- Skráning liðinna atburða og tæpt á öðru -
Á laugardaginn var hitti ég samstarfskonur mínar úr deildinni á 19. hæð í Turninum við Smáratorg þar sem við fengum okkur "brunch" saman fyrir aðeins 3150 á manninn. Kræsingarnar voru hver annarri betri og þótt maður passaði sig á að fá sér ekki of mikið af neinu til að geta smakkað á sem flestu þá var maður orðin frekar saddur eftir fimmtu ferðina. Fór beint úr Turninum og sótti karatestrákinn af æfingu. Um tvöleytið söfnuðumst við öll saman út í bíl og brunuðum austur á Hellu í heimsókn til pabba. Ég tók með mér saumana mína og saumaði slatta í nýju verkefni sem ég byrjaði á á fimmtudeginum.
Á sunnudaginn sat ég við saumana mína í amk fimm klukkutíma enda er búinn alveg hellingur af klukkustrengnum. Tíminn flaug hratt frá mér. Það var svo sem ekkert sérstakt á döfinni og mér leið bara vel með að eyða tímanum svona.
Á mánudagskvöldið tók ég þátt í árlegu bankamóti í keilu ásamt fjórum öðrum konum sem vinna með mér. Sex kvennalið voru skráð til keppni og spilaðar voru þrjár umferðir af fimm þetta kvöld. Töpuðum fyrsta leiknum, en ekki með svo miklum mun og unnum hina tvo. Seinni umferðirnar voru spilaðar í gærkvöldi en ég gat ekki verið með því ég var á kóræfingu að æfa fyrir messuna og kirkjuvíxluhátíðina n.k. sunnudag. Þrátt fyrir tvö töp í gærkvöldi náðum við þriðja sætinu og hengdu vinnufélagar mínir bronsmetalíu um hálsin á mér er ég mætti til vinnu í morgun.