Klukkan var ellefu mínútur gengin í níu þegar ég byrjaði að synda í Laugardalslauginni í gærmorgun. Synti í uþb hálftíma og fór síðan þrjár ferðir í kalda pottinn, tvær í fjörutíuogtveggja gráðu heita pottinn, einu sinni í sjópottinn (þar lagði ég mig í saltpækil í amk 15 mínútur), nokkrar mínútur í gufuna og fimm mínútna sólbað áður en ég fór uppúr og aftur heim. Kom heim um tíu og hafði þá tæpa þrjá tíma til að sýsla við ýmislegt sem og slaka aðeins á áður en ég mætti í kirkjuna í upphitun fyrir messu.
Eftir messu og smá maul á eftir fór ég beint heim og ákvað að hræra í hálfa uppskrift af vöfflum handa strákunum. Stuttu eftir að vöfflurnar voru tilbúnar dreif í ég að skila af mér þvotthússameigninni með því að skúra niður stigann frá fyrstu hæðinni, ganginn og þvottahúsgólfið. Gott að vera búin að skila af sér, kvittaði fyrir á nýupphengt "þrif á sameign" blað og þarf ekki að hugsa um þetta aftur fyrr en í júní.
Synirnir voru svo frekar ánægðir með mömmu sína sem hafði hrefnusteik í kvöldmatinn.