13.8.15

Í heimsókn hjá systur minni

Örstutt lífsmark af mér. Skrapp í morgunsund og "pottadýfingar" á þriðjudagsmorguninn. Fór heim og gekk frá sunddótinu og beið þar til klukkan var að slá níu. Þá fór ég yfir til einnar vinkonu minnar í morgunkaffi og til að færa henni smá afmælisgjöf.

Um hálfeitt í gær vorum við Oddur búin að pakka niður, ferma lánsbílinn og lögð af stað út úr bænum. Sóttum Davíð Stein í Mosfellsbænum. Bættum á tankinn í Borgarnesi og á Holtavörðuheiði eftirlét ég einkabílstjóranum ökusætið, leyfði hinum syninum að setjast fram í og kom mér sjálf fyrir aftur í. Næsta stopp var í Ömmukaffi á Blönduósi rétt fyrir fjögur þar sem við fengum okkur kaffi og með því. Oddur fékk að keyra áfram alla leið til Akureyrar og vorum við komin þangað rétt upp úr sex.

11.8.15

Pakk :D

sjálfsögðu var ég mætt í sundið rétt eftir að laugin opnaði í gærmorgun. Nú hafði ég hins vegar mun betri tíma svo ég gat "elt" Lenu þegar ég hitti hana í kalda pottinum. Þá var hún þegar búin að fara tvær ferðir í hann. Hún fór fimm ferðir í viðbót og ég elti hana allar þær ferðir og í heita pottinn á milli. Eftir síðustu ferðina fórum við í sjópottinn og svo þann heitasta. Þá kvaddi hún en ég skrapp í gufu og sat svo úti um stund.

Þegar ég kom aftur heim tók ég því rólega til að byrja með en um það leyti sem hreyfing komst á "einkabílsstjórann" var ég búin að hella mér upp á kaffi og útbúa mér haframjöl með kanil, rúsínum, kókosolíu og láta það trekkja sig með sjóðandi vatni. Ungi maðurinn sópaði upp af svölunum og fór svo tvær ferðir með ýmislegt bæði í söfnunar og ruslsagáma.

Hafði kvöldmatinn um sex, horfði á fréttir á Stöð 2 og sótti svo aðra úr saumaklúbbnum og tók hana með mér til hinnar. Vorum örlítið snemma í því en það kom ekki að sök og tíminn leið alveg jafn hratt og alltaf áður í svona hitting.

10.8.15

Átta ferðir í kalda pottinn í gærmorgun

Var komin í Laugardalslaugina á svipuðum tíma í gærmorgun og á laugardagsmorguninn. Synti líka eitthvað svipað en það var ekki fyrr en ég var búin að sitja í kalda pottinum í um það bil þrjár og hálfa mínútu að ég sá að Lena var að fara upp úr lauginni og í 42°C pottinn. Ég dreif mig upp úr og til hennar og fór svo næstu sjö x 2 mínútur (stundum 2,5 þegar við gleymdum okkur í spjallinu) og þar með var náði ég átta ferðum í þann kalda. Eftir síðustu köldu dýfuna fórum við í sjópottinn og þaðan í þann heitasta áður en við sögðum þetta gott. Klukkan var því byrjuð að ganga tólf þegar ég kom heim. Stuttu seinna hringdi Inger í mig og spurði hvort ég væri til í að koma með þeim hjónum á stofutónleika í hús skáldssins seinni partinn um daginn. Ég var meir en til í það og við ákváðum að hún myndi hringja aftur í mig rétt áður en þau legðu í hann.

Stuttu fyrir eitt skutlaði ég Davíð Steini í Mosfellsbæinn til kattapassarans, bróður síns en föðurbróðir þeirra ætlaði að kippa þeim með þaðan í matarboð til föðurforeldranna. Ég notaði tækifærið og kíkti í heimsókn á Reykjaveginn því ég hafði verið búin að fá fullvissu fyrir því að þar væri e-r heima til að taka á móti mér. Náði góðu klukkutíma stoppi áður en ég dreif mig heim aftur.

Heima stoppaði ég frekar stutt við því um þrjú hringdi Inger aftur og ég ákvað að bíða úti á Lönguhlíð rétt við strætóskýlið eftir að þau Hinni hirtu mig upp. Stofurtónleikarnir reyndust allt aðrir heldur en þeir sem Inger hélt hún væri að fara á. Hún ætlaði að heyra í strákunum í Vio en þeirra stofutónleikar voru 19. júlí sl. Í gær söng Guðrún Ingimarsdóttir sópran nokkur ljóð nóbesskálda við undirleik Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur. Ég skemmti mér vel og ég held að Inger hafi verið nokkuð sátt þótt hún hefði líklega aldrei farið af stað ef hún hefði vitað hvaða viðburður var í gangi. Svona er sumum hlutum bara ætlað að verða.

Oddur Smári kom heim rétt fyrir tíu og fékk að skreppa á lánsbílnum með smá dót til bróður síns og sækja sitt því Davíð Steinn ætla að vera síðustu hjá kisunum til miðvikudagsmorguns.

9.8.15

Á stofutónleikum í húsi skáldsins í dag

Vaknaði nokkru fyrir átta í gærmorgun án þess að hafa stillt nokkurn vekjara á mig. Gaf mér góðan tíma í morgunverkin áður en ég fór í laugardagsmorgunsundið í Laugardalinn. Synti í rétt um tuttugu mínútur og fór meira að segja eina ferð, 50m, á bakinu. Fór 3x3-4 mínútur í kalda pottinn, heitu pottana á milli dýfinga og í sjópottinn og gufuna að lokum. Hitti Lenu þegar ég var um það bil að fara upp úr en þá var hún að byrja.

Mætti í esperanto-hitting til norsku vinkonu minnar rétt fyrir ellefu og hún spurði mig hvort við ættum ekki að hittast aftur niðri í bæ seinni partinn. Ég var alveg til. Stoppaði hjá henni í rúma klukkustund og kom við í Krónunni við Granda strax á eftir áður en ég fór heim. Korter fyrir tvö skundaði ég hratt yfir á BSÍ og var mætt þangað áður en "Gleðigangan 2015" fór af stað. Fylgdist með öllum atriðunum og arkaði svo á eftir því síðasta, bleika víkingaskipinu hans Páls Óskars og föruneytis. Þetta var í allra fyrsta skipti sem ég fór á þennan viðburð og vá, hvað þetta var magnað. Hitti Inger og eina aðra vinkonu hennar rétt við Ráðhúsið. Þá var mannhafið farið að verða heldur mikið fyrir minn smekk og við drógum okkur út úr, löbbuðum smá hring og settumst svo inn í Iðnó og fengum okkur fiskisúpu og hvítvínsglas.

Labbaði aftur heim beint yfir Skólavörðuholtið sennilega um fimm eða þar um bil. Kvöldið fór í netvafr og imbagláp en ég var með saumatöskuna hjá mér, opnaði hana þó ekkert í þetta sinn.

8.8.15

Áttundi áttundi fimmtán

Eitthvað var mig að dreyma og ég ekki alveg tilbúin að vaknar þegar vekjarinn í gemsanum hringdi klukkan 05:55 í gærmorgun. Ýtti á "blunda/snoose" takkann og snéri mér smá stund á hina hliðina. Áður en tíu mínúturnar voru liðnar var ég búin að slökkva alveg á vekjaranum og byrjuð að sinna hefðbundnum morgunverkum. Rétt rúmlega hálftíma síðar var ég komin í Laugardalinn. Synti eitthvað smá en fór svo í pottadýfingarnar með Lenu sem var þegar byrjuð að dýfa sér. Ég náði fjórum ferðum með henni en sú fyrsta varaði reyndar aðeins í hálfa mínútu áður en hún var búin með sínar tvær. Ég sat eitthvað lengur áður en ég elti hana í heita pottinn og þegar hún var búin þar elti ég hana beint í kalda pottinn. Eftir fjórðu ferðina fór ég örstutt í heitasta pottinn og svo smástund í sjópottinn áður en ég dreif mig upp úr og í vinnuna.

Átta síðustu vinnuklukkustundirnar fyrir sumarfrí liðu alveg ótrúlega hratt. Reyndar var klukkan orðin hálffimm áður en ég fór út af vinnustaðnum en það var vegna þess að ég fór að spjalla smávegis við eina sem kemur í vinnu seinni partinn.  Fljótlega eftir að ég kom heim kom kattapössunarungimaðurinn heim því hér var spilakvöld í gærkvöldi milli klukkan sjö og ca ellefu. Ég fékk að hafa stofuna útaf fyrir mig og greip aðeins í saumana mína og glápti á imbann næstum því allan þennan tíma. Afar notaleg kvöldstund það.

7.8.15

Sjöundi ágúst

Fór gangandi milli heimilis og vinnu bæði í vinnuna og heim aftur. Tók smá krók á heimleiðinni, þ.e. ég stoppaði við á Lækjartorgi hjá einni vinkonu minni sem er búin að vera með sölubás þar. Hún var að taka saman básinn og svo urðum við samferða áleiðis heim til hennar en við kvöddumst  á Hverfisgötunni rétt við Vatnsstíginn.

Steikti þorsk í matinn en leyfði unga manninum að velja hvort hann vildi borða það eða afganginn af því sem hann eldaði kvöldið áður og hann valdi seinni kostinn.

Var eitthvað að spá í að heimsækja einn frænda minn og konuna hans í gærkvöldi. Var með gemsanúmerið hans í gemsanum mínum og það sem ég hélt að væri heimanúmerið. Hringdi úr heimasímanum mínum í þetta tiltekna númer og fékk samband við nafna frænda míns en sá maður býr á Höfn en ekki á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég uppgötvaði mistökin varð mér á orði við manninn að mér hefði verið bent á að koma mér upp kunningjum á þessu svæði en ég ætlaði nú kannski ekki að fara alveg svona að því, baðst afsökunar, kvaddi og leitaði uppi heimanúmerið hjá frænda mínum. Í ljós kom að hann er einungis skráður með gemsanúmerið í símaskráinni (ja.is) en það er konan hans sem er skráð á heimasímann. Ekkert varð reyndar úr heimsókninni að þessu sinni en ég spjallaði stuttlega við konuna hans í símann.

Annars er fátt að frétta nema ég veit að skrifin hérna verða eitthvað stopulli á næstunni þar sem ég mun ekki leggja neina áherslu á að komast í tölvu hluta af sumarfríinu mínu. Ætla jafnvel að sjá til með hvort ég "leggi niður" skrifin næsta mánuðinn eða svo. Hef nú reyndar ekki trú á því en það kemur í ljós.

6.8.15

Tuttugu og tveir tímar

Ég var mætt í Laugardalinn rétt áður en laugin var opnuð í gærmorgun eða líklega um tvær mínútur í hálfsjö. Synti 300 metra og hitti Lenu í kalda pottinum í hennar annarri ferð. Dýfði mér þrisvar sinnum tvær mínútur í viðbót með henni (alls 4x) og fór í 42°C heita pottinn á milli. En eftir síðustu kaldapotts ferðina mína fór ég í heitasta pottinn, einnig örstutt í sjópottinn og sat svo úti í uþb fimm mínútur áður en ég fór upp úr og í vinnuna. Bað um leyfi til að hætta vinnu fyrr eða um tvö. Fór þá fyrst með lánsbílinn í snertilausu þvottastöðina við Skúlagötu og beint þaðan í Smurstöð Olís við Klöpp. Þar var smá bið eða amk þrír bílar á undan en ég afhenti bíllyklana og fékk fríkeypis kaffi í bensínversluninni á meðan ég beið. Það var það mikið að gera á smurstöðinni að ég var ekki látin vita um leið og bíllinn var tilbúin heldur sá ég það sjálf þegar ég athugaði málið ca klukkutíma síðar. Á nýþvegnum og nýsmurðum lánsbílnum skrapp ég fyrst í Krónuna í Nóatúni áður en ég fór heim. Heima voru foreldrar mínír nýlega mætt á svæðið og pabbi var að setja upp fyrir mig handsmíðaðan grip fyrir aukarúllurnar á salerninu. Virkilega flott. Ég hellti upp á og fann eitthvað til með kaffinu en þau áttu eftir að útrétta aðeins meira áður en þau fóru aftur austur og stoppuðu aðeins til klukkan að verða fimm. Eftir að hafa kvatt þau skrapp ég með Davíð Stein í Kringluna svo hann gæti kíkt á útsölu í Dressmann og keypt sér nýjar buxur og peysu. Ungi maðurinn sá svo um að elda kvöldmatinn og fékk að bjóða vini í mat en ég ryksugaði upp verksummerkin um uppsetningu "nýju græjunnar" inn á baði.

5.8.15

Byrjuð að telja niður

Þar sem ég skrapp í sund um kvöldmatarleytið á mánudagskvöldið ákvað ég að labba í vinnuna í gærmorgun. Lagði kannski heldur tímanlega af stað eða rétt um sjö því þrátt fyrir að fara ekki alveg stystu og beinustu leið var ég mætt í vinnu rétt upp úr klukkan hálfátta. Níu tímum og ýmsum verkefnum seinna trítlaði ég aftur heim, beinustu leið yfir Skólavörðuholtið. Neðst á Skólavörðustígnum var búið að mála regnbogalitina á smá parti til að undirbúa "Hinsegin daga". Gerði fátt af mér í gærkvöldi en náði þó að fara yfir tvo stærstu pokana af notuðum fötum sem mér áskotnuðust í síðustu viku. Á þá bara eftir að fara yfir tvo minni pokana og kíkja svo aðeins aftur yfir það sem ég taldi mig geta notað. Verð líklega að máta eitthvað af þeim flíkum til að vera viss hvort ég passi í þær eða fíli að vera í þeim. Horfði á imbann milli átta og klukkan að ganga tíu en slökkti þá á sjónvarpinu, vafraði aðeins um á netinu og fór svo upp í rúm með góða bók áður en klukkan sló ellefu.

4.8.15

Langa helgin liðin

Við pabbi borðuðum morgunmatinn saman í gærmorgun á svipuðum tíma og á sunnudagsmorguninn. Ég náði að vera aðeins á undan inn í eldhús en hann var nú örugglega vaknaður löngu á undan mér. Pabbi fór fljótlega út í skúr og á bak við hús til að halda áfram kofasmíði, kofa undir garðáhöld sem á að leysa þann sem var rifinn niður í síðustu viku af. Ég dundaði mér við ýmislegt og var dagurinn frekar fljótur að líða. Eftir hádegi skrapp ég í örstuttan göngutúr og rak aðeins inn nefið hjá vinkonu í Nestúninu. Davíð Steinn var búinn að ákveða að vera fram yfir kaffitíma þannig að klukkan var að byrja að ganga fimm þegar við tókum saman dótið okkur, kvöddum og lögðum af stað heim. Þegar heim kom, um hálfsex, fór ég inn með dótið mitt, heilsaði upp á Odd og tvo spilafélaga, tók til sunddótið og skrapp strax yfir í Laugardalslaugina. Davíð Steinn fór að spila við bróður sinn og vinina. Ég kom heim úr sundi á áttunda tímanum og sat svo yfir imbanum til klukkan ellefu og horfði á efnið í þeirri röð sem ég valdi sjálf.

3.8.15

Komin aftur heim

Hún var um tuttugu mínútur gengin í níu þegar ég glaðvaknaði í gærmorgun. Var aðeins á eftir pabba mínum fram en hann var þó bara rétt byrjaður á morgunmatnum sínum svo við náðum eiginlega að borða saman. Hann fór fljótlega út í garð að vinna að nýjum koma fyrir garðáhöldin. Ég  kveikti á tölvunni og vafraði aðeins um en settist líka aðeins við saumana mína inn í stofu. Um tíu ákvað ég að fá mér labbitúr upp á Helluvaði og byrjaði á því að heimsækja föðursystur mína. Átti gott spjall og góða stund með henni. Síðan ákvað ég að reka aðeins inn nefið inn hjá syni hennar og hitti þar fyrir tengdadótturina sem var að gefa næstyngsta barnabarninu sínu pela og ungu foreldrana. Talaði reyndar mest við nöfnu mína og kjáði í litla frænda. Stoppaði sama og ekkert enda var það ekki ætlunin, heldur bara hitta aðeins á "fólkið mítt".

Eftir hádegi saumaði ég aðeins meir en spurði svo unga manninn hvort hann vildi koma í bíltúr. Lögðum í hann rétt fyrir tvö, keyrðum upp Rangárvelli, framhjá Heklubæjunum og yfir í Holta- og Landsveit og komum niður alveg við Landvegamót. Komum mátulega til baka í kaffið um hálffjögur þrátt fyrir að hafa á köflum aðeins ekið á 20km hraða. En mikið rosalega er "sveitin mín" falleg!  :-)

Mamma bað mig um að setja upp folaldakjöt um fimm og það varð úr að ég sá um kvöldmatinn sem var eiginlega frekar létt því potturinn sá um kjötið og svo setti ég upp kartöflur og bjó til kartöflumús úr þeim þegar þær voru soðnar. Allir borðuðu með bestu lyst og eftir að Davíð Steinn hafði jafnað sig aðeins varð hann við ósk ömmu sinnar og reitti aðeins úr brekkunni.

2.8.15

Aðeins út úr bænum

Þótt ég hafi ekki stillt á mig neina klukku áður en ég fór að sofa í fyrrakvöld var ég vöknuð fyrir átta í gærmorgun. Fór reyndar ekki alveg strax á fætur. Heyrði að "kattagæslupilturinn" var kominn á stjá en þegar ég fór fram var hann greinilega farinn að huga að köttunum. Var á rólegu nótunum og sinnti ýmsu áður en ég lagði af stað í sund. Eftir "sundsprettinn" hitti í svo vel á að Lena var nýkomin ofan í kalda pottinn. Sat aðeins lengur eftir að hún fór yfir í heitari pott en lagaði mig svo að hennar ferðum næstu þrjár ferðir milli kalda og heita pottsins. En þegar hún fór sjöttu ferðina í þann kalda fór ég yfir í sjópottinn enda búin með 4x2 mínútur í kalda pottinum.

Á slaginu ellefu var ég mætt til norsku esperanto vinkonu minnar og þar var ég næstu tvo tímana og lásum við m.a. nokkrar blaðsíður í sögubók sem gefin var út árið 1930 og er skrifuð á esperanto. Fljótlega eftir að ég kom heim setti ég niður í töskur og svo drifum við Davíð Steinn okkur austur á Hellu. Vorum komin þangað um fjögur, beint í kaffið. Seinna hjálpaði ungi maðurinn ömmu sinni að búa til fiskisúpu og tókst þeim afar vel upp. Ég bauð upp á hvítvín með súpunni og þótti ekki verra að setja smá lögg út í sjálfa súpuna.

1.8.15

Ágústmánuður að taka fyrstu skrefin

Þriðja morguninn í vikunni var ég mætt í Laugardalinn fyrir sjö. Í gærmorgun var ég mætt rétt upp úr hálfsjö. Hafði alveg tíma til að synda 3-400 metra en þegar ég var búin að synda 200 sá ég að Lena var að dýfa sér í kalda pottinn og ég ákvað strax að dýfa mér með henni. Ferðirnar í kalda pottinn urðu fjórar, allar í um tvær mínútur. Í einni ferðinni kom stúlka sem vinnur þarna og hugðist mæla hitann á pottinum. Við Lena vorum frekar forvitnar og báðum um nýjustu tölur en annað hvort var mælirinn bilaður eða potturinn það kaldur að það mældist enginn hiti.

Vinnudagurinn leið hratt og lengdist aðeins í annan endann hjá mér en þó aðeins um klukkustund. Var m.a. að sinna rútínuvinnu í sambandi við mánaðamótin og vildi ljúka við að yfirfæra yfir í ágúst svo það verði sem minnstar tafir á framleiðsluuppgjöri eftir helgi.

Þegar ég kom heim var kattagæsluungimaðurinn kominn enda voru bræðurnir og tveir félagar þeirra búnir að ákveða að hafa spilakvöld. Ég hafði hug á því að skreppa í heimsókn til eins frænda míns í gærkvöldi en áður en ég vissi af var ég farin að horfa með athygli á fyrstu bíómynd RÚV eftir fréttir og þótt ég hafi séð hana áður þá gat ég ekki slitið mig frá imbanum svo þetta endaði allt saman með því að ég hafði það notalegt fyrir framan skjáinn fram eftir kvöldi með handavinnutöskuna óopnaða við hliðina á mér.