Loksins, loksins er ég "komin aftur". Ég fór reyndar aldrei neitt langt en ljósleiðaraboxið hætti alveg að virka hjá mér fyrir rétt rúmri viku síðan. Heimasíminn, sjónvarpið og netið lá því niðri í nokkra daga. Þetta var á föstudaginn fyrir rúmri viku. Þá stóð til hjá mér að skreppa á fyrirlestur í lífsspekifélaginu með norsku esperanto vinkonu minni. Hún hringdi í gemsann upp úr klukkan hálfsjö og tjáði mér að ein önnur vinkona hennar hefði verið að vinna fjóra miða á síðustu Tom Jones tónleikana í Austurbæ og spurði hvort ég vildi koma með þeim þangað. Ég var alveg til í að taka U-beyju og sé svo sannarlega ekki eftir því þótt fyrirvarinn væri í styttra lagi. Ég sótti Inger um hálfátta og við fengum stæði á fínum stað í Norðurmýrinni. Næstu þrír tímar liðu ógnarhratt og ég skemmti mér konunglega.
Morguninn eftir gekk þetta fræga óveður yfir landann. Ég skutlaði Oddi Smára yfir í HR rétt fyrir níu og þar var hann langt fram á dag að taka þátt í forritunarkeppni. Veðrið var orðið miklu skaplegra um fimm þegar hann var loksins búinn og hann labbaði heim. Ég var í ýmsum útréttingum eftir hádegið. Lét skreyta afmælisgjöf frá kórnum til einnar nöfnu minnar í KÓSÍ sem var búin að bjóða okkur söngfélögunum ásamt fullt af öðru samferðafólki hennar að halda með henni upp á árin 70 um kvöldið. Afmælisdagurinn var reyndar þann 16. en það var mánudagur. Sótti vörur til tvíburahálfsystur minnar og fékk í leiðinni að fylla á símana hjá sonum mínum. Eftir að hafa þegið kaffi og með því og spjallað um stund sótti ég afmælisgjöfina úr skreytingu. Skrapp í heimsókn til hennar Böddu minnar og þegar ég kom þaðan voru strákarnir að fara með pabba sínum. Ég mætti í afmælisveisluna rétt upp úr klukkan átta og skemmti mér alveg jafn vel og kvöldið áður. Kom heim rétt um miðnætti.
Sunnudagurinn var alveg jafn skemmtilegur og hinir tveir dagarnir á undan. Fyrri parturinn fór í undirbúning undir kvöldið að mestu því ég var búin að bjóða norsku esperantovinkonu minni og manninum hennar í matarboð, nokkurs konar innflutnings partý vegna nýuppgerðs baðherbergis. Davíð Steinn hringdi fyrir mig í Vodafone og það var ákveðið að prófa að skipa um spennubreyti. Það virkaði ekki neitt og áfram var engin tengin við ljósleiðaraboxið og umheiminn. En matarboðið tókst vel og kvöldið var mjög skemmtilegt. Hafði bleikt og grænt þema í matargerðinni, ofnbakaða bleikju með spínati, sæta kartöflumús, lauk í heitu smjöri og fulla skál af fersku sallati, fetaost og svartar ólífur til hliðar. Þetta sló í gegn. Eftir borðhaldið bjó ég til kaffi og allir færðu sig yfir í stofuna, synir mínir líka, og þeir virtust hafa virkilega gaman af þessari heimsókn.
Á mánudagsmorguninn skutlaði ég Oddi Smára í skólann og fór sjálf í Sundhöllina. Nýliðna vinnuviku vann ég flesta daga frá 13-19 fyrir utan miðvikudaginn. Hringdi fljótlega í pabba er ég kom heim úr sundi og beið svo eftir því að klukkan yrði örugglega tíu áður en ég vakti Davíð Stein en hann átti ekki að fara í skólann fyrr en seinni partinn og hafði tekið að sér að hringja aftur í þjónustuver Vodafone. Þá varð það alveg ljóst að bilunin væri það alvarleg og mjög líklegt að boxið væri hreinlega ónýtt svo erindið var sent áfram upp í bilanadeild og sagt að haft yrði samband þegar einhver kæmist á staðinn til okkar að kíkja á málin berum augum. Ég mætti eins og fyrr segir í vinnu klukkan eitt og fór fljótlega að sinna framleiðslunni ásamt þeim sem var með mér á vaktinni. Það gekk alveg ótrúlega vel hjá okkur og við náðum að framleiða 2500 kort á tæpum sex tímum, reyndar með tveimur góðum pásum. En hér set punkt í bili. Er á leið í sund, sjötta daginn í röð.