28.2.17

Sundferð í morgun


N1 ungi maðurinn var á vakt í gær og í dag reyndar svo hann er með strætókortið. Ég fann til klink fyrir fargjaldi með strætó í vinnuna í gærmorgun og var komin út í skýli við Sunnubúð rétt fyrir hálfátta. Strætó var eitthvað seinni en ekkert svo. Klofa þurfti yfir smá ruðning til að komast inn en reyndar voru einhverjir búnir að spora leiðina.

Einkabílstjórinn var búinn í skólanum rétt upp úr hádegi og ég hafði beðið hann um að moka lánsbílinn út eftir að hann kæmi heim og sækja mig svo í vinnuna um fjögur. Hringdi í hann um hálffjögur og þá var hann ekki farinn að fara út. Það tók hann aðeins lengri tíma en hann hugði að moka sig út og keyra niður í bæ, þ.e. klukkan var korter gengin í fimm þegar hann sótti mig. Við fórum svo að versla í Krónunni við Granda, m.a. það sem vantaði í saltkjöt- og baunasúpugerð. Það tók svo um 50 mínútur að komast heim úr búðinni.

27.2.17

Fannfergi

Þrátt fyrir meiriháttar gott veður í gær hélt ég mig heima og innivið allan daginn. Allt var gersamlega á kafi í snjó úti og ég var ekki að nenna að klofa út að bíl, moka af honum og frá honum og sækja gönguskóna í skottið. Tvíburarnir fóru heldur ekkert af bæ. Í stað þess þá notaði ég daginn til að klára skammtímalánsbókina, lesa meira um Hákon Finnsson og byrja á "Elsku Drauma mín". Við mæðginin notuðum reyndar eitthvað af deginum til að hjálpast að við smá húsverk sem setið höfðu aðeins á hakanum. "Margar hendur vinna létt verk!" Ég er alveg á því að ég hafi notað þennan sunnudag alveg hárrétt. :-)

26.2.17

Letidagur

Var viss um að mig væri að dreyma um sex leytið í gærmorgun þegar ég var að koma af salerninu og heyrið tvö "MJÁ" hljóð eins og það væri köttur frammi á gangi. Ég kannaði þetta ekki alveg strax heldur fór aftur inn í rúm, viss um að þetta væri rugl. Fór á fætur um hálfátta til að undirbúa sundferð. Ákvað að prófa að kíkja fram í hol, og viti menn, það hoppaði köttur úr gluggakistunni sem líklega hefur náð að komast upp á silluna fyrir ofan útidyrnar og inn um opinn gluggann. Kisa teygði makindalega úr sér og ætlaðist greinilega til þess að fá að koma inn í íbúð. "Þú átt ekki heima hér!", sagði ég við köttinn, lokaði inn í íbúð og rölti niður stigann. Kisan elti mig niður en fór þó ekki beint út þegar ég opnaði út. Ég endurtók staðreyndina um að hún ætti ekki heima hér, spurði hvar hún ætti heima og sagði henni að fara heim. Ég hvorki klappaði henni né stuggaði við henni á neinn hátt en hún fór út á endanum og fór aftur inn í íbúð til að fá mér eitthvað áður en ég færi í sund. Klukkan var orðin átta þegar ég lagði af stað að heima. Gaf mér góðan tíma í lauginni, synti í tæpan hálftíma og fór tvisvar í kalda pottinn. Kom heim aftur um hálfellefu. Sá eitthvað torkennilegt á mottunni innan við útidyrnar og einhverja smá klessu á einni flísinni. Við nánari athugun reyndist þetta vera e-s konar dýraskítur og nú spyr ég mig, var þetta eftir köttinn sem ég "fann" í holunnni um morguninn og var þetta komið áður en ég hleypti kisunni út eða hvað, hvernig og hvenær gerðist þetta? Mottunni var rúllað upp og hent út í svörtum ruslapoka og bíður þess að farið verði í næstu Sorpuferð.

Á fjórða tímanum klæddi ég mig upp á og fékk einkabílstjórann til að skutla mér í útskriftarveislu vestur í bæ. Var í veislunni í rúma tvo tíma en þá sótti Oddur mig aftur og skutlaði mér í næstu veislu, árshátíð Óháða safnaðarins. Úr þeirri góðu veislu fékk ég far heim um ellefu um kvöldið.

25.2.17

Köttur inn um gluggann frammi í nótt

N1 pilturinn er á frívakt þessa dagana, hófst í gær og stendur yfir alla helgina. Ég notaði því strætókortið í gærmorgun til að koma mér í vinnuna. Seinna um morguninn hafði einkabílstjórinn samband til að athuga hvort hann mætti skreppa á lánsbílnum í skólann til að taka eitt próf. Ég gaf leyfi fyrir því. Eftir vinnu lá leiðin í kirkju óháða safnaðarins. Formaður stjórnar hafði boðað til tiltektardags sem og undirbúnings árshátíðar sem er í kvöld. Mæting var sögð klukkan fimm en ég var komin korteri fyrr. Tveir bílar voru á planinu aftan við kirkjuna en ég komst ekki inn um læstar dyr. Er ekki með lykla og ég varð ekki vör við að neinn væri inni, en þau sem inni voru voru líklega bara svona upptekin í tiltektinni. Fleiri stjórnarmeðlimir mættu á staðinn stuttu síðar. Einn af þeim með lykla en þá var opnað innan frá. Þrátt fyrir að tiltekt í geymslum væri lokið var nóg að gera svo klukkan var farin að ganga sex áður en ég labbaði heim. Ákvað að fara ekkert út aftur þrátt fyrir að það væri spennandi fyrirlestur í Lífsspekifélaginu.

24.2.17

Aftur komin helgi

Í gærmorgun ákvað ég að fá einkabílstjórann til að skutla mér í vinnunna og lána honum bílinn í skólann svo hann gæti farið beint eftir tíma að sækja tölvuna sína úr viðgerð. Oddur sendi mér svo skilaboð um hálftíu leytið að hann hefði verið beðinn um að leysa af á Skeljungsstöðinni við Smáralindina frá því um hádegið og fram til hálfátta. Gaf grænt ljós á að hann gæti farið á bílnum. Var ekki í stuði til að labba heim eftir vinnu, N1 strákurinn var á vakt og með strætókortið en ég var svo heppin að eiga smá skotsilfur í buddunni sem dugði fyrir fargjaldi heim. Heima dútlaði ég mér við ýmislegt, m.a. lestur. Las í þremur bókum, er enn að lesa um Hákon og bókina hennar Yrsu, Aflausn en ég byrjaði líka á skammtímalánsbókinni af safninu, Svarti galdur eftir Stefán Mána. Spennusaga af bestu gerð. Útbjó ofnbakaðan bleikjurétti í kvöldmatinn og sauð bygggrjón með. Var nýbúin að borða þegar bræðurnir komu saman heim. Oddur Smári hafði látið Davíð Stein vita að hann væri á bíl og þeir voru búnir að vinna á sama tíma. Um leið og þeir komu heim dreif ég mig í sund. Var ekkert að drolla of lengi en sundferðin með öllu, frá því ég fór að heiman og þar til ég kom heim aftur tók einn og hálfan tíma.

23.2.17

Síðasti fimmtudagurinn í þessum mánuði

Það verður kominn mars um miðja næstu viku og nýja árið sem byrjaði í "fyrradag"!

Byrjaði á því að skreppa í sund strax klukkan hálfsjö í gærmorgun. Synti í tuttugu mínútur, fór tvivar í kalda pottinn og heitan pott og sjópott á milli og á eftir. Þar sem ég var með nýju bleiku sundhettuna mína ákvað ég að ég gæti alveg sleppt því að skola á mér hárið. Það var reyndar aðeins rakt aftan í hnakkanum en ég gerði ekkert í því nema að greiða lubbann. Fór beint í vinnuna úr Laugardalnum. Verkefnin í vinnunni eru nóg en þar sem vaktirnar eru hættar í bili er góður tími í alls konar aukadútl sem setið hefur á hakanum. Seinni partinn kom svo í ljós að það yrði yfirferð á vélinni. Flest af okkur fengum þá að fara aðeins fyrr heim því það þarf ekki nema einn til að sitja yfir viðgerðaryfirferðarmönnunum. Klukkan var ekki orðin þrjú þegar ég dreif mig heim til þess að ganga frá sunddótinu, tók bókasafnspokann með þeim þremur bókum sem ég var með í láni og skilaði þeim í Kringlusafnið. Hafði fengið e-mail um að skiladagur væri að nálgast. Þrátt fyrir að vera að lesa nokkrar bækur hér heima tók ég sex bækur að láni af safninu, þar af eina sem þarf að skila eftir hálfan mánuð. Úr safninu lá leið mín í Kaffi Laugalæk þar sem ég við vorum búnar að mæla okkur mót, "tvíburahálfsystir" og "föðursystir" mín. Þær tvær komu aðeins á eftir mér en ég var þá búin að velja borðið þar sem við sátum næsta einn og hálfa tímann og spjölluðum vítt og breytt. Kom heim um hálf sjö og útbjó súpu úr rauðum linsubaunum, sætri kartöflu, gulrótum, brokkolí og túnfisk. Við Oddur Smári horfðum á Castle frá því kvöldið áður og ég horfði strax á eftir á "Horfinn" sem er á dagskrá á þriðjudagskvöldum eftir tíu fréttir.

22.2.17

Önnur systurdóttir mín 17 ára í dag

Í gærmorgun tók ég vagninn sem var fyrir utan Sunnubúðina korter fyrir átta. Var mætt í vinnu sjö mínútum fyrir átta. Vinnudagurinn leið nokkuð hratt. Utanviðmigheitin fólust í því að þegar ég var á leið út í skýli eftir vinnutíma byrjaði ég á því að taka til sundkortið, sem var í sama vasa og strætókortið. Var búin að skipta yfir í rétt kort áður en vagninn minn kom.

Fljótlega eftir að ég kom heim setti ég upp upp slátur, einn frosinn kepp af hvorri tegund, blóðmör og lifrarpylsu. Eftir að suðan var komin upp settist ég inn í stofu með tvær bækur sem ég er að lesa, Aflausn eftir Yrsu Sigurðardóttur og Hákon Finnsonn frá Brekkum á Rangárvöllum að Borgum í Hornafirði sem Karl Skírinisson og Hákon Hansson bjuggu til prentunar. Er ekki búin að lesa þær en mæli mjög svo með þeim báðum, spennu- og skemmtilestur.

Eftir kvöldmat og fréttir skrapp ég upp í efri byggðir í heimsókn til einnar vinkonu og tveggja katta hennar. Þetta var fyrsti hittingurinn á þessu ári, það var einn hittingur í fyrra og einn í hitti fyrra. Tveir tímar liðu fáránlega hratt yfir góðum kaffibolla og spjalli um víðan völl. Við stefnum að því að hittast oftar á þessu ári enda umræðuefnin hvergi nærri tæmd en þau verða það nú reyndar seint.

21.2.17

Örlítið utan við mig

N1 ungi maðurinn var í vaktafríi í gær og í dag svo ég nýtti strætókortið í ferðir milli heimilis og vinnu. Í gærmorgun tók ég vagninn sem fer frá Sunnubúð og hálfátta og var þar af leiðandi mætt alltof snemma í vinnuna. Samdi um að fá að stökkva út rétt fyrir fjögur til að komast sem fyrst heim. Heima stoppaði ég nú ekki lengi. Tók til sunddótið mitt og dreif mig í Laugardalinn. Setti ekki upp sundhettu og synti aðeins 200 metra en ég fór tvær ferðir í kalda pottinn. Fyrr um daginn hafði ég bæði fengið mail og sms frá blóðbankanum sem er opinn til kl. 19:00 á mánudögum. Ég ákvað að koma við þar á heimleiðinni úr sundi. Það voru um það bil fimm mánuðir frá síðustu gjöf. Þá var blóðþrýstingurinn einhverra hluta vegna í efri kantinum miðað við oftast áður. Í gær var þrýstingurinn mjög fínn 125/81 og púlsinn 51. Sú sem setti upp nálina var ekki vissum að hafa hitt á æðina í hægri handleggnum en það kom strax í ljós að hún hafði hitt því æðin var dugleg að gefa og þetta gekk mjög fljótt fyrir sig. Fékk mér smá hressingu áður en ég dreif mig heim. Heim kom ég um hálfsjö og þá var Davíð Steinn að verða tilbúinn með kvöldmatinn. Tölvan hans Odds er í viðgerð svo hann sat góða stund með mér yfir imbanum í gærkvöldi. Heppin ég með þessa syni mína.

20.2.17

45. heimsóknin í blóðbankann staðreynd

Á föstudagsmorguninn mætti ég fyrst í sund rétt eftir að laugin í Laugardalnum opnaði. Úr sundi fór ég beint í vinnuna og var mætt þangað rétt fyrir átta. Vann til hádegis en tók mér frí úr vinnu eftir hádegi. Var mætt í klippingu um eitt. Það er enn verið "að klippa sítt" þ.e. ég er að safna hárlubba. Það var rétt tekið af endunum og aðeins þynnt. Fékk að hafa bílinn áfram fyrir framan Kristu Quest á meðan ég skrapp inn í Misty og fjárfesti í tveimur nýjum brjóstahöldurum, eitthvað sem mér finnst mjög leiðinlegt að versla en neyðist til þess öðru hvoru. Næst lá leiðin í Útilíf í Kringlunni þar sem ég gat ekki valið á milli tveggja sundhetta svo ég keypti þær báðar. Verslaði inn í Krónunni við Granda og keypti svo þrifferð fyrir bílinn á þvottastöð við Fiskislóð. Svo fór ég heim þar til tími var kominn til að mæta á fyrirlestur í Lífspekifélaginu.

Prófaði aðra sundhettuna í Laugardalslauginni á laugardagsmorguninn. Virkaði mjög vel en svo er að sjá hvernig gengur að venja sig við að nota sundhettur, amk yfir vetrartímann. Það var ekki esperantohittingur þar sem dóttir Inger var að útskrifast úr HÍ um eitt þennan laugardag. Ég gekk frá sunddótinu heima, tók mig til fyrir austurferð með gistingu í huga, vakti Odd Smára til þess að kveðja hann og dreif mig úr bænum á ellefta tímanum. Það var þoka í lofti bæði í borginni og lengst upp á hellisheiði en þá dró frá og veðrið fyrir austan fjall var einstaklega gott og sólríkt. Stoppaði góða stund í Fossheiðinni. Skilaði bók sem ég var búin að vera með í láni, fékk aðra í staðinn og lánaði þar að auki tvær af jólabókunum mínum. Var komin austur til foreldra minna upp úr hálftvö og átti með þeim notalega helgi sem ég notaði í ýmislegt, s.s. lestur, kapallagnir (með spilum ekki í tölvu), leysti nokkrar sudokugátur, tók aðeins fram saumana mína og fleira og fleira. Skrapp einnig í heimsókn til föðursystur minnar stuttu fyrir hádegi í gær.


17.2.17

Aftur kominn föstudagur

Þrátt fyrir að ég vaknaði rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun ákvað ég að sleppa því að fara í sund og reyna að kúra aðeins lengur. Þar með kom gat í annars daglegar sundferðir frá því á mánudaginn 6. febrúar sl. Sofnaði ekki aftur en dreif mig ekki framúr fyrr en ég heyrði að annar sonurinn var kominn á stjá og áttaði mig á því að hann þyrfti handklæði til að geta farið í sturtu. Þetta var um hálfátta. Ungi maðurinn var mikið feginn að fá handklæðið en að sturtu lokinni, klæddur og kominn á ról og tilbúinn að leggja af stað í eina tíma dagsins bárust skilaboð um að sá tími félli niður. Hinn ungi maðurinn var boðaður á nýliðanámskeið hjá N1 klukkan tíu, hann sem er búinn að vinna á 12 tíma vöktum frá því í ágúst. Ég ákvað að skutla honum á staðinn en láta honum líka eftir strætókortið því hann þurfti að komast heim aftur og skipta um föt áður en hann færi og leysti af við Stórahjalla seinni partinn. Ég notaði tækifærið og skrapp á mánaðarlegan kaffifund í Café Milano í Skeifunni. Fer reyndar afar sjaldan á svoleiðis hitting. Hann er hugsaður fyrir RBinga sem hættir eru að vinna en við erum nú nokkur í grúbbunni sem erum enn vinnandi. Mér var tekið fagnandi og stoppaði ég við í um klukkustund.

Hafði svo hugsað mér að skrapa saman klinki til að taka strætó í vinnuna en þótt ég ætti fyrir fargaldinu skipti ég um skoðun og fékk einkabílstjórann til að skutla mér. Við komum við á Atlantsolíustöðinni við Öskjuhlíð, fylltum á og þar með styrkti ég Kraft um einhverjar krónur.

15.2.17

Miðvikudagur

 birtir dag frá degi svo eftir er tekið og aðeins rúmur mánuður í jafndægur á vori. Dagarnir þjóta áfram, alveg jafn hratt þótt maður setjist niður, slaki vel á og andi inn og andi út. Stundum er ágætt þegar tíminn líður hratt en það koma líka tímar sem maður væri alveg til í að "frysta" augnablikið amk um einhverjar mínútur eða klukkustundir. Ég var komin heim úr vinnu í gær aðeins fyrr en ég reiknaði með, fyrir klukkan sjö. Byrjaði á því að setja upp hýðisgrjón, skera niður kúrbít og sæta kartöflu, setja í eldfast fat og tvö bleikjuflök ofan á með roðið niður. Kryddaði þetta með best á allt, hvítlauksdufti og smá af svörtum pipar og setti þetta inn í 175 gráðu heitan ofn í tæpan hálftíma. Við Oddur horfðum á Castle seinna um kvöldið en svo fór ég beint í háttinn og er að muna eftir því núna að ég ætlaði að nota hluta af þessum morgni til að horfa á "Horfinn" sakamálaþáttur sem sýndur er eftir tíu fréttir á þriðjudagskvöldum og Ólafur Darri leikur í. Svona leið morguninn hratt þótt ég færi á fætur upp úr klukkan sex.

14.2.17

O, jæja

Ég fór gangandi í vinnuna rétt upp úr hádeginu í gær. Vann frá eitt til sjö og þáði far heim af mótvaktinni minni. Allur dagurinn, frá því ég fór á fætur á sjöunda tímanum og þar til ég fór í háttinn rétt fyrir ellefu var skuggalega fljótur að líða. Fékk eitt símtal rétt eftir að ég mætti í vinnu sem truflaði mig aðeins en ég ákvað að mjög fljótt að gera ekkert veður út af þessu. Sjá bara til hvernig málin þróast og fara eftir leiðbeiningum. Ég er ekkert svo viss um að ég vilji eða muni tjá mig frekar um þetta. Það verður að koma í ljós, amk bíða aðeins betri tíma. Ég er byrjuð að lesa bókina sem "tvíburahálfmóðir" mín lánaði mér. Sú bók heldur fast, Nóttin sem öllu breytti.

13.2.17

Febrúar að verða hálfnaður

 er ég búin að fara í sund átta morgna í röð frá og með sl. mánudegi og það stefnir í að ég viðhaldi venjunni næstu fimm morgna. Ég var með strætókortið sl. föstudag og tók strætó í vinnuna korter fyrir tólf. Vinnutíminn til sex var ekki lengi að líða. Mér fannst ekki taka því að skreppa heim svo ég ákvað að kíkja á Gló og fá mér spínatlasanja áður en ég mætti á fyrirlestur í Lífsspekifélaginu. Sá fyrirlestur var um forna þingstaði miðað við Þingvöll. Mest var fjallað um staðsetningu þings á Þingvöllum út frá rannsóknum og mælingum en það var einnig sagt og sýnt frá "Gulaþingi" í Noregi og einnig fornum þingstað á Hjaltlandseyjum. Mjög áhugavert.

Það var heldur betur líf og fjör í Laugardagslauginni á lagardagsmorguninn, svo mikið fjör að ég byrjaði á því að stinga mér í kaldapottinn, alls þrisvar sinnum milli þess sem ég fór í heitan pott eða sjópottinn. Synti að því loknu 250 metra. Hafði smá stund aflögu heima áður en ég fór til norsku esperanto vinkonu minnar. Stoppaði hjá henni í næstum tvo tíma. Kom við í Krónunni á leiðinni heim. Lánaði strákunum bílinn. Las svo og las. Um kvöldið eftirlét ég Davíð Steini og einum vini hans stofuna og sjónvarpið og var aldrei þessu vant farin í háttinn fyrir miðnætti á laugardagskvöldi.

Í gærmorgun vaknaði ég líka löngu fyrir þann tíma sem ég hafði stillt vekjaraklukkuna á. Mætti í sund rétt eftir opnun og byrjað á því að synda 500 metra. Klukkan eitt var ég mætt í kirkjuna til að aðstoða við undirbúning fyrir maulið eftir messuna. Við tvær sem höfðum tekið þetta að okkur gerðumst líka meðhjálparar og "stjórnuðum" upprisunum í messunni. Var komin heim rétt fyrir fjögur og lánaði þá Oddi Smára bílinn á "spilakvöld" í Kópavogi. Mér fannst ekki annað hægt þar sem hann hafði fjármagnað smá bensíni á bílinn kvöldið áður.

9.2.17

Labbaði heim úr vinnu í kvöld

Í gærmorgun fór ég á lánsbílnum í vinnunna rétt fyrir sex. Hafði fengið aðra af morgunvaktinni til að skipta við mig svo ég kæmist á fund seinni partinn. Upp úr hálfeitt skruppum við vinnufélagarnir af deildinni yfir í Hörpu, sumir til að fá sér kaffi og smá hressingu en við tvær sem vorum á morgunvaktinni pöntuðum okkur og fengum þetta líka girnilega og góða kjúklingasallat. Klukkutíma síðar fór stærri hluti hópsins aftur í vinnuna en við sem höfðum mætt klukkan sex fórum heim. Ég fór beinustu leið heim. Dreif nokkra nauðsynlega smáhluti af, hringdi í pabba og lagði mig svo eins og í klukkustund.

Klukkan fimm var ég mætt á safnaðarstjórnarfund í Kirkjubæ, efri safnaðarsal kirkju óháða safnaðarins. Fundurinn stóð yfir í rétt rúma klukkustund. Bauð ritara stjórnarinna far heim áður en ég fór heim til að útbúa eins konar "naglasúpu" úr rauðum linsum með gulrótum, rófu, hnúðkáli, sætri kartöflu og folaldagúllasi. Kvöldið var svo liðið áður en ég vissi af en ég passaði mig amk á því að fara nokkuð tímanlega í háttinn.

7.2.17

Bókaormur

Síðast liðið sunnudagskvöld fór ég alltof seint að sofa, það var eiginlega komið nokkuð fram yfir miðnætti. Engu að síður ætlaði ég mér að fara á fætur á sjöunda tímanum og skella mér í sund. Það tókst svona nokkurn veginn, að rífa sig upp, fá sér lýsi og mandarínu, taka til sunddótið og koma sér af stað klukkan rúmlega hálfsjö. Þannig að ég hékk ekki á húninum um það leyti sem opnaði en ég var byrjuð að synda rétt fyrir klukkan sjö. Kom heim aftur um hálfníu og byrjaði á því að elda mér bygggrautsblöndu og hella upp á 3 bolla af kaffi. Eftir að hafa gert grautnum skil settist ég með bækur, sudokublöð og kaffi í bolla inn í stofu. Ég er m.a. að lesa Rótlaus eftir Dorothy Koomzon og það er bók sem erfitt er að leggja frá sér. Hringdi í pabba um ellefu, fékk mér hádegissnarl upp úr því og tók strætó við Sunnubúðina korter fyrir tólf á hádegi. Þegar ég kom heim eftir vinnudaginn setti ég upp hýðisgrjón, skar niður hvítkál, hnúðkál, gulrætur og epli og setti í eldfast fat. Ofan á þetta lagði ég þrjú bleikjuflök með roðið niður, kryddaði með best á allt og hvítlauksdufti og hafði þetta í 180°C heitum ofni í rétt tæpan hálftíma. Verulega gott þótt ég segi sjálf frá.  :)

6.2.17

Mikið lesið

Ekki tek ég þátt í "allirlesa.is" átakinu að þessu sinni, þ.e. ég skráði mig ekki inn og skrái ekki niður allt sem ég les. Ég hef alltaf verið bókaormur og lesið mikið en það virðist sem það sé að hægja á bókayfirferðinni, hvað sem veldur. Ég er þó alltaf með eitthvað lesefni nálægt, mest af bókasafninu en einnig á ég enn ólesna eina jólabók og tvær bækur sem ég er með í láni frá einkaaðilum.

En aðeins að síðustu dögum. Ég sleppti því að fara í sund eftir vinnu á föstudaginn. Kom við hjá Frumherja strax eftir vinnu og fékk fulla skoðun, en með einni athugasemd á lánsbílinn. Þarf semsagt að láta laga annað bremsuljósið. Eftir skoðunina skilaði ég tveimur bókum á Kringlusafnið og komst hjá því að líta í kringum mig og grípa "nýjar" bækur. Heima voru þrjár ólesnar af safninu, tvær jólabækur en ég var byrjuð á bókinni um Heiðu bónda á Ljótarstöðum og svo er ég með eina kilju á ensku sem norska esperanto vinkona mín lánaði mér fyrir nokkru.

Heima sá ég að N1 strákurinn hafði ekki tekið með sér strætókortið en hann var á 12 tíma vakt á föstudaginn. Hann hafði sofið yfir sig og splæsti á sig leigubíl svo hann kæmi ekki of seint í vinnuna. Í staðinn notaði ég kortið síðar um kvöldið er ég skrapp á fyrirlestur í Lífsspekifélaginu.

Laugardagsmorguninn byrjaði á sundferð, hafði svo smá tíma heima til að taka mig til fyrir austurferð yfir nótt áður en ég skrapp í esperanto-hitting. Eftir þann hitting kom ég við í Krónunni. Gekk frá þeim vörum er heim kom, hringdi á tvo staði fyrir austan fjall, kvaddi unga manninn sem var heima (hinn var á helgarvakt), tók hafurtaskið með mér í bílinn og brunaði af stað austur. Stoppaði stund í Fossheiðinni. Var að þessu sinni búin að boða komu mína. Alltaf jafn vel tekið á móti mér og ég var svo leyst út með láns-bók og láns-dvd mynd.

Helgin með foreldrum mínum var róleg, mamma er enn léleg en þó örlar á manneskjunni sem maður telur sig þekkja best í gegnum tíðina. Pabbi var slappur af kvefi en tók ekki annað í mál en að sjá um kvöldmatinn, siginn fisk. Ég kláraði loksins hvítvínskassann sem ég kippti með mér úr fríhöfninni þegar ég kom heim frá Spáni í endaðan júní í fyrra. Í gær sendi pabbi mig í búðina fyrir þau svo hann geti haldið sig inni við í nokkra daga á meðan hann er að ná sér af kvefinu. Frændfólk kom við, hafði verið á þorrablóti í Hvolsvelli kvöldið áður, gist á staðnum og ákváðu að reka inn nefið á leiðinni í bæinn aftur. Ég stoppaði fram á kvöld. Kom heim um hálftíu og hér var holið fullt af ungum, ævintýraspilandi mönnum. Settist inn í stofu og horfði á imbann fram eftir kvöldið, og las svo fram yfir miðnætti. Ekki beint til eftirbreytni. Vinnutíminn þessa vikuna er frá 12-18 flesta dagana en ég stefni að því að mæta í sund rétt eftir opnum flesta þessa daga.

1.2.17

Sá fyrsti í þessum mánuði

Var vöknuð nokkuð á undan vekjaraklukkunni í gærmorgun þrátt fyrir að fótaferðatími væri ákveðinn stuttu upp úr klukkan fimm. Fór á lánsbílnum í vinnuna enda strætó ekki byrjaður að ganga og þar að auki þurfti N1 strákurinn minn að hafa kortið til að komast í sína vinnu síðar um morguninn. Tíminn fram að hádegi leið undra hratt. Þegar einungis matartíminn var eftir fékk ég mér hressingu, smá kjötsúpuafgang að heiman, áður en ég dreif mig í Laugardalinn. Var byrjuð að synda klukkan eitt og synti ég í tæpan hálftíma. Var afar glöð að sjá að kaldi potturinn var opinn og dýfði ég mér tvisvar sinnum ofan í hann. Fékk að vita það hjá nöfnu minni, sem er sundlaugarvörður, þegar ég var á leiðinni upp úr að ef frostið fer í fjórar gráður og yfir þá er pottinum lokað. Kom heim um hálfþrjú, fékk mér smá hressingu áður en ég lagði mig í stutta stund. Náði að gleyma mér í uþb hálftíma. Restin af deginum og kvöldið til klukkan tíu leið jafn hratt og fyrri parturinn.