12.7.18

Enn einn "sunnudagurinn" ;-)

Ég skilaði öllu sjö bókunum sem ég fékk á Kringlusafninu fyrir hálfum mánuði á safnið aftur í gær. Hafði lesið þær allar. Það endaði svo með því að það komu sjö aðrar bækur með mér heim í staðinn og er ég reyndar búin að klára eina þeirra. Það er svona að vakna snemma. Á meðan ég er í bænum byrja ég á því að mæta í sund og bæði í gær og í morgun var ég mætt rétt eftir opnun, um hálfsjö, og kom ekki heim aftur fyrr en níu. Og nota bene ég fór ekki labbandi á milli. Synti í hálftíma og fór 4x4-5 mínútur í kalda ásamt því að skreppa í saltpottinn og gufuna. Það er ljúft að vera í fríi og ég skammast mín ekkert fyrir að gera næstum því það sem mér sýnist. Það eina sem skyggir á er hversu alvarlega mamma er orðin veik og það er eiginlega helst þess vegna sem ég fer ekki langt, það er alltaf hægt að skreppa eitthvað lengra síðar. Var fyrir austan frá föstudegi til mánudagskvölds um síðustu helgi og er byrjuð að lesa bók eftir Jón Kalman Stefánsson fyrir mömmu. Bók sem hún fékk í jólagjöf sl. jól og var langt komin með að lesa sjálf en varð svo að hætta þar sem bókin er of þung til að halda á fyrir hana. Þetta er mjög vel skrifuð bók byggð á sannri sögu og það eina sem ég veigra mér við að lesa upphátt eru kynlífslýsingarnar.  :D