31.7.21

Síðasti júlídagurinn

Í gærmorgun labbaði ég Klambratúnið, Flókagötu, Gunnarsbraut, Grettisgötu, Snorrabraut og Skúlagötu til vinnu. Þetta er ca 6-7 hundruð metra styttri leið en "lengri" leiðin. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Fyrir lá einungis dagleg framleiðsla og mánaðamótatalningar. Við vorum búnar að því öllu fyrir klukkan hálftvö og laumuðum við okkur út af vinnustað rétt fyrir tvö. Ég fékk far heim. Um fjögur leytið var ég komin í sund. Þar gaf ég góðan tíma til að pottormast en ég synti líka 200 metra. Tók smá bíltúr á leiðinni heim og kom við á Atlantsolíustöðinni við Öskjuhlíð. Valdar ferðavikur eru byrjaðar hjá mér svo líterinn var 25 kr. ódýrari. En verðið án afsláttar er komið yfir 255 kr. líterinn. Var að hugsa um að renna við á stöðinni við Sprengisand til að kanna hvað líterinn er ódýrari þar en lét ekki verða af því. Gæti flett upp í tölvupósti sem ég fæ við hverja dælingu og safna saman en verðið gæti hafa hækkað síðan síðast. 

30.7.21

Löng helgi framundan

Enn og aftur var ég vöknuð fyrir klukkan sex og kom mér á fætur um sex í gærmorgun. Vafraði aðeins um á netinu en labbaði svo lengri leiðina í vinnuna og var komin með yfir 5000 skref fyrir klukkan átta. Kláruðum af alla framleiðslu, daglega og endurnýjun fyrir klukkan tólf. Pósturinn var sóttum fyrir klukkan hálftvö svo við ákváðum að "loka vegna veðurs" fljótlega eftir það. Fékk far heim úr vinnunni. Fór í sund um fjögur, nokkrum sinnum í kalda pottinn, synti 200 metra, fór einu sinni í sjópottinn og einu sinni í gufuna. Var komin heim aftur um hálfsjö en það er líka vegna þess að ég tók bíltúr vestur að Gróttu eftir sundið. 

29.7.21

Hætt snemma vegna veðurs

Var komin á fætur um sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu, eina matskeið af þorskalýsi og vatnsglas settist ég með fartölvuna inni í stofu og vafraði aðeins um á netinu. Líkt og í fyrradag var ég lögð af stað til vinnu nokkru fyrir klukkan sjö og labbaði ég lengri leiðina, 3,4km. Ég var í bókhaldinu og þegar þau verkefni voru frá flokkaði ég slatta af kennispjöldum. Fékk far heim úr vinnunni rétt fyrir þrjú. Oddur Smári var nýkominn heim úr Sorpuferð. Ég var komin í sund upp úr klukkan fjögur nema ég nennti ekki að synda, fór bara nokkrum sinnum í kalda og heitasta pottana og sat líka á stól og "sleikti" sólina í dágðóða stund.

Ég er ekki enn farin að taka upp bækurnar úr bókasafnspokanum frá því á mánudaginn. Er enn að lesa bókina sem ég skilaði ekki inn í þeirri ferð; Málavextir eftir Kate Atkonson. Veit að ég hef lesið þá bók áður en ætla mér að lesa hana alla aftur og er uþb hálfnuð með hana. Þarf ekki að skila henni fyrr en 8. ágúst og gæti reyndar framlengt þeim skilafresti um 30 daga. Verð nú samt örugglega búin með hana fyrir skiladag og byrjuð að lesa einhverja af þeim sex bókum sem ég tók með af safninu sl. mánudag. Það er bara spurning hvort ég á að þora að fara að skila einni einustu bók, verandi með sex heima, og sjá svo kannski nokkrar vildu koma með mér heim?

28.7.21

Morgunhani

Ég var vöknuð fyrir klukkan sex í gærmorgun og var ekkert að hanga lengi í rúminu eftir það. Labbaði lengri leiðina í vinnuna og var komin með um 5000 skref fyrir klukkan átta. Ég vann á móttökuendanum á vélinni. Debetdagurinn var ekki alveg eins stór og í fyrradag en þó yfir 500 kort. Daglegri framleiðslu lauk rétt áður en klukkan varð tólf. Þá vorum við búnar að frétta að samstarfskona okkar hafði greinst jákvæð í seinni sýnatöku. Rakningateymið taldi að hún hefði ekki verið smitandi þegar hún var síðast að vinna með okkur enda held ég að við værum farnar að finna fyrir einkennum, komin vika síðan við vorum í samskiptum við hana. En þetta þýðir að ég verð að fresta fríinu mínu til 10. ágúst n.k. Það er í góðu lagi mín vegna, var ekki búin að teikna neitt sérstakt upp og veit að fríið mun þá endast langt fram í september í staðinn því ég mun taka mínar sex vikur þegar þar að kemur. Fékk far heim úr vinnunni um þrjú. Var mætt í Laugardalslaugina um fjögur. 4x5 mínútur í kalda, synti 300, 2x í heitasta pottinn og endaði á gufubaði.

27.7.21

Ekkifrídagur

Fór á bílnum í vinnuna í gærmorgun. Þótt ég eigi regnkápu langaði mig ekki að labba í rigningunni sem var og var smá smeik um að verða vot í fæturnar þar sem styttist í að ég verði búin að ganga niður úr strigaskónum mínum. Vinnudagurinn gekk ágætlega fyrir sig. Debetdagurinn var í stærra lagi og ein tegundin á við venjulegan dag, á fjórða hundrað kort. Í heildina næstum sexhundruð. Eftir hádegi framleiddum við það sem hægt var af debetendurnýjun. Hægt var að framleiða allt nema eina tegund. Hættum vinnu um þrjú. Ég skrapp heim í smá stund og hringdi m.a. í pabba. Um fjögur fór ég út aftur með bókasafnspokann og sjósundsdótið. Skilaði sjö bókum af átta á safnið og fékk mér sex bækur í staðinn. Synti út að kaðli í 12°C heitum sjónum og kom við í víkinni áður en ég fór í pottinn. Kom heim aftur rétt fyrir sex. 

26.7.21

Þriðji ekkifrídagurinn framundan

Ég var glaðvöknuð eitthvað áður en klukkan varð sjö í gærmorgun og dreif mig bara á fætur. Notaði megnið af tímanum til klukkan að verða átta til að vafra um á netinu. Var mætt í sund rétt eftir að opnaði og gaf mér góðan tíma þar. Byrjaði að sjálfsögðu á því að fara í kalda pottinn. Fann að hann var eitthvað kaldari en undanfarið en var samt 5 mínútur. Rétt áður en ég fór upp úr honum var hann mældur og reyndist 6,7°C. Synti 600 metra, þar af 300 á bakinu. Fór aftur í kalda í fimm mínútur. Svo í sjópottinn í tæpan hálftíma. Kalda pottinn, gufuna, í kalda sturtu og endaði í kalda pottinum áður en ég fór upp úr. Þvoði mér um hárið og hitti á kalda potts vinkonu mína og systur hennar þegar ég var komin inn í klefa að klæða mig. Klukkan var um hálfellefu þegar ég kom heim. Hellti upp á kaffi. Afgangurinn af deginum fór í lestur, prjón, netvafr og sjónvarpsgláp. Lánaði strákunum bílinn seinni partinn og fram á kvöld. 

25.7.21

Sunnudagur

Var ekkert að drolla of lengi í rúminu í gærmorgun en leyfði þó klukkunni að verða hálfátta áður en ég fór á fætur. Fljótlega hellti ég mér upp á kaffi og fékk mér einhverja morgunhressingu með. Um tíu var ég komin í Nauthólsvík rétt eftir að opnaði þar. Engin úr sjósundshópnum mínum mætti í gær. Ég synti/svamlaði rólega út að kaðli. Kom svo aðeins við í víkinni áður en ég skellti mér í heita pottinn. Veggklukkan var ekki á sínum stað en þegar ég kom aftur í bílinn var liðinn akkúrat klukkutími frá því ég yfirgaf hann fyrir sjósundið. Næst lagði ég leið mína í Krónuna við Granda. Ég var svo rétt nýbúin að ganga frá vörunum þegar annar sonurinn kom fram. Restin af deginum fór í lestur, prjón, netvafr og sjónvarpsgláp. 

24.7.21

Helgarfrí

Á öðrum degi í "ekkifríinu" mínu fór ég á bílnum í vinnuna í annað skiptið í vikunni. Það var búið að síga helling úr hægra afturdekkinu en ég komst á Skúlagötuna og dældi í þar, svo mikið að það hætti að kvarta í mælaborðinu. Daglegri framleiðslu lauk að mestu um hádegisbilið. Það þurfti að kalla út kerfis/tækni mann til að hægt væri að framleiða eitt kort úr debetdeginum. Það þurfti að laga eitthvað og senda það sérstaklega yfir aftur. Þessi sami tæknimaður hálpaði mér líka í gegnum símann og teams til að ná aftur í rétta font svo hægt væri að prenta út ákveðin skjöl þar sem ákveðið númer á að vera falið undir flipa en ekki sjást í gegn. Hættum vinnu rétt fyrir hálfþrjú. Ég kom við til að dæla meira lofti í dekkið og fór svo beinustu leið á dekkjaverkstæði N1 í Fellsmúla. Þar komst ég strax að og viðgerð tók innan við hálftíma. Aftur var það nagli sem var að valda þessu, líkt og með framdekkið hægra meginn stuttu eftir að búið var að setja sumardekkin undir. Sem betur fer hafði felgan sloppið við hnjask þótt keyrt hafi verið á mjög loftlitlu dekkinu.

Afmælissynirnir voru báðir heima en að mestu inn í sínum herbergjum. Ég fór ekkert út aftur en var að dunda mér við ýmislegt. Hafði til kvöldmat um sjö en var sú eina sem gerði honum einhver skil. Horfði á Tónaflóð um landið, útsendingu frá Höfn.

23.7.21

Tvisvar sinnum tuttuguogfimm

Ég var komin á fætur um sex í gærmorgun. Eftir morgunverkin á baðinu fékk ég mér matskeið af lýsi, járntöflu, vatnsglas og harðsoðið egg. Vafraði svo um stund á netinu. Labbaði lengri leiðina í vinnuna og var samt fyrst. Samstarfskonur mínar komu á svipuðum tíma skömmu síðar og spurðu hvort ég hefði ekki haft það gott í fríinu. Ég gekk inn í verk þeirrar sem ég var að leysa af og var að gera það sama og daginn áður, á móttökuendanum á vélinni. Eftir hádegi byrjuðum við aðeins að endurnýja debetkort sem renna út um leið og ágúst klárast. Framleiddum fyrir heilan banka. Hættum vinnu um hálfþrjú og önnur samstarfskona mín skutlaði mér í Blóðbankann við Snorrabraut. Ég var búin að fá tvær beiðnir frá þeim með stuttu millibili, rétt liðnir fimm mánuðir frá síðustu gjöf svo ég hafði bókað tíma áður en samstarfskona mín lenti í sóttkví. Hún fékk neikvætt út úr testinu svo ég taldi óhætt að fara og gefa. Hjúkrunarfræðingurinn leitaði að æðum í báðum olnbogabótum og ákvað að velja vinstri hendina. Sagðist samt ekki vera of bjartsýn. En viti menn hún hitti í fyrsta og stungan var þannig að ég fann ekkert fyrir henni. Rennslið fór vel af stað en þegar ég var hálfnuð með að fylla blóðpokann hægðist á svo ég var beðin um að pumpa svo ég félli ekki á tíma. Það gekk allt saman upp. Á eftir fékk ég mér tvö djúsglös og innihald úr einum litlum rúsínupakka áður en ég labbaði heim. Þegar heim var komið hringdi ég í FÍB aðstoðina. Þeir sendu mér bíl frá Vöku. Ekkert varadekk er í bílnum mínum og Vökumenn komu eftir klukkan fimm. Þeir pumpuðu í hægra afturdekkið sem var nánast orðið flatt og settu vel í það. Ég var ekkert að hreyfa bílinn neitt en hefði líklega átt að skreppa til að dæla betur í dekkið í gærkvöldi. 

22.7.21

Fyrsti dagur í ekkisumarfríistrax

Var komin á fætur upp úr klukkan sex. Ákvað að fara á bílnum í vinnuna og tók sunddótið með mér. Byrjaði á því að fara upp í Öskjuhlíð og athuga þrýstinginn á dekkjunum þar sem var farið að kvarta. Það vantaði ekki mikið upp á þrjú af dekkjunum en það fjórða var nokkuð lint. Ekki gekk þó að dæla í dekkið svo ég færði mig yfir á pumpuna á Skúlagötunni þar sem var olísstöð. Þar gekk vel að dæla í dekkið, dældi samt ekki nóg því enn var kvartað. Fór í vinnuna og var á móttökuendanum á vélinni. Kláruðum allt daglegt fyrir klukkan tólf og kreditendurnýjun um tvö. Vorum fjórar í vinnu en sú sem var að koma úr fríi fékk að "leika lausum hala" í skrifstofurýminu í gær. Um tvö tókum við upp sendingu af kortum og töldum. Það gekk mjög vel þótt við þyrftum að "klæða" kortakassana úr og í plast til að hægt væri að telja. Rétt fyrir þrjú var ég búin að stilla vinnupóstinn á "out of office", senda tímana í þessari viku til samþykktar, kveðja vinnufélagana með virktum þar á meðal einn sem mun hætta vegna aldurs í byrjun september. Kom við á fyrrum olísstöðinni og dældi betur í dekkið. Fór svo upp í Öskjuhlíð og þá var hægt að jafna þrýstinginn svo það hætti að kvarta. Ég hefði samt átt að drífa mig á dekkjaverkstæði að því loknu. En í staðinn dreif ég mig í sund. Kalda potts vinkona mín mætti á svæðið þegar ég var í annarri ferðinni og saman fórum við fjórar ferðir í kalda. Bauð strákunum út að borða á Pítuna og þá var farið að kvarta aftur undan þrýstingi í dekkjum. Dældum í dekkið á N1 í Borgartúni áður en við fórum heim. Fljótlega eftir að ég kom heim hringdi fyrirliði kortadeildar í mig. Dóttir hennar sem var búin að fá Jansen sprautu var greind með delta afbrigðið af Covid-19 svo fyrirliðinn var komin í amk fimm daga sóttkví. Þar sem það verða að vera þrír starfsmenn á deildinni og ein er í sumarfríi úti á landi spurði hún mig hvort ég gæti hlaupið í skarðið, amk framyfir seinni sýnatöku. Ég sagðist geta það. Var ekki búin að plana neitt fyrstu dagana og veit að þá bætast bara við dagana í hinn enda frísins í staðinn. Þarna gat ég líka launað fyrir að hún frestaði sínu frí um nokkra daga þegar mamma lá banaleguna fyrir tæpum þremur árum. 

21.7.21

Smá frestun á sumarfríi

Í gærmorgun svaf ég alveg þar til vekjaraklukkan mín hringdi stuttu fyrir klukkan hálfsjö. Gaf mér samt tíma til að vafra aðeins á netinu áður en ég labbaði stuttu leiðina í vinnuna. Var mætt rétt á eftir fyrirliðanum og við náðum að fara með bankapósttöskurnar fram rétt áður en fyrsti sendill kom að sækja. Eiginlega svo rétt áður að það var ekki búið að loka skápnum þegar afhenda þurfti fyrstu tösku úr honum. Ég var í framleiðslu að hlaða inn verkefnum og senda af stað. Daglegri framleiðslu lauk um hálftólf en við fórum langt með eina endurnýjun sem byrjað var á í fyrra dag, milli eitt og rúmlega hálfþrjú í gær. Fékk far heim úr vinnunni. Var komin í sund um fjögur og heim aftur um sex. Um það leyti hittust við nágrannarnir úti í garði, fjórir úr fjórum íbúðum og tveir í viðbót úr einni. Vantaði fulltrúa úr þremur íbúðum af átta. Ég vissi samt að úr tveimur af þeim íbúðum myndi verða kosið með húsinu ef af kosningu yrði. En það varð ekki. Skil ekki alveg þessar bremsur sem sumir eru í. Gjaldkeri stjórnar var í fríi út á landi en maður hennar mætti í staðinn. Það er víst ekki búið að stofna framkvæmdareikning þótt öll gögn liggi fyrir en skilaboðin frá henni voru þau að það væri svo mikið að gera að hún vildi segja sig frá þessu verkefni. Aðrir segjast alveg skilja og vera nokkurn veginn tilbúnir í að demba sér í framkvæmdir vildu samt fá að kanna hvort betri tilboð fengjust og halda nýja aðalfund eftir Verslunarmannahelgi.

20.7.21

Einn vinnudagur eftir enn fram að sumarfríi

Var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun. Labbaði af stað um sjö, styttri leiðina í vinnuna. Mætti þangað fyrst af minni deild um hálfátta. Ég var í bókhaldsvinnu og að henni lokinni flokkaði ég kennispjöld eftir hádegi til klukkan að ganga þrjú. Labbaði við á torginu á leiðinni heim. Engin Lilja svo ég stoppaði ekkert við neinn af sölubásunum heldur labbaði heim beint yfir Skólavörðuholtið. Fór í Nauthólsvík um hálffimm og hitti tvær af sjósundshópnum mínum. Við syntum út að kaðli og svömluðum aðeins meira um bæði í sjónum og svo í víkinni áður en við fórum í pottinn. Frekar margt var um manninn enda mjög gott veður. Það var samt ekkert troðið í pottinum. Skilaði sjósundsvinkonunni yfirtökuflíkinni áður en leiðir skildi eftir sjósundið. Hafði plokkfisk í matinn úr afgangi af soðnum fiski. Bætti osti með svörtum pipar, smá rjómaslettu, kasjúhnetur og gular baunir út í.

19.7.21

Styttist í sumarfrí

Ég fór á fætur á níunda tímanum í gærmorgun. Fékk mér eitt epli til að byrja með og svo harðsoðið egg. Um hálfellefu hellti ég mér loksins upp á kaffi. Annars fór dagurinn fram að kaffi í prjón, kapallagnir, lestur og vafr á netinu. Fljótlega eftir kaffi kvaddi ég pabba og dreif mig í bæinn. Var komin heim fyrir klukkan sex og fékk stæði fyrir frama húsið. Horfði á fréttir og Sumarlandann og svo tvo þætti af "The Americans". Var komin í rúmið um tíu og byrjaði á bók eftir Lilju Sigurðardóttur; Blóðrauður sjór. Það var kannski ekki mjög sniðugt að byrja á spennusögu svona rétt fyrir svefninn. 

18.7.21

Í föðurhúsum

Klukkan var byrjuð að verða níu þegar ég fór á fætur í gærmorgun. Rúmlega klukkustund síðar mætti ég í Nauthólsvík með sjósundsdótið mitt. "Föðursystir" mín, Svala, var að koma úr sinni þriðju ferð í sjóinn þegar ég var að skella mér út í. Hún beið eftir mér í heita pottinum á meðan ég synti út að kaðli og svamlaði yfir lónið. Svo sátum við góða stund í pottinum og spjölluðum. Hún var bíllaus svo ég baust til að skutla henni heim en þegar við komum upp úr biður maður hennar og dóttir á bílaplaninu eftir henni. Ég fór því bara heim, gekk frá sjósundsdótinu, náði í þvott af snúrunni og hellti mér upp á kaffi. Um hálffimm fór ég klyfjuð út í bíl og lagði af stað austur. Þegar ég var rétt komin í Ranárvallasýsluna fékk ég skyndihugmynd að beygja til vinstri við skilti sem á stóð Gíslholt 9km. Ég fór framhjá þeim bæ og nokkrum fleirum og stoppaði ekki fyrr en ég var komin að Guttormshaga í fyrsta sinn á þessu ári. Vel var tekið á móti mér nema yngsta barnabarnið er ekki sátt við neina ókunnugua. Ég var ekkert að kjá í hann eða sýna honum neina athygli en hann vildi alls ekki setjast við kaffiborðið fyrst einhver ókunnugur sat þar. Kom á Hellu um hálffimm. Bríet var í bænum hjá kærastanum en pabbi var að koma úr búðinni á nýja bílnum. Ég fékk að prófa bílinn, Ford Kuga, og keyrði aðeins út úr þorpinu og snéri við rett innan við afleggjarann sem liggur m.a. að Gunnarsholti. Þegar við komum til baka bakkaði ég upp á planið en lét svo pabba um að bakka inn í skúr. Sátum smá stund út á palli, ég með prjónana að prjóna eldhúshandklæði.

17.7.21

Á leið í sjóinn

Þrátt fyrir að hafa farið að sofa rétt eftir miðnætti vaknaði ég nokkru áður en vekjaraklukkan hringdi. Sá til þess að vekjarinn myndi ekki hringja og dreif mig á fætur. Labbaði styttri leiðina í vinnuna. Daglegum verkefnum lauk um hádegisbilið. Eftir hádegi flokkuðum við kennispjöld til klukkan hálfþrjú. Ég náði að flokka úr tveimur kössum á rétt rúmum einum og hálfum tíma. Yfirgáfum vinnustaðinn fljótlega upp úr hálfþrjú. Ég fékk far heim úr vinnunni. Um hálffimm var ég komin í kalda pottinn. Sat í honum í næstum sex mínútur áður en ég synti 500 metra, þar af 100 metra á bakinu. Fór beint í kalda pottinn aftur og tvær ferðir í viðbót eftir það, allt yfir fimm mínútur í senn. Kom heim upp úr klukkan sex. Strákarnir fóru í afmælisboð til bekkjarsystur sinnar úr grunnskóla. Ég horfði á Tónaflóð á Akureyri, einn þátt úr sarpinum og Barnaby. Fór upp í rúm um miðnætti en alls ekki beint að sofa.

16.7.21

Vinnuviku lokið

Vaknaði rúmlega sex í gærmorgun, korteri áður en vekjaraklukkan átti að hringja. Klukkutíma síðar fór ég með sunddótið, veskið, bakpokann og yfirtökuflíkina með mér út í bíl og setti allt nema bakpokann í skottið og geymdi það þar á meðan ég var í vinnunni. Fór semsagt á bíl í vinnuna í annað skiptið í þessum mánuði. Ég var í bókhaldsverkefnum alveg þar til nokkru eftir af daglegum verkefnum lauk eða til klukkan að verða tólf. Þá kvöddu samstarfskonur mínar mig en ég tók á móti tveimur viðgerðarmönnum sem voru búnir að boða sig í yfirferð á vél milli tólf og tvö. Hleypti þeim inn að kortavél og hafði millihurðina opna. Skrapp fram í kaffistofu í uþb tíu mínútur til að fá mér AB-mjólk með musli að borða. Tók kaffibollann með mér inn og settist inn í sófa með prjónana mína í tæpa hálftíma áður en ég settist svo við að flokka kennispjöld. Ákvað að hætta vinnu um leið og yfirferð var lokið og fór beinustu leið í Laugardalinn. Var í minni fyrstu ferð í kalda pottinum og búin að sitja þar í rúmar fjórar mínútur þegar kalda potts vinkona mín mætti á svæðið. Við urðum samferða næstu sex ferðir milli heitasta pottsins og þess kalda og enduðum svo á góðu gufubaði eftir síðustu ferðina í þann kalda. Kom heim um hálffimm. Setti handklæði í þvottavélina og fékk svo Odd Smára til að fara niður og hengja þau upp rúmum tveimur tímum síðar. Klukkan var orðin tíu þegar ég fór í háttinn. Gleymdi mér í lestrinu, þ.e. gat ekki hætt að lesa Jill Mansell bókina fyrr en hún var búin og þá var klukkan nýorðin tólf á miðnætti. 

15.7.21

Afmælisdagurinn hennar mömmu

Enn og aftur labbaði ég lengri leiðina í vinnuna þriðja morguninn í röð í gærmorgun. Tókst meira að segja að lengja göngutúrinn um 100m eða 3,4km. Ég var í móttöku á vélinni. Allt gekk ágætlega þar til í hádegisframleiðslunni. Þá tókum við birgðir á vagn sem komu rétt fyrir síðustu áramót. Kortavélin vildi ekki þessi kort. Sem betur fer þá áttum við eins plast úr annari tegund sem við gátum notað í staðinn. Eftir hádegi flokkuðum við kennispjöld og áður en við hættum vinnu fórum við með 15 flokkaða kassa inn í geymslu og náðum í 15 óflokkaða í staðinn. Þetta eru kassar frá því seinni part árs 1997 og fram á mitt ár 1998. Fékk far heim úr vinnunni. Stoppaði einhverja stund heima áður en ég fór í sund með viðkomu í fiskbúðinni. Er að lesa tvær bækur af safninu í einu; Hittu mig á ströndinni eftir Jill Mansel og Systir mín, raðmorðinginn eftir Oyinkan Braithwaite

14.7.21

Færsla no tvöþúsundníuhundruðogfjörutíu

Ég var vöknuð fyrir klukkan hálfsex í gærmorgun. Tókst ekki að kúra mig niður aftur svo ég fór á fætur og notaði rúman hálftíma í að vafra um á netinu áður en ég labbaði lengri leiðina í vinnuna. Ég var á framleiðsluvélinni að hlaða inn verkefnum og ýta þeim af stað. Vorum búnar með allt daglegt um hálftólf. Eftir hádegi tókum við upp aðra kortasendingu og flokkuðum kennispjöld til klukkan rúmlega hálfþrjú. Fékk far heim úr vinnunni. Var mætt í sund um hálffimm. Kalda potts vinkona mín mætti á svæðið þegar ég var að synda eftir fyrstu ferðina í kalda pottinn. Fórum fimm ferðir saman í kalda og enduðum á því að fara í gufubað sem er loksins búið að opna aftur eftir tæplega mánaða lokun vegna viðgerða. 

13.7.21

Tíminn líður heldur hratt

Ég var komin á fætur upp úr klukkan sex í gærmorgun. Hafði ágætis tíma til að vafra aðeins um á netinu en svo labbaði ég af stað lengri leiðina í vinnuna tíu mínútum fyrir sjö. Ég var í bókhaldinu. Aðeins var um daglega framleiðslu að ræða og henni lauk áður en klukkan varð tólf. Eftir hádegi var opnuð og talin ný kortasending. Ég útbjó svo bókunarskjöl, lét viðeigandi aðila vita um nýjar birgðir og bókaði inn í bókhöldin. Ég komst lítið sem ekkert í að flokka kennispjöld nema aðeins milli tíu og ellefu. Samstarfskonur mínar tóku hins vegar klukkutíma flokkunartörn eftir að hafa skoðað og talið sendinguna. Fékk far heim úr vinnunni og stoppaði heima í næstum einn og hálfan tíma áður en ég skrapp í Nauthólsvík rétt fyrir hálffimm. Þar hitti ég sjósundsvinkonu mína. Við svömluðum um í sjónum í næstum 25 mínútur og vorum svo rúmlega hálftíma að spjalla í heita pottinum á eftir. Áður en ég fór heim skrapp ég í Krónuna við Granda. Fékk stæði beint fyrir utan þegar ég kom heim. Ætlaði að hringja í Odd Smára og biðjan um að koma út og taka inn pokana með vörununum. Sá að ég hafði misst af símtali við systur mína á meðan ég var í sjónum svo ég byrjaði á að hringja til baka í hana.

12.7.21

Ný vinnuvika

Ég var komin á fætur upp úr klukkan sjö í gærmorgun og komin í sund rétt eftir að opnaði um átta. Það er ekki enn búið að opna gufuna þrátt fyrir að skilaboðin þegar henni var lokað voru þau að gufan yrði lokuð milli 23. júní til 10. júlí. Fór nokkrum sinnum 5 mínútur í kalda pottinn, 2x í heitasta pottinn, einu sinni í sjópottinn, synti 400 metra og fór í kalda sturtu á leiðinni upp úr. Kom heim um tíu og hellti mér upp á kaffi. Las svo  næsta rúma klukkutímann í  Þú og ég, alltaf eftir Jil Mansell.

Rétt fyrir tólf var ég mætt fyrir utan Vesturgötu 52 og hringdi í frænku mína og nöfnu og lét hana vita. Hún og pabbi hennar komu út í bíl nokkrum mínútum seinna en kærastinn hennar varð eftir heima, lasinn. Við keyrðum Þrengsin svo við sluppum við Ölfusárbrúna og traffíkina á aðalgötunni. Vorum komin á Hellu um hálftvö. Pabbi tók vel á móti okkur og bauð okkur til stofu. Bríet og kærastinn hennar voru á fá sér "morgunmat" í eldhúsinu. Um þrjú hjálpuðumst við að við að útbúa kaffið. Kærustuparið hélt sig útaf fyrir sig en við hin fengum flatkökur með sultu og osti, pönnukökur með sultu og rjóma og súkkulaði með kaffinu. Kvöddum aftur rétt fyrir fjögur og vorum komin í bæinn rúmlega fimm. Anna bauð mér inn með þeim og að borða með þeim svo ég hitti kisu aðeins og einnig Mikael. Horfði líka á fyrri hálfleikinn af úrslitaleik EM2020. Kvaddi í hálfleik og horfði á seinni hálfleikinn, framlengingu og vítaspyrnukeppnina heima. Kláraði svo bókina áður en ég fór að sofa.

11.7.21

Önnur morgunstund

Ég var búin að hella upp á könnuna fyrir klukkan níu í gærmorgun, drekka tvo bolla og fá mér morgunverðarhressingu áður en klukkan varð hálftíu. Þá var ég reyndar búin að vera á fótum í hátt í þrjá tíma. Um tíu var ég mætt í Nauthólsvík og hitti þar systurnar og sjósundsvinkonu mína. Nafna hennar hafði farið á föstudaginn og var líklega að vinna í gærmorgun. Svömluðum um í 12,7°C sjónum í rúmar tuttugu mínútur og voru svo rúman hálftíma í pottinum. Áður en ég fór heim eftir sjósundið skrapp ég á Atlantsolíustöðina við Sprengisand og fyllti á tankinn. Á næstu dælu var vinnufélagi minn, einn úr tæknideildinni sem kemur reglulega í heimsókn í kortadeildina. Restina af deginum var ég að lesa, prjóna, vafra um á netinu eða horfa á sjónvarpið.

10.7.21

Laugardagsmorgun

Komin á fætur  fyrir rúmum hálftíma síðar og það þrátt fyrir að hafa lesið aðeins fram yfir miðnætti í bókinni Grænmetisætan eftir Han Kang. Í gærmorgun fór ég á bíl í vinnuna í fyrsta skipti í þessum mánuði. Vinnudagurinn gekk vel fyrir sig. Framleiðslu var lokið rétt upp úr klukkan hálftólf og eftir hádegi flokkuðum við kennispjöld til klukkan að ganga þrjú. Ég hafði ætlað mér að fara beint í sund eftir vinnu og var með sunddótið með mér í skottinu. Hins vegar sendi bókasafnið áminningu um að skiladagur væri að nálgast. Sá skiladagur er reyndar í dag en ég var búin að lesa bókina svo ég skrapp heim og stoppaði þar í rúman hálftíma. Skilaði fjórum bókum á safnið og tók fjórar aðrar þótt ég væri með fjórar heima. Var komin í sund um fjögur. Fór 3x5-6 mínútur í kalda pottinn, tvisvar sinnum í heitasta pottinn, einu sinni í sjópottinn og synti 500m þar af 200 metra á bakinu. Þvoði mér um hárið og var komin heim um sex.

9.7.21

Föstudagur

Í gærmorgun labbaði ég Klambratúnið, Gunnarsbraut, Snorrabraut og Skúlagötu í vinnuna. Ég var á móttökuendanum á vélinni. Allri framleiðslu var lokið um hálftólf. Sú sem er í 70% stöðu hætti á hádegi en við hinar tvær stemmdum af restina af framleiðslunni eftir hádegið og flokkuðum svo líklega uþb 3000 kennispjöld áður en við fórum heim. Ég fékk far heim og stoppaði þar í rúman klukkutíma áður en ég dreif mig í sund. Hluti af þeirri töf var sá að ég náði ekki í pabba í heimasímann hans fyrr en klukkan var byrjuð að ganga fimm. Hann var þá búin að skreppa tvær ferðir til Reykjavíkur. Báðar ferðirnar tengdust "bílabraski". Hann ætlar að setja þennan sem hann er á á sölu og kaupa sér Ford Kuga í staðinn. Verið er að setja kerrukrók á nýja bílinn sem er skráður inn í landið í fyrra og fær því pabbi ágætis afslátt. Já, pabba mínum er sko alls ekki fisjað saman. Mér líkar það vel hvernig hann lifir lífinu og mottóið hans er "engin vandamál, bara lausnir!" N1-sonurinn skilaði sér heim nokkru eftir miðnætti og hafði þá farið hringinn á tveimur dögum og skoðað ýmislegt.

8.7.21

Stutt í helgina

Í gærmorgun var ég glaðvöknuð einhvern tíman á sjötta tímanum. Klæddi mig og bjó um rétt fyrir sex. Þremur korterum síðar labbaði ég af stað lengri leiðina í vinnuna og var komin með tæp 5000 skref þegar ég mætti þangað um hálfátta. Ég var í bókhaldinu og hluti af þeirri vinnu í gær snerist um að sjá um að debetendurnýjunin yrði sótt í póst og svo sortera og pakka þeim kortum sem ekki voru með gild heimilisföng. Þær sem voru á framleiðsluvélinni ryksuguðu hana eftir hádegi og fór svo í að sækja fleiri kennispjöld til að flokka. Ég dundaði mér við að tengja saman reiti í reikningagerðinni til undirbúnings fyrir næstu mánaðamót. Hættum um hálfþrjú og fékk ég far heim úr vinnunni með þeirri sem býr í Garðabænum líkt og undanfarna daga. Stoppaði heima til klukkan að ganga fimm en þá tók ég til sunddótið mitt og kom við í Fiskbúð Fúsa á leiðinni þangað.

N1 sonurinn skrapp í ferðalag austur á firði í gærmorgun og gisti sl. nótt á Mjóeyri. Það er von á honum heim seint í kvöld og þá verður hann búinn að fara hringinn. 

7.7.21

Vikan hálfnuð

Man að ég rumskaði á sjötta tímanum í gærmorgun en mér tókst að sofna aftur og vaknaði ekki fyrr en vekjaraklukkan lét í sér heyra. Hafði samt smá tíma til að kveikja á fartölvunni og vafra aðeins um á netinu áður en ég labbaði í vinnuna yfir Skólavörðuholtið. Ég var í framleiðslu að hlaða inn verkefnum og rétt fyrir hádegi fengum við grænt ljós á að klára dk-endurnýjunina. Fórum í það eftir hádegi og það tók einn og hálfan tíma að framleiða rúmlega níuhundruð kort. Gengum svo frá vélinni og læstum öllum skápum og renndum inn á lager ásamt bankatöskum og póstgrind með nokkrum kössum af umslögum á. Læstum lagernum og svo skápalykilinn og lagerlykilinn í öryggisskápinn í skrifstofurýminu. Fékk far heim úr vinnunni. Gerði mig klára í sundferð en það endaði á annan veg. Hef verið að lesa bókina Áttablaða rósin eftir Óttar. M. Norðfjörð. Átti síðustu rúmlega hundrað bls. eftir í gær af 400 og hætti ekki fyrr en ég var búin með bókina. Veit að ég hef lesið þessa bók áður en það kom alls ekki að sök. Bræðurnir fengu seinni Pfizer sprautuna í gær. Einkabílstjórinn sótti bróður sinn upp á Gagnveg um hádegisbilið og skilaði honum svo aftur þangað eftir bólusetninguna. Svo fékk hann sér pizzu á leiðinni heim. Ég slapp því alveg við að elda í gær, nóg var til að góðu snarli í ísskápnum.

6.7.21

Synirnir búnir að fá seinni pfizer

Ég var komin á fætur rétt upp úr klukkan sex í gærmorgun. Labbaði lengri leiðina í vinnuna en líkt og um daginn fór ég Skógarhlíðina og undir brúna rétt við Valsheimilið. Ég var í móttöku á vélinni. Framleiðslan gekk nokkuð vel fyrir sig og við vorum búnar með allt daglegt rétt upp úr hádegi. Þá sátum við og flokkuðum kennispjöld til klukkan að ganga þrjú. Önnur samstarfskona mín var á hjóli en hin bauð mér far heim eftir vinnu. Hitti þrjár úr sjósundshópnum í Nauthólsvík um hálffimm. Sjórinn var 13,7°C og var rétt að byrja að fjara út eftir háflóð ca klukkutíma áður. Svömluðum um í uþb 22 mínútur og syntum meðal annars út að einum pramma sem tilheyrir Siglingafélaginu og var nú ekkert svo langt í burtu. Við Oddur fengum okkur afgang af kjúklingapastarétti frá því fyrir helgi. N1 sonurinn var að vinna og var búinn að borða þegar hann kom heim um átta leytið. 

5.7.21

Ný vinnuvika

Var komin á fætur áður en klukkan varð átta í gærmorgun en það tók mig tæpan klukkutíma að koma mér í sundgírinn. Mætti í Laugardalinn um níu. Fór nokkrum sinnum í kalda pottinn og oftast í 5 mínútur. Fór eina ferð í sjó pottinn, tvær í heitasta pottinn og synti 200m. Endaði á því að sitja um stund úti eftir síðustu ferðina í kalda pottinn. Þvoði mér um hárið. Það fyrsta sem ég gerði eftir að ég kom heim var að hella upp á kaffi. Drakk þrjá kaffibolla á skömmum tíma en svo ekkert meira kaffi eftir það. Var eitthvað að spá í að hella aftur upp á um tvö leytið en það varð ekkert af því. Var að prjóna, lesa og vafra um á netinu. Seinni partinn setti ég upp slátur, einn frosinn af hvoru tagi. 

4.7.21

Rólegheit

Var pínu löt í gærmorgun en kom mér þó á fætur áður en klukkan varð mikið meira en hálfníu. Klukkan tíu var ég mætt í Nauthólsvík og hitti þar fyrir allan kjarnann úr sjósundshópnum mínum og eina til. Sjórinn er orðinn meira en 14°C og bara þægilega svalur. Vorum á svamli í hátt í hálftíma og flatmöguðum svo í heita pottinum rúmlega annað eins. Kom heim upp úr klukkan hálftólf. Hellti mér upp á kaffi. Þegar strákarnir komu á fætur bað ég þá að sjá um að ryksuga og skúra gólfin. Davíð Steinn byrjaði að ryksuga en gafst upp því ryksugan var ekki að vinna mjög vel. Það endaði með því að við mæðgin skruppum öll í Elko við Granda. Þar keypti ég nýja ryksugu og nokkra auka ryksugupoka og fékk að nýta N1-afsláttarkortið svo ég fékk nokkur þúsund kr. afslátt. Áður en við fórum heim aftur versluðum við inn í Krónunni. Davíð Steinn setti svo nýju ryksuguna saman og lauk við að ryksuga gólfin á meðan Oddur Smári gekk frá vörunum.

Ég lauk við að lesa Lasarus eftir Lars Kepler. Sú bók var svo óbærilega spennandi á köflum að ég varð að leggja hana frá mér inn á milli. Er byrjuð á skammtímalánsbókinni; Leyndarmálið okkar eftir Ninni Schulman. Hún er líka spennandi, rétt rúmlega 400 bls. en ég verð örugglega ekki lengi að lesa hana. Er meira en hálfnuð nú þegar. Er svo með sex aðrar alls konar bækur af safninu sem eru með skilafrest til 28 júlí n.k. með möguleikann á að framlengja um 30 daga. 

3.7.21

Blíðviðri

Labbaði lengri leiðina með smá útúrsnúning, þ.e. að í stað þess að labba Eskihlíðina labbaði ég eins og ég væri að fara á völlinn. Fór framhjá Valsheimilinu á stígnum meðfram Bústaðaveg. Þetta var svipað langt og hin leiðin tæpir 3,5 km. Sú sem fór í seinni sprautuna upp úr hádeginu í fyrradag átti að fá Astra en það var búið svo hún þáði Pfizer í staðinn. Hún mætti hress til vinnu og hafði komið við í bakaríi til þess að sjá til þess að við fengjum föstudagskaffi. RB er aftur byrjað að bjóða upp á svoleiðis en sá sem er á bílnum og sendist á milli er í veikindaleyfi og enginn er að leysa hann af svo við fengum leyfi til að bjarga okkur og senda svo reikninginn til K2. Ég var í bókhaldinu í gær. Eftir dagleg verkefni fór ein í að sinna reikningagerðinni aðeins. Við hinar tvær töldum rekstrarvörurnar á lager en flokkuðum svo kennispjöld til rúmlega tvö. Ákváðum að hafa þetta stuttan dag. Ég fékk far heim úr vinnunni. Á leiðinni heim fékk ég vinnutengt símtal en ég gat svarað því án þess að þurfa að snúa við og mæta aftur á vinnustað.

Nokkru eftir að ég kom heim hafði ég samband við þann sem er milliliður varðandi framkvæmdirnar utanhús. Hann var ekki með neinar nýjar fréttir en er greinilega að vinna í þessu. Ég treysti honum og er nokkuð viss um að málin eru að þokast í rétta átt. Vonandi er ekki langt þar til all smellur en það lítur samt út fyrir að þótt framkvæmdir myndu hefjast á næstunni þá verði þeim ekki lokið að fullu fyrr en næsta vor.

Var mætt í sund um fjögur, aðallega til að kæla mig niður. Kom heim aftur um hálfsex og hafði plokkfisk í matinn. Fylgdist með Tónaflóði og prjónaði alveg helling á meðan.

2.7.21

Helgarfrí

Í gærmorgun labbaði ég lengri leiðina í vinnuna. Allri daglegri framleiðslu og talningum var lokið fyrir klukkan tólf. Sú sem er að vinna 70% fékk að fara heim klukkan tólf eins og þegar allar eru í vinnu. Hin fór upp í hádegismat en svo var búið að boða hana í seinni bólusetningu. Ég sat ein eftir með smá reikningagerðarverkefni. Að vísu kom einn frá OBA og annar úr tæknindeildinni um eitt að uppfæra og afrita af vélinni. Ég skildi þá eftir og labbaði heim um hálfþrjú. Kalda potts vinkona mín var þá búin að setja sig í samband við mig til að athuga hvort við myndum hittast í Laugardalslauginni seinni partinn. Hún sendi svo önnur skilaboð síðar þar sem hún var ekki 100% viss um að komast. En hún kom rétt á eftir mér í kalda pottinn um fimm. Fórum tvær stuttar ferðir í kalda og heitasta. Svo sat ég lengur í kalda pottinum á meðan hún skrapp í Steinapottinn að hitta dóttur sína. Ég fór í sjópottinn eftir fimm mínútur í kalda og sat þar í rúmar tíu mínútur. Sat svo á bekk þegar kalda potts vinkona mín kom aftur og sagðist ætla tvær auka ferðir. Fórum 2x3 mínútur en ég fór beint upp úr eftir seinni ferðina. Nú er þessi vinkona mín og ein systir hennar farnar vestur í Aðalvík þar sem fjölskyldan á sumarbústað og verða þar í 5-7 daga. Það fer bátur frá Ísafirði tvisvar í viku, á miðvikudögum og föstudögum. 

1.7.21

Glænýr mánuður

Labbaði þvert yfir skólavörðuholtið í gærmorgun og þurfti ekki að kalla eftir gönguljósunum yfir Miklubraut því það var akkúrat engin umferð um það leyti sem ég var að trítla yfir. Ég var á móttökkuendanum á vélinni. Við kláruðum fyrri tvo daglegu skammtana nokkru áður en hádegisskammturinn kom yfir. Í millitíðinni endurnýjuðum við kort sem við gátum svo sent með hádegistöskunni. Eftir hádegi kláruðum við þá endurnýjun sem og það sem hægt var að gera í debetendurnýjun. Fékk far heim úr vinnunni með þeirri sem býr í Garðabæ. Stoppaði heima til hálffimm. Þá dreif ég mig í Laugardalinn. Innilaugin er lokuð og þrjár útibrautir af átta voru fráteknar vegna æfinga. Svo eru brautir 7 og 8 svo nálægt barnalauginni að leikurinn berst oft þangað. Ég fór 2x5 mínútur í kalda pottinn og heitasta pottinn á eftir. Gufan er lokuð þannig að ég sat aðeins úti á bekk eftir seinni heitu potta ferðina áður en ég fór upp úr. Skrapp og keyrði bílinn í gegnum þvottastöð hjá Löðri við Granda áður en ég fór heim aftur.