13.12.11

- Dagarnir fljúga áfram -
Ég get ekki sagt að ég sé mjög dugleg í jólaundirbúningnum. Einhvern veginn finnst mér tíminn hafa verið alveg nógur hingað til. Bakaði tvær sortir af smákökum seinni partinn í nóvember og aðra þeirra aftur í gærkvöldi. Er eitthvað byrjuð að hugsa um og viða að mér hugmyndum og raunverulegum jólagjöfum en ég er ekki enn byrjuð að skrifa jólakortin. Samt hefur verið í nógu að snúast í félagslífinu hjá mér. Á fimmtudaginn var, var okkur hjónum boðið í dýrindis kjötsúpuveislu vestur í bæ ásamt öðrum hjónum. "Strákarnir" þrír hafa þekkst síðan þeir voru pollar. Húsmóðirin bauð svo upp á alls kyns góðgæti með kaffinu og hafði baka tvær kökur sérstaklega handa mér, þar sem hún veit að ég má ekki borða hvítan sykur og hvítt hveiti. Þetta var mjög skemmtileg kvöldstund með góðum vinum. Á föstudaginn var tók ég mér orlof eftir hádegi til að gefa mér góðan tíma til að undirbúa það sem var framundan. Davíð kom ekki heim fyrr en um þrjú en við vorum lögð af stað úr bænum rúmlega fjögur. Helga systir sótti strákana fyrir kvöldmat og voru þeir hjá henni fram að hádegi á laugardag. Vorum komin á Hótel Rangá rétt fyrir sex og fengum mega-herbergi (að mér fannst) í nýjustu álmunni. Slökuðum vel á til að byrja með áður en kominn var tími til að skvera sig upp fyrir hlaðborðið. Habilis var með borð á efri hæðinni (ásamt öðrum 10 manna hóp) sem þýddi það að það þurfti að trítla upp og niður stigann til að sækja sér á hlaðborðið. En það var alveg í góðu lagi. Maturinn var mjög góður og erfitt að velja úr hvað maður átti helst að smakka því það var ekki sjens að smakka á öllum sortum. Á einum tímapunkti hvarf Davíð og missti því af skemmtilegum jólasveinasveini sem birtist með stærðar poka af gjöfum handa öllum við langborðið okkar. Sveinki var það skemmtilegur að fólk lá í hláturskasti mest allan tímann sem hann var í heimsókn. Úthaldið var mismunandi, sumir létu gott heita um miðnætti og þeir sem höfðu mesta úthaldið voru að langt fram á nótt. Ég var í hópnum þarna mitt á milli. Mættum í morgunverðarhlaðborðið rétt upp úr tíu á laugardagsmorgninum. Þar var hægt að fá alls kyns morgunverðarkræsingar. Á leiðinni í bæinn aftur stoppuðum við bæði hjá pabba sem og hjá tengdaforeldrum mínum þannig að klukkan var að verða fimm þegar við komum heim. Þ.e. ég komst alla leið heim, Davíð þurfti að fara aftur í smá björgunarleiðangur sem tók meira ein fjóra tíma. Fór að aðstoða vin sinn og samstarfsfélaga sem hafði fest sig og festi sig sjálfur. Fleiri voru kallaðir til og þetta var víst mikið bras sem endaði þó vel.

6.12.11

- Desembermánuður byrjaður -
Tæpar þrjár vikur til jóla og tíminn flýgur ógnarhratt áfram. Ætlaði að segja frá því í síðustu viku að síðasta mánudagskvöldið í nóvember tók ég upp saumana mína en þeir höfðu legið ósnertir í ca mánuð eða svo. Ákvað að sauma annað "Jólaþorp" (ætla að reyna að muna eftir því að taka myndir af saumuðu jólakortunum). Myndin er ekki stór en það fer drjúgur tími í að sauma hana. Er búin að taka upp sauman amk þrisvar sinnum síðan þetta kvöld og ég á enn ca klst vinnu eftir, megnið af hvíta litnum og svo útlínur. Á laugardagsmorguninn var, reyndar bara stuttu fyrir hádegi, kíkti ég aðeins á norsku esperanto vinkonu mína. Við tókum reyndar ekki fram bækurnar heldur skruppum í smá göngutúr meðfram sjónum við Grandana í átt að Seltjarnarnesi. Var ekki nægilega vel klædd fyrir langan spöl og entist bara í uþb hálftíma. Mér fannst ég hins vegar þeim mun duglegri heima miðað við marga aðra laugardaga. Eftir hádegi á sunnudaginn var drifum við hjónin okkur saman út í göngu. Að þessu sinni var ég nógu vel klædd. Aftur á móti var úthaldið ekki meira en fyrir rúmlega klst göngu svo gönguleiðir okkar hjóna skildu þegar ég var ca hálfnuð. En þetta var virkilega hressandi. Skutlaði Davíð í pílu og sótti norsku vinkonu mína um hálfátta í gærkvöldi. Við tvær fórum saman á kyrrðarstund í Bústaðakirkju, notaleg stund sem er haldin fyrsta mánudagskvöld í hverjum mánuði með Þór Gunnlaugssyni lögreglumanni á eftirlaunum og oftast er séra Pálmi einnig. Sá síðarnefndi var hins vegar ekki með í gærkvöldi og ekki heldur fyrir mánuði síðan.