29.6.05

Steini föðurbróðir og ég!
Mynd fengin að láni úr albúmi Sigurrósar frænku
- KR - Valur 1:2 -

Ég kom heim með seinni skipunum í gær (ca 17:30). Hitti fólki og spjallaði góða stund. Einnig kom ég við á tveimur stöðum. Heima fann ég Davíð og Odd Smára sofandi en Davíð Steinn var í tölvuleik, einn vinurinn var nýfarinn heim.

Hafði súpu og brauð í kvöldmatinn og hellti kaffi á nýju hitabollana okkar. Rétt fyrir átta dreif ég alla af stað í Frostaskjólið. Þangað hef ég aldrei farið á leik í efstu deild áður. Eftir fyrstu mínúturnar náðu "okkar stelpur" undirtökunum í leiknum en ekkert mark var samt skorað í fyrri hálfleiknum. Þvert gegn gangi leiksins náðu KR-stúlkur að pota inn fyrsta markinu. Vals-stelpur jöfnuðu mjög fljótlega og náðu svo að skora annað mark stuttu fyrir leikslok.

Þið kannski takið eftir því að ég er loksins búin að setja upp hjá mér GESTABÓK, endilega verið nú duglega að kvitta fyrir komu ykkar!

Núna var hún nokkuð klók
nýtið ykkur það vel.
Skrifið gott fólk í gestabók
gaman það ég tel.

28.6.05

- Feðgarnir komnir heim -

Dreif mig beint heim seinni partinn í gær. Setti í þvottavél, tók af snúrunum og gekk frá þvottinum. Svo var hugmyndin að leggja sig smá. Reyndin varð sú að ég settist við tölvuskjáinn. Skv. áætlun Herjólfs var lagt frá Vestmannaeyjum klukkan fjögur og 3 og hálfur tími gefinn upp. Reyndin varð sú að skipið var komið í Þorlákshöfn um sjö. Ég var rétt ókomin. Þvílík þoka í þrengslunum. Við biðum um stund eftir að einn kappinn væri sóttur en svo var brunað beint í bæinn og á leikinn Valur - KR 3:0. Við komum á svæðið er um 7-10 mínútur voru liðnar og misstum því af fyrsta markinu sem Guðmundur Benediktsson fyrrum KR-ingur gerði strax á annarri mínútu leiksins. Matthías Guðmundsson skoraði svo hin tvö mörkin. Þarna þekkti ég "mína menn" baráttuglaðir, klettar í vörninni og líklegri til að bæta við heldur en KR að minnka muninn. Mér skilst á þeim sem sáu leikinn í Eyjum (ÍBV - Valur) að þar voru Valsmenn með allt á hælunum allan leikinn. Í kvöld er það svo KR - Valur í Landsbankadeild kvenna...

27.6.05

- Bráðum koma feðgar heim -

Seinni partinn á föstudaginn kom ég við hjá norsku vinkonu minni. Hún bauð mér með sér á rokktónleika en Singapúr Sling (æ veit ekkert hvernig þetta er skrifað), hélt tónleika í garðinum við 12 TÓNA við Skólavörðustíg. Boðið var upp á pylsur með öllu, rautt, hvítt og saft. Ég kíkti líka inn í búðina og freistaðist í bestu lög Kim Larsen og einn gamlan með Herði Torfa.

Á laugardagsmorguninn hitti ég Helgu og Huldu í Skeifunni. Systurdóttir mín ætlaði að koma með mér austur. Við vorum komnar framhjá Litlu kaffistofunni þegar gemsinn hringdi. Það var önnur frænka mín sem hafði ætlað að ná á mig áður en ég héldi í hann og verða samferða mér austur. Ég hefði alveg geta snúið við eftir henni en hún sagði mér bara að halda áfram, hún ætlaði svona að sjá til hvað hún gerði. Hún kom reyndar svo seinna um daginn. Ég sleppti því að fara að Keldum en þar var ákveðið að fá frekar inni í kappreiðahúsinu á Gaddstaðaflötum vegna veðurs. Við vorum látnar vita af því. Við Hulda fórum fyrst bara tvær og fannst mér það pínulítið tómlegt, sérstaklega þegar átti nú að taka mynd af hverri grein fyrir sig, þ.e. börnum föðurafa og ömmu. Af tíu í pabba grein (hann meðtalinn) vorum við semsagt bara tvær. Mamma kom reyndar seinna og pabbi kom einmitt úr ferðalagi þennan dag og kíkti seint um kvöldið.

Var komin í bæinn upp úr hálfeitt. Stillti vekjarann á níu til að röddin yrði örugglega vöknuð um ellefu. Var mætt í upphitun fyrir gúllasmessu rúmlega tíu. Messan tókst ágætlega og var nokkuð vel mætt. Gúllasið var frábært!!! Síðan fór ég heim að dútla við ýmis heimilisverkefni. Um miðjan dag hringdi norska vinkona mín og spurði hvort það væri ekki upplagt að byrja að kíkja saman á Esperanto. Ég var alveg til í það. Fann til það sem ég átti af kennslubókum og skrapp yfir. Fékk smá kaffi en svo datt okkur í hug að það væri sniðugra að nota veðrið. Ókum yfir í Nauthólsvík og fengum okkur langan göngutúr þaðan með viðeigandi pásum.

Nú eru feðgarnir um það bil að leggja frá landi í Eyjum. Ég sæki þá í Þorlákshöfn en vona samt að ég muni ná amk seinni hálfleik í leik Vals og KR.

24.6.05

Davíð Steinn, Hulda og Oddur Smári úr myndaalbúmi systur minnar!
Út og suður

Það er gaman að lifa og leika sér
leggjast í grasið og blunda.
Stundum gæti ég hugsað hér
hrifin af stað ég skunda.

Ég er í stuði, sjáið þið til
senn mun ég leggja á fjöll.
Hitta alla ættina hér um bil
heima við æsku-höll.

Gott verður góðan hóp að sjá
gefa sér góðan tíma.
Spjalla við alla, í ungviðið kjá
ég slekk á mínum síma.

Í andanum er ég komin af stað
yfir fjallið og austur í sveit.
Og nú mun ég segja ykkur það
að þarna ég barnsskónum sleit.

23.6.05

- Afmæli og fleira -


Bríet er eins árs í dag. Vá, hvað tíminn líður! Seinni partinn í dag fer ég beint á Njálsborg, leikskólann hennar Huldu frænku en þar er vorhátíð í dag. Strax á eftir fer ég með mæðgunum á Grettisgötuna og þygg smá afmæliskaffi. Mamma kemur í bæinn að sækja nýja bílinn sinn svo ég hitti hana á vorhátíðinni og hjá Helgu.

Seinni partinn í gær kom ég við á Hlíðarenda til að sækja bílinn. Feðgarnir höfðu komið á honum um morguninn en þaðan fór rúta austur í Þorlákshöfn til að taka Herjólf "til útlanda". Davíð Steinn sagði amk við ömmu sína í fyrrakvöld: -"Ég hef aldrei áður komið út fyrir Ísland!"

Ég mætti á kóræfingu rétt fyrir hálfníu. Við vorum fá en það gerði ekkert til. Renndum yfir sálmana fyrir gúllasmessuna n.k. sunnudag og fengum okkur svo góðan kaffisopa á eftir. Vorum eiginlega jafnlengi í kaffi og að æfa. Ég hafði skilið símann eftir úti í bíl og hann var víst búinn að hringja nokkrum sinnum milli hálfníu og tíu. Davíð náði loksins í mig um tíu og tilkynnti mér að Davíð Steinn hefði gleymt að setja niður stuttbuxurnar. Sem betur fer var ein mamman að fara í Eyjar í morgun og Oddur Smári var með auka stuttbuxur.

22.6.05

- Bakarsnótin hans Hérastubbs -

Þegar ég kom heim um hálffimm í gær var ég ekki í neinu stuði til að baka en púðursykurinn var orðinn mjúkur og fínn og mér leist vel á þessa uppskrift sem ég hafði prentað út. Ekki var það verra að ég átti allt í hana. Ég dreif mig því í eldhúsið og hófst handa. Nú er ég þannig með kökubakstur að ég þarf að fara nákvæmlega eftir uppskriftinni (alveg þveröfugt við eldamennskuna hjá mér) og eitthvað hafði uppskriftin ruglast við útprentunina. Flest stóðst þó eins og magnið af hveitinu, púðursykrinum, haframjölinu og smjörlíkinu. En svo stóð 1 bolli natrón. Ég átti að vísu ekki nema hálfan en var heldur fljót á mér. Eitthvað hvíslaði að mér að þetta gæti ekki staðist. En engu að síður demdi ég hálfa bollanum út í hveitið. Þegar ég las svo aðeins neðar að það ætti að fara hálf teskeið af eggi í uppskriftina fékk ég grunsemdir mínar staðfestar. Allt ónýtt! Veit ekki hvað ég hefði þurft að margfalda uppskriftina til að kökurnar hefðu orðið í lagi. Hvað komast 1/2 teskeiðar oft til að hálffylla bolla? Með tárin í augunum og kökkinn í hálsinum bað ég Davíð um að henda þessu fyrir mig. En það gengur bara betur næst, ég gefst ekki upp því ég er viss um að þessar kökur eru góðar í réttum hlutföllum!

Um kvöldið komu flíkurnar sem fylgja Eyja-pakkanum. Þar var einhver smá ruglingur á ferðinni. Sum fötin voru ekki merkt og Oddur Smári fékk tvær eins peysur með nafninu sínu á. Ég tók því aftur upp nál, tvinna og miðana góður og saumaði í 2 x tvennar buxur, tvær peysur og tvær húfur. Davíð fór svo með mest allt dótið í Valsheimilið.

Maðurinn minn þurfti svo að vinna í næstum alla nótt að klára eitthvað netdæmi fyrir þessa heimasíðu. Það var farið að liggja á þessu og minn maður að fara í nokkurra daga ferð og vildi klára þetta áður. Ég held að hann hafi verið að koma í rúmið um hálfsex í morgun.

21.6.05

- Sumarsólstöður -

Það þýtur margt í gegnum hugann núna. Fimm ár eru liðin síðan; móðuramma mín dó og síðan seinni Suðurlandsskjálftinn reið yfir. En í dag á líka frænka mín og nafna afmæli. Til hamingju Anna frænka!

Drjúgur tími fór í merkingar og annan undirbúning fyrir komandi Shell-mót í Eyjum. Já, þetta er bara alveg að bresta á. Farangurinn fer annað kvöld og hópurinn á miðvikudagsmorgun. Ég merkti handklæði og föt með nafni og símanúmeri (á slatta af svoleiðis miðum sem einnig er hægt að nota til að hengja flíkur á snaga). Sagði samt við Davíð að mér finndist óþarfi að merkja nærbrækurnar þeirra. Ég ætlaði líka að baka og hafði fundið uppskrift af góðum rúsínusmákökum á netinu. Ég átti meira að segja til allt hráefni en púðursykurinn var grjótharður. Það endar kannski með því að ég baka bara beint úr næsta bakaríi....

20.6.05

- Hátíð, tap, UV-590 og brúðkaupsveisla -

Já, það hefur svo sannarlega margt drifið á dagana. Hef bara ekki mátt vera að því að setja neitt niður. Fyrir vikið verður þetta líkalega svona ör-útgáfa af einhverjum atburðunum.

Sl. miðvikudag var ég komin á Valssvæðið um fimm. Þótt ég vissi að tvíburarnir væru einhvers staðar útivið fór ég beint inn í íþróttahúsið því stuttu seinna var blásinn á síðasti handboltaleikurinn í þessu húsi. "Gamlir" Valsarar á móti núverandi liði og spilaðar 2x20 mín. Þetta var bráðfjörugur leikur og jafn framan af enda var Guðmundur Hrafnkelsson að verja últra vel! En "yngri" strákarnir sigruðu með 3 marka mun.

Davíð var mættur á svæðið og hitti ég hann úti eftir leikinn. Mér datt í hug að sniðugt væri að taka töskur tvíburanna og setja í bílinn. Davíð sagðist hafa lagt honum á malarvellinu. Við fundum töskurnar og ég gekk í humátt á eftir manninum. Ekki fann ég bílinn en Davíð stoppaði loks hjá rauðum glænýjum Ford Escape með bílnúmerið UV-590. Við erum semsagt kominn á nýjan bíl og það flottan jeppa.

Það voru ótrúlega margir áhorfendur á leiknum Valur - FH. Valsararnir áttu slakasta fyrri hálfleik á tímabilinu og voru heppnir að fá aðeins eitt mark. Seinni hálfleikurinn var mun skárri en markið sem FH-ingar skoruðu á 13. mínútu var eina mark leiksins og því ljóst að Valsararnir voru þar með búnir að tapa 1. leiknum sínum í sumar.

Á fimmtudagskvöldið skruppum við skotferð austur á Hellu á nýja bílnum. Pabbi og mamma voru með tvenn dönsk hjón í heimsókn hjá sér. Önnur hjónin komu fyrir 27 árum, sumarið áður en ég fór í dönsku. Ég minnist þess að ég fann orðið anna í íslensk-danskri orðabók og fann það út og uppástóð að það væri nafnið mitt. Var svona að reyna að slá um mig.

Á þjóðhátíðardaginn fórum við í bíltúr um Bláfjöll og Krýsuvíkurleið á Bakkann. Og á laugardagskvöldið vorum við Davíð í stórskemmtilegri brúðkaupsveislu.

15.6.05

- Labb og meira labb -

Kom við í Heilsuhúsinu seinni partinn í gær og keypti mér m.a. hnífasett sem var á tilboði fyrir íbúa heilsuhússins. Var búin að lofa Helgu systur að brúa bilið hjá henni um sex og var að spá hvort ég ætti bara að fara beint til hennar. En endirinn var sá að ég arkaði heim með vörurnar, setti í þvottavél og dútlaði í eldhúsinu (náði samt ekki að byrja að undirbúa kvöldmat). Helga hringdi þegar ég var rétt komin heim og spurði hneyksluð: -"Afhverju komstu ekki við hjá mér og fékkst bílinn?" Hmm, góð spurning. Hefði komist yfir svo miklu meira heima en einhvern veginn spáir maður ekki í svona. Ég er ekki á bíl dags daglega og framkvæmdir mínar miðast við það.

Rölti af stað yfir á Grettisgötuna um hálfsex. Bríet var ekkert ósátt við að vera skilinn eftir hjá mér. Ég gaf henni að borða og líklega er hún komin með hálfgerða matarást á mér. Hún vildi líka helst sitja í fanginu hjá mér eftir að hafa borðað. En þegar hún var búin að sjá pabba sinn eftir að hann kom heim varð heljar sorg hjá henni er hann hvarf úr augsýn hennar augnblik. ("Gleymt er þá gleypt er").

Annars er það helst að frétta að ég er byrjuð að klippa niður þrívíddarmyndirnar á jólakortin. Prófaði reyndar ekki hnífinn góða sem Lilja vinkona gaf mér en komst líka að því að það er betra að vera bæði með lítil og stór skæri. Saumaða jólatrés-kortið er líka langt komið en ég er enn að ákveða hvort ég sauma fleiri jólakort í ár (á eftir jólasvein og kúlur á grænni grein). Er samt ákveðin í að kaupa mér jafa og garn til að geta saumað allar myndirnar aftur og aftur...

14.6.05

- Sumarblíða -

Þegar ég arkaði heimleiðis seinni partinn í gær vissi ég af því að æfing félli niður hjá 6. flokki. Ég ákvað því að koma við í Valsheimilinu og sækja strákana. Var komin þangað rétt fyrir hálffimm.
-"Megum við vera til fimm?" spurðu þeir báðir og var það í lagi starfsmannanna vegna svo ég fór tómhent heim. Bræðurnir komu svo heim upp úr fimm rétt til að skila af sér töskunum og svo voru þeir roknir út aftur. Ég náði að koma þeim upplýsingum til þeirra að það yrði matur klukkan sjö. Oddur Smári skilaði sér nokkurn veginn á réttum tíma en þegar ekkert bólaði á Davíð Steini sendum við stráksa út að leita að honum. Tíu mínútum seinna sagði ég við Davíð: -"Nú eru þeir báðir týndir! Kannski skilar svo Davíð Steinn sér og við sendum hann út að leita að Oddi." En bræðurnir komu saman heim, borðuðu og voru svo farnir út aftur og voru úti alveg til tíu, enda veður til þess.

Það er ennþá vinnutörn hjá Davíð. Hann kom reyndar heim í kvöldmat og vann heima eftir það en mér skilst að hann hafi verið að alveg til klukkan langt gengin í tvö.

13.6.05

- Ég er Valsari -

Jæja, enn ein helgi liðin jafn viðburðarrík og flestar aðrar á undan. Ég var mætt í kirkju tuttugu mínútum fyrir níu á laugardagsmorguninn. Organistinn ákvað að spila bara á flygilinn og sagði okkur að setjast þar hjá honum. Við þurftum ekki einu sinni að fara í vinnufötin, kjólana. Göngumessan var notaleg og mátulega löng, ca. 40 mínútur. Var komin heim vel fyrir tíu.

Næsta mál hefði verið að fara með fjölskyldunni í Safamýrina þar sem strákarnir áttu að keppa á litlu móti. Oddur Smári vaknaði hins vegar mjög aumur undir iljunum (táberginu og tánum aðallega) og sýndist okkur hann vera með slatta af flísum. Nafnarnir fóru því bara tveir en við Oddur vorum eftir heima. Þegar ég byrjaði að hreinsa flísarnar kom í ljós að þetta var mest allt sandur. Líklega hefur stráksi skorist í Nauthólsvíkinni á föstudeginum.

Þegar nafnarnir komu heim aftur drukkum við Davíð tvo bolla saman en svo skutlaði ég honum á skrifstofuna. Komum við í blómabúð í leiðinni og keyptum innflutninggjöf handa vinkonu minni sem var að kaupa sér og flytja inn í íbúð í Árbænum. Meiningin var að við mæðginin kíktum á hana og færum svo að versla. Hins vegar var svo gott að sækja þessa vinkonu mína heim og langt síðan síðast þannig að við vorum miklu lengur en smá stund. Davíð hringdi í mig og spurði hvort ég gæti reddað pössun svo ég gæti komið með honum, yngri bróður hans og kærustu á Episode III. Aðalbarnapían okkar er komin norður á Skagaströnd og önnur er í útlöndum. Mér datt í hug að hafa samband við dóttur vinafólks okkar. Sú var upptekin en mamma hennar, norska vinkona mín, bauðst til þess að koma. Svo ég komst í bíó!

Tókum því rólega til að byrja með á sunnudeginum. Skutlaði Davíð á skrifstofuna um háltvö en við mæðgin fór beint að versla. Eftir að hafa gengið frá vörunum sóttum við Önnu frænku. Meiningin var að athuga hvort sýningin í tönkunum rétt hjá Óháðu kirkjunni væri enn í gangi í opin. Sennilega er hún enn í gangi en lokuð á sunnudögu. Þá lá leiðin í Hafnarborg á sýningu Dieter Roth. Davíð Steinn er alveg að fíla þetta en Oddi leiddist.

Á eftir skruppum við heim. Ég bjó til kaffi handa okkur nöfnunum og gaf strákunum hressingu. Eftir að hafa skutlað Önnu frænku, heim um sex, sóttum við Davíð. Hann var ekki alveg tilbúinn en við vorum samt komin til Keflavíkur í þann mund sem verið var að flauta leik Keflavíkur og Vals á. Fyrsta markið í flugeldasýningunni kom svo snemma að við vorum ekki búin að borga okkur inn. Þetta varð hin mesta skemmtisýning. Valsarar voru yfir 0:3 í leikhléi og náðu að skora eitt enn áður en Keflvíkingar minnkuðu muninn og það voru svo Valsarar sem áttu síðasta orðið þannig að leiknum lauk 1:5. Það verður örugglega hörkuleikur n.k. miðvikudag þegar "mínir menn" taka á móti FH sem eru í 1. sæti í deildinni með jafnmörg mörk skoruð en hafa fengið einu marki færra á sig.

Davíð skutlaði okkur mæðginum heim eftir leikinn en fór sjálfur beint á skrifstofuna aftur. Þar var hann í alla nótt, kom heim klukkan sex í morgun rétt til að halla sér í tvo tíma.

10.6.05

- Fiskleysi -

Ég arkaði við á Hlemmi seinni partinn í gær. Fiskbúð Hafliða er enn lokuð vegna framkvæmda og sennilega er Fiskbúð Einars alveg hætt þar sem Einar er líklega kominn á aldur. Ég kom því tómhent heim. Strákarnir byrjuðu í Sumarbúðum í borg í gær. Við vorum bæði búin að segja þeim að koma heim í millitíðinni fyrir æfingu en þeim hefur greinilega ekki fundist taka því. Vildu vera á svæðinu alveg til fimm og æfingin byrjaði klukkan hálfsex. Ég sá þá því ekki fyrr en rúmlega sjö.

Á morgun enn eitt mótið. Ég næ að syngja í göngumessunni áður og verð komin heim aftur nokkru áður en við förum í Safamýrina. Þetta er síðasta móti fyrir Eyjaferðina enda er stutt í að hún bresti á!!! Það verða fjögur lið, þrír leikir, þannig að þetta verður ekki svo langur tími.
Skáldið orti skundandi
skeggræddi og bað.
Vísur botnaði blundandi
bætir geðið það.

9.6.05

- Stutt kóræfing -

Fljótlega eftir að ég var búin að fylgjast með íslenska karlalandsliðinu vinna þá frá Möltu 4:1 (góður leikur) mætti ég á kóræfingu. Fyrir lá að fara yfir sálma sem verða sungnir í göngumessu n.k. laugardagsmorgun. Við vorum tíu með kórstjóranum og aðeins bassinn fullskipaður, þeir mættu báðir. Messan verður klukkan níu en svo fara margir austur fyrir fjall og ganga m.a. á Sandfell. Því miður kemst ég ekki með í þetta sinn, kannski að ári. Fórum líka aðeins yfir tvo sálma sem verða sungnir í gúllasmessu þann 26. júní n.k. Það er síðasta messa sumarsins í Óháðu kirkjunni og kallast þessu nafni því það verður boðið upp á dýrindis gúllas eftir messu. Eftir æfinguna sátum við góða stund, drukkum kaffi eða te og spjölluðum saman. Næsta æfing verður eftir hálfan mánuð og svo ekki fyrr en í ágúst.

8.6.05

- Í bananastuði -

Hissa varð hún gamla konan
hætti strax að tala.
Þarna var þá litla læðan
lá í fleti og var að mala.

Yfir fjöllin feikna há
flýgur hópur fugla.
Gaman væri þeim að ná
hvað er ég að rugla?

Fínn er maður á flottum bíl
ferðast hér og þar.
Um þetta ég skrifaði stíl
sem af öllum bar.

Vitleysan vellur upp úr mér
vitaskuld er gaman.
Það veit sá sem allt hér sér
að ég er rauð í framan.

Hvernig væri´ að hætta þessu
horfum þó ei til baka.
Áður en allt fer í klessu
ég syng bí bí og blaka...

7.6.05

- Ályktunarhæfni -

Stoppaði smá stund á Grettisgötunni seinni partinn í gær. Helga systir var í ræktinni en Ingvi mágur, bauð mér upp á kaffi sem ég þáði með þökkum. (Hann var svo að byrja að vinna aftur í morgun eftir slysið um daginn). Hulda frænka var eitthvað lítil í sér, fékk duluna sína og settist svo í fangið hjá mér. Þegar hún var aðeins byrjuð að jafna sig sagði hún:
-"Það er góð lykt af dulunni minni, Anna frænka!"
-"Ég finn ekki lykt, Hulda mín."
-"Afhverju ekki?"
-"Nefið á mér er bara bilað."
-"Er það af því að þú ert ekki með bein í nefinu....?"

Við strákarnir röltum svo heim. Þar fóru þeir í takkaskóna sína og hjóluðu beint á æfingu. Þeir komu rennblautir en glaðir heim. Höfðu fengið afhentan pening fyrir þátttökuna á Tungubakkamótinu. Þeir feðgar fylgdust svo með kveðjuleik Guðmundar Hrafnkelssonar er Íslendingar unnu Svía í fyrsta skipti í mörg, mörg ár.

Ég hins vegar brá mér á Valsvöllinn þar sem stelpurnar tóku á móti ÍA. Það voru ekki mjög margir áhorfendur. Leikurinn fór að mestu fram á vallarhelmingi Skagastúlkna en það var sama hvað heimaliðið reyndi og reyndi ekki tókst þeim að pota boltanum í netið. Og smá klúður á áttundu mínútu kostaði það að gestirnir komust yfir. Þannig var staðan í hálfleik. Í seinni hálfleik jöfnuðu Valsstelpur fljótlega en þótt þær væru í nær stanslausri sókn komust þær ekki yfir fyrr en um miðjan hálfleikinn. Tíu mínútum fyrir leikslok jöfnuðu gestirnir úr vítaspyrnu en rétt fyrir leikslok kom sigurmark Valsstúlkna beint úr aukaspyrnu. Þetta var spennuleikur, frábær barátta í gestunum og hálfgert lánleysi yfir heimaliðinu. Ekki veit ég hvað þær áttu mörg skot að marki alls, þau voru mörg.

6.6.05

- Í rauða liðinu -

Gærdagurinn var tekinn frekar snemma. Allir komnir á fætur upp úr átta. Ég útbjó hafragraut handa feðgunum og svo hjálpaði ég tvíburunum að taka saman fótboltadótið sitt (engu að síður urðu legghlífar annars þeirra eftir heima svo gera varð ferð eftir þeim). Samkvæmt pósti frá þjálfaranum átti að mæta á svæðið klukkan níu. Við vorum komin á slaginu og fengum þá þær fréttir að strákarnir væru í E-liði sem væri að byrja að keppa. Sem betur fer gátu strákar úr A og B liðinu fengið að byrja inn á á meðan hinir voru að tínast á svæðið. Það náðist akkúrat í 3 lið og voru tveir auka sem voru varamenn fyrir A- og B-lið. Strákarnir í E-liðinu voru akkúrat 7 svo það var enginn umfram. Í eitt skiptið fengu þeir þó lánaðan einn úr B-liðinu, hálfan leik eða svo. Þeir spiluðu fimm leiki, við Stjörnuna, Keflavík, Breiðablik og 2 lið úr Víkingi. Það er skemmst frá því að segja að það fór allur dagurinn í þetta. Síðasti leikur var klukkan korter í þrjú. Fjórir leikir töpuðust en einn vannst 4-2. Þetta er nú allt í áttina. Veðrið var alveg frábært, sól lungan úr deginum og hægur andvari. Við vöruðum okkur ekki á styrkleika sólarinnar en fundum ekki fyrr en neinu fyrr en við komum heim um fjögur. Afskaplega sem okkur var heitt í framan, Davíð Steinn slapp samt alveg hann varð bara brúnni. Okkur hinum krossbrá er við litum í spegil, anlit okkar voru eins og eldhnettir. Sem betur fer átti ég krem til að bera á eftir sól. En nú erum við þrjú alveg í stíl við liðið okkar he, he.....

Klukkan sex mættum við í fermingarveislu. Einn bróðir hennar mömmu var að láta ferma son sinn enda vorum við öll mætt úr mömmu geira, mamma, pabbi, við systur makar okkar og börn. Þetta var hin ágætasta veisla. Það vantaði að vísu eitthvað af frændfólkinu en það kom ekki að sök.

4.6.05

- Ísland - Ungverjaland 2:3 -

Sorgleg úrslit! Strákarnir voru að standa sig hreint með ágætum en það eru mörkin sem telja. Ég fór reyndar ekki á völlinn því það er nóg að gerast á öðrum vígstöðvum um helgina.

Skutlaði Davíð Steini á aukakóræfingu rétt fyrir tíu í morgun og sótti hann tæpum klukkutíma síðar. Bjó til kaffi og leitaði að rétta gírnum fyrir verkefni dagsins. Eftir hádegi skutluðum við strákarnir Davíð á skrifstofuna og fórum að versla. Er heim kom sendi ég bræðurnar út í góða veðrið og tók aðeins til hendinni. Er búin að gera heilmikið í dag en alls ekki nóg. Næst verð ég hreinlega að byrja á því að taka til, amk. í einu herbergi í einu. Ef ég stend við það ætti íbúðin að komast í þokkalegt stand í sumar.

Á morgun verðum við mest allan daginn á Tungubökkum þar sem er mót í 6. flokki karla í knattspyrnu. Segi betur frá því seinna. Fljótlega og við komum heim eftir mótið þurfum við svo að skvera okkur upp því við erum boðin í veislu. Bróðursonur mömmu er að fermast...

3.6.05

- Rólegheit en ekki lengi -

Ég kom við í Heilsuhúsinu á heimleiðinni seinni partinn í gær. Keypti mér m.a. valhnetu- og kúmenbrauð. Er ég hélt för minni áfram gekk ég fljótlega framhjá Yggdrasil en sú verslun var áður við Kárastíg. Skyldi það vera vitað að þetta er arkleiðin mín? Að vísu geng ég ekki eins oft Skólavörðustíginn heim eftir að lokaðist gönguleiðin við endann á Eskihlíðinni.

Rétt fyrir hálfsex hringdi Davíð Steinn heim og bað mig um að sækja þá, þeim væri kalt. Ég var ekki á bíl svo hann spurði hvort þeir mættu fá far með einum félaganum. -"Ef það er pláss og mamma hans leyfir það!" sagði ég. Stuttu seinna hringdi hann aftur og spurði hvort þeir mættu ekki fara heim með félaganum. Ég fékk að tala við mömmuna og okkur samdist svo um að hún tæki allan skarann með sér og skilaði svo mínum strákum seinna um kvöldið. Davíð fór á fund og annan til eftir vinnu (semsagt tvo í röð). Svo ég var ein heima og gat haft það eins og mér sýndist. Kláraði að lesa Sölku Völku og "tölvaðist" eitthvað smá.

Strákarnir komu heim rétt rúmlega níu og voru komnir í rúmið klukkutíma seinna. Davíð kom heim eftir að þeir voru sofnaðir. Seinni fundurinn sem hann var á var um skipulagið í Vatnsmýrinni og eitthvað aðeins um hvar æfingaaðstaða verður, en hún verður líklega hér og þar.

2.6.05

- Þeir stóðu sig vel -

Það var skemmtilegt að mæta á skólaslitin og hlusta á öll börnin í Ísaksskóla syngja nokkur lög. Ég lét svo strákana hafa rósir til að færa bekkjarkennurum sínum og þar sem ein rósin, sem ég keypti, brotnaði lét ég þá færa skólastýrunni eina rós saman. Pabbi kom í bæinn til að vera við skólaslitin, mamma skrapp úr Skaftahlíðinni (hún kom ekki í Drápuhlíðina á eftir) og Helga, Ingvi og Bríet komu í restina, rétt misstu af söngnum. Davíð kom líka seint og varð að fara beint í vinnuna aftur. Hann skutlaði mér þó fyrst í bakaríið þar sem ég "bakaði" súkkulaðiköku, rúnnstykki og vínarbrauð til að hafa með kaffinu handi fólkinu mínu. Smá útskriftarveisla Davíð Steinn sagði að ég væri "besta mamma í heimi" þegar hann sá súkkulaðikökuna. Á meðan ég var að finna til kaffið og með því héldu strákarnir listaverkasýningu. Það eru margar myndirnar sem helst þarf að ramma inn og hengja upp. Einkunnirnar voru líka ágætar. Ekki er gefið hærra en 8+ í lestri og Oddur Smári var með 7,7 og Davíð Steinn 7,5. Þeir fengu A í íslensku, stafsetningu, málfræði og stærðfræði en hefðu mátt vanda sig betur í skriftarprófinu; þar fékk Oddur Smári B- og Davíð Steinn B.

Það var blásin á auka-kóræfing í drengjakórnum og mamma kom við stuttu fyrir fimm og bauð Davíð Steini far. Hann kom glaður heim tveim tímum seinna. Það er svo stutt kóræfing með Mótettukórnun og unglingakórnum á laugardagsmorguninn en til stendur að syngja Mattheusarpassíuna seinni partinn í ágúst.

Ég skrapp í Hafnarfjörðinn í gærkvöldi. Fékk að gefa frænku minni að borða og föndraði svo með tvíburahálfsystur minni til klukkan að verða ellefu. Tíminn var undrafljótur að líða.

1.6.05

- Útskrift -

Það eru skólaslit í skólanum í dag og það sem meira er átta ára bekkirnir eru að kveðja. Það verður því stór stund hjá tvíburunum, fyrsta útskriftin! Ég er búin að fá frí eftir hádegi og ætla að koma við í blómabúð og kaupa nokkrar rósir sem strákarnir eiga svo að gefa umsjónarkennurum og skólastjóranum. Þessi Ísaksskólaár hafa verið mjög ljúf og skemmtileg. Kosturinn við skólann er hversu lítil eining hann er og svo finnst mér frábært að í hverjum bekk eru krakkar af öllu höfuðborgarsvæðinu. Tvíburarnir hitta því stundum bekkjarbræður sína á knattspyrnumótum.

En "mínir menn" voru góðir í gær og rúlluðu yfir Fram í fyrri hálfleiknum. Í seinni hálfleik voru Valsarar nær eigin marki, lágu meira í vörn og freistuðu þess að halda fengnum hlut, sem tókst! Valsstelpurnar gerðu líka góða ferð til Keflavíkur og unnu þar 9:0. Davíð var eitthvað seinn fyrir í gærkvöldi. Þar sem hann er vefstjóri fyrir Valsvefinn samdi hann um að kaup tvö árskort á verði eins. Sjö mínútum yfir sjö (átta mínútum fyrir leik) gafst ég upp á að bíða, rölti á völlinn og keypti mig inn. Tók ekki símann með en Davíð reyndi eins og hann gat að ná í mig og stoppa mig af við að kaupa mig inn á völlinn því hann var kominn með árskortin í hendurnar stuttu eftir að leikurinn hófst. Það eru samt eftir 6 heimaleikir hjá strákunum og amk 5 ef ekki sex hjá stelpunum og þá er gott að hafa árskort!