N1 sonurinn er á frívakt í dag og á morgun svo hann má sofa lengur ef hann vill og gerir það eflaust. Kvikk sonurinn á ekki vakt fyrr en klukkan fjögur í dag og ef ég þekki hann rétt kemur hann ekki fram fyrr en eftir klukkan eitt. Sjálf stillti ég ekki á mig klukku og þrátt fyrir að það hafi aðeins verið komið fram yfir miðnætti þegar ég fór að sofa þá rumskaði ég klukkan sjö. Kveikti á útvarpinu fljótlega og reyndi að kúra aðeins en á endanum var það blaðran sem rak mig framúr.
Ég mætti í Laugardalslaugina stuttu fyrir klukkan fimm í gærdag. Kalda potts vinkona mín er yfirleitt í leikfimi tíma í Laugum til rúmlega fimm og ég taldi mig hafa smá tíma til að synda nokkrar ferðir. En á meðan ég var í sturtunni kom vinkona mín inn að athuga með mig, hafði ákveðið að sleppa leikfimitímanum og var þegar búin að fara eina ferð í þann kalda. Hún kom sex ferðir í viðbót með mér og eftir mína sjöttu ferð fór ég í gufu, kalda sturtu og upp úr. Synti ekkert.
Það biðu mín skilaboð frá tvíburahálfsystur minni á þá leið hvort hún ætti ekki að kippa mér með um kvöldið sem ég þáði. Hún náði í mig rétt fyrir klukkan átta og leiðin lá á Grettistgötuna þar sem sú þriðjað sem er í hópnum er nýbúin að koma sér fyrir í kósý 40fm íbúð sem hún er með á langtíma leigu. Það urðu fagnaðarfundir og þrír tímar liðu ógnarhratt.
Byrjaði að lesa Heift eftir Kára Valtýsson í gærkvöldi. Bókin ku vera sjálfstætt framhald á Hefnd sem ég hef ekki lesið.