31.12.14

Síðasta færslan á þessu ári

Af 365 dögum ársins setti ég inn færslu alla daga nema einn og fjóra af þessum 364 færsludögum setti ég aukalega inn 4 myndir.  Alls urðu því færslurnar 368.  Svo ég leiki mér aðeins með tölurnar og bæti t.d. 170 framan við færslutölufjöldann þá höfum við byrjunina á kennitölunni minni.  ;-).  Þegar líða fór á árið og ég sá að ég gat gefið mér tíma til að skrifa eitthvað niður daglega varð það auðvitað markmiðið að færa inn alla dagana.  Það var svo í byrjun desember sem einn dagur datt úr.  Nóg að gera í vinnunni og vinnujólaglögg strax á eftir þannig að þegar ég kom heim um hálftíu um kvöldið var ég ekki neinu ástandi til að kveikja á tölvu og setja inn hugleiðingar eða segja frá deginum áður.  Það væri nú samt fróðlegt að vita hvað ég hefði skrifað og hvernig ef ég hefði gert tilraun en kannski langbest að sleppa skrifunum.  Ekki það að ég sé neitt smeik um að ég hefði skrifað eitthvað sem ekki þolir birtingu, síður en svo.

En í gær var síðasti átta tíma vinnudagur ársins 2014 og nóg að gera.  Það náðist að ljúka aukaverkinu mun fyrr en ég hafði þorað að vona.  Það var einnig byrjað að undirbúa mánaða/áramótauppgjör og hægt að taka saman tölur í sumum tilfellum.  Dagurinn leið afar hratt.  Ég var á lánsbílnum og hafði hugsað mér að skreppa í rúmfatalagerinn í Skeifunni eftir vinnu til að kaupa nokkur lök á rúmdýnur bræðranna. Þar í kring var bara svo mikil umferð að ég steinhætti við og fór bara heim.  Hringdi í foreldra mína og svaraði mamma í símann.  Við töluðum saman í góða stund.  Það var greinilegt að mamma var í skárra formi en undanfarið.  Ég fékk svo aðeins að heyra í pabba áður en mamma bað um símtólið og orðið aftur og allt í allt varði þessi símhringing í rúmar 50 mínútur en sá tími virtist samt ekki vera nema kannski korter.

Eftir mat horfði ég á fréttir og kastljós og einnig uppistandsþátt.  Davíð Steinn fékk nokkra vini í heimsókn og spiluðu krakkarnir eitthvað borðspil sem vakti mikla kátínu.  Ég held að Oddur hafi verið með til að byrja með en þegar ég slökkti á sjónvarpinu og færði mig inn í herbergi í tölvuna á ellefta tímanum var hann farinn inn til sín.  Hinir krakkarnir spiluðu til miðnættis en þá leystist fjörið upp og gestirnir fóru.  Ég var komin upp í þegar það var og nýhætt að lesa.

30.12.14

Síðasti átta tíma vinnudagur ársins

Ég fór á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun þar sem ég ætlaði að reka nokkur erindi eftir vinnu. Framleiðsluvélin byrjaði á því að slá út en þegar búið var að slá henni inn aftur og kveikja á öllum tölvum og tökkum við hana vann hún bara nokkuð vel.  Vélin var látin ganga sleitulaust frá klukkan átta til klukkan að verða hálfþrjú en þá var tekin smá pása og ein úr deildinni bauð okkur upp á "stúdentsveislurest" en litli bróðir hennar var að útskrifast rétt fyrir jól.

Strax eftir vinnu skrapp ég í Krónuna út á Granda og valdi mér hvað við mæðgin munum borða á síðasta degi ársins annað kvöld.  Áður en ég fór heim kom ég við hjá Smith og Norland hf. við Nóatún 4 og spurði eftir ryksugupokum.  var með alls konar númer á ryksugunni minni niður skrifuð og það var m.a. hringt á verkstæðið þegar líklegir pokar voru fundnir.  Þegar ég kom heim og mátaði þá pössuðu þeir ekki.

Eftir kvöldmat og fréttir skrapp ég til tvíburahálfsystur minnar.  Hún á svona búnað fyrir rafræn skilríki og ætluðum við m.a. að prófa hvort ég gæti samþykkt leiðréttinguna sem ég á að fá skv. RSK. Ekki tókst að komast alla leið og ætlaði Sonja að spyrjast fyrir um málið í dag.  Kvöldið leið afar hratt við gott spjall og var klukkan farin að ganga ellefu áður en ég kvaddi og hélt heim á leið.

29.12.14

Vinnudagur

Ég vaknaði nú ekkert svo seint í gærmorgun, eitthvað upp úr átta.  Ég ákvað hins vegar að fara ekki alveg strax á fætur heldur notaði tækifærið og las um stund.  Var svo löngu komin á fætur áður en annar tvíburinn kom fram úr stofunni.  Hann hafði ákveðið að sofa þar þar einhverra hluta vegna. Líklega þó vegna þess að hann hafði tekið utan af sængurveri og kodda og var ekki búinn að setja hreint í staðinn.  Þeir komu heim nokkru eftir miðnætti eftir bíóferð kvöldið áður.

Rétt fyrir tvö dreif ég mig í sund.  Þrátt fyrir að margir hefðu fengið sömu hugmynd var nóg pláss til að synda.  Fór ofan í laugina þeim meginn sem pottarnir og gufan eru og valdi að synda við kaðalinn sem afmarkar eina af fjórum brautum.  Í þriðju ferðinni uppgötvaði ég að kona nokkur var farin að synda á nákvæmlega sömu leið og samt var nóg pláss.  Ég lét þetta trufla mig þannig að ég kláraði ferðina út í hinn enda (alls 250m) og fór svo bara upp úr.  Fór í pott og gufu og var svo komin heim upp úr þrjú.

Hafði kvöldmat upp úr sex og yfirtók svo stofuna.  Horfði á fréttir og las svo þar til sérstakur jólaþáttur af Downton Abbey fór í loftið.  Þátturinn var extra langur en samt langaði mig svo til að sjá meira að honum loknum.

28.12.14

120 ár síðan föðurafi fæddist

Ég var komin á fætur um níu í gærmorgun.  Hitti pabba fyrir í eldhúsinu og við fengum okkur morgunmat.  Ég hellti svo á kaffikönnuna og settist með bolla og bók í stofuna.  Las og las. Ég var líka með saumatöskuna hjá mér en var einhvern veginn ekki í stuði til að munda nál.  Um ellefu kíkti ég aðeins í tölvuna hans pabba.  Eftir hádegi fór ég að hugsa mér til hreyfings.  Pabbi hafði beðið mig um að láta sig vita í tíma og lána sér bíllykilinn af lánsbílnum nokkru áður en ég hafði hugsað mér að leggja í hann.  Um tvö fékk pabbi lykilinn og ég týndi fram allt mitt dót og umslag sem ég átti að hafa með mér í bæinn til Brynju vinkonu Helgu.  Í umslaginu voru tvær skólabækur frá Huldu.  Ég hengdi saumatöskuna á snaga þar sem flíspeysan mín hékk en hugsaði um leið að ég ætti nú samt eftir að gleyma handavinnutöskunni engu að síður.  Pabbi hjálpaði mér svo að ferma bílinn og ég fékk með mér þrjá poka af krækiberjum.

Lagði í hann um hálfþrjú og ákvað að koma við í Fossheiðinni og þakka fyrir mig.  Þar stoppaði ég í rúman klukkutíma og þáði afar gott lakkríste, kaffibolla, ýmislegt meðlæti og gott spjall.  Ég kom í bæinn upp úr hálfsex og byrjaði á því að skila af mér umslaginu.  Stoppaði um stund hjá Brynju og fékk góða athygli frá Ösku sem er af labradorkyni.

Þegar ég lagði fyrir utan heima milli sex og hálfsjö hringdi ég í Odd.  Hann sendi Davíð Stein út til að hjálpa mér að bera úr bílnum.  Á meðan ég beið eftir hjálparsyninum hringdi ég í pabba til að láta vita af mér.  Og viti menn, það fyrsta sem hann tilkynnti mér að handavinnutaskan mín væri enn hangandi á snaga í forstofunni.

Strákarnir fóru út með vinum seinna um kvöldið, m.a. í bíó.  Ég horfði á tvær jólamyndir á frelsinu og hafði það náðugt.  Skreið inn í rúm upp úr miðnætti og las að sjálfsögðu í góða stund áður en ég fór að sofa.

27.12.14

Enn fækkar ársins dögum

Ég var komin fram upp úr hálfníu í gærmorgun og hitti fyrir yngri systurdóttur mína í eldhúsinu. Pabbi hennar var í göngutúr með Cöru og ég ákvað að hella upp á kaffi.  Kaffið var akkúrat tilbúið þegar "göngugarparnir" komu úr göngunni, mági mínum til mikillar ánægju.  Stuttu seinna ræsti hann mæðgurnar, systir mína og eldri dóttur þeirra og stofuklukkan sló akkúrat tíu þegar þau settust ferðbúin inn í bíl og lögðu í hann áleiðis norður með smá "brunch" stoppi hjá vinkonu í bænum. Ég notaði daginn aðallega í lestur og netvafr.  Einnig tók ég fram saumatöskuna mína en það varð ekkert úr að ég mundaði neinar nálar.

26.12.14

Annar í jólum

Ég held að hún hafi verið farin að ganga ellefu, klukkan, þegar ég dreif mig á fætur í gærmorgun. Hitti yngri systurdóttur mína í eldhúsinu og stuttu seinna kom mágur minn úr göngutúr með Cöru. Hann var frekar svekktur að ég væri ekki búin að hella upp á en ég var fljót að bjarga þeim málum. Við vorum langt komin með fulla könnu af kaffi þegar Helga systir kom fram og byrjaði að undirbúa jóladags-"brunch".  Ég hellti afgangnum af kaffinu á brúsa og bjó til meira kaffi.  Um eitt settust allir við borðið og gæddu sér á alls kyns góðgæti.  Annars leið dagurinn frekar hratt við lestur og netvafr. Um sjö setti ég upp kartöflur og þegar þær voru hálfsoðnar útbjó ég jafning.  Pabbi lagði á borð og skrældi kartöflur og Helga systir skar niður hangikjöt.  Með þessu var borið fram rauðkál, grænar baunir og laufabrauð.  Jafningurinn þótti víst heppnast sérlega vel og það er ég ánægð með.

25.12.14

Jóladagur

Mikið sem ég svaf vel í gamla herberginu hennar systur minnar.  Klukkan var orðin hálftíu áður en ég fór á fætur.  Þá voru feðginin og hvolpurninn Cara að leggja í hann til uppeldisbróður mágs míns og fjölskyldu hans á Friðheimum.  Pabbi kom fram í eldhús stuttu seinna en hann var örugglega löngu vaknaður.  Mamma og Helga komu eitthvað aðeins seinna fram.  Dagurinn leið afar hratt.  Ég las og vafraði einnig um á netinu. Ferðalangarnir komu til baka um þrjú.  Hellt var upp á könnuna og bornar fram kökur.  Fljótlega fór yngri systurdóttir mín að ókyrrast.  Erfitt að bíða eftir jólunum. Mágur minn sá um eldmennskuna en það voru hafði lambahryggir og ýmislegt meðlæti í matinn.  Við pabbi gengum frá eftir matinn og upp úr klukkan sjö var loksins komið að því sem Bríet var búin að bíða og bíða eftir.  Og þó hafði hún fengið að opna einn pakka fljótlega eftir matinn.  Ég fékk nokkrar og góðar jólagjafir, bók (sem mágur minn valdi) frá mömu og pabba (Mary Higgins Clark), Yrsu (DNA) frá fjölskyldu systur minnar, dvd (Love acually) sem mig er lengi búið að langa í frá Davíð Steini,  mörgæska jólakrukku frá Oddi, fallega mynd til að sauma út frá mömmu og pabba tvíburahálfsystur minnar, krem, handáburð og nokkrar nærbuxur frá foreldrum mínum og þrjár bækur frá mér sjálfri.  Ein af þeim bókum var í pakkanum frá mér í fyrra líka en ég var búin að vera að spara mér að lesa hana, ein var sú sama og Ingvi valdi handa mér fyrir pabba og mömmu og þriðja bókin var eftir Camillu Läckberg, sú nýjast þýdda.  Ég er bara alsæl með þetta allt saman.  Og svo yljuðu hlýjar og góðar kveðjur úr jólakortum frá ættingjum og vinum.

24.12.14

Aðfangadagur

Aftur mætti ég til vinnu á lánsbílnum í gærmorgun.  Markmiðið var að klára öll dagleg verk sem fyrst því við höfðum fengið leyfi til að hætta að þeim loknum.  Hlóðum líka inn einni endurnýjun og nýrri skrá að auki úr aukaverkefninu.  Ég gaf sumum leyfi til að fara upp úr tólf.  Sjálf ákvað ég að bíða til eitt. Þá hringdi ég í seinni sendilinn og dreif mig svo út úr húsi.  Keyrði út síðasta jólakortið og fór svo í bankann að sækja rafræna kortið mitt.

Kom heim upp úr hálftvö.  Náði í þvottinn á snúrunum og byrjaði að taka mig til í fimm daga ferðalag.  Annar tvíburinn kom fram fljótlega en ég vakti hinn til að geta kvatt hann.  Sá sem vaknaði sjálfur hjálpaði mér að hlaða bílinn.  Um hálfþrjú lagði ég af stað úr bænum.  Ég var komin að Rauðavatni þegar Helga systir hringdi til að biðja mig um að koma við í Bónus og kaupa hvítar brauðbollur.  Ég stoppaði því aðeins í Hveragerði til að verða við beiðninni.  Næsta stopp var í Fossheiðinni á Selfossi.  Þar lenti ég heldur betur í veislu og stoppaði í rúma klukkustund.

Var komin austur á Hellu upp úr klukkan fimm og klukkutíma seinna fórum við pabbi og Ingvi mágur og fengum okkur skötu hjá Helga Bjarna í Kanslaranum.  Skatan var virkilega kæst og fín og bauð pabbi mér upp á hvítvínsglas með sem ég þáði.  Það kom mér á óvart hversu vel þetta passaði saman.

23.12.14

Þorláksmessa

Ég fór á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun og var mætt rétt upp úr klukkan átta.  Fann verkefni handa öllum en fram yfir áramót eru hvorki morgun né kvöldvaktir og við mætum því sjö um átta og sá áttundi um níuleytið.  Ég hafði m.a. gripið til minna ráða og keypt jólakort til að senda út í nafni kortadeildarinnar.  Við erum svo heppin á deildinni að það er ein sem skrifar skrautskrift.  Hún fékk því það hlutverk að skrifa á sex jólakort.  Tvö þeirra sendum við með kortatöskunum til Valitors og Borgunar, eitt gátum við afhent um leið og kort sem komið var að sækja beint til okkar frá Auðkenni en síðustu þrjú kortin keyrði ég út strax eftir vinnu.  Öll fóru þau reyndar á saman staðinn, í fyrirtækið Ottó B. Arnar.  Viðgerðarmennirnir tveir fengu hvort sitt kortið og svo var eitt stílað á Birgi Arnar. Ég fór líka með kort frá mér persónulega til hárgreiðslumeistara míns, Nonna í Kristu Quest og starfsfólks hans og fjölskyldna.

Klukkan var að verða fimm þegar ég kom heim og þá spurði annar tvíburinn hvort systir mín hefði heyrt í mér.  Hún hringdi reyndar skömmu síðar.  Þær mæðgur voru allar í bænum og við ákváðum að hittast á KFC í Faxafeni um sex svo krakkarnir okkar fengju að hittast eitthvað.   Eftir hittinginn skilaði ég strákunum heim og skrapp svo í sund þar sem ég synti 400 og fór bæði í sjópottinn og gufuna á eftir.  Þegar ég kom heim úr sundinu setti ég í eina þvottavél og var ég búin að hengja upp úr henni fyrir miðnætti.

22.12.14

Var að koma úr sundi

Þar sem ég var að væflast langt fram eftir öllu aðfaranótt sunnudagsins leyfði ég mér að kúra til ellefu. Dagurinn fór svo í ýmislegt, bæði þarfa og óþarfa hluti. Slapp við alla eldamennsku því strákarnir fóru enn seinna á fætur en ég og voru svo á leiðinni að reka nokkur erindi um sex.  Þeir þáðu far með mér í Mjóddina en þaðan skrapp í Kost á Dalveginum til að verða mér úti um jólarúllur til næstu tíu-fimmtán ára eða svo.  Á heimleiðinni kom ég við hjá móðurbróður mínum í Álftamýrinni.  Skilaði Daða, syni hans, bók sem Oddur hafði verið með í láni og svo skiptumst við á jólakortum.  Stoppaði um stund og þáði kaffi og skoðaði nýuppgert baðherbergi í kjallaranum hjá þeim.

Þegar heim kom dreif ég mig loksins í að fara að pakka inn jólagjöfunum.  Þær urðu 18 allt í allt og þar af ein frá mér til mín (ekki baðherbergið þó).  Pakkastandið gekk bara vonum framar eftir að ég vatt mér í það á annað borð og var ég búin áður en klukkan varð hálfellefu.  Þá settist ég um stund við tölvuna en fór fljótlega í háttinn með enn eina bókina.

Fyrr og nú


21.12.14

Þessar helgar líða alltof hratt

Ég var komin á fætur upp úr klukkan átta í gærmorgun.  Tæpum tveimur tímum síðar, þegar ég var að leggja í hann til norsku esperanto vinkonu minnar, fann ég hvergi jólakortið sem ég ætlaði að taka með. Ég skoðaði listann og ég hafði hakað við og mig rámar í að hafa skrifað kortið.  Kortið kom ekki í leitirnar og ég brá á það ráð að taka afganginn af kortunum sem ég keypti af Lilju.  Ég leyfði Inger að velja hvaða kort hún vildi og skrifaði á það sem hún valdi.  Hún fékk svo lánaðan pennann minn og skrifaði á kort handa mér.  Stoppaði annars í rúma klukkustund og skrapp svo í Krónuna á eftir. Vakti Odd þegar heim kom og bað hann um að ganga frá vörunum.  Settist um stund við tölvuna og hringdi svo í pabba.  Um hálftvö skrapp ég í Kringluna.  Fyrst fór ég og skilaði einni bók á safnið.  Þrátt fyrir að hafa nóg lesefni heima tók ég einn hring um safnið og fann mér fjórar bækur.  Svo kíkti ég í Tiger, Hagkaup á efri hæðinni og Eymundsson.  Næst lagði ég leið mína í Borgartúnið þar sem ég keypti með ryksugupoka hjá Einari Farestveit.  Að lokum skrapp ég í sund áður en ég fór heim.

Heima voru strákar á bak og burt en þeir voru víst í vinahittingi í Kópavogi og reiknuðu með að vera fram á kvöld.  Ég hringdi því í tvíburahálfsystur mína til að kanna hvort hún yrði heima og gæti tekið á móti mér um kvöldið.  Rétt eftir að kvöldfréttir byrjuðu í sjónvarpinu dreif ég mig í Hafnarfjörðinn. Fyrst með jólakort og nokkur kerti til Höllu.  Stoppaði þar í smá stund áður en ég fór til Sonju.  Þar stoppaði ég heldur lengur og var ekki komin heim fyrr en um hálfellefu.  Ég kom þó heim á undan tvíburunum.  Beið eftir annarri mynd kvöldsins, "Die Hard2".  Hún var ekki búin fyrr en um tvö en ég kíkti engu að síður aðeins í tölvuna og las svo um stund eftir að ég var skriðinn upp í.  Veit ekkert klukkan hvað ég lagði frá mér bókina "Hið fullkomna landslag" eftir Rögnu Sigurðardóttur en það var seint þótt ég hafi ekki lesið bókina upp til enda.

20.12.14

Ekkert að stressa mig yfir einu eða neinu

Aftur fór ég á lánsbílnum í vinnuna.  Í nógu var að snúast í vinnunni en það er líka allt að ganga upp. Við fórum tvær og leystum sjö-manneskjurnar af á vélinni um átta og vorum að til tíu.  Á þeim tíma náðum við að klára tvö af daglegu verkefnunum.  Eftir morgunkaffi sinnti ég öðrum málum.  Þegar ég var búin að taka mitt matarhlé leysti ég aftur af á vélinni, í þetta sinn í um klukkustund.  Og ég leysti einnig af síðasta klukkutímann (milli þrjú og fjögur) svo kvöldvaktin fengi aðeins meira en bara kaffipásu.  Rétt fyrir fjögur hringdi Helga systir.  Þar sem ég var ekki komin heim sagðist hún ætla að kíkja við um sex.  Ég skrapp því í BYKO eftir vinnu og keypti gluggasköfu (hníf) og klósettbursta. Systir mín mágur, yngri dóttir þeirra og hvolpurinn Cara komu svo eins og um var rætt.  Setti hraðsuðukönnunna í gang og kaffifílter og kaffi í trektina.  Oddur Smári tók svo við þegar vatnið var soðið og lauk við að búa til kaffið.  Gestirnir stoppuðu um stund, dáðust að nýja baðherberginu mínu og settust aðeins niður með kaffið í stofunni.  Oddur fór í spillasessíjón og Davíð Steinn skrapp aðeins út þegar gestirnir voru farnir.  Ég ákvað svo að hafa það bara notalegt fyrir framan sjónvarpsskjáinn.

19.12.14

Á opnunarsýningu

Í gærmorgun skóf ég af lánsbílnum og fór á honum í vinnuna.  Klukkan var alveg að smella í átta þegar ég mætti.  Vinnuverkin gengu alveg þokkalega og gekk vélin næstum stanslaust frá klukkan sjö um morguninn til klukkan að verða sjö um kvöldið.  Ég stimplaði mig út á slaginu fjögur en fór samt ekki alveg strax.  Settist aðeins við tölvuna frammi á kaffistofu.  Þegar ég svo fór þurfti ég að sópa aftur af bílnum.  Lagði bílnum við bókasafnið við Grófina, skilaði einni bók og trítlaði svo yfir á Café Haítí þar sem Brynja vinkona var að opna málverkasýningu um fimm.  Hún var eiginlega nýbúin að stilla upp þegar ég kom.  Sex ára tvíburadætur hennar sátu við eitt borðið og dunduðu sér.  Nokkru seinna kom pabbi Brynju og lilta systir hennar með sína fjölskyldu.  Svo komu m.a. hjón með þrjú börn og eldri dóttirin er með systrunum í bekk.  Pabbi Brynju tók fram nikkuna og það gerðist að sjálfu sér að börnin röðuðu sér upp hjá honum og sungu jólalögin sem hann spilaði.  Málverkasýningin er mögnuð og samt allt öðruvísi en sýningin sem hún var með þarna í haust.

18.12.14

Dagarnir þjóta áfram

Enn og aftur notaði ég strætó milli heimilis og vinnu í gær.  Stimplaði mig inn ca. korter fyrir átta og út rétt fyrir hálffimm.  Úr vinnu fór ég fyrst gangandi á pósthúsið niður í bæ og komst að því að jólafrímerkin sem ég átti eftir síðan í fyrra og tvö síðan í hitti fyrra giltu 100%. É g þurfti því bara að borga undir sjö jólakort en á eftir að keyra út fimm.  Kom heim stuttu fyrir fimm og hafði þá eiginlega bara stutta stund áður en ég þurfti að taka mig til á kóræfingu.  Tók sunddótið með mér út í bíl.  Árni Heiðar bað mig fyrst um að syngja með altinum en eftir fleiri tilfæringar færði hann mig aftur yfir í sópran.  Nafna mín í sópran segir að ég sé "sópr-Anna-alt".  Eftir æfingu lét ég tvíburana vita því ég hafði boðið þeim að koma með mér í sund.  Þegar til kom, kom bara annar þeirra með mér.  Við hittumst ekkert í lauginni eða pottunum en komum út úr klefunum á sama tíma eftir sundið.

17.12.14

Búin að skrifa öll jólakort

Aftur notaði ég strætó milli heimilis og vinnu í gær og ég hreyfði ekki lánsbílinn í gær.  Kom heim úr vinnu rétt fyrir fimm.  Frammi í gangi sá ég eitthvað af tilvonandi baðinnréttingum og þegar ég kíkti inn á baðherbergi sýndist mér að þá sé búið að mála.  Þetta er allt að gerast.

Eftir kvöldmat kom ég mér loksins að því að skrifa á fleiri jólakort.  Var komin í góðan gír eftir þrjú skrifuð jólakort og ákvað að nota nú hvítvínið sem mér áskotnaðist á föstudaginn var.  Og viti menn um 30 kort, eitt og hálft jólabréf og tvö vískýglös hálffull af hvítvíni þá átti ég bara eftir að skrifa eitt jólabréf og kort með því og utan á umslag með korti og dönsku jólabréfi. En klukkan var víst farin að ganga eitt.  Ég var annars svo heppin að finna ónotuð jólafrímerki frá því í fyrra og hittifyrra sem eru víst alveg í fullu gildi.

16.12.14

Fimm virkir til jóla

Strætó skilaði mér báðar leiðir milli heimilis og vinnu í gær.  Það gekk á ýmsu í vinnunni en flest mál leystust sem betur fer.  Samt stóðu einhver útaf þegar ég fór rétt fyrir hálffimm.  Heima slakaði ég á um stund áður en ég fór að huga að kvöldmatnum sem ég hafði í fyrrafallinu.  Við mæðgin vorum búin að borða upp úr klukkan sex og ég bauð bræðrunum með mér í sund.  Annar strákurinn var eitthvað slappur og treysti sér ekki en hinn kom með.  Ég fór ofan í laugina heitupotta meginn og synti 250m. Þá fór ég í sjópottinn.  Var að fara að huga að því að drífa mig í gufuna þegar Oddur Smári kom. Hann sagðist hafa synt eina ferð og svo farið í 40°C pottinn.  Ég leyfði honum að ráða hvenær við færum í gufuna.  Allt í allt stoppuðum við aðeins rúman klukkutíma í Laugardalnum.  Heima nennti ég engu. Eftirlét hinum syninum stofuna og sjónvarpið en hann hafði fengið vin í heimsókn.  Þrátt fyrir að dögunum fyrir jól fækki hef ég ekki enn fundið mig í að skrifa á fleiri jólakort.  Það breytist vonandi í kvöld.

15.12.14

Komið fram í miðjan mánuð

Mér finnst eins og það sé þriðjudagur í dag.  Kannski ekkert svo skrýtið því ég var mætt til vinnu rétt fyrir átta í gærmorgun ásamt einni annarri og við unnum alveg til klukkan þrjú til að klára að vinna upp bilunardagana.  Fleira fólk hafði staðið vaktina á laugardaginn og það náði að ljúka næstum öllum debetkortunum og smá slatta af hinu.  Þegar við hættum í gær vorum við m.a. búnar að "gera upp" kreditkortin og tilbúnar með dk-tölur.  Náðum að vinna aðeins í stórri gjafakortaskrá en smá hluti af dk-inu kláraðist ekki vegna vandræða með nýja sendingu af einni plasttegundinni.

Skrapp aðeins í Krónuna við Granda eftir vinnu og verslaði smá.  Oddur Smári gekk frá vörunum er ég kom heim.  Ekkert löngu seinna báðu strákarnir mig um að skutla sér í Nexus á spilakvöld og þeir fór svo þaðan seinna í gærkvöldi eitthvað með vinum.  Ég hafði það rólegt heima en nennti engan veginn að halda áfram með jólakortaskrif.

14.12.14

Vinnudagur

Klukkan var rétt að byrja að ganga níu þegar ég dreif mig á fætur í gærmorgun.  Fór með eitt fang af óhreinum þvotti í þvottahúsið, setti í þvottavélina og gangsetti hana.  Tók sunddótið með mér upp og lagði í hann fljótlega.  Var komin ofan í laugina í Laugardalnum stuttu fyrir níu.  Synti ekki nema 300m en gaf mér tíma til að pottormast og gufast smá.

Rétt fyrir tíu var ég mætt til Nonna í Kristu Quest til að fá klippt á mér höfuðhárin en það eru liðnar sex vikur síðan ég var síðast á ferðinni.  Hann bauð mér upp á kaffi, smáköku og súkkulaði áður en hann fór að munda skærin.  Alltaf erum við jafn hissa hvað hárið mitt hefur þykknað á þessum tíma frá því ég var klippt síðast.

Þegar ég kom heim aftur fór ég beint í þvottahúsið og hengdi upp úr þvottavélinni og það var líka pláss fyrir handklæði og sundbol.  Nokkru seinna skrifaði ég fyrstu þrjú jólakortin í ár.  Þau tók ég með til frænda míns eins um fjögur og fékk hann og konan hans eitt, systir hans og mágur eitt og mamma þeirra systkyna eitt.  Tilefni hittingsins var að skera út og steikja laufabrauð.  Skornar voru út 100 kökur.  Tókum smá pásu um fimm til að fá okkur kaffi.  Þegar langt var komið að steikja staflana var sonurinn á heimilinu sendu á KFC til að kaupa tvö fjölskyldutilboð og við borðuðum öll saman að lokum.  Ég kom heim um níu og fór fljótlega að horfa á bíómynd númer tvö þótt ég hafi séð hana áður.

13.12.14

Laugardagur

Kúrði aðeins lengur en á venjulegum virkum degi í gærmorgun.  Klukkan var farin að halla í átta þegar ég dreif mig á fætur.  Rétt upp úr átta fékk ég sms frá einni af deildinni þar sem hún spurði hvort ekki hefði átt að mæta til vinnu klukkan átta.  Allir aðrir höfðu heyrt og vissu að það átti ekki að mæta fyrr en níu.  Ég hringdi til baka og setti henni bara fyrir verkefni.  Tók svo næsta strætó í vinnuna og var mætt um hálfníu.  Verkefni morgunsins voru þau sömu og á fimmtudagsmorguninn.  Aðrir fóru í að skreyta og undirbúa hinn salinn undir Jólasviðsfundinn sem boðaður var milli þrjú og fimm.

Klukkan var að verða tvö þegar viðgerðarmenn komu í hús með varahlutinn í framleiðsluvélina.  Á rúmum hálftíma komu þeir vélinni af stað og ég framleiddi tvær skrár til að sannreyna að hún væri orðin vinnuhæf.  Svo var gengið frá öllu því Það átti að taka læsa og taka allan aðgang af kortalagernum um þrjú.  "Gestir" voru að byrja að streyma á fundinn, þ.e. aðrir úr rekstrarteyminu "Tæknirekstur og Þjónusta".  Framkvæmdastjórinn sagði nokkur orð, "húsbandið" spilaði, Logi Bergmann kom með smá fyrirlestur um vinnustaðagrín og ég fór með nokkra hópa í skoðunarferðir inn í kortadeildina.  Boðið var upp á léttar veitingar en ég hélt mig frá víninu að þessu sinni en græddi svo hálfa hvítvínsflösku þegar ég fór heim.  Fékk far með yfirmanni um hálfsjö.

Heima stoppaði ég ekki nema svona rúmlega klukkustund áður en ég keyrði mig í næsta teiti, jólaglögg KÓSÍ-kórsins.  Fékk mér smá smakk af glögginni.  Tíminn flaug hratt enda í afarskemmtilegum félagsskap.  "Sann-Kristinn" var með pistil eins og venjulega og var mikið helgið enda kann hann lagið að sjá og segja skoplegu hliðarnar á hlutunum.  Skilaði mér aftur heim rétt um miðnætti.

12.12.14

Föstudagur

Við mættum aðeins tvær til vinnu í minni deild í gærmorgun til að senda skrár á vél hlaða inn til framleiðslu og merkja umslög með bankaútibúsnúmerum og dagsetningu.  Okkur tókst að ljúka þessu verki á innan við klukkustund.  Settumst svo aðeins fram í kaffistofu áður en ég sendi hina bara heim.
Sjálf fór ég ekki fyrr en á ellefta tímanum eftir að hafa fengið leyfi hjá næsta yfirmanni.

Heima hringdi ég í mömmu tvíburahálfsystur minnar sem og pabba minn á meðan ég beið eftir að klukkan yrði tólf á hádegi.  Þá fannst mér tímabært að stugga við strákunum og bjóða þeim með mér í sund.  Aðeins annar komst á fætur og dreif sig með mér.  Við stoppuðum svo sem ekki lengi í lauginni en nóg til að ég gæti synt 250 metra, pottormast og gufast smá.  Þegar við komum upp úr kvartaði drengurinn yfir því að hann færi svangur svo ég bauð honum upp á rúnnstykki, kleinu og kakó á kaffihúsinu Kornið við Borgartún.  Sjálf fékk ég mér kaffi, kleinu og vínarbrauð.

Svo var ég allan daginn að ákveða hvað ég ætlaði að gera næst.  Það var ekki fyrr en strákarnir voru farnir á jólahlaðborð með föðurfjölskyldunni að ég dreif mig í Hagkaup í Skeifunni til að kaupa laufabrauð til að skera út og steikja með frændfólki komandi helgi.  Ég náði meira að segja að kaupa nokkrar jólagjafir þannig að ég er eiginlega langt komin með þau innkaup.

11.12.14

Fimmtudagur

Það var annar óvenjulegur vinnudagur í gær.  Ég tók strætó við Sunnubúð um hálfátta og flest af okkur áttum að mæta um átta vitandi það að það væri sennilega ekkert hægt að framleiða.  Þær tvær sem voru á kvöldvaktinni áttu þó að mæta klukka einn ef ske kynni að allt kæmist í gang. Hægt var að sinna undirbúnings vinnu og nú var séð til þess að öll umslög væru dagsett. Þegar leið á daginn varð alveg ljóst að ekkert væri hægt að gera fyrr en varahluturinn kæmi að utan.  Þar sem þessi tiltekni hlutur var ekki til í Evrópu varð að panta hann frá USA og það tekur tvo daga.  Flestir fengu því að fara fyrr og var sagt að mæta ekki fyrr en á föstudagsmorguninn.  Ég hringdi í eina sem hafði farið um tvö og vissi ekki af þessari tilhögun.  Ég bað hana um að mæta með mér í morgun.  Ég fór ekki úr vinnu fyrr en um fjögur en dundaði mér við að skrifa eitt jólabréf á ensku.

Kóræfing gærdagsins hafði verið boðuð á gamla tímanum svo aldrei þessu vant tók ég til kvöldmat, lifur með soðnum kartöflum og grænum baunum.  Á kóræfingunni æfði ég "Bjarnatónið" í fyrsta skipti með sópran og fannst ég eiginlega að vera að syngja það í fyrsta skipti.  Mér leist satt að segja stundum ekkert á blikuna því sumstaðar fer sópraninn ansi hátt upp að mér fannst og ég var í mesta basli með að passa að klemma ekki hálsinn.  En upp fór ég og held að ég hafi staðið mig þokkalega.  Við æfðum einnig jólasálminn "Í dag er glatt...".  Hann er sunginn í röddum en ég hélt mig sópran meginn fyrst kórstjórinn bað mig ekki um að syngja með altinum.  Reyndar söng hann sjálfur stundum með altinum.

Þegar heim kom vafraði ég um stund á netinu en horfði svo á Kiljuna á plúsnum.

10.12.14

Miðvikudagur

Gærdagurinn var á heildina litið ansi óvenjulegur.  Ég tók strætó frá Sunnubúð um hálfátta og þegar ég kom inn á deild korter fyrir heila tímann hitti ég fyrir þær sem höfðu mætt klukkan sjö og þær sögðu sínar farir ekki sléttar.  Vélin neitaði að fara upp og einungis var hægt að hlaða verkefnum inn á hana. Það var mikil huggun að tekist hafði að ljúka framleiðslu mánudagsins og þar að auki náðst að framleiða eitthvað af endurnýjuninni milli fjögur og sjö á mánudaginn.  Klukkan var rétt orðin átta þegar ég hringdi í viðgerðarmann.  Hann og annar til komu á svæðið um hálftíu og að þessu sinni sáu þeir að ekki væri hægt að gera við vélarbilunina heldur yrði að skipta um bilaðan varahlut.  Þeir tóku þó hlutinn með sér upp úr tíu og ætluð að athuga hvort hægt yrði að gera við til bráðabirgða. Tíminn var að hluta til notaður til að jólaskreyta. Allir starfsmenn á deildinni fengu að fara fyrr heim þegar búið var að sinna því sem hægt var að sinna, nema ég og næsti yfirmaður.  Ég stimplaði mig út nokkrum mínútum yfir fjögur og tók næsta strætó heim.

Eftir kvöldmat kom annar tvíburinn með mér í sund.  Ég þurfti að beita afli til að skafa af farþegahliðinni á lánsbílnum og svo byrjaði ég á því að fylla á tankinn.  Þegar við komum í Laugardalinn keypti ég nýja skýlu á strákinn en hann hafði rifið þær gömlu og hent þeim í síðustu sundferð.  Við stoppuðum ekki lengi í sundi og ég synti aðeins 200 metra en við pottormuðumst smá og fórum einnig í gufuna.  Castle var einmitt að byrja þegar við komum heim aftur.

9.12.14

Þriðjudagur

Gærdagurinn var aðeins öðruvísi en flestir mánudagar.  Ég lagði af stað á lánsbílnum í fyrra fallinu í vinnuna og var mætt um hálfátta.  Mér varð létt þegar í ljós kom að það var verið að framleiða á fullu. En léttirinn varði aðeins í tæpa tvo tíma því þá bilaði vélin og kalla þurfti út viðgerðarmann. Sá kom heldur seint að mínu mati en með annan með sér.  Þeim tókst að koma vélinni í gang þannig að við náðum að ljúka hádegisframleiðslunni og vorum aðeins um hálftíma sein.  Fljótlega eftir það var skipt aftur yfir í daglega framleiðslu debetkorta.  Þá bilaði vélin aftur.  Hún komst svo í gang um fjögur og ég skildi við kvöldvaktina upp úr því, þar sem þær tvær voru að vinna á daglegri framleiðslu.

Skrapp í fiskbúð á leiðinni heim og keypti ýsu- og bleikjuflök.  Frysti bleikjuna er heim kom en um hálfsex setti ég upp kartöflur, ýsuna í annan pott og bræddi smjör og hellti úr einni dós af gulum baunum í þriðja pottinn.  Kvöldið var tíðindalítið en ég ákvað að drífa mig í háttinn fyrir klukkan hálfellefu og las svo í um hálftíma áður en ég fór að sofa.

8.12.14

Mánudagur

Í gær var ég komin á fætur fyrir níu.  Ætlaði mér að skreppa í sund um hádegisbil og svo á bókasafnið strax á eftir.  En þetta snerist aðeins við.  Var mætt á safnið og skilaði þremur bókum upp úr klukkan eitt.  Var búin að framlengja þremur öðrum bókum í gegnum gegnir.is og átti tvær aðrar sem skila þarf milli jóla og nýjárs.  Engu að síður tók ég þrjár bækur með mér út af safninu.  Síðan fór ég í Laugardalslaugina.  Synti ekki nema 300 metra en var svo að pottormasta og gufast smá stund á eftir. Fljótlega eftir að ég kom upp úr hringdi ég í annan tvíburann og bað hann um að búa til kaffi. Hringdi líka í hinn tvíburann og bað hann um að sækja þvott af snúrunum í þvottahúsinu.  Sá mátti ekki vera að því alveg strax þannig að ég var komin heim áður en hann fór niður og hann tók með sér sunddótið mitt og hengdi upp fyrir mig í leiðinni.

Upp úr klukkan hálffimm raðaði ég nótum fyrir aðventukvöldið í rétta röð, tók til nesti, klæddi mig í spariföt og var komin upp í kirkju tuttugu mínútur yfir fimm.  KÓSÍ-kórinn byrjaði upphitun, Karlakórinn Stefnir blandaðist saman við um sex og æfði með okkur "Við kveikjum einu..." og "Heims um ból".  Eftir það var minn kór laus til klukkan átta.  Ég borðaði nestið mitt og um sjö leytið setti ég á mig varalit.  Aðventukvöldið tókst alveg glimrandi vel.  Rithöfundurinn Kristín Steinsdóttir var með hugvekju (eða hugveikju eins og misritaðist í póstinum þar sem dagskráin var tilgreind), Hlíf Sigurjónsdóttir og Árni Heiðar opnuðu reyndar kvöldið og spiluðu saman ýmis lög milli hálfátta og átta.  Hlíf spilaði svo aftur eftir að minn kór var búinn að syngja og hún spilaði einnig undir í "Heims um ból".

7.12.14

"Tvíburahálfsysturdóttir" mín og frænka 10 ára í dag

Í gær leyfði ég mér að kúra langt fram eftir morgni, eiginlega alveg til hádegis, áður en ég fór á fætur. Um svipað leyti var tilvonandi rafeindavirki (og vonandi rafvirki líka) að fara á fætur.  Hann var á leiðinni í skólann til að ljúka við smá verkefni.  Ég skutlaðist með strákinn en fór strax heim aftur. Rúmri klukkustund síðar hringdi ég til að athuga hvort hann væri búinn.  Verkið hafði eitthvað klúðrast þannig að hann var ekki búinn en var búinn að ákveða að skreppa og fá sér eitthvað að borða.  Ég sagðist vera á leiðinni að versla fljótlega og myndi hringja aftur er ég væri á leiðinni úr búðinni. Þegar ég var svo á leiðinni í búðina hringdi strákurinn og sagðist að búið væri að loka skólanum.  Ég náði því í hann og hann varð samferða mér í Krónuna.  Reyndar beið hann úti í bíl á meðan ég verslaði ofan í þrjá poka og keypti einnig kassa af mandarínum.  Við komum heim um þrjú og hinn sonurinn var ennþá sofandi. Ég ákvað að vekja hann.  Svefnpurrkan varð afar hissa á að hafa sofið svona lengi eða í um tólf tíma.  Hann gekk frá vörunum og lauk við að hella upp á könnuna.

Um kvöldið bað hann mig um að skutla sér í Háskólabíó á uppstand sem átti að vera þar skv. miða sem þeir bræður höfðu fengið frá pabba sínum.  Hinn bróðirinn hafði ákveðið að eyða kvöldinu í eitthvað annað svo sá sem dreif sig hafði fengið vin til að koma með sér.  Í ljós kom að uppistandið hafði verið fært e-t upp á Höfða en þá var of seint að koma sér þangað.  Ég var farin í góðri trú að hafa skutlað stráknum á réttan stað og strákurinn tók strætó heim aftur.  Ég skil bara ekkert í exinu að skrifa ekki breytta staðsetningu á miðann.  Það er nefnilega sjaldnast nóg að nefna breytinguna og/eða pósta henni á FB.

6.12.14

Missti úr einn færsludag

Gærdagurinn æxlaðist þannig að ég komst ekki í að skrifa nokkur orð um fimmtudaginn.  Hugsanlega hefði ég getað gefið mér tíma til að lauma mér í tölvuna frammi á kaffistofu í gærmorgun þegar útséð var um að vélin færi í gang og búið að kalla til viðgerðarmann sem lét aðeins bíða eftir sér.  En úr því ég gerði það ekki fannst enginn annar tími.  Framleiðslan fór í gang upp úr ellefu og það var í nógu að snúast til klukkan fjögur.  Náðum að ljúka öllum daglegum verkefnum klára gjafakortaframleiðslu á þessum tíma.  Einnig var gerð vikuleg talning á stöðu plasta á vögnum.  En skrám úr mánaðarlegri endurnýjun debetkorta var einungis hlaðið inn á framleiðsluvélina.

Um fjögur fengu tvær af okkur far með þeirri þriðju upp í Katrínartún en þar átti að vera jólaglögg milli klukkan fimm og sjö.  Klukkan var orðin nokkuð meira en sjö þegar ég slagaði heim eftir að hafa m.a. drukkið nokkur hvítvínsglös, spjallað við vinnufélaga sem maður hittir sjaldan og tekið þátt á "pulpquiz" (eða hvernig sem það er skrifað).  Þegar heim kom fékk ég þær fréttir að ekki mætti setjast á klósettið fyrr en á nýjum degi.  En flísalög virðist vera langt komin.

Ef ég hefði komist í að skrifa í gær hefði ég m.a. sagt frá því að ég hefði notað strætó báðar leiðir milli heimilis og vinnu.  Ég hefði líka sagt frá því að þegar ég kom heim hefði ég sótt sunddótið, sópað af lánsbílnum og skroppið í sund í Laugardalslaugina.  Þar synti ég 400 metra og fór í gufu áður en ég fór aftur upp úr.  Og um kvöldið skrapp ég til Lilju sem hjálpaði mér við að klára jólaservíettuhringina með því að strauja flíselínið aftan á stykkin sex.  Sjálf saumaði ég hringina saman og fór ekki fyrr en það var búið eða einhvern tímann upp úr klukkan tíu.  Einnig keypti ég nokkur tilbúin jólakort eftir Lilju

4.12.14

Snjór, snjór...

Þar sem ég er búin með vikukvótann hvað varðar ferðir á "einka/láns-bílum" milli vinnu og heimilis tók ég strætó í gærmorgun.  Var reyndar afar fegin að sleppa við að skafa.  Í vinnunni voru allir með verkefni og hin sex dekkuðu allt daglegt og svo smá auka eftir hádegi og til fjögur á meðan ég gat alfarið sinnt reikningagerðinni og lokið við hana.  Fékk svo eina til að fara yfir tölurnar hjá mér áður en ég fyllti út þar til gerðan módúl fyrir nóvembertölur kortadeildar og lét vita að kortadeildin væri tilbúin með nýjustu tölur.  Sú sem ég lét vita og tekur við keflinu var afar ánægð með mig.  Einnig útbjó ég beiðni til að fá pantaðar nokkrar rekstrarvörur bæði í kortavél og ljósritunarvél.  Þegar beiðnirnar voru samþykktar útbjó ég pantanir.  Einhvern tímann eftir hádegi kom til okkar stærðarinnar kassi með kortasendingu.  Það var of áliðið dags til að fá einhvern til að opna og skoða með mér en ég setti mig samt í samband við innri endurskoðun og við fundum út hver gæti komið og hvenær (þá í dag).

Tók  strætó aftur heim tuttugu mínútur yfir fjögur.  Hérna heima var annar strákurinn steinsofandi, hinn ekki kominn heim úr skólanum og svo tveir menn af erlendu bergi brotnir að leggja flísar á baðherbergisgólfið.  Strákarnir ákváðu að skreppa til pabba síns og bjóða sér m.a. í mat hjá honum.  Ég var mætt á kóræfingu um hálfsex.  Ætlaði að byrja á því að skreppa á salernið því ég vildi ekki trufla mennina sem voru að leggja flísarnar.  Kvennasalernið í neðra var læst en enginn þó að nota það og ég mundi ekki eftir því fyrr en rétt í þessu að það er líka salernisaðstaða í anddyri kirkjunnar.  Ég var svo sem heldur ekkert í spreng og hugsaði bara með mér "...er ekki hvort sem er sagt að full hlandblaðra hjálpi sóprönnum að styðja betur við tónana og það sé léttara að komast á hærri nóturnar....".

Þegar ég kom aftur heim horfði ég á íslensku stelpurnar í kvennalandsliðinu sigra þær frá Makedóníu með tíu marka mun.  Og svo horfði ég að sjálfsögðu á Kiljuna.

3.12.14

Mið vika

Annan daginn í röð fór ég á lánsbílnum til vinnu og bauð tvíburanum sem átti að mæta í skólann far með mér í gærmorgun.  Engin veikindi voru á deildinni svo ég gat skipt verkefnum á fólkið og sinnt reikningagerðinni í rólegheitum.  Dagurinn leið afar hratt og eftir að ég stimplaði mig út rúmlega fjögur fór ég beint í laugardalinn í sund.  Vissi að strákarnir ætluðu að fara með vini sínum.  Ég synti 400 metra og fór bæði í sjópottinn og gufuna á eftir.  Allt í allt var ég innan við klukkutíma.  Fljótlega eftir að ég kom heim fór ég að sinna matargerðinni.  Hafði ofnbakaðan lax með soðnum kartöflum og gulum baunum í bræddu smjöri.  Ég var búin að borða og slökkva undir öllu áður en strákarnir komu heim.  Og já, það var byrjað að flísaleggja baðherbergið hjá mér í gær eins og kom fram í fyrirsögninni á pistli gærdagsins.  Ég var ekki sein á mér að draga fram myndavélina.

2.12.14

Flísalögn hafin á baðinu (í dag)

Aðeins annar tvíburinn varð samferða mér á lánsbílnum í gærmorgunn.  Hinn þarf víst ekki að mæta í skólann fyrr en í próf um miðja næstu viku.  Í vinnunni er ein í fríi út vikuna og í gær voru tvær veikar. Sem betur fer vorum engar vaktir og aukavinna í bili og með því að ég sæki um bókhald, keyrslur og talningu þá gat ég líka byrjað að vinna að mánaðarlegri reikningasamantekt.  Vinnudagurinn leið afar hratt.  Ákvað að hafa steikt slátur og soðnar kartöflur í kvöldmatinn.  Yfirleitt steiki ég bæði blóðmör og lifrarpylsu en lifrarpylsan var búin svo það var bara ein tegund á pönnunni.  Var eitthvað að spá í að skreppa í sund en endaði með því að skutla strákunum í 18 ára afmæli (í Kópavog) til einnar sem var með þeim í Hlíðaskóla og kíkja svo á hana Böddu mína.  Tók handavinnuna mína með mér og náði að klára útlínusaum á verkefni sem nú á bara eftir að pressa flíselín á bútana og sauma þá í hring.  Þetta verða allt í allt sex jólaservíettuhringir.

1.12.14

Innipúki í gær

Var að væflast í tölvunni og svo að lesa langt fram á aðfaranótt gærdagsins.  Engu að síður vaknaði ég fyrst klukkan átta án þess að nokkur vekjaraklukka kæmi við sögu.  Sinnti ákveðnum morgunverkum en gat svo sofnaði aftur og svaf þá frameftir morgni.  Notaði gærdaginn frekar illa en hef svo sem ekkert samviskubit yfir því.  Setti reyndar í þvottavél og hengdi upp en annars var ég bara að dunda mér eitthvað.  Horfði á handboltalandsleik kvenna við Ítalíu og slapp svo aftur við að sjá um kvöldmatinn.  Davíð Steinn bauðst aftur til að sinna þeim málum.  Strákarnir fóru svo í sund með vini sínum í leiðindaveðrinu í gærkvöldi en ég sat fyrir framan sjónvarpsskjáinn til klukkan tíu.

30.11.14

Í tilhleypingateiti hjá séranum eða "Pete-dating"

Vaknaði afar snemma í gærmorgun en eftir ákveðin morgunverk tókst mér að kúra til klukkan að ganga níu.  Þá greip í bók og kláraði að lesa.  Var hjá norsku esperanto-vinkonu minni á slaginu ellefu og stoppaði hjá henni í um tvo tíma áður en ég fór að versla.  Oddur gekk frá vörunum að venju er ég kom heim en nennti ekki með mér í sund.  Davíð Steinn kom með mér en við stoppuðum ekki lengi.  Ég synti aðeins 200 m og fór svo í 38°C heitan pott ásamt syninum sem ekkert synti en hafði byrjað á því að fara í 42°C heita pottinn.  Fljótlega eftir að við komum heim sá hann um að útbúa lasanja í kvöldmatinn.

Rétt upp úr átta var ég mætt á Hagamelinn til séra Péturs.  Fór í samskonar teiti hjá honum í fyrra en verið var að halda upp á kirkjuáramótin.  Ég minnist þess að hafa skemmt mér ágætlega í fyrra og þessi veisla var ekkert síðri nema síður sé.  Hitti fullt af áhugaverðu fólki og þekkti eða kannaðist við sumt af því.  Það var mikið spjallað og hlegið.  Pétur bauð upp á svartbaunaseyði og seytján sortir (en það var svarið hans er ég spurði hversu margar sortir hann hefði bakað fyrir jólin) og svo komu amk tvær konur færandi henni með skyrtertu og annað bakkelsi. Var í teitinu alveg þar til kirkjuárinu hafði verið skotið upp um miðnætti.

29.11.14

Aðventan að byrja á morgun

"Heyrði ég rétt" hugsaði ég með mér og var glaðvöknuð á augabragði þótt klukkan væri ekki nema tæplega sex að morgni í gærmorgun.  Mér heyrðist ég heyra dropa skella á plasti.  Við nánari athugun virtist dropa úr loftinu við hornið við útvegginn.  Eitthvað sagði mér að þetta tengdist ekki rigningunni úti heldur leka á baðherberginu uppi.  Ég færði frá dótið sem þarna var og setti handklæði á gólfið. Var svo bara svo köld að drífa mig bara á fætur fá mér eitthvað í gogginn og leggja af stað í vinnuna.  Ég var mætt þangað korter fyrir sjö til að leysa aðra vaktmanneskjuna af.  Um hádegisbil hringdi svo leigjandinn í risinu í mig og sagði að það læki hjá honum rör í baðherberginu.  Um það leiti kom líka í ljós að ég þyrfti að standa vaktina lengur því önnur manneskja á "kvöldvaktinni" (13-19) hringdi og tilkynnti veikindi.  Sem betur fer var verkefnið langt komið og kláraðist á fimmta tímanum.  Ég notaði þá tímann með hinni vaktmanneskjunni til að telja kortalagerinn.  Klukkan korter yfir fimm sagði ég þetta gott.  Gaf samstarfsmanni mínu leyfi til að hætta fyrr og skutlaði honum meira að segja áleiðis heim til sín.

Þegar heim kom var verið að reyna að stoppa lekann uppi og búið að loka fyrir vatnið.  Ég bauð strákunum með mér út að borða á pítuna en að öðru leyti var kvöldið bara rólegt og endaði fyrir miðnætti hjá mér.

28.11.14

Sá síðasti virki í nóvember

Fór með strætó í vinnuna í gærmorgun.  Tæmdi samt fyrst út úr yfirhafna og skóskápnum í holinu.  Skórnir voru reyndar komnir fram í gang á skórgrindinni fyrir nokkru og ég leyfði því sem var á hillunni að vera þar áfram.  En allt sem var á herðatrjám á slánni fór ég með inn á rúm í herðatrjánum. Skildi svo skáphurðina eftir galopna svo iðnaðarmennirnir sæu að það hafði kvarnast smá úr vegnum vegna framkvæmdanna inni á baði.  Vinnudagurinn lengdist annars aðeins í annan endann og var klukkan orðin hálffimm þegar ég stimplaði mig út.  Tók strætó aftur heim.  Hafði pastarétt í kvöldmatinn um sex.  Skutlaði Oddi upp í Breiðholt á spilakvöld rétt fyrir sjö og fór svo beint í laugina í Laugardalnum.  Horfði á síðari helming seinni hálfleiks í handbolta karla milli ÍR og FH þegar ég kom heim aftur eftir sundið.  Rétt fyrir tíu hringdi Davíð Steinn í mig og spurði hvort ég gæti sótt sig en hann hafði líka skroppið í sund með vini og höfðu þeir farið með strætó.  Ég sótti strákinn og náði tímanlega heim aftur fyrir "Criminal minds" á rauntíma.  Fljótlega eftir það fór ég í háttinn og þorði ekki að lesa neitt þar sem ég þurfti að fara fyrr á fætur í morgun  en venjulega.

27.11.14

Sópran

Strákarnir fengu far í skólann með mér í gærmorgun.  Ég fór svo næstum beint inn á vél ásamt nýjasta starfskraftinum.  Við leystum þær sem staðið höfðu vaktina fyrsta klukkutímann.  Tæpum klukkutíma síðar varð að leysa mig af í smá stund þar sem ég þurti að aðstoða kerfisfræðing við ákveðið verk.  Hann stoppaði við í um tuttugu mínútur og þá fór ég aftur inn á vél til.  Um hálfellefu varð ég að skreppa frá í einn og hálfan tíma til að sinna smá erindum.  Engin ljós stoppuðu mig af bæinn á enda og aðeins örfá á bakaleiðinni.  Og það sem meira er að þá voru fjögur laus stæði á neðra planinu við Seðlabankann þegar ég kom til baka svo ég þurfti ekki að leggja í gjaldstæði.  Vinnudagurinn leið annars hratt og örugglega og teygðist smá stund úr honum.  Það kom sending til okkar upp úr hédeginu en það vannst enginn tími til að sinna þeim málum í gær.  Kerfisfræðingurinn mætti aftur á svæðið um eitt og fékk afnot af tölvunni minni til rúmlega fjögur.  Þá var hann líka búinn að gera sitt til að hægt yrði að byrja á verkefni sem staðið hefur til að byrja á, í á annan mánuð.  Enn vantaði þó rétt form svo það var hægt að nota tímann til að vinna á mánaðarlegri endurnýjun.

Mætti á kóræfingu um hálfsex og fékk skýringu og rökstuðning fyrir því hvers vegna stjórinn vill að ég syngi með sópran.  Ég er víst með svo sterka og bjarta rödd sem hljómar miklu betur með sóprönnunum.  Fengum annars liðstyrk í bassa og sópran, tvö sem ætla að vera með okkur á aðventukvöldinu og á næstu æfingu fær altinn eina til sín.  Æfingin gekk annars mjög vel og fengum við hrós frá Árna kórstjóra sem var afar ánægður með okkur.

Byrjaði á nýrri bók "Það kemur alltaf nýr dagur" eftir Unni Birnu Karlsdóttur (f.´64) áður en ég fór að sofa í gærkvöldið og ég ætlaði ekki að geta lagt bókina frá mér.  Las miklu lengur en ég hafði hugsað mér og var klukkan byrjuð að ganga eitt þegar ég náði lokst að leggja frá mér bókina, slökkva á lampanum, biðja bænirnar og svífa inn í draumalandið.

26.11.14

"Bleiku skórnir mínir"


Örstutt um gærdaginn

Notaði strætó báðar leiðir milli heimilis og vinnu.  Í nógu var að snúast í vinnunni og þessa dagana er framleiðsla byrjuð strax upp úr sjö og stendur uþb 12 tíma.  Þ.e. ef ekkert kemur upp á.  Eftir kvöldmat bauð ég strákunum að koma með mér í sund.  Annar þekktist boðið en hinn sagðist vera þreyttur.  Ég synti 450 m á bringunni og 50m á bakinu.  Catle var byrjaður þegar við komum heim en þá horfðum við bara á hann á tímarásinni.  Var komin upp í fyrir ellefu og kláraði bókina um Mensalder Mensalderson.

25.11.14

Saumaklúbbur

Á mánudögum fer ég oftast á lánsbílnum til vinnu og tvíburarnir fá far upp í Tækniskóla í leiðinni. Það var engin undantekning á þessu í gærmorgun.  Ég mætti til vinnu stuttu fyrir átta og hitti fyrir tvær sem voru búnar að vinna síðan klukkan sjö.  Ég samdi við þær um að halda áfram á vélinni til tíu. Þær komu svo með fína tillögu um hvernig þetta gæti verið eftirleiðis, þ.e. að e-r tveir af þeim þremur sem mættu klukkan átta færu þá á vélina og þær eða þau sem væru á vélinni frá sjö til átta tækju aftur við um klukkan tíu.  Klukkan níu kom nýr starfsmaður til okkar.  Fyrsti vinnudagur þess aðila var til klukkan eitt.  Viðkomandi var "hent beint út í djúpu laugina" og mun eftir fyrstu vikuna taka þátt í vaktaplaninu. Um svipað leyti og nýji starfskrafturinn, sem er ráðinn tímabundið í tvo til þrjá mánuði, kom mætti einn af þeim sem var ráðinn inn tímabundið fram í mars og byrjaði hjá okkur í septemberbyrjun.  Viðkomandi var hjá okkur part úr sumrinu en er aðeins í 50% stöðu og mætir ýmist um níu eða tíu. Klukkan eitt mættu síðustu tvö til vinnu, önnur búin að vinna á deildinni í nokkur ár og hinn síðan í september.  Þau stóðu vaktina til sjö.  Fljótlega eftir að allt daglegt var búið kom í ljós að vélin var alls ekki samvinnuþýð við að setja kort á formum í umslög. Viðgerðarmaður var kallaður út og var hann að fram á kvöld en náði ekki á ljúka verkinu.  Svo heppilega vildi til að það var annars konar endurnýjun í gangi heldur en sú sem fer á form og í umslög.

Kom heim upp úr fjögur.  Kveikti á tölvu og vafraði um þar til tími var kominn til að huga að kvöldmatargerð.  Var tilbúin með ofnbakaða bleikju, soðnar kartöflur og gular baunir í heitu bræddu smjöri um sex.  Annar tvíburinn var ekki einu sinni kominn heim úr skólanum en kom svo fljótlega. Um hálfátta sótti ég Lilju vinkonu og saman brunuðum við til tvíburahálfsystur minnar í saumaklúbb, sennilega síðasta saumaklúbbinn á árinu.  Ég vann í að ljúka við útlínusaum á nýjasta verkefninu og á nú aðeins hálfa mynd eftir af sex.  Tíminn flaug og við gleymdum okkur alveg í spjalli, kaffidrykkju og handavinnu.  Skilaði Lilju heim upp úr ellefu og var komin heim um hálftólf.  Vafraði smá stund um á netinu og háttaði mig svo upp í rúm með bókina Mensalder eftir Bjarna Harðarson.

24.11.14

Síðast vika nóvember hafin

Um hugann þungir þankar nú,
því reyni ekki´ að neita.
Held að spurning helst sé sú
hvar svara er að leita?

Ég byrjaði morguninn á að lesa í um klukkutíma, milli átta og níu, áður en ég fór á fætur.  Morguninn leið nokkuð hratt og fyrr en varði komið hádegi.  Var mætt upp í kirkju á aukaæfingu um tólf.  Þar byrjuðum við á því að renna yfir jólalögin áður en við fórum svo yfir sálmana sem syngja átti í messunni.  Að messu lokinni var boðið upp á "bráðabrauð í neðra"  (vöfflur í neðri safnaðarsalnum) og settist ég niður um stund með eitthvað af kórfélögunum og fékk mér kaffi og vöfflu. Áður en ég fór heim kíkti ég á lokadag tónlistar- og myndbandamarkaðarins í Perlunni.  Strákarnir fóru í sund með vini sínum eftir kvöldmat en ég greip í saumana mína og horfði á RÚV frá sjö til klukkan að ganga tíu.  Endaði svo kvöldið eins og ég byrjaði daginn, með því að lesa um stund upp í rúmi.

23.11.14

Messudagur

Þrátt fyrir að það félli niður esperantohittingur og að ekkert sérstakt væri á dagskránni var ég komin á fætur upp úr átta.  Það var samt ekki fyrr en á ellefta tímanum sem ég fór að gera eitthvað af viti og stakk í eina þvottavél.  Klukkan að ganga tvö var ég búin að hengja þvottinn upp og skrapp þá á safnið að skila bókum og gefa bækur.  Ég skilaði einum sex bókum, þar af tveimur sem voru alveg að komast á tíma.  Þrátt fyrir að aðrar sex bækur af safninu væru enn heima ólesnar tók ég tvær að láni.  Næst lá leiðin í Krónuna út á Granda þar sem ég verslaði aðeins ofan í tvo poka.  Áður en ég fór heim lét ég snertilausu þvottastöðina, Löður, við Skúlagötu skola utan af lánsbílnum.  Oddur Smári gekk frá vörunum er ég kom með þær heim og svo fórum við öll mæðginin í Laugardalslaugina.  Ég synti 500m og skrapp bæði í sjópott og gufu.  Lét svo bræðurnar fá 1000kr. upp í pylsu og kók í pylsuvagninum en fékk mér sjálf aðeins kaffibolla.  Oddur bað mig svo um að skutla sér á Hlemm þar sem hann ætlaði að kaupa sér strætómiða eftir innlögn frá pabba sínum og skreppa svo til hans.  Davíð Steinn hafði líka fengið innlögn en hann átti stefnumót um kvöldið.  Upp úr sex setti ég upp kartöflur og steikti lifrarpylsu og slátursneiðar handa okkur.  Hellti líka upp á kaffi.  Tók svo fram saumana mína og settist fyrir framan skjáinn eftir mat.  Horfði á imbann til hálfeitt en ég saumaði nú alls ekki svo lengi.  Er byrjuð á útlínum á nýjasta verkefninu og náði að klára eina af sex og byrja á annarri.

22.11.14

Óraunveruleiki

Í gærmorgun ákvað ég að fara á lánsbílnum til vinnu í þriðja skiptið í vikunni.  Hluti ástæðunnar er sú að annar tvíburinn snéri á sér hnéð í sundi í á miðvikudagskvöldið og ég ákvað að gott væri að hann gæti hlíft því sem mest í nokkra daga.  Vinnudagurinn leið einhvern veginn og þá sennilega helst vegna þess að í nógu var að snúast.  Fékk t.d. verkefni í hendurnar sem ég hef ekki þurft að leysa alein og sjálf áður en með góðum skriflegum leiðbeiningum og minni frá því fylgdist með svipuðu verk í haust þá leysti ég málið á korteri.

Til stóð að strákarnir kæmu með mér í sund eftir vinnu.  Annan sótti ég í skólann og sá var á leið í spilasession og taldi sig ekki hafa tíma til að skreppa í laugina.  Hinn bróðirinn hafði fengið far heim úr skólanum en þótt hann væri ekki að fara á spilakvöld langaði hann ekki með fyrst bróðir hans ætlaði ekki.  Ég dreif mig því ein í Laugardalinn.  Synti mína 500 metra, fór í42°C pottinn, svo í sjópottinn og að lokum í gufu áður en fór upp úr.  Spilastrákurinn var farinn þegar ég kom heim við hin létum okkur nægja að fá okkur afganga í kvöldmatinn.

Horfði aðeins á Skjá1 um kvöldið allan tíman að hugsa um að taka upp saumana mína en endaði í staðinn í tölvuleik þar til ég ákvað að hátta mig, skríða upp í rúm og lesa um stund upp úr miðnætti.

21.11.14

Smávegis um gærdaginn

Aftur bauð ég tvíburunum far í skólann því annar þeirra snéri sig á hné í sundi í fyrrakvöld.  Í nógu var að snúast í vinnunni milli átta og fjögur.  Stimplaði mig út nánast á slaginu og sótti strákana upp í skóla.  Skilaði þeim heim og skrapp svo í fiskbúð að kaupa mér ýsu í soðið og kom einnig við hjá Atlantsolíu við Flugvallarveg og fyllti á bílinn áður en ég fór heim.  Fljótlega eftir að ég kom heim hringdi ég austur.  Pabbi svaraði í fyrstu hringingu og við spjölluðum í tuttugu mínútur en vorum við aðeins búin að heyrast einu sinni í viku síðustu fjórar vikurnar en ekki daglega.  Mamma var þreytt eftir ferðalagið en ég held að þau hafi verið sátt við að vera komin heim.  Og ekki tók nú kuldaboli á móti þeim þótt hitastigið sé kannski heldur lægra en á Tenerife.

20.11.14

Það er alltaf eitthvað

Ég bauð tvíbururnum far í skólann í gærmorgunn.  Var búin að fá leyfi til að fara í smá útréttingar eftir hádegi.  Sótti um nýtt vegabréf hjá sýslumanninum í Kópavogi á þriðja tímanum.  Þaðan fór á lögreglustöðina við Grensásveg til að tilkynna hjólastuldinn og fylla út skýrslu.  Með afrit af þeirri skýrslu sem og útprentunina úr GÁP fór ég í tryggingafélagið mitt.  Þurfti að skreppa í vinnuna aftur í smá stund.  Kom heim upp úr hálffimm.  Við mæðginin sammæltumst um að skreppa saman í sund eftir kóræfingu.

Raddbandatemjarinn, Guðbjörg Tryggvadóttir, stjórnandi sönghópsins "Veirurnar" mætti til okkar í kirkjuna um hálfsex.  Kórstjórinn var semsagt eitthvað vant við látinn.  Það var í góðu lagi því við lærum alltaf helling af Guðbjörgu og undir lok æfingarinnar vorum við farin að hljóma eins og 50 manna kór og hún fékk gæsahúð.  Ég hitaði annars upp sem sópran en söng með altinum fram að kaffi því aldrei þessu vant var góð mæting í sópranröddinni.  Guðbjörg bað mig svo um að syngja með sópran eftir hlé og hún vildi meina að ég ætti heima þar.  Áður en æfingunni lauk fékk ég skilaboð frá tvíburunum um að þeir færu í sund með vini sínum.

Ég fór því beint í Laugardalslaugina að æfingu lokinni.  synti 500m á bringunni, fór í sjópottinn og svo í gufubað áður en ég fór uppúr.  Hitti strákana aðeins en þeir komu heim löngu á eftir mér.  Ég var komin heim tímanlega áður en Kiljan hófst.  Og nú eru pabbi og mamma komin heim úr fjögurra vikna dvöl á Tenerife.  Á eftir að heyra í þeim hljóðið.

19.11.14

Ferðalangar á heimleið

Annan daginn í röð tók ég strætó í vinnuna (í gærmorgun).  Vinnudagurinn leið nokkuð hratt og ég ákvað að nota strætó aftur í heimferðina.  Fór þó ekki beint inn heldur settist inn í lánsbílinn og fór í GÁP til að fá útprentað fyrir mig söluupplýsingarnar um hjólið mitt.  Var með kennitölu fyrirtækis xins og það tók ekki langan tíma að fletta þessu upp og prenta út.  Næst lá leiðin í hraðbanka og svo sló ég á þráðinn til aseamannsins.  Síminn hans hringdi sem benti að hann væri í landi en hann var líklega upptekinn svo ég fór heim að svo stöddu.  Ég var nýbúin að leggja fyrir utan heima þegar hringt var til baka.  Við sammæltumst um að ég skryppi yfir  fljótlega og fengi bæði október og nóvember kassana með mér heim.  Annars var kvöldið nokkuð rólegt.  Var að spá í að skreppa í sund eftir kvöldmat en ákvað svo að fresta því.  Horfði á Castle með Oddi, vafraði um á netinu, var komin í háttinn fyrir ellefu og las um stund.  Er enn að skrá inn á allirlesa.is síðuna.  Fínt að geta haldið utan um allan lesturinn þar.  Inn á gegni er einungis hægt að sjá 100 síðustu útlán sem breytast um leið og maður tekur fleiri bækur.

18.11.14

Hjólið mitt er horfið :-(

Ég trúði ekki mínum eigin augum þegar ég kom úr Sorpuferð rúmlega fimm og sá ekki hjólið mitt sem átti að vera læst við grindverkið í innkeyrslunni nær húsinu heldur en bílastæðunum fyrir framan. Gat ekki munað hvort það hafi verið þarna þegar ég kom gangandi heim úr vinnu tæpri klukkustund áður en það var örugglega þarna í gærmorgun um hálfátta þegar ég trítlaði út í strætóskýli við Sunnubúðina. Ég sem var nýbúin að fá nágrannann á neðri til að taka hjólið og geyma fyrir mig í kjallarageymslunni í kringum næstu mánaðamót og fram í mars/apríl.  Það er greinilegt að það fara einhverjir um hverfin með klippur á lofti.  Það varð enginn var við neitt en líklegast er að þetta hafi gerst á meðan fáir eða engir voru heima.  Þetta er grátlegt en ég er eiginlega alveg öskureið.

Hafði matinn, ofnbökuð laxaflök með soðnum kartöflum, gulum baunum og hrásallati, á sjöunda tímanum.  Bauð svo strákunum að koma með mér í sund.  Aðeins annar þeirra þekktist boðið.  Hinn var eitthvað þreyttur og illa fyrir kallaður.  Synti 500m og allt á bringunni.  Oddur Smári var að koma upp úr 42°C pottinum þegar ég kom þar að og ég plataði hann með mér í sjópottinn.  Svo fórum við í gufuna í smá stund áður en við fórum upp úr og aftur heim.

17.11.14

Mánudagur

Ég var vöknuð um og upp úr klukkan átta en fór ekki á fætur fyrr en á tíunda tímanum því ég ákvað að lesa upp í rúmi.  Önnur bókin, Haustvika eftir Áslaugu Ragnars stenst alveg tímans tönn. Nokkuð spennandi og fær mann jafnvel aðeins til að spá í ýmsa hluti.  Hin bókin er úr bókaklúbbnum, Buzz, og er hörkuspennandi krimmi.  Dagurinn leið í rólegheitum og smá stússi.  Um miðjan dag hringdi ég í frænku mína og nöfnu.  Hún var heima og bað mig um að kippa með mér rjóma úr búðinni áður en ég kæmi því hún ákvað að skella í vöffludeig.  Þegar ég mætti til hennar sagðist hún vera bíllaus en maðurinn hennar, sem er bifvélavirki, var að gera við bremsurnar á bílnum hennar.  Þegar við frænkur vorum búnar að drekka kaffi, úða í okkur vöfflum og spjalla um hitt og þetta hringdi maðurinn hennar til að tilkynna henni að bíllinn væri orðinn ökufær aftur.  Ég skutlaði frænku minni til að sækja bílinn og svo elti ég hana upp í Hraunbæ til að kíkja á íbúð eldri sonar hennar sem feðgarnir eru að standsetja.  Seinna skutlaði ég svo bræðrunum á spilakvöld í Grafarvoginn.  Þeir fengu svo far með einum vini sínum til baka í gærkvöldi.

16.11.14

Sorpuferðir

Ég dreif mig á fætur á níunda tímanum í gærmorgun.  Kveikti á tölvunni og vafraði um á netinu, bloggaði og lét tímann líða svona í rúma tvo tíma.  Um ellefu var ég mætt til norsku esperanto vinkonu minnar.  Hún bauð mér upp á hafragraut og kaffi áður en við settumst niður í græna sófann í forstofunni og kíktum á það sem við keyptum saman á fornbókasölunni um daginn.  Þrjár af bókunum þekktum við, leskafla og málfræði sem meistari Þórbergur Þórðarson tók saman.  Þessar bækur voru gefnar út árin 1937 og 1939.  Elsta bókin var ekki eftir Þórberg. Hún var gefin út árið 1930 og fjallar um land, þjóð og menningu þess tíma.  Við byrjuðum á einum kaflanum lásum til skiptist milli punkta og þýddum jafnóðum.  Þetta fannst okkur gaman.  Við skildum innihaldið nokkurn veginn en erum ákveðnar í að lesa þetta yfir aftur og pikka út erfiðustu orðin og kíkja í orðabók (esperanto-íslenska) sem við eigum.

Klukkan var langt gengin í eitt þegar ég kvaddi.  Þá lá leiðin í Sorpu með dótið sem hlaðið var í bílinn eftir sorpuferðina á fimmtudaginn var.  Þegar ég kom heim um hálftvö byrjaði ég á því að vekja Odd. Þegar hann var tilbúinn hlóðum við bílinn aftur og erum nú nánast búin að taka allt sem sett var út í innkeyrsluna úr geymslunni þegar verið var að undirbúa skottulækningu á þriðjudagskvöldið var. Aðeins snjóþotur og einn plastdótakassi eru eftir.  Þoturnar verða gefnar og kassinn fer líklega aftur inn í geymslu þegar búið er að laga aðeins betur til í henni.  Oddur kom með mér í Sorpu og eftir að hafa tæmt bílinn fórum við í Krónuna.

Þegar við komum aftur heim rétt fyrir hálffjögur gekk sonurinn frá vörunum en ég vakti hinn soninn og bauð honum að koma með okkur í sund.  Ég synti 500metra að þessu sinni þar af 50metra á bakinu.  Fór í 42°C heitan pott í tíu mínútur, sat svo á bekk í aðrar tíu áður en ég fór í gufu og svo upp úr.  Við vorum komin heim upp úr sex.

15.11.14

Björgunarleiðangur

Ég notaði víst minn síðasta strætómiða, af þeim miðum sem ég keypti mér í vor, í heimferðina úr vinnu á fimmtudaginn.  Því varð ég að nota klink (350kr) í gærmorgun.  Það gerði svo sem lítið til því ég á nóg af klinki þótt ég grisji reglulega með því að setja í kórkrukkuna sem mitt kaffiframlag.  Ég er enn svona "aukahjól" ef það er ekkert óvenjulegt á seyði í vinnunni en finn mér oftast eitthvað sem hægt er að gera og leysi líka af ef þarf.  Bókari gærdagsins valdi svo mig til að telja með sér föstudagstalninguna í á öllum tegundunum í öllum vögnum eftir framleiðslu í gær.

Rétt fyrir ellefu hringdi píparinn í mig.  Hann hafði læst sig úti úr íbúiðinni og allir lyklarnir hans, þar með talinn bíllykillinn, voru í peysunni hans fyrir innan læsta hurð.  Það var ekki von á strákunum heim alveg strax svo ég samdi bæði við fyrirliða deildarinnar og einnar sem vinnur með mér um að sú síðarnefnda myndi skutla mér heim til að opna fyrir píparanum.  Sá leiðangur tók aðeins um tuttugu mínútur.

Klukkan hálfþrjú voru sjö af okkur átta mætt á sviðsfund í Ásinn í K2 (Turninum). Tvær voru á bíl og buðu tveimur með en sá sjöundi notar hjólastól og hefur þar af leiðandi aðgang að "einkabíl" sem hann notar milli staða.  Fundurinn tók einn og hálfan tíma og eftir hann rölti ég niður á Hlemm til að kaupa mér 3x9 miða strætókort.  Notaði einn miðann til að komast heim.  Ef ég væri ekki með blöðru á öðrum hælnum hefði ég örugglega labbað og jafnvel verið komin á undan vagninum sem ég notaði því ég þurfti að bíða dágóða stund eftir honum.

Píparinn var enn á staðnum þegar ég kom heim en klukkan var heldur ekki alveg orðin fimm.  Eftir kvöldmat skutlaði ég Oddi til vinar síns í neðra Breiðholti og lét hann hafa 350kr. til að geta tekið strætó heim.  Hann hefur svo líklega fengið far því hann kom heim stuttu eftir miðnætti.

14.11.14

Komin í helgarfrí

Ég notaði strætó báðar leiðir milli heimilis og vinnu í gær.  Kom heim fyrir hálffimm og þá var pípari að vinna á fullu við að setja upp nýja klósettið og var hann að vinna við það alveg til klukkan að ganga sjö  Ég fékk Odd til að koma og hjálpa mér að hlaða bílinn af dóti sem mátti farga eða fara í söfnunargáma og hann kom svo með mér í Sorpu.  Hlóðum bílinn aftur en það var búið að loka svo líklega fer það dót í Sorpu fyrr en á morgun, laugardag, er orðin heldur sein með það í dag.  Hafði bjúgu, soðnar kartöflur og grænar baunir í kvöldmatinn um hálfsjö og svo skruppum við Oddur Smári í sund.  Davíð Steinn hafði farið í Sundhöllina strax eftir skóla.  Kannski eins gott því annars hefðum við orðið að taka eitthvað af dótinu úr bílnum.  Synti mína 300m en var allan tímann að hugsa um hvort ég ætti að bæta 100 eða 200 metrum við.  Slepptí því í þetta sinn og fór í 42 gráðu heitan pott þar sem ég hitti Odd og við skruppum svo í smá gufu áður en við fórum upp úr.  Það var akkúrat kominn hálfleikur í handboltaleik Vals og ÍR á RÚV-íþróttir og ég horfði að sjálfsögðu á seinni hálfleikinn.  Ég keypti mér ekki árskort á heimaleikina í handboltanum að þessu sinni svo ég fagna því auðvitað þegar sýnt er frá leikjum minna manna og kvenna á RÚV-íþróttum.

13.11.14

"Skottulæknir" á svæðið

Bræðurnir fengu far með mér í skólann í gærmorgun.  Ég skrapp svo heim rétt fyrir tólf og tók á móti meindýraeyðinum.  Að þessu sinni gat hann unnið sína vinnu og eitrað númer 21 hátt og lágt. Ég skildi við hann þegar hann var nýbúinn að bora í sökkulinn í eldhúsinu mínu og var að fara að byrja í risinu og vinna sig niður.  Ég var búin að fullvissa mig um að hægt væri að komast inn í kjallaraíbúðina en strákarnir þar skyldu meira að segja hurðina út/inn á þvottahúsganginn opna.  Ég vissi að von var á eigandanum á neðri hæðinni í tíma.

Strax eftir vinnu kom ég við í Sorpu og fór svo heim, ekki til að fara inn alveg strax, heldur til að sækja meira rusl.  Áttaði mig á því að ég hefði nægan tíma til að fara með það í grenndargám áður en ég mætti svo á kóræfingu.  Æfði með sópran eins og undanfarið annars hefðu þær aðeins verið tvær á móti fimm.  Æfingin gekk vel og kórstjórinn var ánægður með árangurinn sem vannst.  Þegar ég kom heim hélt ég aðeins áfram að sortera dótið sem var úti í innkeyrslu.  Sumt fór inn en annað bíður þess að vera ferjað í Sorpu.

12.11.14

Aftur í sund

Notaði strætó til vinnu í gærmorgun en labbaði svo heim seinni partinn.  Fékk syni mína til að samþykkja að koma með mér í sund og þurfti að sækja annan upp í skóla en hann var ekki búinn þar fyrr en á sjötta tímanum.  Synti 300metra, fór í heitan pott og gufu og svo upp úr aftur.  Bauð strákunum á Pítuna og hjálpuðumst við að klára undirbúning fyrir eitrun.  Fór með mikið af dótinu úr geymslunni út í innkeyrslu og mér sýnist margt af því muni ekkert fara inn aftur.  Það verða einhverjar ferðir farnir í Sorpu á næstu dögum.  Annar tvíburinn undirbjó sitt herbergi það vel að hann ákvað að sofa í sófanum í stofunni.

11.11.14

Erfið að reikna út

Við mæðginin lögðum mun fyrr af stað á lánsbílnum en venjulega.  Áður hafði ég kveikt aðeins á tölvunni og lagt inn á kort strákanna svo þeir gætu keypt sér 20 miðakort í sund.  Hleypti þeim út við Sundhöll Reykjavíkur rétt fyrir hálfátta og var svo auðvitað mætt amk tuttugu mínútum of snemma í vinnuna.  Vinnudagurinn leið hratt eins og oftast.  Ég fékk svo að fara fyrr til að taka á móti meindýraeyði.  Maðurinn kom en það hafði orðið mikill misskilningur, sem ég tek alfarið á mig, því sumir íbúanna voru ekki heima og alls ekki hægt að komast inn hjá þeim.  Það gengur víst ekki að eitra bara hluta svo meindýraeyðirinn bað mig um að leysa úr misskilningnum, taka betur frá veggjum og boða hann svo aftur á staðinn.  Nágrannarnir á neðri hæðinni voru rétt ókomin frá útlöndum

Ég brá því á það ráð að skreppa í sund.  Synti 300 metra, fór í sjópottinn og endaði í gufunni áður en ég fór upp úr.  Þegar ég kom heim voru allir grannar komnir heim svo ég gekk á röðina til að samræma hentugastan tíma fyrir "betra" útkall og vonaði bara að það hentaði meindýraeyðinum líka.  Síðan sótti ég Davíð Stein í skólann af því ég hafði sagst ætla að gera það þegar ég hélt að ekki mætti vera í íbúðinni framan af kvöldi vegna eitrunar.

10.11.14

Ný vinnuvika

Var mun fyrr á fótum í gærmorgun heldur en á laugardaginn.  Klukkan rúmlega tólf kom ég við í Hlíðarblóm og keypti fallegan vönd til að leggja á altarið í kirkjunni.  Mætti í kirkjuna um hálfeitt korteri fyrir boðaðan tíma.  Þegar allir voru komnir hituðum við upp fyrir messuna og æfðum einnig jólalög.  Vorum þrjár í sópran en það kom reyndar ekki til raddskiptina í messunni sjálfri.  Þegar kom að því að minnast látinna heiðraði ég minninguna hennar Hlíbbu minnar.

Eftir að hafa fengið mér smá kaffi að messu lokinni lá leiðin í Krónuna við Granda.  Stillti matarkörfunni í hóf og vörurnar komust fyrir í þremur pokum.  Þegar heim kom gekk Oddur frá vörunum og þá kom á daginn að ég þyrfti ekki að elda um kvöldið frekar en ég vildi því bræðurnir voru á leiðinni til pabba síns.

Hafði það svo notalegt fyrir framan skjáinn og horfði að mestu á RÚV um kvöldið, fyrir utan Law and Order SVU á Skjá einum.

9.11.14

Gott af mínum högumFljúga dagar furðu hratt
fækkar ársins dögum.
Allt í fína alveg satt
og gott af mínum högum.

Vaknaði fyrst frekar snemma eða milli sex og sjö.  Gelið sem ég smyr á mig á hverjum morgni er komið alla leið inn í herbergi þar sem það er ekki hægt að hafa það inn á baðherberginu í augnablikinu af augljósum ástæðum.  Ég smurði mig því þarna í morgunsárið.  Eftir að ég var orðin þurr skrapp ég á salernið en skreið svo aftur upp í og steinsofnaði aftur í nokkra klukkutíma.  Rétt náði á fætur áður en klukkan sló tólf á hádegi.  Fyrir vikið varð lítið úr deginum framan af og ég hélt áfram að vera löt næstu stundirnar.  Lauk samt við að lesa Dísusögu eftir Vigdísi Grímsdóttur og um fjögur ákvað ég að það væri skynsamlegt að skila henni og fimm öðrum lesnum bókum á safnið svo ég dreif mig í það. Einnig tók ég með mér handklæði og sundbol.  

Byrjaði á því að skila þessum sex bókum í Kringlusafnið og nældi mér í tíu aðrar í staðinn.  Svo lá leiðini í Laugardalslaugina þar sem ég endurnýjaði árskortið mitt í sund.  Það er akkúrat ár um þessar mundir síðan það rann út en það þurfti baðherbergisframkvæmdir á heimilinu til að endurnýja kortið.  Ég var kominn inn í kvennaklefann þegar ég uppgötvaði að ég hefði þurft að fá sérstakt armbandi til að geta notað skápana.  Skrapp fram aftur og náði mér í svoleiðis.  Var komin ofan í laugina rétt fyrir fimm og synti 300metra.  Fór svo í heitan pott sem átti að vera 40 gráður en var örugglega kaldari en það og að lokum smellti ég mér í gufuna í nokkrar mínútur.  Kom heim um sex, hafði fiskibollur með soðnum kartöflum og gulum baunum í matinn.  Horfði á Óskalögin og "Konan í búrinu" á RÚV og las svo í um klukkutíma áður en ég fór að sofa.