24.12.07

Gleðileg jól!
Ég óska öllum ættingjum, vinum og bloggvinum nær og fjær gleðilegra jóla. Takk fyrir öll innlit og kvitt á bloggið mitt.
Farið vel með ykkur!

17.12.07


- Helgarverkin urðu útundan -

Við skruppum öll í heimsókn í Veghúsin rétt upp úr hádeginu á laugardaginn var. Tvær spenntar systur, sú yngri svo spennt að hún nötraði, og systir mín og mágur tóku á móti okkur. Krakkarnir fjögur fóru strax í leik en aðal tilgangur heimsóknarinnar var að fá Helgu systir til að smella nokkrum myndum af bræðrunum í von um að ná einni góðri til að setja með í einhver jólakort í ár. Þeir voru báðir með sparifötin sín og karatestrákurinn með karatebúninginn sinn og söngfuglinn með kórbúninginn sinn. Hér af ofan er einmitt ein myndin úr syrpunni.

Eftir hádegi í gær fórum við öll í Bæjargilið í árlegan laufabrauðsskurð. Húsbóndinn á heimilinu bauð Davíð fyrst með sér yfir til foreldra sinna til að horfa á Liverpool - Man. Utd. Halló, það er ég sem er Púllarinn á heimilinu en Davíð heldur með Arsenal. Reyndar var það ég sem gaf manninum mínum grænt ljós á að skreppa fyrst að horfa á leikinn því hans verk var aðallega að pressa laufabrauðinn beint úr feitinni. Oddur Smári skar út tvö laufabrauð og Davíð Steinn skar út fimm áður en þeir fóru í tölvuleik með einum frænda sínum. Ég skar út restina af brauðunum okkar sem voru örugglega fleiri en 40 allt í allt þótt það stæði að það væri efni í tuttugu laufabrauð utan á hvorum kassa.

En mér tókst að virkja feðgana áðan í smá af heimilisverkunum sem urðu útundan um helgina. En nú þarf ég líklega að bretta upp ermar og drífa mig í jólakortaskrif...

13.12.07

- Hvert eru dagarnir að flýta sér? -

Tíminn æðir áfram eins og honum sér borgað formúgu fyrir það. Við getum bara reynt að stíga á bremsuna og njóta augnabliksins aðeins og séð svo til hverju framvindur. Ég gerði heiðarlega tilraun til þess að reyna að leika á tímann sl þriðjudagskvöld. Við Davíð hjálpuðumst að við að pakka inn molum og festa á nokkra hringi (daga) fram í tímann á jóladagatali strákanna. Þegar Oddur Smári kom á fætur í gærmorgun stóð hann smá stund fyrir framan dagatalið en sagði svo: -"Mamma, það er ekki ellefti desember í dag!" Úbs, og það var einmitt ég sem festi molana á dagatalið.

Í gær var kórstjóri Drengjakórsins með sitt árlega jólboð heima hjá sér fyrir söngfuglana. Davíð hjálpaði mér við að koma til hans pizzum og sá svo um að sækja Davíð Stein eftir að hafa skutlað mér heim og sótt karatestrákinn á síðustu æfingu ársins. Söngfuglarnir fóru beint frá kórstjóranum niður í Vonarstræti og sungu fyrir Oddfellow. Ég mætti á kóræfingu rétt fyrir hálfátta og hélt að framundan væru bara léttir tveir tímar með smá yfirferð yfir jólasöngva og messusöngva yfir jólin. Æfingin drógst á langinn, hún var ekki beint erfið og mjög skemmtileg en klukkan var orðin tíu áður en við hættum. Fréttum það eftir kórstjóranum að margir kirkjugesta sl. aðventukvöld hefðu ekki tekið eftir neinu athugaverðu við flutninginn á Ave Mariu eftir Nyberg, héldu bara að þetta ætti að vera svona eins og við gerðum það. Skondið, en líklega var það hárrétt hjá organistanum að halda ótrauður áfram í stað þess að byrja upp á nýtt, því þá hefðu allir tekið eftir vandræðaganginum en ekki bara þeir sem til þekkja.

10.12.07

- Hálft grænt belti í höfn hjá Oddi Smára -
og ýmislegt fleira

Við vorum að koma heim úr Þórshamri þar sem Oddur Smári var í gráðun. Þótt hann þyrfti helst að laga sumar stöður og vanda sig heldur meira þá náði hann gráðunni og má fara að nota græna beltið á æfingum. Hann hefur lofað okkur að vinna betur í því sem hann fékk athugasemdir við því karatestrákurinn ætlar að halda ótrauður áfram, þar að auki nýbúinn að fá nýjan búning.

Það var aðventukvöld í Óháðu kirkjunni í gærkvöld. Við áttum að mæta á upphitun og æfingu klukkan sex. Ég var smeik um að verða pínu sein því mig langaði með Davíð að sækja tvíburana en tengdapabbi keyrði á móti okkur og við hittumst við Litlu kaffistofuna upp úr klukkan hálfsex. Ég var samt mætt í kirkjuna næstum því á réttum tíma. Upphitun og æfingar gengu vel fyrir sig en einhvernveginn náðum við að klúðra byrjuninni á aðalnúmeri kórsins, Ave Maria eftir Nyberg. Það var agalega svekkjandi. Við náðum okkur samt á strik og kláruðum þetta vel. Strengja kvartet spilaði nokkur jólalög og einnig undir hjá okkur í "Vakna Símon verðir kalla" og Ein úr sópran, Gulla, söng einsöng, Ave Maria í útsetningu Kaldalóns. Það sem stúlkan syngur vel og áreynslulaust, meira að segja þriggja ára dóttir "tvíburahálfsystur" minnar sat alveg stjörf og hlustaði heilluð á sönginn.

Á laugardagskvöldið hittum við Davíð, frændfólk mitt á maðsölustaðnum Geysir bistro bar sem er í gamla Geysishúsinum við Aðalstræti 2. Við höfðum komið að austan seinni partinn og heldur haskað okkur í bæinn því vildum aðeins ná að slaka á heima og undirbúa okkur undir kvöldið. Við vorum mætt um sjö en vissum það ekki fyrr en hálftíma síðar að ákveðið hafði verið að mæta klukkutíma síðar eða um átta. Við létum það samt ekki skemma fyrir okkur kvöldið og skemmtum okkur ágætlega. Við nenntum samt ekki að fara á neitt skrall á eftir.Um fimm á föstudaginn var skildum við strákana eftir á Bakkanum hjá tengdó og héldum för áfram austur fyrir Hellu á Hótel Rangá en þangað var vinnan hans Davíðs að bjóða okkur í jólahlaðborð með gistingu og morgunmat á hótelinu. Þetta var bara frábært allt saman, kvöldið varð mjög skemmtilegt en þeir síðustu í hópnum voru komnir í ró fyrir eitt. Hittumst svo flest við morgunverðarborðið um tíu morguninn eftir en þó voru tvö þegar farnir þar sem annað þeirra átti að syngja á tónleikum fyrri partinn á laugardaginn.

Að lokum verð ég að segja smávegis frá jólatónleikum DKR sem voru í Hallgrímskirkju á fimmtudagskvöldið var. Kirkjan var hérumbil fullsetin og strákarnir sungu eins og englar allan tímann. Gunnar Guðbjörnsson söng einsöng í fjórum lögum, strákarnir í undirbúnings deildinni komu tvisvar fram og stóðu sig eins og hetjur og síðast en ekki síst þá sungu tuttugu félagar úr
Karlakór Reykjavíkur með strákunum í síðari hluta dagsrkárinna. Verð líka að segja frá að einn kórdrengurinn lék eitt lag á selló og stóð sig frábærlega og tveir aðrir spiluðu á trompeta. Þetta var bara magnað og frábært og yndislegt!!!

4.12.07

- Skrýtin tilfinning -

Ég skilaði tveimur bókum á safnið síðdegis og fór tómhent heim. Hef verið með þessar bækur í tæpa tvo mánuði svo það var alveg kominn tími til að skila þeim. Þessar bækur voru reyndar unglingbækur og voru tvíburarnir að glugga í þær. Furðulegt að vera ekki með neinar safnbækur heima og það er svo langt síðan ástandið var svoleiðis síðast að ég man ekki einu sinni hvenær það var. Ég er samt nokkuð sátt við þetta ástand í bili því það er hreinlega enginn tími til mikils lestur þessa dagana.

2.12.07

- Fyrsti sunnudagur í aðventu -

Þetta er pistill númer 1112 og innan tveggja mánaða rennur upp 5 ára bloggafmæli. Ég er nú ekki búin að vera mjög afkastamikil í skrifunum undanfarið en það er langt því frá að ég sé hætt þessu. Tek bara mislangar pásur inn á milli.

Um klukkan hálftíu í gærmorgun setti ég mig í bakstursstellingar. Þríburinn var kominn og strákarnir þrír voru til að byrja með að skiptast á í tölvunni. Ég hrærði fyrst í jólakúlur sem á svo að kúlast upp í jafnar kúlur og velta upp úr kókosmjöli. Blandan var svo mjúk til að byrja með að ég stakk henni inn í ísskápinn. Ég hafði alveg klikkað á að kaupa smjörlíki svo næst hræði ég í eggjahvítukökur. "Þríburarnir" tóku svo við og settu deigið á plötur. Á meðan hræði í uppskrift sem ég á í fílófaxinu mínu og heita góðar smákökur. Í þeim er smjör, púðursykur og heilhveiti. Um þetta leyti var kominn tími til að taka til hádegishressingu. Þríburinn fór heim og ég skipt afgangnum af lasagnia frá kvöldinu áður á milli feðganna. Davíð skutlaði Oddi á karateæfingu og keypti á hann nýjan búning í leiðinni. Það var sko löngu kominn tími á það. Davíð Steinn skrapp fyrir mig út í Sunnubúð og keypti smjörlíki. Á meðan ég hræði í engiferkökur skipti hann hinu deiginu niður á plötur eftir því sem losnaði úr ofninum. Þetta leit mjög vel út hjá honum en við bakstur þynntust kökurnar heldur mikið út og náðu saman sums staðar. Hlutföllin í uppskriftinni eru eitthvað skrýtin, nema ég hafi ekki mælt þetta nógu nákvæmlega. Oddur var kominn til baka nógu snemma til að skipta engiferdeiginu niður á plötur en svo fóru strákarnir út. Síðasta platan kom úr ofninum um hálfþrjú. Ákváðum að kúla upp jólakúlurnar um kvöldið. Þegar strákarnir komu inn bauð ég þeim upp á mjólk og smákökur.

Ætluðum að kaupa spariskó á strákana seinni partinn í gær. Ákváðum að kíkja aðeins á Hagkaup í Holtagörðum. Strákunum leist ekkert á skóna sem þar voru í boði svo við urðum að fresta skókaupunum aðeins. Við Davíð hjálpuðumst að við að kúla upp jólakúlurnar í gærkvöldi og vorum ekki lengi að því þótt deigið væri mjög hart í byrjun. Þær urðu misstórar en mér skilst að þær bragist alveg jafnvel.

Í dag á svo m.a. að vinna í því að setja upp engilinn í herbergisgluggann, sem við notum sem aðventuljós. Það tekur svo að setja hann upp en við ætlum að nota tækifærið og þrífa gluggana í íbúðinni í leiðinni.

Góða aðventu!

29.11.07

- Umhleypingar -

Það er eins og hann geti ekki ákveðið sig hvort á að skella á harður eða mildur vetur. Þótt það hafi verið nokkuð milt í veðri framan af vikunni hefur færðin verið háskaleg, amk þeim sem eru meira gangandi. Reyndar er ég ekki lengur í þeim hópi en ég fór þó fótgangandi héðan og upp í Keiluhöll sl. þriðjudagskvöld. Það var síður en svo auðveld ganga en ég slapp við að detta og hafði mjög gott af þessari göngu (báðar leiðir). Á leiðinni í keiluna lenti ég í smá ógöngum, var hálfnuð upp að Perlu áður en ég valdi réttari leið sem var reyndar dimm og drungaleg og kom ég beint ofan á Keiluhöllina. Ég komst samt niður án þess að snúa við. Spilaði tvær umferðir í keilu með hressum vinnufélögum sem höfðu misjafnan kaststíl og sá skrítnasti var ekki endilega sá sem gaf minnst af sér, þvert á móti varð sá kastari frekar ofarlega í báðum umferðum. Fór svo aðeins aðra leið heim og tókst að forðast svellið að mestu.

Í gærkvöldi var kóræfing og æfðum við fyrir aðventukvöldið þann 9. n.k. Aðeins vantað tvo í kórinn sem telur nú alls 18 manns. Fyrr um daginn var söngfuglinn að æfa fyrir jólatónleikana með sínum kór. Þeir tónleikar verða 6. des. n.k. klukkan 20:00 í Hallgrímskirkju. (Um að gera að auglýsa svona óbeint á ská!) Nú svo ég ég haldi áfram þá er geisladiskur DKR Vængir komnir út og hægt að nálgast hann í Guðbrandsstofu í Hallgrímskirkju eða kaupa af kórfélögum. Það verður líka hægt að kaupa hann á jólatónleikunum en þá er opinber útgáfudagur disksins.

Jæja, tíminn er floginn frá mér enn eina ferðina. Ekki nóg með að vikan sé langt komin heldur er mánuðurinn að klárast og aðventan alveg að byrja. Farið vel með ykkur!

26.11.07

- Gosi, messa, Gosi -
og fleira

Um hádegisbil á föstudaginn var fékk ég mig lausa úr vinnu til að skreppa á ráðstefnu á vegum jafnréttisstofu. Ráðstefnan var haldin í Sunnusal á Hótel Sögu og var sett af Jóhönnu Sigurðardóttur klukkan eitt og stóð yfir til klukkan fjögur. Fundastjóri var Mörður Árnason. Þarna voru nokkrir áhugaverðir fyrirlestrar og seinasta hálftímann voru pallborðsumræður.

Rétt fyrir hálfsex, sama dag, löbbuðum við mæðginin út í skóla en bekkurinn hans Davíðs Steins var um það bil að fara að sýna leikritið Gosa fyrir pabba, mömmur, afa, ömmur, systkyni og frændsystkyni. Strákurinn var á nippinu að fá hálsbólgu og kvef. Hann lék Jakob smið og var með einsöng snemma í leikritinu. Hann stóð sig mjög vel, sem og öll hans bekkjarsystkyni og var þetta hin besta skemmtun.

Ég skrapp yfir til esperanto-vinkonum minnar á laugardagsmorguninn. Davíð skutlaði karatestráknum á æfingu og ætlaði að kaupa á hann nýjan búning, en það var enginn við til að afgreiða. Ekki heldur þegar ég koma að sækja strákinn. Davíð tók þátt í pílumóti á vegum KR frá því um hádegisbil, komst upp úr riðlinum en var sleginn út í 16 manna úrslitum. Klukkan var langt gengin í níu þegar hann kom heim.


Í gærmorgun var maðurinn minn kallaður út vegna e-s konar bilunar. Ég var farin á æfingu og upphitun fyrir messu áður en hann kom aftur. Það var svokölluð þjóðlagamessa í gær og var leikið undir á píanó, bassagítar og nokkrar eggjahristur. Þetta gekk bara vel og var stórskemmtilegt.

Um hálfsex í kvöld var svo leiksýning í bekknum hans Odds Smára. Leikritið var um Gosa
en líkt og í leikritinu sl. föstudag fléttuðust margar persónur úr öðrum leikritum og ævintýrum inn í. Karíus og Baktus, Ronja ræningjadóttir, Birkir og nokkrir rassálfar, Dóróthea, tveir vinir úr Móglí (Balí og hinn), slatti af perónum úr leikfangasögu ("Toy-story"), og fleiri persónur. Oddur lék þann sem plataði Gosa í leikhúsið og einnig grís. Hann og bekkjarfélaga hans stóðu sig virkilega vel og var alveg jafn gaman á þeirra sýningu eins og sýningunni á föstudaginn. Það er verst að mig langar eiginlega að fara á þriðju leiksýninguna sem verður á morgun en þá er "þríburinn" og hans bekkjarfélagar að sýna leikritið um Gosa.

Ég skrapp svo yfir til tvíburahálfsystur minnar og bjó til nokkur jólakort milli níu og ellefu í kvöld. Er alveg að verða komin með nóg fyrir jólakort þessa árs, komin með um 50 stykki og á einnig örfá saumuð jólakort

20.11.07

- Stopul skrif -

Ég er skelfilega léleg við skrifin þessa dagana. Þá sjaldan sem ég hef tíma þá kemur andinn ekki yfir mig. Reyndar tók ég því nokkuð rólega sl. sunnudag. Ætlaði að nýta daginn vel í heimilið en tók upp á því að grípa í eina af Arnaldsbókunum hans Davíðs; Grafarþögn og gat ekki látið hana frá mér fyrr en ég var búin með bókina. Jú, jú, heimilið fékk sinn skerf af athygli en alls ekki alla þá sem ég hafði hugsað mér. Var sennilega í of víðum ermum. Tók mig svo til seinni partinn og lagði í tvo pizzabotna sem ég skipti svo niður til helminga þegar komið var að því að fletja út þannig að hver og einn fjölskyldumeðlimur fékk að setja saman sína eigin pizzu. Var með tvær tegundir af botnum, notaði heilhveiti og létt ab-mjólk í annan og gróft spelt og volgt vatn í hinn. Ég bjó til mína pizzu úr helmingnum af síðarnefnda botninum og hafði túnfisk, rækjur, lauk og sveppi en sleppti alveg ostinum. Hún var samt svo matarmikil að ég á enn eftir einn fjórða af henni (borðaði einn fjórða í gærkvöldi).

Fyrri partinn á laugardaginn var vorum við öll fjölskyldan í Laugardalshöllinni. Strákarnir voru að keppa í frjálsum. Það var bara ágætt en ég skil samt ekki hvernig þeim datt í hug að skrá sig til keppni í hástökki því þeir felldu báðir byrjunarhæðina. En þeir áttu að skrá sig í þrennt eða allar fimm greinarnar (hástökk, kúluvarp, þrístökk, 60m og 800m) og slepptu þrístökki og 800m. Karatestrákurinn mætti svo beint á æfingu úr höllinni.

12.11.07

- Margt var brallað um helgina -

Á meðan feðgarnir og nafnarnir skemmtu sér konunglega í æfingabúðum byrjaði helgin á rólegu nótunum hjá okkur mæðginunum. Hjálpuðumst að við að finna til matinn á föstudagskvöldið og fengum okkur smá popp með "Heillanornunum". Ég tók daginn nokkuð snemma á laugardagsmorguninn og undirbjó tiltekt og þrif. Skrapp aðeins til esperanto-vinkonu minnar stuttu fyrir hádegi og karatestrákurinn lofaði að fara fótgangandi á æfingu. Hann fékk að ráða framhaldinu af deginum. Við skruppum í sund og svo í heimsókn til frændfólks. Stráksi komst í mjög skemmtilegan tölvuleik með frænda sínum og ætlaði helst ekki að vilja koma heim. Við kvöddum þó um sex og versluðum inn á heimleiðinni. Eftir kvöldmat og Spaugstofu skruppum við út í rúmlega klukkutíma kerta- og kaffisöluleiðangur. Það gekk ágætlega.

Ákvað það á síðustu stundu í gærmorgun að fara í messu í Hallgrímskirkju því drengjakórinn var að syngja. Þeir komu beint úr æfingabúðum og stóðu sig vel að vanda við að leiða sönginn í messunni. Var mætt í óháðu kirkjuna um eitt til að æfa fyrir messu þar sem látinna var minnst. Kórstjórinn var búinn að breyta sálmunum frá því á æfingunni en engu að síður sungum við "Ave Maria" eftir Nyberg sem stólvers. Ég hafði orð á því stuttu áður en messan byrjaði að við skyldum bara hugsa til raddþjálfans og senda henni barkakýlin okkar eins og við gerðum fyrir hana á sl. æfingu. Allt small saman í messunni. Uþb 80 kirkjugestir voru mættir og þegar við sungum stólversið þá hljómaði það svo vel að það sáust tár á hvarmi hér og þar. Gaman að þetta skyldi allt ganga upp og það þótt við værum að syngja einn alveg nýjan sálm við messuna, þ.e. sálm sem ég minnist ekki eftir að hafa æft áður.

Á meðan þessu fór fram fóru feðgarnir í fjallgöngu upp á Úlfarsfell með mörgum af bekkjarfélögum Davíðs Steins og foreldrum þeirra. Þeir komu heim um hálffimm og voru þeir mjög ánægðir með klifrið. Um sexleytið skruppum við á Nings og mættum í Borgarleikhúsið nokkru fyrir átta á Laddi-6tugur. Við skemmtum okkur öll á sýningunni sem með hléi stóð í tvo og hálfan tíma.

9.11.07

- Aftur kominn föstudagur -

Þessi vika er senn liðin og hún sem var að byrja. Hvernig stendur á þessum hraða?

Einn mágur minn bauð mér á starfsmannaútsölu í Hagkaup í Smáralindinni á þriðjudagskvöldið var. 40% afsláttur var af fatnaði, 20% af matvöru og 15% af ýmsum sérvörum. Ég þáði að sjálfsögðu gott boð og nýtti mér það óspart. Sjálfsagt hefði ég geta nýtt það betur ef ég hefði beðið tvíburana um að taka sér frí úr frjálsum fyrr um daginn til að máta skó og fleira. En ég keypti nokkrar jólagjafir, matvörur og einhverjar hinseginn gjafir líka. Takk fyrir þetta boð, Tommi minn!


Á miðvikudagskvöldið mætti Laufey raddþjálfi á kóræfingu. Fyrstir í röðinni voru bassarnir og á meðan æfðum við hin aðeins fyrir messu n.k. sunnudag. Við gleymdum tímanum aðeins og allt í einu var kominn tími til að fá sér kaffi. Eftir kaffi fóru tenórarnir til raddþjálfans (ég var ekki með í þeim hópi...). Þegar þeir voru búnir var spurt hvort ekki mætti þjálfa allan kórinn saman, frekar heldur en að taka amk klukkutíma í viðbót (2x30) fyrir kvenraddirnar. Okkur fannst það bara tilvalið og við sungum fyrir hana Ave Maria eftir Nyberg og þegar hún var búin að taka okkur smávegis í gegn var hún farin að fá gæsahúð því við hljómuðum svo fínt saman.

Um sex í gær mættum við Davíð Steinn í Bæjarbíó í Hafnarfirði (hann tók sér frí úr frjálsum) því honum sem þátttakanada Frostrósa-verkefnisins í fyrra var boðið að koma og sjá frumsýningu myndbands sem gert var um tónleikana. Það var bara gaman og ég held að þeir eigi von á því að fá disk frá FROST fyrir jólin.

Núna eru feðgarnir og nafnarnir komnir austur í Hlíðardalsskóla þar sem drengjakórinn verður í æfingabúðum fram á sunnudagsmorgunn. Við mæðginin sem erum eftir heima ætlum að reyna að selja fleiri kerti eða kaffi um helgina en gerum örugglega eitthvað meira en það. Oddur Smári fer reyndar á karateæfingu um hádegisbil á morgun en við finnum okkur tíma í dundur og sölu.

6.11.07

- Fjórir frídagar liðnir -

Strákarnir voru í vetrarfríi frá 1. nóvember og þar til í morgun að bjöllurnar gullu í skólanum á ný. Á föstudaginn var ég komin heim fljótlega upp úr hádeginu. Stefnan var að gera allt klárt í að yfirgefa borgina við fyrsta tækifæri og bruna yfir fjallið og í sumarbústað nokkurn á sömu slóðum og við höfum farið tvisvar sinnum áður á árinu, en samt höfum við aldrei prófað akkúrat þennan bústað. Davíð skilaði sér heim upp úr þrjú og þá var nokkurn veginn allt að verða klárt. Hlóðum bílinn og drifum okkur af stað. Komum við í Bónus í Hveragerði á leiðinni. Þegar við mættum í bústaðinn biðu fyrstu gestirnir eftir okkur. Dótinu var hent inn og tekið var til við að finna til mat ofan í svöng börn og fullorðna. Fleiri gestir bættust við þegar leið á kvöldið. Nóg pláss var í bústaðnum, þrjú herbergi og kojur í tveimur þeirra og þar að auki heilt svefnloft uppi. Tveir af gestunum laumuðu sér út um sjö á laugardagsmorguninn og sáust ekki aftur fyrr en undir kvöld þá búnir að veiða heilar tvær rjúpur. Ég fór í smá gönguferð með krökkunum fjórum og í þeirri ferð hittum við á bekkjarkennara annars tvíburans. Börnin og amman fóru svo í heita pottinn í smá stund fyrir kvöldmat. Helgin leið frekar fljótt við ýmiskonar dútl og dundur. Gestirnir hurfu á braut um miðjan dag á sunnudag en við lokuðum á eftir okkur á hádegi í gær og skruppum á Selfoss og á Bakkann á heimleiðinni. Og svo var kortagerð í Hafnarfirðinum í gærkvöldi og ég bjó til ellefu stykki á tveimur tímum.

2.11.07

- Afmæli og vetrarfrí -

Helga systir er árinu eldri í dag. Litla systir mín sem eitt árið á unglingsárunum óx mér yfir höfuð en ég náði að jafna það með tíð og tíma með því að vaxa 1-2 cm á ári alveg fram að tvítugu.

Annars er vetrarfrí í mörgum skólum þessa dagana. Í gær voru tvíburarnir beðnir um að fara og láta klippa sig, fengu 1500 kr. hvort (voru búnir að fá annað eins rétt fyrir síðustu helgi). Hárflikk er hérna næst okkur en þar kostar 2400 kr. á haus. Oddur Smári var að spá í að fara heim og ná í meiri pening úr sínu veski en hætti við það. Davíð Steinn fór á Hárhornið
til tengdapabba systur minnar, komst strax að og fékk mun ódýrari klippingu. Sá óklippti var með alls konar fyrirslátt því hann einfaldlega nennti ekki að labba þessa leið. Hann á samt einn möguleika eftir, þ.e. pabbi hans á líka eftir að láta snyrta á sér hárið...

Góða helgi og farið vel með ykkur!

1.11.07

- Nýr mánuður -

Ég er viss um að tíminn er eitthvað að stríða mér. Það bara stenst ekki að október sé búinn, það sem var september fyrir ca tveimur vikum síðan...

Fyrstu fréttirnar eru þær að í gær mættu þrír tenórar á kóræfingu og tveir nýjir bassar svo ég mátti syngja í minni rödd, altinum, aftur. Æfingin gekk þokkalega en það á eftir að koma í ljós hvernig nýju strákunum reiðir af, þ.e. hvernig þeim líkar félagsskapurinn og efnið. Vona bara að það gangi upp.

Annars er alltaf jafn mikið að gera hjá mér, svo mikið að ég hef ekki tíma til að lesa, sem er leitt. Það á vonandi eftir að lagast e-n tímann. Reyndar hef ég varla tíma til að sakna þess að lesa ekki, amk ekki þessa dagana, hvað sem seinna verður. Svo kannski er best að vera ekkert að kvarta. Njóta bara nú-sins (augnabliksins), vitandi það að allt er breytingum háð og ekkert ástand er viðvarandi nema maður vilji það 100% sjálfur og þá á það jafnvel ekki rétt á sér. Hmm, þetta var kannski of djúpt fyrir mig. Ég tek líka eftir því að það eru ekki að fæðast nein ljóð eða stökur sem segir mér að bráðum sé kominn tími til að setjast niður, slaka á og hvíla hugann.

Farið vel með ykkur!

30.10.07

- Vetur kemur og vetur fer -

Vetrardekkin eru enn í skottinu. Við hjónin mættum í foreldraviðtöl með strákunum um og upp úr átta í morgun. Davíð var með jarðaberja-rjómatertu með sér sem hann útbjó í gærkvöldi og var hún miklu flottari en tertan sem ég útbjó handa honum sl. sunnudag. Tertan var sett á hlaðborð handa kennurum og starfsfólki Hlíðaskóla. Viðtölin gengu vel fyrir sig og eru umsjónakennarar báðir mjög ánægðir með hvað vel gengur. Strákarnir fóru beint heim eftir viðtalið en ég fór á Fíat og lúsaðist framhjá dekkjaverkstæðinu sem ég fer alltaf á. Biðröðin náði eiginlega hringinn í kringum húsið svo ég ákvað að vera ekkert að fara í röðina. Þegar kom að því að skutla "þríburunum" í frjálsar var komið allt annað veður og fínasta færð. Dreif mig því með kerti og kaffi til vinkonu minnar í Árbæjarhverfinu og hitti á þrjá ættliði heima. Stoppaði í góðan klukkutíma.

29.10.07

- Nokkur atriði -

Hitti esperanto-vinkonu mína á laugardagsmorguninn. Það gekk ágætlega þótt við notuðum eitthvað af tímanum til að spjalla saman á íslensku.
Við mæðgin skruppum í sund eftir hádegi og svo að redda skókössum fyrir verkefnið "Jól í skókassa" og í leiðinni keyptum við afmælisgjöf í þremur pörtum handa Davíð. Strákarnir skruppu svo aðeins út í kertasöluleiðangur í nágrenninu.
Um kvöldið komu tveir æskufélagar Davíðs og hituðu upp fyrir "Fyrsta kossinn". Ég skutlaði þeim í Laugardalshöllina rétt fyrir átta og skrapp smá stund til einnar vinkonu á eftir. áður en tvíburarnir fóru að sofa földum við afmælisgjafirnar og undirbjuggum smá ratleik.
Í gærmorgun þeytti ég rjóma, blandaði jarðaberjum við og setti á milli og ofan á tvo kókosbotna. Oddur Smári tætti niður fyrir innan úr heilhveitibrauði og þótt ég ætti engin egg til að harðsjóða bjó ég til brauðtertuhring. Notaði túnfisk í staðinn fyrir eggin. Um tólf, þegar afmælisbarnið var að rumska dreif ég mig upp í kirkju til að hita upp og æfa fyrir messu. Þrír söngpartar úr messunni voru í röddum og söng ég tenórpartinn með tenórnum. Þetta gekk bara vel fyrir sig og var ég kölluð tenórína eftir messuna.
Er heim kom var Davíð búinn að finna tvær af gjöfunum og ég lét hann fá síðustu vísbendinguna áður en ég bjó til afmæliskaffið og setti terturnar á borð. Ég smakkaði smá á veitingunum bæði til að vera með og athuga hvort "baksturinn" hefði heppnast. Á eftir skruppu tvíburarnir í smá kerta- og kaffisöluleiðangur. Ég fór í göngu með dagblöð og fernur í gáma á meðan, skóf af Fíatinum og setti vetrardekkin í skottið svo það verði hægt að skipta þegar ég kemst að með bílinn.

25.10.07

- Breytt raddsvið -
eða þannig

Á kóræfingu í gærkvöldi voru aðeins mættir einn úr hvorri karlarödd. Kórstjórinn ákvað að prófa hvort ekki væri hægt að fá e-a úr altinum til að styrkja tenórinn. Sú sem er með dimmustu röddina var ekki til í að prófa og þar sem ég syng neðri altinn með henni spurði hann mig. Ég sló til og breyttist hið snarasta í fremur kvenlegan tenór. Þetta gekk alveg þokkalega upp en mér fannst þetta samt frekar skrýtið. Sem betur fer hef ég aðgang að orgeli heima hjá mér þannig að ég get rennt yfir rödduðu lögin og lært tenórinn betur fyrir næstu messu sem er NB nk sunnudag. Hvernig skyldi það nú ganga?

22.10.07

Your Life is 69% Perfect

Your life is pretty darn perfect. You don't have much to complain about.
Of course, your life is occasionally less than perfect. But you're usually too happy to notice.

20.10.07

- Á frænkuvaktinni -
aðeins hálfri þó


Systir mín og mágur eru í "Búddapest" eins og Bríet kemst svo skemmtilega að orði. Hulda er hjá vinkonu og Bríet kom til okkar seinni partinn í gær eftir að hafa verið hjá Lilju og Kollu síðan seinni partinn á fimmtudaginn. Fyrr í vikunni hafði frænka mín dottið það illa á leikskólanum að hún var send með sjúkrabíl á slysó þar sem hún fékk 9 spor í hökuna. Plásturinn og sárið mátti ekki blotna fyrstu dagana þannig að hún hefur ekki farið í leikskólann eftir slysið. Fékk t.d. að vera með Kollu í útkeyrslu í allan gær. Við borðuðum hér í gærkvöldi og fórum svo upp í Grafarvoginn með sængur og svefnpoka, og sú stutta fékk að sofna í mömmurúmi en var færð upp í sitt herbergi síðar um kvöldið.

Bríet var vöknuð fyrir sjö í morgun og var að skoða bækur í stólnum sínum þegar ég kíkti á hana. Hún vildi fá mömmu sína en fékkst til að kúra sig aftur niður í smá stund. Bjó til hafragraut handa henni og feðgunum og svo kom hún með okkur í kertapökkun í kirkjunni. Því næst var Oddi skutlað á karateæfingu. Í millitíðinni fengum við okkur að borða og tókum með handa karatestráknum. Eftir æfinguna hans fóru feðgarnir heim en ég var með það á hreinu að Bríet ætti að mæta í ballettíma kl. 13:40 svo við frænkurnar drifum okkur. Hmmm, tíminn var víst kl. 14:40 en hún fékk að fara með eldri stelpum í tíma kl. tvö í þetta sinn. Kennarinn bauð það að fyrra bragði. Fín redding en ég skil enn ekki hvernig 13:40 tíminn var svona fastur í mér???

Eftir ballettímann hjálpaði skellibjallan okkur hjónum að þrífa alla sameingina, þ.e. við ryksuguðum og skúruðum en hún stóð og skipaði Davíð fyrir. Það er verst að ég man ekki nákvæmlega hvernig hún kjaftaði hann áfram en það var eins og e-r fullorðinn væri að segja henni sjálfri. "Þú mátt ekki tala, bara ég. Þú verður að vanda þig, stelpa..." og fleira í þessum dúr. Ég held að Davíð hafi átt erfitt með að halda andlitinu og hlægja ekki að stelpunni, hún var eitthvað svo fyndin. En ég væri alveg til í að fá hana til að ráðskast svona aftur seinna.

16.10.07

- Alltaf á sprettinum -
ég verð að fara að róa mig aðeins, eða þannig
Ég bauð samstarfsstúlku far eftir vinnu í gær. Hún kom með mér að sækja strákana sem voru að fara í frjálsar. Ég var reyndar svo utan við mig að ég beygði inn einni götu snemma og lagði örstutta stund fyrir framan Mávahlíð 21, áður en ég áttaði mig á því að það myndu engir strákar koma inn í bílinn þarna. Við hlógum mikið að þessu. Eftir að hafa skutlað strákunum og hleypt samstarfsstúlkunni út fór ég í Ís-spor og lét laga merkin (þ.e. nælurnar sem voru bilaðar). Söngfuglinn fór á hjóli á kóræfingu svo ég gat aðeins stoppað heima áður en kominn var tími til að fara á auka-stjórnarfund. Tók silfurmerkin tvö með í leiðinni. Annar silfurhafinn var mættur. Fundurinn hófst um sex og auk stjórnarmeðlima (þ.e. 5 af 6) var cd-nefndin mætt sem og fyrrverandi formaður foreldrafélagsins. Það var nóg að gera því það er alveg að koma að því að senda geisladiskinn út til fjölföldunar. Þegar kóræfingin var búin mættu kórstjóri og undirleikari á svæðið og þá var aðeins farið yfir það sem er framundan, og það er nóg um að vera á næstunni.
Kom heim upp úr hálfátta. Feðgarnir voru að borða afganginn af pizzunum frá því á laugardaginn. Ég fékk afgang af pizzu með rækjum, sveppum og ferskjum án osts, frekar gott!!! Botnarnir voru úr heilhveiti og grófu spelti, lyftidufti frá Sollu, smá hafsalti og sumir hnoðaðir með volgu vatn og aðrir með ab-mjólk.
Svo skellti ég mér til tvíburahálfsystur minnar og byrjaði loksins að föndra jólakortin í ár, þ.e. þau sem ekki eru/verða saumuð og mér tókst að búa til heil sjö stykki, enda fékk ég góða aðstoð frá dóttur hennar. Sú var áhugasöm og á einhvern tímann eftir að verða mjög góð í þessu. Sennilega næ ég að föndra öll kort í tíma þótt ég hafi ekki byrjað á föndrinu seinni partinn í sumar eða í haustbyrjun eins og svo oft áður.

14.10.07

- Margt var í gangi -

Það er óhætt að segja það að helgin hafi verið full af uppákomum. Mér tókst að virkja feðgana með mér í smá helgartiltekt og þrif í gærmorgun. Davíð skutlaði Oddi á karateæfingu rétt fyrir tólf og fór sjálfur í vinnuna. Davíð Steinn kom að versla með mér um sama leyti. Ég náði að fylgjast með síðustu tíu mínútum af æfingu karatestráksins. Hann sleppti sturtunni á eftir en við mæðgin vorum á leið í sund. Fengum okkur smá hressingu í bílnum og vorum komin ofan í laug um hálftvö. Þegar ég var búin með sundsprettinn minn hitti ég strákana við vatnsrennibrautina. Áður en ég náði að segja þeim að ég ætlaði að pottormast fylltist allt af sápu. En einhverjir prakkarar höfðu sett slatta af sápu í rennibrautina. Þetta varð til þess að rennibrautinni var lokað um stund.

Við komum heim um hálffjögur. Fengum okkur að drekka og svo setti ég í fjóra pizzabotna. Þessa botna tókum við með okkur til Helgu systur þar sem þeir voru flattir út, forbakaðir og svo búnar til fjórar girnilega pizzur með mismunandi áleggi. Tvíburarnir, Hulda og Davíð hjálpuðu til við að búa til þessar gómsætu pizzur. Ingvi var á gæsaskytteríi svo hann missti af þessu. Hans beið þó væn pizzusneið er hann skilaði sér heim seinna um kvöldið en við í Drápuhlíðinni fengum annað eins með okkur heim.

Um tíu í morgun mættum við Davíð Steinn upp í Hallgrímskirkju, hann til að æfa og ég til að aðstoða við undirbúning heiðursverðlauna afhendingu og smá veislu eftir messu. Drengjakórinn og 6 drengir úr undirbúningsdeildinni sungu við messuna og fermingabörn tóku einnig virkan þátt í messunni. Þetta var mjög notaleg stund og strax eftir messu söfnuðust aðstandendur drengjanna saman innst í kirkjunni (á bekkina næst altarinu). Fyrst fór fram undirritun samnings milli Karlakórs Reykjavíkur og drengjakórsins um það að þeir eldri ætla að gerast verndarar þeirra yngri, svona nokkurs konar stóri bróðir. Þetta verður stórsnallt fyrirkomulag. Blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins var á staðnum og tók myndir í bak og fyrir. Því næst tók nýr formaður foreldrafélags DKR til máls og sagði nokkur orð áður en hún las upp þá 22 drengi sem fengu gull, silfur og brons eftir því hversu lengi þeir hafa verið í kórnum. Þeir komu fram einn og einn og fengu næld í sig viðeigandi merki. Hvorki fleiri né færri en 13 drengir fengu brons en það var aðeins einn gulldrengur í hópnum. Davíð Steinn er að hefja sitt fjórða starfsár með kórnum svo hann var einn af þeim átta sem fengu silfur.

Rúmlega eitt var ég mætt í kirkju Óháða safnaðarins til að syngja með kórnum "mínum". Tvennt af því sem sungið var átti að syngja í röddum og í öðru verkinu skiptist alt-röddin upp í tvennt í hluta af sálminum. Sú sem átti að syngja neðri altinn með mér treysti sér ekki til að syngja röddina. Hún var sem betur fer búin að láta mig vita af því fyrirfram svo ég varð bara að sperra eyrun og syngja einsöng innan um allar hinar raddirnar. 1. erindið gekk alveg ágætlega, 2. erindið rétt slapp og sem betur fer hafði kórstjórinn sagt að við ættum að syngja 3. erindið einraddað. Reyndar var ég næstum því byrjuð að radda það en held að enginn hafi tekið eftir því. hjálpuðu til við þetta.

10.10.07

- Dagarnir þjóta -

En það er svo sem alls ekki nýtt. Við fórum þrjú í sund rétt fyrir hádegi á sunnudag, við hjónin og annar tvíburinn, hinn hætti við og skrapp til "þríburans". Eftir baðið fundum við strákinn og skruppum austur á Hellu. Ég var með handavinnuna með mér og við gáfum okkur góðan tíma. Besta lambinu var slátrað í tilefni heimsóknarinnar og pabbi gaf tengdasyninum einn bjór fyrir matinn. Því miður gaf ég mér ekki tíma til að skjótast aðeins á elliheimilið, vona bara að það sé stutt í næstu austurferð.

Á mánudagsmorguninn fór Fíatinn á verkstæði og bað ég um að hann yrði vandlega yfirfarinn svo hann kæmist í gegnum skoðun. Davið skutlaði mér í vinnuna og lofaði að sjá um að koma "þríburunum" í frjálsar. Klukkan hálffjögur var hringt af verkstæðinu og var bíllinn tilbúinn. Enn og aftur kom Davíð til bjargar og það þótt hann yrði að sækja annan tvíbbann einn og sér eftir að hafa skutlaði tveimur og náð í mig. Tvíbbinn var nefnilega ekki kominn heim úr skólanum rétt fyrir fjögur, þ.e. hann fór heim með e-m að læra með honum. Það kom reyndar í ljós að hann hafði farið heim með bekkjarsystur að læra með henni. Miðaði við að vera kominn heim áður en klukkan yrði korter yfir. En þetta tókst allt saman og ég mætti aðeins örfáum mínútum of seint á stjórnarfund eftir þetta brölt.

Um kvöldið skrapp ég á Friendtex-kynninu hjá einni vinkonu minni. Hef ekki misst af kynningu hjá henni í mörg ár og alltaf finn ég eitthvað sem ég ekki stenst. Vil meina að í þetta skipti hafi ég kunnað mér hóf og verslað skynsamlega, en það er bara ég sjálf og enginn annar sem dæmir.

Í gærkvöldi sinntum við hjónin heimasíðumálum fyrir DKR. Ég fór þó snemma að sofa því ég tók sexvakt í morgun. Um tvö var ég laus og kom mörgu í verk. M.a. er Fíat búinn að fá skoðun!

6.10.07

- Andlaus og þó -


Ég var eiginlega á leiðinni í sund með tvíbbunum en annar er e-s staðar úti símalaus svo ég næ ekki í hann. Fer ekki neitt á meðan. Skrapp til esperantovinkonu minnar í morgun. Það var gott að bregða undir sig betri fætinum. Þetta er að vísu ekki langt en ég fékk smá súrefni og örlitla hreyfingu. Og við nýttum tímann nokkuð vel.

Fíatinn er að fara á verkstæði í næstu viku. Það þarf að huga að ýmsu og yfirfara bílinn áður en ég fer með hann í skoðun. Veit ekkert hvað þetta tekur langan tíma en á meðan ég verð bíllaus verð ég að biðja Davíð að skutlast með "þríburana" í frjálsar.

Við hjónin skelltum okkur í draugagöngu um miðbæinn í gærkvöldi. Það var svolítið blautt en mér fannst gaman. Það var að vísu ekkert draugalegt við þessa göngu nema það var talað um þá og leiðsögumaðurinn er með próf í sögu og vissi ýmislegt. Á eftir fórum við á Rossopomodoro á eftir þar sem ég fékk gott sallat, Pullastrella! Við komum heim um miðnættið og tóku bræðurnir á móti okkur. Þeir uppástóðu það að þeim hefði verið sagt að þeir mættu vaka þar til við kæmum heim. Eins gott að við vorum ekki seinna á ferðinni, he, he.

4.10.07

- Hljómur eftir lykt eða litum -

Sérstakur raddþjálfi var á kóræfingunni í gærkvöldi og mun hún mæta og temja raddir okkar 1. miðvikudagskvöld í mánuði. Hún tekur eina rödd í einu í 40 mínútur í senn og í gærkvöldi æfðum við mestmegnis að láta ú-o-ú hljóma. Rétt í lokin sungum við "annað" erindi, a-o-a, og svo var "viðlag" ú-o-a-o+ú. En aðallega vorum við að tóna ú-o-ú. Mér varð ekki um sel þegar við áttum að fara að hugsa um og/eða ímynda okkur ákveðnar lyktir s.s. rósailm eða fjósalykt (n.b. úr fjósi á sólskinsdegi þar sem allir gluggar og dyr eru lokaðar). Hmm, og ég sem veit ekki hvað það er að finna lykt. Eftir nokkra "lyktartóna" viðurkenndi ég að ég gæti ekki ímyndað mér hvernig þessi eða hin lyktin væri. Það var í góðu lagi. Raddþjálfinn bað okkur þá um að loka augunum og ímynda okkur liti á meðan við sungum/tónuðum 1. erindi, aftur og aftur. Og viti menn hljómurinn breyttist eftir því hvort maður hugsaði um hvítan, svartan, djúpbláan eða grasgrænan. Hugsanlega gæti ég líka ímyndað mér að ég myndi hljóma mismunandi eftir því hvaða tilfinningar ég hugsaði um. En allt um það þá fannst mér þessi tími frábær. Ég mætti örlítið uppgefin á æfingu eftir að hafa verið eins og jó-jó á milli kirkju, heimilis og karate, en ég kom alveg endurnærð heim eftir kóræfingu, upp úr hálftíu í gærkvöldi.

2.10.07

- Nýr mánuður -

Ég er viss um að þegar ég átta mig á því að það er kominn október þá verðu ekki langt í næsta mánuð. Þeir eru alltaf handan við hornið, mánuðirnir sem framundan eru. Nýliðin helgi var fín í alla staði þótt ýmislegt hefði orðið útundan sem ég hafði stefnt að því að gera. Kannski spennti ég bogann of hátt? En það er ekkert til að hafa áhyggjur af. Ég komst yfir það sem lá mest á, með góðri aðstoð mannsins míns. Við vorum að vinna í heimasíðu drengjakórsins, að málefnum sem aðeins verða sýnileg meðlimum og foreldrafélaginu, við fórum á leikinn (Valur-HK eins og fram hefur komið áður) og við skruppum á Bakkann seinni partinn á sunnudaginn.

Vikuáætlunin er ekki enn komin upp hjá mér en það strandar á því að matseðill skólans fyrir þennan mánuð er ekki kominn á netið. Ég finn að svona áætlun hefur góð áhrif á vinnuskipulag heimilisins. Strákarnir fara eftir því sem stendur á áætluninni og finnst afar þægilegt að vita það fyrirfram hvað er í matinn. Að vísu skrifa ég einungis fiskur á áætlunina þegar ég ætla að hafa fisk í matinn, sama hvort það er soðin ýsa eða lax í ofni en það þarf líka að vera óvissufaktor í þessu.


29.9.07

- STRÁKARNIR HÖFÐU ÞAÐ, OLE! -

JÁ, við fórum á völlinn og nei röddin er samt ekki farin. Við settumst næstum því HK megin og þar með gat ég haldið mig á mottunni, svona nokkurn veginn. En ég var frekar stressuð síðustu mínúturnar, eiginlega allan síðari hálfleikinn.

Annasamri viku er senn að ljúka. Enn eitt árið varð Davíð að taka það að sér að mæta á haustfund í skólanum því fundur 6. árgangsins var settur á sama tíma og síðasti stjórnarfundur foreldrafélags DKR þar sem aðalfundur var undirbúinn. Aðalfundurinn var svo sl. miðvikudag. Þar gaf fráfarandi formaður skýrslu um síðast liðið starfsár, ég gerði grein fyrir ársreikningunum (örlítið stressuð), sagt var frá verkefnum og skyldum foreldra og hinna ýmsu starfsnefnda og svo var kosið í stjórn og nefndir. Rétt fyrir sex komu kórstjóri og undirleikari ásamt drengjunum sem og sr. Birgir. Birgir fékk orðið og færði fráfarandi formanni gjöf frá kirkjunni, ég tók einnig að mér að færa honum (form.) blómvönd og gjöf frá stjórninni, foreldrafélaginu, kórstjóra, undirleikara og strákunum og að lokum sungu strákarnir, þríraddað, lag sem þeir eru að byrja að æfa. Þeir fengu svo smá hressingu áður en þeir fóru aftur inn í æfingasal og fundurinn hélt áfram alveg þar til æfingin hjá strákunum var búin.

Ég fór á kóræfingu á miðvikudagskvöldið. Röddin lét ekki alveg að stjórn en sessunautur minn í altinum kvartaði ekkert svo líklega slapp þetta fyrir horn.

Eftir að hafa skutlað "þríburunum" í frjálsar seinni partinn á fimmtudaginn skrapp ég í heimsókn til vinkonu í Árbæjarhverfinu. Við áttum notalega stund saman í tæpa tvo tíma. Dreif mig heim tímanlega til að kvöldmaturinn yrði ekki alltof seint á ferðinni því um hálfníu um kvöldið var haldinn hjá okkur húsfundur.


25.9.07

- Áfram fljúga dagarnir -

Hálsbólgan er á undanhaldi, það er gott. Kostirnir við að "slaka á" sl. sunnudag og mæta aðeins í messu í Hallgrímskirkju voru nokkrir. Ég komst yfir ýmislegt sem hefði annars setið á hakanum og ég fékk tíma til að sauma út og lesa.

Áður en lengra er haldið ætla ég að minnast aðeins á heimilisplanið, vikuplan sem ég lét loksins verða af því að útbúa en er með það í þróun ennþá. Það er semsagt stundaskrá heimilisins þar sem fram kemur hvað strákarnir eru að borða í skólanum, hvenær þeir eru búnir í skóla, hvert og hvenær þeir og við fara eftir skóla og vinnu (frjálsar, karate, rækt, kóræfingar), hvað er í matinn á kvöldin og ýmislegt fleira. Það er gott að hafa yfirsýn yfir þessa hluti, hjálpar manni að skipuleggja sig betur og veitir ákveðið aðhald. Við erum á þriðju vikunni frá því ég hengdi fyrsta planið upp á ísskáp og þetta gengur alveg ágætlega. Stundum hefur orðið að hliðra til og það er í góðu lagi. Þessi vefur er líka mjög sniðugur ef maður er alveg andlaus í matarmálunum.

Sl. sunnudag ákvað ég að hafa læri í kvöldmatinn. Hafði keypt af nýslátruðu í Nóatúni á heimleið eftir heimsókn til mömmu. Útbjó smá kryddlög sjálf sem ég smurði á læri og einnig skar ég niður þrjú hvítlauksrif og tillti hér og þar í lambalærið. Meðan steikin var að malla í ofninum gat ég hlustað á beina lýsingu frá öllum leikjum í næstsíðustu umferð Landsbankadeild karla. Snilld!

Á mánudaginn fékk Davíð Steinn leyfi frá kóræfingu og mætti í staðinn á frjálsíþróttaæfingu. Ég þurfti samt að mæta í kirkjuna því það var síðasti stjórnarfundur fyrir aðalfund (sem verður n.b. á kóræfingatíma drengjanna á morgun). Mamma "þríburans" sótti strákana og skutlaði Oddi á karateæfingu, langur mánudagur hjá stráksa mínum því hann er í danstíma í síðasta tíma á mánudögum og kemur heim rétt fyrir fjögur. Frálsíþróttaæfingin byrjar klukkan hálffimm og karatetíminn rúmlega sex, svolítið þéttur dagur en hina dagana er hann búinn mun fyrr í skólanum. Langi skóladagurinn hjá Davíð Steini er á miðvikudögum.

22.9.07

- Erfið ákvörðun -

Rétt áðan tók ég þá erfiðu ákvörðun að sleppa við að syngja með í tónlistarmessu í Óháðu kirkjunni á morgun. Undanfarna daga hef ég slegist og barist af krafti við hálsbólgu og kvefpest. Á tímabili var ekki gott að spá um hvor hefði betur, ég eða pestin en hún lagði mig að minnsta kosti ekki í rúmið eins og manninn minn. Ég ætlaði alls ekki að fá þessa pest en líklega er óhætt að segja að þetta hafi farið milliveginn. Ég gat sinnt vinnu, heimili og skutli en hálsinn var það aumur að ég komst ekki á kóræfingu í vikunni og þótt þetta sé allt í rétta átt núna þá verð ég að sætta mig við að geta ekki sungið og heldur ekki farið á Valur - FH á morgun. Læt mér nægja að skreppa í messu í Hallgrímskirkju í fyrramálið og hlusta á strákana í DKR. Kannski er lífið að "kenna/hjálpa" mér að slaka á?

17.9.07

- Sko "mínar" stelpur -

Já, þær lönduðu titlinum með glæsibrag í kvöld, Valsstelpurnar. Verst að geta ekki verið á leiknum og eins og sjá má (fyrst ég er að blogga á þessum tíma) þá er ég ekki heldur á leik Vals og ÍA en það kemur ekki til af góðu. Hálsinn er alveg helaumur og ég er örlítið tuskuleg. Fannst ekkert vit í því að æða á völlinn til þess annað hvort (eða bæði) verða kalt eða missa röddina. Vonandi verður hálsinn orðinn góður á miðvikudagskvöldið því það er tónlistarmessa n.k. sunnudag sem ég vil helst fá að taka þátt í. Og ef ég verð orðin góð og klára messuna af þá get ég farið á FH - Valur og stutt strákana til sigurs.

Sl. föstudag bauð ég "þríburunum" með mér í sund milli hálffimm og sex. Ég synti aðeins 200 metra en flatmagaði svo í pottunum afganginn af tímanum. Svoooo notalegt. Morguninn eftir var ég komin til esperanto vinkonu minnar rétt fyrir ellefu og þrátt fyrir að vera seinar í gang þá komumst við þó í gírinn á endanum. Tíminn fór í að skrifa niður for- og við- -skeyti og þýðingu þeirra. Við náðum ekki að skrifa öll viðskeytin niður en fyrir næsta hitting ætlum við að fara vel yfir þau sem við erum búnar að skrifa niður og finna ný dæmi fyrir hvert og eitt. Spennandi!

Davíð fékk vinnutengt SOS-kall upp úr hádeginu og var farinn á skrifstofuna fyrir tvö. Strákarnir hjálpuðu mér með smá tiltekt en fengu að öðru leyti að leika nokkuð lausum hala í tölvum. Við hjónin vorum boðin í 100 ára afmæli um kvöldið (eða 50/50 -fifty/fyfty) og ég var á nálum um að Davíð kæmi seint. Hann kom reyndar heim um hálfsjö og hélt sig vera búinn að laga vandamálið en annað kom á daginn og endirinn varð sá að hann skutlaði mér í veisluna og fór sjálfur heim að brjóta heilann v/vandamálsins. Ég skemmti mér þó mjög vel í afmælinu, veislustjórinn (fyrrum kórsystir mín) var magnaður, skemmtiatriðin hvert öðru betra og maturinn frábær.

Sunnudagurinn fór í ýmislegt smá dútl fyrir heimilið, heimsókn til mömmu og svo kom ein frænka mín í heimsókn. Svo rifjaði ég upp hvernig maður blandar í og hnoðar gerlausa pizzubotna. Bjó til sem samsvarar tveimur botnum en skipti þeim svo upp í sex litlar og eina hálfa. Síðan fengu allir fjölskyldumeðlimir að setja á að eigin vali og búa til sínar pizzur. Þetta mæltist mjög vel fyrir og verður örugglega endurtekið seinna, ekki í hverri viku samt.

Seinni partinn í dag var ég í skutlinu. Oddur Smári og "þríburinn" mættu á fyrstu mánudagsæfinguna í frjálsum, Davíð Steinn fór á kóræfingu en samdi þó við kórstjórann um að fá að fara á stöku mánudagsæfingar í frjálsum. Mamma "þríburans" sá um að sækja úr frjálsum og skutla mínum beint á karateæfingu. Ég var mætt í kirkjuna aftur tímanlega til að hlusta á síðustu 15 mín. af æfingunni. Svo skutlaði ég stráksa heim og sótti hinn. Strákarnir áttu afgang af sínum pizzum svo ég slapp alveg við eldamennskuna í kvöld.

13.9.07

- Skyndilega hafði í smá stund aflögu -

Og hvað er betra en að nota hann til að hamra smá stund á lyklaborðið og láta hugann reika. Reyndar verður textinn oft ljóðrænn ef ég haga mér svoleiðis og þar sem ég er ekki inni á "ljóða-blogginu" mínu þá er kannski betra að skrifa um atburði en ekki hugsanir. Undanfarna daga hefur líka verið hálfhættulegt að hugsa og pæla of mikið en það er allt önnur saga sem sjálfsagt verður seint sögð hér. Þótt ég sé opinn og furðulegur persónuleiki þá veit ég oftast mín takmörk.

Strákarnir eru á frjálsíþróttaæfingu og mamma "þríburans" ætlar að sækja þá. Þannig verður þetta næstu skiptin, ég skutlast með strákana og hún sækir þá.

Kóræfingin í gærkvöldi var fín og nú er ég með disk í tölvunni, heyrnartólin á höfðinu og að hlusta á alt-röddina í nokkrum verkum sem flytja á í tónlistamessu þann 23. n.k. Ég ætti eiginlega að vera með nóturnar og textann fyrir framan mig líka til að læra þetta utanað sem fyrst, en ég þarf auðvitað endilega að gera tvo ólíka hluti í einu, amk núna.

KR - Valur stelpurnar eru að byrja að spila núna um fimm. Þetta er leikur sem maður ætti að sjá í beinni og auðvitað ætti ég að vera á vellinum að styðja "mínar stelpur" en ég verð alltaf svo æst í hvatningarópunum að það bitnar á röddinni og henni vil ég halda góðri. Ætli ég verði ekki að velja úr hvaða leiki ég kem til með að fara á í handboltanum í vetur (bæði kvenna og karla). Nú ef leikið er á miðvikudögum þá er málið dautt því ég fórna helst ekki kóræfingu fyrir kappleiki þótt spennandi séu.

Jæja, þetta er orðinn góður vaðall í bili. Bið að lokum alla gesti sem rekast hingað inn á síðuna mína um að fara vel með sig.

12.9.07

- Þetta gengur ekki lengur -

Ég má hreinlega ekkert vera að því að færa hér inn daglega. Það eru reyndar bæði kostir og gallar við það eins og allt annað. En ég er ekki heldur að fá neinn tíma (að ráði) í lestur eða útsaum. En það hljóta að koma tímar og ráð. Það versta við þessar dagagloppur er að það virðast líka myndast gloppur í minninu. Hmm, er ég orðin svona gömul eða er þetta eðlilegt miðað við annríki?

Fyrsta messa nýs organista/kórstjóra sl. sunnudag gekk bara mjög vel. Svei mér þá ef hann á ekki eftir að standa sig vel í vetur. Eins og þetta lítur út fyrir mér sýnist mér sem Kári muni ná til flestra ef ekki allra kórmeðlima. Æfing tvö er í kvöld og þeir sem vilja og geta mæta þremur korterum fyrr til að fá leiðsögn í tónfræði. Það er vel til fundið.

Annars var ég að koma af stjórnarfundi og fékk óvæntan auka-klukkutíma því stjórnarstörfin gengu fljótt og vel fyrir sig. Því sit ég hér með "Landsleikinn" í eyrunum að pára eitthvað niður. Vil benda á linkinn á heimasíðu DKR sem er hér til hliðar. Þetta er svona aukabúgrein hjá Davíð og er ég að komast inn í það að færa inn fréttir, dagskrá og fleira.

En nú ætla ég að drífa mig í Þórshamar og fylgjast með Oddi sem er á karateæfingu til klukkan sjö.

6.9.07

- Lagt inn -

Ætla mér að nota tækifærið á meðan tvíbbarnir eru úti og færa inn eitthvað af því sem er að gerast í kringum mig. Ég verð samt fyrst að kvarta yfir því hvað tíminn hleypur orðið hratt, held hann hafi aldrei þotið hraðað og nú er ekki eins og ég sé að reyna að elta hann. Veit betur en það. Hugsanlega lagast þetta allt saman þegar allt er fallið í vissar fastar skorður en ég er samt ekkert örugg um það.

Fyrir tæpum mánuði, eða þegar ég var komin í bústaðinn, fékk ég SMS frá bankanum og ég spurð hvort ég gæti lagt þeim lið. O, ó, ég hafði ætlað mér að fara í vikunni á undan og gefa í 18. sinn. Planið var nefnilega að gefa 20. gjöfina þann 17. mars n.k. Það þýðir ekkert að vera að eltast við þá dagsetningu lengur. En í gær fékk ég aftur sms og emil svo ég ákvað að drífa mig seinni partinn í dag þar sem það er opið til sjö á fimmtudögum. Það var smá bið svo ég réðist á rúsínurnar á meðan. Áður en kom að mér hitti ég á sérann minn hann Pétur. N.k. sunnudag er fyrri messan í mánuðinum og fyrsta messa nýs organista. Við vorum einmitt á fyrstu kóræfngu vetrarins í gærkvöldi. Það var næstum full mæting í allar raddir, vantaði eina í sópran og þrjá tenóra. Einn bassinn var samt svo vinsamlegur að færa sig yfir þegar farið var að syngja raddaðar útsetningar. Við sungum m.a. "Milda höndin" og úr Söngvasveig. Mér líst alveg ágætlega á komandi vetur og held að Kári, sá nýji muni alveg pluma sig. En ég veit að ég mun hugsa til Öddu og Péturs með söknuði og þakklæti fyrir að hafa fengið að vinna með þeim sl. 3 ár.

4.9.07

- Að finna jafnvægið -

Allt í einu virðist eins og það sé enginn tími eftir til að sinna áhugamálunum reglulega. Lítill lestur, enginn saumaskapur og ekki komin af stað í kortagerðinni (nema ég á saumuð kort, örfá). Ég hef reyndar komist þrisvar til esperanto vinkonu minnar og við erum að komast á skrið. Okkur stóð til boða að fara á þing aðra helgina í september, austur í Hala í Suðursveit, en við urðum því miður að gefa það frá okkur. Það er svo mikið að gerast, bara í þessum mánuði, að það er bara ekki á það bætandi. Fyrsta kóræfing DKR var í dag, karateæfingar Odds og mínar kóræfingar byrja n.k. miðvikudag og svo hef ég verið að taka saman ársreikningana og uppgjörið fyrir DKR, með góðri aðstoð Davíðs. Við gáfum okkur samt tíma til að kíkja í Vikina í gærkvöld og sáum ekki eftir því. En semsagt stopul skrif, skrifast á mikið annríki og má ég teljast heppin ef nokkur nennir að kíkja hingað inn lengur.

30.8.07

- Vó, það er föstudagur á morgun -

Hvert er tíminn eiginlega að æða? Ég held það séu bara þrír dagar í vikunni; mánudagar, föstudagar og sunnudagar. Það er í nógu að snúast hjá mér þessa dagana og þykir mér alveg nóg um þegar ég hef ekki einn einasta auka tíma til að lesa eða sauma út. Að vísu kemur alltaf smá tími á kvöldin en þrátt fyrir að eyða þeim tíma ekki fyrir framan imbann þá fer hann bara í annað. Undan farnar vikur hefur mér fundist sem ég sé mjög tvístígandi, annars vegar fiskurinn sem berst með straumnum og hins vegar fiskurinn sem syndir á móti. Þetta hefur bæði sína kosti og galla. Þeir sem þekkja mig ágætlega vita að ég á það til að gera of mikið úr hlutunum stundum og veit ég stundum ekki í hvorn fótinn ég á að stíga varðandi ýmislegt (bæði stórt og smátt). Svo komar tímar þar sem ég tek af skarið, ákveð mig varðandi eitthvað og þá verður mér ekki haggað. Sl. sólarhring er ég búin að afreka það að sækja varahluti í Fíatinn, glitauga og felgu sem ég lét setja undir hann í dag. Í leiðinni var gert við aðra felgu og sett ný slanga í dekkið utan um þá felgu. Í heimleiðinni kom ég við í Lágmúlanum og keypti mér eitt stykki nýja þvottavél. Gamla Eumenia Sparmester vélin er búin að skila sínu og vel það en við fengum hana jólin 1991. Þessi sem ég fæ á morgun er 1200 snúninga og tekur helmingi meiri þvott og en er lengur að þvo. Ég get ekki beðið eftir að prófa hana en þvottafjallið sem er búið að safnast upp sl fjóra daga verður líklega ekki lengi að hverfa.

27.8.07

- ...og hún er liðin, helgin... -

Seinni part föstudagsins var fóru þríburarnir, Oddur Smári, Davíð Steinn og Dagur, með langferðabíl merktum Þingvallaleið frá BSÍ til Hellu. Þar tók afinn á móti þeim við Grillskálann og amman beið heima með tilbúinn mat. Strax eftir kvöldmat héldu strákarnir út í garð til að tína sólber fyrir ömmu sína (en þeir þrír voru einmitt lánaðir austur í þessum tilgangi).

Sama kvöld skutlaði Davíð mér vestur í bæ þar sem var smá partí. Gestgjafinn bauð í mat og mættum við fjórar og fengum dýrindis kjúklingasúpu og e-s konar berjatertubombu og kaffi á eftir. Þetta var fínasta boð og ég skemmti mér mjög vel. En ég var samt ekki í stuði til að halda áfram og skreppa á djammið í bænum á eftir.

Á laugardaginn var vígsluhátíð handboltahallarinnar við Hlíðarenda en sú hátíð fór alveg framhjá mér. Ég bara varð að taka ísskápinn í gegn að innan, utan, undir og affrysta frystihólfið og það tók bara svona þrjá tíma eða svo. Eftir þetta verk dreif ég mig á bókasafnið og skilaði af mér ellefu bókum (reyndar var stór hluti af þeim bunka teiknimyndasögur). Þegar ég kom aftur heim safnaði ég saman öllum kvittunum og pósti v/DKR og sorteraði saman inn í þar til gerða möppu. Reyndar var hluti af reikningunum þegar kominn inn en það var ótrúlega drjúgt sem hafði safnast saman í lausu í eða við möppuna. Í þetta verk fóru góðir tveir tímar og var ég frekar ánægð með dagsverkið.

Þríburarnir fengu að sofa út á laugardeginum en héldu svo áfram að tína og tína þar til engin ber voru eftir á runnunum. Þeir áttu því frí í gær og fóru í sund. Þeir áttu svo að fara með rútu frá Hellu í bæinn aftur en hún fór um þrjú leytið á meðan strákarnir voru enn í sundi. Afinn og amma brugðu á það ráð að skutlast með strákana á Selfoss og settu þá upp í rútu þar.

Ég mætti á fyrstu messuna mína (og missti af Keflavík-Valur 1:3) í gærkvöld sem í reynd var önnur messa haustsins og síðasta messa Öddu kórstjóra. Þetta var mjög skemmtileg messa en ég veit að við í "Óþæga kórnum" eigum eftir að sakna Öddu okkar. En við ætlum að gefa nýja organistanum/kórstjóranum tækifæri til að samlagast okkur. Þannig að það eru bara spennandi tímar framundan en alveg þokkalega nóg að gera!

23.8.07

- Það styttist í næstu helgi -

Á þriðjudagsmorguninn var áttu tvíburarnir pantaðann tíma hjá tannlækninum sínum. Þeir höfðu ekki farið til hans síðan í fyrravor svo það var kominn tími á að líta á tennurnar í þeim. Ég fór með þeim inn til að byrja með en var ekki lengi. Tannlæknirinn gaf mér leyfi til að skreppa frá í smá tíma, svo fremi sem ég væri sest í einn biðstólinn frammi um ellefu. Þetta var nú ekki langur tími til að reka mörg erindi svo ég brá á það ráð að skunda á Hrefnugötuna og reka inn nefið til Gerðu og Rúnars og sníkja hjá þeim einn bolla af kaffi. Ég var komin til baka áður en strákarnir voru búnir en það voru teknar myndir, hreinsaður smá tannsteinn í öðrum og þeir flúorburstaðir. Svo kvaddi tannlæknirinn með þessum orðum: "-Hvað svo sem þú ert að gera þá haltu því áfram. Ég þarf ekki að skoða þá aftur fyrr en eftir rúmt ár!"

Í gær var skólinn settur aftur og nú eru strákarnir komnir í 6. bekk. Ég fékk frí eftir hádegi því árgangur tvíburanna var boðaður klukkan hálftvö. Ég kom inn tíu mínútum áður og fann "þríburana" fyrir framan tölvur, ósköp rólega. "- Þú sagðir að þetta væri ekki fyrr en klukkan tvö". En ég tel mig reyndar hafa sagt að þetta myndi vera frá hálftvö til rúmlega tvö... En annars gekk setningin vel fyrir sig. Þeir eru báðir með alla sömu kennara nema hvað sundkennararnir eru nýjir og nú eru þeir aftur komnir í stofur sem eru á sömu hæð og bara gangur á milli. Vetrarstarfið leggst bara ágætlega í þá svo ég er hæstánægð sjálf.

22.8.07

- Uppgjör síðustu helgar -

Á föstudaginn var skúruðum við okkur út úr bústaðnum um hádegi og fóru í heimsókn til pabba og mömmu. Helluþorp er 80 ára um þessar mundir og það var líka verið að undirbúa hin árlegu töðugjöld. Ég skrapp loksins í heimsókn til Steina föðurbróður en hann er fluttur á elliheimilið fyrir nokkru. Ég heimsótti líka gamla konu sem ég kynntist þegar ég var í sveit í Guttormshaga fyrir margt löngu. Á bakaleiðinni hitti ég eina systur pabba sem einnig er komin á elliheimilið. Hún var að spássera fyrir utan.

Bríet var fyrir austan, hafði komið með afa sínum daginn áður og um hálfsjö kom Hulda með rútunni úr bænum. Krakkarnir léku sér við systur úr næsta húsi og eftir matinn hjálpaði Davíð þeim að fylla á vatnsblöðrur sem þau köstuðu og sprengdu flestar á bílnum okkar. Það var í góðu lagi þar sem hann var mjög rykugur eftir ferðalagið inn að Hlöðufelli. Við vorum mjög róleg í tíðinni en þegar kominn var háttatími hjá systurunum þá kvöddum við. Stoppuðum aðeins við Urriðafoss á heimleiðinni.

Tvíburarnir fóru í sund á laugardaginn og ég notaði daginn til að ganga frá eftir sumarbústaðarvikuna. Milli átta og hálfníu um kvöldið söng Davíð Steinn með sínum kór og Karlakór Reykjavíkur. Við fórum svo niður á Sæbrautina um ellefu og horfðum á flugeldasýninguna. Á sunnudagsmorguninn söng drengjakórinn við hátíðarmessu í Hallgrímskirkju ásamt kirkjukór Akureyrar. Það var mjög hátíðleg stund. Á eftir fórum við í bíltúr sem endaði á Eyrarbakka því við ætluðum að hitta bróðurson Davíðs og færa honum afmælisgjöf. Feðgarnir voru í sundi en við hittum þá samt í smá stund eftir að þeir komu heim og gátum skilað erindinu.

21.8.07

- Kominn tími á mig? -


Það er að verða hálfur mánuður frá því ég skrifaði hér inn síðast og það hefur auðvitað runnið mikið vatn til sjávar á þessum dögum. Við vorum búin að koma okkur þægilega fyrir í sumarbústað einn fyrir austan fjall þann 10. áður en dagur var alveg að kveldi kominn. Á laugardeginum fjölgaði í bústaðnum um fimm og hálfan (eða þannig). Systir mín og hennar maður komu með yngri dóttur sína og annar bróðir Davíðs og hans sonur komu einnig. Með þeim í för var týkin Skotta en hún fékk aldrei að koma lengra heldur en á planið við bústaðinn. Það er bæði heitur pottur og buslulaug við bústaðinn. Systurdóttir mín vildi alls ekki fara í barnasundlaugina fyrr en við fórum að kalla hana stóra pottinn en hún skemmti sér vel í "stóra pottinum"!


Krakkarnir voru flest komin í ró um hálftólf og þá settumst við hin niður og spiluðum. Fyrst teiknispilið þar sem við skiptums í tvö lið; annað tveggja manna og hitt þriggja manna. Síðan spiluðum við tíu og enduðum á kana þar sem við skiptumst á að bíða í eina umferð. Klukkan var að verða fjögur þegar við hættum og ég var mikið að spá í hvort það tæki því nokkuð að fara sofa.

Mamma og Hulda frænka bættust í hópinn á sunnudeginum og var sú síðarnefnda fljót að skella sér í sund með hinum krökkunum. Um fimm fórum við öll (á fjórum bílum) í dýragarðinn Slakka.

Restina af bústaðarvikunni vorum við bara ein fjögur saman, slökuðum á í heita pottinum (strákarnir voru líka duglegir í lauginni og gerðust miklir geitungabanar), fórum í gönguferðir og einn daginn keyrðum við að Hlöðufelli, hálfa leið í kringum það og komum svo niður Haukadalinn. Það var stórskemmtileg ferð. Fyrst stoppuðum við við smá stapa þar sem við mæðginin klöngruðumst upp á og tókumst á við "niðurhræðsluna". Davíð kom upp aðeins á eftir okkur og fann bestu leiðina. Hann hjálpaði svo strákunum niður erfiðasta hjallann sem var bara rétt efst. En ég bjargaði mér alveg sjálf þótt ótrúlegt megi virðast. Kannski er hægt að sigrast á þessari vondu "ég er að detta niður" tilfinningu eftir allt saman? (En hægt og rólega þó).

8.8.07

- Klukkleikurinn -

Ég var víst klukkuð af
Ellu vinkonu og á þar af leiðandi að segja átta sanna hluti um sjálfa mig:
  1. Ég er mjög skapstór, en tel mig hafa lært að stjórna því.
  2. Ég er mjög trúuð og fer með bænirnar mínar á hverju kvöldi.
  3. Ég er dæmigerður fiskur, á oft erfitt með að finna beina línu milli tveggja punkta (enda veit ég að það eru margar hliðar á hverju máli).
  4. Ég er hláturmild og afar smitandi.
  5. Ég er þolinmóð.
  6. Ég er trygglynd og góður vinur vina minna (en þoli það illa ef mér finnst ég notuð)
  7. Ég er þrjósk og læt ekki hvern sem er segja mér hvað ég á að gera.
  8. Ég er vonlaus í rökræðum.
Ég ætla að klukka Árný Láru frænku mína.

7.8.07

- Dagsferð um hálendið -

Við "föðursystir" mín og fjölskyldur (þ.e. menn og börn (og bílar)) höfðum mælt okkur mót við Select á Vesturlandsvegi um klukkan níu á laugardagsmorguninn var. Það var pissustopp á Hvolsvelli og áfylling á annan bílinn og ferðalangana í Vík. Við beygðum út af þjóðvegi eitt áður en við komum austur að Klaustri. Næsta stopp var við Hvanngil, örstutt pissustopp og einhver mundaði myndavél. Nestið var borðað við Álftavatn. Vegurinn týndist við Mælifellssand en eftir smá vangaveltur var ákveðið að halda áfram enda kom í ljós að það var stika á stöku stað sem sýndi að við vorum alveg á réttri leið. Heiðarleg tilraun var gerð til að komast alla leið inn að Hrafntinnuskeri en við völdum slóða sem sem endaði við gönguleið inn að svæðinu. Davíð Steinn var orðinn lasinn og veðrið (sem var reyndar ágætt mest alla leiðina) var orðið fremur hráslagalegt þarna á fimmta tímanum. Við komum niður hjá Keldum um sjö og þá hringdi ég í pabba til að athuga hvort þau væru heima og óhætt væri að gera smá innrás. Það var smá pissustopp og kaffistopp en ekki stoppað nema rúman hálftíma eða svo. Þrátt fyrir veikindi annars tvíburans var þessi dagur mjög skemmtilegur og vona ég sá sem mundi eftir myndavélinni muni bjóða í myndasýningu.

3.8.07

- Grillað í Heiðmörkinni -

Mér tókst að nýta gærdaginn nokkuð vel en var svolítið á skjön við veðrið samt. Því sumarveðrið og 18 stiga hitinn fór næstum því alveg framhjá mér. Ég náði þó að nýta smá hluta af sólinni og hitanum og um kvöldið vorum við nokkur búin að ákveða að hittast og grilla saman í Heiðmörkinni á sama stað og við enduðum gæsaveislu fyrir rétt rúmlega fjórum árum.

Vorum flestöll mætt við staðinn upp úr sex. Staðurinn var reyndar upptekinn en í stað þess að bíða ákváðum við að reyna að finna annan stað. Davíð vidi athuga með annan grillstað sem hann vissi um, tók fram úr hinum og hélt að hann yrði eltur. En það fannst staður, á milli þessara tveggja staða, sem passaði okkur mjög vel, e-s konar lundur. Krakkarnir smullu saman í leik og innan skamms var hægt að fá sér að borða. Enginn kom með eins mat mat með sér. Við vorum t.d. með fiska sem strákarnir veiddu í forrétt og lamb í aðalrétt. Tvíburahálfsystir mín var með lax og bauð m.a. upp á kartöflusallat og "föðursystir" mín var með svínakjöt og bauð upp á grillaðar ostapönnsur á undan, grillaðan ananas í eftirrétt og kaffi á eftir. Þarna vorum við í góða þrjá tíma og ákváðum að láta nú ekki líða önnur fjögur ár þar til næst heldur gera þetta að árvissum atburði.

2.8.07

- Hringinn í kringum Heklu -

Upp úr hálftíu, í gærmorgun, var ég búin að skutla Davíð á skrifstofuna og ná í strákana, Dag og eina vinkonu mína. Við áttum heimboð á Hellu. Ég ók Nesjavallaleiðina austur fyrir fjall og við renndum í hlað hjá pabba og mömmu rúmlega ellefu. Við fengum okkur kaffi og tókum til nesti fyrir þrjá. Strákarnir þrír og amman urðu eftir á Hellu.

Pabbi gerðist sérlegur fararstjóri og ekill fyrir okkur Höllu. Áætlað var að ferðalagið myndi taka 4-5 tíma og lögðum við í hann um tólfleytið. Fórum Fjallabak-syðri og völdum svo vinstri slóðann þegar leiðin skiptist fyrst í tvennt. Sá slóði lá alveg upp að nýjasta Hekluhrauninu og ég hef aldrei farið hann áður. Við gerðum örstutt kaffistopp á einum stað alveg við hraunið. Við ákváðum líka að renna við inn í Landmannalaugar þar sem við borðuðum nestið okkar, gengum aðeins inn í Grænagil og ég heilsaði upp á Smára og Nínu. Við fórum framhjá Sigölduvirkjun og niður Landveg til baka og lentum kl. 18:40 að staðartíma, þannig að ferðin tók rúmlega sex tíma en við nutum hverrar mínútu. Það var margt að sjá og við vorum mjög heppin með veður. Eða eins og Davíð segir alltaf: -"Ef það hefði verið betra, hefði það verið verra!".

Mamma tók á móti okkur með grillveislu og nýja útfærslu af sósu sem var síður en svo svo galin. Á eftir var kaffi og eplakaka. Strákarnir voru ekki í vandræðum með að eyða tímanum með vininum, sýna honum eitt og annað og þeir líka skruppu í sund. Ég náði svo að skila af mér ferðafélögunum, sækja Davíð og vera komin heim fyrir miðnætti.