17.4.12

- Úr ýmsum áttum -

Sumardagurinn fyrsti er eftir tvo daga. Apríl er rúmlega hálfnaður og dagurinn heldur áfram að lengjast. Ýmislegt er á döfinni og ég hef verið að sýsla við eitt og annað undanfarnar vikur. Las 3 krimma upp til agna, "Englasmiðurinn", "Hugsaðu þér tölu" og "Snjókarlinn", allt mjög spennandi bækur sem ég gat varla lagt frá mér fyrr en þær voru búnar. - Páskafríið leið alltof hratt. Við vorum boðin í mat á skírdagskvöld (öll fjögur) þar sem okkur var boðið upp á verðlaunafiskisúpu. Á föstudaginn langa mætti ég í kirkjuna um sjö eh bæði til að hita upp fyrir árlega kvöldvöku þar sem sálmar eru sungnir milli lestra sem og að æfa fyrir páskadagsmorgun. Seinni partinn á laugardeginum var okkur Davíð boðið í heimagert súsý og einhenti Davíð sér í að hjálpa húsmóðurinni á heimili gestgjafanna til að útbúa alla bitana. Stoppuðum aðeins framyfir miðnætti en ég þorði ekki að vera lengur þar sem ég þurfti að fara á fætur upp úr sex vegna páskadagsmorgunmessusöngs. Á annan í páskum kleif ég megnið af Helgafelli með Davíð. Hann fór auðvitað alla leið og svo beint á Úlfarsfellið á eftir. Seinni partinn þann dag skruppum við svo á Bakkann. - Þessir fjóru virku vinnudagar í síðustu viku liðu afar hratt. Það var að sjálfsögðu kóræfing á miðvikudeginum og á fimmtudagskvöldið skrapp ég yfir til tvíburahálfsystur minnar þar sem ég hitti einnig aðra stúlku frá Selfossi. Á laugardaginn mætti ég á langa kóræfingu í kirkjunni ásamt kórfélögum mínum og kórfólki og tveimur öðrum kórum. Flestir voru mættir fyrir tíu og enginn fór fyrr en klukkan var byrjuð að ganga fjögur. - Sl sunnudagur var notaður í smá þrif, þvotta, innkaup og svo gengum við Davíð á Úlfarsfellið ásamt 4 vinnufélögum hans. Tvíburarnir voru velkomnir með en þeir nenntu ekki þegar til kom. - Í gærkvöldi mætti ég í saumaklúbb til tvíburahálfsystur minnar rétt áður en klukkan sló átta. Var svona í fyrra fallinu því ég skutlaði Davíð í pílu um hálfátta. Við vorum þrjár sem mættum og vorum að í tæpa þrjá tíma en skyldum reyndar ekkert í því hvernig tíminn fór að því að æða svona áfram. Okkur fannst við ekki hafa stoppað nema í uþb klst. Já, tíminn flýtir sér enn meir þegar það er gaman og glatt á hjalla. Ég vann að nýjasta verkefninu sem ég byrjaði á um nýliðna helgi. "FRIENDS TOGETHER HERE" eða VINIR HITTAST HÉR eins og ég ætla að sauma út fyrir ofan mynd af tveimur böngsum sem sitja í bókahillu. Erfitt að lýsa þessu betur, en ég mun líklega taka mynd af þessu þegar ég er búin með þetta.

29.3.12

- Það birtir sífellt meir og meir -

Þrátt fyrir að hann (dagurinn) hafi verið grár og gugginn í morgun og einhvers konar þokusúld í kortunum þá var búið að slökkva á öllum ljósastaurum um sjö leytið þegar ég arkaði í vinnuna. Það var alveg nógu bjart enda uþb 10 dagar síðan síðan dagurinn og nóttin voru alveg jafn löng og dagurinn lengist meir og meir, dag frá degi næstu þrjá mánuðina eða svo. Ég geng í vinnu flesta morgna og er hálftíma á milli. Á þessum hálftíma gerist margt í kollinum á mér, margar hugsanir á sveimi og stundum stend ég mig að því að ég er byrjuð að raula lög sem ég er að æfa með K.Ó.S.Í (kirkjukór óháða safnaðarins á Íslandi) kórnum mínum eða einhver önnur lög. Gaman hjá mér á milli heimilis og vinnu en örugglega mjög skrýtið að mæta mér þegar ég í þungum þönkum eða í "raulham"!

21.3.12

Anna 44 - 44 annA

Á 77. degi ársins, þann 17. mars sl. fagnaði ég 44 ára afmælinu mínu. Davíð færði mér morgun mat í rúmið og stjanaði við mig út í eitt allan daginn. Við skruppum m.a. í Húsdýragarðinn, bara við tvö, heilsuðum upp á mörg dýranna og fengum okkur kaffi og vöfflu í kaffihúsinu þar. Síðan skruppum við í Byggt og búið í Kringlunni og keyptum okkur blandara á mjög góðu verði. Tvíburarnir fóru upp í skóla um fimm, tveimur og hálfri klst. fyrir frumsýningu á söngleiknum "Hver er ég?" Við hjónin röltum upp í skóla um sjö og hittum tengdó og Tedda þar. Áður en leikritið hófst urðu "leikhúsgestir" vitni að því þegar Björn Thors leikari afhenti "gamla" listakennaranum sínum, Önnu Flosadóttur, grímuna sem hann fékk 2009 og tileinkaði henni á sínum tíma. Söngleikurinn sjálfur var virkilega flottur og skemmtilegur og upplifði ég allan skalann í tilfinningum á meðan á honum stóð. Yfir 100 krakkar úr leiklistavali í 8.-10. bekk taka þátt og eiga þau öll mikið hrós skilið. Kennararnir sem aðstoðuðu þau við þessa uppsetningu eiga líka mikið lof fyrir. Ég er eiginlega búin að ákveða að fara á aðra sýningu, þá næstsíðustu en er mjög ánægð að vita að það á að taka þetta upp svo hægt verður að kaupa sér eitt (og vonandi fleiri) eintak/tök. Þegar við Davíð komum heim horfðum við á eina af "Police akademia" myndunum. Þannig að ég notaði afmælisdaginn minn mjög vel. :-)

1.3.12

- Einn sjötti liðinn af árinu -
Í gær fór ég í síðustu foreldraviðtölin vegna grunnskólaveru tvíburanna. Þeir eru að pluma sig frábærlega í flestu eins og alltaf áður. Já, strákarnir munu útskrifast úr grunnskóla í vor. Þessir ungu menn verða 16 ára í sumar og byrja væntanlega í framhaldsskóla næsta haust. Í tilefni af foreldradeginum efndi 10. bekkur til kökubazars í fjáröflunarskyni fyrir væntanlegt "útskriftarferðalag" í vor. Hver nemandi í árganginum átti að koma með amk eitthvað tvennt til að selja og voru tveir sölubásar settir upp í skólanum og skiptu krakkarnir með sér deginum og seldist vel. Kvöldinu áður, á þriðjudagskvöldið, kom einn vinur strákanna í árganginum og bakaði með okkur. Það tókst bærilega vel og í gærmorgun fórum við með tvær brúntertur með súkkulaðikremi, tvö lítil haframjölsbrauð, eina hjónabandssælu, 5x4 muffins og 5x6 kornfleksklatta á söluborðin. Verslaði auðvitað við krakkana á báðum stöðunum. - Annars tók ég mér smá vetrarfrí frá og með hádegi sl. fimmtudag og allan mánudaginn með að auki. Fórum út úr bænum rétt upp úr tvö á föstudag og komum við á Bakkanum á leiðinni upp í Brekkubæ, nýjasta sumarbústað RB á Efri-Reykjum. Við Davíð fórum í heita pottinn seint um kvöldið. Það var spilað, lesið, saumað (frúin taldi út), horft á imbann og slakað á. Urðum að vera komin aftur í bæinn fyrir hálfeitt á sunnudag því ég varð að vera mætt í upphitun v/jazzmessu. Feðgarnir "hentu" mér út við kirkjuna uþb 12:40 og svo labbaði ég heim um þrjú. Það var mjög gott að eiga svo mánudaginn. Fór á fætur með manninum og skutlaði honum í vinnuna svo ég gæti haft bílinn. Rak tvö erindi í Mjóddinni og heimsótti svo Böddu. Seinna um daginn heimsótti ég fyrrum nágranna okkar af Hrefnugötunni í fyrsta sinn eftir að þau fluttu á Sléttuveginn.

21.2.12

- Alltaf nóg að sýsla -

Nú er aðeins rétt rúm vika eftir af febrúar, ýmislegt búið að bralla og margt og mikið framundan. Í gærkvöldi var saumaklúbbur hjá "tvíburahálfsystur" minni og vorum við allar mættar áður en klukkan sló hálfníu í gærkvöldi. Ég vann í hvítvínssmámyndinni en tók líka eldhúsmyndina sem ég er byrjuð á með til að monta mig aðeins. Eins og venjulega var glatt á hjalla, mikið spjallað og hlegið en inn á milli datt allt í dúnalogn þegar við vorum allar að einbeita okkur að handavinnunni. Ég náði að koma heim rétt áður en klukkan varð ellefu og klukkutíminn fram að miðnætti (reyndar alveg til 00:10) fór í þvottahús-, tölvumál og lestur. Tíminn er alltof alltof fljótur að líða. Á konudaginn fór ég á fætur upp úr sjö og bjó til hafragraut, aðallega handa karatestráknum mínum en við Davíð fengum líka. Ég fór svo með Oddi Smára í Smárann og var með honum þar milli hálfníu og rúmlega ellefu. Hans flokkur hóf keppni á undan áætlun, upp úr hálfellefu og þetta tók frekar fljótt af. Á heimleiðinni kom ég við í Lyfju og keypti hnéhlíf og hirudoid fyrir manninn minn. Stoppaði mjög stutt heima því við norska esperanto vinkona mín ætluðum að hittast, höfðum bara fært hittinginn aðeins til vegna karatemótsins. Ég var mætt til hennar upp úr tólf og byrjaði hún á að bjóða mér kaffi og bollur áður en við snérum okkur að efninu. Verslaði svo inn áður en ég fór aftur heim. Um miðjan dag setti ég upp slátur. Einnig ákvað ég að standa við loforð sem ég gaf öðrum tvíburanum mínum helgina á undan og skellti í eina eplaköku. Laugardagurinn fór í afslappelsi að mestu. Svaf frameftir og tók því frekar rólega. Reyndar bakaði ég nokkrar vatnsdeigsbollur. Davíð kom draghaltur heim af karateæfingu (og er þá komin skýringing á Lyfju-ferðinni). Á föstudaginn skutlaði Davíð mér á Hvíta riddarann. Ég var mætt þar alveg á slaginu sjö mjög spennt að hitta "Krakkana þeirra Friðriks Guðna og Siggu" Þau heiðurshjón (sem létust langt fyrir aldur fram) stofnuðu tónlistarskóla Rangæinga. Einkadóttir þeirra var stödd á landinu og hún og tvær vinkonur ákváðu hvort ekki væri hægt að hóa saman hóp af krökkum sem stunduðu nám í tónlistarskólanum. Jú, jú, það var ágætist mæting og m.a. mættu nokkrir kennarar líka. Sumir voru ekki búnir að hittast mjög lengi en þetta varð hinn skemmtilegasti hittingur sem vonandi verður endurtekinn næst þegar Þöll verður á landinu. - Á fimmtudagskvöldið var ég orðin ein eftir heima rétt fyrir átta. Horfði á 3. þátt Hallarinnar á leigunni og dreif mig svo á fyrstu keiluæfinguna í marga, marga mánuði. Það er ljóst að þótt ég hafi sýnt gamla takta á köflum að þá er ég alls ekki í góðri æfingu. En þetta var alveg jafn gaman og mig minnti.

15.2.12

- Nokkrir dagar aftur í tímann -

Sennilega er best að byrja á að rekja sig afturábak. Það er gaman að segja frá því að á leiðinni í sund eftir vinnu í gær hitti ég Birnu frænku. Sá konu koma út úr búð við Skólavörðustíginn. Varð litið á hana, þekkti samstundis þessa frænku mína og fleygði mér um hálsinn á henni. Aðstæður til sunds voru svolítið erfiðar akkúrat á því tímabili sem ég var í lauginni, synti því bara 11 25m ferðir áður en ég skrapp í pott og gufu. - Á mánudaginn hitti ég nöfnu mína og frænku, systurdóttir mömmu, eftir vinnu. Ég trítlaði yfir á Vesturgötuna til hennar og hún keyrði mig heim. Löbbuðum samt hálfan hring í Öskjuhlíðinni áður en við fórum inn að hita okkur kaffi. Um svipað leyti og við nöfnurnar lögðum af stað í gönguna var Oddur Smári mættur í Faxafenið með pabba sínum en strákurinn var valinn í tafllið skólans og milli fimm og rúml. átta var haldið Reykjavíkurmót grunnskólanna í skák. Það áttu að vera fjórir í liði en það mættu bara þrír úr Hlíðaskóla svo þeir töpuðu alltaf einni skák í hverri umferð. Oddur tefldi á borði eitt og vann fjórar skákir af sjö. Eina vann hann þar sem hann átti að tefla við e-n sem ekki var á svæðinu svo það voru greinilega fleiri skólar sem ekki voru með fullmönnuð lið. Þessir þrír kappar úr Hlíðó náðu í 12 og hálfan vinning. - Mætti í messuupphitun klukkan eitt á sunnudaginn. Kórstjórinn ákvað að við skildum svo sitja dreifð úti í kirkju. Sungum þrjá sálma og svörin en fyrir og eftir predikun söng Hulda Garðars sópransöngkona fjögur lög (2 og 2) við undirleik Árna. Magnaðir örtónleikar það. Gaf mér ekki tíma til að fá mér kaffi eftir messuna heldur dreif mig heim og sá til þess að við vorum öll fjögur lögð af stað austur á Hellu til pabba og mömmu áður en klukkan varð mikið meira en fjögur. Tók saumana með mér austur en um hálfsexleytið fórum við pabbi að undirbúa þorraveislu sem mamma var aðeins byrjuð að undirbúa. Pabbi skar niður súrmat og setti á tvö föt á meðan kartöflur og rófur suðu í pottunum. Við feðgin lögðum á borð og ég steikti svo slátur handa öðrum unglingnum sem ekki borðar súrt. - Á laugardagsmorguninn skrapp ég til esperantovinkonu minnar. Hún bauð mér upp á lífrænan hafragraut og lífrænt kaffi á eftir áður en við byrjuðum að kíkja á áhugamálið okkar. Þegar ég kom heim var orðið ljóst að ekkert yrði af tófuferð svilanna svo Davíð missti ekki af karateæfingu. Tvíburarnir sáu um að ryksuga yfir gólfin en þeir áttu von á nokkrum unglingum á spilakvöld seinna um daginn. Ég bakaði eplaköku fyrir það tilefni. Fyrstu krakkarnir mættu um fimm og þegar flestir voru komnir röðuðu þau sér í kringum borðið í holinu og þau byrjuðu á að spila fimbulfamb. Glatt var á hjalla lengi frameftir kvöldi og þeir sem voru með mesta úthaldið voru til miðnættis. - Að loku ætla ég að geta þess að ég heimsótti blóðbankann í 30. sinn eftir vinnu og sundsprett sl. fimmtudag. Æðin í "betri" hendinni var með stæla en þá var bara tekið úr þeirri hægri í staðinn.

6.2.12

- Alls konar -

Janúar er liðinn og einnig nokkrir dagar af febrúar mánuði. Ég mætti á kóræfingu sl. miðvikudag. Röddin virkaði en hún var ekki 100% og þegar fór að líða á æfinguna fannst mér ég verða svo þurr í hálsinum. Þetta var ekkert svo erfið æfing en það var greinilega eitthvað ennþá ofan í mér sem fór að trufla mig eftir því sem leið á æfinguna. Daginn áður var "Önnuhittingur". Davíð hafði skilið bílinn eftir rétt fyrir utan vinnuna mína svo ég sótti nöfnu mína og frænku og byrjuðum við á að stoppa í Sundhöllinni og fá okkur smá sundsprett. Syntum 225 metra og vorum svo í nuddpottinum í dágóða stund. Anna kom með mér heim. Davíð sá um kvöldmatinn og fór svo á karateæfingu. Ég sýndi nöfnu minni m.a. kínverska táknið sem ég hef lokið við að sauma og á bara eftir að útbúa púða úr myndinni. Svo spjölluðum við um alla heima og geyma þar til Davíð kom heim af æfingu en þá skutlaði ég henni heim til sín. - Um nýliðna helgi fórum við m.a. tvisvar í Egilshöllina. Á sjöunda tímanum á laugardaginn var Hulda að keppa. Við mættum akkúrat um leið og hún var kynnt inn á svellið og sáum hennar æfingar og stúlkunnar sem var á eftir henni í röðinni áður en við drifum okkur yfir í Grafarholtið í smá þorrablót með vinafólki okkar til margrar ára. Strákarnir höfðu fengið að velja hvort þeir kæmu með eða ekki og þeir ákváðu að koma ekki. Kvöldið varð engu að síður mjög skemmtilegt og kvöddum við ekki fyrr en klukkan var farin að ganga eitt. - Um hálfsex í gær vorum við mætt aftur í Egilshöllina til að fylgjast með Bríeti keppa. Þurftum að bíða smá eftir að röðin kæmi að henni og þar sem ekkert lá annað fyrir biðum við þar til verðlaunaafhendingin fyrir hennar flokk var afstaðin. Sú stutta varð í 3. sæti af átta en var ekki par sátt með það því hún ætlaði sér víst að vinna. - Um helgina skrapp ég einnig í esperantohitting til norsku vinkonu minnar og heimsótti einnig mömmu frænku minnar. Einnig fór tíminn í smá tiltekt, þrif, lestur, saumaskap og sjónvarpsgláp. :-)

26.1.12

- Saumi, saumi og smá lestur með -

Í fyrrakvöld ákvað ég að leyfa mér að byrja á "nýju" saumaverkefni þrátt fyrir að vera með alveg nokkur verkefni í takinu sem eru á mismunandi stigum. Ég skrifa nýju innan gæsalappa því myndin sem ég ákvað að byrja á er búin að vera til hjá mér síðan snemma árs 2007 (að mig minnir, ætti að geta flett því upp á blogginu mínu) en ég pantaði hana um leið og bláa engilinn m.a. Þetta er eldhúsmynd en það situr líka köttur á hillunni innan um sultukrukkur og eldhúsáhöld. Ég handsaumaði hringinn í kringum jafann, tók miðjuna og saumaði nokkur spor. Myndin er í grófari jafa en ég sauma oftast í svo notaðir eru þrír þræðir af sex í krosssauminn. Í gærkvöldi hefði ég átt að vera á kóræfingu en hálsinn leyfði það ekki svo ég ákvað að byrja á nýrri saumamynd, smámynd af hvítvínsflösku, vínglasi og smá vínviði. Líkt og kvöldið áður byrjaði ég á að handsauma í kringum jafann, tók miðjuna og saumaði svo af stað. Þetta er miklu minni mynd í fínlegri jafa, nota tvo þræði af sex. Þegar ég lagði þetta verkefni frá mér tók ég aðeins upp flöskusvuntuna sem ég byrjaði á sl. mánudagskvöld. - Davíð gaf mér eina bók í jólagjöf, Jójó eftir Steinunni Sigurðardóttur. Sjálfur fékk hann nýjustu bókina hans Arnaldar. Ég gaf mér ágætan tíma að lesa mína bók. Þessi þunna bók var mun þykkari aflestrar og hygg ég að ég ætti að lesa hana aftur mjög fljótlega til að athuga hvort nokkuð hafi farið framhjá mér. Ég var þó löngu búin með bókina áður en Davíð lauk við sína svo ég þurfti að bíða í næstum þrjár vikur eftir að geta byrjað á Einvíginu. Spurning um að fara að endurnýja bókasafnskortið...

25.1.12

- Hálsbólga -
og sitthvað fleira
Í nokkra daga hefur hálsinn verið mjög sár, söngröddin ónothæf og talröddin léleg. Fann fyrir þessu um miðja síðustu viku. Eins og ég var ánægð með að ég var komin í góðan sundgýr, fór í Sundhöllina eftir vinnu þrjá daga í sl. viku, synti 500m og gaf mér svo góðan tíma í gufunni líka. Hélt mig alveg heima við um helgina og hef ekki þorað að fara í sund í þessari viku. Úða bara í mig sterkum brjóstsykri og heima hef ég drukkið kalt (en soðið) engifervatn með sítrónusafa út í. Passaði mig á að blanda ekki sítrónusafanum út í fyrr en engifervatnið hefur kólnað. Kitlar oft í hálsinn og fæ þá jafnan hóstakast en það er svo undarlegt að ég hef ekki fengið kitl eða kast á nóttunni. Hef heldur ekki fengið neinn hita svo ég hef alveg verið vinnufær. Mamma fékk slæmt kvef upp úr áramótunum sem endaði með því að hún fékk lungnabólgu og öll orkan sem hún náði sér í á Kanaríeyjum í nóvember er horfin. Lyfin eru varla farin að virka á hana og hún þarf að fara mjög, mjög vel með sig næstu vikurnar. - Annars var ég með saumaklúbb hjá mér á mánudagskvöldið var, no. 2 á árinu en ég missti af þeim fyrsta vegna óvæntrar magapestar sem ég fékk að morgni 11. jan. sl. Það mættu þrjár hannyrðakonur til mín og ein af þeim var að ganga í klúbbinn til okkar. Hún smellpassar inn í hópinn sem á það m.a. sameiginlegt að hafa stundað nám í FSu amk 2-3 annir eða lengur (t.d. allt stúdentsnámið). Ég dreif í að klára útlínusaum í rósamynd á flöskusvuntu og byrjaði svo á nýrri. Er með nokkur verkefni í gangi en er einnig nýbúin að klára þrjú verkefni, þar af eitt frekar stórt sem er kínverskt tákn fyrir hamingju. Þ.e. útsaumnum er lokið en svo á eftir að búa til púða úr myndinni. - Í gærmorgun var varla göngufært í vinnuna og líklega valdi ég mér alveg kolranga leið. Það var hvergi búið að moka neinagangstíga á þeirri leið. Ef stutt var út á götuna var þeim mun dýpri snjórinn þar sem ég gekk um enda var ég blaut upp að hnjám er ég mætti í vinnuna og ég hafði ekki verið svo forsjál að taka með mér aukabuxur svo ég varð að biðja Davíð um að skutla til mín þurrum buxum og sokkum. Hann fór á fætur með mér í morgun og skutlaði mér í vinnuna en ég tók eftir því að það var búið að moka e-a göngustíga í morgun. En enn snjóar og snjóar...

17.1.12

- Áfram Ísland -

Já, strákarnir okkar handboltalandsliðinu eru mættir á enn eitt stórmótið, EM í Slóveníu. Ég hafði alveg ágæta tilfinningu fyrir leiknum (Ísland - Króatía, í gærkvöldi) en leist ekki á blikuna þegar fór að líða á leikinn og ekki tókst að slíta sig frá andstæðingunum, og svo fór sem fór. En ég held að fall sé fararheill. Skrýtið annars að sjá liðið án Óla Stefáns og Snorra Steins en það kemur yfirleitt maður í manns stað. Því miður næ ég ekki að horfa á næsta leik í beinni því annað kvöld er fyrsta kóræfing ársins. - Annars missti ég af fyrsta saumaklúbbi ársins, þrátt fyrir að hafa skipulagt hann sjálf. Fannst það alveg upplagt að nota sl. miðvikudag þar sem það var ekki kóræfing. Á ellefta tímanum þann morgun snérist maginn minn á hvolf og ég varð að biðja Davíð um að sækja mig í vinnuna. Rétt náði heim áður en ég þurfti að kasta upp aftur og svo háttaði ég mig, fór beint í rúmið og svaf fram á dag. Fannst ég vera orðin hressari um kvöldið en hélt mig heima við og á fimmtudagsmorguninn kom á daginn að ég var ekki alveg orðin 100%. Var heima þann daginn. - Upp úr hádegi sl. laugardag heimsótti mig ein vinkona mín úr saumaklúbbnum og hafði hún saumana sína með sér svo við settum upp svona "mínísaumaklúbb". Held að við höfum setið og saumað og spjallað í rúma tvo tíma. - Á sunnudaginn skruppum við Davíð að versla eftir hádegið og notuðum tækifærið og fórum með fullt bílskott af ýmsu drasli í Sorpu. Við áttum von á tengdó í heimsókn og ákváðum að bjóða þeim í mat með okkur. Davíð sá um alla eldamennskuna og eldaði dýrindis læri og hafði með sætar kartöflur, sallat, baunir, rauðkál og bernessósu. Mjög ljúffengt allt saman. Með kaffinu eftir matinn buðum við svo upp á karamelluostaköku sem við höfðum kippt með okkur heim úr verslunarferðinni. Góður matur með góðu fólki og stemmingin var mjög notaleg.

11.1.12

- Dagarnir þeytast áfram -

Einn þriðji er liðinn af þessum fyrsta mánuði nýs árs og þótt maður sé ekki kominn í 100 % rútínu þá veit ég varla hvað verður af þessum dögum, og þó... Fór aðeins einu sinni í sund í síðustu viku. Taldi það ekki ráðlegt að fara aftur því ég nældi mér einhvers staðar í slæmt kvef og rétt slapp við að leggjast í rúmið vegna þess. Á laugardagsmorguninn var dreif ég mig í fyrstu esperanto-heimsókn ársins. Við stöllur komumst aðeins í gang og ákváðum að hittast ca hálfsmánaðarlega til að byrja með. Um kvöldið fórum við öll fjölskyldan í veislu sem endaði með balli sem stóð til klukkan að ganga þrjú. Tilefnið var að árgangur 1952 verður sextugur á árinu og var það móðursystir mín (og guðmóðir) sem skipulagði þennan fögnuð. Það voru smá ræðuhöld og upplestur en mest þó söngur úr ýmsum áttum og svo hafði hún beðið bróðurson sinn einn að safna saman strákum til að spila og syngja undir dansi. Davíð bauð tvíburunum að skutla þeim heim um miðnætti en það var bara annar sem þáði það. Hinn tvíburinn skemmti sér of vel til að vilja fara heim enda var jafnaldri hans og frændi okkar sem hefur sams konar áhugamál líka áfram. Þessi sami tvíburi kom svo með mér í messu í óháða klukkan tvö á sunnudaginn þar sem ég mætti sem "óbreyttur kirkjugestur" því kórstjórinn er úti og Raddbandafélag Reykjavíkur sá um að leiða messusönginn. Möguleikhúsið mætti líka á svæðið og sýndi leikrit í staðinn fyrir predikunina. Í gær hélt ég upp á 12 ára starfsafmælið í vinnunni, mætti með brauðtertu, eplaköku og ostaköku. Eftir vinnu dreif ég mig í sund og þangað náði Davíð í mig um hálfsex. Tók loksins fram handavinnuna mína í gærkvöldi, rétt til þess að athuga hvort ég yrði ekki tilbúin í fyrsta saumaklúbb ársins í kvöld...

3.1.12

- Gleðilegt nýtt ár -

Desember var ekki lengi að klárast og allt í einu er árið 2012 mætt á svæðið og bara 355 dagar til næstu jóla. Nýliðin jól voru frekar snubbótt fyrir þá sem þurftu að vinna flesta virka daga, hreinræktuð atvinnuekendajól eða hvað það kallast. Ég fékk kost á því að taka út einn aukafrídag gefins (ekki af orlofinu mínu) í boði vinnunnar og 27. desember varð fyrir valinu. Ég varð líka að taka smá frí frá kirkjusöng, söng bara með við aftanmessur á aðfanga- og gamlársdag en var komin austur á Hellu þegar messað var á jóladag. Mamma og pabbi voru með jóla"brunch"boð fyrir 19 manns (að þeim meðtöldum sem og okkur systrum og okkar fjölskyldum) milli eitt og fjögur. "Litla fjölskyldan" í Danmörku var á landinu, Gerður, Frank og tæplega sjö mánaða sonur þeirra, Elías Frey, voru á landinu 18-27 des og þau komu ma í þetta boð. Yndislega gaman að hitta þau. Foreldra hennar, ömmu, eina frænku mína hennar mann og móður hennar hittum við líka og þetta var hinn allra skemmtilegasti dagur. Helga, Ingvi og dætur eru alltaf fyrir austan á jólunum og oft um áramót. Við Davíð höfum aftur á móti alltaf haldið aðfangadaginn heima hjá okkur sjálfum, alveg frá því við byrjuðum að búa 1990, og það breyttist ekkert eftir að strákarnir fæddust. Okkur var bæði boðið í jólaboðið og hangiket með fjölskyldunni um kvöldið svo við vorum fyrir austan langt fram á kvöld. Tókum því mjög rólega heima næstu tvo daga en skutluðum bræðrunum í heimsókn til föðurforeldrana á þriðjudagskvöldinu milli jóla og nýjárs þar sem þeir voru fram á gamlársdag. Davíð var í fríi frá og með 23. des og alla virku dagana sem eftir voru 2011 og þar að auki "slæddist" 1. virki dagur á nýja árinu með inn í þetta frí. Hann hafði verulega gott af þessu fríi en hann er búin að hafa þetta ca svona nokkuð mörg undanfarin ár því fyrir ekkert svo löngu síðan gat hann ekki tekið lengra sumarfrí að sumri til heldur en uþb tvær vikur. Það er hugsanlega að breytast en ég trúi því samt mátulega fyrr en ég sé það gerast. Fimmtudaginn fyrir áramót hafði snjóað mikið um nóttina og það var eiginlega ófært á köflum. Ég var tíu mínútum lengur að arka í vinnuna enda mátti ég klofa snjóinn sums staðar upp í hné. Ég var samt mætt í vinnuna áður en klukkan sló átta. Eftir vinnu dreif ég mig í Sundhöllina og synti 400m. Var að skila mér heim um hálfsex. Jæja, fyrsti pistill ársins að verða að veruleika, allur í belg og biðu samt. Margt borið á góma en óvíst hvað af því ratar á bloggið. Sjáum bara til með það. Megi árið 2012 fara vel í ykkur og með ykkur. Knús!