26.3.08

- Minning -


Þann 20. mars síðastliðinn fékk Bagga, föðursystir mín, hvíldina eftir erfið veikindi. Auðvitað er gott að þrautum hennar sé lokið, en mikið sem það er erfitt að sjá á eftir einhverjum sem maður er búinn að þekkja alla sína stuttu ævi. Helst vildi maður fá að hafa fólkið sitt í kringum sig áfram og áfram en það er víst bæði eigingirni og ósanngjarnt gagnvart þeim sem eru þreyttir, aldnir og/eða veikir. Bagga var næstelst af systkynunum fimm, fædd á Þorláksmessu 1921 og hún var sú eina af þeim sem fluttist úr hreppnum. Minningarnar hafa verið að fljúga um í kollinum á mér síðustu daga. Ein af fyrstu minningunum um Böggu er líklega í aprílbyrjun 1972 er hún lyfti mér upp til að leyfa mér að sjá ofan í kistuna þar sem mér var sagt að afi heitinn ætti að hvíla. Ég sá reyndar bara sæng og kodda en engan afa en líklega hefur verið dúkur yfir ásjónu hans. Bagga var glæsileg kona og fannst mér alltaf mikil reisn yfir henni. En það var líka annað sem ég man svo vel, kímnin og glettnin sem leiftraði úr augum hennar og hversu gaman var alltaf að hitta hana, hvort sem var í heimsóknum á hvorn veginn sem þær voru eða ættarmótum. Ég ætla rétt í lokin að senda börnum, tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum Böggu samúðarkveðjur og leyfa minningum mínum að halda áfram að þyrlast um í kollinum. Blessuð sé minning Böggu.

17.3.08

- Helgin liðin -

Eiginlega ætti ég að vera farin að sofa í hausinn á mér. Það hefst vinnudagur eftir tæpa átta tíma og þó það séu bara þrír virkir dagar framundan væri skynsamlegast að vera sofandi núna. En maðurinn er að setja á eitt stykki brauðtertu fyrir mig og ég ætla að bíða eftir honum. Helgin er annars búin að vera mjög blönduð. Anna frænka sótti mig um hálfsex sl. föstudag og við fórum saman í "pottarölt" í Laugardalinn. Ég synti reyndar heila 100 metra en mestur tíminn fór í slökun og spjall í pottunum. Á eftir fengum við okkur að borða á Nings. Davíð Steinn var í afmæli hjá bekkjarfélaga og Oddur Smári var að passa Huldu og Bríeti. Þeir komu heim um svipað leyti og nafna mín skilaði mér heim. Þá komu líka tveir æskuvinir Davíðs en þeir fóru þrír saman á Sálartónleikana seinna um kvöldið.

Í gærmorgun var ég komin á fætur fyrir níu. Fór í klippingu um tíu og beint þaðan að hitta esperanto-vinkonu mína. Var komin nógu snemma heim til að skutla karatestráknum á æfingu. Þeir bræður voru boðnir í vinaafmæli til bekkjarsystur Odds og voru farnir um tvö og skiluðu sér ekki heim fyrr en rúmlega tíu í gærkvöldi. Þetta var víst fámennt en gott og skemmtilegt afmæli. Ég notaði daginn í ýmislegt tengt heimilinu og m.a. skruppum við hjónin að versla.

Fór líka snemma á fætur í morgun. Undirbjó mig m.a. undir fermingamessuna sem var í óháðu kirkjunni um tvö í dag. Níu börn voru fermd og tókst athöfnin og söngurinn bara vel. Samt gerðist einmitt það sem ég óttaðist. Undir altarisgöngu sungum við tvo sálma í röddum. Annar sálmurinn Bænin má aldrei bresta þig var mér pínu erfiður á köflum þ.e. ég komst ekki strax inn á réttan tón í öðru og þriðja erindi. Held að enginn af kirkjugestum hafi samt fattað þetta (eða kannski er ég bara að vona það). Fékk far heim með "tvíburahálfsystur" minni en rétt áður rigndi yfir okkur fyrirframkossum og árnaðaróskum.

Í kvöld kom Halla vinkona með friendtex pöntunina mína, þrjár flíkur, allar fjólubláar. Mér skilst reyndar að þessi litur sé ekki aðaltísku liturinn en það gerir nú lítið til. Hef einhvern veginn aldrei kunnað að fylgja tískunni og hennar straumum eftir. En ég kolféll fyrir þessum lit og þessum flíkum...

14.3.08

- Annar föstudagurinn í mars -


Líklega er best að ég reki mig afturábak í gegnum þessa gönguviku. Í gærkvöldi skundaði ég í Borgarleikhúsið og sá Jesus Christ superstar með 4 af vinnufélögum mínum. Við vorum á fremsta bekk (2) í sætum 2-6 og þegar við settumst niður leist okkur varla á blikuna. Beint fyrir framan okkur var stærðar glerbúr með trommusetti í. Það kom svo í ljós að þetta búr, sem og hljómsveitapallurinn, seig niður um amk einn og hálfan metra í byrjun sýningarinnar. Hávaðinn var svolítið mikill svona rétt til að byrja með en svo gleymdi maður sér alveg yfir því sem var að gerast á sviðinu og í búrinu (trommarinn var rosalegur). Öðru hvoru var reykur látinn liðast um sviðið og hann liðaðist alveg yfir fremstu tvær sætaraðirnar. Þá passaði maður sig bara að opna ekki munninn.


Laufey raddþjálfi var með okkur á kóræfingunni sl. miðvikudagskvöld og eins og alltaf þegar hún kemur og tekur okkur í gegn þá lærum við alveg helling um raddbeitingu og notkun alls líkamans til þess að hljóma betur. Þar eru miklir töfrar í gangi.


Alla vikuna hef ég arkað báðar leiðir í og úr vinnu og fengið fínasta gönguveður og færi. Reyndar gekk ég bara upp að Hallgrímskirkju seinni partinn á miðvikudag og fékk far þaðan og heim rétt fyrir sjö. Ég bætti göngutímann upp með því að fara gangandi á kóræfinguna.


Seinni partinn á þriðjudaginn þurftum við hjónin að skipta okkur milli drengja. Ég fór með Oddi Smára í Laugardalshöllina og fylgdist með honum keppa í kúluvarpi. Nafnarnir fóru aftur á móti í félagsvist með bekknum hans Davíðs Steins. Þetta gekk allt saman vel fyrir sig.

Sunnudagurinn var var mjög annasamur hjá mér. Ég fékk Davíð til að skutla nafna sínum á upphitun í
kirkjuna á meðan ég bakaði eina köku fyrir "Bjargarkaffi" sem var eftir messu í óháðu kirkjunni. Tók svo saman föt á söngfuglinn áður en við hjónin mættum í messuna kl. ellefu. Strax eftir messu og myndatöku af drengjakórnum með Biskupshjónunum fór minn í óvissuferð með kertasölunefndinni og flestum af hinum fjórum sem voru í 2.-5. sæti yfir söluhæstu drengina. Davíð varð svo að skutla mér heim til að ná í kökuna og sálmabókina og ég náði að vera mætt klukkan eitt í upphitun. Það var full kirkja en ég forðaði mér heim beint eftir messu til að falla ekki í freistingar á hlaðborðinu.
Laugardagurinn skiptist niður í esperanto, heimsókn í gallerí Fold (með esperanto vinkonu minni), innkaup, tiltekt og þrif.

7.3.08

- Fyrsti föstudagurinn í mars -

Það gengur bara vel á arkinu. Hef útvegað mér góða plástra og þeir halda blöðrunum í skefjum. Arkaði báðar leiðir alla vikuna fyrir utan miðvikudaginn. Þá fékk ég far heim af stjórnarfundi úr kirkjunni. Reyndar trítlaði ég svo á kóræfingu í "mína" kirkju rétt seinna en fékk svo skutl heim með "tvíburahálfsystur" minni eftir æfingu.

Það er stutt í páskana og einnig fermingarnar og ég er nokkuð viss um að þetta verður liðið áður en maður veit af. Hvernig getur maður fengið tímann til að líða hægar? Það hlýtur að vera hægt að hægja smávegis á.

Ég ætla amk að njóta hvers augnablik mjög vel, helst tvisvar eða oftar.

Farið vel með ykkur og góða helgi!

4.3.08

- Blöðrur -
"Ekki afmælistengt"

Það virðist sem ég sé farin að safna blöðrum á annan fótinn sem kemur sér afar illa þar sem ég ætla mér að ganga í og úr vinnu næstu dagana. Á heimleiðinni núna seinni partinn kom ég því við í Lyfju og festi kaup á blástrum. Ég ætla mér ekki að gefast upp heldur gera allt til þess að skórnir hætti að meiða mig. Það endar líklast til með því að ég kaupi mér betri gönguskó fljótlega. Sjáum aðeins hvað setur. En þær voru annars mjög ólíkar göngurnar í dag. Í morgun var smá snjókoma og ég var eins og snjókerling á tímabili en núna seinni partinn rigndi á mig og sumstaðar varð ég að passa mig á pollum og krapi. Hvernig skildi þetta svo verða á morgun?

Helga systir fékk annan tvíburann lánaðann í gærkvöldi. Hún sótti söngfuglinn upp úr klukkan átta og hann tók með sér skólatöskuna og sunddótið því hann gisti þar og var svo skutlað í skólann í morgunn. Tvíburarnir vildu auðvitað báðir fara en það var karatestrákurinn sem ákvað að söngfuglinn skyldi fara þessa fyrstu ferð. Systir mín tók það nefnilega fram að hún þyrfti að fá pössun á virku kvöldið aftur fljótlega og þá fer sá sem ekki fór í gærkvöldi.

3.3.08

- Einn sjötti liðinn af árinu -

Tveir mánuðir af tólf liðnir og mér segir svo hugur um að þessi þriðji mánuður verði ekki lengi að sigla í kjölfar hinna tveggja. Þá er bara um að gera að hamast við að njóta augnabliksins, að láta ekki líðandi stund hverfa frá sér of hratt. Helgin var annars ekki lengi að líða í allskonar málefni sem ekki verða öll tíuunduð hér. Strákarnir pössuðu frænkur sínar á laugardagskvöldið. Um hálfþrjú leytið um nóttina hringdi Oddur Smári til okkar til að spyrja hvenær von væri á fullorðna fólkinu heim. Hann hafði ekki getað sofnað því laus tönn var eitthvað að angra hann og um það leyti sem hann hringdi var hann búinn að fjarlægja tönnina. Held að stráksi hafi nú verið sofnaður þegar heimilisfólkið skilaði sér heim um þrjúleytið (Hann fann það svo upp hjá sjálfum sér að fara í háttinn strax eftir kvöldmat í gærkvöldi, eða um hálfátta).