum við því smávegis og vorum við komin heim alveg um fjögur.

Eftir miklar vangaveltur um afmælisgjafir handa strákunum fékk (frekjan) ég að ráða því að keypt voru notuð hjól. Aðal vandamálið var reyndar það að annað hjólið er næstum ekkert notað en hitt mjög mikið notað, strákarnir virðast samt alveg skilja það svo ég ætla ekki að hafa áhyggjur af þessu. Davíð dreif sig strax eftir fjögur í Garðabæinn að ná í helminginn af afmælisgjöfinni þ.e. hjólið sem Oddur Smári átti að fá. Hjólið sem Davíð Steinn fékk var svo sótt vestur í bæ stuttu fyrir kvöldmat.

26.7.03

bird
you are a bird, you love the outdoors! you wish
over and over again that you could fly with the
other birds, and if anyone ever accuses you of
being a birdbrain, remind them that birds are
alittle smarter than humans, some scientist guy
told me that...


animal quiz. what animal are you? bunny, ferret, rat, dog, fish, killer hamster, or bird???
brought to you by Quizilla
- Annar í afmæli -

Í dag var fjölskyldunni boðið í afmælisveislu. Ég var í miklu bakstursstuði í gærkvöldi. Bjó til kextertu og bakaði hringlaga súkkulaðiköku, aðra svona tertu eins og ég var með í afmælinu á miðvikudaginn, perutertu og gulrótartertu (úr uppskriftarbók Gauja litla og Sólveigar hjá Grænum kosti). Við Davíð höfðum útbúið brauðtertu kvöldinu fyrr (semsagt á fimmtudagskvöldið).

Fór framúr á níunda tímanum í morgun og Oddur Smári kom fram rétt seinna: "Loksins náði ég í skottið á þér, mamma!" Við fengum okkur morgunmat áður en við klæddum okkur og hann kom svo með mér niður í þvottahús. Davíð Steinn kom fram rétt fyrir hálftíu rétt eftir að Oddur hafði kveikt á sjónvarpinu. Ég færði þeim fyrrnefnda samloku glas af eplasafa og snéri mér svo að smá tiltekt.

Húsbóndinn fékk að sofa til klukkan að verða ellefu en þá náðu synirnir að draga hann fram úr. Eftir hádegi skruppu tvíburarnir út. Skipti afmælis-tertunni á tvo diska og útbjó hvíta kremið á helmingana. Þegar strákarnir komu inn aftur um tvö leyfði ég þeim að skreyta sinn hvorn helminginn og setti sjö kerti á hvora tertu. Davíð fór að tína fram á borðstofuborð um þetta leyti og ég hellti upp á. Pabbi og mamma komu fyrst gesta, færandi hendi; mamma hafði nefnilega steikt kleinur (að minni ósk) og gott betur en það því hún kom með marenstertu og aðra gerð af gulrótartertu. Þá þegar svignaði borðið undan kræsingunum en ég var samt að útbúa pizzur á pítubrauðshelminga hugmynd sem ég fékk hjá henni þegar ég heimsótti hana um daginn).

Gestirnir fóru nú að tínast hver að öðrum en þetta árið voru þeir samt mun færri en oft áður. Það er spurning hvort ég verði bara ekki að halda þriðja í afmæli líka...!!!

25.7.03

- Föstudagur -

Vikan er alveg að klárast og rétt bráðum koma enn ein mánaðamótin. Þetta ár verður örugglega liðið áður en maður veit af (og sennilega gott betur...)!

Vina-afmæli tvíburanna gekk bara ágætlega held ég. Það komu tvær bekkjarsystur (af fimm sem var boðið), tveir bekkjarbræður, tveir strákar úr fótboltanum, tvíburasystkyni sem við erum búin að þekkja í fimm ár, "litla" títlan sem býr uppi og systkynin sem mamma tekur á móti úr skóla... Ég kom heim rétt rúmlega fjögur og þá var allt að komast í fullan gang og næstum allir boðsgestir voru komnir. Davíð var búinn að dúka borð, bera fram nammiskálar og bjóða upp á poppið. Ég dreif mig í að skipta um buxur og þegar allir voru komnir sópuðum við yfir stofugólfið (það var orðið svolítið poppað) og báðum alla krakkana sestjast í hring. Svo var settur af stað pakkaleikur undir Latabæjar-tónlist. Farið var í tvo svoleiðis og svo eina lakkrís-reima-keppni. Þátttakendur fengu hálfa lakkrísreim, bitu í annan endann og máttu ekki nota hendur til að ná lengjunni upp í munninn. Einn strákurinn var alveg ótrúlega fljótur að ná allri reiminni upp í munninn, það var bara eins og hann væri að sjúga upp spaghettílengju... Eftir leikina skellti ég pylsum í pott og tók fram afmælistertuna og setti sjö kerti á hana á meðan pylsurnar hitnuðu. Eftir að krakkarnir voru búnir að fá sér að borða var farið að huga að því að leika meira. Við höfðum auðvitað verið að vonast eftir þurrara veðri og vorum með fullt af útileikjum á takteinum.

Einn strákurinn reyndi mikið til að sannfæra mig um að hægt væri að fara í feluleik (hmm, 14 börn í 74 fermetra íbúð...) en hann fékk svo þá snilldarhugmynd að fara að fela hlut. Um sexleytið var fyrsti gesturinn sóttur og rétt seinna fór annar helmingurinn af tvíburasystkynunum. Úps! Það var nefnilega ekki enn farið að borða afmælistertuna. En við drifum í að kveikja á kertunum áður en fleiri færu og afmælissöngurinn var sunginn svo hátt að ég held að það hafi heyrst yfir í næstu götur!!! Eftir tertuátið var ekkert sem hélt krökkunum lengur inni og þau fóru öll út á blett að prufa eina afmælisgjöfina, fótbolta. Úti var mígandi rigning en samt mjög hlýtt! Mamma systkynanna kom um sjö og fékk sér kaffibolla og tertusneið. Strákarnir hennar voru svo blautir að það var eiginlega hægt að vinda þá. Um þetta leyti litu líka Helga, Ingvi og Hulda inn.

Það eina sem ég var svolítið óhress með var að strákarnir rifu upp alla pakka um leið og gestirnir færðu þeim þá. Flestir komu um svipað leyti svo það fór mikið til í rugling hvað var frá hverjum, a.m.k. mundu þeir ekki alveg hvað þeir fengu frá öllum. En þeir fengu flottar gjafir!!!

23.7.03

- Tvíbura-afmæli -

Já, stóri dagurinn, sem Oddur Smári og Davíð Steinn eru búnir að bíða eftir síðan í vor, er loksins runninn upp. Og á slaginu 14:20 og 14:25 í dag verða 7 ár síðan þeir komu í heiminn! Og það eru margir sem muna eftir þeim. T.d. kom pakki, (reyndar merktur mér) með póstinum í gærkvöldi, til þeirra frá Fossheiðinni á Selfossi. TAKK FYRIR ÞAÐ! Bræðurnir hjálpuðu mér að baka afmælistertuna í gærkvöldi. Þeir skiptust á að lesa fyrir mig uppskriftina og fylgjast með því að allar mælingar væru réttar. Þegar ég stakk svo tertunni inn í ofninn var klukkan orðin svo margt að ég sá að best yrði að koma drengjunum í háttinn. Það tók nú smá tíma fyrir þá að sofna, mikill spenningur í gangi...


Davíð poppaði svo í hálffullan svartan ruslapoka (kláraði maís úr tveimur frekar stórum pokum og hálffullri plastkrukku. Ég bjó til hvíta kremið á tertuna rétt fyrir miðnætti. Vinirnir birtast í kringum fjögur í dag. Ég skrapp í Tiger í hádeginu og keypti nokkra smáhluti til að hafa sem verðlaun í nokkrum leikjum. Segi kannski frá þessu öllu saman betur á morgun...

22.7.03

- Alltaf tveim dögum á eftir þessa dagana... -

Á sunnudagsmorguninn vaknaði ég frekar snemma, svolítið óskýr í kollinum. (Hmmm!!! Eftir hvað skyldi það nú vera...???). Eftir árangurslausar tilraunir til að sofa lengur dreif ég mig á fætur (klukkan var ekki orðin tíu). Fékk mér eitthvað í svanginn, setti í þvottavél og fylgdist svo með Opna breska um stund.

Formúlan á Silverstone var frekar skrautleg en um leið gífurlega spennandi. Barrichello var á ráspól en átti í vandræðum í startinu og missti tvo fram úr sér (hann vann nú samt á endanum eftir tvísýna og skemmtilega keppni). Tvisvar þurfti að kalla út öryggisbíl og í síðara skiptið var það vegna þess að írskur maður á sextugsaldri hljóp inn á brautina til að mótmæla því að hafa verið sagt upp frá störfum eftir tuttugu ára starf hjá Benetton-verksmiðjunum. Og þá voru hinir síðustu í keppninni allt í einu orðnir fyrstir og allt fram á loka hringina var alvöru kappakstur alls staðar í brautinni. Og með þessu fylgdumst við Davíð stundum að farast úr spenningi. Að vísu gaf ég mér tíma til að hengja úr vélinni og setja í aðra...

formúlu lokinni hengdi ég upp úr seinni þvottavélinni. Síðan drifum við hjónin í að versla smávegis inn áður en við brunuðum austur á Hellu að sækja strákana. Strákarnir hefðu helst viljað fá að vera aðeins lengur í sveitinni því þeir voru jú bara búnir að vera eina nótt og höfðu ekki náð að hitta Ragnar Pál, besta vin sinn á Hellu. En það koma aðrir dagar og aðrar nætur. Ég fékk því samt framgengt að við stoppuðum svolítið fram á kvöldið, einmitt þegar Davíð vildi helst drífa sig í bæinn og laga tölvuna sína. Ég er frekari!

21.7.03

- Kirkjuathöfnin og veislan -

Veðrið var alveg einstakt á laugardaginn en það var búin að vera bongóblíða seinni part vikunnar. Samt held ég að það hafi verið slegin hitamet víðast hvar á Suðurlandinu einmitt á laugardaginn. Svala og Júlli hefðu ekki getað verið heppnari með veður. En hvað um það, athöfnin fór fram í Grafarvogskirkju þegar klukkan var byrjuð að ganga fimm. Litla prinsessan, hún Katrín Lilja setti smá strik í reikninginn en hún var þægust þegar hún fékk að sitja hjá pabba sínum eða valsa frjáls um. Kirkjuskipið er svo stórt að hundrað manns virtust sem örfáar hræður. En hljómburðurinn var góður og var sérstaklega gaman að hlusta á óperusöngvarann enda kvatti séra Vigfús kirkjugesti til að klappa fyrir honum eftir lokalagið. Fljótlega eftir athöfnina drifu hin nýbökuðu hjón sig í myndatöku en leið okkar hinna lá í Garðabæinn. Þar tók Bjarni töframaður á móti okkur og gestum bauðst sprite eða freyðivín. Veislusalurinn var stórglæsilegur. Búið var að raða niður við borð hvar hverjir áttu að sitja og sátum við Sonja, makar, Bidda og fernt annað við borð átta. Háborðið var merkt sem númer 1 og raðað var við átta önnur borð en þá var eitt borð númer níu og þar sat örugglega Huldufólkið, eða þannig.

Þegar allir voru komnir, búnir að skála og sestir niður tók veislustjórinn, Bjarni það fram að þegar slegið væri í glösin (allir í einu) ættu brúðhjónin að kyssast. En ef menn vildu fá orðið yrðu menn að gala sér til hljóðs. Faðir brúðarinnar lét samt veislustjórann um að gala en var svo með skemmtilega og stutta tölu um nokkur atvik í lífi Svölu. Að ræðunni lokinni bað hann um að tjöldin yrðu dregin frá sviðinu, flygillinn opnaður og kallaði svo sjálfan sig, Rúnar son sinn og systurson Björgvins Valdimarssonar, tónskálds og kórstjóra á svið. Feðgarnir sungu saman, listavel, fjögur lög við undirleik piltsins. Eitt lagið "Undir dalanna sól" var tileinkað Elínbjörgu heitinni (móður Svölu) sem dó fyrir nokkrum árum.

Strax eftir þetta var matur borinn fram og veislustjórinn sprellaði á sviðinu á meðan gestir fengu sér á diskana. Við á borði átta vorum nýbúin að setjast niður með matinn okkar þegar Bjarni sagðist verða að fara (var bókaður annað) og hann spurði hvort einhver eða einhverjir vildu ekki nota tækifærið og hefja upp raust sína. Ég leit á Sonju, hún kinkaði kolli og þá stóð ég upp, lyfti upp hægri fæti og galaði eins og fyrir hafði verið lagt. Síðan trítluðum við vinkonur saman upp á svið. Sonja las fyrri helming ræðunnar og rétt áður en ég tók við var einhver sem bað um að talað yrði hærra. Ég hlýddi þessu svo bókstaflega að ég er viss um að það heyrðist í mér alveg fram á gang og jafnvel út...

Eftir ræðuna færðum við brúðhjónunum hana útbrentaða með flottu letri á fínan bréfsefnispappír í plastgatamöppu. Síðan drifum við okkur aftur að sætunum okkar þar sem maturinn okkar var nær ósnertur enn á diskunum. Fljótlega tók mágur brúðarinnar að sér veislustjórnun. Hann notaði tækifærið og sagði nokkuð orð en bað svo veislugesti um að rísa á fætur og kynna sig og segja frá hvernig þeir tengdust brúðhjónunum.

Ég skemmti mér semsagt mjög vel í þessari veislu og var eiginlega að verða of kát í restina en við kvöddum um tíuleytið.
- Svo margt að gerast -

Nú þarf ég heldur betur að vinna upp nokkra daga og það getur alveg eins farið svo að ég fari ekkert svo nákvæmlega í hlutina og þó....

Um hálfsex á föstudaginn var sótti hún mig og fórum við nær beinustu leið í safnaðarsal Vídalínskirkju í Garðabæ. Þegar við mættum var verið að skipuleggja hvernig ætti að raða borðum og háborði fyrir brúðkaupsveislu. Fljótlega eftir að við komum var byrjað að raða saman borðum og var sett upp háborð innst í salinn undir sviðinu og svo 8 12 manna borð sem skiptust jafnt í geisla hægra og vinstra meginn við háborðið. Endilangt fyrir miðju var sett upp veisluborð þar sem maturinn yrði borinn fram. Einnig var sett upp borð þar sem kaffið og brúðartertan yrðu höfð. Það var skemmtilegt en heilmikið puð að færa til borð og stóla og varð hálsinn á mér mjög þurr á tímabili. En það var nú frekar auðvelt að finna sér glas og fá sér vatn úr krananum inni í eldhúsi. Tæpum tveimur tímum seinna var komið fleira fólk í fleiri verkefni. Þá var búið að dúka öll borð og leggja á þau hnífapör og vínglös og byrjað var að skreyta, huga að því að brjóta servíettur og fleira. Ég ákvað þá að við Sonja værum búnar að gera nóg því við áttum eftir að undirbúa smávegis...

Okkur var alveg hleypt í burtu og vorum við komnar heim til Sonju (eftir örstutt stopp á tveimur stöðum) um hálfníu. Til stóð að leggja síðustu hönd á ræðuna sem við ætluðum að flytja báðar fyrir vinkonu okkar og tilvonandi brúði (Hér verð ég að taka það fram að Sonja á a.m.k. 80% heiðurinn af þessari ræðu, ég kom bara með nokkra punkta og las yfir textann). Einnig áttum við eftir að pakka inn og ganga frá brúðkaupsgjöfinni. En allra fyrst þá bauð Sonja mér að borða með sér og skellti hún rauðvínslegnu kjöti á grillið (var það örugglega ekki svínakjöt???). Davíð og strákarnir komu og sóttu mig um hálfellefu og þurftu þá að bíða eftir mér í hálftíma. Davíð fékk kaffi og strákarnir mjólkurglas og þar að auki að horfa á videó á meðan þeir biðu eftir mér...

Ég dreif mig snemma á fætur á laugardagsmorguninn. Gaf mér góðan tíma í sturtunni og skellti mér svo í stuttbuxur og hlírabol. Oddur Smári fór í Valsbúninginn sinn og Davíð Steinn var voða glaður þegar hann uppgötvaði að ég var búin að þvo Arsenal-búninginn hans. Ég tók saman náttföt og aukaföt á þá og um hálfellefu brunuðum við fjölskyldan austur á Hellu. Hulda frænka tók mjög vel á móti okkur en það er alltaf Oddur Smári sem fær mesta knúsið. Ég fékk þó mitt frænku knús þegar ég bað um það. Pabbi var með nýtt kaffi á könnunni og mamma bauð upp á kaldan kjúkling. Annars máttum við Davíð ekki vera að því að stoppa lengi og vorum við komin heim aftur fyrir hálfþrjú. Bidda hringdi klukkutíma síðar og kom röltandi yfir um hálffjögur til að verða samferða okkur.

18.7.03

- Föstudagur enn á ný -

Mamma hennar á afmæli í dag og eru tvær flottar fimmur í aldri afmælisbarnsins. Til hamingju með þetta báðar tvær!

Þegar ég kom heim til mín seinni partinn á miðvikudaginn var eldri maðurinn uppi að hreinsa planið fyrir framan bílskúrinn sinn. Bílskúrinn okkar á neðri hæðinni er við hliðina á þeirra bílskúr (og þar af leiðandi bílskúrsplanið) og ég sá að það var orðinn heldur mikill munur á. Ég dreif mig því út áður en hann var alveg búinn og bað hann um að kenna mér handtökin við hreinsunina. Hann gerði nú meira en það. Hann lánaði mér verkfærin sín og kollinn til að sitja á við verkið. Ég var svo búin að sitja við þetta í hálftíma þegar að feðgarnir komu heim. Oddur Smári kom og heilsaði upp á mig, gaf mér knús og var svo farinn inn. Davíð Steinn kom svo stuttu seinna: "Hvað ertu að gera mamma? Má ég hjálpa þér?" Ég leyfði honum bæði að rista upp úr skorunum og sópa. Eftir sirka tuttugu mínútna puð: "Mamma, má ég hætta að hjálpa þér?" Það var auðsótt mál en ég bað hann um að fara fyrir mig inn og segja mér svo hvað klukkan væri orðin: "Hvað gerist ef klukkan er orðin níu?" Klukkan var nú bara nýlega orðin sex og ég tók pásu frá planinu fljótlega.

Þegar ég kom inn lögðum við Davíð saman "kunnáttu" okkar og bjuggum til fiskisúpu. Við notuðum bara það sem við áttum til; ýsu, rækjur, sveppi, lauk, hvítlauk, papriku, gulrætur og gular baunir og krydduðum þetta með karrý og cayanne-pipar. Strákarnir voru að vísu ekkert svo hrifnir af súpunni en mér fannst hún hafa heppnast ljómandi vel.

Eftir að hafa gengið frá í eldhúsinu setti ég feðgana í það verkefni að semja afmælisboðskort og dreif mig svo sjálf aftur út á bílskúrsplan. Maðurinn á efri hæðinni laumaði að mér skóflu rétt seinna. Ég var úti til klukkan tíu en náði samt ekki að klára alveg svo þið getið rétt ímyndað ykkur hvað búið hefur verið að safnast upp undanfarin fjögur fimm ár!!! Skellti mér í heitt bað þegar ég kom inn og lá í bleyti í nokkrar mínútur.

Í gær fékk ég sms frá vinkonu minni sem býr í London. Hún var í bænum og spurði hvort í vildi fá heimsókn um fjögurleytið. Vertu velkomin! Ég hringdi svo í hana þegar ég var komin langleiðina heim. Hún og maðurinn hennar voru þá stödd í Austurstrætinu. Þau voru búin að vera að skoða söfn og fleira allan seinni partinn og svo fékk hann áhuga á skipunum í höfninni þannig að þau komu ekki til mín fyrr en um hálfsex, rétt á eftir feðgunum. Ég bauð þeim upp á afgang af fiskisúpunni og smakk á fiskibollum, bygggrjónum og grænmeti með. Fiskisúpan var enn betri heldur en daginn áður. Mér fannst þau svo rétt nýkomin er þau kvöddu um hálfátta þá á leiðinni í aðra heimsókn. Já, tíminn er oft naumur hjá fólki sem kemur bara fyrir nokkra daga. En ég fékk þó að sjá aðeins framan í hana...

En ég hitti manninn á efri hæðinni þegar ég kom heim. Þá var hann búinn að klára að hreinsa planið mín megin og var byrjaður að bera eitur í. Ég þakkaði honum kærlega fyrir og spurði hvað ég mætti borga fyrir þetta. Ég mátti borga í eiturbrúsanum þegar ég myndi eftir því en ekkert fyrir fyrirhöfnina því hann hefði hvort sem er ekkert annað að gera. Góður nágranni það.

16.7.03

Valur - Grindavík 1:2

Að þessu sinni tók ég tvíburana með mér á leikinn. Davíð var með svo mörg járn í eldinum að hann komst ekki með okkur. Samt langaði hann að mæta og syngja "Áfram Valur, Valur fílí bomm fíli bomm..." Við mæðginin löbbuðum á leikinn og var ég með tvær samlokur og tvo eplasdjúsa í poka. Þrisvar sinnum fleira fólk mætti á þennan leik og kláruðust rúllurnar úr posavélunum við völlinn um það leyti sem verið var að flauta leikinn á. Þetta stöðvaði mig í nokkrar mínútur eða þar til ég uppgötvaði að hægt var að kaupa miða í sjoppunni. Strákarnir voru löngu farnir inn á svæðið og ég sá Davíð Stein eiginlega ekki aftur fyrr en eftir leikinn. Jú, ég sá honum bregða fyrir við annað markið í hléinu en hann semsagt borðaði ekki samlokuna sína fyrr en á heimleiðinni.

15.7.03

- Og að lokum -

Til hamingju með afmælið mamma! Ég tók mig til í morgun, hringdi í hana og söng afmælissönginn. Hún er með Huldu þessa dagana og var alveg búin að gleyma hvaða dagur var í dag. Örugglega óþolandi að eiga svona dóttur sem er svona minnug á fæðingardaga fjöldkyldunnar!
- Allt er þegar þrennt er -

Mér hefur legið svo mikið á hjarta í dag að ég hef tvisvar farið fram úr mér og tapað skrifum dagsins. En ég gefst ekki upp! Svaf næstum því yfir mig í morgun. Oddur Smári bjargaði mér alveg því hann trítlaði fram klukkan korter yfir sjö í morgun klukkutíma seinna en ég er vön að vakna. Davíð Steinn kom svo fram rétt fyrir hálf: "Náði ég í skottið á þér mamma?" Þeim finnst að þeir séu að sofa yfir sig ef þeir ná ekki að hitta mig áður en ég fer.

Seinni partinn í gær kom ég við í BÓNUS og verslaði smá nauðsynjar sem ég gat skipt í tvo poka (var ekki alveg að athuga það að svartholið mitt hangir bara á annarri öxlinni) Davíð ætlaði að sækja strákana fyrir fimm en þegar klukkan var að verða sex hélt ég að nú hefði hann alveg gleymt sér eða jafnvel að eitthvað hefði komið fyrir. Nei, nei þeir feðgar voru þá bara í bolta-pumpu-leiðangri.

Þegar feðgarnir komu heim var ég að undirbúa kvöldmatinn. Mestur tíminn fór í að hamflétta, úrbeina og bita niður kjúklingaleggi og bringur. Á meðan kjúklingurinn mallaði á pönnunni tók ég fram stærstu skálina mína (hnoðskál frá Tuppervare). Setti í hana einn poka af garðsallati (virkaði ekki mikið í skálinni). Út í þetta bætti ég gúrku, ferskum sveppum, papriku, fetaosti, nokkrum kjúklingabaunum og hnefafylli af graskersfræjum. Að lokum setti ég kjúklinginn út í og hrærði þetta allt vel saman. Feðgunum fannst þetta best með frönsku sinnepi og pítusósu. Mér fannst allt í lagi að sleppa sósunni.

Í gærkvöldi stóð ég svo við heit mitt að skreppa á leik í Landsbankadeild kvenna. Skildi feðgana eftir heima rétt fyrir átta, labbaði út á Hlíðarenda og fylgdist með leik Vals og KR. Leikar fóru 2:2 og ég segi bara að þótt KR-stúlkur hefðu verið með 0:2 forskot í leikhléi þá voru þær heppnar að sleppa með jafntefli. Valsstúlkur voru í sókn meira og minna allan leikinn og skoruðu eitt mark sem dómarar sáu ekki. Boltinn fór í aðra stöngina og markvörður KR-inga greip hann fyrir innan marklínu. Á stundum hefði hreinlega mátt halda að a.m.k. annar meðdómarinn væri KR-ingur.

En í kvöld tekur Valur á móti Grindavík í Landsbankadeild karla og verður það örugglega hörkuleikur! Þeir virðast samt ekki ætla að fá jafn gott veður og stelpurnar í gær.

13.7.03

- Morgunhani? -

Seinni partinn í gær dró úr framkvæmda- gleðinni. Bjúgur seig á fæturnar og hægri ökklinn varð þrefaldur. Ég ákvað því að setjast inn í eldhús með fótinn upp á stól, hlusta á KR-Þróttur (2:1) og telja út. Í seinni hálfleik hætti ég að hlusta og settist fyrir framan sjónvarpið með fæturnar uppi á sófaborði og horfði á Enn og aftur. Eftir þáttinn settist ég hér við skjáinn (spjallaði m.a. við Örvar frænda og lék mér í sprengjuleik við "föðursystur".mína) og var hér meira og minna þar til sænska sakamálamyndin byrjaði. Ég held að ég hafi svo verið steinsofnuð áður en klukkan náði að verða miðnætti.

Í morgun rumskaði ég svo fyrst á áttunda tímanum en náði að kúra mig niður aftur a.m.k. í klukkutíma. Var komin á fætur fyrir hálftíu og náði þá í þvottinn niður síðan í gær um leið og ég setti í eina vél. Eftir að hafa fengið mér eitthvað í morgunmat sendi ég Davíð SMS og spurði hvernig gengi? Hann hringdi í mig til baka og sagði síðasti leikurinn hefði gengið vel hjá þeim í spænsku deildinni, liði D. Strákarnir í Val skoruðu fjögur mörk en skiptu þeim jafnt í sitt mark og markið hjá ÍBV.

Strax upp úr hádeginu dreif ég mig loksins út í blaða- og fernugámana og ákvað að fá mér smá göngu. Til að byrja með var ég stefnu-laus en áður en ég vissi af var ég kominn á Laugaveginn og kominn með þá flugu í höfuðið að athuga hvort ein frænka mín og ("hálf")-nafna (Anna María) væri að vinna í dag. Jú, jú, ég var alveg stálheppin og keypti ég af henni einn kaffibolla og stoppaði í tíu mínútur. Þetta var um tvö. Hringdi í Davíð og frétti að þeir feðgar væru ekki byrjaðir að taka sig saman svo ég gat alveg verið róleg enn. Úti var byrjað að hellirigna, beint niður en ég lét það ekki á mig fá og labbaði upp á Grettisgötu. Helga systir, Ingvi og Hulda voru ekki heima heldur á leiðinni austur og Jónas ömmubróðir var hálfslappur svo ég endaði bara aftur heima, rennblaut!

Þessa stundina eru feðgarnir að keyra Hvalfjörðinn. Þeir koma líklega ekki fyrr en um sex...

12.7.03

- Ég steig á bremsuna. -

Eftir miklar vangaveltur og hugarvíl ákvað ég að vera bara heima um helgina. Kostirnir við það voru heldur fleiri heldur en að drífa sig upp á Akranes. Ég er alveg útkeyrð þessa dagana, eftir hvað veit ég ekki en það er ekki þar með sagt að ég hafi dregið sængina alveg upp yfir höfuð.

Seinni partinn í gær dreif ég í því að ryksuga yfir öll gólf og reyna að finna ýmsum hlutum sinn samastað sem hafa endað á kommóðunni, borðstofuborðinu og á fleiri stöðum allt, alltof lengi... Horfði á Heillanornirnar, endursýnda þætti en á mig seig ógurleg þreyta svo ég var að spá í að fara bara að sofa. Var samt ekki alveg tilbúin til þess og kveikti þess í stað á tölvunni (það er enginn vandi að komast að núna þar sem ég er ein, he, he...) Strákarnir eru . þarna á þessu Búnaðarbanka-lottómóti og grandskoðaði ég auðvitað heimasíðuna. Pabbi var líka á línunni og spjölluðum við góða stund saman. Ég gafst svo upp fyrir Óla Lokbrá og dreif mig í rúmið um hálfellefu.

Í morgun vaknaði ég fyrir átta. Reyndi að kúra til níu en gafst upp. Dreif mig þá bara á fætur, tók af rúminu, setti í þvottavél og fékk mér morgunmat. Um hálftíu tók ég fram skúringar- og afþurrkunardótið. Nú skyldi sko skúrað út í öll horn og þurrkað af á helstu stöðunum. Þetta hefur bara gengið þokkalega vel hjá mér en það er bara eins og sumir hlutir eigi engan stað hjá mér, hmm!

Vinkona mín í Englandi hringdi stuttu fyrri hádegi. Þau eru að koma á morgun. Ömmustelpan hennar ku vera orðin fimm kíló og dafnar vel. Á hæðinni fyrir ofan mig er 4 daga herramaður að koma heim og er verið að halda skírnarveislu!

En nú eru eldhús- og baðgólfin örugglega orðin þurr...

10.7.03

- ...hratt líður stund! -

Það er kominn fimmtudagur og ég hef varla nógu marga tíma í sólarhringnum þessa dagana. Það hlýtur nú að líða hjá, sérstaklega ef ég reyni nú aðeins að taka í handbremsuna.

Á þriðjudaginn var kom ég við í Fiskbúð Hafliða á heimleiðinni og fékk mér bleikju til að hafa í matinn. Feðgarnir komu heim rétt á eftir mér og þá datt mér í hug að það gæti verið skynsamlegt að drífa spariföt drengjanna í hreinsun (treysti mér ekki alveg til að þvo þau sjálf). Á heimleiðinni úr hreinsuninni labbaði ég inn í Fiskbúð Einars og keypti af honum kíló af nýsteiktum fiskibollum. Það varð úr að ég hafði þær í matinn það kvöldið.

Í gær voru teknir nefkyrtlarnir úr Huldu frænku og sett rör í bæði eyrun. Hún mátti fá góðan morgunverð og drekka eplasvala fram að hádegi. Eftir það mátti hún ekkert fá en aðgerðin var gerð einhvern tíman um miðjan dag. Ég kom við í Lyfju á leiðinni heim og keypti stíla, ef Hulda þyrfti á því að halda! Alltaf gott að eiga eitthvað svoleiðis.

Í gærkvöldi bauð ég Biddu til mín í bleikjuna og var áður búin að fá hana til að sitja hjá strákunum á meðan við Davíð færum í bíó. Við hjónin fórum að sjá Basic (forsýningu) með Samúel L. Jacksson og John Travolta. Myndin er ein flækja og endar einhvernveginn þannig að maður er viss um að það á eftir að koma framhald. Þetta er ágætis mynd en það þarf samt ekki endilega að horfa á hana á stóru tjaldi.

8.7.03

- Og dagarnir þjóta... -

7. flokkur KR kom í heimsókn að Hlíðarenda í gær og voru spilaðir nokkrir æfingaleikir við þá. Góður undirbúningur fyrir komandi helgi. Tvíburarnir gátu nú notað legghlífarnar, nýju skóna, Valssokkana og hvítu stuttbuxurnar, peysurnar fá þeir alltaf hjá þjálfaranum. Oddur átti tíma hjá háls-, nef- og eyrnalækni um hálffimm (hann er með bólgur á raddböndunum, annars allt í lagi með hann(vildi samt vera viss) en við vorum komin til baka aftur nógu snemma til að hann gæti leikið með í lokaleikjunum. Um sex var svo loka fundur foreldra vegna Lottómótsins. Davíð var einn af þeim sem bauð sig fram sem fararstjóra og nú erum við að hamast við að leita að dýnum og svefnpokum. Strákarnir, farastjórar og þjálfarar gista inni í einhverri skólastofu en ég veit ekki með mig hvort ég sendi þá með tjald og tjaldi því er ég kem á svæðið eða keyri bara á milli. Stór spurning og fer líklega eftir veðri.

7.7.03

- Helgin gerð upp -

Tók laugardaginn óvenju snemma og var búin að fara í sturtu, klædd og komin á ról vel fyrir klukkan átta. Oddur Smári vaknaði um sama leiti og fljótlega vakti ég Davíð Stein. Ég átti pantaða klippingu fyrir mig í Kristu klukkan tíu og ætlaði að drífa strákana til Torfa klukkan níu. Þvílíkt tillitsleysi af mér að halda það að maðurinn geti verið í vinnu sex daga vikunnar. En ég dó nú ekki ráðalaus heldur tók strákana með mér í Kringluna og var svo heppin að þeir komust að þar! Tveir kiwi-kollar takk! "Er hægt að fá eplaklippingu?" spurði Davíð Steinn mig kvöldið áður...

Við mæðgin komum heim fyrir ellefu. Og þá fékk ég þá hugmynd að gott væri að flýta fyrir sér og skila bókabunkanum fyrir hádegi. Ó, bókasafnið opnar klukkan 13:00 á laugardögum, he, he. Það var samt fyrsta verk eftir hádegi að skila 12 af 16 bókum, framlengja fyrir hinar fjórar og gefa slatta af sænskum og íslenskum bókakiljum sem hafa safnast upp hjá mér.

Síðan lá leiðin í Intersport þar sem keyptar voru legghlífar og fótboltaskór á tvíburana (nauðsynlegt fyrir komandi fótbolta-lottómót á Akranesi um næstu helgi).

Annars fór helgin að mestu í tiltekt, þrif, Formúlugláp og að sjálsögðu var ég með eyrun á fótboltarásinni líka (hafði þá ágætan tíma til að sauma smá líka). Leiðinlegt að Valsmenn skyldu tapa en Framara hljóta að vera glaðir. Það getur greinilega allt gerst enn í Landsbankadeildinni. Ætti endilega að fara fylgjast betur með kvennaboltanum...

4.7.03

- Húslegir drengir og fleira -

Í gærmorgun fann Oddur upp á því að búa um hjónarúmið. Þetta gerðist eftir að ég var farin í vinnuna. Ég hafði verið búin að laga til sængina mína og hann braut til sæng pabba síns og setti rúmteppið yfir alveg einn. Í morgun endurtók sagan sig og í þetta sinn hjálpaði Davíð Steinn bróður sínum.

Annars var síðasti dagur sumarnámskeiðsins (nr. 2 af 5 í sumar (en 1 af 2 sem þeir fara á);-). Í morgun fór hópurinn sem þeir hafa verið í í heimsókn á lögreglustöðina. Eftir hádegi var diskótek. M.a. kom leynigestur í heimsókn, Dagur nokkur Sigurðsson, landsliðsmaður í handbolta. Þetta veit ég því hann áritaði bolinn sem Davíð Steinn fékk. Ég fékk enga skýringu á því afhverju Oddur Smári fékk ekki sinn bol áritaðann en þeir bræður töluðu því meira um það sem þeir lærðu í heimsókninni á lögreglustöðina.

Davíð er í vinnupartýi, hann sótti strákana seinnipartinn og fór með þá til Helgu systur. Þegar ég kom þangað ákváðum við systur að skreppa saman á pizza ´67. Ég keyrði manninn og við mæðgin hittum svo mæðgurnar á matstaðnum. Þótt við værum á pizzastað pantaði ég mér sallat. Ég vil helst baka mínar eigin pizzur svo ég geti verið viss um að ekki sé ger í botninum m.a.

Badda mín (mágkona móður-ömmu minnar heitinnar) er 81 árs í dag. Hringdi í hana í morgun rétt áður en hún lagði upp í skemmti-ferð austur á Njáluslóðir og fleira. Góð afmælisgjöf það ferðalag!!!
- Fjölskyldan í lúdó -

Feðgarnir komu heim um klukkutíma á eftir mér í gær. Þegar búið var að borða var ákveðið að spila lúdó. Við spiluðum öll og vorum hátt í tvo tíma að knýja fram úrslit (alltaf að reka heim eða vera rekinn...). Strákunum gekk misvel líka og Davíð stríddi þeim óspart hvort sem þeir voru að vinna eða tapa. Það virðist alltaf erfiðara að taka stríðni ef maður er að tapa en leikar fóru þó aldrei úr böndunum. "Pabbi, þú er alger....bófi", sagði Oddur einhvern tíman í hita leiksins. Davíð Steinn vann, ég rétt náði öðru sæti, þá kláraði Oddur og Davíð sat eftir með sárt ennið eða þannig....

3.7.03

- VISA-bikarkeppnin... -

Í gærkvöldi fóru fram þrír síðustu leikirnir í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar í knattpyrnu karla. Ég komst ekki á völlinn er var með eyrun við útvarpstækið frá því um miðjan fyrri hálfleik. Strákarnir voru þreyttir eftir átök undanfarinna daga. Ég gaf þeim skyr fljótlega eftir að við komum úr afmælinu, leyfði þeim að skiptast á í "pabba"-tölvu, og leyfði þeim svo að sofna í hjónarúminu einhverntíman á níunda tímanum. Davíð kom heim af fundi stuttu áður en strákarnir fóru að sofa. Ég sat sem fastast inni í eldhúsi hlustandi á útsendinguna og með útsaumið mitt. (Sumarið er að klárast og þá tekur haustið við.)
Valsarar gerðu góða ferð til Aftureldingar í Mosfellsbæ en voru samt heppnir að lenda ekki undir í fyrri hálfleiknum því heimaliðið átti sín færi!

KR-ingar áttu í mesta basli með sprækt lið ÍA-U23. Leikar fóru þó 3:0 fyrir KR (allt markmanni þeirra að þakka). Ljótt að heyra að tvö rauð spjöld fóru á loft. KR-ingar voru sínu grófari og finnst mér spilamennska þeirra alls ekki til fyrirmyndar. Ungur ÍA-maður fékk þó annað spjaldið rétt undir leikslok (sennilega svekktur því liðið lagði sig svo sannarlega a.m.k. 150% fram).

Á Akureyri fór einnig rautt spjald á loft fyrir barnalegt brot markmanns Fylkismanna. KA-menn áttu leikinn og er ég helst á því að Fylkismenn hafi gleymt leikgleðinni og hjartanu heima. Það verður spennandi að sjá hvernig fer í deildinni n.k. sunnudag þegar Fylkir tekur á móti KA...
- Kolfinna 10 ára -

Okkur systrum og börnum var boðið í afmælisveislu í gær. Við kynntumst afmælisbarninu og fjölskyldu hennar í gegnum mömmu því hún tók á móti systkynunum úr skóla í vetur og sá um þau þar til mamman, amman eða afinn komu úr vinnu. Þessi fjölskylda fagnaði 17. júní sl. með okkur á Hellu. Helga systir sótti alla strákana úr leikjanámskeiðinu og fór með þá beint í afmælisveisluna. Á meðan sótti ég Huldu og hjálpaði henni að skipta um föt. Við vorum akkúrat tilbúnar þegar mamma hennar kom og sótti okkur. Þetta var fjölskylduafmælið og við erum semsagt búin að eignast nýja fjölskyldu í gegnum mömmu! Veislan tókst vel og ég held að afmælisbarnið hafi verið ánægt með hana.

2.7.03

- Sprellað með 7. flokknum -

Seinni partinn í gær hittust allir drengir og foreldrar, sem ætla að fara á LOTTÓ-mótið (sem haldið verður á Akranesi 11.-13. júlí n.k.), á flötinni við Valsheimilið. Þjálfarinn stjórnaði leikjum. Byrjað var að hita upp og fara í stórfiskaleik, þá var farið í nokkur boðhlaup (tveir og tveir saman, allskonar æfingar), einnig voru drengirnir þjálfaðir í smá boltameðferð. Síðan var hópnum skipt í tvennt. Helmingurinn byrjaði í "holu"-bolta og drengirnir í hinum hópnum tóku vítiaskot á foreldrana. Þegar allir voru búnir að prufa þetta skoruðu eldri strákarnir (f. ´95) á sína foreldra í fótbolta en þjálfarinn skipti okkur í hinum hópnum upp. Ég og Davíð Steinn vorum í hattaliðinu og Davíð og Oddur Smári voru í hinu liðinu. Leikar fóru 2:2 en hitt liðið var alltaf á undan að skora. Að lokum drógu foreldrar sig afsíðis til að ræða um ýmis mál í sambandi við mótið á meðan þjálfarinn skipti strákunum upp í fótboltalið og lét þá spila næsta hálftímann eða svo... Er reyndar ekkert svo viss á tímanum...