9.7.17

Tölvubindindið heima gengur glimrandi vel

Það gengur svo vel í tölvubindindinu hérna heima að það bitnar klárlega á bloggarskrifum mínum. En stundum er líka ágætt að hvíla fingurnar, hugann og sleppa því að segja frá öllu. Á móti kemur þá getur alveg verið að hluti af því sem er að gerast gleymist. Hvort er það gott eða slæmt? Held að það fari eftir ýmsu.

Annars var ég að koma heim af Valsvellinum þar sem mínir menn urðu að sætta sig við 1 stig, jafntefli á móti Stjörnunni. Eftir að hafa farið austur nokkrar helgar í röð hélt ég mig í bænum þessa helgina. Það kom nú ekki til af því að það væri heimaleikur í deildinni því ég ætlaði mér austur. Þegar ég kom heim úr vinnu seinni partinn á föstudaginn hringdi ég í heimasímann hjá foreldrum mínum. Það svaraði mér enginn svo ég hringdi í gemsann hans pabba. Þá var hann staddur á bráðamóttökunni í Fossvogi að bíða með mömmu en hún hafði verið kölluð inn eftir að hafa farið sneiðmyndatöku vegna magaverkjanna sem hún hefur glímt við sl. mánuði. Það var beðið og beðið eftir einhverjum sem myndi úrskurða hvað ætti að gera. Um eitt leytið um nóttina kom pabbi og fékk hjá mér húslykla en hann svaf svo í lazy-boy stól á bráðamóttökunni. Einhvern tímann mjög seint hafði verið ákveðið að mál mömmu yrði að bíða yfir helgina en það tók líka tíma að ákveða hvort ætti að senda hana austur aftur eða innrita hana. Ákveðið var að innrita hana á kvennadeildinni við Hringbraut en þar var allt fullt svo hún varð að bíða "á rúmstæði" í bráðamóttökunni í Fossvogi. Eftir að hafa skroppið í sund í gærmorgun, og fengið mér eitthvað að borða fór ég í heimsókn. Þegar mamma fékk að borða fékk ég pabba til að koma heim með mér. Eftir að hafa fengið okkur að borða og slakað á um stund hringdi mamma og sagði að það væri komið pláss á G12. Pabbi  fór um leið, "millifærði" hana á milli sjúkrahúsa og sat um stund hjá henni áður en hann fór austur.

Annars tók N1 strákurinn sér nokkra daga frí og fór með vinum sínum á Eistnaflug austur á Neskaupstað. Keyrðu norðurleiðina austur en eru á suðurleiðinni núna á heimleiðinni nýlega farnir í gegnum Hvolsvöll. Strákurinn minn á vaktafrí næstu tvo daga en Skeljungsstrákurinn var að skipta um vakt og leysa hinn bensín manninn af svo synir mínir verða ekki að vinna eða á frívöktum á sama tíma næstu fimm sex vikurnar.

Á aðeins eftir að fella af, ganga frá endum og skola og teygja úr sjöunda sjalinu. Er búin að kaupa dokkur í annað föl/húðbleikt sjal en ég veit ekki hvenær ég fitja upp á því. Það á að vera jólagjöf handa yngri systurdóttur minni. Ég skrapp á bókasafnið í kringum 21. júní sl. og er með nokkrar spennandi bækur, hef samt ekki alveg gefið mér góðan tíma til að lesa mikið.

En hér ætla ég að setja punktinn í þetta sinn.