17.9.09

- Það líður á vikuna -

Var á skemmtilegri kóræfingu í gærkvöldi og var tíminn frekar fljótur að líða. Erum að æfa upp úr "Söngvasveig" og æfðum amk fjögur lög í gær. Þrjú af lögunum höfum við reyndar æft áður. Áður en maður vissi af var klukkan orðin hálftíu. Kom við í búð og verslaði mjólk og brauð á heimleiðinni. Feðgarnir höfðu verið að spila en þegar ég kom heim voru strákarnir að undirbúa sig undir háttinn. Davíð var búinn að hella upp á og áttum við hjónin saman kósí-kvöld.

16.9.09

- Ársreikningur og skallablettir -

Skondin fyrirsögn hjá mér. Um þessar mundir er ég á kafi í að taka saman ársreikninga DKR. Sem betur fer á ég góða að. Davíð mun hjálpa mér að setja þetta saman og tvíburahálfsystir mín mun fara yfir og vonandi leggja blessun sína yfir. Ekki hefur verið boðað til aðalfundar enn og verði það ekki gert í næstu viku verður sennilega ekki fundur fyrr en eftir fyrstu messu drengjakórsins sem verður 4. okt. n.k. Eftir þá messu geri ég fastlega ráð fyrir því að þeim drengjum sem eru að hefja sitt 3.-6. starfsár verði veittar viðurkenningar. Segi kannski meira frá því eftir að sá atburður er liðinn.
Þeir stækka og þeim fjölgar, skallablettunum, í höfðinu á mér. Samt er ég nú farin að finna fyrir smá hársprettu. Ég er svo heppin að hárið á mér felur þessa bletti oftast nær. Stend mig að því að þreyfa kollinn á mér reglulega og kanna aðstæður og stundum falla þá nokkur hár. Ætla samt ekki að hafa áhyggjur af þessu. Hef það sterklega á tilfinningunni að þetta muni lagast þegar fram líða stundir. Verið getur að þá verði ég með hvíta lokka hér og þar í dökku hárinu og þeir verða lílega mun meira áberandi heldur en skallablettirnir.

15.9.09

- Fjölmiðlapunktar -

Undanfarin tvö ár höfum við hjónin gengið með sérstakan fjölmiðlamæli á okkur og strákarnir fengu svona mæla þegar þeir voru orðnir tólf ára. Mælarnir nema útvarps og sjónvarpsbylgjur sem Capacent-gallúp vinnur úr. Á meðan við berum þessa mæla söfnum við punktum sem við getum leyst út í alls konar varningi. Ég safnaði mér t.d. fyrir nýrri ryksugu, strákarnir hafa fengið sér útilegusett, hjólaviðgerðasett og fleira. Davíð er sá eini sem ekki er enn búinn að leysa út einhverja punkta. Ég var að enda við að panta mér kvörn til að mala kaffibaunir, pönnu og svo svolítið sem Davíð á að fá í afmælisgjöf...

14.9.09

- Fyrsta messa nýs organista í kirkju óháða safnaðarins -

Í gær skilaði Kári, nýráðinn organisti Grindavíkurkirkju af sér síðasta verkefninu fyrir Óháða söfnuðinn með því að spila forspilið. Pétur þakkaði honum síðan fyrir vel unnin störf undan farin tvö ár og kynnti nýráðinn organista (og kórstjóra), Árna Heiðar Karlsson og bauð velkominn til starfa. Messan fór vel fram og í stað predikunar var Stoppleikhópurinn með leikrit. Kórinn ruglaðist að vísu aðeins í einu svari en af því að allir rugluðust eins og við stoppuðum ekki þá tók enginn eftir þessu nema kórstjórarnir.

11.9.09

- Kann ég á þetta ennþá? -

Fjórir mánuðir liðnir frá síðustu færslu. Er samt alls ekki viss um að ég sé hætt, bara í langri pásu í bili ;-)! Sumarið hefur liðið undrafljótt og m.a. brugðum við fjölskyldan undir okkur betri fætinum og flugum út til Danmerkur seinni partinn í júlí og vorum í tvær vikur í sumarhúsi á Fjóni. Veðrið lék við okkur mest allan tímann. Ég fór í mjög skemmtilegt brúðkaup. Við fórum m.a. í Lególand, Djurs sommerland, Egeskov og fleira og fleira. Kom sólbrennd heim og brann svo enn meir er ég sat úti í sólinni með einni frænku minni í næstum fimm tíma einn sólardag fyrri partinn í ágúst (eða um miðjan).
Í gær fór ég 24. heimsóknina í blóðbankann og gaf blóð í 23. sinn. Ætla að fara aftur eftir fimm mánuði og er búin að setja það inn í skipulagsdagbókina í gsm.
Góða helgi!