31.12.18

Gamlársdagur

Enn lifa rúmlega átta og hálfur tími eftir af þessu herrans ári 2018. Undirrituð er komin austur á Hellu þar sem hún ætlar að eyða áramótunum með pabba sínum. Heill mánuður síðan eitthvað var skráð niður á þessum vettvangi og á þessum mánuði hefur ýmislegt verið brallað.

Skrapp nokkrar ferðir hingað en sleppti helginni sem aðventukvöldið var sem og helginni rétt fyrir jól. Hins vegar kíkti ég við í dagsferð þann 15. desember en var komin heim aftur um kvöldið því bæði vildi ég  komast í sund á sunnudagsmorgninum og um fimm leytið þann dag sótti Brynja mig og við fengum okkur að borða á Nings áður en við fórum að sjá "Kvenfólk" með Hundi í óskilum í Borgarleikhúsinu. Afar skemmtleg uppsetning og þar að auki hitti ég þó nokkra fyrir og eftir sýningu sem annað hvort voru á sömu sýningu eða á Ellý.

Akkúrat viku eftir leikhúsferðina sótti Brynja mig aftur um klukkan hálfsex á Þorláksmessu og þá lá leiðin á Pottinn og Pönnuna í skötuhlaðborð þriðja árið í röð. Gáfum okkur góða tvo tíma í át og spjall áður en Brynja skilaði mér aftur heim.

Á aðfangadagsmorgun byrjaði ég á því að skreppa í sund rétt upp úr klukkan átta. Synir mínir vöknuðu upp úr tólf og ekkert mjög löngu síðar vorum við búin að ferma bílinn. Einkabílstjórinn sá um aksturinn og við gerðum stutt stopp í Fossheiðinni, fengum kaffi, knús og með því þar.

Jólin héldum við á Hellu með pabba og Helgu systur og hluta af hennar fjölskyldu. Aðeins kærustuparið var ekki, þar sem þau voru hér í fyrra voru þau hjá mömmu hans og fjölskyldu í ár.

Á annan í jólum skruppum við pabbi í messu í Keldnakirkju um tvö. Kvöddum norðanfólkið áður en tvíburarnir biðu eftir okkur á Hellu. Við mæðgin fengum okkur kaffi áður en við kvöddum og héldum heim á leið.