Fór gangandi milli heimilis og vinnu bæði í vinnuna og heim aftur. Tók smá krók á heimleiðinni, þ.e. ég stoppaði við á Lækjartorgi hjá einni vinkonu minni sem er búin að vera með sölubás þar. Hún var að taka saman básinn og svo urðum við samferða áleiðis heim til hennar en við kvöddumst á Hverfisgötunni rétt við Vatnsstíginn.
Steikti þorsk í matinn en leyfði unga manninum að velja hvort hann vildi borða það eða afganginn af því sem hann eldaði kvöldið áður og hann valdi seinni kostinn.
Var eitthvað að spá í að heimsækja einn frænda minn og konuna hans í gærkvöldi. Var með gemsanúmerið hans í gemsanum mínum og það sem ég hélt að væri heimanúmerið. Hringdi úr heimasímanum mínum í þetta tiltekna númer og fékk samband við nafna frænda míns en sá maður býr á Höfn en ekki á höfuðborgarsvæðinu. Þegar ég uppgötvaði mistökin varð mér á orði við manninn að mér hefði verið bent á að koma mér upp kunningjum á þessu svæði en ég ætlaði nú kannski ekki að fara alveg svona að því, baðst afsökunar, kvaddi og leitaði uppi heimanúmerið hjá frænda mínum. Í ljós kom að hann er einungis skráður með gemsanúmerið í símaskráinni (ja.is) en það er konan hans sem er skráð á heimasímann. Ekkert varð reyndar úr heimsókninni að þessu sinni en ég spjallaði stuttlega við konuna hans í símann.
Annars er fátt að frétta nema ég veit að skrifin hérna verða eitthvað stopulli á næstunni þar sem ég mun ekki leggja neina áherslu á að komast í tölvu hluta af sumarfríinu mínu. Ætla jafnvel að sjá til með hvort ég "leggi niður" skrifin næsta mánuðinn eða svo. Hef nú reyndar ekki trú á því en það kemur í ljós.