27.1.10

- Janúar alveg að verða búinn -

Jæja, maður er svo mikið inn á FB og hinn helmingurinn af frítímanum fer í lestur, saumaskap og ýmislegt annað heldur en bloggarskrif. Tíminn æðir áfram og mér finnst hálffáranlegt að það verði kominn febrúar n.k. mánudag.
Í gærkvöldi fórum við öll á spilakvöld með 8. bekkjunum í Hlíðaskóla. Spilaðar voru 7 umferðir á ellefu borðum og verðlaun veitt fyrir fjögur efstu sætin í karla og kvennaflokkum og tvö neðstu sætin í sömu flokkum. Komið var með góðgæti á hlaðborð og voru bekkjarfulltrúar búnir að hella upp á kaffi, blanda djús og kæla vatn. Almenn ánægja var með kvöldið. Það togaði smá að sýna átti seinni hálfleikinn í leik Dana og Norðmanna en það var samt aldrei spurning um að mæta ekki á svona uppákomu enda sé ég alls ekki eftir þessum tíma.
Á jóladag meiddist ég á tveimur fingrum á hægri hendi, vísifingri og löngutöng. Sló þeim í tröppur, hafði rekið tærnar í en rétt náði að grípa í handriðið og gat afstýrt því að lenda á andlitinu. Fingurnir eru enn bólgnir og þeir eiga það til að dofna upp. Það gerist stundum ef ég sest við saumana og sauma lengur en í eina klukkustund eða svo.
N.k. laugardag verður söngfuglinn minn sóttur fyrir klukkan ellefu. Farið verður með hann og sjö aðra stráka í óvissuferð fyrir góða kertasölu. Sá strákur sem seldi mest seldi meira en 200 pakka af kertum. Einn strákurinn í undirbúningsdeildinni seldi yfir 50 pakka og fer með í óvissuferðina fyrir vikið því strákarnir sem ekki eru komnir í aðalkórinn eru ekki skyldugir til að selja neitt. Þessi strákur er reyndar kominn í kórinn núna en hann var í undirbúningsdeildinni fram að áramótum.