29.2.16

Hlaupársdagur

Klukkan var ellefu mínútur gengin í níu þegar ég byrjaði að synda í Laugardalslauginni í gærmorgun. Synti í uþb hálftíma og fór síðan þrjár ferðir í kalda pottinn, tvær í fjörutíuogtveggja gráðu heita pottinn, einu sinni í sjópottinn (þar lagði ég mig í saltpækil í amk 15 mínútur), nokkrar mínútur í gufuna og fimm mínútna sólbað áður en ég fór uppúr og aftur heim. Kom heim um tíu og hafði þá tæpa þrjá tíma til að sýsla við ýmislegt sem og slaka aðeins á áður en ég mætti í kirkjuna í upphitun fyrir messu.

Eftir messu og smá maul á eftir fór ég beint heim og ákvað að hræra í hálfa uppskrift af vöfflum handa strákunum. Stuttu eftir að vöfflurnar voru tilbúnar dreif í ég að skila af mér þvotthússameigninni með því að skúra niður stigann frá fyrstu hæðinni, ganginn og þvottahúsgólfið. Gott að vera búin að skila af sér, kvittaði fyrir á nýupphengt "þrif á sameign" blað og þarf ekki að hugsa um þetta aftur fyrr en í júní.

Synirnir voru svo frekar ánægðir með mömmu sína sem hafði hrefnusteik í kvöldmatinn.

28.2.16

Á leið í messu á eftir

Í gærmorgun vaknaði ég við vekjaraklukkuna á áttunda tímanum. Ég var ákveðin í að mæta í sund fljótlega eftir að opnaði en var svo sem ekki að flýta mér. Var að byrja sundferðirnar ca tuttugu mínútum fyrir níu og synti ég í uþb hálftíma áður en ég fór að pottormast. Kom heim í stutta stund upp úr hálfellefu eiginlega rétt til þess að ganga frá sunddótinu og ná í esperantobækurnar því ég var mætt á slaginu ellefu til Inger. Stoppaði hjá henni í hátt í tvo tíma. Við vorum pínu lengi að koma okkur í gírinn en við hrukkum samt í gang fyrir rest. Áður en ég fór aftur heim kom ég við í Krónunni úti á Granda. Svo fór ég ekkert meira í gær en ég lánaði bræðrunum lánsbílinn seinni partinn.

Horfði á seinni hálfleikinn í bikarúrslitaleik í handbolta kvenna og sá svo allan karlaleikinn og var svo sannarlega sátt við úrslitin í þeim leik. Nema hvað! Áfram VALUR!

27.2.16

Á árshátíð í gærkvöldi

Ég lánaði bræðrunum lánsbílinn á spilakvöld á fimmtudagskvöldið. Þegar þeir komu aftur heim lagði einkabílstjórinn bílnum fyrir aftan heilsugæsluna. Þess vegna notaði ég tækifærið og byrjaði á því að fara í sund strax klukkan hálfsjö í gærmorgun. Þaðan fór ég beint í vinnuna og var mætt um átta. Fór beint heim eftir vinnu. Slakaði á í um tvær klukkustundir áður en ég klæddi mig upp og dreif mig á árshátíð í kirkju óháða safnaðarins. Þar hjálpaði ég til við að raða upp og leggja á borð. Formaður safnaðarins skipaði séra Pétur sem veislustjóra sem byrjaði allra fyrst á því að biðja "soðsveininn" um að segja frá matseðlinum.

Matseðillinn, svona nokkurn veginn:
Grafin lax með sinnepsósu.
Reyklaxatartar með capers rauðlauk og koriander.
Chevice sjávarréttir,
bleykja í sítrónusmjöri með chyllisultu og graslaukssósu.
Marineruð hrefna með soyja og sesam.
Grafið lamb með sinnepsósu.
Roastbeef með remolaði.
Léttsteiktar andabringur með appelsínusósu.
Waldorfsalat.
Brúnaðar kartöflur.
Ferskt salat.
Brauð og smjör.

Ég smakkaði á næstum því öllu en sleppti þó kartöflunum, brauðinu og smjörinu. Í eftirrétt með kaffinu var afar bragðgóð rjómaterta sem ég fékk mér smá flís af. En það var ekki bara borðaður góður matur það var líka sungið, sann-Kristinn sagði nokkra brandara og sagði aðeins frá starfseminni í kirkjunni eins og hann upplifir hana, Pétur sagði aðeins frá nýjustu pétrísku orðabókinni sem vonandi kemur út sem fyrst og Anna Kristjánsdóttir var forsöngvari í gömlu lagi (Ramóna) sem Stefán Íslandi söng einna fyrstur á íslensku. Til að gera langa sögu stutta var kvöldið vel heppnað og skemmtilegt.

26.2.16

Já, há, einmitt það eða þannig sko!

Skrifin hafa legið niðri ýmsra hluta vegna sem ég mun sennilega ekki tjá mig um á þessum vettvangi. Það kemur líka fleira en eitt til og ég hef ekki krufið það til mergjar hvaða atvik tengjast og hvernig. Þetta er svo sem ekkert alvarlegt en mér finnst frekar leiðinlegt að hugsa of mikið um þetta, hvað þá að reyna að setja þetta niður á blað. Segi bara það koma upp tímabil hjá öllum sem fara mis vel/illa í mann og það er ekkert endilega betra að velta sér of mikið upp úr þessum tímabilum. Sem betur fer eru þessi tímabil hvorki mörg né of löng og sennilega til þess gerð að maður kunni betur að meta og njóta hinna augnablikanna hérumbilnæstumþví alveg í botn. Ég er nú samt ekki að segja að þetta tímabil að þessu sinni hafi varað allan þennan skrifstopptíma. Það gæti reyndar hafa verið byrjað aðeins áður en inn á milli þessa tímabils komu líka dagar þar sem ég var í góðu stuði en alls engu skrifstuði.

Markmið mín með þessum skrifum er aðallega að halda utanum einstök og skemmtileg atvik og atburði og ef ég renni aðeins yfir farin veg þá virðist vera nóg af þeim í kringum mig og það ber að þakka. Vonandi kemst ég aftur í álíka skrifstuð því mér finnst gaman að skrifa og merkilega gaman að lesa yfir skrifin mín. Að þessum orðum skrifuðum ætla ég að drífa mig í háttinn, lesa í smá stund en ekki of lengi því ég ætla í sund strax klukkan átta í fyrramálið.

4.2.16

Daglega í sund

Örstutt um gærdaginn. Vann milli sex og eitt. Fór beint í sund og komst m.a. í kalda pottinn. Fljótlega eftir að ég kom heim kom formaður KÓSÍ kórsins til mín lykli af kirkjunni en þrátt fyrir að það hafi verið blásin af kóræfing vegna anna kórstjóra ákváðum við að hittast í kirkjunni yfir kaffibolla, góðu spjalli og vera "með læti" eða með meðlæti. Ég opnaði kirkjuna upp úr klukkan fimm en alls mættum við ekki nema fimm en stoppuðum flest í tæpa þrjá tíma. Gengum frá eftir okkur og læstum. Ég var komin heim um átta og þar hafði Davíð Steinn tekið sig til og eldað úr hráefninu sem ég tók út úr frysti um morguninn. Var eiginlega frekar södd eftir kórhittinginn en varð að smakka og sá alls ekki eftir því. Horfði á Kiljuna og var svo komin í draumaheima löngu fyrir klukkan ellefu.

3.2.16

Nokkrar línur um gærdaginn

Ég var mætt í vinnuna rétt fyrir klukkan sex í gærmorgun. Morguninn til hádegis leið frekar hratt. Ég átti seinni matartímann og gat hagað því þannig að ég fékk mér að borða nestið sem ég var með og dreif mig svo beint í sund. Ég var að byrja að synda rétt um eitt. Uppgötvaði svo þegar ég var búin að fara í sjópottinn og gufuna eftir þriggja kortera sundsprett að það var búið að láta renna aftur í kalda pottinn. Ég skrapp því í smá sturtu og svo eina ferð í ca tvær mínutur í þann kalda áður en ég fór upp úr og heim. Stakk í þvottavél, hringdi í pabba og lagði mig svo í ca hálftíma. Ryksugaði þvottahúsið en minn mánuður í sameignarþrifum hófst um leið og þessi mánuður byrjaði. Íbúi þeirrar íbðúðar sem átti að sjá um sameignina í janúar hefur ekki verið mikið heima þannig að ég ákvað að taka "létt" þrif og geri þetta svo betur og þá kannski í samvinnu við synina rétt áður en við eigum að skila af okkur um næstu mánðamót. Lilja kom og sótti megnið af dótinu sínu. Hún hafði fengið far til mín og ég lánaði henni svo "einkabílstjórann" til að skutla henni með dótið. Hafði varla orku í að horfa á Castle, gerði þó heiðarlega tilraun en játaði mig sigraða upp úr hálftíu og var háttuð upp í rúm stuttu síðar.

2.2.16

Annar, annar, sextán

Þessa vikuna er ég opinberlega á morgunvakt en í gærmorgun skipti ég við eina sem ég veit að vildi geta notað tímann eftir klukkan eitt fyrir annað en vinnuna. Sjálf byrjaði ég á því að drífa mig í sund og var að koma að um það leyti sem var verið að opna, um hálfsjö. Kaldi potturinn var lokaður og tómur svo ég synti  mest allan tímann en skrapp svo aðeins í sjópottinn áður en ég fór upp úr og í vinnuna. Vinnudagurinn leið frekar hratt en þar sem ég vann frá sjö til fjögur sl. föstudag bað ég um að fá að hætta klukkan þrjú.

Skrapp i Krónuna við Nóatún, náði í flík hjá Saumnálinni og skilaði tveimur bókum á Kringlusafnið áður en ég fór heim. Og nota bene, ég tók enga bók heim með mér. Hér heima er ég enn með þrjár af safninu, tvær úr kiljuklúbbnum og jólagjöfina ólesnar. Byrjaði reyndar á einni safnabókinni í gær; Ævi alþýðustúlku á fyrri hluta 20. aldar skráð af Pálma Ingólfssyni eftir minninum móður sinnar, Málfríði Huldu Gunnarsdóttur um ævi hennar frá fæðingu til 1948. Skemmtileg og fróðleg lesning og er textinn mjög lifandi, þ.e. maður sér allt svo vel fyrir sér eftir lýsingunum.

Lánaði strákunum lánsbílinn á spilakvöld. Útbjó mér smá snarl en eyddi svo kvöldinu með saumana mína framan við imbann, alveg til klukkan tíu.

1.2.16

Nýr mánuður

Á föstudagskvöldið tók ég á móti pakka sem sendur hafði verið frá Akureyri (systir mín og mágur) deginum áður. Um var að ræða fartölvu sem þau eru ekki lengur að nota en er þótt "gömul" sé miklu öflugri heldur en sú sem ég er búin að hafa afnot af sl þrjú ár. Þar sem bræður voru ekki heima sá ég enga ástæðu til að opna pakkann fyrr en um helgina. Davíð Steinn færði fyrir allt mikilvægt af hinni tölvunni og Oddur Smári tengdi fyrir mig netið. Þeir hefðu örugglega báðir getað gert þetta alls saman í einu en svona þróuðust hlutirnir.

Fór í morgunsund á níunda tímanum á laugardaginn. Kom við heima í um klukkustund áður en ég skrapp yfir í esperantohitting til hennar Inger. Fljótlega eftir að ég kom heim aftur dró ég fram ryksuguna og um þrjúleytið "henti" ég í hálfa uppskrift af heilhveitivöfflum. Oddur Smári var vaknaður en um hálffjögur ákvað ég að vekja Davíð Stein. Í ljós kom að "dáið" hafði á símanum hans um nóttina og hann ætlaði að sofa þar til vekjarinn sem var stilltur á hálfellefu fh, hringdi. Lánaði svo bræðrunum gjafakortið sem ég fékk m.a. í jólagjöf frá vinnunni minni og bauð þeim einnig afnot af lánsbílnum til að skreppa saman út að borða. Sjálf var ég sótt af vinkonu um fimm. Við enduðum á Nings þar sem við gátum gefið okkur mjög góðan tíma til að borða og spjalla. Ég splæsti á mig einu hvítvínsglasi. Næst lá leið okkar vinkvennanna í Borgarleikhúsið þar sem við áttum miða á sýninguna, Kenneth Máni. Þvílík snilldarsýning sem kitlaði hláturtaugarnar ansi mikið á köflum. Eftir sýninguna vorum við ekki tilbúnar að hætta útstáelsinu og við enduðum á Café París þar sem ég fékk mér annað hvítvínsglas og skál af hnetum en Brynja fékk sér kaffi og heita eplakökusneið með rjóma. Einnig fengum við vatnsflösku og tvö glös á borðið. Tíminn flaug enda höfðum við um margt að spjalla. Ég var komin heim og að fara í háttinn upp úr klukkan eitt.

Þrátt fyrir djammið fram yfir miðnætti var ég vöknuð upp úr klukkan sjö. Hafði ekki stillt neina vekjaraklukku á mig en ég var það vel vöknuð að ég dreif mig í sund fljótlega eftir að laugin opnaði. Það munaði engu að ég drifi mig svo af stað í heimsókn til foreldranna upp úr hádegi en það endaði með því að ég sló þá ferð af. Ákvað að sinna ýmsu hér heima, ma að kynnast "nýju" tölvunni. Horfði á síðustu handboltaleikina á EM, leikinn um 3. sætið og leikinn um gullið. Skrapp að kíkja á Lilju og íbúðina sem hún er nýbyrjuð að leigja. Stoppaði ekki mjög lengi því ég var ákveðin í að horfa á Ófærð en fara svo tiltölulega snemma í háttinn.