31.1.17

Sá síðasti í þessum mánuði

Ósköp líður tíminn eitthvað hratt. Hef ég kannski skrifað þetta áður? Já, alveg örugglega svo ég svari mér nú sjálf og tíminn líður ekkert hægar við að skrifa um hann. Þessa vikuna er ég á morgunvöktum frá klukkan sex til eitt en í gær skipti ég við aðra seinni parts vaktina þar sem hún hafði hug á því að vera laus eftir hádegi. Vinnutíminn í gær var því frá 12 til sex. Byrjaði á því að skreppa í sund upp úr klukkan hálfsjö, ekki alveg á hurðarhúninum en byrjuð að synda tíu mínútum fyrir. Kaldi potturinn var lokaður og tómur og mér skilst að reglan sé sú að ef frostið er 4 gráður eða meira þá er hann lokaður. Synti í um hálftíma áður en ég fór að pottormast. Var komin heim um hálfníu.

Kúbufarinn átti sína fyrstu vakt í gær eftir ferðalagið svo hann fékk rauða kortið til afnota. Ég skrapp í Sunnubúð um hálfeitt til að skipta einum seðli til að geta greitt nákvæmlega 420 kr. fargjald í strætó. Það vannst nokkuð vel í gær milli tólf og sex með tveimur pásum og svo bauð mótvaktin mín mér far heim sem ég þáði. Slapp létt með kvöldmatinn, hafði hluta af afgangi af kjötsúpu frá því kvöldið áður.

Í síðustu viku fékk ég áminningu frá Kringlusafninu um að skiladagur væri að nálgast á tíu bækur sem ég var með í útláni. Sex af þeim bókum hafði ég þegar framlengt einu sinni og mátti ekki endurnýja aftur. Það kom ekki að sök var búin að lesa allar þessar sex nema eina og þar að auki þessar fjórar sem komu heim með mér úr síðustu bókasafnsferð. Ég var ekkert að bíða fram á síðasta dag með að skila heldur dreif mig á safnið tveim dögum áður en lokadagurinn rann upp eða þann 25. sl.Skilaði öllum 10 bókunum og þrátt fyrir að eiga tvær af jólabókunum eftir ólesnar heima kom ég með fimm með mér, þar af eina sem er ný og aðeins með tveggja vikna skilafrest; Víghólar eftir Emil Hjörvar Petersen. Afar spennandi bók upp á 434 blaðsíður. Þetta er svona fantasía og átti ég ekki í miklum erfiðleikum með að lifa mig inn í atburðarrásina. Bók þessa lauk ég loksins við að lesa í gærkvöldi, hátt í viku frá því hún kom heim með mér.

30.1.17

Nokkrir dagar

Vika liðin frá síðustu skrásetningu. Þessir dagar hafa liðið hratt en verið misgóðir. Hvað mig sjálfa varðar er ég ágætum gýr. Eftir vinnu á miðvikudaginn kom ég fyrst heim um hálfþrjú, ákveðin í að drífa mig fljótlega í sund. Fékk mér hressingu og prófaði að hringja í heimasíma foreldra minna. Þegar ekki var svarað reyndi ég að ná í mömmu í gemsann, það var heldur ekki svarað. Ég vissi að þau höfðu verið í bænum um morguninn að láta líta á brotið. Náði loks í pabba í gemsann hans og fékk miður góðar fréttir af mömmu. Brotið hafðist reyndar vel við, saumar voru teknir og talað um að taka gipsið alveg af eftir rétt rúman hálfan mánuð. Þrátt fyrir að mamma væri frekar þreytt vildi hún endilega koma við í Krónunni á Selfossi og versla. Þegar þau voru alveg að komast á kassa urðu þau að hætta við, ná þurfti í hjólastól handa mömmu sem var alveg að leka niður og keyrði pabbi hana að sjúkrahúsinu á Selfossi. Þar varð hann að hringja í 112 en fljótlega kom fagfólk og fór að huga að mömmu. Blóðþrýstingurinn var hættulega lár og ákveðið var að senda hana með sjúkrabíl á bráðamóttökuna í Fossvogi. Pabbi var að leggja fyrir utan heimili þeirra á Hellu, þegar ég náði í hann, til að ná í nauðsynjar fyrir nokkra daga áður en hann kæmi í bæinn aftur. Eftir smá spjall við pabba ákvað ég að drífa mig í sund. Oddur var akkúrat að verða búinn í skólanum þegar ég var búin í sundi og þar sem veðrið var frekar leiðinlegt ákvað ég að sækja hann í leiðinni. Pabbi kom um hálfsjö, beint af bráðamóttökunni og gisti hjá okkur næstu tvær næturnar.

Kúbufarinn skilaði sér heim að dyrum um miðjan dag á fimmtudag. Ég var komin heim úr vinnu og hann náði að hitta aðeins á afa sinn áður en sá síðarnefndi fór í seinni heimsókn dagsins til mömmu sem enn var á bráðadeildinni. Mamma var á bráðadeildinni fram á föstudagskvöld en þá var hún send með sjúkrabíl á Selfoss. Pabbi fór austur á Hellu um svipað leyti. Ég skrapp á fund í Lífsspekifélaginu þar sem fjallað var um texta Bob Dylans sem vísa í Jobs-bók í Gamla testamentinu. Skráði mig sem almennan félaga eftir fyrirlesturinn og skrapp í smá kaffi upp á efri hæð eða þar til kominn var tími til að ná í næsta strætó.

Á laugardaginn fór ég í sund strax klukkan átta um morguninn, náði nokkrum mínútum heima áður en ég skrapp yfir til norsku esperanto vinkonu minnar. Eftir þann hitting kom ég við í Krónunni við Granda. Bræðurnir voru á leið í þorraveislu til föðurforeldranna seinni part þessa dags og ég ákvað að lána þeim lánsbílinn og nota ferðina. Komum í heimsókn til mömmu klukkan fjögur og rétt fyrir fimm skyldu bræðurnir mig eftir að minni ósk. Rétt fyrir sex hringdi ég í frænda minn og konu hans sem eru nýlega flutt á Selfoss. Þau buðust til að sækja mig til sín þegar og ef ég vildi og þáði ég það um hálftíma síðar og var hjá þeim í góðu yfirlæti þar til strákarnir komu að sækja mig um ellefu leytið um kvöldið. Þeir komu inn í stutta stund en við vorum komin heim ekkert löngu eftir miðnætti.

24.1.17

Heyrði tvisvar sinnum í Kúbufaranum í dag

Vinnuvikan mín þessa vikuna er 7-14. Ég tók fyrsta vagn í gærmorgun, 7:44 við Sunnubúðina. Var í "móttökunni" og sendingum þar til fleiri mættu á vaktina en í bókhaldinu að mestu eftir það. Kom heim um hálfþrjú og um það leiti ákvað Oddur Smári að hella upp á könnuna. Næstu klukkutímana horfði ég á "Fanga" og "Svikamyllu" frá því kvöldið.

Þar sem ég skipti við aðra seinni parts vaktina í dag svo hún þyrfti ekki að sleppa hlaupaæfingu byrjaði ég daginn á því að skreppa í sund. Var komin ofan í Laugardalslaugina rétt rúmu korteri eftir að opnaði og byrjuð að synda. Synti 500m áður en ég fór fyrstu ferðina af þremur í kalda pottinn.

Kom heim um hálníu og bjó mér til hafragraut. Var ný sest niður að gæða mér á grautnum þegar Davíð Steinn hringdi, nýlega lentu í Amsterdam. Þá var ég ekki búin að heyra í honum í allan þann tíma sem hann var á Kúbu með þremur vinum sínum eða  heilar tvær vikur. Hann hringdi svo aftur þegar þeir félagar voru komnir til ömmu annars vinarins sem er þýsk og býr í Berlín. Þar verða þeir næstu tvær nætur áður en þeir koma heim.

23.1.17

Óbærilega sorglegt og óskiljanlegt

Ætla ekki að tjá mig meira um þetta mál, einfaldlega vegna þess að mig skortir orð. Mun frekar kveikja á kertum daglega og senda frá mér hlýjar hugsanir og bænir. Gott væri ef hægt væri að faðma alla þá sem um sárt eiga að binda. Það er ekki hægt því ég þekki ekki alla en ég trúi því að bænir og kærleiksríkar hugsanir svífi út í kosmosið og geri eitthvað gagn.

Annars ætla ég aðeins að impra á því helsta sem ég hef verið að sýsla undanfarna daga. Eftir fjóra sundmorgna í röð, skrópaði ég í sund á föstudagsmorguninn. Notaði morguninn í annað. Hafði verslað inn morguninn áður, m.a. ósoðna lifrarpylsu og blóðmör og ég setti upp einn af hvorum kepp og borðaði af því í hádeginu áður en ég þurfti að fara í vinnu. Eftir vinnu rölti ég yfir í hinn endann á Ingólfsstræti til að hlusta á fyrirlestur Björns Bjarnasonar um Qi Gong hjá Lífspekifélaginu. Hitti norsku vinkonu mína á þeim fyrirlestri og hún sagðist hafa séð mynd af mér og sameiginlegri vinkonu á vegg félagsins, frá því á fyrirlestrinum 13. janúar sl. Var komin heim um tíu og eftir smá umhugsun kveikti ég á imbanum sem varð til þess að ég festist fyrir framan skjáinn fram yfir miðnætti.

Var mætt í laugardalinn rétt upp úr átta á laugardagsmorguninn. Gaf mér góðan tíma í rútínuna mína. Skrapp heim eftir sundið, gekk frá sunddótinu og tók mig til fyrir helgardvöl hjá foreldrum mínum. Vakti þann strákinn sem er heima til þess eins að kveðja hann áður en ég skrapp í fyrsta esperantohittinginn á nýju ári. Strax eftir þann hitting lagði ég af stað austur, beinustu leið á Hellu.

Helgin var mjög fljót að líða. Ég byrjaði m.a. á bókinni sem Davíð Steinn gaf mér í jólagjöf, Ljósin á Dettifossi, og er að verða hálfnuð með hana. Ég spjallaði líka heilmikið við pabba og aðeins við mömmu. Hún er frekar þreytt þessa dagana og sefur mikið. Ég hjálpaði henni að þvo sér um hárið í gær en hún vildi ekki fara í sturtu, sagði að pabbi myndi hjálpa henni við það síðar. Ég skrapp líka aðeins á elliheimilið og heimsótti fyrrum nágranna foreldra minna en þau verða 90 og 97 á árinu. Áður en ég lagði af stað í bæinn í gærkvöldi var mér boðið upp á smá þorramat í tilefni þess að þorrinn gekk í garð sl. föstudag.

19.1.17

Hugsi

Í gærmorgun synti ég í tæpan hálftíma og fór tvisvar sinnum rúmlega tvær mínútur í kalda pottinn með viðkomu í 42° pottinum, í sjópottinn eftir seinni ferðina, smá gufubað og örstutt "sólbað". Heima hellti ég upp á kaffi, bjó til hafragraut og harðsauð egg. Svo var morguninn notaður í ýmislegt. Rétt upp úr klukkan eitt fór ég gangandi á leitarstöðina þar sem ég átti tíma í tvöfalda skoðun um hálftvö. Var mætt tíu mínútum fyrr og komst strax að. Skoðanirnar gengu fljótt og vel fyrir sig en ég hálf skammast mín hversu langt er síðan ég fór í myndatöku. Ég vissi að það væru liðin meira en tvö ár en þegar ég spurði hvenær ég kom síðast í brjóstamyndatöku þá var svarið, 2012. Tíminn og árin eru fljót að líða en að skuli vera um fimm ár síðan ég fór síðast það er alltof langur tími.

Var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan tvö, heldur fyrr en ég bjóst sjálf við. Vinnudagurinn til klukkan sjö leið afar hratt. Annars er hugurinn stöðugt hjá aðstandendum stúlkunnar sem hvarf um síðustu helgi. Hún verður að finnast.

18.1.17

Kaldi potturinn opinn

Mikið varð ég glöð að sjá að búið var að fylla kalda pottinn aftur og opna fyrir "umferð" í gærmorgun. Var svo spennt að ég rétt dýfði mér í laugina, synti aðeins 300m áður en ég stakk mér í kalda pottinn í rúmar tvær. En það var eina ferðin í þann kalda. Fór úr honum í sjópottinn og endaði smá stund í gufunni. Ekkert "sólbað" í gær en ég fór mér extra hægt þennan spöl sem er á milli gufuklefans og inn að búningsklefa.

Þegar heim kom hitaði ég mér hafragraut og bjó til kaffi. Kveikti á tölvunni og fór að undirbúa tilkynningar/fréttir um næstu messu í moggann, á vegginn og heimahöfnina. Við þá vinnu sá ég að ég á enn eftir að laga smávegis til eftir innrásina á heimasíðuna. Hvað þetta er lúmst og liggur víða.  :-(

Hringdi aðeins í dönsku vinkonu mína sem "kenndi" mér á kalda pottinn til að leita frétta. Af henni var allt gott að frétta en hún er ekkert á leiðinni í sund og potta alveg á næstunni. Svo náði ég sambandi við aðra vinkonu á Facebook spjallinu. Hún hringdi í mig til baka og þegar hún vissi að ég væri ekki að fara að vinna fyrr en klukkan eitt bað hún mig um að hitta sig aðeins áður. Ég var meira en til í að stökkva af stað. Þurfti reyndar að hengja upp úr þvottavélinni fyrst sem varð til þess að ég rétt missti af 13 sem er á hálftíma fresti á þessum tíma. Skundaði því að strætóskýlinu rétt við gönguljósin yfir Miklubraut og náði þar strax í ásinn. Hitti einn vinnufélaga í þeim vagni. Við vinkonan hittumst á Lækjartorgi og ákváðum að setjast inn á Kryddlegin hjörtu og fá okkur súpu og sallat. Þar skilaði ég inn útstimpluðu korti, fékk fría máltíð og nýtt stimpilkort.

Var mætt í vinnuna korter fyrir eitt og gaf mér tíma til að byrja á því að fylla á vatnsbrúsann og fá mér kaffisopa. Betur gekk í vinnunni í gær heldur en daginn áður þótt það væri smá vesen í gangi til að byrja með og svo aftur síðasta hálftímann, milli hálfsjö og sjö. Mótvaktin mín bauð mér far heim sem ég þáði og var þá komin á góðum tíma fyrir landsleikinn.

17.1.17

Janúar rúmlega hálfnaður

Það tók mig smá stund að koma mér af stað í sundið í gærmorgun. Klukkan var alveg að verða sjö þegar ég byrjaði að synda. Synti 500 metra og þar sem kaldi potturinn var ennþá lokaður og tómur fór ég í sjópottinn eftir sundið. Ég var komin heim aftur um hálfníu og nýtti morguninn í alls konar. Tók strætó í vinnuna korter fyrir eitt. Vinnudagurinn var öðruvísi en margir aðrir en það teygðist örlítið úr honum í hinn endann, samt ekki nema svona korter. Mótvaktin mín bauð mér far heim sem ég þáði og kvöldið notaði ég í að horfa á leik Dana og Svía á HM í handbolta og þáttinn "miðnætursól".

16.1.17

Helgin var ekki lengi að líða

Ég byrjaði að sjálfsögðu á því að skreppa í sund á laugardagsmorguninn. Þegar heim kom kveikti ég örstutt á tölvunni til að skoða vefmyndavélar á sandskeiðinu og  alveg fram að kambabrún. Mér sýndist þetta vera í þokkalegu lagi með veður og færð og ákvað að drífa mig af stað sem fyrst. Ferðalagið gekk vel en þegar ég var komin á Selfoss var hlandblaðran farin í kvarta svo ég ákvað að banka upp á hjá "tvíburahálfforeldrum" mínum. Þar var mér tekið opnum örmum eins og alltaf þrátt fyrir að hafa ekki gert nein sérstök boð á undan mér. Mundi eftir því að ég hafði ætlað að láta pabba vita þegar ég legði í hann og hringdi í hann til að segja honum að ég væri lögð af stað og að ég hefði gert smá stopp á leiðinni.

Kom á Hellu áður en HM-hanboltalandsleikurinn hófst og horfðum við feðginin bæði á leikinn. Ég efast um að pabbi hefði kveikt á sjónvarpinu ef ég hefði ekki verið. Ég var ákveðin í að gista og var með ýmsa afþreygingu með mér, bækur, handavinnu, sudoku og krossgátur. Einnig tók ég með mér hvítvínskassann sem ég á enn síðan ég kom heim frá Spáni sl. sumar. Það er ekki svo langt síðan ég "opnaði" kassann og mér gengur hægt með innihaldið þrátt fyrir smá hjálp stöku sinnum. Pabbi var með siginn fisk í kvöldmatinn ég fékk mér eitt glas með matnum. Vel að merkja, það er frekar langt síðan ég borðaði siginn fisk síðast því ég er ekki dugleg að hafa svoleiðis í matinn þótt mér finnist hann góður.

Í gærmorgun, stuttu fyrir hádegi, skrapp ég labbandi í heimsókn til föðursystur minnar. Allur snjór og hálka hafði vikið fyrir  rigningunni. Smá hraðferð var á logninu en þetta er ekki það langt að þetta var bara hressandi að labba þenna spöl. Þegar ég kom til baka gekk ég loksins frá endunum á sjalinu sem ég fitjaði upp á sl. haust og á nú bara eftir að skola úr því. Horfði einnig á leikinn sem var í gær og eftir kaffið bað mamma mig um að hjálpa sér við að þvo á sér hárið. Að því loknu vildi hún horfa með mér á myndina sem ég gaf þeim í jólagjöf "Maður sem heitir Ove".  Pabbi horfði með okkur allan tímann. Var annars dugleg að lesa og ráða gátur en ég tók ekki fram saumana mína. Það er ekki hægt að gera alveg allt en það er orðið óþægilega langt síðan ég greip í útsaumsnál síðast og það er ekki við nálina en óunnu verkefnin að sakast. Borðuðum reykt folaldakjöt áður en kvöldfréttir byrjuðu og ég kvaddi foreldra mína áður en klukkan var búin að slá sjö. Kom við á Atlantsolíustöðinni í Öskjuhlíð en var komin inn hér heima ca.korter gengin í níu. Hlammaði mér fyrir framan imbann og sat þar og glápti alltof lengi.

13.1.17

Mjög stutt í helgina

Var mætt í Laugardalinn fljótlega eftir að laugin opnaði í gær. Kaldi potturinn var því miður lokaður og alveg galtómur en ég synti 500 metra, svamlaði um í sjópottinum í dágóða stunda á eftir, skrapp aðeins í gufuna og settist í örstutt "sólbað" á eftir áður en ég fór upp út og heim aftur. Heima hellti ég mér upp á smá kaffi. Útbjó viðburð v/næstu messu í óháðu kirkjunni til að auglýsa Blússveit Þollýjar sem mun sjá um tónlistina í tregatrúartónlistarmessunni annan sunnudag.

Tók strætó í vinnuna og var mætt rétt fyrir tólf. Nóg var að gera eins og alltaf enda leið dagurinn frekar fljótt. Mótvaktin mín bauð mér far með sér upp að Hallgrímskirkju en við vorum  sjö að hittast á veitingastaðnum ROK og fá okkur að borða saman. Mæli með þessum stað, vinalegur, spennandi smáréttir og góð þjónusta.

Móðir eins af Kúbuförunum var búin að frétta af strákunum og lét mig vita. Það voru bara góðar fréttir að sjálfsögðu. Við treystum þessu ungu mönnum fullkomlega en það er samt gott að fá fréttir við og við.

12.1.17

Fimmtudagur

Vinnutíminn í gær var frá 6-13 svo ég fór á lánsbílnum. Þessar sjö klukkustundir liðu ógnarhratt enda nóg að gera. Þegar ég kom heim var pabbi nýbúinn að heyra í mömmu en hún hafði verið kölluð inn um hálfátta, þ.e. hringt í hana þá, og var fyrst á aðgerðalistanum. Aðgerðin tók þrjá tíma og mamma lét pabba vita upp úr hádeginu að hún þyrfti að jafna sig í nokkrar klukkustundir. Klukkan var orðin hálffjögur þegar hún hringdi aftur.

Fljótlega eftir að pabbi kvaddi hringdi ein úr safnaðarstjórninni og bauð mér far á fyrsta fundinn á árinu sem var haldinn heima hjá formanninum. Ég þáði farið með þökkum og við vorum mættar á slaginu fimm. Nóg efni var á fundardagskránni og þar að auki bauð formaðurinn okkur í mat þannig að klukkan var langt gengin í níu þegar ég kom heim aftur.

11.1.17

Var á "skiptivakt" í dag

Það klikkaði ekkert í gær, var komin á fætur um sex og mætti í laugardalslaugina upp úr klukkan hálfsjö. Sinnti rútínunni nokkuð vel. Hitti loksins eina pottormsvinkonu mína, ekki þó kaldapottsvinkonu, en hún hafði verið með kvef og ekki geta mætt í nokkra daga. Á heimleiðinni kom ég við í Hagkaup í Skeifunni til að grípa eitthvað með mér til að halda upp á 17 ára starfsafmæli í kortadeild RB. Hitti einn einn frænda minn í þeirri búðarferð. Fljótlega eftir að ég kom heim hringdi pabbi og spurði hvar ég væri. Þau mamma voru komin í bæinn og hún kominn inn á spítalann í Fossvogi til að fara í aðra aðgerð á úlnliðnum. Aðgerðin sú var sett seinna um daginn.

Ég tók strætó korter fyrir tólf og á Hlemmi kom norska esperanto vinkona mín inn í vagninn og hún sat hjá mér þar til ég fór úr við Hörpuna. Þegar ég kom í vinnuna mátti ég byrja á að undirbúa "afmælisveisluna" og vinnufélagar mínir af deildinni settust niður með mér um hálfeitt.

Kom fyrr heim úr vinnu heldur en kvöldið áður enda hafði ég passað upp á að hætta á réttum tíma. Pabbi sagði að aðgerðinni á mömmu hefði seinkað. Hafði bleikju í matinn eftir kvöldfréttir og pabbi hafði á orði að hann ætlaði ekki að hringja og athuga með mömmu fyrr en um níu. Mamma var búin að hringja á undan í pabba og biðja hann um að sækja sig. Fresta þurfti aðgerðinni til morguns vegna stórra óhappa. Mamma fékk því að lúra í rúminu hans Davíðs Steins í nótt.

10.1.17

Engin sundferð í gær

Hafði stillt vekjaraklukkuna á 02:15 í fyrrinótt til að geta skutlað tveimur af þremur Kúbuförum á BSÍ. Ég vaknaði reyndar af sjálfsdáðum um tvö og dreif mig á fætur þótt ég ætlaði ekkert að fá mér og við þyrftum ekki að leggja í hann fyrr en upp úr hálfþrjú. Davíð Steinn var kominn á stjá og góðum tuttugu mínútum síðar kom vinurinn, en hann býr e-s staðar í Hamrahlíðinni. Þeir félagar höfðu pakkað ferðafötum og dótií eina tösku á laugardagskvöldið og hún var hér. Tuttugu mínútum fyrir þrjú lagði ég fyrir utan BSÍ, drap á lánsbílnum og labbaði inn með strákunum til þess að geta faðmað þá bless og beðið þá um að passa vel upp á hvern annan og meinti þá alla þrjá en þriðji Kúbufarinn var þegar kominn til Þýskalands þangað sem fyrra flugstopp hinna tveggja var. Flugið til Kúbu var svo í nótt sem leið.

Var komin heim aftur rétt fyrir þrjú og fór ég beint í rúmið aftur. Það tók mig rúma klukkustund að ná mér niður þannig að þegar klukkan hringdi um sex ákvað ég að slökkva á vekjaranum og snúa mér á hina hliðina, sleppa sundferð semsagt. Var mætt í vinnu rétt fyrir tólf og við tóku rétt rúmlega sex annasamir en afar árangursríkir framleiðsluklukkutímar. Þegar við mótvaktin mín vorum búnar að ganga frá deildinni eins og við viljum koma að henni að morgni ákvað ég að vera um klukkustund lengur til að halda áfram hinum árlegu talningum sem var farið að sjást fyrir endann á. Náði þó ekki að klára.

Rétt missti af 13 sem var byrjaður að ganga á hálftíma fresti, þ.e. ég var u.þ.b. tíu mínútum of sein eða tuttugu mínútum of fljót. Ákvað því að fá mér göngutúr hluta af heimleiðinni og bíða eftir næsta vagni á Hlemmi. Var komin heim rétt fyrir átta. Við Oddur Smári fengum okkur afganga í matinn og svo horfði ég á Svikamillu frá sunnudagskvöldinu og Miðnætursól. Las nokkra kafla í "Mei me beibísitt" áður en ég dreif mig í háttinn því ég ætlaði að ná amk 7 tíma svefni en vera mætt í Laugardalinn upp úr hálfsjö í morgun.

9.1.17

Eftir helgina

Ég var byrjuð að synda um tíu mínútum eftir að opnaði á laugardagsmorguninn. Synti lengur en oft áður  en ég er hvorki með tímann né lengdina á hreinu, þetta var meira en hálftími en sennilega ekki nema 900 metrar. Fór tvær ferðir í kalda pottinn á eftir, í sjópottinn á milli þeirra ferða og gufu á eftir. Og að sjálfsögðu örstutt sólbað á eftir. Engu að síður var ég mætt til Nonna á Kristu Quest tíu mínútum fyrir klukkan tíu. Hann var búinn að opna og tilbúinn að meðhöndla hárið á mér. Þar sem hann er að "klippa mig sítt" þetta tímabilið fer mestur tíminn í að blása og þurrka hárið því það þykknar bara og þykknar. Ég finn fyrir þessu eftir sundferðir líka að ég þarf að gera ráð fyrir aukatíma til að blása á mér hárið. Fer í klippingu á sex vikna fresti og þegar ég var mjög stuttklippt var það ekki fyrr en um og eftir viku fimm sem ég fór að renna fingrum í gegnum lubbann og telja niður dagana þar til ég ætti næsta tíma. Núna er ég sífellt að renna fingrunum í gegnum hárið, strýk það stundum öfugt þannig að það hylur yfirandlitið. Mínar örfáu náttúrulegu reynslustrípur setja skemmtilegan svip og hreyfingu á hárið svo ég er að hugsa um að gefa þessu tækifæri í óákveðinn tíma.

Þar sem það var esperantofrí á laugardaginn fór ég beint heim eftir klippinguna og ekki að versla fyrr en langt var liðið á daginn. N1 strákurinn var á vakt og hinn ungi maðurinn fór á þrettánda brennu og í heimsókn í Mosfellsbæinn.

Í gærmorgun gaf ég mér tíma til að búa til graut handa okkur Davíð Steini. Skutlaði honum svo í vinnuna áður en ég fór í sund. Eftir hádegi skrapp ég í messu. Stoppleikhópurinn kom og sýndi leikritið um Hans klaufa í messunni. Það var ágætis mæting í kirkjuna og eftir messustundina var maulið í boði í efri safnaðarsalnum.

6.1.17

Örstutt í vinnuvikulokin

 þessu sinni ætla ég ekki að skrifa neitt um vinnuna. Gærmorguninn byrjaði mjög svipað og miðvikudagsmorguninn nema veðrið var ekki alveg eins gott, mikil rigning og smá hraðferð á logninu, og ég synti í rétt rúman hálftíma áður en ég fór að pottormast. Dagurinn leið afar hratt. Mér lá ekkert á heim og horfði ég á handboltaleikinn, Ísland - Egyptaland á K1. Synirnir fengu lánaðan lánsbílinn til að skreppa til pabba síns og því var enginn heima þegar ég kom heim rétt fyrir klukkan sjö.

 sem var með hugvekjuna á jóladag send mér ræðuna og ég er búin að setja hana inn á heimahöfnina undir liðinn, Greinar. Sá að það er enn smá verk óunnið við lagfæringar á ýmsu síðan síðan var hökkuð í haust og ég eyddi talsverðum tíma í það mál án þess að ná að klára. Vonandi sér fyrir endann á þessu fljótlega og ég vona einnig að þetta gerist ekki aftur.

5.1.17

Einn dagur eftir af fyrstu vinnuviku nýs árs

Ég var harðákveðin í því að mæta í sund um leið og opnaði í Laugardalslauginni í gærmorgun. Samt var ég svolítið hissa þegar vekjarinn hringdi rétt fyrir klukkan sex.  Hissa því ég er yfirleitt vöknuð og búin að slökkva á klukkunni amk fimm mínútum fyrir settan tíma. Var byrjuð að synda tuttugu mínútum fyrir sjö og synti ég í góðar tuttugu mínútur áður en ég stakk mér fyrri ferðina í kalda pottinn. Þar sat ég í tvær og hálfa mínútu áður en ég fór í 42°C heita pottinn. Eftir seinni ferðina í þann kalda fór ég í sjópottinn, þá í gufuna og svo í smá "sólbað" áður en ég fór upp úr. Var komin heim aftur um hálfníu og hafði þá rúma klukkustund aflögu áður en ég þurfti að huga að því að mæta í vinnu.

Tók vagninn sem fór 14 mínútur fyrir heila tímann og hafði smá tíma til að fá mér kaffi í vinnunni áður en ég fór að sinna mínu fyrsta verkefni dagsins. Var í daglegum verkum með smá hléum til klukkan að byrja að ganga fjögur en þegar ég var leyst af fór ég beint í talningar. Tók niður allar ótaldar hirslur sem eru í efstu hillum í þremur rekkum. Notaði tækifærið og þurrkaði af. Var aðeins búin með tvær hirslur, sem nota bene eru með afar mörgum skúffum, af níu. Á þremur tímum í gær náði ég er telja þrjár af þessum sjö.

Kom heim um hálfsjö og fór næstum beint í að útbúa einhverskonar grænmetis-linsubauna súpu með smá túnfiski í. Útkoman úr þeirri tilraun var bæði litrík og góð á bragðið. Báðir strákarnir voru heimavið en aðeins annar þeirra smakkaði súpuna.

4.1.17

Talningar

Fór á lánsbílnum í vinnuna í gærmorgun og var mætt aðeins fyrir klukkan átta. Samdi um það við fyrirliðann um að mæta næstu tvo daga (í dag og á morgun) um tíu til að geta einbeitt mér að árlegri talningu á varahlutalager. Ég byrjaði aðeins rétt fyrir áramót en þetta tekur tíma og mér finnst betra að gera þetta þegar daglegu störfin eru frá og helst að allri framleiðslu sé lokið og flestir aðrir farnir heim. Reyndar getur verið gott að hafa manneskju með sér í þessu en það er ekki bráðnauðsynlegt. Framan af vinnudegi sinnti ég m.a daglega bókhaldinu. Því var lokið fyrir seinna kaffi og milli þrjú og fjögur fór ég inn á vél í móttöku ásamt vinnufélaga sem sá um að "troða í". Ákvað að vera klukkutíma lengur, eftir að allir voru farnir, til að komast aðeins lengra með varahlutatalninguna.

Um leið og ég kom heim hringdi ég í pabba. Sótti svo rækilega að honum að hann var nokkuð lengi að svara í símann en við áttum stutt en gott spjall. Las í smá stund í einni af safnsbókunum sem ég framlengdi skilaferstinn á um daginn, "Ég læðist framhjá Öxi", áhugaverð bók það. Eftir kvöldmat vann ég svolítið við heimahöfn óháðasafnaðarins og uppfærði m.a. dagskrána, henti út hausdagskránni og settin inn vordagskrána.

Við Oddur Smári horfðum á Caslte en fljótlega eftir þann þátt ákvað ég að vera skynsöm og koma mér í bælið því það var ætlunin að "hanga á húninum" í Laugardalnum í morgun og það tókst.

3.1.17

Fyrsti vinnudagur á nýju ári

Þá er enn eitt árið horfið í aldanna skaut og nýtt ár brunar af stað. N1 strákurinn minn var að vinna á gamlársdag frá klukkan korter í níu til klukkan þrjú. Daginn áður átti hann að vinna frá 10-22 og sendi ég einkabílstjórann til að sækja hann. Eitthvað dróst að þeir bræður skiluðu sér heim en klukkan var næstum orðin ellefu. Það hafði allt fyllst af kúnnum rétt áður en átti að loka og eftir lokun þurfti að ganga frá og skúra. Þrátt fyrir að strætó væri byrjaður að ganga um átta á laugardaginn ákvað ég að skutla Davíð Steini. Þannig fengum við dýrmætan mæðginatíma saman. Eftir skutlið fór ég beint í laugardalinn og var að byrja að synda á slaginu níu. Synti í hálftíma. Vatn var í kaldapottinum en stiginn upp í hann lokaður. Dýfði höndunum ofan í pottinn og skvetti í andlitið á mér. Fór í sjópottinn og sat þar í góða stund en ákvað svo að fara "Krýsuvíkurleiðina" ofan í þann kalda áður en ég fór upp úr. Áður en ég fór heim kom ég við í Hagkaup í Skeifunni. Var með lista með mér, 4 hlutir sem voru nauðsynlegir vegna eldamennskunnar á nýjársdag. Eldaði þykkan grjónagraut fljótlega eftir að ég kom heim sem var kældur og svo stungið inn í ísskáp.

Var með Hrefnusteik og fíneríis meðlæti og sósu um fimm á gamlársdag. Strákarnir máttu fá sér ísblóm á eftir og tóku að sér að ganga frá en ég fór í kirkjuna um sex. Notaleg en ekkert svo löng stund því ég var komin heim nokkru áður en klukkan sló sjö. Hafði úthald til klukkan að ganga eitt um nóttina en þá bara varð ég að skríða í bælið.

Á nýjársdag ákvað ég að reyna að sofa út. Ég rumskaði frekar snemma en mér tókst að kúra eitthvað frameftir morgni. Var þó kominn á fætur fyrir hádegi og byrjuð að lesa. Þeytti rjóma og bætti út í grautinn frá því deginum áður. Um kvöldið hafði ég hamborgarahrygginn sem Oddur Smári fékk í jólagjöf frá Skeljungi og ris a la mandle (án möndlu) í eftirrétt. Við mæginin vorum öll sammála um að maturinn hefði verið "rugl"-góður, bæði aðalréttur og eftirréttur. Fór heldur seint að sofa um kvöldið þannig að ég ákvað að slökkva á vekjaranum og sjá til hvenær ég myndi vakna til að drífa mig í sund.

Vaknaði rétt fyrir klukkan sjö í gærmorgun og byrjaði á því að hlusta á fréttirnar. Uppgötvaði svo að N1 strákurinn var enn heima og líklega búinn að missa af strætó. Ég dreif mig því í leppana í einu hendingskasti, fékk mér matskeið af lýsi, tók til sunddótið og skutlaði svo unga manninum. Hann var mættur fimm mínútum áður en vaktin hans byrjaði eða 7:25. Synti í tuttugu mínútur, fór 2x2mín í kalda pottinn, heitan pott á milli, sjópottinn á eftir, gufu og endaði á "sólbaði í ca 5 mín. Eyddi svo megnið af deginum í lestur en ég felldi líka af hringprjóninum og á nú aðeins eftir að ganga frá endum á sjalinu. Er nokkuð ánægð með þessa prjónatilraun eftir mynstri og það gæti allt eins verið að ég prjóni þetta mynstur fljótlega aftur. Ætla samt að skila hringprjóninum til tvíburahálfsystur minnar við fyrsta tækifæri.

Höfðum afganginn af hamborgarahryggnum í kvöldmatinn og svo horfði ég á 3 fyrstu þættina af "Miðnætursól" áður en ég fór að sofa.