29.6.18

Allt í himna lagi

Einhver sagði einhvern tímann að ..."engar fréttir eru góðar fréttir!" Ég er að verða hálfnuð með fríið mitt og batteríin eru heldur betur að hlaðast þrátt fyrir að ég sé ekki að skipuleggja neitt stórt þannig séð. Leyfi mér að haga seglum alveg eftir vindi en læt samt veðrið alls ekki hafa áhrif á mig. Það kom einn mjög góður sumardagur í kringum 20. júní og þá ákvað ég að fara gangandi í Laugardalinn. Hafði með mér klink fyrir fari með strætó til baka því þótt ég treysti mér alveg til að labba heim aftur þá fannst mér tilhugsunin um göngublautt bak ekki góð. Ég fór líka gangandi á bókasafnið fyrir nokkrum dögum. Skilaði öllum 6 bókunum (lesnum) og það komu sjö með mér heim aftur. Fyrir tæpri klukkustund kom ég gangandi heim úr heimsókn frá fyrrum kórsystur. Labbaði af stað til hennar um tvö og var svona ca tuttugu mínútur á leiðinni. Semsagt það er allt í góðu.

18.6.18

Smá lífsmark

Það er spurning hvort uppfærsla á persónuverndarlögum og því öllu muni fæla mig frá því að vera eitthvað að skrásetja hluta af því sem fer fram í kringum mig og um mig? Svo er þetta með andann og löngunina til að skrifa. Auðvitað er hún oftar til staðar heldur en sést amk ef skrif/blogg-árin eru borin saman. Ég ætla ekkert að velta mér frekar upp úr þessu og heldur ekki hafa þetta lengra í dag. Er að lesa svo spennandi bækur, fylgjast með HM, stunda kalda pottinn og laugarnar og rembast við að halda mér í gönguformi líka. Jú, kannski eitt, sl. föstudag fór Davíð Steinn með mér á N1 í Fellsmúla svo ég gat nýtt mér 22% afláttinn hans þegar ég keypti ný sumardekk undir Fordinn og lét setja undir bílinn.