30.9.20

Ein vöknuð af fjölskyldunni

N1 sonurinn er á frívakt í dag og á morgun svo hann má sofa lengur ef hann vill og gerir það eflaust. Kvikk sonurinn á ekki vakt fyrr en klukkan fjögur í dag og ef ég þekki hann rétt kemur hann ekki fram fyrr en eftir klukkan eitt. Sjálf stillti ég ekki á mig klukku og þrátt fyrir að það hafi aðeins verið komið fram yfir miðnætti þegar ég fór að sofa þá rumskaði ég klukkan sjö. Kveikti á útvarpinu fljótlega og reyndi að kúra aðeins en á endanum var það blaðran sem rak mig framúr.

Ég mætti í Laugardalslaugina stuttu fyrir klukkan fimm í gærdag. Kalda potts vinkona mín er yfirleitt í leikfimi tíma í Laugum til rúmlega fimm og ég taldi mig hafa smá tíma til að synda nokkrar ferðir. En á meðan ég var í sturtunni kom vinkona mín inn að athuga með mig, hafði ákveðið að sleppa leikfimitímanum og var þegar búin að fara eina ferð í þann kalda. Hún kom sex ferðir í viðbót með mér og eftir mína sjöttu ferð fór ég í gufu, kalda sturtu og upp úr. Synti ekkert.

Það biðu mín skilaboð frá tvíburahálfsystur minni á þá leið hvort hún ætti ekki að kippa mér með um kvöldið sem ég þáði. Hún náði í mig rétt fyrir klukkan átta og leiðin lá á Grettistgötuna þar sem sú þriðjað sem er í hópnum er nýbúin að koma sér fyrir í kósý 40fm íbúð sem hún er með á langtíma leigu. Það urðu fagnaðarfundir og þrír tímar liðu ógnarhratt.

Byrjaði að lesa Heift eftir Kára Valtýsson í gærkvöldi. Bókin ku vera sjálfstætt framhald á Hefnd sem ég hef ekki lesið.

29.9.20

Þriðjudagsmorgun

Ég var vöknuð um sjö og hefði betur rifið mig strax á fætur. Þess í stað kveikti ég á útvarpinu og var að spá í að grípa í bók. Greip samt fyrst í símann og renndi aðeins í gegnum mbl.is, vedur.is og facebook. Um hálfátta heyrði ég umgang frammi sem fékk mig til þess að drífa mig á fætur. N1-sonurinn hafði snúsað vekjaraklukkuna og vaknað aftur um það leyti sem hann átti að vera mættur í vinnu upp á Gagnveg. Líkt og í gær bauð ég honum far sem hann þáði. Hann hefði að öllum líkindum splæst í leigubíl til þess að verða þó ekki meira en hálftíma of seinn. Ákvað að tékka á loftþrýstingnum á hjólbarðanum sem ég pumpaði í í gærmorgun. Hann var kominn niður í 27 og ég pumpaði hann aftur upp í 33. Líklega er ventillinn að gefa sig.

Um fimm í gær var ég mætt í Nauthólsvík. Systurnar voru búnar að fara fyrr um daginn þar sem þær voru með önnur plön eftir klukkan fimm. Vinkona annarrar þeirra, sem slóst í hópinn sl. laugardagsmorgun mætti, önnur Helgan kynnti okkur fyrir skólasystur sinni úr grunnskóla og hin mætti með yngri afleggjarann sinn. Góður hópur þetta. Það var flóð, sjórinn 7,5°C og við syntum öll út að kaðli. Dásamlegt. Á heimleiðinni kom ég aðeins við í vinnunni hjá Oddi.

Í gærkvöldi byrjaði ég að lesa þriðju bókasafnsbókina; Kláði eftir Fríðu Ísberg. Þetta eru 12 smellnar smásögur og ég er búin að lesa fjórar fyrstu.

28.9.20

Morgunstund á mánudegi

Ég rumskaði rétt upp úr klukkan sjö í morgun rétt áður en ég heyrði að annar sonurinn var á ferðinni. Reiknaði það út að það væri N1 sonurinn og að hann væri orðinn of seinn. Dreif mig á fætur og náði syninum áður en hann var kominn fram í gang. Hann hafði sofið yfir sig, átti að vera mættur í vinnu eftir tæpar tuttugu mínútur og hann er amk 40 mínútur með strætó. Ég sagðist skyldu skutla honum og hann þáði það með þökkum. Ég gaf mér tíma til að pissa og þvo mér um hendurnar en fékk mér extra tyggjó í stað þess að bursta tennurnar. Rétt eftir að við mæðgin vorum lögð af stað fór mælaborðið að væla og biðja mig um að athuga þrýstinginn á hjólbörðunum. Um er að ræða framdekkið farþegameginn og ég pumpaði síðast í það seinni partinn á föstudaginn var. Ákvað að þetta yrði í lagi þar til ég væri búin að koma syninum í vinnuna upp á Gagnveg. Vorum komin þangað á slaginu hálfátta. Pumpaði í dekkið áður en ég fór aftur heim og skilaboðin í mælaborðinu hurfu. Nú er bara spurning hvort ég þrjóskist við að láta líta á þetta þar til löglegt verður að láta setja nagladekkin undir, pumpi bara annan til þriðja hvern dag?

Kom heim aftur rétt fyrir klukkan átta. Settist beint inn í stofu og prjónaði nokkrar umferðir af nýjustu tuskunni. Í gærkvöldi lauk ég við að lesa bókasafnsbókina með stysta skilafrestinn. Eftir að hafa prjónað smá stund greip ég í þynnstu bókina og hætti ekki að lesa fyrr en ég var búin með þessar 62 örsögur á 70 blaðsíðum; Sólardansinn eftir Þóru Jónsdóttur. Að lestri loknum fór ég loksins fram í eldhús, fékk mér lýsi, vítamín, og eina sneið af sviðasultu frá SS. Hellti upp á 2 bolla af kaffi og setti uppþvottavélina af stað.

Í gærmorgun var ég mætt í sund rétt upp úr klukkan níu. Byrjaði á einni ferð í þann kalda, synti í tuttugu mínútur og fór svo fimm ferðir í viðbót í þann kalda og oftast þann heitasta inn á milli. Kom við í Kvikk á leiðinni heim og sníkti kaffi af Oddi og spjallaði við hann á meðan ég var að klára úr bollanum. Dagurinn fór svo í lestur, prjón, netvafr og smá þátta og sjónvarpsgláp.

26.9.20

Heima

Ég var vöknuð einhver tímann á áttunda tímanum í morgun. Dreif mig þó ekki framúr fyrr en klukkan var farin að nálgast hálfníu. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég með prjónana mína og eina safnbókina inn í stofu. Byrjaði að lesa þá bók í gærkvöldi. Um er að ræða nýja bók með 14 daga skilafresti; Það sem fönnin felur eftir Carin Gerhardsen. Mjög svo spennandi bók upp á rúmlega 360 bls. Prjónaði nokkrar umferðir áður en ég fór að lesa. Rétt fyrir klukkan tíu náði ég að slíta mig frá lestrinum til að búa mér til hafragraut og hella upp á.

Var mætt í Nauthólsvíkina fyrir ellefu, áður en aðstaðan opnaði. Þó nokkuð af fólki var komið í sjóinn, hafði bara "græjað" sig heima og/eða var í sundfötunum innan undir og geymdi dótið á bekkjum eða á steinunum. Flestir úr mínum hóp og tvær vinkonur að auki mættu um það leyti sem aðstaðan opnaði. Sú sem stofnaði hópinn kom örlítið seinna og henni fylgdu báðir afleggjararnir og tengdadóttirin. Sjórinn var 8,2°C og það endaði með að allur þessi hópur synti út að kaðli. Ég er ekki enn búin að fjárfesta í nýjum sundgleraugum en ég synti samt bæði bringu, skrið og baksund og þegar ég syndi á bringunni er ég ekki að teygja hausinn upp, andlitið fer í vatnið/sjóinn enda er hitt mjög slæmt fyrir hnakkann.

Strákarnir mínir létu loksins verða af því að fara með ónýtt grillið af svölunum og leggja því við grindverkið í innkeyrslunni. Þeir voru reyndar ánægðir með að hafa ekki farið í þetta verk fyrr í sumar því þeir fundu geitungabú í grillinu.

25.9.20

Vinnuviku lauk áður en klukkan varð hálfþrjú í dag

Tíundi og síðasti vinnudagurinn í þessum mánuði var í dag. Þessi viku hefur ekki verið alveg eins krefjandi og sú sem var fyrir hálfum mánuði hvað þá sú sem var fyrir mánuði. Vorum aldrei lengur en til klukkan fjögur og gátum leyft okkur þann munað að fara heim aðeins fyrr. Skildum eftir okkur hreint borð hvað framleiðslu varðar og við náðum einnig að klára að taka upp og telja stóra kortasendingu sem kom rétt áður en við fórum heim föstudaginn 11. septemer sl. Hitt gengið náði að opna og telja 10000 kort úr einum kassanum. Í gær fengum við einn af strákunum frammi til að hjálpa þeirri sem var í bókhaldinu að telja upp úr einum kassanum af þeim þremur sem eftir var að opna. Í þeim kassa voru tæp 13000 kort og í dag lukum við að taka upp úr síðustu tveimur kössunum, 20000 kort í viðbót, allt sama tegundin. Labbaði í vinnu fjóra daga af fimm og labbaði aftur heim tvo daga af þessum fjórum, í gær og fyrradag. Var komin heim rétt upp úr fjögur, hellti mér í bæði skiptin upp á smá kaffi en fór svo og hitti kaldapottsvinkonum mína í Laugardalnum.

Í dag fékk ég far heim og var komin rétt upp úr hálfþrjú. Hellti upp á og hringdi svo í pabba. Hafði ekki hringt í hann síðan á þriðjudag og töluðum við saman líklega í tæpan hálftíma, fyrst í heimasímann en svo "dó" minn sími í miðju samtali svo ég hringdi úr gemsanum í gemsann hans pabba og það símtal varði í tæpt korter.

Um hálffjögur fór ég á bókasafnið og skilaði þremur síðustu bókasafnsbókunum og fékk lánaðar 7 aðrar í staðinn. Af safninu fór ég beint í laugardalslaugina þar sem ég synti 400m, fór tvisvar í þann kalda og elti svo aðra mágkonu hennar mömmu í steinapottinn og spjallaði við hana þar til við fórum upp úr.

23.9.20

Vinnuvikan meira en hálfnuð

Ég fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Hann er aftur byrjaður að kvarta undan ójöfnum dekkjaþrýsting og ég held að það sé helst framhjólið farþegamegin sem kvartar mest. Eftir vinnu fór ég beint í sund í Laugardalnum. Ekki voru til sundgleraugu í mínum styrk, -1 en ég synti samt 400 metra. Fór aðeins einu sinni í þann kalda og sat svo á spjalli við eina sem ég hitti oft í sundi. Um fimm fór ég upp úr. Kom við í Krónunni við Nóatún og svo örstutt hjá Oddi á Kvikk en þar var ég aðallega að nýta mér loftdæluna úti.

Var vöknuð klukkan fimm í morgun einhverra hluta vegna, þá búin að sofa um sex tíma. Var komin á fætur upp úr klukkan sex og ég bjó til tvöfaldan skammt af hafragraut. Davíð Steinn borðaði helminginn á móti mér áður en hann fór í sína vinnu. Ég labbaði af stað í mína vinnu um sjö og var rétt rúman hálftíma að labba 3,2km. Labbaði af stað heim aftur um hálffjögur. Hellti upp á einn kaffi og fékk mér smá snarl áður en ég dreif mig í Laugardalinn. Bíllinn kvartaði ekkert. Hitti eina mágkonu mömmu og sat í sjópottinum (sem reyndar er enginn sjór í þessa dagana) og spjallaði við hana þar til kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Þá elti ég hana fimm ferðir í þann kalda, var þegar búin að fara eina ferð. Sleppti því að synda og var komin heim um hálfsjö. 

21.9.20

Vinnuvika hafin

 Ég fór í Laugardalslaugina á laugardagsmorguninn eftir að hafa skutlað N1 syninum á vakt upp á gagnveg um átta. Synti 500 áður en ég fór í þann kalda. Kaldi potturinn var hins vegar langt frá því að vera í lagi, hálftómur og 14°C heitur. Eftir að hafa skutlað sunddótinu heim, hellt mér upp á kaffi og pakkað niður skutlaðist ég vestur í bæ eftir fötunni hans pabba. Var komin austur fljótlega upp úr hádeginu og mætti pabba nánast í dyrunum. Hann var á leiðinni út í búð og ég dreif mig með honum. Þegar við komum úr búðinni horfðum við á fundinn og svo skellti ég í pönnsur með kaffinu í tilefni þess að mágur minn varð fimmtugur þennan dag. Pabbi bauð svo upp á saltfisk í kvöldmatinn og í hádeginu á sunnudag steikti ég bleikjuflak og gufusauð blómkál, brokkolí og lauk til að hafa með. Inn á milli þessara matarstunda var ég að prjóna, lesa, leggja kapla, spjalla við pabba og vafra á netinu. Kvaddi pabba fljótlega eftir síðdegiskaffið í gær.

Þegar ég rumskaði í morgun heyrði ég að það var hellirigning. Það var hætt að rigna um það leyti sem ég trítlaði af stað í vinnuna um sjö. Vinnudagurinn var alls konar en við náðum að klára allt daglegt og byrja á endurnýjun áður en við hættum vinnu um hálffjögur. Ég fékk far heim úr vinnunni og var mætt í Nauthólsvík rétt fyrir hálffimm í 8°C fjöru og smá öldugang. Hitti Helgurnar og annan afleggjarann en systurnar voru vant við látnar.

18.9.20

Vikan að verða búin

Það er kominn föstudagur. Tíminn brunar áfram hvort sem maður gerir eitthvað eða ekkert.  Á miðvikudaginn hitti ég þrjár af fjórum úr sjósundshópnum mínum í Nauthólsvík um það leyti sem opnað var. Það var svo mikil fjara að ég hafði það sterklega á tilfinningunni að við gætum vaðið alveg yfir til Kópavogs. Sjórinn var 9,3°, við svömluðum um í uþb tuttugu mínútur áður en við skelltum okkur smá stund í pottinn.

Skilaði sex bókum af níu á safnið og náði að koma mér út af safninu áður en ég fór að hamstra fleiri bækur þannig að ég er aðeins með þrjár af safninu í fórum mínum. Eina af þeim, Boðorðin eftir Óskar Guðmundsson byrjaði ég að lesa þetta kvöld og ég kláraði hana í gær. Eins og bókin byrjaði örlítið furðulega að mér fannst þá náði hún mér fljótlega og ríghélt.

Í gærmorgun ætlaði ég með bílinn í árlegt alþrif hjá Bónstöðinni við Stórhöfða. Þegar ég setti bílinn í gang fékk ég strax skilaboð um að athuga með loftþrýstingin á hljólbörðunum. Sú athugasemd hefur ekki komið síðan um miðjan júní. Ákvað samt að fara fyrst upp á Stórhöfða. Var mætt tíu mínútum fyrir níu. Það var ekki búið að opna og þá þegar var kominn einn í röðina. Eftir smá umhugsun ákvað ég að bíða með þetta verkefni aðeins lengur. Fór alla leið á N1 við Skógarsel til að nota pumpu þar.

Um hádegisbilið náði ég í sendingu frá húseigendafélaginu sem ég kom svo yfir á gjaldkera sameiginlegs húsfélags síðar um daginn. Kom einnig við í Fiskbúð Fúsa og keypti nætursalataða ýsu í soðið.  Klukkan var byrjuð að ganga fimm þegar ég dreif mig loksins í sund en það var vegna þess að ég ætlaði að hitta á kalda potts vinkonu mína um fimm en ætlaði að vera búin að synda áður. Það gekk eftir og ég var meira að segja búin að fara eina ferð í þann kalda og fór svo sex ferðir í viðbót.

15.9.20

Sjórinn seinnipartinn í gær morgunsund í dag

Hluti af gærdeginum fór í að sinna málefnum fyrir heildarsameign Drápuhlíðar 19-21. Sendi fyrirspurn á direkta til að fá tilboð í eignaskiptasamningsgerð fyrir allan húskassann, skrifaði inn á sameiginlega svæðið um nokkur atriði og sendi einnig póst á þann sem ætlar að vera milliliður milli okkar og verktaka til að upplýsa hann um stöðuna.


Sjósundshópurinn minn var allur mættur í Nauthólsvík um hálfsex í gær. Þar að auki var með annar afleggjari einnar úr grúppunni piltur sem varð tvítugur á hlaupársdag í ár (eða varð hann þá bara fimm ára?) Það var flóð, sjórinn 9,7°, lofthiti um 10°, rigninig á köflum en lítil ferð á logninu. Við syntum út að kaðli á 13 mínútum og svömluðum þar um í tæpar tíu í viðbót áður en við fórum upp úr og röltum í pottinn. Kvöddumst rétt fyrir sjö, allar á því að hittast aftur við opnun á miðvikudag, eða um ellefu á morgun.


Áður en ég fór heim reyndi ég að hringja í einn frænda minn. Var að fjárfesta í hakki hjá mömmu hans og átti að nálgast það til hans. Hann var á æfingu en ég náði sambandi við konuna hans og þegar hann hringdi til baka var ég á leiðinni að sækja hakkið. Þótt ég stoppaði ekki neitt náði ég að hitta aðeins á þennan frænda minn. Þegar ég kvaddi var klukkan að verða tuttugu mínútur yfir sjö. Ákvað að hringja í N1 soninn sem var á vakt til hálfátta við Gagnveg og sagðist vera á leiðinni að sækja hann.


Í morgun var ég vöknuð rétt fyrir klukkan sex. Greip aðeins í bók; Selta [apókrýfa úr ævi landlæknis] eftir Sölva Björn Sigurðsson.  Ég er nýbúin að klára Ástin Texas: sögur, eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Og þá er ég einnig búin með skammtímalánsbókina sem ég á að skila á fimmtudaginn. Fór á fætur korter fyrir sjö og bauð N1 syninum að skutla honum til vinnu. Hann þáði farið og náði þá að skreppa í sturtu áður en við þurftum að leggja af stað. Hann var mættur vinnu á slaginu hálfátta og ég í sund rúmu korteri síðar. Synti 500, kaldi 3x3mín, heiti 2x4mín og gufa í líklega tíu mínútur áður en ég fór upp úr og heim.

14.9.20

Mánudagsmorgun

Ég var komin í bæinn rétt fyrir klukka sex í gær. Fór beint í sund og byrjaði á því að synda. Eftir 300 metra ætlaði ég að dýfa mér í kalda pottinn en hann var þá lokaður. Fór smá stund í þann heitasta og ákvað svo að kalla þetta gott í bili. Var komin heim fyrir klukkan sjö. Þurfti að leggja í Blönduhlíð en ég komst í einni ferð með allt dótið mitt, því já ég pakkaði fyrir viku þótt ég væri bara rétt rúman sólarhring. Hefði getað trítlað á Valsvöllinn og athugað hvort pláss væri fyrir mig sem einn af 200 áhorfendum en ákvað að kíkja bara reglulega á stöðuna á mbl.is-beinum lýsingum.

Klukkan var alveg að detta í miðnætti þegar ég slökkti á leslampanum á náttborðinu mínu seint í gær. Engu að síður var ég vöknuð fyrir klukkan sjö. Þar sem ég má ekki mæta á vinnustað í þessari viku, kveikti ég bara á útvarpinu og lá fyrir aðeins lengur. Var samt komin á fætur áður en klukkan varð átta. Er búin að senda af stað fyrirspurn til fyrirtækis sem heitir direkta og gerir m.a. eignaskiptasamninga og biðja um tilboð í að gera  heildareignaskiptasamning fyrir húsfélag Drápuhlíð 19-21.

Næsta mál á dagskrá er að fá sér morgunmat, lýsi, vítamín og hella upp á smá kaffi áður en lengra er haldið. Seinni partinn í dag ætla ég í sjóinn og hitta þar Helgurnar og systurnar. Hvað gerist í millitíðinni mun ég kannski segja frá síðar.

13.9.20

Í heimsókn hjá pabba

 Í gærmorgun var ég komin á fætur upp úr klukkan átta. Það var samt ekki fyrr en klukkan tíu að ég bjó til matarmikinn og þykkan hafragraut og hellti í leiðinni upp á 2 bolla af kaffi. Rétt fyrir ellefu var ég mætt í Nauthólstvík með sjósundsdótið mitt. Við mættum allar fimm úr nýstofunum svokölluðum boðsundshóp sem ég vildi nú frekar kalla; Helgurnar, systurnar og Anna. Hvað um það sjórinn og lofthitinn sá sami 10°C, fjara og við syntum út að kaðli á uþb 13 mínútum og svömluðum þar um í sjö mínútur í viðbót áður en við fórum upp úr og í heita pottinn.

Næst lá leiðin í Krónuna við Granda og áður en ég fór heim með vörurnar kom ég við hjá Oddi í Kvikk og sníkti einn bolla af kaffi. Heima gekk ég frá vörunum, sótti þvott á snúrurnar, pakkaði niður í tösku og bakpoka og kvaddi Davíð Stein áður en ég lagði af stað austur. Hringdi í pabba og tvíburahálfforeldra mína áður en ég lagði af stað og kom við hjá þeim síðarnefndu á leiðinni. Stoppaði innan við klukkutíma á Selfossi þrátt fyrir að langt er síðan ég kom þar við síðast en ég var komin á Hellu um fjögur. Við pabbi skruppum í búðina eftir nokkrum nauðsynjum. Í gærkvöldi gufusauð ég blómkál, niðurskorna karföflu og einn niðurskorinn lauk saman í potti og steikti marinerað bleikjuflak sem pabbi átti í frysti. Með þessu drukkum við vatn, hvítt (ég) og rautt (pabbi).

Þrátt fyrir að framundan sé vika sem ég verð að halda mig fjarri vinnustað er ég á leiðinni í bæinn. Ætla í sund, kannski á Valsvöllinn og svo þarf ég að afhenda nágrannanum í risinu, sem er að selja íbúðina sína, gögn frá aðalfundinum sem hún vill hafa aðgengileg fyrir tilvonandi nýja íbúa. Ég er líka með nokkur önnur markmið á prjónunum (fyrir utan tuskur) fyrir komandi viku. M.a. að splæsa á bílinn alþrif innan og utan líkt og ég gerði í fyrra.

11.9.20

Fyrsta grímu-uppsetningin

 Þrátt fyrir fínasta gönguveður fór ég á bílnum í vinnuna í morgun. Ég var í bókhaldsvinnunni og þar af leiðandi aðalsmiður skýrslugerð vikunnar til að upplýsa hinn hópinn um eitt og annað. Kalla þurfti til viðgerðarmann í þriðja sinn í vikunni en það náðist að ljúka deginum. Sumt var framleitt á þá gömlu vegna vesens á nýju vélinni. Held að hópurinn minn hafi komist klakklaust frá þessari viku og leyst flest verkefnin mjög vel af hendi. Ég kvaddi korter yfir þrjú og skildi hinar tvær eftir með viðgerðarmanninum sem vonandi var ekki lengur en til fjögur.

Var mætt á Kristu Quest við Laugaveg rétt fyrir hálffjögur. Klipparinn minn og aðrir á stofunni voru með grímur og ég var spurð hvort ég væri ekki með grímu á mér og beðin um að setja upp. Ég keypti pakka af grímum hjá Oddi um daginn og var búin að þvælast með hann með mér ýmist í handtösku eða bakpoka en aldrei að opna pakkann fyrr en núna. Nonni varð að kenna mér hvernig ætti að setja þetta upp. Hann klippti svo uþb 3 cm af hárinu mínu og hafði mjög gaman af að meðhöndla hárið mitt. Pantaði næsta tíma um miðjan mars, gerði upp og kvaddi tíu mínútm fyrir fjögur. Mikið var gott að losa sig við aðskotahlutinn úr andlitinu.

10.9.20

Fimmtudagskvöld

 Vinnudagurinn í gær varð lengri en til stóð. Labbaði til vinnu, sömu leið og dagana tvo á undan, og var mætt rétt upp úr klukkan hálfátta. Framan af gekk allt ágætlega. En rétt fyrir hádegi varð óvænt og furðuleg bilun í annarri kortavélinni. Náðum að ljúka sumum verkefnum á hina vélina. Klukkan var að verða hálfsjö þegar við gátum hætt, ekki alveg búnar en það sem útaf stóð kláraðist tímanlega í morgun áður en afhenda átti þetta út úr húsi.


Önnur þeirra sem vinnur með mér var svo elskuleg að bjóða mér far heim í gærkvöldi sem ég þáði með þökkum því ég átti að vera mætt til að undirbúa fund rétt fyrir átta og það var gott að fá smá tíma heima áður, heil þrjú korter. Fundurinn stóð yfir í rúma tvo tíma, aðeins lengri en við ætluðum okkur en það er amk búið að kjósa löglega stjórn sameiginlegs húsfélags við Drápuhlíð 19-21. Ég bauð mig fram til formanns og fékk ekkert mótframboð.


 bók sem er með stysta skilatímann af þeim bókum sem ég náði mér í sl. fimmtudag er ný með 14 daga skilafresti og heitir; Dóttirin eftir Anne B. Ragde. Ég er alveg að verða búin að lesa hana en það er búið að taka mig heila viku.

8.9.20

Hlustað á landsliðsleikútsendingu

Labbaði sömu leið til vinnu og í gærmorgun, Langahlíð, Klambratún, Flókagata, Gunnarsbraut, Snorrabraut og Skúlagata. 3 km á 33 mínútum. Ég var í bókhaldinu í dag. Við þrjár vorum að allan tímann til klukkan korter í fjögur, með tveimur hléum, morgunkaffi og hádegishléi. Reyndar byrjum við alltaf vinnudaginn á að setjast smá stund niður í kaffistofunni, fáum okkur vatnsglas og spjöllum við þá vinnufélaga sem setjast niður með okkur.


Leiðin heim lá yfir Skólavörðuholtið, yfir og undir brúna á gatnamótum Snorrabrautar, Bústaðavegs og Miklubrautar, Eskihlíð og Drápuhlíð frá no 1. 3 km á 34 mínútum. Var komin heim rétt fyrir hálffimm. Stoppaði heima í uþb hálftíma, nógu lengi til að hita mér tvo bolla af kaffi. Síðan lá leiðin beint í Laugardalslaugina. Ætlaði mér að synda smávegis en hitti á kaldapotts vinkonu mína og elti hana á milli kalda og heitasta nokkrar ferðir. Fór smá stund í gufuna á eftir og var komin heim um hálfsjö. Ekkert varð semsagt úr því að ég synti nokkuð. Davíð Steinn var að elda kvöldmatinn svo ég settist bara með prjónana og horfði á fréttir á Stöð2.

7.9.20

Vinnuvika hafin

 Labbaði af stað til vinnu rétt fyrir sjö í morgun, var um 35 mínútur að labba 3 km. Vinnudagurinn stóð yfir alveg til klukkan var orðin hálffjögur.  Framleitt var á tvær vélar, eina í einu þó því við erum bara þrjár.  Ein sinnir bókhaldinu en hinar tvær sinna framleiðslu, önnur að troða í og hin að taka á móti og skoða.    Skundaði beint heim og þótt ég veld aðeins aðra leið ein ég labbaði í morgun var þetta svipað langt og svipaður tími. Ákvað að hella mér upp á smá kaffi og fá mér síðdegishressingu. Stoppaði þó ekki heima nema í tæpan klukkutíma, var komin í Nauthólsvík um fimm. Sjórinn 10,2°C. Hitti tvær nöfnur úr fimm manna hópnum sem ég er komin í. Systurnar komu aðeins seinna en þær náðu okkur í heita pottinum.


Er byrjuð á tusku nr 2 úr garninu sem ég keypti í Söstrene Grene í síðustu viku.

6.9.20

Sunnudagur

 Já, ég er heima hjá mér. Gæti verið á Valsvellinum þar sem "stelpurnar mínar" eru að spila við stelpurnar í ÍBV og staðan 3;0 fyrir Val þegar uþb fimmtán mínútur eru eftir af leiknum.

Ég var komin austur upp úr klukkan eitt í gær. Pabbi fann handa mér fötu og áður en klukkan varð hálftvö var ég byrjuð að klippa sólberjaklasa af runnunum. Entinst við þetta í einn og hálfan tíma en þá var mér orðið heitt og ég orðin kaffiþyrst. Eftir kaffi settist ég smá stund við aðra tölvuna hans pabba en fljótlega færði ég mig inn í stofu og greip í prjónana. Klukkan fimm var pabbi búinn að kveikja á sjónvarpinu og stilla á Stöð2 Sport. Leikurinn var í opinni og saman horfðum við feðginin á seinni hálfleikinn. Stoppaði á Hellu til klukkan langt gengin í níu. Fór með sólberin beint til esperantó vinkonu minnar. Stoppaði örstutt hjá henni en var komin heim um ellefu.


Var búin að lofa N1 syninum að skutla honum á sunnudagsvakt klukkan tíu. Var ekki búin að ákveða mig hvort ég færi í sund á undan eða eftir skutlinu. Vaknaði klukkan átta og ákvað þá að fara í sund eftir skutlið. Bjó til hafragraut og settist svo um stund með prjónana mína. Sonurinn var mættur á vakt rétt rúmum fimm mínútum áður en hún hófst. Kom heim úr sundi um tólf og hef verið að prjóna síðan. Spurning um að breyta yfir í lestur...

5.9.20

Laugardagur

  1. Skrýtið þetta blogumhverfi, sífellt að breytast, en alltaf finn ég út úr því hvernig ég get skrifað og komið frá mér pistlum án þess að flækja mig of mikið í hlutunum. Var að koma úr sundi fyrir ca hálftíma. Er búin að drekka fyrsta kaffibolla dagsins og er á leiðinni að ná í næsta skammt áður en ég skrepp austur á Hellu. Til stóð að esperantóvinkona mín kæmi með mér en það breyttist á síðustu stundu. Var ekki búin að láta pabba vita annað en það að annað hvort kæmi hún með og ég við stoppuðum bara dagspart eða ég kæmi ein og myndi þá gista. Þrátt fyrir að verða ein á ferð gæti farið svo að ég stoppaði einungis fram á kvöldið. Það kemur allt í ljós. Ætla að tína af sólberjarunnunum, horfa á leikinn og verð amk með prjóna og bækur með mér í för.

4.9.20

Föstudagur

Tíminn heldur áfram að hraða sér eitthvert út í buskann. Ég á ekki í vandræðum með að nýta stóran hluta af honum í áhugamálin mín. Erfiðara er að deilda honum jafnt á milli sem er kannski allt í lagi. Eina stundina sit ég og prjóna tuskur eða sjöl (reyndar ekki með neitt sjal á prjónunum núna). Svo koma tíma þar sem ég er niðursokkin í lestur og eins og ég gat um í gær er ég með nóg af lesefni í kringum mig.

Rumskaði upp úr klukkan sjö í morgun en líkt og í gær var klukkan byrjuð að ganga níu áður en ég dreif mig í sund. Þrjár ferðir í þann kalda, 400m, einu sinni í þann heitasta, gufubað og köld sturta á eftir. Kom heim upp úr klukkan tíu, hellti mér upp á fyrstu bolla dagsins og greip í prjónana.

Pabbi losaði sig um stund við þvaglegginn í gærmorgun og komst í sund í fyrsta skipti í rúman hálfan mánuð. Hitti svo lækninn á Landsspítalanum um eitt og fékk annan þvaglegg sem hann á að vera með í hálfan mánuð. Svo hann kemst ekki í sund á meðan. Erfitt þetta líf þegar aldur færist yfir og heilsu hrakar. Pabbi er samt hörkunagli og hjá honum hafa hingað til aldrei verið nein vandamál, hugsar alltaf í lausnum.

3.9.20

Líður á vikuna

Þegar ég fór á netið fljótlega eftir að ég bloggaði í gærmorgun biðu mín skilaboð frá sjósundsvinkonu minni frá því í fyrrakvöld um að hún kæmist ekki í sjóinn. Í smástund íhugaði ég að drífa mig þá frekar í sund en það varð ofan á að halda sig við ferð í Nauthólsvík klukkan ellefu um það leyti sem aðstaðan opnar. Varð að leggja við Nauthól, stæðin sem tilheyra Nauthólsvíkinni voru yfirfull af bílum námsmanna og/eða kennara við HR. Hitti á nöfnu sjósundsvinkonu minnar svo við vorum tvær mættar af fimm sem höldum hópinn. Svömluðum um í sjónum og spjölliðum saman í rétt tæpan hálftíma og fórum svo beint í sturtu og upp úr. Hún átti að mæta í vinnu um eitt. Ég fór beint heim aftur og hélt mig heima við það sem eftir lifði dags.

Var vöknuð um sjö í morgun, komin á fætur fyrir klukkan átta og lögð af stað í Laugardalslaugina upp úr klukkan átta. Fór tvær ferðir í kalda pottinn áður en ég synti 300m. Eftir þriðju ferðina í þann kalda endaði ég í góðri gufu áður en ég fór upp úr og heim. Hellti mér upp á kaffi, kveikti aðeins á tölvunni til að leggja út fyrir árgjaldi til húseigendafélagsins. Mun leggja inn þrjá greidda reikninga þegar sameiginlegt húsfélag verður kominn með sameiginlegan reikning og sjóð í hann.

Rétt fyrir ellefu lagði ég af stað í heimsókn til vinkonu vestur í bæ, ekki þeirrar sem býr á Sólvallagötunni heldur annarar sem ég var að vinna með einu sinni. Stoppaði hjá henni til klukkan að ganga tvö. Áður en ég fór heim kom ég við í Krónunni við Granda, bókasafninu í Kringlunni, apótekinu í Kringlunni og einnig Söstrene Grene. Á safninu skilaði ég fjórum bókum af sex en tók sjö með mér heim í staðinn. Á síðastnefnda staðnum fjárfesti ég í 19 dokkum af bómullargarndi sem þvo má á 60°C, ætla að fara að prjóna fleiri tuskur og nota m.a. munstur út tuskubókinni sem tvíburahálfsystir mín lánaði mér.

2.9.20

September byrjaður

Mest allan daginn í gær, alveg frá því upp úr átti í gærmorgun, var ég á leiðinni í sund. Tilbúin með hárteygju um hægri úlnlið og skápateygju um þann vinstri. Hvort það var að ég hafði aðgang að tölvu N1-sonarins, var að lesa mjög spennandi bók (sem ég hef reyndar lesið áður), eymsli í öðru hnénu, leti eða bland af þessu öllu þá lauk deginum og gærkvöldinu án þess að ég færi út úr húsi.

N1 sonurinn var að vinna sína síðustu vakt í bili á stöðinni við Stórahjalla í Kópavogi en frá og með næsta föstudegi og fram yfir áramót verður hann í 100% stöðu á N1 við Gagnveg í Grafarvogi. Hinn sonurinn er með fastar vaktir hjá Kvikk í Öskjuhlíð, eitthvað innan við 100%. Önnur hver helgi frá hálfátta til tvö og mánudaga til miðvikudaga frá fjögur síðdegis til átta.

Seinni partinn á mánudaginn var hitti ég sjósundsvinkonu mína og þrjár til í Nauthólsvík og við ætlum að hittast aftur þegar opnar á eftir klukkan ellefu. Það er tilhlökkunarefni að hugsa til þess að fara að synda og svamla um í 12°C heitum sjónum en ég fatta ekki ennþá hvers vegna ég kom mér aldrei af stað í sund í gær.