28.6.13

Sumarblíðan hún er hvar?
Heldur sig til baka.
Leitað hef ég hér og þar
hefur sólin vaka
-ð?

vantar aðeins smávegis upp á að lambið/sauðurinn sé kominn á jafann, þ.e. fyrir utan útlínur. Sat við saumana alveg frá því fyrir sjö og til klukkan að verða tíu.  Var reyndar oft stopp v/spennu í leiknum milli Ítala og Spánverja, sérstaklega í fyrr hálfleik, lokin á seinni hálfleik framlengingar og í vítaspyrnukeppninni.  Catillas sýndi snilldar tilþrif og hafði meira að gera í sínu marki en Buffon.  Hvorugur markvarðanna náði þó að verja neina vítaspyrnu.
 
Svo er bara spurningin hvernig bikarleikurinn í kvennaboltanum fer í kvöld.  Ég er eiginlega alveg ákveðin í að drífa mig á völlinn, strákarnir eru hvort eð er að fara til pabba síns svo ég get gert allt það sem mig langar til án þess að þurfa að taka tillit til þeirra.
 
Það á að fara að e-r framkvæmdir á Hverfisgötunni á næstu misserum og því eru allir stætisvagnar sem fóru þar um farnir að keyra Sæbrautina.  Þetta þýðir að þegar ég tek strætó í vinnuna, leið 13, stoppar hann við Hörpu og alveg við vinnustaðinn minn.  Það er þess vegna ekki mörg skref út á stoppistöð hvort sem ég er að koma til vinnu eða fara heim.
 
Hafði það sem allra best um helgina og njótið þess að vera í núinu!

27.6.13

- Álfukeppnin -

Það stefnir allt í fótboltaáhorfsviku hjá mér.  Fór á völlinn tvo daga í röð og í gærkvöldi horfði ég á fyrri undanúrsltialeikinn milli Braselíu og Úrúgvæ í Álfukeppninni.  Seinni leikurinn er í kvöld og hann er milli Spánverja og Ítalíu og ég ætla ekki að missa af honum.  Get samt örugglega "saumað í með hinu auganu" líkt og ég gerði í gærkvöldi.  Annað kvöld er bikarleikur kvenna og þá taka Valsstelpur á móti Störnustelpum.  Svo er auðvitað heimaleikur hjá strákunum á sunnudaginn þegar þeir fá FH í heimsókn.
 
Fór annars á bílnum í vinnuna í gærmorgun í rigningarsudda.  Það lá nú við að það væri komin sól og blíða upp úr fjögur.  Notaði tækifærið og kom við í fiskbúð og hamstraði ýsu, bleikju og nokkrar fiskibollur.  Þar sem ég er ákveðin í að föstudagar séu bíladagar og mér fannst ekki gott hjólaveður í morgun notaði ég strætó.  Hef þá möguleikann á því að labba heim ef veðrið verður skárra.

26.6.13

- Aftur á völlinn -

Fór á heimaleik hjá stelpunum upp úr sjö í gærkvöldi.  Þær tóku á móti Þrótti og höfðu betur 6:1.  Á tímibili voru Valsstelpurnar svolítið kærulausar í spilinu og þá voru e-r stuðnings menn sem hrópuðu inn á völlinn:  "Vanda sig" sem mér fannst svolítið fyndið því þjálfari Þróttara er Vanda Sigurgeirsdóttir.  Fór því einhverra hluta vegna að spá í hvað liðin myndu heita ef þau yrðu sameinuð, Valtur, Þróval, Lurtur Þrólur?  En Elín Metta setti tvö í gær og er markahæst í deildinni eftir átta umferðir ásamt Hörpu Þorsteinsdóttur úr Stjörnunni sem setti þrjú í gær á móti Aftureldingu.  Eftir leikinn fór ég beint heim og horfði á Castle með Oddi.  Stundum horfir Davíð Steinn með okkur en ekki í gær.
 
Hafði aðeins tekið fram saumana áður en ég fór á leikinn og er langt komin með lambið/sauðinn sem aðeins sást í fæturnar á þegar ég tók myndina, og deildi á bloggið og FB-vegginn, af útsaumnum síðast.  Ekkert ústáelsi er á dagskránni í kvöld svo líklega mun bætast nokkuð við myndina (nema ég "festist" of lengi í tölvunni).

25.6.13

- Fyrsta tapið staðreynd -
 
Ég ákvað að drífa mig í Kópavoginn um átta í gærkvöld og sjá "mína menn" spila við Breiðablik.  Því miður tapaðist leikurinn en ég hafði það allan tímann á tilfinningunni að það vantaði bara herslumuninn hjá þeim rauðklæddu að koma boltanum í netið hjá þeim grænklæddu.  Valsmenn áttu fleiri skot að marki en það telur ekki þegar upp er staðið.  Kom svo heim aftur upp úr tíu og þá voru tvíburarnir farnir með vinum í bíó.

24.6.13

- Helgin liðin -

Ýmislegt var gert um helgina.  Annar tvíburinn skrapp til vinar síns eftir kvöldmat á föstudaginn og hinn bað mig um að skutla sér í Kópavoginn á e-n hitting þar.  Ég notaði tækifærið og heimsótti mágkonu móðurömmu minnar heitinnar.  Tók með mér saumana en þegar til kom þá mundaði ég nálina ekkert á þessum tæpum tveimur tímum sem ég stoppaði.
 
Á laugardagsmorguninn var ég komin til norsku esperantovinkonu minnar rétt fyrir ellefu.  Við byrjuðum á því að fá okkur graut saman og svo settumst við niður yfir esperanto-ið með kaffi (hún reyndar aðeins með kaffistaup).  Næst lá leið mín í Krónuna við Granda.  Oddur Smári sá um að ganga frá vörunum er ég kom heim og rétt fyrir tvö skutlaði ég þeim báðum í Kópavoginn á "spilakvöld".  Þá lét ég verða af því að heimsækja frænku mína og nöfnu (yngsta dóttir gömlu konunnar sem ég heimsótti kvöldið áður).  Fyrir margt löngu lét þessi frænka mín mig vita að hún væri með föt af strákunum sínum sem mínir strákar gætu kannski notað.  Við sátum úti í sólinni og ég var með saumana mína með mér og mundaði nálina óspart og roðnaði aðeins undan sólinni.
 
Í gær fór ég á fætur upp úr átta.  Á tíunda tímanum skrapp ég í Hagkaup í Skeifunni og keypti afmælisgjöf handa yngri systurdóttur minni sem varð 9 ára í gær.  Var mætt upp í óháðu kirkjuna um tíu.  Framundan var gúllasmessa, síðasta messa fyrir sumarfrí.  Vorum ekki mörg sem mættum en þó níu og þótt kirkjugestir væru ekki margir voru þeir þó fleiri en við.  Eftir messuna fékk ég mér tvo skammta af gúllassúpu því í fyrri skammtinum hafði ég ekki fengið neitt kjöt.  Kom heim rétt fyrir hálfeitt og vakti þann tvíbura sem enn svaf og svo drifum við okkur í afmælisveislu sem haldin var á Hellu.

21.6.13

Einskis vil ég óska mér,
óþarfi að vona.
Það veit sá er allt hér sér
svalt að hugsa svona.
(Ég er hörku kona!)

Það er nú ekki meiningin að byrja föstudagsbloggið "alltaf" á ferskeytlum en þegar þær koma til mín þá læt ég þær fljóta með þ.e. ef ég er sátt við þær.
 
Hjólaði til og frá vinnu í gær þriðja daginn í röð og í morgun fannst mér það hálf glæpsamlegt að fara á bílnum.  En föstudagssíðdegin eru helguð henni Hlíbbu minni sem er búin að vera á Landakoti í nokkrar vikur og þar áður var hún búin að vera amk tvo mánuði á sjúkrahúsinu í Fossvoginum.  Það eru ekki margir föstudagar frá því í febrúar sem ég hef ekki komist til hennar en þó einhverjir en þá hef ég líka oftast farið til hennar e-n annan dag í vikunni.
 
Gærdagurinn var annars nokkuð rólegur.  Tók fram saumana mína eftir kvöldmat og fylgdist með Spánverjum rústa Tahítimönnum 10:0 (Torres skoraði 4 af þessum mörkum en klúðraði einnig víti).  Tvíburarnir fóru út í körfubolta með vinum sínum eftir að hafa borðað en Oddur kom heim um tíu til að poppa og horfa á Glæpahneygð.
 
Hafið það sem allra best um helgina og njótið þess að vera til!

20.6.13

- Hittingur -

Í fyrrakvöld var ég svo séð að byrja á því að spyrja tvíburana að því hvernig þeim litist á að kanna hvort systir mín og fjölskylda gætu tekið á móti okkur kvöldið eftir (í gærkvöldi semsagt) ef við legðum í matarpúkk.  Strákunum leist ekkert illa á þetta nema annar þeirra var svolítið hneykslaður á að ég skyldi byrja að skipuleggja þetta og spyrja þá áður en ég athugaði hvernig systur minni hugnaðist þetta.  Ég hringdi í Helgu systur um leið og strákarnir voru búnir að gefa grænt ljós.  Henni leist mjög vel á hugmyndina og var sammála mér um að betra var að hafa athugað hvort strákarnir væru til í þetta fyrst.  Þegar ég kom heim úr vinnu seinni partinn í gær var enginn heima.  Skyldu bræðurnir nú hafa gleymt þessu?  Sími annars þeirra var heima en hann sjálfur í ræktinni.  Hann var ekkert búinn að gleyma þessu og skilaði sér heim rétt fyrir fimm.  Náði símasambandi við hinn sem reyndist hafa steingleymt þessu.  Hann var í Kringlunni með vinum sínum.  Þegar ræktardrengurinn var tilbúinn lögðum við í hann og sóttum kringludrenginn á leiðinni í Krónuna.  Keypti nokkra kindafilletbita og var komin til systur minnar upp úr hálfsex.  Hún og maðurinn hennar sáu um að elda og það var sest niður við matarborðið um sjö.  Meðlæti var m.a. kartöflugratín, sallat, brokkolí og gular og grænar baunir.  Mjög ljúfengt.  Töluðum um að við mættum alveg gera þetta oftar eða amk reglulega, t.d. einu sinni í mánuði.  Mágur minn bjó annars svo vel að geta látið mig hafa minniskort í myndavélina mína svo nú get ég tekið fleiri en átta myndir áður en ég þarf að tæma vélina.  Við mæðgin vorum komin heim um tíu en þeir bræður fóru reyndar fljótlega að hitta vini sína.

19.6.13

- Eitt og annað -

Vikan er strax hálfnuð og það er eins og júní ætli ekki að vera lengi að líða burt.  Hjólaði milli heimilis og vinnu í gær.  Það voru smá dropar um morguninn en aðallega hvasst á móti seinni partinn.  Þetta hafðist samt allt saman og var ég ekkert lengur þrátt fyrir mótvind.  Stoppaði frekar stutt við heima því ég var mætt á völlin klukkan sex.  Valur - ÍBV  strákarnir.  Þetta var síðast leikurinn í umferðinni og sá eini og það var margt um manninn.  Leikurinn endaði 1:1 og voru Vestmannaeyingarnir á undan að skora.  Þar með eru strákarnir enn í 4. sæti, hefðu getað farið í 2. sætið með sigri en þeir eru annað liðið af tveimur sem ekki hefur tapað leik enn.
 
Kom aðeins við í Sunnubúð á leiðinni heim og freistaðist að kaupa smá sjónvarpssnakk.  Strákarnir höfðu bjargað sér með kvöldmatinn á meðan ég var á leiknum (áttum til 2 1944 spaghetti búlones (skrifað eftir framburði, eða nokkurn veginn)).  Um níu leytið kom einn vinur þeirra í heimsókn og hann horfði á Castle með okkur mæðginum.
 
Ekki tók ég fram saumana mína í gær en mér gengur ágætlega að lesa Húsið eftir Stefán Mána en það er bókin á náttborðinu mínu.

18.6.13

- Langa helgin leið alltof hratt -

Þrír dagar liðu mjög hratt.  Skrapp á Landakot að venju eftir vinnu á föstudaginn til að kíkja á tengdamömmu eins frænda míns.  Hún er búin að vera á sjúkrahúsi (upp í Fossvogi og svo á Landakoti) síðan í febrúar.  Um daginn var farið að tala um að senda hana heim.  Það er búið að gera þrjár tilraunir en það er alltaf eitthvað sem kemur í veg fyrir heimförina.  Fyrst fékk gamla konan flensu, næst var hún komin með blöðrubólgu og núna síðast lungnabólgu þannig að hún þarf aftur að vera með súrefni.  Mér segir svo hugur um að gamla konan fari líklega ekki heim til sín aftur.  Það þarf sennilega að sækja um pláss á elli- eða hjúkrunarheimili fyrir hana.  Ég stoppaði ekki lengi heima þetta föstudagssíðdegi heldur trítlaði upp á völl og fylgdist með "mínum Val-stelpum" taka á móti og spila við FH.  "Við" lentum 0:2 undir en leikurinn vannst 5:3 og var Elín Metta með tvö af mörkunum.  Fljótlega eftir að ég kom heim byrjaði Barnaby svo annan daginn í röð saumaði ég ekki spor.
 
Um tíu á laugardagsmorguninn var ég mætt til Nonna í Kristu.  Hugsa sér strax liðnar sex vikur síðan ég var í klippingu síðast.  Klukkutíma seinna var ég komin til norsku esperanto vinkonu minnar.  Stoppaði hjá henni í einn og hálfan tíma.  Þá átti ég bara eftir að taka saman það sem ég þurfti til tveggja nátta gistingu.  Var ekki alveg byrjuð að hugsa mér til hreyfings þegar pabbi hringdi rétt fyrir eitt.  Aldrei þessu vant hafði ég ekki hringt austur á föstudeginum og þar sem hann vissi að ég væri á leiðinni en var ekkert búin að láta í mér heyra hringdi hann til að athuga með mig.  Ég var svo komin austur um hálfþrjú.  Fékk mér kaffi með foreldrum mínum en hafði svo samband við frænda minn og konuna hans um hvort ég mætti ekki koma til þeirra og verða samferða á "Heiðarfólks-hittinginn".
 
Við hittumst semsagt önnur og þriðja kynslóð frá föðurforeldrum mínum og borðuðum saman á Hótel Læk sem er staður þar sem hét áður Hróarslækur og ein föðursystir mín bjó á.  Mætingin var nokkuð góð, 29 manns, en ég var sú eina mætt af pabba grein.  Mamma er frekar léleg til heilsunnar svo pabbi vildi ekki skilja hana eftir eina og systir mín og mágur voru í brúðkaupsveislu.  Annars vantaði bara 6 aðra (4 maka og 2 systkinabörn). Annað af systkinabörnunum býr með sýnum maka í Bandaríkjunum og einn makinn var einnig staddur erlendis).  Ósköp sem var gaman að hitta þetta fólk.  Ég stoppaði samt ekkert svo lengi ákvað að drífa mig þegar frændi minn og hans spúsa kvöddu. Föðursystir mín var einnig samferða okkur og skutlaði ég henni alla leið heim.
 
Restin af helginni fór í lestur, útsaum og almennt afslappelsi.  Sótti tvíburana svo til föðurforeldra þeirra á leiðinni í bæinn í gærkvöldi og við mæðginin ákváðum að hafa myndakvöld.  Fór því kannski heldur seint að sofa í gærkvöldi.

14.6.13

Tíminn flýgur furðu hratt,
festir ekki rætur.
Það hef fyrir hreina satt
hann er ekki ætur.

Er ekki hressandi að byrja skrifin í virkra vikulokin á einni skrýtinni stöku sem "kom" til mín í morgun?  Upp er runninn enn einn föstudagurinn og mánuðurinn alveg að verða hálfnaður.  Það er annars búið að sjá til þess að ég missi ekki af heimaleik karla í næstu umferð.  Leikurinn átti að vera á sunnudaginn kemur en hefur verið frestað fram á þriðjudagskvöld þar sem einn ÍBV-arinn (erlendur leikmaður) er í e-m landsliðsverkefnum.  Ég verð nefnilega sennilega frekar lítið heima um helgina, en allt um það eftir að hún (helgin) er liðin.
 
Bíllinn var ekki hreyfður í gær.   Notaði hjólið milli vinnu og heimilis og var ekki á neinu útstáelsi í gærkvöldi.  Tíminn fór í ýmislegt m.a. lestur og útsaum. Aftur á móti er ég á bílnum núna, þarf að reka nokkur erindi seinni partinn.  Það er alveg leyfilegt því ég notaði vistvænan ferðamáta þrisvar í vikunni.
 
Ég er svo á leiðinni á heimleik í Pepsídeild kvenna í kvöld til að hvetja stelpurnar.
 
Hafið það sem allra best um helgina og brosið mikið!

13.6.13

- Hitt og þetta -

Ég var svo sniðug að skreppa frá í hádeginu í gær.  Við hliðina á hjólinu mínu var pumpa sem ég notaði á framdekkið.  Hjólaði svo að Hverfisgötu 50 og bað um að framdekkið yrði skoðað og hjólið yfirfarið.  Sá sem tók við hjólinu sagði að ég gæti sótt það seinni partinn.  Síðan ákvað ég að prófa veitingastaðinn Gló við Laugaveg 20B. Fékk mér kjúklingarétt og gat fengið þrennskonar sallat með.  Greip einnig grænan drykk í flösku með.  Ég á örugglega eftir að prófa þetta aftur því þetta var bara ljúffengt.  Strax eftir vinnu fór ég og sótti hjólið mitt.  Ætlaði varla að nenna því því það rigndi alveg beint niður og ég sá fyrir mér að ég kæmi heim alveg rennblaut.  Skipta hafði þurft um slöngu í framdekkinu og kostaði viðgerðin og yfirferðin rúmlega átta þúsund.  Það hætti svo að rigna fljótlega eftir að ég hjólaði af stað heim.  Fyrir framan bílskúrinn heima gerðist eitthvað undarlegt.  Ég var búin að stoppa og ætlaði að stíga af hjólinu og á næsta augnabliki lá ég alveg á hliðinni.  Hló svo mikið að ég ætlaði ekki að geta staðið upp aftur.
 
Stoppaði ekki lengi heima heldur dreif mig í Lyfjaver til að leysa út gel sem ég þarf að nota daglega fyrir utan ca hálfan mánuð á 2-3 mánaða fresti.  Hef verið með lyfjakort sem gilti 100% en nú þurfti ég að borga hátt í 3000 fyrir hverja flösku (leysi alltaf út 3 í einu á 3 mánaða fresti).  Næst lá leiðin í bókasafnið í Kringlunni.  Já, ég fór til að skila þessum tveimur bókum sem ég minntist á í gær.  Auðvitað fann ég nokkrar aðrar í staðinn, sex stykki eða svo, og nei það var ekki komið að því að endurnýja bókasafnskírteinið.  Það verður líklega ekki fyrr en næst.
 
Eftir kvöldmat skrapp ég svo með handavinnutöskuna yfir til tvíburahálfsystur minnar.  Var komin til hennar rétt upp úr átta og svo var klukkan allt í einu alveg að verða ellefu.  Magnað hreint hversu tíminn getur flogið hratt.

12.6.13

- Enn af hjólinu -

Ekki komst ég með hjólið í viðgerð í gær heldur fékk það að vera á hjólastæði í kjallara vinnustaðarins í nótt.  Borgarhjól sf. er opið milli átta og sex flesta virka daga en ég komst ekki úr vinnu fyrr en upp úr sjö í gær vegna smá mála sem þurfti að afgreiða "strax".  En ég er nokkuð viss um að hjólið fer í viðgerð eftir fjögur í dag.
 
Hef lokið við að lesa tvær síðustu bækurnar sem ég er með af KringlusafninuVetrarsól eftir Auði Jónsdóttur  og Drottning rís upp frá dauðum sem er söguleg skáldsaga eftir Ragnar Arnalds.  Báðar alveg ágætisbækur.  Þarf að skila þeim á safnið fyrir 18. þ.m. og ef ég næli mér í e-r bækur í staðinn þarf ég líklega að endurnýja bókasafnskírteinið.  Annars á ég þrjár ólesnar bækur heima, Húsið eftir Stefán Mána, Ég geng ein eftir Mary Higgins Clark og Áður en ég sofna eftir Steven J. Watson.  Þessa síðustu fékk ég í síðustu viku frá bókaklúbbnum sem ég er í.  Fyrst nefndu bókina keypti ég á afar góðum afslætti í gegnum "Núið" í byrjun árs og "miðbókina" keypti ég á bókamarkaðinum í Perlunni í febrúar eða mars.  Byrjaði á að lesa bókina hans Stefáns Mána í gær og hún lofar góðu.  Þetta er mjög þykk bók og það er helst að ég kvíði því að hún grípi mig svo sterkum tökum að ég verði að lesa langt frameftir öllu og sinni ekki saumunum mínum á meðan.

11.6.13

- Framhaldssaga af hjólinu -

Um leið og ég kom heim úr vinnu í gær fór ég út í skúr, snéri hjólinu mínu á hvolf og prófaði að pumpa í framdekkið.  Það gekk þokkalega en mér fannst ég ekki ná dekkinu alveg hörðu.  Það var reyndar smá vesen á mér við þessa framkvæmd, eitthvað færðist hjólið til og allt í einu var stýrisendinn fastur inn á milli teinanna í hjóli annars stráksins.  Ég hélt að ég ætlaði aldrei að geta losað þetta en tókst það þó að lokum og var öll útötuð.
 
Skrapp í heimsókn til systur minnar í gærkvöld og hafði með mér nýjustu þýddu Lee Child bókina til að lána.  Stoppaði í rúma tvo tíma og byrjaði svo á því að kíkja á hjólið aftur þegar ég kom heim.  Dekkið var amk ekki orðið alveg flatt en hafði linast aðeins upp.  Pumpaði meira í það.  Svo var ég mætt út í skúr korter yfir sjö í morgun.  Mér fannst sem það hefði nú ekki lekið mikið úr dekkinu en líklega hefði ég samt átt að pumpa aðeins meira í það.  Engu að síður hjólaði ég af stað og komst alla leið út á Miklubraut og yfir á gönguljósunum þar en þá þorði ég ekki að hjóla meir ef ég skyldi nú skemma dekkið.  Teymdi hjólið með mér alla leið í vinnuna og mun svo fara með það beint á Hverfisgötu 50, þar sem hægt er að fá gert við hjól, seinni partinn.

10.6.13

- Sprungið á hjólinu -

Þegar ég ætlaði að grípa í hjólið í morgun sá ég að framdekkið var alveg lint og flatt við gólfið í skúrnum.  Þótt ég væri í fyrra fallinu var ég rétt búin að missa af strætó. Þar sem ég er að byrja að leysa teymisstjórann minn af vegna sumarfrís vildi ég mæta tímanlega til vinnu svo það var bara um það að ræða að draga fram bíllykilinn og bruna óvistvænt af stað.  Samgöngusamningurinn kveður á um vistvænar ferðir amk þrisvar í viku milli heimilis og vinnu svo ég er ekkert að svindla þótt ég hafi farið á bílnum í morgun.  Ég fór líka á bílnum á föstudaginn var því strax eftir vinnu skrapp ég í heimsókn til eldri konu sem er á Landakoti.  Ég kíki yfirleitt á hana á föstudögum en ég komst ekki á föstudaginn var svo það var liðinn hálfur mánuður frá síðasta innliti.
 
Helgin leið annars hratt og örugglega.  Skutlaði Oddi Smára í Breiðholtsskóla upp úr hálfellefu á laugardagsmorguninn þar sem hann var að spila á trommur með skólalúðrasveit Árbæjar og Breiðholts á vorhátíð skólans.  Síðan lá leið mín til norsku esperanto vinkonu minnar.  Þótt stoppið hjá henni væri bara tæpur einn og hálfur tími var strákurinn kominn heim á undan mér.  Um tvö gáfumst við upp á að bíða eftir að hinn tvíburinn vaknaði og vöktum hann.  Skruppum svo í Dressmann í Kringlunni þar sem ég keypti tvennar buxur á hvorn strák.  Annar strákurinn labbaði heim strax á eftir en hinn kom með mér í Hagkaup uppi þar sem ég fann einar buxur á mig og Hagkaup niðri þar sem við keyptum m.a. rjóma í vöfflur sem ég bjó til um leið og við komum heim.
 
Um eittleytið í gær kvaddi ég strákana sem voru búnir að taka sig til og á leiðinni í nokkurra daga heimsókn til föðurforeldranna.  Það var samt ég sem var að fara út úr dyrunum fyrst og mig grunaði að þeir yrðu farnir þegar ég skilaði mér heim aftur.  Ég fór í Kolaportið en þangað hef ég ekki komið í mörg ár.  Að þessu sinni fór ég að kíkja á vinkonur mínar og saumaklúbbsmeðlimi sem voru með bás ásamt fósturdóttur annarrar þeirra.  Stoppaði hjá þeim í hátt í tvo tíma.  Nokkuð var af fólki á svæðinu en verslun í bás vinkvenna minna var frekar dræm.  Það var helst að sú yngsta seldi nokkuð af flíkum og skóm.  Úr Kolaportinu dreif ég mig í heimsókn til einnar sem verður 91 árs eftir tæpan mánuð.  Taldi það öruggt að hún væri heimavið þar sem síminn hjá henni var á tali þegar ég reyndi að hringja á undan mér.  Enda kom það á daginn að hún var heima og tók mér fagnandi, var nýbúin að búa til stafla af  pönnsum.

7.6.13

- Föstudagur -

Ein vika er ekki lengi að líða.  Mér finnst dagarnir ótrúlega fljótir að raða sér saman í viku og vikurnar í mánuði.  Vika síðan ég fór til Egilstaða.  Ég stefni klárlega að því að fara þangað aftur seinni partinn í sumar í 2-4 virka daga.
 
Tók eftir því í gær að buxurnar sem ég nota mest eru orðnar afar slitnar í klofi og innri skálmum.  Það borgar sig líklega ekkert að gera við þetta slit, búið að bæta þennan stað áður og efnið orðið mjög þunnt og götótt.  Ég þarf hvort eð er að kaupa buxur á tvíburana og mun líklega nota tækifærið og finna einar á mig, samt ekki í Dressmann.  Það gerðist líka þegar ég var alveg að koma heim og hjólaði á mjóu  gangstéttinni fyrir framan bílastæðin að einn bíllinn var svo nálægt að það var frekar lítið bil milli bíls og steinveggs utan um garðinn við næsta hús.  Hægri skórinn nuddaðist við vegginn á smá kafla og það kom næstum því gat á skóinn fyrir vikið.  Sólarnir á þessum skóm eru reyndar orðnir mjög slitnir, sennilega vegna þess að þetta eru eina parið sem ég nota t.d. í innanbæjartrítl.  Það væri skynsamlegt af mér að kaupa mér eitt skópar fljótlega og svo annað innan fárra mánaða.  Ég er greinilega ekki haldin sterkri skókaupaáráttu og vakna oftast upp við það að skóparið sem ég nota mest er orðið lúið.
 
Ég er enn að reyna að átta mig á að Hemmi Gunn sé fallinn frá.  Auðvitað er þetta það eina sem er öruggt í lífinu að maður mun deyja og þessi þekkti maður sem nú er dáinn var búinn að fá áfall áður og hafði verið "hnoðaður til baka" amk einu sinni.  Hann fór ekki heldur alltaf vel með sig.  En það má alveg taka mottóin hans sér til fyrirmyndar.  Hver dagur er gjöf og um að gera að nota hann vel, vera hress, ekkert stress, kossar og bless.

Hafið það sem allra best um helgina og gerið eitthvað skemmtilegt!

6.6.13

- Misreiknaði mig -
 
Fór aðeins að spá aftur í heimsóknirnar í blóðbankann.  Það að ég er búin að heimsækja þann stað 35 þýðir að það vantar bara 15 heimsóknir upp í 50 og 4(mánuðir)x15 eru 60 en ekki 200.  Svo það eru fimm ár í fimmtugustu heimsóknina, þe ef allt gengur vel næstu misserin og ég mæti reglulega á fjögurra mánaða fresti.  Það eru líklega bara ágætar líkur á því að ég fari í 50. heimsóknina árið sem ég verð fimmtug.
 
Davíð Steinn bað mig um að skutla sér í Veiðihornið í Síðumúla eftir að ég var komin heim úr vinnu í gær.  Hann hafði augastað á nýju veiðihjóli.  Hann borgaði sjálfur fyrir hjólið en ég splæsti línunni á hjólið á hann.  Hjólið kostaði um 15þús en línan fimmtánhundruð.  Oddur Smári notaði allan sinn vasapening í að kaupa sér nýja tölvumús í byrjun vikunnar þannig að báðir bræðurnir eru búnir að eyða vasapeningunum sínum og mánuðurinn er bara rétt nýbyrjaður.
 
Klukkan var orðin níu í gærkvöldi áður en ég tók fram saumana mína og þá hafði ég ekki tekið þá fram síðan á mánudaginn.  Óskiljanlegt að ég sleppti úr einum saumadegi.  Var reyndar alltaf á leiðinni að taka upp saumana á þriðjudaginn en síðdegið og allt kvöldið fór í eitthvað allt annað.

5.6.13

- Samgöngusamningur gildur -

Í nýliðnum mánuði skrifaði ég undir samgöngusamning við vinnustaðinn minn.  Þessi samningur tók gildi um mánaðamótin og felur í sér að ég komi mér til og frá vinnu á vistvænan hátt amk þrisvar sinnum í viku.  Á mánudaginn var ýmislegt á "þarf að gera-listanum" svo ég valdi að fara á bíl í vinnuna.  Hins vegar var allt annað upp á teningnum í gær.  Það rigndi nokkuð í gærmorgun og því langaði mig alls ekki til að nota hjólið.  Ég ákvað því að taka strætó og var það í allra fyrsta sinn sem ég nota þá leið til vinnu.  Vagninn tók ég rétt upp úr hálfátta eiginlega á næsta götuhorni, við Sunnubúð (Langahlíð/Mávahlíð) og fór úr honum aftur við  Þjóðleikhúsið.  Seinni partinn var hætt að rigna en nokkuð hvasst.  Engu að síður labbaði ég af stað heimleiðis þvert yfir Skólavörðuholtið og var komin heim uþb hálftíma síðar.  En ég hjólaði til vinnu í morgun.  Hef ákveðið að nota bílinn milli heimilis og vinnu á föstudögum og kannski stundum á mánudögum.

4.6.13

- Eignaðist myndavél í gær -

Á föstudaginn var kom tilkynning frá pósthúsinu um að ég ætti sendingu þar.  Ég var nokkuð viss um hvað væri í pakkanum og fór með miðann í pósthúsið eftir vinnu í gær.  Greiddi smá sendingakostnað og tók svo spennt á móti litlum kassa.  Þegar heim kom opnaði ég pakkann og tók upp úr honum rauða krúttlega myndavél.  Myndin hér að neðan er einmitt tekin á þá vél.  Fyrir þessa myndavél borgaði ég (fyrir utan sendingakostnað) með uppsöfnuðum capacent-punktum, 30.062.  Slíkum punktum safna ég með því að ganga daglega með svokallaðan fjölmiðlamæli sem nemur allar útvarpsbylgjur.  Um daginn leysti ég út nýjan heimasíma (þurfti ekki að borga sendingakostnað þá) en sá gamli var hættur að sýna neitt á skjánum.  Ekki var hægt að sjá úr hvaða númeri var verið að hringja og ekki heldur hvaða númer var verið að slá inn, þannig að það var alveg kominn tími á nýjan síma.  Þessi sem tekinn er við af þeim gamla sýnir líka dagsetningu og tíma.

3.6.13


- Frábær helgi að baki -

Var mætt hálftíma of snemma út á Reykjavíkurflugvöll á föstudagsmorguninn var. Byrjaði því á að fá mér smá kaffi og las í nýjustu Lee Child bókinni.  Vélin hóf sig til flugs um hálfellefu og klukkutíma seinna lenti ég á Egilstöðum.  Einar Bjarni sonur vinkonu minnar var í móttökunefninni en Ella var að vinna til þrjú.  Ég setti dótið mitt inn í það herbergi sem ég átti að fá afnot af um helgina og greip með mér saumana, bókina og sudoku-gátur inn í stofu.  Tíminn leið hratt við þetta dundur.  Var bæði með "Lost no more" myndina og jólakortaútsaum.  Það varð úr að þann tíma sem ég greip í sauma um helgina var ég að sauma út eina jólakortamynd, þ.e. ég lauk við allan krosssaum og á nú bara eftir útlínur.
 
Þegar vinkona mín kom heim hellti hún upp á en fljótlega skruppum við í verslunarleiðangur. Fórum bæði í vínbúð og Bónus.  Um kvöldið fengum við okkur hvítt í glas og horfðum m.a. á "The Voice" og spjölluðum að sjálfsögðu. Upp úr hádegi á laugardaginn fórum við fimm á tveimur bílum yfir til Eskifjarðar og hittum tvennt til við höfnina.  Fórum um borð í Geysi og sigldum út fjörðinn.  Sáum einn einmana lunda.  Hvort það var Lundi eða Skundi sem við sáum er ekki vitað. Við Einar Bjarni fórum til baka á undan hinum þremur því hjónin voru á leið í vígsluathöfn og Árdís var að uppvarta í veislunni.
 
Í gærmorgun fórum við þrjú, hjónin og ég, í bíltúr inn í Hallormsstað.  Sáum 12 dýra hreindýrahjörð á leiðinni, allt karldýr og tveir af törfunum með heljarmikil og flott horn.  Fórum í smá göngutúr í skóginum.  Sáum fleiri hreindýr í bakaleiðinni og þau komu við hjá tilbúnu vatni og sýndu mér Flórgoða.  Um hálffjögur skutlaði vinkona mín mér á völlinn og beið með mér þar til kallað var út í vélina.  Helgin leið eiginlega alltof hratt en við vinkonurnar erum ákveðnar í að endurtaka leikinn seinna í sumar.  Þá ætla ég að fara e-a virka daga í sumarfríinu og vonast til að geta notað e-ð af uppsöfnuðum punktum í leiðinni.