Tók því rólega í gærmorgun. Var þó komin á fætur upp úr klukkan átta. Morguninn fór í netvafr og prjónaskap. Er byrjuð á enn einni tuskunni, að rifja upp mynstrið sikk-sakk. Um ellefu leytið hellti ég upp á könnuna og fékk mér eitthvað að borða. Rétt fyrir tvö skrapp ég í Nauthólsvík. Sjórinn var 0,4°C, það var flóð og fallegt veður. Svamlaði um í rúmlega korter og sat svo annað eins í heita pottinum. Ekki var mjög margt um manninn, það fátt að ekki var röð en við síðustu takmarkanir þurftu starfsmenn aðstöðunnar að fara að telja inn. Það þurfti ekki á þeim tíma sem ég mætti í gær. Gerði mér ferð að Atlantsolíustöðinni við Sprengisand en mér leist ekkert á raðirnar við stöðina og fór þá bara í smá bíltúr í staðinn. Bensínmælirinn segir að tankurinn á eftir einn fjórða eða ca 200 km. Fljótlega eftir að ég kom heim setti ég upp grjónagraut. Að suðu lokinni kældi ég hann niður og í gærkvöldi þeytti ég rjóma og blandaði saman við grautinn. Ég var búin að lofa strákunum þessu að fyrra bragði. N1 sonurinn kom heim af síðustu vakt ársins um hálfníu leytið í gærkvöldi. Hann er nú kominn í helgar og áramótafrí.
31.12.21
30.12.21
Sá næstsíðasti
Ég var komin í sund um níu í gærmorgun. Byrjaði á að sitja fimm mínútur í kalda pottinum. Synti 400 metra bringusund á brautum 7 og 8. Fór svo beint aftur í kalda pottinn. Eftir þá ferð fór ég í sjópottinn. Sá var í heitara lagi. Sat þar samt í uþb tíu mínútur áður en ég fór í gufu. Að gufubaðinu loknu fór ég í kalda sturtu, fjórar mínútur í kalda pottinn og svo í kalda sturtu á leiðinni upp úr. Kom m.a. við í Fiskbúð Fúsa á heimliðinni og keypti saltfisk og harðfisk. Fljótlega eftir að ég kom heim hellti ég upp á könnuna og fékk mér eitthvað snarl. Dagurinn leið frekar hratt. N1 sonurinn var á sinni næstsíðustu vakt á árinu sá atvinnulausi kom ekki á fætur fyrr en á þriðja tímanum. Ég fékk hann til þess að ryksuga yfir gólfin. Hann var frekar lengi að koma sér að verki en þetta hafðist á endanum. Ég sá um afþurrkið. Hringdi í eina sem vinnur með mér og er líka að halda sig frá vinnustað. Við munum hittast í vinnunni á mánudagsmorguninn. Hún lét vel af sér. Okkur finnst þetta báðum skrýtin staða en þó sammála um að líklega sé hún nauðsynleg. Oddur var glaður að fá saltfisk í kvöldmatinn. Ég var nokkuð sátt við kjör íþróttamanns ársins. Hélt reyndar með fimleikastúlkunni og var ánægð með að hún var í liði ársins. Eins var ég ánægð með þjálfara ársins og að Einar Vilhjálms væri kominn í frægðarhöllina.
29.12.21
Annar í ekki vinnu
Fór á fætur um hálfátta í gærmorgun eða á sama tíma og ég er vön að vera mætt til vinnu á virkum dögum. Eftir morgunverkin á baðherberginu settist ég inn í stofu með fartölvuna í fanginu og sat þar í rúman klukkutíma. Var mætt í Laugardalslaugina um níu. Byrjaði á því að fara í kalda pottinn í fimm mínútur. Fór svo á braut 7-8 og synti 400 metra, þar af 150 á bakinu. Eftir sundið sat ég aðrar fimm mínútur í kalda pottinum áður en ég e1 ndaði í gufubaðinu. Þvoði mér um hárið. Rétt upp úr klukkan hálfellefu var ég mætt til norsku esperanto vinkonu minnar. Hún bauð mér upp á hátíðar-hafragraut með kanel, bananabitum og rúsínum og kaffi og smákökur á eftir. Stoppaði í rétt rúman klukkutíma. Næst lá leiðin í Krónuna við Fiskislóð. Eftir að hafa verslað rúntaði ég út að Gróttu þar sem ég stoppaði bílinn um stund og horfði á ólgandi brimið. Davíð Steinn var kominn á fætur þegar ég kom heim og gekk hann frá vörunum. Ég setti handklæði í þvottavél og stillti á forþvott og 60° prógramm. Hringdi í númer einnar sem ég var að vinna með fyrir nokkrum árum. Hún svaraði ekki svo ég ákvað að hella mér upp á kaffi áður en ég gerði aðra hringitilraun. Hún hringdi til baka skömmu síðar og við spjölluðum um stund. Önnur af þeim sem stendur vinnuvaktina hringdi í rétt eftir að samtalinu við fyrrum samstarfskonu lauk. Hún var að spá í svolítið varðandi eina endurnýjunina. Ég hringdi líka í æskuvinkonu mína sem býr á Egilsstöðum. Þar var að snjóa svo mikið að hækka varð hitann í innkeyrslunni til að það kerfi hefði undan að bræða snjóinn. Davíð Steinn fór á aukavakt á N1 við Gagnveg milli fjögur og hálfátta. Ég hafði afgang af hryggnum frá því á aðfangadag í kvöldmatinn. Skar hann niður í sósuna með afgangskartöflunum í pott, bætti við rjómaslettu og gulum baunum og hitaði þetta allt saman.
28.12.21
Ekki í vinnu
Í gærmorgun svaf ég þar til vekjaraklukkan fór að hamast. Reyndar hafði ég rumskað aðeins um eitt leytið og ekki sofnað alveg strax aftur en ég veit ekki hvort það hafði einhver áhrif. Var mætt fyrst til vinnu og þá kom í ljós að prentarinn var í flækju og vildi láta slökkva á sér. Ekkert blað var fast í prentaranum en hann var ekki búinn að prenta út pökkunarlista dagsins. Eftir að hafa endurræst prentarann prófaði ég að prenta út fyrstu framleiðslutölur. Bæði listinn og þær töluru skiluðu sér. Vorum þrjár í vinnu. Fyrirliðinn sá um bókhaldshliðina, ég um móttökuendann á vélinni og sú þriðja hlóð inn og sendi verkefnin af stað. Eftir daglega framleiðslu var nóg af endurnýjun til að vinna við. Fyrirliðinn kom að máli við mig um miðjan morgun og sagði að hún og yfirmaður væru sammála um að skipta hópnum upp í ljósi nýjustu smittalna. Svo þrátt fyrir að við séum flestar með örvunarbólusetningarskammt og ein með tvær sprautur og Covid-veikindi að baki þá er ekki talið öruggt að við séum allar að mæta til vinnu. Fyrirliðinn og hin sem var að vinna í gær fengu sérstakt leyfi til að vera aðeins tvær á vinnustað restina af vikunni og þessu ári. Við hinar þrjár mætum næst til vinnu á mánudaginn, annan í nýja ári og ein af okkur vinnur sína 70% stöðu og hættir á hádegi á fimmtudeginum. Svo getur vel verið að sett verði upp svipað plan og tók við þegar við hættum að skiptast alveg upp en vorum bara þrjár í vinnu í einu. Þá vann maður sex virka daga í röð og var "heima" í fjóra virka daga. Ég var komin heim um hálffjögur í gær og ákvað að taka því bara rólega það sem eftir lifði dags og kvölds. Hringdi í pabba. Lánaði bræðrunum bílinn í gærkvöldi og talaði einnig við norsku vinkonu mína í síma.
27.12.21
Vaknað við klukku
Fór á fætur um níu í gærmorgun. Pabbi var þegar kominn á stjá. Morguninn leið hratt við kapallagnir, spjall og netvafr. Um eitt var ég búin að pakka niður og kvaddi pabba. Fór beinustu leið í bæinn og fékk stæði fyrir framan 15. Gerði tilraun til að hringja í Odd og fá hann til að koma á móti mér og hjálpa mér við dótið. Hann svaraði, var vís á prívatinu. Ég komst samt með allt inn í einni ferð en það munar líka helling um að ferðataskan er á hjólum. Davíð Steinn var að vinna. Pabbi ætlaði að skreppa í kirkju. Það var auglýst messa á Keldum í dagskránni. En þegar hann mætti á staðinn kom hann að lokuðum dyrum svo úr þessu varð einungis hressandi bíltúr. Er búin að lesa þrjár safnsbækur af fjórum en ekki byrjuð á jólabókunum.
26.12.21
Annar í jólum
Ég rétt hafði það af að komast á fætur áður en klukkan sló tíu í gærmorgun, þá búin að sofa í um átta tíma. Pabba var kominn á fætur og sat við eina tölvuna sína. Ég fékk mér lýsi og egg og fljótlega hellti ég upp á könnuna. Svo fór dagurinn í svipaða hluti og í fyrradag; lesa, prjóna, leggja kapla og vafra um á netinu. Ég setti upp kartöflur um hálfsex, bjó til jafning og lagði á borð. Pabbi skar niður hangiketssneiðar og sá svo um uppvaskið á eftir. Sátum fyrir framan sjónvarpið þar til myndin um æskuár Astridar Lindgren var búin. Lögðum svo nokkra fleiri kapla. Pabbi bauð góða nótt um ellefu en ég settist aðeins við tölvuna. Var þó búin að slökkva á henni fyrir miðnætti.
25.12.21
Jóladagur
Var komin á fætur fyrir klukkan hálfníu í gærmorgun og á undan pabba. Hann var reyndar búinn að vakna en ekkert að drífa sig. Það var opið í sund í gær en ekki fyrr en frá átta og það finnst honum of seint svo hann sleppti sundferð. Dagurinn leið í rólegheitum, lestur, prjón, kapallagnir og almennt dunderí. Upp úr klukkan eitt kryddaði ég vænan hrygg, sem systir mín gaf pabba, í ofnpott inn í ofn á 120°. Var ekki viss um þyngdina á hryggnum en um kaffi leytið hækkaði ég hitann upp í 150° og um hálfsex upp í 250° og tók lokið af pottinum. Setti upp kartöflur og bjó til sósu með þessu. Maturinn var tilbúinn á slaginu sex og var virkilega góður. En það er alveg slatti af afgangi eftir. Pabbi sá um uppvaskið. Ég færði honum rauðvínsflösku. Var búin að gerar nokkrar tilraunir til að athuga hvort krossgátubók ársins 2022 væri komin út því í mörg ár hef ég gefið pabba slíka bók í jólagjöf. Um sjö leytið opnaði ég bögglana mína. Fékk matreiðslubók og gjafakort frá RB, múmín kaffakrús frá Salt/Pay, gjafakort frá pabba, prjónabók með vettlingamynstri (og vettlinga) frá tvíburahálfforeldrum mínum, vatnsflösku frá kisunni Pixý, prjónabók og skáldssögu frá Oddi Smára og þrjár tegundir af kaffi og bók eftir Mikael Torfa (bréf til mömmu hans) frá Davíð Steini og svo nokkur jólakort að auki. Við feðgin vorum á fótum fram eftir kvöldi og fram á nótt.
24.12.21
Aðfangadagur
Klukkan var að verða níu þegar ég vaknaði í gærmorgun. Pabbi var nýlega kominn heim úr sundi þegar ég kom fram stuttu síðar. Um hálftólf bauð hann mér á Kanslarann. Þar var ekki skata heldur jólaskinka í matinn en þó nokkuð að gera við að svara símanum og segja "því miður, nei, það er ekki skata". Við feðgin vorum einu gestirnir. Það kom reyndar einn maður inn en hann var að spyrja um skötu og fór strax aftur eftir neikvætt svar. Komum við í búðinni á leiðinni til baka. Aldrei þessu vant þá gleymdi ég ferðasnyrtisettinu og tannburstanum heima. Keyptum malt, grænar baunir og Síríus-suðusúkkulaði í leiðinni. Annars leið dagurinn nokkuð fljótt við lestur, prjón og kaplalagnir. Hellti mér upp á sterkt kaffi um þrjú leytið í kaffitímanum. En í kvöldmat fékk ég mér eina mandarínu, mjög södd eftir hádegið og kaffitímann. Fékk mér svo tvö vínglös í gærkvöldi.
23.12.21
Jólafrí
Stillti ekki á mig neina klukku þegar ég fór að sofa í fyrrakvöld. Vaknaði við jarðskjálftann um hálffimm en sofnaði fljótlega aftur og svaf til klukkan átta. Sat í stofunni með fartölvuna í fanginu þegar næstu skjálftar yfir 4 riðu yfir. Fór í sund um tíu. Skrapp á tvo staði í Kringlunni eftir sundið og skutlaðist svo með síðasta jólakortið vestur í bæ til norsku esperantovinkonu minnar. Hún varaði mig við að hún væri með kvef en ég þáði samt hjá henni tvo bolla af kaffi. Kom heim upp úr klukkan hálfeitt. Pakkaði niður en fór svo aðeins í tölvuleik aftur. Kvaddi synina um þrjú og brunaði beint austur á Hellu til pabba.
22.12.21
Jarðhræringar
Vaknaði rétt upp úr klukkan sex í gærmorgun, nokkuð á undan vekjaraklukkunni. Var mætt fyrst af fjórum til vinnu. Sú sem kom inn á móttökuendann á vélinni með mér bað um að fá að vera áfram á vélinni eftir kaffi. Skiptum okkur í kaffi og þær sem voru frammi fóru á undan og leystu okkur af um tíu. Daglegri framleiðslu lauk um tólf og einnig náðist að framleiða 1000 í viðbót af 4000 gjafakortum. Reyndar voru pöntuð 1000 gjafakort í hádeginu sem fóru aftast í röðina. Yfirferð var á vélinni frá hádegi. Ein af okkur var í fríi eftir hádegi og ég fékk að fara aðeins á undan hinum, um þrjú. Labbaði á Grettisgötuna til Lilju. Afhenti henni jólakortið sitt og þáði kaffi. Tók 13 frá Bíó Paradís rúmlega fjögur og fór ekkert út aftur eftir að ég kom heim. Var með rauðrófubuff og hrísgrjón í matinn.
21.12.21
Heildarfærsla no 3100
Vaknaði góðri stund á undan vekjaraklukkunni. Dreif mig á fætur og heyrði í N1 syninum hamast á lyklaborðinu sínu. Hann kom fram skömmu síðar og var farinn af stað í sína vinnu á undan mér. Ég var mætt í mina vinnu fyrst af þremur, hinar tvær voru í fríi. Ég var skráð á móttökuendann en sú sem var skráð á ítroðsluendann og var þar á föstudaginn var bað mig um að skipta við sig. Dagleg framleiðsla gekk vel en hluti af endurnýjuninni var gallaður. Sem betur fer eyðilögðum við ekki mörg kort því kerfisfræðingur hafði beðið okkur um að fara varlega í gang með endurnýjunina, hafði sennilega grun um gallann. Í hádeginu voru pöntuö 4700 gjafakort. Gátum framleitt og sent 700 af þeim með hádegistöskunni. Milli hálfeitt og þrjú var verið að taka afrit af vélinni en síðasta klukkutímann framleiddum við fyrstu 1000 gjafakortin af 4000. Kom rúmlega fjögur. Anna frænka mín Önfjörð hafði samband við mig nokkru áður og hún kíkti í heimsókn rétt fyrir fimm með pakka til mín frá kisunni Pisý. Ég var búin að hella upp á könnuna og frænka mín, systurdóttir mömmu, stoppaði í um klukkustund. Ég fór ekkert út úr húsi aftur.
20.12.21
Eftir helgina
Svaf til klukkan að byrja að ganga tíu í gærmorgun. Næstu tvo tíma eftir að ég fór á fætur var ég að leika mér og vafra um á netinu. Hellti mér upp á kaffi um hádegið og var þá búin að taka ákvörðun um að skrópa í sund. Dútlaði mér við ýmislegt hérna heima en tók þó ekki fram prjónana og ekki bók fyrr en ég fór í háttinn í gærkvöldi. Lánaði bræðrunum bílinn seinni partinn í jólabögglaútkeyrslu og stúss. Dagurinn leið frekar hratt þrátt fyrir allt, eiginlega alltof hratt.
19.12.21
Ljósfjólublár himinn
Vaknaði rétt fyrir hálfátta í gærmorgun. Gaf mér tíma til að vafra um á netinu og setja í þvottavél áður en ég fór í sund. Ég var að velta því fyrir mér að geyma hárþvott í nokkra daga en ákvað svo að þvo mér um hárið eftir sundrútínuna. Næsti "hárþvottadagur" er jóladagur en ég mun flýta honum um tvo til þrjá daga. Sundrútínan gekk annars vel fyrir sig. Breytti henni aðeins. Þrjár ferðir í kalda, tvær í heitasta, 300m sund, þar af 250m á bakinu, gufa, köld sturta, sjópottur, loka ferðin í þann kalda og svo sat ég smá stund úti á stól áður en ég fór inn að þvo á mér hárið. Hengdi upp úr þvottavélinni þegar ég kom heim. Hellti upp á kaffi og fékk mér eitthvað snarl. Stuttu fyrir tvö dreif ég mig af stað aftur og gerði mér ferð á Selfoss. Byrjaði á að koma við í Fossheiðinni, skila af mér pakka og korti, taka móti pakka og korti í staðinn og þyggja kaffi og veitingar. Stoppaði í um klukkustund. Næst lá leiðin til Jónu og Reynis með tvö jólakort, annað til þeirra og hitt til Gerðar og fjölskyldu. Þau Reynir og jóna gista á hóteli í Keflavík aðfaranótt næsta þriðjudags og fljúga út morguninn eftir. Koma heim aftur rúmri viku síðar. Færði þeim líka eldhúshandklæði og borðtusku. Þau voru að byrja kaffitímann sinn þegar ég kom og þáði ég kaffi og meðlæti þar einnig. Stoppaði í um klukkustund og keyrði Þrengslin í bæinn aftur. Um hálfátta leytið bauð ég strákunum með mér á Pítuna. Oddur var bílstjóri svo ég ákvað að splæsa á mig einu hvítvínsglai með matnum.
18.12.21
Á leið í sund
Ég var mætt fyrst af þremur til vinnu í gærmorgun. Stuttu síðar mætti sú næsta en sú þriðja hringdi og tilkynnti að hún yrði aðeins sein. Hún var þó mætt áður en við fórum að framleiða. Reyndar hefðum við aldrei byrjað án hennar því reglurnar segja að við verðum að vera þrjár. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Lentum í smá basli með að framleiða tvær af tegundunum úr fyrsta verkefninu. Kerfisfræðingarnir tveir mættu á svæðið, fundu út úr villunni og við náðum að skila af okkur á réttum tíma. Þeir voru að vinna í að laga það sem var í ólagi í fyrradag og það gekk líka upp. Þegar vinnu lauk um hálffjögur vorum við með hreint borð hvað dagleg verkefni varðar. "Á kantinum" bíða svo tvær stórar endurnýjanir, alls um tíu þúsund kort. Ég var komin heim um fjögur. Klukkan var fimm þegar ég lagði á planið við Nauthólsvík. Sjórinn orðinn 3,6°C, flóð og ég svamlaði um í uþb tuttugu mínútur. Hitti eina úr sjósundshópnum í heita pottinum. Hún var búin að fara í sjóinn. Við spjölluðum í nokkra stund en ég var á undan upp úr. Gerði mér ferð á AO við Sprengisand á heimleiðinni og fyllti á tankinn.
17.12.21
Helgi framundan
Vaknaði við vekjaraklukkuna í gærmorgun, sem kemur fyrir en er frekar sjaldgæft. Kom við í bakaríinu við Skúlagötu á leiðinni í vinnuna. Það bakarí opnar klukkan hálfátta virka daga og ég kom að um það leyti sem verið var að opna. Vorum fjórar í vinnu og ég var í bókhaldinu. Fyrsti framleiðsluskammtur gekk vel. En kerfisfræðingur hafði samband við mig og sagði okkur að bíða með að hlaða inn næsta skammti og framleiða þar til hann kæmi á staðinn. Þegar það mátti svo fara í gang gekk ágætlega til að byrja með. Það átti aðeins eftir að framleiða einn skammt úr verkefni tvö þegar upp kom villa og framleiðslan stoppaði. Villan hafði líka áhrif á hádegisframleiðsluna. Tvær af okkur gerðu sér ferð yfir í K2 í hádeginu, fengu hangiket og meðlæti að borða og komu til baka með jólagafirnar okkar.
Ég kom heim upp úr klukkan þrjú. Um hálffimm var ég komin á planið við Laugardalslaug eftir að hafa komið við í Fiskbúð Fúsa. Hringdi í pabba áður en ég fór lengra. Svo skellti ég mér beint í sund. Synti í korter, fór tvisvar í kalda, einu sinni í heitasta og endaði í gufubaði. Ætlaði að fylla á bílinn áður en ég fór heim en mér leist ekkert á röðina við AO við Sprengisand svo ég ákvað að geyma það verkefni aðeins.
16.12.21
Langur vinnudagur
Ég var mætt fyrst í vinnu í gærmorgun í bleiku regnkápunni. Laumaði pakka undir tréð við kaffistofuna og setti ostaþrennuna í ísskápinn. Vorum allar mættar og kerfisfræðingarni komu um svipað leyti. Verið var að breyta sendingaleið fyrstu tveggja verkefnanna yfir á framleiðsluvélina. Það var pínu vesen en fyrsta verkefnið kláraðist þó rétt um tíu. Alveg á tíma nema sendillinn hafði gert tilraun til að nálgast töskuna og kortin hálftíma fyrr svo hann þurfti að koma aftur. Ég var að flokka kennispjöld fram að kaffi en á móttökuendanum fram að hádegi. Erfiðlega gekk að koma verkefni tvö yfir en við gátum afgreitt gjafakortapöntun og svo hádegis framleiðsluna. Um tvö var ekki enn farið að framleiða debetið en við eftirlétum kerfisfræðingunum að vinna í og finna út úr málunum í rúma klukkustund og héldum "litlu jólin" frammi í kaffistofu. Tveir af fjórum öðrum höfðu missreiknað daginn og þar sem þeir voru ekki með böggla undir tréð vildu þeir ekki taka þátt í kaffisamsætinu. Ég var reyndar sú eina sem drakk kaffi með smákökunum, ostatertunni, ostunum, mandarínunum og vínberjunum því boðið var upp á kók, malt og appelsín með. Þá drykki drekk ég hins vegar ekki. Aðeins byrjaði að þokast í framleiðslunni þegar við komum inn aftur. Tvær þurftu að fara fljótlega og sú sem var í bókhaldinu fór um hálffimm. Þá var framleiðslan loksins að komast á fullt. Kom heim um hálfsjö og fór ekkert út aftur.
15.12.21
Miðvikudagur
Vaknaði rétt rúmlega sex í gærmorgun. Fór aftur í bleiku regnkápunni í vinnuna. Mættum fjórar, ein var enn í fríi. Ég var að hlaða inn verkefnum og senda þau af stað á framleiðsluvélinni fram að kaffi. Eftir kaffi fór ég á móttökuendann. Engin gjafakort í framleiðslu og heldur ekki alveg komið að endurnýjun. Daglegri framleiðslu lauk um tólf. Eftir hádegi flokkaði ég kennispjöld í hálftíma og taldi svo úr seinni tveimur vögnunum með þeirri sem var í bókhaldinu. Korter yfir tvö mætti yfirmaður okkar á svæðið. Við fórum með henni fram í kaffistofu og héldum fund og settum upp næsta skipulagsverkefni. Vinnu lauk upp úr hálffjögur. Ég kom heim um fjögur og fór ekkert út aftur. Skrifaði níu jólakort en lét hvítvínið vera. Á nú aðeins eftir að skrifa þrjú síðustu jólakortin en það eru kort sem ég sendi ekki með póstinum heldur afhendi sjálf. Á samt eftir þrjú frímerki en ætla að bjóða deildinni að nota þau til að senda jólakort frá okkur.
14.12.21
Þriðjudagur
Fór í bleiku regnkápunni í vinnuna í gærmorgun. Við vorum þrjár að vinna og tvær í fríi. Ég var skráð í bókhald en ég er líka skráð í bókhald á fimmtudaginn og önnur af þeim sem var í gær var ekkert skráð í bókhald í þessarri viku svo ég bauð henni að vera í bókhaldinu í gær. Hinni bauð ég að velja á hvorum endanum hún væri á vélinni, hún var nefnilega ekki skráð á vélina fyrr en eftir kaffi heldur önnur þeirrar sem er í fríi og sú sem ég bauð að taka að sér bókhaldið. Úr varð að hún valdi móttökuendann. Allri framleiðslu var lokið upp úr klukkan tólf og rúmlega tvö var öllum verkum lokið. Hefðum að vísu getað flokkað kennispjöld en við ákváðum að hætta vinnu. Ég var komin heim upp úr klukkan hálfþrjú. Strákarnir voru báðir heima, annar að fá sér að borða og hinn var nýlega vaknaður. Fljótlega tók ég til sjósundsdótið, bókasafnspokann og þrjú af fimm jólakortum sem ég var búin að skrifa. Byrjaði á því að skreppa í pósthúsið. Rétt áður en kom að mér kom séra Pétur að. Hann bað mig um að leysa út sendingu fyrir sig og kirkjuna og það gat ég og mátti, póstlagði bréfin og keypti 20 frímerki. Næst lá leiðin í bókasafnið. Skilaði bókunum tveimur og fékk mér fjórar í staðinn. Eftir sjósundsferð, tuttugu mínútur í 2,2°C sjónum og 15 í pottinum skrapp ég aftur í Kringluna á tvo staði. Eftir kvöldmat skrifaði ég svo átta jólakort og þá er aðeins eftir að skrifa 12 í viðbót.
13.12.21
Mánudagur
Heyrði í N1 syninum fara upp úr klukkan níu í gærmorgun. Ég kúrði aðeins lengur. Eftir að ég fór á fætur settist ég niður í stofu með fartölvuna í fanginu og tíminn flaug. Fór ekkert út í gær en ég er búin að skrifa öll jólabréfin þrjú, utan á öll 25 umslögin og fimm af tuttuguogfimm jólakortum. Fékk mér ekkert hvítvín í þessum aðgerðum í gær en drakk litlu flöskuna, ca eitt glas, í fyrrakvöld þegar ég var að skrifa síðasta jólabréfið. Kláraði þau skrif í gær. Lauk líka við að lesa síðustu bókina af safninu, Svört perla eftir Lizu Marklund. Þær eru reyndar aðeins tvær bækurnar af safninu í fórum mínum og skilafresturinn rennur út á morgun en má framlengja um 30 daga. N1 sonurinn hringdi þegar rúm klukkustund var eftir af vinnunni hjá honum. Hann ætlaði að ljúka vaktinni en var að spyrja hvort hægt væri að sækja hann um átta. Oddur Smári fékk sér bíltúr þegar nálgaðist "hættutíma" hjá Davíð Steini. Fékk samt sama stæðið fyrir utan þegar þeir komu til baka.
12.12.21
Rólegheit
N1 sonurinn fékk leigubílakort til að komast í vinnuna um helgina. Ég heyrði hann fara upp úr sjö í gærmorgun en fór ekki sjálf á fætur fyrr en klukkan var byrjuð að ganga níu. Var komin í sund um níu. Synti ekki mikið en samt smá á bakinu. Fór tvisvar í kalda, einu sinni í heitasta og endaði í gufu. Var að þvo á mér hárið upp úr klukkan tíu og mætt hjá norsku esperanto vinkonu minni um hálfellefu. Hún var með smákökur handa mér og kryddbrauð til strákanna. Hún bauð upp á graut, kaffi og smákökur og ég stoppaði hjá henni í rúma klukkustund. Kom við á tveimur öðrum stöðum áður en ég fór heim. Seinni staðurinn var Krónan, hálfur mánuður síðan ég verslaði síðast. Fékk stæði fyrir utan hér heima og komst inn með allt í einni ferð. Fljótlega hellti ég mér upp á könnuna. Skrifaði eitt jólabréf á ensku og byrjaði á þriðja og síðasta jólabréfinu sem er á dönsku. Skrifaði utan á eitt umslag en lengra komst ég ekki í jólakortaskrifum í gær. Semsagt ekki búin að skrifa á eitt einasta kort. En það stendur til bóta í dag. Horfði á einn leik í enska og glefsur úr tveimur öðrum og svo festist ég í myndinn Love actually sem sýnd var á Sjónvarpi símans. Hef þó horft á þessa mynd nokkrum sinnum.
11.12.21
Ekki á skutlvakt
Ég var vöknuð upp úr klukkan fimm í gærmorgun, eiginlega útsofin. Reyndi að kúra lengur en þegar ég heyrði Odd Smára banka á stofuhurðina til að "ýta" við Bríet ákvað ég að fara á fætur. Bríet var á leið í flug, átti að vera mætt á Reykjavíkurflugvöll fyrir klukkan hálfsjö. Hún sagðist hins vegar alltaf þurfa að gefa sér góðan tíma til að vakna. Við sátum í stofunni öll þrjú í nokkra stund og spjölluðum. Svo fór frænka mín að klæða sig í hvert fatalagið á fætur öðru. Þetta gerði hún m.a. til þess að lágmarka það sem hún tók með sér sem farangur. Hún var með einn stóran bakpoka. Þar sem hún má samt ekki halda á neinu sá Oddur um burðinn og á vellinum var samið um að bakpokinn færi í farangursrými flugvélarinnar ásamt töskum hinna farþeganna.
Var mætt í vinnu um hálfátta. Oddur var ekki kominn heim þegar ég lagði af stað enda ákvað hann að bíða með frænku sinni þar til hún fór um borð í vélina til Akureyrar. Vorum þrjár í vinnu og minn vinnustaður var á ítroðsluenda vélarinnar. Það kom í ljós í byrjun að slökkt hafði verið alveg á vélinni daginn áður, ekki við sem vinnum við hana, heldur þeir sem eru að uppfæra kerfin og voru að testa. Það þurfti að endurræsa allan hugbúnaðirnn áður en allt komst í gang en það hafðist eftir smá stund og við vorum búnar með fyrsta framleiðslu skammt rétt upp úr klukkan niu. Hádegisframleiðslan tók sinn tíma því þá var komið að því að prófa nýja sendingaleið að það sem framleiða átti. Það tók fjórar eða fimm tilraunir til að fá það til að virka og afhendingunni seinkaði um tæpan hálftíma. Létum vita af seinkuninni í tíma og þeir sem áttu að fá þessa framleiðslu voru mjög glaðir þegar í ljós kom að seinkunin var ekkert svo mikil. Reyndar var hún innan "gömlu" afhendingarmarkanna.
Kom heim aftur um þrjú. Seinni partinn skrapp ég í sjóinn, 0,9°C og samt ætlaði ég ekki að tíma því að fara upp úr aftur. Svamlaði um í uþb korter og var styttri tíma í heita pottinum. Kom við í vínbúðinni á heimleiðinni og verslaði tvær hvítvínsflöskur, eina af minnstu gerð og aðra um 500ml.
10.12.21
Vaknað snemma
Ég var mætt fyrst til vinnu í gærmorgun. Fram að kaffi undirbjó ég pökkun, flokkaði kennispjöld og taldi með þeirri sem var í bókhaldinu þegar fyrstu tölur voru tilbúnar. Eftir kaffi fór ég á ítroðsluendann á vélinni. Allri framleiðslu var lokið um tólf, bæði daglegri sem og gjafakort. Fljótlega eftir hádegi var ég farin að flokka kennispjöld aftur. Um tvö fór ég með 14 kassa af flokkuðum kennispjöldum inn í geymslu og sótti 15 óflokkaða kassa í staðinn. Hættum vinnu upp úr klukkan hálfþrjú. Var komin heim um hálfþrjú. Synir mínir voru að erindast á bílnum. Þegar þeir komu um fjögur leytið kom yngri systurdóttir mín með þeim. Pabbi hafði skutlað henni í bæinn og þau hringdu í annan hvorn strákinn og biðu fyrir utan eftir þeim. Vissu líklega ekki að ég var komin heim. Pabbi fór beint austur aftur eftir að strákarnir komu og héldu á dótinu hennar Bríetar inn. Hún reif eitthvað upp í skurðinum í vikunni og er aftur komin í veikindaleyfi. Má ekki lyfta neinu í eina til tvær vikur, ekki einu sinni reyna að standa upp ef hún dettur á gólfið.
9.12.21
Fimmtudagur
Rumskaði einhvern tíman um tvö leytið í fyrrinótt. Var ekki mjög fljót að sofna aftur en það var samt ekkert óþol í mér og ég fór hvorki fram né kveikti ljós til að lesa. Ég sofnaði örugglega aftur og svaf alveg þar til vekjaraklukkan gaf til kynna að kominn væri fótaferðatími fyrir þá sem væru á leið í vinnu. Ég var fyrst á vinnustað í gærmorgun en sú sem oftast kemur á undan mér var og er í fríi næstu daga. Var á móttökuendanum á vélinni fram að kaffi og í pökkun og talningum fram að hádegi. Eftir hádegi átti aðeins eftir að framleiða tæplega níuhundruð gafakort. Framleiddum þau þó ekki öll, skildum eftir ríflega hundrað. Hættum vinnu um hálfþrjú. Stoppaði heima til klukkan að verða hálffimm en þá tók ég til sunddótið mitt, sópaði af bílnum og fór í Laugardalslaugina. Byrjaði á því að synda. Ekkert bólaði á kalda potts vinkonu minni á meðan ég var í kalda potts rútínu það var ekki fyrr en ég var að koma úr gufunni og á leiðinni upp úr um sex að hún mætti á svæðið. Venjulega er hún að koma beint úr leikfimi um hálfsex en í gær var hún að koma af fundi vegna ferðar sem hún er að fara í um komandi helgi. Þegar ég kom heim var Davíð Steinn búinn að elda og þeir bræður sestir að snæðingi. Notalegt að koma heim og maturinn er tilbúinn.
8.12.21
Vikan uþb hálfnuð
Það sem tíminn æðir áfram og ekkert hægt að gera í því nema hamast við að njóta augnablikanna á mismunandi skynsaman máta. Í gær vann ég í bókhaldinu í vinnunni. Það kom strax í ljós að fyrstu tölur höfðu ekki skilað sér einhverra hluta vegna, skráin var á núlli. Það er ekki eðlilegt ástand svo ég fór beint í að senda skilaboð á alla hluteigandi. Þar fór allt í gang fljótlega til að skoða og laga og um ellefu kom þessi skrá loksins yfir á framleiðsluvél. Í staðinn ætluðu þær sem voru á vélinni fram að kaffi að vinna að verkefni tvö en þá vildi ekki betur til en einn módúllinn var ósamvinnuþýður. Úr varð að setja af stað gjafakortaframleiðslu því viðkomandi módúll tengist þeirri framleiðslu ekkert. Rétt fyrir níu mættu kerfisfræðingar á svæðið og voru þeir fljótir að kippa módúlamálunum í lag. Málin þróuðust þannig að öll dagleg framleiðsla var kláruð og talningarnar gerðar fljótlega eftir hádegi á öllum framleiddum tegundum. Svo náðist að klára endurnýjun. Ég fór í að flokka kennispjöld síðasta klukkutímann í vinnunni. Hætti vinnu um hálffjögur.
7.12.21
Þriðjudagsmorgun
Vaknaði rétt upp úr klukkan sex, að minnsta kosti korteri áður en vekjarinn átti að hringja. Slökkti í vekjaranum, klæddi mig og bjó um. Ég var búin að sitja inni í stofu með fartölvuna á hnjánum í amk tíu mínútur áður en N1 sonurinn kom fram. Hann var svo farinn á undan mér. Ég var mætt fyrst í mína vinnu um hálfátta. Vorum allar fimm í gær og ég var á ítroðsluendanum á vélinni milli tíu og rúmlega tólf. Reyndar gátum við ekki byrjað fyrr en klukkan var langt gengin í ellefu því kerfisfræðingarnir yfirtóku vélina þegar við fórum í kaffi og þurftu þennan tíma til að gera tilraunir. Þannig að í stað þess að ljúka við dk framleiðslu dagsins fórum við næstum beint í hádegisframleiðsluna. Framleiddum reyndar tvær síðustu skrárnar fyrir einn bankann en þá voru tvær skrár úr einum banka eftir. Þær sem voru á vélinni fram að kaffi fóru aftur á hana eftir hádegi. Hættum vinnu rétt fyrir hálffjögur. Ég stoppaði heima í tæpa klukkustund áður en ég dreif mig í Nauthólsvík og 2,1°C sjóinn. Var næstum því tuttugu mínútur að svamla í sjónum og kannski eitthvað svipað sem ég sat í pottinum. Held samt að ég hafi verið styttra í pottinum en sjónum.
6.12.21
Tíminn þýtur
Vaknaði rétt fyrir klukkan níu í gærmorgun. Fór á fætur og eftir morgunverkin á baðinu kveikti ég á einni tölvunni hans pabba. Sat svo við hana í um klukkustund. Pabbi kom fram um tíu leytið og byrjaði á því að skrá niður sínar mælingartölur um hitastig og fleira. Við fengum okkur harðsoðin egg og hann setti fleiri upp. Ég fór í kaplakeppni við sjálfa mig. Um hálftólf hellti ég mér upp á kaffi. Pappírinn sem ég keypti til að setja inn í dökku jólakortin mætti alveg nota sem jólakort ein og sér. Hann er 220 gr. Ákvað samt að nota hluta af honum inn í tilvonandi jólakort þessa árs. Lauk við að brjóta og líma 20 stk. inn í grænu, bláu, rauðu og svörtu jólakortin. Um hálftvö kvaddi ég pabba minn og frænku mína og lagði af stað heim. Kom við hjá Jónu Mæju og Reyni. Þeim hálfbrá þegar ég hringdi dyrabjöllunni þeirra því það kemur svo sjaldan nokkur til þeirra þessa dagana. En þau tóku fagnandi á móti mér og ég stoppaði hjá þeim í kaffi í um klukkutíma. Þau fara til Danmerkur um jólin svo ef ég er skynsöm þá klára ég jólabréf og kort til Gerðar og bið þau fyrir það áður en þau fara út. Jóna Mæja sýndi mér svolítið þegar ég kom. Þegar hún varð sextug fyrir átta árum gaf ég henni útsaumað stjörnumerkið sitt með nafninu sínu undir. Það átti bara eftir að finna ramma utan um útsaumið. Afmælið var haldið í Reykjavík á sínum tíma hjá aldraðri móður hennar. En svo tíndi hún þessari gjöf og var búin að leita öðru hvoru. Þetta fannst loksins um daginn þegar hún tók fram gjafapoka til að endurnýta. Ég kom heim um fimm leytið. Tæpum tveimur tímum seinna tók Davíð Steinn að sér að elda úr "jólaglaðningum" frá RB. T-bone steik með alls konar meðlæti og ofnbakaður gullostur í forrétt.
5.12.21
Á Hellu
Svaf til klukkan langt gengin í átta í gærmorgun. Dreif mig beint í sund og rútínan þar tók rúma tvo tíma með hárþvottinum í lokin. Það var ekki fyrr en ég kom heim úr sundi og búin að hella mér upp á kaffi og finna mér eitthvað snarl að ég settist niður í stofu með fartölvuna í fanginu og kaffibollann á kantinum. Eftir smá leiki, netvafr og blogginnfærslu sótti ég þvottinn minn í þvottahúsið. Pakkaði niður í tösku, gat aðeins vakið annan strákinn til að kveðja. Lagði svo af stað austur upp úr klukkan hálfeitt. Kom við í Fossheiðinni á Selfossi. Stoppaði þar í um klukkustund áður en ég hélt för áfram á áfangastað. Byrjaði á því að fara í smá kaplakeppni við pabba en eftir kaffitímann horfðu við á seinni hálfleik í leik þar sem Liverpool var að keppa á útivelli. Staðan var markalaus þar til á síðustu mínútu uppbótartíma að Liverpool náði inn marki og tók öll stigin þrjú. Chelsea hafði tapað óvænt í hádegisleiknum svo "mitt" lið var á toppnum þar til eftir Man. City var búinn að vinna sinn leik og er fyrir vikið á toppnum stigi ofar en Liverpool. Eldaði grjónagraut í matinn. Fékk mér hvítvín eftir fréttir og við pabbi horfðum saman á Emil í Kattholti.
4.12.21
Hádegi
Sú sem er vön að vera mætt fyrst á vinnustað þegar hún er ekki í fríi eða lasin mætti síðust í gærmorgun. Ein af okkur hinum þremur sem erum í 100% stöðu reyndi að hringja um átta en síminn hjá þeirri sem ekki var mætt hringdi út. Þá hringdi hún í dóttur viðkomandi og það kom í ljós að mamman hafði sofið yfir sig. Hún átti að vera á móttökuendanum á framleiðsluvélinni en ég skipti við hana og í staðinn fór hún inn á vél eftir kaffi og á móttökuendann eftir hádegi. Þar sem fella þurfti jólahlaðborð vinnustaðarins niður vegna veiru og hertra reglna fengum við jólaglaðning, gott að borða, velútilátið fyrir tvo og þríréttað. Það mátti sækja þetta seinni partinn á fimmtudaginn en við fengum okkar sent í K1 í gær. Vegna aukafarangursins þáði ég boð um far heim eftir vinnu frá þeirri sem býr í Garðabæ. Um hálffimm fór ég í Nauthólsvík. Það var stillt veður, flóð og sjávarhiti 2,2°C. Ég var að svamla um í sjónum í uþb korter og sat svo annað eins í heita pottinum áður en ég fór upp úr og heim. Lánaði bræðrunum bílinn um sjö og fram eftir kvöldi. Þeir voru boðnir í 25 ára afmæli einnar skólasystur þeirra úr Hlíðarskóla. Vorum beðnir um að vera búnir að taka hraðpróf og ekki mæta nema þeir væru neikvæðir. Ég hafði það notalegt fyrir framan imbann til klukkan að verða ellefu. Þá fór ég í háttinn, kláraði að lesa bókina Bláleiftur eftir Ann Cleves og byrjaði á Svörtu perla eftir Lizu Marklund.
3.12.21
Morgunstund
Við vorum fjórar í vinnu til hádegis og þrjár eftir hádegi. Ég vann á vélinni allan daginn en skipti reglulega um enda. Gátum lokið við stóra gjafakortapöntun og sent frá okkur upp úr hádeginu. Vinnudagurinn leið hratt þótt hann stæði yfir til klukkan langt gengin í fjögur. Kom við í Eymundsson í Austurstræti og keypti mér hvítan pappír til að setja inn í dökku jólakortin. Fjárfesti einnig m.a. í pennum. Klukkan var orðin hálffimm þegar ég kom heim og enn og aftur skrópaði ég í sund. Fór ekkert út aftur. Hafði til kvöldmat um sjö. Annar sonurinn reyndar að vinna og hinn hafði pantað sér pizzu en gekk þó frá í eldhúsinu. Horfði á megnið af Man. Utd - Arsenal leiknum en fór inn í rúm að lesa korteri áður en leiknum lauk.
2.12.21
Fimmtudagsmorgunn
Vaknaði nokkrum mínútum áður en vekjarinn átti að fara af stað í gærmorgun. Fór á fætur og gaf mér tíma til að vafra um á netinu. Var mætt fyrst í vinnuna af þremur um hálfátta. Hinar tvær voru í fríi. Ein vann í bókhaldi, "frystingum", mánaðamóti og álíka stússi á meðan við hinar tvær skiptum með okkur verkum á framleiðsluvélinni. Ég var í móttökunni fram að hádegi og hefði verið allan daginn ef hin hefði ekki beðið mig um að skipta við sig. Eftir hádegi vorum við aðallega að framleiða gjafakort en þar sem var lítið að gera hjá mér nema að telja hráefnið áður en ég setti það af stað í gegnum vélina þá tók ég að mér að hjálpa bókaranum að telja alla framleiðslu dagsins. Hættum framleiðslu rétt rúmlega þrjú, "háttuðum" vélina og gengum frá. Ég tók strætó klukkan hálffjögur og var komin heim tæpu korteri síðar. Klukkan var nokkuð langt gengin í fimm þegar ég dreif mig í sund. Synti smávegis og var svo í minni annarri ferð í 7,3°C kalda pottinum þegar kalda potts vinkona mín mætti. Beið eftir henni á meðan hún skrapp aðeins í heitasta pottinn og sat svo áfram allan tímann í hennar fyrstu ferð í kalda. Fórum fjórar aðrar ferðir og enduðum svo í löngu gufubaði. Ég kom heim um hálfsjö. Stór hluti af kvöldinu fór í fótboltagláp. Everton - Liverpool 1:4.
1.12.21
Mánuður eftir af árinu
Vaknaði fimm mínútum áður en vekjarinn átti að hringja í gærmorgun. Fór strax á fætur og hafði tíma til að vafra um á netinu áður en ég fór í vinnuna. Ég var í bókhaldinu í gær, ein í fríi og hinar þrjár skiptust á að vera á framleiðsluvélinni, tvær og tvær í senn, pakka eða telja með mér. Klukkuna vantaði korter í fjögur þegar við hættum vinnu en þá var líka önnur endurnýjun af þremur búin. Hálftíma síðar var ég komin heim og að þessu sinni skrópaði ég í sundið því ég vildi fylgjast með kvennalandsleiknum í knattspyrnu sem byrjaði klukkan fimm.