Af 365 dögum ársins setti ég inn færslu alla daga nema einn og fjóra af þessum 364 færsludögum setti ég aukalega inn 4 myndir. Alls urðu því færslurnar 368. Svo ég leiki mér aðeins með tölurnar og bæti t.d. 170 framan við færslutölufjöldann þá höfum við byrjunina á kennitölunni minni. ;-). Þegar líða fór á árið og ég sá að ég gat gefið mér tíma til að skrifa eitthvað niður daglega varð það auðvitað markmiðið að færa inn alla dagana. Það var svo í byrjun desember sem einn dagur datt úr. Nóg að gera í vinnunni og vinnujólaglögg strax á eftir þannig að þegar ég kom heim um hálftíu um kvöldið var ég ekki neinu ástandi til að kveikja á tölvu og setja inn hugleiðingar eða segja frá deginum áður. Það væri nú samt fróðlegt að vita hvað ég hefði skrifað og hvernig ef ég hefði gert tilraun en kannski langbest að sleppa skrifunum. Ekki það að ég sé neitt smeik um að ég hefði skrifað eitthvað sem ekki þolir birtingu, síður en svo.
En í gær var síðasti átta tíma vinnudagur ársins 2014 og nóg að gera. Það náðist að ljúka aukaverkinu mun fyrr en ég hafði þorað að vona. Það var einnig byrjað að undirbúa mánaða/áramótauppgjör og hægt að taka saman tölur í sumum tilfellum. Dagurinn leið afar hratt. Ég var á lánsbílnum og hafði hugsað mér að skreppa í rúmfatalagerinn í Skeifunni eftir vinnu til að kaupa nokkur lök á rúmdýnur bræðranna. Þar í kring var bara svo mikil umferð að ég steinhætti við og fór bara heim. Hringdi í foreldra mína og svaraði mamma í símann. Við töluðum saman í góða stund. Það var greinilegt að mamma var í skárra formi en undanfarið. Ég fékk svo aðeins að heyra í pabba áður en mamma bað um símtólið og orðið aftur og allt í allt varði þessi símhringing í rúmar 50 mínútur en sá tími virtist samt ekki vera nema kannski korter.
Eftir mat horfði ég á fréttir og kastljós og einnig uppistandsþátt. Davíð Steinn fékk nokkra vini í heimsókn og spiluðu krakkarnir eitthvað borðspil sem vakti mikla kátínu. Ég held að Oddur hafi verið með til að byrja með en þegar ég slökkti á sjónvarpinu og færði mig inn í herbergi í tölvuna á ellefta tímanum var hann farinn inn til sín. Hinir krakkarnir spiluðu til miðnættis en þá leystist fjörið upp og gestirnir fóru. Ég var komin upp í þegar það var og nýhætt að lesa.