30.1.16

Síðasta helgin í mánuðinum

Enn hleypur tíminn, hraðar og hraðar, eða mér finnst það að minnsta kosti. Fyrsti mánuður nýja ársins er senn á enda, allir virkir vinnudagar eru liðnir og framundan er stysti mánuður ársins sem í ár hefur einn aukadag þar sem það er hlaupaár. Þótt ég sé handviss um að sá mánuður verði alveg jafn fljótur að líða þá hef ég ákveðið að halda bara áfram að njóta lífsins og hvers dags eins og hann kemur fyrir. Ég held að það sé það eina rétta og mjög gott plan hjá mér.

Nýliðna vikan átti að vera sú vika, á sex vikna skipulagi, sem ég átti að vera að vinna átta til fjögur. Það fór nú svo að ég mætti aldrei klukkan átta. Bauðst til að skipta um vakt á mánudaginn við aðra síðdegisvaktina. Þegar ég mætti í vinnu um hálfeitt frétti ég að önnur af þeim sem átti morgunvaktina þurfti að taka sér frí af persónulegum ástæðum svo næstu tvo morgna leysti ég hennar vakt af. Á miðvikudaginn var ákveðið að sleppa síðdegisvöktum síðustu tvo dagana. Þær sem áttu að vera síðdegisvakt tóku morgunvaktina frá klukkan sjö á fimmtudaginn, flestir hinir mættu um átta nema ég samdi um að fá að fara í sund, skila bílnum heim og koma svo með strætó í vinnuna um miðjan morgun. Mætti alveg tímanlega í morgunkaffið um hálftíu. Ég var svo síðust heim úr deildinni en vann þó ekki lengur en til klukkan rétt að byrja að ganga sex. Strákarnir fóru á spilakvöld og ég lánaði Lilju vinkonu bílinn á 3. silfursmíðanámskeiðskvöldið af sex. Sjálf tók ég því rólega. Borðaði afganga og settist svo með saumana mína fyrir framan imbann. Í gærmorgun tók ég morgunvaktina ásamt annarri þeirri sem átti þá vakt en í stað þess að mæta um sex mættum við klukkan sjö. Þar með gat ég notað strætó til að koma mér í vinnuna. Samt finnst mér alveg jafn gott að mæta klukkan sex, þótt ég þurfi að nota lánsbílinn. Í gær þurfti ég hins vegar líka að leysa fyrirliðann af og vissi að ég yrði að vera eitthvað lengur fram á daginn. Það voru næg verkefni fram yfir hádegi svo tíminn til fjögur leið undra hratt.

Eftir vinnu tók ég 13 alla leið upp að Borgarleikhúsi og náði þar í tvo miða sem verða notaðir í kvöld. Náði sama vagni til baka og fór þá beint heim. Var með sunddótið mitt með mér og hafði verið með það alveg síðan um morguninn en ákvað að fara frekar heim og horfa á fyrri undanúrslitaleikinn í EM-karla í handbolta. Strákarnir fóru til pabba síns og Lilja er búin að finna sér íbúð. Ég slakaði á með saumana mína fyrir framan imbann líkt og kvöldið áður en passaði mig á því að fara ekki of seint að sofa, vitandi það að ég myndi líklega vakna upp úr klukkan sjö ef ekki fyrr.

26.1.16

Dagarnir þjóta hjá

Helgin er liðin og næstum komið fram í miðja síðustu viku mánaðarins. Fór í sund rétt upp úr klukkan átta báða helgidagana. Á laugardeginum kom ég heim um hálftíu og stoppaði við í rúman hálftíma áður en ég skutlaði Lilju vinkonu í kolaportið og dreif mig til norsku esperantovinkonu minnar þar sem ég stoppaði í um tvo tíma. Næst lá leiðin í Krónuna við Granda. Sá sonur minn sem hefur tekið það að sér að ganga frá vörunum þegar hann er heima var lasinn um helgina svo ég sagði honum að taka því rólega og gekk sjálf frá. Mig var búið að langa svo mikið í hrogn að þegar ég sá að það voru til fersk hrogn í bakkavís í Krónunni, greip ég tvo bakka að ég taldi. Það reyndust vera þrír bakkar en ég eldaði úr því öllu á laugardagskvöldið.  Mmmm, gott.

Eftir sundferðina á sunnudaginn tók ég því bara rólega fram yfir hádegi. Klæddi mig upp og litaði varirnar upp úr eitt og dreif mig í "tregatrúartónlistarmessu/blúsmessu" í kirkjuna mín. Það var góð mæting í messuna og ég naut þess að vera í kirkjunni sem almennur kirkjugestur. Skólasystir mín úr kennó mætti og einnig norska esperantovinkona mín og vinkona hennar.

Í gærmorgun var ég örlítið seinni í morgunsundið en venjulega á virkum dögum en það var bara fínt því þegar ég kom út að laug sá ég Lenu vera að koma upp úr. Þar sem hún var búin að synda ákvað ég að byrja á því að pottormast með henni (2x í 42 gráður, 3x 2 mín í kalda, einu sinni í sjópottinn og örstutta stund í heitasta pottinn, 44 gráður) og labbaði svo með henni alveg þar til við komum að breiðu tröppunum við grynnri enda laugarinnar. Þar skildu leiðir. Ég synti í ca þrjú korter og það var ljúft. Að lokum fór ég í gufuna og smá sólbað alveg í restina áður en ég fór upp og heim. Tók strætó í vinnuna korter fyrir eitt. Þar frétti ég að önnur þeirra sem átti að vera á morgunvaktinni þurfti að fá ótímabundið frí. Þessi vinnuvika mín á að vera frá 8-16 en í gær leysti ég aðra síðdegisvaktina af og áður fljótlega eftir að ég kom í vinnu í gær var ákveðið að ég myndi taka 6-13 vakt amk næstu tvo daga. Ég var því komin í rúmið fyrir hálfellefu í gærkvöldi. Hafði verið svo heppin að annar sonurinn sá um eldamennskuna. Náði að taka aðeins í nál í gærkvöldi með imbaglápinu. Nýjasta verkefnið gengur ágætlega en ég er að bíða eftir betri birtu til að klára útlínusaum í "Lost no more"-myndinni.

23.1.16

Aftur komin helgi

Janúar verður líklega liðinn fyrr en varir, aðeins átta dagar eru eftir af honum en þó heilar tvær helgar. Síðustu tveir dagar liðu líka ógnarhratt. Fór í sund upp úr hálfsjö báða morgnana, notaði tímann nokkuð vel hér heima og sinnti alls konar verkefnum alveg til hálfsjö í vinnunni. Gleymdi sundgleraugun í sundpokanum í gærmorgun og þar sem ég var búin að fara í sturtu og komin í sundbolinn ákvað ég að vera ekkert að bleyta handklæðið en prófa bara að synda án gleraugna. Það var svolítið skrýtið og eiginlega erfitt fyrstu ferðirnar en ég náði þó að synda í rúman hálftíma. Fór tvær ferðir í kalda pottinn og eftir seinni ferðina sat ég góða stund í sjópottinum, smá stund í gufubaðinu og allgóða stund í "sólbaði" á bekk fyrir framan innganginn inn að inniklefunum. Á föstudögum er boðið upp á kaffi og ég ákvað að nýta það boð og spjallaði um leið við konu sem vinnur þarna og er nafna mín. Rak augun í sundgleraugu bæði með plús og mínusstyrk og þrátt fyrir að stk kostaði hátt í 5000 ákvað ég að kaupa mér með -1,50 í nærsýnisstyrk. Annars var ég rauðeygð alveg fram á kvöld þar sem augun eru ekki lengur vön að vera mikið í klórvatni.

21.1.16

Alls konar og ekkert sérstakt

Minningar mig leita á,
margar ansi góðar.
Kannski kemur meira, já
kinnar mínar rjóðar.

Það var mikið að andinn kæmi aftur yfir mig. Einbeitti mér líka alveg þvílíkt og vonandi að orðin fari að raða sér aftur svona skemmtilega saman í ferskeytlur, limrur og jafnvel atómljóð. En þar sem ég kveikti ekkert á tölvunni hér heima í gær er rétt að skrá aðeins niður um síðastliðna tvo daga.

Á þriðjudaginn var ég mætt og byrjuð að synda í Laugardalslauginni strax upp úr klukkan hálfsjö. Synti í um þrjú korter áður en ég fór aftur heim. Komst ekki í alveg eins gott "gerustuð" og morguninn áður og þótt eitthvað lægi eftir mig þá endaði þetta með því að ég náði strætó rétt fyrir tólf, og fór beint í vinnunna. Þar var ég svo til klukkan að ganga sjö og náði að sinna ýmsu sem hefur legið mislengi fyrir. Þegar ég skilaði mér heim stuttu fyrir sjö skar ég niður afgang af rófubita, eina gulrót og eina sæta kartöflu og sauð þetta saman. Bjó til mús úr þessari blöndu og steikti slátur og lifrarpylsu með. Settist fyrir framan skjáinn rétt áður en síðasti leikur Íslands á EM hófst. Var frekar svekkt yfir spilamennsku og úrslitum en ég fann til með strákunum okkar og vona svo sannarlega að þeir nái að rífa sig upp úr þessari lægð.

Ég fór ekkert í sund í gær og var mætt í vinnuna, á lánsbílnum, um átta. Fékk fyrst leyfi til að sinna sjálfboðavinnunni og nota til þess sameiginlegu tölvuna frammi við eldhúskrók. Sú vinna tók mig hátt í klukkustund og má sjá hluta af henni á heimahöfn óháðasafnaðarins. Vann alveg til fjögur. Skrapp á bókasafnið að skila fimm bókum af sex. Fann mér fjórar í staðinn. Hafði svo smá tíma til að skreppa heim og heyrði ég aðeins í pabba áður en ég dreif mig á mega góða raddæfingu hjá Guðbjörgu Tryggvadóttur en hún leysti Árna af eins og í síðustu viku þar sem hann er upptekinn í Njálusýningunni í Borgarleikhúsinu. Kom heim stuttu fyrir átta og sat ég með saumana mína við imbann næstu tvo tímana.

19.1.16

"Áfram handboltastrákarnir okkar"!

Verkefnastaðan í vinnunni er í smá biðstöðu þannig að þessa vikuna eru eiginlega aðeins unnar morgunvaktir, nema ég má aðeins ráða mínum vinnutíma. Átti að vera á síðdegisvaktinni og þar sem ég fékk leyfi til að hafa þetta eins og mér hentaði ákvað ég að byrja gærdaginn á því að mæta í sund strax upp úr klukkan hálfsjö og gefa mér góðan tíma þar. Synti í ca þrjú korter og þar sem Lena mætti ekki fór ég aðeins eina 3 mínútna dýfu í kalda pottinn. Hitti aðra pottormakonu í sjópottinum. Sú fer reyndar ekki mikið í kalda pottinn en hún syndir, fer í næstheitasta pottinn, sjópottinn og gufuna. Ég elti hana semsagt eftir gott spjall í sjópottinum í gufuna en hún fór inn á undan mér þar sem ég ákvað að fara í smá "sólbað" fyrst.

Kom heim aftur rúmum tveimur tímum eftir að ég fór og tók til hendinni hér og sinnti sjálfboðavinnunni aðeins eins og tölvan leyfði. Mætti í vinnuna um hálfeitt og byrjaði á því að fá mér kaffi. Annars sinnti ég alls konar verkefnum öðrum en því sem ég ætlaði aðallega að nýta tímann í en það voru líka nauðsynleg verkefni. Var svo heppin að fá far upp að ljósunum við Flókagötu og Lönguhlíð um hálfsjö, með þeirri sem sér um þrifin. Hvorugur sonanna var heimavið, annar í vinnu og hinn hjá vini, en við Lilja hjálpuðumst að við að matreiða bleikju og horfðum svo á imbann fram eftir kvöldi hún með prjónanan sína í höndunum en ég með handavinnutöskuna lokaða við hliðina á mér.

18.1.16

Smávegis um nýliðna helgi

Byrjaði laugardaginn á því að skreppa í sund. Það er alltaf gott að byrja dagana svoleiðis ef það er hægt. Um ellefu var ég mætt til Inger. Hvorug okkar hafði verið dugleg í esperantoheimavinnunni en við sökktum okkur aðeins saman niður, aðalega í orðabækurnar, og rifjuðum upp hin og þessi orðin. Skrapp í Krónuna við Granda um eitt. Fékk Odd Smára til að ganga frá vörunum og dreif mig af stað í smá skreppu á Hellu. Var komin þangað um þrjúleitið, mátulega í kaffi tímann, og var þar í góðu yfirlæti alveg til klukkan langt gengin í tíu. Saumataskana var með í för og greip ég aðeins í saumana.

Í gærmorgun brá svo við að ég sleppti morgunsundinu. Hellti upp á kaffi, útbjó mér hádegisnesti og var alveg tilbúin þegar Brynja vinkona pikkaði mig upp um hálftíu. Við vorum báðar búnar að skrá okkur á sama námskeiðið, "Draumafangarinn", sem var svona einskiptis dagnámskeið. Við vorum í fámennum en mjög góðum hóp með góðan leiðbeinanda og tíminn milli klukkan tíu og fjögur leið fáránlega hratt. Alls ekkert stress í gangi, þvert á móti, en ég fann reyndar fyrir því að upp úr klukkun þrjú þegar ég var langt komin með að klára einstaklingsverkefnið, að hugurinn fór að reika til Póllands.

Mér bauðst að skreppa með í barnaafmæli upp úr klukkan sex en ég var ekki alveg stemmd til að fara aftur af stað. Úbjó kvöldmat handa okkur strákunum og horfði svo á imbann fram eftir kvöldi.

16.1.16

Í foreldraheimsóknsskreppu

Á fimmtudaginn var ákvað ég að prófa að fara í sund í Laugardalinn eftir vinnu seinni partinn og taka strætó þangað. Fór með leið 6 á Hlemm þar sem ég náði leið 14 sem stoppar alveg við laugardalslaugina. Var byrjuð að synda 18 mínútur í fjögur og synti stanslaust í 52 mínútur. Var ekki búin að kanna það hvenær vagninn sem væri leið til baka yrði á ferðinni. Sá tvennt í skýlinu ca 9 mínútur yfir sex og reiknaði það rétt út að vagninn sem átti víst að vera fimm mínútur yfir heila tímann væri seinn fyrir. Það stóð líka heima og hirti hann okkur þrjú upp þarna rúmum tveimur mínútum síðar. Þurfti svo aðeins að bíða svipaðan tíma eftir að ná leið 13 í Hlíðarnar á Hlemmi. Hafði lánað Lilju lánsbílinn til að komast á fyrsta námskeiðið af sex í silfursmíði í Mosfellsbænum og til stóð að ungu mennirnir notuðu ferðina til að heimasækja pabba sinn og litlu systur. Ég átti því ekki von á að finna neinn heima um hálfsjö. Lilja og lánsbíllinn voru amk ekki heimavið en ég fann syni mína heima og voru þeir ekki á leið í Moso í þetta skiptið þar sem eitthvað hafði komið upp á sem hamlaði því að pabba þeirra gæti tekið á móti þeim. Svoleiðist getur gerst og gerist. Lilja skilaði sér um hálftíu, afar ánægð með námskeiðið.

Oddur Smári sótti rauða kortið til mín í vinnuna upp úr klukkan tvö í gær. Ég var á leið annað, vinnutengt milli klukkan fjögur og sex-is. Staðurinn var Ásinn á fjórðu hæð í Turninum við Katrínartún. Þar var farið yfir 2015 og tæpt á því sem er framundan og svo var hægt að horfa á fyrsta leik íslenska karlalandsliðsins á EM í Póllandi. Ég labbaði því ekki heim fyrr en upp úr sjö, örlítið reikul í spori eftir nokkur hvítvínsglös.  :-)

14.1.16

16:42 - 17:34

Titillinn segir allt um tímann sem ég synti frá því ég synti af stað og þar til ég ákvað loks að kalla þetta gott. Titill gærdagsins merkir það sama, tímann sem ég synti frá byrjun til enda. Í gærmorgun notaði ég rauða kortið aftur til að komast í og úr vinnu. Stoppaði ekki lengi heima seinni partinn en nógu lengi til að slá á þráðinn til pabba. Var mætt á raddæfingu klukkan hálfsex og við níu sem mættum fengum góðan tíma sem nýttist okkur vel. Fór beint í Laugardalinn eftir æfinguna eins og þegar hefur komið fram. Kom heim á tíunda tímanum og horfði á imbann með Lilju eitthvað fram eftir kvöldi.

13.1.16

19:50 - 20:44

Rauða kortið var notað í fyrsta skipti í gærmorgun þegar ég tók leið 13 við Sunnubúð korter fyrir átta. Var mætt í vinnu tvær mínútur í heila tímann. Vinnudagurinn leið mjög hratt. Á meðan ég beið eftir strætó hringdi ég í "einkabílstjórann" og gaf honum leyfi til að fara á lánsbílnum í smá snúninga og útréttingar fyrir sjálfan sig. Hann þurfti að fara á tvo staði og var kominn heim aftur rétt upp úr fimm. Ég ákvað að skutla honum í vinnuna og ætlaði að nota tækifærið og skreppa í sund í leiðinni. Afhenti unga manninum rauða kortið svo hann kæmist aftur heim úr vinnu. Hleypti "vinnumanninum" út beint fyrir utan vinnustaðinn hans ca korter fyrir sex og fór svo beint í Laugardalinn. Eftir smá hringsól í leit að stæði ákvað ég að hætta við sundferðina í þetta sinnið. Fór beint í eldhúsverkin þegar ég kom heim og eldaði ég pottrétt úr folaldagúllasi, rauðkáli, hvítkáli, sætri kartöflu og hnúðkáli og sauð bygggrjón með. Davíð Steinn gekk frá í eldhúsinu eftir mat en ég settist með saumana mína inn í stofu hjá Lilju og horfðum við á imbann með öðru auganu fram eftir kvöldi.

12.1.16

Tveir dagar

Sunnudagsmorguninn hófst nokkurn veginn eins og dagurinn áður með ferð í Laugardalslaugina. Hékk að vísu ekki á "hurðarhúninum" en ég var byrjuð að synda stuttu fyrir klukkan hálfníu. Synti í rúman hálftíma og fór þrjár ferðir í kalda pottinn með dýfingum í þann 42 gráðu heita á milli. Kom heim um tíu. Fljótlega ákvað ég að drífa í að baka eggjalausa brúntertu í tveimur lögum í hringformum. Fyrri botninn var næstum farinn illa en ég hafði stillt á niðurteljara á gamla gemsanum sem hins vegar var stilltur á hljóðlaust svo botninn var eitthvað aðeins lengur en 25 mínútur í ofninum. En þetta slapp allt saman. Um leið og seinni botninn var tilbúinn varð ég að drífa mig upp í krikju því ég hafði lofað að mæta þangað um hálfeitt til að taka niður jólatréð. Upphitun kórsins fyrir messuna sjálfa var svo í "neðra" um eitt þar sem við sungum yfir fimm sálma. Á meðan og reyndar alveg frá því um hálfeitt var farandleikhópurinn að koma sér fyrir og setja upp leiksvið og muni fyrir sýninguna sem var svo sýnd í miðri messunni. Við í kórnum dreifðum okkur um kirkjuna og leiddum sálmasönginn og messusvörin þaðan við góða stjórn organistans sem reyndar spilaði allt á flygilinn. Þónokkuð var af fjölskyldufólki sem og fastakirkjugestum í kirkju og var stundin bæði ljúf og skemmtileg. Á eftir gaf ég mér smá tíma til að setjast niður og fá mér einn bolla af svartbaunaseyði áður en ég dreif mig í heimsókn til norsku esperantovinkonu minnar. Við náðum okkur á nokkuð gott flug og vorum báðar vel undirbúnar undir esperantohitting.

Í gærmorgun fór ég af stað með ýmislegt í farteskinu á lánsbílnum á sjöunda tímanum og mætti fyrst í sund í Laugardalinn um hálfsjö. Var byrjuð að synda tuttugu mínútur fyrir sjö og synti ég í tæpan hálftíma. Hitti Lenu og þar sem kaldi potturinn var lokaður vegna ísingar fórum við fyrst í 42 gráðu pottinn sem var örugglega aðeins heitari en það, settumst aðeins á bekk og enduðum svo í sjópottinum. Ég fór upp úr á undan enda byrjar vinnutími minn þessa vikuna hálftíma fyrr en hjá henni. Vinnufélögunum bauð ég svo upp á smá góðgæti í tilefni 16 ára starfsafmælis þann 10. janúar sl. Strax eftir vinnu fór ég í Kringluna þar sem ég ætlaði mér að fjárfesta í rauða kortinu í strætó. Öll kort voru uppseld og aðeins hægt að fá strætómiða. Ég ákvað því að sniglast upp í Mjódd og kaupa kortið þar. Oddur var farinn í vinnuna þegar ég kom heim og Davíð Steinn var búinn að tilkynna að hann kæmi seint heim. Við Lilja steiktum okkur fisk og horfðum svo á sjónvarpið eftir mat. Hún vann að smá þýðingarverkefni en ég tók fram saumana mína, nýja verkefnið.

10.1.16

Um gærdaginn

Viðförula vinkona mín var vöknuð þegar ég kom fram á áttunda tímanum í gærmorgun. Ég fékk mér morgunmat, spjallaði stutta stund við vinkonuna en dreif mig svo af stað í sund. Var komin í Laugardalinn rétt fyrir átta og var semsagt ein af þeim sem "héngu á húninum" þegar var opnað á slaginu. Tæpu korteri seinna var ég byrjuð að synda. Synti í hálftíma, fór tvær ferðir í kalda pottinn, eina í næstheitasta pottinn á milli köldu dýfinganna og endaði svo í sjópottinum. Þar var ég heldur lengur en ég ætlaði mér því ég gleymdi mér í smá spjalli við eldri konu og svo við einn vinnufélaga minn. Kom heim um hálftíu, mátulega til að skutla Lilju og hluta af föndrinu hennar í Kolaportið.

Milli klukkan tíu og eitt dundaði ég mér við ýmislegt heimavið, komst samt ekki af stað í neina alvarlega tiltekt. En það getur svo sem beðið aðeins lengur. Dreif mig í smá verslunarleiðangur um eitt leytið og var komin heim aftur áður en vináttuleikurinn við Þýskaland í handbolta karla hófst. Um sex vorum við mæðgin mætt í matarboð til móðursystur minnar og dóttur hennar sem er "Önnu-nafna" mín. En þær voru staddar á Íslandi í stuttri heimsókn og notuðu tækifærið og hóuðu í nánustu fjölskyldu. Sjö aðrir gestir, frændfólk mættu á svæðið. Við stoppuðum til klukkan að byrja að ganga tíu og hefðum alveg mátt stoppa lengur við, vorum ekki síðust til að kveðja.

Ég skutlaði bræðrunum heim en fór svo beinustuleið í heimahús í næsta bæjarfélagi þar sem ég hitti m.a. Þöll og Ofur-Baldur og nokkuð fleira sameiginlegt vinafólk. Þöll og kærastinn hennar voru í stuttri heimsókn hér á landi, m.a. til að mæta í tvö afmæli og tækifærið var auðvitað notað til að hóa saman og hitta fleiri vini í leiðinni. Ég var svo heppin að komast á þann hitting og stoppaði þar við í rúma tvo tíma. Líkt og með matarboðið hefði ég alveg mátt stoppa lengur, var reyndar fyrst til að kveðja, en ég vissi að ég yrði að koma mér heim í háttinn til að vera fersk í morgunsundið og undirbúninginn undir sunnudaginn. Meira um það vonandi á morgun.

Mikið er ég þakklát fyrir allt þetta góða fólk sem er í kringum mig og að ég geti alltaf fundið tíma til að rækta fjölskyldu og vinabönd.

9.1.16

Önnur helgin á nýja árinu

Mig rámar í að ég hafi vita af mér kl. 04:34 í gærmorgun en ég sofnaði sem betur fer aftur með þá hugsun að ég þyrfti ekki að vakna alveg strax. Fimm yfir fimm hringdi vekjarinn og þá var ég meira tilbúin að fara á fætur og sinna morgunrútínunni. Var mætt í vinnuna um sex. Tíminn til klukkan eitt leið mjög hratt. Fann ekki hádegisnestið mitt og hélt að ég hefði bara skilið það eftir heima. Var reyndar með gróft brauð með mér sem ég fékk mér af áður en ég fór úr vinnunni og beint í sund. Synti aðeins í rúman hálftíma en ég fór tvisvar í þann kalda og endaði í sjópottinum áður en ég fór upp úr og heim. Heima fékk ég mér smá hressingu, gerði tilraun til að hringja austur og bað svo strákana um að ryksuga yfir gólfin og vekja mig með kaffi um fjögur. Þeir urðu við þessari beiðni minni. Á meðan ég var að leggja mig hringdi pabbi til baka. Hann hafði víst skroppið í búð og mamma hafði ekki náð símanum. Oddur Smári talaði við afa sinn og lét mig vita að hann hefði hringt. Ég hringdi því aftur austur og var rétt að byrja að spjalla við pabba þegar gemsinn lét í sér heyra. Það var ein vinkona mín sem var að koma heim úr þriggja mánaða ferðalagi erlendis. Um fimm leyti lánaði ég bræðrunum bílinn til að fara á spilakvöld og þótt þeir kæmu ekkert svo seint heim (öðru hvoru meginn við miðnætti) þá var komin alveg ró á íbúðina því ég var farin að sofa.

8.1.16

Fyrsta vinnuvika nýja ársins liðin

Mætti klukkan hálfsjö til vinnu í gærmorgun því að á fimmtudögum er haldinn vinnufundur milli klukkan eitt og hálftvö. Það var amk svoleiðis í gær og á þeim fundi var verið að fara yfir vaktaplön næstu vikna og negla niður amk næstu viku. Þegar ég var búin í vinnunni fór ég fyrst með lánsbílinn í snertilausu þvottastöðina við Skúlagötu. Bíllinn var nefnilega orðinn ískyggilega hvítgrár á litinn og hann sem er í raun og veru blár. Næst lá leiðin í Laugardalinn þar sem ég synti í um þrjú korter og mátti stundum passa mig á að gleypa ekki vatn í ölduganginum. Dýfði mér tvisvar í kalda pottinn og fór í heitan pott, sjópott og gufu áður en ég fór upp úr. Á leiðinni heim kom ég við á Olís-smurstöðinni Klöpp og lét smyrja bílinn. Klukkan var að slá fjögur þegar ég skilaði mér heim. Útbjó fljótlegan pastarétt fyrir klukkan fimm svo ungi "sölumaðurinn" gæti borðað áður en hann þurfti að ná í strætó í vinnuna á sjötta tímanum. Hinn ungi maðurinn kom heim rétt um fimm frá einum vini sínum og var hann frekar þreytulegur. Hann var samt mömmu sinni til halds og trausts á meðan hún tók niður jólin. Og vel að merkja ég fór með megnið af því sem var uppi við um jólin niður í geymslu. Sumt fór í skúffur hér uppi í íbúð.

7.1.16

Búin að pakka niður jólunum

Á þriðjudaginn fór ég beint í sund í Laugardalnum eftir vinnu. Synti í um þrjú korter og fór svo í smá pottadýfingar. Í það heila var ég líklega hátt í tvo tíma á staðnum, frá því ég labbaði inn í búningsklefa og þar til ég kom aftur út í bíl. Afganginn af deginum notaði ég m.a. í lestur, smá útsaum, sjónvarpsgláp og sitthvað fleira. Ég náði ekki að klára heilan Castle-þátt og var komin í rúmið rétt upp úr tíu og sofnuð fljótlega.

Í gær, á þrettánda og síðasta degi jóla, sleppti ég hádegismat og fór beint heim um hálfeitt. Fékk mér eitthvað í svanginn þar, hringdi austur og heyrði stuttlega í mömmu og lagði mig í um eina klukkustund. Hafði beðið strákana um að ýta við mér um tvö og óskaði eftir að þá yrði einnig til kaffi. Annar sonurinn skrapp reyndar til vinar síns en hinn var að hella upp á þegar ég kom aftur fram rétt fyrir tvö. Ekkert var saumað en lesið og horft aðeins á imbann.

5.1.16

Þakklát fyrir svo margt

Fyrsti vinnudagur nýs árs var í gær og verð ég á morgunvakt út vikuna. Ég var því mætt rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun, stuttu á undan þeirri sem leysti, þá sem upphaflega var skráð á vaktina með mér, af. Tvö komu svo um átta, einn um tíu og ég náði líka að hitta aðeins þær tvær sem byrja á síðdegisvakt þessa vikuna af því að þær voru komnar áður en klukkan varð eitt.

Eftir vinnu lá leiðin i Blóðbankann en ég fékk bæði sms og mail þann 30. des. sl. með spurningu um hvort ég gæti komið og gefið blóð. Þá var hins vegar bara opið til klukkan þrjú og ég var ekki búin að vinna fyrr en fjögur. Þegar ég var að merkja inn á listann um heilsufar og fleira sl. mánuðinn, staldraði ég aðeins við spurninguna um hvort ég væri búin að fara til tannlæknis. Ég varð að haka við já þar og skráði enn fremur á línuna að sú heimsókn hefði verið rétt fyrir jól. Þegar til kom skipti þetta ekki máli. Neðri mörk og púls voru í góðu lagi en efri mörkin voru ívið of há en það kom ekki að sök. Af gömlum vana rétti ég fram vinstri handlegginn þótt ég segði að mér væri nokkuð sama. Þegar ég var stungin hrökk æðin eitthvað undan og faldi sig svo ég spurði hvort ekki mætti prófa hægri handlegginn. "Bara ef þú leyfir það" sagði sú sem var að vinna í þessu. Ég vildi endilega láta reyna á það og þrátt fyrir að æðarnar séu aðeins grennri í þeim handlegg gekk þetta strax upp og rennslið var víst mjög gott.

Plástruð á báðum kom ég við heima til að athuga hvort strákarnir vildu koma með mér í Kringluna, annar á buxnaútsölu og hinn til að kaupa strætómiða. Hvorugur ungu mannanna máttu vera að því stússi akkúrat þá en ég dreif mig þá bara ein því ég þurfti m.a. að skila 5 bókum á safnið þar af einni sem skilafresturinn var að renna út á. Fékk mér fjórar bækur í staðinn. Ég ákvað að kaupa níu miða "strætókort" því það er hægt að fá svoleiðis á þjónustuborðinu. Sem ég er að strunsa í gegnum Stjörnutorgið heyri ég allt í einu að það er verið að kalla "Anna" og líklega var búið að kalla nokkrum sinnum. Þarna var þá Brynja vinkona með tvíburadætur sínar og sagðist hún hafa verið viðbúin að stökkva á fætur og hlaupa mig uppi ef ég hefði ekki heyrt í henni. Ég spjallaði góða stund við hana og í miðju því spjallið heilsaði upp á mig ungur maður, eldri sonur Ellu vinkonu. Hann varð tvítugur fyrir rétt rúmum mánuði og er búinn að vera í HÍ síðan í haust. Ég þakkaði honum fyrir að heilsa upp á mig því ég var svo niðursokkin í spjallið við Brynju að ég hefði örugglega ekki tekið eftir honum.

Þessi seinni hittingur varð svo til þess að ég sló á þráðinn til mömmu hans seinna um kvöldið. Fyrsta vinkonuspjallið milli okkar tveggja á þessu nýja ári og örugglega ekki það síðasta.

4.1.16

Fertugasta og önnur heimsóknin í blóðbankann

Í gærmorgun var ég byrjuð að synda á braut sjö í útilauginni í Laugardalnum áður en klukkan var orðin tuttugu mínútur yfir átta. Fátt var í sundi og frekar rólegt og ég hafði brautina alveg útaf fyrir mig nánast allar þær fimmtíu mínútur sem ég synti. Hitti eina kórsystur mína stuttlega í lauginni og svo aftur í sjópottinum síðar eftir tvær dýfingar í kalda pottinn. Kom heim um hálfellefu og stoppaði við í einn og hálfan tíma áður en ég dreif mig yfir í fyrsta esperantohitting á nýju ári til norsku vinkonu minnar. Okkur fannst við vera frekar ryðgaðar en lásum þó tvær blaðsíður í eldgamallri lestrarbók sem við keyptum í bókabúðinni hans Braga Kristjónssonar í fyrra.

Dóttir vinkonu minnar var á leiðinni í Kringluna að hitta vinkonu sína og ætlaði sér að taka strætó. Ég var hins vegar að fara og ákvað að bjóða henni far. Var með fimm bækur af safninu í skottinu, (04.01.16). Hleypti ungu konunni út Stjörnutorgs og bókasafns meginn en þar sem ég fann ekkert stæði ákvað ég að fresta skiluninni um einn dag eða svo. Fór í staðinn í Krónuna í Nóatúni og verslaði smávegis inn. Oddur Smári gekk frá vörunum þegar ég kom með þær heim.

Dagurinn varð hinn notalegasti letidagur en það er gaman að segja frá því að ég greip samt í saumana mína seinni partinn, annan daginn í röð.

3.1.16

Aftur í sund

Rétt um átta í gærmorgun var ég að sópa og skafa af lánsbílnum. Á slaginu hálfníu var ég að byrja að synda á braut 7 í Laugardalslauginni. Synti stanslaust í rúm þrjú korter áður en ég dýfði mér ofan í kalda pottinn. Fór reyndar ekki á bólakaf í þann pott, hausinn var upp úr þessar tvær og hálfu mínútu sem ég var ofan í. Skrapp í 42 gráðu pottinn í örfáar mínútur áður en ég fór seinni ferðina í þann kalda. Eftir þá ferð fór ég í sjópottinn þar sem ég flatmagaði í góða stund áður en ég skrapp í smá gufu og "sólbað". Kom heim á ellefta tímanum og byrjaði á því að fá mér vatnsglas og undirbúa smá kaffiuppáhellingu.

Rúmum tveimur tímum seinna kvaddi ég þann soninn sem var vaknaður, reyndar með þeim orðum að hann væri velkominn að slást í för með mér, en hann var nývaknaður og alls ekki tilbúinn. Ég fyllti tankinn á lánsbílnum og var komin austur til foreldra minna á slaginu þrjú, næstum því beint í síðdegiskaffið. Pabbi var búinn að fara út og moka stóran part af planinu fyrir framan og ég var bara klaufi að komast ekki alveg alla leið í stæðið í fyrstu tilraun.

Eftir kaffið fékk ég mér göngutúr út á elliheimili í þeim tilgangi að heimsækja fyrrum nágrannahjón foreldra minna. Reyndar voru þau nágrannar mínir líka því þau áttu heima við Hólavang 22 þegar foreldrar mínir byggðu nr 24 og voru þar alveg þar til eftir skjálftana sumarið 2000. Mætti gömlum manni fyrir utan elliheimilið og var svo utan við mig að fatta ekki að hann var að "stinga af" á inniskónum og hvorki í úlpu né öðrum útifatnaði. Fékk að vita að tengdadóttir gömlu hjónanna hefði sótt þau svo ég greip í tómt. Hún býr ekki langt frá en ég hafði séð það á leiðinni á elliheimilið að þar var enginn heima. Athugaði það samt betur til öryggis á bakaleiðinni og mætti þá starfsstúlku við annan mann leiðandi gamla "stroku-manninn" á milli sín og talandi við hann á léttu nótunum. Enginn kom til dyra hjá Möggu þegar ég bankaði, tók í húninn og það reyndist ólæst og kom hundurinn Kolur fram í gang, greinilega einn heima. Ég passaði upp á að hann kæmist ekki út og kláraði smá gönguhring áður en ég skilaði mér aftur í Hólavanginn.

Stoppaði fyrir austan fram yfir fréttir (á báðum stöðvum) og kvöldmat. Byrjaði á nýju útsaumsverkefni, spjallaði við foreldra mína, vafraði eitthvað smá um á netinu í pabbatölvu og slakaði vel á. Var komin aftur í bæinn um tíu.

2.1.16

Nýkomin úr fyrstu sundferð ársins

Nýjársdagur, stutt yfirlit; Gærdaginn notaði ég í rólegheit og lestur. Var semsagt alger innipúki. Neita því ekki að um hádegi fékk ég smá sundfiðring í kroppinn því ég vissi að það var verið að opna Laugardalslaugina. En í stað þess að drífa mig út og í sund, hellti ég upp á kaffi. Annar sonurinn kom fram um leið og hann fann kaffilyktina og þá ákvað ég að athuga hvort hinn ungi maðurinn væri vaknaður. Sá var amk tilbúinn að koma fram og fá sér eitthvað snarl með okkur hinum.

Dagurinn leið alltof hratt. Davíð Steinn skrapp til eins vinar síns. Um miðjan dag sagði Oddur að það væri búið að bjóða þeim bræðrum í jólaboð til pabba þeirra og fjölskyldu. Ég lánaði þeim lánsbílinn í þann hitting gegn því skilyrði að þeir myndu sópa vel af honum fyrst og fara varlega. Þeir kvöddu stuttu fyrir hálffimm og skiluðu sér heilir heim aftur um sjö tímum síðar.

1.1.16

:-) Velkomið nýtt ár 2016 :-)

Þessi fyrsti dagur nýs árs stefnir í að verða alger letidagur. Í gærmorgun var ég komin á fætur um sex og mætt í vinnuna um sjö, á lánsbílnum, til að vinna síðustu þrjá skyldu-vinnutíma ársins. Fór beinustu leið í Laugardalinn eftir vinnu. Synti í rúman hálftíma, fór eina ferð í kalda pottinn og þaðan í sjópottinn þar sem ég flatmagaði í amk korter áður en ég fór smástund í gufubað. Var komin heim fyrir klukkan tólf. Hellti upp á kaffi og tók lífinu með ró. Synirnir bærðu ekki á sér og það var ekki fyrr en um það leyti sem ég var að leggja af stað í kirkjuna um hálffimm að annar þeirra kom fram. Aftansöngurinn í kirkjunni tókst bara vel þrátt fyrir að það væru afföll í öllum röddum kórsins nema bassanum. Við vorum sex í kvennaröddunum, þar af þrjár Önnur og vorum við önnum kafnari í sópraninum eða þannig. Formaður kórsins og ein úr sópran mætti í kirkju svo stífluð að hún gat ekki stillt sér upp með okkur kórfélögunum og ég man bara ekki eftir að hún hafi "raddforfallast" áður. Það er amk mjög langt síðan síðast. Sellóleikarinn, Örnólfur Kristjánsson, sem spilaði innspilið með organistanum var svo vinsamlegur að styrkja eina tenórinn sem var mættur og söng "Bjarnatónið" með okkur af fagmennsku. Það var helst að maður saknaði kirkjugestanna en þeir voru mun færri en oft áður á þessum tíma. En þeir sem þó mættu fengu að taka þátt í notalegri og afslappaðri stund.

Kom heim um sjö og útbjó kvöldmatinn á innan við þremur korterum, hrefnusteik með kartöflumús úr sætum kartöflum, bernes-sósu (úr bréfi), rósakáli, gulum baunum og stjörnuhrásallati. Í eftirrétt var ris a la mandle án mönlunnar. Ágætlega vel heppnað. Eina sem gleymdist var að kveikja á kerti.

Framundan er heilt ár með einum aukadegi og þrátt fyrir að taka þessum degi svona rólega þá ætla ég að halda áfram á sömu braut og undanfarin misseri. Sú braut er reyndar fljölbreytt þar sem ég passa upp á að sinna sjálfri mér, mínum hugðarefnum sem og skyldum og passa upp á að brosa meira (og hlægja) amk þegar það á við og síðast en alls ekki síst sinna ættingjum og vinum eins vel og ég get.  ;-)