29.4.05

- Apríl á endaspretti -

Maí er handan við hornið og enn stend ég mig að þvi að spá í hvers vegna tíminn æði svona áfram. Mér finnst svo stutt síðan árið byrjaði og nú er þriðjungur þess að verða liðinn.

Kom við í Fiskbúð Einars á heimleiðinni í gær. Fiskibollur, ýsuflök og svo freistaðist ég í harðfisk, steinbít, hann er alltaf góður.

Annars er bara frekar tíðindalaust. Saumaði nokkur spor í nýja verkefninu og er farin að koma smá mynd á jafann núna, spennandi.

28.4.05

- Nýstárleg sósuþykking -

Davíð tók að sér að sjá um kvöldmatinn í gærkvöldi. Ég var að vísu búin að sjá til þess að höfð yrðu bygggrjón með. Hráefnið var m.a. svínagúllas, paprika, laukur og sveppir. Ég notaði tækifærið og tölvaðist á meðan maðurinn var að dunda í eldhúsinu. Þegar fór að líða að mat heyrði ég Davíð allt í einu reka upp hláturroku. Auðvitað rauk ég fram í eldhús til að kanna hvað væri svona fyndið. Hann hafði ætlað að þykkja sósuna á pönnunni, fann hveiti í skál uppi í skáp og setti saman við vatn í sósuhristaranum. Þegar hann var búinn að hrista blönduna saman tók hann lokið af og fann þá furðulega lykt, jarðaberjalykt. Það sem hann taldi vera hveiti var þá Núpó létt duft. Maturinn smakkaðist mjög vel hjá honum en hann hætti við að þykkja gumsið.

Raddþjálfinn okkar mætti á kóræfingu í gærkvöldi. Við erum búin að læra heilmikið. Það er alltaf gaman á æfingum en þegar raddþjálfinn, Ingibjörg Ýr, mætir er banastuð. Hún ætlar að koma tvisvar enn fyrir tónleikana okkar sem verða miðvikudagskvöldið 18. maí n.k.

Í ágústlok 2003 keypti ég á mig ecco-skó í skóverslun Steinars Waage í Kringlunni. Skórnir pössuðu mér frábærlega og ég þurfti ekkert að ganga þá til, fékk aldrei hælsæri eða fann til þreytu. En ég er búin að labba fleiri, fleiri kílómetra á þessum skóm og ég verð víst að viðurkenna það að þeir eru einfaldlega orðnir gatslitnir og ónýtir. Í fyrrahaust fann ég svipaða skó í Ecco við Laugaveg. En þeir henta mér ekki vel göngulega séð. Nota þá því mest í messum, veislum og styttri ferðum. Á leiðinni í Þórshamar á þriðjudaginn var kom ég við í Ecco aftur. Þar fann ég á mig annars konar skó. Þeir passa mér ágætlega og það er ágætt að ganga í þeim, (fæ ekki hælsæri amk). En það er smá galli samt. Í skónum eru límd hálf innlegg og tábergið finnur aðeins fyrir því. Kannski lagast þetta þegar ég er búin að ganga skóna til...

27.4.05

- Gula beltið í höfn -

Oddur Smári var í gráðun í gær og tók seinni hlutann af gula beltinu. Strákurinn stóð sig mjög vel og þurfti aldrei að gera athugasemd við stöðuna hjá honum. Við Davíð erum auðvitað að rifna úr stolti, kannski við séum sprungin...

En mér varð heldur betur á í messunni sl. mánudag. Drengjakórinn var með æfingu og smá tónleika í Fella- og Hólakirkju. Ég var svo viss um að Davíð Steinn átti bara að fara með kórpeysuna og spariskóna með sér (svona er að lesa ekki aftur yfir "fylgiskjöl"). En þá áttu þeir að mæta í hvítri skyrtu og svörtum buxum líka. Pilturinn fyrirgaf mér þessi mistök en ég samdi við hann um að lesa líka sjálfur yfir öll "fylgiskjöl" svo hann geti haft hönd í bagga og yfirsýn sjálfur.


25.4.05

sumarkoma

ég sá sumarið
koma á móti mér
ég gekk inn í
útbreiddan faðm
og við knúsuðumst

þegar ég leit til baka
sá ég vorið
veifa glaðlega
eins og það vildi segja
"ég kem aftur seinna"
- Æfingin skapar meistarann -

Loksins náði ég tökum á þessum frönsku ("fræhnútum") hnútum og þá var ég auðvitað alveg óstöðvandi og hætti ekki fyrr en ég var búin með myndina. Á myndinni eru eitthvað á fimmta tug hnúta og ég varð bara betri og betri í þessu.

Sl. föstudagskvöld hitti ég félaga mína úr Landsbankakórnum og marga af eldri félögum. Ég hef greinilega fallið vel inn í hópinn þann stutta tíma sem ég var í kórnum (bara fimm mánuði) því þær voru nokkrar sem þökkuðu mér fyrir öll árin. Gaman að því! Kvöldið heppnaðist mjög vel og var fljótt að líða.

Í gær var þjóðlagamessa í Óháðu kirkjunni. Og kom Borgarkórinn undir stjórn Sigvalda Kaldalóns og söng fjögur lög í messunni. Kórinn var svo með tónleika seinni partinn í gær.

22.4.05

- Margt er hugsað á arkinu -

Hugurinn skreið út í skotið
skamma stund dvaldi þar.
Þótti ekki þægilegt potið
og þáði með mér far.
(á næsta bar)

Hugurinn flaug yfir fjallið
fús ég elti hann.
Viss um að þaðan kom kallið
kannski ég heimsæki mann.
(og annan)
-----------------

Ekki tókst Valsmönnum að knýja fram oddaleik. Þetta leit samt ágætlega út í leikhléi, 15-12. Og eftir hlé juku þeir muninn upp í fimm mörk. En svo fór Birkir að verja betur og Haukarnir komust aftur inn í leikinn, náðu forystunni og héldu henni. ÍR-ingar sigruðu hins vegar ÍBV og oddaleikurinn fer fram í Eyjum á sunnudag. En leikurinn í Valsheimilinu var síðasti leikurinn í þessu húsi. Það verður rifið fljótlega og þegar breytingarnar verða afstaðnar verður aðstaðan við Valssvæðið til fyrirmyndar. Þá verða vonandir allar æfingar í öllum greinum og flokkum á svæðinu sjálfu.

Þolinmæði þrautir vinnur allar. Ég var í miklu saumastuði í gær og er langt komin með myndina hennar Bríet. Ég prófaði meira að segja að byrja á fræhnútunum og það virðist ætla að takast. Þá þarf ég ekki að blikka mömmu með það. Nú klæjar mig í fingurnar að drífa þetta verkefni alveg af og byrja á því nýjasta.

Hafið það gott um helgina!

21.4.05

- Gleðilegt sumar -

Ekki hef ég trú á því að sumar og vetur hafi frosið saman að þessu sinni en ég ætla samt að vera bjartsýn á að framundan sé yndislegt sumar. Á meðan ég man, önnur kaffitegundin frá Andra frænda, (sú sem ég er farin að nota) heitir Sólarglóð. Ég er búin að hella upp á nú í morgun og færði manninum bolla í rúmið núna rétt fyrir tíu.

Milli fimm og sjö í gær var ég stödd á Nordica Hotel (sama stað og árshátíðin var haldin í sl. mánuði). Tilefnið var Mastercard dagurinn. Þetta er árviss viðburður hjá MasterCard kreditkort hf. og er þetta í þriðja sinn sem mér er boðið. Hitti fullt af fólki og þarna var boðið upp á léttar veitingar, bæði í vökva og föstu formi. Smá kynning var á fyrirtækinu og því sem er framundan og einnig var dregið í happdrætti (nokkrum flokkum, hinum ýmsu klúbbum og fleira).

Davíð sótti mig um sjö. Helga systir kíkti aðeins seinna um kvöldið m.a. til að lána mér myndina sem ég saumaði handa Huldu svo ég hefði hana til samanburðar við myndina handa Bríet. Kannski ég klári myndina um helgina.

Farið vel með ykkur og eigið góðan dag og gott sumar framundan. Áfram betra liðið í handboltarimmunum í kvöld!!!

20.4.05

- Síðasti vetrardagur -

Hitinn fór upp í tveggja stafa tölu í gær svo mér var nokkuð heitt á arkinu heim, þótt ég væri með kápuna opna. Tvíburarnir voru á æfingu og Davíð sá um að millifæra Odd Smára úr Safamýrinni yfir í Þórshamar. Þegar ég kom heim fann ég kaffapakka sem ég var að kaupa af frænda mínum, Guatemala-kaffi og Sólar-kaffi. Hellti upp á það síðarnefnda og það eina sem ég get sagt er mmmmmmm... (Takk Andri)

Helga systir hringdi og bað um smá aðstoð og tók Davíð það líka að sér. Hann kom heim mátulega í mat, ofnbakaðan lax borinn fram með bygggrjónum og gufusoðnu grænmeti, alveg ótrúlega gott!!!

Davíð Steinn spurði hvort hann mætti fara út þegar klukkan var að verða hálfátta. Ég sagði að hann mætti vera úti til hálfníu og bað hann um að fylgjast vel með klukkunni. Davíð fór á fund um átta. Oddur Smári fór ekki út og var hann búinn að gera sig klárann í svefninn um hálfníu. Ekkert bólaði á Davíð Steini. Klukkan var orðin níu og Oddur Smári sofnaður þegar drengurinn skilaði sér.
Ég: "Veistu hvað klukkan er, Davíð Steinn"?
Hann: "Ég gleymdi mér"

Ég byrjaði á nýja saumverkefninu mínu í gærkvöldi. Saumaði í kringum jafann, tók miðju, merkti litina og tók fyrstu sporin. Markmiðið er samt að klára myndina fyrir Bríet áður en ég sný mér alveg að þessu nýja. Helga ætlaði að senda mér Huldumynd til samanburðar, en það fórst fyrir. Fæ þá mynd í kvöld og klára þá þann saumaskap um helgina.

Rimman, undanúrslit karla í handbolta, er hafin. Í gær tók ÍBV á móti ÍR og Valsmenn sóttu Hauka heim. Ég er viss um að báðar rimmurnar fara í oddaleik en ekki alveg hvernig fer. Á pappírunum eru Haukar og ÍBV sterkastir - en spyrjum að leikslokum.19.4.05

Þankar

Þankarnir snúast hring eftir hring
hingað og þangað skjótast.
Mennirnir rífast þing eftir þing
því í öllu er verið að rótast.

Mikið er annars um heilabrot
og ekki svo létt að "laga".
Afgreiðum sumar út í skot
slíkt mun engan plaga.

Á arkinu hugsa ég mikið og margt
magnað hvað kemst að.
Aldrei verður frá öllu sagt
of mikið yrði það.

Suma hluti skal hugsa um
halda sér við efnið.
Aðra verður að ræða um
og frá vandræðum stefnið.

18.4.05

- Helgin liðin -

Það er meira hvað helgarnar fljúga hratt frá manni. Ég kom samt ýmsu í verk (þó ekki öllu), m.a. las ég, saumaði og undirbjó tiltekt og þrif. Svo var ég svo heppin að fá heimsókn frá æskuvinkonu minni seinni partinn á laugardaginn þannig að ég gat frestað frekari þrifum og átti góða stund með Ellu.

Í gærmorgun tölti Oddur Smári einn af stað á knattspyrnuæfingu upp úr hálfníu. Klukkutíma seinna skutlaði ég Davíð Steini í kirkjuna á upphitun fyrir messu. Var komin aftur í kirkjuna nokkuð fyrir ellefu og tók á móti Bríeti og Huldu. Sú fyrrnefnda var mjög meðfærileg og margir trúðu því að ég ætti hana svo lík þykir hún mér.

Seinni partinn kíkti Anna frænka til mín og var löngu kominn tími á hitting og gott kaffispjall. Þetta var notaleg stund.

Á arkinu heim, rúmlega fjögur í dag, setti ég í heldur hærri göngugír en ég er vön og tók þá ákvörðun að drífa í að þrífa. Ég var svo smeik um að svíkja sjálfa mig að ég settist ekki niður fyrr en tæpum tveimur tímum eftir að ég kom heim. Þá var ég líka búin að koma ýmsu í verk (þó ekki öllu) og er ég bara ánægð með dugnaðinn og dagsverkið. Kannski held ég áfram á morgun. Ef ekki þá verð ég að byrja á þeim verkum sem ekki komust að í dag og um helgina, næst þegar ég helli mér í tiltekt og þrif.

Þessa stundina er ég að hlusta á Davíð Stein lesa um Benedikt búálf. Oddur Smári er að lesa fyrir Davíð. Það er skylda að lesa "aukalestur" upphátt í amk tuttugu mínútur á dag. Það er gert til þess að þeir æfist í framburði og t.d. að stoppa við kommur og punkta. Þeim fer fram það er ekki nokkur spurning!

16.4.05

- Órólegt veður -

Svona veður á að nota til þess að koma húshaldinu í betri skorður. Það byrjaði amk. vel hjá mér í morgun. Fór á fætur klukkan níu. Tvíburarnir voru vaknaðir og voru að horfa á morgunsjónvarpið. Fann til morgunverð og færði þeim, bjó til kaffi og færði Davíð í rúmið. Stefnan var að koma sér í gang og byrja um tíu. Veit að Davíð ætlar sér að vinna eitthvað um helgina. Svo rétt fyrir tíu lét ég hann vita að ég ætlaði að kveikja á tölvunni og aðeins að "hita" upp. Hmm, allt í einu er klukkan orðin ellefu. Ef ég á að eiga það skilið að horfa á Liverpool og Tottenham á eftir verð ég að bretta upp ermarnar.

14.4.05

- Úr öllum áttum -

Það gengur ekkert að reyna að halda í dagana, þeir æða samt áfram, og hraðar ef eitthvað er. Skrifaði niður sömu dagsetningu tvo daga í röð um daginn og það eina sem ég hafði upp úr því að það var allt í einu kominn 13. og ég tapaði af þeim 12.

Á þriðjudagskvöldið passaði ég Bríeti Á meðan Helga og Ingvi fóru að sjá ballettsýninguna hjá Huldu. Passið gekk ágætlega. Var mætt um sjö, setti dömuna í rúmið um hálfátta og sú stutta var fljót að sofna. Svo notaði ég tímann og saumaði.

Í gær mætti ég á foreldrafund drengjakórsins. Ýmislegt var á dagskrá og var mjög þægilegt að grípa í saumana á meðan verið var að fara yfir málin.

Svo var kóræfing í gærkvöldi. Við erum m.a. að æfa ungverskt lag og í miðkaflanum er hluti af textanum eftirfarandi: "Rida, rida, bom, bom, bom". Kórstjórinn bað okkur um að syngja þetta frekar með L-i (Lida, lida....). Rétt í lok æfingar sungum við "Á Sprengisandi." Þá fór kórstjórinn allt í einu að spá hvort við yrðum ekki að breyta þar líka og syngja: "Líðum, líðum, lekum yfir sandinn..."?!?!?!

12.4.05

- Komin í saumagírinn -

Já, mér tókst að byrja á saumaverkefninu handa Bríeti og þegar ég er komin af stað þá verð ég ekki lengi að rumpa þessu af. Saumaði töluvert í gærkvöldi. Mikið sem það er afslappandi að grípa í nálina! Nú get ég farið að hlakka til að byrja á allra nýjasta verkefninu.

10.4.05

- Sunnudagskvöld -

Helgin er næstum liðin, bæði annasöm og skemmtileg. Ég var í Valsheimilinu ásamt kórnum mínum og þremur öðrum kórum á föstudagskvöldið. Þar hitti ég m.a. Loft frænda en konan hans syngur með kvennakór Kópavogs. Mæting var áætluð um hálfníu. Allsherjar upphitun á kórunum var rúmlega níu undir stjórn kórstjóra Samkórs Reykjavíkur. Síðan söng hver kór þrjú lög. (Við sungum; "Tíminn líður", "Sofðu rótt" og "Á Sprengisandi"). Eftir sönginn var fólki boðið að gjöra svo vel og fá sér að borða af köldu hlaðborði (grænmetis- og pastaréttir, ostar, vínber og fleira góðgæti). Mörgum fannst samt margt ganga frekar seint fyrir sig. Vitað var að kórarnir væru með skemmtiatriði en klukkan var langt gengin í ellefu áður en þau voru kynnt og alltaf einhver hlé á milli. Klukkan var orðin tólf þegar kom að okkur. Kristinn (annar bassinn okkar) var með nokkra smellna fimmaurabrandara og kórhugleiðingar og sló hann í gegn. Hann ætlaði svo að kynna mig til sögunnar en ég hafði hlaupið í skarðið fyrir einn sem varð að fara áður en kom að okkur. Kristinn gleymdi alveg að kynna mig en ég bjargaði því snarlega, stökk á hljóðnemann og kynnti mig sjálf (þ.e. kynnti seinna atriðið okkar). Ég var með smá sögu úr villta vestrinu og fékk nokkra kórfélaga upp á svið til mín mér til aðstoðar. Alla hina í salnum bað ég um að baula ef þeir heyrðu orðið hjörð í upplestri mínum. Þetta tókst ágætlega. Pétur kórstjóri lék lögreglustjórann og hafði nágranni hans lánað honum merktan lögreglujakka og húfu í stíl. Einn tenórinn lék fyrir mig kúrekann og hinir tveir sem mættir voru léku skúrkana. Síðast en ekki síst fékk ég eina úr sópran til að leika hina yndisfögru Lafði Rós. Klukkan var orðin hálfeitt þegar loks var hægt að slá upp balli (og við sem höfðum ekki salinn nema til tvö...).

Seinni partinn á laugardag fórum við mæðginin á leik Vals og HK í Valsheimilinu. Valsara fóru með átta marka forskot inn í hálfleik og munaði um það að Björgvin Gústavsson, í marki HK-inga var ekki kominn í gang og Hlynur varði mjög vel í marki Valsara. Seinni hálfleikur var mun meira spennandi og ég verð að viðurkenna að ég var orðin smeik í lokin um að annaðhvort yrði framlengt eða jafnvel Kópavogsliðið myndi vinna. 31:30 fyrir Val var lokastaðan og þar sem ÍBV marði sigur á Frömmurum mæta Valsara Haukum í undanúrslitum (annars hefðu það verið ÍR-ingar).

Upp úr eitt í dag mætti ég svo í kirju og söng með flestum kórfélögum mínum við fermingamessu. Fjórar stúlkur fermdust og átti"Lafði Rós" eina af þeim.

En ég er líka búin að slaka á, lesa og sinna húsverum um helgina. Það eina sem ég komst ekki í var að byrja á saumaskapnum. En koma dagar og koma ráð!

8.4.05

- Ýmislegt -

Það er ljóst að það verður hörku leikur í Valsheimilinu á morgun, oddaleikur. Líklega er það rétt hjá Ólafi Víði Ólafssyni, að það lið sem langar mest til að vinna, vinnur leikinn! Það má bóka það að ég verð á staðnum á morgun. En ég verð þar í kvöld líka. Ekki til þess að taka frá pláss fyrir leikinn á morgun. Nei, það er svokallað kórakvöld í kvöl. Kirkjukór Óháða safnaðarins er einn af fjórum kórum (Karlakór Kópavogs, Kvennakór Kópavogs og Samkór Reykjavíkur) sem ætla að hittast og syngja hverjir fyrir aðra. Ég hlakka til! Hver kór syngur 3 lög og verður með e-r skemmtiatriði og boðið verður upp á léttar veitingar. Og ef þetta er eins og í fyrra þá verður barinn opinn. Svo verður ball til klukkan tvö.

Annars sit ég þessa stundina og dáist að nýja giftingahringnum mínum. Fór með hann í gær til gullsmiðsins sem smíðaði hann fyrir rúmum níu árum og bað hann um að hreinsa hann og stækka. Í ljós kom að það þurfti aðeins að stækka hann um eitt númer. "Eitt, núll fyrir þig!" sagði gullsmiðurinn við mig í gær (en var áður búinn að spyrja hvort hann hefði hlaupið). Og ég mátti vitja hans eftir fjögur í dag. Hann er svo skínandi fagur að mér finnst ég vera nýgift, he he.

Ég gerði fleira í gær. Ég útvegaði mér það sem til þarf til að sauma fæðingarmynd handa Bríeti, alveg eins og þá mynd sem ég saumaði handa Huldu á sínum tíma (og svipað og ég saumaði í handa Oddi Smára og Davíð Steini). Ég var nefnilega búin að heita mér því að byrja ekki á nýju saumaverkefni fyrr en ég væri búin að afgreiða þetta handa Bríeti. Ég verð ekki lengi að skvera þessu af eftir að ég byrja!

6.4.05

- Minning -

Í dag er fæðingardagur eins frænda míns, Odds Þorsteinssonar, sem lést langt um aldur fram fyrir tæpum þremur árum síðan. Ég naut þeirra forréttinda að alast upp með honum. Þótt hann væri átta árum eldri en ég var hann (og eldri bróðir hans) mjög duglegur að leika við okkur systur. Hugurinn er hjá fjölkyldunni í dag!

Annars fórum við mæðginin á leikinn, Valur - HK í gærkvöldi. Þvílíkur spennuleikur. Mér segir svo hugur að þetta fari í þrjá leiki og það er engan veginn ljóst hvort liðið vinnur tvo. Pálmar stóð sig ágætlega í markinu framan af. Hann skipti svo við Hlyn eftir að seinni hálfleikur var byrjaður. Hlynur kom svo í veg fyrir það að leikurinn færi í framlengingu með því að verja síðasta aukakastið frá HK.

4.4.05

Herra Atli

Ég ætlaði mér að drífa af
öll hús- og skylduverk.
Gleymdi nú samt að þurrka af
en var bara í andanum sterk.

Bækurnar mikinn tíma taka
tæla mig oft til sín.
Sumum finnst ég ætti að baka
en er það ekki ákvörðun mín?

Betri er bók en kaka!

2.4.05

- Góður RAUÐUR dagur -

Liverpool vann sinn leik gegn Bolton 1:0 og Valsstelpurnar slógu FH-stúlkur út rétt áðan með 25 mörkum gegn 19. Berglind varði mjög vel í markinu og sigurinn var aldrei í hættu. Við mæðginin fórum á leikinn og skemmtum okkur vel. Ég var samt aðeins að reyna að spara röddina því ég er með einhvern kverkaskít og hálsinn tæpur. Verð að ná mér góðri fyrir næstu helgi en það er kórakvöld í Valsheimilinu n.k. föstudagskvöld og fermingarmess n.k. sunnudag. Annars kórónaði Eiður Smári daginn með því að skora tvö mörk í 1:3 sigri Chelsea á Southamton.