31.10.17

Síminn gleymdist heima í dag

Ég uppgötvaði það er ég var komin í Laugardalinn um hálfsjö í morgun að ég hafði gleymt að hengja á mig símann. Ákvað því að vera símalaus í vinnunni í dag. Dreif mig í sundið og kalda pottinn og var mætt í vinnuna rétt rúmlega klukkutíma síðar. Vinnudegi lauk aðeins í fyrra fallinu og þar sem ég var á bílnum ákvað ég að koma við í Krónunni við Granda og versla inn. Kom heim um fjögur. Oddur Smári hjálpaði mér að ganga frá vörunum en ég notaði fyrst tækifærið og hreinsaði út alla ísingu í frystihólfinu. Það lítur annars út fyrir að ég fái ekkert að nýta strætókortið í þessari viku. N1 strákurinn var settur á smá námskeið í gær og í dag, á vaktir á morgun og hinn og er búinn að lofa að taka að sér aukavakt á föstudaginn.

30.10.17

Rétt rúmir tveir mánuðir eftir af árinu

Ég er að vinna í að koma mér aftur af stað á þessum vettvangi. Margt er búið að gerast í þessari skrifpásu. Nokkur sjöl hafa verið prjónuð, langt og gott sumarfrí tekið og ma ferðast innan lands, byrjuð að stunda sjóinn nokkuð reglulega, lesið og gert fullt af fleiri hlutum.

Ég skrapp til augnlæknis um daginn og hafði þá ekki látið mæla sjónina í rúm þrjú ár. Var síðast mæld með -2 á báðum og hafði verið með þá sjón nokkuð lengi. Nú brá svo við að nærsýnin hefur minnkað talsvert, vel innan við -1. Smá sjónskekkja á öðru auganu en augnlæknirinn sagði að ég þyrfti ekki að leysa út þannig gleraugu. Ég keypti mér  tvenn gleraugu í Tiger í haust, -1, sem ég nota aðeins akstur og stundum til að horfa á sjónvarpið. Aðeins er byrjað að votta fyrir fjarsýni en svo lítið að ég þarf ekki að spá í það ennþá. Heppin hún ég. Lofa annars engu um hversu reglulega ég hamra inn einhvern pistil/texta en vonandi kemst einhver regla á þessi skrif.