16.10.09

- Árleg kertapökkun framundan -

Í fyrramálið munu félagar úr DKR og aðstandendur þeirra hittast og pakka Heimaeyjar-kertum. Þetta er árviss viðburður og í kjölfarið fara drengirnir út af örkinni, ganga í hús og bjóða kerti til sölu. Þeir munu einnig bjóða kaffi (baunir og malað). Það er alltaf líf og fjör í kringum þessa kertapökkun og þeir sem mæta of seint missa jafnvel af mesta gamninu. Strákarnir þurfa að selja 50 kertapakka (eða 25 kaffipakka) að lágmarki en fimm söluhæstu strákarnir fara í óvissuferð í janúar eða febrúar og sá sem selur mest fær bikar. Það er vonandi að vel verði tekið á móti drengjunum okkar.
Um síðustu helgi mættu mörg tilvonandi fermingarbörn og séra Pétur til okkar í Drápuhlíðina. Í fræðsluhléinu bauð ég upp á vöfflur, brauðtertu, snakk og súkkulaði og gos mjólk eða kaffi til að dreypa á með. Davíð Steinn var orðinn lasinn svo hann svaf af sér þennan tíma. Um eittleytið um nóttina bankaði Oddur Smári hjá okkur og bar sig ekki vel. Hann hafði þá vaknað við það að hann þurfti að æla og náði ekki einu sinni framúr. Sænginn og koddinn sluppu en það þurfti heljar aðgerð til að hreinsa upp af gólfinu. Við hjónin mættum því í messu án drengjanna. Ég klukkustund fyrr til að hita upp með kórnum en Davíð kom svo rétt eftir að messan var byrjuð. Mamma kom alla leið frá Hellu til að vera viðstödd. Annars eru feðgarnir búnir að vera heima alla vikuna. Oddur Smári fór reyndar í skólann á mánudeginum en flensan var byrjuð að herja á hann um kvöldið og þeir feðgar hafa hóstað og hóstað síðustu dægrin.
Í gær mætti ég í mína árlegu heimsókn til tannlæknis. Venjulega sest ég í stólinn, opna munninn og eftir um fimm mínútur segir tannlæknirinn: "Þetta er fínt, sjáumst eftir ár!" En í gær brá svo við að bæði þurfti ég að bíða eftir að komast að og svo fann hann eina skemmd í tönn sem gert var við þegar ég var unglingur. Fyllingin var að mestu farin og skemmdin orðin nokkuð djúp.

17.9.09

- Það líður á vikuna -

Var á skemmtilegri kóræfingu í gærkvöldi og var tíminn frekar fljótur að líða. Erum að æfa upp úr "Söngvasveig" og æfðum amk fjögur lög í gær. Þrjú af lögunum höfum við reyndar æft áður. Áður en maður vissi af var klukkan orðin hálftíu. Kom við í búð og verslaði mjólk og brauð á heimleiðinni. Feðgarnir höfðu verið að spila en þegar ég kom heim voru strákarnir að undirbúa sig undir háttinn. Davíð var búinn að hella upp á og áttum við hjónin saman kósí-kvöld.

16.9.09

- Ársreikningur og skallablettir -

Skondin fyrirsögn hjá mér. Um þessar mundir er ég á kafi í að taka saman ársreikninga DKR. Sem betur fer á ég góða að. Davíð mun hjálpa mér að setja þetta saman og tvíburahálfsystir mín mun fara yfir og vonandi leggja blessun sína yfir. Ekki hefur verið boðað til aðalfundar enn og verði það ekki gert í næstu viku verður sennilega ekki fundur fyrr en eftir fyrstu messu drengjakórsins sem verður 4. okt. n.k. Eftir þá messu geri ég fastlega ráð fyrir því að þeim drengjum sem eru að hefja sitt 3.-6. starfsár verði veittar viðurkenningar. Segi kannski meira frá því eftir að sá atburður er liðinn.
Þeir stækka og þeim fjölgar, skallablettunum, í höfðinu á mér. Samt er ég nú farin að finna fyrir smá hársprettu. Ég er svo heppin að hárið á mér felur þessa bletti oftast nær. Stend mig að því að þreyfa kollinn á mér reglulega og kanna aðstæður og stundum falla þá nokkur hár. Ætla samt ekki að hafa áhyggjur af þessu. Hef það sterklega á tilfinningunni að þetta muni lagast þegar fram líða stundir. Verið getur að þá verði ég með hvíta lokka hér og þar í dökku hárinu og þeir verða lílega mun meira áberandi heldur en skallablettirnir.

15.9.09

- Fjölmiðlapunktar -

Undanfarin tvö ár höfum við hjónin gengið með sérstakan fjölmiðlamæli á okkur og strákarnir fengu svona mæla þegar þeir voru orðnir tólf ára. Mælarnir nema útvarps og sjónvarpsbylgjur sem Capacent-gallúp vinnur úr. Á meðan við berum þessa mæla söfnum við punktum sem við getum leyst út í alls konar varningi. Ég safnaði mér t.d. fyrir nýrri ryksugu, strákarnir hafa fengið sér útilegusett, hjólaviðgerðasett og fleira. Davíð er sá eini sem ekki er enn búinn að leysa út einhverja punkta. Ég var að enda við að panta mér kvörn til að mala kaffibaunir, pönnu og svo svolítið sem Davíð á að fá í afmælisgjöf...

14.9.09

- Fyrsta messa nýs organista í kirkju óháða safnaðarins -

Í gær skilaði Kári, nýráðinn organisti Grindavíkurkirkju af sér síðasta verkefninu fyrir Óháða söfnuðinn með því að spila forspilið. Pétur þakkaði honum síðan fyrir vel unnin störf undan farin tvö ár og kynnti nýráðinn organista (og kórstjóra), Árna Heiðar Karlsson og bauð velkominn til starfa. Messan fór vel fram og í stað predikunar var Stoppleikhópurinn með leikrit. Kórinn ruglaðist að vísu aðeins í einu svari en af því að allir rugluðust eins og við stoppuðum ekki þá tók enginn eftir þessu nema kórstjórarnir.

11.9.09

- Kann ég á þetta ennþá? -

Fjórir mánuðir liðnir frá síðustu færslu. Er samt alls ekki viss um að ég sé hætt, bara í langri pásu í bili ;-)! Sumarið hefur liðið undrafljótt og m.a. brugðum við fjölskyldan undir okkur betri fætinum og flugum út til Danmerkur seinni partinn í júlí og vorum í tvær vikur í sumarhúsi á Fjóni. Veðrið lék við okkur mest allan tímann. Ég fór í mjög skemmtilegt brúðkaup. Við fórum m.a. í Lególand, Djurs sommerland, Egeskov og fleira og fleira. Kom sólbrennd heim og brann svo enn meir er ég sat úti í sólinni með einni frænku minni í næstum fimm tíma einn sólardag fyrri partinn í ágúst (eða um miðjan).
Í gær fór ég 24. heimsóknina í blóðbankann og gaf blóð í 23. sinn. Ætla að fara aftur eftir fimm mánuði og er búin að setja það inn í skipulagsdagbókina í gsm.
Góða helgi!

19.5.09

- Gengið til og frá vinnu -

Þann 6. maí sl. hófst hið árlega átak; hjólað í vinnuna. Sem fyrr þá er í góðu lagi að ganga á milli. Í minni vinnu eru þrír 10 manna hópar og einn 3 manna. Ég er ekki sú eina sem geng á milli og það kom í ljós sl. föstudag að ég er í bullandi samkeppni við einn sem kemur frá Seltjarnarnesi. Þótt ég væri búin að ganga báðar leiðir alla dagana, alls um 42 km. þá var hann búinn að ganga 48 km. Leiðin sem ég fer oftast þessa dagana mælist 3 km. Styst get ég farið 2,5. Lengst hef ég farið 5 km.

18.5.09

- Heimsókn til Sólheima -

Um ellefu í gærmorgun söfunuðust við saman mörg úr kórnum mínum, organistinn og presturinn við kirkju óháða safnaðarins. Mannskapurinn deildi sér niður á nokkra bíla. Ég tók alla feðgana með og vorum við áfram bara fjögur. Lagt var af stað stuttu fyrir hálftólf og vorum við fyrst á staðinn, Sólheima í Grímsnesi, af þeim sem komu úr Reykjavík. Kórsystir mín, maki hennar og sú sem er formaður safnaðarstjórnar kirkjunnar voru mætt og sóluðu sig fyrir utan Sesselíuhús. Við byrjuðum á því að borða nestið okkar áður en við skunduðum í kirkjuna og hittum prestinn, séra Birgi Thomsen og organistann. Hún fór yfir sálmana með okkur og það var einnig ákveðið að strax eftir predikun myndi kórinn flytja "Dona Nobis". Messan hófst klukkan tvö og fór vel fram. Andrúmsloftið var mjög vinalegt og afslappað. Á eftir fylgdu presthjónin okkur um svæðið, sýndu okkur það helsta og tæptu á sögu staðarins. Áður en við fórum frá Sólheimum drukkum við kaffi á Grænu könnunni. En við vorum ekki á leiðinni heim heldur var næsti viðkomustaður Selfoss heima hjá kórsystur minni og hennar maka. Feðgarnir skyldu mig eftir þar og héldu heimleiðis. Þar var sungið, grillað og slegið á létta strengi langt fram á kvöld. Ég fékk far í bæinn með tvíburahálfsystur minni og var komin heim um hálftólf. Mjög skemmtilegur og eftirminnilegur dagur.

7.5.09

- Skráning liðinna atburða og tæpt á öðru -

Á laugardaginn var hitti ég samstarfskonur mínar úr deildinni á 19. hæð í Turninum við Smáratorg þar sem við fengum okkur "brunch" saman fyrir aðeins 3150 á manninn. Kræsingarnar voru hver annarri betri og þótt maður passaði sig á að fá sér ekki of mikið af neinu til að geta smakkað á sem flestu þá var maður orðin frekar saddur eftir fimmtu ferðina. Fór beint úr Turninum og sótti karatestrákinn af æfingu. Um tvöleytið söfnuðumst við öll saman út í bíl og brunuðum austur á Hellu í heimsókn til pabba. Ég tók með mér saumana mína og saumaði slatta í nýju verkefni sem ég byrjaði á á fimmtudeginum.
Á sunnudaginn sat ég við saumana mína í amk fimm klukkutíma enda er búinn alveg hellingur af klukkustrengnum. Tíminn flaug hratt frá mér. Það var svo sem ekkert sérstakt á döfinni og mér leið bara vel með að eyða tímanum svona.
Á mánudagskvöldið tók ég þátt í árlegu bankamóti í keilu ásamt fjórum öðrum konum sem vinna með mér. Sex kvennalið voru skráð til keppni og spilaðar voru þrjár umferðir af fimm þetta kvöld. Töpuðum fyrsta leiknum, en ekki með svo miklum mun og unnum hina tvo. Seinni umferðirnar voru spilaðar í gærkvöldi en ég gat ekki verið með því ég var á kóræfingu að æfa fyrir messuna og kirkjuvíxluhátíðina n.k. sunnudag. Þrátt fyrir tvö töp í gærkvöldi náðum við þriðja sætinu og hengdu vinnufélagar mínir bronsmetalíu um hálsin á mér er ég mætti til vinnu í morgun.

30.4.09

- Kóræfing og fleira -

Þegar komið var inn í kirkju óháða safnaðarins í gærkvöldi mátti vera ljóst að það þar hefði verið málningaframkvæmdir undan farna daga. Svo virðist sem aðilarnir sem eru að mála fari flestir eða allir úr hlífðargallanum og skilja hann eftir á gólfinu á þeim stað sem þeir fara úr. Nokkuð skondið að geta rakið það hvar hver og einn fór úr vinnugallanum. En málningalyktin ku hafa verið of sterk í kirkjunni í gær svo ákveðið var að hafa kóræfinguna í neðri safnaðarsalnum. Æfðum fyrir kirkjuvíxluhátíðina sem verður þann 10. maí n.k. en um þessar mundir eru 50 ár síðan kirkjan var vígð.
Bekkir tvíburanna hafa verið að vinna að verkefninu: "Reyklaus bekkur". Annar tvíburinn laumaði því út úr sér í gærkvöldi að það ætti að skila af sér í dag. Þeir feðgar sátu báðir við til miðnættis og Davíð áfram til þrjú. Nú á bara eftir að möndla myndbandið inn á síðuna en það verður ráðin bót á því í kvöld.

29.4.09

- Meðbyr á arkinu -

Ég fékk góðan meðbyr á arkinu í morgun. Veðrið var alveg ágætt en þar sem var svona hvasst þorði ég ekki annað en að hafa húfu því eyrun mín eru frekar viðkvæm fyrir roki. Ég er búin að skrá hreyfingu á Lífshlaupssíðunni í 367 daga síðan ég byrjaði að skrá í byrjun febrúar á síðasta ári. Ég skrái aðeins þá daga sem ég næ amk 30 mínútna hreyfingu en flesta virka daga er ég að labba til og frá vinnu og er ég einmitt hálftíma hvora leið.
Fór á keiluæfingu í gærkvöldi. Klukkutímann áður en mætti notaði ég í útsaum fyrir framan imbann en ég var að horfa á "Biggest looser". Keiluæfingin fór vel af stað, náði fellu í fyrsta kasti. Var með þokkalegt skor eftir fyrstu umferð, rétt komst yfir 100 í annarri umferð en náði ekki einu sinni 90 stigum í þriðju umferðinni. En þetta var gaman og það er fyrir mestu.
Gallinn við keiluæfingar er sá að ég er alltaf þónokkra stund að ná mér niður og í gærkvöldi horfðum við Davíð á einn þátt úr annarri seríu 24 með Kiefer Sutherland. Þátturinn var akkúrat búinn rétt upp úr miðnættinu og þá meldaði ég mig inn á Pet Society á fésbókinni og kláraði heimsóknarhringinn og íþróttakeppnirnar. Það tók mig þrjú korter enda telur gæludýrasamfélagið 93 gæludýr með honum Pjakki mínum.
Mamma kíkti í heimsókn seinni partinn í gær og stoppaði góða stund hjá mér. Hún hefur ekki verið í bænum í fleiri en einn dag í eitt og hálft ár.

28.4.09

- Tveir blogg-dagar í röð -
Eftir vinnu í gær náði ég í bílinn til Davíðs, sótti söngfuglinn og við fórum niður á Grensásveg. Hann á kóræfingu, ég á stjórnarfund. Fundahaldið gekk bara vel. Á eftir komum við söngfuglinn við á skrifstofu Davíðs og kipptum honum með heim. Ég fór beint og lagði fyrir utan Þórshamar og gluggaði í bók á meðan ég beið eftir karatestráknum. Davíð sá alveg um kvöldmatinn og gaf svo strákunum leyfi til að geyma uppvaskið til morguns svo þeir gætu farið út. Ég skrapp í heimsókn til einnar vinkonu. Tók með mér handavinnu en opnaði ekki einu sinni töskuna. Sat bara og spjallaði, drakk kaffi og gæddi mér á vatnsmelónu.

27.4.09

- Síðasta vikan í þessum mánuði byrjuð -
Í gær söng ég við fimmtu messuna í þessum mánuði og þá eru aðeins eftir fimm messur fram að sumarfríi og ein til. Kórinn ætlar nefnilega að heimsækja Sólheima í næsta mánuði og m .a. syngja við messu þar þann 17. maí.
Á föstudaginn fór Davíð Steinn í æfingabúðir með glímufélaginu Ármanni (frjálsar). Farið var til Þorlákshafnar og stoppað yfir nótt. Hópurinn kom til baka um sexleytið á laugardeginum. Í rétt rúman sólarhring vorum við semsagt bara þrjú í kotinu.
Eftir arkið í vinnuna í morgun skráði ég hreyfingu á 365. daginn síðan í febrúar í fyrra. Í næstu viku byrjar "hjólað/gengið" í vinnuna og líklega mun ég þá hætta að skrá inn alla hreyfingu inn á Lífshlaupið.
Á laugardaginn trítlaði ég í Kringluna og fékk klippingu um tíu. Hárgreiðslumeistarinn minn fékk áfall því hann fann þrjá skallabletti í höfðinu. Svoleiðisnokkuð er álagstengt en mér er fyrirmunað að skilja undir hvaða álagi ég á að hafa verið. Lét þessar fréttir ekki slá mig út af laginu en lofaði að fylgjast með höfðinu á mér, hvort kæmu fleiri blettir eða þessir stækkuðu. Eftir klippinguna labbaði ég í norðurmýrina til norsku esperantovinkonu minnar. Karatestrákurinn hringdi þangað í mig og bað mig um að koma í Þórshamar eftir esperantotímann og verða samferða honum heim. Ég varð við þeirri beiðni. Um þrjúleytið labbaði ég út í Hlíðaskóla og nýtti mér atkvæðisrétt minn í alþingiskosningunum.

24.4.09

- Gleðilegt sumar! -

Jey, það er komið sumar. Hann var nú ósköp blautur í gær, sumardagurinn fyrsti. Við höfðum hægt um okkur að mestu en við hjónin skruppum þó að versla og ég kom við í bókasafninu í Grófinni í leiðinni og skilaði inn 7 stykki bókum. Þótt ég væri með bækur heima kom ég ekki tómhent út af safninu því það voru 7 bækur sem báðu mig um að taka sig með sér og ég stóðst það auðvitað ekki. Það stytti upp mátulega snemma til þess að hægt væri að grilla í kvöldmatinn.
Söngfuglinn og frjálsíþróttakappinn minn er að fara í æfingabúðir, með Glímufélaginu Ármanni, til Þorlákshafnar seinna í dag og kemur aftur síðdegis á morgun. Það verður pottþétt skemmtileg ferð.
Á sunnudaginn verður síðasta messan í þessum mánuði í óháðu kirkjunni. Sú messa verður með léttara móti en við munum engu að síður koma með smá sýnishorn af því sem við munum syngja við 50 ára kirkjuvíxluafmælið þann 10. maí n.k.

21.4.09

- Ég er ekki hætt að skrifa -

Þótt skrifin mín liggi niðri inn á milli þá er ég alls ekki hætt. Ég hef það sterklega á tilfinningunni að þótt skrifin séu stopul í augnablikinu eigi eftir að verða breyting á einhvern tímann í nálægri eða fjarlægri framtíð. Oft hef ég ekki tök á því að komast í tölvu þegar andinn kemur yfir mig og svo þegar ég sit við tölvuna er andinn hvergi nálægt og mig langar að vera að gera eitthvað allt annað heldur en að blogga.
Messurnar á skírdag, föstudaginn langa og páskadagsmorgun gengu mjög vel fyrir sig. Ég hef hlustað á nokkra kafla úr messunni á skírdag, aðallega kórsönginn, en henni var útvarpað og er því aðgengilega á netinu í augnablikinu. Hljómurinn í kórnum fannst mér góður og skila sér vel á öldum ljósvakans svo ég er sátt. Andrúmsloftið að kvöldi föstudagsins langa var mjög notalegt í kirkjunni. Sú sem las píslarsöguna gerði það mjög vel. Kórinn söng inn á milli kafla og eftir altarisgöngu og eftir að búið var að taka allt af altarinu og slökkva á kertunum sjö kom kórinn sér fyrir uppi á svölum og söng þrjú lög í röddum: Heyr himnasmiður, Stóð við krossinn og Ave verum corpus. Fjórir úr söngskóla Sigurðar Demenz lögðu kórnum lið þetta kvöld og allt small mjög vel saman. Eftir að búið var að setja altarishlutina á sinn stað klukkan átta á páskadagsmorgunn söng kórinn Dona nobis sem forspil. Það var margt fólk í kirkjunni en þó hægt að fá sæti á meðan presturinn predikaði. Það hafði verið auglýst að það yrði ballettjáning en því miður forfallaðist stjórnandinn svo ekkert varð úr sýningunni. Að öðru leyti gekk allt upp og eftir messu var boðið upp á heitt kakó og brauðbollur.
Í gærkvöldi var saumaklúbbur. Við erum orðnar þrjár í klúbbnum. Í gær var næstum farið illa en það var einhver misskilningur um staðsetningu. Ég hafði ekki komið skilaboðunum rétt frá mér. Um hálfníu sendi ég sms til einnar sem ekki var mætt og spurði hvort hún væri nokkuð að villast. Ég fékk svar strax til baka þar sem hún spurði hvort við værum ekki að koma til hennar. Sem betur fer leystist farsællega úr þessu og við náðum tveggja tíma góðum handavinnutíma, spjalli, kaffi og fleiru.

8.4.09

- Páskar á næsta leyti -

Það verður samt ekki 100% frí hjá mér. Það verður messað í óháðu kirkjunni klukkan ellefu í fyrramálið. Messunni verður víst útvarpað. Svo er messa að kvöldi föstudagsins langa og aftur klukkan átta á páskadagsmorgun. Við erum líka boðin í eina fermingaveislu á morgun.
Við norska esperantovinkona mín færðum esperantotímann frá laugardeginum og þar til um hálffimm sl. mánudag. Ég komst ekki til hennar á laugardagsmorguninn vegna bazar DKR í Mjóddinni. Var að koma tertum á staðinn og upp úr hádeginu mættu flestir strákarnir til að syngja nokkur lög. Það tókst vel og bazarinn tókst líka mjög vel, seldum fyrir rúmlega 130. þús.
Á mánudagskvöldið heimsótti ég Lilju vinkonu mína. Hún var búin að bjóðast til að setja upp fyrir mig jóladúkinn. Við gerðum þessa heimsókn að saumaklúbbi í leiðinni og í fyrsta skipti í marga mánuði tók ég fram engilinn og saumaði.
Í gærkvöldi fór ég á keiluæfingu. Ein af okkur úr kortadeildinni kom með "keiluköku" handa einum keilufélaganum sem varð fimmtugur um daginn. Ég náði ágætis árangri í annarri æfingaumferðinni í gær. Byrjaði á fellu og náði svo þremur fellum í röð seinna í leiknum, enda varð enginn hærri en ég að stigum í lok þeirrar umferðar en það var einn með jafnmörg stig (147)

3.4.09

- Bazar og eitt og annað -

Jæja, enn ein vinnuvikan liðin og framundan eru amk fjórar 3-4 daga vinnuvikur svo ég á alveg von á því að það verði kominn maí áður en maður nær að blikka augunum.

Í gærkvöldi var árshátíð í Hlíðaskóla og af því tilefni drifu nokkrar hressar mæður og Davíð sig út á röltið milli hálftíu og miðnættis. Ég var með fyrsta klukkutímann en svo varð ég að fara heim og tæma blöðruna og ákvað að segja þetta gott að sinni. Davíð kom hins vegar ekki heim fyrr en klukkan að verða hálfeitt.

Á morgun stendur foreldrafélag Drengjakórs Reykjavíkur fyrir bazar í mjóddinni og um hálfeitt mæta söngfuglarnir á staðinn og taka nokkur lög. Á bazarnum verður hægt að kaupa kökur og ýmislegt fleira. Ég var að útbúa tvær brauðtertur og svo er kókoskaka með eplum að bakast í ofninum. Í hana hræði ég m.a. hrásykur og gróft spelt. Endilega lítið við í Mjóddina milli ellefu og tvö til þrjú á morgun!

Á sunnudaginn syng ég með kórnum mínum við fermingamessu númer tvö í Óháðu kirkjunni. Þriðja og síðasta fermingamessan þetta árið verður svo um hvítasunnuna.

Annars segi ég bara: Góða helgi!

20.3.09

- Föstudagur enn á ný -

Enn ein vikan er að klárast. Í dag eru nóttin og dagurinn jafnlöng, vorjafndægur. Ég tek eftir því á morgunarkinu að það slökknar sífellt fyrr á ljósastaurunum. Áður en langt um líður verður búið að slökkva á þeim áður en ég arka af stað til vinnu.
Annars náði ég ekki að þvo saumamyndirnar af fermingardrengjunum í gærkvöldi. Fór að gera allt annað en það. Skruppum með "velkomin í heiminn" -gjöf handa einni sem fæddist fyrr í þessum mánuði. Sú stutta var nýsofnuð svo við gátum ekki fengið að sjá hana sjálfa en við hittum hana bara í næstu ferð.

19.3.09

- Ljúfir dagar -

Mars verður liðinn áður en maður veit af og þá verður liðin einn fjórði hluti af árinu. Það er því um að gera að hamast við að njóta augnablikanna. Á kóræfingu í gærkvöldi æfðum við fyrir ferminngamessuna sem er n.k. sunnudag. Feðgarnir skutluðu mér á æfingu en fóru allir þrír í keilu en hálftíminn sem Oddur Smári vann í félagsvistinni var alveg að renna út. Strákarnir sluppu fyrir vikið við uppvaskið en við hjónin sáum um það eftir að ég kom heim af æfingu.
Afmælisdagurinn á þriðjudaginn var var einkar ljúfur og ánægjulegur. Aldrei fengið eins mikið af afmæliskveðjum, svei mér þá, en það voru vel yfir hundrað sem skrifuðu kveðjurnar á fésbókarvegginn minn. Davíð Steinn gaf mér diskinn með íslensku eurovision-lögunum 2009 og Davíð gaf mér m.a. 2 fyrstu seríurnar af 24. Svo bauð hann mér út að borða. Fórum á Ask og buðum strákunum með okkur. Nýtti daginn út í æsar, fór ekki í rúmið fyrr en um miðnætti.
Í kvöld ætla ég að þvo "fermingadrengina" svo ég geti farið að fara með þá í innrömmun.

17.3.09

Ég er ekki alveg að meðtaka það að nú sé liðið heilt ár síðan ég varð fertug

13.3.09

- Ég keypti mér kjól -

Ég dreif mig á Friendtex fatakynningu í gærkvöldi og var svo heppin að finna mjög klæðilegan og þægilegan kjól sem ég get notað á árshátíðinni annað kvöld og sem ég veit að ég mun nota oftar en það. Ég var líka svo heppin að ég gat fengið kjólinn strax. En ég keypti ekki bara kjólinn heldur þrjár aðrar flíkur líka sem ég fékk líka að taka með mér heim. Það var annars fullt af flottum og góðum fötum og ég hefði vel geta hugsað mér að kaupa flest allt það sem ég mátaði.
Enn á ný er kominn föstudagur og eins og kom fram hér að ofan er ég að fara á árshátíð um helgina. Sú verður haldin á Hótel Selfossi og á ég von á því að það verði mikil stemming og mikið gaman. Strákarnir fá að vera hjá afa sínum og ömmu á Bakkanum og leiðist þeim það alls ekki. Á sunnudaginn þurfum við svo að vera komin aftur í bæinn um miðjan dag. Söngfuglinn á að vera mættur í Langholtskirkju um hálffjögur en eldri félagar KKR buðu drengjakórnum að syngja nokkur lög með sér á tónleikum sem hefjast í fyrrnefndri kirkju klukkan fjögur. Það kostar aðeins 1500 kr inn og hvet ég alla sem hafa áhuga til að mæta.

12.3.09

- Fjör framundan -

Á kóræfingu í gærkvöldi æfðum við m.a. fyrir fermingamessuna. Næstu tvær messur, 22. mars og 5. apríl verða fermingamessur. En fyrri messuna í maí verður haldin 50 ára víxluhátíð kirkjunnar og við erum líka byrjuð að æfa lög fyrir þann atburð.
Í kvöld er ég boðin á fatakynningu og ég er að hugsa um að kíkja. Það er aldrei að vita nema ég finni á mig árshátíðardressið...

11.3.09

- Hitt og þetta -

Á mánudagskvöldið var hittumst við þrjár vinkonur heima hjá "tvíburahálfsystur" minni í saumaklúbb. Þar náði ég að klára að sauma og merkja tvo fermingadrengi. En það var eins gott að vinkonur mínar lásu yfir merkingarnar. Fermingadagurinn er 5. apríl n.k. en ég hafði saumað 02.04.09 undir nafnið á öðrum piltinum. Svo þegar ég ætlaði að laga það var ég byrjuð að sauma 50.02.09. En þetta tókst að lokum og ég hafði einnig tíma til að sauma jóladúkinn áður en kvöldið var úti og leið þó tíminn afar hratt í góðum félagsskap. En nú á ég semsagt bara eftir að þvo og pressa fermingadrengina og fara með þá í innrömmun.
Fór tvisvar í óháðu kirkjuna um síðustu helgi. Fyrst á föstudagskvöldið en það kvöld voru konur í aðalhlutverki. Þótt karlmenn væru velkomnir í þessa bænastund mætti aðeins einn fyrir utan organistann. Við mættum allar úr altinum og þrjár af fimm úr sópran. Svo var Bjargarkaffi eftir messu á sunnudaginn. Ég kom með brauðtertu með mér á hlaðborðið. Kirkjan var nokkuð þéttsetin enda mæta öll tilvonandi fermingabörn og forráðamenn í þessa messu. Fyrsta fermingarmessan verður þann 22. mars.
Vel gengur að lesa allar bækurnar 17 af safninu. Er búin með allar sem eru með skiladaginn 18. mars en hef ekki skilað þeim í safnið enn þar sem ég veit að á vegi mínum mundu verða bækur sem "bæðu" mig um að taka sig heim.

25.2.09

- Kóræfing í kvöld -

Þessa vikuna eru allir dagar ásetnir. Í gærkvöldi var keiluæfing hjá mér. Ekki gekk mér alveg eins vel og í síðustu viku en mér hefur líka gengið verr, svo þetta slapp. Nafnarnir fóru saman í Katlagil þar sem bekkur söngfuglsins var með kvöldvöku og skemmtu sér fram eftir kvöldi. Kvöldið endaði á krassandi draugasögu með hryllingsívafi sem maðurinn minn samdi sjálfur og las á staðnum. Í kvöld fer ég að kóræfingu og annað kvöld erum við búin að stefna forráðamönnum bekkjarfélaga karatestráksins á kaffifund í Perlunni. Á föstudaginn fara nafnarnir með drengjakórnum, kórstjóra, undirleikara og nokkrum foreldrum í æfingabúðir en ég fer á árlega árshátíð hjá safnaðarstjórn óháðu kirkjunnar.

24.2.09

- Alltaf nóg að gerast -

Enn á ný eru liðnir nokkrir dagar síðan ég bloggaði síðast. Ekki er alltaf um skort á tíma að ræða enda finnur maður sér yfirleitt alltaf tíma til að gera það sem manni finnst skemmtilegt að gera. Nei, heldur hefur andleysi og skriftarleti hrjáð mig. Það er alltaf eitthvað um að vera í kringum mig en hvenær sem færi gefst sest ég niður með góða bók eða tek upp saumana mína. Ég skilaði nokkrum bókum á safnið í síðustu viku og kom með fleiri til baka (þrátt fyrir að eiga ennþá ólesnar bækur af safninu heima). Eftir vinnu í gær arkaði ég á skrifstofuna til Davíðs til að fá hjá honum bílinn og gefa honum færi á því að vinna aðeins lengur. Í þetta skipti varð hann reyndar samferða heim. Ég skutlaði söngfuglinum á æfingu, sótti sendingu á pósthúsið og skilaði tveimur bókum á safnið. Skilafresturinn var að bresta á. Þarf varla að taka það fram að, auðvitað sá ég nokkrar bækur sem ég bara varð að taka með mér heim. Einnig náði ég mér í nokkrar bækur á esperanto. Og nú er ég með 17 bækur af safninu heima. Þegar ég kom heim var karatestrákurinn að labba af stað á æfingu. Ákvað að skutla honum. Verið var að skipta um læsingu á útidyrunum heima og fengum við einn lykil. Ég stoppaði því ekki lengi heima við heldur skrapp í Kringluna með það að markmiði að fjölfalda þennan lykil. Því miður var ekki til efni í svona lykil. Sótti strákana af æfingum og hafði svo smá tíma til að slaka á áður en Davíð bauð okkur að gera svo vel. Í gærkvöldi hittumst við svo þrjár vinkonur í saumaklúbb, heima hjá einni okkar. Tíminn flaug alltof hratt frá okkur og klukkan var allt í einu orðin ellefu. En það var mikið saumað, prjónað og spjallað...

16.2.09

- Helgin var ekki lengi að líða -

Laugardagurinn fór í esperantofund, innkaup og slökun.
Í gær mættum við öll með karatestráknum í Smárann þar sem keppt var í einstaklings- og hópkata barna og unglinga. Oddur Smári var skráður til leiks, bæði í einstaklings og hópkeppninni. Reyndar mætti einn liðsfélaginn ekki á mótið en það gat annar drengur stokkið inn í hópinn svo þeir gátu keppt. Við mættum á staðinn um hálftólf en Það liðu rúmir tveir tímar áður en komið var að Oddi. Fljótletga eftir að við mættum á svæðið fór söngfuglinn að sjá eftir að hafa komið með en við hjónin skemmtum okkur ágætlega.

13.2.09

- Það er að skella á helgi -

Það var ekki alveg eins gott að arka til vinnu í morgun eins og dagana sem stillan var. Það liggur við að ég panti frekar að hafa kalt og stillt veður heldur en blautt og hált. Seinni partinn í gær var hagl að dynja á mér hluta af leiðinni og það virtist alltaf vera beint á móti, beint í andlitið. En ég komst heim (og reyndar líka til vinnu í morgun) og gat skráð 2x30 mínútur í göngu á lífshlaupssíðuna í gær. Hef skráð hreyfingu á 305 daga á sl. 12 mánuðum og held ég megi bara vera stolt af sjálfri mér. Ég skrái mest göngur en það hefur komið fyrir að ég hef farið í sund og svo leyfi ég mér að skrá heimilisþrifin og hlaupin niður í þvottahús og upp aftur, í flokkinn: Annað, inn á milli.

12.2.09

- Fyrsta færslan í febrúar -

Mánuðurinn er rétt að verða hálfnaður og mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan síðasta færsla var sett inn. Dagarnir hafa einhvern veginn þotið frá mér og/eða farið í allt annað en skriftir. Það eina sem liggur niðri líkt og skrifin er útsaumurinn minn. Ég hef ekki snert á nál í hálfan mánuð eða síðan ég fór í saumaklúbb til "tvíburahálfsystur minnar".
Þann 6. febrúar var skipulagsdagur í skólanum og á mánudaginn var, var foreldradagur. Ég átti inni tvo daga af sumarfríinu mínu síðan í fyrra og ákvað að leysa út amk einn og hálfan dag. Var svo heppin að fá bústað, sem ég sótti um, úthlutaðan þessa síðustu helgi og kennarar strákanna buðu okkur að mæta í viðtal sl. þriðjudag. Vorum komin í bústaðinn rúmlega fimm á föstudaginn. Í farteskinu voru m.a. bækur, spil, sundföt og saumadótið mitt. Las tvær og hálfa bók, spilaði póker við feðgana, fór í bæði stuttar og lengri göngur (tvær stuttar og eina lengri, laugardag, sunnudag og mánudag) en fór hvorki í heita pottinn né snerti á sauminu mínu. Potturinn var ekki notaður því það rann ekkert heitt vatn í hann (hverju svo sem um var að kenna (frosti eða bilun)) en ég skil ekkert í því afhverju ég tók ekki aðeins upp nálina. Kannski vegna þess að ég þarf einmitt að fara að drífa mig í að klára tvö af verkefnunum sem ég er með í gangi???
Annars verð ég að koma því á framfæri hvað tvíburarnir eru að standa sig með ágætum í lærdómnum þeir eru með meðaleinkunn upp á tæp 9 (8,89 og 8,96) og ég er mjög stolt af þeim.

29.1.09

- Í mútum eða ekki í mútum -

Karatestrákurinn minn heldur þessa dagana að hann sé í mútum. Hann er óvanalega hás og röddin einhvern veginn dýpri en venulega en ég hef ekki heyrt röddina hans verða neitt skræka svo ég hef sagt honum að líklega sé hann bara með vott af hæsi og kvefi. Þar fyrir utan styttist líklega í múturnar hjá tvíburunum. Ég er samt að vona að söngfuglinn fari ekki í mútur fyrr en eftir eitt og hálft ár svo hann geti verið einn vetur enn í drengjakórnum. Sjáum bara hvað setur.

Er á leið í saumaklúbb til "tvíburahálfsystur minnar" og á von á því að þar verði nálarnar mundaðar vel fram eftir kvöldi. Hef hug á því að leggja kapp á að klára fermingamyndirnar, af drengjunum tveimur, sem fyrst. Er langt komin með þær en á örugglega nokkra klukkutíma vinnu eftir enn.

Að venju arkaði ég í vinnuna í morgun en seinni partinn fékk ég far heim. Davíð Steinn var á frjálsíþróttaæfingu og Oddur Smári hafði drifið sig í klippingu og kom ekki heim fyrr en um sex. Ég notaði tækifærið og moppaði og skúraði yfir gólfin í eldhúsinu og stofunni og skúraði einnig dúkinn inni á baði. Þegar Oddur Smári kom heim fékk ég hann til að ryksuga yfir holið.

Var með lifur í kvöldmatinn og var hún borðuð með bestu lyst af öllum fjölskyldumeðlimum.

28.1.09

- Ágætis gönguveður -

Veðrið á arkinu í morgun var mjög milt og einstaklega hentugt til að hugsa um lífið og tilveruna. Fannst ég vera eitthvað fljótari í förum fyrir vikið en þegar ég athugaði með tímann þá hafði ég bara verið mínar 30 mínútur á leiðinni. Seinni partinn kom ég við í vínbúðinni við Austurstræti og var komin langleiðina upp í Skipholt þegar Davíð pikkaði mig upp. Eins gott kannski, því Hlíðablóm er ekki lengur við hliðina á American Style og hefur ekki verið þar síðan á aðfangadag. Maðurinn minn skutlaði mér í Hlíðablóm við Háaleytisbraut og beið eftir mér á meðan ég lét skreyta smá afmælisgjöf. Ég náði því samt að ganga 2x30 mínútur í dag.

27.1.09

- Færsla númer 1200 -

Ég er nýkomin heim eftir viðkomu í 12 Tónum (með reikning v/seldra hljómdiska) og Sundhöllinni, þar sem ég synti fyrst ca 300 metra áður en ég lét líða úr mér í heita pottinum. Söngfuglinn er í frjálsum, karatestrákurinn á kúmíte-æfingu og Davíð að vinna þar til kominn er tími til að sækja "þríburana". Það er heldur of fljótt að fara að huga að kvöldmatnum og réttast væri að setjast stund í "húsbóndastólinn" með góða bók...

26.1.09

- Helgin liðin -

Davíð er í pílu og strákarnir sofnaðir. Ég arkaði neðan úr bæ og á skrifstofuna í Ármúlanum eftir vinnu í dag og sótti bílinn eins og þrjá undanfarna mánudaga. Skutlaði strákunum á æfingar og sótti þá aftur. Oddur Smári er nú vanur að labba á sína æfingu en það var svo mikið vatnsveður um það leyti sem hann átti að fara að leggja í hann að ég ákvað að skutlast með hann.

Í gær leysti Adda af á orgelið í messu í Óháða söfnuðinum. Kári var búinn að undirbúa okkur vel. Til stóð að við syngjum Bæn ("Ég krýp og faðma fótskör þína, frelsari...") í röddum sem stólvers en sérann bað um óskalag, "Í bljúgri bæn" með sveiflu á flygilinn eins og Öddu er einni lagið. Við eigum þá hinn sálminn bara til góða. Stúlka um einsárs var skírð og það kom maður frá krisniboðinu og sagði frá sinni reynslu. Predikunarstóllinn var ekki notaður því hann var fullur af dóti úr skrifstofu prestsins en verið er að laga, breyta og snurfusa kirkjuna þessa dagana. Eftir messu og gott spjall við "tvíburahálfsystur mín" skrapp ég á bókasafnið og skilaði tveimur bókum. Kom heim með fjórar af safninu og er því með níu í láni allt í allt.

Helgin var annars frekar fljót að líða. Hitti norsku esperanto vinkonu mína milli ellefu og tólf á laugardaginn. Frá henni labbaði ég svo upp í Þórshamar og horfði á restina af karateæfinguna hjá Oddi. Við löbbuðum svo samferða heim. Davíð var búinn að taka til handa okkur snarl. Á eftir skruppum við í verslunarleiðangur en um kvöldið fórum við til tengdó í þorraveislu.

22.1.09

- Stutt í helgina -

Það er meira hvað tíminn flýgur áfram. Ég væri alveg til í að hægt væri að hægja aðeins á eða þá fá fleiri tíma í sólarhringinn (fleiri mínútur í klukkutímann) svo ég gæti sinnt öllu sem ég bæði þarf að gera og einnig öllum vinum og ættingjum sem og áhugamálunum. Væri það ekki afar ljúft? Ég sé þetta alveg fyrir mér; átta tímarnir búnir um hádegið, þá færu fjórir til sex tímar í heimilið og það væru samt eftir nokkrir tímar í áhugamálin og fjölskylduna og maður fengi samt nógan tíma til að sofa og hvíla sig vel fyrir næsta dag...
Farið alltaf vel með ykkur!

21.1.09

- Langur dagur -

Annasömum degi er senn að ljúka. Lagði af stað að heiman korter yfir sjö í morgun og fór lengri leið en venjulega. Samt var ég aðeins fimm mínútum lengur á leiðinni til vinnu. Klukkan fjögur fór ég hins vegar stystu leið heim og flýtti mér meira en vanalega til að hafa smá tíma heima áður en Davíð kæmi heim og lánaði mér bílinn rétt fyrir fimm. Söngfuglinn var með smá óþægindi í hálsinum en hann ákvað samt að drífa sig á kóræfingu. Á meðan að drengirnir æfðu héldum við stjórnarfund, fórum yfir nokkur mál, og ákváðum næstu skref.

Davíð var tilbúinn með matinn þegar við mæðginin komum heim og ég hafði tíma til að fá mér að borða með feðgunum áður en ég fór á kóræfingu. "Minn kór" æfði fyrir næstu messu, sem er n.k. sunnudag og skoðaði tvö ný lög. Tveir tímar liðu ógnarhratt enda var mjög gaman.

Nú er spurning hvort ég kíki ekki í bók og fullkomni þar með ágætis dag?

Farið vel með ykkur!

20.1.09

- Ótitlað -

Eftir einn og hálfan tíma verð ég mætt upp í keiluhöll á 90 mínútna æfingu. Ég hlakka til. Sagt er að æfingin skapi meistarann og vissulega næ ég ágætis skotum inn á milli en það virðist mjög tilviljunarkennt. Stundum þegar mér finnst ég sé að ná tökum á þessu, miða út atrennuna, legg af stað á hæfilegum hraða, hef auga á þeim stað á brautinni sem ég vil að kúlan fari, sveifla arminum og passa að hann sé beinn þegar ég sleppi kúlunni þá endar kúlan í annarri hvorri rennunni eða tekur aðeins eina til þrjár keilur niður. Og stundum þegar ég hugsa ekkert, mæli ekkert út, miða ekkert og skýt kúlunni einhvern veginn þá næ ég fellu. En þetta er gaman og minnir mig á dagana þegar við Davíð fórum í keilu reglulega með vinafólki okkar. Það voru fjörugir og skemmtilegir keilutímar þar sem stundum gerðust hin ótrúlegustu atvik.

Annars er ég að hamast við að lesa þessa dagana og þar er ég með nokkur járn í eldinum eins og oft áður. Í augnablikinu er ég reyndar bara að lesa tvær bækur en ég fór á safnið á sunnudaginn var og skilaði næstum því öllum bókunum sem voru skráðar á mig, öllum nema bókinni: Hnífur Abrahams eftir Óttar M. Norðfjörð. Davíð las hana eftir að hafa klárað jólabókina sína Myrká eftir Arnald Indriðason (ég á enn eftir að lesa þá bók). Og ég er enn að lesa bókina sem við fengum í jólagjöf 2007, Sagnfræðingurinn eftir Elizabeth Kostova, þ.e. ég hef verið að lesa hana með hléum allt sl. ár og er rétt hálfnuð. Það er ekki vegna þess að söguefnið sé leiðinlegt heldur eru þrír söguþræðir í bókinni og inn á milli bara verð ég að stoppa og spá í hvað er búið að gerast hvar. Inn á milli verð ég að lesa eitthvað annað. Um helgina kláraði ég Arfur Nóbels eftir Lizu Marklund og las einnig Áður en ég dey eftir Jenny Downham. Allt eru þetta skemmtilegar bækur að mínu mati en ég mæli sérstaklega með síðast nefndu bókinni. Maður fer allan tilfinningaskalann á meðan á lestri stendur og sagan skilur heilmikið eftir sig. Það er örugglega óþarfi að taka það fram að að ég kom ekki tómhent heim af safninu...

Farið vel með ykkur!

19.1.09

- Sex ár -

Í dag eru liðin sex ár síðan ég stofnaði þetta blogg og sett inn fyrstu færsluna. Margt hefur gerst á þessum tíma og sumt af því hefur verið skráð samviskusamlega. Það er auðvitað aldrei hægt (eða mjög erfitt amk) að skrá allt nákvæmlega niður dag eftir dag en það á samt að vera hægt að setjast niður með reglubundnu millibili og skrásetja það helsta. Sennilega er þetta fiskurinn/fiskarnir í eðli mínu. En nóg um það. Ég ætla bara að taka eitt skref í einu og sjá til hvort ég finn mig í skrifunum aftur.

Nítjándi desember 2008 er dagurinn þar sem heimurinn minn stöðvaðist um stund. Mamma hringdi í mig um morguninn til að segja mér að ömmubróðir minn væri dáinn. Ég þakkaði henni fyrir að láta mig og spjallaði smá við hana en var svo utan við mig að það leið klukkutími eftir samtalið uns ég hringdi aftur í hana til að votta henni samúð mína. Um kvöldið var ég nýkomin í heimsókn til gamallrar konu þegar pabbi hringdi í mig að segja mér að bróðir hans hefði verið að deyja. Ég mundi eftir því að votta honum samúð mína. Sagði gestgjafanum fréttirnar en hún er tengdamamma bróðursonar hans pabba. Stoppaði hjá henni til ellefu og við spjölluðum um fólkið okkar, lífið og dauðann og allt þar á milli. Þegar ég kom heim fleygði ég mér í fangið á manninum mínum en hann hafði fengið fréttirnar af andlátinu á undan mér. Föðurbróðir minn var orðinn 88 ára og líkami hans orðinn mjög hrörlegur og hann var búinn að reyna margt á sinni löngu ævi, m.a. missa 3 af börnum sínum, svo hann var örugglega hvíldinni feginn. En mikið skelfing skilur hann eftir sig mikið tómarúm...

En lífið heldur áfram með öllum sínum kostum og kynjum. Ein vinkona mín eignaðist sitt annað barn á tólfta tímanum á gamlárskvöld (sennilega síðasta barnið sem fætt er á nýliðnu ári, 2008). Við kíktum á fjölskylduna á sunnudaginn fyrir rúmri viku, strax eftir að ég var búin að syngja með kórnum mínum í fyrstu messu ársins 2009 hjá óháða söfnuðinum. Ég fékk að "máta" prinsinn en honum fannst ekkert varið í að vera hjá mér fyrst hann fékk ekkert að drekka. Feðgarnir fengu að spila íþróttaleiki á leikjatölvu við feðginin og þeir skemmtu sér konunglega. Við mömmurnar fylgdumst með og röbbuðum saman.

Ég er líka búin að mæta í fyrsta saumaklúbbinn á árinu hjá tvíburahálfsystur minni sem og fyrstu keiluæfingu ársins. Þannig að það er alltaf nóg að gerast í kringum mig.

Síðastliðinn fimmtudag lagðist mamma inn á sjúkrahúsið í Fossvogi og fékk settan í sig nýjan hnjálið í vinstri fótinn. Allt gekk vel og fljótlega eftir að ég kíkti til hennar á föstudagskvöldið sá ég hana fara framúr og rölta um með aðstoð göngugrindur. Hún var svo send á Selfoss á laugardaginn var og þar á að kenna henni að nota hækjur á meðan fóturinn og hnéð er að jafna sig.

En nú er kominn tími til að sækja strákana. Farið alltaf vel með ykkur!

16.1.09

- Gleðilegt ár -
Það er mánuður síðan ég skrifaði hérna inn síðast og margt hefur gerst á þessum tíma. T.d. logga ég mig frekar stund inn á fésbókina heldur en að setjast niður og ausa úr mér. Gallinn við þetta fyrirkomulag er sá að þá er ég ekki að halda utan um hið daglega líf mitt. N.k. mánudag verða liðin sex ár síðan ég stofnaði þessa bloggsíðu og mér finnst bæði gott og gaman að glugga í eldri færslur svo ég þarf að fara að taka mig saman í andlitinu og skrifa reglulega. Sjáum hvað gerist næstu daga.