28.10.18

Á Hellu yfir nótt

Það er jazzmessa í kirkjunni minni núna á eftir. Ég er hins vegar stödd á Hellu. Ætla ekki að vera fram á kvöld en er þó ekki að flýta mér í bæinn til að ná í messu. Ég var komin hingað austur upp úr klukkan tvö í gær eftir að hafa farið í tveggja tíma sundferð, esperanto hitting og smá Krónuferð í gærmorgun áður en ég kom við aftur heima að ganga frá "morgundótinu" og taka mig til fyrir austurferð. Var svo sniðug að taka með mér hluta af jólakortagerðardótinu mínu og eftir að við pabbi vorum búin að drekka kaffi upp úr klukkan hálffjögur lagði ég undir mig eldhúsborðið í tæpa tvo tíma. Skar niður nokkrar arkir í nokkrum litum þannig að ég var komin með rúmlega þrjátíu stk. grunnkort. Á til helling af niðurklipptum jólamyndum, skapalón, liti og fleira og áður en ég tók saman var ég búin að útbúa 5 jólakort. Á kannski eftir að klippa þau örlítið meira til og einnig setja hvít blöð inn í kortin sem ekki eru hvít fyrir. Ég er mjög ánægð með að vera loksins komin í gang og veit að ég þarf ekki að setjast niður nema 2-3 í viðbót til að klára kortin áður en ég fer í að skrifa þau. Ætti að vera tilbúin til að byrja jólakortaskrif í desemberbyrjun. Sem fyrr mun ég skrifa 3 bréf sem fara með jólakortunum sem ég sendi til Danmerkur (2) og Manchester (1).

Ég er búin að lesa skammtímalánsbækurnar og næstum því tvær bækur til. Sú sem ég er alveg að ljúka við heitir Hin svarta útsending eftir kött grá pje/Atla Sigþórsson. Nokkuð skemmtileg bók, margir misstuttir textar á 100 blaðsíðum. Allir textar heita eitthvað og amk í einu tilvikinu er titill textans lengri en sjálfur textinn.

21.10.18

Næturgisting á Hellu

Ég var komin á Hellu fyrir hálffjögur í gær eftir að hafa gert smá stopp í Fossheiðinni á leiðinni austur. Hafði mætt samviskusamlega í sundið upp úr klukkan átta, synt í hálftíma, farið 3 í kalda pottinn, eina ferð í saltpottinn, eina ferð í gufuna og að lokum gefið mér góðan tíma til að sápuþvo á mér hárið og blása á leiðinni upp úr. Úr sundlauginni lá leiðin beint vestur í bæ í espernato hitting til Inger. Áður en ég kom svo við heima til að ganga frá sunddótinu mínu og sækja það sem ég ætlaði að hafa með mér, fyllti ég bílinn á Atlantsolíustoðinni við Öskjuhlíð.

Pabbi var að búa til vöfflur þegar ég mætti á svæðið í gær. Við ákváðum að hafa bleikju í kvöldmatinn og ég spurði í leiðinni hvort ég mætti ekki gera atlögu að innihaldi hvítvínskassans í aukaísskápnum um kvöldið. Það leyfi var auðfengið og náði ég að hálffylla og drekka þrjú glös af víni áður en það kláraðist. Það var líka alveg nóg. Pabbi fékk sér rautt í glas og við spjölluðum nokkuð langt fram á kvöld.

Annars hef ég lokið við að lesa aðra af skammtímalánsbókunum; Sagnaseiður eftir Sally Magnusson þýdd af Urði Snædal og mæli ég alveg 100% með þeirri bók.

19.10.18

Á leið í hús Lífspekifélagsins í kvöld

Um átta verð ég mætt á fyrsta fund/fyrirlestur í vetur. Sl. föstudag var reyndar kynning og hluti af starfsseminni hófst í síðasta mánuði. Held að þetta sé að byrja með seinna móti en áður en ég er þó ekki viss. Gerðist félagi í fyrra og hef aðeins verið viðloðandi þetta félga síðan í hitti fyrra.

 er ég búin að skila formlega af mér gjaldkerastarfi KÓSÍ. Við erum hætt sem kór en höldum hópnum og vinskapnum að sjálfsögðu áfram. Við formaðurinn ákváðum um daginn að afhenda nýlega stofnuðum óháða kórnum kennitöluna og reikninginn með smá upphæð inn á sem gjöf frá KÓSÍ.

Skrapp á bókasafnið fljótlega eftir að ég kom heim úr vinnunni. Skilaði fimm bókum, öllum sem ég var með í láni af safninu. Kom ekki tómhent heim aftur því 9 bækur "hoppuðu" upp í fang mér, þar af tvær sem eru með 14 daga skilafrest. Og ég sem ætlaði að fara huga alvarlega að jólakortagerð og yfirfara eitthvað af dótinu mínu. Hlýt samt að komast yfir þetta allt. Reyndar freistaðist ég til að kaupa kilju um daginn, glæpasögu, eftir höfund sem hefur náð taki á mér, Angela Marsons. Keypti nýjustu, þýddu bókina og stakk henni svo ofan í skúffu í bili. Ég er líka að glugga í bók sem ég keypti í útgáfuteiti í síðasta mánuði og þar að auki lánaði sr. Pétur mér bókina Brautryðjaninn ævisaga Þórhalls Bjarnasonar 1855-1916 sem er skráð af Óskari Guðmundssyni.

15.10.18

Á Hellu í augnablikinu

Það var verið að eitra fyrir silfurskottum í Drápuhlíð 21 milli klukkan eitt og hálfþrjú í dag. Ekki er ráðlagt að vera heima næstu fjóra tíma á eftir. Strákarnir fóru í eina Sorpuferð upp úr klukkan tólf. Ég var komin heim þar sem ég misskildi tímasetninguna. Kannski var það eins gott því íbúarnir á hæðinni fyrir neðan voru ekki heima og allt harðlæst hjá þeim. Þau gátu bjargað því, ein dóttir þeirra kom rétt fyrir klukkan eitt á sama tíma og sá sem tók verkið að sér. Ég labbaði með honum um allt til að byrja með en svo náði hann í grímu, hanska og eitrunardæmið út í bíl og byrjaði í kjallaranum. Strákarnir komu stuttu síðar og einkabílstjórinn fékk þá góðu hugmynd um að nota tækifærið og skreppa í heimsókn á Hellu. Þangað vorum við komin um þrjú og erum þar enn. Verðum líklega ekki komin heim fyrr en um tíu í kvöld.

Mikið er annars búið að ganga á, síðustu viku, eða frá því var ljóst hvenær yrði eitrað. Kosturinn við svona er sá að maður neyðist til að taka aðeins betur til.

Mætti í sund um átta í gærmorgun og kom svo við og fékk mér kaffi hjá Oddi í Öskjuhliðinni um tíu. Um hálftólf var ég komin upp í kirkju. Þangað mættu allir úr stjórninni til að undirbúa heitu réttina á kór-hlaðiborðið eftir messuna og aðstoða kórinn við að undirbúa salina. Klukkan var að verða fimm þegar ég kom heim og þá fór ég með Davíð Steini niður að undirbúa geymsluna fyrir eitrun en Oddur Smári fór í Sorpuferð og fékk þar með að keyra THM88 í fyrsta skipti. Bíllinn er ennþá á nafni pabba en því verður breytt fljótlega og hann færður yfir á mitt nafn.

11.10.18

Nokkrar línur

Föstudagur á morgun og á sunnudaginn verður galdramessa í óháðu kirkjunni. Mánuðurinn kominn í tveggja stafa tölu svo það styttist í annan enda á árinu. Kortadeildin skrapp yfir í Hörpuna, á kaffifund, upp úr tvö. Hélt að ég væri búin að týna rauðu 66° húfunni minni því ég fann hana ekki þegar ég var að klæða mig í regnkápuna. Var mjög hugsi yfir þessu en sem ég beið eftir strætó á torginu þá þreifaði ég einu sinni enn í hettuna á kápunni og viti menn, þar var húfan. Fjúkkett! Ég tók strætó númer sex og var komin heim um hálffjögur.

10.10.18

Aftur í sjóinn

Sjórinn var 0,3° kaldari í dag en á mánudaginn, eða 4,6°C, en veðrið var gott og ég naut þess að svamla um. Var mætt í Nauthólsvík á slaginu fimm og þá þegar var fólk að fara í sjóinn. Að þessu sinni fór ég tvisvar. Fyrst í 15 mínútur og eftir um það bil tíu mínútur í heita lang-pottinum fór ég aftur og þá í víkina. Þar að sjórinn að vera aðeins heitari en þar sem það var flóð í dag var ekki mikill munur.

Annars tók ég á móti korti no. 3.000.000 sem er framleitt á 12 ára gömlu kortavélina. Það var reyndar svolítið skondið að ég fékk heiðurinn af móttökunni því ég var á vélinni milli átta og hálftíu í morgun og þegar farið var í kaffipásu vantaði aðeins rúmlega 250 stk upp á að ná tölunni. Eftir kaffi fóru aðrar tvær á vélina og þær lentu í smá vandræðum og náðu ekki að framleiða þennan kortafjölda á tveimur tímum. Tímamótin urðu ekki fyrr en eftir hádegi þegar ég var komin aftur á vélina og þá á móttökuhlutann.

Skrapp aðeins upp í kirkju í gærkvöldi til að afhenda einum kórmeðlimi úr nýlega stofnuðum Óháða kórnum plagg sem þau eiga að geta nýtt sér til að yfirtaka kennitölu og reikning KÓSÍ sem er ekki starfræktur lengur. Eftir að hafa afhent plaggið, undirritað af mér og fyrrum formanni skrapp ég í heimsókn upp í Katrínarlind í Grafarholtinu. Þangað hef ég ekki komið nokkuð lengi og áður en ég vissi af voru liðnir tveir tímar.

8.10.18

Svamlað í 4,9°C sjónum

Þar sem fyrir lá smá tölvuverkefni í kvöld ákvað ég að hamra inn nokkrar línur. Var mætt í sund milli klukkan átta og hálfníu í gærmorgun. Gaf mér góðan tíma í rútínuna og fór m.a. þrisvar sinnum í þann kalda, synti í tuttugu mínútur og sat heillengi í gufunni áður en ég fór upp úr. kom við í Krónunni við Nóatún á leiðinni heim. Fór ekkert aftur á bílnum en ég samdi við Davíð Stein um að sjá um eldamennskuna um kvöldið og skundaði sjálf í Valsheimilið rétt fyrir sex og horfði á tvo heimaleiki í röð. Stelpurnar tóku á móti Haukum og unnu leikinn 27:20. Klukkan átta hófst leikur strákanna sem tóku á móti ÍR. Staðan þar var jöfn í hálfleik en leikurinn fór 28:22 fyrir Val.

Ég fékk að fara einum og hálfum tíma fyrr úr vinnunni til að sinna bankamálum. Fór fyrst heim með strætó og fór á B-Max í bankann. Þar sinnti ég þremur erindum. Kom heim aftur um fjögur. Hringdi í pabba og spjallaði góða stund við hann. Var svo komin í Nauthólsvíkina um fimm. Svamlaði í sjónum í um 15 mínútur. Var ekkert að fara neitt langt, þurfti þess ekki, það var háflóð og náði sjórinn upp á hálfa brautina og  maður hætti að botna mjög fljótlega eftir að komið var út í.

7.10.18

Tveir dagar í röð

Það hefur ekki gerst nokkuð lengi að ég hafi sest niður, skráð mig inn á bloggið og skrifað eitthvað tvo daga í röð. Ég er enn með fartölvuna hans pabba, hann segist ekki nota hana neitt og ég má hafa hana hjá mér eins lengi og ég vil. Þráðlausa músin mín og netkubburinn virka alveg jafn vel á þessa tölvu og þá sem ég er með inni í tölvuskáp.

Á K1 (í vinnunni) var stofnaður leshringur um daginn. Allir 7 sem vinna í kjallaranum á Seðlabankanum voru skráðir meðlimir en við erum fjögur sem erum virk og 1 dró sína aðild til baka, sagðist ekki vilja vera með og skráð í neinn hóp. Fyrsta bókin sem við tókum fyrir var, Fuglarnir eftir Tarje Vesas norskan höfund. Og bókin sem við erum að lesa núna er, Glerkastalinn eftir Jeannette Walls. Ég fékk hana ekki á íslensku á Kringlusafninu en ákvað að prófa að lesa hana á ensku. Það gekk ágætlega en ein úr hópnum bauð mér svo að lána mér sitt eintak á íslensku og fá í staðinn lánað mitt enska eintak. Ég þáði það með þökkum því ég er miklu fljótari að lesa á móðurmálinu. Sennilega væri samt skynsamlegt að lesa eina og eina bók á ensku eða dönsku. Ég hefði bara gott af því. Við tölum um bækurnar í kaffi eða matarhléum. Erum ekki búin að setjast niður öll fjögur með seinni bókina og heldur ekki að velja næstu bók. Það gæti þó orðið Veröld sem var eftir Stefan Zweig því hin þrjú eru að lesa þá bók og ég hef er ekki frá því að ég sé forvitin um hana eftir að hafa fengið að glugga aðeins í hana hjá einu hinna.

6.10.18

Þvílíkt skrið á tímanum

Sex dagar að verða liðnir af tíunda mánuði ársins. Uþb tveir mánuðir síðan mamma dó. Ég er búin að selja bláa bílinn sem ég kallaði lengi vel lánsbílinn enda var ég með afnot af honum í næstum fimm ár áður en ég "keypti" hann af mömmu á kr. 50.000 í fyrrasumar. Um sama leyti festi hún kaup á 3 ára Ford B-Max, sem aðeins var búið að keyra 3000 km. Sá bíll er kominn tímabundið á pabba nafn en má segja að hann sé móðurarfur minn og fer yfir á mitt nafn fljótlega. Pabbi kom með nagladekkinn undir bláa bílinn þann 21. september og ég fór með honum austur. Á sunnudeginum sótti ég eina vinkonu mína í Hvolsvöll. Hún var að setja húsbílinn sinn í geymslu yfir veturinn fyrir utan hjá mömmu hennar. Vinkona mín borðaði með okkur pabba en kom svo með mér í bæinn og gisti hjá mér í viku. Aðfaranótt sl. sunnudags skutlaði ég henni til Keflavíkur. Hún átti flug til London eldsnemma um morguninn og tveim dögum seinna flaug hún þaðan til Kanaríeyja þar sem hún verður fram á vor.

Þann 23. september fór ég gráa B-Max í vinnuna. Eftir vinnu þann dag fjárfesti ég í 3 mánaða strætókorti sem gildir til og með 24. desember. Í september fjárfesti ég einnig í armbandi sem gildir í sjósund í Nauthólsvík fram að áramótum. Það fékk ég endurgreitt frá vinnunni sem íþróttastyrk. Opið er 6 sinnum í viku en ég reyni yfirleitt að fara eftir klukkan fimm á mánudögum og miðvikudögum. Vikan sem ég var alveg bíllaus, datt út, en þá viku labbaði ég við í Sundhöll Reykjavíkur tvisvar sinnum. Þangað var ég ekki búin að koma síðan eitthvað fyrir breytingar.

Annars fór ég í klippingu í hádeginu í dag og þar sem ég er enn að láta klippa mig sítt verður næsti tími ekki fyrr en eftir áramót. Af því tilefni óskaði hárskerinn minn mér Gleðilegar jóla, he, he. En það fékk mig bæði til að skella upp úr og hugsa út í að það er í raun tímabært að fara að huga að jólakortagerð.