Ekki tek ég þátt í "allirlesa.is" átakinu að þessu sinni, þ.e. ég skráði mig ekki inn og skrái ekki niður allt sem ég les. Ég hef alltaf verið bókaormur og lesið mikið en það virðist sem það sé að hægja á bókayfirferðinni, hvað sem veldur. Ég er þó alltaf með eitthvað lesefni nálægt, mest af bókasafninu en einnig á ég enn ólesna eina jólabók og tvær bækur sem ég er með í láni frá einkaaðilum.
En aðeins að síðustu dögum. Ég sleppti því að fara í sund eftir vinnu á föstudaginn. Kom við hjá Frumherja strax eftir vinnu og fékk fulla skoðun, en með einni athugasemd á lánsbílinn. Þarf semsagt að láta laga annað bremsuljósið. Eftir skoðunina skilaði ég tveimur bókum á Kringlusafnið og komst hjá því að líta í kringum mig og grípa "nýjar" bækur. Heima voru þrjár ólesnar af safninu, tvær jólabækur en ég var byrjuð á bókinni um Heiðu bónda á Ljótarstöðum og svo er ég með eina kilju á ensku sem norska esperanto vinkona mín lánaði mér fyrir nokkru.
Heima sá ég að N1 strákurinn hafði ekki tekið með sér strætókortið en hann var á 12 tíma vakt á föstudaginn. Hann hafði sofið yfir sig og splæsti á sig leigubíl svo hann kæmi ekki of seint í vinnuna. Í staðinn notaði ég kortið síðar um kvöldið er ég skrapp á fyrirlestur í Lífsspekifélaginu.
Laugardagsmorguninn byrjaði á sundferð, hafði svo smá tíma heima til að taka mig til fyrir austurferð yfir nótt áður en ég skrapp í esperanto-hitting. Eftir þann hitting kom ég við í Krónunni. Gekk frá þeim vörum er heim kom, hringdi á tvo staði fyrir austan fjall, kvaddi unga manninn sem var heima (hinn var á helgarvakt), tók hafurtaskið með mér í bílinn og brunaði af stað austur. Stoppaði stund í Fossheiðinni. Var að þessu sinni búin að boða komu mína. Alltaf jafn vel tekið á móti mér og ég var svo leyst út með láns-bók og láns-dvd mynd.
Helgin með foreldrum mínum var róleg, mamma er enn léleg en þó örlar á manneskjunni sem maður telur sig þekkja best í gegnum tíðina. Pabbi var slappur af kvefi en tók ekki annað í mál en að sjá um kvöldmatinn, siginn fisk. Ég kláraði loksins hvítvínskassann sem ég kippti með mér úr fríhöfninni þegar ég kom heim frá Spáni í endaðan júní í fyrra. Í gær sendi pabbi mig í búðina fyrir þau svo hann geti haldið sig inni við í nokkra daga á meðan hann er að ná sér af kvefinu. Frændfólk kom við, hafði verið á þorrablóti í Hvolsvelli kvöldið áður, gist á staðnum og ákváðu að reka inn nefið á leiðinni í bæinn aftur. Ég stoppaði fram á kvöld. Kom heim um hálftíu og hér var holið fullt af ungum, ævintýraspilandi mönnum. Settist inn í stofu og horfði á imbann fram eftir kvöldið, og las svo fram yfir miðnætti. Ekki beint til eftirbreytni. Vinnutíminn þessa vikuna er frá 12-18 flesta dagana en ég stefni að því að mæta í sund rétt eftir opnum flesta þessa daga.