25.3.11

- Langt liðið á þriðja mánuð ársins -

Það er alltaf nóg að gerast í kringum mig, gef mér bara því miður ekki mikinn tíma til að setjast niður og festa á skjáinn það eftirminnilegasta. Síðan ég skrifaði síðast er ég bæði búin að eiga 43 ára afmæli og fagna 15 ára brúðkaupsafmæli, kristalsbrúðkaupsafmæli, með manninum mínum.
Merkilegir áfangar það :-). Ég lauk líka við að sauma engilinn, þvo hann, pressa, festi allar nál. 100 perlurnar (bláar og hvítar) í hann og straujaði yfir aftur. Davíð tók mynd af listaverkinu mínu bæði sér og með mér og þegar ég verð búin að láta ramma engilinn inn og hengja hann upp á góðum stað mun ég biðja hann um að mynda hann aftur. Þá tók ég mig til og tók fram mest af því sem ég er ekki byrjuð á og var að spá í að byrja á næstu stóru mynd (hef um tvær að velja). Ákvað svo að fresta því smá. Er þó með fullt í takinu og byrjaði á tveimur smámyndum og undirbjó jafa fyrir þrjár aðrar. Sat t.d. í allt gærkvöldi í húsbóndastólnum og fór langt með eina páskamynd sem ég byrjaði á fyrr í vikunni.
Tvíburarnir voru annars á árshátíð Hlíðaskóla í gærkvöldi, fóru fínir að heiman við þriðja dreng rétt fyrir hálfsjö og komu heim rúmum fjórum tímum seinna afar ánægðir með kvöldið. Karatestrákurinn sýndi víst nokkrar kötur og svo var hann valinn HÁR HLÍÐÓ 2011 enda er hann duglegur að breyta um og óhræddur við að prófa eitthvað nýtt.

8.3.11

- "Tíminn líður hratt" -

Fyrsta vikan af mars er liðin og það stefnir hraðbyri í tvö afmæli hjá mér. Seinna afmælið á ég sameiginlegt með manninum mínum en eftir tvær vikur verða liðin 15 ár síðan við mæltum okkur mót við fulltrúa sýslumanns og létum pússa okkur saman. Margt er annars búið að gerast sl. "skráfría" daga, eiginlega alltof margt til að vera að skrifa um á einu bretti. Get ekki valið úr og veit varla hvar á að byrja. En ég veit þó að ég ætla að nota þetta sem hvatningu til að skrifa oftar :-). Sjáum til hvort ég kemst ekki bráðum í "skrifgang"!