29.6.06

- Mótið er hafið -

Feðgarnir eru í "útlöndum" og búnir að vera þar síðan seint á þriðjudagskvöldið. Ég var tvístígandi lengi vel áður en ég ákvað að vera bara heima. Það eru bæði kostir og gallar við þetta en ég ætla ekki að pæla meira í þessu. Þetta er bara svona! Það er allt á hvolfi hér heima en ég er að vinna í að laga það og gengur bara þokkalega. Skrapp í sund í gær og synti 500 metra á uþb 15 mínútum og seinni partur gærdagsins og fram eftir kvöldi fór í lestur. Ég mæli með bókinni: Bátur með segli og allt eftir Gerði Kristný. Sagan hlaut bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness árið 2004. Ég gat ekki lagt hana frá mér eftir að ég var byrjuð. Ætlaði bara rétt að líta í hana því skiladagurinn nálgast en það fór nú svo að ég hætti ekki fyrr en ég var búin. Gaf ég mér þó smá tíma til að næra mig og lagði frá mér bókina á meðan.

28.6.06

svo hljótt og skrýtið
ein með sjálfri mér
og verkefnum
sem bíða þolinmóð
eftir að ég takist
á við þau
og hafi betur

svo mjótt og lítið
bilið milli anna
og rólegheita
sumt er óháð
tíma og rúmi
sumt er mitt á milli
ég skal hafa betur

27.6.06


- Á leið út í Eyjar -

Þessi mynd er tekin á Víkingsvellinum í gær en 6. flokkur Vals og Víkings spiluðu æfingaleiki saman. Valshópurinn leggur af stað til Vestmannaeyja seinni partinn. Morgundagurinn fer í skoðunarferðir og fleira en mótið sjálft hefst á fimmtudaginn.

26.6.06


- Fermingamynd lokið -

Þessa mynd kláraði ég loksins að sauma fyrir tveimur vikum. Ég byrjaði á henni um leið og ég fékk verkefnið í hendurnar í febrúar sl. Var handlama á tímabili og svo þegar ég sá að ég gat hvort sem er ekki lokið við myndina fyrir fermingardaginn (020304) þá hægðist aðeins á. Eitt af því síðasta sem ég saumaði var nafnið og dagsetningin. Ég var stödd hjá tvíburahálfsystur minni þegar ég var að því. Hróðug sýndi ég henni myndina, nafnið var komið og það vantaði bara dagsetninguna, eða hvað.... "Anna, viltu lesa það sem þú saumaðir!" Þar stóð; Franska Björk og ég mátti gjöra svo vel að rekja upp hálft nafnið til að laga þetta.

- Í afmælisveislu og útvarpsmessu -

Haldið var upp á afmæli Bríetar á laugardaginn. Ótrúlegt að liðin séu tvö ár síðan hún kom í heiminn. Það var gaman í veislunni og það fór svo að klukkan var farin að ganga átta þegar við kvöddum.

í gærmorgun var ég mætt upp í kirkju Óháða safnaðarins klukkutíma fyrir messu. Þá var þegar kominn bíll frá ríkisútvarpinu og verið var að stilla upp hljóðnemum á nokkrum stöðum. Upphitun gekk ágætlega og þegar messan hófst um ellefu var allur skrekkur horfinn úr manni þannig að messan var mjög afslöppuð þrátt fyrir að hljóðnemar og kaplar minntum mann á að verið væri að útvarpa beint. Davíð mætti í messuna og svei mér þá ef það er ekki í fyrsta skipti sem hann kemur í helgihald í þessari kirkju (hann hefur mætt á tónleika hjá kórnum en ég man ekki eftir því að hann hafi mætt í messur). Á eftir var borðuð ungversk gúllassúpa a la organistinn Pétur Máté sem er kominn í ársleyfi þó með því skilyrði að hann búi til gúllassúpu að ári.

24.6.06

- Sundferð og fleira -

Hvernig er hægt að halda aftur af barni sem er duglegt að bjarga sér? Annar tvíburinn er svo sjálfstæður (sem er oftast gott) að hann hikar ekki við hlutina. Þetta getur verið gott þegar t.d. er verið að leita að einhverju ákveðnu í verslun. Í stað þess að leita sjálfur nær hann strax í einhvern sem er í afgreiðslunni. En í fyrrakvöld ákvað ég að við mæðginin skyldum fara í sund morguninn eftir og bjóða vini þeirra með, ef hann vildi og mætti. Ég var varla búin að sleppa orðinu og hugsa þetta til enda þegar sá framtakssami var kominn með símann í hendurnar og búinn að velja númerið heima hjá vininum. Minn gleymdi að kynna sig og spurði bara mömmuna beint út. Í gærmorgun lagði ég þessum hvatvísa syni mínum lífsreglurnar; Í fyrsta lagi að spyrja okkur foreldrana hvort hann megi hringja, í öðru lagi að kynna sig og síðast en ekki síst að spyrja eftir vininum og spyrja hann (vinurinn getur svo spurt mömmu sína hvort hann geti eða megi fara með). Strákurinn fór nú eftir þessum reglum í gærmorgun, en svo er spurning hvort hann gleymi sér ekki næst? (Hvor bræðranna skyldi nú vera svona duglegur að bjarga sér?)

Við fórum fjögur í sundið. Ég synti 500 og sat svo góða stund í tröppunum á grunnu lauginni áður en ég fór í pottinn. Skilaði vininum heim rúmlega eitt. Tvíburarnir fengu sér hressingu heima og voru svo farnir út aftur. Ég var búin að nefna það við þá að ég ætlaði að skreppa frá milli fjögur og sex og það fór þannig að ég hitti strákana ekki aftur fyrr en ég kom heim úr þeirri skreppu.

23.6.06

- Afmæli -

Bríet er tveggja ára í dag. Það styttist í að hún byrji í leikskóla þessi skvísa. Hulda hættir í leikskólanum um næstu mánaðamót, því hún er að byrja í skóla í haust, og Bríet plássið hennar stóru systur og byrjar að nota það í ágúst.

22.6.06

- Nokkrar línur -

Það er að verða fínt fyrir utan. Í gær kom upp furðulegt mál. Þegar ég settist á klóið í gærmorgun var það volgt. Fyrir utan var verið að undirbúa þökulagningu. Við Davíð töluðum bæði við manninn og hann kom skilaboðunum áleiðis. Ég var svo beðin um að láta kalda vatnið renna í vaskinn og pumpa klósettið, þetta hlyti að lagast. En það lagaðist ekki neitt, vatnið kólnaði að vísu aðeins, varð volgt en um leið og ég skrúfaði fyrir aftur sótti í sama farið. Píparinn kom seinni partinn og lagaði þetta. Það höfðu víxlast tengingar í þvottahúsinu. Þvottavélin er enn úti á miðju þvottahúsgólfi en ég held að það verði gengið frá þessu öllu í dag, eða ég vona það því það bíður heilt fjall eftir mér...

Strákarnir eru úti í augnablikinu enda veðrið til þess (skil ekkert í hvað ég er að væflast inni). Um hálftvö eiga þeir að mæta út á nes og spila æfingaleik við Gróttu.

"Föðursystir" mín leit við áðan. Við settumst með kaffibollana út á svalir. Kannski eins gott að ég opnaði aðeins út því það þurfti að byrja á því að hreinsa niðurfallið til að hleypa niður vatni.

Þetta verður líklega svona úr einu í annað- dagur.

21.6.06

- Örlítið um gærdaginn -
- og smá um núið -

Við mæðginin drifum okkur í sund í gærmorgun. Klukkan var farin að ganga ellefu svo við höfðum ekki mjög langan tíma því knattspyrnuæfing drengjanna byrjar klukkan hálfeitt (mán-fimmt). Rétt áður en við fórum upp úr lauginni, eftir smá sundsprett og boltaleiki hittum við eina bekkjasystur þeirra úr Ísaksskóla, tvö systkyni hennar og mömmu. Krakkarnir voru pínu feimin hvort við annað. Við mömmurnar gáfum okkur tíma í smá spjall og höfðum mikið að segja. Því miður hafði ég bara stutta stund að þessu sinni en ég er viss um að við eigum eftir að hittast aftur.

Davíð var að vinna í alla fyrrinótt. Hann var samt kominn á fætur þegar við strákarnir komum heim en það endaði með því að maðurinn vann heima í gær. Það var líka vinnutörn í nótt sem leið en klukkan var byrjuð að ganga sex er hann skreið upp í. Hann var búinn að lofa sér á ákveðinn stað um níu í morgun og einhvern veginn tókst honum að hafa sig af stað eftir minna en þriggja tíma svefn.

Skrapp til tvíburahálfsystur minnar í gærkvöldi. Veðrið var svo hlýtt og gott að það hreinlega kallaði á okkur að koma út að ganga. Við vorum ekki með neina ákveðna leið í huga en vorum staddar í Setberginu þegar hringt var SOS heiman að frá henni. Við flýttum okkur til baka. Það tók samt drjúga stund og vorum við báðar rjóðar og másandi er við skiluðum okkur.


- Í miðri viku -

Heiti daganna skiptir minna máli þegar maður er í fríi. En í dag hugsa ég til nöfnu minnar, systurdóttur mömmu, sem á 24 ára afmæli í dag. Um daginn reit hún á sína bloggsíðu að hún ætlaði að halda upp á afmælið bæði í Köben og í Osló. Ég var fljót að spyrja hvort hún ætlaði ekki líka að halda upp á afmælið hér á Íslandi. Kannski gerir hún það á næsta ári þegar hún verður kvartaldargömul. Kannski förum við bara og hittum hana. Hver veit hvað verður?
Myndirnar eru af mér og föður- afa og ömmu og móðurömmu, nöfnu, teknar fyrir um það bil 38 árum eða svo.

20.6.06

- Sumarfrí -

Söngfuglinn minn er kominn heim aftur úr frægðarför. Við sóttum hann seinni partinn á sunnudaginn var og frá Keflavík brunuðum við beint austur á Hellu og sóttum Odd Smára en hann hafði beðið sérstaklega um að vera ekki sóttur á undan. Davíð Steinn færði okkur ýmislegt smálegt frá Paimpol og París og hafði hugsað meira um hvað hann gæti fært okkur heima heldur en hvað hann vildi sjálfur. Hann keypti þó m.a. mjög skemmtilega hárgreiðu handa sér, greiðu í "skafti" sem þarf að pressa á hnapp til að greiðan skjótist fram. Þetta er eins og hnífur og drengurinn lenti einu sinni í vandræðum út af þessu úti. Hann var sennilega nýbúinn að kaupa gripinn og var svo heillaður af að prófa takkann að hann hugsaði ekki út í að vegfarendur gætu litið á þetta sem ógnun. Einni franskri konu brá svo mikið þegar greiðan skaust úr skaftinu að hún helti sér bæði yfir drenginn og hópstjórann hans. Þau skildu reyndar ekki mjög mikið í því sem hún sagði en Davíð Steini brá svo mikið að hann fór að skæla. Við heimkomuna talaði hann um að hann hefði alltaf verið að fá heimþrá, stundum svo mikla að tárin læddust fram. Samt sagði hann að það hefði verið gaman allan tímann. Þegar kórinn var með tónleika í 16. hverfi Parísar á 17. júní sl var svo heitt, og þeir drengir í "fullum herklæðum" (hvítum langerma bol innan undir), að það var hér um bil liðið yfir Davíð Stein. Það slapp þó til.

Áður en drengjakórinn fór utan var Oddur Smári farinn austur á Hellu til afa síns og ömmu. Hluta af tímanum voru þeir bara tveir saman. Stráksi hjálpaði afa sínum við gróðursetningu og afinn hjálpaði dóttursyninum við að smíða fuglahús. Seinustu dagana fyrir austan var Oddur Smári mikið með vini þeirra tvíbura sem þeir eignuðust þarna fyrir sex eða sjö árum. Sá strákur er ári eldri og sonur bekkjarbróður míns úr grunnskóla. Þegar við komum austur um hálfsjö á sunnudaginn var, var Oddur einmitt staddur hjá vininum og kom ekki til baka fyrr er kvöldmaturinn var byrjaður. En það urðu fagnaðarfundir. Upp úr hálfníu kvöddum við og héldum heim á leið. Fyrir suma var þetta orðinn langur dagur. Klukkan var nálægt eitt að frönskum tíma þegar bræðurnir voru komnir í ró.

Ég hélt að þeir myndu sofa út fyrsta daginn, en það var öðru nær. Þeir voru báðir vaknaðir fyrir sjö í gærmorgun...

14.6.06


Það er verið að laga lagnirnar við og undir húsinu. Ég held að nú sé búið að grafa allan hringinn. Það var líka brotið upp gólfið bæði í þvottahúsinu og í skúrnum hjá okkur. Við erum svo "heppin" að þvottavélin okkar var akkúrat fyrir framkvæmdunum í þvottahúsinu. Já, það er ástand!

13.6.06

- Nýliðin helgi -

Eftir göngumessu á laugardagsmorguninn og smá hressingu var Davíð Steinn skilinn eftir hjá hópstjóranum sínum. Stór partur af kórnum mínum, mökum og örfáum fylgifiskum safnaðist svo saman í bíla og hélt af stað áleiðis í Stykkishólm. Fyrsta stopp var hjá Hildibrandi í Bjarnarhöfn. Þar er skemmtilegt safn og kirkja. Hægt var að smakka og kaupa hákarl og harðfisk. Við fengum mjög fróðlega leiðsögn um þetta allt saman. Þarna eigum við eftir að fara með strákana okkar.

Klukkan þrjú innritaði hópurinn sig inn á hótelið. Þar var samt höfð stutt viðdvöl því ákveðið hafði verið að skoða norska húsið, gallerí og heimsækja sýningu systranna sem var í grunnskólanum. Klukkan átta var sest að snæðingi á hótelinu. Búið var að panta fyrir allan hópinn og flestir fengu það sama. Við vorum tvær sem tókum það fram að við mættum ekki fá, sykur, ger og hveiti. Svo voru aðrir tveir sem ekki gátu borðað skelfiskinn sem var í forrétt og fengu sveppasúpu í staðinn. Það gekk samt ýmislegt á við matarborðið. Við tvær sem erum að passa mataræðið fengum amk 3 forrétti og 2 aðalrétti og þurftum svo að bíða allra lengst eftir desertinum (reyndar var biðin vel þess virði). Við tókum þessu öllu með jafnaðargeði. Það vakti líka almenna kátínu þegar þjónar voru sífellt að færa okkur eitthvað og komu svo jafnharðan aftur; "Nei, nei, þú áttir ekki að fá þetta. Ertu nokkuð byrjuð að borða þetta?" Svo sáum við á eftir diskunum inn í eldhús.

Kristinn las yfir okkur pistilinn að vanda. Annál vetrarins frá áramótum. Hann hitti beint í mark eins og alltaf áður. Við hin veltumst um af hlátri því hann kemst svo skemmtilega að orði og hefur einstaklega góðan húmor, sér alveg ótrúlega spaugilegar hliðar á málunum. Hann var samt ítrekað að reyna að benda okkur á að þetta væri ekkert fyndið en það mátti vel sjá kímnisglampann í augunum á honum.

Eftir matinn fóru allir niður í þorp. Það var ball á Fimm fiskum en við fórum á Narfeyrarstofu. Það voru margir á staðnum og það var alltaf verið að spyrja hvort maður væri innfæddur af fólki sem var ekki sjálft úr hólminum. Kvöldið hélt áfram að vera skemmtilegt, svo skemmtilegt að ég var í hópnum sem fór síðastur heim á hótel.

Á sunnudagsmorguninn voru flestir að borða morgunmat um hálftíu. Við áttum pantað í siglingu um ellefu en okkur leist ekkert á veðrið. Það varð úr að við hættum við sjóferðina en fórum mörg í kirkju í staðinn, sjómannadagsmessu. Eftir að allir voru búnir að skrá sig út af hótelinu fórum við og fengum að skoða kapellu systranna. Þar tókum við eitt lag, Ave Maria í útsetningu Hans Nyberg. Það var ótrúlega hátíðlegt. Mörg okkar stoppuðum svo á Vegamótum og fengum okkur eitthvað að borða.

Við Davíð stoppuðum hjá tvíburahálfsystur minni á heimleiðinni en hún og fjölskyldan voru í bústað ekki langt frá Borgarnesi.

Þetta var semsagt alveg frábær helgi.

12.6.06

- Hópurinn er lagður af stað -

Ég má til með að benda á þessa síðu. Þarna verður hægt að fylgjast með ævintýrum Drengjakórs Reykjavíkur sem lagði af stað til Frakklands með rútu frá Hallgrímskirkju klukkan fimm í morgun.

Svo þarf ég að segja frá nýliðinni helgi en við í "Óþæga kórnum", eins og einhver misheyrði fórum í Stykkishólm eftir göngumessuna á laugardagsmorguninn var. En þetta verður samt að bíða betri tíma því ég á von á matargestum eftir c.a. tvo tíma og það er ýmislegt sem ég vil lagfæra og undirbúa áður.

10.6.06

Gerður frænka mín, og nokkurs konar litla systir líka, á afmæli í dag.

9.6.06


Þessi mynd er tekin í desember 1987. Ég var á leiðinni út á Selfoss að hitta krakkana í útskriftarhópnum mínum og við voru öll hálfgerðir sveitalarfar í dimmiteringunni.
- Dagarnir líða -

Tíminn smýgur frá manni eins og fínn sandur milli fingranna. Það er búið að vera frekar mikið að gera, hef ekki einu sinni getað gluggað í bók sl. tvo daga. Skólaslitin voru í gær. Tvíburarnir voru mættir upp í skóla um tíu. Davíð Steinn og hans bekkur voru að kveðja kennarann sinn og af því tilefni orti strákurinn mjög fallegt ljóð til kennara síns alveg aleinn:
Þú Helena besti kennarinn minn,
þú strýkur svo oft um vangann minn.
Þú í huganum geymist út og inn
og vonandi manst eftir mér um sinn.

Kennarinn hans Odds kennir bekknum áfram næsta vetur. Þeir komu báðir heim með mjög fínan vitnisburð, allt ýmist gott eða mjög gott. Þeir fengu þó eina einkunn í tölum, fyrir sundið. Oddur Smári fékk 7,0 og Davíð Steinn 7,5. Ég þarf ekki að taka það fram að ég er mjög stolt af þeim.

Oddur Smári fór aftur upp í skóla um fjögur til að syngja með skólakórnum við útskrift 10. bekkinga. Það gekk mjög vel. Hann kom heim um sex á svipuðum tíma og afi hans. Ég var búin að taka strákinn til og hann fór strax austur með afa sínum. Hann passaði vel upp á að taka smíðadótið sitt með.

Eldra árið í 6. flokknum átti að leiða fótboltastrákana í Landsbankadeildinni inn á völlinn í gær. Davíð Steinn var ekki stuði til að fara án bróður síns þannig að endirinn varð sá að við fórum ekki einu sinni á leikinn. Við misstum því af bráðskemmtilegum leik en ég fylgdist að nokkru með á fótboltarásinni (rétt fyrst) og á textavarpinu. Horfði á handboltalandsleikinn í staðinn.

Gekk frá nokkrum endum varðandi Frakklandsferð drengjakórsins í dag. Þetta er allt að smella saman enda fer hópurinn af stað eldsnemma á mánudagsmorguninn kemur. Davíð Steinn verður með hópstjóranum sínum um helgina, fer þangað strax í fyrramálið því eftir göngumessu í Óháða söfnuðinum stefnir stór hluti af kórnum og nokkrum mökum vestur í Stykkishólm. Meira um þetta seinna.

Æskuvinkona mín rak inn nefið örstutta stund í kvöld. Strákarnir hennar komu með henni.

Farið vel með ykkur og eigið góða helgi framundan!

6.6.06

- Sjálfbjarga strákar -

Það er nokkuð ljóst að tvíburarnir eru að verða sjálfbjarga með marga hluti. Í allan vetur hafa þeir bjargað sér eftir skóla milli klukkan tvö og rúmlega fjögur. Fengið sér hressingu, lært, leikið og stundum slegist reyndar. Megnið af vetrinum hefur vinur þeirra úr þriðja fjórða bekknum komið með þeim heim og fylgt reglunum sem hér gilda (læra fyrst og leika svo og engir tölvuleikir tvo daga í viku m.a.) Á mótinu um helgina fengu tvíburarnir frímiða í sund. Í gær skutlaði Davíð strákunum í Laugardalslaugina. Strákarnir fóru semsagt bara tveir saman í sund og með aura fyrir strætó heim. Þeim þótti þetta heilmikið sport. Allt gekk eins og í sögu og skiluðu bræður sér heim upp úr hálffimm. Já, ég á duglega drengi!

Svo fór fjölskyldan saman á leik Víkings og Vals 3:1. Hörkuleikur en hefði geta farið öðruvísi ef Valsstrákarnir hefðu nýtt öll færin sín. Þeir fengu amk þrjú dauðafæri og nokkur önnur. En svona er boltinn bara. Víkingum óx ásmeginn eftir því sem leið á leikinn, þeir höfðu meiri sigurvilja og uppskáru eftir því.

5.6.06

- Annar í hvítasunnu -

Í augnablikinu er allt með kyrrum kjörum. Tvíburarnir eru að horfa á morgunsjónvarpið, Davíð sefur og ég sit fyrir framan tölvuskjáinn og hugsa um hvað ég eigi á skrásetja. Það er búið að vera mikið að gera á öllum vígstöðvum. Stöku sinnum hef ég haft lausa stund til að skrifa um það sem er að gerast í kringum mig og mína. En þótt ég hafi lausa stund er ekki þar með sagt að tölvan sé á lausu eða þá ég í skrifstuði. Svo loksins þegar þetta tvennt fer saman er ég alls ekki með það á hreinu hvað standi upp úr.

Í gær voru tvíburarnir að spila á BÓNUS-móti Þróttar. 6. flokkur Vals sendi 4 lið. Yngra árið spilaði fyrir hádegi og þeim gekk glimrandi vel. Annað liðið vann alla sína leiki og var með markatöluna 35:1 í lokin og hitt liðið tapaði aðeins einum leik. Eldra árið spilaði eftir hádegi. Gengi þeirra var ekki alveg eins gott en þeir áttu sína spretti og ég sá miklar framfarir hjá strákunum mínum t.d. Það er helst að þeir þurfi að bæta úthaldið hjá sér og snerpuna.

Á laugardaginn var vorum við mæðginin í Laugardalnum milli klukkan tvö og hálfsjö. Það var fjölskylduhátíð fyrstu tvo tímana og svo mættust efstu liðin í Landsbankadeild kvenna. Valsstelpurnar tóku á mótu stelpunum úr Breiðabliki (4:1). Þetta var sætur sigur því Breiðablik var búið að vinna amk 3 síðustu viðureignir milli liðanna (ef ekki fleiri). Leikurinn var búinn um sex en þá týndist Davíð Steinn, hann fór aðeins á undan, stoppaði til að tala við e-n og var kominn að laugardalslauginni þegar hann áttaði sig á því að hann var að villast. En hann skilaði sér á endanum. Við Oddur Smári vorum búin að leita um keppnissvæðið og einn 6. flokks Valspabbinn (hann á reyndar líka dreng í 7. flokki) leitaði á Þróttarasvæðinu.

Föstudagurinn var var tekinn snemma. Ég var mætt fyrir utan Vífilsstaði klukkan korter yfir sjö, rétt á undan mömmu. Yngsti bróðir hennar kom um hálfátta og þá var Jónas ömmubróðir minn akkúrat tilbúinn í ferðalag. Við mamma fengum líka far með bróður hennar. Leiðin lá norður. Stoppuðum tvisvar á leiðinni og vorum komin á Akureyri um hálfeitt. Við fórum fyrst til einnar frænku minnar. Þar var okkur tekið opnum örmum og boðið upp á hressingu. Þeir sem þurftu að skipta um föt fengu aðstöðu til þess. Athöfnin hófst klukkan hálftvö í Akureyrarkirkju. Mjög falleg og látlaus. Á eftir var farið í kirkjugarðinn og þaðan aftur í safnaðarheimilið þar sem erfidrykkjan var. Veðrið var yndislegt. Ömmubróðir minn stóð sig eins og hetja alla ferðina. Áður en lagt var í hann suður aftur var keyrt um svæðið þar sem hann var ungur maður og einnig hægt framhjá, Moldhaugum þar sem hann ólst upp fyrstu árin. Gamli maðurinn hafði haft orð á því fyrr um daginn að hann hefði ekki haldið að hann ætti ekki eftir að sjá Eyjafjörðinn aftur. Við vorum komin í bæinn aftur upp úr hálftíu. Ég er glöð yfir að hafa komist norður, fylgt frænku minni síðasta spölinn og fengið tækifæri til að votta hennar nánustu aðstandendum samúð mína. Minningin um góða konu mun lifa!

3.6.06

- Minning -

Ömmusystir mín, María, eða Mæja eins og hún var kölluð, er dáin. Þegar ég fékk fréttirnar fannst mér tíminn stöðvast. Óteljandi minningar flugu um kollinn á mér. Það var mjög sterkt og gott bandið á milli mömmu og Mæju og samgangurinn alltaf mjög góður. Ég veit að frænka mín var búin að vera mikið veik síðustu misseri svo það er ósköp gott að hún er búin að fá hvíldina. En innst inni býr óskin um að maður mætti alltaf hafa ástvini sína í kringum sig.