31.10.23

Innlagnarvika

Rumskaði um fimm í gærmorgun. Blaðran var full svo ég skrapp á salernið en skreið svo upp í rúm aftur. Sofnaði þó ekki en ég kúrði í tæpan klukkutíma áður en ég fór á fætur. Var mætt í vinnu fyrir klukkan hálfátta. Þessa vikuna hefur verið ákveðið að ein af okkur í kortunum verði alfarið uppi í innlögnum en hinar tvær sinni kortamálunum. Fyrirliðinn ákvað fyrir helgi að ég skyldi byrja í innlögnunum og ég var sátt við það. Það var nóg að gera og smá aukaálag því það vantaði tvær. Við vorum því að vinna til klukkan hálffimm. Ég gerði aðeins ein mistök sem ekkert mál var að laga. Læri af þeim. Annars finnst mér þetta alveg að vera að koma hjá mér. Veit þó að ég er alls ekki útlærð. En þetta er gaman og tíminn gersamlega flýgur áfram. Var komin í sund um fimm og hitti kalda potts vinkonu mína í sinni fimmtu ferð í kalda pottinum. Saman náðum við 3 ferðum og eina í gufu. Ég synti ekkert en fór aðeins í sjópottinn og fjórðu ferðina í þann kalda áður en ég fór upp úr og heim. 

30.10.23

Ný vinnuvika

Svaf alveg ágætlega í fyrrinótt þrátt fyrir að þurfa að skreppa á salernið tvisvar sinnum. Seinna skreppið var reyndar um sex. Ég fór á fætur um átta. Vafraði um á netinu í uþb klukkustund. Þá var pabbi komin á fætur og ég settist við eldhúsborðið og lagði kapla í hálftíma. Einhvern tímann fljótlega eftir það skrapp ég í tæplega hálftíma göngu aðeins upp og aftur niður með Rangánni. Veðrið var fallegt en svalt. Ég var í lopapeysu og með ennisband og það var alveg nóg þar sem ég var á hreyfingu. Var rjóð í framan lengi eftir að ég kom inn úr göngunni. Fitjaði upp á nýrri tusku og greip líka í bók. Hafði mat handa okkur feðginum tilbúinn um það leyti sem hádegisfréttir voru að klárast. Horfði á Liverpool leikinn en fljótlega eftir hann fór ég að taka mig saman. Mundi eftir að taka með mér þorskhnakkana úr kistunni hans pabba. Var komin heim um hálfsex. 

29.10.23

Á Hellu

Ég var vöknuð um sex í gærmorgun. Fór í sund um átta. Hárþvottadagur svo ég synti á bakinu. Fór fjórar ferðir í kalda, eina í gufu, eina í þann heitasta og slakaði einnig vel á um stund í sjópottinum. Var komin heim aftur um hálfellefu. Enginn esperantohittingur þessa helgina þar sem verið var að undirbúa 4 ára afmæli. Um hádegisbil pakkaði ég niður, m.a. fartölvunni N1 sonarins sem ég er búin að hafa aðgang að síðustu misserin. Kom við í Heilsuhúsinu í Kringlunni til að versla vítamín og kókosvatn. Var komin til pabba um tvö. Það hafðist að senda skjal með pósti úr fartölvunni, opna í tölvunni hans pabba og prenta út. Þetta er yfirlit úr netnámskeiðinu yfir vítamín sem eiga að hjálpa til við að heila mína blessuðu görn. Dagurinn leið ógnarhratt. Var með bleikju í matinn og gufusoðið blómkál og lauk með í kvöldmatinn. Fann einnig steinlausar ólífur inn í ísskáp. Næstu tvær vikurnar mun ég fara vel yfir leiðbeiningarnar um það sem taka á úr mataræðinu, alfarið eða um tíma og mun ég gefa mig alla að þessu verkefni næstu misserin í góðri von um að mér muni takast að vinna bug á bjúgnum sem ég hef verið með meira og minna í yfir þrjátíu ár.

 

28.10.23

Morgunstund

Vaknaði hálftíma áður en vekjaraklukkan átti að fara í gang. Slökkti á henni, dreif mig á fætur að sinna morgunverkefnunum. Mætti í vinnu um hálfátta. Ég var í sömu stöðu í gær, á ítorðsluendanum, svo ég fór beinustu leið niður í kortadeild að kveikja á vélinni og "ná í" tölur áður en ég fór og fyllti á vatnsbrúsann. Visa og debet framleiðslu lauk tuttugu mínútum yfir níu. Þá fór ég upp á undan til að skreppa á salernið áður en fór í starfsmannasamtal við framkvæmdastjórann klukkan hálftíu, það seinna á árinu. Við spjölluðum í rúmar tuttugu mínútur og leið mér mjög vel í þessu samtali. Verkefnastaðan var þannig að það þurfti ekki aukahendur uppi. Ég sat því góða stund inn á kaffistofnni eftir samtalið, prjónaði og spjallaði og drakk vatn. Um ellefu kom pöntun upp á 5000 gjafakort ásamt hádegisframleiðslunni.  Við fórum því aftur niður eftir hádegi til að hlaða inn og byrja framleiðslu á þessum gjafakortum. Framleiddum einn fimmta af pöntuninni en ákváðum á láta gott heita um tvö leytið og ganga frá deildinni. Hjálpaði til með eitt verkefni uppi áður en ég stimplaði mig út stuttu fyrir þrjú og fór svo beinustu leið í Nauthólsvík. Dásamlegt að skella sér aðeins í sjóinn í vinnuvikulok. Kom heim á fimmta tímanum. 

27.10.23

Taylor Swift bíótónleikar

Vinnudagurinn í gær náði til klukkan hálffjögur. Ég var á ítroðsluendanum. Vorum búnar með fyrstu tvo framleiðsluskammtana um það leyti sem var að bresta á kaffipása. Eftir kaffi og til ellefu tók ég nokkur innlegg. Ákvað sjálf verkefnið og leysti það án þess að þurfa neina tilsögn eða aðstoð. Hádegisskammturinn var ekki stór en það var líka tilkynnt og send inn beiðni um framleiðslu á 2000 gjafakortum. Það var hægt að hlaða gjafakortaverkefninu inn klukkan eitt og við gátum klárað framleiðslu. Þegar við vorum búnar að ganga frá niðri var klukkan að byrjuð að ganga fjögur. Flest var að klárast uppi líka. Ekki tók því samt að fara eitt eða neitt því ég var búin að skrá mig á viðburð með með framkvæmdastjóranum, nokkrum vinnufélögum og fylgifiskum. Byrjuðum á því að fara yfir í salinn í hinum endanum á húslengjunni. Þar vorum við í góðu yfirlæti til klukkan hálfsex. Fengum léttar veitingar og ég ákvað að taka svindldag. Fékk mér reyndar ekkert að drekka hvorki áfengt né óáfengt. Ég fékk svo far yfir, ákvað að geyma bílinn minn áfram í því stæði þar sem ég lagði honum um morguninn. Í Laugarásbíó fengum við afhentan miða sem gilti fyrir popp og gosi. Ég ákvað að sleppa gosinu og fékk í staðinn að uppfæra popppokann í stærri poka. Popp er eitt af því sem ég á að taka út og ég á í jafnmiklu veseni með það og kaffið. Reyndar er nú liðin ein og hálf vika síðan ég drakk kaffi síðast, en mig langar alltaf í svarta, sterka drykkinn. Klukkan sex vorum við komin inn í aðalsalinn. Það voru reyndar auglýsingar fyrsta korterið eða svo en svo hófust stórkostlegir tónleikar og flott dansatrið með Taylor Swift þar sem hún fór yfir ferilinn og tók lög af öllum plötunum sínum. Þetta var ekki búið fyrr en klukkan langt gengin í níu. Þá var ég að verða svolítið þreytt í rófubeininu þrátt fyrir að hægt væri að halla sér í sætunum. En ég var uppveðruð þegar ég svindlaði mér sem fyrst yfir Sæbrautina, næstum stystu leið að bílnum mínum og fór heim, beinustu leið í rúmið en las þó aðeins áður en ég fór að sofa.

26.10.23

Fimmtudagur og stutt í mánaðamót

Auðvitað var tvöfaldur skammtur af kortapöntunum í gær en misstórir skammtar þó. Framleiðsla stóð yfir milli klukkan átta og hálfeitt með kaffipásu á milli. Ég var í bókhaldi og innlögnum og fór bara einu sinni niður í kortadeild. Það var einnig nóg að gera í innlögnunum og eftir hádegi komu fyrirliði og fyrrum fyrirliði með inn í þau verkefni. Ég var búin í vinnu rétt fyrir fjögur og fór þá beinustu leið í Nauthólsvík. Það var flóð, lítil ferð á logninu, sjórinn 7,1°C og spegilsléttur. Ætlaði varla að tíma að fara upp úr. Skrapp svo og skilaði skammtímalánsbókunum á Kringlusafnið. Tók aðeins eina bók í staðinn sem er nýleg eða frá því í fyrra og með 30 daga skilafresti. Ég er þá með fjórar bækur en ekki fimm hér heima og eftir hálfan mánuð mun ég líklega framlengja skilafresti á þremur af bókunum.

25.10.23

Lagði niður störf í gær

Þrátt fyrir að ég stillti ekki á mig neina klukku og hefði farið að sofa aðeins með seinni skipunum á mánudagskvöldið var ég glaðvöknuð um hálfsex. Var komin á fætur fljótlega. Hitti því aðeins á N1 soninn sem lagði af stað í vinnu um sjö. Ég vafraði ekkert svo lengi á netinu en kynnti mér m.a. viðburðina sem tengdust deginum. Það varð úr að ég ákvað að fara einungis á hápunktinn, samstöðufundinn á Arnarhóli. Notaði tækifærið og lauk við að lesa hina skammtímalánsbókina af safninu, hugaði að næstu skrefum í tiltektinni í mataræðinu til að heila mína blessuðu görn og prjónaði líka smávegis. Kveikti ekkert á sjónvarpinu og var lítið á glugga í samfélagsmiðla. Korter yfir eitt lagði ég labbandi af stað og rifjaði upp leiðina sem ég fór oftast þegar vinnustaðurinn var á Kalkofnsvegi. Það var greinilegt að allar leiðir lágu á torgið og margir fóru labbandi úr Hlíðum og nágrenni. Upp á Skólavörðuholtinu var magnað að sjá "fossana" sem streymdu úr að manni fannst öllum áttum. Var komin á Arnarhólinn korter fyrir tvö og stóð nánast á sama blettinum í einn og hálfan tíma. Veðrið sýndi svo sannarlega á sér sínar bestu hliðar og stundin var magnþrungin. Ég sem yfirleitt forðast að fara í mikla mannþröng sýndi samstöðu og fann bara fyrir töfrum allt í kring. Labbaði svo aðeins aðra leið heim og var komin þangað fyrir klukkan fjögur. Í gærkvöldi kíkti danska frænka mín og nafna til mín en hún var að afhenda Davíð Steini húslykla þar sem þau Mikel eru að skreppa til Danmerkur í dag og verða til sunnudags og hann var búinn að taka að sér að heimsækja kisu á meðan. Hann var einmitt nýkominn af vakt þegar hún mætti á svæðið. Pabbi hennar á afmæli á laugardaginn, verður 76 ára og þau ætla að gera sér glaða daga með honum.

24.10.23

Bíó Paradís

Vinnudagurinn minn í gær varð rétt rúmir átta tímar. Fór beinustu leið í Laugardalslaug eftir vinnu. Kalda potts vinkona mín var þegar búin að fara tvær ferðir í þann kalda þegar ég mætti. Saman fórum við þrjár ferðir í hann, tvær í heitasta pottinn og eina ferð í gufuna. Ég dýfði mér svo smá stund í kalda pottinn áður en ég fór upp úr og heim. Ég mátti semsagt ekki vera að því að synda neitt. Kom heim um hálfsex. Fékk mér kókosvatn og avaocado. Þremur korterum síðar labbaði ég af stað niður í bæ. Var komin rétt á undan esperanto vinkonu minni að Bíó Paradís. Vorum við báðar örlítið snemma í því. Kyrrðarbænasamtökin á Íslandi buðu upp á að sækja sýningu á verðlaunamynd um Thomas Keating: A RISING TIDE OF SILENCE. Sýningin stóð yfir í klukkustund og korter og byggðist á viðtölum við þennan merka mann og ævi hans. Hann var fæddur 1923 og hefði því orðið hundrað ára í ár. Myndin kom út fyrir tíu árum, sama ár og kyrrðarbænasamtökin voru stofnuð. Var komin heim aftur um hálfníu og skrefafjöldi gærdagsins fór yfir tíuþúsundskref.

23.10.23

Fæðingardagur föðurbróður míns

Eins og kom fram í tiltlinum á færslunni í gær átti ég erfiða nótt í fyrrinótt. Fór upp í tiltölulega snemma og las í smá stund. Það voru þannig skilaboð í líkamanum að mér fannst ég hvorki geta legið né setið og var þetta næstum því eins slæmt og þegar ég fékk flensuna í maí í vor. Einhvern veginn fann ég stellingu og sofnaði um stund. Rumskaði um eitt leytið. Skrapp á salernið. Óþægindin voru enn að angra mig en ég sofnaði samt aftur en ekki lengi. Vissi næst af mér um þrjú leytið og fór þá aftur á salernið. Báðar ferðirnar á salernið voru til að pissa. Um fimm leytið var ég að spá í að kannski væri bara best að koma sér á fætur en næst vissi ég af mér upp úr klukkan átta. Þetta varð til þess að ég fór ekki í sund fyrr en um hálfellefu því ég þurfti að vafra aðeins um á netinu og einnig búa til innkaupalista í samræmi við mataræðið þessa dagana. Áttaði mig strax á því í sturtuklefanum að það var bara ágætt að ég væri í sundi á þessum tíma. Hitti nefnilega tvær konur sem ég hef ekki hitt lengi, önnur þeirra er sjósundsvinkona mín og hin kona eins frænda míns. Hitti hann út í laug og hálftíma síðar mætti kalda potts vinkona mín. Því miður fyrir okkur var kaldi potturinn lokaður í gær. Klukkan var byrjuð að ganga eitt þegar ég fór upp úr. Kom við í Krónunni í Skeifunni og líka Heilsuhúsinu í Kringlunni. Hringdi í pabba. Var eitthvað að spá í að skreppa austur og sækja þorskhnakka í kistuna til hans en það varð ekkert úr því. Davíð Steinn hjálpaði mér með vörurnar inn úr bílnum. Þetta voru samt bara tveir pokar, annar léttur, og tveir hlutir í þriðja pokanum fyrir utan sundtöskuna og veskið mitt. Það fór svo þannig að ég skrapp í tuttugu mínútna göngutúr stuttu fyrir fjögur en ekkert í lengra ferðalag á bílnum. Eldaði mér bleikju í kvöldmatinn og hafði slatta af grænu grænmeti með og dass af rauðu súrkáli. 

22.10.23

Erfið nótt

Það er nokkuð víst að líkaminn er að vinna í að afeitra sig. Svaf þokkalega í fyrrinótt en var vöknuð fyrir allar aldir í gærmorgun, fyrir klukkan sex á laugardegi. Lagði af stað í sund í fyrra fallinu og kom við hjá ÓB í Öskjuhlíðinni til að jafna þrýstinginn á dekkjunum. Hitti fleira af "sundfólkinu mínu" í sundi, bros á vörum en sumir voru samt að spá í hvort ekki hefði verið hægt að þrífa sumt betur. Eftir fyrstu ferðina í kalda pottinn fór ég á braut 1 og synti 500 metra, flesta á bakinu en smá bringu- og skriðsund líka. Eftir aðra ferðina í kalda pottinn fór ég í sjópottinn og var það í korter áður en ég fór aftur í kalda, síðan í gufu, stutta dýfu í kalda, smá "sólbað" og svo upp úr að þvo á mér hárið um tíu leytið. Var mætt til esperanto vinkonu minnar um hálfellefu. Ég var búin að ákveða að taka ekki út hafra úr fæðunni fyrr en eftir þessa helgi svo hún bauð mér upp á hafragraut með chia fræjum og kanil og svo jurtate á eftir. Var komin heim rétt fyrir tólf. Kveikti strax á sjónvarpinu og stillti á rás tólf því hádegisleikurinn í gær var milli Liverpool og Everton. Leikurinn fór 2:0 fyrir heima liðið en gestirnir voru einum færri frá því fyrir þrítugustu mínútu í fyrri hálfleik. Eftir leikinn lauk ég við fyrirlestrana og ítarefnið fyrir viku tvö í netnámskeiðinu. Tók einnig saman lista yfir það sem ég þarf að verða mér út um. Var frekar svekkt síðar um daginn þegar ég uppgötvaði að möndlumjólkin sem ég keypti um daginn inniheldur sykur. Keypti hana áður en námskeiðið hófst en ég er samt yfirleitt vön að athuga með innihaldslýsingar. Það hef ég greinilega ekki gert um daginn. Blandaði hluta af mjólkinni við chiafræ en líklega helli ég restinni af fernunni. Ekkert varð úr að ég færi út í búð í gær. Bræðurnir fóru að heimsækja hina fjölskylduna sína. Ég horfði á bart úr nokkrum leikjum í enska, tvo þætti, prjónaði smá en það var ekki fyrr en ég fór upp í rúm á tíunda tímanum að ég las eitthvað.

21.10.23

Næst síðasta helgin í október

Þar sem ég var farin að sofa um tíu í fyrrakvöld kom mér það lítið á óvart að vera farin að losa svefn um fimm leytið í gærmorgun. Þegar ljóst var að ég myndi ekki sofna aftur þrátt fyrir að tæma blöðruna ákvað ég að kveikja á náttborðs lampanum og klára að lesa aðra af skammtímalánsbókunum af safninu. Það voru aðeins eitthvað um 40-50 bls eftir og að þeim lestri loknum var klukkan að verða sex. Þá klæddi ég mig, bjó um, tannburstaði mig og fékk mér glas af sítrónuvatni áður en ég settist inn í stofu með fartölvuna í fanginu. Klukkutíma síðar fékk ég mér sopa af þorskalýsi og drakk annað glas af vatni með vítamíntöflunum mínum. Var mætt í vinnu um hálfátta. Þar sem ég var hvorki í bókhaldi né á ítroðsluendanum fór ég beinustu leið inn á kaffistofu til að fylla á vatnsflöskuna. Hafði prjónana mína með og settist niður um stund. Við sem vorum mætt vorum flest í bleiku í tilefni dagsins. Aldrei þessu vant stóð vinnudagurinn yfir alveg til klukkan að verða hálffjögur. Kortaframleiðslu var lokið um hádegið en ég var í innlögnum eftir hádegi og svo að fara yfir skjöl. Eftir vinnu fór ég beinustu leið yfir í Laugardalinn því um eitt í gær var Laugardalslaugin opnuð almenningi aftur eftir að hafa verið lokuð í þrjár vikur og þrjá daga. Ég hafði lesið um þetta á fimmtudaginn og ákvað í gærmorgun að taka frekar sunddótið með mér þrátt fyrir að föstudagar séu sjósundsdagar. 

20.10.23

Föstudagur

Vaknaði um sex í gærmorgun eftir ágætan nætursvefn. Var í vinnu milli klukkan hálfátta og klukkan að ganga fjögur. Á móttökuendanum í framleiðslunni til hádegis og að hreinsa gull og fara yfir skjöl eftir hádegi. Þrátt fyrir að vera með sunddótið meðferðis fór ég beint heim eftir vinnu. Ég veit að það borgar sig ekki að skrópa of oft en þar sem ég er að vinna í breytingum þessa dagana þá fannst mér liggja meira á að koma heim til að kíkja á netnámskeiðið. En kannski er ég bara að skrökva að sjálfri mér eða alltof góð við mig. Ég notaði amk fyrstu þrjú korterin eftir að ég kom heim til að spjalla við konu eins frænda míns og ég eyddi aðeins minni tíma í námskeiðið. Þetta er svokallað 4 vikna sjálfsnámskeið og einn af kostunum við það er að maður ræður hvenær maður hlustar á fyrirlestrana og skoðar ítarefnið. Rétt fyrir sex fékk ég mér AB mjólk með rúsínum, chiafræjum og smá seríósi. Seríósið er reyndar eitt af því sem á að taka út og í næstu viku eiga allar mjólkurvörur að fara út amk í einhvern tíma. Líklega er best að líta á þessa vegferð sem spennandi ferðalag. En maður má líklega líka halda í vonina um að sumt af því sem tekið er út í þessu ferli muni vera hægt að taka inn aftur. Sjáum hvað setur. Ég er amk ekki búin að drekka kaffi síðan á þriðjudagsmorguninn. 

19.10.23

Fart á tímanum

Þegar ég mætti í vinnuna um hálfátta í gærmorgun var mér hleypt inn í stigaganginn. Þar voru þegar mættir hátt í tíu vinnufélagar og það bættist í hópinn á næstu mínútum. Aðgangskortin virkuðu ekki en sá sem er í móttökunni var að tala við einhvern í símanum. Eftir dágóða stund komst hann inn og amk fimm mínútum seinna opnaði hann fyrir okkur hinum, hleypti okkur öllum inn í einu í gegnum slússuna þar sem á yfirleitt einn að fara í einu hvort sem fólk er að koma eða fara. Hann varð líka að hleypa okkur inn í skrifstofurýmið því aðgangskortin voru ekki orðin virk. Það var verið að vinna í því. Ég gat aðstoðað við að opna ytri hurðina á hvelfingunni uppi. Fyrrum fyrirliði var mætt og fyrirliðinn setti hana í bókhalds- og uppivinnu. Þegar aðgangskortin voru loksins orðin virk kom í ljós að það var samt ekki hægt að nota þau til að opna hvelfinguna niðri. Ég gat hlaðið inn verkefnunum en það var að sjálfsögðu ekki hægt að framleiða neitt fyrr en hægt var að sækja kortavagnana inn í hvelfingu. Sá sem lagaði það kom rétt fyrir níu. Skammturinn sem átti að fara út um tíu var tilbúinn hálftíma fyrr. Við fórum upp með töskuna og í kaffi. Nema nú er ég á þeirri vegferð að sleppa kaffidrykkju og brauðáti í ákveðinn tíma. Það var sem betur fer boðið upp á vínber, jarðaber, osta og sykurlausar sultur en frá og með næstu viku mun ég taka út alla mjólkurvöru í ákveðinn tíma. Ég er að gera þetta til að athuga hvort ég losni við bjúginn ef ég breyti mataræðinu. Var búin í vinnu rétt fyrir tvö. Fór beint í Nauthólsvík og naut þess að hoppa um í öldunum í 6,5°C sjónum í tæpt korter. Fór svo aðeins í gufu og tíu mínútur í heita pottinn áður en ég fór upp úr og heim. 

18.10.23

Pabbi áttatíuogníu ára í dag

Ég varð  svolítið hissa þegar ég vaknaði í gærmorgun og sá að klukkan var orðin sex. Enn voru samt um tuttugu mínútur þar til vekjarinn hefði átt að ýta við mér. Slökkti á honum og fór á fætur. Var mætt í vinnu um hálfátta og var ekki búin fyrr en klukkan að verða fjögur. Þrátt fyrir að vera með sunddótið með mér fór ég beint heim úr vinnu og skrópaði í sundið.

17.10.23

Beint heim eftir vinnu í dag

Var nokkuð snemma á fótum í gærmorgun. Mætti í vinnu á sama tíma og oftast. Ég var í bókhaldinu og á móttökuendanum á vélinni. Kláruðum daglega fyrirliggjandi framleiðslu fyrir klukkan hálftíu. Stuttu fyrir tíu mætti fyrrum fyrirliði og hitti okkur fyrir utan hús. Við fengum far í D30 með vinnufélaga. Öll vorum við að fara til að vera viðstödd minningarstund um samstarfskonu sem tapaði baráttunni við ristilkrabbamein fyrr í mánuðinum. Athöfnin var falleg, erfið og stóð yfir í tæpan hálftíma. Vinnufélaginn sem við fengum far með á staðinn var ekki að fara til baka svo við þrjár tókum leigubíl. Fyrrum fyrirliði kom ekki inn með okkur en hún kemur til vinnu á morgun eftir sex vikna veikindaorlof vegna aðgerðar sem hún þurfti að fara í. Ég var búin í vinnu rétt fyrir klukkan þrjú. Kom við á AO við Sprengisand til að fylla á tankinn áður en ég fór í Sund í sundhöllinni. Synti ekki neitt en var þeim mun duglegri við að pottormast. 

16.10.23

Netnámskeið í að heila görn

Rumskaði alltof snemma en sofnaði þó aftur á endanum. Klukkan var svo um níu þegar ég fór á fætur og tók ég fljótlega þá ákvörðun að halda kyrru fyrir heima. Eina sem ég fór úr íbúðinni voru tvær ferðir í þvottahúsið. Vafraði á netinu milli klukkan hálftíu og tólf. Helmingurinn af þeim tíma fór í að klára fyrstu vikuna af fjórum á netnámskeiði sem ég skráði mig á rétt eftir síðustu mánaðamót. Yfir hádegisfréttunum fór ég langt með að ljúka við enn eina tuskuna, kláraði hana alveg og gekk frá endum í gærkvöldi. Rétt fyrir tvö var ég búin að setja upp vatn í hraðsuðukönnuna og til stóð að hella upp á fyrsta kaffibolla dagsins og fara að fylgjast með landsleik í handknattleik kvenna. Þá hringdi síminn. Á línunni var ein af fyrrum samstarfskonum úr kortadeildinni. Úr varð þriggja kortera símtal. Klukkan var því þrjú þegar ég drakk fyrri kaffibollann af tveimur. Seinni partinn af deginum notaði ég í þáttaáhorf. Var með bækur með mér í stofunni en ég tók þær aftur með mér inn í herbergi þegar ég fór í háttinn um hálftíu og las þá í tæpan klukkutíma. 

15.10.23

Hvíldardagur

Þegar ég leit út í gærmorgun sá ég snjóföl yfir öllu. Hins vegar þurfti ég ekki að skafa af bílnum þegar ég lagði af stað í sund um átta. Snjórinn var laus á og ekki á hliðarrúðunum og rúðuþurrkurnar unnu strax á þessu bæði á fram og afturrúðu. Lagði bílnum á stæði við Austurbæjarskóla og labbaði þaðan spölinn í Sundhöll Reykjavíkur. Eftir fyrstu ferðina í kalda pottinn fór ég beint í innilaugina. Þar var einn á hverri braut en ég fann mér pláss á braut 2 og synti í uþb hálftíma, flestar ferðirnar á bakinu. Yfirleitt er ég frekar "feimin" við að synda á bakinu ef einn eða fleiri eru á sömu braut en í gærmorgun var þetta ekkert mál. Sá sem var fyrir á brautinni syndir með hljóðum svo ég vissi yfirleitt hvenær við vorum að mætast á brautinni. Næst fór ég smá stund í heitasta pottinn sem er á svölunum og annar af elstu pottunum. Átti svo eftir að fara þrjár ferðir í kalda, eina ferð í gufuna og eina í nuddpottinn áður en ég fór upp úr og þvoði mér um hárið. Klukkan var rétt byrjuð að ganga ellefu þegar ég rölti að bílnum aftur. Í þetta sinn þurfti ég að sópa af honum. Var búin að mæla mér mót við esperanto vinkonu mína en þó ekki fyrr en um hálfellefu. Mér fannst samt ekki taka því að skutlast fyrst heim með sunddótið heldur fékk ég mér smá bíltúr út á Gróttu. Var komin á Sólvallagötuna rétt rúmlega hálfellefu og stoppaði þar til klukkan tólf. Lásum saman eina blaðsíðu og það voru nokkur orðin sem við glósuðum hjá okkur. Fór ekkert út aftur eftir að ég kom heim en tvær ferðir í þvottahúsið með fimm tíma millibili, aðra til að setja í vél og ná í þvottinn af snúrunum og hina til að hengja upp. Annars fór dagurinn í lestur, netvafr, netnámskeið, þáttaáhorf, og prjón. 

14.10.23

Smá snjór

Hafi ég vaknað heldur snemma í fyrradag þá sló ég það met í gærmorgun. Rumskaði um hálffimm og rúmum hálftíma síðar varð mér ljóst að ég var glaðvöknuð. Það eru aldrei vandræði með að eyða tímanum fram að vinnutíma en get alveg þurft að passa mig að gleyma mér ekki í grúskinu, vafrinu á netinu eða lestrinum þegar ég gríp í bók að morgni til. Var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta. Ég var í bókhaldsvinnunni og tók saman tölur. Færri en fimmtíu kort voru til framleiðslu í fyrsta skammtinum en sá skammtur fer úr húsi um tíu á morgnana. Debet dagurinn náði heldur ekki tvöhundruð kortum. Vorum búnar niðri í bili um hálftíu. Fór aðeins í innlagnir eftir kaffi og gekk vel. Þurfti bara að fá ráð um eitt atriði en allt annað gekk vel. Hádegisskammturinn var innan við sextíu kort. Fyrirliðinn var upp tekin alveg til klukkan rúmlega hálftólf en þá fórum við niður og það tók okkur ekki nema hálftíma að framleiða, telja, pakka og ganga alveg frá kortadeildinni. Eftir mat fór ég aftur í innlagnir. Vorum búin um tvö leytið og ég var komin í Nauthólsvík fljótlega eftir það. Hitastigið á sjónum hafði lækkað um heila gráðu frá því á miðvikudaginn en ég fór í fyrsta sinn í sjósunds skóna mína síðan ég lagði þeim í vor eftir að sjórinn var orðinn átta til níu gráður. Svamlaði um í uþb tuttugu mínútur og ætlaði varla að tíma að fara upp úr. Fékk svo gott kikk í líkamann þegar ég fór í heita pottinn. Var komin heim rétt fyrir klukkan fjögur.

13.10.23

Sjórinn 5,8°C

Vaknaði heldur snemma í gærmorgun. Var komin á stjá um hálfsex leytið. Mætti í vinnu rétt fyrir hálfátta. Var aftur á ítroðsluendanum. Þegar daglegri kreditkortaframleiðslu var lokið snerum við okkur beint að því að framleiða auka kreditendurnýjunina. Þegar rétt rúmlega hundraðogsjötíu kort voru óframleidd af sexhundruðogsextíu urðum við að hætta því formin voru alveg á þrotum. Eftir kaffi framleiddum við debetkortapöntun dagsins og svo hádegis kreditskammtinn í kjölfarið. Stuttu eftir mat bárust fleiri form svo við gátum farið niður aftur og klárað það sem stóð útaf. Var búin í vinnu um hálfþrjú. Fannst of snemmt að leggja bílnum við Austurbæjarskóla til að fara í sund í Sundhöllina svo ég skrapp heim og náði í bókasafnspokann með öllum átta bókunum af safninu. Tók aðeins fimm bækur í staðinn en tvær af þeim eru á skammtímaláni svo ég hef líklega aðeins tvær vikur til að lesa þær. Það ætti nú að takast en hugsanlega verður hægt að framlengja um aðrar tvær ef enginn pantar þær í millitíðinni. Var komin í sund um hálffjögur og hitti konuna sem ég kynntist þegar ég var í heimsókn hjá Lilju vinkonu á Kanaríeyjum mánaðamótin janúar/febrúar 2019. Ég fór 4 ferðir í kalda, synti í uþb tuttugu mínútur, fór eina ferð í heitasta pottinn og eina í gufuna áður en ég fór upp úr og heim. 

12.10.23

Bókasafnið

Gærdagurinn var annasamur en skemmtilegur. Var mætt í vinnu rétt fyrir klukkan hálfátta. Fór niður í kortadeild að kveikja á vélinni, undirbúa daginn og hlaða inn skránum. Fann óvenju fáar skrá í möppunum og hélt fyrst að framleiðslan yrði fljót afgreidd. Hins vegar frétti ég það þegar ég kom upp aftur til að fylla á vatnsbrúsann og fá mér smá kaffi að það hefðu verið sendar nokkuð stórar endurnýjunarskrá og stór hluti af daglegri framleiðslu seinni partinn í fyrradag og þær skrá sem voru svo sendar á venjulegum tíma ýttu þessum skrám í skráar súpuna. Það þurftir því að hlaða inn fleiri skrám og það tók aðeins lengri tíma að "leita" þær uppi á almenna svæðinu. Fyrir utan daglega vinnslu kláruðum við debet hlutann af auka endurnýjuninni. Lokuðum og gengum frá kortadeildinni um hálffjögur og ég var komin í sjóinn tíu mínútur yfir fjögur. Notaði strandskóna, þurfti ekki að vaða hálfaleið til Kópavogs og ég svamlaði um í tæpar tíu mínútur í 6,8°C. Þá var mér farið að verða kalt á tánum svo ég fór í heita pottinn í smá stund áður en ég fór upp úr og heim. Um hálfsjö lagði ég af stað í Kópavog. Átti að hitta núverandi og tvær fyrrverandi kortadömur á Brasserie Kársnes klukkan sjö. Ég taldi mig hafa nægan tíma en lenti í smá villum og mætti síðust af okkur fimm þegar klukkan var tíu mínútur gengin í átta. Þær spurðu mig hvort ég hefði synt yfir og tafist á leiðinni. Fljótlega eftir að ég mætti voru teknar niður pantanir. Hinar fjórar pöntuðu allar hamborgara en ég valdi fisk dagsins sem reyndist vera mjög gómsæt bleikja með smælki og sallati. Hittingurinn stóð yfir í tæpa tvo tíma. Ég var komin heim rúmlega níu. Kveikti ekkert á sjónvarpinu og fór í háttinn um hálftíu. Var búin að lesa allar bækurnar af safninu en þegar ég fór á bókamarkaðinn við Fiskislóð um daginn keypti ég m.a. nýjustu bókina eftir Lilju Sigurðardóttur og ég byrjaði á henni í gærkvöldi. Ætlaði varla að geta lagt hana frá mér en eftir rúmlega hálftíma lestur var ég samt orðin það syfjuð að ég ákvað að vera skynsöm og fara að sofa.

11.10.23

Sjósund

Svaf nokkuð ágætlega í fyrrinótt. Vaknaði á undan vekjaraklukkunni og var mætt í vinnu um hálfátta. Upp úr klukkan hálfþrjú fékk ég að fara því ég átti tíma í árlegt tanneftirlit. Tannlæknastofan er flutt á milli hæða í Valhöll. Var alltaf, þann tíma sem ég hef sótt hana, á fjórðu hæð en í mars sl. flutti hún niður á þriðjuhæð. Ég vissi ekki af þessu fyrr en ég kom úr lyftunni í gær og sá tilkynningu um flutningana við gamla innganginn inn a stofuna. Labbaði niður á þriðju. Þegar kom að mínum tíma vildi tannlæknirinn byrja á því að nota nýjustu græjuna og taka panorama mynd af tönnum og tanngarði. Hann vildi m.a. fá að sjá hvernig barnajaxlinn hefur það. Hann sagðist vilja senda inn umsókn um niðurgreiðslu vegna brúar sem þarf að gera fyrr eða síðar. Þar sem þetta er "fæðingargalli" er mjög líklegt að umsókninni verði svarað játandi og þá hef ég ár til að ákveða hvort ég dembi mér í þessi mál næstu misserin eða hvort ég fái tannlækninn til að sækja um aftur að ári þegar ég á næsta eftirlitstíma. Reyndar sagði hann að það lægi meira á að setja krónu í stað rótarfyllts jaxls niðri hægra megin. Ég ákvað að festa tíma fyrir það í febrúar n.k. en get alltaf afbókað þann tíma ef ég vil fresta þessu eitthvað lengur.

Mætti í Sundhöllina um hálffjögur leytið. Hitti eina sem ég hitti yfirleitt í Laugardalslauginni en þar sem sú laug er enn lokuð vegna framkvæmda dreifast sundlaugargestir í aðrar laugar á höfuðborgarsvæðinu á meðan. Fór 3 sinnum í kalda, synti í tæpar tuttugu mínútur og fór einu sinni í langa nuddpottinn á útisvæðinu áður en ég fór upp úr. Skrapp svo í Krónuna við Fiskislóð áður en ég fór heim.

10.10.23

Árlegt tanneftirlit

Í fyrrinótt svaf ég eitthvað skringilega og alls ekki nóg. Var komin á fætur um sex og mætt í vinnuna um hálfátta. Klukkutíma síðar vorum við fyrirliðinn að framleiða kort á fullu þegar mér datt í hug að kíkja aðeins á facebook. Þá var maður samstarfskonu okkar og fyrrum yfirmanns nýbúinn að setja inn mjög dapurlega færslu því konan hans hafði tapað fyrir ristilkrabba kvöldið áður. Við höfðum fengið þær fréttir fyrir örfáum vikum að það liti alls ekki vel út og meinið væri ólæknandi. Ég gerði mér samt ekki ljóst að það væri svona stutt eftir. Við fyrirliðinn fengum báðar nett áfall og sem betur fer var smá endurnýjun ólokið því við vorum alls ekki tilbúnar að fara strax upp. Fórum ekki upp fyrr en um tíu. Var í vinnu til klukkan að verða hálffjögur. Þá var ég það lúin að þrátt fyrir að ég væri með sunddótið meðferðis fór ég beinustu leið heim. Var komin upp í rúm fyrir klukkan hálftíu og sofnuð rúmlega tiu. 

9.10.23

Erfiðar fréttir

Rumskaði um sex leytið í gærmorgun við það að vera í spreng. Fannst samt eins og ég væri bara nýsofnuð og hellingur eftir af nóttinni. Eftir að hafa skroppið á salernið fór ég beinustu leið í rúmið aftur. Vissi næst af mér um níu. Það leið samt tæpur hálftími þar til ég fór á fætur. Um hálfellefu leytið hellti ég upp á kaffi. Rúmum klukkutíma eftir það setti ég upp saltfisk, kartöflur og niðurkorna og skrælda rófu saman í pott. Beið eftir suðunni og sauð svo þar til kartöflurnar voru tilbúnar. Við pabbi vorum að borða stuttu fyrir klukkan eitt. Um eitt settist ég fyrir framan imbann og horfði á leik í enska; Brighton - Liverpool 2:2. Fljótlega eftir að leiknum lauk hellti ég aftur upp á kaffi og við pabbi fengum okkur pönnsur. Rétt fyrir fjögur tók ég mig saman, kvaddi og brunaði í bæinn. Hlustaði á Rokkland með Óla Palla á rás tvö þar sem hann fór yfir feril Sinead O´Connor.

Um hálfníu leytið í morgun bárust þær erfiðu fréttir að samstarfskona til sl tíu ára væri fallin frá eftir baráttu við ristil krabbamein. Kona sem var ekki orðin 53, greindist í nóvember í fyrra. Meðferð virtist vera að skila jákvæðum árangri í vor en fyrir stuttu síðan fengum við þær fréttir að meinið væri búið að dreifa sér og það væri stutt eftir. Okkur grunaði ekki hversu stuttur tími þetta var. Hugurinn er núna hjá fjölskyldu og vinum hennar og verður þar líklega áfram næstu daga og vikur.

8.10.23

Heima hjá mér

Hafði ekki stillt á mig vekjaraklukku en vaknaði engu að síður einhvern tímann á sjöunda tímanum í gærmorgun. Tíminn leið fljótt við netvafr en svo var ég komin í Sundhölluna um átta leytið stuttu eftir að opnaði. Eftir fyrstu ferðina í þann kalda ætlaði ég að demba mér beinustu leið í innilaugina en þá var lokað fyrir aðgengi að henni vegna skorts á starfsfólki. Eftir smá stund í heitasta pottinnum, aðra ferð í þann kalda, korter í gufunni og þriðju ferðina í kalda pottinn var búið að opna á notkun innilaugarinnar. Ég fór á braut 1 og synti í tæpt korter, flestar ferðirnar á bakinu. Tók svo eina ferð í kalda, nokkra stund í heita/nudd pottinn úti, fimmtu ferðina í kalda og smá stund í sólbað áður en ég fór inn í sturtu og þvoði mér um hárið. Var mætt til esperanto vinkonu minnar rétt fyrir hálfellefu. Hún tók vel á móti mér en þó með þeim orðum að við yrðum að fresta esperanto lestri þar til síðar. Stoppaði hjá henni í um klukkustund áður en ég fór heim. Þá var ég ekki alveg búin að ákveða næstu skref. Það varð þó úr að um eitt leytið setti ég niður í tösku og brunaði austur á bóginn eftir að hafa hringt í pabba og sagst líklega vera á leiðinni. Var komin um hálfþrjú. Skömmu síðar hellti pabbi upp á könnuna. Eftir kaffi ákvað hann að skella sér í að búa til pönnuköku stafla. Eftir kvöldfréttir hafði ég steikta bleikju með soðnum kartöflum og hrásallati í matinn. Aldrei þessu vant fékk ég mér ekkert hvítvín, hvorki með matnum né seinna um kvöldið. Ég á samt ennþá hvítvínsbelju í öðrum ísskápnum hjá pabba.Kassa sem ég keypti einhvern tímann í vor eða sumar. 

7.10.23

Komin austur á Hellu

Fram að hádegi framleiddum við fyrirliðinn dagleg kort og rúmlega sjöhundruð að auki í endurnýjun. Kaffipása á milli hálftíu og tíu. Eftir hádegi hjálpuðum við til uppi. Vinnudegi lauk upp úr klukkan hálfþrjú eða rétt rúmlega það. Ég fór beinustu leið í Nauthólsvík. Á leiðinni þangað spjallaði ég við Lilju vinkonu en torgarvertíðinni er lokið hjá henni, lauk sl. mánaðamót. Svamlaði um í uþb tuttugu mínútur í sjónum og sat svo korter í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. Setti í eina handklæðaþvottavél og stillti á prógram sem er 4,5 klst langt. Vafraði á netinu til klukkan að ganga sjö en sat svo fyrir framan imbann alveg til klukkan langt gengin í ellefu. Þá "skreið" ég loksins inn í rúm og las í smá stund áður en ég fór að sofa.

6.10.23

Sjósundsdagur

Vinnudagurinn var passlega langur. Vissi ekki fyrirfram hversu langur svo ég tók ekki sunddótið með mér og fór því beint heim eftir vinnu. Um hálffimm skutlaði Oddur Smári mér yfir í Kópavoginn, nánar til tekið á Dalveg 30 þangað sem RB-ingar sem voru áður staðsettir í Katrínartúni 2 voru að flytja stuttu fyrir síðusu mánaðamót. Í gær var innflutnings partý og okkur sem erum með vinnuaðstöðu annars staðar á höfuðborgarsvæðinu var boðið að koma, taka þátt í partýinu og skoða nýja húsnæðið. Aðgangskortið sem ég notaði í K1 og nota núna til að ná í gögn sem ég sendi á prentarann í vinnunni, gildir líka á aðgangsstýringar á D30. Ég hafði verið að spá í að taka það kort með mér heim úr vinnunni í gær en stakk því í staðinn niður í skúffu. Mér var nú samt hleypt inn. Fyrrum fyrirliði mætti á svæðið upp úr klukkan hálfsex. Hún var með sitt kort. Hún bauð mér far heim um sjö leytið þrátt fyrir að það væri ekki beint í leiðinni heim til hennar. Hún er annars enn í veikinda leyfi en það styttist í að hún megi mæta aftur til vinnu. Afgangurinn af kvöldinu fór í mest lítið en ég var komin upp í rúm um níu leytið og farin að sofa um hálftíu. 

5.10.23

Innflutningspartý í D30 á eftir

Vinnudagurinn  hjá mér í gær kláraðist um fjögur leytið. Það fór ég í Nauthólsvík. Sjórinn var 8,4°C, það var fjara en ég var að svamla í honum í uþb tuttugu mínútur. Sat svo annað eins í heita pottinum. Þegar ég hafði lagt bílnum fyrir utan heima fór ég í stuttan göngutúr.  Labbaði 1,5km á 19 mínútum sléttum. Eftir að hafa gengið frá sjósundsdótinu settist ég niður í stofu með fartölvuna í fanginu og vafraði á netinu og setti m.a. inn færslu á þessum vettvangi. Var búin að slökkva á tölvunni áður en klukkan sló sjö. Fékk mér AB mjólk með chia fræum, rúsínum og musli og seinna fékk ég mér harðfiskbita. Horfði á fréttir og þætti og svo fyrstu Kilju vetrarins nokkru seinna heldur en í línulegri dagskrá enda var klukkan að byrja að ganga ellefu þegar ég fór loksins í rúmið.

4.10.23

Aftur sund og göngutúr eftir vinnu

Vaknaði óþarflega snemma í gærmorgun. Fór þó ekki á fætur fyrr en stuttu fyrir klukkan sex. Mætti í vinnuna á svipuðum tíma og venjulega. Fór beint í að taka saman framleiðslutölur dagsins. Það var einnig komin smá endurnýjun á bæði debet og kredit kort fyrir einn bankann. Öllum skrám var hlaðið inn á framleiðsluvélina en endurnýjunar skrárnar voru látnar bíða. Daglegri framleiðslu lauk upp úr klukkan hálftólf. Fyrirliðinn kvaddi um leið og búið var að ganga frá í kortadeildinni, var í fríi eftir hádegi. Ég fékk mér að borða, kláraði bókhaldsvinnuna en um eitt leytið fór ég í að hjálpa til við að vinna í innlögnunum og fleiru. Var búin í vinnunni korter yfir þrjú. Fór beinustu leið í Sundhöllina. Fór fjórar ferðir í kalda, synti í ca tuttugu mínútur, eina ferð í heitasta pottinn og eina í gufu. Eftir að ég lagði bílnum í götunni heima fór ég í aðeins lengri göngutúr en í fyrradag. Labbaði 2,16 km á 27 mínútum sléttum.

3.10.23

Sund og göngutúr eftir vinnu í gær

Vaknaði á undan klukkunni í gærmorgun. Mætti í vinnu um hálfátta. Fyrirliðinn tilkynnti smá seinkun en ég tók saman þær tölur sem við fáum póst um og prentaði út alla pappíra. Þær tölur sem við fáum ekki póst um handskrifuðum við inn á framleiðslublöðin þegar við fórum niður. Milli tíu og rúmlega ellefu vann ég að því að klára mánaðamótavinnuna í reikningagerðinni og undirbúa og tengja fyrir næstu mánaðamót. Kláruðum daglega framleiðslu um tólf. Var að vinna til klukkan langt gengin í fjögur. Fór svo beinustu leið í Sundhöllina. Lagði bílnum við Austurbæjarskóla. Synti ekki nema rúmar tíu mínútur en fór fjórum sinnum í kalda pottinn. Þegar ég kom heim fékk ég stæði fyrir framan hús. Fór í stuttan göngutúr, 1,6 km á 19 mínútum, áður en ég fór inn.

2.10.23

Fyrsti mánudagur mánaðarins

Vaknaði um klukkan sjö í gærmorgun. Korter fyrir níu tók ég sunddótið með mér út í bíl og ók upp í Úlfarsárdal til að prófa sundlaugina þar. Þarna opnar klukkan níu um helgar og aðstaðan er til fyrirmyndar. Útilaugin skiptist í 6 tuttuguogfimm metra brautir. Það er líka innilaug og gufa. Kaldi potturinn og heitasti potturinn eru hlið við hlið og svo eru fleiri mismunandi heitir pottar. Ég byrjaði á því að prófa kalda pottinn. Hann var skráðu 8-10°C en mæling gærdagsins sýndi hann yfir 13°C enda hefði ég næstum getað setið endalaust í honum. Sat í 10 mínútur fyrstu ferðina af fjórum. Synti 500 metra á braut eitt en á milli hinna ferðanna í þann kalda prófaði ég heitasta pottinn og gufuna. Ég átti svo í smá erfiðleikum með að taka ekki bók með mér heim af bókasafninu sem er staðsett á sama stað. Sá þarna amk tvær sem mig langaði að lesa en báðar þeirra voru með 14 daga skilafrest og þar að auki er ég búin að lofa mér að sækja ekki fleiri bækur fyrr en ég er búin að lesa síðustu bókina af Kringlusafninu. Skrapp í "heimsókn" til N1 sonarins sem var á vakt á N1 stöðinni við Gagnveg. Þegar ég var búin að jafna þrýstinginn á dekkjunum sníkti ég smá kaffi. Kvaddi á tólfta tímanum og var komin í stæði fyrir framan hús um hálftólf. Fór í stuttan göngutúr um hverfið áður en ég fór inn. 

1.10.23

Ný laug prófuð í morgun

En ég skrifa aðeins um gærdaginn. Var vöknuð um sjö og rúmum klukkutíma seinna var ég komin í Sundhöllina. Byrjaði á því að setjast í kalda pottinn í rúmar fimm mínútur. Þá fór ég á braut 1 í innilauginni og synti 500metra á rétt rúmum tuttugu mínútur, flestar ferðir á bakinu en 2x25 m á skriðsundi og 3x25 m bringusund. Skellti mér svo í heitasta pottinn og hitti fyrir ritarann í stjórn óháðasafnaðarins og manninn hennar. Tíu mínútum seinna fór ég niður, út og aftur í kalda pottinn. Var ný sest í hann þegar ég tók eftir kunnuglegri konu í heitapottinum hinum megin við útilaugina. Veifaði til hennar og fékk veif til baka. Fimm mínútum síðar var ég svo komin í pottinn til hennar. Áttum gott hálftíma spjall eða rúmlega það áður en hún skellti sér út í laugina en ég dýfði mér smástund í kalda pottinn áður en ég fór inn í sturtu og þvoði mér um hárið. Var komin til esperanto vinkonu minnar um hálfellefu. Við spjölluðum líka mikið saman en lásum líka rúmlega hálfa plaðsíðu í kennslubók á og um esperanto. Kom heim um tólf leytið og fór ekkert út aftur. Horfði á leiki í enska boltanum og sinnti einnig húsverkum sem ekki má skrifa um.